Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:17:59 (2224)

2003-11-27 14:17:59# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég segja að í sjálfu sér er eðlilegt að ekki gangi allt algerlega smurt í þessu nýja umhverfi sem við erum að fikra okkur áfram í. Það eru ekki nema tíu ár síðan við urðum aðilar að frjálsum innri markaði Evrópu með því að gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Á þessum stutta tíma hefur lagaumhverfi fjármálamarkaðarins verið gerbreytt og við höfum þurft að tileinka okkur nýjan hugsunarhátt. Það að fyrirtæki séu skráð á markaði er nýjung sem hefur skapað gríðarleg tækifæri í samfélagi okkar. Það hefur orðið til að auka hagvöxt og skapa ný störf sem skipta þúsundum. Allar þessar breytingar gera það að verkum að hlutverk stjórnvalda er allt annað en það var áður. Það er fyrst og fremst að skapa leikreglur fyrir fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki til að vinna eftir. Það eru síðan eftirlitsstofnanir sem eiga að sjá til þess að farið sé að lögum og reglum.

Ég held því fram að við eigum sterkar eftirlitsstofnanir og hef lagt áherslu á sjálfstæði þeirra. Starf þeirra fer hins vegar að verulegu leyti fram í kyrrþey lögum samkvæmt. Það er hins vegar deginum ljósara að margt er varðar starfsemi á markaði verður aldrei sett í lög. Í þeim efnum reynir á siðferði og aðhald neytenda. Ég hef haldið því fram að það mikilvægasta sem þurfi að vera til staðar í fjármálafyrirtæki sé traust og trúverðugleiki. En það byggist líka á því að neytendur hafi val, þ.e. að samkeppni ríki á markaðnum. Ísland er lítill markaður og landið er landfræðilega einangrað. Þrátt fyrir að við sem hluti af innri markaði Evrópu verðum að hafa starfsumhverfi fyrirtækja sambærilegt við það sem almennt gerist þá erum við í mörgum tilfellum einungis að athafna okkur á íslenskum markaði sem vegna fámennis hefur tilhneigingu til að bera einkenni fákeppni.