Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:57:55 (2249)

2003-11-27 15:57:55# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Fyrir liggur stjórnarfrv. um að framlengja einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands um 15 ár, eða til ársins 2019. Fulltrúar Samfylkingarinnar í allshn. setja fyrirvara um tímalengd þessa einkaleyfis, enda teljum við ekki rökrétt að framlengja umrætt einkaleyfi til svo langs tíma á sama tíma og nefndin er bæði að hvetja til að leyst verði úr þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við einkaleyfi happdrættisins og til að hraða endurskoðun á happdrættislöggjöfinni í heild sinni.

Happdrætti Háskóla Íslands hefur staðið undir nánast öllum byggingarkostnaði og tækjakaupum Háskóla Íslands í mörg ár. Núna fara á fjórða hundrað millj. kr. árlega til nýbygginga, viðhalds fasteigna og tækjakaupa Háskóla Íslands. Happdrættið hefur því verið háskólanum algjörlega nauðsynlegt.

Núverandi ríkisstjórn hefur lengi verið hálfdrættingur annarra ríkisstjórna þegar kemur að opinberum framlögum til háskólastigsins. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD frá árinu 2003 kemur fram að opinber fjárframlög til menntamála á Íslandi voru einungis um 0,8% af landsframleiðslu í háskólastigið, á meðan hin Norðurlöndin voru á bilinu 1,2% til 1,7% af landsframleiðslu, eða með allt að helmingi hærri framlög. Frá árinu 1997 hefur stúdentum við Háskóla Íslands fjölgað um 60%, en á sama tíma hefur húsnæði háskólans einungis aukist um 4%.

Á meðan Íslendingar búa við ríkisstjórn sem forgangsraðar fremur í þágu sauðkindarinnar en stúdenta, mun Háskóli Íslands þurfa að reiða sig á happdrættisrekstur, því miður.

Það er hins vegar rangt að veita einu flokkahappdrætti einkaleyfi á peningavinningum til lengri tíma, þegar hin tvö flokkahappdrættin, Happdrætti DAS og Happdrætti SÍBS, hafa ekki leyfi til að greiða út sína vinninga í peningum.

Það er rétt að hafa í huga að þessi tvö síðarnefndu happdrætti sinna einnig mjög brýnum málefnum. Það getur varla verið réttlætanlegt að til lengri tíma þurfi þessi þrjú happdrætti að búa við slíka mismunun að aðeins eitt þeirra, þ.e. Happdrætti Háskóla Íslands, megi borga út vinninga í formi peninga en hin tvö þurfa að reiða sig á vöruvinninga.

Þetta kemur einnig furðulega fyrir sjónir þegar haft er í huga að fjölmörg önnur happdrætti hafa nú þegar leyfi til að greiða sína vinninga út í peningum, svo sem Lottóið, getraunirnar, Viltu vinna milljón og söfnunarkassarnir.

Það er líka spurning hvort einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands sé endilega Háskóla Íslands í hag í ljósi þeirrar staðreyndar að nú þarf happdrættið að greiða 20% af hagnaði sínum í svokallað einkaleyfisgjald. Á síðasta ári var þetta gjald 110 millj. kr. og árið 2001 var það 114 milljónir.

Ég leyfi mér því að efast um að þetta einkaleyfi sé svo mikils virði og mundi háskólanum sannarlega ekki veita af nokkrum tugum milljóna aukalega á ári til sinna bygginga.

Það er ágætt að hafa í huga að stúdentaráð Háskóla Íslands hefur mælt fyrir að bæði einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands verði fellt niður ásamt einkaleyfisgjaldinu.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að fjölmörg happdrætti hafa nú þegar leyfi til að greiða út vinninga sína í peningum, þótt Happdrætti DAS og Happdrætti SÍBS megi það ekki, verður þetta einkaleyfisgjald Happdrætti Háskóla Íslands að teljast óeðlileg skattheimta af Háskóla Íslands. Það þarf því að huga að forsendum einkaleyfisgjaldsins eins og kemur fram í nefndarálitinu.

Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um að einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands sé hugsanlega í bága við bæði samkeppnislög og Evrópurétt. Í áliti samkeppnisráðs, nr. 4/2000, er komist að þeirri niðurstöðu að einkaleyfi fari gegn markmiðum samkeppnislaga og hefur því ráðið beint þeim tilmælum til dómsmrh. að einkaleyfi Happdrætti Háskóla Íslands til að reka peningahappdrætti verði numið úr gildi. Og að hinum flokkahappdrættunum verði veitt leyfi til að greiða út vinninga í peningum.

Í umsögn lögmannsþjónustunnar Logos koma einnig fram efasemdir um lögmæti einkaleyfisins gagnvart EES-samningnum. Á meðan slíkur vafi er á lögmæti einkaleyfisins tel ég einnig rangt að binda einkaleyfið til svo margra ára. Það er ekki sanngjarnt gagnvart Happdrætti Háskóla Íslands að samþykkja svo langan tíma fyrir einkaleyfi happdrættisins, vitandi það að hugsanlega erum við þá að samþykkja fyrirkomulag sem Happdrætti Háskóla Íslands getur ekki treyst allan þann tíma sem þeir fá leyfi, ef þessi lagabreyting verður samþykkt.

Ég tel því ýmis rök vera fyrir því að umrætt einkaleyfi og þá um leið einkaleyfisgjaldið sé bæði tímaskekkja og óþarfi. Við eigum að fikra okkur áfram í almennum leikreglum en ekki reiða okkur á einkaleyfi og einkaleyfisgjöld.