Heilsuverndarstöð Reykjavíkur

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:28:06 (2507)

2003-12-03 19:28:06# 130. lþ. 41.15 fundur 240. mál: #A Heilsuverndarstöð Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég varpa fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um hvernig miði viðræðum milli ráðherra og borgaryfirvalda í Reykjavík um kaup ríkisins á eignarhlut borgarinnar í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Fyrir tæpum tveimur árum spurði ég hæstv. heilbrrh. um hugmyndir hans um framtíðarnýtingu húsnæðis Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Í svari hæstv. heilbrrh. þá kom fram að Reykjavíkurborg ætti 60% hússins en ríkið 40% á móti borginni. Jafnframt kom fram að Reykjavíkurborg hefði ítrekað óskað eftir að selja hlut sinn og að viðræður hefðu átt sér stað um eignarhluta milli heilbrrh. og borgarstjóra.

Hæstv. heilbrrh. lýsti vilja sínum til að ríkið eignaðist hlut borgarinnar í húsi Heilsuverndarstöðvarinnar og að það nýttist áfram í þágu heilbrigðisþjónustu. En til að svo mætti verða taldi hann nauðsynlegt að ná samkomulagi við borgina svo að þessi áform gengju eftir. Ráðherrann hafði sterkan hug á að koma þessum hlutum á hreint milli ríkis og borgar. Þess ber að geta að í umræðum í fjölmiðlum í framhaldi af fyrirspurn minni í janúar 2002 lýsti þáv. borgarstjóri vilja til að selja ríkinu húsnæðið og lýsti sig jafnframt tilbúna til viðræðna um slíkt.

Starfsemin sem nú fer fram í húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur er nær alfarið á vegum ríkisins. Skrifstofur Heilsugæslunnar í Reykjavík eru staðsettar í húsinu, einnig mæðraverndar, auk þess sem margvísleg lýðheilsuverkefni hafa átt þar samastað en mörg þeirra hafa nú verið sameinuð undir merkjum Lýðheilsustöðvar sem tók til starfa fyrr á þessu ári. Nú er svo komið að þrengt er að allri starfsemi í húsinu. Þess ber þó að geta að 4. hæð hússins, sem er yfir 500 fermetrar, hefur verið nýtt sem lesstofa fyrir læknanema á undanförnum árum og þarfnast hún verulegra endurbóta.

Það hefur verið áhugamál margra að húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar yrði sýnd tilhlýðileg virðing enda hefur þar farið fram mjög mikilsverð starfsemi í gegnum tíðina. Húsið sjálft er eitt undur íslenskrar byggingarlistar sem nauðsynlegt er að varðveita. Arkitekt hússins er Einar Sveinsson en hugmyndina að byggingu stöðvarinnar átti Vilmundur Jónsson landlæknir. Þá tillögu lagði hann fram árið 1934 en það var ekki fyrr en 1957, eða 23 árum seinna, að hugmynd hans varð að veruleika. Borgarspítalinn tók þar sín fyrstu skref, fyrsta slysadeild landsins var þarna og margvísleg heilbrigðisstarfsemi hefur farið fram í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar. Heilsuverndarstöðin sem stofnun hefur ekki verið til frá því að ákvæðið um hana var endanlega fellt úr lögum 1. maí 1997. Þá hafði starfsemi stöðvarinnar verið færð í áföngum til heilsugæslunnar.

Með fyrirspurn minni vil ég enn knýja á um að leyst verði úr þeirri klemmu sem húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar er í og fá upplýsingar um stöðu mála.