Heilbrigðisþjónusta við útlendinga

Miðvikudaginn 03. desember 2003, kl. 19:38:07 (2512)

2003-12-03 19:38:07# 130. lþ. 41.16 fundur 241. mál: #A heilbrigðisþjónusta við útlendinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 130. lþ.

[19:38]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hafa birst frásagnir í dagblöðum hér á landi um að útlendingar hafi komið til Íslands gagngert til meðferðar á íslenskum heilbrigðisstofnunum, jafnt opinberum stofnunum sem hjá sjálfstætt starfandi aðilum.

Ég minni t.d. á frétt í Morgunblaðinu fyrir réttu ári þar sem sagt var frá því að níu Norðmenn hefðu þegar gengist undir bæklunaraðgerðir á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og nokkrir til viðbótar væru væntanlegir. Bæði Grænlendingar og Færeyingar hafa ýmist þegar gert eða sýnt áhuga á að gera samninga við íslensk yfirvöld um kaup á heilbrigðisþjónustu. Einkafyrirtæki í augnlækningum hefur verið að flytja inn sjúklinga til meðferðar og einmitt í dag er breskur íþróttamaður að gangast undir aðgerð í Orkuhúsinu en þar fara m.a. fram bæklunarlækningar á vegum sjálfstætt starfandi aðila. Mér skilst að þetta sé í fyrsta sinn sem útlendingur fær þar þjónustu.

Á síðustu missirum hafa stjórnvöld víða í Evrópu opnað fyrir kaup á heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum sem ég tel að við Íslendingar eigum að veita athygli. Þessa viðhorfsbreytingu má m.a. rekja til niðurstöðu Evrópudómstólsins frá 12. júní 2001 sem varðar viðurkenningu á rétti sjúklinga í Evrópusambandinu til að leita sér heilbrigðisþjónustu í öðru landi ef sambærileg þjónusta býðst ekki tímanlega í heimalandi viðkomandi. Um þennan dóm og gildi hans fyrir Íslendinga sem eru á biðlista eftir heilbrigðisþjónustu höfum við hæstv. heilbrrh. rætt áður í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi.

Evrópudómstóllinn viðurkenndi rétt sjúklinga sem eru á biðlista eftir aðgerð í heimalandi sínu til að fá meðferð í öðru landi Evrópusambandsins og skyldi hún greidd af sjúkratryggingu viðkomandi í heimalandi hans. Að því tilskildu að meðferðin sé vísindalega viðurkennd og falli undir sjúkratryggingu sjúklings er heilbrigðisyfirvöldum óheimilt að synja viðkomandi um greiðslu vegna læknismeðferðar í öðru landi Evrópu nema í þeim tilvikum sem heilbrigðiskerfi landsins getur boðið sömu eða sambærilega þjónustu án óhóflegrar biðar. Þó er stjórnvöldum heimilt að gera ráðstafanir til að verja eigið heilbrigðiskerfi og tryggja fjárhagslegan stöðugleika sjúkratrygginga.

Þessi dómur hefur opnað ýmis tækifæri hér á landi sem með áræðni og skipulagningu er hægt að grípa og getur leitt til góðs hér á landi. Dómurinn hefur haft víðtæk áhrif í Evrópu, og ekki síst í Bretlandi þar sem biðlistar í heilbrigðisþjónustunni eru langir og biðtími eftir þjónustu eftir því. Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa nú samið við fjölda sjúkrahúsa á meginlandinu um aðgerðir á breskum sjúklingum á kostnað breskra sjúkratrygginga. Af svipuðum meiði er sú ákvörðun norskra stjórnvalda að verja stórum upphæðum til kaupa á heilbrigðisþjónustu fyrir borgara sína utan Noregs.

Af þessu tilefni varpa ég þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. hvort hann muni beita sér fyrir því að kannaðir verði möguleikar á að selja útlendingum heilbrigðisþjónustu, m.a. með tilliti til niðurstöðu Evrópudómstólsins um rétt einstaklinga sem eru á biðlista eftir að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í löndum ESB til að leita til annarra landa um þjónustu á kostnað sjúkratrygginga í heimalandi.