Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:20:22 (2888)

2003-12-06 12:20:22# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:20]

Mörður Árnason:

Forseti. Það vekur nokkra athygli hversu þögull hæstv. félmrh. er um undirbúning þessa máls og hugsanlegt framhald á því. Hann hefur í umræðunni verið spurður í þaula um það hvaða samráð hann hafi haft við þá sem tengjast þessu máli mest, fyrir utan almenning og þingmenn, annars vegar forustumenn fiskvinnslustöðvanna og hins vegar forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega þá sem eru í forsvari fyrir fiskvinnslufólk.

Ekki er hægt að skilja ráðherrann öðruvísi en að ekkert samráð hafi verið haft við atvinnurekendur og launamenn í þessu efni og ekkert samráð eigi að hafa. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er misskilningur minn. En mér heyrist, t.d. af andsvörum hans við ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að hann hyggist ekki taka neins konar frumkvæði að því að kalla til forustumenn verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda um þetta mál meðan það er til meðferðar í þinginu en sé hins vegar almennt og ótímabundið reiðubúinn til samræðna við verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur og hvern sem er um almenn framfaramál í samfélaginu, þ.e. reiðubúinn til að taka þátt í einhvers konar málfundum um landsins gagn og nauðsynjar, sem er auðvitað lofsvert út af fyrir sig. Þetta bið ég hæstv. ráðherra að leiðrétta, hafi þetta verið misskilningur minn.

Í öðru lagi, forseti, hefur hæstv. félmrh. við þessa umræðu ekki svarað endurteknum spurningum um tilgang frv. Hann hefur sjálfur haldið því fram að tilgangur frv. sé að auka skilvirkni og eftirlit í því máli sem um er að ræða.

Hann hefur einnig sagt, sem er athyglisvert orðalag, að það leiki nokkur grunur á því að fyrirtæki hafi misnotað ákvæði í þeim lögum sem hér er verið að breyta. Auðvitað er það þannig þegar þingmaður, hvað þá ráðherra, segir slíkt í ræðustól Alþingis um menn úti í samfélaginu, sem geta hér ekki borið hönd fyrir höfuð sér, að honum er skylt að ræða þetta mál frekar og skýra fyrir þingheimi og þjóðinni hvernig þessi misnotkun fer fram. Honum ber að skýra hvaða grunur leiki hér á, hvort hér er verið að brjóta lögin og af hverju lögregla eða aðrir eftirlitsmenn hafi þá ekki farið í það mál. Hér er höndlað með fé almennings, greiðslur skattborgara í ríkissjóð, og það er skylda framkvæmdarvaldsins, ráðherra sem hér situr í hliðarsal og ræðir við embættismenn sína, að fylgjast með því að þeim peningum sé vel varið. Það er skylda framkvæmdarvaldsins að sletta ekki fram einhverjum dylgjum heldur að rökstyðja mál sitt þegar hann fjallar um forustumenn fiskvinnslunnar í landinu. Það bið ég hann að gera.

Ég hef áður heyrt grunsemdir af þessu tagi. Þær hafa ekki komið úr ræðustól Alþingis heldur verið nefndar í blöðum eða einkasamræðum og eru alvarlegt mál. Ef það er það sem ráðherra meinar með þessu frv., að moka í einhverjar gryfjur í lögunum sem geta valdið þessum brotum sem hann sakar forustumenn fiskvinnslunnar í landinu um, þá er sjálfsagt að hjálpa honum til þess. En hann verður þá að skýra okkur frá því hvaða gryfjur þetta eru, hvernig menn hafa nýtt sér þær til að brjóta af sér með þessum hætti, hvort hann hefur dæmi um það og hvernig á því stendur að hann hefur ekki sent þær ábendingar til lögreglunnar sem á að höndla með lögbrot í landinu og koma hinum meintu brotamönnum í hendur dómstólum.

Það vekur hins vegar athygli að hæstv. félmrh. hefur ekki fjallað neitt um þær spurningar sem beint hefur verið til hans um tilgang þessara lagabreytinga sem sprottnar eru af fyrstu efnisgrein greinargerðarinnar við lagafrv., athugasemdum við lagafrumvarp þetta, eins og þar stendur. Vegna þess að þetta virðist ekki hæstv. ráðherra ljóst þá hlýt ég að lesa þessa grein alla, sem ég reyndi að tæpa á áðan í stuttu andsvari. Þá hefði mér nægt það svar sem félmrh. hefði getað veitt ef honum hefði þóknast að gera það. En nú gefst frekari tími til umræðu hér og ég skal lesa hana alla.

Fyrsta efnisgreinin er svona, með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004. Að venju byggist síðarnefnda frumvarpið meðal annars á ákveðnum forsendum um tekjur og gjöld sem taka mið af stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum.``

Þetta frv. er sem sagt bein afleiðing af stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum.

Svona heldur þetta áfram:

,,Í fjárlagafrumvarpi er stefnt að samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs ...``

Ég endurtek: samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs. Þetta frv. sem hæstv. félmrh. flytur er því flutt undir þeim gunnfána að draga skuli saman í útgjöldum ríkissjóðs, herra forseti. Það á að draga saman í útgjöldum ríkissjóðs og þess vegna er þetta frv. flutt.

Ég held áfram með 1. kafla greinargerðarinnar:

,,... en mikilvægt er að hann`` --- þ.e. samdráttur í útgjöldum ríkissjóðs --- ,,megi fram ganga í því skyni að viðhalda stöðugleika og treysta stöðu efnahagslífsins.`` --- Þetta eru ljóðrænar klisjur sem hafðar eru í öllum frumvörpum um þessar mundir.

Ég held áfram að vitna í 1. kafla athugasemdanna:

,,Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með frumvarpi þessu`` --- og ég vek athygli á því sem eftir kemur --- ,,eru liðir í þeirri viðleitni að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.``

Þetta segir ríkisstjórnin hæstv. um tilgang frv., að þetta sé stoðfrumvarp við fjárlagafrv. þar sem stefnt er að samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs og að þær breytingar sem lagðar eru til með frv. séu liðir --- liðir í fleirtölu --- í þeirri viðleitni að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Virðulegi forseti. Það er ágætur siður, sem ég hef komið mér upp, þegar maður byrjar að kynna sér stjórnarfrumvörp að lesa umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Þar er sem betur fer ekki aðeins um það að ræða að fjárlagaskrifstofan meti þann kostnað sem frv. hefur í för með sér heldur fer hún aðeins yfir frv. og gefur því ofurlítinn efnislegan útdrátt til að geta metið þennan kostnað. Ég nota þær umsagnir stundum, og kannski aðrir þingmenn, sem eins konar inngang, eins konar útdrátt úr frumvarpinu.

Það er fróðlegt að sjá hvað fjárlagaskrifstofa fjmrn. segir um hið meinta eftirlit og skilvirkni sem hæstv. félmrh. telur að sé megintilgangur þessa frv.

Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, forseti sæll, um það frv. sem hér hefur verið lagt fyrir er svona, með leyfi forseta:

,,Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks`` --- er fyrirsögnin. Síðan segir:

,,Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2004 en þar er gert ráð fyrir að breyting verði gerð á greiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Lagt er til að heimilt verði að greiða dagpeninga fyrir starfsmann sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar allt að 20 greiðsludaga í stað 30 og aldrei lengur en 30 greiðsludaga í stað 60 á hverju almanaksári. Enn fremur er lagt til að dagpeningar verði ekki greiddir fyrir tvo fyrstu daga hvors árshelmings.``

Ég geri hér smáhlé á tilvitnuninni. Hér kemur mjög skýrt fram hvernig á að draga saman í útgjöldum ríkissjóðs og hvernig á að fylgja fram þeirri viðleitni að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Jú, hlutur hæstv. félmrh. í þessu göfuga starfi ríkisstjórnarinnar er sá að greiða dagpeninga fyrir starfsmann sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar aðeins í 20 greiðsludaga í stað 30 --- það er sem sé mikill samdráttur í útgjöldum ríkissjóðs --- og aldrei lengur en 30 greiðsludaga í stað 60 á hverju almanaksári. En þar næst einmitt fram hið göfuga markmið ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

[12:30]

Næst kemur í umsögn smákafli um skilvirkni og eftirlit og hann er svona, með leyfi forseta:

,,Þá eru lagðar til`` --- ég vek athygli á orðalaginu ,,þá``. Þetta orðalag er sérstaklega notað í íslensku ritmáli til þess að koma að aukaatriðum, koma að efni sem er svona utan við aðalefni og meginkjarna þess máls sem um er rætt. --- ,,Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem skýra þær reglur er gilda um tilkynningu og umsókn fyrirtækja er rétt eiga á greiðslum samkvæmt lögunum og breytingar sem leiða til aukins eftirlits.``

Það er sem sé í þriðja eða fjórða lagi svona meðfram því að fylgja fram markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í ríkisútgjöldum sem hæstv. félmrh. hefur tekist að skjóta inn nokkrum breytingum sem skýra þær reglur er gilda um tilkynningu og umsókn fyrirtækja er rétt eiga á greiðslum samkvæmt lögunum og um breytingar sem leiða til aukins eftirlits.

Síðan kemur hin gullvæga lokasetning um samdrátt í ríkisútgjöldum með því að fækka greiðsludögum fyrir starfsmann sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar úr 30 í 20 og um sparnaðinn sem felst í því að aldrei skuli borgaðir meira en 30 greiðsludagar í stað 60 sem áður voru. Og það er svona frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, virðulegi forseti:

,,Gert er ráð fyrir að frumvarpið ásamt auknu eftirliti leiði til lækkunar útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 65--70 millj. kr. á ári.``

Það er hið mikla herfang sem hæstv. félmrh. getur komið með, hreykinn og glaður, í Stjórnarráðið eftir að hafa farið með þetta frv. og fengið þann tilskilda meiri hluta sem hér stendur ráðherrum alltaf til reiðu á þinginu, sama hvað þeir bera fram, hversu nánasarlegir og smáskitlegir þeir eru í að fylgja markmiðum sínum um samdrátt ríkisútgjalda þegar kemur að öryrkjum og atvinnulausum og fiskvinnslufólki. Það eru 65--70 millj. kr. sem á sem sé að fá með því að fækka dögunum úr 60 í 30, virðulegi forseti, greiðsludögum þess starfsmanns sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar og að hafa þá aldrei --- ja, það er best að ég lesi þetta aftur, af því að ég er nú farinn að ruglast í þessu, úr umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að heimilt verði að greiða dagpeninga fyrir starfsmann sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar allt að 20 greiðsludaga í stað 30 og aldrei lengur en 30 greiðsludaga í stað 60 á hverju almanaksári.``