Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:55:59 (2912)

2003-12-06 13:55:59# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Já, virðulegur forseti. Mér fer nú við þetta andsvar hv. þm. Péturs Blöndals líkt og þegar hann veitti mér andsvar í fjárlagaumræðunni að mér sýnist ekki vera miklar forsendur til þess að fjalla um svo yfirgrips- og efnismikilar breytingar á þeim hugmyndum og tillögum sem hér liggja fyrir með þeim hætti sem þingmaðurinn hv. hyggst fyrir í stuttum tveggja mínútna andsvörum. En ég treysti því að hv. þm. Pétur Blöndal komi hugmyndum sínum á framfæri í heilbr.- og trn. þingsins og þar gefist góður tími eins og vert er við lagasetningu hverju sinni til þess að láta fara fram þær rannsóknir og athuganir og kannanir sem efni eru til varðandi þessar hugmyndir og menn geti þá metið kosti og galla þeirra og borið saman við þetta fyrirkomulag. Grundvallarhugmyndin á bak við þetta fyrirkomulag, sem við þekkjum raunar frá sumum nágrannalanda okkar, er einfaldlega sú að þeim sem ungir verða öryrkjar hefur ekki unnist tími til þess að ávinna sér lífeyrisréttindi. Því er er rétt að mæta þeim sérstaklega og síðan trappist það niður, ef svo má segja, ár frá ári eftir því sem líður fram á ævina. En auðvitað er málið að ýmsu leyti flóknara en það. Sumir eru lengur í námi en til 18 ára aldurs. Sumir hafa ekki lífeyrisréttindi og þar fram eftir götunum.

En, eins og ég segi, virðulegur forseti, það er ekki af óvirðingu við þingmanninn, heldur einfaldlega vegna þess að ég tel að hér séu ekki forsendur til efnislegrar umfjöllunar um þessar viðamiklu breytingartillögur sem hann er hér að boða.