Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:39:51 (2923)

2003-12-06 14:39:51# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Þegar litið er til tekna öryrkja og annarra þeirra sem fá laun og bætur úr almannatryggingum er mjög vafasamt að nota prósentuhækkanir sem rökstuðning. Ef við erum að tala um lágar bætur þarf ekki mikið í krónum talið til að geta veifað hér háum prósentum.

Ég er ekki að gera lítið úr samkomulaginu sem gert var og hugmyndafræðinni á bak við það en ég vil leyfa mér að vitna, með leyfi forseta, í orð hæstv. heilbrrh. Jóns Kristjánssonar í grein í Morgunblaðinu:

,,Jón Kristjánsson segir í samtali við Morgunblaðið að áætlað hafi verið að verja í þetta einum milljarði króna, og gert ráð fyrir því í fjárlögum. Þegar nefnd sem starfaði að málinu mat kostnaðinn hafi komið í ljós að það vantaði 500 milljónir upp á. ,,Það þýðir það að 1. janúar 2004 getum við ekki farið í nema tvo þriðju. Síðan er meiningin, og ég vona að það takist um það samkomulag, að 2005 komi afgangurinn til framkvæmda ... Það var í samræmi við þá kostnaðaráætlun sem lá fyrir þegar það var gert.``

Um þennan hálfa milljarð tökumst við hér á og ég tel að þrátt fyrir að þessi grunnhækkun liggi hér fyrir, þá hafi hin upphaflega áætlun verið nokkuð sem við hefðum öll getað staðið að. Við hefðum fyrir löngu síðan átt að bæta kjör yngstu örorkuþeganna. Þar er þörfin mest þó að hún sé mikil hjá öllum öðrum öryrkjum.