Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:10:18 (2949)

2003-12-06 16:10:18# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Þuríður Backman (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður gátu hv. þm. ekki legið á gægjum, þá vissum við betur. En við hlustuðum á orð hæstv. ráðherra þegar hann lýsti þessu yfir á hinu háa Alþingi og það er verið að brjóta það samkomulag sem gert var. Þetta var kosningaloforð Framsfl. að standa við samkomulagið og það var gengið út frá því af hendi Öryrkjabandalagsins að þetta yrði línuleg skerðing, það yrði 2,04% á ári sem svarar 421 kr. hvert aldursár. Mér finnst varhugavert af hv. þm. Framsfl. að grobba hér af prósentutölu hvað varðar bætur til öryrkja. Við skulum horfa á upphæðirnar. Það er hægt að blekkja með prósentum.