Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:41:41 (2961)

2003-12-06 16:41:41# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í þessari umræðu eins og stundum þegar menn lenda í miklum vandræðum eða sjálfheldu að það rekst hvað á annars horn, líkt og nú í málflutningi hæstv. heilbrrh. Hann segir okkur í dag að hann hafi gert samning um 1.000 millj. kr. Í síðustu viku kom hann hingað og sagði okkur að hann hefði gert samning og samningurinn mundi kosta 1.500 millj. kr. Núna segir hæstv. ráðherra að það sé rétt að bara ein útfærsla hafi verið á borðinu og bara ein útfærsla hafi verið kostnaðarreiknuð og hún hafi verið kostnaðarreiknuð fyrir kosningar en undanfarna daga hefur stjórnarliðið verið að segja okkur að þetta hafi bara verið ein af mörgum mögulegum útfærslum.

Nú kemur ráðherrann loksins og viðurkennir að þær voru ekkert margar. Það var aðeins ein útfærsla og hún kostar 1.500 millj. kr. og þann samning, þá útfærslu og það ígildi kjarasamnings, eiga menn að hafa döngun í sér til að efna en segja ekki eitt eina vikuna og annað aðra vikuna.