Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 884. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1342  —  884. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðild að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa, gerð um endurskoðun samningsins og samningi um beitingu 65. gr. samningsins.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningnum) sem gerður var í München 5. október 1973, gerð um endurskoðun samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningsins) sem gerð var í München 29. nóvember 2000 og samningi um beitingu 65. gr. samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa sem gerður var í Lundúnum 17. október 2000.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningnum) sem gerður var í München 5. október 1973, gerð um endurskoðun samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningsins) sem gerð var í München 29. nóvember 2000 (hér eftir nefnd „endurskoðunargerðin“) og samningi um beitingu 65. gr. samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa sem gerður var í Lundúnum 17. október 2000 (hér eftir nefndur „Lundúnasamningurinn“).
    Evrópski einkaleyfasamningurinn er prentaður sem fylgiskjal I með tillögu þessari, endurskoðunargerðin sem fylgiskjal II og Lundúnasamningurinn sem fylgiskjal III.

I. Þróun.
    Með aukinni útbreiðslu hugverka og þekkingar hefur vernd hugverkaréttinda öðlast sífellt alþjóðlegri svip. Fyrsti alþjóðasamningurinn á þessu sviði, samningur um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, var gerður í París 20. mars 1883 (hér eftir nefndur „Parísarsamningurinn“). Upphaflega voru aðildarríki Parísarsamningsins, svokölluð sambandslönd, 11 talsins. Með Parísarsamningnum er ríkisborgurum sambandslands tryggður möguleiki á að afla sér hugverkaréttarverndar í hinum sambandslöndunum. Hinn 15. janúar 2004 voru sambandslöndin 166 talsins, þar á meðal Ísland. Frá gerð Parísarsamningsins hefur orðið gífurleg breyting á hinu lagalega umhverfi á þessu sviði til samræmis við tækniframfarir og almenna þróun. Efnahagslegt mikilvægi hugverka í alþjóðlegum viðskiptum hefur aukist til muna og hefur réttarvernd hugverka þurft að taka mið af breyttum aðstæðum. Þróunin hefur leitt til þess að ýmsir alþjóðasamningar á sviði hugverkaréttar hafa litið dagsins ljós.
    Samkvæmt Parísarsamningnum geta sambandslöndin gert með sér sérstakt samkomulag um lögvernd eignarréttinda á sviði iðnaðar svo fremi að þau brjóti ekki í bága við ákvæði samningsins. Á síðari hluta 20. aldar voru gerðir nokkrir mikilvægir gerningar er fjalla eingöngu um einkaleyfi.
    Hinn 27. nóvember 1963 var gerður í Strassborg samningur um samræmingu nokkurra efnisreglna varðandi einkaleyfi fyrir uppfinningar á vegum Evrópuráðsins. Þótt samningurinn hafi ekki öðlast gildi fyrr en 1. ágúst 1980 hafði hann gífurleg áhrif til endurbóta á landslögum ýmissa ríkja og alþjóðlegum gerningum á þessu sviði, en m.a. var tekið mið af honum við samræmingu norrænu einkaleyfalaganna. Ísland er ekki aðili að samningnum.
    Hinn 19. júní 1970 var gerður í Washington samstarfssamningur um einkaleyfi. Hinn 17. mars 2004 voru aðildarríki samningsins 123 talsins og er Ísland þar á meðal. Samstarfssamningurinn kveður á um alþjóðlegar einkaleyfisumsóknir. Með samningnum er framkvæmd nokkurra þrepa í alþjóðlegri einkaleyfisumsókn samræmd og mælt fyrir um alþjóðlega nýnæmis- og einkaleyfisrannsókn uppfinningar, en endanleg veiting einkaleyfis er í höndum þar til bærra yfirvalda aðildarríkjanna.
    Evrópski einkaleyfasamningurinn var gerður í München 5. október 1973. Með samningnum var Evrópsku einkaleyfastofnuninni komið á fót. Undirstofnun hennar, Evrópska einkaleyfastofan, veitir „evrópskt einkaleyfi“ á grundvelli einsleitrar málsmeðferðar sem er sameiginleg fyrir samningsríkin. Þannig má með einni umsókn fá einkaleyfi í einu eða fleiri samningsríkjum. Eftir veitingu einkaleyfisins veitir það sömu réttindi og landsbundið einkaleyfi og fylgir landslögum viðkomandi ríkis að mestu leyti. Evrópski einkaleyfasamningurinn öðlaðist gildi 7. október 1977. Hinn 17. mars 2004 voru 28 ríki aðilar að samningnum.
    Hinn 15. desember 1975 var í Lúxemborg gerður Evrópusbandalagssamningur um einkaleyfi (hér eftir nefndur „Lúxemborgarsamningurinn“). Með honum var leitast við að koma á einu samræmdu einkaleyfi fyrir öll aðildarríki Evrópubandalagsins. Samningurinn hefur ekki öðlast gildi.
    Evrópubandalagið (EB) hefur unnið að regluverki um bandalagseinkaleyfi í nokkurn tíma. Drög að því eru m.a. byggð á Lúxemborgarsamningnum með áorðnum breytingum og samningnum um hugverkarétt í viðskiptum frá 15. apríl 1994. Í drögum að regluverkinu er gert ráð fyrir því að umsækjandi sem tilnefnir aðildarríki EB í umsókn um evrópskt einkaleyfi verði talinn sækja um bandalagseinkaleyfi, þ.e. einkaleyfi sem gildir í öllum aðildarríkjum EB og hefur sömu áhrif í þeim öllum. Hvorki er gert ráð fyrir breytingum að því er varðar áhrif umsóknarinnar í ríkjum sem standa utan EB né að því er varðar áhrif evrópska einkaleyfisins í viðkomandi ríki.

II. Evrópski einkaleyfasamningurinn.
    Evrópski einkaleyfasamningurinn telur 178 greinar sem skipt er í sjö hluta og ýmsa undirkafla. Í inngangi samningsins kemur fram að með honum sé stefnt að því að styrkja samvinnu meðal Evrópuríkja varðandi vernd uppfinninga. Leitast er við að ná því markmiði með því að mæla fyrir um sameiginlega málsmeðferð við veitingu einkaleyfa og staðlaðar reglur um einkaleyfin sem þannig eru veitt.
    Í I. hluta samningins er í ákvæðum 1.–51. gr. að finna almenn ákvæði og stofnanaákvæði, þar á meðal ákvæði um Evrópsku einkaleyfastofnunina, Evrópsku einkaleyfastofuna og framkvæmdaráðið og ákvæði um fjármál. Evrópska einkaleyfastofnunin, sem hefur höfuðstöðvar í München, tók til starfa árið 1977. Undir stofnunina heyra framkvæmdaráð, skipað fulltrúum og varafulltrúum samningsríkjanna, og Evrópska einkaleyfastofan sem sér um veitingu evrópskra einkaleyfa. Innan Evrópsku einkaleyfastofunnar eru starfræktar eftirfarandi deildir og nefndir til að sjá um málsmeðferð samkvæmt samningnum: móttökudeild, nýnæmisrannsóknardeildir, rannsóknardeildir, andmæladeildir, lögfræðideild, áfrýjunarnefndir og stór áfrýjunarnefnd.
    Í II. hluta samningsins er í ákvæðum 52.–74. gr. fjallað um efnisleg ákvæði einkaleyfalaga, þar á meðal einkaleyfishæfi uppfinninga, þá er mega sækja um og öðlast evrópskt einkaleyfi, rétt uppfinningamanns til að láta nafns síns getið, áhrif evrópsks einkaleyfis og umsóknar um það og umsókn um evrópskt einkaleyfi sem andlag eignarréttar.
    Evrópska einkaleyfakerfið er þróað út frá einni skilgreiningu á því hvaða uppfinningar teljast einkaleyfishæfar. Þannig er tryggt að skilgreiningar samningsríkja á einkaleyfishæfum uppfinningum séu einsleitar. Skilyrði samningsins fyrir einkaleyfishæfi uppfinningar eru talin upp í ákvæðum 52.–57. gr.
    Hver sem er, án tillits til ríkisfangs eða búsetu, getur sótt um evrópskt einkaleyfi svo að gilt sé, hvort sem um er að ræða einstakling, lögaðila eða samtök með réttarstöðu lögaðila, sbr. 58. gr. Að meginreglu til hefur uppfinningamaðurinn, eða sá sem öðlast hefur rétt hans, rétt til einkaleyfisins, sbr. 60. gr. Sé uppfinningamaðurinn launþegi ákvarðast rétturinn til evrópsks einkaleyfis af lögum þess ríkis þar sem launþeginn starfar aðallega. Hafi tveir eða fleiri komið að sömu uppfinningu þá á sá réttinn til einkaleyfisins sem fyrst sækir um hann.
    Í 2. mgr. 2. gr. samningsins er tekið fram að í hverju samningsríki þar sem evrópskt einkaleyfi gildir skuli það hafa sömu áhrif og um það skuli gilda sömu skilyrði og einkaleyfi sem veitt er í viðkomandi ríki nema kveðið sé á um annað í samningnum. Þessi meginregla er áréttuð í 1. mgr. 64. gr. þar sem fram kemur að evrópskt einkaleyfi veiti einkaleyfishafa frá þeim degi sem tilkynning birtist um veitingu þess, í hverju samningsríki sem það er veitt fyrir, sömu réttindi og felast í landsbundnu einkaleyfi í því ríki, með þeirri undantekningu 2. mgr. 64. gr. að sé einkaleyfið veitt fyrir aðferð nær einkaleyfisverndin einnig til þeirra afurða sem fengnar eru beint með slíkri aðferð. Jafnframt kemur fram í 66. gr. að umsókn um evrópskt einkaleyfi jafngildir landsbundinni umsókn. Evrópski einkaleyfasamingurinn kveður þannig ekki á um áhrif evrópsks einkaleyfis nema að takmörkuðu leyti enda er í raun ekki um að ræða „evrópskt einkaleyfi“ í eiginlegri merkingu heldur „landsbundin einkaleyfi af evrópskum uppruna“. Samningurinn hefur að geyma nokkrar reglur um áhrif evrópsks einkaleyfis og gildir það t.d. í 20 ár jafnvel þótt landsbundin einkaleyfi gildi til skemmri tíma í viðkomandi ríki, sbr. 1. mgr. 63. gr.
    Í 65. gr. er kveðið á um þýðingu á texta evrópsks einkaleyfis. Samningsríki má setja það að skilyrði að einkaleyfastofa viðkomandi ríkis fái senda þýðingu á endanlegum texta sem einkaleyfið er veitt fyrir yfir á opinbert tungumál ríkisins. Samningsríki getur mælt svo fyrir að sé skilyrði þetta ekki uppfyllt innan viss tímafrests sé evrópska einkaleyfið talið ógilt frá upphafi í því ríki. Útvegun þýðingar hefur afturvirk áhrif frá birtingardegi umsóknarinnar, en meginreglan er sú að í tilnefndum ríkjum er unnt að beita þeim réttindum sem myndast við evrópskt einkaleyfi frá birtingardegi umsóknarinnar, sbr. 67. gr.
    Reglur um hvaða lögum beri að beita þegar upp koma deilur í tengslum við evrópskt einkaleyfi eru mismunandi eftir því hvert efni deilumálsins er. Þegar deilt er um gildi einkaleyfisins þarf sá dómstóll er tekur málið fyrir að athuga hvort reglur evrópska einkaleyfasamningsins um einkaleyfishæfi séu uppfylltar. Ógildingarástæður evrópsks einkaleyfis eru tæmandi taldar í samningnum, sbr. 138. gr. Sé aftur á móti um að ræða deilur um hugsanlegt brot gegn einkaleyfi er ákvörðun um hvaða lögum beri að beita öllu flóknari. Að meginreglu til eru reglur er varða brot gegn einkaleyfi háðar lögum hvers ríkis, sbr. 3. mgr. 64. gr. Einu einsleitu regluna í þessum tilvikum er að finna í 69. gr. samningsins um umfang verndar sem skv. 1. mgr. 69. gr. ákvarðast af orðalagi einkaleyfiskrafanna. Viðkomandi dómstól ber að ákvarða umfang verndar einkaleyfisins út frá 69. gr. samningsins, ákveða í framhaldi þess á grunni landslaga þess ríkis þar sem viðkomandi atvik eiga sér stað hvort um brot gegn einkaleyfinu hafi verið að ræða og að lokum kveða á um viðurlög í samræmi við lög þess ríkis þar sem málið er tekið fyrir dóm. Öll dómsmál vegna evrópsks einkaleyfis falla undir lögsögu dómstóla ríkja.
    Evrópski einkaleyfasamningurinn kemur á einsleitu umsóknarferli fyrir landsbundin einkaleyfi í samningsríkjunum. Með einni umsókn er unnt að öðlast einkaleyfi sem tekur til þeirra samningsríkja sem tilnefnd eru í umsókninni. Evrópska fyrirkomulagið lætur sig varða öll helstu álitamál er tengjast umsóknum um einkaleyfi. Í III. hluta samningsins er í ákvæðum 75.–89. gr. fjallað um umsókn um evrópskt einkaleyfi, þar á meðal um innlagningu umsóknar um evrópskt einkaleyfi, kröfur sem til hennar eru gerðar og forgangsrétt.
    Ákvæði 75. gr. heimilar innlagningu umsóknar bæði hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í München, útibúi hennar í Haag og hjá aðalréttindastofu ríkis á sviði iðnaðarhugverka (hér eftir nefnd „einkaleyfastofa“) eða hjá annarri valdbærri stofnun ríkisins. Þegar umsókn er lögð inn hjá einkaleyfastofu tiltekins ríkis eða annarri valdbærri stofnun er um óbeina innlögn að ræða og er umsóknin framsend til Evrópsku einkaleyfastofunnar, sbr. 77. gr.
    Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 78. gr. þarf eftirfarandi að koma fram í umsókn: beiðni um veitingu evrópsks einkaleyfis, lýsing á uppfinningunni, einkaleyfiskrafa eða -kröfur, teikningar sem vísað er til í lýsingunni eða einkaleyfiskröfunum og ágrip. Lýsingin verður að vera nægilega skýr og rækileg til þess að kunnáttumaður á viðkomandi sviði geti útfært uppfinninguna, sbr. 83. gr. Viðurlögin við því að þetta skilyrði er ekki uppfyllt geta verið höfnun, sbr. 97. gr., eða ógilding, sbr. 138. gr. Í kröfunum ber að skilgreina hvað óskast verndað með einkaleyfinu. Þær skulu vera skýrar, hnitmiðaðar og styðjast við lýsinguna, sbr. 84. gr.
    Í IV. hluta er í ákvæðum 90.–98. gr. fjallað um málsmeðferð fram að veitingu einkaleyfis. Meðferðin við veitingu evrópsks einkaleyfis samanstendur af mörgum þrepum sem hinar mismunandi deildir og nefndir Evrópsku einkaleyfastofunnar sjá um.
    Sé um óbeina innlögn að ræða hefst ferlið með framsendingu umsóknarinnar til Evrópsku einkaleyfastofunnar, sbr. 77. gr. Einkaleyfastofu viðkomandi ríkis ber að framsenda umsóknina svo skjótt sem samrýmist landslögum um leynd uppfinninga vegna hagsmuna ríkisins.
    Móttökudeild athugar umsókn við innlagningu, hvort skilyrði til móttöku umsóknarinnar séu uppfyllt, sbr. a-lið 1. mgr. 90. gr., og hvort umsóknin uppfylli skilyrði samningsins, sbr. 97. gr. Einnig athugar móttökudeildin hvort birting uppfinningarinnar eða hagnýting hennar stríði gegn allsherjarreglu eða siðgæði, sbr. a-lið 53. gr. Að því loknu er umsóknin send nýnæmisrannsóknardeild.
    Nýnæmisrannsóknardeildin gefur út nýnæmisrannsóknarskýrslu, sbr. 17. gr. Þar kemur fram hver er þekkt tækni á hverjum tíma en ákvörðun um hvort uppfinning telst ný er byggð á þeim upplýsingum, svo og frumleikastig uppfinningarinnar.
    Birta skal umsókn um evrópskt einkaleyfi eins fljótt og unnt er eftir að 18 mánuðir eru liðnir frá umsóknardegi, eða, sé forgangs krafist, frá forgangsdegi, sbr. 93. gr.
    Umsækjandi getur valið um að leggja inn beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinningar á þeim sex mánuðum sem fylgja útgáfu nýnæmisrannsóknarskýrslu, sbr. 94. gr. Rannsóknardeildin rannsakar einkaleyfishæfi uppfinningarinnar. Sé slík beiðni ekki lögð inn telst umsóknin dregin til baka. Við rannsókn á einkaleyfishæfi uppfinningar eru þær upplýsingar sem fram koma í nýnæmisrannsóknarskýrslunni metnar. Rannsóknardeildin getur hafnað umsókninni, sbr. 1. mgr. 97. gr., telji hún skilyrði samningsins ekki uppfyllt. Telji rannsóknardeildin að umsókn og uppfinningin uppfylli skilyrði samningsins veitir hún evrópskt einkaleyfi fyrir þau ríki sem tilnefnd eru í umsókninni, sbr. 2. mgr. 97. gr.
    Veiting evrópsks einkaleyfis kallar ekki nauðsynlega á lok veitingarferlisins því þriðji maður getur andmælt veitingu evrópsks einkaleyfis við Evrópsku einkaleyfastofuna, sbr. 99. gr. Kveðið er á um meðferð andmælamála í V. hluta samningsins, sbr. 99.–105. gr. Ástæður til andmæla eru tæmandi taldar í samningnum, sbr. 100. gr. Telji andmæladeildin að andmælin séu nægilega rökstudd getur hún fellt einkaleyfið úr gildi, sbr. 1. mgr. 102. gr. Ógilding einkaleyfis við andmælameðferð leiðir til þess að viss áhrif umsóknar og eftirfarandi einkaleyfis teljast ógild frá upphafi, sbr. 68. gr. Telji andmæladeildin hins vegar að forsendur andmælanna komi ekki í veg fyrir staðfestingu einkaleyfisins hafnar hún andmælunum, sbr. 2. mgr. 102. gr. Einnig getur andmæladeildin ákveðið að staðfesta einkaleyfið í breyttu formi, sbr. 3. mgr. 102. gr.
    Veiting evrópsks einkaleyfis telst endanleg hafi frestur til að bera fram andmæli liðið, sbr. 1. mgr. 99. gr., eða hafi andmælum verið hafnað.
    Í VI. hluta er í 106.–112. gr. að finna ákvæði um meðferð áfrýjunarmála og eru þær ákvarðanir Evrópsku einkaleyfastofunnar sem unnt er að áfrýja taldar upp 106. gr.
    Í VII. hluta er að finna almenn ákvæði. Í 113.–126. gr. er að finna almenn ákvæði um málsmeðferð, 127.–132. gr. fjalla um upplýsingar til almennings og um fyrirsvar er fjallað í 133. og 134. gr.
    Í VIII. hluta er fjallað um áhrif á landslög, þar á meðal um breytingu í landsbundin einkaleyfi, sbr. 135.–137. gr., ógildingu og eldri réttindi, sbr. 138. og 139. gr., og um önnur áhrif, sbr. 140. gr. um landsbundin smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð og 141. gr. um árgjöld fyrir evrópsk einkaleyfi.
    Í IX. hluta er í 142.–149. gr. fjallað um sérstaka samninga sem samningsríkjunum er heimilt að gera sín á milli. Hér er m.a. um að ræða samninga er varða sameiginleg einkaleyfi, sérstakar deildir innan Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar, fyrirsvar fyrir sérstökum deildum, sérnefnd framkvæmdaráðsins, greiðslu kostnaðar vegna sérstakra verkefna, greiðslur vegna árgjalda sameiginlegra einkaleyfa, umsókn um evrópskt einkaleyfi sem andlag eignarréttar og sameiginlegar tilnefningar.
    Í X. hluta er fjallað um alþjóðlega umsókn samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi, sbr. 150.–158. gr., en Evrópska einkaleyfastofan er alþjóðleg leitarstöð fyrir alþjóðlegar umsóknir samkvæmt samstarfssamningnum.
    Í XI. hluta er að finna í ákvæðum 159.–163. gr. aðlögunarákvæði sem fjalla um starfsemi fyrstu árin eftir að samningurinn öðlast gildi.
    Lokaákvæði evrópska einkaleyfasamningsins er að finna í XII. hluta hans, sbr. 164.–178. gr. Þar er m.a. fjallað um framkvæmdareglugerð og bókanir, undirritun, fullgildingu og aðild að samningnum, fyrirvara við hann, gildissvæði samningsins og gildistöku, stofnframlag til stofnunarinnar, gildistíma samningsins, endurskoðun hans, deilur milli samningsríkja, uppsögn samningins, áunnin réttindi, fjárhagsleg réttindi og skuldbindingar fyrrverandi samningsríkja, tungumál samningsins og hlutverk vörsluaðila samningsins . Skv. 1. mgr. 164. gr. skulu framkvæmdareglugerðin, bókunin um viðurkenningu, bókunin um forréttindi og friðhelgi, bókunin um miðstýringu og bókunin um túlkun á 69. gr. vera óaðskiljanlegir hlutar samningsins.
    Kostnaðurinn við að fá evrópskt einkaleyfi hefur verið talinn samsvara því að fá landsbundið einkaleyfi í þremur ríkjum. Að meðaltali er sótt um einkaleyfi í níu ríkjum fyrir hverja uppfinningu. Því getur umtalsvert hagræði hlotist af evrópska kerfinu.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að evrópska einkaleyfasamningnum og er hann prentaður sem fylgiskjal I með tillögunni.

III. Endurskoðunargerðin.
    Hinn 29. nóvember 2000 var gerð í München gerð um endurskoðun samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa (endurskoðunargerðin). Kveður hún á um mjög viðamiklar breytingar á evrópska einkaleyfasamningnum. Hinn 17. mars 2004 voru tíu ríki aðilar að endurskoðunargerðinni en skv. 1. mgr. 8. gr. gerðarinnar öðlast hún gildi annaðhvort tveimur árum eftir að 15 samningsríki evrópska einkaleyfasamningsins hafa afhent fullgildingar- eða aðildarskjal sitt til vörslu eða á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjals af hálfu þess samningsríkis sem stígur þetta skref síðast allra samningsríkja, ef þetta gerist fyrr. Búast má því við að nokkur tími líði áður en gerðin öðlast gildi. Skv. 2. mgr. 8. gr. gerðarinnar fellur eldri texti evrópska einkaleyfasamningsins úr gildi við gildistöku hins endurskoðaða texta.
    Endurskoðunargerðin telur níu greinar. Með henni er m.a. stefnt að því að laga evrópska einkaleyfasamninginn að tæknilegri og lagalegri þróun síðustu áratuga og auka sveigjanleika lagaumhverfisins.
    Í 1. gr. gerðarinnar er kveðið á um breytingar á ákvæðum evrópska einkaleyfasamningsins í 82 liðum. Ýmis ákvæði úr samningnum eru færð í framkvæmdareglugerðina, m.a. til þess að auka sveigjanleika. Er framkvæmdaráði Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar fengið vald til breytinga á framkvæmdareglugerðinni án þess að boða þurfi til sérstakrar ráðstefnu aðildarríkjanna. Enn fremur er framkvæmdaráðinu fengið vald til að breyta ákveðnum greinum samningsins að því tilskildu að um samræmingu sé að ræða við ákvæði alþjóðlegra samninga eða löggjöf Evrópubandalagsins um einkaleyfi. Einnig er mælt fyrir um ýmsar efnislegar breytingar. Má þar nefna breytingu á hlutverki stóru áfrýjunarnefndarinnar, nýtt ákvæði er gerir mögulegt að öðlast einkaleyfi á notkun þekktra efna og efnasambanda til framleiðslu lyfja til lækninga á sjúkdómum sem ekki var þekkt að efnið gæti verkað á, breytingar á ákvæðum um einkaleyfishæfi, áhrif einkaleyfa, framsendingu og andmælamál, bætt er inn ákvæði sem gerir einkaleyfishafa kleift að óska eftir því við Evrópsku einkaleyfastofuna að einkaleyfi verði takmarkað eða fellt niður og ákvæði um sérsamninga er breytt.
    Ákvæði 2. gr. fjalla um bókanir við evrópska einkaleyfasamninginn. Í 1. mgr. er bókun um túlkun á 69. gr. breytt, í 2. mgr. er bókun um fjölda starfsfólks Evrópsku einkaleyfastofunnar í Haag og kveðið svo á að hún skuli vera óaðskiljanlegur hluti evrópska einkaleyfasamningsins og í 3. mgr. er kveðið á um breytingu á I. gr. bókunarinnar um miðstýringu. Ákvæði 3. gr. fjalla um nýjan texta samningsins. Í 4. og 5. gr. er mælt fyrir um undirritun gerðarinnar, fullgildingu hennar og aðild að henni. Í 6. gr. er tekið fram hvaða ákvæðum gerðarinnar beri að beita til bráðabirgða. Í 7. gr. er að finna aðlögunarákvæði og í 8. gr. ákvæði um gildistöku gerðarinnar. Ákvæði 9. gr. fjalla um vörsluaðila gerðarinnar og hlutverk hans.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að endurskoðunargerðinni og er hún prentuð sem fylgiskjal II með tillögunni.

IV. Lundúnasamningurinn.
    Hinn 17. október 2000 var í Lundúnum gerður samningur um beitingu 65. gr. samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa (Lundúnasamningurinn). Samningurinn telur 11 greinar og er með honum stefnt að því að draga úr kostnaði við þýðingar á evrópskum einkaleyfum en stór hluti kostnaðar við að sækja um evrópskt einkaleyfi felst í þýðingarkostnaði.
    Ákvæði 1. gr. samningsins fjalla um undanþágur frá kröfum um þýðingar. Aðildarríki sem hafa sama opinbert tungumál og eitt af opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar falla frá kröfum um þýðingar að hluta. Aðildarríki sem hafa önnur opinber tungumál en ensku, frönsku eða þýsku velja eitt hinna fyrrnefndu mála og falla frá kröfum um þýðingar á lýsingu einkaleyfis ef einkaleyfi hefur verið veitt á því tungumáli eða þýtt á það. Hins vegar er aðildarríki heimilt að krefjast þýðingar á einkaleyfiskröfum á opinbert mál viðkomandi ríkis. Ákvæði 2. gr. samningsins hefur að geyma sérreglur um þýðingar vegna deilumála. Í 3. gr. er fjallað um undirritun samningsins og fullgildingu hans. Í 4. gr. er fjallað um aðild að samningnum en hún er valkvæð fyrir samningsríki evrópska einkaleyfasamningsins. Ákvæði 5. gr. leggur bann við fyrirvörum við samninginn. Í ákvæðum 6.–11. gr. er fjallað um gildistöku samningsins og gildistíma hans, uppsögn samningsins og gildissvið, tungumál samningsins og hlutverk vörsluaðila.
    Með þingsálykturnartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að Lundúnasamningnum og er hann prentaður sem fylgiskjal III með tillögunni.
    Gera þarf breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem sem evrópski einkaleyfasamningurinn, endurskoðunargerðin og Lundúnasamningurinn leggja samningsríkjunum á herðar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi lagafrumvarp þar að lútandi (þskj. 1122, 751. mál).

Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
um veitingu evrópskra einkaleyfa
(evrópski einkaleyfasamningurinn).


EFNISYFIRLIT

INNGANGUR

I. HLUTI
Almenn ákvæði og stofnanaákvæði.

I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.    Evrópsk lög um veitingu einkaleyfa.
2. gr.    Evrópskt einkaleyfi.
3. gr.    Svæðisbundin áhrif.
4. gr.    Evrópska einkaleyfastofnunin.

II. kafli.
Evrópska einkaleyfastofnunin.
5. gr.    Réttarstaða.
6. gr.    Aðsetur.
7. gr.    Undirskrifstofur Evrópsku einkaleyfastofunnar.
8. gr.    Forréttindi og friðhelgi.
9. gr.    Ábyrgð.

III. kafli.
Evrópska einkaleyfastofan.
10. gr.    Stjórnun.
11. gr.    Ráðning yfirmanna.
12. gr.    Starfsskyldur.
13. gr.    Deilur milli stofnunarinnar og starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar.
14. gr.    Tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar.
15. gr.    Deildir sem annast málsmeðferð.

16. gr.    Móttökudeild.
17. gr.    Nýnæmisrannsóknardeildir.
18. gr.    Rannsóknardeild.
19. gr.    Andmæladeildir.
20. gr.    Lögfræðideild.
21. gr.    Áfrýjunarnefndir.
22. gr.    Stóra áfrýjunarnefndin.
23. gr.    Sjálfstæði nefndarmanna.
24. gr.    Vanhæfi og kröfur um að nefndarmenn víki sæti.
25. gr.    Tæknilegt álit.

IV. kafli.
Framkvæmdaráðið.
26. gr.    Aðild.
27. gr.    Formaður.
28. gr.    Stjórn.
29. gr.    Fundir.
30. gr.    Áheyrnarfulltrúar.
31. gr.    Tungumál framkvæmdaráðsins.
32. gr.    Starfslið, húsnæði og búnaður.
33. gr.    Valdsvið framkvæmdaráðs í ákveðnum tilvikum.
34. gr.    Atkvæðisréttur.
35. gr.    Reglur um atkvæðagreiðslu.
36. gr.    Vægi atkvæða.

V. kafli.
Ákvæði um fjármál.
37. gr.    Fé til útgjalda.
38. gr.    Tekjur stofnunarinnar.
39. gr.    Greiðslur frá samningsríkjunum vegna árgjalda fyrir evrópsk einkaleyfi.
40. gr.    Gjaldskrá og greiðslur – sérstök fjárframlög.
41. gr.    Fyrirframgreiðslur.
42. gr.    Fjárhagsáætlun.
43. gr.    Útgjaldaheimild.
44. gr.    Fjárveitingar vegna ófyrirsjáanlegra útgjalda.

45. gr.    Reikningsskilatímabil.
46. gr.    Undirbúningur og samþykkt fjárhagsáætlunar.
47. gr.    Bráðabirgðafjárhagsáætlun.
48. gr.    Framkvæmd fjárhagsáætlunar.
49. gr.    Endurskoðun reikninga.
50. gr.    Fjármálareglugerð.
51. gr.    Reglur um gjöld.

II. HLUTI
Efnisleg ákvæði einkaleyfalaga.

I. kafli.
Einkaleyfishæfi.
52. gr.    Einkaleyfishæfar uppfinningar.
53. gr.    Undantekningar frá einkaleyfishæfi.
54. gr.    Nýnæmi.
55. gr.    Birtingar sem skerða ekki rétt.
56. gr.    Frumleikastig.
57. gr.    Hagnýting í atvinnulífi.

II. kafli.
Hverjir mega sækja um og öðlast evrópskt einkaleyfi – uppfinningamanns sé getið.
58. gr.    Réttur til að sækja um evrópskt einkaleyfi.

59. gr.    Fleiri umsækjendur.
60. gr.    Réttur til evrópsks einkaleyfis.
61. gr.    Umsóknir um evrópskt einkaleyfi frá einstaklingum sem eiga ekki rétt til evrópsks einkaleyfis.
62. gr.    Réttur uppfinningamanns til þess að nafns hans sé getið.

III. kafli.
Áhrif evrópsks einkaleyfis og umsóknar um evrópskt einkaleyfi.
63. gr.    Gildistími evrópsks einkaleyfis.
64. gr.    Réttindi sem evrópskt einkaleyfi veitir.
65. gr.    Þýðing á texta evrópsks einkaleyfis.

66. gr.    Umsókn um evrópskt einkaleyfi jafngildir landsbundinni umsókn.
67. gr.    Réttindi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi veitir eftir birtingu.
68. gr.    Áhrif ógildingar evrópsks einkaleyfis.
69. gr.    Umfang verndar.
70. gr.    Fullgildur texti umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis.

IV. kafli.
Umsókn um evrópskt einkaleyfi sem andlag eignarréttar.
71. gr.    Yfirfærsla og tilurð réttinda.
72. gr.    Framsal.
73. gr.    Samningar um nytjaleyfi.
74. gr.    Gildandi löggjöf.

III. HLUTI
Umsókn um evrópskt einkaleyfi.

I. kafli.
Innlagning umsóknar um evrópskt einkaleyfi og kröfur sem hún skal uppfylla.
75. gr.    Innlagning umsóknar um evrópskt einkaleyfi.
76. gr.    Evrópsk hlutunarumsókn.
77. gr.    Framsending umsókna um evrópskt einkaleyfi.
78. gr.    Kröfur til umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

79. gr.    Tilnefning aðildarríkja.
80. gr.    Umsóknardagur.
81. gr.    Tilnefning uppfinningamanns.
82. gr.    Uppfinningaheild.
83. gr.    Skýring á uppfinningu.
84. gr.    Einkaleyfiskröfur.
85. gr.    Ágrip.
86. gr.    Árgjöld vegna umsókna um evrópskt einkaleyfi.

II. kafli.
Forgangur.
87. gr.    Forgangur.
88. gr.    Krafa um forgang.
89. gr.    Áhrif forgangsréttar.

IV. HLUTI
Málsmeðferð fram að veitingu einkaleyfis.
90. gr.    Athugun umsókna við innlagningu.
91. gr.    Athugun á formkröfum.
92. gr.    Gerð evrópskrar nýnæmisrannsóknarskýrslu.

93. gr.    Birting umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

94. gr.    Beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi.
95. gr.    Framlenging frests til að leggja inn beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi.
96. gr.    Rannsókn á einkaleyfishæfi umsóknar um evrópskt einkaleyfi.
97. gr.    Höfnun eða veiting.
98. gr.    Birting texta evrópsks einkaleyfis.


V. HLUTI
Meðferð andmæla.

99. gr.    Andmæli.
100. gr.    Grundvöllur andmæla.
101. gr.    Athugun á andmælum.
102. gr.    Evrópska einkaleyfið ógilt eða haldi gildi sínu.
103. gr.    Birting á nýjum texta evrópska einkaleyfisins.
104. gr.    Kostnaður.
105. gr.    Íhlutun af hálfu ætlaðs geranda.

VI. HLUTI
Meðferð áfrýjunarmála.
106. gr.    Ákvarðanir sem heimilt er að áfrýja.
107. gr.    Heimild til áfrýjunar og aðild að áfrýjunarmálum.
108. gr.    Tímafrestur til áfrýjunar og framsetning hennar.
109. gr.    Bráðabirgðaákvörðun.
110. gr.    Athugun á áfrýjunum.
111. gr.    Ákvörðun í áfrýjunarmáli.
112. gr.    Ákvörðun eða álit stóru áfrýjunarnefndarinnar.

VII. HLUTI
Almenn ákvæði.
I. kafli.
Almenn ákvæði um málsmeðferð.
113. gr.    Grundvöllur ákvarðana.
114. gr.    Athugun Evrópsku einkaleyfastofunnar að eigin frumkvæði.
115. gr.    Athugasemdir þriðja aðila.
116. gr.    Munnlegur málflutningur.
117. gr.    Öflun gagna.
118. gr.    Heildstæði umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis.
119. gr.    Tilkynning.
120. gr.    Tímafrestir.
121. gr.    Endurupptaka umsóknar um evrópskt einkaleyfi.
122. gr.    Endurveiting.
123. gr.    Breytingar.
124. gr.    Upplýsingar um landsbundnar einkaleyfaumsóknir.
125. gr.    Tilvísun til almennra reglna.
126. gr.    Lok fjárhagslegra skuldbindinga.

II. kafli.
Upplýsingar til almennings eða opinberra yfirvalda.
127. gr.    Evrópsk einkaleyfaskrá.
128. gr.    Aðgengi að gögnum.
129. gr.    Tímarit Evrópsku einkaleyfastofunnar.
130. gr.    Upplýsingaskipti.
131. gr.    Samstarf um framkvæmd og löggjöf.
132. gr.    Skipti á ritum.

III. kafli.
Fyrirsvar.
133. gr.    Almennar reglur um fyrirsvar.
134. gr.    Sérmenntaðir fyrirsvarsmenn.

VIII. HLUTI
Áhrif á landslög.

I. kafli.
Breyting í landsbundna einkaleyfisumsókn.
135. gr.    Beiðni um að landsbundinni málsmeðferð sé beitt.
136. gr.    Innlagning og framsending beiðninnar.
137. gr.    Formkröfur við breytingu.

II. kafli.
Ógilding og eldri réttindi.
138. gr.    Grundvöllur ógildingar.
139. gr.    Réttindi byggð á fyrri dagsetningu eða sömu dagsetningu.

III. kafli.
Önnur áhrif.
140. gr.    Landsbundin smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð.
141. gr.    Árgjöld fyrir evrópsk einkaleyfi.

IX. HLUTI
Sérstakir samningar.
142. gr.    Sameiginleg einkaleyfi.
143. gr.    Sérstakar deildir innan Evrópsku einkaleyfastofunnar.
144. gr.    Fyrirsvar fyrir sérstökum deildum.
145. gr.    Sérnefnd framkvæmdaráðsins.

146. gr.    Greiðsla kostnaðar vegna sérstakra verkefna.

147. gr.    Greiðslur vegna árgjalda sameiginlegra einkaleyfa.
148. gr.    Umsókn um evrópskt einkaleyfi sem andlag eignarréttar.
149. gr.    Sameiginleg tilnefning.

X. HLUTI
Alþjóðleg umsókn samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi (PCT).

150. gr.    Beiting samstarfssamningsins um einkaleyfi.

151. gr.    Evrópska einkaleyfastofan sem viðtökustofa.
152. gr.    Innlagning og framsending alþjóðlegrar umsóknar.
153. gr.    Evrópska einkaleyfastofan sem tilnefnd stofa.

154. gr.    Evrópska einkaleyfastofan sem alþjóðleg nýnæmisrannsóknarstofnun.
155. gr.    Evrópska einkaleyfastofan sem stofnun sem gerir alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi.
156. gr.    Evrópska einkaleyfastofan sem valin stofa.

157. gr.    Alþjóðleg nýnæmisrannsóknarskýrsla.
158. gr.    Birting alþjóðlegrar umsóknar og framsending hennar til Evrópsku einkaleyfastofunnar.

XI. HLUTI
Aðlögunarákvæði.

159. gr.    Framkvæmdaráðið á aðlögunartíma.

160. gr.    Ráðning starfsmanna á aðlögunartíma.

161. gr.    Fyrsta reikningsskilatímabilið.
162. gr.    Stigvaxandi útvíkkun starfssviðs Evrópsku einkaleyfastofunnar.
163. gr.    Sérmenntaðir fyrirsvarsmenn á aðlögunartíma.

XII. HLUTI
Lokaákvæði.

164. gr.    Framkvæmdareglugerð og bókanir.
165. gr.    Undirritun – fullgilding.
166. gr.    Aðild.
167. gr.    Fyrirvarar.
168. gr.    Landsvæði þar sem samningurinn gildir    .
169. gr.    Gildistaka.
170. gr.    Stofnframlag.
171. gr.    Gildistími samningsins.
172. gr.    Endurskoðun.
173. gr.    Deilur milli samningsríkja.
174. gr.    Uppsögn.
175. gr.    Áunnin réttindi gilda áfram.
176. gr.    Fjárhagsleg réttindi og skuldbindingar fyrrverandi samningsríkja.
177. gr.    Tungumál samningsins.
178. gr.    Framsending og tilkynningar.

INNGANGUR


SAMNINGSRÍKIN,

SEM ÓSKA ÞESS að efla samvinnu meðal Evrópuríkja að því er lýtur að vernd uppfinninga,


SEM ÓSKA ÞESS að unnt sé að hljóta slíka vernd í þessum ríkjum með sameiginlegri málsmeðferð við veitingu einkaleyfa og stöðluðum reglum um einkaleyfin sem þannig eru veitt,

SEM ÓSKA að í því skyni sé gerður samningur um stofnun Evrópskrar einkaleyfastofnunar sem verði sérstakur samningur í skilningi 19. gr. samningsins um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, sem undirritaður var í París 20. mars 1883 og síðast var breytt 14. júlí 1967, svo og svæðisbundinn einkaleyfasamningur í merkingu 1. mgr. 45. gr. samstarfssamnings um einkaleyfi frá 19. júní 1970,


HAFA SAMÞYKKT eftirfarandi ákvæði:

I. HLUTI
Almenn ákvæði og stofnanaákvæði.
I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.
Evrópsk lög um veitingu einkaleyfa.

Hér með er komið á samræmdu lagakerfi, sem gildir í öllum samningsríkjunum, við veitingu einkaleyfa fyrir uppfinningum.

2. gr.
Evrópskt einkaleyfi.

1.     Einkaleyfi, sem veitt eru samkvæmt samningi þessum, skulu heita evrópsk einkaleyfi.
2.     Í hverju samningsríki, þar sem evrópskt einkaleyfi gildir, skal það hafa sömu áhrif og um það gilda sömu skilyrði og um einkaleyfi sem veitt er í viðkomandi ríki nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.

3. gr.
Svæðisbundin áhrif.

Sækja má um evrópskt einkaleyfi fyrir eitt eða fleiri samningsríki.

4. gr.
Evrópska einkaleyfastofnunin.

1.     Með samningi þessum er komið á fót Evrópskri einkaleyfastofnun, hér eftir kölluð stofnunin. Hún skal hafa sjálfstætt framkvæmdavald og sjálfstæðan fjárhag.
2.     Undirstofnanir hennar eru:
a)    Evrópska einkaleyfastofan; og
b)    framkvæmdaráð.
3.     Verkefni stofnunarinnar skal vera að veita evrópsk einkaleyfi. Það skal Evrópska einkaleyfastofan gera undir yfirstjórn framkvæmdaráðsins.


II. kafli.
Evrópska einkaleyfastofnunin.
5. gr.
Réttarstaða.

1.     Stofnunin hefur réttarstöðu lögaðila.
2.     Í hverju samningsríki skal stofnunin hafa eins víðtækt rétthæfi og lögaðili getur frekast notið samkvæmt landslögum; sér í lagi er henni heimilt að eignast lausafé og fasteignir og ráðstafa þeim og hún getur átt aðild að málarekstri.

3.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar skal koma fram fyrir hönd stofnunarinnar.

6. gr.
Aðsetur.

1.     Stofnunin skal hafa aðsetur í München.
2.     Evrópsku einkaleyfastofuna skal stofnsetja í München. Hún skal hafa útibú í Haag.

7. gr.
Undirskrifstofur Evrópsku einkaleyfastofunnar.

Með ákvörðun framkvæmdaráðs má, ef þörf krefur, stofna undirskrifstofur á vegum Evrópsku einkaleyfastofunnar til að miðla upplýsingum og halda uppi tengslum, bæði í einstökum samningsríkjum og hjá milliríkjastofnunum á sviði hugverkaréttar í iðnaði, enda samþykki viðkomandi samningsríki eða stofnun að svo verði gert.

8. gr.
Forréttindi og friðhelgi.

Í bókuninni um forréttindi og friðhelgi, sem fylgir samningi þessum, skal skilgreina með hvaða hætti stofnunin, fulltrúar í framkvæmdaráðinu, starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar og fleiri einstaklingar, sem kveðið er á um í bókuninni og taka þátt í starfsemi stofnunarinnar, fái notið þeirra forréttinda og friðhelgi sem þörf er á til að geta innt af hendi skyldustörf sín.


9. gr.
Ábyrgð.

1.     Um samningsbundna ábyrgð stofnunarinnar skulu þau lög gilda sem við eiga um hlutaðeigandi samning.
2.     Um ábyrgð stofnunarinnar utan samninga vegna tjóns sem hún veldur eða starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar í starfi sínu gilda ákvæði laga sambandslýðveldisins Þýskalands. Ef útibúið í Haag eða undirskrifstofa eða starfsmenn þar valda tjóni gilda ákvæði laga þess samningsríkis þar sem útibúið eða undirskrifstofan hefur aðsetur.



3.     Kveða skal á um persónulega ábyrgð starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar gagnvart stofnuninni í starfsreglum þeirra eða ráðningarskilmálum.

4.     Þeir dómstólar, sem fara með lögsögu til að leysa úr deilum skv. 1. og 2. mgr., eru:
a)    að því er varðar deilur skv. 1. mgr., valdbærir dómstólar í sambandslýðveldinu Þýskalandi nema kveðið sé á um dómstóla annars ríkis í samningi milli aðilanna;
b)    að því er varðar deilur skv. 2. mgr., annaðhvort valdbærir dómstólar í sambandslýðveldinu Þýskalandi eða valdbærir dómstólar í ríkinu þar sem útibúið eða undirskrifstofan hefur aðsetur.


III. kafli.
Evrópska einkaleyfastofan.
10. gr.
Stjórnun.

1.     Forstjórinn fer með stjórn Evrópsku einkaleyfastofunnar og ber ábyrgð á starfsemi hennar gagnvart framkvæmdaráðinu.
2.     Í því skyni hefur forstjórinn einkum eftirfarandi hlutverk og starfssvið:
a)    honum ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, þar á meðal setja stjórnunarreglur innanhúss og birta leiðbeiningar handa almenningi, til þess að tryggja að starfsemi Evrópsku einkaleyfastofunnar sé með eðlilegum hætti;
b)    að því marki sem ekki er kveðið á um slíkt í samningi þessum ber honum að mæla fyrir um hvaða starfsemi skuli fara fram hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í München og í útibúinu í Haag;
c)    hann getur lagt fyrir framkvæmdaráðið hvers konar tillögur um breytingar á samningi þessum og tillögur um almennar reglur eða ákvarðanir sem falla undir valdsvið framkvæmdaráðsins;

d)    hann undirbýr og framkvæmir fjárhagsáætlunina og allar breytingar á henni eða viðbótaráætlanir;
e)    hann leggur skýrslu um rekstur stofunnar fyrir framkvæmdaráðið ár hvert;
f)    hann hefur yfirumsjón með verkum starfsmanna;

g)    hann ræður starfsfólk og veitir því stöðuhækkun, sbr. þó ákvæði 11. gr.;
h)    hann fer með agavald yfir starfsfólki, öðru en því sem um getur í 11. gr., og getur gert tillögur til framkvæmdaráðsins um viðurlög við agabrotum þeirra starfsmanna er um getur í 2. og 3. mgr. 11. gr.;
i)    hann getur falið öðrum störf sín og völd .
3.     Forstjórinn skal njóta aðstoðar varaforstjóra. Ef forstjórinn er fjarverandi eða forfallaður skal einn varaforstjóranna koma í hans stað í samræmi við reglur sem framkvæmdaráðið setur.


11. gr.
Ráðning yfirmanna.

1.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar skal ráðinn samkvæmt ákvörðun framkvæmdaráðs.

2.     Varaforstjórar skulu ráðnir samkvæmt ákvörðun framkvæmdaráðsins að höfðu samráði við forstjórann.
3.     Þeir sem eiga sæti í áfrýjunarnefndunum og stóru áfrýjunarnefndinni, að meðtöldum formönnum þeirra, skulu ráðnir með ákvörðun framkvæmdaráðsins, að fenginni tillögu frá forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar. Heimilt er að endurráða þá samkvæmt ákvörðun framkvæmdaráðs að höfðu samráði við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.

4.     Framkvæmdaráð fer með agavald yfir starfsmönnum skv. 1.–3. mgr.


12. gr.
Starfsskyldur.

Starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar skulu bundnir þagnarskyldu, einnig eftir að þeir hafa hætt störfum, og mega hvorki láta uppi né notfæra sér upplýsingar sem eru í eðli sínu atvinnuleyndarmál.

13. gr.
Deilur milli stofnunarinnar og starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar.

1.     Starfsmönnum Evrópsku einkaleyfastofunnar og fyrrum starfsmönnum hennar eða þeim sem hafa öðlast rétt þeirra er heimilt, rísi deilur milli þeirra og Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar, að leita til stjórnsýsludómstóls Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í samræmi við stofnsamþykktir dómstólsins og innan þeirra marka og samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í starfsreglum fastra starfsmanna eða lífeyrisreglum eða með tilvísun til ráðningarskilmála annarra starfsmanna.
2.     Áfrýjun skal einungis tekin til meðferðar hafi hlutaðeigandi einstaklingur reynt til þrautar þær áfrýjunarleiðir sem honum eru heimilar samkvæmt starfsreglum, lífeyrisreglum eða ráðningarskilmálum eftir því sem við á.

14. gr.
Tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar.

1.     Opinber tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar eru enska, franska og þýska. Umsóknir um evrópskt einkaleyfi skulu lagðar inn á einhverju þessara tungumála.
2.     Þó er einstaklingum eða lögaðilum, sem hafa aðsetur eða aðalstarfsstöð á landsvæði samningsríkis, sem hefur annað opinbert tungumál en ensku, frönsku eða þýsku, sem og ríkisborgurum þess ríkis búsettum erlendis, heimilt að leggja inn umsóknir um evrópskt einkaleyfi á opinberu tungumáli þess ríkis. Þrátt fyrir það verður umsækjandi að leggja inn þýðingu á einu hinna opinberu tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar innan frests sem framkvæmdareglugerðin kveður á um; meðan málið er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt að vinna að því að færa slíka þýðingu til samræmis við frumtexta umsóknarinnar.
3.     Nota skal það opinbera tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar, sem umsóknin er lögð inn á, eða, í því tilviki sem um getur í 2. mgr., tungumál þýðingarinnar sem tungumál málsmeðferðar að því er varðar alla meðferð umsóknarinnar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni eða einkaleyfisins, sem af henni leiðir, nema framkvæmdareglugerðin kveði á um annað.
4.     Þeim aðilum, sem um getur í 2. mgr., er einnig heimilt að leggja inn skjöl, sem skylt er að leggja inn innan tiltekins frests, á opinberu tungumáli hlutaðeigandi samningsríkis. Þó verða þeir að leggja inn þýðingu á tungumáli málsmeðferðarinnar innan þess frests sem framkvæmdareglugerðin mælir fyrir um; í tilvikum, sem framkvæmdareglugerðin kveður á um, er þeim heimilt að leggja inn þýðingu á öðru opinberu tungumáli Evrópsku einkaleyfastofunnar.
5.     Ef skjöl, önnur en þau sem mynda umsókn um evrópskt einkaleyfi, eru ekki lögð inn á tungumáli, sem mælt er fyrir um í samningi þessum, eða ef einhver þýðing, sem krafist er samkvæmt samningnum, er ekki lögð inn innan tiltekins frests skal litið svo á að slíkum skjölum hafi ekki verið veitt viðtaka.
6.     Umsóknir um evrópskt einkaleyfi skulu birtar á tungumáli málsmeðferðarinnar.
7.     Texta evrópskra einkaleyfa skal birta á tungumáli málsmeðferðarinnar; þeim skal fylgja þýðing einkaleyfiskrafnanna yfir á hin tvö opinberu tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar.

8.     Birta skal eftirfarandi á þremur opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar:
a)    Einkaleyfatíðindi Evrópsku einkaleyfastofunnar;
b)    Fréttabréf Evrópsku einkaleyfastofunnar.

9.     Færslur í evrópsku einkaleyfaskrána skulu vera á þremur opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Í vafatilvikum skal tungumál málsmeðferðarinnar ráða úrslitum.

15. gr.
Deildir sem annast málsmeðferð.

Til að framfylgja málsmeðferðinni, sem kveðið er á um í samningi þessum, skal setja á stofn innan Evrópsku einkaleyfastofunnar:
a)    móttökudeild;
b)    nýnæmisrannsóknardeildir;
c)    rannsóknardeildir;
d)    andmæladeildir;
e)    lögfræðideild;
f)    áfrýjunarnefndir;
g)    stór áfrýjunarnefnd.

16. gr.
Móttökudeild.

Móttökudeild skal staðsett í útibúinu í Haag. Hún annast athugun við innlagningu og athugun á formkröfum að því er hverja umsókn um evrópskt einkaleyfi varðar uns beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi hefur verið lögð fram eða umsækjandi hefur tilkynnt, skv. 1. mgr. 96. gr., að hann vilji halda umsókn sinni til streitu. Hún annast einnig birtingu umsókna um evrópskt einkaleyfi og evrópsku nýnæmisrannsóknarskýrslunnar.


17. gr.
Nýnæmisrannsóknardeildir.

Nýnæmisrannsóknardeildir skulu staðsettar í útibúinu í Haag. Þær skulu sjá um samantekt evrópskra nýnæmisrannsóknarskýrslna.

18. gr.
Rannsóknardeildir.

1.     Rannsóknardeild annast rannsókn á einkaleyfishæfi með tilliti til hverrar umsóknar um evrópskt einkaleyfi frá því að ábyrgð móttökudeildarinnar lýkur.
2.     Rannsóknardeild er skipuð þremur tæknimenntuðum rannsóknarmönnum. Þó skal að jafnaði fela einum starfsmanni deildarinnar rannsóknina áður en lokaákvörðun er tekin. Munnlegur málflutningur fer fram fyrir rannsóknardeildinni sjálfri. Telji rannsóknardeild ákvörðun þess eðlis að það sé nauðsynlegt, skal fjölga í henni um einn löglærðan rannsóknarmann. Falli atkvæði jafnt skal atkvæði deildarformanns ráða úrslitum.


19. gr.
Andmæladeildir.

1.     Andmæladeild skal annast athugun á andmælum gegn evrópsku einkaleyfi.

2.     Andmæladeild skal skipuð þremur tæknimenntuðum rannsóknarmönnum og skulu a.m.k. tveir þeirra ekki hafa tekið þátt í málsmeðferðinni sem leiddi til veitingar einkaleyfisins sem andmælin beinast gegn. Rannsóknarmaður, sem hefur tekið þátt í málsmeðferðinni sem leiddi til veitingar evrópska einkaleyfisins, má ekki vera formaður deildarinnar. Áður en andmæladeild tekur lokaákvörðun um andmæli getur hún falið einum starfsmanni deildarinnar að athuga andmælin. Munnlegur málflutningur fer fram fyrir andmæladeildinni sjálfri. Telji andmæladeildin ákvörðun þess eðlis að það sé nauðsynlegt, skal fjölga í henni um einn löglærðan rannsóknarmann sem hefur ekki tekið þátt í málsmeðferð sem leiddi til þess að einkaleyfið var veitt. Falli atkvæði jafnt skal atkvæði deildarformannsins ráða úrslitum.

20. gr.
Lögfræðideild.

1.     Lögfræðideild tekur ákvarðanir um skráningu í evrópsku einkaleyfaskrána og um skráningar á lista sérmenntaðra fyrirsvarsmanna og niðurfellingar af listanum.

2.     Ákvarðanir lögfræðideildar skal einn löglærður starfsmaður hennar taka.

21. gr.
Áfrýjunarnefndir.

1.     Áfrýjunarnefndir sjá um að athuga áfrýjun ákvarðana móttökudeildar, rannsóknardeilda, andmæladeilda og lögfræðideildar.

2.     Þegar áfrýjað er ákvörðun móttökudeildar eða lögfræðideildar skal áfrýjunarnefnd skipuð þremur löglærðum nefndarmönnum..
3.     Þegar áfrýjað er ákvörðun rannsóknardeildar skal áfrýjunarnefnd skipuð:
a)    tveimur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og einum löglærðum nefndarmanni ef ákvörðunin varðar synjun umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða veitingu evrópsks einkaleyfis og var tekin af rannsóknardeild skipaðri færri en fjórum nefndarmönnum;
b)    þremur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og tveimur löglærðum nefndarmönnum ef ákvörðunin var tekin af rannsóknardeild skipaðri fjórum nefndarmönnum, eða þegar áfrýjunarnefndin telur þess þörf vegna eðlis áfrýjunarinnar;
c)    þremur löglærðum nefndarmönnum í öllum öðrum tilvikum.
4.     Þegar áfrýjað er ákvörðun andmæladeildar skal áfrýjunarnefnd skipuð:
a)    tveimur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og einum löglærðum nefndarmanni ef ákvörðunin var tekin af andmæladeild skipaðri þremur nefndarmönnum;
b)    þremur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og tveimur löglærðum nefndarmönnum ef ákvörðunin var tekin af andmæladeild skipaðri fjórum nefndarmönnum eða þegar áfrýjunarnefndin telur þess þörf vegna eðlis áfrýjunarinnar.

22. gr.
Stóra áfrýjunarnefndin.

1.     Stóra áfrýjunarnefndin skal sjá um:

a)    að skera úr um lagaatriði sem áfrýjunarnefndir vísa til hennar;
b)    að gefa álit um lagaatriði sem forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar vísar til hennar skv. 112. gr.

2.     Þegar stóra áfrýjunarnefndin tekur ákvörðun eða gefur álit skal hún skipuð fimm löglærðum nefndarmönnum og tveimur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu. Einn hinna löglærðu nefndarmanna skal vera formaður nefndarinnar.

23. gr.
Sjálfstæði nefndarmanna.

1.     Þeir sem eiga sæti í stóru áfrýjunarnefndinni og öðrum áfrýjunarnefndum skulu skipaðir til fimm ára og er óheimilt að víkja þeim úr störfum á þeim tíma nema brýn ástæða sé til þess og framkvæmdaráðið, að fenginni tillögu þess efnis frá stóru áfrýjunarnefndinni, taki ákvörðun um slíkt.

2.     Nefndarmenn mega ekki vera starfsmenn móttökudeildar, rannsóknardeilda, andmæladeilda eða lagadeildar.
3.     Í ákvörðunum sínum skulu nefndarmenn ekki bundnir af fyrirmælum frá öðrum heldur einungis fara eftir ákvæðum samnings þessa.
4.     Áfrýjunarnefndir og stóra áfrýjunarnefndin skulu setja sér starfsreglur í samræmi við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar. Þær skulu hljóta samþykki framkvæmdaráðs.


24. gr.
Vanhæfi og kröfur um að nefndarmenn víki sæti.

1.     Þeir sem eiga sæti í áfrýjunarnefndum eða stóru áfrýjunarnefndinni mega ekki taka þátt í meðferð kæru ef þeir hafa persónulegra hagsmuna að gæta í málinu, þeir hafa áður komið að málinu sem fyrirsvarsmenn annars aðilans eða þeir hafa átt aðild að ákvörðuninni sem áfrýjað er.
2.     Ef nefndarmaður í áfrýjunarnefnd eða stóru áfrýjunarnefndinni telur, af ástæðu sem um getur í 1. mgr. eða einhverri annarri ástæðu, að hann eigi ekki að taka þátt í meðferð áfrýjunar ber honum að tilkynna nefndinni þar um.
3.     Sérhver aðili máls getur krafist þess að nefndarmaður í áfrýjunarnefnd eða stóru áfrýjunarnefndinni víki sæti af ástæðu, sem um getur í 1. mgr. eða ef grunur leikur á hlutdrægni hans. Ekki skal taka slíka kröfu til greina ef viðkomandi aðili hefur vitað af ástæðunni, sem hann ber fyrir sig, og þó átt hlut að málsmeðferðinni. Ekki er unnt að hreyfa mótmælum vegna ríkisfangs nefndarmanns.
4.     Áfrýjunarnefndirnar og stóra áfrýjunarnefndin taka ákvörðun um hvernig bregðast skuli við í tilvikum 2. og 3. mgr. án þátttöku nefndarmannsins sem í hlut á. Þegar ákvörðun er tekin í slíkum málum skal varamaður taka sæti nefndarmannsins.


25. gr.
Tæknilegt álit.

Að beiðni þar til bærs innlends dómstóls, sem hefur til meðferðar mál um brot gegn einkaleyfi eða ógildingu á því, ber Evrópsku einkaleyfastofunni, gegn greiðslu viðeigandi gjalds, að gefa tæknilegt álit um evrópska einkaleyfið sem málið varðar. Rannsóknardeild sér um að gefa slíkt álit.


IV. kafli.
Framkvæmdaráðið.
26. gr.
Aðild.

1.     Framkvæmdaráðið skal skipað fulltrúum og varafulltrúum samningsríkjanna. Hvert samningsríki hefur rétt til að tilnefna einn fulltrúa og einn varafulltrúa í framkvæmdaráðið.


2.     Fulltrúar í framkvæmdaráðinu mega njóta aðstoðar ráðgjafa eða sérfræðinga, sbr. þó starfsreglur þess.

27. gr.
Formaður.

1.     Framkvæmdaráðið kýs sér formann og varaformann úr hópi fulltrúa og varafulltrúa samningsríkjanna. Varaformaður tekur af sjálfsdáðum sæti formanns ef hann getur ekki sinnt skyldum sínum.


2.     Kjörtímabil formanns og varaformanns skal vera þrjú ár. Heimilt er að endurkjósa þá.


28. gr.
Stjórn.

1.     Þegar samningsríkin eru a.m.k. átta er framkvæmdaráðinu heimilt að skipa úr sínum hópi fimm manna stjórn.
2.     Formaður og varaformaður framkvæmdaráðsins eiga af sjálfsdáðum sæti í stjórninni; framkvæmdaráðið kýs hina þrjá fulltrúana.

3.     Kjörtímabil stjórnarmanna, sem kjörnir eru af framkvæmdaráðinu, er þrjú ár. Ekki er heimilt að endurkjósa þá.
4.     Stjórnin skal inna af hendi þau verkefni sem framkvæmdaráðið felur henni samkvæmt starfsreglunum.

29. gr.
Fundir.

1.     Formaður framkvæmdaráðsins boðar til funda þess.
2.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar skal taka þátt í umræðum framkvæmdaráðsins.

3.     Framkvæmdaráðið heldur reglulegan fund einu sinni ár hvert. Þar að auki kemur það saman að frumkvæði formanns eða ef einn þriðji hluti samningsríkjanna óskar eftir því.
4.     Umræður í framkvæmdaráðinu skulu fara fram samkvæmt dagskrá og starfsreglum þess.

5.     Í tillögu að dagskrá ber að setja öll mál sem óskað er eftir umræðum um af hálfu einhvers samningsríkis samkvæmt starfsreglum.

30. gr.
Áheyrnarfulltrúar.

1.     Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO) skal eiga fulltrúa á fundum framkvæmdaráðsins samkvæmt ákvæðum samnings sem Evrópska einkaleyfastofnunin og Alþjóðahugverkastofnunin gera með sér.


2.     Aðrar milliríkjastofnanir, sem bera ábyrgð á framkvæmd alþjóðareglna á sviði einkaleyfa og hafa gert samning við stofnunina, skulu eiga fulltrúa á fundum framkvæmdaráðsins samkvæmt ákvæðum í slíkum samningi.

3.     Framkvæmdaráðinu er heimilt að bjóða öðrum óopinberum milliríkja- og alþjóðastofnunum, sem stunda starfsemi stofnuninni viðvíkjandi, að senda fulltrúa á fundi sína þegar rætt er um mál sem varða báða aðila.


31. gr.
Tungumál framkvæmdaráðsins.

1.     Enska, franska og þýska eru þau tungumál sem nota skal á fundum framkvæmdaráðsins.

2.     Skjöl, sem lögð eru fyrir framkvæmdaráðið, og fundargerðir frá fundum þess skulu gerð á þeim þremur tungumálum sem um getur í 1. mgr.


32. gr.
Starfslið, húsnæði og búnaður.

Evrópska einkaleyfastofan skal sjá framkvæmdaráðinu og öllum nefndum, sem hún setur á stofn, fyrir nauðsynlegu starfsliði, húsnæði og búnaði til þess að gera þeim kleift að gegna skyldum sínum.


33. gr.
Valdsvið framkvæmdaráðsins
í ákveðnum tilvikum.

1.     Framkvæmdaráðið hefur vald til að breyta eftirfarandi ákvæðum samningsins:

a)    frestum sem kveðið er á um í samningnum; þetta á við um þann frest, sem mælt er fyrir um í 94. gr., aðeins við þau skilyrði sem mælt er fyrir um í 95. gr.;
b)    framkvæmdareglugerðinni.
2.     Framkvæmdaráðið hefur vald, í samræmi við samning þennan, til að samþykkja eða breyta eftirfarandi ákvæðum:
a)    fjármálareglugerðinni;
b)    starfsreglum sem gilda um fasta starfsmenn og ráðningarskilyrðum annarra starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar, launatöxtum þessara föstu starfsmanna og annarra starfsmanna og eðli viðbótarhlunninda og reglum um veitingu þeirra;

c)    reglum um lífeyri og viðeigandi hækkunum á núverandi lífeyri til að hann fylgi launahækkunum;

d)    reglum um gjöld;
e)    starfsreglum sínum.
3.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 18. gr. er framkvæmdaráðinu heimilt að ákveða, í ljósi fenginnar reynslu, að í tilteknum málaflokkum skuli rannsóknardeildir skipaðar einum tæknimenntuðum rannsóknarmanni. Slíka ákvörðun má afturkalla.
4.     Framkvæmdaráðið hefur vald til þess að fela forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar að efna til samningaviðræðna og ganga frá samningum, með samþykki ráðsins, fyrir hönd Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar við ríki, milliríkjastofnanir og upplýsingamiðstöðvar sem komið hefur verið á fót með samningum við slíkar stofnanir.

34. gr.
Atkvæðisréttur.

1.     Samningsríkin hafa ein atkvæðisrétt í framkvæmdaráðinu.
2.     Hvert samningsríki skal hafa eitt atkvæði, sbr. þó beitingu ákvæða 36. gr.

35. gr.
Reglur um atkvæðagreiðslu.

1.     Ákvarðanir framkvæmdaráðsins, aðrar en um getur í 2. mgr., skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða þeirra samningsríkja sem sækja fundinn og greiða atkvæði.
2.     Þrjá fjórðu hluta atkvæða þeirra samningsríkja, sem sækja fundinn og greiða atkvæði, þarf til ákvarðana sem framkvæmdaráðinu er heimilt að taka skv. 7. gr., 1. mgr. 11. gr., 33. gr., 1. mgr. 39. gr., 2. og 4. mgr. 40. gr., 46. gr., 87. gr., 95. gr., 134. gr., 3. mgr. 151. gr., 2. mgr. 154. gr., 2. mgr. 155. gr., 156. gr., 2.–4. mgr. 157. gr., 2. málsl. 1. mgr. 160. gr., 162. gr. 163. gr., 166. gr., 167. gr. og 172. gr.



3.     Hjáseta telst ekki til greiddra atkvæða.

36. gr.
Vægi atkvæða.

1.     Að því er varðar að samþykkja reglur um gjöld eða breyta þeim og samþykkja fjárhagsáætlun stofnunarinnar, breytingar á henni eða aukafjárhagsáætlun leiði slíkt til aukinna fjárframlaga samningsríkjanna, getur hvaða samningsríki sem er krafist þess, eftir fyrstu umferð atkvæðagreiðslu þar sem hvert samningsríki hefur eitt atkvæði og án tillits til niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu, að greidd verði atkvæði strax aftur og að atkvæði ríkjanna verði vegin í samræmi við ákvæði 2. mgr. Niðurstaða seinni atkvæðagreiðslunnar ræður úrslitum.

2.     Reikna skal fjölda atkvæða, sem hvert samningsríki hefur í seinni umferðinni á eftirfarandi hátt:

a)    margfalda skal þann hundraðshluta, sem fenginn er fyrir hvert samningsríki með tilliti til skrárinnar yfir sérstök fjárframlög skv. 3. og 4. mgr. 40 gr., með fjölda samningsríkja og deila í með tölunni fimm;
b)    hækka ber fjölda atkvæða, sem þannig er fenginn, upp í næstu heila tölu;
c)     bæta skal fimm viðbótaratkvæðum við þá tölu;

d)    þó skal ekkert samningsríki hafa fleiri en þrjátíu atkvæði.

V. kafli.
Ákvæði um fjármál.
37. gr.
Fé til útgjalda.

Útvega skal fé til útgjalda stofnunarinnar með:

a)    fjármagni stofnunarinnar sjálfrar;
b)    greiðslum samningsríkjanna, byggðum á árgjöldum fyrir evrópsk einkaleyfi sem lögð eru á í þeim ríkjum;
c)    þegar þörf krefur, með sérstökum fjárframlögum samningsríkjanna;
d)    þegar við á, þeim tekjum sem kveðið er á um í 146. gr.

38. gr.
Tekjur stofnunarinnar.

Til eigin fjármagns stofnunarinnar teljast tekjur af gjöldum, sem mælt er fyrir um í samningi þessum, og allar aðrar tekjur hvaðan sem þær koma.

39. gr.
Greiðslur frá samningsríkjunum vegna árgjalda fyrir evrópsk einkaleyfi.

1.     Hvert samningsríki greiðir stofnuninni fjárhæð sem jafngildir hlutfalli, samkvæmt ákvörðun framkvæmdaráðsins, af árgjaldi sem samningsríkið fær greitt fyrir hvert evrópskt einkaleyfi; hlutfall þetta skal ekki vera hærra en 75 af hundraði og skal vera hið sama í öllum samningsríkjum. Ef fyrrnefnt hlutfall er lægri fjárhæð en föst lágmarksfjárhæð, sem framkvæmdaráðið ákveður, skal viðkomandi samningsríki samt sem áður greiða stofnuninni þá lágmarksfjárhæð.

2.     Hvert samningsríki lætur stofnuninni í té þær upplýsingar sem framkvæmdaráðið telur þörf á til að ákvarða greiðslur ríkisins.

3.     Framkvæmdaráðið ákveður gjalddaga greiðslnanna.
4.     Hafi greiðsla ekki verið að fullu innt af hendi á gjalddaga skal viðkomandi samningsríki greiða vexti frá gjalddaga af þeirri fjárhæð sem ógreidd er.

40. gr.
Gjaldskrá og greiðslur –
sérstök fjárframlög.

1.     Fjárhæðir gjalda skv. 38. gr. og hlutfall skv. 39. gr. skulu ákveðin þannig að tryggt sé að tekjur af þeim nægi til að stofnunin verði ekki rekin með tapi.


2.     Takist ekki að reka stofnunina taplaust, með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr., skulu samningsríkin engu að síður leggja stofnuninni til fé að fjárhæð sem framkvæmdaráðið ákveður fyrir viðkomandi reikningsskilatímabil.


3.     Ákveða ber þessi sérstöku fjárframlög fyrir hvert samningsríki á grundvelli fjölda umsókna um evrópsk einkaleyfi sem lagðar voru inn á næstliðnu ári, að undanskildu árinu næst á undan því þegar samningur þessi tók gildi og reiknast þau sem hér segir:

a)    að hálfu í hlutfalli við fjölda einkaleyfaumsókna sem lagðar voru inn í viðkomandi samningsríki;
b)    að hálfu í hlutfalli við næstmesta fjölda einkaleyfaumsókna sem lagðar voru inn í öðrum samningsríkjum af einstaklingum eða lögaðilum með aðsetur eða aðalstarfsstöð í viðkomandi samningsríki.
Þó skal sameina í eina heild þær fjárhæðir, sem þeim ríkjum ber að leggja fram, þar sem fjöldi einkaleyfaumsókna er yfir 25.000, og taka saman nýja skrá yfir sérstök fjárframlög miðaða við heildarfjölda einkaleyfaumsókna sem lagðar voru inn í þessum ríkjum.

4.     Þegar ekki er unnt að ákveða stöðu samningsríkis í skránni skv. 3. mgr. skal framkvæmdaráðið ákveða, með samþykki viðkomandi ríkis, stöðu þess í skránni.

5.     Ákvæði 3. og 4. mgr. 39. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um hin sérstöku fjárframlög.
6.     Endurgreiða ber hin sérstöku fjárframlög með vöxtum sem skulu vera jafnháir fyrir öll samningsríkin. Endurgreiðslur skulu inntar af hendi að því marki sem fjárhagsáætlun stofnunarinnar leyfir hverju sinni; fjárhæðinni skal skipt milli samningsríkjanna í samræmi við skrána sem um getur í 3. og 4. mgr. hér að framan.

7.     Hin sérstöku fjárframlög, sem send eru á hvaða reikningsskilatímabili sem er, skulu að fullu endurgreidd áður en til endurgreiðslu kemur á nokkrum slíkum fjárframlögum, eða hluta þeirra, sem send eru stofnuninni á síðari reikningsskilatímabilum.

41. gr.
Fyrirframgreiðslur.

1.     Að beiðni forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar ber samningsríkjunum að greiða til stofnunarinnar fyrirfram upp í greiðslur þeirra og framlög, innan marka þeirrar fjárhæðar sem framkvæmdaráðið ákveður. Slíkum fyrirframgreiðslum skal jafnað niður í hlutfalli við fjárhæðir sem aðildarríkjunum ber að greiða fyrir viðkomandi reikningsskilatímabil.

2.     Ákvæði 3. og 4. mgr. 39. gr. gilda að breyttu breytanda um fyrirframgreiðslurnar.

42. gr.
Fjárhagsáætlun.

1.     Áætla skal tekjur og útgjöld stofnunarinnar fyrir hvert reikningsskilatímabil og skulu þau tilgreind í fjárhagsáætluninni. Heimilt er, ef þörf krefur, að samþykkja breytingar á fjárhagsáætlunum eða aukafjárhagsáætlanir.
2.     Í fjárhagsáætlun skulu tekjur og gjöld standast á.

3.     Fjárhagsáætlun skal gerð í þeirri reikningseiningu sem tiltekin er í fjármálareglugerðinni.

43. gr.
Útgjaldaheimild.

1.     Útgjöld, sem færð eru í fjárhagsáætlun, eru heimiluð fyrir eitt reikningsskilatímabil í senn nema fjármálareglugerð kveði á um annað.

2.     Með fyrirvara um skilyrði, sem sett verða í fjármálareglugerðinni, er heimilt að færa fram til næsta árs sérhverja fjárveitingu, sem varðar ekki kostnað vegna starfsmanna og ónotuð er við lok reikningsskilatímabils, en þó ekki fram yfir lok næsta reikningsskilatímabils.
3.     Fjárveitingar skulu skráðar undir mismunandi liðum eftir eðli og tilgangi og sundurliðaðar eftir þörfum í samræmi við fjármálareglugerðina.


44. gr.
Fjárveitingar vegna ófyrirsjáanlegra útgjalda.

1.     Í fjárhagsáætlun stofnunarinnar er heimilt að veita fé vegna ófyrirsjáanlegra útgjalda.
2.     Notkun þessara fjárveitinga af hálfu stofnunarinnar skal háð fyrirframsamþykki framkvæmdaráðs.


45. gr.
Reikningsskilatímabil.

Reikningsskilatímabilið hefst 1. janúar og endar 31. desember.

46. gr.
Undirbúningur og samþykkt fjárhagsáætlunar.

1.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar leggur tillögu til fjárhagsáætlunar fyrir framkvæmdaráðið eigi síðar en kveðið er á um í fjármálareglugerðinni.

2.     Fjárhagsáætlun, breytingar á henni eða aukafjárhagsáætlun skal framkvæmdaráðið samþykkja.


47. gr.
Bráðabirgðafjárhagsáætlun.

1.     Hafi framkvæmdaráðið ekki samþykkt fjárhagsáætlun við upphaf reikningsskilatímabils má í hverjum mánuði inna af hendi greiðslur undir hverjum liði eða annarri einingu fjárhagsáætlunar, í samræmi við ákvæði fjármálareglugerðarinnar, allt að einum tólfta af fjárveitingum fyrra reikningsskilatímabils, enda séu fjárveitingarnar, sem forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar fær til ráðstöfunar með þessu móti, ekki umfram einn tólfta af því sem ráð er fyrir gert í tillögu til fjárhagsáætlunar.
2.     Framkvæmdaráðinu er heimilt, að uppfylltum öðrum ákvæðum 1. mgr., að samþykkja útgjöld umfram einn tólfta fjárveitinganna.

3.     Greiðslum skv. b-lið 37. gr. skal haldið áfram til bráðabirgða og þá með þeim skilmálum sem ákveðnir voru skv. 39. gr. fyrir árið næst á undan ári því sem tillaga að fjárhagsáætlun á við.

4.     Ef þörf er á sérstökum fjárframlögum til að tryggja framkvæmd 1. og 2. mgr. hér að framan skulu samningsríkin greiða þau mánaðarlega og þá til bráðabirgða og í samræmi við skrána sem um getur í 3. og 4. mgr. 40. gr. Ákvæði 4. mgr. 39. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um framlögin.


48. gr.
Framkvæmd fjárhagsáætlunar.

1.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar sér um framkvæmd fjárhagsáætlunar og breytinga á fjárhagsáætlunum eða aukafjárhagsáætlunar á eigin ábyrgð og innan marka samþykktra fjárveitinga.
2.     Innan ramma fjárhagsáætlunarinnar er forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar heimilt, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem sett eru í fjármálareglugerðinni, að færa fé milli ólíkra liða eða undirliða.

49. gr.
Endurskoðun reikninga.

1.     Endurskoðendur, sem hafið er yfir vafa að séu óháðir, skulu endurskoða rekstrarreikning og efnahagsreikning stofnunarinnar; þeir skulu skipaðir af framkvæmdaráðinu til fimm ára í senn og má endurnýja val þeirra eða framlengja það.
2.     Endurskoðun skal byggð á fylgiskjölum og fara fram á staðnum ef þörf krefur; staðfest skal að allar tekjur hafi verið mótteknar og öll gjöld innt af hendi á löglegan og réttan hátt og að fjárhagsstjórnin sé traust. Við lok hvers reikningsskilatímabils semja endurskoðendurnir skýrslu.

3.     Ár hvert leggur forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar fyrir framkvæmdaráðið reikninga síðasta reikningsskilatímabils miðað við fjárhagsáætlunina og efnahagsreikning, sem sýnir eignir og skuldir stofnunarinnar, ásamt skýrslu endurskoðendanna.

4.     Framkvæmdaráðið samþykkir ársreikningana ásamt skýrslu endurskoðendanna og veitir forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar heimild til að framkvæma fjárhagsáætlunina.


50. gr.
Fjármálareglugerð.

Í fjármálareglugerðinni skal einkum ákveða:

a)    hvernig staðið skal að því að semja og framkvæma fjárhagsáætlunina og færa reikninga og endurskoða þá;
b)    hvernig og með hvaða móti samningsríkin skulu inna af hendi til stofnunarinnar greiðslur og framlög skv. 37. gr. og fyrirframgreiðslur skv. 41. gr.;

c)    reglur um ábyrgð starfsmanna sem sjá um reikningshald og útborganir og fyrirkomulag eftirlits með störfum þeirra;
d)    vexti skv. 39., 40. og 47. gr.;

e)    hvernig framlögin, sem greiða ber með vísun til 146. gr., skuli reiknuð;
f)    samsetningu fjárhags- og fjármálanefndar, sem framkvæmdarráðið skal setja á stofn, og hvaða verksvið henni skuli falið.

51. gr.
Reglur um gjöld.

Reglur um gjöld skulu einkum ákvarða fjárhæðir gjaldanna og með hvaða móti þau skulu innt af hendi.

II. HLUTI
Efnisleg ákvæði einkaleyfalaga.

I. kafli.
Einkaleyfishæfi.
52. gr.
Einkaleyfishæfar uppfinningar.

1.     Veita skal evrópskt einkaleyfi fyrir uppfinningu sem er hagnýtanleg í atvinnulífi, ný og frumleg.

2.     Eftirfarandi telst einkum ekki til uppfinninga í skilningi 1. mgr.:
a)    uppgötvanir, vísindakenningar og stærðfræðiaðferðir;
b)    listræn verk;
c)    skipulag, reglur og aðferðir við hugarstarfsemi, leiki eða viðskipti, svo og tölvuforrit;

d)    framsetning upplýsinga.
3.     Ákvæði 2. mgr. koma í veg fyrir einkaleyfishæfi efnis eða athafna, sem um getur í ákvæðinu, einungis að því marki sem evrópskt einkaleyfi eða umsókn um evrópskt einkaleyfi varðar slíkt efni eða athöfn sem slíka.
4.     Aðferðir við handlækningar eða sjúkdómsmeðferð og sjúkdómsgreiningu á mönnum eða dýrum verða ekki taldar til uppfinninga sem eru til þess fallnar að hagnýta í atvinnulífi í skilningi 1. mgr. Ákvæði þessi gilda ekki um afurðir, einkum efni eða efnasamsetningar, til nota við einhverjar slíkar aðferðir.


53. gr.
Undantekningar frá einkaleyfishæfi.

Ekki má veita evrópskt einkaleyfi þegar um er að ræða:
a)    uppfinningar þar sem birting þeirra eða hagnýting myndi stríða gegn allsherjarreglu eða siðgæði og verður hagnýtingin þó ekki talin brjóta gegn slíku vegna þess eins að hún sé bönnuð með lögum eða reglum í einhverjum eða öllum samningsríkjunum;
b)    plöntu- eða dýraafbrigði eða aðferðir til að framleiða plöntur eða dýr sem eru í grundvallaratriðum líffræðilegs eðlis; ákvæði þetta gildir hvorki um örverufræðilegt ferli né afurðir sem rekja má til slíks ferlis.

54. gr.
Nýnæmi.

1.     Uppfinning telst ný ef hún er ekki hluti af þekktri tækni á hverjum tíma á viðkomandi sviði.
2.     Til þess sem þekkt er á hverjum tíma telst allt sem hefur verið gert aðgengilegt almenningi með skriflegri eða munnlegri lýsingu, með notkun eða einhverju öðru móti, fyrir þann dag er umsókn um evrópskt einkaleyfi er lögð inn.
3.     Þar að auki skal innihald umsókna um evrópskt einkaleyfi, eins og þær eru lagðar inn og ef umsóknardagur þeirra er fyrir þann dag er um getur í 2. mgr. og þær eru birtar skv. 93. gr. á þeim degi eða seinna, teljast hluti af því sem þekkt er á hverjum tíma á viðkomandi sviði.
4.     Ákvæðum 3. mgr. skal því aðeins beitt að samningsríki, sem tilnefnt var í seinni umsókninni, hafi einnig verið tilnefnt í fyrri umsókninni eins og hún er birt.
5.     Ákvæði 1.–4. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir einkaleyfishæfi efnis eða samsetningar sem er hluti af því sem þekkt er á hverjum tíma á viðkomandi sviði og nota skal í aðferð skv. 4. mgr. 52. gr., að því tilskildu að notkun þess í tengslum við hverja þá aðferð, er um getur í þeirri málsgrein, sé ekki hluti af núverandi þekkingu.

55. gr.
Birtingar sem skerða ekki rétt.

1.     Að því er beitingu 54. gr. varðar skal ekki taka til greina birtingu uppfinningar hafi hún átt sér stað eigi fyrr en sex mánuðum áður en sótt er um evrópskt einkaleyfi og slík birting er komin til vegna eða sem afleiðing af:
a)    greinilegri misnotkun gagnvart umsækjanda eða fyrirrennara hans að lögum; eða
b)    því að umsækjandi eða fyrirrennari hans að lögum hefur sýnt uppfinninguna á opinberri eða opinberlega viðurkenndri alþjóðlegri sýningu sem fellur undir skilyrði samnings um alþjóðlegar sýningar sem undirritaður var í París 22. nóvember 1928 og síðast var breytt 30. nóvember 1972.
2.     Þegar b-liður 1. mgr. á við skulu ákvæði 1. mgr. einungis gilda ef umsækjandi lýsir yfir því, þegar hann sækir um evrópskt einkaleyfi, að uppfinningin hafi verið þannig sýnd og leggur inn vottorð því til staðfestingar innan þess frests og samkvæmt þeim skilyrðum sem framkvæmdareglugerðin kveður á um.

56. gr.
Frumleikastig.

Uppfinning telst fela í sér frumleikastig sé hún ekki, með tilliti til þess sem þekkt er á hverjum tíma á viðkomandi sviði, augljós kunnáttumanni á umræddu sviði. Ef í þekktri tækni felast einnig skjöl í skilningi 3. mgr. 54. gr. skal ekki taka slík skjöl til greina þegar skorið er úr um það hvort um frumleikastig er að ræða.

57. gr.
Hagnýting í atvinnulífi.

Uppfinning telst hagnýtanleg í atvinnulífi ef unnt er að framleiða hana eða nota í hvers konar atvinnustarfsemi, þar á meðal landbúnaði.

II. kafli.
Hverjir mega sækja um og öðlast evrópskt einkaleyfi – uppfinningamanns sé getið.
58. gr.
Réttur til að sækja um evrópskt einkaleyfi.

Rétt til að sækja um evrópskt einkaleyfi hefur hver einstaklingur eða lögaðili, svo og hver aðili sem hefur réttarstöðu lögaðila samkvæmt þeim lögum sem um hann gilda.

59. gr.
Fleiri umsækjendur.

Umsækjendum er einnig heimilt að sækja í sameiningu um evrópskt einkaleyfi, svo og tveimur eða fleiri umsækjendum sem tilnefna ólík samningsríki.

60. gr.
Réttur til evrópsks einkaleyfis.

1.     Rétt til evrópsks einkaleyfis á uppfinningamaðurinn eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Ef uppfinningamaðurinn er launþegi ákvarðast rétturinn til evrópsks einkaleyfis af lögum ríkisins þar sem launþeginn starfar aðallega en ef ekki er unnt að ákvarða í hvaða ríki launþeginn starfar aðallega skal beita lögum ríkisins þar sem atvinnurekandinn hefur starfsstöð sem launþeginn tengist.

2.     Hafi tveir eða fleiri einstaklingar komið fram með uppfinningu, óháðir hvor eða hver öðrum, skal sá eiga réttinn til evrópsks einkaleyfis sem fyrst sækir um hann; þó gildir þetta ákvæði einungis ef fyrsta umsókn hefur verið birt skv. 93. gr. og þá einungis gagnvart þeim samningsríkjum sem tilnefnd eru í umsókninni eins og hún er birt.

3.     Í máli hjá Evrópsku einkaleyfastofunni skal litið svo á að umsækjanda sé heimilt að fara með réttinn til evrópska einkaleyfisins.


61. gr.
Umsóknir um evrópskt einkaleyfi frá einstaklingum sem eiga ekki rétt til evrópsks einkaleyfis.

1.     Ef talið er í lokaákvörðun að einstaklingur, sem getið er um í 1. mgr. 60. gr. og er annar en umsækjandinn, eigi rétt á að öðlast evrópskt einkaleyfi er þeim einstaklingi heimilt, innan þriggja mánaða frá því að ákvörðunin er gerð endanleg, að því tilskildu að evrópska einkaleyfið hafi ekki enn verið veitt, að því er varðar þau samningsríki sem tilnefnd eru í umsókninni um evrópskt einkaleyfi og þar sem ákvörðunin um hana var tekin eða hefur verið viðurkennd eða þar sem skylt er að viðurkenna hana á grundvelli bókunar um viðurkenningu sem fylgir samningi þessum:
a)    að fylgja umsókninni um evrópskt einkaleyfi eftir í eigin nafni í stað umsækjandans;
b)    að leggja inn nýja umsókn um evrópskt einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu; eða
c)    fara fram á að umsókninni verði hafnað.
2.     Ákvæði 1. mgr. 76. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um nýja umsókn um evrópskt einkaleyfi sem lögð er inn skv. 1. mgr.
3.     Framkvæmdareglugerðin mælir fyrir um málsmeðferðina, sem fylgja ber við beitingu ákvæða 1. mgr., um sérstök skilyrði, sem gilda um nýja umsókn sem lögð er inn skv. 1. mgr., og um frestinn til að greiða umsóknar-, nýnæmisrannsóknar- og tilnefningargjald.

62. gr.
Réttur uppfinningamanns til þess
að nafns hans sé getið.

Uppfinningamaður hefur rétt gagnvart umsækjanda um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfishafa að hans sé getið við Evrópsku einkaleyfastofuna sem uppfinningamanns.

III. kafli.
Áhrif evrópsks einkaleyfis og
umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

63. gr.
Gildistími evrópsks einkaleyfis.

1.     Evrópskt einkaleyfi gildir í tuttugu ár frá umsóknardeginum.
2.     Ekkert í undanfarandi málsgrein takmarkar rétt samningsríkis til að framlengja gildistíma evrópsks einkaleyfis eða veita samsvarandi vernd sem tekur gildi strax að einkaleyfinu útrunnu með sömu skilyrðum og gilda um landsbundin einkaleyfi:

a)    til þess að bregðast við stríðsástandi eða álíka neyðarástandi sem varðar það ríki;
b)    ef efni evrópska einkaleyfisins er vara eða framleiðsluaðferð á vöru eða notkun vöru sem ekki má setja á markað í ríkinu fyrr en uppfyllt eru skilyrði laga um opinbera leyfisveitingarmeðferð.

3.     Ákvæði 2. mgr. skulu gilda að breyttu breytanda um evrópsk einkaleyfi sem veitt eru sameiginlega fyrir hóp samningsríkja í samræmi við 142. gr.
4.     Samningsríki, sem setur ákvæði um framlengingu gildistíma eða samsvarandi vernd skv. b-lið 2. mgr., er heimilt, í samræmi við samning við stofnunina, að fela Evrópsku einkaleyfastofunni verk sem tengjast framkvæmd á viðkomandi ákvæðum.


64. gr.
Réttindi sem evrópskt einkaleyfi veitir.

1.     Evrópskt einkaleyfi veitir einkaleyfishafa, að því marki sem kveðið er á um í ákvæðum 2. mgr. og frá þeim degi að tilkynning birtist um veitingu þess og í hverju samningsríki sem það er veitt fyrir, sömu réttindi og þau sem felast í landsbundnu einkaleyfi í því ríki.
2.     Ef efni evrópsks einkaleyfis er aðferð nær verndin, sem einkaleyfið veitir, einnig til þeirra afurða sem fengnar eru beint með slíkri aðferð.

3.     Um brot gegn evrópsku einkaleyfi fer samkvæmt landslögum.

65. gr.
Þýðing á texta
evrópsks einkaleyfis.

1.     Hvert samningsríki getur mælt svo fyrir að sé textinn, sem Evrópska einkaleyfastofan hyggst nota til að veita evrópskt einkaleyfi eða halda í gildi evrópsku einkaleyfi með breytingum þannig að gilt sé fyrir viðkomandi ríki, ekki saminn á einu opinberra tungumála þess beri umsækjanda eða einkaleyfishafa að leggja fram, hjá aðalhugverkastofu í því ríki, þýðingu á textanum á eitt opinberra tungumála þess að hans vali eða, ef ríkið hefur tiltekið notkun eins opinbers tungumáls, á því máli. Fresturinn til að leggja fram þýðinguna rennur út þremur mánuðum eftir þann dag þegar tilkynning um veitingu evrópska einkaleyfisins eða gildi þess með áorðnum breytingum er birt í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar, nema hlutaðeigandi ríki kveði á um lengri frest.
2.     Hverju samningsríki, sem hefur samþykkt ákvæði í samræmi við 1. mgr., er heimilt að kveða á um að umsækjandi um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfishafi greiði kostnað við birtingu slíkrar þýðingar að fullu eða að hluta innan frests sem ríkið ákveður.
3.     Séu ákvæði, sem samþykkt eru í samræmi við 1. og 2. mgr., ekki uppfyllt er hverju samningsríki heimilt að mæla svo fyrir að evrópska einkaleyfið teljist ógilt frá upphafi í því ríki.


66. gr.
Umsókn um evrópskt einkaleyfi jafngildir landsbundinni umsókn.

Umsókn um evrópskt einkaleyfi, sem hefur fengið umsóknardag, telst jafngilda venjulegri landsbundinni umsókn í tilnefndum samningsríkjum og nýtur forgangs, þegar við á, eins og krafist er í umsókninni um evrópskt einkaleyfi.

67. gr.
Réttindi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi
veitir eftir birtingu.

1.     Frá þeim degi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi er birt skv. 93. gr. veitir hún umsækjandanum til bráðabirgða þá vernd sem veitt er skv. 64. gr. í samningsríkjunum sem tilnefnd eru í umsókninni eins og hún er birt.
2.     Hverju samningsríki er heimilt að mæla svo fyrir að umsókn um evrópskt einkaleyfi veiti ekki þá vernd sem veitt er með 64. gr. Þó má sú vernd, sem fylgir birtingu umsóknar um evrópskt einkaleyfi, ekki vera minni en sú er lög hlutaðeigandi ríkisins veita lögbundinni birtingu órannsakaðra umsókna um landsbundið einkaleyfi. Í öllum tilvikum ber hverju ríki að sjá til þess að umsækjandi geti, frá þeim degi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi birtist, krafist bóta, sem sanngjarnar teljast miðað við aðstæður, frá hverjum þeim er notar uppfinninguna í því ríki við þær aðstæður að skapa mundi bótaskyldu samkvæmt landslögum vegna brots á landsbundnu einkaleyfi.

3.     Hverju samningsríki, þar sem tungumál málsmeðferðarinnar er ekki opinbert tungumál, er heimilt að mæla svo fyrir að bráðabirgðavernd skv. 1. og 2. mgr. hér að framan taki ekki gildi fyrr en þýðing einkaleyfiskrafnanna á eitt opinberra tungumála þess, að vali umsækjanda, eða, þegar ríkið hefur tiltekið notkun eins tilskilins opinbers tungumáls, á það mál:

a)    hefur verið gerð aðgengileg almenningi á þann hátt sem landslög kveða á um; eða
b)    henni hefur verið komið á framfæri við þann er notar uppfinninguna í fyrrnefndu ríki.
4.     Hafi umsóknin um evrópskt einkaleyfi verið dregin til baka, talin vera dregin til baka eða endanlega hafnað telst hún aldrei hafa haft þau áhrif sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. hér að framan. Það sama gildir um áhrif evrópsks einkaleyfis í samningsríki ef tilnefning ríkisins er dregin til baka eða telst vera dregin til baka.

68. gr.
Áhrif ógildingar evrópsks einkaleyfis.

Umsókn um evrópskt einkaleyfi og einkaleyfi, sem af henni leiðir, teljast frá upphafi ekki hafa haft áhrif, sem kveðið er á um í 64. og 67. gr., að því leyti sem einkaleyfið hefur verið ógilt við andmælameðferð.

69. gr.
Umfang verndar.

1.     Umfang verndar, sem leiðir af evrópsku einkaleyfi eða umsókn um evrópskt einkaleyfi, ákvarðast af orðalagi einkaleyfiskrafnanna. Þó skal nota lýsinguna og teikningarnar við túlkun einkaleyfiskrafnanna.
2.     Uns evrópskt einkaleyfi er veitt skal umfang verndar, sem leiðir af umsókn um evrópskt einkaleyfi, ákvarðast af þeim einkaleyfiskröfum sem síðast voru lagðar inn og tilgreindar voru við birtingu skv. 93. gr. Þó skal evrópskt einkaleyfi, eins og það er veitt eða eins og því var breytt við andmælameðferð, ákvarða afturvirkt hvaða vernd leiðir af umsókninni um evrópskt einkaleyfi að því tilskildu að verndin sé ekki gerð víðtækari.

70. gr.
Fullgildur texti umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis.

1.     Texti umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis á tungumáli málsmeðferðarinnar skal vera fullgildur texti í öllum málum hjá Evrópsku einkaleyfastofunni og í hverju samningsríki.

2.     Þó skal frumtexti, í tilvikum sem um getur í 2. mgr. 14. gr., lagður til grundvallar í málsmeðferð hjá Evrópsku einkaleyfastofunni við ákvörðun um hvort efni umsóknarinnar eða einkaleyfisins nær út fyrir innihald umsóknarinnar eins og hún er lögð inn.

3.     Hverju samningsríki er heimilt að kveða á um að þýðing, eins og ráð er fyrir gert í samningi þessum, á opinberu tungumáli hlutaðeigandi ríkis teljist ráða úrslitum í því ríki nema í ógildingarmálum ef svo stendur á að umsóknin eða einkaleyfið á tungumáli þýðingarinnar veitir þrengri vernd en þá sem veitt er samkvæmt tungumáli málsmeðferðarinnar.

4.     Hvert samningsríki, sem samþykkir ákvæði í samræmi við 3. mgr.:
a)    skal veita umsækjanda um einkaleyfi eða einkaleyfishafa færi á að leggja inn leiðrétta þýðingu á umsókninni um evrópskt einkaleyfi eða evrópska einkaleyfinu; leiðrétta þýðingin hefur ekki réttaráhrif fyrr en hver þau skilyrði, sem samningsríkið setur skv. 2. mgr. 65. gr. og 3. mgr. 67. gr., hafa verið uppfyllt að breyttu breytanda;

b)    getur kveðið á um að einstaklingi í því ríki, sem í góðri trú notar uppfinningu eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess, sé heimilt að halda áfram slíkri notkun í starfsemi sinni eða vegna þarfa hennar án greiðslna eftir að leiðrétta þýðingin hefur tekið gildi, enda gangi slík notkun ekki í berhögg við umsóknina eða einkaleyfið samkvæmt upprunalegu þýðingunni.


IV. kafli.
Umsókn um evrópskt einkaleyfi
sem andlag eignarréttar.
71. gr.
Yfirfærsla og tilurð réttinda.

Heimilt er að yfirfæra umsókn um evrópskt einkaleyfi eða að hún myndi grundvöll að réttindum í einu eða fleiri tilnefndra samningsríkja.

72. gr.
Framsal.

Framsal á umsókn um evrópskt einkaleyfi skal vera skriflegt og skulu samningsaðilar undirrita það.


73. gr.
Samningar um nytjaleyfi.

Umsókn um evrópskt einkaleyfi getur verið andlag nytjaleyfis í heild eða að hluta á öllum eða einhverjum landsvæðum þeirra samningsríkja sem tilnefnd eru.

74. gr.
Gildandi löggjöf.

Lögin, er gilda um landsbundnar einkaleyfaumsóknir í hverju samningsríki, skulu gilda í því ríki og gagnvart því um umsókn um evrópskt einkaleyfi sem andlag eignarréttar nema annað sé tekið fram í samningi þessum.

III. HLUTI
Umsókn um evrópskt einkaleyfi.

I. kafli.
Innlagning umsóknar um evrópskt einkaleyfi
og kröfur sem hún skal uppfylla.
75. gr.
Innlagning umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

1.     Leggja má inn umsókn um evrópskt einkaleyfi:
a)    hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í München eða útibúi hennar í Haag; eða
b)    ef lög samningsríkis heimila slíkt, hjá aðalhugverkastofu eða hjá annarri valdbærri stofnun hlutaðeigandi ríkis; umsókn, sem lögð er inn með þessum hætti, hefur sömu áhrif og hefði slík umsókn verið lögð inn sama dag hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir beitingu laga- eða reglugerðarákvæða sem í einhverju samningsríki:
a)    gilda um uppfinningar, sem vegna eðlis þeirra má ekki skýra frá í öðrum löndum án leyfis valdbærra aðila í því samningsríki; eða

b)    kveða á um að hver umsókn skuli upphaflega lögð inn hjá einkaleyfastofnun landsins eða að innlagning beint hjá annarri stofnun sé háð heimild fyrirfram.
3.     Ekkert samningsríki má kveða á um eða heimila að hlutunarumsóknir fyrir Evrópu séu lagðar inn hjá stofnun sem um getur í b-lið 1. mgr.

76. gr.
Evrópsk hlutunarumsókn.

1.     Leggja verður inn evrópska hlutunarumsókn beint hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í München eða útibúi hennar í Haag. Hana má einungis leggja inn um efni sem nær ekki út fyrir efni fyrri umsóknar eins og hún var lögð inn; sé farið eftir þessu ákvæði telst hlutunarumsóknin hafa verið lögð inn á umsóknardegi fyrri umsóknarinnar og nýtur forgangsréttar eins og hún.

2.     Í hlutunarumsókn fyrir Evrópu er ekki heimilt að tilnefna samningsríki sem voru ekki tilnefnd í fyrri umsókn.
3.     Framkvæmdareglugerðin mælir fyrir um málsmeðferð sem fylgja ber við beitingu ákvæða 1. mgr., sérstök skilyrði sem hlutunarumsókn, lögð fram samkvæmt 1. mgr., verður að uppfylla og frest til að greiða umsóknar-, rannsóknar- og tilnefningargjald.


77. gr.
Framsending umsókna um evrópskt einkaleyfi.

1.     Aðalhugverkastofu í samningsríki er skylt að framsenda Evrópsku einkaleyfastofunni, svo skjótt sem samrýmist landslögum um leynd uppfinninga í þágu ríkisins, allar umsóknir um evrópskt einkaleyfi sem hafa verið lagðar inn hjá þeirri stofu eða öðrum valdbærum aðilum í ríkinu.


2.     Samningsríkjum ber að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá til þess að umsóknir um evrópskt einkaleyfi, sem fjalla ekki um efni sem er bundið leynd samkvæmt þeim lögum sem um getur í 1. mgr., séu framsendar Evrópsku einkaleyfastofunni innan sex vikna frá innlagningu.
3.     Umsóknir um evrópskt einkaleyfi, sem þurfa nánari skoðun að því er varðar leynd þeirra, skulu framsendar þannig að þær berist Evrópsku einkaleyfastofunni innan fjögurra mánaða frá innlagningu þeirra eða, sé krafist forgangs, innan fjórtán mánaða frá forgangsréttardegi.
4.     Ef efni umsóknar um evrópskt einkaleyfi hefur verið bundið leynd skal hún ekki framsend Evrópsku einkaleyfastofunni.
5.     Umsóknir um evrópskt einkaleyfi, sem berast ekki Evrópsku einkaleyfastofunni áður en fullir fjórtán mánuðir eru liðnir frá innlagningu þeirra, eða, sé krafist forgangs, frá forgangsdegi þeirra, teljast hafa verið dregnar til baka. Endurgreiða ber umsóknar-, rannsóknar- og tilnefningargjöldin.

78. gr
Kröfur til umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

1.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal geyma:
a)    beiðni um veitingu evrópsks einkaleyfis;
b)    lýsingu á uppfinningunni;
c)    einkaleyfiskröfu eða -kröfur;
d)    teikningar sem vísað er til í lýsingunni eða einkaleyfiskröfunum;
e)    ágrip.
2.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal háð greiðslu umsóknargjalds og rannsóknargjalds innan eins mánaðar eftir að umsóknin er lögð inn.
3.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi verður að uppfylla skilyrði sem sett eru í framkvæmdareglugerðinni.

79. gr.
Tilnefning samningsríkja.

1.     Í beiðni um veitingu evrópsks einkaleyfis skal tilnefna samningsríkið eða -ríkin þar sem óskað er eftir vernd uppfinningarinnar.

2.     Tilnefning samningsríkis skal háð greiðslu tilskilins tilnefningargjalds. Greiða ber tilnefningargjöldin innan sex mánaða frá þeim degi er getið er um birtingu evrópsku nýnæmisrannsóknarskýrslunnar í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.
3.     Draga má til baka tilnefningu samningsríkis hvenær sem er fram að veitingu evrópsks einkaleyfis. Sé tilnefning allra samningsríkja dregin til baka telst umsókn um evrópskt einkaleyfi hafa verið dregin til baka. Tilnefningargjöldin verða ekki endurgreidd.

80. gr.
Umsóknardagur.

Sá dagur er umsókn um evrópskt einkaleyfi er lögð inn telst vera sá dagur þegar umsækjandi leggur inn skjöl með:
a)    tilkynningu um að sótt sé um evrópskt einkaleyfi;
b)    tilnefningu a.m.k. eins samningsríkis;
c)    upplýsingum um umsækjanda;
d)    lýsingu og einkaleyfiskröfu eða -kröfum á einu þeirra tungumála, sem getið er um í 1. og 2. mgr. 14. gr., jafnvel þótt lýsingin og einkaleyfiskröfurnar uppfylli ekki önnur skilyrði samnings þessa.

81. gr.
Uppfinningamaður tilgreindur.

Í umsókn um evrópskt einkaleyfi ber að greina frá uppfinningamanninum. Ef umsækjandi er annar en uppfinningamaðurinn eða er ekki eini uppfinningamaðurinn verður að fylgja tilnefningunni yfirlýsing um uppruna réttarins til evrópsks einkaleyfis.

82. gr.
Uppfinningaheild.

Í umsókn um evrópskt einkaleyfi má einungis fjalla um eina uppfinningu eða röð uppfinninga þannig tengdar að þær myndi eina almenna og frumlega hugmynd.

83. gr.
Skýring á uppfinningu.

Í umsókn um evrópskt einkaleyfi ber að skýra uppfinninguna nægilega vel og rækilega til þess að kunnáttumaður á viðkomandi sviði geti útfært hana.


84. gr.
Einkaleyfiskröfur.

Í einkaleyfiskröfunum ber að skilgreina hvað óskast verndað. Þær skulu vera skýrar og hnitmiðaðar og styðjast við lýsinguna.

85. gr.
Ágrip.

Ágripinu er einungis ætlað að veita tæknilegar upplýsingar; það má ekki nota í öðrum tilgangi, til dæmis til að túlka umfang verndar, sem sótt er um, eða í því augnamiði að beita 3. mgr. 54. gr.


86. gr.
Árgjöld vegna umsókna um evrópskt einkaleyfi.

1.     Greiða ber árgjöld til Evrópsku einkaleyfastofunnar í samræmi við framkvæmdareglugerðina um umsóknir um evrópskt einkaleyfi. Greiða ber gjöldin fyrir hvert ár frá og með þriðja ári eftir að umsóknin var lögð inn.

2.     Hafi árgjald ekki verið greitt á eða fyrir gjalddaga er heimilt að greiða gjaldið innan sex mánaða frá þeim degi enda sé viðbótargjald greitt á sama tíma.
3.     Hafi árgjald og viðbótargjald, ef við á, ekki verið greitt innan tilskilins frests telst umsóknin um evrópskt einkaleyfi hafa verið dregin til baka. Evrópska einkaleyfastofan er ein bær um að ákvarða hvort svo sé.
4.     Greiðsluskyldu árgjalda lýkur þegar greitt hefur verið árgjald fyrir árið þegar tilkynning um veitingu evrópsks einkaleyfis er birt.


II. kafli.
Forgangur.
87. gr.
Forgangur.

1.     Sá sem hefur lagt inn, í eða fyrir ríki sem er aðili að Parísarsamningnum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, löglega umsókn um einkaleyfi, skráningu smáeinkaleyfis, smáeinkaleyfavottorð eða vottorð uppfinningamanns, eða þeir sem hafa öðlast rétt hans, skal, þegar sótt er um evrópskt einkaleyfi vegna sömu uppfinningar, njóta forgangsréttar í tólf mánuði frá umsóknardegi fyrstu umsóknarinnar.


2.     Viðurkenna ber að hver umsókn, sem jafngildir venjulegri landsbundinni umsókn samkvæmt lögum þess ríkis þar sem hún er lögð inn, eða samkvæmt tvíhliða samningum eða marghliða samningum, þar á meðal samningi þessum, veiti forgangsrétt.
3.     Með venjulegri landsbundinni umsókn er átt við hverja þá umsókn sem nægir til að staðfesta innlagningardag umsóknarinnar hver svo sem afgreiðsla umsóknarinnar kann að verða.
4.     Líta ber á síðari umsókn, sem fjallar um sama efni og fyrri fyrsta umsókn gerir og lögð er inn í eða fyrir sama ríki, sem fyrstu umsóknina að því er lýtur að ákvörðun forgangs, þó að því tilskildu að á innlagningardegi síðari umsóknarinnar hafi fyrri umsóknin verið dregin til baka, hún lögð til hliðar eða henni hafnað án þess að hafa verið aðgengileg almenningi og án þess að skilja eftir nokkur réttindi, og að hún hafi ekki verið grundvöllur fyrir kröfu um forgangsrétt. Eftir það getur fyrri umsóknin ekki orðið grundvöllur fyrir kröfu um forgangsrétt.
5.     Hafi fyrri umsókn verið lögð inn í ríki, sem er ekki aðili að Parísarsamningnum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, gilda ákvæði 1.–4. mgr. einungis að því marki sem það ríki veitir forgangsrétt, sem hefur jafngild áhrif, samkvæmt tilkynningu sem framkvæmdaráðið hefur birt og tvíhliða eða marghliða samningum og á grundvelli fyrstu umsóknar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni og einnig á grundvelli fyrstu umsóknar, sem gerð er í eða fyrir samningsríki, og samkvæmt skilyrðum sem jafngilda þeim sem sett eru í Parísarsamningnum.


88. gr.
Krafa um forgang.

1.     Umsækjandi um evrópskt einkaleyfi, sem óskar eftir að njóta forgangs vegna fyrri umsóknar, skal leggja inn yfirlýsingu um forgang, afrit af fyrri umsókninni og, ef sú síðarnefnda er ekki á einu af opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar, þýðingu á eitthvert þeirra tungumála. Í framkvæmdareglugerðinni er kveðið á um málsmeðferðina sem fylgja ber við að framkvæma þessi ákvæði.

2.     Unnt er að krefjast margþætts forgangs fyrir umsókn um evrópskt einkaleyfi þó að réttindi eigi rót sína að rekja til mismunandi landa. Þegar við á má krefjast margþætts forgangs fyrir sérhverja einkaleyfiskröfu. Þegar margþætts forgangs er krafist skulu þau tímamörk, sem hefjast á upphafsdegi forgangs, ganga í gildi á fyrsta forgangsdegi.
3.     Ef krafist er eins konar eða margs konar forgangs í tengslum við umsókn um evrópskt einkaleyfi skal forgangsrétturinn einungis ná til þeirra atriða í umsókninni sem eru í umsókninni eða umsóknunum sem forgangs er krafist fyrir.
4.     Ef forgangs er krafist fyrir einhver atriði uppfinningarinnar, sem voru ekki meðal einkaleyfiskrafnanna í fyrri umsókninni, er þó unnt að veita forgang enda sé þessara atriða sérstaklega getið í þeim gögnum sem fylgdu fyrri umsókn.


89. gr.
Áhrif forgangsréttar.

Forgangsréttur hefur þau áhrif að forgangsréttardagurinn telst innlagningardagur umsóknar um evrópskt einkaleyfi að því er varðar 2. og 3. mgr. 54. gr. og 2. mgr. 60. gr.

IV. HLUTI
Málsmeðferð fram að veitingu einkaleyfis.
90. gr.
Athugun umsókna við innlagningu.

1.     Móttökudeild athugar hvort:
a)    umsókn um evrópskt einkaleyfi uppfylli skilyrðin fyrir því að henni sé gefinn umsóknardagur;
b)    umsóknargjald og rannsóknargjald hafi verið greitt á tilskildum tíma;
c)    þýðing á umsókninni um evrópskt einkaleyfi á tungumál málsmeðferðarinnar hafi verið lögð fram á tilskildum tíma í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr.
2.     Ef ekki er unnt að gefa umsókninni umsóknardag ber móttökudeildinni að gefa umsækjanda færi á að lagfæra ágalla í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Verði ágallarnir ekki lagfærðir á tilskildum tíma skal ekki meðhöndla umsóknina eins og umsókn um evrópskt einkaleyfi.
3.     Hafi umsóknar- og rannsóknargjald ekki verið greitt á tilskildum tíma eða, í tilvikum sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr., þýðingin á tungumál málsmeðferðarinnar ekki verið lögð inn á tilskildum tíma skal litið svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka.

91. gr.
Athugun á formkröfum.

1.     Hafi umsókn um evrópskt einkaleyfi verið gefinn umsóknardagur og hún telst ekki hafa verið dregin til baka skv. 3. mgr. 90. gr. athugar móttökudeildin hvort:
a)    skilyrði 2. mgr. 133. gr. séu uppfyllt;

b)    umsóknin uppfylli skilyrði um form og framsetningu sem sett eru í framkvæmdareglugerðina um beitingu þessa ákvæðis;
c)    ágripið hafi verið lagt inn;
d)    beiðni um veitingu evrópsks einkaleyfis uppfylli lögbundin ákvæði í framkvæmdareglugerðinni um innihald hennar og, þegar við á, hvort skilyrði samnings þessa um kröfuna um forgangsrétt séu uppfyllt;

e)    tilnefningargjöld hafi verið greidd;
f)    uppfinningamanns sé getið í samræmi við 81. gr.;

g)    teikningar skv. d-lið 1. mgr. 78. gr. hafi verið lagðar inn á innlagningardegi umsóknarinnar.

2.     Telji móttökudeildin að ágallar séu á umsókninni, sem unnt er að lagfæra, skal hún gefa umsækjanda færi á að lagfæra þá í samræmi við framkvæmdareglugerðina.
3.     Séu einhverjir ágallar, sem bent er á í rannsókn skv. a- til d-lið 1. mgr., ekki lagfærðir í samræmi við framkvæmdareglugerðina, ber að hafna umsókninni; þegar ákvæði, sem getið er um í d-lið 1. mgr., lúta að forgangsrétti tapast þessi réttur að því að umsóknina varðar.
4.     Þegar tilnefningargjald hefur, í tilvikum sem getið er um í e-lið 1. mgr., ekki verið greitt á tilskildum tíma, að því er eitthvert tilnefnt ríki varðar, telst tilnefning þess ríkis hafa verið dregin til baka.
5.     Þegar uppfinningamannsins er, í tilvikum sem getið er um í f-lið 1. mgr., ekki getið og ekki er bætt úr því, í samræmi við framkvæmdareglugerðina og með tilliti til undantekninganna sem þar er mælt fyrir um, innan sextán mánaða frá innlagningardegi umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða, ef forgangsréttar er krafist frá forgangsréttardegi, telst umsóknin hafa verið dregin til baka.
6.     Þegar teikningar eru, í tilvikum sem getið er um í g-lið 1. mgr., ekki lagðar inn á innlagningardegi umsóknarinnar og ekkert hefur verið gert til að lagfæra þennan ágalla í samræmi við framkvæmdareglugerðina ber annaðhvort að gefa umsókninni nýjan umsóknardag, þegar teikningar eru lagðar inn, eða telja allar tilvísanir til þeirra í umsókninni felldar brott, eftir vali umsækjanda í samræmi við framkvæmdareglugerðina.


92. gr.
Gerð evrópskrar nýnæmisrannsóknarskýrslu.

1.     Ef umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur fengið umsóknardag og telst ekki hafa verið dregin til baka skv. 3. mgr. 90. gr. skal nýnæmisrannsóknardeildin semja evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslu á grundvelli krafnanna, og þá með tilhlýðilegu tilliti til lýsingarinnar og teikninganna ef við á, í þeirri mynd sem framkvæmdareglugerðin mælir fyrir um.
2.     Strax eftir að evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslan hefur verið samin skal senda umsækjanda hana ásamt afritum af öllum gögnum sem vísað hefur verið til.

93. gr.
Birting umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

1.     Birta skal umsókn um evrópskt einkaleyfi eins fljótt og unnt er eftir að átján mánuðir eru liðnir frá umsóknardegi eða, ef forgangs er krafist, frá forgangsdegi. Þó er heimilt að birta umsóknina, að ósk umsækjandans, áður en fresturinn, sem um getur hér að framan, er útrunninn. Hún skal birt samtímis texta evrópska einkaleyfisins þegar veiting einkaleyfisins tekur gildi áður en fyrrnefndur frestur er útrunninn.



2.     Birtingin skal hafa að geyma lýsinguna, kröfurnar og teikningarnar, sem lagðar eru inn, ásamt evrópsku nýnæmisrannsóknarskýrslunni og ágripinu í viðauka, að því marki sem þau síðarnefndu eru tiltæk áður en tæknilegum undirbúningi að birtingunni er lokið. Hafi evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslan og ágripið ekki verið birt samtímis umsókninni skulu þau birt sérstaklega.

94. gr.
Beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi.

1.     Evrópska einkaleyfastofan athugar, að fenginni skriflegri beiðni þar um, hvort umsókn um evrópskt einkaleyfi og uppfinningin, sem hún varðar, uppfylli skilyrði samnings þessa.
2.     Umsækjanda er heimilt að leggja inn beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi þar til allt að sex mánuðir eru liðnir frá þeim degi að evrópsku nýnæmisrannsóknarskýrslunnar er getið í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Beiðni telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en rannsóknargjald er greitt. Óheimilt er að draga beiðnina til baka.
3.     Ef engin beiðni um rannsókn er lögð inn fyrir lok frestsins skv. 2. mgr. telst umsókn hafa verið dregin til baka.

95. gr.
Framlenging frests til að leggja inn beiðni
um rannsókn á einkaleyfishæfi.

1.     Framkvæmdaráðinu er heimilt að framlengja frest til að leggja inn beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi ef í ljós kemur að ekki er unnt að gera rannsókn á umsóknum um evrópskt einkaleyfi innan tilsetts tíma.
2.     Ef framkvæmdaráðið framlengir frestinn getur það ákveðið að heimila þriðju aðilum að leggja inn beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi. Í slíkum tilvikum ber ráðinu að setja viðeigandi ákvæði í framkvæmdareglugerðina.
3.     Ákvörðun framkvæmdaráðs um að framlengja frestinn gildir einungis gagnvart umsóknum sem lagðar eru inn eftir að slík ákvörðun er birt í Fréttabréfi Evrópsku einkaleyfastofunnar.
4.     Framlengi framkvæmdaráðið frestinn verður það, eins fljótt og unnt er, að mæla fyrir um ráðstafanir til að innleiða upprunalega frestinn á ný.

96. gr.
Rannsókn á einkaleyfishæfi umsóknar
um evrópskt einkaleyfi.

1.     Ef umsækjandi um evrópskt einkaleyfi hefur lagt inn beiðni um rannsókn á einkaleyfishæfi áður en honum hefur verið send evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslan ber Evrópsku einkaleyfastofunni að bjóða honum að gefa til kynna, eftir að skýrslan er send og innan frests sem ákveðinn er, hvort hann óskar að halda áfram með umsóknina.
2.     Ef rannsókn á umsókn um evrópskt einkaleyfi leiðir í ljós að umsóknin eða uppfinningin, sem hún varðar, uppfyllir ekki skilyrði samnings þessa ber rannsóknardeildinni að bjóða umsækjandanum, í samræmi við framkvæmdareglugerðina og eins oft og þörf krefur, að leggja inn athugasemdir sínar innan frests sem rannsóknardeildin ákveður.

3.     Ef umsækjandi svarar ekki boði skv. 1. eða 2. mgr. á tilsettum tíma telst umsóknin hafa verið dregin til baka.

97. gr.
Höfnun eða veiting.

1.     Rannsóknardeildin skal hafna umsókn um evrópskt einkaleyfi ef hún telur umsóknina eða uppfinninguna, sem hún varðar, ekki uppfylla skilyrði samnings þessa, nema kveðið sé á um annars konar eftirmál í samningi þessum.

2.     Telji rannsóknardeildin að umsókn og uppfinningin, sem hún varðar, uppfylli skilyrði samnings þessa skal hún ákveða að veita evrópskt einkaleyfi fyrir þau ríki, sem tilnefnd eru, að því tilskildu að:

a)    það hafi verið staðfest, í samræmi við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar, að umsækjandi samþykki textann sem rannsóknardeildin hyggst nota við veitingu einkaleyfisins;
b)    gjöld vegna veitingar og prentunar séu greidd innan frestsins sem tilskilinn er í framkvæmdareglugerðinni;
c)    árgjöld og önnur gjöld, sem þegar eru fallin í gjalddaga, hafi verið greidd.
3.     Ef gjöld vegna veitingar og prentunar eru ekki greidd innan frestsins telst umsóknin hafa verið dregin til baka.
4.     Ákvörðun um að veita evrópskt einkaleyfi telst ekki taka gildi fyrr en þann dag er slíkrar ákvörðunar er getið í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Birta skal slíka tilkynningu í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir að fresturinn skv. b-lið 2. mgr. hefst.
5.     Kveða má á um það í framkvæmdareglugerðinni að umsækjandi leggi inn þýðingu, á þau tvö tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar sem hafa ekki verið notuð við málsmeðferðina, á kröfunum sem koma fram í textanum sem rannsóknardeildin hyggst nota við veitingu einkaleyfisins. Í slíku tilviki skulu þau tímamörk, sem mælt er fyrir um í 4. mgr., vera a.m.k. fimm mánuðir. Ef þýðingunni er ekki skilað á tilskildum tíma telst umsóknin hafa verið dregin til baka.
6.     Að beiðni umsækjanda skal birta tilkynningu um veitingu evrópsks einkaleyfis innan þeirra tímamarka er um getur í 4. eða 5. mgr. Einungis má leggja fram slíka beiðni að uppfylltum skilyrðum skv. 2. og 5. mgr.

98. gr.
Birting texta evrópsks
einkaleyfisins.

Jafnhliða því að Evrópska einkaleyfastofan birtir tilkynningu um veitingu evrópsks einkaleyfis skal hún birta texta einkaleyfisins sem inniheldur lýsinguna, kröfurnar og teikningar, ef um þær er að ræða.


V. HLUTI
Meðferð andmæla.

99. gr.
Andmæli.

1.     Sérhverjum er heimilt, innan níu mánaða frá birtingu tilkynningar um veitingu evrópsks einkaleyfis, að hreyfa andmælum gegn veitingu evrópsks einkaleyfis hjá Evrópsku einkaleyfastofunni. Tilkynna ber um andmæli skriflega með rökstuddri greinargerð. Þau teljast ekki hafa verið lögð inn fyrr en andmælagjöld hafa verið greidd.
2.     Andmæli gilda um evrópskt einkaleyfi í öllum samningsríkjum þar sem einkaleyfið er gilt.

3.     Hreyfa má andmælum jafnvel þótt fallið hafi verið frá evrópska einkaleyfinu eða það hafi fallið niður að því er varðar öll þau ríki sem tilnefnd hafa verið.
4.     Bæði andmælendur og einkaleyfishafi eru aðilar að andmælameðferðinni.
5.     Hver sem getur sýnt fram á að hann hafi, eftir að endanleg ákvörðun liggur fyrir í samningsríki, verið færður í einkaleyfaskrá þess ríkis í stað fyrri einkaleyfishafa skal, fari hann fram á það, koma í stað fyrri einkaleyfishafa að því er það ríki varðar. Með því að víkja frá ákvæðum 118. gr. skal ekki telja fyrri einkaleyfishafa og þann, sem fer fram á að koma í hans stað, sameiginlega einkaleyfishafa nema báðir óski þess.

100. gr.
Grundvöllur andmæla.

Því aðeins er heimilt að hreyfa andmælum að þau byggist á því að:
a)    efni evrópsks einkaleyfis sé ekki einkaleyfishæft í skilningi 52.–57. gr.;
b)    í umsókn um evrópskt einkaleyfi sé uppfinningunni ekki lýst nægilega skýrt og rækilega til þess að kunnáttumáður á viðkomandi sviði geti útfært hana;
c)    efni einkaleyfisins sé víðtækara en innihald umsóknarinnar í þeirri mynd sem hún er lögð inn eða, hafi einkaleyfið verið veitt á grundvelli hlutunarumsóknar eða nýrrar umsóknar sem lögð var inn í samræmi við 61. gr., víðtækara en innihald fyrri umsóknarinnar í þeirri mynd sem hún var lögð inn.

101. gr.
Athugun á andmælum.

1.     Ef um réttmæt andmæli er að ræða ber andmæladeildinni að athuga hvort grundvöllur andmæla skv. 100. gr. stríði gegn því að evrópska einkaleyfið standi óbreytt.
2.     Andmæladeildin skal, þá er athugun andmæla stendur yfir í samræmi við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar, bjóða aðilum að leggja inn athugasemdir við orðsendingar, frá öðrum aðila eða deildinni sjálfri, eins oft og þörf krefur og innan þeirra tímamarka sem deildin setur.


102. gr.
Evrópska einkaleyfið ógilt eða haldi gildi sínu.

1.     Ef andmæladeildin telur að grundvöllur andmæla skv. 100. gr. stríði gegn því að evrópska einkaleyfið haldi gildi sínu skal hún ógilda einkaleyfið.

2.     Ef andmæladeildin telur að grundvöllur andmæla skv. 100. gr. stríði ekki gegn því að einkaleyfið haldi gildi sínu í óbreyttri mynd skal hún vísa andmælunum frá.
3.     Ef andmæladeildin telur, að teknu tilliti til breytinga sem einkaleyfishafi hefur gert meðan á andmælameðferð stóð, að einkaleyfið og uppfinningin, sem það varðar, uppfylli skilyrði samningsins skal hún ákveða að viðhalda einkaleyfinu með áorðnum breytingum að því tilskildu að:

a)    fyrir liggi, í samræmi við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar, að einkaleyfishafi samþykki textann sem andmæladeildin hyggst nota í því skyni að viðhalda einkaleyfinu;

b)    gjaldið, sem ber að greiða vegna prentunar nýs texta evrópska einkaleyfisins, sé greitt innan frestsins sem settur er í framkvæmdareglugerðinni.
4.     Ef gjaldið fyrir prentun nýs texta er ekki greitt á tilskildum tíma skal ógilda einkaleyfið.
5.     Kveða má á um það í framkvæmdareglugerðinni að einkaleyfishafi leggi inn þýðingu á breyttum kröfum á þau tvö tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar sem hafa ekki verið notuð við málsmeðferðina. Ef þýðingunni er ekki skilað á tilskildum tíma skal fella einkaleyfið úr gildi.


103. gr.
Birting á nýjum texta
evrópska einkaleyfisins.

Ef breytingar eru gerðar á evrópsku einkaleyfi skv. 3. mgr. 102. gr. skal Evrópska einkaleyfastofan birta nýjan texta evrópska einkaleyfisins, með lýsingu, kröfum og teikningum, ef um þær er að ræða, í breyttri mynd, samtímis tilkynningu um lyktir andmælanna.

104. gr.
Kostnaður.

1.     Málsmeðferðaraðilar skulu hver fyrir sig bera þann kostnað, sem þeir hafa stofnað til, nema andmæladeild eða áfrýjunarnefnd ákveði, af sanngirnisástæðum og í samræmi við framkvæmdareglugerðina, að mæla fyrir um aðra skiptingu kostnaðar vegna skýrslutöku eða munnlegs málflutnings.
2.     Ef farið er fram á það skal skrifstofa andmæladeildarinnar ákvarða þá kostnaðarfjárhæð sem til skipta kemur í hinum ákveðnu hlutföllum. Andmæladeildinni er heimilt að endurskoða ákvörðun skrifstofunnar um fjárhæð kostnaðar ef farið er fram á það innan frestsins sem settur er í framkvæmdareglugerðinni.
3.     Lokaákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar um skiptingu kostnaðar ber að framfylgja í samningsríkjunum með sama hætti og um væri að ræða lokaákvörðun einkamáladómstóls í því ríki þar sem framfylgja ber ákvörðuninni. Aðeins má láta sannreyna hvort slík ákvörðun sé ófölsuð.


105. gr.
Íhlutun af hálfu ætlaðs geranda.

1.     Þegar andmæli gegn evrópsku einkaleyfi eru lögð inn er sérhverjum þriðja aðila, sem getur sannað að hafið sé mál gegn honum vegna brots gegn sama einkaleyfi, heimilt að taka þátt í andmælameðferð eftir að andmælafresturinn er útrunninn tilkynni hann þátttöku sína innan þriggja mánaða frá þeim degi er málarekstur vegna brotsins hefst. Það sama gildir gagnvart þriðja aðila sem sannar hvort tveggja að einkaleyfishafi hafi skorað á hann að láta af ætluðu broti gegn einkaleyfinu og að hann hafi höfðað mál til að fá dómsúrskurð þess efnis að hann brjóti ekki gegn einkaleyfinu.

2.     Tilkynna ber um íhlutun skriflega með rökstuddri greinargerð. Tilkynning telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en andmælagjöldin hafa verið greidd. Eftir það skal litið á íhlutunina sem andmæli, sbr. þó undanþágur sem kann að verða mælt fyrir um í framkvæmdareglugerðinni.

VI. HLUTI
Meðferð áfrýjunarmála.

106. gr.
Ákvarðanir sem heimilt er að áfrýja.

1.     Áfrýja má ákvörðunum móttökudeildar, rannsóknardeilda, andmæladeilda og lögfræðideildar. Meðferð máls stöðvast á meðan.

2.     Áfrýja má ákvörðun andmæladeildar jafnvel þótt fallið hafi verið frá evrópska einkaleyfinu eða það hafi fallið úr gildi að því er varðar öll tilnefnd ríki.

3.     Ákvörðun, sem bindur ekki enda á málsmeðferð gagnvart einum aðila máls, er einungis heimilt að áfrýja ásamt lokaákvörðuninni nema ákvörðunin heimili sérstaka áfrýjun.
4.     Ekki er heimilt að áfrýja einungis skiptingu kostnaðar vegna andmælameðferðar.
5.     Ekki er heimilt að áfrýja ákvörðun sem tiltekur fjárhæð kostnaðar við andmælameðferð, nema fjárhæðin fari yfir hámark sem sett er í reglunum um gjöld.

107. gr.
Heimild til áfrýjunar og aðild
að áfrýjunarmálum.

Sérhverjum aðila að málsmeðferð er heimilt að áfrýja ákvörðun sem fellur honum í óhag. Aðrir aðilar að málsmeðferð eiga rétt til aðildar að áfrýjunarmeðferðinni.

108. gr.
Tímafrestur til áfrýjunar og framsetning hennar.

Leggja skal skriflega tilkynningu um áfrýjun inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni innan tveggja mánaða eftir að tilkynnt var um ákvörðunina sem áfrýjað er. Tilkynning telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en áfrýjunargjöld hafa verið greidd. Leggja þarf inn skriflega rökstudda greinargerð um áfrýjunina innan fjögurra mánaða frá þeim degi er tilkynnt er um ákvörðunina.

109. gr.
Bráðabirgðaendurskoðun.

1.     Ef deildin, sem tók þá ákvörðun sem er véfengd, telur áfrýjunina tæka og á rökum reista skal hún leiðrétta ákvörðun sína. Þetta gildir þó ekki þegar annar aðili að málsmeðferðinni hreyfir andmælum gegn áfrýjandanum.
2.     Ef áfrýjun hefur ekki verið tekin til greina innan þriggja mánaða frá því að rökstudd greinargerð barst skal henni vísað til áfrýjunarnefndarinnar án tafar og án athugasemda um verðleika hennar.

110. gr.
Athugun á áfrýjunum.

1.     Ef áfrýjun er tæk skal áfrýjunarnefnd athuga hvort unnt sé að taka hana til greina.
2.     Samfara því að áfrýjunarnefndin athugar efni áfrýjunarinnar, sem skal gert í samræmi við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar, skal hún gefa aðilum færi á að leggja inn athugasemdir um orðsendingar annarra aðila eða nefndarinnar sjálfrar eins oft og þörf krefur og innan frests sem nefndin setur.

3.     Svari umsækjandi ekki boði skv. 2. mgr. innan tilskilins frests telst umsóknin um evrópskt einkaleyfi hafa verið dregin til baka nema ákvörðunin, sem var áfrýjað, hafi verið tekin af lögfræðideildinni.

111. gr.
Ákvörðun í áfrýjunarmáli.

1.     Þegar athugað hefur verið hvort unnt sé að taka áfrýjun til greina ber áfrýjunarnefndinni að kveða upp úrskurð um áfrýjunina. Áfrýjunarnefndinni er heimilt að beita hverju úrræði, sem er á valdsviði deildarinnar sem tók þá ákvörðun er áfrýjað var, eða vísa málinu aftur til deildarinnar til frekari meðferðar.
2.     Ef áfrýjunarnefndin vísar málinu til deildarinnar, sem tók ákvörðunina er áfrýjað var, til frekari meðferðar skal sú deild vera bundin af þeirri réttarreglu sem var forsenda áfrýjunarnefndarinnar að svo miklu leyti sem staðreyndir málsins eru þær sömu. Ef móttökudeildin tók hina áfrýjuðu ákvörðun skal rannsóknardeildin einnig bundin af þeirri réttarreglu sem var forsenda áfrýjunarnefndarinnar.

112. gr.
Ákvörðun eða álit stóru
áfrýjunarnefndarinnar.

1.     Til að tryggja samræmi í beitingu laganna eða þegar um er að ræða mikilvægt lagaatriði:
a)    skal áfrýjunarnefndin, meðan mál er til meðferðar og þá annaðhvort að eigin frumkvæði eða beiðni aðila að áfrýjuninni, skjóta sérhverju álitamáli til stóru áfrýjunarnefndarinnar ef hún telur að ákvörðunar sé þörf af framangreindum ástæðum. Ef áfrýjunarnefndin verður ekki við beiðninni skal hún rökstyðja það í lokaákvörðun sinni;

b)    er forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar heimilt að skjóta máli til stóru áfrýjunarnefndarinnar ef tvær áfrýjunarnefndir hafa komist að ólíkum niðurstöðum um álitamál.
2.     Í málum, sem falla undir a-lið 1. mgr., skulu aðilar að áfrýjunarmálinu vera aðilar að máli fyrir stóru áfrýjunarnefndinni.
3.     Ákvörðun stóru áfrýjunarnefndarinnar skv. a-lið 1. mgr. skal vera bindandi fyrir áfrýjunarnefndina í viðkomandi máli.

VII. HLUTI
Almenn ákvæði.

I. kafli.
Almenn ákvæði um málsmeðferð.
113. gr.
Grundvöllur ákvarðana.

1.     Ákvarðanir Evrópsku einkaleyfastofunnar mega einungis byggjast á rökum eða sönnunargögnum sem aðilar málsins hafa fengið tækifæri til að tjá sig um.

2.     Þegar Evrópska einkaleyfastofan fjallar um og tekur ákvörðun um umsókn um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfið sjálft gerir hún það einungis með tilliti til textans sem umsækjandi eða einkaleyfishafi hefur lagt inn hjá henni eða samþykkt.

114. gr.
Athugun Evrópsku einkaleyfastofunnar
að eigin frumkvæði.

1.     Þegar mál er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni ber stofunni að athuga staðreyndir málsins að eigin frumkvæði; athugun hennar skal ekki takmörkuð við staðreyndir, sönnunargögn og rök, sem málsaðilar leggja fram, og þær úrbætur sem þeir fara fram á.
2.     Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt að taka ekki tillit til staðreynda eða sönnunargagna sem aðilar málsins leggja ekki fram innan tilskilins frests.

115. gr.
Athugasemdir þriðja aðila.

1.     Eftir birtingu umsóknar um evrópskt einkaleyfi getur hver sem er gert athugasemdir varðandi einkaleyfishæfi uppfinningarinnar sem umsóknin fjallar um. Skila verður slíkum athugasemdum skriflega ásamt greinargerð með rökstuðningi sem þær byggjast á. Sá aðili skal ekki vera aðili að málsmeðferðinni hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.

2.     Senda ber athugasemdirnar skv. 1. mgr. áfram til umsækjanda eða einkaleyfishafa sem er heimilt að tjá sig um þær.

116. gr.
Munnlegur málflutningur.

1.     Munnlegur málflutningur fer fram annaðhvort fyrir tilstilli Evrópsku einkaleyfastofunnar, telji hún það henta, eða samkvæmt ósk einhvers aðila að málsmeðferðinni. Þó er Evrópsku einkaleyfastofunni heimilt að hafna beiðni um frekari munnlegan málflutning fyrir sömu deild ef aðilar að málsmeðferðinni og efni málsins eru þau sömu.
2.     Þrátt fyrir það skal munnlegur málflutningur fyrir móttökudeild að beiðni umsækjanda einungis fara fram telji deildin það henta eða hún fyrirhugar að hafna umsókn um evrópskt einkaleyfi.

3.     Munnlegur málflutningur fyrir móttökudeild, rannsóknardeildum og lögfræðideild skal ekki fara fram í heyranda hljóði.
4.     Munnlegur málflutningur, að meðtalinni uppkvaðningu ákvörðunarinnar, skal fara fram í heyranda hljóði hjá áfrýjunarnefndunum og stóru áfrýjunarnefndinni eftir að umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur birst og einnig hjá andmæladeildunum, að svo miklu leyti sem deildin, sem málið er flutt fyrir, ákveður ekki annað í málum þar sem aðgangur almennings gæti haft í för með sér alvarleg og óréttmæt vandkvæði, einkum fyrir aðila að málsmeðferðinni.

117. gr.
Öflun gagna.

1.     Í málum fyrir rannsóknardeild, andmæladeild, lögfræðideildinni eða áfrýjunarnefnd má leggja fram sönnunargögn eða afla þeirra með:

a)    aðilaskýrslum;
b)    beiðni um upplýsingar;
c)    framlagningu gagna;
d)    vitnaskýrslum;
e)    sérfræðingaálitum;
f)    skoðun;
g)    staðfestum skriflegum yfirlýsingum.
2.     Rannsóknardeild, andmæladeild eða áfrýjunarnefnd er heimilt að fela einum úr sínum hópi að skoða sönnunargögnin sem aflað hefur verið.
3.     Telji Evrópska einkaleyfastofan það nauðsynlegt að málsaðili, vitni eða sérfræðingur gefi munnlegan vitnisburð skal hún annaðhvort:
a)     stefna hlutaðeiganda fyrir sig; eða

b)    fara þess á leit við valdbæran dómstól í ríkinu þar sem hlutaðeigandi hefur aðsetur að dómstóllinn afli slíks vitnisburðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 131. gr.
4.     Málsaðila, vitni eða sérfræðingi, sem stefnt er fyrir Evrópsku einkaleyfastofuna, er heimilt að fara fram á við hana að valdbær dómstóll í ríkinu, þar sem hann hefur aðsetur, hlýði á vitnisburð hans. Þegar slík beiðni berst, eða hafi stefnu ekki verið svarað þegar útrunninn er fresturinn sem Evrópska einkaleyfastofan setti í stefnunni, er Evrópsku einkaleyfastofunni heimilt, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 131. gr., að fara þess á leit við valdbæra dómstólinn að hann hlýði á þann sem í hlut á.
5.     Ef málsaðili, vitni eða sérfræðingur ber vitni fyrir Evrópsku einkaleyfastofunni er stofunni heimilt, telji hún ráðlegt að vitnisburðurinn sé eiðsvarinn eða gefinn með jafntryggum hætti, að fara þess á leit við valdbæran dómstól í ríkinu, þar sem hlutaðeigandi hefur aðsetur, að dómstóllinn láti að nýju reyna á vitnisburðinn og þá við slíkar aðstæður.
6.     Þegar Evrópska einkaleyfastofan fer þess á leit við valdbæran dómstól að hann afli vitnisburðar er henni heimilt að fara fram á að vitnisburðurinn sé eiðsvarinn eða gefinn með jafntryggum hætti og að dómstóllinn heimili fulltrúa viðkomandi deildar að vera við yfirheyrsluna og leggja spurningar fyrir málsaðilann, vitnið eða sérfræðinginn, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu dómstólsins.

118. gr.
Heildstæði umsóknar um evrópskt einkaleyfi
eða evrópsks einkaleyfis.

Þegar umsækjendur um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfishafar eru ekki þeir sömu að því er varðar ólík samningsríki sem tilnefnd eru skal líta á þá sem sameiginlega umsækjendur eða einkaleyfishafa með tilliti til meðferðar málsins fyrir Evrópsku einkaleyfastofunni. Þetta hefur ekki áhrif á heildstæði umsóknarinnar eða einkaleyfisins að því er fyrrnefnda málsmeðferð varðar; einkum þarf texti umsóknarinnar eða einkaleyfisins að vera samhljóða að því er öll tilnefnd samningsríki varðar nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.

119. gr.
Tilkynning.

Evrópsku einkaleyfastofunni ber að hafa það að reglu að tilkynna hlutaðeigendum um ákvarðanir og stefnur og um tilkynningar eða aðrar orðsendingar sem tímafrestur er byggður á eða sem ber að tilkynna hlutaðeigendum um samkvæmt öðrum ákvæðum samnings þessa eða sem forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar hefur farið fram á að tilkynnt verði um. Heimilt er að gefa út tilkynningar fyrir milligöngu aðalhugverkastofa í samningsríkjunum ef sérstakar aðstæður krefjast þess.


120. gr.
Tímafrestir.

Framkvæmdareglugerðin skal mæla fyrir um:
a)    hvernig reikna ber fresti og um skilyrði fyrir framlengingu þeirra, annaðhvort af þeirri ástæðu að Evrópska einkaleyfastofan eða yfirvöldin, sem um getur í b-lið 1. mgr. 75. gr., geta ekki tekið við gögnum eða enginn póstur er borinn út til staða þar sem Evrópska einkaleyfastofan eða þessi yfirvöld eru staðsett eða af þeirri ástæðu að póstþjónustan hefur almennt orðið fyrir röskunum eða er úr lagi gengin af þeirra völdum;

b)    lengstu og skemmstu fresti sem Evrópsku einkaleyfastofunni ber að ákveða.

121. gr.
Endurupptaka umsóknar um
evrópskt einkaleyfi.

1.     Ef hafna á umsókn um evrópskt einkaleyfi ellegar henni hefur verið hafnað eða hún telst hafa verið dregin til baka eftir að ekkert svar hefur borist innan frests sem Evrópska einkaleyfastofan hefur sett skulu lagalegar afleiðingar þess ekki koma til framkvæmda eða, ef þær hafa komið til framkvæmda, skulu þær ganga til baka ef umsækjandi leggur fram beiðni um endurupptöku umsóknarinnar.
2.     Slíka beiðni skal leggja inn skriflega innan tveggja mánaða frá þeim degi er tilkynnt var annaðhvort um ákvörðun um að hafna umsókninni eða að umsóknin teldist hafa verið dregin til baka. Bæta verður úr vanefndunum innan þess frests. Beiðnin telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en greitt hefur verið gjald fyrir endurupptöku.

3.     Deildin, sem er bær um að taka ákvörðun um vanefndir, tekur afstöðu til beiðninnar.

122. gr.
Endurveiting.

1.     Umsækjandi um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfishafi, sem, þrátt fyrir að hafa gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast tókst ekki að virða frest af hálfu Evrópsku einkaleyfastofunnar, getur fengið rétt sinn endurveittan ef það að virða ekki frestinn leiðir beint til þess, samkvæmt samningi þessum, að umsókn um evrópskt einkaleyfi eða beiðni verði hafnað, ellegar að umsókn teljist hafa verið dregin til baka, einkaleyfið sé ógilt, hann missi önnur réttindi eða að leiðir til að fá úrlausn verði honum lokaðar.

2.     Leggja verður inn skriflega beiðni innan tveggja mánaða frá brottfalli hindrunar er töfinni olli. Bæta verður úr vanefndunum innan þess frests. Beiðnin skal einungis talin tæk innan árs frá því að fresturinn, sem ekki var staðið við, rann út. Þegar um er að ræða vangoldin árgjöld dregst tímabilið skv. 2. mgr. 86. gr. frá þessu einu ári.


3.     Greina verður í beiðninni frá rökunum, sem hún byggir á, og staðreyndum sem styðja málaleitan. Hún telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en gjöldin til að endurveita réttindin hafa verið greidd.
4.     Deildin, sem er bær um að taka ákvörðun um það sem láðist að gera, tekur afstöðu til beiðninnar.
5.     Ákvæði þessarar greinar skulu ekki gilda um fresti skv. 2. mgr. þessarar greinar, 3. mgr. 61. gr., 3. mgr. 76. gr., 2. mgr. 78. gr, 2. mgr. 79. gr., 1. mgr. 87. gr. og 2. mgr. 94. gr.


6.     Hverjum þeim, sem í tilnefndu samningsríki hefur í góðri trú notað eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess að nota uppfinningu, sem er efni birtrar umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis, á tímabilinu milli þess að réttindi glatast skv. 1. mgr. og birt er tilkynning um endurveitingu þessara réttinda, er heimilt að halda áfram slíkri notkun í þágu starfsemi sinnar eða vegna þarfa hennar án greiðslna.
7.     Ekkert í þessari grein takmarkar rétt samningsríkis til að endurveita réttindi að því er varðar fresti sem kveðið er á um í samningi þessum og gilda gagnvart yfirvöldum í því ríki.


123. gr.
Breytingar.

1.     Í framkvæmdareglugerðinni eru sett skilyrði sem gilda um breytingu á umsókn um evrópskt einkaleyfi eða evrópsku einkaleyfi meðan hún eða það er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni. Í öllum tilvikum ber að gefa umsækjanda a.m.k. eitt tækifæri til þess að breyta lýsingu, kröfum og teikningum að eigin vilja.
2.     Óheimilt er að breyta umsókn um evrópskt einkaleyfi eða evrópsku einkaleyfi þannig að hún eða það nái til efnis sem er víðara en innihald umsóknarinnar eins og hún var lögð inn.
3.     Ekki má breyta kröfum í evrópsku einkaleyfi meðan á andmælameðferð stendur þannig að þær veiti umfangsmeiri vernd.

124. gr.
Upplýsingar um landsbundnar einkaleyfaumsóknir.

1.     Rannsóknardeild eða áfrýjunarnefnd er heimilt að biðja umsækjanda að upplýsa, innan frests sem hún ákveður, um ríki þar sem hann hefur sótt um landsbundið einkaleyfi fyrir uppfinninguna, sem umsókn um evrópskt einkaleyfi varðar, í heild eða að hluta til, og tilgreina tilvísunarnúmer slíkra umsókna.

2.     Ef umsækjandi svarar ekki beiðni skv. 1. mgr. á tilskildum tíma telst umsóknin um evrópskt einkaleyfi hafa verið dregin til baka.

125. gr.
Tilvísun til almennra reglna.

Í þeim tilvikum er samningur þessi kveður ekki sérstaklega á um málsmeðferð skal Evrópska einkaleyfastofan taka tillit til grundvallarreglna um málsmeðferð sem almennt eru viðurkenndar í samningsríkjunum.

126. gr.
Lok fjárhagslegra skuldbindinga.

1.     Réttur stofnunarinnar til gjalds, sem greitt skal Evrópsku einkaleyfastofunni, tæmist þegar fjögur ár eru liðin frá almanaksárinu þegar gjaldið átti að greiðast.
2.     Réttur gagnvart stofnuninni til endurgreiðslu frá Evrópsku einkaleyfastofunni á ofgreiddum gjöldum eða fjárhæðum skal tæmast þegar fjögur ár eru liðin frá almanaksárinu þegar til réttindanna var stofnað.

3.     Fresturinn, sem tiltekinn er í 1. og 2. mgr., telst rofinn, ef um 1. mgr. er að ræða, þegar farið er fram á greiðslu gjaldsins en, ef um 2. mgr. er að ræða, þegar gerð er rökstudd og skrifleg krafa. Þegar fresturinn rofnar hefst hann þegar í stað á ný og telst honum lokið eigi síðar en sex árum eftir árið þegar hann hófst upprunalega nema mál hafi áður verið höfðað fyrir dómstóli til að framfylgja réttinum; er fresturinn þá ekki á enda fyrr en eitt ár er liðið frá því að dómurinn var kveðinn upp.

II. kafli.
Upplýsingar til almennings
eða opinberra yfirvalda.

127. gr.

Evrópsk einkaleyfaskrá.

Evrópska einkaleyfastofan skal halda skrá sem kallast evrópska einkaleyfaskráin og hefur að geyma þær upplýsingar sem samningurinn gerir ráð fyrir að verði skráðar. Ekkert skal vera fært í skrána fyrr en umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur birst. Skráin skal vera aðgengileg almenningi.


128. gr.
Aðgengi að gögnum.

1.     Ekki skal veita aðgang að gögnum, sem varða umsóknir um evrópskt einkaleyfi, áður en umsóknirnar eru birtar, nema með samþykki umsækjanda.

2.     Hverjum, sem getur sannað að umsækjandi um evrópskt einkaleyfi hafi beitt rétti er umsókn felur í sér gegn sér, er heimilt að fá að skoða gögnin fyrir birtingu umsóknarinnar og án samþykkis umsækjanda.
3.     Þegar evrópsk hlutunarumsókn eða ný umsókn um evrópskt einkaleyfi, lögð inn skv. 1. mgr. 61. gr., er birt er hverjum sem er heimilt að skoða gögn fyrri umsóknarinnar áður en umsóknin birtist og án samþykkis hlutaðeigandi umsækjanda.

4.     Eftir að umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur verið birt er unnt að skoða gögnin, sem varða slíka umsókn og evrópska einkaleyfið sem af henni leiðir, eftir beiðni, sbr. þó skilyrði þar um í framkvæmdareglugerðinni.
5.     Jafnvel áður en umsókn um evrópskt einkaleyfi er birt er Evrópsku einkaleyfastofunni heimilt að senda eftirtalin skráningargögn til þriðja aðila eða gefa þau út:
a)    númer umsóknar um evrópskt einkaleyfi;
b)    innlagningardag umsóknar um evrópskt einkaleyfi og, ef krafist er forgangsréttar vegna fyrri umsóknar, dagsetningu, ríki og skrárnúmer fyrri umsóknar;
c)    nafn umsækjanda;
d)    heiti uppfinningar;
e)    tilnefnd samningsríki.

129. gr.
Tímarit Evrópsku einkaleyfastofunnar.

Evrópska einkaleyfastofan gefur út með jöfnu millibili:
a)    Einkaleyfatíðindi Evrópsku einkaleyfastofunnar þar sem birtar eru færslur í evrópsku einkaleyfaskrána og aðrar upplýsingar sem skylt er að birta samkvæmt samningi þessum;
b)    Fréttabréf Evrópsku einkaleyfastofunnar með tilkynningum og upplýsingum almenns efnis frá forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, auk hvers kyns upplýsinga annarra sem lúta að samningi þessum eða framkvæmd hans.


130. gr.
Upplýsingaskipti.

1.     Evrópska einkaleyfastofan og, með fyrirvara um beitingu ákvæða laga og reglugerða skv. 2. mgr. 75. gr., aðalhugverkastofa í hvaða samningsríki sem er skulu, ef farið er fram á slíkt, láta hvor annarri í té allar nytsamlegar upplýsingar um umsóknir um evrópsk eða landsbundin einkaleyfi og mál sem varðar slíkar umsóknir og einkaleyfi sem af þeim leiða.


2.     Ákvæði 1. mgr. gilda um upplýsingaskipti sem fara fram samkvæmt samstarfssamningum milli Evrópsku einkaleyfastofunnar og:
a)    aðalhugverkastofu í hverju ríki sem er ekki aðili að samningnum;
b)    milliríkjastofnunar sem hefur það hlutverk að veita einkaleyfi;
c)    hverrar annarrar stofnunar sem vera skal.
3.     Skilyrði, sem sett eru í 128. gr., skulu ekki gilda um samskipti skv. 1. mgr. og a- og b-liðum 2. mgr. Framkvæmdaráðið getur ákveðið að slík skilyrði gildi ekki um samskipti skv. c-lið 2. mgr., þó að því tilskildu að stofnunin, sem í hlut á, fari með upplýsingarnar, sem látnar eru í té, sem trúnaðarmál þangað til umsóknin um evrópskt einkaleyfi hefur verið birt.

131. gr.
Samstarf um framkvæmd og löggjöf.

1.     Sé eigi kveðið á um annað í samningi þessum eða landslögum skulu Evrópska einkaleyfastofan og dómstólar eða yfirvöld í samningsríkjunum aðstoða hvert annað, þegar um er beðið, með upplýsingaskiptum eða með því að heimila skoðun gagna. Skilyrði sem sett eru í 128. gr. gilda ekki um skoðunina þegar Evrópska einkaleyfastofan heimilar dómstólum, embættum saksóknara eða aðalhugverkastofum að skoða gögn.

2.     Þegar dómstólar eða önnur valdbær yfirvöld í samningsríkjunum taka við bréflegum beiðnum um skýrslutöku frá Evrópsku einkaleyfastofunni skulu þau leita nauðsynlegra upplýsinga eða gera aðrar lagalegar ráðstafanir fyrir Evrópsku einkaleyfastofuna að svo miklu leyti sem þau fara með lögsögu.

132. gr.
Skipti á ritum.

1.     Evrópska einkaleyfastofan og aðalhugverkastofur í samningsríkjunum skulu, ef um er beðið, senda hver annarri til eigin nota eitt eintak eða fleiri af ritum sínum án endurgjalds.

2.     Evrópska einkaleyfastofan getur gert samninga um skipti á ritum eða útvegun þeirra.


III. kafli.
Fyrirsvar.
133. gr.
Almennar reglur um fyrirsvar.

1.     Að öðru leyti en kveðið er á um í ákvæðum 2. mgr. skal enginn skyldaður til að hafa sérmenntaðan fyrirsvarsmann sem kemur fram fyrir hans hönd við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum.
2.     Einstaklingur eða lögaðili, sem hefur hvorki aðsetur né aðalstarfsstöð á landsvæði samningsríkis, verður að hafa sérmenntaðan fyrirsvarsmann sem kemur fram fyrir hans hönd við alla málsmeðferð samkvæmt samningi þessum nema við innlögn umsóknar um evrópskt einkaleyfi; framkvæmdareglugerðin getur heimilað aðrar undantekningar.

3.     Einstaklingur eða lögaðili, sem hefur aðsetur eða aðalstarfsstöð á landsvæði einhvers samningsríkis, getur látið starfsmann sinn, sem þarf ekki að vera sérmenntaður fyrirsvarsmaður en skal hafa heimild samkvæmt framkvæmdareglugerðinni, koma fram fyrir sína hönd við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum. Í framkvæmdareglugerðinni er heimilt að kveða á um hvort, og þá með hvaða skilyrðum, starfsmaður slíks lögaðila geti einnig komið fram fyrir hönd annarra lögaðila sem hafa aðalstarfsstöð sína á landsvæði samningsríkis og eru í fjárhagslegum tengslum við fyrrnefndan lögaðila.

4.     Heimilt er að setja sérstök ákvæði í framkvæmdareglugerðina um sama fyrirsvarsmann fyrir aðila sem koma fram sameiginlega.

134. gr.
Sérmenntaðir fyrirsvarsmenn.

1.     Komi sérmenntaður fyrirsvarsmaður fram fyrir hönd einstaklings eða lögaðila í málsmeðferð samkvæmt samningi þessum má það aðeins vera sérmenntaður fyrirsvarsmaður sem skráður er á sérstakan lista sem Evrópska einkaleyfastofan heldur í þessu skyni.
2.     Á listann yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn má skrá hvern einstakling sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
a)    er ríkisborgari í samningsríki;

b)    hefur starfsstöð eða atvinnu á landsvæði samningsríkis;

c)    hefur staðist evrópska réttindaprófið.

3.     Skráning er gerð samkvæmt beiðni að meðlögðum vottorðum sem sanna að skilyrði 2. mgr. séu uppfyllt.
4.     Þeir sem skráðir eru á listann yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn skulu eiga rétt á að koma fram við alla málsmeðferð samkvæmt samningi þessum.
5.     Hver sá sem er á listanum skv. 1. mgr. á rétt á að stofna starfsstöð í hverju samningsríki, þar sem málsmeðferð samkvæmt samningi þessum getur farið fram, til að geta komið fram sem sérmenntaður fyrirsvarsmaður, að teknu tilliti til bókunarinnar um miðstýringu sem fylgir samningi þessum. Yfirvöldum í því ríki er einungis heimilt að svipta einstaka menn þessum rétti í einstökum tilvikum þegar beitt er lagaákvæðum sem lúta að verndun almannaöryggis og laga og reglu. Áður en slíkar ráðstafanir eru gerðar skal hafa samráð við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.

6.     Forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar er heimilt, í sérstökum tilvikum, að veita undanþágu frá skilyrðinu í a-lið 2. mgr.
7.     Hlutverki sérmenntaðs fyrirsvarsmanns við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum má einnig, auk hinna skráðu sérmenntuðu fyrirsvarsmanna, hver sá starfandi lögfræðingur gegna sem hlotið hefur starfsréttindi í einhverju samningsríkjanna og hefur starfsstöð í samningsríki, að því marki sem hann hefur rétt til þess, í umræddu ríki, að koma fram sem sérmenntaður fyrirsvarsmaður í einkaleyfamálum. Ákvæði 5. mgr. gilda að breyttu breytanda.
8.     Framkvæmdaráðið getur samþykkt ákvæði um:

a)    hæfi og þjálfun, sem krafist er til að mega þreyta evrópskt réttindapróf, og hvernig haga skuli próftöku;
b)    hvernig mynda eigi eða viðurkenna samtök þeirra sem hafa rétt til að starfa sem sérmenntaðir fyrirsvarsmenn, annaðhvort á grundvelli evrópsks réttindaprófs eða samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 163. gr.;
c)    agavald sem stofnuninni eða Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt að beita gagnvart slíkum einstaklingum.

VIII. HLUTI
Áhrif á landslög.
I. kafli.
Breyting í landsbundna einkaleyfisumsókn.
135. gr.
Beiðni um að landsbundinni málsmeðferð sé beitt.

1.     Aðalhugverkastofa í tilnefndu samningsríki skal aðeins beita málsmeðferð sem á við um veitingu landsbundins einkaleyfis þegar umsækjandi um evrópskt einkaleyfi eða handhafi þess hefur farið fram á það og við eftirtaldar aðstæður:
a)    þegar umsókn um evrópskt einkaleyfi telst hafa verið dregin til baka skv. 5. mgr. 77. gr. eða 4. mgr. 162. gr.;
b)    í öðrum tilvikum, sem kveðið er á um í landslögum, þar sem umsókn um evrópskt einkaleyfi var synjað eða hún dregin til baka eða telst hafa verið dregin til baka eða þar sem evrópskt einkaleyfi hefur verið ógilt í samræmi við samning þennan.
2.     Beiðni um breytingu skal lögð inn innan þriggja mánaða eftir að umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur verið dregin til baka eða eftir að tilkynnt hefur verið að umsóknin teljist hafa verið dregin til baka eða eftir að tilkynnt hefur verið um ákvörðun um að hafna umsókninni eða ógilda evrópska einkaleyfið. Áhrif skv. 66. gr. falla niður sé beiðnin ekki lögð inn á tilskildum tíma.

136. gr.
Innlagning og framsending beiðninnar.

1.     Beiðni um breytingu skal lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni og þarf þar að tilgreina samningsríkin þar sem beitingar málsmeðferðar við veitingu landsbundins einkaleyfis er óskað. Beiðnin telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en greitt hefur verið gjald fyrir breytingu. Evrópska einkaleyfastofan framsendir beiðnina til aðalhugverkastofa í þeim samningsríkjum sem tilnefnd eru í henni, ásamt afriti af öllum gögnum sem fylgja umsókninni um evrópskt einkaleyfi eða evrópska einkaleyfinu.

2.     Hafi umsækjanda verið tilkynnt að umsókn um evrópskt einkaleyfi teljist hafa verið dregin til baka skv. 5 mgr. 77. gr. skal beiðnin þó lögð inn hjá þeirri aðalhugverkastofu þar sem umsóknin hefur verið lögð inn. Stofa sú skal framsenda beiðnina, ásamt afriti af umsókninni um evrópskt einkaleyfi, beint til aðalhugverkastofa í þeim samningsríkjum sem umsækjandi tilnefnir í beiðninni, sbr. þó ákvæði um þjóðaröryggi. Áhrif skv. 66. gr. falla niður hafi framsendingin ekki verið gerð innan tuttugu mánaða eftir umsóknardaginn eða, ef forgangs er krafist, eftir forgangsdaginn.



137. gr.
Formkröfur við breytingu.

1.     Ekki má beita formskilyrðum í landslögum, sem víkja frá eða eru strangari en þau sem kveðið er á um í samningi þessum, gagnvart umsókn um evrópskt einkaleyfi sem send er í samræmi við 136. gr.

2.     Aðalhugverkastofa, sem fær umsókn framsenda, má fara fram á að umsækjandi, innan tveggja mánaða hið minnsta:
a)    greiði gjald fyrir landsbundna umsókn;
b)    leggi inn þýðingu á einu opinberu tungumáli hlutaðeigandi ríkis á frumtexta umsóknarinnar um evrópskt einkaleyfi og, þegar við á, á textanum, eins og honum var breytt meðan á málsmeðferðinni fyrir Evrópsku einkaleyfastofunni stóð, sem umsækjandi vill leggja fram við landsbundna málsmeðferð.

II. kafli.
Ógilding og eldri réttindi.
138. gr.
Grundvöllur ógildingar.

1.     Einungis er heimilt að ógilda evrópskt einkaleyfi samkvæmt lögum samningsríkis, þannig að ógildingin gildi á landsvæði þess, af eftirfarandi ástæðum, sbr. þó ákvæði 139. gr.:
a)    ef efni evrópska einkaleyfisins er ekki einkaleyfishæft samkvæmt 52.–57. gr.;
b)    ef evrópska einkaleyfið lýsir ekki uppfinningunni nægilega skýrt og rækilega til þess að kunnáttumaður á viðkomandi sviði geti útfært uppfinninguna;
c)    ef efni evrópska einkaleyfisins nær út fyrir innihald umsóknarinnar eins og hún var lögð inn eða, ef einkaleyfi var veitt á grundvelli hlutunarumsóknar eða nýrrar umsóknar skv. 61. gr., út fyrir innihald fyrri umsóknarinnar eins og hún var lögð inn;
d)    ef verndin, sem evrópska einkaleyfið veitir, hefur verið rýmkuð;
e)    ef handhafi evrópska einkaleyfisins hefur ekki rétt til þess skv. 1. mgr. 60. gr.
2.     Ef ástæður ógildingar eiga aðeins við evrópska einkaleyfið að hluta til skal kveða á um ógildingu í formi samsvarandi takmörkunar á einkaleyfinu. Ef landslög heimila má kveða á um takmörkun í formi breytingar á kröfunum, lýsingunni eða teikningunum.

139. gr.
Réttindi, byggð á fyrri dagsetningu
eða sömu dagsetningu.

1.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi og evrópskt einkaleyfi hafa sömu réttaráhrif vegna fyrri dagsetningar og landsbundin einkaleyfaumsókn eða landsbundið einkaleyfi í öllum tilnefndum samningsríkjum.
2.     Umsókn um landsbundið einkaleyfi og landsbundið einkaleyfi í samningsríki hafa, gagnvart evrópsku einkaleyfi þar sem samningsríkið er tilnefnt, sömu réttaráhrif vegna fyrri dagsetningar og þau hafa gagnvart landsbundnu einkaleyfi.
3.     Hvert samningsríki getur kveðið á um hvort og með hvaða skilyrðum uppfinningu, sem hefur verið lýst bæði í umsókn um evrópskt einkaleyfi eða í evrópsku einkaleyfi og í landsbundinni umsókn eða landsbundnu einkaleyfi með sama umsóknardag eða, þegar forgangs er krafist, sama forgangsdag, má vernda samtímis samkvæmt báðum umsóknunum eða einkaleyfunum.

III. kafli.
Önnur áhrif.
140. gr.
Landsbundin smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð.

Ákvæði 66., 124., 135.–137. og 139. gr. skulu gilda um smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð og umsóknir um smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð sem skráð eru eða lögð fram í þeim samningsríkjum þar sem kveðið er á um slík smáeinkaleyfi eða smáeinkaleyfavottorð í lögum.

141. gr.
Árgjöld fyrir evrópsk einkaleyfi.

1.     Einungis má krefjast greiðslu árgjalda fyrir evrópskt einkaleyfi fyrir árin eftir það ár sem kveðið er á um í 4. mgr. 86. gr.
2.     Árgjöld, sem falla í gjalddaga innan tveggja mánaða frá birtingu tilkynningar um veitingu evrópsks einkaleyfis, teljast hafa verið greidd með tilskildum hætti séu þau greidd innan þess tíma. Óheimilt er að leggja á aukagjald sem kann að vera kveðið á um samkvæmt landslögum.

IX. HLUTI
Sérstakir samningar.
142. gr.
Sameiginleg einkaleyfi.

1.     Hópur samningsríkja, sem hefur kveðið á um í sérstökum samningi að evrópskt einkaleyfi, sem veitt er fyrir þessi ríki, skuli gilda í einu lagi alls staðar á landsvæðum þeirra, getur kveðið á um að einungis megi veita evrópskt einkaleyfi sameiginlega fyrir öll ríkin.
2.     Þegar hópur samningsríkja hefur notfært sér heimildina í 1. mgr. skulu ákvæði þessa hluta samningsins gilda.

143. gr.
Sérstakar deildir innan Evrópsku einkaleyfastofunnar.

1.     Hópur samningsríkja getur falið Evrópsku einkaleyfastofunni fleiri verkefni.
2.     Setja má á stofn sérstakar deildir hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, sem eru sameiginlegar þeim samningsríkjum sem mynda hópinn, til að inna þessi verkefni af hendi. Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar skal stjórna þessum sérstöku deildum og gilda 2. og 3. mgr. 10. gr. að breyttu breytanda.

144. gr.
Fyrirsvar fyrir sérstökum deildum.

Hópur samningsríkja getur mælt fyrir um sérstök ákvæði sem lúta að fyrirsvari aðila fyrir deildunum sem um getur í 2. mgr. 143. gr.

145. gr.
Sérnefnd framkvæmdaráðsins.

1.     Hópur samningsríkja getur stofnað sérnefnd framkvæmdaráðsins til að hafa eftirlit með starfsemi sérdeildanna sem stofnaðar hafa verið skv. 2. mgr. 143. gr.; Evrópska einkaleyfastofan leggur til starfsfólk, aðstöðu og búnað sem þarf til að nefndin geti innt af hendi skyldur sínar. Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar ber ábyrgð á starfsemi sérdeildanna gagnvart sérnefnd framkvæmdaráðsins.


2.     Viðkomandi hópur samningsríkja ákveður samsetningu, valdsvið og starfsemi sérnefndarinnar.


146. gr.
Greiðsla kostnaðar vegna
sérstakra verkefna.

Þegar Evrópsku einkaleyfastofunni hafa verið falin viðbótarverkefni skv. 143. gr. skal viðkomandi hópur samningsríkja bera kostnaðinn sem fellur á stofnunina vegna þessara verkefna. Þegar stofnaðar hafa verið sérstakar deildir innan Evrópsku einkaleyfastofunnar til að sjá um þessi viðbótarverkefni skulu ríkjahóparnir bera kostnað vegna starfsfólks, aðstöðu og búnaðar sem fellur á þessar deildir. Ákvæði 3. og 4. mgr. 39. gr., 41. gr. og 47. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.

147. gr.
Greiðslur vegna árgjalda
sameiginlegra einkaleyfa.

Ef hópur samningsríkja hefur samþykkt sameiginlega skrá vegna árgjalda fyrir evrópsk einkaleyfi skal reikna hlutfallið, sem kveðið er á um í 1. mgr. 39. gr., á grundvelli sameiginlegu skrárinnar; lágmarksgjald skv. 1. mgr. 39. gr. skal gilda um heildareinkaleyfið. Ákvæði 3. og 4. mgr. 39. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.


148. gr.
Umsókn um evrópskt einkaleyfi
sem andlag eignarréttar.

1.     Ákvæði 74. gr. skulu gilda nema hópur samningsríkja hafi tilgreint annað.
2.     Hópur samningsríkja getur kveðið á um að umsókn um evrópskt einkaleyfi, þar sem ríkin eru tilnefnd, megi því aðeins yfirfæra, veðsetja eða gera háða aðför að lögum með einhverju móti að slíkar aðgerðir gildi gagnvart öllum samningsríkjum í hópnum og séu í samræmi við ákvæði hins sérstaka samnings.

149. gr.
Sameiginleg tilnefning.

1.     Hópur samningsríkja getur kveðið á um að einungis sé unnt að tilnefna þau sameiginlega og að tilnefning eins eða einhverra þeirra teljist vera tilnefning allra ríkja í hópnum.

2.     Þegar Evrópska einkaleyfastofan gegnir hlutverki tilnefndrar stofu skv. 1. mgr. 153. gr. gildir 1. mgr. ef umsækjandi hefur tilgreint í alþjóðlegu umsókninni að hann óski þess að hljóta evrópskt einkaleyfi fyrir eitt eða fleiri tilnefndra ríkja í hópnum. Það sama gildir ef umsækjandi tilnefnir í alþjóðlegri umsókn eitt af samningsríkjum hópsins þar sem landslög kveða á um að tilnefning þess ríkis hafi þau áhrif að sótt sé um evrópskt einkaleyfi.



X. HLUTI
Alþjóðleg umsókn samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi.
150. gr.
Beiting samstarfssamningsins um einkaleyfi.

1.     Beita skal samstarfssamningnum um einkaleyfi frá 19. júní 1970, sem hér eftir er nefndur „samstarfssamningurinn“, í samræmi við ákvæði þessa hluta samningsins.
2.     Alþjóðlegar umsóknir, sem lagðar eru inn samkvæmt samstarfssamningnum, má taka til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni. Í slíkri málsmeðferð skal beita ákvæðum samstarfssamningsins en ákvæðum samnings þessa þeim til viðbótar. Ef ákvæðin stangast á skulu ákvæði samstarfssamningsins ráða. Fresturinn til að leggja inn beiðni um forathugun skv. 2. mgr. 94. gr samnings þessa skal, einkum þegar um ræðir alþjóðlega umsókn, ekki renna út fyrr en frestur skv. 22. gr. eða 39. gr. samstarfssamningsins, eftir atvikum, er liðinn.

3.     Alþjóðleg umsókn, þar sem Evrópska einkaleyfastofan er í hlutverki tilnefndrar stofu eða valinnar stofu, telst vera umsókn um evrópskt einkaleyfi.

4.     Þegar vísað er í samningi þessum til samstarfssamningsins skal slík tilvísun einnig ná til reglnanna með samstarfssamningnum.

151. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem viðtökustofa.

1.     Evrópska einkaleyfastofan getur gegnt hlutverki viðtökustofu i skilningi xv-liðar 2. gr. samstarfssamningsins ef umsækjandi er ríkisborgari eða búsettur í samningsríki þar sem samstarfssamningurinn hefur öðlast gildi.

2.     Evrópska einkaleyfastofan getur einnig gegnt hlutverki viðtökustofu ef umsækjandi er ríkisborgari eða búsettur í ríki, sem er ekki samningsríki en er þó aðildarríki að samstarfssamningnum og hefur náð samkomulagi við Evrópsku einkaleyfastofnunina um að nota Evrópsku einkaleyfastofuna sem viðtökustofu, í samræmi við ákvæði samstarfssamningsins, í stað einkaleyfastofu landsins.

3.     Með fyrirvara um fyrirframsamþykki framkvæmdaráðsins getur Evrópska einkaleyfastofan einnig gegnt hlutverki viðtökustofu gagnvart öðrum umsækjanda, í samræmi við samning þar um milli Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

152. gr.
Innlagning og framsending
alþjóðlegrar umsóknar.

1.     Velji umsækjandi Evrópsku einkaleyfastofuna sem viðtökustofu alþjóðlegu umsóknarinnar ber honum að leggja hana inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni sjálfri. Ákvæði 2. mgr. 75. gr. skulu þó gilda að breyttu breytanda.
2.     Þegar alþjóðleg umsókn er lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni fyrir milligöngu aðalhugverkastofu ber hlutaðeigandi samningsríki að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá til þess að umsókn verði framsend Evrópsku einkaleyfastofunni nógu tímanlega til að hún uppfylli öll skilyrði um framsendingu samkvæmt samstarfssamningnum.


3.     Hver umsókn um evrópskt einkaleyfi skal háð greiðslu framsendingargjalds innan eins mánaðar frá því að umsóknin berst.

153. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem tilnefnd stofa.

1.     Evrópska einkaleyfastofan gegnir hlutverki tilnefndrar stofu í skilningi xiii-liðar 2. gr. samstarfssamningsins gagnvart þeim samningsríkjum þar sem samstarfssamningurinn hefur öðlast gildi og sem eru tilnefnd í alþjóðlegri umsókn ef umsækjandi tilkynnir viðtökustofunni í alþjóðlegri umsókn að hann óski eftir að hljóta evrópskt einkaleyfi fyrir þessi ríki. Það sama gildir ef umsækjandi tilnefnir í alþjóðlegri umsókn samningsríki þar sem landslög kveða á um að tilnefning ríkisins hafi þau áhrif að sótt sé um evrópskt einkaleyfi.


2.     Þegar Evrópska einkaleyfastofan gegnir hlutverki tilnefndrar stofu verður rannsóknardeildin bær til að taka ákvarðanir sem taka verður samkvæmt a-lið 2. mgr. 25. gr. samstarfssamningsins.

154. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem alþjóðleg nýnæmisrannsóknarstofnun.

1.     Evrópska einkaleyfastofan gegnir hlutverki alþjóðlegrar nýnæmisrannsóknarstofnunar í skilningi I. kafla samstarfssamningsins gagnvart umsækjendum sem eru ríkisborgarar eða búsettir í samningsríki þar sem samstarfssamningurinn hefur öðlast gildi enda hafi náðst samkomulag þar um milli Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

2.     Með fyrirvara um fyrirframsamþykki framkvæmdaráðsins skal Evrópska einkaleyfastofan einnig gegna hlutverki alþjóðlegrar nýnæmisrannsóknarstofnunar gagnvart öðrum umsækjanda, í samræmi við samning þar um milli Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar.
3.     Áfrýjunarnefndirnar bera ábyrgð á að skera úr um kæru frá umsækjanda vegna viðbótargjalds sem Evrópska einkaleyfastofan hefur lagt á samkvæmt ákvæðum a-liðar 3. mgr. 17. gr. samstarfssamningsins.

155. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem stofnun sem gerir alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi.

1.     Evrópska einkaleyfastofan gegnir hlutverki alþjóðlegrar rannsóknarstofnunar í skilningi II. kafla samstarfssamningsins gagnvart umsækjendum sem eru ríkisborgarar eða búsettir í samningsríki sem bundið er af þeim kafla enda hafi náðst samkomulag þar um milli Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

2.     Með fyrirvara um fyrirframsamþykki framkvæmdaráðsins skal Evrópska einkaleyfastofan einnig gegna hlutverki alþjóðlegrar forathugunarstofnunar gagnvart öðrum umsækjanda, ef því er að skipta, í samræmi við samning þar um milli Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar.
3.     Áfrýjunarnefndirnar bera ábyrgð á að skera úr um kæru frá umsækjanda vegna viðbótargjalds sem Evrópska einkaleyfastofan hefur lagt á samkvæmt ákvæðum a-liðar 3. mgr. 34. gr. samstarfssamningsins.

156. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem valin stofa.

Evrópska einkaleyfastofan skal gegna hlutverki valinnar stofu í skilningi xiv-liðar 2. gr. samstarfssamningsins ef umsækjandi hefur valið eitthvert tilnefndra ríkja skv. 1. mgr. 153. gr. eða 2. mgr. 149. gr. þar sem II. kafli samstarfssamningsins er orðinn bindandi. Með fyrirvara um fyrirframsamþykki framkvæmdaráðsins gildir þetta einnig þegar umsækjandi er ríkisborgari eða búsettur í ríki sem er ekki aðildarríki að samstarfssamningnum né bundið af II. kafla hans, að því tilskildu að umsækjandi sé meðal þeirra sem þing Alþjóðasambandsins um samstarf á sviði einkaleyfa hefur ákveðið að heimila, skv. b-lið 2. mgr. 31. gr. samstarfssamningsins, að krefjast alþjóðlegrar forathugunar.



157. gr.
Alþjóðleg nýnæmisrannsóknarskýrsla.

1.     Án þess að hafa áhrif á ákvæði 2.–4. mgr. kemur alþjóðleg nýnæmisrannsóknarskýrsla skv. 18. gr. samstarfssamningsins eða yfirlýsing skv. a-lið 2. mgr. 17. gr. sama samnings og birting þeirra samkvæmt 21. gr. sama samnings í stað evrópskrar nýnæmisrannsóknarskýrslu og tilkynningar um birtingu hennar í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.
2.     Með fyrirvara um ákvarðanir framkvæmdaráðsins skv. 3. mgr.:
a)    skal semja til viðbótar evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslu um allar alþjóðlegar umsóknir;

b)    skal umsækjandi greiða rannsóknargjald sem greiðist á sama tíma og landsbundið gjald skv. 1. mgr. 22. gr. eða 1. mgr. 39. gr. samstarfssamningsins; ef rannsóknargjaldið er ekki greitt á tilskildum tíma telst umsókn hafa verið dregin til baka.
3.     Framkvæmdaráðið getur ákveðið með hvaða skilyrðum og að hve miklu leyti:
a)    sleppa má viðbótinni við evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslu;
b)    lækka má rannsóknargjaldið.
4.     Framkvæmdaráðið getur hvenær sem er fellt niður ákvarðanir teknar samkvæmt 3. mgr.

158. gr.
Birting alþjóðlegrar umsóknar og framsending hennar til Evrópsku einkaleyfastofunnar.

1.     Birting alþjóðlegrar umsóknar skv. 21. gr. samstarfssamningsins, þar sem Evrópska einkaleyfastofan er tilnefnd stofa, kemur í stað birtingar evrópskrar einkaleyfaumsóknar, sbr. þó 3. mgr., og skal hennar getið í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Slík umsókn telst þó ekki vera hluti af þekktri tækni á hverjum tíma á viðkomandi sviði, í samræmi við 3. mgr. 54. gr., ef skilyrði sem sett eru í 2. mgr. eru ekki uppfyllt.

2.     Evrópsku einkaleyfastofunni skal berast alþjóðleg umsókn á einu af opinberum tungumálum stofunnar. Umsækjandi greiðir Evrópsku einkaleyfastofunni landsbundið gjald skv. 1. mgr. 22. gr. eða 1. mgr. 39. gr. samstarfssamningsins.

3.     Ef alþjóðleg umsókn er birt á tungumáli, sem er ekki opinbert tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar, skal stofan birta alþjóðlegu umsóknina þegar hún er lögð inn eins og tilskilið er í 2. mgr. Með fyrirvara um 3. mgr. 67. gr. skal bráðabirgðavernd í samræmi við 1. og 2. mgr. 67. gr. gilda frá degi birtingarinnar.



XI. HLUTI
Aðlögunarákvæði.
159. gr.
Framkvæmdaráðið á
aðlögunartíma.

1.     Ríkin, sem um getur í 1. mgr. 169. gr., skulu tilnefna fulltrúa í framkvæmdaráðið; framkvæmdaráðið kemur saman samkvæmt boði frá ríkistjórn sambandslýðveldis Þýskalands eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samningurinn öðlast gildi, einkum til að skipa forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.


2.     Kjörtímabil fyrsta formanns framkvæmdaráðsins, sem skipaður er eftir að samningurinn öðlast gildi, skal vera fjögur ár.

3.     Kjörtímabil tveggja kjörinna stjórnarmanna fyrsta framkvæmdaráðsins, sem stofnað er eftir að samningurinn öðlast gildi, skal vera fjögur ár fyrir annan og fimm ár fyrir hinn.

160. gr.
Ráðning starfsmanna
á aðlögunartíma.

1.     Fram að þeim tíma að samþykktar eru starfsreglur fastra starfsmanna og ráðningarskilyrði annarra starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar skal framkvæmdaráðið og forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar, hvor aðili innan síns valdsviðs, ráða nauðsynlega starfsmenn og gera skammtímasamninga þar um. Framkvæmdaráðið getur sett almennar meginreglur um ráðningar.


2.     Á aðlögunartíma, sem varir svo lengi sem framkvæmdaráðið ákveður, getur framkvæmdaráðið, að höfðu samráði við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, tilnefnt, sem fulltrúa í stóru áfrýjunarnefndina eða í áfrýjunarnefndirnar, tæknimenntaða eða löglærða menn frá dómstólum eða yfirvöldum samningsríkja sem er heimilt að halda áfram starfi sínu hjá viðkomandi dómstólum eða yfirvöldum. Menn þessa má skipa til skemmri tíma en fimm ára en þó ekki til skemmri tíma en eins árs og er heimilt að endurskipa þá.


161. gr.
Fyrsta reikningsskilatímabilið.

1.     Fyrsta reikningsskilatímabil stofnunarinnar byrjar á gildistökudegi samningsins og endar 31. desember sama ár. Ef gildistökudagurinn er á seinni helmingi árs skal reikningsskilatímabilinu ljúka 31. desember árið á eftir.

2.     Semja ber fjárhagsáætlun fyrir fyrsta reikningsskilatímabilið eins fljótt og unnt er eftir að samningurinn öðlast gildi. Þangað til framlögin, sem kveðið er á um í 40. gr. og ber að greiða samkvæmt fyrstu fjárhagsáætlun, berast stofnuninni skulu samningsríki, að beiðni framkvæmdaráðsins og upp að þeirri fjárhæð sem það ákveður, inna af hendi fyrirframgreiðslur sem síðar verða dregnar frá framlögum þeirra samkvæmt fjárhagsáætluninni. Fjárhæð fyrirframgreiðslna ákvarðast með hliðsjón af skránni sem um getur í 40. gr. Ákvæði 3. og 4. mgr. 39. gr. gilda að breyttu breytanda um fyrirframgreiðslurnar.


162. gr.
Stigvaxandi útvíkkun starfssviðs
Evrópsku einkaleyfastofunnar.

1.     Umsóknir um evrópskt einkaleyfi má leggja inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni frá þeim degi sem framkvæmdaráðið ákveður samkvæmt tillögu forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.
2.     Framkvæmdaráðið getur ákveðið, samkvæmt tillögu forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, að frá þeim degi, er um getur í 1. mgr., megi takmarka meðhöndlun umsókna um evrópsk einkaleyfi. Slík takmörkun getur varðað tiltekin tæknisvið. Þó skal í öllum tilvikum athuga hvort tiltaka megi dagsetningu fyrir umsókn um evrópskt einkaleyfi.


3.     Hafi ákvörðun verið tekin skv. 2. mgr. er framkvæmdaráðinu óheimilt að takmarka síðar meðhöndlun umsókna um evrópsk einkaleyfi frekar.

4.     Þegar ekki er unnt að hefja frekari meðhöndlun umsóknar, sakir þess að málsmeðferð hefur verið takmörkuð skv. 2. mgr., skal Evrópska einkaleyfastofan tilkynna umsækjanda um það og benda á að honum sé heimilt að fara fram á breytingu. Þegar slík orðsending hefur borist telst umsókn um evrópskt einkaleyfi hafa verið dregin til baka.


163. gr.
Sérmenntaðir fyrirsvarsmenn
á aðlögunartíma.

1.     Á aðlögunartíma, sem rennur út samkvæmt ákvörðun framkvæmdaráðsins, er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 134. gr., að færa hvern þann einstakling, sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði, á lista yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn:

a)    hann verður að vera ríkisborgari samningsríkis;
b)    hann verður að hafa starfsstöð eða vinnustað á landsvæði eins samningsríkis;

c)    hann verður að hafa rétt til að koma fram fyrir hönd einstaklinga eða lögaðila í einkaleyfamálum við aðalhugverkastofu í því samningsríki þar sem hann hefur starfsstöð eða vinnustað.

2.     Færsla á listann fer fram að fram kominni beiðni sem fylgir vottorð frá aðalhugverkastofu því til staðfestingar að skilyrðin, sem sett eru í 1. mgr., séu uppfyllt.
3.     Ef réttur skv. c-lið 1. mgr. er í einhverju samningsríki ekki bundinn við sérstaka faglega sérmenntun verða þeir sem fara fram á færslu á listann og hafa tekið þátt í einkaleyfamálum fyrir aðalhugverkastofu að hafa gert það með reglulegu millibili í a.m.k. fimm ár. Þó þurfa þeir, sem hafa faglega sérmenntun til að koma fram fyrir hönd einstaklinga eða lögaðila í einkaleyfamálum fyrir aðalhugverkastofu í samningsríki sem er opinberlega viðurkennd í samræmi við reglur í því ríki, ekki að uppfylla þau skilyrði að hafa starfað í viðkomandi faggrein. Í vottorði frá aðalhugverkastofu verður að tilgreina að umsækjandi uppfylli eitt þeirra skilyrða sem um getur í þessari málsgrein.



4.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar getur veitt undanþágu frá:
a)    skilyrði 1. málsl. 3. mgr. ef umsækjandi getur sýnt fram á að hann hafi öðlast nauðsynlega sérmenntun með öðrum hætti;
b)    skilyrði a-liðar 1. mgr. í sérstökum tilvikum.

5.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar veitir undanþágu frá skilyrði a-liðar 1. mgr. ef umsækjandi uppfyllir skilyrði b- og c-liða 1. mgr. 5. október 1973.
6.     Samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í 1.–5. mgr., og í eitt ár frá því að aðild ríkis, sem gerðist aðili að samningnum á síðustu tólf mánuðum áður en aðlögunartímabil skv. 1. mgr. var útrunnið eða eftir að aðlögunartímabilið var liðið, öðlaðist gildi er unnt að færa þá, sem hafa starfsstöð eða vinnustað í því ríki, á listann yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn.


7.     Eftir að aðlögunartímabilið er liðið skal hver einstaklingur, sem færður var á listann yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn á því tímabili, verða þar áfram, sbr. þó agaviðurlög í samræmi við c-lið 8. mgr. 134. gr., eða skráður þar á ný, að fram kominni beiðni þar um, enda uppfylli hann skilyrði b-liðar 1. mgr.

XII. HLUTI
Lokaákvæði.
164. gr.
Framkvæmdareglugerð og bókanir.

1.     Framkvæmdareglugerðin, bókunin um viðurkenningu, bókunin um forréttindi og friðhelgi, bókunin um miðstýringu og bókunin um túlkun á 69. gr. skulu vera óaðskiljanlegir hlutar samnings þessa.

2.     Ef ákvæði samnings þessa stangast á við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar skulu ákvæði samnings þessa hafa forgang.


165. gr.
Undirritun – fullgilding.

1.     Þau ríki, sem tóku þátt í milliríkjaráðstefnu um stofnun evrópsks kerfis fyrir veitingu einkaleyfa, eða fengu upplýsingar um þá ráðstefnu og áttu kost á að taka þátt í henni, geta undirritað samning þennan fram til 5. apríl 1974.

2.     Samningur þessi er háður fullgildingu; fullgildingarskjöl skulu afhent ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.


166. gr.
Aðild.

1.     Aðild að samningi þessum er heimil:
a)    þeim ríkjum sem um getur í 1. mgr. 165. gr.;
b)    hvaða öðru Evrópuríki sem er samkvæmt boði framkvæmdaráðsins.
2.     Ríki, sem hefur átt aðild að samningnum en hætt því með því að beita 4. mgr. 172. gr., getur aftur gerst aðili að samningnum með því að undirrita hann.
3.     Aðildarskjölin skulu afhent ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.


167. gr.
Fyrirvarar.

1.     Hvert samningsríki getur, þegar það undirritar samning þennan eða afhendir aðildar- eða fullgildingarskjöl til vörslu, einungis gert þá fyrirvara sem tilgreindir eru í 2. mgr.
2.     Hvert samningsríki getur áskilið sér rétt til að kveða á um að:
a)    evrópsk einkaleyfi, að svo miklu leyti sem þau veita efnafræðilegum efnum, lyfjum eða matvælum vernd, skuli, í samræmi við ákvæði sem gilda um landsbundin einkaleyfi, ekki hafa áhrif eða vera ógildanleg; fyrirvarinn skuli ekki hafa áhrif á vernd, sem einkaleyfið veitir viðvíkjandi aðferð við framleiðslu eða notkun efnafræðilegra efna, eða aðferð við framleiðslu lyfja eða matvæla;

b)    evrópsk einkaleyfi, að svo miklu leyti sem þau veita vernd viðvíkjandi aðferðum í garðyrkju eða landbúnaði, öðrum en þeim sem falla undir b-lið 53. gr., skuli í samræmi við ákvæði, sem gilda um landsbundin einkaleyfi, ekki hafa áhrif eða vera ógildanleg;
c)    evrópsk einkaleyfi skuli gilda skemur en tuttugu ár í samræmi við ákvæði sem gilda um landsbundin einkaleyfi;
d)    það skuli ekki bundið af bókuninni um viðurkenningu.
3.     Fyrirvari, sem samningsríki gerir, skal ekki gilda lengur en tíu ár frá þeim degi er samningur þessi öðlast gildi. Þó getur framkvæmdaráðið, ef samningsríki hefur gert fyrirvara skv. a- eða b-lið 2. mgr., framlengt tímabilið gagnvart því ríki um fimm ár að hámarki fyrir fyrirvarann allan eða að hluta ef það ríki leggur fram, a.m.k. einu ári áður en tíu ára tímabilið er liðið, rökstudda beiðni sem sýnir á fullnægjandi hátt, að mati framkvæmdaráðsins, að ríkið sé ekki í stakk búið til að fella fyrirvarann úr gildi að tíu ára tímabilinu liðnu.


4.     Samningsríki sem hefur gert fyrirvara skal draga hann til baka eins fljótt og aðstæður leyfa. Það skal gert með tilkynningu til ríkisstjórnar sambandslýðveldisins Þýskalands og tekur gildi einum mánuði eftir að tilkynningin berst.

5.     Fyrirvari, sem gerður er í samræmi við a-, b- eða c-lið 2. mgr., skal gilda um evrópsk einkaleyfi sem eru veitt samkvæmt umsóknum um evrópskt einkaleyfi sem lagðar eru inn á því tímabili þegar fyrirvarinn gildir. Áhrif fyrirvarans vara svo lengi sem einkaleyfið er í gildi.
6.     Með fyrirvara um 4. og 5. mgr. skal fyrirvari falla úr gildi þegar tímabilið skv. 1. málsl. 3. mgr. er liðið eða, ef tímabilið er framlengt, þegar framlengingin er útrunnin.


168. gr.
Landsvæði þar sem samningurinn gildir.

1.     Samningsríki getur lýst yfir, í fullgildingar- eða aðildarskjali, eða tilkynnt ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skriflega um það hvenær sem er eftir það, að samningur þessi gildi á einu eða fleiri svæðum þess þar sem það ber fer með utanríkismál. Evrópsk einkaleyfi, sem veitt eru fyrir samningsríki, skulu einnig gilda á svæðum þar sem slík yfirlýsing hefur gildi.

2.     Ef yfirlýsingin skv. 1. mgr. er hluti af fullgildingar- eða aðildarskjali öðlast hún gildi sama dag og fullgildingin eða aðildin; ef yfirlýsingin er í formi tilkynningar, sem send er eftir að fullgildingar- eða aðildarskjalið var afhent til vörslu, öðlast slík tilkynning gildi sex mánuðum eftir að hún berst ríkisstjórn sambandslýðveldis Þýskalands.

3.     Samningsríki getur hvenær sem er lýst yfir að samningurinn gildi ekki á einhverju eða öllum landsvæðum sem yfirlýsing samkvæmt 1. mgr. hefur áður verið gerð um. Slík yfirlýsing öðlast gildi einu ári eftir að tilkynning þar um berst ríkisstjórn sambandslýðveldis Þýskalands.


169. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi öðlast gildi þremur mánuðum eftir að síðasta fullgildingar- eða aðildarskjalið frá sex ríkjum, þar sem heildarfjöldi einkaleyfaumsókna árið 1970 var a.m.k. 180.000 samtals fyrir öll ríkin, er afhent til vörslu.

2.     Fullgilding eða aðild, sem fer fram er eftir gildistöku samnings þessa, tekur gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent til vörslu.

170. gr.
Stofnframlag.

1.     Ríki, sem fullgildir samninginn eða gerist aðili að honum eftir að hann hefur öðlast gildi, skal greiða stofnuninni stofnframlag sem er ekki afturkræft.

2.     Stofnframlagið skal vera 5% af fjárhæð þeirri sem fæst með því að reikna hundraðshlutann, sem fæst fyrir hlutaðeigandi ríki á þeim degi er fullgildingin eða aðildin tekur gildi og með því að styðjast við skrána skv. 3. og 4. mgr. 40. gr., af summu sérstakra fjárframlaga sem öðrum samningsríkjum ber að greiða fyrir reikningsskilatímabilin fram til þess dags sem um getur hér að framan.
3.     Ef engin þörf var á sérstökum fjárframlögum fyrir reikningsskilatímabilið næsta á undan þeim degi, sem um getur í 2. mgr., skal fjárhæð framlaga samkvæmt málsgreininni vera sú fjárhæð sem gildir fyrir ríkið síðasta árið sem fjárframlaga var þörf.




171. gr.
Gildistími samningsins.

Samningur þessi skal gilda ótímabundið.


172. gr.
Endurskoðun.

1.     Ráðstefna samningsríkja getur endurskoðað samning þennan.
2.     Framkvæmdaráðið skal undirbúa ráðstefnuna og boða til hennar. Ráðstefnan telst ekki ályktunarhæf nema a.m.k. þrír fjórðu samningsríkja sendi fulltrúa. Til að samþykkja breytingar á texta samningsins þarf atkvæði þriggja fjórðu hluta þeirra samningsríkja sem eiga fulltrúa á ráðstefnunni og greiða atkvæði. Hjáseta telst ekki til greiddra atkvæða.

3.     Hinn breytti texti öðlast gildi þegar sá fjöldi samningsríkja, sem ráðstefnan áskilur, hefur fullgilt hann eða gerst aðili að honum og á þeim tíma sem ráðstefnan tiltekur.
4.     Ríki, sem hafa ekki fullgilt breyttan texta samningsins eða gerst aðilar að slíkum texta þegar hann öðlast gildi, eru ekki aðilar að samningi þessum eftir það.

173. gr.
Deilur milli samningsríkja.

1.     Deila milli samningsríkja um túlkun eða framkvæmd þessa samnings, sem ekki verður leyst með samningum, skal, að beiðni einhvers hlutaðeigandi ríkis, lögð fyrir framkvæmdaráðið sem reynir að koma á samkomulagi milli hlutaðeigandi ríkja.


2.     Náist ekki samkomulag innan sex mánaða frá því að framkvæmdaráðið hóf afskipti af deilunni getur hvert ríki, sem í hlut á, lagt málið fyrir Alþjóðadómstólinn til að fá bindandi úrskurð.


174. gr.
Uppsögn.

Samningsríki getur hvenær sem er sagt samningi þessum upp. Tilkynning um uppsögn skal senda ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands. Uppsögn tekur gildi einu ári eftir að slík tilkynning hefur borist.

175. gr.
Áunnin réttindi gilda áfram.

1.     Þó ríki sé ekki lengur aðili að samningi þessum, í samræmi við 4. mgr. 172. gr. eða 174. gr., skerðast ekki réttindi sem þegar eru áunnin samkvæmt honum.
2.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi, sem til afgreiðslu er þegar tilnefnt ríki er ekki lengur aðili að samningnum, skal afgreidd hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, að því er lýtur að því ríki, eins og samningurinn, eins og hann gildir eftir það, gilti enn gagnvart því ríki.
3.     Ákvæði 2. mgr. skulu gilda um evrópsk einkaleyfi þegar andmælameðferð stendur yfir eða andmælafresturinn er ekki útrunninn.

4.     Ekkert í þessari grein skal hafa áhrif á rétt ríkis, sem er ekki lengur aðili að samningi þessum, til að fara með evrópskt einkaleyfi samkvæmt þeim texta sem það átti aðild að.

176. gr.
Fjárhagsleg réttindi og skuldbindingar
fyrrverandi samningsríkja.

1.     Stofnunin skal endurgreiða ríki, sem er ekki lengur aðili að samningnum, í samræmi við 4. mgr. 172. gr. eða 174. gr., hin sérstöku fjárframlög, sem greidd voru skv. 2. mgr. 40. gr., en einungis á þeim tíma og samkvæmt þeim skilyrðum sem stofnunin setur fyrir endurgreiðslu á sérstökum fjárframlögum frá öðrum ríkjum á sama reikningsskilatímabili.


2.     Ríkið, sem um getur í 1. mgr., skal halda áfram að greiða, samkvæmt töxtum sem í gildi voru þegar aðild þess lauk hlutfallsleg árgjöld skv. 39. gr. fyrir evrópsk einkaleyfi, sem enn eru í gildi í því ríki, jafnvel eftir að það er ekki lengur aðili að samningi þessum.

177. gr.
Tungumál samningsins.

1.     Samningur þessi, sem saminn er í einu frumriti á ensku, frönsku og þýsku, skal afhentur til vörslu í skjalasafn ríkisstjórnar sambandslýðveldisins Þýskalands og eru allir þrír textarnir jafngildir.

2.     Textar samningsins, á opinberum tungumálum samningsríkja, annarra en um getur í 1. mgr., teljast, þegar framkvæmdaráðið hefur samþykkt þá, opinberir textar. Rísi ágreiningur um túlkun mismunandi texta skulu þeir textar, er um getur í 1. mgr., gilda.



178. gr.
Framsending og tilkynningar.

1.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal gera staðfest afrit samningsins og senda þau ríkisstjórnum allra ríkja sem undirrita hann eða gerist aðilar að honum.
2.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal tilkynna ríkisstjórnum ríkjanna, sem um getur í 1. mgr., um:
a)    undirritanir;
b)    afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjals til vörslu;
c)    fyrirvara eða afturköllun fyrirvara samkvæmt ákvæðum 167. gr.;
d)    yfirlýsingu eða tilkynningu sem henni berst samkvæmt ákvæðum 168. gr.;
e)    gildistökudag samningsins;
f)    uppsögn, sem berst samkvæmt ákvæðum 174. gr., og daginn þegar slík uppsögn tekur gildi.

3.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal skrá samninginn hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa heimild og umboð í tilhlýðilegu formi, undirritað samning þennan.


Gjört í München 5. október 1973.



BÓKUN
um lögsögu og um viðurkenningu dómsúrskurða varðandi rétt til að fá veitt evrópskt einkaleyfi (bókun um viðurkenningu).


I. kafli.
Lögsaga.
1. gr.

1.     Dómstólar aðildarríkja skulu, í samræmi við 2.–6. gr., hafa lögsögu til að skera úr um kröfur gegn umsækjanda þar sem tilkall er gert til réttar til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gagnvart einu eða fleirum þeirra aðildarríkja sem tilnefnd eru í umsókninni.

2.     Í bókun þessari nær hugtakið dómstólar yfir þau yfirvöld sem að landslögum í aðildarríki hafa lögsögu til að skera úr um kröfur þær er um getur í 1. mgr. Hverju aðildarríki ber að tilkynna Evrópsku einkaleyfastofunni hver þau yfirvöld eru sem slík lögsaga er veitt, og ber Evrópsku einkaleyfastofunni að veita öðrum aðildarríkjum upplýsingar þar um.


3.     Í bókun þessari á hugtakið aðildarríki við hvert það aðildarríki sem ekki hefur beitt 167. gr. sáttmálans til að útiloka að bókunin eigi við.


2. gr.

Nú hefur umsækjandi um evrópskt einkaleyfi aðsetur eða aðalstarfsstöð í einu aðildarríkjanna, og skal þá, með fyrirvara um 4. og 5. gr., mál gegn honum rekið fyrir dómstólum þess aðildarríkis.


3. gr.

Nú hefur umsækjandi um evrópskt einkaleyfi aðsetur eða aðalstarfsstöð utan aðildarríkjanna, en aðilinn, sem gerir tilkall til réttar til að fá veitt evrópskt einkaleyfi, hefur aðsetur eða aðalstarfsstöð í einu aðildarríkjanna, og skulu þá, með fyrirvara um 4. og 5. gr., dómstólar þess ríkis einir hafa lögsögu.


4. gr.

Nú er sótt um evrópskt einkaleyfi á grundvelli uppfinningar sem launþegi hefur gert, og skulu þá, með fyrirvara um 5. gr., dómstólar þess aðildarríkis, þar sem landslög ákvarða réttinn til evrópsks einkaleyfis skv. 2. málslið í 1. mgr. 60. gr. sáttmálans, ef þeim er til að dreifa, einir hafa lögsögu í dómsmálum milli launþegans og vinnuveitanda hans.


5. gr.

1.     Nú hafa málsaðilar í deilu um réttinn til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gert með sér samning, annaðhvort skriflega eða munnlega með skriflegri staðfestingu, þess efnis að dómstóll eða dómstólar í tilteknu aðildarríki eigi að skera úr þess háttar deilu, og skal þá dómstóll eða dómstólar þess ríkis einir hafa lögsögu.
2.     Séu málsaðilar launþegi og vinnuveitandi hans, þá gildir 1. mgr. þó því aðeins að slíkt samkomulag sé heimilt að landslögum þeim sem gilda um starfssamninginn þeirra á milli.

6. gr.

Í þeim málum, sem hvorki falla undir ákvæði 2.–4. gr. né 1. mgr. 5. gr., hafa dómstólar Sambandslýðveldisins Þýskalands einir lögsögu.

7. gr.

Þegar kröfur þær sem um getur í 1. gr., eru bornar upp fyrir dómstól í aðildarríki, þá skal hann að eigin frumkvæði úrskurða hvort honum beri lögsaga skv. 2.–6. gr. eða ekki.

8. gr.

1.     Fari svo að mál sé höfðað, á grundvelli sömu kröfu og milli sömu málsaðila, fyrir dómstólum í fleiri en einu aðildarríki, þá ber dómstóli, þar sem málið er síðar upp borið, af eigin frumkvæði að afsala sér lögsögu til þess dómstóls þar sem það var borið upp fyrr.
2.     Fari svo að brigður séu bornar á lögsögu dómstólsins, þar sem málið var fyrr upp borið, þá ber dómstólnum, þar sem það var borið upp síðar, að fresta málsmeðferð þar til fyrri dómstóllinn kveður upp fullnaðarúrskurð.

II. kafli.
Viðurkenning.
9. gr.

1.     Nú hefur verið kveðinn upp í einhverju aðildarríki fullnaðarúrskurður um réttinn til að fá veitt evrópskt einkaleyfi gagnvart einu eða fleirum þeirra aðildarríkja sem tilnefnd eru í umsókninni um evrópskt einkaleyfi, og skal þá, með fyrirvara um 2. mgr. 11. gr., viðurkenna þann úrskurð án þess að til þurfi að koma nein sérstök málsmeðferð í öðrum aðildarríkjum.
2.     Málskot er óheimilt um réttmæti úrskurðar, sem viðurkenna ber, og lögsögu dómstólsins sem kvað hann upp.

10. gr.

1. mgr. 9. gr. á ekki við ef:
a)    umsækjandi um evrópskt einkaleyfi, sem hefur ekki haft uppi mótmæli gegn kröfu, sýnir fram á að málsskjalið, sem réttarhöldin voru hafin með, hafi ekki verið kynnt honum eins og vera ber og í tæka tíð fyrir hann til að hafa uppi varnir; eða
b)    umsækjandi sýnir fram á að úrskurðurinn fari í bága við annan úrskurð, kveðinn upp í aðildarríki í máli milli sömu málsaðila, og hafi þau málaferli hafist fyrr en hin, þar sem úrskurðurinn, sem ber að viðurkenna, var kveðinn upp.

11. gr.

1.     Í samskiptum aðildarríkja skulu ákvæði bókunar þessarar ganga framar hverjum þeim ákvæðum annarra samninga um lögsögu eða viðurkenningu dómsniðurstaðna sem kunna að vera gagnstæð þeim.
2.     Bókun þessi skal engu breyta um framkvæmd neinna samninga milli aðildarríkis og ríkis sem óbundið er af bókuninni.


BÓKUN
um forréttindi og friðhelgi Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar (bókun
um forréttindi og friðhelgi).


1. gr.

1.     Starfsstöð stofnunarinnar skal njóta friðhelgi.

2.     Stjórnvöld ríkjanna, þar sem stofnunin hefur starfsstöð, skulu ekki fara inn á þá starfsstöð án samþykkis forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar. Gera skal ráð fyrir slíku samþykki ef til eldsvoða kemur eða annarra stórslysa þegar þörf er á snöggum varnaraðgerðum.
3.     Birting stefnu á starfsstöð stofnunarinnar, svo og annarra málsskjala varðandi orsök aðgerðar gegn stofnuninni, telst ekki brot gegn friðhelgi.


2. gr.

Skjalasafn stofnunarinnar og hvers kyns skjöl, sem hún á eða varðveitir, skulu njóta friðhelgi.

3. gr.

1.     Innan opinbers starfssviðs síns skal stofnunin njóta friðhelgi frá málssókn og aðför nema:

a)    að svo miklu leyti sem stofnunin hefur beinlínis afsalað sér slíkri friðhelgi í sérstöku tilviki;

b)    um sé að ræða einkamál sem þriðji aðili höfðar vegna tjóns, sem leiðir af slysi af völdum ökutækis í eigu stofnunarinnar eða rekstri hjá henni, eða umferðarlagabrot er slíkt ökutæki lendir í;


c)    varðandi framkvæmd gerðardóms skv. 23. gr.

2.     Fé og eignir stofnunarinnar skulu, án tillits til staðsetningar, friðhelgar gagnvart hvers kyns framsalskröfu, upptöku, eignarsviptingu og löghaldi.

3.     Fé og eignir stofnunarinnar skulu einnig vera friðhelgar gagnvart hvers kyns takmörkunum stjórnvalda eða bráðabirgðatakmörkunum dómsvalds nema nauðsynlegt kunni að vera til að koma í veg fyrir og rannsaka slys vegna ökutækja í eigu eða rekstri hjá henni.

4.     Samkvæmt bókun þessari á opinber starfsemi stofnunarinnar að takmarkast við það sem er beinlínis nauðsynlegt vegna stjórnunar- og tæknireksturs samkvæmt samningnum.

4. gr.

1.     Innan opinbers verksviðs síns skal stofnunin, eignir hennar og tekjur undanþegnar öllum beinum sköttum.
2.     Þegar stofnunin annast umtalsverð innkaup vegna framkvæmdar á opinberri starfsemi sinni og skattar eða álögur eru innifaldar í verðinu skulu samningsríkin, þegar unnt er, gera viðeigandi ráðstafanir til að endurgreiða stofnuninni slíka skatta og álögur.


3.     Enga undanþágu skal veita varðandi álögur og skatta sem fara ekki fram úr gjöldum vegna þjónustu veitustofnana.

5. gr.

Vörur, sem stofnunin flytur inn eða út til að geta unnið opinber störf sín, skulu undanþegnar álögum og gjöldum á innflutning og útflutning, að undanskildum gjöldum eða sköttum vegna veittrar þjónustu, og skulu vörurnar einnig undanþegnar bönnum og hömlum á innflutning og útflutning.

6. gr.

Engar undanþágur skulu veittar skv. 4. og 5. gr. varðandi varning sem keyptur er eða fluttur inn til persónulegra hagsbóta fyrir starfsfólk Evrópsku einkaleyfastofunnar.

7. gr.

1.     Eigi má selja eða gefa vörur í eigu stofnunarinnar, sem fengnar hafa verið eða fluttar inn skv. 4. og 5. gr., nema samkvæmt skilyrðum þeirra samningsríkja er veitt hafa undanþáguna.

2.     Flutningur vara og veiting þjónustu milli hinna ýmsu bygginga stofnunarinnar skal undanþegin hvers kyns gjöldum og takmörkunum; þar sem við á skulu samningsríkin gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að endurgreiða slík gjöld eða afnema takmarkanirnar.


8. gr.

Ekki má takmarka á neinn hátt sendingu útgáfurita og annars upplýsingaefnis frá stofnuninni eða til hennar.

9. gr.

Samningsríkin skulu veita stofnuninni nauðsynlegar gjaldeyrisundanþágur vegna framkvæmdar á opinberri starfsemi hennar.

10. gr.

1.     Með tilliti til opinberra orðsendinga og flutnings allra skjala sinna skal stofnunin njóta í sérhverju samningsríki bestu kjara sem það ríki veitir öðrum alþjóðastofnunum.

2.     Ekki skal vera nokkurs konar ritskoðun á opinberum orðsendingum stofnunarinnar.


11. gr.

Samningsríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að auðvelda aðgengi, dvöl og brottför starfsfólks Evrópsku einkaleyfastofunnar.

12. gr.

1.     Fulltrúar samningsríkjanna, varafulltrúar og ráðgjafar þeirra eða sérfræðingar, ef einhverjir eru, skulu njóta eftirfarandi forréttinda og friðhelgi meðan þeir sækja fundi framkvæmdaráðsins eða stofnana þess, svo og á ferðum sínum til fundarstaðarins og frá honum:

a)    friðhelgi gagnvart handtöku eða haldi, svo og töku persónulegs farangurs þeirra, nema þegar þeir eru staðnir að því að fremja afbrot, gera tilraun til þess eða hafa nýframið brot;
b)    friðhelgi frá málssókn, jafnvel að sendiför þeirra aflokinni, varðandi gerðir þeirra við framkvæmd starfa, þar á meðal skrifuð eða töluð orð; þessi friðhelgi á þó ekki við umferðarlagabrot, sem einhver framangreindra aðila fremur, eða tjón af völdum ökutækis sem slíkur aðili á eða ekur;



c)    friðhelgi fyrir öll opinber skjöl sín;

d)    rétt til að nota dulmálslykla og taka við skjölum eða bréfum með sérstökum póstbera eða í innsigluðum pósti;
e)    friðhelgi fyrir sjálfa sig og maka sína gagnvart öllum ráðstöfunum er hefta aðgengi, svo og friðhelgi frá skráningarskyldu útlendinga;
f)    sömu aðstöðu varðandi gjaldeyrismál og gjaldeyriseftirlit og þá er veitist fulltrúum erlendra ríkisstjórna í sérstökum opinberum ferðum.

2.     Forréttindi og friðhelgi veitast ekki þeim aðilum skv. 1. mgr. í eigin þágu heldur til að tryggja að þeir séu fullkomlega óháðir varðandi framkvæmd starfa sinna í sambandi við stofnunina. Þar af leiðandi er samningsríki skylt að afsala friðhelgi í öllum tilvikum þar sem ríkið telur að slík friðhelgi muni torvelda réttarmeðferð og afsalið getur farið fram án þess að skaða tilganginn fyrir veitingu friðhelginnar.



13. gr.

1.     Í samræmi við ákvæði 1. gr. skal forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar njóta sömu forréttinda og friðhelgi og veitt er sendierindrekum samkvæmt Vínarsamningnum frá 18. apríl 1961 um stjórnmálasamband.
2.     Friðhelgi frá málssókn á þó ekki við umferðarlagabrot sem forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar fremur eða tjón af völdum ökutækis sem hann á eða ekur.


14. gr.

Starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar:
a)    skulu, jafnvel eftir lok þjónustu sinnar, njóta friðhelgi frá málssókn varðandi gerðir þeirra við framkvæmd starfa, þar á meðal skrifuð eða töluð orð; þessi friðhelgi á þó ekki við um umferðarlagabrot, sem starfsmaður Evrópsku einkaleyfastofunnar fremur, eða tjón af völdum ökutækis sem hann á eða ekur;


b)    skulu undanþegnir skuldbindingum varðandi herþjónustu;
c)    skulu njóta friðhelgi fyrir öll opinber skjöl sín;

d)    skulu njóta sömu aðstöðu varðandi undanþágu frá öllum ráðstöfunum sem takmarka aðgengi og skrásetningu útlendinga og venjulega veitast starfsliði alþjóðastofnana, svo og þeim úr fjölskyldum þeirra sem eru heimilisfastir hjá þeim;

e)    skulu njóta sömu forréttinda varðandi gjaldeyrisreglur og venjulega veitast starfsmönnum alþjóðastofnana;
f)    skulu njóta sömu fyrirgreiðslu varðandi heimsendingu og sendierindrekar á hættutímum á alþjóðavettvangi og sama gildir um þá úr fjölskyldum þeirra sem eru heimilisfastir hjá þeim;
g)    skulu eiga rétt á því að flytja tollfrjálst inn húsgögn sín og persónulega muni þegar þeir taka fyrst til starfa í viðkomandi ríki, svo og rétt við starfslok í ríkinu til að flytja tollfrjálst út húsgögn sín og persónulega muni með þeim skilyrðum er ríkisstjórn landsins, þar sem rétturinn er nýttur, telur nauðsynlegt en að undanskildum eignum sem aflað hefur verið í því ríki og háðar eru útflutningsbanni þar.


15. gr.

Sérfræðingar, sem annast störf fyrir stofnunina eða inna af hendi verkefni fyrir hana, skulu njóta eftirfarandi forréttinda og friðhelgi eftir því sem þörf krefur til að inna störf sín og verkefni af hendi, þar á meðal á ferðalögum vegna starfsins og meðan á framkvæmd verkefnanna stendur:

a)    friðhelgi frá málssókn varðandi gerðir þeirra við framkvæmd starfa, þar á meðal skrifuð eða töluð orð, nema umferðarlagabrot, sem framið er af sérfræðingi, eða tjón af völdum ökutækis sem hann á eða ekur; sérfræðingar njóta áfram friðhelgi eftir starfslok hjá stofnuninni;


b)    friðhelgi fyrir öll opinber skjöl sín;

c)    gjaldeyrisaðstöðu sem nauðsynleg er til að yfirfæra þóknun þeirra.

16. gr.

1.     Þeir aðilar, sem tilgreindir eru í 13. og 14. gr., skulu vera skattskyldir í þágu stofnunarinnar vegna launa og hlunninda, sem hún greiðir, samkvæmt þeim skilyrðum og reglum er framkvæmdaráðið setur innan eins árs frá gildistökudegi samningsins. Frá þeim degi er skattur þessi er lagður á skulu slík laun og hlunnindi undanþegin tekjuskatti heimalandsins. Samningsríkin geta þó tekið tillit til launanna og hlunnindanna, sem eru þannig undanþegin, þegar metin er fjárhæð skatts sem leggja skal á tekjur frá öðrum aðilum.


2.     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um eftirlaun og lífeyri sem stofnunin greiðir fyrrverandi starfsmönnum Evrópsku einkaleyfastofunnar.

17. gr.

Famkvæmdaráðið skal ákveða flokka starfsmanna, sem 14. gr., öll eða að hluta til, og 16. gr. skulu gilda um, svo og flokka sérfræðinga sem 15. gr. skal gilda um. Af og til skal tilkynna samningsríkjunum nöfn, starfsheiti og heimilisföng starfsmanna og sérfræðinga sem eru í slíkum flokkum.



18. gr.

Fari svo að stofnunin komi á fót eigin tryggingakerfi skal hún, auk starfsliðs Evrópsku einkaleyfastofunnar, vera undanþegin öllum skylduframlögum til almannatrygginga einstakra landa í samræmi við samninga sem gerðir eru við samningsríkin samkvæmt ákvæðum 25. gr.


19. gr.

1.     Forréttindum og friðhelgi samkvæmt bókun þessari er ekki ætlað að veita starfsmönnum Evrópsku einkaleyfastofunnar eða sérfræðingum, sem annast störf fyrir stofnunina, persónulegar hagsbætur. Þau eru einungis veitt til að tryggja, undir öllum kringumstæðum, óhindraðan rekstur stofnunarinnar og fullkomið sjálfstæði þeirra er þau veitast.

2.     Forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar er skylt að afsala friðhelgi þar sem hann telur að hún komi í veg fyrir eðlilega réttarmeðferð og að mögulegt sé að vera án slíkrar friðhelgi án þess að skaða hagsmuni stofnunarinnar. Framkvæmdaráðið getur af sömu ástæðum afsalað friðhelgi forstjórans.


20. gr.

1.     Stofnunin skal jafnan hafa samvinnu við viðkomandi stjórnvöld samningsríkjanna til að auðvelda réttmæta meðferð dómsmála, tryggja að reglur um lögreglumálefni, heilbrigðismál, vinnueftirlit eða önnur áþekk mál, samkvænt löggjöf einstakra landa, séu virtar og koma í veg fyrir misnotkun forréttinda, friðhelgi og aðstöðu samkvæmt bókun þessari.

2.     Reglur um samstarf skv. 1. mgr. má kveða á um í viðbótarsamningum skv. 25. gr.


21. gr.

Sérhvert samningsríki heldur rétti sínum til að gera allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir í þágu eigin öryggis.

22. gr.

Engu samningsríki er skylt að rýmka forréttindi og friðhelgi skv. 12. gr., 13. gr., b-, e- og g-lið 14. gr. og c-lið 15. gr. til handa:

a)    eigin þegnum;
b)    einstaklingi sem hefur varanlega búsetu í því ríki þegar hann hefur störf hjá stofnuninni og er ekki starfsmaður nokkurrar annarrar milliríkjastofnunar þar sem starfsfólkið er orðið hluti af starfsliði stofnunarinnar.

23. gr.

1.     Samningsríki getur lagt fyrir alþjóðlegan gerðardóm hvers kyns deilu varðandi stofnunina, starfsmann Evrópsku einkaleyfastofunnar eða sérfræðing, sem starfar fyrir hana, svo framarlega sem stofnunin eða starfsmennirnir og sérfræðingarnir hafa gert kröfu til forréttinda eða friðhelgi samkvæmt bókun þessari í þeim tilvikum er friðhelgi hefur ekki verið afsalað.
2.     Ef samningsríki hyggst setja deilu í gerð skal ríkið tilkynna formanni framkvæmdaráðsins það og skal hann þegar upplýsa sérhvert samningsríki um slíka tilkynningu.
3.     Aðferðin, sem kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar, á hvorki við um deilur milli stofnunarinnar og starfsmannanna eða sérfræðinganna varðandi starfsreglur eða starfsskilyrði né eftirlaunareglur starfsfólksins.

4.     Eigi verður úrskurði gerðardóms áfrýjað og skal hann vera endanlegur og bindandi fyrir aðilana. Rísi deila um merkingu eða gildissvið úrskurðarins skal gerðardómurinn túlka úrskurðinn að beiðni annars hvors aðilans.


24. gr.

1.     Gerðardóminn, sem um getur í 23. gr., skulu þrír menn skipa, einn gerðardómsmaður tilnefndur af ríki eða ríkjum, sem eru aðilar að gerðinni, einn gerðardómsmaður tilnefndur af framkvæmdaráðinu og þriðji gerðardómsmaður, sem sé formaður, tilnefndur af framangreindum tveimur gerðardómsmönnum.
2.     Gerðardómsmenn skal tilnefna af skrá þar sem eigi eru fleiri en sex gerðardómsmenn samkvæmt tilnefningu sérhvers samningsríkis og sex samkvæmt tilnefningu framkvæmdaráðsins. Skal þessi skrá gerð eins fljótt og auðið er eftir gildistöku bókunarinnar og hún endurskoðuð hvenær sem nauðsyn ber til.

3.     Fari svo, innan þriggja mánaða frá dagsetningu tilkynningar skv. 2. mgr. 23. gr., að annar hvor aðilinn láti undir höfuð leggjast að annast tilnefningu skv. 1. mgr. skal forseti Alþjóðadómstólsins velja gerðardómsmanninn samkvæmt beiðni hins aðilans úr hópi manna á framangreindri skrá. Þetta skal einnig gilda þegar annar hvor aðilinn óskar þess, ef svo fer innan mánaðar frá tilnefningu síðari gerðardómsmannsins, að hinir fyrstu tveir gerðardómsmenn geti ekki komið sér saman um tilnefningu þriðja gerðardómsmannsins. Fari þó svo, í þessum tveimur tilvikum, að forseti Alþjóðadómstólsins geti ekki annast valið eða hann er þegn aðildarríkis að deilunni skal varaforseti Alþjóðadómstólsins annast framangreindar tilnefningar svo framarlega sem hann er ekki sjálfur þegn aðildarríkis að deilunni; ef svo er skal dómari Alþjóðadómstólsins, sem er ekki þegn aðildarríkja að deilunni og forseti eða varaforseti Alþjóðadómstólsins hefur valið, annast tilnefningarnar. Eigi má velja þegn ríkis, sem fer fram á gerðardóm, til að sitja í gerðardómi ef tilnefning hans er fengin í hendur framkvæmdaráðinu og ekki má heldur velja þann sem er á skránni og tilnefndur er af framkvæmdaráðinu í starf gerðardómsmanns ef tilnefning hans er fengin í hendur ríki sem er sóknaraðili. Eigi má heldur velja mann í öðrum hvorum þessara flokka forseta gerðardómsins.




4.     Gerðardómurinn setur sér sjálfur starfsreglur.


25. gr.

Stofnunin getur, samkvæmt ákvörðun framkvæmdaráðsins, gert viðbótarsamninga við eitt eða fleiri samningsríki til að framkvæma ákvæði bókunar þessarar, að því er varðar slík ríki, svo og aðrar ráðstafanir til að tryggja að stofnunin sé vel rekin og hagsmuna hennar gætt.



BÓKUN
um miðstýringu evrópska einkaleyfakerfisins
og hvernig henni verði komið á
(bókun um miðstýringu).


I. gr.

1.
a)    Við gildistöku samningsins skulu aðildarríki að honum, sem eru einnig aðilar að Alþjóðaeinkaleyfastofunni er sett var á stofn með Haag-samningnum frá 6. júní 1947, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að Evrópska einkaleyfastofnunin taki, eigi síðar en á þeim degi er segir í 1. mgr. 162. gr. samningsins, við öllum eignum og skuldum og öllu starfsfólki Alþjóðaeinkaleyfastofunnar. Þetta skal framkvæma samkvæmt samningi milli Alþjóðaeinkaleyfastofunnar og Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar. Framangreind ríki og önnur samningsríki skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samningurinn komi til framkvæmda eigi síðar en daginn sem vísað er til í 1. mgr. 162. gr. samningsins. Við framkvæmd samningsins skuldbinda aðildarríki Alþjóðaeinkaleyfastofunnar, sem einnig eru samningsríki, sig enn fremur til að binda enda á þátttöku sína í Haag-samningnum.


b)    Samningsríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að Evrópska einkaleyfastofan taki við öllum eignum og skuldum og öllu starfsfólki Alþjóðaeinkaleyfastofunnar samkvæmt samningnum er um getur í a-lið. Að lokinni framkvæmd þess samnings skal Evrópska einkaleyfastofan taka að sér verkefni Alþjóðaeinkaleyfastofunnar daginn sem samningurinn er lagður fram til undirritunar og þá sérstaklega þau verkefni sem framkvæmd eru gagnvart aðildarríkjum stofunnar, hvort sem þau verða aðilar að samningnum eða ekki, svo og verkefni er stofan hefur tekið að sér að framkvæma við gildistöku samningsins gagnvart ríkjum sem á þeim tíma eru bæði aðilar að Alþjóðaeinkaleyfastofunni og samningnum. Auk þess getur framkvæmdaráð Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar falið Evrópsku einkaleyfastofunni frekari störf á sviði nýnæmisrannsókna.


c)    Framangreindar skuldbindingar gildi einnig að breyttu breytanda um undirskrifstofuna sem sett var á stofn samkvæmt Haag-samningnum með skilyrðum í samningnum milli Alþjóðaeinkaleyfastofunnar og ríkisstjórnar viðkomandi samningsríkis. Ríkisstjórn þessi skuldbindur sig hér með til að gera nýjan samning við Evrópsku einkaleyfastofnunina í stað þess samnings, sem þegar hefur verið gerður við Alþjóðaeinkaleyfastofuna, til að samræma ákvæði um skipulag, rekstur og fjármögnun undirskrifstofunnar ákvæðum bókunar þessarar.
2.     Í samræmi við ákvæði III. gr. skulu samningsríkin, fyrir hönd aðalhugverkastofa sinna, afsala sér, í þágu Evrópsku einkaleyfastofunnar, störfum sem alþjóðlegar nýnæmisrannsóknarstofnanir samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi frá og með þeim degi sem vísað er til í 1. mgr. 162. gr. samningsins.
3.
a)    Setja ber á fót undirskrifstofu Evrópsku einkaleyfaskrifstofunnar í Berlín frá og með þeim degi er um getur í 1. mgr. 162. gr. samningsins. Skal hún rekin undir stjórn útibúsins í Haag.

b)    Framkvæmdaráðið ákvarðar skyldustörf, sem undirskrifstofunni í Berlín eru falin, í ljósi almennra sjónarmiða og þarfa Evrópsku einkaleyfastofunnar.
c)    Eigi síðar en við upphaf stigvaxandi útvíkkunar starfssviðs Evrópsku einkaleyfastofunnar skal það starf, sem undirskrifstofunni er falið, nægja til að gera rannsóknarstarfsfólkinu í Berlínarútibúi þýsku einkaleyfaskrifstofunnar, á þeim degi sem samningurinn er lagður fram til undirritunar, kleift að sinna fullu starfi.

d)    Sambandslýðveldið Þýskaland skal greiða viðbótarkostnað sem Evrópska einkaleyfastofnunin leggur í við stofnun og vegna viðhalds undirskrifstofunnar í Berlín.

II. gr.

Í samræmi við ákvæði III. og V. gr. skulu samningsríkin, fyrir hönd aðalhugverkastofa sinna, afsala sér í þágu Evrópsku einkaleyfastofunnar störfum sem alþjóðlegar forathugunarstofnanir samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi. Skuldbinding þessi á eingöngu við að því marki er Evrópska einkaleyfastofan kann að rannsaka evrópskar einkaleyfisumsóknir skv. 1. mgr. 162. gr. samningsins og skal ekki eiga við fyrr en tveimur árum eftir að Evrópska einkaleyfastofan hefur hafið rannsóknarstörf á viðkomandi tæknisviðum, en á grundvelli fimm ára áætlunar þar sem starfsemi Evrópsku einkaleyfastofunnar sé smám saman aukin á öllum tæknisviðum enda verði áætluninni eingöngu breytt með ákvörðun framkvæmdaráðsins. Aðferðirnar við framkvæmd skuldbindingar þessarar ákveður framkvæmdaráðið.




III. gr.

1.     Aðalhugverkastofu í samningsríki, þar sem opinbert tungumál er ekki eitt opinberra tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar, skal heimilt að starfa sem alþjóðleg nýnæmisrannsóknarstofnun og alþjóðleg forathugunarstofnun samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi. Skal slík heimild vera háð skuldbindingu viðkomandi ríkis um að takmarka slíka starfsemi við alþjóðlegar umsóknir frá ríkisborgurum eða mönnum, sem eru búsettir í slíku ríki, og frá ríkisborgurum samningsríkja eða mönnum sem eru búsettir þar enda liggi samningsríkið að því ríki. Framkvæmdaráðið getur ákveðið að heimila aðalhugverkastofu í samningsríki að rýmka slíka starfsemi þannig að hún nái til alþjóðlegra umsókna frá ríkisborgurum eða mönnum sem eru búsettir í ósamningsbundnu ríki enda hafi það sama opinbera tungumál og viðkomandi samnings og umsóknirnar séu samdar á því tungumáli.

2.     Í þeim tilgangi að samræma nýnæmisrannsóknarstörf samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi innan ramma evrópska kerfisins varðandi veitingu einkaleyfa ber að efna til samstarfs milli Evrópsku einkaleyfastofunnar og aðalhugverkastofa samkvæmt heimild í þessari grein. Slíkt samstarf skal grundvalla á sérstökum samningi sem getur t.d. náð til reglna um nýnæmisrannsóknir og aðferðir, hæfniskrafna vegna ráðningar og þjálfunar rannsóknarmanna, leiðbeininga vegna skipta á nýnæmisrannsóknum og annarrar þjónustu milli skrifstofanna, svo og annarra nauðsynlegra ráðstafana til að koma á fót nauðsynlegri stjórn og eftirliti.

IV. gr.

1.
a)    Í þeim tilgangi að auðvelda aðlögun einkaleyfaskrifstofa samningsríkjanna að evrópska einkaleyfakerfinu getur framkvæmdaráðið, ef það telur æskilegt og að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum, falið aðalhugverkastofum í þeim ríkjum, þar sem mögulegt er að láta málsmeðferð fara fram á einu af opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar, verkefni varðandi rannsókn á einkaleyfishæfi evrópskra einkaleyfisumsókna, sem samdar eru á tungumáli er skal, skv. 2. mgr. 18. gr. samningsins, að jafnaði fela fulltrúa í rannsóknardeildinni. Vinna ber slík verkefni innan ramma málsmeðferðar fyrir veitingu samkvæmt samningnum; ákvarðanir um slíkar umsóknir tekur rannsóknardeildin sem skipuð er skv. 2. mgr. 18. gr.




b)    Verkefni, sem falin eru aðilum samkvæmt a-lið, skulu ekki fara fram úr 40% af samanlögðum fjölda innlagðra evrópskra einkaleyfisumsókna; verkefni, sem falin eru einhverju einu ríki, skulu ekki fara fram úr þriðjungi samanlagðs fjölda innlagðra evrópskra einkaleyfisumsókna. Verkefni þessi ber að fela aðila um fimmtán ára skeið frá opnun Evrópsku einkaleyfastofunnar og skal fækka þeim stig af stigi (í grundvallaratriðum 20% á ári) ofan í núll á síðustu fimm árum tímabilsins.
c)    Framkvæmdaráðið skal, með tilliti til ákvæða b- liðar, ákvarða eðli, uppruna og fjölda evrópskra einkaleyfisumsókna þar sem rannsóknarverkefni má fela aðalhugverkastofu í sérhverju framangreindu samningsríki.


d)    Kveða skal á um framangreindar framkvæmdareglur í sérstökum samningi milli aðalhugverkastofu í viðkomandi samningsríki og Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar.
e)    Skrifstofu, sem slíkur sérstakur samningur hefur verið gerður við, er heimilt að starfa sem alþjóðleg forathugunarstofnun samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi þar til fimmtán ára tímabilið er runnið út.
2.
a)    Telji framkvæmdaráðið að það samrýmist eðlilegri starfsemi Evrópsku einkaleyfastofunnar, og til þess að draga úr hugsanlegum erfiðleikum vissra samningsríkja vegna framkvæmdar 2. mgr. I. gr., getur það falið nýnæmisrannsókn á evrópskum einkaleyfisumsóknum aðalhugverkastofum í þeim ríkjum, þar sem opinbera tungumálið er eitt opinberra tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar, svo framarlega sem þessar stofur hafa nauðsynlega hæfni til að verða útnefndar alþjóðlegar nýnæmisrannsóknarstofnanir samkvæmt skilyrðum í samstarfssamningnum um einkaleyfi.


b)    Við framkvæmd slíkra starfa, sem unnin eru á ábyrgð Evrópsku einkaleyfastofunnar, ber viðkomandi aðalhugverkastofum að fara eftir leiðbeiningum um gerð evrópsku nýnæmisrannsóknarskýrslunnar.
c)    Ákvæði 2. málsl. b-liðar og d-liðar l. mgr. þessarar greinar skulu gilda um málsgrein þessa.


V. gr.

1.     Undirskrifstofunni, sem vísað er til í c-lið, 1. mgr. I. gr., skal heimilt að framkvæma nýnæmisrannsóknir í gögnum, sem hún hefur aðgang að og eru á opinberu tungumáli ríkisins þar sem undirskrifstofan er staðsett, að því er varðar evrópskar einkaleyfisumsóknir frá ríkisborgurum og mönnum sem eru búsettir í því ríki. Heimild þessi skal bundin þeim fyrirvara að málsmeðferð við veitingu evrópskra einkaleyfa tefjist ekki og Evrópska einkaleyfastofnunin verði ekki fyrir viðbótarkostnaði.

2.     Undirskrifstofunni, sem um getur í 1. mgr., skal heimilt að framkvæma, að vali umsækjanda um evrópskt einkaleyfi og á kostnað hans, nýnæmisrannsókn varðandi einkaleyfisumsókn hans í gögnum þeim er um getur í 1. mgr. Heimild þessi skal halda gildi þar til nýnæmisrannsóknin samkvæmt VI. gr. hefur verið rýmkuð þannig að hún nái til slíkra gagna og skal hún gilda með þeim fyrirvara að málsmeðferð við veitingu evrópskra einkaleyfa tefjist ekki.

3.     Framkvæmdaráðinu er einnig heimilt að rýmka heimildir skv. 1. og 2. mgr., samkvæmt skilyrðum þeirra málsgreina, til handa aðalhugverkastofu í samningsríki, sem hefur ekki sem opinbert tungumál eitthvert hinna opinberu tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar.


VI. gr.

Nýnæmisrannsókn skv. 92. gr. samningsins skal í grundvallaratriðum rýmkuð, að því er varðar allar evrópskar einkaleyfisumsóknir, til útgefinna einkaleyfa, útgefinna einkaleyfisumsókna og annarra viðkomandi skjala samningsríkja, sem ekki er getið í nýnæmisrannsóknargögnum Evrópsku einkaleyfastofunnar, þann dag sem um getur í 1. mgr. 162 gr. samningsins. Umfang, skilyrði og tímasetning hverrar slíkrar rýmkunar skal framkvæmdaráðið ákveða um á grundvelli athugunar, sérstaklega varðandi tæknilega og fjárhagslega þætti.

VII. gr.

Ákvæði bókunar þessarar ganga framar ósamrýmanlegum ákvæðum samningsins.

VIII. gr.

Ákvarðanir framkvæmdaráðsins, samkvæmt bókun þessari, skulu teknar með meirihluta að þremur fjórðu (2. mgr. 35. gr. samningsins). Ákvæðin um vægi atkvæða (36. gr. samningsins) skulu gilda.



BÓKUN
um túlkun á 69. gr. evrópska einkaleyfasamningsins.


1. gr.
Almennar meginreglur.

Eigi skal túlka 69. gr. þannig að hún þýði að umfang verndar, sem evrópskt einkaleyfi veitir, teljist ná eins langt og skilgreint er í strangri bókstaflegri merkingu orðalagsins, sem notað er í kröfunum, og að lýsingin og teikningarnar séu eingöngu notaðar í þeim tilgangi að eyða margræðni í kröfunum. Eigi skal heldur telja greinina merkja að kröfurnar séu aðeins til leiðbeiningar og að raunveruleg vernd, sem veitt er, kunni að ná til þess er einkaleyfishafi hefur ætlað með tilliti til lýsingar og teikninga kunnáttumanns á viðkomandi sviði. Þvert á móti ber að túlka greinina þannig að hún skilgreini stöðu milli þeirra ystu marka sem felur bæði í sér sanngjarna vernd fyrir einkaleyfishafann og nægilegt réttaröryggi fyrir þriðja aðila.


2. gr.
Jafngildi.

Í þeim tilgangi að ákvarða umfang verndar, er evrópskt einkaleyfi veitir, ber að taka tilhlýðilegt tillit til atriða sem eru jafngild tilgreindum atriðum í kröfunum.

CONVENTION
on the Grant of European Patents
(European Patent Contvention)


CONTENTS

PREAMBLE

PART I
General and Institutional Provisions

Chapter I
General provisions
Art. 1    European law for the grant of patents
Art. 2    European patent
Art. 3    Territorial effect
Art. 4    European Patent Organisation

Chapter II
The European Patent Organisation
Art. 5    Legal status
Art. 6    Seat
Art. 7    Sub-offices of the European Patent Office

Art. 8    Privileges and immunities
Art. 9    Liability

Chapter III
The European Patent Office
Art. 10    Direction
Art. 11    Appointment of senior employees
Art. 12    Duties of office
Art. 13    Disputes between the Organisation and the employees of the European Patent Office
Art. 14    Languages of the European Patent Office
Art. 15    The departments charged with the procedure
Art. 16    Receiving Section
Art. 17    Search Divisions
Art. 18    Examining Divisions
Art. 19    Opposition Divisions
Art. 20    Legal Division
Art. 21    Boards of Appeal
Art. 22    Enlarged Board of Appeal
Art. 23    Independence of the members of the Boards
Art. 24    Exclusion and objection

Art. 25    Technical opinion

Chapter IV
The Administrative Council

Art. 26    Membership
Art. 27    Chairmanship
Art. 28    Board
Art. 29    Meetings
Art. 30    Attendance of observers
Art. 31    Languages of the Administrative Council
Art. 32    Staff, premises and equipment
Art. 33    Competence of the Administrative Council in certain cases
Art. 34    Voting rights
Art. 35    Voting rules
Art. 36    Weighting of votes

Chapter V
Financial provisions

Art. 37    Cover for expenditure
Art. 38    The Organisation's own resources
Art. 39    Payments by the Contracting States in respect of renewal fees for European patents
Art. 40    Level of fees and payments – Special financial contributions
Art. 41    Advances
Art. 42    Budget
Art. 43    Authorisation for expenditure
Art. 44    Appropriations for unforeseeable expenditure
Art. 45    Accounting period
Art. 46    Preparation and adoption of the budget

Art. 47    Provisional budget
Art. 48    Budget implementation
Art. 49    Auditing of accounts
Art. 50    Financial Regulations
Art. 51    Rules relating to Fees

PART II
Substantive Patent Law
Chapter I
Patentability

Art. 52    Patentable inventions
Art. 53    Exceptions to patentability
Art. 54    Novelty
Art. 55    Non-prejudicial disclosures
Art. 56    Inventive step
Art. 57    Industrial application

Chapter II
Persons entitled to apply for and obtain European patents – Mention of the inventor

Art. 58    Entitlement to file a European patent application
Art. 59    Multiple applicants
Art. 60    Right to a European patent
Art. 61    European patent applications by persons not having the right to a European patent

Art. 62    Right of the inventor to be mentioned


Chapter III
Effects of the European patent and the European patent application

Art. 63    Term of the European patent
Art. 64    Rights conferred by a European patent
Art. 65    Translation of the specification of the European patent
Art. 66    Equivalence of European filing with national filing
Art. 67    Rights conferred by a European patent application after publication
Art. 68    Effect of revocation of the European patent
Art. 69    Extent of protection
Art. 70    Authentic text of a European patent application or European patent

Chapter IV
The European patent application as an object of property

Art. 71    Transfer and constitution of rights
Art. 72    Assignment
Art. 73    Contractual licensing
Art. 74    Law applicable

PART III
Application for European Patents

Chapter I
Filing and requirements of the European patent application
Art. 75    Filing of the European patent application

Art. 76    European divisional applications
Art. 77    Forwarding of European patent applications
Art. 78    Requirements of the European patent application
Art. 79    Designation of Contracting States
Art. 80    Date of filing
Art. 81    Designation of the inventor
Art. 82    Unity of invention
Art. 83    Disclosure of the invention
Art. 84    The claims
Art. 85    The abstract
Art. 86    Renewal fees for European patent applications

Chapter II
Priority

Art. 87    Priority right
Art. 88    Claiming priority
Art. 89    Effect of priority right

PART IV
Procedure up to Grant
Art. 90    Examination on filing
Art. 91    Examination as to formal requirements
Art. 92    The drawing up of the European search report
Art. 93    Publication of a European patent application
Art. 94    Request for examination
Art. 95    Extension of the period within which requests for examination may be filed
Art. 96    Examination of the European patent application
Art. 97    Refusal or grant
Art. 98    Publication of a specification of the European patent

PART V
Opposition Procedure

Art. 99    Opposition
Art. 100    Grounds for opposition
Art. 101    Examination of the opposition
Art. 102    Revocation or maintenance of the European patent
Art. 103    Publication of a new specification of the European patent
Art. 104    Costs
Art. 105    Intervention of the assumed infringer

PART VI
Appeals Procedure

Art. 106    Decisions subject to appeal
Art. 107    Persons entitled to appeal and to be parties to appeal proceedings
Art. 108    Time limit and form of appeal

Art. 109    Interlocutory revision
Art. 110    Examination of appeals
Art. 111    Decision in respect of appeals
Art. 112    Decision or opinion of the Enlarged Board of Appeal

PART VII
Common Provisions

Chapter I
Common provisions governing procedure
Art. 113    Basis of decisions
Art. 114    Examination by the European Patent Office of its own motion
Art. 115    Observations by third parties
Art. 116    Oral proceedings
Art. 117    Taking of evidence
Art. 118    Unity of the European patent application or European patent
Art. 119    Notification
Art. 120    Time limits
Art. 121    Further processing of the European patent application
Art. 122    Restitutio in integrum
Art. 123    Amendments
Art. 124    Information concerning national patent applications
Art. 125    Reference to general principles
Art. 126    Termination of financial obligations

Chapter II
Information to the public or official authorities

Art. 127    Register of European Patents
Art. 128    Inspection of files
Art. 129    Periodical publications
Art. 130    Exchanges of information
Art. 131    Administrative and legal co-operation
Art. 132    Exchange of publications

Chapter III
Representation
Art. 133    General principles of representation
Art. 134    Professional representatives

PART VIII
Impact on National Law
Chapter I
Conversion into a national patent application
Art. 135    Request for the application of national procedure
Art. 136    Submission and transmission of the request
Art. 137    Formal requirements for conversion

Chapter II
Revocation and prior rights
Art. 138    Grounds for revocation
Art. 139    Rights of earlier date or the same date


Chapter III
Miscellaneous effects
Art. 140    National utility models and utility certificates
Art. 141    Renewal fees for European patents

PART IX
Special Agreements
Art. 142    Unitary patents
Art. 143    Special departments of the European Patent Office
Art. 144    Representation before special departments
Art. 145    Select committee of the Administrative Council
Art. 146    Cover for expenditure for carrying out special tasks
Art. 147    Payments in respect of renewal fees for unitary patents
Art. 148    The European patent application as an object of property
Art. 149    Joint designation

PART X
International Applications Pursuant to the Patent Cooperation Treaty

Art. 150    Application of the Patent Cooperation Treaty
Art. 151    The European Patent Office as a receiving Office
Art. 152    Filing and transmittal of the international application
Art. 153    The European Patent Office as a designated Office
Art. 154    The European Patent Office as an International Searching Authority
Art. 155    The European Patent Office as an International Preliminary Examining Authority

Art. 156    The European Patent Office as an elected Office
Art. 157    International search report
Art. 158    Publication of the international application and its supply to the European Patent Office

PART XI
Transitional Provisions

Art. 159    Administrative Council during a transitional period
Art. 160    Appointment of employees during a transitional period
Art. 161    First accounting period
Art. 162    Progressive expansion of the field of activity of the European Patent Office
Art. 163    Professional representatives during a transitional period

PART XII
Final Provisions

Art. 164    Implementing Regulations and Protocols
Art. 165    Signature – Ratification
Art. 166    Accession
Art. 167    Reservations
Art. 168    Territorial field of application
Art. 169    Entry into force
Art. 170    Initial contribution
Art. 171    Duration of the Convention
Art. 172    Revision
Art. 173    Disputes between Contracting States
Art. 174    Denunciation
Art. 175    Preservation of acquired rights
Art. 176    Financial rights and obligations of a former Contracting State
Art. 177    Languages of the Convention
Art. 178    Transmission and notifications

PREAMBLE


THE CONTRACTING STATES,

DESIRING to strengthen co-operation between the States of Europe in respect of the protection of inventions,

DESIRING that such protection may be obtained in those States by a single procedure for the grant of patents and by the establishment of certain standard rules governing patents so granted,

DESIRING, for this purpose, to conclude a Convention which establishes a European Patent Organisation and which constitutes a special agreement within the meaning of Article 19 of the Convention for the Protection of Industrial Property, signed in Paris on 20 March 1883 and last revised on 14 July 1967, and a regional patent treaty within the meaning of Article 45, paragraph 1, of the Patent Cooperation Treaty of 19 June 1970,

HAVE AGREED on the following provisions:

PART I
General and instituational provisions
Chapter I
General provisions
Article 1
European law for the grant of patents

A system of law, common to the Contracting States, for the grant of patents for invention is hereby established.

Article 2
European patent

1.     Patents granted by virtue of this Convention shall be called European patents.
2.     The European patent shall, in each of the Contracting States for which it is granted, have the effect of and be subject to the same conditions as a national patent granted by that State, unless otherwise provided in this Convention.

Article 3
Territorial effect

The grant of a European patent may be requested for one or more of the Contracting States.

Article 4
European Patent Organisation

1.     A European Patent Organisation, hereinafter referred to as the Organisation, is established by this Convention. It shall have administrative and financial autonomy.
2.     The organs of the Organisation shall be:
(a)    a European Patent Office;
(b)    an Administrative Council.
3.     The task of the Organisation shall be to grant European patents. This shall be carried out by the European Patent Office supervised by the Administrative Council.

Chapter II
The European Patent Organisation
Article 5
Legal status

1.     The Organisation shall have legal personality.
2.     In each of the Contracting States, the Organisation shall enjoy the most extensive legal capacity accorded to legal persons under the national law of that State; it may in particular acquire or dispose of movable and immovable property and may be a party to legal proceedings.
3.     The President of the European Patent Office shall represent the Organisation.

Article 6
Seat

1.     The Organisation shall have its seat at Munich.
2.     The European Patent Office shall be set up at Munich. It shall have a branch at The Hague.

Article 7
Sub-offices of the European Patent Office

By decision of the Administrative Council, sub-offices of the European Patent Office may be created if need be, for the purpose of information and liaison, in the Contracting States and with inter-governmental organisations in the field of industrial property, subject to the approval of the Contracting State or organisation concerned.

Article 8
Privileges and immunities

The Protocol on Privileges and Immunities annexed to this Convention shall define the conditions under which the Organisation, the members of the Administrative Council, the employees of the European Patent Office and such other persons specified in that Protocol as take part in the work of the Organisation, shall enjoy, in the territory of each Contracting State, the privileges and immunities necessary for the performance of their duties.

Article 9
Liability

1.     The contractual liability of the Organisation shall be governed by the law applicable to the relevant contract.
2.     The non-contractual liability of the Organisation in respect of any damage caused by it or by the employees of the European Patent Office in the performance of their duties shall be governed by the provisions of the law of the Federal Republic of Germany. Where the damage is caused by the branch at The Hague or a sub-office or employees attached thereto, the provisions of the law of the Contracting State in which such branch or sub-office is located shall apply.
3.     The personal liability of the employees of the European Patent Office towards the Organisation shall be laid down in their Service Regulations or conditions of employment.
4.     The courts with jurisdiction to settle disputes under paragraphs 1 and 2 shall be:
(a)    for disputes under paragraph 1, the courts of competent jurisdiction in the Federal Republic of Germany, unless the contract concluded between the parties designates the courts of another State;
(b)    for disputes under paragraph 2, either the courts of competent jurisdiction in the Federal Republic of Germany, or the courts of competent jurisdiction in the State in which the branch or sub-office is located.

Chapter III
The European Patent Office
Article 10
Direction

1.     The European Patent Office shall be directed by the President who shall be responsible for its activities to the Administrative Council.
2.     To this end, the President shall have in particular the following functions and powers:
(a)    he shall take all necessary steps, including the adoption of internal administrative instructions and the publication of guidance for the public, to ensure the functioning of the European Patent Office;
(b)    in so far as this Convention contains no provisions in this respect, he shall prescribe which transactions are to be carried out at the European Patent Office at Munich and its branch at The Hague respectively;
(c)    he may place before the Administrative Council any proposal for amending this Convention and any proposal for general regulations or decisions which come within the competence of the Administrative Council;
(d)    he shall prepare and implement the budget and any amending or supplementary budget;
(e)    he shall submit a management report to the Administrative Council each year;
(f)    he shall exercise supervisory authority over the personnel;
(g)    subject to the provisions of Article 11, he shall appoint and promote the employees;
(h)    he shall exercise disciplinary authority over the employees other than those referred to in Article 11, and may propose disciplinary action to the Administrative Council with regard to employees referred to in Article 11, paragraphs 2 and 3;
(i)    he may delegate his functions and powers.
3.     The President shall be assisted by a number of Vice-Presidents. If the President is absent or indisposed, one of the Vice-Presidents shall take his place in accordance with the procedure laid down by the Administrative Council.

Article 11
Appointment of senior employees

1.     The President of the European Patent Office shall be appointed by decision of the Administrative Council.
2.     The Vice-Presidents shall be appointed by decision of the Administrative Council after the President has been consulted.
3.     The members, including the Chairmen, of the Boards of Appeal and of the Enlarged Board of Appeal shall be appointed by decision of the Administrative Council, taken on a proposal from the President of the European Patent Office. They may be re- appointed by decision of the Administrative Council after the President of the European Patent Office has been consulted.
4.     The Administrative Council shall exercise disciplinary authority over the employees referred to in paragraphs 1 to 3.

Article 12
Duties of office

The employees of the European Patent Office shall be bound, even after the termination of their employment, neither to disclose nor to make use of information which by its nature is a professional secret.

Article 13
Disputes between the Organisation and theemployees of the European Patent Office

1.     Employees and former employees of the European Patent Office or their successors in title may apply to the Administrative Tribunal of the International Labour Organisation in the case of disputes with the European Patent Organisation in accordance with the Statute of the Tribunal and within the limits and subject to the conditions laid down in the Service Regulations for permanent employees or the Pension Scheme Regulations or arising from the conditions of employment of other employees.
2.     An appeal shall only be admissible if the person concerned has exhausted such other means of appeal as are available to him under the Service Regulations, the Pension Scheme Regulations or the conditions of employment, as the case may be.

Article 14
Languages of the European Patent Office

1.     The official languages of the European Patent Office shall be English, French and German. European patent applications must be filed in one of these languages.
2.     However, natural or legal persons having their residence or principal place of business within the territory of a Contracting State having a language other than English, French or German as an official language, and nationals of that State who are resident abroad, may file European patent applications in an official language of that State. Nevertheless, a translation in one of the official languages of the European Patent Office must be filed within the time limit prescribed in the Implementing Regulations; throughout the proceedings before the European Patent Office, such translation may be brought into conformity with the original text of the application.
3.     The official language of the European Patent Office in which the European patent application is filed or, in the case referred to in paragraph 2, that of the translation, shall be used as the language of the proceedings in all proceedings before the European Patent Office concerning the application or the resulting patent, unless otherwise provided in the Implementing Regulations.
4.     The persons referred to in paragraph 2 may also file documents which have to be filed within a time limit in an official language of the Contracting State concerned. They must however file a translation in the language of the proceedings within the time limit prescribed in the Implementing Regulations; in the cases provided for in the Implementing Regulations, they may file a translation in a different official language of the European Patent Office.
5.     If any document, other than those making up the European patent application, is not filed in the language prescribed by this Convention, or if any translation required by virtue of this Convention is not filed in due time, the document shall be deemed not to have been received.
6.     European patent applications shall be published in the language of the proceedings.
7.     The specifications of European patents shall be published in the language of the proceedings; they shall include a translation of the claims in the two other official languages of the European Patent Office.
8.     There shall be published in the three official languages of the European Patent Office:
(a)    the European Patent Bulletin;
(b)    the Official Journal of the European Patent Office.
9.     Entries in the Register of European Patents shall be made in the three official languages of the European Patent Office. In cases of doubt, the entry in the language of the proceedings shall be authentic.

Article 15
The departments charged with the procedure

For implementing the procedures laid down in this Convention, there shall be set up within the European Patent Office:
(a)    a Receiving Section;
(b)    Search Divisions;
(c)    Examining Divisions;
(d)    Opposition Divisions;
(e)    a Legal Division;
(f)    Boards of Appeal;
(g)    an Enlarged Board of Appeal.

Article 16
Receiving Section

The Receiving Section shall be in the branch at The Hague. It shall be responsible for the examination on filing and the examination as to formal requirements of each European patent application up to the time when a request for examination has been made or the applicant has indicated under Article 96, paragraph 1, that he desires to proceed further with his application. It shall also be responsible for the publication of the European patent application and of the European search report.

Article 17
Search Divisions

The Search Divisions shall be in the branch at The Hague. They shall be responsible for drawing up European search reports.

Article 18
Examining Divisions

1.     An Examining Division shall be responsible for the examination of each European patent application from the time when the Receiving Section ceases to be responsible.
2.     An Examining Division shall consist of three technical examiners. Nevertheless, the examination prior to a final decision shall, as a general rule, be entrusted to one member of the Division. Oral proceedings shall be before the Examining Division itself. If the Examining Division considers that the nature of the decision so requires, it shall be enlarged by the addition of a legally qualified examiner. In the event of parity of votes, the vote of the Chairman of the Division shall be decisive.

Article 19
Opposition Divisions

1.     An Opposition Division shall be responsible for the examination of oppositions against any European patent.
2.     An Opposition Division shall consist of three technical examiners, at least two of whom shall not have taken part in the proceedings for grant of the patent to which the opposition relates. An examiner who has taken part in the proceedings for the grant of the European patent shall not be the Chairman. Prior to the taking of a final decision on the opposition, the Opposition Division may entrust the examination of the opposition to one of its members. Oral proceedings shall be before the Opposition Division itself. If the Opposition Division considers that the nature of the decision so requires, it shall be enlarged by the addition of a legally qualified examiner who shall not have taken part in the proceedings for grant of the patent. In the event of parity of votes, the vote of the Chairman of the Division shall be decisive.

Article 20
Legal Division

1.     The Legal Division shall be responsible for decisions in respect of entries in the Register of European Patents and in respect of registration on, and deletion from, the list of professional representatives.
2.     Decisions of the Legal Division shall be taken by one legally qualified member.

Article 21
Boards of Appeal

1.     The Boards of Appeal shall be responsible for the examination of appeals from the decisions of the Receiving Section, Examining Divisions, Opposition Divisions and of the Legal Division.
2.     For appeals from a decision of the Receiving Section or the Legal Division, a Board of Appeal shall consist of three legally qualified members.
3.     For appeals from a decision of an Examining Division, a Board of Appeal shall consist of:
(a)    two technically qualified members and one legally qualified member, when the decision concerns the refusal of a European patent application or the grant of a European patent and was taken by an Examining Division consisting of less than four members;
(b)    three technically qualified members and two legally qualified members, when the decision was taken by an Examining Division consisting of four members or when the Board of Appeal considers that the nature of the appeal so requires;
(c)    three legally qualified members in all other cases.
4.     For appeals from a decision of an Opposition Division, a Board of Appeal shall consist of:
(a)    two technically qualified members and one legally qualified member, when the decision was taken by an Opposition Division consisting of three members;
(b)    three technically qualified members and two legally qualified members, when the decision was taken by an Opposition Division consisting of four members or when the Board of Appeal considers that the nature of the appeal so requires.

Article 22
Enlarged Board of Appeal

1.     The Enlarged Board of Appeal shall be responsible for:
(a)    deciding points of law referred to it by Boards of Appeal;
(b)    giving opinions on points of law referred to it by the President of the European Patent Office under the conditions laid down in Article 112.
2.     For giving decisions or opinions, the Enlarged Board of Appeal shall consist of five legally qualified members and two technically qualified members. One of the legally qualified members shall be the Chairman.

Article 23
Independence of the members of the Boards

1.     The members of the Enlarged Board of Appeal and of the Boards of Appeal shall be appointed for a term of five years and may not be removed from office during this term, except if there are serious grounds for such removal and if the Administrative Council, on a proposal from the Enlarged Board of Appeal, takes a decision to this effect.
2.     The members of the Boards may not be members of the Receiving Section, Examining Divisions, Opposition Divisions or of the Legal Division.
3.     In their decisions the members of the Boards shall not be bound by any instructions and shall comply only with the provisions of this Convention.
4.     The Rules of Procedure of the Boards of Appeal and the Enlarged Board of Appeal shall be adopted in accordance with the provisions of the Implementing Regulations. They shall be subject to the approval of the Administrative Council.

Article 24
Exclusion and objection

1.     Members of the Boards of Appeal or of the Enlarged Board of Appeal may not take part in any appeal if they have any personal interest therein, if they have previously been involved as representatives of one of the parties, or if they participated in the decision under appeal.
2.     If, for one of the reasons mentioned in paragraph 1, or for any other reason, a member of a Board of Appeal or of the Enlarged Board of Appeal considers that he should not take part in any appeal, he shall inform the Board accordingly.
3.     Members of a Board of Appeal or of the Enlarged Board of Appeal may be objected to by any party for one of the reasons mentioned in paragraph 1, or if suspected of partiality. An objection shall not be admissible if, while being aware of a reason for objection, the party has taken a procedural step. No objection may be based upon the nationality of members.
4.     The Boards of Appeal and the Enlarged Board of Appeal shall decide as to the action to be taken in the cases specified in paragraphs 2 and 3 without the participation of the member concerned. For the purposes of taking this decision the member objected to shall be replaced by his alternate.

Article 25
Technical opinion

At the request of the competent national court trying an infringement or revocation action, the European Patent Office shall be obliged, against payment of an appropriate fee20, to give a technical opinion concerning the European patent which is the subject of the action. The Examining Division shall be responsible for the issue of such opinions.

Chapter IV
The Administrative Council
Article 26
Membership

1.     The Administrative Council shall be composed of the Representatives and the alternate Representatives of the Contracting States. Each Contracting State shall be entitled to appoint one Representative and one alternate Representative to the Administrative Council.
2.     The members of the Administrative Council may, subject to the provisions of its Rules of Procedure, be assisted by advisers or experts.

Article 27
Chairmanship

1.     The Administrative Council shall elect a Chairman and a Deputy Chairman from among the Representatives and alternate Representatives of the Contracting States. The Deputy Chairman shall ex officio replace the Chairman in the event of his being prevented from attending to his duties.
2.     The duration of the terms of office of the Chairman and the Deputy Chairman shall be three years. The terms of office shall be renewable.

Article 28
Board

1.     When there are at least eight Contracting States, the Administrative Council may set up a Board composed of five of its members.
2.     The Chairman and the Deputy Chairman of the Administrative Council shall be members of the Board ex officio; the other three members shall be elected by the Administrative Council.
3.     The term of office of the members elected by the Administrative Council shall be three years. This term of office shall not be renewable.
4.     The Board shall perform the duties given to it by the Administrative Council in accordance with the Rules of Procedure.

Article 29
Meetings

1.     Meetings of the Administrative Council shall be convened by its Chairman.
2.     The President of the European Patent Office shall take part in the deliberations of the Administrative Council.
3.     The Administrative Council shall hold an ordinary meeting once each year. In addition, it shall meet on the initiative of its Chairman or at the request of one-third of the Contracting States.
4.     The deliberations of the Administrative Council shall be based on an agenda, and shall be held in accordance with its Rules of Procedure.
5.     The provisional agenda shall contain any question whose inclusion is requested by any Contracting State in accordance with the Rules of Procedure.

Article 30
Attendance of observers

1.     The World Intellectual Property Organization shall be represented at the meetings of the Administrative Council, in accordance with the provisions of an agreement to be concluded between the European Patent Organisation and the World Intellectual Property Organization.
2.     Any other intergovernmental organisation charged with the implementation of international procedures in the field of patents with which the Organisation has concluded an agreement shall be represented at the meetings of the Administrative Council, in accordance with any provisions contained in such agreement.
3.     Any other intergovernmental and international non-governmental organisations exercising an activity of interest to the Organisation may be invited by the Administrative Council to arrange to be represented at its meetings during any discussion of matters of mutual interest.

Article 31
Languages of the Administrative Council

1.     The languages in use in the deliberations of the Administrative Council shall be English, French and German.
2.     Documents submitted to the Administrative Council, and the minutes of its deliberations, shall be drawn up in the three languages mentioned in paragraph 1.

Article 32
Staff, premises and equipment

The European Patent Office shall place at the disposal of the Administrative Council and any body established by it such staff, premises and equipment as may be necessary for the performance of their duties.

Article 33
Competence of the Administrative Council
in certain cases

1.     The Administrative Council shall be competent to amend the following provisions of this Convention:
(a)    the time limits laid down in this Convention; this shall apply to the time limit laid down in Article 94 only in the conditions laid down in Article 95;

(b)    the Implementing Regulations.
2.     The Administrative Council shall be competent, in conformity with this Convention, to adopt or amend the following provisions:
(a)    the Financial Regulations;
(b)    the Service Regulations for permanent employees and the conditions of employment of other employees of the European Patent Office, the salary scales of the said permanent and other employees, and also the nature, and rules for the grant, of any supplementary benefits;
(c)    the Pension Scheme Regulations and any appropriate increases in existing pensions to correspond to increases in salaries;
(d)    the Rules relating to Fees;
(e)    its Rules of Procedure.
3.     Notwithstanding Article 18, paragraph 2, the Administrative Council shall be competent to decide, in the light of experience, that in certain categories of cases Examining Divisions shall consist of one technical examiner. Such decision may be rescinded.
4.     The Administrative Council shall be competent to authorise the President of the European Patent Office to negotiate and, with its approval, to con clude agreements on behalf of the European Patent Organisation with States, with intergovernmental organisations and with documentation centres set up by virtue of agreements with such organisations.

Article 34
Voting rights

1.     The right to vote in the Administrative Council shall be restricted to the Contracting States.
2.     Each Contracting State shall have one vote, subject to the application of the provisions of Article 36.

Article 35
Voting rules

1.     The Administrative Council shall take its decisions other than those referred to in paragraph 2 by a simple majority of the Contracting States represented and voting.
2.     A majority of three-quarters of the votes of the Contracting States represented and voting shall be required for the decisions which the Administrative Council is empowered to take under Article 7, Article 11, paragraph 1, Article 33, Article 39, paragraph 1, Article 40, paragraphs 2 and 4, Article 46, Article 87, Article 95, Article 134, Article 151, paragraph 3, Article 154, paragraph 2, Article 155, paragraph 2, Article 156, Article 157, paragraphs 2 to 4, Article 160, paragraph 1, second sentence, Article 162, Article 163, Article 166, Article 167 and Article 172.
3.     Abstentions shall not be considered as votes.

Article 36
Weighting of votes

1.     In respect of the adoption or amendment of the Rules relating to Fees and, if the financial contribution to be made by the Contracting States would thereby be increased, the adoption of the budget of the Organisation and of any amending or supplementary budget, any Contracting State may require, following a first ballot in which each Contracting State shall have one vote, and whatever the result of this ballot, that a second ballot be taken immediately, in which votes shall be given to the States in accordance with paragraph 2. The decision shall be determined by the result of this second ballot.
2.     The number of votes that each Contracting State shall have in the second ballot shall be calculated as follows:
(a)    the percentage obtained for each Contracting State in respect of the scale for the special financial contributions, pursuant to Article 40, paragraphs 3 and 4, shall be multiplied by the number of Contracting States and divided by five;
(b)    the number of votes thus given shall be rounded upwards to the next higher whole number;
(c)    five additional votes shall be added to this number;
(d)    nevertheless no Contracting State shall have more than 30 votes.

Chapter V
Financial provisions
Article 37
Cover for expenditure

The expenditure of the Organisation shall be covered:
(a)    by the Organisation's own resources;
(b)    by payments made by the Contracting States in respect of renewal fees for European patents levied in these States;
(c)    where necessary, by special financial contributions made by the Contracting States;
(d)    where appropriate, by the revenue provided for in Article 146.

Article 38
The Organisation's own resources

The Organisation's own resources shall be the yield from the fees laid down in this Convention, and also all receipts, whatever their nature.

Article 39
Payments by the Contracting States in respect of renewal fees for European patents

1.     Each Contracting State shall pay to the Organisation in respect of each renewal fee received for a European patent in that State an amount equal to a proportion of that fee, to be fixed by the Administrative Council; the proportion shall not exceed 75 per cent and shall be the same for all Contracting States. However, if the said proportion corresponds to an amount which is less than a uniform minimum amount fixed by the Administrative Council, the Contracting State shall pay that minimum to the Organisation.
2.     Each Contracting State shall communicate to the Organisation such information as the Administrative Council considers to be necessary to determine the amount of its payments.
3.     The due dates for these payments shall be determined by the Administrative Council.
4.     If a payment is not remitted fully by the due date, the Contracting State shall pay interest from the due date on the amount remaining unpaid.

Article 40
Level of fees and payments –
Special financial contributions

1.     The amounts of the fees referred to under Article 38 and the proportion referred to under Article 39 shall be fixed at such a level as to ensure that the revenue in respect thereof is sufficient for the budget of the Organisation to be balanced.
2.     However, if the Organisation is unable to balance its budget under the conditions laid down in paragraph 1, the Contracting States shall remit to the Organisation special financial contributions, the amount of which shall be determined by the Administrative Council for the accounting period in question.
3.     These special financial contributions shall be determined in respect of any Contracting State on the basis of the number of patent applications filed in the last year but one prior to that of entry into force of this Convention, and calculated in the following manner:
(a)    one half in proportion to the number of patent applications filed in that Contracting State;
(b)    one half in proportion to the second highest number of patent applications filed in the other Contracting States by natural or legal persons having their residence or principal place of business in that Contracting State.
However, the amounts to be contributed by States in which the number of patent applications filed exceeds 25 000 shall then be taken as a whole and a new scale drawn up determined in proportion to the total number of patent applications filed in these States.
4.     Where, in respect of any Contracting State, its scale position cannot be established in accordance with paragraph 3, the Administrative Council shall, with the consent of that State, decide its scale position.
5.     Article 39, paragraphs 3 and 4, shall apply mutatis mutandis to the special financial contributions.
6.     The special financial contributions shall be repaid together with interest at a rate which shall be the same for all Contracting States. Repayments shall be made in so far as it is possible to provide for this purpose in the budget; the amount thus provided shall be distributed among the Contracting States in accordance with the scale mentioned in paragraphs 3 and 4 above.
7.     The special financial contributions remitted in any accounting period shall be wholly repaid before any such contributions or parts thereof remitted in any subsequent accounting period are repaid.


Article 41
Advances

1.     At the request of the President of the European Patent Office, the Contracting States shall make advances to the Organisation, on account of their payments and contributions, within the limit of the amount fixed by the Administrative Council. Such advances shall be apportioned in proportion to the amounts due by the Contracting States for the accounting period in question.
2.     Article 39, paragraphs 3 and 4, shall apply mutatis mutandis to the advances.

Article 42
Budget

1.     Income and expenditure of the Organisation shall form the subject of estimates in respect of each accounting period and shall be shown in the budget. If necessary, there may be amending or supplementary budgets.
2.     The budget shall be balanced as between income and expenditure.
3.     The budget shall be drawn up in the unit of account fixed in the Financial Regulations.

Article 43
Authorisation for expenditure

1.     The expenditure entered in the budget shall be authorised for the duration of one accounting period, unless any provisions to the contrary are contained in the Financial Regulations.
2.     Subject to the conditions to be laid down in the Financial Regulations, any appropriations, other than those relating to staff costs, which are unexpended at the end of the accounting period may be carried forward, but not beyond the end of the following accounting period.
3.     Appropriations shall be set out under different headings according to type and purpose of the expenditure and subdivided, as far as necessary, in accordance with the Financial Regulations.

Article 44
Appropriations for unforeseeable expenditure

1.     The budget of the Organisation may contain appropriations for unforeseeable expenditure.
2.     The employment of these appropriations by the Organisation shall be subject to the prior approval of the Administrative Council.

Article 45
Accounting period

The accounting period shall commence on 1 January and end on 31 December.

Article 46
Preparation and adoption of the budget

1.     The President of the European Patent Office shall lay the draft budget before the Administrative Council not later than the date prescribed in the Financial Regulations.
2.     The budget and any amending or supplementary budget shall be adopted by the Administrative Council.

Article 47
Provisional budget

1.     If, at the beginning of the accounting period, the budget has not been adopted by the Administrative Council, expenditures may be effected on a monthly basis per heading or other division of the budget, according to the provisions of the Financial Regulations, up to one-twelfth of the budget appropriations for the preceding accounting period, provided that the appropriations thus made available to the President of the European Patent Office shall not exceed one-twelfth of those provided for in the draft budget.
2.     The Administrative Council may, subject to the observance of the other provisions laid down in paragraph 1, authorise expenditure in excess of one- twelfth of the appropriations.
3.     The payments referred to in Article 37, sub-paragraph (b), shall continue to be made, on a provisional basis, under the conditions determined under Article 39 for the year preceding that to which the draft budget relates.
4.     The Contracting States shall pay each month, on a provisional basis and in accordance with the scale referred to in Article 40, paragraphs 3 and 4, any special financial contributions necessary to ensure implementation of paragraphs 1 and 2 above. Article 39, paragraph 4, shall apply mutatis mutandis to these contributions.

Article 48
Budget implementation

1.     The President of the European Patent Office shall implement the budget and any amending or supplementary budget on his own responsibility and within the limits of the allocated appropriations.
2.     Within the budget, the President of the European Patent Office may, subject to the limits and conditions laid down in the Financial Regulations, transfer funds as between the various headings or sub-headings.

Article 49
Auditing of accounts

1.     The income and expenditure account and a balance sheet of the Organisation shall be examined by auditors whose independence is beyond doubt, appointed by the Administrative Council for a period of five years, which shall be renewable or extensible.
2.     The audit, which shall be based on vouchers and shall take place, if necessary, in situ, shall ascertain that all income has been received and all expenditure effected in a lawful and proper manner and that the financial management is sound. The auditors shall draw up a report after the end of each accounting period.
3.     The President of the European Patent Office shall annually submit to the Administrative Council the accounts of the preceding accounting period in respect of the budget and the balance sheet showing the assets and liabilities of the Organisation together with the report of the auditors.
4.     The Administrative Council shall approve the annual accounts together with the report of the auditors and shall give the President of the European Patent Office a discharge in respect of the implementation of the budget.

Article 50
Financial Regulations

The Financial Regulations shall in particular establish:
(a)    the procedure relating to the establishment and implementation of the budget and for the rendering and auditing of accounts;
(b)    the method and procedure whereby the payments and contributions provided for in Article 37 and the advances provided for in Article 41 are to be made available to the Organisation by the Contracting States;
(c)    the rules concerning the responsibilities of accounting and paying officers and the arrangements for their supervision;
(d)    the rates of interest provided for in Articles 39, 40 and 47;
(e)    the method of calculating the contributions payable by virtue of Article 146;
(f)    the composition of and duties to be assigned to a Budget and Finance Committee which should be set up by the Administrative Council.

Article 51
Rules relating to Fees

The Rules relating to Fees shall determine in particular the amounts of the fees and the ways in which they are to be paid.

PART II
Substantive Patent Law
Chapter I
Patentability
Article 52
Patentable inventions

1.     European patents shall be granted for any inventions which are susceptible of industrial application, which are new and which involve an inventive step.
2.     The following in particular shall not be regarded as inventions within the meaning of paragraph 1:
(a)    discoveries, scientific theories and mathematical methods;
(b)    aesthetic creations;
(c)    schemes, rules and methods for performing mental acts, playing games or doing business, and programs for computers;
(d)    presentations of information.
3.     The provisions of paragraph 2 shall exclude patentability of the subject-matter or activities referred to in that provision only to the extent to which a European patent application or European patent relates to such subject-matter or activities as such.
4.     Methods for treatment of the human or animal body by surgery or therapy and diagnostic methods practised on the human or animal body shall not be regarded as inventions which are susceptible of industrial application within the meaning of paragraph 1. This provision shall not apply to products, in particular substances or compositions, for use in any of these methods.

Article 53
Exceptions to patentability

European patents shall not be granted in respect of:

(a)    inventions the publication or exploitation of which would be contrary to “ordre public” or morality, provided that the exploitation shall not be deemed to be so contrary merely because it is prohibited by law or regulation in some or all of the Contracting States;
(b)    plant or animal varieties or essentially biological processes for the production of plants or animals; this provision does not apply to microbiological processes or the products thereof.


Article 54
Novelty

1.     An invention shall be considered to be new if it does not form part of the state of the art.
2.     The state of the art shall be held to comprise everything made available to the public by means of a written or oral description, by use, or in any other way, before the date of filing of the European patent application.
3.     Additionally, the content of European patent applications as filed, of which the dates of filing are prior to the date referred to in paragraph 2 and which were published under Article 93 on or after that date, shall be considered as comprised in the state of the art.
4.     Paragraph 3 shall be applied only in so far as a Contracting State designated in respect of the later application, was also designated in respect of the earlier application as published.
5.     The provisions of paragraphs 1 to 4 shall not exclude the patentability of any substance or composition, comprised in the state of the art, for use in a method referred to in Article 52, paragraph 4, provided that its use for any method referred to in that paragraph is not comprised in the state of the art.


Article 55
Non-prejudicial disclosures

1.     For the application of Article 54 a disclosure of the invention shall not be taken into consideration if it occurred no earlier than six months preceding the filing of the European patent application and if it was due to, or in consequence of:
(a)    an evident abuse in relation to the applicant or his legal predecessor, or
(b)    the fact that the applicant or his legal predecessor has displayed the invention at an official, or officially recognised, international exhibition falling within the terms of the Convention on international exhibitions signed at Paris on 22 November 1928 and last revised on 30 November 1972.

2.     In the case of paragraph 1(b), paragraph 1 shall apply only if the applicant states, when filing the European patent application, that the invention has been so displayed and files a supporting certificate within the period and under the conditions laid down in the Implementing Regulations.

Article 56
Inventive step

An invention shall be considered as involving an inventive step if, having regard to the state of the art, it is not obvious to a person skilled in the art. If the state of the art also includes documents within the meaning of Article 54, paragraph 3, these documents are not to be considered in deciding whether there has been an inventive step.

Article 57
Industrial application

An invention shall be considered as susceptible of industrial application if it can be made or used in any kind of industry, including agriculture.

Chapter II
Persons entitled to apply for and obtain European patents – Mention of the inventor
Article 58
Entitlement to file a European patent application

A European patent application may be filed by any natural or legal person, or any body equivalent to a legal person by virtue of the law governing it.


Article 59
Multiple applicants

A European patent application may also be filed either by joint applicants or by two or more applicants designating different Contracting States.

Article 60
Right to a European patent

1.     The right to a European patent shall belong to the inventor or his successor in title. If the inventor is an employee the right to the European patent shall be determined in accordance with the law of the State in which the employee is mainly employed; if the State in which the employee is mainly employed cannot be determined, the law to be applied shall be that of the State in which the employer has his place of business to which the employee is attached.
2.     If two or more persons have made an invention independently of each other, the right to the European patent shall belong to the person whose European patent application has the earliest date of filing; however, this provision shall apply only if this first application has been published under Article 93 and shall only have effect in respect of the Contracting States designated in that application as published.
3.     For the purposes of proceedings before the European Patent Office, the applicant shall be deemed to be entitled to exercise the right to the European patent.

Article 61
European patent applications by persons not having the right to a European patent

1.     If by a final decision it is adjudged that a person referred to in Article 60, paragraph 1, other than the applicant, is entitled to the grant of a European patent, that person may, within a period of three months after the decision has become final, provided that the European patent has not yet been granted, in respect of those Contracting States designated in the European patent application in which the decision has been taken or recognised, or has to be recognised on the basis of the Protocol on Recognition annexed to this Convention:

(a)    prosecute the application as his own application in place of the applicant,
(b)    file a new European patent application in respect of the same invention, or
(c)    request that the application be refused.
2.     The provisions of Article 76, paragraph 1, shall apply mutatis mutandis to a new application filed under paragraph 1.
3.     The procedure to be followed in carrying out the provisions of paragraph 1, the special conditions applying to a new application filed under paragraph 1 and the time limit for paying the filing, search and designation fees on it are laid down in the Implementing Regulations.

Article 62
Right of the inventor
to be mentioned

The inventor shall have the right, vis-à-vis the applicant for or proprietor of a European patent, to be mentioned as such before the European Patent Office.

Chapter III
Effects of the European patent and the
European patent application
Article 63
Term of the European patent

1.     The term of the European patent shall be 20 years as from the date of filing of the application.
2.     Nothing in the preceding paragraph shall limit the right of a Contracting State to extend the term of a European patent, or to grant corresponding protection which follows immediately on expiry of the term of the patent, under the same conditions as those applying to national patents:
(a)    in order to take account of a state of war or similar emergency conditions affecting that State;
(b)    if the subject-matter of the European patent is a product or a process of manufacturing a product or a use of a product which has to undergo an administrative authorisation procedure required by law before it can be put on the market in that State.
3.     Paragraph 2 shall apply mutatis mutandis to European patents granted jointly for a group of Contracting States in accordance with Article 142.
4.     A Contracting State which makes provision for extension of the term or corresponding protection under paragraph 2(b) may, in accordance with an agreement concluded with the Organisation, entrust to the European Patent Office tasks associated with implementation of the relevant provisions.

Article 64
Rights conferred by a European patent

1.     A European patent shall, subject to the provisions of paragraph 2, confer on its proprietor from the date of publication of the mention of its grant, in each Contracting State in respect of which it is granted, the same rights as would be conferred by a national patent granted in that State.
2.     If the subject-matter of the European patent is a process, the protection conferred by the patent shall extend to the products directly obtained by such process.
3.     Any infringement of a European patent shall be dealt with by national law.

Article 65
Translation of the specification
of the European patent

1.     Any Contracting State may prescribe that if the text, in which the European Patent Office intends to grant a European patent or maintain a European patent as amended for that State, is not drawn up in one of its official languages, the applicant for or proprietor of the patent shall supply to its central industrial property office a translation of this text in one of its official languages at his option or, where that State has prescribed the use of one specific official language, in that language. The period for supplying the translation shall end three months after the date on which the mention of the grant of the European patent or of the maintenance of the European patent as amended is published in the European Patent Bulletin, unless the State concerned prescribes a longer period.
2.     Any Contracting State which has adopted provisions pursuant to paragraph 1 may prescribe that the applicant for or proprietor of the patent must pay all or part of the costs of publication of such translation within a period laid down by that State.
3.     Any Contracting State may prescribe that in the event of failure to observe the provisions adopted in accordance with paragraphs 1 and 2, the European patent shall be deemed to be void ab initio in that State.

Article 66
Equivalence of European filing
with national filing

A European patent application which has been accorded a date of filing shall, in the designated Contracting States, be equivalent to a regular national filing, where appropriate with the priority claimed for the European patent application.

Article 67
Rights conferred by a European patent
application after publication

1.     A European patent application shall, from the date of its publication under Article 93, provisionally confer upon the applicant such protection as is conferred by Article 64, in the Contracting States designated in the application as published.
2.     Any Contracting State may prescribe that a European patent application shall not confer such protection as is conferred by Article 64. However, the protection attached to the publication of the European patent application may not be less than that which the laws of the State concerned attach to the compulsory publication of unexamined national patent applications. In any event, every State shall ensure at least that, from the date of publication of a European patent application, the applicant can claim compensation reasonable in the circumstances from any person who has used the invention in the said State in circumstances where that person would be liable under national law for infringement of a national patent.
3.     Any Contracting State which does not have as an official language the language of the proceedings, may prescribe that provisional protection in accordance with paragraphs 1 and 2 above shall not be effective until such time as a translation of the claims in one of its official languages at the option of the applicant or, where that State has prescribed the use of one specific official language, in that language:
(a)    has been made available to the public in the manner prescribed by national law, or
(b)    has been communicated to the person using the invention in the said State.
4.     The European patent application shall be deemed never to have had the effects set out in paragraphs 1 and 2 above when it has been withdrawn, deemed to be withdrawn or finally refused. The same shall apply in respect of the effects of the European patent application in a Contracting State the designation of which is withdrawn or deemed to be withdrawn.

Article 68
Effect of revocation of the European patent

The European patent application and the resulting patent shall be deemed not to have had, as from the outset, the effects specified in Articles 64 and 67, to the extent that the patent has been revoked in opposition proceedings.

Article 69
Extent of protection

1.     The extent of the protection conferred by a European patent or a European patent application shall be determined by the terms of the claims. Nevertheless, the description and drawings shall be used to interpret the claims.
2.     For the period up to grant of the European patent, the extent of the protection conferred by the European patent application shall be determined by the latest filed claims contained in the publication under Article 93. However, the European patent as granted or as amended in opposition proceedings shall determine retroactively the protection conferred by the European patent application, in so far as such protection is not thereby extended.

Article 70
Authentic text of a European patent application
or European patent

1.     The text of a European patent application or a European patent in the language of the proceedings shall be the authentic text in any proceedings before the European Patent Office and in any Contracting State.
2.     However, in the case referred to in Article 14, paragraph 2, the original text shall, in proceedings before the European Patent Office, constitute the basis for determining whether the subject-matter of the application or patent extends beyond the content of the application as filed.
3.     Any Contracting State may provide that a translation, as provided for in this Convention, in an official language of that State, shall in that State be regarded as authentic, except for revocation proceedings, in the event of the application or patent in the language of the translation conferring protection which is narrower than that conferred by it in the language of the proceedings.
4.     Any Contracting State which adopts a provision under paragraph 3:
(a)    must allow the applicant for or proprietor of the patent to file a corrected translation of the European patent application or European patent. Such corrected translation shall not have any legal effect until any conditions established by the Contracting State under Article 65, paragraph 2, and Article 67, paragraph 3, have been complied with mutatis mutandis;
(b)    may prescribe that any person who, in that State, in good faith is using or has made effective and serious preparations for using an invention the use of which would not constitute infringement of the application or patent in the original translation may, after the corrected translation takes effect, continue such use in the course of his business or for the needs thereof without payment.

Chapter IV
The European patent application
as an object of property

Article 71
Transfer and constitution of rights

A European patent application may be transferred or give rise to rights for one or more of the designated Contracting States.

Article 72
Assignment

An assignment of a European patent application shall be made in writing and shall require the signature of the parties to the contract.

Article 73
Contractual licensing

A European patent application may be licensed in whole or in part for the whole or part of the territories of the designated Contracting States.

Article 74
Law applicable

Unless otherwise specified in this Convention, the European patent application as an object of property shall, in each designated Contracting State and with effect for such State, be subject to the law applicable in that State to national patent applications

PART III
Application for European Patents
Chapter I
Filing and requirements of the
European patent application
Article 75
Filing of the European patent application

1.     A European patent application may be filed:
(a)    at the European Patent Office at Munich or its branch at The Hague, or
(b)    if the law of a Contracting State so permits, at the central industrial property office or other competent authority of that State. An application filed in this way shall have the same effect as if it had been filed on the same date at the European Patent Office.
2.     The provisions of paragraph 1 shall not preclude the application of legislative or regulatory provisions which, in any Contracting State:
(a)    govern inventions which, owing to the nature of their subject-matter, may not be communicated abroad without the prior authorisation of the competent authorities of that State, or
(b)    prescribe that each application is to be filed initially with a national authority or make direct filing with another authority subject to prior authorisation.
3.     No Contracting State may provide for or allow the filing of European divisional applications with an authority referred to in paragraph 1(b).

Article 76
European divisional applications

1.     A European divisional application must be filed directly with the European Patent Office at Munich or its branch at The Hague. It may be filed only in respect of subject-matter which does not extend beyond the content of the earlier application as filed; in so far as this provision is complied with, the divisional application shall be deemed to have been filed on the date of filing of the earlier application and shall have the benefit of any right to priority.
2.     The European divisional application shall not designate Contracting States which were not designated in the earlier application.
3.     The procedure to be followed in carrying out the provisions of paragraph 1, the special conditions to be complied with by a divisional application and the time limit for paying the filing, search and designation fees are laid down in the Implementing Regulations.

Article 77
Forwarding of European patent applications

1.     The central industrial property office of a Contracting State shall be obliged to forward to the European Patent Office, in the shortest time compatible with the application of national law concerning the secrecy of inventions in the interests of the State, any European patent applications which have been filed with that office or with other competent authorities in that State.
2.     The Contracting States shall take all appropriate steps to ensure that European patent applications, the subject of which is obviously not liable to secrecy by virtue of the law referred to in paragraph 1, shall be forwarded to the European Patent Office within six weeks after filing.
3.     European patent applications which require further examination as to their liability to secrecy shall be forwarded in such manner as to reach the European Patent Office within four months after filing, or, where priority has been claimed, fourteen months after the date of priority.
4.     A European patent application, the subject of which has been made secret, shall not be forwarded to the European Patent Office.
5.     European patent applications which do not reach the European Patent Office before the end of the fourteenth month after filing or, if priority has been claimed, after the date of priority, shall be deemed to be withdrawn. The filing, search and designation fees shall be refunded.

Article 78
Requirements of the European patent application

1.     A European patent application shall contain:
(a)    a request for the grant of a European patent;
(b)    a description of the invention;
(c)    one or more claims;
(d)    any drawings referred to in the description or the claims;
(e)    an abstract.
2.     A European patent application shall be subject to the payment of the filing fee and the search fee within one month after the filing of the application.
3.     A European patent application must satisfy the conditions laid down in the Implementing Regulations.

Article 79
Designation of Contracting States

1.     The request for the grant of a European patent shall contain the designation of the Contracting State or States in which protection for the invention is desired.
2.     The designation of a contracting state shall be subject to the payment of the designation fee. The designation fees shall be paid within six months of the date on which the European Patent Bulletin mentions the publication of the European search report.

3.     The designation of a Contracting State may be withdrawn at any time up to the grant of the European patent. Withdrawal of the designation of all the Contracting States shall be deemed to be a withdrawal of the European patent application. Designation fees shall not be refunded.

Article 80
Date of filing

The date of filing of a European patent application shall be the date on which documents filed by the applicant contain:
(a)    an indication that a European patent is sought;
(b)    the designation of at least one Contracting State;
(c)    information identifying the applicant;
(d)    a description and one or more claims in one of the languages referred to in Article 14, paragraphs 1 and 2, even though the description and the claims do not comply with the other requirements of this Convention.

Article 81
Designation of the inventor

The European patent application shall designate the inventor. If the applicant is not the inventor or is not the sole inventor, the designation shall contain a statement indicating the origin of the right to the European patent.

Article 82
Unity of invention

The European patent application shall relate to one invention only or to a group of inventions so linked as to form a single general inventive concept.


Article 83
Disclosure of the invention

The European patent application must disclose the invention in a manner sufficiently clear and complete for it to be carried out by a person skilled in the art.

Article 84
The claims

The claims shall define the matter for which protection is sought. They shall be clear and concise and be supported by the description.

Article 85
The abstract

The abstract shall merely serve for use as technical information; it may not be taken into account for any other purpose, in particular not for the purpose of interpreting the scope of the protection sought nor for the purpose of applying Article 54, paragraph 3.

Article 86
Renewal fees for European patent applications

1.     Renewal fees shall be paid to the European Patent Office in accordance with the Implementing Regulations in respect of European patent applications. These fees shall be due in respect of the third year and each subsequent year, calculated from the date of filing of the application.
2.     When a renewal fee has not been paid on or before the due date, the fee may be validly paid within six months of the said date, provided that the additional fee is paid at the same time.
3.     If the renewal fee and any additional fee have not been paid in due time the European patent application shall be deemed to be withdrawn. The European Patent Office alone shall be competent to decide this.
4.     The obligation to pay renewal fees shall terminate with the payment of the renewal fee due in respect of the year in which the mention of the grant of the European patent is published.

Chapter II
Priority
Article 87
Priority right

1.     A person who has duly filed in or for any State party to the Paris Convention for the Protection of Industrial Property, an application for a patent or for the registration of a utility model or for a utility certificate or for an inventor's certificate, or his successors in title, shall enjoy, for the purpose of filing a European patent application in respect of the same invention, a right of priority during a period of twelve months from the date of filing of the first application.
2.     Every filing that is equivalent to a regular national filing under the national law of the State where it was made or under bilateral or multilateral agreements, including this Convention, shall be recognised as giving rise to a right of priority.
3.     By a regular national filing is meant any filing that is sufficient to establish the date on which the application was filed, whatever may be the outcome of the application.
4.     A subsequent application for the same subject-matter as a previous first application and filed in or in respect of the same State shall be considered as the first application for the purposes of determining priority, provided that, at the date of filing the subsequent application, the previous application has been withdrawn, abandoned or refused, without being open to public inspection and without leaving any rights outstanding, and has not served as a basis for claiming a right of priority. The previous application may not thereafter serve as a basis for claiming a right of priority.
5.     If the first filing has been made in a State which is not a party to the Paris Convention for the Protection of Industrial Property, paragraphs 1 to 4 shall apply only in so far as that State, according to a notification published by the Administrative Council, and by virtue of bilateral or multilateral agreements, grants on the basis of a first filing made at the European Patent Office as well as on the basis of a first filing made in or for any Contracting State and subject to conditions equivalent to those laid down in the Paris Convention, a right of priority having equivalent effect.

Article 88
Claiming priority

1.     An applicant for a European patent desiring to take advantage of the priority of a previous application shall file a declaration of priority, a copy of the previous application and, if the language of the latter is not one of the official languages of the European Patent Office, a translation of it in one of such official languages. The procedure to be followed in carrying out these provisions is laid down in the Implementing Regulations.
2.     Multiple priorities may be claimed in respect of a European patent application, notwithstanding the fact that they originated in different countries. Where appropriate, multiple priorities may be claimed for any one claim. Where multiple priorities are claimed, time limits which run from the date of priority shall run from the earliest date of priority.
3.     If one or more priorities are claimed in respect of a European patent application, the right of priority shall cover only those elements of the European patent application which are included in the application or applications whose priority is claimed.
4.     If certain elements of the invention for which priority is claimed do not appear among the claims formulated in the previous application, priority may nonetheless be granted, provided that the documents of the previous application as a whole specifically disclose such elements.

Article 89
Effect of priority right

The right of priority shall have the effect that the date of priority shall count as the date of filing of the European patent application for the purposes of Article 54, paragraphs 2 and 3, and Article 60, paragraph 2.

PART IV
Procedure up to Grant
Article 90
Examination on filing

1.     The Receiving Section shall examine whether:
(a)    the European patent application satisfies the requirements for the accordance of a date of filing;
(b)    the filing fee and the search fee have been paid in due time;
(c)    in the case provided for in Article 14, paragraph 2, the translation of the European patent application in the language of the proceedings has been filed in due time.
2.     If a date of filing cannot be accorded, the Receiving Section shall give the applicant an opportunity to correct the deficiencies in accordance with the Implementing Regulations. If the deficiencies are not remedied in due time, the application shall not be dealt with as a European patent application.
3.     If the filing fee and the search fee have not been paid in due time or, in the case provided for in Article 14, paragraph 2, the translation of the application in the language of the proceedings has not been filed in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.

Article 91
Examination as to formal requirements

1.     If a European patent application has been accorded a date of filing, and is not deemed to be withdrawn by virtue of Article 90, paragraph 3, the Receiving Section shall examine whether:
(a)    the requirements of Article 133, paragraph 2, have been satisfied;
(b)    the application meets the physical requirements laid down in the Implementing Regulations for the implementation of this provision;
(c)    the abstract has been filed;
(d)    the request for the grant of a European patent satisfies the mandatory provisions of the Implementing Regulations concerning its content and, where appropriate, whether the requirements of this Convention concerning the claim to priority have been satisfied;
(e)    the designation fees have been paid;
(f)    the designation of the inventor has been made in accordance with Article 81;
(g)    the drawings referred to in Article 78, paragraph 1(d), were filed on the date of filing of the application.
2.     Where the Receiving Section notes that there are deficiencies which may be corrected, it shall give the applicant an opportunity to correct them in accordance with the Implementing Regulations.
3.     If any deficiencies noted in the examination under paragraph 1(a) to (d) are not corrected in accordance with the Implementing Regulations, the application shall be refused; where the provisions referred to in paragraph 1(d) concern the right of priority, this right shall be lost for the application.
4.     Where, in the case referred to in paragraph 1(e), the designation fee has not been paid in due time in respect of any designated State, the designation of that State shall be deemed to be withdrawn.
5.     Where, in the case referred to in paragraph 1(f), the omission of the designation of the inventor is not, in accordance with the Implementing Regulations and subject to the exceptions laid down therein, corrected within 16 months after the date of filing of the European patent application or, if priority is claimed, after the date of priority, the application shall be deemed to be withdrawn.
6.     Where, in the case referred to in paragraph 1(g), the drawings were not filed on the date of filing of the application and no steps have been taken to correct the deficiency in accordance with the Implementing Regulations, either the application shall be re-dated to the date of filing of the drawings or any reference to the drawings in the application shall be deemed to be deleted, according to the choice exercised by the applicant in accordance with the Implementing Regulations.

Article 92
The drawing up of the European search report

1.     If a European patent application has been accorded a date of filing and is not deemed to be withdrawn by virtue of Article 90, paragraph 3, the Search Division shall draw up the European search report on the basis of the claims, with due regard to the description and any drawings, in the form prescribed in the Implementing Regulations.
2.     Immediately after it has been drawn up, the European search report shall be transmitted to the applicant together with copies of any cited documents.


Article 93
Publication of a European patent application

1.     A European patent application shall be published as soon as possible after the expiry of a period of eighteen months from the date of filing or, if priority has been claimed, as from the date of priority. Nev ertheless, at the request of the applicant the application may be published before the expiry of the period referred to above. It shall be published simultaneously with the publication of the specification of the European patent when the grant of the patent has become effective before the expiry of the period referred to above.
2.     The publication shall contain the description, the claims and any drawings as filed and, in an annex, the European search report and the abstract, in so far as the latter are available before the termination of the technical preparations for publication. If the European search report and the abstract have not been published at the same time as the application, they shall be published separately.

Article 94
Request for examination

1.     The European Patent Office shall examine, on written request, whether a European patent application and the invention to which it relates meet the requirements of this Convention.
2.     A request for examination may be filed by the applicant up to the end of six months after the date on which the European Patent Bulletin mentions the publication of the European search report. The request shall not be deemed to be filed until after the examination fee has been paid. The request may not be withdrawn.
3.     If no request for examination has been filed by the end of the period referred to in paragraph 2, the application shall be deemed to be withdrawn.

Article 95
Extension of the period within which requests
for examination may be filed

1.     The Administrative Council may extend the period within which requests for examination may be filed if it is established that European patent applications cannot be examined in due time.

2.     If the Administrative Council extends the period, it may decide that third parties will be entitled to make requests for examination. In such cases, it shall determine the appropriate rules in the Implementing Regulations.
3.     Any decision of the Administrative Council to extend the period shall apply only in respect of applications filed after the publication of such decision in the Official Journal of the European Patent Office.
4.     If the Administrative Council extends the period, it must lay down measures with a view to restoring the original period as soon as possible.

Article 96
Examination of the European
patent application

1.     If the applicant for a European patent has filed the request for examination before the European search report has been transmitted to him, the European Patent Office shall invite him after the transmission of the report to indicate, within a period to be determined, whether he desires to proceed further with the European patent application.
2.     If the examination of a European patent application reveals that the application or the invention to which it relates does not meet the requirements of this Convention, the Examining Division shall invite the applicant, in accordance with the Implementing Regulations and as often as necessary, to file his observations within a period to be fixed by the Examining Division.
3.     If the applicant fails to reply in due time to any invitation under paragraph 1 or paragraph 2, the application shall be deemed to be withdrawn.

Article 97
Refusal or grant

1.     The Examining Division shall refuse a European patent application if it is of the opinion that such application or the invention to which it relates does not meet the requirements of this Convention, except where a different sanction is provided for by this Convention.
2.     If the Examining Division is of the opinion that the application and the invention to which it relates meet the requirements of this Convention, it shall decide to grant the European patent for the designated Contracting States provided that:
(a)    it is established, in accordance with the provisions of the Implementing Regulations, that the applicant approves the text in which the Examining Division intends to grant the patent;
(b)    the fees for grant and printing are paid within the time limit prescribed in the Implementing Regulations;
(c)    the renewal fees and any additional fees already due have been paid.
3.     If the fees for grant and printing are not paid in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.
4.     The decision to grant a European patent shall not take effect until the date on which the European Patent Bulletin mentions the grant. This mention shall be published at least 3 months after the start of the time limit referred to in paragraph 2(b).

5.     Provision may be made in the Implementing Regulations for the applicant to file a translation, in the two official languages of the European Patent Office other than the language of the proceedings, of the claims appearing in the text in which the Examining Division intends to grant the patent. In such case, the period laid down in paragraph 4 shall be at least five months. If the translation has not been filed in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.
6.     At the request of the applicant, mention of grant of the European patent shall be published before expiry of the time limit under paragraph 4 or 5. Such request may only be made if the requirements pursuant to paragraphs 2 and 5 are met.

Article 98
Publication of a specification
of the European patent

At the same time as it publishes the mention of the grant of the European patent, the European Patent Office shall publish a specification of the European patent containing the description, the claims and any drawings.

PART V
Opposition Procedure
Article 99
Opposition

1.     Within nine months from the publication of the mention of the grant of the European patent, any person may give notice to the European Patent Office of opposition to the European patent granted. Notice of opposition shall be filed in a written reasoned statement. It shall not be deemed to have been filed until the opposition fee has been paid.
2.     The opposition shall apply to the European patent in all the Contracting States in which that patent has effect.
3.     An opposition may be filed even if the European patent has been surrendered or has lapsed for all the designated States.
4.     Opponents shall be parties to the opposition proceedings as well as the proprietor of the patent.
5.     Where a person provides evidence that in a Contracting State, following a final decision, he has been entered in the patent register of such State instead of the previous proprietor, such person shall, at his request, replace the previous proprietor in respect of such State. By derogation from Article 118, the previous proprietor and the person making the request shall not be deemed to be joint proprietors unless both so request.

Article 100
Grounds for opposition

Opposition may only be filed on the grounds that:

(a)    the subject-matter of the European patent is not patentable within the terms of Articles 52 to 57;
(b)    the European patent does not disclose the invention in a manner sufficiently clear and complete for it to be carried out by a person skilled in the art;
(c)    the subject-matter of the European patent extends beyond the content of the application as filed, or, if the patent was granted on a divisional application or on a new application filed in accordance with Article 61, beyond the content of the earlier application as filed.


Article 101
Examination of the opposition

1.     If the opposition is admissible, the Opposition Division shall examine whether the grounds for opposition laid down in Article 100 prejudice the maintenance of the European patent.
2.     In the examination of the opposition, which shall be conducted in accordance with the provisions of the Implementing Regulations, the Opposition Division shall invite the parties, as often as necessary, to file observations, within a period to be fixed by the Opposition Division, on communications from another party or issued by itself.

Article 102
Revocation or maintenance of the European patent

1.     If the Opposition Division is of the opinion that the grounds for opposition mentioned in Article 100 prejudice the maintenance of the European patent, it shall revoke the patent.
2.     If the Opposition Division is of the opinion that the grounds for opposition mentioned in Article 100 do not prejudice the maintenance of the patent unamended, it shall reject the opposition.
3.     If the Opposition Division is of the opinion that, taking into consideration the amendments made by the proprietor of the patent during the opposition proceedings, the patent and the invention to which it relates meet the requirements of this Convention, it shall decide to maintain the patent as amended, provided that:
(a)    it is established, in accordance with the provisions of the Implementing Regulations, that the proprietor of the patent approves the text in which the Opposition Division intends to maintain the patent;
(b)    the fee for the printing of a new specification of the European patent is paid within the time limit prescribed in the Implementing Regulations.

4.     If the fee for the printing of a new specification is not paid in due time, the patent shall be revoked.
5.     Provision may be made in the Implementing Regulations for the proprietor of the patent to file a translation of any amended claims in the two official languages of the European Patent Office other than the language of the proceedings. If the translation has not been filed in due time the patent shall be revoked.

Article 103
Publication of a new specification
of the European patent

If a European patent is amended under Article 102, paragraph 3, the European Patent Office shall, at the same time as it publishes the mention of the opposition decision, publish a new specification of the European patent containing the description, the claims and any drawings, in the amended form.

Article 104
Costs

1.     Each party to the proceedings shall meet the costs he has incurred unless a decision of an Opposition Division or Board of Appeal, for reasons of equity, orders, in accordance with the Implementing Regulations, a different apportionment of costs incurred during taking of evidence or in oral proceedings.
2.     On request, the registry of the Opposition Division shall fix the amount of the costs to be paid under a decision apportioning them. The fixing of the costs by the registry may be reviewed by a decision of the Opposition Division on a request filed within the period laid down in the Implementing Regulations.
3.     Any final decision of the European Patent Office fixing the amount of costs shall be dealt with, for the purpose of enforcement in the Contracting States, in the same way as a final decision given by a civil court of the State in the territory of which enforcement is to be carried out. Verification of such decision shall be limited to its authenticity.

Article 105
Intervention of the assumed infringer

1.     In the event of an opposition to a European patent being filed, any third party who proves that proceedings for infringement of the same patent have been instituted against him may, after the opposition period has expired, intervene in the opposition proceedings, if he gives notice of intervention within three months of the date on which the infringement proceedings were instituted. The same shall apply in respect of any third party who proves both that the proprietor of the patent has requested that he cease alleged infringement of the patent and that he has instituted proceedings for a court ruling that he is not infringing the patent.
2.     Notice of intervention shall be filed in a written reasoned statement. It shall not be deemed to have been filed until the opposition fee has been paid. Thereafter the intervention shall, subject to any exceptions laid down in the Implementing Regulations, be treated as an opposition.

PART VI
Appeals Procedure
Article 106
Decisions subject to appeal

1.     An appeal shall lie from decisions of the Receiving Section, Examining Divisions, Opposition Divisions and the Legal Division. It shall have suspensive effect.
2.     An appeal may be filed against the decision of the Opposition Division even if the European patent has been surrendered or has lapsed for all the designated States.
3.     A decision which does not terminate proceedings as regards one of the parties can only be appealed together with the final decision, unless the decision allows separate appeal.
4.     The apportionment of costs of opposition proceedings cannot be the sole subject of an appeal.
5.     A decision fixing the amount of costs of opposition proceedings cannot be appealed unless the amount is in excess of that laid down in the Rules relating to Fees.

Article 107
Persons entitled to appeal and to be
parties to appeal proceedings

Any party to proceedings adversely affected by a decision may appeal. Any other parties to the proceedings shall be parties to the appeal proceedings as of right.

Article 108
Time limit and form of appeal

Notice of appeal must be filed in writing at the European Patent Office within two months after the date of notification of the decision appealed from. The notice shall not be deemed to have been filed until after the fee for appeal has been paid. Within four months after the date of notification of the decision, a written statement setting out the grounds of appeal must be filed.

Article 109
Interlocutory revision

1.     If the department whose decision is contested considers the appeal to be admissible and well founded, it shall rectify its decision. This shall not apply where the appellant is opposed by another party to the proceedings.
2.     If the appeal is not allowed within three months after receipt of the statement of grounds, it shall be remitted to the Board of Appeal without delay, and without comment as to its merit.

Article 110
Examination of appeals

1.     If the appeal is admissible, the Board of Appeal shall examine whether the appeal is allowable.
2.     In the examination of the appeal, which shall be conducted in accordance with the provisions of the Implementing Regulations, the Board of Appeal shall invite the parties, as often as necessary, to file observations, within a period to be fixed by the Board of Appeal, on communications from another party or issued by itself.
3.     If the applicant fails to reply in due time to an invitation under paragraph 2, the European patent application shall be deemed to be withdrawn, unless the decision under appeal was taken by the Legal Division.

Article 111
Decision in respect of appeals

1.     Following the examination as to the allowability of the appeal, the Board of Appeal shall decide on the appeal. The Board of Appeal may either exercise any power within the competence of the department which was responsible for the decision appealed or remit the case to that department for further prosecution.
2.     If the Board of Appeal remits the case for further prosecution to the department whose decision was appealed, that department shall be bound by the ratio decidendi of the Board of Appeal, in so far as the facts are the same. If the decision which was appealed emanated from the Receiving Section, the Examining Division shall similarly be bound by the ratio decidendi of the Board of Appeal.

Article 112
Decision or opinion of the
Enlarged Board of Appeal

1.     In order to ensure uniform application of the law, or if an important point of law arises:
(a)    the Board of Appeal shall, during proceedings on a case and either of its own motion or following a request from a party to the appeal, refer any question to the Enlarged Board of Appeal if it considers that a decision is required for the above purposes. If the Board of Appeal rejects the request, it shall give the reasons in its final decision;
(b)    the President of the European Patent Office may refer a point of law to the Enlarged Board of Appeal where two Boards of Appeal have given different decisions on that question.
2.     In the cases covered by paragraph 1(a) the parties to the appeal proceedings shall be parties to the proceedings before the Enlarged Board of Appeal.
3.     The decision of the Enlarged Board of Appeal referred to in paragraph 1(a) shall be binding on the Board of Appeal in respect of the appeal in question.

PART VII
Common Provisions
Chapter I
Common provisions governing procedure
Article 113
Basis of decisions

1.     The decisions of the European Patent Office may only be based on grounds or evidence on which the parties concerned have had an opportunity to present their comments.
2.     The European Patent Office shall consider and decide upon the European patent application or the European patent only in the text submitted to it, or agreed, by the applicant for or proprietor of the patent.

Article 114
Examination by the European Patent Office
of its own motion

1.     In proceedings before it, the European Patent Office shall examine the facts of its own motion; it shall not be restricted in this examination to the facts, evidence and arguments provided by the parties and the relief sought.

2.     The European Patent Office may disregard facts or evidence which are not submitted in due time by the parties concerned.

Article 115
Observations by third parties

1.     Following the publication of the European patent application, any person may present observations concerning the patentability of the invention in respect of which the application has been filed. Such observations must be filed in writing and must include a statement of the grounds on which they are based. That person shall not be a party to the proceedings before the European Patent Office.
2.     The observations referred to in paragraph 1 shall be communicated to the applicant for or proprietor of the patent who may comment on them.

Article 116
Oral proceedings

1.     Oral proceedings shall take place either at the instance of the European Patent Office if it considers this to be expedient or at the request of any party to the proceedings. However, the European Patent Office may reject a request for further oral proceedings before the same department where the parties and the subject of the proceedings are the same.
2.     Nevertheless, oral proceedings shall take place before the Receiving Section at the request of the applicant only where the Receiving Section considers this to be expedient or where it envisages refusing the European patent application.
3.     Oral proceedings before the Receiving Section, the Examining Divisions and the Legal Division shall not be public.
4.     Oral proceedings, including delivery of the decision, shall be public, as regards the Boards of Appeal and the Enlarged Board of Appeal, after publication of the European patent application, and also before the Opposition Divisions, in so far as the department before which the proceedings are taking place does not decide otherwise in cases where admission of the public could have serious and unjustified disadvantages, in particular for a party to the proceedings.


Article 117
Taking of evidence

1.     In any proceedings before an Examining Division, an Opposition Division, the Legal Division or a Board of Appeal the means of giving or obtaining evidence shall include the following:
(a)    hearing the parties;
(b)    requests for information;
(c)    the production of documents;
(d)    hearing the witnesses;
(e)    opinions by experts;
(f)    inspection;
(g)    sworn statements in writing.
2.     The Examining Division, Opposition Division or Board of Appeal may commission one of its members to examine the evidence adduced.
3.     If the European Patent Office considers it necessary for a party, witness or expert to give evidence orally, it shall either:
(a)    issue a summons to the person concerned to appear before it, or
(b)    request, in accordance with the provisions of Article 131, paragraph 2, the competent court in the country of residence of the person concerned to take such evidence.
4.     A party, witness or expert who is summoned before the European Patent Office may request the latter to allow his evidence to be heard by a competent court in his country of residence. On receipt of such a request, or if there has been no reply to the summons by the expiry of a period fixed by the European Patent Office in the summons, the European Patent Office may, in accordance with the provisions of Article 131, paragraph 2, request the competent court to hear the person concerned.
5.     If a party, witness or expert gives evidence before the European Patent Office, the latter may, if it considers it advisable for the evidence to be given on oath or in an equally binding form, request the competent court in the country of residence of the person concerned to re-examine his evidence under such conditions.
6.     When the European Patent Office requests a competent court to take evidence, it may request the court to take the evidence on oath or in an equally binding form and to permit a member of the department concerned to attend the hearing and question the party, witness or expert either through the intermediary of the court or directly.


Article 118
Unity of the European patent application
or European patent

Where the applicants for or proprietors of a European patent are not the same in respect of different designated Contracting States, they shall be regarded as joint applicants or proprietors for the purposes of proceedings before the European Patent Office. The unity of the application or patent in these proceedings shall not be affected; in particular the text of the application or patent shall be uniform for all designated Contracting States unless otherwise provided for in this Convention.


Article 119
Notification

The European Patent Office shall, as a matter of course, notify those concerned of decisions and summonses, and of any notice or other communication from which a time limit is reckoned, or of which those concerned must be notified under other provisions of this Convention, or of which notification has been ordered by the President of the European Patent Office. Notifications may, where exceptional circumstances so require, be given through the intermediary of the central industrial property offices of the Contracting States.

Article 120
Time limits

The Implementing Regulations shall specify:
(a)    the manner of computation of time limits and the conditions under which such time limits may be extended, either because the European Patent Office or the authorities referred to in Article 75, paragraph 1(b), are not open to receive docu ments or because mail is not delivered in the localities in which the European Patent Office or such authorities are situated or because postal services are generally interrupted or subsequently dislocated;
(b)    the minima and maxima for time limits to be determined by the European Patent Office.

Article 121
Further processing of the European
patent application

1.     If the European patent application is to be refused or is refused or deemed to be withdrawn following failure to reply within a time limit set by the European Patent Office, the legal consequence provided for shall not ensue or, if it has already ensued, shall be retracted if the applicant requests further processing of the application.

2.     The request shall be filed in writing within two months of the date on which either the decision to refuse the application or the communication that the application is deemed to be withdrawn was notified. The omitted act must be completed within this time limit. The request shall not be deemed to have been filed until the fee for further processing has been paid.
3.     The department competent to decide on the omitted act shall decide on the request.

Article 122
Restitutio in integrum

1.     The applicant for or proprietor of a European patent who, in spite of all due care required by the circumstances having been taken, was unable to observe a time limit vis-à-vis the European Patent Office shall, upon application, have his rights re- established if the non-observance in question has the direct consequence, by virtue of this Convention, of causing the refusal of the European patent application, or of a request, or the deeming of the European patent application to have been withdrawn, or the revocation of the European patent, or the loss of any other right or means of redress.
2.     The application must be filed in writing within two months from the removal of the cause of non- compliance with the time limit. The omitted act must be completed within this period. The application shall only be admissible within the year immediately following the expiry of the unobserved time limit. In the case of non-payment of a renewal fee, the period specified in Article 86, paragraph 2, shall be deducted from the period of one year.
3.     The application must state the grounds on which it is based, and must set out the facts on which it relies. It shall not be deemed to be filed until after the fee for re-establishment of rights has been paid.
4.     The department competent to decide on the omitted act shall decide upon the application.
5.     The provisions of this Article shall not be applicable to the time limits referred to in paragraph 2 of this Article, Article 61, paragraph 3, Article 76, paragraph 3, Article 78, paragraph 2, Article 79, paragraph 2, Article 87, paragraph 1, and Article 94, paragraph 2.
6.     Any person who, in a designated Contracting State, in good faith has used or made effective and serious preparations for using an invention which is the subject of a published European patent application or a European patent in the course of the period between the loss of rights referred to in paragraph 1 and publication of the mention of re-establishment of those rights, may without payment continue such use in the course of his business or for the needs thereof.
7.     Nothing in this Article shall limit the right of a Contracting State to grant restitutio in integrum in respect of time limits provided for in this Convention and to be observed vis-à-vis the authorities of such State.

Article 123
Amendments

1.     The conditions under which a European patent application or a European patent may be amended in proceedings before the European Patent Office are laid down in the Implementing Regulations. In any case, an applicant shall be allowed at least one opportunity of amending the description, claims and drawings of his own volition.
2.     A European patent application or a European patent may not be amended in such a way that it contains subject-matter which extends beyond the content of the application as filed.
3.     The claims of the European patent may not be amended during opposition proceedings in such a way as to extend the protection conferred.

Article 124
Information concerning national
patent applications

1.     The Examining Division or the Board of Appeal may invite the applicant to indicate, within a period to be determined by it, the States in which he has made applications for national patents for the whole or part of the invention to which the European patent application relates, and to give the reference numbers of the said applications.
2.     If the applicant fails to reply in due time to an invitation under paragraph 1, the European patent application shall be deemed to be withdrawn.

Article 125
Reference to general principles

In the absence of procedural provisions in this Convention, the European Patent Office shall take into account the principles of procedural law generally recognised in the Contracting States.


Article 126
Termination of financial obligations

1.     Rights of the Organisation to the payment of a fee to the European Patent Office shall be extinguished after four years from the end of the calendar year in which the fee fell due.
2.     Rights against the Organisation for the refunding by the European Patent Office of fees or sums of money paid in excess of a fee shall be extinguished after four years from the end of the calendar year in which the right arose.
3.     The period laid down in paragraphs 1 and 2 shall be interrupted in the case covered by paragraph 1 by a request for payment of the fee and in the case covered by paragraph 2 by a reasoned claim in writing. On interruption it shall begin again immediately and shall end at the latest six years after the end of the year in which it originally began, unless, in the meantime, judicial proceedings to enforce the right have begun; in this case the period shall end at the earliest one year after the judgment enters into force.

Chapter II
Information to the public
or official authorities

Article 127
Register of European Patents

The European Patent Office shall keep a register, to be known as the Register of European Patents, which shall contain those particulars the registration of which is provided for by this Convention. No entry shall be made in the Register prior to the publication of the European patent application. The Register shall be open to public inspection.

Article 128
Inspection of files

1.     The files relating to European patent applications, which have not yet been published, shall not be made available for inspection without the consent of the applicant.
2.     Any person who can prove that the applicant for a European patent has invoked the rights under the application against him may obtain inspection of the files prior to the publication of that application and without the consent of the applicant.
3.     Where a European divisional application or a new European patent application filed under Article 61, paragraph 1, is published, any person may obtain inspection of the files of the earlier application prior to the publication of that application and without the consent of the relevant applicant.
4.     Subsequent to the publication of the European patent application, the files relating to such application and the resulting European patent may be inspected on request, subject to the restrictions laid down in the Implementing Regulations.
5.     Even prior to the publication of the European patent application, the European Patent Office may communicate the following bibliographic data to third parties or publish them:
(a)    the number of the European patent application;
(b)    the date of filing of the European patent application and, where the priority of a previous application is claimed, the date, State and file number of the previous application;
(c)    the name of the applicant;
(d)    the title of the invention;
(e)    the Contracting States designated.

Article 129
Periodical publications

The European Patent Office shall periodically publish:
(a)    a European Patent Bulletin containing entries made in the Register of European Patents, as well as other particulars the publication of which is prescribed by this Convention;
(b)    an Official Journal of the European Patent Office, containing notices and information of a general character issued by the President of the European Patent Office, as well as any other information relevant to this Convention or its implementation.

Article 130
Exchanges of information

1.     The European Patent Office and, subject to the application of the legislative or regulatory provisions referred to in Article 75, paragraph 2, the central industrial property office of any Contracting State shall, on request, communicate to each other any useful information regarding the filing of European or national patent applications and regarding any proceedings concerning such applications and the resulting patents.
2.     The provisions of paragraph 1 shall apply to the communication of information by virtue of working agreements between the European Patent Office and:
(a)    the central industrial property office of any State which is not a party to this Convention;
(b)    any intergovernmental organisation entrusted with the task of granting patents;
(c)    any other organisation.
3.     The communications under paragraphs 1 and 2(a) and (b) shall not be subject to the restrictions laid down in Article 128. The Administrative Council may decide that communications under paragraph 2(c) shall not be subject to such restrictions, provided that the organisation concerned shall treat the information communicated as confidential until the European patent application has been published.

Article 131
Administrative and legal co-operation

1.     Unless otherwise provided in this Convention or in national laws, the European Patent Office and the courts or authorities of Contracting States shall on request give assistance to each other by communicating information or opening files for inspection. Where the European Patent Office lays files open to inspection by courts, Public Prosecutors' Offices or central industrial property offices, the inspection shall not be subject to the restrictions laid down in Article 128.
2.     Upon receipt of letters rogatory from the European Patent Office, the courts or other competent authorities of Contracting States shall undertake, on behalf of that Office and within the limits of their jurisdiction, any necessary enquiries or other legal measures.

Article 132
Exchange of publications

1.     The European Patent Office and the central industrial property offices of the Contracting States shall despatch to each other on request and for their own use one or more copies of their respective publications free of charge.
2.     The European Patent Office may conclude agreements relating to the exchange or supply of publications.

Chapter III
Representation
Article 133
General principles of representation

1.     Subject to the provisions of paragraph 2, no person shall be compelled to be represented by a professional representative in proceedings established by this Convention.
2.     Natural or legal persons not having either a residence or their principal place of business within the territory of one of the Contracting States must be represented by a professional representative and act through him in all proceedings established by this Convention, other than in filing the European patent application; the Implementing Regulations may permit other exceptions.
3.     Natural or legal persons having their residence or principal place of business within the territory of one of the Contracting States may be represented in proceedings established by this Convention by an employee, who need not be a professional representative but who must be authorised in accordance with the Implementing Regulations. The Implementing Regulations may provide whether and under what conditions an employee of such a legal person may also represent other legal persons which have their principal place of business within the territory of one of the Contracting States and which have economic connections with the first legal person.
4.     The Implementing Regulations may prescribe special provisions concerning the common representation of parties acting in common.

Article 134
Professional representatives

1.     Professional representation of natural or legal persons in proceedings established by this Convention may only be undertaken by professional representatives whose names appear on a list maintained for this purpose by the European Patent Office.

2.     Any natural person who fulfils the following conditions may be entered on the list of professional representatives:
(a)    he must be a national of one of the Contracting States;
(b)    he must have his place of business or employment within the territory of one of the Contracting States;
(c)    he must have passed the European qualifying examination.
3.     Entry shall be effected upon request, accompanied by certificates which must indicate that the conditions laid down in paragraph 2 are fulfilled.
4.     Persons whose names appear on the list of professional representatives shall be entitled to act in all proceedings established by this Convention.
5.     For the purpose of acting as a professional representative, any person whose name appears on the list referred to in paragraph 1 shall be entitled to establish a place of business in any Contracting State in which proceedings established by this Convention may be conducted, having regard to the Protocol on Centralisation annexed to this Convention. The authorities of such State may remove that entitlement in individual cases only in application of legal provisions adopted for the purpose of protecting public security and law and order. Before such action is taken, the President of the European Patent Office shall be consulted.
6.     The President of the European Patent Office may, in special circumstances, grant exemption from the requirement of paragraph 2(a).
7.     Professional representation in proceedings established by this Convention may also be undertaken, in the same way as by a professional representative, by any legal practitioner qualified in one of the Contracting States and having his place of business within such State, to the extent that he is entitled, within the said State, to act as a professional representative in patent matters. Paragraph 5 shall apply mutatis mutandis.
8.     The Administrative Council may adopt provisions governing:
(a)    the qualifications and training required of a person for admission to the European qualifying examination and the conduct of such examination;
(b)    the establishment or recognition of an institute constituted by the persons entitled to act as professional representatives by virtue of either the European qualifying examination or the provisions of Article 163, paragraph 7;
(c)    any disciplinary power to be exercised by that institute or the European Patent Office on such persons.

PART VIII
Impact on National Law
Chapter I
Conversion into a national patent application
Article 135

Request for the application of national procedure
1.     The central industrial property office of a designated Contracting State shall apply the procedure for the grant of a national patent only at the request of the applicant for or proprietor of a European patent, and in the following circumstances:
(a)    when the European patent application is deemed to be withdrawn pursuant to Article 77, paragraph 5, or Article 162, paragraph 4;
(b)    in such other cases as are provided for by the national law in which the European patent application is refused or withdrawn or deemed to be withdrawn, or the European patent is revoked under this Convention.

2.     The request for conversion shall be filed within three months after the European patent application has been withdrawn or after notification has been made that the application is deemed to be withdrawn, or after a decision has been notified refusing the application or revoking the European patent. The effect referred to in Article 66 shall lapse if the request is not filed in due time.

Article 136
Submission and transmission of the request

1.     A request for conversion shall be filed with the European Patent Office and shall specify the Contracting States in which application of the procedure for the grant of a national patent is desired. The request shall not be deemed to be filed until the conversion fee has been paid. The European Patent Office shall transmit the request to the central industrial property offices of the Contracting States specified therein, accompanied by a copy of the files relating to the European patent application or the European patent.
2.     However, if the applicant is notified that the European patent application has been deemed to be withdrawn pursuant to Article 77, paragraph 5, the request shall be filed with the central industrial property office with which the application has been filed. That office shall, subject to the provisions of national security, transmit the request, together with a copy of the European patent application, directly to the central industrial property offices of the Contracting States specified by the applicant in the request. The effect referred to in Article 66 shall lapse if such transmission is not made within twenty months after the date of filing or, if a priority has been claimed, after the date of priority.

Article 137
Formal requirements for conversion

1.     A European patent application transmitted in accordance with Article 136 shall not be subjected to formal requirements of national law which are different from or additional to those provided for in this Convention.
2.     Any central industrial property office to which the application is transmitted may require that the applicant shall, within not less than two months:
(a)    pay the national application fee;
(b)    file a translation in one of the official languages of the State in question of the original text of the European patent application and, where appropriate, of the text, as amended during proceedings before the European Patent Office, which the applicant wishes to submit to the national procedure.

Chapter II
Revocation and prior rights
Article 138
Grounds for revocation

1.     Subject to the provisions of Article 139, a European patent may only be revoked under the law of a Contracting State, with effect for its territory, on the following grounds:
(a)    if the subject-matter of the European patent is not patentable within the terms of Articles 52 to 57;
(b)    if the European patent does not disclose the invention in a manner sufficiently clear and complete for it to be carried out by a person skilled in the art;
(c)    97 if the subject-matter of the European patent extends beyond the content of the application as filed or, if the patent was granted on a divisional application or on a new application filed in accordance with Article 61, beyond the content of the earlier application as filed;
(d)    if the protection conferred by the European patent has been extended;
(e)    if the proprietor of the European patent is not entitled under Article 60, paragraph 1.
2.     If the grounds for revocation only affect the European patent in part, revocation shall be pronounced in the form of a corresponding limitation of the said patent. If the national law so allows, the limitation may be effected in the form of an amendment to the claims, the description or the drawings.

Article 139
Rights of earlier date
or the same date

1.     In any designated Contracting State a European patent application and a European patent shall have with regard to a national patent application and a national patent the same prior right effect as a national patent application and a national patent.
2.     A national patent application and a national patent in a Contracting State shall have with regard to a European patent in which that Contracting State is designated the same prior right effect as they have with regard to a national patent.
3.     Any Contracting State may prescribe whether and on what terms an invention disclosed in both a European patent application or patent and a national application or patent having the same date of filing or, where priority is claimed, the same date of priority, may be protected simultaneously by both applications or patents.


Chapter III
Miscellaneous effects
Article 140
National utility models and
utility certificates

Article 66, Article 124, Articles 135 to 137 and Article 139 shall apply to utility models and utility certificates and to applications for utility models and utility certificates registered or deposited in the Contracting States whose laws make provision for such models or certificates.

Article 141
Renewal fees for European patents

1.     Renewal fees in respect of a European patent may only be imposed for the years which follow that referred to in Article 86, paragraph 4.
2.     Any renewal fees falling due within two months after the publication of the mention of the grant of the European patent shall be deemed to have been validly paid if they are paid within that period. Any additional fee provided for under national law shall not be charged.

PART IX
Special Agreements
Article 142
Unitary patents

1.     Any group of Contracting States, which has provided by a special agreement that a European patent granted for those States has a unitary character throughout their territories, may provide that a European patent may only be granted jointly in respect of all those States.
2.     Where any group of Contracting States has availed itself of the authorisation given in paragraph 1, the provisions of this Part shall apply.

Article 143
Special departments of the
European Patent Office

1.     The group of Contracting States may give additional tasks to the European Patent Office.
2.     Special departments common to the Contracting States in the group may be set up within the European Patent Office in order to carry out the additional tasks. The President of the European Patent Office shall direct such special departments; Article 10, paragraphs 2 and 3, shall apply mutatis mutandis.

Article 144
Representation before special departments

The group of Contracting States may lay down special provisions to govern representation of parties before the departments referred to in Article 143, paragraph 2.

Article 145
Select committee of the Administrative Council

1.     The group of Contracting States may set up a select committee of the Administrative Council for the purpose of supervising the activities of the special departments set up under Article 143, paragraph 2; the European Patent Office shall place at its disposal such staff, premises and equipment as may be necessary for the performance of its duties. The President of the European Patent Office shall be responsible for the activities of the special departments to the select committee of the Administrative Council.
2.     The composition, powers and functions of the select committee shall be determined by the group of Contracting States.

Article 146
Cover for expenditure for
carrying out special tasks

Where additional tasks have been given to the European Patent Office under Article 143, the group of Contracting States shall bear the expenses incurred by the Organisation in carrying out these tasks. Where special departments have been set up in the European Patent Office to carry out these additional tasks, the group shall bear the expenditure on staff, premises and equipment chargeable in respect of these departments. Article 39, paragraphs 3 and 4, Article 41 and Article 47 shall apply mutatis mutandis.

Article 147
Payments in respect of renewal fees
for unitary patents

If the group of Contracting States has fixed a common scale of renewal fees in respect of European patents the proportion referred to in Article 39, paragraph 1, shall be calculated on the basis of the common scale; the minimum amount referred to in Article 39, paragraph 1, shall apply to the unitary patent. Article 39, paragraphs 3 and 4, shall apply mutatis mutandis.

Article 148
The European patent application
as an object of property

1.     Article 74 shall apply unless the group of Contracting States has specified otherwise.
2.     The group of Contracting States may provide that a European patent application for which these Contracting States are designated may only be transferred, mortgaged or subjected to any legal means of execution in respect of all the Contracting States of the group and in accordance with the provisions of the special agreement.

Article 149
Joint designation

1.     The group of Contracting States may provide that these States may only be designated jointly, and that the designation of one or some only of such States shall be deemed to constitute the designation of all the States of the group.
2.     Where the European Patent Office acts as a designated Office under Article 153, paragraph 1, paragraph 1 shall apply if the applicant has indicated in the international application that he wishes to obtain a European patent for one or more of the designated States of the group. The same shall apply if the ap plicant designates in the international application one of the Contracting States in the group, whose national law provides that the designation of that State shall have the effect of the application being for a European patent.

PART X
International Application Pursuant
to the Patent Cooperation Treaty
Article 150
Application of the Patent Cooperation Treaty

1.     The Patent Cooperation Treaty of 19 June 1970, hereinafter referred to as the Cooperation Treaty, shall be applied in accordance with the provisions of this Part.
2.     International applications filed under the Cooperation Treaty may be the subject of proceedings before the European Patent Office. In such proceedings, the provisions of that Treaty shall be applied, supplemented by the provisions of this Convention. In case of conflict, the provisions of the Cooperation Treaty shall prevail. In particular, for an international application the time limit within which a request for examination must be filed under Article 94, paragraph 2, of this Convention shall not expire before the time prescribed by Article 22 or Article 39 of the Cooperation Treaty as the case maybe.
3.     An international application, for which the European Patent Office acts as designated Office or elected Office, shall be deemed to be a European patent application.
4.     Where reference is made in this Convention to the Cooperation Treaty, such reference shall include the Regulations under that Treaty.

Article 151
The European Patent Office as a receiving Office

1.     The European Patent Office may act as a receiving Office within the meaning of Article 2(xv) of the Cooperation Treaty if the applicant is a resident or national of a Contracting State to this Convention in respect of which the Cooperation Treaty has entered into force.
2.     The European Patent Office may also act as a receiving Office if the applicant is a resident or national of a State which is not a Contracting State to this Convention, but which is a Contracting State to the Cooperation Treaty and which has concluded an agreement with the Organisation whereby the European Patent Office acts as a receiving Office, in accordance with the provisions of the Cooperation Treaty, in place of the national office of that State.
3.     Subject to the prior approval of the Administrative Council, the European Patent Office may also act as a receiving Office for any other applicant, in accordance with an agreement concluded between the Organisation and the International Bureau of the World Intellectual Property Organization.

Article 152
Filing and transmittal of the
international application

1.     If the applicant chooses the European Patent Office as a receiving Office for his international application, he shall file it directly with the European Patent Office. Article 75, paragraph 2, shall nevertheless apply mutatis mutandis.
2.     In the event of an international application being filed with the European Patent Office through the intermediary of the competent central industrial property office, the Contracting State concerned shall take all necessary measures to ensure that the application is transmitted to the European Patent Office in time for the latter to be able to comply in due time with the conditions for transmittal under the Cooperation Treaty.
3.     Each international application shall be subject to the payment of the transmittal fee, which shall be payable within one month after receipt of the application.

Article 153
The European Patent Office as a designated Office

1.     The European Patent Office shall act as a designated Office within the meaning of Article 2(xiii) of the Cooperation Treaty for those Contracting States to this Convention in respect of which the Cooperation Treaty has entered into force and which are designated in the international application if the applicant informs the receiving Office in the international application that he wishes to obtain a European patent for these States. The same shall apply if, in the international application, the applicant designates a Contracting State of which the national law provides that designation of that State shall have the effect of the application being for a European patent.
2.     When the European Patent Office acts as a designated Office, the Examining Division shall be competent to take decisions which are required under Article 25, paragraph 2(a), of the Cooperation Treaty.

Article 154
The European Patent Office as an
International Searching Authority

1.     The European Patent Office shall act as an International Searching Authority within the meaning of Chapter I of the Cooperation Treaty for applicants who are residents or nationals of a Contracting State in respect of which the Cooperation Treaty has entered into force, subject to the conclusion of an agreement between the Organisation and the International Bureau of the World Intellectual Property Organization.
2.     Subject to the prior approval of the Administrative Council, the European Patent Office shall also act as an International Searching Authority for any other applicant, in accordance with an agreement concluded between the Organisation and the International Bureau of the World Intellectual Property Organization.
3.     The Boards of Appeal shall be responsible for deciding on a protest made by an applicant against an additional fee charged by the European Patent Office under the provisions of Article 17, paragraph 3(a), of the Cooperation Treaty.

Article 155
The European Patent Office as an International Preliminary Examining Authority

1.     The European Patent Office shall act as an International Preliminary Examining Authority within the meaning of Chapter II of the Cooperation Treaty for applicants who are residents or nationals of a Contracting State bound by that Chapter, subject to the conclusion of an agreement between the Organisation and the International Bureau of the World Intellectual Property Organization.
2.     Subject to the prior approval of the Administrative Council, the European Patent Office shall also act as an International Preliminary Examining Authority for any other applicant, in accordance with an agreement concluded between the Organisation and the International Bureau of the World Intellectual Property Organization.
3.     The Boards of Appeal shall be responsible for deciding on a protest made by an applicant against an additional fee charged by the European Patent Office under the provisions of Article 34, paragraph 3(a), of the Cooperation Treaty.

Article 156
The European Patent Office as an elected Office

The European Patent Office shall act as an elected Office within the meaning of Article 2(xiv) of the Cooperation Treaty if the applicant has elected any of the designated States referred to in Article 153, paragraph 1, or Article 149, paragraph 2, for which Chapter II of that Treaty has become binding. Subject to the prior approval of the Administrative Council, the same shall apply where the applicant is a resident or national of a State which is not a party to that Treaty or which is not bound by Chapter II of that Treaty, provided that he is one of the persons whom the Assembly of the International Patent Cooperation Union has decided to allow, pursuant to Article 31, paragraph 2(b), of the Cooperation Treaty, to make a demand for international preliminary examination.

Article 157
International search report

1.     Without prejudice to the provisions of paragraphs 2 to 4, the international search report under Article 18 of the Cooperation Treaty or any declaration under Article 17, paragraph 2(a), of that Treaty and their publication under Article 21 of that Treaty shall take the place of the European search report and the mention of its publication in the European Patent Bulletin.
2.     Subject to the decisions of the Administrative Council referred to in paragraph 3:
(a)    a supplementary European search report shall be drawn up in respect of all international applications;
(b)    the applicant shall pay the search fee, which shall be paid at the same time as the national fee provided for in Article 22, paragraph 1, or Article 39, paragraph 1, of the Cooperation Treaty. If the search fee is not paid in due time the application shall be deemed to be withdrawn.
3.     The Administrative Council may decide under what conditions and to what extent:
(a)    the supplementary European search report is to be dispensed with;
(b)    the search fee is to be reduced.
4.     The Administrative Council may at any time rescind the decisions taken pursuant to paragraph 3.

Article 158
Publication of the international application and its supply to the European Patent Office

1.     Publication under Article 21 of the Cooperation Treaty of an international application for which the European Patent Office is a designated Office shall, subject to paragraph 3, take the place of the publication of a European patent application and shall be mentioned in the European Patent Bulletin. Such an application shall not however be considered as comprised in the state of the art in accordance with Article 54, paragraph 3, if the conditions laid down in paragraph 2 are not fulfilled.
2.     The international application shall be supplied to the European Patent Office in one of its official languages. The applicant shall pay to the European Patent Office the national fee provided for in Article 22, paragraph 1, or Article 39, paragraph 1, of the Cooperation Treaty.
3.     If the international application is published in a language other than one of the official languages of the European Patent Office, that Office shall publish the international application, supplied as specified in paragraph 2. Subject to the provisions of Article 67, paragraph 3, the provisional protection in accordance with Article 67, paragraphs 1 and 2, shall be effective from the date of that publication.

PART XI
Transitional Provisions
Article 159
Administrative Council during
a transitional period

1.     The States referred to in Article 169, paragraph 1, shall appoint their representatives to the Administrative Council; on the invitation of the Government of the Federal Republic of Germany, the Administrative Council shall meet no later than two months after the entry into force of this Convention, particularly for the purpose of appointing the President of the European Patent Office.
2.     The duration of the term of office of the first Chairman of the Administrative Council appointed after the entry into force of this Convention shall be four years.
3.     The term of office of two of the elected members of the first Board of the Administrative Council set up after the entry into force of this Convention shall be five and four years respectively.

Article 160
Appointment of employees during
a transitional period

1.     Until such time as the Service Regulations for permanent employees and the conditions of employment of other employees of the European Patent Office have been adopted, the Administrative Council and the President of the European Patent Office, each within their respective powers, shall recruit the necessary employees and shall conclude short-term contracts to that effect. The Administrative Council may lay down general principles in respect of recruitment.
2.     During a transitional period, the expiry of which shall be determined by the Administrative Council, the Administrative Council, after consulting the President of the European Patent Office, may appoint as members of the Enlarged Board of Appeal or of the Boards of Appeal technically or legally qualified members of national courts and authorities of Contracting States who may continue their activities in their national courts or authorities. They may be appointed for a term of less than five years, though this shall not be less than one year, and may be reappointed.

Article 161
First accounting period

1.     The first accounting period of the Organisation shall extend from the date of entry into force of this Convention to 31 December of the same year. If that date falls within the second half of the year, the accounting period shall extend until 31 December of the following year.
2.     The budget for the first accounting period shall be drawn up as soon as possible after the entry into force of this Convention. Until contributions provided for in Article 40 due in accordance with the first budget are received by the Organisation, the Contracting States shall, upon the request of and within the limit of the amount fixed by the Administrative Council, make advances which shall be deducted from their contributions in respect of that budget. The advances shall be determined in accordance with the scale referred to in Article 40. Article 39, paragraphs 3 and 4, shall apply mutatis mutandis to the advances.

Article 162
Progressive expansion of the field of activity
of the European Patent Office

1.     European patent applications may be filed with the European Patent Office from the date fixed by the Administrative Council on the recommendation of the President of the European Patent Office.
2.     The Administrative Council may, on the recommendation of the President of the European Patent Office, decide that, as from the date referred to in paragraph 1, the processing of European patent applications may be restricted. Such restriction may be in respect of certain areas of technology. However, examination shall in any event be made as to whether European patent applications can be accorded a date of filing.
3.     If a decision has been taken under paragraph 2, the Administrative Council may not subsequently further restrict the processing of European patent applications.
4.     Where, as a result of the procedure being restricted under paragraph 2, a European patent application cannot be further processed, the European Patent Office shall communicate this to the applicant and shall point out that he may make a request for conversion. The European patent application shall be deemed to be withdrawn on receipt of such communication.

Article 163
Professional representatives during
a transitional period

1.     During a transitional period, the expiry110of which shall be determined by the Administrative Council, notwithstanding the provisions of Article 134, paragraph 2, any natural person who fulfils the following conditions may be entered on the list of professional representatives:
(a)    he must be a national of a Contracting State;
(b)    he must have his place of business or employment within the territory of one of the Contracting States;
(c)    he must be entitled to represent natural or legal persons in patent matters before the central industrial property office of the Contracting State in which he has his place of business or employment.
2.     Entry shall be effected upon request, accompanied by a certificate, furnished by the central industrial property office, which must indicate that the conditions laid down in paragraph 1 are fulfilled.
3.     When, in any Contracting State, the entitlement referred to in paragraph 1(c) is not conditional upon the requirement of special professional qualifications, persons applying to be entered on the list who act in patent matters before the central industrial property office of the said State must have habitually so acted for at least five years. However, persons whose professional qualification to represent natural or legal persons in patent matters before the central industrial property office of one of the Contracting States is officially recognised in accordance with the regulations laid down by such State shall not be subject to the condition of having exercised the profession. The certificate furnished by the central industrial property office must indicate that the applicant satisfies one of the conditions referred to in the present paragraph.
4.     The President of the European Patent Office may grant exemption from:
(a)    the requirement of paragraph 3, first sentence, if the applicant furnishes proof that he has acquired the requisite qualification in another way;
(b)    the requirement of paragraph 1(a) in special circumstances.
5.     The President of the European Patent Office shall grant exemption from the requirement of paragraph 1(a) if on 5 October 1973 the applicant fulfilled the requirements of paragraph 1(b) and (c).
6.     Persons having their places of business or employment in a State which acceded to this Convention less than one year before the expiry of the transitional period referred to in paragraph 1 or after the expiry of the transitional period may, under the conditions laid down in paragraphs 1 to 5, during a period of one year calculated from the date of entry into force of the accession of that State, be entered on the list of professional representatives.
7.     After the expiry of the transitional period, any person whose name was entered on the list of professional representatives during that period shall, without prejudice to any disciplinary measures taken under Article 134, paragraph 8(c), remain thereon or, on request, be restored thereto, provided that he then fulfils the requirement of paragraph 1(b).

PART XII
Final Provisions
Article 164
Implementing Regulations and Protocols

1.     The Implementing Regulations, the Protocol on Recognition, the Protocol on Privileges and Immunities, the Protocol on Centralisation and the Protocol on the Interpretation of Article 69 shall be integral parts of this Convention.
2.     In the case of conflict between the provisions of this Convention and those of the Implementing Regulations, the provisions of this Convention shall prevail.

Article 165
Signature – Ratification

1.     This Convention shall be open for signature until 5 April 1974 by the States which took part in the Inter-Governmental Conference for the setting up of a European System for the Grant of Patents or were informed of the holding of that conference and offered the option of taking part therein.
2.     This Convention shall be subject to ratification; instruments of ratification shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany.

Article 166
Accession

1.     This Convention shall be open to accession by:
(a)    the States referred to in Article 165, paragraph 1;
(b)    any other European State at the invitation of the Administrative Council.
2.     Any State which has been a party to the Convention and has ceased so to be as a result of the application of Article 172, paragraph 4, may again become a party to the Convention by acceding to it.
3.     Instruments of accession shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany.

Article 167
Reservations

1.     Each Contracting State may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification or accession, make only the reservations specified in paragraph 2.
2.     Each Contracting State may reserve the right to provide that:
(a)    European patents, in so far as they confer protection on chemical, pharmaceutical or food products, as such, shall, in accordance with the provisions applicable to national patents, be ineffective or revocable; this reservation shall not affect protection conferred by the patent in so far as it involves a process of manufacture or use of a chemical product or a process of manufacture of a pharmaceutical or food product;
(b)    European patents, in so far as they confer protection on agricultural or horticultural processes other than those to which Article 53, sub-paragraph (b), applies, shall, in accordance with the provisions applicable to national patents, be ineffective or revocable;
(c)    European patents shall have a term shorter than twenty years, in accordance with the provisions applicable to national patents;
(d)    it shall not be bound by the Protocol on Recognition.
3.     Any reservation made by a Contracting State shall have effect for a period of not more than ten years from the entry into force of this Convention. However, where a Contracting State has made any of the reservations referred to in paragraph 2(a) and (b), the Administrative Council may, in respect of such State, extend the period by not more than five years for all or part of any reservation made, if that State submits, at the latest one year before the end of the ten-year period, a reasoned request which satisfies the Administrative Council that the State is not in a position to dispense with that reservation by the expiry of the ten-year period.
4.     Any Contracting State that has made a reservation shall withdraw this reservation as soon as circumstances permit. Such withdrawal shall be made by notification addressed to the Government of the Federal Republic of Germany and shall take effect one month from the date of receipt of such notification.
5.     Any reservation made in accordance with paragraph 2(a), (b) or (c) shall apply to European patents granted on European patent applications filed during the period in which the reservation has effect. The effect of the reservation shall continue for the term of the patent.
6.     Without prejudice to paragraphs 4 and 5, any reservation shall cease to have effect on expiry of the period referred to in paragraph 3, first sentence, or, if the period is extended, on expiry of the extended period.

Article 168
Territorial field of application

1.     Any Contracting State may declare in its instrument of ratification or accession, or may inform the Government of the Federal Republic of Germany by written notification any time thereafter, that this Convention shall be applicable to one or more of the territories for the external relations of which it is responsible. European patents granted for that Contracting State shall also have effect in the territories for which such a declaration has taken effect.
2.     If the declaration referred to in paragraph 1 is contained in the instrument of ratification or accession, it shall take effect on the same date as the ratification or accession; if the declaration is made in a notification after the deposit of the instrument of ratification or accession, such notification shall take effect six months after the date of its receipt by the Government of the Federal Republic of Germany.
3.     Any Contracting State may at any time declare that the Convention shall cease to apply to some or to all of the territories in respect of which it has given a notification pursuant to paragraph 1. Such declaration shall take effect one year after the date on which the Government of the Federal Republic of Germany re-ceived notification thereof.

Article 169
Entry into force

1.     This Convention shall enter into force three months after the deposit of the last instrument of ratification or accession by six States on whose territory the total number of patent applications filed in 1970 amounted to at least 180 000 for all the said States.
2.     Any ratification or accession after the entry into force of this Convention shall take effect on the first day of the third month after the deposit of the instrument of ratification or accession.

Article 170
Initial contribution

1.     Any State which ratifies or accedes to this Convention after its entry into force shall pay to the Organisation an initial contribution, which shall not be refunded.
2.     The initial contribution shall be 5% of an amount calculated by applying the percentage obtained for the State in question, on the date on which ratification or accession takes effect, in accordance with the scale provided for in Article 40, paragraphs 3 and 4, to the sum of the special financial contributions due from the other Contracting States in respect of the accounting periods preceding the date referred to above.
3.     In the event that special financial contributions were not required in respect of the accounting period immediately preceding the date referred to in paragraph 2, the scale of contributions referred to in that paragraph shall be the scale that would have been applicable to the State concerned in respect of the last year for which financial contributions were required.

Article 171
Duration of the Convention

The present Convention shall be of unlimited duration.

Article 172
Revision

1.     This Convention may be revised by a Conference of the Contracting States.
2.     The Conference shall be prepared and convened by the Administrative Council. The Conference shall not be deemed to be validly constituted unless at least three-quarters of the Contracting States are represented at it. In order to adopt the revised text there must be a majority of three-quarters of the Contracting States represented and voting at the Conference. Abstentions shall not be considered as votes.
3.     The revised text shall enter into force when it has been ratified or acceded to by the number of Contracting States specified by the Conference, and at the time specified by that Conference.
4.     Such States as have not ratified or acceded to the revised text of the Convention at the time of its entry into force shall cease to be parties to this Convention as from that time.

Article 173
Disputes between Contracting States

1.     Any dispute between Contracting States concerning the interpretation or application of the present Convention which is not settled by negotiation shall be submitted, at the request of one of the States concerned, to the Administrative Council, which shall endeavour to bring about agreement between the States concerned.
2.     If such agreement is not reached within six months from the date when the Administrative Council was seized of the dispute, any one of the States concerned may submit the dispute to the International Court of Justice for a binding decision.

Article 174
Denunciation

Any Contracting State may at any time denounce this Convention. Notification of denunciation shall be given to the Government of the Federal Republic of Germany. Denunciation shall take effect one year after the date of receipt of such notification.

Article 175
Preservation of acquired rights

1.     In the event of a State ceasing to be party to this Convention in accordance with Article 172, paragraph 4, or Article 174, rights already acquired pursuant to this Convention shall not be impaired.
2.     A European patent application which is pending when a designated State ceases to be party to the Convention shall be processed by the European Patent Office, in so far as that State is concerned, as if the Convention in force thereafter were applicable to that State.
3.     The provisions of paragraph 2 shall apply to European patents in respect of which, on the date mentioned in that paragraph, an opposition is pending or the opposition period has not expired.
4.     Nothing in this Article shall affect the right of any State that has ceased to be a party to this Convention to treat any European patent in accordance with the text to which it was a party.

Article 176
Financial rights and obligations of a
former Contracting State

1.     Any State which has ceased to be a party to this Convention in accordance with Article 172, paragraph 4, or Article 174, shall have the special financial contributions which it has paid pursuant to Article 40, paragraph 2, refunded to it by the Organisation only at the time and under the conditions whereby the Organisation refunds special financial contributions paid by other States during the same accounting period.
2.     The State referred to in paragraph 1 shall, even after ceasing to be a party to this Convention, continue to pay the proportion pursuant to Article 39 of renewal fees in respect of European patents remaining in force in that State, at the rate current on the date on which it ceased to be a party.

Article 177
Languages of the Convention

1.     This Convention, drawn up in a single original, in the English, French and German languages, shall be deposited in the archives of the Government of the Federal Republic of Germany, the three texts being equally authentic.
2.     The texts of this Convention drawn up in official languages of Contracting States other than those referred to in paragraph 1 shall, if they have been approved by the Administrative Council, be considered as official texts. In the event of conflict on the interpretation of the various texts, the texts referred to in paragraph 1 shall be authentic.

Article 178
Transmission and notifications

1.     The Government of the Federal Republic of Germany shall draw up certified true copies of this Convention and shall transmit them to the Governments of all signatory or acceding States.
2.     The Government of the Federal Republic of Germany shall notify to the Governments of the States referred to in paragraph 1:
(a)    any signature;
(b)    the deposit of any instrument of ratification or accession;
(c)    any reservation or withdrawal of reservation pursuant to the provisions of Article 167;
(d)    any declaration or notification received pursuant to the provisions of Article 168;
(e)    the date of entry into force of this Convention;
(f)    any denunciation received pursuant to the provisions of Article 174 and the date on which such denunciation comes into force.
3.     The Government of the Federal Republic of Germany shall register this Convention with the Secretariat of the United Nations.

IN WITNESS WHEREOF, the Plenipotentiaries authorised thereto, having presented their Full Powers, found to be in good and due form, have signed this Convention.

Done at Munich this fifth day of October one thousand nine hundred and seventy-three


PROTOCOL
on Jurisdiction and the Recognition of Decisions in Repspect of the Right to the Grant of a European Patent (Protocol on Recognition)


Section I
Jurisdiction
Article 1

1.     The courts of the Contracting States shall, in accordance with Articles 2 to 6, have jurisdiction to decide claims, against the applicant, to the right to the grant of a European patent in respect of one or more of the Contracting States designated in the European patent application.
2.     For the purposes of this Protocol, the term “courts” shall include authorities which, under the national law of a Contracting State, have jurisdiction to decide the claims referred to in paragraph 1. Any Contracting State shall notify the European Patent Office of the identity of any authority on which such a jurisdiction is conferred, and the European Patent Office shall inform the other Contracting States accordingly.
3.     For the purposes of this Protocol, the term “Contracting State” refers to a Contracting State which has not excluded application of this Protocol pursuant to Article 167 of the Convention.

Article 2

Subject to Articles 4 and 5, if an applicant for a European patent has his residence or principal place of business within one of the Contracting States, proceedings shall be brought against him in the courts of that Contracting State.

Article 3

Subject to Articles 4 and 5, if an applicant for a European patent has his residence or principal place of business outside the Contracting States, and if the party claiming the right to the grant of the European patent has his residence or principal place of business within one of the Contracting States, the courts of the latter State shall have exclusive jurisdiction.

Article 4

Subject to Article 5, if the subject-matter of a European patent application is the invention of an employee, the courts of the Contracting State, if any, whose law determines the right to the European patent pursuant to Article 60, paragraph 1, second sentence, of the Convention, shall have exclusive jurisdiction over proceedings between the employee and the employer.

Article 5

1.     If the parties to a dispute concerning the right to the grant of a European patent have concluded an agreement, either in writing or verbally with written confirmation, to the effect that a court or the courts of a particular Contracting State shall decide on such a dispute, the court or courts of that State shall have exclusive jurisdiction.
2.     However, if the parties are an employee and his employer, paragraph 1 shall only apply in so far as the national law governing the contract of employment allows the agreement in question.

Article 6

In cases where neither Articles 2 to 4 nor Article 5, paragraph 1, apply, the courts of the Federal Republic of Germany shall have exclusive jurisdiction.

Article 7

The courts of Contracting States before which claims referred to in Article 1 are brought shall of their own motion decide whether or not they have jurisdiction pursuant to Articles 2 to 6.

Article 8

1.     In the event of proceedings based on the same claim and between the same parties being brought before courts of different Contracting States, the court to which a later application is made shall of its own motion decline jurisdiction in favour of the court to which an earlier application was made.
2.     In the event of the jurisdiction of the court to which an earlier application is made being challenged, the court to which a later application is made shall stay the proceedings until the other court takes a final decision.

Section II
Recognition
Article 9

1.     Subject to the provisions of Article 11, paragraph 2, final decisions given in any Contracting State on the right to the grant of a European patent in respect of one or more of the Contracting States designated in the European patent application shall be recognised without requiring a special procedure in the other Contracting States.

2.     The jurisdiction of the court whose decision is to be recognised and the validity of such decision may not be reviewed.

Article 10

Article 9, paragraph 1, shall not be applicable where:
(a)    an applicant for a European patent who has not contested a claim proves that the document initiating the proceedings was not notified to him regularly and sufficiently early for him to defend himself; or
(b)    an applicant proves that the decision is incompatible with another decision given in a Contracting State in proceedings between the same parties which were started before those in which the decision to be recognised was given.

Article 11

1.     In relations between any Contracting States the provisions of this Protocol shall prevail over any conflicting provisions of other agreements on jurisdiction or the recognition of judgments.
2.     This Protocol shall not affect the implementation of any agreement between a Contracting State and a State which is not bound by the Protocol.


PROTOCOL
on Privileges and Immunities of the European Patent Organisation (Protocol on
Privileges and Immunities)


Article 1

1.     The premises of the Organisation shall be inviolable.
2.     The authorities of the States in which the Organisation has its premises shall not enter those premises, except with the consent of the President of the European Patent Office. Such consent shall be assumed in case of fire or other disaster requiring prompt protective action.
3.     Service of process at the premises of the Organisation and of any other procedural instruments relating to a cause of action against the Organisation shall not constitute breach of inviolability.

Article 2

The archives of the Organisation and any documents belonging to or held by it shall be inviolable.

Article 3

1.     Within the scope of its official activities the Organisation shall have immunity from jurisdiction and execution, except
(a)    to the extent that the Organisation shall have expressly waived such immunity in a particular case;
(b)    in the case of a civil action brought by a third party for damage resulting from an accident caused by a motor vehicle belonging to, or operated on behalf of, the Organisation, or in respect of a motor traffic offence involving such a vehicle;
(c)    in respect of the enforcement of an arbitration award made under Article 23.
2.     The property and assets of the Organisation, wherever situated, shall be immune from any form of requisition, confiscation, expropriation and sequestration.
3.     The property and assets of the Organisation shall also be immune from any form of administrative or provisional judicial constraint, except in so far as may be temporarily necessary in connection with the prevention of, and investigation into, accidents involving motor vehicles belonging to or operated on behalf of the Organisation.
4.     The official activities of the Organisation shall, for the purposes of this Protocol, be such as are strictly necessary for its administrative and technical operation, as set out in the Convention.

Article 4

1.     Within the scope of its official activities the Organisation and its property and income shall be exempt from all direct taxes.
2.     Where substantial purchases for the exercise of its official activities, and in the price of which taxes or duties are included, are made by the Organisation, appropriate measures shall, whenever possible, be taken by the Contracting States to remit or reimburse to the Organisation the amount of such taxes or duties.
3.     No exemption shall be accorded in respect of duties and taxes which are no more than charges for public utility services.

Article 5

Goods imported or exported by the Organisation for the exercise of its official activities shall be exempt from duties and charges on import or export other than fees or taxes representing services rendered, and from all prohibitions and restrictions on import or export.

Article 6

No exemption shall be granted under Articles 4 and 5 in respect of goods purchased or imported for the personal benefit of the employees of the European Patent Office.

Article 7

1.     Goods belonging to the Organisation which have been acquired or imported under Article 4 or Article 5 shall not be sold or given away except in accordance with conditions laid down by the Contracting States which have granted the exemptions.
2.     The transfer of goods and provision of services between the various buildings of the Organisation shall be exempt from charges or restrictions of any kind; where appropriate, the Contracting States shall take all the necessary measures to remit or reimburse the amount of such charges or to lift such restrictions.

Article 8

The transmission of publications and other information material by or to the Organisation shall not be restricted in any way.

Article 9

The Contracting States shall accord the Organisation the currency exemptions which are necessary for the exercise of its official activities.

Article 10

1.     With regard to its official communications and the transfer of all its documents, the Organisation shall in each Contracting State enjoy the most favourable treatment accorded by that State to any other international organisation.
2.     No censorship shall be applied to official communications of the Organisation by whatever means of communication.

Article 11

The Contracting States shall take all appropriate measures to facilitate the entry, stay and departure of the employees of the European Patent Office.

Article 12

1.     Representatives of Contracting States, alternate Representatives and their advisers or experts, if any, shall enjoy, while attending meetings of the Administrative Council and of any body established by it, and in the course of their journeys to and from the place of meeting, the following privileges and immunities:
(a)    immunity from arrest or detention and from seizure of their personal luggage, except when found committing, attempting to commit, or just having committed an offence;
(b)    immunity from jurisdiction, even after the termination of their mission, in respect of acts, including words written and spoken, done by them in the exercise of their functions; this immunity shall not apply, however, in the case of a motor traffic offence committed by one of the persons referred to above, nor in the case of damage caused by a motor vehicle belonging to or driven by such a person;
(c)    inviolability for all their official papers and documents;
(d)    the right to use codes and to receive documents or correspondence by special courier or sealed bag;
(e)    exemption for themselves and their spouses from all measures restricting entry and from aliens' registration formalities;
(f)    the same facilities in the matter of currency and exchange control as are accorded to the representatives of foreign Governments on temporary official missions.
2.     Privileges and immunities are accorded to the persons referred to in paragraph 1, not for their personal advantage but in order to ensure complete independence in the exercise of their functions in connection with the Organisation. Consequently, a Contracting State has the duty to waive the immunity in all cases where, in the opinion of that State, such immunity would impede the course of justice and where it can be waived without prejudicing the purposes for which it was accorded.

Article 13

1.     Subject to the provisions of Article 6, the President of the European Patent Office shall enjoy the privileges and immunities accorded to diplomatic agents under the Vienna Convention on Diplomatic Relations of 18 April 1961.
2.     However, immunity from jurisdiction shall not apply in the case of a motor traffic offence committed by the President of the European Patent Office or damage caused by a motor vehicle belonging to or driven by him.

Article 14

The employees of the European Patent Office:
(a)    shall, even after their service has terminated, have immunity from jurisdiction in respect of acts, including words written and spoken, done in the exercise of their functions; this immunity shall not apply, however, in the case of a motor traffic offence committed by an employee of the European Patent Office, nor in the case of damage caused by a motor vehicle belonging to or driven by an employee;
(b)    shall be exempt from all obligations in respect of military service;
(c)    shall enjoy inviolability for all their official papers and documents;
(d)    shall enjoy the same facilities as regards exemption from all measures restricting immigration and governing aliens' registration as are normally accorded to staff members of international organisations, as shall members of their families forming part of their household;
(e)    shall enjoy the same privileges in respect of exchange regulations as are normally accorded to the staff members of international organisations;
(f)    shall enjoy the same facilities as to repatriation as diplomatic agents in time of international crises, as shall the members of their families forming part of their household;
(g)    shall have the right to import duty-free their furniture and personal effects at the time of first taking up their post in the State concerned and the right on the termination of their functions in that State to export free of duty their furniture and personal effects, subject to the conditions considered necessary by the Government of the State in whose territory the right is exercised and with the exception of property acquired in that State which is subject to an export prohibition therein.

Article 15

Experts performing functions on behalf of, or carrying out missions for, the Organisation shall enjoy the following privileges and immunities, to the extent that they are necessary for the carrying out of their functions, including during journeys made in carrying out their functions and in the course of such missions:
(a)    immunity from jurisdiction in respect of acts done by them in the exercise of their functions, including words written or spoken, except in the case of a motor traffic offence committed by an expert or in the case of damage caused by a motor vehicle belonging to or driven by him; experts shall continue to enjoy this immunity after they have ceased to be employed by the Organisation;
(b)    inviolability for all their official papers and documents;
(c)    the exchange facilities necessary for the transfer of their remuneration.

Article 16

1.     The persons referred to in Articles 13 and 14 shall be subject to a tax for the benefit of the Organi sation on salaries and emoluments paid by the Organisation, subject to the conditions and rules laid down by the Administrative Council within a period of one year from the date of the entry into force of the Convention. From the date on which this tax is applied, such salaries and emoluments shall be exempt from national income tax. The Contracting States may, however, take into account the salaries and emoluments thus exempt when assessing the amount of tax to be applied to income from other sources.
2.     Paragraph 1 shall not apply to pensions and annuities paid by the Organisation to the former employees of the European Patent Office.

Article 17

The Administrative Council shall decide the categories of employees to whom the provisions of Article 14, in whole or in part, and Article 16 shall apply and the categories of experts to whom the provisions of Article 15 shall apply. The names, titles and addresses of the employees and experts included in such categories shall be communicated from time to time to the Contracting States.

Article 18

In the event of the Organisation establishing its own social security scheme, the Organisation and the employees of the European Patent Office shall be exempt from all compulsory contributions to national social security schemes, subject to the agreements made with the Contracting States in accordance with the provisions of Article 25.

Article 19

1.     The privileges and immunities provided for in this Protocol are not designed to give to employees of the European Patent Office or experts performing functions for or on behalf of the Organisation personal advantage. They are provided solely to ensure, in all circumstances, the unimpeded functioning of the Organisation and the complete independence of the persons to whom they are accorded.
2.     The President of the European Patent Office has the duty to waive immunity where he considers that such immunity prevents the normal course of justice and that it is possible to dispense with such immunity without prejudicing the interests of the Organisation. The Administrative Council may waive immunity of the President for the same reasons.

Article 20

1.     The Organisation shall co-operate at all times with the competent authorities of the Contracting States in order to facilitate the proper administration of justice, to ensure the observance of police regula tions and regulations concerning public health, labour inspection or other similar national legislation, and to prevent any abuse of the privileges, immunities and facilities provided for in this Protocol.
2.     The procedure of co-operation mentioned in paragraph 1 may be laid down in the complementary agreements referred to in Article 25.

Article 21

Each Contracting State retains the right to take all precautions necessary in the interests of its security.


Article 22

No Contracting State is obliged to extend the privileges and immunities referred to in Article 12, Article 13, Article 14, sub-paragraphs (b), (e) and (g), and Article 15, sub-paragraph (c), to:
(a)    its own nationals;
(b)    any person who at the time of taking up his functions with the Organisation has his permanent residence in that State and is not an employee of any other inter-governmental organisation whose staff is incorporated into the Organisation.

Article 23

1.     Any Contracting State may submit to an international arbitration tribunal any dispute concerning the Organisation or an employee of the European Patent Office or an expert performing functions for or on its behalf, in so far as the Organisation or the employees and experts have claimed a privilege or an immunity under this Protocol in circumstances where that immunity has not been waived.
2.     If a Contracting State intends to submit a dispute to arbitration, it shall notify the Chairman of the Administrative Council, who shall forthwith inform each Contracting State of such notification.
3.     The procedure laid down in paragraph 1 of this Article shall not apply to disputes between the Organisation and the employees or experts in respect of the Service Regulations or conditions of employment or, with regard to the employees, the Pension Scheme Regulations.
4.     No appeal shall lie against the award of the arbitration tribunal, which shall be final; it shall be binding on the parties. In case of dispute concerning the import or scope of the award, it shall be incumbent upon the arbitration tribunal to interpret it on request by either party.

Article 24

1.     The arbitration tribunal referred to in Article 23 shall consist of three members, one arbitrator nominated by the State or States party to the arbitration, one arbitrator nominated by the Administrative Council and a third arbitrator, who shall be the chairman, nominated by the said two arbitrators.
2.     The arbitrators shall be nominated from a panel comprising no more than six arbitrators appointed by each Contracting State and six arbitrators appointed by the Administrative Council. This panel shall be established as soon as possible after the Protocol enters into force and shall be revised each time this proves necessary.
3.     If, within three months from the date of the notification referred to in Article 23, paragraph 2, either party fails to make the nomination referred to in paragraph 1 above, the choice of the arbitrator shall, on request of the other party, be made by the President of the International Court of Justice from the persons included in the said panel. This shall also apply, when so requested by either party, if within one month from the date of appointment of the second arbitrator, the first two arbitrators are unable to agree on the nomination of the third arbitrator. However, if, in these two cases, the President of the International Court of Justice is prevented from making the choice, or if he is a national of one of the States parties to the dispute, the Vice-President of the International Court of Justice shall make the aforementioned appointments, provided that he himself is not a national of one of the States parties to the dispute; if such is the case, the member of the International Court of Justice who is not a national of one of the States parties to the dispute and who has been chosen by the President or Vice-President shall make the appointments. A national of the State applying for arbitration may not be chosen to fill the post of the arbitrator whose appointment devolves on the Administrative Council nor may a person included in the panel and appointed by the Administrative Council be chosen to fill the post of an arbitrator whose appointment devolves on the State which is the claimant. Nor may a person of either of these categories be chosen as chairman of the Tribunal.
4.     The arbitration tribunal shall draw up its own rules of procedure.

Article 25

The Organisation may, on a decision of the Administrative Council, conclude with one or more Contracting States complementary agreements to give effect to the provisions of this Protocol as regards such State or States, and other arrangements to ensure the efficient functioning of the Organisation and the safeguarding of its interests.


PROTOCOL
on the Centralisation of the European Patent System and on Its Introduction
(Protocol on Centralisation)


Section I

1.
(a)    Upon entry into force of the Convention, States parties thereto which are also members of the International Patent Institute set up by the Hague Agreement of 6 June 1947 shall take all necessary steps to ensure the transfer to the European Patent Office no later than the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention of all assets and liabilities and all staff members of the International Patent Institute. Such transfer shall be effected by an agreement between the International Patent Institute and the European Patent Organisation. The above States and the other States parties to the Convention shall take all necessary steps to ensure that that agreement shall be implemented no later than the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention. Upon implementation of the agreement, those Member States of the International Patent Institute which are also parties to the Convention further undertake to terminate their participation in the Hague Agreement.
(b)    The States parties to the Convention shall take all necessary steps to ensure that all the assets and liabilities and all the staff members of the International Patent Institute are taken into the European Patent Office in accordance with the agreement referred to in sub-paragraph (a). After the implementation of that agreement the tasks incumbent upon the International Patent Institute at the date on which the Convention is opened for signature, and in particular those carried out vis- à-vis its Member States, whether or not they become parties to the Convention, and such tasks as it has undertaken at the time of the entry into force of the Convention to carry out vis-à-vis States which, at that date, are both members of the International Patent Institute and parties to the Convention, shall be assumed by the European Patent Office. In addition, the Administrative Council of the European Patent Organisation may allocate further duties in the field of searching to the European Patent Office.
(c)    The above obligations shall also apply mutatis mutandis to the sub-office set up under the Hague Agreement under the conditions set out in the agreement between the International Patent Institute and the Government of the Contracting State concerned. This Government hereby undertakes to make a new agreement with the Euro pean Patent Organisation in place of the one already made with the International Patent Institute to harmonise the clauses concerning the organisation, operation and financing of the sub-office with the provisions of this Protocol.
2.     Subject to the provisions of Section III, the States parties to the Convention shall, on behalf of their central industrial property offices, renounce in favour of the European Patent Office any activities as International Searching Authorities under the Patent Cooperation Treaty as from the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention.
3.
(a)    A sub-office of the European Patent Office shall be set up in Berlin as from the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention. It shall operate under the direction of the branch at The Hague.
(b)    The Administrative Council shall determine the duties to be allocated to the sub-office in Berlin in the light of general considerations and of the requirements of the European Patent Office.
(c)    At least at the beginning of the period following the progressive expansion of the field of activity of the European Patent Office, the amount of work assigned to that sub-office shall be sufficient to enable the examining staff of the Berlin Annex of the German Patent Office, as it stands at the date on which the Convention is opened for signature, to be fully employed.
(d)    The Federal Republic of Germany shall bear any additional costs incurred by the European Patent Organisation in setting up and maintaining the sub-office in Berlin.

Section II

Subject to the provisions of Sections III and IV, the States parties to the Convention shall, on behalf of their central industrial property offices, renounce in favour of the European Patent Office any activities as International Preliminary Examining Authorities under the Patent Cooperation Treaty. This obligation shall apply only to the extent to which the European Patent Office may examine European patent applications in accordance with Article 162, paragraph 2, of the Convention and shall not apply until two years after the date on which the European Patent Office has begun examining activities in the areas of technology concerned, on the basis of a five-year plan which shall progressively extend the activities of the European Patent Office to all areas of technology and which may be amended only by decision of the Administrative Council. The procedures for implementing this obligation shall be determined by decision of the Administrative Council.

Section III

1.     The central industrial property office of any State party to the Convention in which the official language is not one of the official languages of the European Patent Office, shall be authorised to act as an International Searching Authority and as an International Preliminary Examining Authority under the Patent Cooperation Treaty. Such authorisation shall be subject to an undertaking by the State concerned to restrict such activities to international applications filed by nationals or residents of such State and by nationals or residents of States parties to the Convention which are adjacent to that State. The Administrative Council may decide to authorise the central industrial property office of any State party to the Convention to extend such activities to cover such international applications as may be filed by nationals or residents of any non-Contracting State having the same official language as the Contracting State in question and drawn up in that language.
2.     For the purpose of harmonising search activities under the Patent Cooperation Treaty within the framework of the European system for the grant of patents, co-operation shall be established between the European Patent Office and any central industrial property office authorised under this Section. Such co-operation shall be based on a special agreement which may cover e.g. search procedures and methods, qualifications required for the recruitment and training of examiners, guidelines for the exchange of search and other services between the offices as well as other measures needed to establish the required control and supervision.

Section IV

1.
(a)    For the purpose of facilitating the adaptation of the national patent offices of the States parties to the Convention to the European patent system, the Administrative Council may, if it considers it desirable, and subject to the conditions set out below, entrust the central industrial property offices of such of those States in which it is possible to conduct the proceedings in one of the official languages of the European Patent Office with tasks concerning the examination of European patent applications drawn up in that language which, pursuant to Article 18, paragraph 2, of the Convention, shall, as a general rule, be entrusted to a member of the Examining Division. Such tasks shall be carried out within the framework of the proceedings for grant laid down in the Convention; decisions on such applications shall be taken by the Examining Division composed in accordance with Article 18, paragraph 2.
(b)    Tasks entrusted under sub-paragraph (a) shall not be in respect of more than 40% of the total number of European patent applications filed; tasks entrusted to any one State shall not be in respect of more than one-third of the total number of European patent applications filed. These tasks shall be entrusted for a period of 15 years from the opening of the European Patent Office and shall be reduced progressively (in principle by 20% a year) to zero during the last 5 years of the period.
(c)    The Administrative Council shall decide, while taking into account the provisions of sub-paragraph (b), upon the nature, origin and number of the European patent applications in respect of which examining tasks may be entrusted to the central industrial property office of each of the Contracting States mentioned above.
(d)    The above implementing procedures shall be set out in a special agreement between the central industrial property office of the Contracting State concerned and the European Patent Organisation.
(e)    An office with which such a special agreement has been concluded may act as an International Preliminary Examining Authority under the Patent Cooperation Treaty, until the expiry of the period of 15 years.
2.
(a)    If the Administrative Council considers that it is compatible with the proper functioning of the European Patent Office, and in order to alleviate the difficulties which may arise for certain Contracting States from the application of Section I, paragraph 2, it may entrust searching in respect of European patent applications to the central industrial property offices of those States in which the official language is one of the official languages of the European Patent Office, provided that these offices possess the necessary qualifications for appointment as an International Searching Authority in accordance with the conditions laid down in the Patent Cooperation Treaty.
(b)    In carrying out such work, undertaken under the responsibility of the European Patent Office, the central industrial property offices concerned shall adhere to the guidelines applicable to the drawing up of the European search report.
(c)    The provisions of paragraph 1(b), second sentence, and sub-paragraph (d) of this Section shall apply to this paragraph.

Section V

1.     The sub-office referred to in Section I, paragraph 1(c), shall be authorised to carry out searches, among the documentation which is at its disposal and which is in the official language of the State in which the sub-office is located, in respect of European patent applications filed by nationals and residents of that State. This authorisation shall be on the understanding that the procedure for the grant of European patents will not be delayed and that additional costs will not be incurred for the European Patent Organisation.
2.     The sub-office referred to in EPCparagraph 1 shall be authorised to carry out, at the option of an applicant for a European patent and at his expense, a search on his patent application among the documentation referred to in paragraph 1. This authorisation shall be effective until the search provided for in Article 92 of the Convention has been extended, in accordance with Section VI, to cover such documentation and shall be on the understanding that the procedure for the grant of European patents will not be delayed.
3.     The Administrative Council may also extend the authorisations provided for in EPC paragraphs 1 and 2, under the conditions of those paragraphs, to the central industrial property office of a Contracting State which does not have as an official language one of the official languages of the European Patent Office.

Section VI

The search provided for in Article 92 of the Convention shall, in principle, be extended, in respect of all European patent applications, to published patents, published patent applications and other relevant documents of Contracting States not included in the search documentation of the European Patent Office on the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention. The extent, conditions and timing of any such extension shall be determined by the Administrative Council on the basis of a study concerning particularly the technical and financial aspects.

Section VII

The provisions of this Protocol shall prevail over any contradictory provisions of the Convention.

Section VIII

The decisions of the Administrative Council provided for in this Protocol shall require a three-quarters majority (Article 35, paragraph 2, of the Convention). The provisions governing the weighting of votes (Article 36 of the Convention) shall apply.


PROTOCOL
on the Interpretation of
Article 69 EPC


Article 1
General principles

Article 69 should not be interpreted as meaning that the extent of the protection conferred by a European patent is to be understood as that defined by the strict, literal meaning of the wording used in the claims, the description and drawings being employed only for the purpose of resolving an ambiguity found in the claims. Nor should it be taken to mean that the claims serve only as a guideline and that the actual protection conferred may extend to what, from a consideration of the description and drawings by a person skilled in the art, the patent proprietor has contemplated. On the contrary, it is to be interpreted as defining a position between these extremes which combines a fair protection for the patent proprietor with a reasonable degree of legal certainty for third parties.

Article 2
Equivalents

For the purpose of determining the extent of protection conferred by a European patent, due account shall be taken of any element which is equivalent to an element specified in the claims.

Fylgiskjal II.


GERÐ
um endurskoðun samningsins um
veitingu evrópskra einkaleyfa
(evrópska einkaleyfasamningsins).

Inngangur.


SAMNINGSRÍKIN AÐ EVRÓPSKA EINKALEYFASAMNINGNUM,

SEM ÁLÍTA að samvinna Evrópuríkja á grundvelli evrópska einkaleyfasamningsins og þar með sameiginleg málsmeðferð við veitingu einkaleyfa sé mikilvægt framlag til samruna Evrópu í lagalegu og efnahagslegu tilliti,


SEM VILJA efla nýsköpun og hagvöxt í Evrópu í auknum mæli með því leggja grunn að frekari þróun evrópska einkaleyfakerfisins,


SEM ÓSKA, í ljósi þess að einkaleyfakerfið verður stöðugt alþjóðlegra, að aðlaga evrópska einkaleyfasamninginn að þeirri tæknilegu og lagalegu þróun sem átt hefur sér stað síðan hann var gerður,


HAFA SAMÞYKKT EFTIRFARANDI:

1. gr.
Breyting á Evrópska
einkaleyfasamningnum.

Breyta skal evrópska einkaleyfasamningnum á eftirfarandi hátt:

1.     Á eftir 4. gr. skal setja inn eftirfarandi nýja grein, 4. gr. a:

4. gr. a
Ráðherrafundur samningsríkjanna.

Þeir ráðherrar samningsríkjanna, sem bera ábyrgð á einkaleyfamálum, skulu halda fund að minnsta kosti fimmta hvert ár til að fjalla um málefni er varða stofnunina og evrópska einkaleyfakerfið.

2.     Breyta skal 11. gr. þannig að hún orðist svo:

11. gr.
Ráðning yfirmanna.

1.     Forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar skal ráðinn af framkvæmdaráðinu.
2.     Varaforstjórar skulu ráðnir af framkvæmdaráðinu að höfðu samráði við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.
3.     Þeir sem eiga sæti í áfrýjunarnefndunum og stóru áfrýjunarnefndinni, að meðtöldum formönnum þeirra, skulu ráðnir af framkvæmdaráðinu, að fenginni tillögu frá forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar. Framkvæmdaráðinu er heimilt að endurráða þá að höfðu samráði við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.
4.     Framkvæmdaráð fer með agavald yfir starfsmönnum skv. 1.–3. mgr.

5.     Framkvæmdaráðinu er einnig heimilt, að höfðu samráði við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, að ráða löglærða aðila, starfandi hjá dómstólum samningsríkjanna eða dómsyfirvöldum utan dómstólakerfis þeirra, sem fulltrúa í stóru áfrýjunarnefndina, og mega þeir halda áfram dómarastörfum á landsbundnum vettvangi. Þeir skulu ráðnir til þriggja ára í senn og er heimilt að endurráða þá.

3.     Breyta skal 14. gr. þannig að hún orðist svo:

14. gr.
Tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar, umsókna um evrópsk einkaleyfi og annarra skjala.

1.     Opinber tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar eru enska, franska og þýska.
2.     Umsóknir um evrópskt einkaleyfi skulu lagðar inn á einhverju hinna opinberu tungumála, en leggja skal inn þýðingu á eitt hinna opinberu tungumála í samræmi við framkvæmdareglugerðina ef umsóknir eru lagðar inn á öðru tungumáli. Meðan málið er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt að vinna að því að færa slíka þýðingu til samræmis við frumtexta umsóknarinnar. Ef þýðing, sem krafist er, er ekki lögð inn innan tiltekins frests telst umsóknin hafa verið dregin til baka.
3.     Nota skal það opinbera tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar, sem umsóknin er lögð inn á eða þýdd á, í allri meðferð hjá Evrópsku einkaleyfastofunni nema kveðið sé á um annað í framkvæmdareglugerðinni.

4.     Einstaklingum eða lögaðilum, með aðsetur eða aðalstarfsstöð í samningsríki, sem hefur annað opinbert tungumál en ensku, frönsku eða þýsku, svo og ríkisborgurum þess ríkis, búsettum erlendis, er heimilt að leggja inn skjöl sem skylt er að leggja inn innan tiltekins frests á opinberu tungumáli þess ríkis. Þó verða þeir að leggja inn þýðingu á eitt hinna opinberu tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar eins og kveðið er á um í framkvæmdareglugerðinni. Ef eitthvert skjal, annað en þau sem mynda umsókn um evrópskt einkaleyfi, er ekki lagt inn á tungumáli sem mælt er fyrir um, eða ef einhver þýðing, sem krafist er, er ekki lögð inn innan tiltekins frests telst það skjal ekki hafa verið móttekið.
5.     Umsóknir um evrópskt einkaleyfi skulu birtar á tungumáli málsmeðferðarinnar.
6.     Texti evrópskra einkaleyfa skal birtur á tungumáli málsmeðferðarinnar og honum skal fylgja þýðing einkaleyfiskrafnanna á hin tvö opinberu tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar.
7.     Birta skal eftirfarandi á þremur opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar:
a)    Einkaleyfatíðindi Evrópsku einkaleyfastofunnar;
b)    Fréttabréf Evrópsku einkaleyfastofunnar.

8.     Færslur í evrópsku einkaleyfaskrána skulu gerðar á þremur opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar. Í vafatilvikum skal tungumál málsmeðferðarinnar ráða úrslitum.

4.     Breyta skal 16. gr. þannig að hún orðist svo:

16. gr.
Móttökudeild.

Móttökudeild skal sjá um athugun umsókna við innlagningu og athugun á formkröfum umsókna um evrópskt einkaleyfi.


5.     Breyta skal 17. gr. þannig að hún orðist svo:

17. gr.
Nýnæmisrannsóknardeildir.

Nýnæmisrannsóknardeildir skulu sjá um samningu evrópskra nýnæmisrannsóknarskýrslna.

6.     Breyta skal 18. gr. þannig að hún orðist svo:

18. gr.
Rannsóknardeildir.

1.     Rannsóknardeildir annast rannsókn á einkaleyfishæfi umsókna um evrópskt einkaleyfi.
2.     Rannsóknardeild er skipuð þremur tæknimenntuðum rannsóknarmönnum. Þó skal að jafnaði fela einum starfsmanni deildarinnar rannsókn á hverri einkaleyfisumsókn fram til þess að ákvörðun er tekin. Munnlegur málflutningur fer fram fyrir rannsóknardeildinni sjálfri. Telji rannsóknardeild ákvörðun þess eðlis að það sé nauðsynlegt, skal fjölga í henni um einn löglærðan rannsóknarmann. Falli atkvæði jafnt skal atkvæði deildarformanns ráða úrslitum.


7.     Breyta skal 21. gr. þannig að hún orðist svo:

21. gr.
Áfrýjunarnefndir.

1.     Áfrýjunarnefndir sjá um að athuga áfrýjanir á ákvörðunum móttökudeildar, rannsóknardeilda, andmæladeilda og lögfræðideildar.

2.     Þegar áfrýjað er ákvörðun móttökudeildar eða lögfræðideildar skal áfrýjunarnefnd skipuð þremur löglærðum nefndarmönnum.
3.     Þegar áfrýjað er ákvörðun rannsóknardeildar skal áfrýjunarnefnd skipuð:
a)    tveimur fulltrúum með tilskilda tækniþekkingu og einum löglærðum nefndarmanni ef ákvörðunin varðar synjun á umsókn um evrópskt einkaleyfi eða veitingu, takmörkun eða ógildingu á evrópsku einkaleyfi og var tekin af rannsóknardeild, skipaðri færri en fjórum nefndarmönnum;
b)    þremur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og tveimur löglærðum nefndarmönnum ef ákvörðunin var tekin af rannsóknardeild, skipaðri fjórum nefndarmönnum, eða þegar áfrýjunarnefndin telur þess þörf vegna eðlis áfrýjunarinnar;
c)    þremur löglærðum nefndarmönnum í öllum öðrum tilvikum.
4.     Þegar áfrýjað á ákvörðun andmæladeildar skal áfrýjunarnefnd skipuð:
a)    tveimur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og einum löglærðum nefndarmanni ef ákvörðunin var tekin af andmæladeild, skipaðri þremur nefndarmönnum;
b)    þremur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu og tveimur löglærðum nefndarmönnum ef ákvörðunin var tekin af andmæladeild, skipaðri fjórum nefndarmönnum, eða þegar áfrýjunarnefndin telur þess þörf vegna eðlis áfrýjunarinnar.

8.     Breyta skal 22. gr. þannig að hún orðist svo:

22. gr.
Stóra áfrýjunarnefndin.

1.     Stóra áfrýjunarnefndin skal sjá um:

a)    að skera úr um lagaatriði sem áfrýjunarnefndir vísa til hennar skv. 112. gr;
b)    að gefa álit um lagaatriði sem forstjóri Evrópsku einkaleyfastofunnar vísar til hennar skv. 112. gr.;

c)    að taka afstöðu til beiðna um endurskoðun á ákvörðunum áfrýjunarnefndarinnar skv. 112. gr. a.
2.     Í málum skv. a- og b-lið 1. mgr. skal stóra áfrýjunarnefndin skipuð fimm löglærðum nefndarmönnum og tveimur nefndarmönnum með tilskilda tækniþekkingu. Í málum skv. c-lið 1. mgr. skal stóra áfrýjunarnefndin skipuð þremur eða fimm nefndarmönnum eins og kveðið er á um í framkvæmdareglugerðinni. Í öllum málum skal formaður vera löglærður.


9.     Breyta skal 23. gr. þannig að hún orðist svo:

23. gr.
Sjálfstæði nefndarmanna.

1.     Nefndarmenn í stóru áfrýjunarnefndinni og öðrum áfrýjunarnefndum skulu skipaðir til fimm ára í senn og er óheimilt að víkja þeim úr störfum á þeim tíma nema brýn ástæða sé til þess og framkvæmdaráðið, að fenginni tillögu þess efnis frá stóru áfrýjunarnefndinni, taki ákvörðun um slíkt. Þrátt fyrir það sem kveðið er á um í 1. málsl. fellur ráðningarsamningur nefndarmanna úr gildi ef þeir segja upp eða fara á eftirlaun samkvæmt starfsreglum sem gilda um fastráðna starfsmenn Evrópsku einkaleyfastofunnar.
2.     Nefndarmenn mega ekki vera starfsmenn móttökudeildar, rannsóknardeilda, andmæladeilda eða lagadeildar.
3.     Í ákvörðunum sínum skulu nefndarmenn ekki bundnir af fyrirmælum frá öðrum heldur einungis fara eftir ákvæðum samnings þessa.
4.     Áfrýjunarnefndir og stóra áfrýjunarnefndin skulu setja sér starfsreglur í samræmi við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar. Þær skulu hljóta samþykki framkvæmdaráðs.


10.     Breyta skal 33. gr. þannig að hún orðist svo:

33. gr.
Valdsvið framkvæmdaráðsins
í ákveðnum tilvikum.

1.     Framkvæmdaráðið hefur vald til að breyta:

a)    frestum sem kveðið er á um í samningnum;
b)    II.–VIII. hluta og X. hluta samningsins til að þeir verði í samræmi við alþjóðlegan samning, tengdan einkaleyfum, eða löggjöf Evrópubandalagsins um einkaleyfi;
c)    framkvæmdareglugerðinni.
2.     Framkvæmdaráðið hefur vald, í samræmi við samning þennan, til að breyta:

a)    fjármálareglugerðinni;
b)    starfsreglum sem gilda um fasta starfsmenn og ráðningarskilyrðum annarra starfsmanna Evrópsku einkaleyfastofunnar, launatöxtum þessara föstu starfsmanna og annarra starfsmanna og eðli viðbótarhlunninda og reglum um veitingu þeirra;

c)    reglum um lífeyri og viðeigandi hækkunum á núverandi lífeyri til að hann fylgi launahækkunum;

d)    reglum um gjöld;
e)    starfsreglum sínum.
3.     Þrátt fyrir 2. mgr. 18. gr. er framkvæmdaráðinu heimilt að ákveða, í ljósi fenginnar reynslu, að í tilteknum málaflokkum skuli rannsóknardeildir skipaðar einum tæknimenntuðum rannsóknarmanni. Slíka ákvörðun má afturkalla.
4.     Framkvæmdaráðið hefur vald til þess að fela forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar að efna til samningaviðræðna og ganga frá samningum, með samþykki ráðsins, fyrir hönd Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar við ríki, milliríkjastofnanir og upplýsingamiðstöðvar sem komið hefur verið á fót með samningum við slíkar stofnanir.
5.     Framkvæmdaráðinu er óheimilt að taka ákvarðanir skv. b-lið 1. mgr.:
–    um alþjóðlegan samning, áður en hann öðlast gildi;
–    sem snerta löggjöf Evrópubandalagsins, áður en hún öðlast gildi, eða áður en innleiðingartímabil rennur út, sé gert ráð fyrir slíku tímabili í löggjöfinni.

11.     Breyta skal 35. gr. þannig að hún orðist svo:

35. gr.
Reglur um atkvæðagreiðslu.

1.     Ákvarðanir framkvæmdaráðsins, aðrar en um getur í 2. og 3. mgr., skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða þeirra samningsríkja sem sækja fundinn og greiða atkvæði.
2.     Þrjá fjórðu hluta atkvæða þeirra samningsríkja, sem sækja fundinn og greiða atkvæði, þarf til ákvarðana sem framkvæmdaráðinu er heimilt að taka skv. 7. gr., 1. mgr. 11. gr., a- og c-lið 1. mgr. og 2.–4. mgr. 33. gr., 1. mgr. 39. gr., 2. og 4. mgr. 40. gr., 46. gr., 134 gr. a, 2. mgr. 149. gr. a, 152 gr., 7. mgr. 153. gr., 166. gr. og 172. gr.


3.     Einróma samþykkis samningsríkjanna, sem greiða atkvæði, er krafist til ákvarðana sem framkvæmdaráðinu er heimilt að taka skv. b-lið 1. mgr. 33. gr. Framkvæmdaráðið skal aðeins taka slíkar ákvarðanir ef öll samningsríkin sækja fundinn. Ákvörðun, sem tekin er á grundvelli b-liðar 1. mgr. 33. gr., skal ekki öðlast gildi ef eitthvert samningsríkjanna tilkynnir, innan tólf mánaða frá ákvörðunardegi, að það kjósi að vera ekki bundið af þeirri ákvörðun.
4.     Hjáseta telst ekki til greiddra atkvæða.

12.     Breyta skal 37. gr. þannig að hún orðist svo:

37. gr.
Fjármögnun fjárhagsáætlunar.

Fjárhagsáætlun stofnunarinnar skal fjármagna með:
a)    tekjum stofnunarinnar sjálfrar;
b)    greiðslum samningsríkjanna vegna árgjalda fyrir evrópsk einkaleyfi sem lögð eru á í þeim ríkjum;

c)    þegar þörf krefur, með sérstökum fjárframlögum samningsríkjanna;
d)    þegar við á, þeim tekjum sem kveðið er á um í 146. gr.;
e)    þegar við á, og fyrir fasteignir eingöngu, láni hjá þriðja aðila sem fengið er með veði í landareign eða fasteign;
f)    þegar við á, fjármagni frá þriðja aðila fyrir sérstök verkefni.

13.     Breyta skal 38. gr. þannig að hún orðist svo:

38. gr.
Tekjur stofnunarinnar.

Eigin tekjur stofnunarinnar skulu samanstanda af:
a)    öllum tekjum af gjöldum og öðrum tekjustofnum og einnig af varasjóðum stofnunarinnar;
b)    tekjum af lífeyrissjóði sem farið skal með sem sérstakan eignaflokk innan stofnunarinnar og er ætlað að styðja lífeyrisáætlun stofnunarinnar með viðeigandi varasjóði.


14.     Breyta skal 42. gr. þannig að hún orðist svo:

42. gr.
Fjárhagsáætlun.

1.     Fjárhagsáætlun stofnunarinnar skal stemma. Hún skal samin í samræmi við almennt viðurkenndar reglur um reikningsskil sem tilteknar eru í fjármálareglugerðinni. Heimilt er, ef þörf krefur, að samþykkja breytingu á fjárhagsáætlunum eða aukafjárhagsáætlunum.
2.     Fjárhagsáætlun skal samin í þeirri reikningseiningu sem tiltekin er í fjármálareglugerðinni.

15.     Breyta skal 50. gr. þannig að hún orðist svo:

50. gr.
Fjármálareglugerð.

Í fjármálareglugerð skal einkum ákveða:

a)    hvernig staðið skal að því að semja og framkvæma fjárhagsáætlunina og færa reikninga og endurskoða þá;
b)    hvernig og með hvaða móti samningsríkin skulu inna af hendi til stofnunarinnar greiðslur og framlög skv. 37. gr. og fyrirframgreiðslur skv. 41. gr.;

c)    reglur um ábyrgð starfsmanna sem sjá um leyfisveitingar og reikningsskil og fyrirkomulag eftirlits með störfum þeirra;
d)    vexti skv. 39., 40. og 47. gr.;

e)    hvernig framlögin, sem greiða ber með vísun til 146. gr., skuli reiknuð;
f)    samsetningu fjárhags- og fjármálanefndar, sem framkvæmdarráðið skal setja á stofn, og hvaða verksvið henni skuli falið.
g)    almennt viðurkenndar reglur um reikningsskil sem fjárhagsáætlun og ársreikningar skulu byggjast á.

16.     Breyta skal 51. gr. þannig að hún orðist svo:

51. gr.
Gjöld.

1.     Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt að leggja gjöld á öll opinber verkefni eða störf sem innt eru af hendi samkvæmt samningi þessum.
2.     Í framkvæmdareglugerðinni skal kveðið á um tímamörk á greiðslum, öðrum en þeim sem ákveðnar eru í samningi þessum.
3.     Í þeim tilvikum, sem framkvæmdareglugerðin kveður á um að greiðslur skuli inntar af hendi, skal einnig kveðið á um afleiðingar þess ef greiðslurnar berast ekki á tilsettum tíma.
4.     Reglur um gjöld skulu einkum ákvarða fjárhæðir gjaldanna og með hvaða móti þau skulu innt af hendi.

17.     Breyta skal 52. gr. þannig að hún orðist svo:

52. gr.
Einkaleyfishæfar uppfinningar.

1.     Veita skal evrópskt einkaleyfi fyrir uppfinningum á öllum tæknisviðum að því gefnu að uppfinningin sé ný, frumleg og hagnýtanleg í atvinnulífi.

2.     Eftirfarandi telst einkum ekki til uppfinninga í skilningi 1. mgr.:
a)    uppgötvanir, vísindakenningar og stærðfræðiaðferðir;
b)    listræn verk;
c)    skipulag, reglur og aðferðir við hugarstarfsemi, leiki eða viðskipti, svo og tölvuforrit;

d)    framsetning upplýsinga.
3.     Ákvæði 2. mgr. koma í veg fyrir einkaleyfishæfi efnis eða athafna, sem um getur í ákvæðinu, einungis að því marki sem evrópskt einkaleyfi eða umsókn um evrópskt einkaleyfi varðar slíkt efni eða athöfn sem slíka.

18.     Breyta skal 53. gr. þannig að hún orðist svo:

53. gr.
Undantekningar frá einkaleyfishæfi.

Ekki má veita evrópskt einkaleyfi þegar um er að ræða:
a)    uppfinningar þar sem almenn hagnýting þeirra myndi stríða gegn allsherjarreglu eða siðgæði og verður hagnýtingin þó ekki talin brjóta gegn slíku vegna þess eins að hún sé bönnuð með lögum eða reglum í einhverjum eða öllum samningsríkjunum;
b)    plöntu- eða dýraafbrigði eða aðferðir til að framleiða plöntur eða dýr sem eru í grundvallaratriðum líffræðilegs eðlis; ákvæði þetta gildir hvorki um örverufræðilegt ferli né afurðir sem rekja má til slíks ferlis.
c)    aðferðir við handlækningar eða sjúkdómsmeðferð og sjúkdómsgreiningu á mönnum eða dýrum; ákvæði þetta gildir ekki um afurðir, einkum efni eða efnasamsetningar, til nota við einhverjar slíkar aðferðir.


19.     Breyta skal 54. gr. þannig að hún orðist svo:

54. gr.
Nýnæmi.

1.     Uppfinning telst ný ef hún er ekki hluti af þekktri tækni á hverjum tíma á viðkomandi sviði.
2.     Til þess sem þekkt er á hverjum tíma á viðkomandi sviði telst allt sem hefur verið gert aðgengilegt almenningi með skriflegri eða munnlegri lýsingu, með notkun eða einhverju öðru móti, fyrir þann dag er umsókn um evrópskt einkaleyfi var lögð inn.
3.     Þar að auki skal innihald umsókna um evrópskt einkaleyfi eins og þær voru lagðar inn, ef umsóknardagur þeirra er fyrir þann dag sem um getur í 2. mgr. og þær voru birtar á þeim degi eða seinna, teljast hluti af því sem þekkt er á hverjum tíma á viðkomandi sviði.
4.     Ákvæði 2.–3. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir einkaleyfishæfi efnis eða samsetningar sem er hluti af því sem er þekkt á hverjum tíma á viðkomandi sviði og nota skal í aðferð skv. c-lið 53. gr., að því tilskildu að notkun þess í aðferðinni sé ekki hluti af núverandi þekkingu.
5.     Ákvæði 2.–3. mgr. skulu heldur ekki koma í veg fyrir einkaleyfishæfi efnis eða samsetningar skv. 4. mgr. sem nota skal með sérstökum hætti í tengslum við aðferð, sem um getur í c-lið 53. gr., að því tilskildu að slík notkun sé ekki hluti af núverandi þekkingu.

20.     Breyta skal 60. gr. þannig að hún orðist svo:

60. gr.
Réttur til evrópsks einkaleyfis.

1.     Rétt til evrópsks einkaleyfis á uppfinningamaðurinn eða sá sem hefur öðlast rétt hans. Ef uppfinningamaðurinn er launþegi ákvarðast rétturinn til evrópsks einkaleyfis af lögum ríkisins þar sem launþeginn starfar aðallega en ef ekki er unnt að ákvarða í hvaða ríki launþeginn starfar aðallega skal beita lögum ríkisins þar sem atvinnurekandinn hefur starfsstöð sem launþeginn tengist.

2.     Hafi tveir eða fleiri einstaklingar komið fram með uppfinningu, óháðir hvor eða hver öðrum, skal sá eiga rétt til evrópsks einkaleyfis sem fyrst sækir um hann að því gefnu að fyrsta umsókn hafi verið birt.

3.     Í máli hjá Evrópsku einkaleyfastofunni skal litið svo á að umsækjanda sé heimilt að fara með réttinn til evrópsks einkaleyfis.

21.     Breyta skal 61. gr. þannig að hún orðist svo:

61. gr.
Umsóknir um evrópskt einkaleyfi frá
einstaklingum sem hafa ekki til þess rétt.

1.     Ef talið er í lokaákvörðun að einstaklingur, annar en umsækjandi, eigi rétt á að öðlast evrópskt einkaleyfi er þeim einstaklingi heimilt samkvæmt framkvæmdareglugerðinni:
a)    að fylgja umsókninni um evrópskt einkaleyfi eftir í eigin nafni í stað umsækjandans;
b)    að leggja inn nýja umsókn um evrópskt einkaleyfi fyrir sömu uppfinningu; eða
c)    fara fram á að umsókninni um evrópskt einkaleyfi verði hafnað.
2.     Ákvæði 1. mgr. 76. gr. skulu gilda að breyttu breytanda um nýja umsókn um evrópskt einkaleyfi sem lögð er inn skv. b-lið 1. mgr.

22.     Breyta skal 65. gr. þannig að hún orðist svo:

65. gr.
Þýðing á evrópsku einkaleyfi.

1.     Ef evrópskt einkaleyfi, sem Evrópska einkaleyfastofan hefur veitt, breytt eða takmarkað, er ekki á einu opinberra tungumála samningsríkis getur það kveðið á um að einkaleyfishafi skuli leggja fram, hjá aðalhugverkastofu þess, þýðingu á einkaleyfinu, eins það var veitt, því breytt eða það var takmarkað, á einu opinberra tungumála þess að hans vali eða, ef ríkið hefur tiltekið notkun eins opinbers tungumáls, á því máli. Fresturinn til að leggja fram þýðinguna rennur út þremur mánuðum eftir þann dag þegar tilkynning um veitingu evrópska einkaleyfisins, gildi þess með áorðnum breytingum eða takmarkanir þess er birt í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar, nema hlutaðeigandi ríki kveði á um lengri frest.
2.     Hverju samningsríki, sem hefur samþykkt ákvæði í samræmi við 1. mgr., er heimilt að kveða á um að einkaleyfishafi greiði kostnað við birtingu slíkrar þýðingar að fullu eða að hluta innan frests sem ríkið ákveður.
3.     Séu ákvæði, sem samþykkt eru í samræmi við 1. og 2. mgr., ekki uppfyllt er hverju samningsríki heimilt að mæla svo fyrir að evrópska einkaleyfið teljist ógilt frá upphafi í því ríki.


23.     Breyta skal 67. gr. þannig að hún orðist svo:

67. gr.
Réttindi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi
veitir eftir birtingu.

1.     Frá þeim degi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi er birt veitir hún umsækjandanum til bráðabirgða þá vernd sem veitt er skv. 64. gr. í samningsríkjunum sem tilnefnd eru í umsókninni.

2.     Hverju samningsríki er heimilt að mæla svo fyrir að umsókn um evrópskt einkaleyfi veiti ekki þá vernd sem veitt er með 64. gr. Þó má sú vernd, sem fylgir birtingu umsóknar um evrópskt einkaleyfi, ekki vera minni en sú er lög hlutaðeigandi ríkisins veita lögbundinni birtingu órannsakaðra umsókna um landsbundið einkaleyfi. Í öllum tilvikum ber hverju ríki að sjá til þess að umsækjandi geti, frá þeim degi sem umsókn um evrópskt einkaleyfi birtist, krafist bóta, sem sanngjarnar teljast miðað við aðstæður, frá hverjum þeim er notar uppfinninguna í því ríki við þær aðstæður að skapa mundi bótaskyldu samkvæmt landslögum vegna brots á landsbundnu einkaleyfi.

3.     Hverju samningsríki, þar sem tungumál málsmeðferðarinnar er ekki opinbert tungumál, er heimilt að mæla svo fyrir að bráðabirgðavernd skv. 1. og 2. mgr. hér að framan taki ekki gildi fyrr en þýðing einkaleyfiskrafnanna á eitt opinberra tungumála þess, að vali umsækjanda, eða, þegar ríkið hefur tiltekið notkun eins tilskilins opinbers tungumáls, á það mál:

a)    hefur verið gerð aðgengileg almenningi á þann hátt sem landslög kveða á um; eða
b)    henni hefur verið komið á framfæri við þann er notar uppfinninguna í fyrrnefndu ríki.
4.     Hafi umsóknin um evrópskt einkaleyfi verið dregin til baka, talin vera dregin til baka eða endanlega hafnað telst hún aldrei hafa haft þau áhrif sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. hér að framan. Það sama gildir um áhrif evrópsks einkaleyfis í samningsríki ef tilnefning ríkisins er dregin til baka eða telst vera dregin til baka.

24.     Breyta skal 68. gr. þannig að hún orðist svo:

68. gr.
Áhrif ógildingar eða takmörkunar
á evrópsku einkaleyfi.

Umsókn um evrópskt einkaleyfi og einkaleyfi, sem af henni leiðir, teljast frá upphafi ekki hafa haft þau áhrif, sem kveðið er á um í 64. og 67. gr., að því leyti sem einkaleyfið hefur verið ógilt eða takmarkað í andmælameðferð, meðferð sem lýtur að takmörkun þess eða ógildingarmeðferð.

25.     Breyta skal 69. gr. þannig að hún orðist svo:

69. gr.
Umfang verndar.

1.     Umfang verndar, sem leiðir af evrópsku einkaleyfi eða umsókn um evrópskt einkaleyfi, ákvarðast af einkaleyfiskröfunum. Þó skal nota lýsinguna og teikningarnar við túlkun einkaleyfiskrafnanna.

2.     Uns evrópskt einkaleyfi er veitt skal umfang verndar, sem leiðir af umsókn um evrópskt einkaleyfi, ákvarðast af einkaleyfiskröfum eins og þær voru tilgreindar í umsókninni við birtingu. Þó skal evrópskt einkaleyfi, eins og það er veitt eða eins og því var breytt við andmælameðferð, meðferð sem lýtur að takmörkun þess eða ógildingarmeðferð, ákvarða afturvirkt hvaða vernd leiðir af umsókninni um evrópskt einkaleyfi að því tilskildu að verndin sé ekki gerð víðtækari.

26.     Breyta skal 70. gr. þannig að hún orðist svo:

70. gr.
Fullgildur texti umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis.

1.     Texti umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis á tungumáli málsmeðferðarinnar skal vera fullgildur texti í málum hjá Evrópsku einkaleyfastofunni og í hverju samningsríki.

2.     Hafi hins vegar umsókn um evrópskt einkaleyfi verið lögð fram á tungumáli, sem er ekki opinbert tungumál Evrópsku einkaleyfastofunnar, skal sá texti gilda sem umsókn eins og hún var lögð inn samkvæmt samningi þessum.
3.     Hverju samningsríki er heimilt að kveða á um að þýðing á eitt af opinberum tungumálum ríkisins, eins og ráð er gert fyrir í samningi þessum, teljist ráða úrslitum í því ríki nema í ógildingarmálum ef svo stendur á að umsókn um evrópskt einkaleyfi eða evrópskt einkaleyfi á tungumáli þýðingarinnar veitir þrengri vernd en þá sem veitt er samkvæmt tungumáli málsmeðferðarinnar.
4.     Hvert samningsríki, sem samþykkir ákvæði í samræmi við 3. mgr.:
a)    skal veita umsækjanda um einkaleyfi eða einkaleyfishafa færi á að leggja inn leiðrétta þýðingu á umsókninni um evrópskt einkaleyfi eða evrópska einkaleyfinu; leiðrétta þýðingin hefur ekki réttaráhrif fyrr en hver þau skilyrði, sem samningsríkið setur skv. 2. mgr. 65. gr. og 3. mgr. 67. gr., hafa verið uppfyllt að breyttu breytanda;

b)    getur kveðið á um að einstaklingi í því ríki, sem í góðri trú hefur notað uppfinningu eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess, sé heimilt að halda áfram slíkri notkun í starfsemi sinni eða vegna þarfa hennar án greiðslna eftir að leiðrétta þýðingin hefur tekið gildi, enda gangi slík notkun ekki í berhögg við umsóknina eða einkaleyfið samkvæmt upprunalegu þýðingunni.


27.     Breyta skal 75. gr. þannig að hún orðist svo:


75. gr.
Innlagning umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

1.     Leggja má inn umsókn um evrópskt einkaleyfi:
a)    hjá Evrópsku einkaleyfastofunni; eða
b)    ef lög samningsríkis heimila slíkt, á aðalhugverkastofu eða hjá annarri valdbærri stofnun ríkisins, sbr. þó 1. mgr. 76. gr.; umsókn, sem lögð er inn með þessum hætti, hefur sömu áhrif og hefði slík umsókn verið lögð inn sama dag hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.

2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir beitingu laga- eða reglugerðarákvæða sem í einhverju samningsríki:
a)    gilda um uppfinningar, sem vegna eðlis þeirra má ekki skýra frá í öðrum löndum án leyfis valdbærra aðila í því samningsríki; eða

b)    kveða á um að hver umsókn skuli upphaflega lögð inn hjá einkaleyfastofnun landsins eða að innlagning beint hjá annarri stofnun sé háð heimild fyrirfram.

28.     Breyta skal 76. gr. þannig að hún orðist svo:

76. gr.
Evrópsk hlutunarumsókn.

1.     Leggja verður inn evrópska hlutunarumsókn beint hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Hana má einungis leggja inn um efni sem nær ekki út fyrir efni fyrri umsóknar eins og hún var lögð inn; sé farið eftir þessu ákvæði telst hlutunarumsóknin hafa verið lögð inn á umsóknardegi fyrri umsóknarinnar og nýtur forgangsréttar.

2.     Öll samningsríkin, sem voru tilnefnd í fyrri umsókn á umsóknardegi evrópskrar hlutunarumsóknar, teljast vera tilnefnd í hlutunarumsókn.


29.     Breyta skal 77. gr. þannig að hún orðist svo:

77. gr.
Framsending umsókna um evrópskt einkaleyfi.

1.     Aðalhugverkastofu í samningsríki er skylt að framsenda Evrópsku einkaleyfastofunni allar umsóknir um evrópsk einkaleyfi sem lagðar hafa verið inn hjá henni eða einhverju öðru valdbæru yfirvaldi í ríkinu í samræmi við framkvæmdareglugerðina.
2.     Þær umsóknir um evrópskt einkaleyfi, sem fjalla um efni sem bundið er leynd, skulu ekki framsendar Evrópsku einkaleyfastofunni.
3.     Ef umsókn um evrópskt einkaleyfi er ekki framsend Evrópsku einkaleyfastofunni á tilskildum tíma telst umsóknin hafa verið dregin til baka.

30.     Breyta skal 78. gr. þannig að hún orðist svo:

78. gr.
Kröfur til umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

1.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal geyma:
a)    beiðni um veitingu evrópsks einkaleyfis;
b)    lýsing á uppfinningunni;
c)    einkaleyfiskrafa eða -kröfur;
d)    teikningar sem vísað er til í lýsingunni eða einkaleyfiskröfunum;
e)    ágrip;
og skal hún uppfylla skilyrði sem sett eru í framkvæmdareglugerðinni.
2.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal háð greiðslu umsóknargjalds og rannsóknargjalds. Ef umsóknargjaldið eða rannsóknargjaldið er ekki greitt á réttum tíma telst umsóknin hafa verið dregin til baka.


31.     Breyta skal 79. gr. þannig að hún orðist svo:

79. gr.
Tilnefning samningsríkja.

1.     Öll samningsríkin, sem voru aðilar að samningi þessum á þeim tíma er umsókn um evrópskt einkaleyfi var lögð inn, skulu teljast tilnefnd í beiðni um veitingu evrópsks einkaleyfis.
2.     Tilnefning samningsríkis getur verið háð greiðslu tilskilins tilnefningargjalds.
3.     Draga má til baka tilnefningu samningsríkis hvenær sem er fram að veitingu evrópsks einkaleyfis.


32.     Breyta skal 80. gr. þannig að hún orðist svo:

80. gr.
Umsóknardagur.

Umsóknardagur um evrópskt einkaleyfi telst vera sá dagur þegar þau skilyrði, sem sett eru fram í framkvæmdareglugerðinni, eru uppfyllt.

33.     Breyta skal 86. gr. þannig að hún orðist svo:

86. gr.
Árgjöld vegna umsókna um evrópskt einkaleyfi.

1.     Árgjöld fyrir umsóknir um evrópskt einkaleyfi skulu greidd Evrópsku einkaleyfastofunni í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Greiða ber gjöldin fyrir hvert ár frá og með þriðja ári eftir að umsóknin var lögð inn. Hafi árgjald ekki verið greitt innan tilskilins frests telst umsóknin hafa verið dregin til baka.

2.     Greiðsluskyldu árgjalda lýkur þegar greitt hefur verið árgjald fyrir árið þegar tilkynning um veitingu evrópsks einkaleyfis er birt.


34.     Breyta skal 87. gr. þannig að hún orðist svo:

87. gr.
Forgangsréttur.

1.     Hver sá sem lagt hefur inn, í eða fyrir:
a)    ríki, sem er aðili að Parísarsamningnum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, eða
b)    aðila að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), umsókn um einkaleyfi, smáeinkaleyfi eða smáeinkaleyfavottorð, eða þeir sem hafa öðlast rétt hans, skal, þegar sótt er um evrópskt einkaleyfi vegna sömu uppfinningar, njóta forgangsréttar í tólf mánuði frá umsóknardegi fyrstu umsóknarinnar.
2.     Viðurkenna ber að hver umsókn, sem jafngildir venjulegri landsbundinni umsókn samkvæmt lögum þess ríkis þar sem hún var lögð inn, eða samkvæmt tvíhliða samningum eða marghliða samningum, þar á meðal samningi þessum, veiti forgangsrétt.
3.     Með venjulegri landsbundinni umsókn er átt við hverja þá umsókn sem nægir til að staðfesta dagsetningu umsóknarinnar hver svo sem niðurstaða umsóknarinnar kann að vera.
4.     Líta ber á síðari umsókn, sem fjallar um sama efni og fyrri fyrsta umsókn gerir og lögð er inn í eða fyrir sama ríki, sem fyrstu umsókn að því er lýtur að ákvörðun forgangs, þó að því tilskildu að á innlagningardegi síðari umsóknarinnar hafi fyrri umsóknin verið dregin til baka, hún lögð til hliðar eða henni hafnað án þess að hafa verið aðgengileg almenningi og án þess að skilja eftir nokkur réttindi, og hún hafi ekki verið grundvöllur fyrir kröfu um forgangsrétt. Eftir það getur fyrri umsóknin ekki orðið grundvöllur fyrir kröfu um forgangsrétt.

5.     Hafi fyrri umsókn verið lögð inn hjá stofnun á sviði iðnaðarhugverka, sem fellur ekki undir Parísarsamninginn um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar eða samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (WTO), gilda ákvæði 1.–4. mgr. ef sú stofnun, samkvæmt tilkynningu frá forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, viðurkennir að fyrri umsókn, sem lögð var inn til Evrópsku einkaleyfastofunnar, veiti forgangsréttindi sem eru jafngild þeim sem kveðið er á um í Parísarsamningnum.


35.     Breyta skal 88. gr. þannig að hún orðist svo:

88. gr.
Krafa um forgang.

1.     Umsækjandi, sem óskar eftir að njóta forgangs vegna fyrri umsóknar, skal leggja inn yfirlýsingu um forgang og önnur skjöl, sem krafist er, í samræmi við framkvæmdareglugerðina.
2.     Unnt er að krefjast margþætts forgangs fyrir umsókn um evrópskt einkaleyfi þó að réttindi eigi rót sína að rekja til mismunandi landa. Þegar við á má krefjast margþætts forgangs fyrir sérhverja einkaleyfiskröfu. Þegar margþætts forgangs er krafist skulu þau tímamörk, sem hefjast á forgangsdeginum, hefjast með fyrsta forgangsdegi.
3.     Ef krafist er eins konar eða margs konar forgangs fyrir umsókn um evrópskt einkaleyfi skal forgangsrétturinn einungis ná til þeirra atriða í umsókninni sem eru í umsókninni eða umsóknunum sem forgangs er krafist fyrir.
4.     Ef forgangs er krafist fyrir einhver atriði uppfinningarinnar, sem voru ekki meðal einkaleyfiskrafnanna í fyrri umsókninni, er þó unnt að veita forgang enda sé þessara atriða sérstaklega getið í þeim gögnum sem fylgdu fyrri umsókn.


36.     Breyta skal 90. gr. þannig að hún orðist svo:

90. gr.
Athugun umsókna við innlagningu
og athugun formkrafna.

1.     Evrópska einkaleyfastofan skal, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, athuga hvort umsóknin uppfylli skilyrðin fyrir því að henni sé gefinn umsóknardagur.
2.     Ef ekki er unnt að gefa umsókninni umsóknardag að undangenginni athugun skv. 1. mgr. skal ekki meðhöndla umsóknina eins og umsókn um evrópskt einkaleyfi.
3.     Hafi umsókn um evrópskt einkaleyfi verið gefinn umsóknardagur skal Evrópska einkaleyfastofan athuga, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, hvort uppfylltar séu kröfur, sem settar eru fram í 14., 78. og 81. gr., og, þar sem við á, 1. mgr. 88. gr. og 2. mgr. 133. gr., sem og allar aðrar kröfur sem settar eru fram í framkvæmdareglugerðinni.

4.     Þegar Evrópska einkaleyfastofan gerir athuganir skv. 1. eða 3. mgr. og í ljós koma ágallar, sem unnt er að lagfæra, skal hún gefa umsækjanda færi á að lagfæra þá.

5.     Sé einhver ágalli, sem bent er á í athugun skv. 3. mgr., ekki lagfærður ber að hafna umsókn um evrópskt einkaleyfi. Þegar ágallar lúta að forgangsrétti tapast þessi réttur að því er umsóknina varðar.


37.     91. grein fellur niður.

38.     Breyta skal 92. gr. þannig að hún orðist svo:

92. gr.
Gerð evrópskrar nýnæmisrannsóknarskýrslu.

Evrópska einkaleyfastofan skal semja og birta, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, evrópska nýnæmisrannsóknarskýrslu vegna umsóknar um evrópskt einkaleyfi á grundvelli krafnanna og þá með tilhlýðilegu tilliti til lýsingarinnar og teikninganna.


39.     Breyta skal 93. gr. þannig að hún orðist svo:

93. gr.
Birting umsóknar um evrópskt einkaleyfi.

1.     Evrópska einkaleyfastofan skal birta umsókn um evrópskt einkaleyfi, eins fljótt og unnt er:
a)    eftir að átján mánuðir eru liðnir frá umsóknardegi eða, ef forgangs er krafist, frá forgangsdegi; eða
b)    að ósk umsækjandans, áður en sá frestur er útrunninn.
2.     Umsókn um evrópskt einkaleyfi skal birta samtímis texta evrópska einkaleyfisins þegar veiting einkaleyfisins tekur gildi áður en frestur skv. a-lið 1. mgr. er útrunninn.


40.     Breyta skal 94. gr. þannig að hún orðist svo:

94. gr.
Rannsókn á einkaleyfishæfi umsóknar
um evrópskt einkaleyfi.

1.     Evrópska einkaleyfastofan skal athuga, í samræmi við framkvæmdareglugerðina og að fenginni beiðni, hvort umsókn um evrópskt einkaleyfi og uppfinningin, sem hún varðar, uppfylli skilyrði samnings þessa. Beiðnin telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en rannsóknargjald er greitt.

2.     Ef engin beiðni um rannsókn er lögð inn á tilsettum tíma telst umsókn hafa verið dregin til baka.

3.     Ef rannsóknin leiðir í ljós að umsókn eða uppfinning, sem hún varðar, uppfylli ekki skilyrði samnings þessa ber rannsóknardeild að bjóða umsækjanda, eins oft og þörf krefur, að leggja inn athugasemdir sínar, svo og að breyta umsókninni skv. 1. mgr. 123 gr.
4.     Ef umsækjandi svarar ekki erindi frá rannsóknardeildinni á tilsettum tíma telst umsókn hafa verið dregin til baka.

41.     95. og 96. gr. falla niður.

42.     Breyta skal 97. gr. þannig að hún orðist svo:

97. gr.
Veiting eða höfnun.

1.     Telji rannsóknardeildin að umsókn um evrópskt einkaleyfi og uppfinningin, sem hún varðar, uppfylli skilyrði samnings þessa skal hún ákveða að veita evrópskt einkaleyfi að því tilskildu að skilyrðin, sem kveðið er á um í framkvæmdareglugerðinni, séu uppfyllt.
2.     Telji rannsóknardeildin að umsókn um evrópskt einkaleyfi eða uppfinningin, sem hún varðar, uppfylli ekki skilyrði samnings þessa skal hún hafna umsókninni nema kveðið sé á um annars konar eftirmál í samningi þessum.

3.     Ákvörðun um að veita evrópskt einkaleyfi skal taka gildi þann dag sem tilkynning um veitinguna er birt í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.

43.     Breyta skal 98. gr. þannig að hún orðist svo:

98. gr.
Birting á texta
evrópsks einkaleyfis.

Evrópska einkaleyfastofan skal birta texta evrópska einkaleyfisins eins fljótt og unnt er eftir að birt hefur verið tilkynning um veitingu einkaleyfisins í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.

44.     Breyta skal fyrirsögn V. hluta þannig að hún orðist svo:

V. HLUTI
Málsmeðferð vegna andmæla og takmörkunar.


45.     Breyta skal 99. gr. þannig að hún orðist svo:

99. gr.
Andmæli.

1.     Sérhverjum er heimilt, innan níu mánaða frá birtingu tilkynningar um veitingu evrópsks einkaleyfis í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar, að hreyfa andmælum gegn veitingu einkaleyfisins hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Tilkynning um andmæli telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en andmælagjöld hafa verið greidd.
2.     Andmæli gilda um evrópskt einkaleyfi í öllum samningsríkjum þar sem einkaleyfið er gilt.

3.     Bæði andmælendur og einkaleyfishafi eru aðilar að andmælameðferðinni.
4.     Hver sem getur sýnt fram á að hann hafi, eftir að endanleg ákvörðun liggur fyrir í samningsríki, verið færður í einkaleyfaskrá þess ríkis í stað fyrri einkaleyfishafa skal, fari hann fram á það, koma í stað fyrri einkaleyfishafa að því er það ríki varðar. Með því að víkja frá ákvæðum 118. gr. skal ekki telja fyrri einkaleyfishafa og þann, sem fer fram á að koma í hans stað, sameiginlega einkaleyfishafa nema báðir óski þess.

46.     Breyta skal 101. gr. þannig að hún orðist svo:


101. gr.
Athugun á andmælum – Ógilding evrópska einkaleyfisins eða staðfesting á því.

1.     Ef um réttmæt andmæli er að ræða ber andmæladeildinni að athuga, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, hvort a.m.k. ein af forsendum andmæla skv. 100. gr. stríði gegn því að evrópska einkaleyfið standi óbreytt. Meðan á þessari athugun stendur skal andmæladeildin gefa aðilum kost á að leggja inn athugasemdir við orðsendingar, frá öðrum aðila eða deildinni sjálfri, eins oft og þörf krefur.
2.     Ef andmæladeildin telur að minnst ein af forsendum andmæla komi í veg fyrir að evrópska einkaleyfið standi óbreytt skal hún fella einkaleyfið úr gildi. Annars skal hún hafna andmælunum.
3.     Ef andmæladeildin telur, að teknu tilliti til breytinga sem einkaleyfishafi hefur gert meðan á andmælameðferðinni stóð, að einkaleyfið og uppfinningin sem það varðar:

a)    uppfylli skilyrði samnings þessa skal hún ákveða að staðfesta einkaleyfið í breyttu formi að því tilskildu að skilyrðin, sem kveðið er á um í framkvæmdareglugerðinni, séu uppfyllt;
b)    uppfylli ekki skilyrði samnings þessa skal hún fella einkaleyfið úr gildi.

47.     102. gr. fellur niður.

48.     Breyta skal 103. gr. þannig að hún orðist svo:


103. gr.
Birting á nýjum texta
evrópska einkaleyfisins.

Ef evrópskt einkaleyfi er staðfest með breytingum skv. a-lið 3. mgr. 101. gr. skal Evrópska einkaleyfastofan birta nýjan texta evrópska einkaleyfisins eins fljótt og unnt er eftir að tilkynning um niðurstöðu andmæla hefur verið birt í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.

49.     Breyta skal 104. gr. þannig að hún orðist svo:


104. gr.
Kostnaður.

1.     Aðilar að andmælameðferðinni skulu hver um sig bera þann kostnað, sem þeir hafa stofnað til, nema andmæladeildin ákveði, af sanngirnisástæðum og í samræmi við framkvæmdareglugerðina, að mæla fyrir um aðra skiptingu kostnaðar.
2.     Kveðið skal á um aðferð til að ákveða skiptingu kostnaðar í framkvæmdareglugerðinni.
3.     Lokaákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar um skiptingu kostnaðar ber að framfylgja í samningsríkjunum með sama hætti og um væri að ræða lokaákvörðun einkamáladómstóls í því ríki þar sem framfylgja ber ákvörðuninni. Aðeins má láta sannreyna hvort slík ákvörðun sé ófölsuð.


50.     Breyta skal 105. gr. þannig að hún orðist svo:


105. gr.
Íhlutun af hálfu ætlaðs geranda.

1.     Sérhverjum þriðji aðila er heimilt, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, að taka þátt í andmælameðferðinni eftir að andmælafresturinn er útrunninn ef þriðji aðilinn sannar að:
a)    hafið sé mál gegn honum vegna brots gegn sama einkaleyfi; eða
b)    þriðji aðilinn hafi, eftir að einkaleyfishafi að evrópsku einkaleyfi hefur farið fram á að látið sé af ætluðu broti, höfðað mál til að fá úrskurð þess efnis að hann brjóti ekki gegn einkaleyfinu.
2.     Líta skal á íhlutun, sem tekin er til greina, sem andmæli.

51.     Á eftir 105. gr. skal setja inn eftirfarandi nýjar greinar, 105. gr. a, 105. gr. b. og 105 gr. c:

105. gr. a
Beiðni um takmörkun eða ógildingu.

1.     Að beiðni einkaleyfishafa er unnt að ógilda evrópskt einkaleyfi eða takmarka það með því að breyta einkaleyfiskröfunum. Beiðnin skal lögð inn hjá Evrópsku einkaleyfastofunni í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Hún telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en gjöld vegna takmörkunar eða ógildingar hafa verið greidd.
2.     Ekki er unnt að leggja inn beiðni meðan á andmælameðferð vegna evrópska einkaleyfisins stendur.


105. gr. b
Takmörkun eða ógilding á evrópsku einkaleyfi.

1.     Evrópsku einkaleyfastofunni ber að athuga hvort kröfurnar, sem kveðið er á um í framkvæmdareglugerðinni um takmörkun eða ógildingu á evrópsku einkaleyfi, hafi verið uppfylltar.
2.     Telji Evrópska einkaleyfastofan að beiðni um takmörkun eða ógildingu á evrópsku einkaleyfi uppfylli þessar kröfur skal hún ákveða að takmarka eða ógilda evrópska einkaleyfið í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Að öðrum kosti skal hún hafna beiðninni.
3.     Ákvörðunin um að takmarka eða ógilda evrópskt einkaleyfi skal gilda um einkaleyfið í öllum þeim samningsríkjum þar sem það hefur verið veitt. Hún skal taka gildi þann dag sem getið er um ákvörðunina í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.

105. gr. c
Birting á breyttum texta
evrópsks einkaleyfis.

Ef evrópska einkaleyfið er takmarkað skv. 2. mgr. 105. gr. b skal Evrópska einkaleyfastofan birta breyttan texta evrópska einkaleyfisins eins fljótt og unnt er eftir að getið hefur verið um takmörkunina í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.


52.     Breyta skal 106. gr. þannig að hún orðist svo:


106. gr.
Ákvarðanir sem heimilt er að áfrýja.

1.     Áfrýja má ákvörðunum móttökudeildar, rannsóknardeilda, andmæladeilda og lögfræðideildar. Meðferð máls stöðvast á meðan.

2.     Ákvörðun, sem bindur ekki enda á málsmeðferð gagnvart einum aðila máls, er einungis heimilt að áfrýja ásamt lokaákvörðuninni nema ákvörðunin heimili sérstaka áfrýjun.
3.     Með framkvæmdareglugerðinni er unnt að takmarka réttinn til að áfrýja ákvörðunum í tengslum við skiptingu eða ákvörðun kostnaðar við andmælameðferð.

53.     Breyta skal 108. gr. þannig að hún orðist svo:


108. gr.
Tímafrestur til áfrýjunar og framsetning hennar.

Leggja skal inn tilkynningu um áfrýjun hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, innan tveggja mánaða eftir að tilkynnt var um ákvörðunina. Tilkynning um áfrýjun telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en áfrýjunargjöld hafa verið greidd. Leggja þarf inn rökstudda greinargerð um áfrýjunina, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, innan fjögurra mánaða frá þeim degi er tilkynnt var um ákvörðunina.

54.     Breyta skal 110. gr. þannig að hún orðist svo:


110. gr.
Athugun á áfrýjunum.

Ef áfrýjun er tæk skal áfrýjunarnefnd athuga hvort unnt sé að taka hana til greina. Athugun á áfrýjun skal gerð í samræmi við framkvæmdareglugerðina.


55.     Á eftir 112. gr. skal setja inn eftirfarandi nýja grein, 112. gr. a:

112. gr. a
Beiðni um endurskoðun hjá
stóru áfrýjunarnefndinni.

1.     Sérhverjum aðila áfrýjunarmála er heimilt að leggja inn beiðni um endurskoðun ákvörðunarinnar hjá stóru áfrýjunarnefndinni ef ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar hefur fallið honum í óhag.
2.     Beiðnina má því aðeins leggja inn af þeirri ástæðu að:
a)    nefndarmaður í áfrýjunarnefndinni hafi með þátttöku sinni í ákvörðun brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24 gr., eða átt þátt í ákvörðun þrátt fyrir að honum hafi verið vikið úr sæti með ákvörðun skv. 4. mgr. 24. gr.;
b)    í áfrýjunarnefndinni hafi verið maður sem var ekki skipaður í nefndina;
c)    brot á undirstöðuatriði 113. gr. hafi átt sér stað;
d)    um einhvern annan grundvallarannmarka á málsmeðferð, sem skilgreindur er í framkvæmdareglugerðinni, hafi verið að ræða í áfrýjunarmálinu; eða
e)    refsiverð háttsemi samkvæmt skilyrðum í framkvæmdareglugerðinni kynni að hafa haft áhrif á ákvörðunina.
3.     Beiðnin um endurskoðun skal ekki stöðva meðferð máls.
4.     Beiðnin um endurskoðun skal lögð inn með rökstuddri greinargerð í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Ef byggt er á a–d-lið 2. mgr. skal beiðnin lögð inn innan tveggja mánaða frá því að tilkynnt var um ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar. Ef byggt er á e-lið 2. mgr. skal beiðnin lögð inn innan tveggja mánaða frá því að refsiverð háttsemi lá ljós fyrir, og undir öllum kringumstæðum ekki seinna en fimm árum eftir að tilkynnt var um ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar. Beiðnin telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en tilskilið gjald hefur verið greitt.

5.     Stóru áfrýjunarnefndinni ber að athuga beiðnina um endurskoðun í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Ef beiðnin er tekin til greina ber stóru áfrýjunarnefndinni að leggja ákvörðunina, sem er til endurskoðunar, til hliðar og taka málið upp að nýju fyrir áfrýjunarnefndinni í samræmi við framkvæmdareglugerðina.
6.     Hverjum þeim í tilnefndu samningsríki, sem hefur í góðri trú notað eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess að nota uppfinningu, sem er efni birtrar umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis, eftir að ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar liggur fyrir, en áður en tilkynning um úrskurð stóru áfrýjunarnefndarinnar vegna beiðninnar er birtur, er heimilt að halda áfram slíkri notkun í starfsemi sinni eða vegna þarfa hennar án greiðslu.


56.     Breyta skal 115. gr. þannig að hún orðist svo:


115. gr.
Athugasemdir þriðja aðila.

Þegar mál er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni eftir birtingu umsóknar um evrópskt einkaleyfi er sérhverjum þriðja aðila heimilt, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, að gera athugasemdir varðandi einkaleyfishæfi þeirrar uppfinningar sem er umsókninni eða einkaleyfinu viðkomandi. Sá aðili skal ekki vera aðili að málinu.

57.     Breyta skal 117. gr. þannig að hún orðist svo:


117. gr.
Aðferðir við öflun gagna.

1.     Þegar mál er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni má leggja fram sönnunargögn eða afla þeirra með:
a)    aðilaskýrslum;
b)    beiðni um upplýsingar;
c)    framlagningu gagna;
d)    vitnaskýrslum;
e)    sérfræðiálitum;
f)    skoðun;
g)    staðfestum skriflegum yfirlýsingum.
2.     Kveðið skal á um málsmeðferð til að afla slíkra sönnunargagna í framkvæmdareglugerðinni.

58.     Breyta skal 119. gr. þannig að hún orðist svo:


119. gr.
Tilkynning.

Evrópsku einkaleyfastofunni ber að eigin frumkvæði að tilkynna um ákvarðanir, stefnur, tilkynningar og orðsendingar í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Heimilt er að gefa út tilkynningar fyrir milligöngu aðalhugverkastofa í samningsríkjunum ef sérstakar aðstæður krefjast þess.


59.     Breyta skal 120. gr. þannig að hún orðist svo:


120. gr.
Tímafrestir.

Framkvæmdareglugerðin skal mæla fyrir um:
a)    fresti sem virða ber þegar mál er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni og ekki eru ákveðnir í samningi þessum;
b)    hvernig reikna beri fresti og um skilyrði fyrir framlengingu þeirra;

c)    lengstu og skemmstu fresti sem Evrópsku einkaleyfastofunni ber að ákveða.

60.     Breyta skal 121. gr. þannig að hún orðist svo:


121. gr.
Endurupptaka umsóknar um
evrópskt einkaleyfi.

1.     Ef umsækjenda tekst ekki að virða frest af hálfu Evrópsku einkaleyfastofunnar getur hann beðið um endurupptöku á umsókninni um evrópskt einkaleyfi.
2.     Evrópska einkaleyfastofan skal verða við beiðninni að því tilskildu að kröfurnar, sem settar eru fram í framkvæmdareglugerðinni, hafi verið uppfylltar. Að öðrum kosti skal hún hafna beiðninni.
3.     Ef orðið er við beiðninni skulu lagalegar afleiðingar þess að virða ekki frestinn ekki koma til framkvæmda.
4.     Endurupptaka skal útilokuð að því er varðar fresti skv. 1. mgr. 87. gr., 108. gr. og 4. mgr. 112. gr. a, sem og fresti til að biðja um endurupptöku eða endurveitingu réttinda. Framkvæmdareglugerðin getur útilokað endurupptöku að því er önnur tímamörk varðar.


61.     Breyta skal 122. gr. þannig að hún orðist svo:


122. gr.
Endurveiting réttinda.

1.     Umsækjandi um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfishafi, sem, þrátt fyrir að hafa gert allt sem með sanngirni má af honum krefjast, tókst ekki að virða frest af hálfu Evrópsku einkaleyfastofunnar, getur, samkvæmt beiðni, fengið rétt sinn endurveittan ef það að virða ekki frestinn leiðir beint til þess að umsókn um evrópskt einkaleyfi eða beiðni verði hafnað, ellegar að umsókn um evrópskt einkaleyfi teljist hafa verið dregin til baka, einkaleyfið sé ógilt, hann missi önnur réttindi eða að leiðir til að fá úrlausn verði honum lokaðar.
2.     Evrópska einkaleyfastofan skal verða við beiðninni að því tilskildu að skilyrði 1. mgr. og allar kröfur, sem framkvæmdareglugerðin kveður á um, séu uppfylltar. Að öðrum kosti skal hún hafna beiðninni.

3.     Ef orðið er við beiðninni skulu lagalegar afleiðingar þess að virða ekki frest ekki koma til framkvæmda.
4.     Endurveiting réttinda skal útilokuð að því er varðar frestinn til að biðja um endurveitingu réttinda. Framkvæmdareglugerðin getur útilokað endurveitingu að því er önnur tímamörk varðar.
5.     Hverjum þeim, sem í tilnefndu samningsríki hefur í góðri trú notað eða hefur gert verulegar ráðstafanir til þess að nota uppfinningu, sem er efni birtrar umsóknar um evrópskt einkaleyfi eða evrópsks einkaleyfis, á tímabilinu milli þess að réttindi glatast skv. 1. mgr. og birt er tilkynning um endurveitingu þessara réttinda, er heimilt að halda áfram slíkri notkun í þágu starfsemi sinnar eða vegna þarfa hennar án greiðslna.
6.     Ekkert í þessari grein takmarkar rétt samningsríkis til að endurveita réttindi að því er varðar fresti sem kveðið er á um í samningi þessum og gilda gagnvart yfirvöldum í því ríki.


62.     Breyta skal 123. gr. þannig að hún orðist svo:


123. gr.
Breytingar.

1.     Heimilt er að breyta umsókn um evrópskt einkaleyfi eða evrópsku einkaleyfi, meðan hún eða það er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Í öllum tilvikum ber að gefa umsækjanda a.m.k. eitt tækifæri til þess að breyta umsókninni að eigin vilja.
2.     Óheimilt er að breyta umsókn um evrópskt einkaleyfi eða evrópsku einkaleyfi þannig að hún eða það nái til efnis sem er víðara en innihald umsóknarinnar eins og hún var lögð inn.
3.     Óheimilt er að breyta evrópsku einkaleyfi þannig að breytingin veiti umfangsmeiri vernd.

63.     Breyta skal 124. gr. þannig að hún orðist svo:


124. gr.
Upplýsingar um þekkta tækni.

1.     Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt, í samræmi við framkvæmdareglugerðina, að biðja umsækjanda að veita upplýsingar um þekkta tækni sem tekið var tillit til við lands- eða svæðisbundna málsmeðferð vegna einkaleyfis og varðar uppfinningu sem umsókn um evrópskt einkaleyfi tekur til.
2.     Ef umsækjandi svarar ekki beiðni skv. 1. mgr. á tilskildum tíma telst umsóknin um evrópskt einkaleyfi hafa verið dregin til baka.

64.     126. gr. fellur niður

65.     Breyta skal 127. gr. þannig að hún orðist svo:


127. gr.
Evrópsk einkaleyfaskrá.

Evrópska einkaleyfastofan skal halda evrópska einkaleyfaskrá með þeim upplýsingum sem tilgreint er í framkvæmdareglugerðinni að skuli skráðar. Ekkert skal vera fært í evrópsku einkaleyfaskrána fyrr en umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur birst. Evrópska einkaleyfaskráin skal vera aðgengileg almenningi.


66.     Breyta skal 128. gr. þannig að hún orðist svo:


128. gr.
Aðgengi að gögnum.

1.     Ekki skal veita aðgang að gögnum, sem varða umsóknir um evrópskt einkaleyfi, áður en umsóknirnar eru birtar, nema með samþykki umsækjanda.

2.     Hverjum, sem getur sannað að umsækjandi hafi beitt rétti, er umsókn um evrópskt einkaleyfi felur í sér, gegn sér, er heimilt að fá að skoða gögnin fyrir birtingu umsóknarinnar og án samþykkis umsækjanda.
3.     Þegar evrópsk hlutunarumsókn eða ný umsókn um evrópskt einkaleyfi, lögð inn skv. 1. mgr. 61. gr., er birt er hverjum sem er heimilt að skoða gögn fyrri umsóknarinnar áður en umsóknin er birt og án samþykkis umsækjanda.

4.     Eftir að umsókn um evrópskt einkaleyfi hefur verið birt er unnt að skoða gögnin, sem varða umsóknina og evrópska einkaleyfið sem af henni leiðir, eftir beiðni, sbr. þó skilyrði þar um í framkvæmdareglugerðinni.
5.     Jafnvel áður en umsókn um evrópskt einkaleyfi er birt er Evrópsku einkaleyfastofunni heimilt að láta þriðja aðila í té eða birta þær upplýsingar sem tilgreindar eru í framkvæmdareglugerðinni.

67.     Breyta skal 129. gr. þannig að hún orðist svo:


129. gr.
Tímarit Evrópsku einkaleyfastofunnar.

Evrópska einkaleyfastofan gefur út með jöfnu millibili:
a)    Einkaleyfatíðindi Evrópsku einkaleyfastofunnar með upplýsingum sem skylt er að birta samkvæmt samningi þessum, framkvæmdareglugerðinni eða samkvæmt fyrirmælum forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar;
b)    Fréttabréf Evrópsku einkaleyfastofunnar með tilkynningum og upplýsingum almenns efnis frá forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, auk hvers kyns upplýsinga annarra sem lúta að samningi þessum eða framkvæmd hans.

68.     Breyta skal 130. gr. þannig að hún orðist svo:


130. gr.
Upplýsingaskipti.

1.     Sé ekki kveðið á um annað í samningi þessum eða í landslögum skulu Evrópska einkaleyfastofan og aðalhugverkastofa samningsríkis, ef farið er fram á slíkt, láta hvor annarri í té allar nytsamlegar upplýsingar um evrópskar eða landsbundnar umsóknir um einkaleyfi og einkaleyfi og öll mál sem þau varða.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda um upplýsingaskipti sem fara fram samkvæmt samstarfssamningum milli Evrópsku einkaleyfastofunnar og:
a)    aðalhugverkastofu í öðrum ríkjum;

b)    milliríkjastofnunar sem hefur það hlutverk að veita einkaleyfi;
c)    hverrar annarrar stofnunar sem vera skal.
3.     Skilyrði, sem sett eru í 128. gr., skulu ekki gilda um samskipti skv. 1. mgr. og a- og b-liðum 2. mgr. Framkvæmdaráðið getur ákveðið að slík skilyrði gildi ekki um samskipti skv. c-lið 2. mgr., þó að því tilskildu að stofnunin, sem í hlut á, fari með upplýsingarnar, sem látnar eru í té, sem trúnaðarmál þangað til umsóknin um evrópskt einkaleyfi hefur verið birt.

69.     Breyta skal 133. gr. þannig að hún orðist svo:


133. gr.
Almennar reglur um fyrirsvar.

1.     Að öðru leyti en kveðið er á um í 2. mgr. skal enginn skyldaður til að hafa sérmenntaðan fyrirsvarsmann sem kemur fram fyrir hans hönd við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum.
2.     Einstaklingur eða lögaðili, sem hefur hvorki aðsetur né aðalstarfsstöð í samningsríki, skal hafa sérmenntaðan fyrirsvarsmann sem kemur fram fyrir hans hönd við alla málsmeðferð samkvæmt samningi þessum nema við innlögn umsóknar um evrópskt einkaleyfi; framkvæmdareglugerðin getur heimilað aðrar undantekningar.
3.     Einstaklingur eða lögaðili, sem hefur aðsetur eða aðalstarfsstöð í samningsríki, getur látið starfsmann sinn, sem þarf ekki að vera sérmenntaður fyrirsvarsmaður en skal hafa heimild samkvæmt framkvæmdareglugerðinni, koma fram fyrir sína hönd við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum. Í framkvæmdareglugerðinni er heimilt að kveða á um hvort, og þá með hvaða skilyrðum, starfsmaður slíks lögaðila geti einnig komið fram fyrir hönd annarra lögaðila sem hafa aðalstarfsstöð sína í samningsríki og eru í fjárhagslegum tengslum við fyrrnefndan lögaðila.
4.     Heimilt er að setja sérstök ákvæði í framkvæmdareglugerðina um sama fyrirsvarsmann fyrir aðila sem koma fram sameiginlega.

70.     Breyta skal 134. gr. þannig að hún orðist svo:


134. gr.
Fyrirsvar við Evrópsku einkaleyfastofuna.

1.     Fyrirsvar fyrir einstaklinga eða lögaðila við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum má aðeins vera í höndum sérmenntaðra fyrirsvarsmanna sem skráðir eru á sérstakan lista sem Evrópska einkaleyfastofan heldur í þessu skyni.
2.     Hvern einstakling sem:
a)    er ríkisborgari í samningsríki;
b)    hefur starfsstöð eða atvinnu í samningsríki; og

c)    hefur staðist evrópska réttindaprófið;
má skrá á lista yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn.

3.     Á eins árs tímabili frá þeim degi, er aðild ríkis að samningi þessum öðlast gildi, getur hver sá einstaklingur mælst til að verða einnig skráður á listann sem:
a)    er ríkisborgari í samningsríki;
b)    hefur starfsstöð eða atvinnu í samningsríki; og

c)    hefur rétt til að koma fram fyrir hönd einstaklinga eða lögaðila í einkaleyfamálum hjá aðalhugverkastofu í því ríki. Þar sem slíkur réttur er ekki bundinn við faglega sérmenntun skal viðkomandi hafa tekið þátt í einkaleyfamálum í því ríki með reglulegu millibili í a.m.k. fimm ár.

4.     Skráning tekur gildi við beiðni, að framlögðum vottorðum sem staðfesta að skilyrði skv. 2. eða 3. mgr. séu uppfyllt.
5.     Þeir, sem skráðir eru á listann yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn, skulu eiga rétt á að koma fram við alla málsmeðferð samkvæmt samningi þessum.
6.     Hver sá sem er á lista skv. 1. mgr. á rétt á að stofna starfsstöð í hverju samningsríki, þar sem málsmeðferð samkvæmt samningi þessum getur farið fram, til að geta komið fram sem sérmenntaður fyrirsvarsmaður, að teknu tilliti til bókunarinnar um miðstýringu sem samningi þessum fylgir. Yfirvöldum í því ríki er einungis heimilt að svipta einstaka menn þessum rétti í einstökum tilvikum þegar beitt er lagaákvæðum sem lúta að verndun almannaöryggis, laga og reglu. Áður en slíkar ráðstafanir eru gerðar skal hafa samráð við forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar.

7.     Forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar er heimilt að veita undanþágu frá:
a)    skilyrðinu í a-lið 2. mgr. eða a-lið 3. mgr. í sérstökum tilvikum;
b)    skilyrði 2. málsl. c-liðar 3. mgr. ef umsækjandi getur sýnt fram á að hann hafi öðlast nauðsynlega sérmenntun með öðrum hætti.

8.     Fyrirsvar við málsmeðferð samkvæmt samningi þessum má einnig, auk hinna skráðu sérmenntuðu fyrirsvarsmanna, vera í höndum hvaða starfandi lögfræðings sem hlotið hefur starfsréttindi í samningsríki og hefur starfsstöð í því ríki, að því marki sem hann hefur rétt til þess að koma fram í umræddu ríki sem sérmenntaður fyrirsvarsmaður í einkaleyfamálum. Ákvæði 6. mgr. gilda að breyttu breytanda.

71.     Á eftir 134. gr. skal setja inn eftirfarandi nýja grein, 134. gr. a:

134. gr. a
Stofnun sérmenntaðra fyrirsvarsmanna
hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.

1.     Framkvæmdaráðið skal bært til að samþykkja og breyta ákvæðum um:
a)    Stofnun sérmenntaðra fyrirsvarsmanna hjá Evrópsku einkaleyfastofunni, hér eftir kölluð stofnunin;
b)    þá menntun og þjálfun sem krafist er til að taka evrópskt réttindapróf og hvernig haga skuli próftöku;

c)    agavald sem stofnuninni eða Evrópsku einkaleyfastofunni er heimilt að beita sérmenntaða fyrirsvarsmenn;
d)    þagnarskyldu sem hvílir á sérmenntuðum fyrirsvarsmanni og undanþágu frá uppljóstrun þegar mál er til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni og um er að ræða samskipti milli sérmenntaðs fyrirsvarsmanns og skjólstæðings hans eða annars aðila.
2.     Hver sá sem skráður er á listann yfir sérmenntaða fyrirsvarsmenn skv. 1. mgr. 134. gr. skal verða aðili að stofnuninni.

72.     Breyta skal 135. gr. þannig að hún orðist svo:


135. gr.
Beiðni um að landsbundinni málsmeðferð sé beitt.

1.     Aðalhugverkastofa í tilnefndu samningsríki skal, að beiðni umsækjanda um evrópskt einkaleyfi eða einkaleyfishafa, beita málsmeðferð, sem á við um veitingu landsbundins einkaleyfis, við eftirtaldar aðstæður:
a)    þegar umsókn um evrópskt einkaleyfi telst hafa verið dregin til baka skv. 3. mgr. 77. gr.;

b)    í öðrum tilvikum, sem kveðið er á um í landslögum, þar sem umsókn um evrópskt einkaleyfi var synjað eða hún dregin til baka eða telst hafa verið dregin til baka eða þar sem evrópskt einkaleyfi hefur verið ógilt í samræmi við samning þennan.
2.     Í því tilviki, sem um getur í a-lið 1. mgr., skal beiðni um breytingu lögð inn hjá aðalhugverkastofu þar sem umsóknin um evrópskt einkaleyfi var lögð inn. Sú stofa skal framsenda beiðnina beint til aðalhugverkastofu í þeim samningsríkjum sem tilgreind eru í henni, sbr. þó ákvæði um þjóðaröryggi.


3.     Í þeim tilvikum, sem um getur í b-lið 1. mgr., skal beiðni um breytingu send Evrópsku einkaleyfastofunni í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Hún telst ekki hafa verið lögð inn fyrr en greitt hefur verið gjald fyrir breytingu. Evrópska einkaleyfastofan framsendir beiðnina til aðalhugverkastofu í hverju samningsríki sem tilgreint er í henni.

4.     Áhrif vegna umsóknar um evrópskt einkaleyfi skv. 66. gr. falla niður sé beiðni ekki send á tilskildum tíma.

73.     136. gr. fellur niður

74.     Breyta skal 137. gr. þannig að hún orðist svo:


137. gr.
Formkröfur við breytingu.

1.     Ekki má beita formskilyrðum í landslögum, sem víkja frá eða eru strangari en þau sem kveðið er á um í samningi þessum, gagnvart umsókn um evrópskt einkaleyfi sem send er í samræmi við 2. eða 3. mgr. 135. gr.
2.     Aðalhugverkastofa, sem fær evrópsku einkaleyfisumsóknina framsenda, má fara fram á að umsækjandi, innan tveggja mánaða hið minnsta:
a)    greiði gjald fyrir landsbundna umsókn;
b)    leggi inn þýðingu á einu opinberu tungumáli hlutaðeigandi ríkis á frumtexta umsóknarinnar um evrópskt einkaleyfi og, þegar við á, á textanum, eins og honum var breytt meðan á málsmeðferðinni fyrir Evrópsku einkaleyfastofunni stóð, sem umsækjandi vill leggja fram við landsbundna málsmeðferð.

75.     Breyta skal 138. gr. þannig að hún orðist svo:


138. gr.
Ógilding á evrópskum einkaleyfum.

1.     Einungis er heimilt að ógilda evrópskt einkaleyfi, þannig að ógildingin gildi í samningsríki, af eftirfarandi ástæðum, sbr. þó 139. gr.:
a)    ef efni evrópsks einkaleyfis er ekki einkaleyfishæft skv. 52.–57. gr;
b)    ef evrópska einkaleyfið lýsir ekki uppfinningunni nægilega skýrt og rækilega til þess að kunnáttumaður á viðkomandi sviði geti útfært uppfinninguna;
c)    ef efni evrópska einkaleyfisins nær út fyrir innihald umsóknarinnar eins og hún var lögð inn eða, ef einkaleyfi hefur verið veitt á grundvelli hlutunarumsóknar eða nýrrar umsóknar skv. 61. gr., út fyrir innihald fyrri umsóknarinnar eins og hún var lögð inn;
d)    ef verndin, sem evrópska einkaleyfið veitir, hefur verið rýmkuð; eða
e)    ef handhafi evrópska einkaleyfisins hefur ekki rétt til þess skv. 1. mgr. 60. gr.
2.     Ef ástæður ógildingar eiga aðeins við evrópska einkaleyfið að hluta til skal einkaleyfið takmarkað með samsvarandi breytingu á kröfum og ógilt að hluta til.
3.     Þegar mál er til meðferðar hjá valdbærum dómstóli eða yfirvaldi varðandi gildi evrópsks einkaleyfis hefur einkaleyfishafinn rétt til að takmarka einkaleyfið með því að breyta kröfunum. Einkaleyfið með slíkum takmörkunum skal vera grundvöllur málsmeðferðar.

76.     Breyta skal 140. gr. þannig að hún orðist svo:


140. gr.
Landsbundin smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð.

Ákvæði 66., 124., 135., 137. og 139 gr. skulu gilda um smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð og umsóknir um smáeinkaleyfi og smáeinkaleyfavottorð sem skráð eru eða lögð fram í samningsríkjum þar sem gert er ráð fyrir slíkum einkaleyfum eða vottorðum í lögum.

77.     Breyta skal 141. gr. þannig að hún orðist svo:


141. gr.
Árgjöld fyrir evrópskt einkaleyfi.

1.     Einungis má krefjast greiðslu árgjalda fyrir evrópskt einkaleyfi fyrir árin eftir það ár sem kveðið er á um í 2. mgr. 86. gr.
2.     Árgjöld, sem falla í gjalddaga innan tveggja mánaða frá birtingu tilkynningar um veitingu evrópsks einkaleyfis, teljast hafa verið greidd með tilskildum hætti séu þau greidd innan þess tíma. Óheimilt er að leggja á aukagjald sem kann að vera kveðið á um samkvæmt landslögum.

78.     Á eftir 149. gr. skal setja inn eftirfarandi nýja grein, 149. gr. a:

149. gr. a
Aðrir samningar milli samningsríkjanna.

1.     Ekkert í samningi þessum skal túlkað sem takmörkun á réttindum einstakra eða allra samningsríkja til að gera sérstaka samninga um hvert það málefni sem varðar umsóknir um evrópskt einkaleyfi eða evrópsk einkaleyfi sem samkvæmt samningi þessum lúta landslögum, svo sem og sér í lagi:

a)    samning um stofnun sameiginlegs evrópsks einkaleyfadómstóls þeirra samningsríkja er eiga að honum aðild;
b)    samning um að koma á fót sameiginlegri stofnun samningsríkjanna, sem eiga aðild að slíkum samningi, sem skila skal, að beiðni innlendra dómstóla eða dómsyfirvalda utan dómstólakerfisins, áliti á málum sem snerta evrópska eða samræmda innlenda löggjöf um einkaleyfi;
c)    samning þar sem samningsríkin, sem eiga aðild að slíkum samningi, veita undanþágur að fullu eða að hluta til frá þýðingum á texta evrópskra einkaleyfa skv.65. gr.;
d)    samning þar sem samningsríkin, sem eiga aðild að slíkum samningi, kveða á um að þýðingar á evrópskum einkaleyfum skv. 65. gr. megi leggja inn og birta hjá Evrópsku einkaleyfastofunni.

2.     Framkvæmdaráðið er bært um að ákvarða að:

a)    fulltrúar í áfrýjunarnefndinni eða stóru áfrýjunarnefndinni megi starfa hjá evrópskum einkaleyfadómstól eða sameiginlegri stofnun og taka þátt í máli hjá þeim dómstóli eða stofnun í samræmi við hvers konar slíkan samning;
b)    Evrópska einkaleyfastofan leggi sameiginlegri stofnun til það starfsfólk, húsnæði og búnað sem þörf er á til að hún geti innt af hendi skyldur sínar og skal stofnunin bera kostnaðinn, sem til fellur vegna slíkrar stofnunar, að fullu eða að hluta til.

79.     Breyta skal X. hluta samningsins þannig að hann orðist svo:

X. HLUTI
Alþjóðlegar umsóknir samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi –
EURO-samstarfssamningsumsóknir.

150. gr.
Beiting samstarfssamningsins um einkaleyfi.

1.     Beita skal samstarfssamningi um einkaleyfi frá 19. júní 1970, sem hér eftir er nefndur samstarfssamningurinn, í samræmi við ákvæði þessa hluta.
2.     Alþjóðlegar umsóknir, sem lagðar eru inn samkvæmt samstarfssamningnum, má taka til meðferðar hjá Evrópsku einkaleyfastofunni. Í slíkri málsmeðferð skal beita ákvæðum og reglum samstarfssamningsins en ákvæðum samnings þessa þeim til viðbótar. Ef ákvæðin stangast á skulu ákvæði eða reglur samstarfssamningsins ráða.

151. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem viðtökustofnun.

Evrópska einkaleyfastofan skal gegna hlutverki viðtökustofu í skilningi samstarfssamningsins í samræmi við framkvæmdareglugerðina. Ákvæði 2. mgr. 75. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.

152. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem alþjóðleg nýnæmisrannsóknarstofnun eða stofnun sem gerir alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi.

Evrópska einkaleyfastofan skal gegna hlutverki alþjóðlegrar nýnæmisrannsóknarstofnunar og stofnunar, sem gerir alþjóðlega forathugun á einkaleyfishæfi í skilningi samstarfssamningsins, í samræmi við samning milli stofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar, fyrir umsækjendur sem eru ríkisborgarar eða búsettir í aðildarríki að samningi þessum. Fyrrnefndur samningur milli stofnunarinnar og alþjóðaskrifstofu Alþjóðahugverkastofnunarinnar getur heimilað að Evrópska einkaleyfastofan gegni einnig fyrrnefndu hlutverki fyrir aðra umsækjendur.

153. gr.
Evrópska einkaleyfastofan sem
tilnefnd stofa eða valin stofa.

1.     Evrópska einkaleyfastofan skal vera:
a)    tilnefnd stofa fyrir hvert það aðildarríki að samningi þessum, þar sem samstarfssamningurinn hefur öðlast gildi, sem tilnefnt er í alþjóðlegri umsókn og umsækjandinn óskar eftir að hljóta evrópskt einkaleyfi fyrir; svo og
b)    valin stofa ef umsækjandi hefur valið ríki sem tilnefnt er skv. a-lið.
2.     Alþjóðleg umsókn, þar sem Evrópska einkaleyfastofan er tilnefnd eða valin stofa og hefur fengið alþjóðlegan umsóknardag, telst jafngilda venjulegri evrópskri umsókn (EURO-samstarfssamningsumsókn).
3.     Alþjóðleg birting EURO-samstarfssamningsumsóknar á einu af opinberum tungumálum Evrópsku einkaleyfastofunnar kemur í stað birtingar evrópsku einkaleyfaumsóknarinnar og skal hennar getið í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.
4.     Ef EURO-samstarfssamningsumsóknin er birt á öðru tungumáli skal leggja inn þýðingu á eitt hinna opinberu tungumála hjá Evrópsku einkaleyfastofunni sem skal birta hana. Bráðabirgðavernd skv. 1. og 2. mgr. 67. gr. gildir frá birtingardegi, sbr. þó 3. mgr. 67. gr.

5.     Með EURO-samstarfssamningsumsóknina skal fara sem umsókn um evrópskt einkaleyfi og skal hún teljast hluti af því sem þekkt er á hverjum tíma á viðkomandi sviði skv. 3. mgr. 54 gr. ef skilyrði 3. og 4. mgr. og framkvæmdareglugerðarinnar eru uppfyllt.
6.     Alþjóðleg nýnæmisrannsóknarskýrsla, sem samin er fyrir EURO-samstarfssamningsumsókn, eða yfirlýsing í hennar stað, og alþjóðleg birting þeirra, kemur í stað evrópskrar nýnæmisrannsóknarskýrslu og tilkynningar um birtingu hennar í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar.
7.     Semja skal evrópska viðbótarnýnæmisrannsóknarskýrslu vegna hverrar EURO-samstarfssamningsumsóknar skv. 5. mgr. Framkvæmdaráðið getur ákveðið að sleppa megi evrópsku viðbótarnýnæmisrannsóknarskýrslunni eða lækka megi rannsóknargjaldið.

80.     154., 155., 156., 157., 158., 159., 160., 161., 162. og 163. gr. falla niður

81.     Breyta skal 164. gr. þannig að hún orðist svo:


164. gr.
Framkvæmdareglugerð og bókanir.

1.     Framkvæmdareglugerðin, bókunin um viðurkenningu, bókunin um forréttindi og friðhelgi, bókunin um miðstýringu, bókunin um túlkun á 69. gr. og bókunin um starfsmannamál skulu vera óaðskiljanlegir hlutar samnings þessa.
2.     Ef ákvæði samnings þessa stangast á við ákvæði framkvæmdareglugerðarinnar skulu ákvæði samnings þessa hafa forgang.

82.     167. gr. fellur niður

2. gr.
Bókanir.


1.     Bókun um túlkun á 69. gr. evrópska einkaleyfasamningsins skal breytt og orðast hún svo:

BÓKUN
um túlkun á 69. GR.


1. gr.
Almennar meginreglur.

Eigi skal túlka 69. gr. þannig að hún þýði að umfang verndar, sem evrópskt einkaleyfi veitir, teljist ná eins langt og skilgreint er í strangri bókstaflegri merkingu orðalagsins, sem notað er í kröfunum, og að lýsingin og teikningarnar séu eingöngu notaðar í þeim tilgangi að eyða margræðni í kröfunum. Eigi skal heldur túlka greinina þannig að kröfurnar séu aðeins til leiðbeiningar og að raunveruleg vernd, sem veitt er, kunni að ná til þess er einkaleyfishafi hefur ætlað með tilliti til lýsingar og teikninga kunnáttumanns á viðkomandi sviði. Þvert á móti ber að túlka greinina þannig að hún skilgreini stöðu milli þeirra ystu marka sem felur bæði í sér sanngjarna vernd fyrir einkaleyfishafann og nægilegt réttaröryggi fyrir þriðja aðila.

2. gr.
Jafngildi.

Í þeim tilgangi að ákvarða umfang verndar, er evrópskt einkaleyfi veitir, ber að taka tilhlýðilegt tillit til atriða sem eru jafngild tilgreindum atriðum í kröfunum.

2.     Eftirfarandi bókun skal fylgja evrópska einkaleyfasamningnum og vera óaðskiljanlegur hluti hans:

BÓKUN
um fjölda starfsfólks Evrópsku einkaleyfastofunnar í Haag
(Bókun um fjöld starfsfólks).


Evrópska einkaleyfastofnunin skal tryggja að hlutfall starfsmanna á Evrópsku einkaleyfastofunni, sem ætlað er að starfa í starfsstöðinni í Haag, eins og skilgreint er samkvæmt stofnunaráætluninni árið 2000 og töflu yfir stöður, haldist í aðalatriðum óbreytt. Hver sú breyting á fjölda starfsmanna, sem ætlað er að starfa í starfsstöðinni í Haag og leiðir af sér frávik frá hlutfallinu sem er meira en tíu af hundraði og reynist nauðsynleg fyrir eðlilegan rekstur Evrópsku einkaleyfastofunnar, skal vera háð ákvörðun framkvæmdaráðs stofnunarinnar samkvæmt tillögu forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, að höfðu samráði við ríkisstjórnir sambandslýðveldisins Þýskalands og konungsríkisins Hollands.

3.     I. gr. bókunarinnar um miðstýringu skal breytt og orðast hún svo:

BÓKUN
um miðstýringu evrópska einkaleyfakerfisins
og hvernig henni verði komið á
(Bókun um miðstýringu).


I. gr.

1.
a)    Við gildistöku samningsins skulu samningsríkin, sem eru einnig aðilar að Alþjóðaeinkaleyfastofunni er sett var á stofn með Haag-samningnum frá 6. júní 1947, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að Evrópska einkaleyfastofnunin taki, eigi síðar en á þeim degi er segir í 1. mgr. 162. gr. samningsins, við öllum eignum og skuldum og öllu starfsfólki Alþjóðaeinkaleyfastofunnar. Þetta skal framkvæma samkvæmt samningi milli Alþjóðaeinkaleyfastofunnar og Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar. Framangreind ríki og önnur samningsríki skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samningurinn komi til framkvæmda eigi síðar en daginn sem vísað er til í 1. mgr. 162. gr. samningsins. Við framkvæmd samningsins skuldbinda aðildarríki Alþjóðaeinkaleyfastofunnar, sem einnig eru aðilar að samningnum, sig enn fremur til að binda enda á þátttöku sína í Haag-samningnum.

b)    Samningsríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að Evrópska einkaleyfastofan taki við öllum eignum og skuldum og öllu starfsfólki Alþjóðaeinkaleyfastofunnar samkvæmt samningnum er um getur í a-lið. Að lokinni framkvæmd þess samnings skal Evrópska einkaleyfastofan taka að sér verkefni Alþjóðaeinkaleyfastofunnar daginn sem samningurinn er lagður fram til undirritunar og þá sérstaklega þau verkefni sem framkvæmd eru gagnvart aðildarríkjum stofunnar, hvort sem þau verða aðilar að samningnum eða ekki, svo og verkefni er stofan hefur tekið að sér að framkvæma við gildistöku samningsins gagnvart ríkjum sem á þeim tíma eru bæði aðilar að Alþjóðaeinkaleyfastofunni og samningnum. Auk þess getur framkvæmdaráð Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar falið Evrópsku einkaleyfastofunni frekari störf á sviði nýnæmisrannsókna.


c)    Framangreindar skuldbindingar skulu einnig gilda að breyttu breytanda um undirskrifstofuna, sem sett var á stofn samkvæmt Haag-samningnum, með skilyrðum í samningnum milli Alþjóðaeinkaleyfastofunnar og ríkisstjórnar viðkomandi samningsríkis. Ríkisstjórn þessi skuldbindur sig hér með til að gera nýjan samning við Evrópsku einkaleyfastofnunina í stað þess samnings, sem þegar hefur verið gerður við Alþjóðaeinkaleyfastofuna, til að samræma ákvæði um skipulag, rekstur og fjármögnun undirskrifstofunnar ákvæðum bókunar þessarar.
2.     Í samræmi við ákvæði III. gr. skulu samningsríkin, fyrir hönd aðalhugverkastofa sinna, afsala sér, í þágu Evrópsku einkaleyfastofunnar, störfum sem alþjóðlegar nýnæmisrannsóknarstofnanir, samkvæmt samstarfssamningnum um einkaleyfi, frá og með þeim degi sem vísað er til í 1. mgr. 162. gr. samningsins.
3.
a)    Setja ber á fót undirskrifstofu Evrópsku einkaleyfaskrifstofunnar í Berlín frá og með þeim degi er um getur í 1. mgr. 162. gr. samningsins. Skal hún rekin undir stjórn útibúsins í Haag.

b)    Framkvæmdaráðið ákvarðar skyldustörf, sem undirskrifstofunni í Berlín eru falin, í ljósi almennra sjónarmiða og þarfa Evrópsku einkaleyfastofunnar.
c)    Eigi síðar en við upphaf stigvaxandi útvíkkunar starfssviðs Evrópsku einkaleyfastofunnar skulu þau verkefni, sem undirskrifstofunni eru falin, nægja til að gera rannsóknarstarfsfólkinu í Berlínarútibúi þýsku einkaleyfaskrifstofunnar, á þeim degi sem samningurinn er lagður fram til undirritunar, kleift að sinna fullu starfi.

d)    Sambandslýðveldið Þýskaland skal greiða viðbótarkostnað sem Evrópska einkaleyfastofnunin leggur í við stofnun og vegna viðhalds undirskrifstofunnar í Berlín.

3. gr.
Nýr texti samningsins.

1.     Framkvæmdaráði Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar er hér með heimilað, eftir tillögu forstjóra Evrópsku einkaleyfastofunnar, að setja saman nýjan texta evrópska einkaleyfasamningsins. Í nýja textanum skal orðalag ákvæða samningsins samræmt eftir þörfum á hinum þremur opinberu tungumálum. Einnig má endurnúmera ákvæði samningsins í samfelldri röð og breyta tilvísunum í önnur ákvæði samningsins í samræmi við nýju númerin.

2.     Framkvæmdaráðið skal samþykkja nýjan texta samningsins með atkvæðum fulltrúa þriggja fjórðu þeirra samningsríkja sem sækja fund og greiða atkvæði. Þegar nýi textinn er samþykktur skal hann verða óaðskiljanlegur hluti þessa endurskoðunarsamnings.

4. gr.
Undirritun og fullgilding.

1.     Endurskoðunarsamningur þessi skal liggja frammi til undirritunar, af hálfu samningsríkjanna, á Evrópsku einkaleyfastofunni í München til 1. september 2001.
2.     Endurskoðunarsamningur þessi skal háður fullgildingu; fullgildingarskjöl skal afhenda ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.

5. gr.
Aðild.

1.     Þar til endurskoðunarsamningur þessi gengur í gildi er samningsríkjunum og ríkjum, sem fullgilda eða gerast aðilar að samningnum, heimil aðild að endurskoðunarsamningnum.
2.     Aðildarskjöl skal afhenda ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.

6. gr.
Beiting til bráðabirgða.

Beita skal til bráðabirgða 4.–6. og 12.–15. tölul. 1. gr., 2. og 3. tölul. 2. gr., 3. og 7. gr. endurskoðunarsamnings þessa.

7. gr.
Aðlögunarákvæði.

1.     Endurskoðaður texti samningsins skal gilda um allar evrópskar einkaleyfaumsóknir, sem lagðar eru inn eftir gildistöku hans, svo og um öll einkaleyfi sem veitt eru á grundvelli slíkra umsókna. Textinn skal ekki gilda um evrópsk einkaleyfi, sem hafa verið veitt þegar við gildistöku hans, né um evrópskar einkaleyfisumsóknir, sem voru til meðferðar á þeim tíma, nema framkvæmdaráð Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar hafi ákveðið annað.
2.     Framkvæmdaráð Evrópsku einkaleyfastofnunarinnar skal taka ákvörðun skv. 1. mgr. eigi síðar en 30. júní 2001 með atkvæðum fulltrúa þriggja fjórðu þeirra samningsríkja sem sækja fund og greiða atkvæði. Slík ákvörðun skal verða óaðskiljanlegur hluti af endurskoðunarsamningi þessum.

8. gr.
Gildistaka.

1.     Endurskoðaður texti evrópska einkaleyfasamningsins skal ganga í gildi tveimur árum eftir að fimmtánda samningsríkið hefur afhent fullgildingar- eða aðildarskjal sitt til vörslu eða á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjals til vörslu af hálfu þess samningsríkis sem stígur þetta skref síðast allra samningsríkja gerist það fyrr.
2.     Er endurskoðaður texti samningsins gengur í gildi fellur sá texti, sem gildur hefur verið til þess tíma, úr gildi.

9. gr.
Sending og tilkynningar.

1.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal gera staðfest afrit endurskoðunarsamnings þessa og senda þau ríkisstjórnum samningsríkjanna og ríkja sem geta orðið aðilar að evrópska einkaleyfasamningnum skv. 1. mgr. 166. gr.

2.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal tilkynna ríkisstjórnum skv. 1. mgr.:

a)    afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjals til vörslu;
b)    gildistökudag endurskoðunarsamnings þessa.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa heimild og umboð í tilhlýðilegu formi, undirritað endurskoðunarsamning þennan.


GJÖRT í München 29. nóvember 2000 í einu eintaki á ensku, frönsku og þýsku og skulu textarnir þrír vera jafngildir. Þessi upprunalegi texti skal afhentur skjalasafni sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.

ACT
Revising the Convention on
the Grant of European Patents
(European Patent Convention)


Preamble


THE CONTRACTING STATES TO THE EUROPEAN PATENT CONVENTION,

CONSIDERING that the co-operation of the countries of Europe on the basis of the European Patent Convention and the single procedure for the grant of patents thereby established renders a significant contribution to the legal and economic integration of Europe,

WISHING to promote innovation and economic growth in Europe still more effectively by laying foundations for the further development of the European patent system,

DESIRING, in the light of the increasingly international character of the patent system, to adapt the European Patent Convention to the technological and legal developments which have occurred since it was concluded,

HAVE AGREED AS FOLLOWS:

ARTICLE 1
Amendment of the European
Patent Convention

The European Patent Convention shall be amended as follows:

1.     The following new Article 4a shall be inserted after Article 4:

Article 4a
Conference of ministers of the Contracting States

A conference of ministers of the Contracting States responsible for patent matters shall meet at least every five years to discuss issues pertaining to the Organisation and to the European patent system.

2.     Article 11 shall be amended to read as follows:

Article 11
Appointment of senior employees

1.     The President of the European Patent Office shall be appointed by the Administrative Council.
2.     The Vice-Presidents shall be appointed by the Administrative Council after the President of the European Patent Office has been consulted.
3.     The members, including the Chairmen, of the Boards of Appeal and of the Enlarged Board of Appeal shall be appointed by the Administrative Council on a proposal from the President of the European Patent Office. They may be re-appointed by the Administrative Council after the President of the European Patent Office has been consulted.
4.     The Administrative Council shall exercise disciplinary authority over the employees referred to in paragraphs 1 to 3.
5.     The Administrative Council, after consulting the President of the European Patent Office, may also appoint as members of the Enlarged Board of Appeal legally qualified members of the national courts or quasi-judicial authorities of the Contracting States, who may continue their judicial activities at the national level. They shall be appointed for a term of three years and may be reappointed.

3.     Article 14 shall be amended to read as follows:


Article 14
Languages of the European Patent Office, European patent applications and other documents

1.     The official languages of the European Patent Office shall be English, French and German.
2.     A European patent application shall be filed in one of the official languages or, if filed in any other language, translated into one of the official languages in accordance with the Implementing Regulations. Throughout the proceedings before the European Patent Office, such translation may be brought into conformity with the application as filed. If a required translation is not filed in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.

3.     The official language of the European Patent Office in which the European patent application is filed or into which it is translated shall be used as the language of the proceedings in all proceedings before the European Patent Office, unless otherwise provided in the Implementing Regulations.
4.     Natural or legal persons having their residence or principal place of business within a Contracting State having a language other than English, French or German as an official language, and nationals of that State who are resident abroad, may file documents which have to be filed within a time limit in an official language of that State. They shall however file a translation in an official language of the European Patent Office in accordance with the Implementing Regulations. If any document, other than those documents making up the European patent application, is not filed in the prescribed language, or if any required translation is not filed in due time, the document shall be deemed not to have been filed.
5.     European patent applications shall be published in the language of the proceedings.
6.     Specifications of European patents shall be published in the language of the proceedings and shall include a translation of the claims in the two other official languages of the European Patent Office.
7.     There shall be published in the three official languages of the European Patent Office:
(a)    the European Patent Bulletin;
(b)    the Official Journal of the European Patent Office.
8.     Entries in the European Patent Register shall be made in the three official languages of the European Patent Office. In cases of doubt, the entry in the language of the proceedings shall be authentic.

4.     Article 16 shall be amended to read as follows:


Article 16
Receiving Section

The Receiving Section shall be responsible for the examination on filing and the examination as to formal requirements of European patent applications.

5.     Article 17 shall be amended to read as follows:

Article 17
Search Divisions

The Search Divisions shall be responsible for drawing up European search reports.

6.     Article 18 shall be amended to read as follows:

Article 18
Examining Divisions

1.     The Examining Divisions shall be responsible for the examination of European patent applications.
2.     An Examining Division shall consist of three technical examiners. However, the examination of a European patent application prior to a decision on it shall, as a general rule, be entrusted to one member of the Division. Oral proceedings shall be before the Examining Division itself. If the Examining Division considers that the nature of the decision so requires, it shall be enlarged by the addition of a legally qualified examiner. In the event of parity of votes, the vote of the Chairman of the Division shall be decisive.

7.     Article 21 shall be amended to read as follows:

Article 21
Boards of Appeal

1.     The Boards of Appeal shall be responsible for the examination of appeals from the decisions of the Receiving Section, Examining Divisions, Opposition Divisions and of the Legal Division.
2.     For appeals from a decision of the Receiving Section or the Legal Division, a Board of Appeal shall consist of three legally qualified members.
3.     For appeals from a decision of an Examining Division, a Board of Appeal shall consist of:
(a)    two technically qualified members and one legally qualified member, when the decision concerns the refusal of a European patent application or the grant, limitation or revocation of a European patent and was taken by an Examining Division consisting of less than four members;
(b)    three technically qualified members and two legally qualified members, when the decision was taken by an Examining Division consisting of four members or when the Board of Appeal considers that the nature of the appeal so requires;
(c)    three legally qualified members in all other cases.
4.     For appeals from a decision of an Opposition Division, a Board of Appeal shall consist of:
(a)    two technically qualified members and one legally qualified member, when the decision was taken by an Opposition Division consisting of three members;
(b)    three technically qualified members and two legally qualified members, when the decision was taken by an Opposition Division consisting of four members or when the Board of Appeal considers that the nature of the appeal so requires.

8.     Article 22 shall be amended to read as follows:

Article 22
Enlarged Board of Appeal

1.     The Enlarged Board of Appeal shall be responsible for:
(a)    deciding points of law referred to it by Boards of Appeal;
(b)    giving opinions on points of law referred to it by the President of the European Patent Office under Article 112;
(c)    deciding on petitions for review of decisions of the Boards of Appeal under Article 112a.

2.     In proceedings under paragraph 1(a) and (b), the Enlarged Board of Appeal shall consist of five legally qualified and two technically qualified members. In proceedings under paragraph 1(c), the En larged Board of Appeal shall consist of three or five members as laid down in the Implementing Regulations. In all proceedings a legally qualified member shall be the Chairman.

9.     Article 23 shall be amended to read as follows:

Article 23
Independence of the members of the Boards

1.     The members of the Enlarged Board of Appeal and of the Boards of Appeal shall be appointed for a term of five years and may not be removed from office during this term, except if there are serious grounds for such removal and if the Administrative Council, on a proposal from the Enlarged Board of Appeal, takes a decision to this effect. Notwithstanding sentence 1, the term of office of members of the Boards shall end if they resign or are retired in accordance with the Service Regulations for permanent employees of the European Patent Office.
2.     The members of the Boards may not be members of the Receiving Section, Examining Divisions, Opposition Divisions or of the Legal Division.
3.     In their decisions the members of the Boards shall not be bound by any instructions and shall comply only with the provisions of this Convention.
4.     The Rules of Procedure of the Boards of Appeal and the Enlarged Board of Appeal shall be adopted in accordance with the Implementing Regulations. They shall be subject to the approval of the Administrative Council.

10.     Article 33 shall be amended to read as follows:

Article 33
Competence of the Administrative Council
in certain cases

1.     The Administrative Council shall be competent to amend the following provisions:
(a)    the time limits laid down in this Convention;
(b)    Parts II to VIII and Part X of this Convention, to bring them into line with an international treaty relating to patents or European Community legislation relating to patents;
(c)    the Implementing Regulations.
2.     The Administrative Council shall be competent, in conformity with this Convention, to adopt or amend the following provisions:
(a)    the Financial Regulations;
(b)    the Service Regulations for permanent employees and the conditions of employment of other employees of the European Patent Office, the salary scales of the said permanent and other employees, and also the nature and rules for the grant of any supplementary benefits;
(c)    the Pension Scheme Regulations and any appropriate increases in existing pensions to correspond to increases in salaries;
(d)    the Rules relating to Fees;
(e)    its Rules of Procedure.
3.     Notwithstanding Article 18, paragraph 2, the Administrative Council shall be competent to decide, in the light of experience, that in certain categories of cases Examining Divisions shall consist of one technical examiner. Such decision may be rescinded.
4.     The Administrative Council shall be competent to authorise the President of the European Patent Office to negotiate and, with its approval, to conclude agreements on behalf of the European Patent Organisation with States, with intergovernmental organisations and with documentation centres set up by virtue of agreements with such organisations.
5.     The Administrative Council may not take a decision under paragraph 1(b):
–    concerning an international treaty, before the entry into force of that treaty;
–    concerning European Community legislation, before its entry into force or, where that legislation provides for a period for its implementation, before the expiry of that period.

11.     Article 35 shall be amended to read as follows:

Article 35
Voting rules

1.     The Administrative Council shall take its decisions other than those referred to in paragraphs 2 and 3 by a Special Edition No. 4 OJ EPO simple majority of the Contracting States represented and voting.
2.     A majority of three quarters of the votes of the Contracting States represented and voting shall be required for the decisions which the Administrative Council is empowered to take under Article 7, Article 11, paragraph 1, Article 33, paragraphs 1(a) and (c), and 2 to 4, Article 39, paragraph 1, Article 40, paragraphs 2 and 4, Article 46, Article 134a, Article 149a, paragraph 2, Article 152, Article 153, paragraph 7, Article 166 and Article 172.
3.     Unanimity of the Contracting States voting shall be required for the decisions which the Administrative Council is empowered to take under Article 33, paragraph 1(b). The Administrative Council shall take such decisions only if all the Contracting States are represented. A decision taken on the basis of Article 33, paragraph 1(b), shall not take effect if a Contracting State declares, within twelve months of the date of the decision, that it does not wish to be bound by that decision.
4.     Abstentions shall not be considered as votes.

12.     Article 37 shall be amended to read as follows:

Article 37
Budgetary funding

The budget of the Organisation shall be financed:
(a)    by the Organisation's own resources;
(b)    by payments made by the Contracting States in respect of renewal fees for European patents levied in these States;
(c)    where necessary, by special financial contributions made by the Contracting States;
(d)    where appropriate, by the revenue provided for in Article 146;
(e)    where appropriate, and for tangible assets only, by third-party borrowings secured on land or buildings;
(f)    where appropriate, by third-party funding for specific projects.

13.     Article 38 shall be amended to read as follows:

Article 38
The Organisation's own resources

The Organisation's own resources shall comprise:
(a)    all income from fees and other sources and also the reserves of the Organisation;
(b)    the resources of the Pension Reserve Fund, which shall be treated as a special class of asset of the Organisation designed to lend support to the Organisation's pension scheme by providing the appropriate reserves.

14.     Article 42 shall be amended to read as follows:

Article 42
Budget

1.     The budget of the Organisation shall be balanced. It shall be drawn up in accordance with the generally accepted accounting principles laid down in the Financial Regulations. If necessary, there may be amending or supplementary budgets.

2.     The budget shall be drawn up in the unit of account fixed in the Financial Regulations.

15.     Article 50 shall be amended to read as follows:

Article 50
Financial Regulations

The Financial Regulations shall in particular establish:
(a)    the procedure relating to the establishment and implementation of the budget and for the rendering and auditing of accounts;
(b)    the method and procedure whereby the payments and contributions provided for in Article 37 and the advances provided for in Article 41 are to be made available to the Organisation by the Contracting States;
(c)    the rules concerning the responsibilities of authorising and accounting officers and the arrangements for their supervision;
(d)    the rates of interest provided for in Articles 39, 40 and 47;
(e)    the method of calculating the contributions payable by virtue of Article 146;
(f)    the composition of and duties to be assigned to a Budget and Finance Committee which should be set up by the Administrative Council;
(g)    the generally accepted accounting principles on which the budget and the annual financial statements shall be based.

16.     Article 51 shall be amended to read as follows:

Article 51
Fees

1.     The European Patent Office may levy fees for any official task or procedure carried out under this Convention.
2.     Time limits for the payment of fees other than those fixed by this Convention shall be laid down in the Implementing Regulations.
3.     Where the Implementing Regulations provide that a fee shall be paid, they shall also lay down the consequences of failure to pay such fee in due time.

4.     The Rules relating to Fees shall determine in particular the amounts of the fees and the ways in which they are to be paid.

17.     Article 52 shall be amended to read as follows:

Article 52
Patentable inventions

1.     European patents shall be granted for any inventions, in all fields of technology, provided that they are new, involve an inventive step and are susceptible of industrial application.
2.     The following in particular shall not be regarded as inventions within the meaning of paragraph 1:
(a)    discoveries, scientific theories and mathematical methods;
(b)    aesthetic creations;
(c)    schemes, rules and methods for performing mental acts, playing games or doing business, and programs for computers;
(d)    presentations of information.
3.     Paragraph 2 shall exclude the patentability of the subject-matter or activities referred to therein only to the extent to which a European patent application or European patent relates to such subject-matter or activities as such.

18.     Article 53 shall be amended to read as follows:

Article 53
Exceptions to patentability

European patents shall not be granted in respect of:

(a)    inventions the commercial exploitation of which would be contrary to ”ordre public” or morality, provided that such exploitation shall not be deemed to be so contrary merely because it is prohibited by law or regulation in some or all of the Contracting States;
(b)    plant or animal varieties or essentially biological processes for the production of plants or animals; this provision shall not apply to microbiological processes or the products thereof;

(c)    methods for treatment of the human or animal body by surgery or therapy and diagnostic methods practised on the human or animal body; this provision shall not apply to products, in particular substances or compositions, for use in any of these methods.

19.     Article 54 shall be amended to read as follows:

Article 54
Novelty

1.     An invention shall be considered to be new if it does not form part of the state of the art.
2.     The state of the art shall be held to comprise everything made available to the public by means of a written or oral description, by use, or in any other way, before the date of filing of the European patent application.
3.     Additionally, the content of European patent applications as filed, of which the dates of filing are prior to the date referred to in paragraph 2 and which were published on or after that date, shall be considered as comprised in the state of the art.

4.     Paragraphs 2 and 3 shall not exclude the patentability of any substance or composition, comprised in the state of the art, for use in a method referred to in Article 53(c), provided that its use for any such method is not comprised in the state of the art.
5.     Paragraphs 2 and 3 shall also not exclude the patentability of any substance or composition referred to in paragraph 4 for any specific use in any method referred to in Article 53(c), provided that such use is not comprised in the state of the art.


20.     Article 60 shall be amended to read as follows:

Article 60
Right to a European patent

1.     The right to a European patent shall belong to the inventor or his successor in title. If the inventor is an employee, the right to a European patent shall be determined in accordance with the law of the State in which the employee is mainly employed; if the State in which the employee is mainly employed cannot be determined, the law to be applied shall be that of the State in which the employer has his place of business to which the employee is attached.
2.     If two or more persons have made an invention independently of each other, the right to a European patent therefor shall belong to the person whose European patent application has the earliest date of filing, provided this first application has been published.
3.     For the purposes of proceedings before the European Patent Office, the applicant shall be deemed to be entitled to exercise the right to a European patent.

21.     Article 61 shall be amended to read as follows:

Article 61
European patent applications filed
by non-entitled persons

1.     If by a final decision it is adjudged that a person other than the applicant is entitled to the grant of the European patent, that person may, in accordance with the Implementing Regulations,
(a)    prosecute the European patent application as his own application in place of the applicant,
(b)    file a new European patent application in respect of the same invention, or
(c)    request that the European patent application be refused.
2.     Article 76, paragraph 1, shall apply mutatis mutandis to a new European patent application filed under paragraph 1(b).

22.     Article 65 shall be amended to read as follows:

Article 65
Translation of the European patent

1.     Any Contracting State may, if the European patent as granted, amended or limited by the European Patent Office is not drawn up in one of its official languages, prescribe that the proprietor of the patent shall supply to its central industrial property office a translation of the patent as granted, amended or limited in one of its official languages at his option or, where that State has prescribed the use of one specific official language, in that language. The period for supplying the translation shall end three months after the date on which the mention of the grant, maintenance in amended form or limitation of the European patent is published in the European Patent Bulletin, unless the State concerned prescribes a longer period.
2.     Any Contracting State which has adopted provisions pursuant to paragraph 1 may prescribe that the proprietor of the patent must pay all or part of the costs of publication of such translation within a period laid down by that State.
3.     Any Contracting State may prescribe that in the event of failure to observe the provisions adopted in accordance with paragraphs 1 and 2, the European patent shall be deemed to be void ab initio in that State.

23.     Article 67 shall be amended to read as follows:

Article 67
Rights conferred by a European patent
application after publication

1.     A European patent application shall, from the date of its publication, provisionally confer upon the applicant such protection as is conferred by Article 64, in the Contracting States designated in the application.
2.     Any Contracting State may prescribe that a European patent application shall not confer such protection as is conferred by Article 64. However, the protection attached to the publication of the European patent application may not be less than that which the laws of the State concerned attach to the compulsory publication of unexamined national patent applications. In any event, every State shall ensure at least that, from the date of publication of a European patent application, the applicant can claim compensation reasonable in the circumstances from any person who has used the invention in the said State in circumstances where that person would be liable under national law for infringement of a national patent.
3.     Any Contracting State which does not have as an official language the language of the proceedings may prescribe that provisional protection in accordance with paragraphs 1 and 2 above shall not be effective until such time as a translation of the claims in one of its official languages at the option of the applicant or, where that State has prescribed the use of one specific official language, in that language:
(a)    has been made available to the public in the manner prescribed by national law, or
(b)    has been communicated to the person using the invention in the said State.
4.     The European patent application shall be deemed never to have had the effects set out in paragraphs 1 and 2 above when it has been withdrawn, deemed to be withdrawn or finally refused. The same shall apply in respect of the effects of the European patent application in a Contracting State the designation of which is withdrawn or deemed to be withdrawn.

24.     Article 68 shall be amended to read as follows:

Article 68
Effect of revocation or limitation
of the European patent

The European patent application and the resulting patent shall be deemed not to have had, from the outset, the effects specified in Articles 64 and 67, to the extent that the patent has been revoked or limited in opposition, limitation or revocation proceedings.


25.     Article 69 shall be amended to read as follows:

Article 69
Extent of protection

1.     The extent of the protection conferred by a European patent or a European patent application shall be determined by the claims. Nevertheless, the description and drawings shall be used to interpret the claims.
2.     For the period up to grant of the European patent, the extent of the protection conferred by the European patent application shall be determined by the claims contained in the application as published. However, the European patent as granted or as amended in opposition, limitation or revocation proceedings shall determine retroactively the protection conferred by the European patent application, in so far as such protection is not thereby extended.


26.     Article 70 shall be amended to read as follows:

Article 70
Authentic text of a European patent application
or European patent

1.     The text of a European patent application or a European patent in the language of the proceedings shall be the authentic text in any proceedings before the European Patent Office and in any Contracting State.
2.     If, however, the European patent application has been filed in a language which is not an official language of the European Patent Office, that text shall be the application as filed within the meaning of this Convention.
3.     Any Contracting State may prescribe that a translation, as provided for in this Convention, in an official language of that State, shall in that State be re garded as authentic, except for revocation proceedings, in the event of the European patent application or European patent in the language of the translation conferring protection which is narrower than that conferred by it in the language of the proceedings.
4.     Any Contracting State which adopts a provision under paragraph 3:
(a)    must allow the applicant for or proprietor of the patent to file a corrected translation of the European patent application or European patent. Such corrected translation shall not have any legal effect until any conditions established by the Contracting State under Article 65, paragraph 2, and Article 67, paragraph 3, have been complied with mutatis mutandis;
(b)    may prescribe that any person who, in that State, in good faith is using or has made effective and serious preparations for using an invention the use of which would not constitute infringement of the application or patent in the original translation may, after the corrected translation takes effect, continue such use in the course of his business or for the needs thereof without payment.

27.     Article 75 shall be amended to read as follows:

Article 75
Filing of a European patent application

1.     A European patent application may be filed:
(a)    at the European Patent Office, or
(b)    if the law of a Contracting State so permits, and subject to Article 76, paragraph 1, at the central industrial property office or other competent authority of that State. Any application filed in this way shall have the same effect as if it had been filed on the same date at the European Patent Office.
2.     Paragraph 1 shall not preclude the application of legislative or regulatory provisions which, in any Contracting State:
(a)    govern inventions which, owing to the nature of their subject-matter, may not be communicated abroad without the prior authorisation of the competent authorities of that State, or
(b)    prescribe that any application is to be filed initially with a national authority or make direct filing with another authority subject to prior authorisation.

28.     Article 76 shall be amended to read as follows:

Article 76
European divisional applications

1.     Any European divisional application shall be filed directly with the European Patent Office in accordance with the Implementing Regulations. It may be filed only in respect of subject-matter which does not extend beyond the content of the earlier application as filed; in so far as this requirement is complied with, the divisional application shall be deemed to have been filed on the date of filing of the earlier application and shall enjoy any right of priority.
2.     All the Contracting States designated in the earlier application at the time of filing of a European divisional application shall be deemed to be designated in the divisional application.

29.     Article 77 shall be amended to read as follows:

Article 77
Forwarding of European patent applications

1.     The central industrial property office of a Contracting State shall forward to the European Patent Office any European patent application filed with it or any other competent authority in that State, in accordance with the Implementing Regulations.
2.     Any European patent application the subject of which has been made secret shall not be forwarded to the European Patent Office.
3.     Any European patent application not forwarded to the European Patent Office in due time shall be deemed to be withdrawn.

30.     Article 78 shall be amended to read as follows:

Article 78
Requirements of a European patent application

1.     A European patent application shall contain:
(a)    a request for the grant of a European patent;
(b)    a description of the invention;
(c)    one or more claims;
(d)    any drawings referred to in the description or the claims;
(e)    an abstract,
and satisfy the conditions laid down in the Implementing Regulations.
2.     A European patent application shall be subject to the payment of the filing fee and the search fee. If the filing fee or the search fee is not paid in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.

31.     Article 79 shall be amended to read as follows:

Article 79
Designation of Contracting States

1.     All the Contracting States party to this Convention at the time of filing of a European patent application shall be deemed to be designated in the request for grant of a European patent.
2.     The designation of a Contracting State may be subject to the payment of a designation fee.
3.     The designation of a Contracting State may be withdrawn at any time up to the grant of the European patent.

32.     Article 80 shall be amended to read as follows:

Article 80
Date of filing

The date of filing of a European patent application shall be the date on which the requirements laid down in the Implementing Regulations are fulfilled.

33.     Article 86 shall be amended to read as follows:

Article 86
Renewal fees for a European patent application

1.     Renewal fees for a European patent application shall be paid to the European Patent Office in accordance with the Implementing Regulations. These fees shall be due in respect of the third year and each subsequent year, calculated from the date of filing of the application. If a renewal fee is not paid in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.
2.     The obligation to pay renewal fees shall terminate with the payment of the renewal fee due in respect of the year in which the mention of the grant of the European patent is published.

34.     Article 87 shall be amended to read as follows:

Article 87
Priority right

1.     Any person who has duly filed, in or for
(a)    any State party to the Paris Convention for the Protection of Industrial Property or
(b)    any Member of the World Trade Organization, an application for a patent, a utility model or a utility certificate, or his successor in title, shall enjoy, for the purpose of filing a European patent application in respect of the same invention, a right of priority during a period of twelve months from the date of filing of the first application.
2.     Every filing that is equivalent to a regular national filing under the national law of the State where it was made or under bilateral or multilateral agreements, including this Convention, shall be recognised as giving rise to a right of priority.
3.     By a regular national filing is meant any filing that is sufficient to establish the date on which the application was filed, whatever may be the outcome of the application.
4.     A subsequent application for the same subject- matter as a previous first application and filed in or in respect of the same State shall be considered as the first application for the purposes of determining priority, provided that, at the date of filing the subsequent application, the previous application has been withdrawn, abandoned or refused, without being open to public inspection and without leaving any rights outstanding, and has not served as a basis for claiming a right of priority. The previous application may not thereafter serve as a basis for claiming a right of priority.
5.     If the first filing has been made with an industrial property authority which is not subject to the Paris Convention for the Protection of Industrial Property or the Agreement Establishing the World Trade Organization, paragraphs 1 to 4 shall apply if that authority, according to a communication issued by the President of the European Patent Office, recognises that a first filing made at the European Patent Office gives rise to a right of priority under conditions and with effects equivalent to those laid down in the Paris Convention.

35.     Article 88 shall be amended to read as follows:

Article 88
Claiming priority

1.     An applicant desiring to take advantage of the priority of a previous application shall file a declaration of priority and any other document required, in accordance with the Implementing Regulations.
2.     Multiple priorities may be claimed in respect of a European patent application, notwithstanding the fact that they originated in different countries. Where appropriate, multiple priorities may be claimed for any one claim. Where multiple priorities are claimed, time limits which run from the date of priority shall run from the earliest date of priority.
3.     If one or more priorities are claimed in respect of a European patent application, the right of priority shall cover only those elements of the European patent application which are included in the application or applications whose priority is claimed.
4.     If certain elements of the invention for which priority is claimed do not appear among the claims formulated in the previous application, priority may nonetheless be granted, provided that the documents of the previous application as a whole specifically disclose such elements.

36.     Article 90 shall be amended to read as follows:

Article 90
Examination on filing and examination
as to formal requirements

1.     The European Patent Office shall examine, in accordance with the Implementing Regulations, whether the application satisfies the requirements for the accordance of a date of filing.
2.     If a date of filing cannot be accorded following the examination under paragraph 1, the application shall not be dealt with as a European patent application.
3.     If the European patent application has been accorded a date of filing, the European Patent Office shall examine, in accordance with the Implementing Regulations, whether the requirements in Articles 14, 78 and 81, and, where applicable, Articles 88, paragraph 1, and 133, paragraph 2, as well as any other requirement laid down in the Implementing Regulations, have been satisfied.
4.     Where the European Patent Office in carrying out the examination under paragraphs 1 or 3 notes that there are deficiencies which may be corrected, it shall give the applicant an opportunity to correct them.
5.     If any deficiency noted in the examination under paragraph 3 is not corrected, the European patent application shall be refused. Where the deficiency concerns the right of priority, this right shall be lost for the application.

37.     Article 91 shall be deleted.

38.     Article 92 shall be amended to read as follows:

Article 92
Drawing up the European search report

The European Patent Office shall, in accordance with the Implementing Regulations, draw up and publish a European search report in respect of the European patent application on the basis of the claims, with due regard to the description and any drawings.

39.     Article 93 shall be amended to read as follows:

Article 93
Publication of the European patent application

1.     The European Patent Office shall publish the European patent application as soon as possible
(a)    after the expiry of a period of eighteen months from the date of filing or, if priority has been claimed, from the date of priority, or
(b)    at the request of the applicant, before the expiry of that period.
2.     The European patent application shall be published at the same time as the specification of the European patent when the decision to grant the patent becomes effective before the expiry of the period referred to in paragraph 1(a).

40.     Article 94 shall be amended to read as follows:

Article 94
Examination of the European
patent application

1.     The European Patent Office shall, in accordance with the Implementing Regulations, examine on request whether the European patent application and the invention to which it relates meet the requirements of this Convention. The request shall not be deemed to be filed until after the examination fee has been paid.
2.     If no request for examination has been made in due time, the application shall be deemed to be withdrawn.
3.     If the examination reveals that the application or the invention to which it relates does not meet the requirements of this Convention, the Examining Division shall invite the applicant, as often as necessary, to file his observations and, subject to Article 123, paragraph 1, to amend the application.
4.     If the applicant fails to reply in due time to any communication from the Examining Division, the application shall be deemed to be withdrawn.

41.     Articles 95 and 96 shall be deleted.

42.     Article 97 shall be amended to read as follows:

Article 97
Grant or refusal

1.     If the Examining Division is of the opinion that the European patent application and the invention to which it relates meet the requirements of this Convention, it shall decide to grant a European patent, provided that the conditions laid down in the Implementing Regulations are fulfilled.
2.     If the Examining Division is of the opinion that the European patent application or the invention to which it relates does not meet the requirements of this Convention, it shall refuse the application unless a different sanction is provided for by this Convention.
3.     The decision to grant a European patent shall take effect on the date on which the mention of the grant is published in the European Patent Bulletin.


43.     Article 98 shall be amended to read as follows:

Article 98
Publication of the specification of
the European patent

The European Patent Office shall publish the specification of the European patent as soon as possible after the mention of the grant of the European patent has been published in the European Patent Bulletin.

44.     The title of Part V shall be amended to read as follows:

PART V
Opposition and Limitation Procedure


45.     Article 99 shall be amended to read as follows:

Article 99
Opposition

1.     Within nine months of the publication of the mention of the grant of the European patent in the European Patent Bulletin, any person may give notice to the European Patent Office of opposition to that patent, in accordance with the Implementing Regulations. Notice of opposition shall not be deemed to have been filed until after the opposition fee has been paid.
2.     The opposition shall apply to the European patent in all the Contracting States in which that patent has effect.
3.     Opponents shall be parties to the opposition proceedings as well as the proprietor of the patent.
4.     Where a person provides evidence that in a Contracting State, following a final decision, he has been entered in the patent register of such State instead of the previous proprietor, such person shall, at his request, replace the previous proprietor in respect of such State. By derogation from Article 118, the previous proprietor and the person making the request shall not be deemed to be joint proprietors unless both so request.

46.     Article 101 shall be amended to read as follows:

Article 101
Examination of the opposition – Revocation
or maintenance of the European patent

1.     If the opposition is admissible, the Opposition Division shall examine, in accordance with the Implementing Regulations, whether at least one ground for opposition under Article 100 prejudices the maintenance of the European patent. During this examination, the Opposition Division shall invite the parties, as often as necessary, to file observations on communications from another party or issued by itself.
2.     If the Opposition Division is of the opinion that at least one ground for opposition prejudices the maintenance of the European patent, it shall revoke the patent. Otherwise, it shall reject the opposition.
3.     If the Opposition Division is of the opinion that, taking into consideration the amendments made by the proprietor of the patent during the opposition proceedings, the patent and the invention to which it relates
(a)    meet the requirements of this Convention, it shall decide to maintain the patent as amended, provided that the conditions laid down in the Implementing Regulations are fulfilled;
(b)    do not meet the requirements of this Convention, it shall revoke the patent.

47.     Article 102 shall be deleted.

48.     Article 103 shall be amended to read as follows:

Article 103
Publication of a new specification
of the European patent

If a European patent is maintained as amended under Article 101, paragraph 3(a), the European Patent Office shall publish a new specification of the European patent as soon as possible after the mention of the opposition decision has been published in the European Patent Bulletin.

49.     Article 104 shall be amended to read as follows:

Article 104
Costs

1.     Each party to the opposition proceedings shall bear the costs it has incurred, unless the Opposition Division, for reasons of equity, orders, in accordance with the Implementing Regulations, a different apportionment of costs.
2.     The procedure for fixing costs shall be laid down in the Implementing Regulations.
3.     Any final decision of the European Patent Office fixing the amount of costs shall be dealt with, for the purpose of enforcement in the Contracting States, in the same way as a final decision given by a civil court of the State in the territory of which enforcement is to be carried out. Verification of such decision shall be limited to its authenticity.

50.     Article 105 shall be amended to read as follows:

Article 105
Intervention of the assumed infringer

1.     Any third party may, in accordance with the Implementing Regulations, intervene in opposition proceedings after the opposition period has expired, if the third party proves that
(a)    proceedings for infringement of the same patent have been instituted against him, or
(b)    following a request of the proprietor of the patent to cease alleged infringement, the third party has instituted proceedings for a ruling that he is not infringing the patent.
2.     An admissible intervention shall be treated as an opposition.

51.     The following new Articles 105a, 105b and 105c shall be inserted after Article 105:

Article 105a
Request for limitation or revocation

1.     At the request of the proprietor, the European patent may be revoked or be limited by an amendment of the claims. The request shall be filed with the European Patent Office in accordance with the Implementing Regulations. It shall not be deemed to have been filed until after the limitation or revocation fee has been paid.
2.     The request may not be filed while opposition proceedings in respect of the European patent are pending.

Article 105b
Limitation or revocation of the European patent

1.     The European Patent Office shall examine whether the requirements laid down in the Implementing Regulations for limiting or revoking the European patent have been met.
2.     If the European Patent Office considers that the request for limitation or revocation of the European patent meets these requirements, it shall decide to limit or revoke the European patent in accordance with the Implementing Regulations. Otherwise, it shall reject the request.
3.     The decision to limit or revoke the European patent shall apply to the European patent in all the Contracting States in respect of which it has been granted. It shall take effect on the date on which the European Patent Bulletin mentions the decision.


Article 105c
Publication of the amended specification
of the European patent

If the European patent is limited under Article 105b, paragraph 2, the European Patent Office shall publish the amended specification of the European patent as soon as possible after the mention of the limitation has been published in the European Patent Bulletin.

52.     Article 106 shall be amended to read as follows:

Article 106
Decisions subject to appeal

1.     An appeal shall lie from decisions of the Receiv ing Section, Examining Divisions, Opposition Divisions and the Legal Division. It shall have suspensive effect.
2.     A decision which does not terminate proceedings as regards one of the parties can only be appealed together with the final decision, unless the decision allows separate appeal.
3.     The right to file an appeal against decisions relating to the apportionment or fixing of costs in opposition proceedings may be restricted in the Implementing Regulations.

53.     Article 108 shall be amended to read as follows:

Article 108
Time limit and form of appeal

Notice of appeal shall be filed, in accordance with the Implementing Regulations, at the European Patent Office within two months of notification of the decision. Notice of appeal shall not be deemed to have been filed until after the fee for appeal has been paid. Within four months of notification of the decision, a statement setting out the grounds of appeal shall be filed in accordance with the Implementing Regulations.

54.     Article 110 shall be amended to read as follows:


Article 110
Examination of appeals

If the appeal is admissible, the Board of Appeal shall examine whether the appeal is allowable. The examination of the appeal shall be conducted in accordance with the Implementing Regulations.

55.     The following new Article 112a shall be inserted after Article 112:

Article 112a
Petition for review by the
Enlarged Board of Appeal

1.     Any party to appeal proceedings adversely affected by the decision of the Board of Appeal may file a petition for review of the decision by the Enlarged Board of Appeal.
2.     The petition may only be filed on the grounds that:
(a)    a member of the Board of Appeal took part in the decision in breach of Article 24, paragraph 1, or despite being excluded pursuant to a decision under Article 24, paragraph 4;

(b)    the Board of Appeal included a person not appointed as a member of the Boards of Appeal;
(c)    a fundamental violation of Article 113 occurred;
(d)    any other fundamental procedural defect defined in the Implementing Regulations occurred in the appeal proceedings; or

(e)    a criminal act established under the conditions laid down in the Implementing Regulations may have had an impact on the decision.
3.     The petition for review shall not have suspensive effect.
4.     The petition for review shall be filed in a reasoned statement, in accordance with the Implementing Regulations. If based on paragraph 2(a) to (d), the petition shall be filed within two months of notification of the decision of the Board of Appeal. If based on paragraph 2(e), the petition shall be filed within two months of the date on which the criminal act has been established and in any event not later than five years from notification of the decision of the Board of Appeal. The petition shall not be deemed to have been filed until after the prescribed fee has been paid.
5.     The Enlarged Board of Appeal shall examine the petition for review in accordance with the Implementing Regulations. If the petition is allowable, the Enlarged Board of Appeal shall set aside the decision under review and shall re-open proceedings before the Boards of Appeal in accordance with the Implementing Regulations.
6.     Any person who, in a designated Contracting State, has in good faith used or made effective and serious preparations for using an invention which is the subject of a published European patent application or a European patent in the period between the decision of the Board of Appeal under review and publication of the mention of the decision of the Enlarged Board of Appeal on the petition, may without payment continue such use in the course of his business or for the needs thereof.

56.     Article 115 shall be amended to read as follows:

Article 115
Observations by third parties

In proceedings before the European Patent Office, following the publication of the European patent application, any third party may, in accordance with the Implementing Regulations, present observations concerning the patentability of the invention to which the application or patent relates. That person shall not be a party to the proceedings.

57.     Article 117 shall be amended to read as follows:

Article 117
Means and taking of evidence

1.     In proceedings before the European Patent Office the means of giving or obtaining evidence shall include the following:
(a)    hearing the parties;
(b)    requests for information;
(c)    production of documents;
(d)    hearing witnesses;
(e)    opinions by experts;
(f)    inspection;
(g)    sworn statements in writing.
2.     The procedure for taking such evidence shall be laid down in the Implementing Regulations.

58.     Article 119 shall be amended to read as follows:

Article 119
Notification

Decisions, summonses, notices and communications shall be notified by the European Patent Office of its own motion in accordance with the Implementing Regulations. Notifications may, where exceptional circumstances so require, be effected through the intermediary of the central industrial property offices of the Contracting States.

59.     Article 120 shall be amended to read as follows:

Article 120
Time limits

The Implementing Regulations shall specify:
(a)    the time limits which are to be observed in proceedings before the European Patent Office and are not fixed by this Convention;
(b)    the manner of computation of time limits and the conditions under which time limits may be extended;
(c)    the minimal and maximal for time limits to be determined by the European Patent Office.

60.     Article 121 shall be amended to read as follows:

Article 121
Further processing of the European
patent application

1.     If an applicant fails to observe a time limit vis-à- vis the European Patent Office, he may request further processing of the European patent application.
2.     The European Patent Office shall grant the request, provided that the requirements laid down in the Implementing Regulations are met. Otherwise, it shall reject the request.
3.     If the request is granted, the legal consequences of the failure to observe the time limit shall be deemed not to have ensued.
4.     Further processing shall be ruled out in respect of the time limits in Article 87, paragraph 1, Article 108 and Article 112a, paragraph 4, as well as the time limits for requesting further processing or re- establishment of rights. The Implementing Regulations may rule out further processing for other time limits.

61.     Article 122 shall be amended to read as follows:

Article 122
Re-establishment of rights

1.     An applicant for or proprietor of a European patent who, in spite of all due care required by the circumstances having been taken, was unable to observe a time limit vis-à-vis the European Patent Office shall, upon request, have his rights re-established if the non-observance of this time limit has the direct consequence of causing the refusal of the European patent application, or of a request, or the deeming of the European patent application to have been withdrawn, or the revocation of the European patent, or the loss of any other right or means of redress.
2.     The European Patent Office shall grant the request, provided that the conditions of paragraph 1 and any other requirements laid down in the Implementing Regulations are met. Otherwise, it shall reject the request.
3.     If the request is granted, the legal consequences of the failure to observe the time limit shall be deemed not to have ensued.
4.     Re-establishment of rights shall be ruled out in respect of the time limit for requesting re-establishment of rights. The Implementing Regulations may rule out re-establishment for other time limits.
5.     Any person who, in a designated Contracting State, has in good faith used or made effective and serious preparations for using an invention which is the subject of a published European patent application or a European patent in the period between the loss of rights referred to in paragraph 1 and publication of the mention of re-establishment of those rights, may without payment continue such use in the course of his business or for the needs thereof.
6.     Nothing in this Article shall limit the right of a Contracting State to grant re-establishment of rights in respect of time limits provided for in this Convention and to be observed vis-à-vis the authorities of such State.

62.     Article 123 shall be amended to read as follows:

Article 123
Amendments

1.     A European patent application or European patent may be amended in proceedings before the European Patent Office, in accordance with the Implementing Regulations. In any case, the applicant shall be given at least one opportunity of amending the application of his own volition.
2.     A European patent application or European patent may not be amended in such a way that it contains subject-matter which extends beyond the content of the application as filed.
3.     A European patent may not be amended in such a way as to extend the protection it confers.

63.     Article 124 shall be amended to read as follows:

Article 124
Information on prior art

1.     The European Patent Office may, in accordance with the Implementing Regulations, invite the applicant to provide information on prior art taken into consideration in national or regional patent proceedings and concerning an invention to which the European patent application relates.
2.     If the applicant fails to reply in due time to an invitation under paragraph 1, the European patent application shall be deemed to be withdrawn.

64.     Article 126 shall be deleted.

65.     Article 127 shall be amended to read as follows:

Article 127
European Patent Register

The European Patent Office shall keep a European Patent Register, in which the particulars specified in the Implementing Regulations shall be recorded. No entry shall be made in the European Patent Register prior to the publication of the European patent application. The European Patent Register shall be open to public inspection.

66.     Article 128 shall be amended to read as follows:

Article 128
Inspection of files

1.     Files relating to European patent applications which have not yet been published shall not be made available for inspection without the consent of the applicant.
2.     Any person who can prove that the applicant has invoked the rights under the European patent appli cation against him may obtain inspection of the files prior to the publication of that application and without the consent of the applicant.
3.     Where a European divisional application or a new European patent application filed under Article 61, paragraph 1, is published, any person may obtain inspection of the files of the earlier application prior to the publication of that application and without the consent of the applicant.
4.     Subsequent to the publication of the European patent application, the files relating to the application and the resulting European patent may be inspected on request, subject to the restrictions laid down in the Implementing Regulations.
5.     Even prior to the publication of the European patent application, the European Patent Office may communicate to third parties or publish the particulars specified in the Implementing Regulations.

67.     Article 129 shall be amended to read as follows:

Article 129
Periodical publications

The European Patent Office shall periodically publish:
(a)    a European Patent Bulletin containing the particulars the publication of which is prescribed by this Convention, the Implementing Regulations or the President of the European Patent Office;

(b)    an Official Journal containing notices and information of a general character issued by the President of the European Patent Office, as well as any other information relevant to this Convention or its implementation.

68.     Article 130 shall be amended to read as follows:

Article 130
Exchange of information

1.     Unless otherwise provided in this Convention or in national laws, the European Patent Office and the central industrial property office of any Contracting State shall, on request, communicate to each other any useful information regarding European or national patent applications and patents and any proceedings concerning them.
2.     Paragraph 1 shall apply to the communication of information by virtue of working agreements between the European Patent Office and
(a)    the central industrial property offices of other States;
(b)    any intergovernmental organisation entrusted with the task of granting patents;
(c)    any other organisation.
3.     The communications under paragraphs 1 and 2(a) and (b) shall not be subject to the restrictions laid down in Article 128. The Administrative Council may decide that communications under paragraph 2(c) shall not be subject to such restrictions, provided that the organisation concerned treats the information communicated as confidential until the European patent application has been published.

69.     Article 133 shall be amended to read as follows:

Article 133
General principles of representation

1.     Subject to paragraph 2, no person shall be compelled to be represented by a professional representative in proceedings established by this Convention.

2.     Natural or legal persons not having their residence or principal place of business in a Contracting State shall be represented by a professional representative and act through him in all proceedings established by this Convention, other than in filing a European patent application; the Implementing Regulations may permit other exceptions.
3.     Natural or legal persons having their residence or principal place of business in a Contracting State may be represented in proceedings established by this Convention by an employee, who need not be a professional representative but who shall be authorised in accordance with the Implementing Regulations. The Implementing Regulations may provide whether and under what conditions an employee of such a legal person may also represent other legal persons which have their principal place of business in a Contracting State and which have economic connections with the first legal person.
4.     The Implementing Regulations may prescribe special provisions concerning the common representation of parties acting in common.

70.     Article 134 shall be amended to read as follows:

Article 134
Representation before the European Patent Office

1.     Representation of natural or legal persons in proceedings established by this Convention may only be undertaken by professional representatives whose names appear on a list maintained for this purpose by the European Patent Office.
2.     Any natural person who
(a)    is a national of a Contracting State,
(b)    has his place of business or employment in a Contracting State, and
(c)    has passed the European qualifying examination,
may be entered on the list of professional representatives.
3.     During a period of one year from the date on which the accession of a State to this Convention takes effect, entry on that list may also be requested by any natural person who
(a)    is a national of a Contracting State,
(b)    has his place of business or employment in the State having acceded to the Convention and
(c)    is entitled to represent natural or legal persons in patent matters before the central industrial property office of that State. Where such entitlement is not conditional upon the requirement of special professional qualifications, the person shall have regularly so acted in that State for at least five years.
4.     Entry shall be effected upon request, accompanied by certificates which shall indicate that the conditions laid down in paragraph 2 or 3 are fulfilled.
5.     Persons whose names appear on the list of professional representatives shall be entitled to act in all proceedings established by this Convention.
6.     For the purpose of acting as a professional representative, any person whose name appears on the list referred to in paragraph 1 shall be entitled to establish a place of business in any Contracting State in which proceedings established by this Convention may be conducted, having regard to the Protocol on Centralisation annexed to this Convention. The authorities of such State may remove that entitlement in individual cases only in application of legal provisions adopted for the purpose of protecting public security and law and order. Before such action is taken, the President of the European Patent Office shall be consulted.
7.     The President of the European Patent Office may grant exemption from:
(a)    the requirement of paragraphs 2(a) or 3(a) in special circumstances;
(b)    the requirement of paragraph 3(c), second sentence, if the applicant furnishes proof that he has acquired the requisite qualification in another way.
8.     Representation in proceedings established by this Convention may also be undertaken, in the same way as by a professional representative, by any legal practitioner qualified in a Contracting State and having his place of business in that State, to the extent that he is entitled in that State to act as a professional representative in patent matters. Paragraph 6 shall apply mutatis mutandis.

71.     The following new Article 134a shall be inserted after Article 134:

Article 134a
Institute of Professional Representatives
before the European Patent Office

1.     The Administrative Council shall be competent to adopt and amend provisions governing:
(a)    the Institute of Professional Representatives before the European Patent Office, hereinafter referred to as the Institute;
(b)    the qualifications and training required of a person for admission to the European qualifying examination and the conduct of such examination;
(c)    any disciplinary power exercised by the Institute or the European Patent Office in respect of professional representatives;
(d)    the obligation of confidentiality on the professional representative and the privilege from disclosure in proceedings before the European Patent Office in respect of communications between a professional representative and his client or any other person.
2.     Any person entered on the list of professional representatives referred to in Article 134, paragraph 1, shall be a member of the Institute.

72.     Article 135 shall be amended to read as follows:

Article 135
Request for the application of national procedure

1.     The central industrial property office of a designated Contracting State shall, at the request of the applicant for or proprietor of a European patent, apply the procedure for the grant of a national patent in the following circumstances:
(a)    when the European patent application is deemed to be withdrawn pursuant to Article 77, paragraph 3;
(b)    in such other cases as are provided for by the national law in which the European patent application is refused or withdrawn or deemed to be withdrawn, or the European patent is revoked under this Convention.
2.     In the case referred to in paragraph 1(a), the request for conversion shall be filed with the central industrial property office with which the European patent application has been filed. That office shall, subject to the provisions of national security, transmit the request directly to the central industrial property offices of the Contracting States specified therein.
3.     In the cases referred to in paragraph 1(b), the request for conversion shall be submitted to the European Patent Office in accordance with the Implementing Regulations. It shall not be deemed to be filed until after the conversion fee has been paid. The European Patent Office shall transmit the request to the central industrial property offices of the Contracting States specified therein.
4.     The effect of the European patent application referred to in Article 66 shall lapse if the request for conversion is not submitted in due time.

73.     Article 136 shall be deleted.

74.     Article 137 shall be amended to read as follows:

Article 137
Formal requirements for conversion

1.     A European patent application transmitted in accordance with Article 135, paragraph 2 or 3, shall not be subjected to formal requirements of national law which are different from or additional to those provided for in this Convention.
2.     Any central industrial property office to which the application is transmitted may require that the applicant shall, within not less than two months:
(a)    pay the national application fee;
(b)    file a translation of the original text of the European patent application in one of the official languages of the State in question and, where appropriate, of the text as amended during proceedings before the Eurosoit pean Patent Office which the applicant wishes to submit to the national procedure.

75.     Article 138 shall be amended to read as follows:

Article 138
Revocation of European patents

1.     Subject to Article 139, a European patent may be revoked with effect for a Contracting State only on the grounds that:
(a)    the subject-matter of the European patent is not patentable under Articles 52 to 57;
(b)    the European patent does not disclose the invention in a manner sufficiently clear and complete for it to be carried out by a person skilled in the art;
(c)    the subject-matter of the European patent extends beyond the content of the application as filed or, if the patent was granted on a divisional application or on a new application filed under Article 61, beyond the content of the earlier application as filed;
(d)    the protection conferred by the European patent has been extended; or
(e)    the proprietor of the European patent is not entitled under Article 60, paragraph 1.
2.     If the grounds for revocation affect the European patent only in part, the patent shall be limited by a corresponding amendment of the claims and revoked in part.
3.     In proceedings before the competent court or authority relating to the validity of the European patent, the proprietor of the patent shall have the right to limit the patent by amending the claims. The patent as thus limited shall form the basis for the proceedings.

76.     Article 140 shall be amended to read as follows:

Article 140
National utility models and
utility certificates

Articles 66, 124, 135, 137 and 139 shall apply to utility models and utility certificates and to applications for utility models and utility certificates registered or deposited in the Contracting States whose laws make provision for such models or certificates.


77.     Article 141 shall be amended to read as follows:

Article 141
Renewal fees for a European patent

1.     Renewal fees for a European patent may only be imposed for the years which follow that referred to in Article 86, paragraph 2.
2.     Any renewal fees falling due within two months of the publication of the mention of the grant of the European patent shall be deemed to have been validly paid if they are paid within that period. Any additional fee provided for under national law shall not be charged.

78.     The following new Article 149a shall be inserted after Article 149:

Article 149a
Other agreements between the Contracting States

1.     Nothing in this Convention shall be construed as limiting the right of some or all of the Contracting States to conclude special agreements on any matters concerning European patent applications or European patents which under this Convention are subject to and governed by national law, such as, in particular
(a)    an agreement establishing a European patent court common to the Contracting States party to it;
(b)    an agreement establishing an entity common to the Contracting States party to it to deliver, at the request of national courts or quasijudicial author ities, opinions on issues of European or harmonised national patent law;

(c)    an agreement under which the Contracting States party to it dispense fully or in part with translations of European patents under Article 65;

(d)    an agreement under which the Contracting States party to it provide that translations of European patents as required under Article 65 may be filed with, and published by, the European Patent Office.
2.     The Administrative Council shall be competent to decide that:
(a)    the members of the Boards of Appeal or the Enlarged Board of Appeal may serve on a European patent court or a common entity and take part in proceedings before that court or entity in accordance with any such agreement;
(b)    the European Patent Office shall provide a common entity with such support staff, premises and equipment as may be necessary for the performance of its duties, and the expenses incurred by that entity shall be borne fully or in part by the Organisation.

79.     Part X of the Convention shall be amended to read as follows:

PART X
International Applications under
the Patent Cooperation Treaty –
EURO-PCT Applications

Article 150
Application of the Patent Cooperation Treaty

1.     The Patent Cooperation Treaty of 19 June 1970, hereinafter referred to as the PCT, shall be applied in accordance with the provisions of this Part.
2.     International applications filed under the PCT may be the subject of proceedings before the European Patent Office. In such proceedings, the provisions of the PCT and its Regulations shall be applied, supplemented by the provisions of this Convention. In case of conflict, the provisions of the PCT or its Regulations shall prevail.

Article 151
The European Patent Office as a receiving Office

The European Patent Office shall act as a receiving Office within the meaning of the PCT, in accordance with the Implementing Regulations. Article 75, paragraph 2, shall apply mutatis mutandis.

Article 152
The European Patent Office as an International Searching Authority or International
Preliminary Examining Authority

The European Patent Office shall act as an International Searching Authority and International Preliminary Examining Authority within the meaning of the PCT, in accordance with an agreement between the Organisation and the International Bureau of the World Intellectual Property Organization, for applicants who are residents or nationals of a Contracting State to this Convention. This agreement may provide that the European Patent Office shall also act for other applicants.


Article 153
The European Patent Office as
designated Office or elected Office

1.     The European Patent Office shall be
(a)    a designated Office for any Contracting State to this Convention in respect of which the PCT is in force, which is designated in the international application and for which the applicant wishes to obtain a European patent, and
(b)    an elected Office, if the applicant has elected a State designated pursuant to (a).
2.     An international application for which the European Patent Office is a designated or elected Office, and which has been accorded an international date of filing, shall be equivalent to a regular European application (Euro-PCT application).
3.     The international publication of a Euro-PCT application in one of the official languages of the European Patent Office shall take the place of the publication of the European patent application and shall be mentioned in the European Patent Bulletin.
4.     If the Euro-PCT application is published in another language, a translation into one of the official languages shall be filed with the European Patent Office, which shall publish it. Subject to Article 67, paragraph 3, the provisional protection under Article 67, paragraphs 1 and 2, shall be effective from the date of that publication.
5.     The Euro-PCT application shall be treated as a European patent application and shall be considered as comprised in the state of the art under Article 54, paragraph 3, if the conditions laid down in paragraph 3 or 4 and in the Implementing Regulations are fulfilled.
6.     The international search report drawn up in respect of a Euro-PCT application or the declaration replacing it, and their international publication, shall take the place of the European search report and the mention of its publication in the European Patent Bulletin.
7.     A supplementary European search report shall be drawn up in respect of any Euro-PCT application under paragraph 5. The Administrative Council may decide that the supplementary search report is to be dispensed with or that the search fee is to be reduced.

80.     Articles 154, 155, 156, 157, 158, 159, 160, 161, 162 and 163 shall be deleted.

81.     Article 164 shall be amended to read as follows:

Article 164
Implementing Regulations and Protocols

1.     The Implementing Regulations, the Protocol on Recognition, the Protocol on Privileges and Immunities, the Protocol on Centralisation, the Protocol on the Interpretation of Article 69 and the Protocol on the Staff Complement shall be integral parts of this Convention.
2.     In case of conflict between the provisions of this Convention and those of the Implementing Regulations, the provisions of this Convention shall prevail.

82.     Article 167 shall be deleted.

Article 2
Protocols


1.     The Protocol on the Interpretation of Article 69 EPC shall be amended to read as follows:


PROTOCOL
on the Interpretation of Article 69


Article 1
General principles

Article 69 should not be interpreted in the sense that the extent of the protection conferred by a European patent is to be understood as that defined by the strict, literal meaning of the wording used in the claims, the description and drawings being employed only for the purpose of resolving an ambiguity found in the claims. Neither should it be interpreted in the sense that the claims serve only as a guideline and that the actual protection conferred may extend to what, from a consideration of the description and drawings by a person skilled in the art, the patentee has contemplated. On the contrary, it is to be interpreted as defining a position between these extremes which combines a fair protection for the patentee with a reasonable degree of certainty for third parties.

Article 2
Equivalents

For the purpose of determining the extent of protection conferred by a European patent, due account shall be taken of any element which is equivalent to an element specified in the claims.

2.     The following Protocol shall be annexed to the European Patent Convention as an integral part thereof:

PROTOCOL
on the Staff Complement of the European
Patent Office at The Hague
(Protocol on the Staff Complement)


The European Patent Organisation shall ensure that the proportion of European Patent Office posts assigned to the duty station at The Hague as defined under the 2000 establishment plan and table of posts remains substantially unchanged. Any change in the number of posts assigned to the duty station at The Hague resulting in a deviation of more than ten per cent of that proportion, which proves necessary for the proper functioning of the European Patent Office, shall be subject to a decision by the Administrative Council of the Organisation on a proposal from the President of the European Patent Office after consultation with the Governments of the Federal Republic of Germany and the Kingdom of the Netherlands.

3.     Section I of the Protocol on Centralisation shall be amended to read as follows:


PROTOCOL
on the Centralisation of the European Patent System and on its Introduction
(Protocol on Centralisation)


Section I

1.
(a)    Upon entry into force of the Convention, States parties thereto which are also members of the International Patent Institute set up by the Hague Agreement of 6 June 1947 shall take all necessary steps to ensure the transfer to the European Patent Office, no later than the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention, of all assets and liabilities and all staff members of the International Patent Institute. Such transfer shall be effected by an agreement between the International Patent Institute and the European Patent Organisation. The above States and the other States parties to the Convention shall take all necessary steps to ensure that that agreement shall be implemented no later than the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention. Upon implementation of the agreement, those Member States of the International Patent Institute which are also parties to the Convention further undertake to terminate their participation in the Hague Agreement.
(b)    The States parties to the Convention shall take all necessary steps to ensure that all the assets and liabilities and all the staff members of the International Patent Institute are taken into the European Patent Office in accordance with the agreement referred to in sub-paragraph (a). After the implementation of that agreement the tasks incumbent upon the International Patent Institute at the date on which the Convention is opened for signature, and in particular those carried out vis- à-vis its Member States, whether or not they become parties to the Convention, and such tasks as it has undertaken at the time of the entry into force of the Convention to carry out vis-à-vis States which, at that date, are both members of the International Patent Institute and parties to the Convention, shall be assumed by the European Patent Office. In addition, the Administrative Council of the European Patent Organisation may allocate further duties in the field of searching to the European Patent Office.
(c)    The above obligations shall also apply mutatis mutandis to the suboffice set up under the Hague Agreement under the conditions set out in the agreement between the International Patent Institute and the Government of the Contracting State concerned. This Government hereby undertakes to make a new agreement with the European Patent Organisation in place of the one already made with the International Patent Institute to harmonise the clauses concerning the organisation, operation and financing of the sub-office with the provisions of this Protocol.
2.     Subject to the provisions of Section III, the States parties to the Convention shall, on behalf of their central industrial property offices, renounce in favour of the European Patent Office any activities as International Searching Authorities under the Patent Cooperation Treaty as from the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention.
3.
(a)    A sub-office of the European Patent Office shall be set up in Berlin as from the date referred to in Article 162, paragraph 1, of the Convention. It shall operate under the direction of the branch at The Hague.
(b)    The Administrative Council shall determine the duties to be allocated to the sub-office in Berlin in the light of general considerations and of the requirements of the European Patent Office.
(c)    At least at the beginning of the period following the progressive expansion of the field of activity of the European Patent Office, the amount of work assigned to that sub-office shall be sufficient to enable the examining staff of the Berlin Annex of the German Patent Office, as it stands at the date on which the Convention is opened for signature, to be fully employed.
(d)    The Federal Republic of Germany shall bear any additional costs incurred by the European Patent Organisation in setting up and maintaining the sub-office in Berlin.

Article 3
New Text of the Convention

1.     The Administrative Council of the European Patent Organisation is hereby authorised to draw up, at the proposal of the President of the European Patent Office, a new text of the European Patent Convention. In the new text, the wording of the provisions of the Convention shall be aligned, where necessary, in the three official languages. The provisions of the Convention may also be renumbered consecutively and the references to other provisions of the Convention may be amended in accordance with the new numbering.
2.     The Administrative Council shall adopt the new text of the Convention by a majority of three quarters of the Contracting States represented and voting. On its adoption, the new text of the Convention shall become an integral part of this Revision Act.


Article 4
Signature and Ratification

1.     This Revision Act shall be open for signature by the Contracting States at the European Patent Office in Munich until 1 September 2001.

2.     This Revision Act shall be subject to ratification; instruments of ratification shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany.

Article 5
Accession

1.     This Revision Act shall be open, until its entry into force, to accession by the Contracting States to the Convention and the States which ratify the Convention or accede thereto.
2.     Instruments of accession shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany.

Article 6
Provisional Application

Article 1, items 4–6 and 12–15, Article 2, items 2 and 3 and Articles 3 and 7 of this Revision Act shall be applied provisionally.

Article 7
Transitional Provisions

1.     The revised version of the Convention shall apply to all European patent applications filed after its entry into force, as well as to all patents granted in respect of such applications. It shall not apply to European patents already granted at the time of its entry into force, or to European patent applications pending at that time, unless otherwise decided by the Administrative Council of the European Patent Organisation.
2.     The Administrative Council of the European Patent Organisation shall take a decision under paragraph 1 no later than 30 June 2001, by a majority of three quarters of the Contracting States represented and voting. Such decision shall become an integral part of this Revision Act.

Article 8
Entry into Force

1.     The revised text of the European Patent Convention shall enter into force two years after the fifteenth Contracting State has deposited its instrument of ratification or accession, or on the first day of the third month following the deposit of the instrument of ratification or accession by the Contracting State taking this step as the last of all the Contracting States, if this takes place earlier.
2.     Upon entry into force of the revised text of the Convention, the text valid until that time shall cease to apply.

Article 9
Transmission and Notifications

1.     The Government of the Federal Republic of Germany shall draw up certified true copies of this Revision Act and shall transmit them to the governments of the Contracting States and of the States able to accede to the European Patent Convention under Article 166, paragraph 1.
2.     The Government of the Federal Republic of Germany shall notify the governments referred to in paragraph 1 concerning:
(a)    the deposit of any instrument of ratification or accession;
(b)    the date of entry into force of this Revision Act.

IN WITNESS WHEREOF, the Plenipotentiaries authorised thereto, having presented their Full Powers, found to be in good and due form, have signed this Revision Act.

DONE at Munich this twenty-ninth day of November two thousand in a single original in the English, French and German languages, the three texts being equally authentic. This original text shall be deposited in the archives of the Federal Republic of Germany.

Fylgiskjal III.


SAMNINGUR
um beitingu 65. gr. samningsins um
veitingu evrópskra einkaleyfa.


AÐILDARRÍKI AÐ SAMNINGI ÞESSUM SEM,

SEM SAMNINGSRÍKI AÐ samningnum um veitingu evrópskra einkaleyfa (evrópska einkaleyfasamningnum) frá 5. október 1973,

ÍTREKA vilja sinn til að styrkja samvinnu milli ríkja Evrópu um að vernda einkarétt á uppfinningum,


MEÐ TILLITI TIL ákvæða 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins,

VIÐURKENNA mikilvægi þess að dregið verði úr kostnaði vegna þýðinga á evrópskum einkaleyfum,


LEGGJA ÁHERSLU á þörfina á víðtækum stuðningi til að ná því markmiði,

ERU STAÐRÁÐIN í að leggja mikið af mörkum til að ná fram lækkun kostnaðar,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:


1. gr.
Undanþágur frá kröfum um þýðingar.

1.     Sérhvert aðildarríki að samningi þessum, sem hefur opinbert tungumál sameiginlegt einhverju hinna opinberu tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar, skal falla frá kröfum um þýðingar skv. 1. mgr. 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins.

2.     Sérhvert aðildarríki að samningi þessum, sem hefur ekki opinbert tungumál sem er sameiginlegt einhverju hinna opinberu tungumála Evrópsku einkaleyfastofunnar, skal falla frá kröfum um þýðingar skv. 1. mgr. 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins ef evrópskt einkaleyfi hefur verið veitt á því opinbera tungumáli Evrópsku einkaleyfastofunnar, sem viðkomandi aðildarríki fyrirskipar, eða þýtt á það tungumál og lagt fram í samræmi við skilyrði 1. mgr. 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins.

3.     Ríkin, sem getið er um í 2. mgr., skulu halda rétti sínum til að krefjast þess að þýðing á einkaleyfiskröfunum á eitt hinna opinberu tungumála ríkisins skuli lögð fram í samræmi við skilyrði 1. mgr. 65. gr. evrópska einkaleyfasamningsins.
4.     Ekkert í samningi þessum skal túlkað sem takmörkun á rétti aðildarríkjanna að samningi þessum til að falla frá kröfum um þýðingar eða til að beita vægari kröfum um þýðingar en skv. 2. og 3. mgr.


2. gr.
Þýðingar vegna deilumála.

Ekkert í samningi þessum skal túlkað sem takmörkun á rétti aðildarríkja að samningi þessum til að fyrirskipa, rísi deilur vegna evrópsks einkaleyfis, að einkaleyfishafi skuli á eigin kostnað:

a)    láta í té, að beiðni ætlaðs geranda, heildarþýðingu á eitt af hinum opinberu tungumálum þess ríkis þar sem ætlað brot er talið hafa átt sér stað,

b)    láta í té, að beiðni þar til bærs dómstóls eða dómsyfirvalda utan dómstólakerfisins, meðan á málsókn stendur, heildarþýðingu á opinbert mál viðkomandi ríkis.

3. gr.
Undirritun – fullgilding.

1.     Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra samningsríkja að evrópska einkaleyfasamningnum til 30. júní 2001.
2.     Samningur þessi er háður fullgildingu. Fullgildingarskjöl skal afhenda ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.


4. gr.
Aðild.

Aðild að samningi þessum skal, að loknu undirritunartímabili skv. 1. mgr. 3. gr., heimil öllum samningsríkjum að evrópska einkaleyfasamningnum og öllum ríkjum sem eiga rétt á aðild að þeim samningi. Aðildarskjöl skal afhenda ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands til vörslu.


5. gr.
Bann við fyrirvörum.

Engu aðildarríki að samningi þessum er heimilt að gera fyrirvara við hann.

6. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi fjórða mánaðar eftir að síðasta fullgildingar- eða aðildarskjal átta samningsríkja evrópska einkaleyfasamningsins hefur verið afhent til vörslu, þar á meðal hinna þriggja ríkja þar sem flest evrópsk einkaleyfi tóku gildi árið 1999.
2.     Sérhver fullgilding eða aðild, eftir gildistöku samnings þessa, skal öðlast gildi á fyrsta degi fjórða mánaðar eftir að fullgildingar- eða aðildarskjal hefur verið afhent til vörslu.

7. gr.
Gildistími samningsins.

Samningur þessi skal gilda ótímabundið.


8. gr.
Uppsögn.

Sérhvert aðildarríki að samningi þessum getur sagt samningi þessum upp hvenær sem er eftir að hann hefur verið í gildi í þrjú ár. Tilkynningu um uppsögn skal afhenda ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands. Uppsögnin öðlast gildi einu ári eftir móttöku slíkrar tilkynningar. Engin réttindi, áunnin samkvæmt samningi þessum áður en uppsögnin öðlaðist gildi, skulu skerðast.

9. gr.
Gildissvið.

Samningur þessi skal gilda um evrópsk einkaleyfi hafi tilkynning um veitingu verið birt í Einkaleyfatíðindum Evrópsku einkaleyfastofunnar eftir að samningurinn öðlaðist gildi í viðkomandi ríki.

10. gr.
Tungumál samningsins.

Samningur þessi, sem gerður er í einu frumriti á ensku, frönsku og þýsku, skal varðveittur af ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands og skulu textarnir þrír vera jafngildir.


11. gr.
Sendingar og tilkynningar.

1.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal útbúa löggilt endurrit af samningi þessum og senda ríkisstjórnum allra undirritunarríkja eða aðildarríkja.
2.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal tilkynna öllum ríkisstjórnum þeirra ríkja sem vísað er til í 1. mgr.:
a)    undirritanir;
b)    afhendingu fullgildingar- eða aðildarskjals til vörslu;
c)    dagsetningu gildistöku samnings þessa;
d)    uppsögn sem móttekin er skv. 8. gr. og dagsetninguna er hún öðlast gildi.
3.     Ríkisstjórn sambandslýðveldisins Þýskalands skal skrásetja samning þennan hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa heimild og umboð í tilhlýðilegu formi, undirritað samning þennan.


Gjört í Lundúnum 17. október 2000, í einu frumriti á ensku, frönsku og þýsku, og skulu allir textar vera jafngildir.


AGREEMENT
on the application of Article 65 of the Convention on the Grant of European Patents


THE STATES PARTIES TO THIS AGREEMENT,

IN THEIR CAPACITY as Contracting States to the Convention on the Grant of European Patents (European Patent Convention) of 5 October 1973,

REAFFIRMING their desire to strengthen co-operation between the States of Europe in respect of the protection of inventions,

HAVING REGARD to Article 65 of the European Patent Convention,

RECOGNISING the importance of the objective to reduce the costs relating to the translation of European patents,

STRESSING the need for widespread adherence to that objective,

DETERMINED to contribute effectively to such cost reduction,

HAVE AGREED ON THE FOLLOWING PROVISIONS:

Article 1
Dispensation with Translation Requirements

1.     Any State party to this Agreement having an official language in common with one of the official languages of the European Patent Office shall dispense with the translation requirements provided for in Article 65, paragraph 1, of the European Patent Convention.
2.     Any State party to this Agreement having no official language in common with one of the official languages of the European Patent Office shall dispense with the translation requirements provided for in Article 65, paragraph 1, of the European Patent Convention, if the European patent has been granted in the official language of the European Patent Office prescribed by that State, or translated into that language and supplied under the conditions provided for in Article 65, paragraph 1, of the European Patent Convention.
3.     The States referred to in paragraph 2 shall continue to have the right to require that a translation of the claims into one of their official languages be supplied under the conditions provided for in Article 65, paragraph 1, of the European Patent Convention.
4.     Nothing in this Agreement shall be construed as restricting the right of the States parties to this Agreement to dispense with any translation requirement or to apply more liberal translation requirements than those referred to in paragraphs 2 and 3.

Article 2
Translations in Case of Dispute

Nothing in this Agreement shall be construed as restricting the right of the States parties to this Agreement to prescribe that, in the case of a dispute relating to a European patent, the patent proprietor, at his own expense,
(a)    shall supply, at the request of an alleged infringer, a full translation into an official language of the State in which the alleged infringement took place,
(b)    shall supply, at the request of the competent court or quasi judicial authority in the course of legal proceedings, a full translation into an official language of the State concerned.

Article 3
Signature – Ratification

1.     This Agreement shall be open for signature by any Contracting State to the European Patent Convention until 30 June 2001.
2.     This Agreement shall be subject to ratification. Instruments of ratification shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany.

Article 4
Accession

This Agreement shall, on expiry of the term for signature mentioned in Article 3, paragraph 1, be open to accession by any Contracting State to the European Patent Convention and any State which is entitled to accede to that Convention. Instruments of accession shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany.

Article 5
Prohibition of Reservations

No State party to this Agreement may make reservations thereto.

Article 6
Entry into Force

1.     This Agreement shall enter into force on the first day of the fourth month after the deposit of the last instrument of ratification or accession by eight Contracting States to the European Patent Convention, including the three States in which the most European patents took effect in 1999.
2.     Any ratification or accession after the entry into force of this Agreement shall take effect on the first day of the fourth month after the deposit of the instrument of ratification or accession.

Article 7
Duration of the Agreement

This Agreement shall be concluded for an unlimited duration.

Article 8
Denunciation

Any State party to this Agreement may denounce it at any time once it has been in force for three years. Notification of denunciation shall be given to the Government of the Federal Republic of Germany. The denunciation shall take effect one year after the date of receipt of such notification. No rights acquired pursuant to this Agreement before the denunciation took effect shall thereby be impaired.

Article 9
Scope

This Agreement shall apply to European patents in respect of which the mention of grant was published in the European Patent Bulletin after the Agreement entered into force for the State concerned.

Article 10
Languages of the Agreement

This Agreement, drawn up in a single original in the English, French and German languages shall be deposited with the Government of the Federal Republic of Germany, the three texts being equally authentic.

Article 11
Transmissions and notifications

1.     The Government of the Federal Republic of Germany shall draw up certified true copies of this Agreement and shall transmit them to the Governments of all signatory or acceding States.
2.     The Government of the Federal Republic of Germany shall notify to the Governments of the States referred to in paragraph 1:
(a)    any signature;
(b)    the deposit of any instrument of ratification or accession;
(c)    the date of entry into force of this Agreement;
(d)    any denunciation received pursuant to Article 8 and the date on which it will take effect.
3.     The Government of the Federal Republic of Germany shall register this Agreement with the Secretariat of the United Nations.

In WITNESS WHEREOF, the Plenipotentiaries authorised thereto, having presented their Full Powers, found to be in good and due form, have signed this Agreement.

Done at London on 17 October 2000, in one original, in English, French and Germany, each text being equally authentic.