Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 530  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2005.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur nú til 3. umræðu. Eins og á síðasta ári eru ekki við 3. umræðu lagðar til neinar breytingar á frumvarpinu af hálfu meiri hlutans. Því miður er ekki hægt að túlka þetta á þann hátt að rekstrargrundvöllur allra stofnana ríkisins sé tryggður, að menntakerfið, félagsmálakerfið og heilbrigðiskerfið starfi með eðlilegum hætti á næsta ári eða að kjarasamningar á næsta ári verði í samræmi við forsendur fjárlaga. Þessir liðir eru allir meira og minna í uppnámi.
    Eins og fram kom hjá þingmönnum Samfylkingarinnar við 3. umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2004 er ekki rekstrargrundvöllur hjá fjölmörgum A-hluta stofnunum vegna uppsafnaðs halla. Í félagslega kerfinu bera öryrkjar og aldraðir enn skarðan hlut frá borði, hallann í heilbrigðiskerfinu á m.a. að bæta með hækkuðum þjónustugjöldum. Rekstur Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri er í skilinn eftir í óvissu, þrátt fyrir hækkun skólagjalda. Framhaldsskólar búa áfram við árlegan fjárhagsvanda. Ekki er áætlað fyrir fyrirséðri aukningu lífeyrisskuldbindinga, m.a. vegna kjarasamnings grunnskólakennara. Þannig mætti áfram telja.

Skattahækkanir eða skattalækkanir.
    Ríkisstjórnin hefur undanfarnar vikur haldið mjög á lofti boðuðum skattalækkunum sem eiga að nema 4 milljörðum kr. á næsta ári. Hefur fjármálaráðherra talið að nú væri verið að skila aftur þeim efnahagsbata sem ríkissjóður hefur notið á undanförnum árum. Ef horft er til þeirra skatta- og gjaldahækkana sem dunið hafa yfir á þessu ári og boðaðar eru á því næsta kemur í ljós að þessar skattalækkanir duga ekki til að mæta þeim hækkunum. Í þessu sambandi má benda á eftirfarandi:
    Á þessu ári hækkaði þungaskattur og vörugjald af bensíni um 1.200 millj. kr. Vaxtabætur voru skertar um 600 millj. kr. Afnám frádráttar tryggingargjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skilaði ríkissjóði um 600 millj. kr. Framlag ríkissjóðs vegna sjúkratrygginga lækkaði um 750 millj. kr. Barnabætur voru skertar um 150 millj. kr. og komugjöld á heilbrigðisstofnanir hækkuðu um 50 millj. kr. Þá var nefskattur í framkvæmdasjóð hækkaður um 23 millj. kr. Þá er ótalið að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun; þrátt fyrir það er upphæðin á yfirstandandi ári komin yfir 3 milljarða kr.
    Allar þessar auknu álögur halda áfram á næsta ári og til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka áfengisgjald um 340 millj. kr., hækka aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr., hækka bifreiðagjald um 120 millj. kr., hækka skólagjöld í háskólum um 140 millj. kr. og hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir um 50 millj. kr. Vaxtabætur verða skertar til viðbótar skerðingunni í ár um 300 millj. kr. Framlenging umsýslugjalds fasteigna kostar 280 millj. kr. Breytingar á þungaskatti skila aukalega 350 millj. kr. Þá mun viðbótarhækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra verða um 24 millj. kr. Samtals er þetta komið í tæpa 5 milljarða kr. á næsta ári. Ef hins vegar bæði árin eru lögð saman er hér um að ræða rúma 8 milljarða kr. á móti boðaðri skattalækkun upp á 4 milljarða kr.
    Það er von að spurt sé: Er um að ræða skattahækkun eða skattalækkun? Allt þetta sjónarspil minnir á fyrri vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, fyrst er af fólkinu tekið og síðan er hluta fengsins skilað með mikilli skrautsýningu. Það er eðlilegt að fjármálaráðherra kvarti á hátíðarfundi hjá Sjálfstæðisflokknum um að skattaveisla hans hafi verið misskilin. Allt tal fjármálaráðherra um að verið sé að skila efnahagsbatanum til baka er blekking. Í árslok 2005 er ljóst að ríkissjóður hefur ,,hagnast“ um einhverja milljarða króna á öllum þessum breytingum.

Þróun efnahagsmála.
    Í þjóðhagsáætlun forsætisráðuneytisins frá því í haust er fjallað um helstu atriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og er lögð árhersla á eftirfarandi atriði:
          Tryggja verður jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar.
          Viðhalda þarf jafnvægi í fjármálum ríkisins og halda áfram umbótum í ríkisrekstri.
          Nýta þarf aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum.
          Tryggja verður undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar.
    Enn fremur kemur fram að stefnt er að því að auka enn útgjöld til heilbrigðismála, fræðslumála, almannatrygginga og velferðarmála. Þá er það ætlun ríkisstjórnarinnar að tryggja að nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir bitni ekki á heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða almannatryggingakerfinu. Einnig er það ætlun ríkisstjórnarinnar að fresta framkvæmdum og beita öðrum aðhaldsaðgerðum til að létta undir með peningastefnu Seðlabankans á næstu missirum og árum. Fögur markmið og háleit.
    Ljóst er hins vegar að fjármálaráðherra hefur með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 boðað allt aðra efnahagsstefnu en forsætisráðherra hafði í huga þegar hann samdi þjóðhagsáætlunin. Vissulega eru boðaðar aðhaldsaðgerðir. 1% hagræðingarkrafa sem metin er á 800 millj. kr. er strax tekin til baka með nýjum útgjaldaliðum sem eru margfalt hærri. Frestun á framkvæmdum upp á 1,9 milljarða kr. er aðeins lítið brot af þeim fjárfestingum sem áætlaðar eru á næsta ári. Hins vegar virðist alltaf vera nóg til af fjármunum í ýmis gæluverkefni eins og sérsveitir dómsmálaráðherra, sendiherrabústaði og hernaðarstefnu utanríkisráðherra. Á sama tíma er þrengt að starfsemi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttindamála
    Eins og fyrri ár er ríkisstjórnin aðeins farþegi í efnahagshraðlestinni sem nú brunar nær stjórnlaust um þjóðfélagið. Seðlabankinn hefur af veikum mætti reynt að draga úr ferðinni en mátt sín lítils einn og sér. Fjármálamarkaðurinn lítur ekki lengur á fjárlög og framkvæmd þeirra sem hluta af efnahagsstjórninni og reiknar ekki lengur með þeim í sínum ákvörðunum. Fram undan eru kjarasamningar við opinbera starfsmenn og er gríðarlega mikilvægt að þar takist vel til.
    Minna má á að í ályktun miðstjórnar ASÍ frá 24. nóvember sl. er varað við því að verðbólga er langt umfram forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og að þær umfangsmiklu skattalækkanir sem nú eru boðaðar auki enn á hagstjórnarvandann og geta leitt til vaxandi verðbólgu á næstu missirum. Þá bendir ASÍ á að samtökin hafi ítrekað kallað eftir samstarfi við stjórnvöld um mótun samþættrar stefnu í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum en stjórnvöld hafa ekki sýnt vilja til slíks samráðs. ASÍ mun því þurfa, í samráði við aðildarfélög sín, að endurskoða samskiptin.
    Þessi niðurstaða ASÍ er mikið áhyggjuefni því síðast þegar ríkisstjórnin missti tökin á verðbólgunni lék ASÍ mikilvægt hlutverk við að ná aftur tökum á efnahagslífinu og tryggja stöðugleika á ný. Í þessu ljósi ber að taka aðvaranir ASÍ mjög alvarlega.

Ný þjóðhagsspá Seðlabankans.
    Í gær gaf Seðlabanki Íslands út endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir næsta ár. Samkvæmt henni eru flestar efnahagsforsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005 brostnar.
         

Helstu þjóðhagsstærðir, magnbreytingar, %
Fjárlög
2005
Seðla- banki Mism.
Einkaneysla 5,00 9,50 4,50
Samneysla 2,00 3,10 1,10
Fjárfesting 18,00 20,6 2,60
Þjóðarútgjöld alls 7,50 10,9 3,40
Útflutningur vöru og þjónustu 4,00 5,70 1,70
Innflutningur vöru og þjónustu 10,50 17,20 6,70
Verg landsframleiðsla 5,00 6,10 1,10
Viðskiptajöfnuður – % af landsframleiðslu -11,00 -10,4 0,60

    Seðlabankinn vekur athygli á að frá því í september hafi orðið töluverðar breytingar á verðbólguhorfum. Flest bendi nú til þess að innlend eftirspurn muni aukast hraðar en þá var talið líklegt. Þá bendir hann á að loks hafi áform um lækkun skatta verið staðfest, án þess að nákvæmlega hafi verið skilgreint hvar skuli skera niður útgjöld. Því telur Seðlabankinn að verulegar líkur séu á því að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi. Allt þetta ýtir undir meiri þenslu.
    Lækkun skatta mun auka enn ráðstöfunartekjur almennings og hvetja til aukinnar einkaneyslu. Því telur Seðlabankinn aðhald í útgjöldum hins opinbera brýnt og telur að áform þar um í fjárlögum séu nokkuð metnaðarfull. Hins vegar bendir bankinn á að í ljósi þeirra umsvifa sem fram undan eru verður aðhaldið þó ekki fullnægjandi, jafnvel þótt áformin næðu fram að ganga. Boðað aðhald er að auki almennt orðað og því hætta á framúrkeyrslu í ljósi sögulegrar reynslu.
    Þessi vísan Seðlabankans í sögulega reynslu er í raun það sama og þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið að benda á í umræðum um efnahagsmál síðustu mánuði. Agaleysið í ríkisfjármálum er ein helsta hættan varðandi verðbólguhorfur og stöðugleikann.

Staða stofnana.
    Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn að fara enn einu sinni að minnast á fjárhagsstöðu tiltekinna A-hluta stofnana en hjá því verður ekki komist. Listinn sem fjármálaráðuneytið lagði fram fyrir 3. umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2004 sýnir svo ekki verður um villst að fjármálastjórn hins opinbera er afar slök. Hjá stærstu ráðuneytum, og þeim mikilvægustu í fjárhagslegu tilliti, virðist fjármálastjórnin ekki standast þær kröfur sem gera verður. Það er skýlaust brot á fjárreiðulögunum að taka ekki á vanda stofnana í fjárlögum næsta árs.
    Fjármálaráðherra verður að gera sér grein fyrir því að þessi vandi hverfur ekki með því að tala ekki um hann og láta sem hann sé ekki til. Vandinn heldur aðeins áfram að stækka og verða erfiðari viðfangs. Benda má á að ekki var tekið á vanda framhaldsskólanna svo árum skipti og þegar loks var gerð tilraun til lausnar kostaði það 1 milljarð kr. en þó án þess að vandinn væri að fullu leystur.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.
    Þrátt fyrir fréttir af undirritun menntamálaráðherra á samningi um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík hefur ekkert verið minnst á þessa sameiningu í fjárlagaferlinu. Samkvæmt fréttum er þó gert ráð fyrir að sameinaður skóli eigi að hefja störf næsta haust. Hvernig hægt er að komast hjá því að slík sameining komi við sögu í fjárlögum næsta árs er með miklum ólíkindum. Það er þó í anda vinnubragða ríkisstjórnarinnar því að Alþingi hefur í engu verið gerð grein fyrir hvernig sameiningin eigi að fara fram, þar til loks í gær að lagt var fram frumvarp um málið.
    Fréttir herma að samningurinn feli m.a. í sér að akademískt frelsi starfsfólks og áhrif þess á stjórnun og stefnumótun sé ekki tryggt. En grundavallaratriði í öllu háskólastarfi er akademískt-, stjórnunarlegt- og fjárhagslegt frelsi, í þessari röð. Rekstrarfélag hins nýja skóla er í hlutafélagaformi, sem er efnahagslegur félagsskapur, en slík félög eru í eðli sínu fyrirbrigði sem ætlað er að afla eigendum sínum arðs. Í þessu tilfelli mun þó ekki ætlunin að greiða slíkan arð út. Slíkur einkarekstur á háskólum þekkist vart í hinum vestræna heimi utan örfárra dæma vestanhafs. Ef háskólar eru ekki reknir af ríkinu eru þeir yfirleitt sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar með hagnaði, sbr. bestu háskóla Bandaríkjanna.
    Til viðbótar bendir margt til þess að ekki sé í raun um að ræða eiginlega sameiningu heldur sé ríkið í raun að gefa rekstraraðilum Háskólans í Reykjavík Tækniháskólann. Eignir Tækniháskóla Íslands og viðskiptavild virðast í engu metnar inn í hið nýja hlutafélag og Háskólinn í Reykjavík mun eiga 270 millj. kr. af 300 millj. kr. hlutafé. Afgangur hlutafjárins kemur síðan frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Þessi sérkennilega gjörð kallar á þá spurningu hvort búast megi við fleiri slíkum sameiningum, verður t.d. Viðskiptaháskólanum á Bifröst gefinn Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.
    Þá er ósvarað hvernig farið verður með þann rekstrarhalla sem safnast hefur upp hjá Tækniháskólanum en um síðustu áramót var uppsafnaður halli orðinn um 127 millj. kr. Rétt er að rifja upp að á fjáraukalögum áranna 2002 og 2003 var gerður upp halli Tækniskóla Íslands (forvera Tækniháskólans), samtals 235 millj. kr. Er gert ráð fyrir að uppsafnaður halli Tækniháskólans verði bættur á fjáraukalögum næsta árs eða mun hann fylgja Tækniháskólanum inn í hinn nýja skóla?

Breytingartillögur.
    Við 3. umræðu um fjárlög fyrir árið 2005 leggur Samfylkingin fram breytingartillögur við frumvarpið sem miða að því að jafna áhrif skattalækkana þannig að þær nýtist efnaminna fólki betur en gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar. Auk þess eru lagðar fram tillögur sem miða að sparnaði í ríkisrekstrinum og breyttum áherslum í skiptingu ríkisútgjalda. Gerð er tillaga um að staðið verði við samning við Öryrkjabandalagið og stjórnarliðum þannig gefið tækifæri til að standa við loforð sem gefið var fyrir síðustu alþingiskosningar. Þá er gerð tillaga um að halda þeirri skipan sem verið hefur varðandi stöðu Mannréttindaskrifstofu Íslands á fjárlögum. Heildaráhrif tillagnanna bæta stöðu ríkissjóðs en auk þess er gerð tillaga um að fresta yfirfærslu 5 milljarða kr. af uppsöfnuðum fjárlagaheimildum stofnana sem voru um 16 milljarðar kr. í árslok 2003. Nánar verður gerð grein fyrir tillögunum í umræðunum.

Verklag í fjárlaganefnd.
    Að mati 1. minni hluta þarf fjárlaganefnd m.a. að móta stefnu varðandi þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar við umfjöllun um frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga. Auk þessa þarf nefndin að fylgjast betur með framkvæmd fjárlaga innan ársins og krefja bæði viðkomandi fagráðuneyti og aðra eftirlitsaðila skýrslna um framkvæmd fjárlaganna. Þetta er í samræmi við reglugerð um framkvæmd fjárlaga en skv. 9. gr. reglugerðarinnar ber fjármálaráðuneytinu ársþriðjungslega að taka saman yfirlit um framkvæmd fjárlaga og gera ríkisstjórn og fjárlaganefnd grein fyrir niðurstöðunum. Því miður hefur þessari grein reglugerðarinnar ekki verið fylgt eftir en vonandi skilar sú mikla umræða sem átt hefur sér stað um verklag þeim árangri á næsta ári að yfirlit um framkvæmd fjárlaga berist fjárlaganefnd reglulega.

Lokaorð.
    Strax við 1. umræðu var ljóst að fjárlög fyrir árið 2005 voru andvana fædd. Þess vegna verður þeirra minnst á þann hátt í fjáraukalögum næsta haust og með lokafjárlögum sama árs verða þau endanlega horfin. Það er ábyrgðarhluti af hálfu Alþingis að samþykkja það frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 sem hér er til umræðu. Það felur í sér að ýmsar mikilvægar stofnanir þurfa að skerða verulega þá þjónustu sem Alþingi hefur ákveðið í lögum að landsmenn skuli njóta. Nær þessi skerðing til heilbrigðismála, menntamála og félagsmála eða þeirra málaflokka sem eru mikilvægastir fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.
    Þá hefur Seðlabankinn staðfest að fjárlögin munu ekki duga sem aðhald í efnahagsmálum og jafnvel auka hættu á vaxandi verðbólgu. Það sem fram kom í áliti 1. minni hluta við 2. umræðu stendur allt óhaggað þar sem engar breytingar koma nú fram hjá meiri hluta fjárlaganefndar og er vísað til þess álits til viðbótar því sem fram kemur í þessu framhaldsnefndaráliti.
    Guðjón Arnar Kristjánsson áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd er samþykkur nefndaráliti þessu.

Alþingi, 3. des. 2004.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Jón Gunnarsson.



Fylgiskjal I.


Áskorun stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands.


    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar á Alþingi að fella ekki niður framlag til skrifstofunnar sem hefur verið á fjárlögum síðustu árin. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum á þinginu er gert ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fjórum milljónum af lið dómsmálaráðuneytis og fjórum milljónum af lið utanríkisráðuneytis. Til þess að njóta góðs af þeim þyrfti skrifstofan að sækja sérstaklega um til dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Þetta fyrirkomulag veikir fjárhagslegan grundvöll skrifstofunnar þar sem ekki er hægt að sjá fyrir hver fjárframlög verða. Ennfremur er alvarlega vegið að sjálfstæði skrifstofunnar þegar ákvörðun um framlag til hennar hefur verið færð frá löggjafarvaldinu til framkvæmdavaldsins. Hér getur skapast sú undarlega staða að að skrifstofan sæki um beinan styrk til þess yfirvalds sem lagt hefur fram frumvarp það eða skýrslu sem skrifstofan þarfnast fjármagns til að fjalla um. Stjórn Mannréttindaskrifstofunnar telur nauðsynlegt að framlag til hennar komi frá hæstvirtu Alþingi til að sjálfstæði hennar sé yfir allan vafa hafið.
    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands vill ítreka mikilvægi þess að hér á landi starfi óháð og sjálfstæð stofnun sem sinni mannréttindamálum. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur gegnt þessu hlutverki undanfarin tíu ár. Ennfremur er skrifstofan fulltrúi Íslands í norrænu og alþjóðlegu mannréttindstarfi. Að mati stjórnarinnar væri það mikill álitshnekkir fyrir Ísland ef sú yrði raunin að skrifstofunni væri ekki lengur tryggt fast framlag á fjárlögum og yrði að draga sig út úr þeim samstarfsverkefnum sem hún á aðild að á alþjóðavettvangi.
    Stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands skorar því á hæstvirta þingmenn að beita sér fyrir því að framlag til Mannréttindaskrifstofunnar verði ekki skert frá fyrra ári.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands,
Guðrún D. Guðmundsdóttir,
framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal II.


Áskorun stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International.
(26. nóvember 2004.)


    Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mannréttindaskrifstofan var stofnuð 17. júní 1994. Íslandsdeild Amnesty International er eitt þeirra félaga sem stóð að stofnun skrifstofunnar, ásamt Barnaheillum, Rauða kross Íslands, Unifem á Íslandi, Biskupsstofu, Jafnréttisstofu og fleiri félögum og samtökum. Hvert aðildarfélag starfar að afmörkuðu sviði mannréttinda og eða mannúðarmála og með stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir aðildarfélögin til að samhæfa mannréttindastörf á Íslandi. Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar félagana. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt, staðið hefur verið fyrir fjölmörgum málþingum, yfirgripsmiklar umsagnir um lagafrumvörp hafa verið lagðar fram ásamt viðbótarskýrslum til eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna, komið hefur verið á fót bókasafni með efni um mannréttindi, stuðlað hefur verið að fræðslu á sviði mannréttindamála og ýmsar bækur og rit verið gefin út á vegum Mannréttindaskrifstofunnar.
    Á öllum Norðurlöndum, í flestum Evrópuríkjum og víða annarsstaðar um heiminn starfa mannréttindaskrifstofur sem Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur verið í samvinnu við. Mest samvinna hefur verið við skrifstofurnar á Norðurlöndum og hefur Mannréttindaskrifstofan skipulagt ráðstefnur og fundi hér á landi með fulltrúum ýmissa erlendra mannréttindaskrifstofa. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt aðildarríki til að tryggja að í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofur og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar SÞ um framfylgd samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var þess sérstaklega getið að yfirvöld hér á landi styddu starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands sem eins framlags ríkisins til eflingar mannréttinda á Íslandi, og var því fagnað af hálfu eftirlitsnefndarinnar.
    Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda og hafa ekki umboð til að fjalla um öll mannréttindi í starfsemi sinni. Mannréttindaskrifstofan hefur umboð til að fjalla um öll mannréttindi og sem slík er hún mjög mikilvæg t.d. við gerð umsagna við lagafrumvörp og veitir hún löggjafanum mikilvægt aðhald sem nauðsynlegt er í hverju lýðræðissamfélagi.
    Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að þeir fjármunir nýtist illa og dreifist á marga aðila og einstaklinga. Eins og fram hefur komið standa flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi að Mannréttindaskrifstofunni og stjórn Íslandsdeildar Amnesty International telur að fjármagni til mannréttindamála sé vel varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og tryggja þannig sjálfstæði skrifstofunnar gagnvart framkvæmdavaldinu, þannig að Mannréttindaskrifstofan geti áfram verið sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Í ljósi þessa hvetur stjórn Íslandsdeildar Amnesty International Alþingi til að tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Íslandsdeildar Amnesty International,
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir,
framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal III.


Áskorun Rauða kross Íslands.


    Rauði kross Íslands telur mikilvægt að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái rekstrarfé af fjárlögum í þeim tilgangi að tryggja að á landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Að Mannréttindaskrifstofu Íslands sem stofnuð var árið 1994 standa Rauði kross Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Unifem á Íslandi, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin '78 og Háskólinn á Akureyri,
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila er mun heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um.

Bestu kveðjur,
Sigrún Árnadóttir,
framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.




Fylgiskjal IV.


Áskorun Landssamtakanna Þroskahjálpar.
(30. nóvember 2004.)


    Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi að tryggja áfram rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands. Með tilkomu Mannréttindaskrifstofu Íslands skapaðist vettvangur fyrir félög og stofnanir sem starfa að mannréttindamálum og réttindabaráttu ýmissa hópa til að samhæfa krafta sína með velferð allra í huga. Flest ef ekki öll þau félög sem starfa á vettvangi mannréttinda á Íslandi standa nú að Mannréttindaskrifstofunni. Á tíu ára starfstímabili Mannréttindaskrifstofunnar hefur hún margsannað gildi sitt. Mannréttindaskrifstofan er mikilvægur umsagnaraðili um lagafrumvörp sem snerta mannréttindi og gegnir lykilhlutverki í samstarfi Íslands við mannréttindanefndir Sameinuðu þjóðanna.
    Mannréttindaskrifstofan hefur sjálfstæða stjórn sem í sitja fulltrúar allra félaga sem að henni standa. Eins og fram hefur komið starfa aðildarfélög Mannréttindaskrifstofunnar að afmörkuðum sviðum mannréttinda. Mannréttindaskrifstofan hefur verið þeim sameiginlegur vettvangur mannréttindaumræðu og þannig styrkt félögin í afmörkuðum baráttumálum sem og í sameiginlegri hagsmunabaráttu.
    Tillögur fjárlaganefndar Alþingis eins og þær liggja nú fyrir, þar sem gert er ráð fyrir framlögum til mannréttindamála almennt, fela í sér þá hættu að skaða þessa samstöðu og leiða til flokkadrátta. Landssamtökin Þroskahjálpar telja að fjármagni til mannréttindamála sé betur varið með því að tryggja traustan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands og þar með sjálfstæði hennar, svo Mannréttindaskrifstofan megi áfram vera sú sjálfstæða og óháða stofnun sem sinnir þessum málaflokki á breiðum grundvelli.
    Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því alla þingmenn til að kynna sér fjölbreytt starf Mannréttindaskrifstofunnar og aðildarfélaga hennar og tryggja fastan rekstrargrundvöll Mannréttindaskrifstofu Íslands til frambúðar.

Virðingarfyllst,
f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Halldór Gunnarsson, formaður,
Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri.




Fylgiskjal V.


Áskorun Biskupsstofu Íslands.
(30. nóvember 2004.)


    Biskupsstofa hvetur fjárlaganefnd Alþingis til að veita Mannréttindaskrifstofu Íslands rekstrarfé af fjárlögum. Sjálfstæður rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands tryggir að í landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttindamála.
    Biskupsstofa var meðal stofnaðila að Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem stofnuð var árið 1994. Aðrir sem að henni standa eru Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Rauði kross Íslands, Samtökin '78, Unifem á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands og Háskólinn á Akureyri.
    Eitt af hlutverkum skrifstofunnar er að fylgjast með og gera skýrslur til alþjóðastofnana um starfsemi stjórnvalda á sviði mannréttinda. Til þess að varðveita trúverðugleika allra aðila teljum við heppilegra að Alþingi veiti fé beint til Mannréttindaskrifstofu heldur en að skrifstofan þurfi að sækja um fé til ráðuneyta sem alþjóðleg skýrslugjöf hennar fjallar óhjákvæmilega um. Þá er afar mikilvægt að rekstur skrifstofunnar sé tryggður til að starfsemin sé stöðug og skrifstofan fái notið krafta öflugs fagfólks.

Fyrir hönd Biskupsstofu,
Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir.




Fylgiskjal VI.


SÞ fylgjast með mannréttindamálum hér.
(Fréttir Ríkisútvarpsins, 1. desember 2004.)


    Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Louise Arbour, kveðst ætla að fylgjast grannt með þróun mannréttindamála á Íslandi eftir að stjórnvöld ákváðu að hætta að styrkja Mannréttindaskrifstofu Íslands á föstum fjárlögm. Hún segir það ganga gegn vilja alþjóðasamfélagsins þegar starfsemi mannréttindastofnana eru takmörkuð.
    Louise Arbour, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, kveðst ætla að fylgjast grannt með þróun mannréttindamála á Íslandi, eftir að stjórnvöld ákváðu að hætta að styrkja Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hún segir að málaflokknum sé best borgið hjá sjálfstæðri stofnun sem heyri undir þjóðþing hvers lands.
    Margar norrænar mannréttindastofnanir undirbúa nú bréf til íslenskra stjórnvalda, þar sem sú ákvörðun að hætta fjárveitingum til Mannréttindaskrifstofu íslands er hörmuð.
    Kanadíski dómarinn Louise Arbour var nýlega skipuð æðsti yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún gegndi áður embætti æðsta saksóknara við stríðsglæpadómstólinn í Haag vegna stríðsglæpa í Rúanda og fyrrverandi lýðveldum Júgóslavíu.
    Louise Arbour sat opinn fund hjá dönsku mannréttindastofnuninni í Kaupmannahöfn í dag. Hún lagði þar áherslu á að eftir hryðjuverkaárásir undanfarinna ára væri nauðsynlegt að óháðar mannréttindastofnanir hefðu eftirlit með því að aðgerðir gegn hryðjuverkum gengju ekki gegn alþjóðasáttmálum um mannréttindi. Ástand mannréttindamála á Íslandi kom til tals á fundinum þar sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hætta að veita fé til reksturs Mannréttindaskrifstofu Íslands og gera henni þessi í stað að sækja um árlega styrki. Margir óttast að þar með sé sjálfstæði mannréttindaskrifstofunnar stefnt í hættu.
    Louise Arbour kveðst ekki þekkja til málsins en segist ætla að fylgjast af miklum áhuga með þróun þess héðan í frá. Hún segir að meginhlutverk mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna sé að aðstoða ríki við að byggja upp óháðar eftirlitsstofnanir með mannréttindum í hverju ríki.
    Arbour segir að reynslan sýni að sterkar innlendar mannréttindastofnanir séu áhrifamesta aðferðin til að vinna að mannréttindum í hverju ríki. Mannréttindaskrifstofa Íslands heyrir að vísu ekki undir Alþingi, eins og venjan er erlendis, en hefur gegnt hlutverki slíkrar stofnunar til þessa. Louise Arbour sagði að lokum að sérhver aðgerð til að draga úr áhrifum mannréttindastofnana gangi gegn hugmyndum og vilja alþjóðasamfélagsins.



Fylgiskjal VII.


Umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar
um tekjuhlið frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005.


    Frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2005 endurspeglar aðhaldsleysi í ríkisfjármálum. Frumvarpið gerir ráð fyrir 8% úttgjaldaaukningu ríkissjóðs á árinu 2005, borið saman við 2004, meðan verðbólguspá gerir ráð fyrir 3,5% verðbólgu á næsta ári. Það er því ljóst að sá afgangur sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir stendur engan veginn undir þeirri kröfu sem gera verður til aðhalds í ríkisfjármálum við þær aðstæður sem eru í hagkerfinu. Fulltrúi Seðlabankans sem kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar taldi að 25–30 milljarða kr. afgangur væri eðlileg krafa um afgang hjá ríkissjóði við þessar aðstæður. Jafnvel ætti að gera ráð fyrir enn meiri afgangi, í ljósi aukningar sem bankinn gerir ráð fyrir í einkaneyslu á næsta ári. Þetta endurspeglar aðhaldsleysi í ríkisfjármálunum, enda boðar bankinn meiri vaxtahækkun en nokkurn tíma eða 1% í einu stökki og frekari vaxtahækkanir á næsta ári.
    Í desemberriti Seðlabankans um peningamál, sem geymir nýjustu spá bankans um þróun efnahagsmála, kemur fram að flest bendi til þess að innlend eftirspurn muni vaxa enn hraðar en talið var í spá fjármálaráðuneytisins, eða um 9,5 % í stað 5% sem fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Það muni kynda undir verðbólgu verði ekkert að gert. Þá segir enn fremur m.a. í spá Seðlabankans:
    „Áform um skattalækkanir hafa nú verið staðfest í frumvarpi til fjárlaga. Lækkun skatta mun auka enn á ráðstöfunartekjur almennings og hvetja til aukinnar einkaneyslu. Aðhald í útgjöldum hins opinbera er því brýnt. Áform þar um í fjárlögum eru nokkuð metnaðarfull. Í ljósi þeirra umsvifa sem fram undan eru verður aðhaldið þó ekki fullnægjandi, jafnvel þótt áformin næðu fram að ganga. Að auki er boðað aðhald almennt orðað og því hætta á framúrkeyrslum í ljósi sögulegrar reynslu.“
    Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um álit Seðlabankans á frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Bankinn segir á kurteislegan hátt að aðhald í ríkisfjármálum sé ekki sem skyldi og að ólíklegt sé í ljósi sögulegrar reynslu að jafnvel áform um aðhald nái fram að ganga. Þessi staðreynd geti gefið verðbólgunni byr undir báða vængi takist ekki á annan hátt að draga úr þenslunni. Boðaðar vaxtahækkanir munu, a.m.k. til skamms tíma, koma niður á almenningi og fyrirtækjum vegna þess hve skuldsett þjóðin er orðin. Það er því hætta á að boðaðar skattalækkanir til handa almenningi verði teknar til baka út um bakdyrnar í formi hærri afborgana og vaxta.
    Við þær aðstæður sem nú eru uppi í ríkisfjármálunum fær fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar falleinkun hvað varðar markmið og áform um að beita aðhaldi í ríkisfjármálunum við þær aðstæður sem nú eru í hagkerfinu. Fjárlagafrumvarpið sé nær því að vera eins og eðlilegra væri í hagkerfi sem væri að berjast við samdrátt en ekki þenslu eins og raunin er hjá okkur. Skilaboðin eru skýr; ef verðbólgan á ekki að fara á skrið verður að beita stífum aðhaldsaðgerðum. Seðlabankinn gerir ráð fyrir frekari vaxtahækkunum og gerir kröfu til ríkisins um að það sýni mikið aðhald í ríkisrekstrinum.

Alþingi, 2. des. 2004.



Lúðvík Bergvinsson.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson.
Álfheiður Ingadóttir.




Fylgiskjal VIII.


Auka þarf aðhald peningastefnunnar.
Úr ársfjórðungsriti Seðlabanka Íslands, Peningamál.
(21. rit. Desember 2004.)


    Að óbreyttum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sýnir ný verðbólguspá að horfur væru á töluvert meiri verðbólgu næstu tvö árin en bankinn hefur áður spáð. Bankastjórnin hefur því ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 1 prósentu í 8,25 prósentur frá 7. desember nk. Vaxtahækkunin er hin sjötta á þessu ári og hafa stýrivextir bankans alls verið hækkaðir um 2,95 prósentur síðan í maí sl. Jafnframt hefur bankastjórnin ákveðið að í lok ársins verði hætt gjaldeyriskaupum til styrkingar á gjaldeyrisforða bankans. Gjaldeyriskaup bankans munu frá þeim tíma miða að því einu að standa undir greiðslum af erlendum lánum ríkissjóðs.
     Seðlabankinn birti síðast verðbólguspá í júní sl. Þá var útlit fyrir vaxandi verðbólgu á síðari hluta yfirstandandi árs og fyrri hluta þess næsta, en hjaðnandi verðbólgu um miðbik ársins 2005, uns hún tæki að aukast nokkuð á ný árið 2006. Lagt var mat á horfurnar í þriðja hefti Peningamála 2004, sem kom út 17. september. Niðurstaðan var að verðbólguhorfur hefðu batnað nokkuð til skamms tíma en versnað til lengri tíma litið. Þar átti hlut að máli hækkun stýrivaxta og sterkara gengi krónunnar, sem dró úr verðbólgu til skamms tíma litið. Horfur á hraðari vexti innlendrar eftirspurnar og framvindan á innlendum lánamarkaði bentu hins vegar til þess að framleiðsluspenna myndi aukast meira á næstu tveimur árum en spáð var í júní og ásamt hækkandi innflutningsverði kynda undir verðbólgu þegar líða tæki á spátímabilið.
    Frá því í september hafa töluverðar breytingar orðið á verðbólguhorfum. Flest bendir til þess að innlend eftirspurn muni vaxa enn hraðar en þá var talið líklegt. Umfang stóriðjuáformanna hefur vaxið, einkum á næsta ári, bæði vegna áforma Norðuráls og breytinga á tímasetningum framkvæmda Fjarðaáls. Þá hefur samkeppni á milli lánastofnana á sviði fasteignaveðlána magnast eftir að bankarnir brugðust við auknum umsvifum Íbúðalánasjóðs með því að bjóða einstaklingum fasteignaveðlán og endurfjármögnun eldri lána á lægri vöxtum en áður. Aðgangur almennings að lánsfé er eftir þessar breytingar orðinn mun greiðari en áður og vextir verðtryggðra fasteignaveðlána lægri en um langt skeið. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Útlán til einstaklinga hafa aukist hröðum skrefum og verð stórra fasteigna hefur hækkað skarpt. Loks hafa áform um lækkun skatta á næstu árum verið staðfest, án þess að nákvæmlega hafi verið skilgreint hvar skuli skera niður útgjöld á móti. Því verður að telja verulegar líkur á að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi. Allt leggst þetta á eitt um að ýta undir meiri þenslu og þar með meiri verðbólguþrýsting en horfur voru á þegar Seðlabankinn hóf að hækka vexti í maí sl. og gerði verðbólguspá sína sem birt var í Peningamálum 2004/2 í júní sl.
     Í þessu hefti Peningamála er spáð mun hraðari vexti innlendrar eftirspurnar en í júní. Fyrir vikið verður framleiðsluspenna, þ.e.a.s. munur framleiðslu og metinnar framleiðslugetu þjóðarbúskaparins, meiri á árunum 2005 og 2006 en í fyrri spám bankans. Árið 2006 er áætlað að framleiðsluspenna muni nema 5% af landsframleiðslu í stað rúmlega 2% í júníspánni. Vaxandi framleiðsluspenna mun kynda undir verðbólgu síðari hluta spátímabilsins ef ekkert verður að gert.
    Mikilvægt er að undirstrika að spáin sem lýst er í þessu hefti Peningamála er sem fyrr byggð á þeirri forsendu að stýrivextir Seðlabankans og gengi krónunnar breytist ekki á spátímabilinu. Hún sýnir þá verðbólgu sem talin er líklegust að óbreyttum stýrivöxtum og gengi krónunnar frá nóvember 2004. Fráviksdæmi sem birt eru auk meginspárinnar sýna mikilvægi þess að Seðlabankinn bregðist hratt við þeim aðstæðum sem framundan eru. Með hækkun stýrivaxta sem kynnt var hér að framan hefur bankinn þegar tekið skref í átt til þess að verðbólga verði minni en felst í spánni.
    Vaxtahækkunin nú er óvenju mikil. Hana verður að skoða í ljósi þess hve hratt aðstæður á lánamarkaði hafa breyst að undanförnu, að meginþungi fjárfestingar í virkjunum og álbræðslum er skammt undan og að umsvifin sem þeim tengjast munu aukast hraðar en áður var talið. Þá ber að líta til þess að þrátt fyrir að stýrivextir hafi verið hækkaðir fimm sinnum um samtals tæpar 2 prósentur frá maí til nóvember voru raunstýrivextir í lok nóvember miðað við verðbólguálag óverðtryggðra ríkisskuldabréfa aðeins litlu ef nokkru hærri en metnir náttúrulegir raunvextir á Íslandi, þ.e.a.s. raunvextir sem að meðaltali yfir hagsveifluna má ætla að samræmist jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Verðbólguvæntingar hafa verið hærri en æskilegt er og dregið úr áhrifamætti vaxtahækkana Seðlabankans. Það kann svo aftur að hafa átt þátt í því að halda verðbólguvæntingum háum. Með því að hækka vexti meira í einu skrefi nú en venja hefur verið leitast Seðlabankinn við að tryggja að væntir raunvextir bankans hækki, bæði fyrir tilstilli hærri nafnvaxta og lægri verðbólguvæntinga. Það endurspeglar þann ásetning bankans að peningastefnan veiti nægilegt aðhald til þess að halda verðbólgu í skefjum þegar framkvæmdaþunginn kemst á enn hærra stig.
    Að gefnum óbreyttum stýrivöxtum bankans eins og þeir voru í nóvember væru horfur á að verðbólga yrði umtalsvert meiri en 2½% verðbólgumarkmiðið þegar launaliðir kjarasamninga geta komið til endurskoðunar í nóvember á næsta ári. Verðbólguhorfur á því tímabili hafa versnað töluvert frá síðustu spá. Leiði mikil verðbólga til frekari launahækkana myndu verðbólguhorfur árið 2006 versna enn frekar. Það gæti leitt til þess að grípa þyrfti til meiri vaxtahækkana á árinu 2006. Til þess að hafa nægilega skjót áhrif á verðbólguna á þessu tímabili þarf að bregðast hratt og tímanlega við.
    Sem fyrr segir hafa raunstýrivextir Seðlabankans verið á mörkum þess sem telja má náttúrulega raunstýrivexti á Íslandi. Í reynd hafa fjármálaleg skilyrði innlánsstofnana verið rýmri en sem því nemur. Góð lausafjárstaða þeirra birtist í því að vextir á peningamarkaði hafa verið nokkru lægri en stýrivextir bankans. Rúma lausafjárstöðu má meðal annars rekja til mikils innstreymis erlends lánsfjár. Gjaldeyriskaup Seðlabankans og lækkun bindiskyldu árið 2003 hafa einnig aukið lausafjárframboð. Lækkun á hreinni skuld innlánsstofnana við Seðlabankann í formi endurhverfra viðskiptasamninga og kaup þeirra á innstæðubréfum hafa að miklu leyti vegið upp þessa aukningu lauss fjár, en ekki að fullu. Lausafjáraukningin er óheppileg við núverandi aðstæður, auk þess sem gjaldeyrisforðinn er nú kominn í viðunandi stærð. Að auki hefur gætt þeirrar túlkunar meðal markaðsaðila að með gjaldeyriskaupum sínum hafi Seðlabankinn í reynd leitast við að stuðla að stöðugu gengi krónunnar, þrátt fyrir yfirlýst markmið bankans. Í ljósi þess að áhrif stýrivaxta á gengi krónunnar eru mikilvæg miðlunarleið peningastefnunnar þegar aðgangur að erlendu lánsfé er greiður er brýnt að hún sé óhindruð, eins og nánar er skýrt í umfjöllun um stefnuna í peningamálum í kaflanum um þróun og horfur í efnahags- og peningamálum hér á eftir. Með þetta í huga hefur bankinn m.a. ákveðið að hætta kaupum á gjaldeyri til eflingar gjaldeyrisforðanum.
    Áform um skattalækkanir hafa nú verið staðfest í frumvarpi til fjárlaga. Lækkun skatta mun auka enn á ráðstöfunartekjur almennings og hvetja til aukinnar einkaneyslu. Aðhald í útgjöldum hins opinbera er því brýnt. Áform þar um í fjárlögum eru nokkuð metnaðarfull. Í ljósi þeirra umsvifa sem framundan eru verður aðhaldið þó ekki fullnægjandi, jafnvel þótt áformin næðu fram að ganga. Að auki er boðað aðhald almennt orðað og því hætta á framúrkeyrslum í ljósi sögulegrar reynslu. Fari svo þarf peningastefnan að vera aðhaldssamari en ella og þá er hætt við að neikvæð hliðaráhrif hennar verði meiri. Seðlabankinn mun ekki hvika frá því markmiði að halda verðbólgu sem næst 2½%, eins og honum ber. Líklegt er að bankinn þurfi að grípa til frekari aðgerða á næstu mánuðum til að tryggja framgang markmiðsins. Ekki verður hjá því komist að ýmsir geirar atvinnulífsins og heimilin finni fyrir því aðhaldi. Þau finna þó minna fyrir tímanlegum aðgerðum í peningamálum þegar upp er staðið en þau gerðu verði verðbólga ekki hamin.