Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 437. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 643  —  437. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2004 frá 4. júní 2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2004 frá 4. júní 2004, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.
    Tilskipun 2003/71/EB fjallar um útboðs- og skráningarlýsingar. Hún kveður meðal annars á um þær lágmarksupplýsingar sem fram þurfa að koma þegar fjármálagerningar eru boðnir í almennu útboði eða skráðir í kauphöll. Tilskipunin miðar að því að tryggja vernd fjárfesta, virkni fjármálamarkaðarins í Evrópu og gegnsæi. Með tilkomu þessarar tilskipunar á að verða auðveldara og ódýrara fyrir evrópsk fyrirtæki að hasla sér völl á sameinuðum markaði í Evrópu enda munu fjárfestar hafa aðgang að samhæfðum og samræmdum upplýsingum sem þeir eiga að geta reitt sig á. Því ætti aðgangur fyrirtækja að auknu fjármagni að verða greiðari innan Evrópu með tilkomu tilskipunarinnar. Tilskipunin heimilar að útboðslýsing sé samsett úr þremur skjölum (e. registration document, securities note, summary) eða einu skjali. Jafnframt er mögulegt að nota svokallaða grunn-útboðslýsingu (e. base-prospectus). Þá fjallar tilskipunin um lágmarksupplýsingagjöf vegna fjármálagerninga sem gefnir eru út af ríkjum innan Evrópusambandsins annars vegar og utan Evrópusambandsins hins vegar, sem og stofnunum á þeirra vegum eða staðbundnu stjórnvaldi. Einnig er fjallað um lágmarksupplýsingagjöf um sögulegar fjárhagslegar upplýsingar vegna fjármálagerninga sem gefnir eru út af ríkjum innan Evrópusambandsins, svo sem skýrslu endurskoðenda, fjárhagsleg uppgjör og samþykktir. Framkvæmdastjórnin hefur gefið út eina reglugerð á grunni tilskipunarinnar. Hún fjallar um innihald útboðslýsinga og birtingarform ásamt því sem hún hefur að geyma reglur um birtingu auglýsinga um almenn útboð fjármálagerninga og/eða skráningu þeirra í kauphöll.
    Lokið skal við innleiðingu tilskipunarinnar eigi síðar en í júlí 2005. Viðskiptaráðuneytið vinnur nú að undirbúningi frumvarps til að leiða tilskipunina í lög hér á landi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 73/2004

frá 4. júní 2004

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        II. viðauka við samninginn var breytt með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem undirritaður var 14. október 2003 í Lúxemborg ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi bætist við í 24. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB):

         „ , eins og henni var breytt með:

         -          32003 L 0071: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64).“

2.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 29a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB):

         „29b.     32003 L 0071: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2003/71/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 5. júní 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 4. júní 2004.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    S. Gillespie

    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/71/EB
frá 4. nóvember 2003
um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 44. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópu ( 2 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun ráðsins 80/390/EBE frá 17. mars 1980 til samræmingar á kröfum um gerð, athugun og dreifingu á útboðs- og skráningarlýsingum sem birta skal þegar verðbréf eru tekin til opinberrar skráningar á verðbréfaþingi ( 5 ) og 89/298/EBE frá 17. apríl 1989 um samræmingu á kröfum við gerð, athugun og dreifingu á útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð framseljanlegra verðbréfa ( 6 ) voru samþykktar fyrir nokkrum árum en með þeim var komið á takmarkaðri og flókinni tilhögun gagnkvæmrar viðurkenningar sem nær ekki að uppfylla markmiðið um Evrópupassa eins og kveðið er á um í þessari tilskipun. Þessar tilskipanir ber að endurbæta, uppfæra og sameina í einn texta.
2)          Í millitíðinni var tilskipun 80/390/EBE felld inn í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf ( 7 ) sem kerfisbindur nokkrar tilskipanir á sviði skráðra verðbréfa.
3)          Til að tryggja samræmi er samt sem áður rétt að sameina þau ákvæði tilskipunar 2001/34 /EB, sem rekja má til tilskipunar 80/390/EBE, tilskipun 89/298/EBE og breyta tilskipun 2001/34/EB til samræmis við það.
4)          Þessi tilskipun er grundvallarskjal fyrir tilkomu innri markaðarins, eins og tilgreint er í tímaáætlun í orðsendingum framkvæmdastjórnarinnar: „Aðgerðaráætlun á sviði áhættufjármagns“ og „Að setja ramma um starfsemi fjármálamarkaða: Aðgerðaráætlun“, og skapar eins greiðan aðgang að fjárfestingarfé innan Bandalagsins og hægt er, þ.m.t. fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og sprotafyrirtæki, með því að veita útgefendum Evrópupassa.
5)          Þann 17. júlí 2000 skipaði ráðið vísdómsmannanefnd um regluverk yfir verðbréfamarkaði í Evrópu. Í frumskýrslu sinni frá 9. nóvember 2000 leggur nefndin áherslu á að ekki sé til nein sameiginleg skilgreining á almennu útboði verðbréfa sem hefur í för með sér að sama aðgerð telst vera lokað útboð verðbréfa í sumum aðildarríkjum en ekki í öðrum. Núverandi kerfi letur fyrirtæki til að afla fjármagns innan alls Bandalagsins og þar með til að hafa aðgang að stórum, skilvirkum og samþættum fjármálamarkaði.
6)          Í lokaskýrslu sinni frá 15. febrúar 2001 lagði vísdómsmannanefndin fram tillögu um nýjar aðferðir við lagasetningu sem byggja á fjórum stigum, þ.e. rammareglum, framkvæmdarráðstöfunum, samstarfi og framfylgd. Þannig takmarkast 1. stig, tilskipunin, við víðar, almennar „rammareglur“ en 2. stig felur í sér tæknilegar framkvæmdarráðstafanir sem framkvæmdastjórnin ákveður með aðstoð nefndar.
7)          Á fundi sínum í Stokkhólmi 23. og 24. mars 2001 áritaði leiðtogaráðið lokaskýrslu vísdómsmannanefndarinnar og fyrirhugaða fjögurra stiga aðferð sem á að gera lagasetningarferli Bandalagsins á sviði verðbréfa skilvirkara og gagnsærra.
8)          Með ályktun Evrópuþingsins frá 5. febrúar 2002 um framkvæmd löggjafar um fjármálaþjónustu var skýrsla vísdómsmannanefndarinnar einnig árituð, á grundvelli drengskaparheits, sem framkvæmdastjórnin gaf þinginu sama dag, og bréfs frá 2. október 2001, sem fulltrúi fyrir innri markaðinn sendi formanni nefndar á vegum þingsins um efnahags- og peningamál, um að standa vörð um hlutverk Evrópuþingsins í þessu ferli.
9)          Samkvæmt fundi leiðtogaráðsins í Stokkhólmi ber að beita 2. stigs framkvæmdarráðstöfunum oftar til að tryggja að tæknileg ákvæði verði uppfærð til samræmis við þróun markaðarins og eftirlitsmála, einnig að setja beri fresti fyrir alla áfanga á 2. stigi.
10)          Markmiðið með þessari tilskipun og framkvæmdarráðstöfunum hennar er að tryggja vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins, í samræmi við stranga eftirlitsstaðla sem eru samþykktir á viðeigandi alþjóðlegum vettvangi.
11)          Verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, gefin út af aðildarríki, svæðis- eða staðaryfirvaldi aðildarríkis, opinberri alþjóðlegri stofnun, sem eitt eða fleiri aðildarríki eru aðilar að, Seðlabanka Evrópu eða seðlabönkum aðildarríkjanna, falla ekki undir þessa tilskipun og því hefur hún ekki áhrif á þau. Framangreindum útgefendum er samt sem áður heimilt, ef þeir kjósa svo, að semja útboðs- og skráningarlýsingu í samræmi við þessa tilskipun.
12)          Í því skyni að tryggja vernd fjárfesta þurfa ákvæðin að taka til allra verðbréfa sem eru hlutabréf og verðbréfa sem ekki eru hlutabréf, sem boðin eru í almennu útboði eða skráð á skipulegan markað eins og skilgreint er í tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 1 ), en ekki aðeins verðbréfa sem hafa verið opinberlega skráð í kauphöllum. Hin víða skilgreining á verðbréfum í þessari tilskipun, þ.m.t. áskriftarréttur, varinn áskriftarréttur og skírteini, gildir aðeins í þessari tilskipun og hefur þar af leiðandi engin áhrif á ýmsar skilgreiningar á fjármálagerningum sem notaðar eru í löggjöf einstakra ríkja í öðru samhengi, m.a. varðandi skattlagningu. Sum verðbréf, sem eru skilgreind í þessari tilskipun, veita handhafa rétt til að kaupa framseljanleg verðbréf eða fá uppgjör í reiðufé við uppgreiðslu samnings sem ákvarðast af vísun til annarra þátta, einkum framseljanlegra verðbréfa, gjaldmiðla, vaxta eða ávöxtunarkröfu, hrávöru eða annarra vísitalna eða mælikvarða. Hlutaskírteini og breytanleg skuldabréf, t.d. verðbréf sem eru breytanleg að vali fjárfestisins, rúmast innan skilgreiningarinnar á verðbréfum, sem ekki eru hlutabréf, sem sett er fram í þessari tilskipun.
13)          Litið skal svo á að útgáfa verðbréfa af svipaðri gerð og/eða í svipuðum flokki, þegar um er að ræða verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, sem eru gefin út á grundvelli útboðsáætlunar, þ.m.t. áskriftarréttur og hvers konar skírteini, sem og samfelld eða endurtekin útgáfa verðbréfa, taki ekki eingöngu til eins verðbréfa heldur einnig verðbréfa sem tilheyra, almennt séð, sama flokki. Þessi verðbréf geta tekið til mismunandi fjármálaafurða eins og skuldabréfa, skírteina, áskriftarréttinda, eða sömu afurðar innan sömu áætlunar, og geta haft mismunandi einkenni einkum að því er varðar forgang, tegundir skjala sem liggja til grundvallar eða á hverju ákvörðun um innlausnarupphæð eða arðmiðagreiðslu byggist.
14)          Til að hægt sé að veita útgefanda Evrópupassa, sem gildir alls staðar í Bandalaginu, og beita meginreglunni um upprunaland þarf að vera gengið út frá því að heimaaðildarríkið sé það ríki sem er best í stakk búið til að hafa eftirlit með útgefandanum í samræmi við þessa tilskipun.
15)          Kröfur um upplýsingar samkvæmt þessari tilskipun koma ekki í veg fyrir að aðildarríki, lögbært yfirvald eða kauphöll setji, samkvæmt reglum sínum, aðrar sérstakar kröfur í tengslum við skráningu verðbréfa á skipulegan markað (einkum að því er varðar stjórnarhætti fyrirtækja). Slíkar kröfur mega ekki, beint eða óbeint, takmarka samningu, innihald og dreifingu útboðs- og skráningarlýsingu sem lögbært yfirvald hefur samþykkt.
16)          Eitt af markmiðum þessarar tilskipunar er að vernda fjárfesta. Það er því viðeigandi að tekið sé tillit til mismunandi krafna um vernd fyrir hina ýmsu flokka fjárfesta með mismunandi stig sérþekkingar. Ekki er krafist birtingar útboðs- og skráningarlýsingar ef útboð takmarkast við fagfjárfesta. Á hinn bóginn er gerð krafa um birtingu útboðs- og skráningarlýsingar ef um er að ræða endursölu til almennings eða almenn viðskipti eftir skráningu á skipulegan markað.
17)          Útgefendur, tilboðsgjafar eða aðilar, sem óska eftir að skrá verðbréf á skipulegan markað, sem ekki þarf að birta útboðs- og skráningarlýsingu fyrir, munu njóta góðs af Evrópupassa ef þeir uppfylla ákvæði þessarar tilskipunar.
18)          Ítarlegar upplýsingar um verðbréf og útgefendur þeirra stuðla, ásamt reglum um starfshætti fyrirtækja, að vernd fjárfesta. Ennfremur eru slíkar upplýsingar vel til þess fallnar að auka tiltrú almennings á verðbréfum og stuðla þannig að eðlilegri starfsemi og þróun verðbréfamarkaða. Í því skyni að koma þessum upplýsingum á framfæri er viðeigandi að birta útboðs- og skráningarlýsingu.
19)          Fjárfesting í verðbréfum hefur í för með sér áhættu eins og allar aðrar fjárfestingar. Í öllum aðildarríkjum er krafist öryggisráðstafana til að vernda hagsmuni fjárfesta og hugsanlegra fjárfesta til að gera þeim kleift að meta slíka áhættu á upplýstan hátt og taka þannig upplýsta fjárfestingarákvörðun.
20)          Þessar upplýsingar þurfa að vera nægjanlegar og eins hlutlægar og unnt er að því er varðar fjárhag útgefandans og réttindi sem fylgja verðbréfunum og settar fram á eins auðgreinanlegan og auðskilinn hátt og unnt er. Samræming upplýsinga í útboðs- og skráningarlýsingunni ætti að veita fjárfestum innan Bandalagsins jafngilda vernd.
21)          Upplýsingar gegna lykilhlutverki við vernd fjárfesta. Rétt er að í útboðs- og skráningarlýsingu sé samantekt á helstu atriðum varðandi útgefanda, ábyrgðaraðila og verðbréfin og áhættu sem tengist þeim. Til að tryggja auðvelt aðgengi að þessum upplýsingum er rétt að samantektin sé ekki skrifuð á tæknimáli og sé, að öllu jöfnu, ekki lengri en 2 500 orð á því tungumáli sem útboðs- og skráningarlýsingin var upphaflega samin á.
22)          Teknar hafa verið upp bestu starfsvenjur á alþjóðavettvangi til að gera kleift að nota samræmda staðla um birtingu upplýsinga, sem Alþjóðasamtök eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (IOSCO) hafa samið, við útboð verðbréfa yfir landamæri. Birtingarstaðlar Alþjóðasamtaka eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði ( 1 ) munu bæta þær upplýsingar, sem eru aðgengilegar fyrir markaðinn og fjárfesta, og samhliða því einfalda málsmeðferð fyrir útgefendur í Bandalaginu, sem óska eftir að afla fjármagns í þriðju löndum. Í tilskipuninni er þess einnig farið á leit að samdir verði staðlar um birtingu upplýsinga sem skal beita gagnvart öðrum verðbréfum og útgefendum.
23)          Flýtimeðferð fyrir útgefendur skráðra verðbréfa á skipulegum markaði, sem afla oft hlutafjár á þessum mörkuðum, kallar á að tekið verði upp nýtt snið á útboðs- og skráningarlýsingum á vettvangi Bandalagsins fyrir útboðsáætlanir eða fasteignatryggð skuldabréf, sem og nýtt skráningarkerfi fyrir lýsingar á útgefendum. Útgefendur geta valið um að nota ekki þessar fyrirmyndir heldur semja útboðs- og skráningarlýsinguna sem stakt skjal.
24)          Efni grunnútboðs- og skráningarlýsingar skal taka sérstakt tillit til sveigjanleikaþarfar varðandi þær upplýsingar sem veita skal um verðbréfin.
25)          Heimilt skal vera að sleppa því að birta viðkvæmar upplýsingar, sem eiga að vera í útboðs- og skráningarlýsingu, að fenginni undanþágu sem lögbært yfirvald gefur út við sérstakar aðstæður, til að forða útgefanda frá skaðlegum aðstæðum.
26)          Tilgreina ber skýrt og greinilega gildistíma útboðs- og skráningarlýsingar til að koma í veg fyrir úreltar upplýsingar.
27)          Vernda ber fjárfesta með því að tryggja birtingu áreiðanlegra upplýsinga. Útgefendur verðbréfa, sem eru skráð á skipulegan markað, eru háðir viðvarandi upplýsingaskyldu en ekki er krafist að þeir gefi reglulega út uppfærðar upplýsingar. Auk þessarar skyldu ber útgefendum, a.m.k. árlega, að gera skrá yfir allar viðeigandi upplýsingar sem hafa verið birtar eða verið aðgengilegar almenningi síðustu tólf mánuðina, þ.m.t. upplýsingar til að uppfylla ýmis konar tilkynningaskyldu sem mælt er fyrir um í löggjöf Bandalagsins. Þetta ætti að tryggja að gagnorðar og auðskiljanlegar upplýsingar séu birtar reglulega. Til að koma í veg fyrir óhóflega fyrirhöfn tiltekinna útgefenda skal þess ekki krafist að útgefendur verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, með hátt lágmarksnafnvirði uppfylli þessa skyldu.
28)          Nauðsynlegt er að aðildarríkin hafi viðeigandi eftirlit með þeim árlegu upplýsingum, sem útgefanda verðbréfa, sem hafa verið skráð á skipulegan markað, ber að láta í té, í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt ákvæðum Bandalagsins og landslaga um eftirlit með verðbréfum, útgefendum verðbréfa og verðbréfamörkuðum.
29)          Ef útgefendum er gert kleift að fella upplýsingar inn í útboðs- og skráningarlýsingu með tilvísun í skjöl, sem innihalda upplýsingar sem birtast í útboðs- og skráningarlýsingu, með því skilyrði að þau skjöl hafi þegar verið lögð inn eða samþykkt af lögbæru yfirvaldi, mun það auðvelda vinnu við samningu útboðs- og skráningarlýsingar og lækka kostnað fyrir útgefendur, án þess að stofna vernd fjárfesta í hættu.
30)          Mismunur á skilvirkni, vinnuaðferðum og tímasetningu athugunar á upplýsingum í útboðs- og skráningarlýsingu gerir fyrirtækjum ekki einungis erfitt um vik að afla fjármagns eða að fá verðbréf sín skráð á skipulegum markaði í fleiri en einu aðildarríki heldur hindrar það einnig fjárfesta, sem hafa staðfestu í einu aðildarríki, í að kaupa verðbréf af útgefanda sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki eða verðbréf sem eru skráð í öðru aðildarríki. Þennan mismun ber að uppræta með samræmingu laga og reglna til þess að öryggisráðstafanir, sem krafist er í aðildarríkjunum, verði að nægilegu marki jafngildar og tryggt sé að upplýsingar, veittar eigendum verðbréfa eða þeim sem kunna að eignast þau, séu fullnægjandi og eins hlutlægar og unnt er.
31)          Til að auðvelda dreifingu ýmissa skjala sem útboðs- og skráningarlýsingin samanstendur af ber að hvetja til notkunar rafrænna samskiptamiðla eins og Netsins. Útboðs- og skráningarlýsingu ber ætíð að afhenda fjárfestum á pappír, þeim að kostnaðarlausu, óski þeir þess.
32)          Útboðs- og skráningarlýsingu ber að leggja inn hjá viðeigandi lögbæru yfirvaldi og skal útgefandi, tilboðsgjafi eða sá, sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegum markaði, gera hana aðgengilega almenningi, sbr. þó ákvæði Evrópusambandsins um gagnavernd.
33)          Einnig er mikilvægt að samræma auglýsingar til að koma í veg fyrir að smugur séu í löggjöf Bandalagsins sem gætu grafið undan tiltrú almennings og þar með haft skaðleg áhrif á eðlilega starfsemi fjármálamarkaða.
34)          Fjárfestar skulu eiga kost á að meta á réttan hátt allar nýjar aðstæður, sem geta haft áhrif á mat á fjárfestingu og koma fram eftir að útboðs- og skráningarlýsing hefur verið birt en áður en útboði lýkur eða viðskipti hefjast á skipulegum markaði, og því er þess krafist að samþykkt sé viðbót við útboðs- og skráningarlýsinguna og henni dreift.
35)          Sú skylda útgefanda að láta þýða alla útboðs- og skráningarlýsinguna á öll viðeigandi, opinber tungumál dregur úr útboðum yfir landamæri eða viðskiptum í fleiri aðildarríkjum. Til að auðvelda útboð yfir landamæri skal gisti- eða heimaaðildarríki einungis eiga rétt á að krefjast þess að fá samantekt á opinberu tungumáli eða tungumálum þess ef útboðs- og skráningarlýsingin er samin á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum.
36)          Lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins skal eiga rétt á því að fá í hendur staðfestingu frá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins þar sem fram kemur að útboðs- og skráningarlýsingin hafi verið samin í samræmi við þessa tilskipun. Í því skyni að tryggja að markmiðum þessarar tilskipunar verði fullkomlega náð er einnig nauðsynlegt að undir gildissvið hennar falli verðbréf, sem gefin eru út af útgefendum sem lúta lögum þriðju landa.
37)          Ef mörg, mismunandi lögbær yfirvöld eru í aðildarríkjunum, sem gegna mismunandi skyldustörfum, kann það að skapa óþarfakostnað og skörun ábyrgðar en hefur ekki í för með sér nokkurn viðbótarávinning. Í hverju aðildarríki ber að tilnefna eitt lögbært yfirvald til að samþykkja útboðs- og skráningarlýsingar og taka að sér eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar. Aðildarríki skal heimilt, samkvæmt ströngum skilyrðum, að tilnefna fleiri en eitt lögbært yfirvald en aðeins eitt þeirra skal annast alþjóðasamvinnu. Þetta yfirvald eða yfirvöld skulu vera stjórnsýslulegs eðlis og með því formi að sjálfstæði þeirra frá rekstraraðilum sé tryggt og komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra. Tilnefning lögbærs yfirvalds til að samþykkja útboðs- og skráningarlýsingar skal ekki útiloka samvinnu á milli þessa yfirvalds og annarra stofnana í því skyni að tryggja skilvirka athugun og samþykkt útboðs- og skráningarlýsinga í þágu útgefenda, fjárfesta, markaðsaðila og markaðanna sjálfra. Endurskoða ber alla úthlutun verkefna í tengslum við þær skuldbindingar sem kveðið er á um í þessari tilskipun og í framkvæmdarráðstöfunum hennar í samræmi við 31. gr., fimm árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar og skal henni hætt átta árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar, nema að því er varðar birtingu samþykktra útboðs- og skráningarlýsinga á Netinu og viðtöku þeirra, eins og um getur í 14. gr.
38)          Það mun tryggja skilvirkt eftirlit ef lögbær yfirvöld ráða yfir sameiginlegum lágmarksheimildum. Tryggja ber upplýsingastreymi til markaðanna, eins og krafist er í tilskipun 2001/34/EB, og lögbær yfirvöld skulu grípa til aðgerða gegn brotum.
39)          Samvinna milli lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna er nauðsynleg til að þau geti uppfyllt þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar.
40)          Af og til kann að vera nauðsynlegt að semja tæknilegar leiðbeiningar og gera framkvæmdarráðstafanir um þær reglur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun með hliðsjón af þróun fjármálamarkaða. Til samræmis við það skal framkvæmdastjórnin hafa vald til að samþykkja framkvæmdarráðstafanir, að því tilskildu að þær breyti ekki tilskipun þessari í grundvallaratriðum og að framkvæmdastjórnin fari eftir þeim meginreglum sem settar eru fram í þessari tilskipun, að höfðu samráði við evrópsku verðbréfanefndina sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/528/EB ( 1 ).
41)          Við beitingu framkvæmdarvalds í samræmi við þessa tilskipun skal framkvæmdastjórnin virða eftirfarandi meginreglur:
         —    þörfina á að tryggja að minni fjárfestar og lítil og meðalstór fyrirtæki hafi tiltrú á fjármálamörkuðunum með því að stuðla að gagnsæi þeirra,
         —    þörfina á að sjá fjárfestum fyrir miklu framboði á samkeppnishæfum fjárfestingarmöguleikum og upplýsingum og vernd sem er sniðin að þörfum þeirra,
         —    þörfina á að tryggja að óháð eftirlitsyfirvöld framfylgi reglum á samræmdan hátt, einkum í baráttunni gegn hvítflibbabrotum,
         —    þörfina á miklu gagnsæi og samráði við alla markaðsaðila og við Evrópuþingið og ráðið,
         —    þörfina á að hvetja til nýsköpunar á fjármálamörkuðum til að þeir verði öflugir og skilvirkir,
         —    þörfina á að tryggja stöðugleika fjármálakerfisins með því að hafa náið og gagnvirkt eftirlit með nýsköpun á fjármálasviðinu,
         —    mikilvægi þess að draga úr fjármagnskostnaði og auka aðgengi að fjármagni,
         —    þörfina á, þegar til lengri tíma er litið, að halda jafnvægi milli kostnaðar markaðsaðila (þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki og minni fjárfestar) við framkvæmdarráðstafanir og ávinnings af þeim,
         —    þörfina á að stuðla að alþjóðlegri samkeppnishæfni fjármálamarkaða Bandalagsins án þess að það hafi áhrif á löngu tímabæra eflingu alþjóðlegs samstarfs,
         —    þörfina á að koma á jöfnum samkeppnisskilyrðum fyrir alla markaðsaðila með því að semja eftir þörfum löggjöf Bandalagsins,
         —    þörfina á að virða þann mismun sem er á innlendum fjármálamörkuðum, svo fremi mismunurinn hafi ekki ótilhlýðileg áhrif á samfellu hins eina óskipta markaðar,
         —    þörfina á að tryggja samhengi við aðra löggjöf Bandalagsins á þessu sviði, þar eð ósamræmi í upplýsingum og skortur á gagnsæi getur teflt starfsemi markaðanna í tvísýnu og umfram allt skaðað neytendur og minni fjárfesta.
42)          Evrópuþingið skal hafa þrjá mánuði frá því að fyrstu drög að framkvæmdarráðstöfunum eru send til að kynna sér drögin og láta álit sitt í ljós. Þann tíma er þó heimilt að stytta í áríðandi og tilhlýðilega rökstuddum tilvikum. Fari ályktun í gegnum Evrópuþingið á þessu tímabili skal framkvæmdastjórnin endurskoða drögin að ráðstöfununum.
43)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um kerfi viðurlaga við brotum gegn þeim ákvæðum landslaga, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
44)          Kveða ber á um að unnt sé að láta dómsvöld endurskoða ákvarðanir sem lögbær yfirvöld aðildarríkjanna taka varðandi beitingu þessarar tilskipunar.
45)          Í samræmi við meðalhófsregluna er nauðsynlegt og viðeigandi, til að ná því grunnmarkmiði að tryggja tilkomu eins, óskipts verðbréfamarkaðar, að setja reglur um Evrópupassa fyrir útgefendur. Þessi tilskipun gengur ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná fram settum markmiðum, í samræmi við þriðju málsgrein 5. gr. sáttmálans.
46)          Í mati framkvæmdastjórnarinnar á beitingu þessarar tilskipunar skal einkum lögð áhersla á samþykkisferli lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna á útboðs- og skráningarlýsingum og almennt séð á beitingu heimalandsreglunnar og hvort vandamál varðandi vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins eigi rætur að rekja til þessarar beitingar. Framkvæmdastjórnin skal einnig skoða hvernig 10. gr. gegnir hlutverki sínu.
47)          Að því er varðar framtíðarþróun þessarar tilskipunar ber að leggja áherslu á það hvaða tilhögun samþykkis beri að innleiða til að samræma enn frekar beitingu löggjafar Bandalagsins um útboðs- og skráningarlýsingar, þ.m.t. hugsanlega stofnun samstarfsvettvangs á verðbréfasviði í Evrópu.
48)          Í þessari tilskipun er tekið tillit til grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem m.a. eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
49)          Gerðar skulu nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Markmið og gildissvið

1.     Markmiðið með þessari tilskipun er að samræma kröfur um samningu, samþykki og dreifingu útboðs- og skráningarlýsingar, sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru skráð á skipulegan markað sem er staðsettur eða starfræktur innan aðildarríkis.
2.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    hlutdeildarskírteini sem fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, önnur en lokuð, gefa út,
b)    verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, gefin út af aðildarríki, svæðis- eða staðaryfirvaldi aðildarríkis, opinberri, alþjóðlegri stofnun, sem eitt eða fleiri aðildarríki eru aðilar að, Seðlabanka Evrópu eða seðlabönkum aðildarríkjanna,
c)    hlutabréf í seðlabönkum aðildarríkjanna,
d)    verðbréf sem aðildarríki eða svæðis- eða staðaryfirvald aðildarríkis ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega,
e)    verðbréf sem eru gefin út af samtökum með réttarstöðu lögaðila eða stofnunum sem eru ekki reknar í hagnaðarskyni, sem aðildarríki viðurkennir í því skyni að þær megi finna nauðsynleg úrræði til að ná markmiðum sínum, sem byggjast ekki á hagnaðarvon,
f)    verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, sem lánastofnanir gefa út samfellt eða með endurteknum hætti, að því tilskildu að þessi verðbréf:
    i)    séu ekki víkjandi, breytanleg eða skiptanleg,
    ii)    veiti ekki rétt til að skrá sig fyrir eða kaupa aðrar tegundir verðbréfa og að þau séu ekki tengd afleiddum gerningum,
    iii)    geri að veruleika móttöku endurkrefjanlegra innlána,
    iv)    heyri undir innlánatryggingakerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19 /EB um innlánatryggingakerfi ( 1 ),
g)    óvirkt hlutafé þar sem meginmarkmiðið er að veita handhafa rétt til umráða yfir íbúð eða annarri tegund fasteignar eða hluta hennar og þar sem ekki er hægt að selja hlutabréfin án þess að afsala sér þessum rétti,
h)    verðbréf sem eru hluti af útboði að heildarfjárhæð undir 2 500 000 evrum og miðast útreikningurinn á þeim mörkum við 12 mánaða tímabil,
i)    „bostadsobligationer“ (íbúðaskuldbindingar) sem endurtekið eru gefnar út af lánastofnunum í Svíþjóð þar sem megintilgangurinn er að veita veðlán, að því tilskildu að
    i)    „bostadsobligationer“ sem eru gefnar út, tilheyri sama flokki,
    ii)    „bostadsobligationer“ séu gefnar út eftir hendinni á tilteknu útgáfutímabili,
    iii)    skilmálum og skilyrðum „bostadsobligationer“ sé ekki breytt á útgáfutímabilinu,
    iv)    andvirði af útgáfu framangreindra „bostadsobligationer“, í samræmi við samþykktir útgefandans, sé komið fyrir í eignum sem veita fullnægjandi tryggingu gegn bótaábyrgð sem tengist verðbréfum,
j)    verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, sem lánastofnanir gefa út samfellt eða með endurteknum hætti, þar sem heildarfjárhæð útboðsins er undir 50 000 000 evrum og miðast útreikningurinn á þeim mörkum við 12 mánaða tímabil, að því tilskildu að þessi verðbréf:
    i)    séu ekki víkjandi, breytanleg eða skiptanleg,
    ii)    veiti ekki rétt til að skrá sig fyrir eða kaupa aðrar tegundir verðbréfa og að þau séu ekki tengd afleiddum skjölum.
3.     Þrátt fyrir b-, d-, h-, i- og j-lið 2. mgr. skal útgefandi, tilboðsgjafi eða sá sem óskar eftir skráningu á skipulegan markað eiga rétt á að semja útboðs- og skráningarlýsingu, í samræmi við þessa tilskipun, við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „verðbréf“: framseljanleg verðbréf, eins og skilgreint er í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE að undanskildum peningamarkaðsskjölum, eins og skilgreint er í 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE, með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir. Hægt er að beita innlendri löggjöf um þessi skjöl,
b)    „hlutabréf“: hlutir og önnur framseljanleg verðbréf sem eru jafngild hlutabréfum í félögum ásamt hvers kyns öðrum tegundum framseljanlegra hlutabréfa sem veita rétt til að kaupa einhver hinna framangreindu verðbréfa með því að breyta þeim eða nýta þann rétt sem þau veita, að því tilskildu að verðbréf af síðarnefndu tegundinni séu gefin út af útgefanda hlutabréfanna, sem liggja til grundvallar, eða af aðila sem tilheyrir fyrirtækjahópi áðurnefnds útgefanda,
c)    „verðbréf, sem ekki eru hlutabréf“: öll verðbréf sem ekki eru hlutabréf,
d)    „almennt útboð verðbréfa“: hvers kyns boð til aðila, með hvaða aðferð sem er, þar sem settar eru fram fullnægjandi upplýsingar um skilmála útboðs og verðbréfanna sem eru boðin til kaups til að gera fjárfesti kleift að ákveða að kaupa eða að láta skrá sig fyrir þessum verðbréfum. Þessi skilgreining gildir einnig þegar verðbréf eru sett á markað fyrir milligöngu fjármálamilliliða,
e)    „fagfjárfestir“:
    i)    lögaðilar sem hafa starfsleyfi eða sinna lögverndaðri starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t.: lánastofnanir, fjárfestingarfyrirtæki, aðrar fjármálastofnanir sem hafa starfsleyfi eða njóta lögverndar, vátryggingarfélög, sameiginlegir fjárfestingarsjóðir og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra, seljendur vöru sem og aðilar sem ekki hafa starfsleyfi eða njóta lögverndar en þar sem markmið félagsins er einungis að fjárfesta í verðbréfum,
    ii)    ríkisstjórnir og héraðsstjórnir, seðlabankar, alþjóðlegar og yfirríkjastofnanir, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar svipaðar alþjóðastofnanir,
    iii)    aðrir lögaðilar sem uppfylla ekki tvær af þremur viðmiðunum sem settar eru fram í f- lið,
    iv)    aðildarríki getur, með fyrirvara um gagnkvæma viðurkenningu, kosið að veita einstaklingum, sem eru búsettir í aðildarríkinu og óska sérstaklega eftir því, leyfi til að teljast fagfjárfestar ef þessir einstaklingar uppfylla a.m.k. tvær af þeim viðmiðunum sem settar eru fram í 2. mgr.,
    v)    aðildarríki getur, með fyrirvara um gagnkvæma viðurkenningu, kosið að veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem eru með skráða skrifstofu í aðildarríkinu og sem hafa óskað sérstaklega eftir því, leyfi til að teljast fagfjárfestar,
f)    „lítil og meðalstór fyrirtæki:“ félög, sem samkvæmt síðasta ársreikningi eða samstæðureikningi sínum, uppfylla a.m.k. tvær af eftirfarandi þremur viðmiðunum: meðalfjöldi starfsmanna á fjárhagsárinu var innan við 250, niðurstöðutala efnahagsreiknings fór ekki yfir 43 000 000 evrur og hrein ársvelta fór ekki yfir 50 000 000 evrur,
g)    „lánastofnun“: fyrirtæki, eins og skilgreint er í a- lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ),
h)    „útgefandi“: lögaðili sem gefur út verðbréf eða leggur til að verðbréf verði gefin út,
i)    „einstaklingur sem lætur fara fram útboð“ (eða „tilboðsgjafi“): lögaðili eða einstaklingur sem býður almenningi verðbréf til kaups,
j)    „skipulegur markaður“: markaður eins og hann er skilgreindur í 13. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE,
k)    „útboðsáætlun“: áætlun um útgáfu verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, þ.m.t. kaupréttur, af hvaða formi sem er, af svipaðri gerð og/eða í svipuðum flokki, samfellt eða með endurteknum hætti á tilgreindu útgáfutímabili,
l)    „verðbréf sem eru gefin út samfellt eða með endurteknum hætti“: útgáfa eftir hendinni eða a.m.k. tvær útgáfur verðbréfa af svipaðri tegund eða flokki á 12 mánaða tímabili,
m)    „heimaaðildarríki“:
    i)    að því er varðar alla útgefendur verðbréfa í Bandalaginu, sem eru ekki tilgreindir í ii-lið, aðildarríkið þar sem útgefandinn er með skráða skrifstofu,
    ii)    að því er varðar sérhvern útgefanda verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, þar sem nafnvirð hverrar einingar nemur a.m.k. 1 000 evrum, og sérhverja útgáfu verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, og sem veita rétt til að kaupa framseljanleg verðbréf eða fá uppgjör í reiðufé af þeirri ástæðu að þeim hafi verið breytt eða réttur sem þau veita hafi verið nýttur, að því tilskildu að útgefandi verðbréfanna, sem ekki eru hlutabréf, sé ekki útgefandi verðbréfanna sem liggja þar til grundvallar eða aðili sem tilheyrir hópi síðarnefnds útgefanda, aðildarríki þar sem útgefandi er með skráða skrifstofu eða þar sem verðbréfin voru eða munu verða skráð á skipulegan markað eða þar sem almennt útboð verðbréfa fer fram, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess, sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á. Sömu reglur skulu gilda um verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, sem eru í öðrum gjaldmiðli en evrum, að því tilskildu að lágmarksnafnverð þeirra jafngildi nánast 1 000 evrum,
    iii)    að því er varðar alla útgefendur verðbréfa sem eru skráðir í þriðja landi og eru ekki tilgreindir í ii-lið, aðildarríkið þar sem ætlunin er að láta fara fram almennt útboð verðbréfa í fyrsta sinn eftir gildistökudag þessarar tilskipunar eða þar sem fyrsta umsókn um skráningu á skipulegan markað er lögð fram, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á, með fyrirvara um síðari tíma val útgefenda, sem skráðir eru í þriðja landi ef heimaaðildarríkið var ekki ákvarðað samkvæmt þeirra vali,
n)    „gistiaðildarríki“: ríki þar sem almennt útboð fer fram eða þar sem sótt er um skráningu á markaði ef það ríki er ekki heimaaðildarríkið,
o)    „fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, önnur en lokuð“: verðbréfasjóðir og fjárfestingarfélög:
    i)    sem hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjár sem almenningur hefur lagt fram og sem starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu,
    ii)    sem hlutdeildarskírteini í eru beint eða óbeint endurkeypt eða innleyst að ósk eiganda gegn greiðslu af eignum fyrirtækjanna,
p)    „hlutdeildarskírteini fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu“: verðbréf sem fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu gefa út sem vottorð um rétt þátttakenda til eigna fyrirtækisins,
q)    „samþykki“: jákvæð niðurstaða úr athugun lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins á því hvort útboðs- og skráningarlýsingin sé fullnægjandi, þ.m.t. hvort viðkomandi upplýsingar séu samræmdar og skýrar,
r)    „grunnútboðs- og skráningarlýsing“: útboðs- og skráningarlýsing sem inniheldur allar viðeigandi upplýsingar, eins og tilgreint er í 5. og 7. gr., og í 16. gr. ef um er að ræða viðbót, um útgefanda og verðbréfin, sem bjóða á út á almennum markaði eða taka til skráningar, og, að vali útgefanda, endanlega skilmála útboðsins.
2.     Við beitingu iv-liðar e-liðar 1. mgr. eru viðmiðanirnar sem hér segir:
a)    fjárfestirinn hefur stundað umtalsverð viðskipti á verðbréfamörkuðum næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi,
b)    verðgildi verðbréfasamvals fjárfestisins nemur meira en hálfri milljón evra,
c)    fjárfestirinn gegnir eða hefur gegnt stöðu á fjármálasviði sem krefst þekkingar á fjárfestingum í verðbréfum.
3.     Eftirfarandi ákvæði skulu gilda að því er varðar iv- og v-lið e-liðar 1. mgr:
Öll lögbær yfirvöld skulu tryggja að til staðar séu viðeigandi aðferðir til að skrá einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki sem teljast til fagfjárfesta, að teknu tilliti til þess að tryggja verður fullnægjandi gagnavernd. Skráin skal vera tiltæk öllum útgefendum. Hver einstaklingur eða lítið og meðalstórt fyrirtæki, sem óskar eftir að teljast til fagfjárfesta, skal skrá sig og hverjum skráðum fjárfesti er heimilt að segja sig úr henni hvenær sem er.
4.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir í tengslum við skilgreiningarnar sem um getur í 1. mgr., þ.m.t. leiðréttingar talna sem eru notaðar í skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að teknu tilliti til löggjafar Bandalagsins og tilmæla sem og hagþróunar og ráðstafana varðandi birtingu upplýsinga um skráningu einstakra fagfjárfesta.

3. gr.
Skylda til að birta útboðs- og skráningarlýsingu

1.     Aðildarríkin skulu ekki leyfa almennt útboð verðbréfa á yfirráðasvæðum sínum án undangenginnar birtingar útboðs- og skráningarlýsingar.
2.     Ekki er skylt að birta útboðs- og skráningarlýsingu þegar um er að ræða eftirfarandi tegundir útboða:
a)    útboð verðbréfa, sem beint er eingöngu til fagfjárfesta, og/eða
b)    útboð verðbréfa sem beint er til færri en 100 einstaklinga eða lögaðila í hverju aðildarríki, annarra en fagfjárfesta, og/eða
c)    útboð verðbréfa sem beint er til fjárfesta þar sem hver fjárfestir kaupir verðbréf fyrir a.m.k. 50 000 evrur í hverju útboði fyrir sig, og/eða
d)    útboð verðbréfa þar sem nafnverð hverrar einingar nemur a.m.k. 50 000 evrum, og/eða
e)    útboð verðbréfa að heildarfjárhæð undir 100 000 evrum og miðast útreikningurinn á þeim mörkum við 12 mánaða tímabil.
Þó skal litið á síðari endursölu verðbréfa, sem áður voru boðin út í einni eða fleiri tegundum útboða sem um getur í þessari málsgrein, sem sérstakt útboð og skal skilgreiningin, sem er sett fram í d-lið 1. mgr. 2. gr., skera úr um hvort sú endursala teljist vera almennt útboð verðbréfa. Þegar verðbréf eru sett á markað fyrir milligöngu fjármálamilliliða, skal birta útboðs- og skráningarlýsingu ef endanlegt útboð uppfyllir ekkert skilyrðanna í a- til e-lið.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að skráning allra verðbréfa á skipulegan markað, sem er staðsettur eða starfar á yfirráðasvæði þeirra, sé háð birtingu útboðs- og skráningarlýsingar.

4. gr.
Undanþágur frá skyldunni um að birta útboðs- og skráningarlýsingu

1.     Ekki er skylt að birta útboðs- og skráningarlýsingu þegar um er að ræða almennt útboð eftirfarandi tegunda verðbréfa:
a)    hlutabréfa, sem eru gefin út í stað hlutabréfa sem þegar hafa verið gefin út í sama flokki, ef útgáfu hinna nýju hlutabréfa fylgir ekki aukning á útgefnu hlutafé,
b)    verðbréf sem boðin eru í tengslum við yfirtöku í skiptiútboði, að því tilskildu að fyrir liggi skjal með upplýsingum sem lögbært yfirvald telur vera jafngildar þeim sem eru í útboðs- og skráningarlýsingunni, að teknu tilliti til krafna í löggjöf Bandalagsins,
c)    verðbréf sem boðin eru, úthlutað eða sem til stendur að úthluta í tengslum við samruna, að því tilskildu að fyrir liggi skjal með upplýsingum sem lögbært yfirvald telur vera jafngildar þeim sem eru í útboðs- og skráningarlýsingunni, að teknu tilliti til krafna í löggjöf Bandalagsins,
d)    hlutabréf sem eru boðin út, og úthlutað er eða sem til stendur að úthluta endurgjaldslaust til hluthafa, sem fyrir eru, og arður greiddur í formi hlutabréfa sem eru í sama flokki og hlutabréfin sem arðurinn er greiddur af, að því tilskildu að fyrir liggi skjal með upplýsingum um fjölda hlutabréfanna og eðli þeirra, ástæðum fyrir útboðinu og ítarlegum upplýsingum um það,
e)    verðbréf sem eru boðin út og úthlutað eða sem til stendur að úthluta til núverandi eða fyrrverandi stjórnenda eða starfsmanna af hálfu vinnuveitanda sem á verðbréf sem eru skráð á skipulegum markaði eða af hálfu eignatengds fyrirtækis, að því tilskildu að fyrir liggi skjal með upplýsingum um fjölda verðbréfanna og eðli þeirra, ástæðum fyrir útboðinu og ítarlegum upplýsingum um það.
2.     Ekki er skylt að birta útboðs- og skráningarlýsingu þegar um er að ræða skráningu eftirfarandi tegunda verðbréfa á skipulegan markað:
a)    hlutabréf sem á 12 mánaða tímabili nema innan við 10% af fjölda hlutabréfa í sama flokki sem hafa þegar verið skráð á sama skipulega markað,
b)    hlutabréf sem eru gefin út í stað hlutabréfa í sama flokki, sem hafa þegar verið skráð á sama skipulega markað, ef útgáfu slíkra hlutabréfa fylgir ekki aukning á útgefnu hlutafé,
c)    verðbréf sem eru boðin út í tengslum við yfirtöku í skiptiútboði, að því tilskildu að fyrir liggi skjal með upplýsingum sem lögbært yfirvald telur vera jafngildar þeim sem eru í útboðs- og skráningarlýsingunni, að teknu tilliti til krafna í löggjöf Bandalagsins,
d)    verðbréf sem eru boðin út og úthlutað eða til stendur að úthluta í tengslum við samruna, að því tilskildu að fyrir liggi skjal með upplýsingum sem lögbært yfirvald telur vera jafngildar þeim sem eru í útboðs- og skráningarlýsingunni, að teknu tilliti til krafna í löggjöf Bandalagsins,
e)    hlutabréf sem eru boðin út og úthlutað er eða sem til stendur að úthluta endurgjaldslaust til hluthafa, sem fyrir eru, og arður greiddur í formi hlutabréfa sem eru í sama flokki og hlutabréfin sem arðurinn er greiddur af, að því tilskildu að hlutabréfin séu í sama flokki og þau hlutabréf sem þegar hafa verið skráð á sama skipulega markað og að fyrir liggi skjal með upplýsingum um fjölda hlutabréfanna og eðli þeirra, ástæðum fyrir útboðinu og ítarlegum upplýsingum um það,
f)    verðbréf sem eru boðin út, og úthlutað eða sem til stendur að úthluta til núverandi eða fyrrverandi stjórnenda eða starfsmanna af hálfu vinnuveitanda þeirra eða eignatengds fyrirtækis, að því tilskildu að áðurnefnd verðbréf séu í sama flokki og verðbréfin sem þegar eru skráð á sama skipulegan markað og að fyrir liggi skjal með upplýsingum um fjölda verðbréfanna og eðli þeirra, ástæðum fyrir útboðinu og nákvæmri útlistun á því,
g)    hlutabréf sem eru til komin með breytingu á eða eftir skipti á öðrum verðbréfum eða með því að beita rétti sem önnur verðbréf veita, að því tilskildu að verðbréfin séu í sama flokki og þau sem þegar eru skráð á sama skipulega markað,
h)    verðbréf, sem þegar eru skráð á öðrum skipulegum markaði, með eftirfarandi skilyrðum:
    i)    að þessi verðbréf eða verðbréf í sama flokki hafi verið skráð á þessum skipulega markaði í meira en 18 mánuði,
    ii)    að samþykkt útboðs- og skráningarlýsing, sem komið er á framfæri við almenning í samræmi við 14. gr., tengist skráningu á þennan skipulega markað þegar um er að ræða verðbréf sem eru fyrst skráð á skipulegan markað eftir gildistökudag þessarar tilskipunar,
    iii)    að þegar um er að ræða verðbréf sem voru fyrst skráð eftir 30. júní 1983, nema þau tilvik sem falla undir ii-lið, hafi skráningarlýsing verið samþykkt í samræmi við kröfur tilskipunar 80/390/EBE eða tilskipunar 2001/34/EB,
    iv)    að áhvílandi skyldur við skráningu á hinn skipulega markað hafi verið uppfylltar,
    v)    að sá sem sækir um skráningu verðbréfs á skipulegan markað samkvæmt þessari undanþágu semji samantekt, sem almenningur hefur aðgang að, á tungumáli sem lögbært yfirvald aðildarríkisins, þar sem sótt er um skráningu á skipulegan markað, samþykkir,
    vi)    að samantektin, sem um getur í v-lið, sé aðgengileg almenningi í því aðildarríki þar sem sótt er um skráningu á skipulegan markað, með þeim hætti sem sett er fram í 2. mgr. 14. gr., og
    vii)    að innihald samantektarinnar samræmist 2. mgr. 5. gr. Þar að auki skal tilgreint í henni hvar hægt sé að nálgast nýjustu útboðs- og skráningarlýsinguna og hvar fjármálaupplýsingarnar, sem útgefandi birtir samkvæmt viðvarandi upplýsingaskyldu, eru aðgengilegar.
3.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi b- og c-lið 1. mgr. og c- og d-lið 2. mgr., nánar tiltekið að því er varðar merkingu orðsins jafngildur.

II. KAFLI
SAMNING ÚTBOÐS- OG SKRÁNINGARLÝSINGAR
5. gr.
Útboðs- og skráningarlýsingin

1.     Með fyrirvara um 2. mgr. 8. gr. skal útboðs- og skráningarlýsingin hafa að geyma upplýsingar sem, með hliðsjón af eðli útgefandans og verðbréfanna sem eru boðin út á almennum markaði eða sótt er um skráningu á, eru nauðsynlegar til að gera fjárfestum kleift að meta, á grundvelli upplýsinga, eignir og skuldir, fjárhagsstöðu, hagnað og tap og rekstrarhorfur útgefandans og ábyrgðaraðila hans, ef einhver er, og réttindi sem verðbréfunum fylgja. Þessar upplýsingar skulu settar fram á auðgreinanlegan og auðskilinn hátt.
2.     Útboðs- og skráningarlýsingin skal hafa að geyma upplýsingar um útgefandann og verðbréfin sem fyrirhugað er að bjóða út á almennum markaði eða skrá á skipulegan markað. Hún skal einnig fela í sér samantekt. Í samantektinni, sem skal vera stutt og ekki á tæknimáli, skulu taldir upp mikilvægir eiginleikar og áhætta sem tengist útgefandanum, öllum ábyrgðaraðilum og verðbréfunum, á sama tungumáli og útboðs- og skráningarlýsingin var upphaflega samin á. Í samantektinni skal einnig vera viðvörun um:
a)    að hana beri að lesa sem inngang að útboðs- og skráningarlýsingunni,
b)    að ákvörðun fjárfestis um að fjárfesta í verðbréfunum skuli tekin á grundvelli útboðs- og skráningarlýsingarinnar í heild,
c)    að ef farið er fyrir dómstóla með kröfu, sem varðar upplýsingar í útboðs- og skráningarlýsingu, gæti fjárfestirinn sem kærir, samkvæmt innlendri löggjöf aðildarríkjanna, þurft að bera kostnað af þýðingu útboðs- og skráningarlýsingarinnar áður en málareksturinn hefst, og
d)    að einkaréttarábyrgð fellur á þá einstaklinga sem lögðu fram samantektina, þ.m.t. þýðingu á henni, og sóttu um tilkynningu um hana en þó einungis ef samantektin er villandi, ónákvæm eða í ósamræmi við aðra hluta útboðs- og skráningarlýsingarinnar.
Ef útboðs- og skráningarlýsingin varðar skráningu verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, á skipulegan markað, sem eru að nafnverði a.m.k. 50 000 evrur, skal þess ekki krafist að lögð sé fram samantekt nema aðildarríki fari fram á það eins og kveðið er á um í 4. mgr. 19. gr.
3.     Með fyrirvara um 4. mgr. er útgefanda, tilboðsgjafa eða þeim, sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan markað, heimilt að semja útboðs- og skráningarlýsingu sem eitt, stakt skjal eða fleiri aðskilin skjöl. Í útboðs- og skráningarlýsingu, sem samanstendur af fleiri en einu skjali, skal umbeðnum upplýsingum skipt upp í lýsingu á útgefanda, verðbréfalýsingu og samantekt. Lýsing á útgefanda skal innihalda upplýsingar sem varða útgefandann. Verðbréfalýsingin skal hafa að geyma upplýsingar um verðbréfin, sem eru boðin í almennu útboði, eða skulu skráð á skipulegan markað.
4.     Útboðs- og skráningarlýsing fyrir eftirfarandi tegundir verðbréfa getur, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess, sem óskar eftir skráningu á skipulegan markað, falist í grunnútboðs- og skráningarlýsingu, sem hefur að geyma allar viðeigandi upplýsingar um útgefandann og verðbréfin sem eru boðin í almennu útboði eða skulu skráð á skipulegan markað:
a)    verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, þ.m.t. allar tegundir af kauprétti sem eru gefnar út samkvæmt útboðsáætlun,
b)    verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, sem lánastofnanir gefa út samfellt eða með endurteknum hætti,
    i)    ef andvirðið af útgáfu framangreindra verðbréfa, samkvæmt innlendri löggjöf, er fjárfest í eignum sem veita fullnægjandi vernd gegn bótaábyrgð sem getur leitt af verðbréfunum fram að gjalddaga þeirra,
    ii)    ef, í tilviki gjaldþrots tengdu lánastofnunarinnar, á fyrst og fremst að nota umræddar upphæðir til að endurgreiða eigið fé og gjaldfallna vexti, sbr. þó ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana ( 1 ).
Bæta skal uppfærðum upplýsingum um útgefanda og verðbréfin, sem á að bjóða í almennu útboði eða skrá á skipulegan markað, við upplýsingarnar í grunnútboðs- og skráningarlýsingunni, ef þörf krefur, í samræmi við 16. gr.
Ef endanlega skilmála útboðsins er hvorki að finna í grunnútboðs- og skráningarlýsingunni eða viðbót við hana skulu þeir látnir fjárfestum í té og lagðir inn hjá lögbæru yfirvaldi í hvert sinn sem fram fer almennt útboð, eins fljótt og unnt er og áður en útboðið fer fram, ef mögulegt er. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 8. gr. skulu gilda í öllum slíkum tilvikum.
5.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi framsetningu útboðs- og skráningarlýsingar eða grunnútboðs- og skráningarlýsingar og viðbóta við hana.

6. gr.
Ábyrgð sem stofnað er til vegna útboðs- og skráningarlýsingarinnar

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að ábyrgð vegna upplýsinganna, sem gefnar eru í útboðs- og skráningarlýsingunni, hvíli a.m.k. á útgefanda eða stjórnunar-, framkvæmdar- eða eftirlitsstofnun hans, tilboðsgjafa, þeim, sem óskar eftir skráningu á skipulegan markað eða ábyrgðaraðila, eftir því sem við á. Þeir, sem bera ábyrgðina, skulu tilgreindir með skýrum hætti í útboðs- og skráningarlýsingunni með nafni og stöðuheiti eða, ef um er að ræða lögaðila, heiti og skráðri skrifstofu, auk þess sem fylgja skal yfirlýsing frá þeim þess efnis að samkvæmt þeirra bestu vitund séu upplýsingarnar, sem útboðs- og skráningarlýsingin hefur að geyma, í samræmi við staðreyndir og að ekki sé neinum upplýsingum sleppt í útboðs- og skráningarlýsingunni sem kynnu að skipta máli varðandi innihald hennar.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að lög og stjórnsýslufyrirmæli þeirra um einkaréttarábyrgð taki til þeirra sem bera ábyrgð á upplýsingunum í útboðs- og skráningarlýsingunni.
Aðildarríkin skulu þó tryggja að engin einkaréttarábyrgð falli á neinn aðila eingöngu á grundvelli samantektarinnar, þ.m.t. þýðingar hennar, nema hún sé villandi, ónákvæm eða í ósamræmi við aðra hluta útboðs- og skráningarlýsingarinnar.

7. gr.
Lágmarksupplýsingar

1.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr., ítarlegar framkvæmdarráðstafanir varðandi þær sérstöku upplýsingar sem útboðs- og skráningarlýsing verður að innihalda og til að koma í veg fyrir tvítekningu upplýsinga þegar útboðs- og skráningarlýsing samanstendur af fleiri en einu skjali. Samþykkja skal fyrstu framkvæmdarráðstafanirnar eigi síðar en 1. júlí 2004.
2.     Við gerð ýmiss konar fyrirmynda að útboðs- og skráningarlýsingum skal tekið tillit til eftirfarandi þátta:
a)    ólíkra upplýsinga sem fjárfestar þurfa varðandi hlutabréf samanborið við verðbréf sem ekki eru hlutabréf. Sömu leið þarf að fara varðandi upplýsingar, sem koma eiga fram í útboðs- og skráningarlýsingu fyrir verðbréf sem byggjast á svipuðum efnahagslegum forsendum, einkum afleiddum verðbréfum,
b)    ólíkra tegunda og eiginleika útboða og skráningar verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, á skipulegan markað, Upplýsingar, sem þurfa að koma fram í útboðs- og skráningarlýsingu, skulu vera viðeigandi frá sjónarhóli viðkomandi fjárfesta að því er varðar verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, þar sem nafnverð hverrar einingar nemur a.m.k. 50 000 evrum,
c)    framsetningar sem er notuð og upplýsinga sem þurfa að koma fram í útboðs- og skráningarlýsingum fyrir verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, þ.m.t. allar tegundir af ábyrgðum sem eru gefnar út samkvæmt útboðsáætlun,
d)    framsetningar sem er notuð og upplýsinga sem þurfa að koma fram í útboðs- og skráningarlýsingum fyrir verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, svo framarlega sem þessi verðbréf eru ekki víkjandi, breytanleg, skiptanleg, háð áskriftar- eða kauprétti eða tengd afleiddum skjölum, eða gefin út samfellt eða með endurteknum hætti af aðilum sem hafa starfsleyfi eða njóta lögverndar við störf sín á fjármálamörkuðum á Evrópska efnahagssvæðinu,
e)    mismunandi starfsemi og umfangs útgefandans, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þegar um er að ræða slík fyrirtæki skulu upplýsingarnar lagaðar að umfangi þeirra og, þar sem við á, stuttum ferli þeirra,
f)    opinberrar stöðu útgefandans, ef við á,
3.     Framkvæmdarráðstafanirnar sem um getur í 1. mgr. skulu byggjast á stöðlum á sviði fjárhagslegra upplýsinga og annarra upplýsinga sem settir hafa verið af alþjóðlegum verðbréfaeftirlitsstofnunum, einkum Alþjóðasamtökum eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (IOSCO), og á leiðbeinandi viðaukum við þessa tilskipun.

8. gr.
Upplýsingum sleppt

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að ef ekki er hægt að tilgreina í útboðs- og skráningarlýsingunni endanlegt útboðsverð og endanlegan fjölda verðbréfa, sem verða boðin í almennu útboði:
a)    skuli birta í útboðs- og skráningarlýsingunni þær viðmiðanir og/eða skilyrði sem notuð eru til að ákvarða framangreind atriði eða tilgreina hámarksverð, ef um verð er að ræða, eða
b)    verði hægt að afturkalla kaup eða áskrift að verðbréfum í a.m.k. tvo virka daga eftir að lagt hefur verið inn endanlegt útboðsverð og endanlegur fjöldi verðbréfa, sem verða boðin í almennu útboði.
Endanlegt útboðsverð og endanlegur fjöldi verðbréfa skulu lögð inn hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins og birt í samræmi við tilhögunina sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr.
2.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins má heimila að tilteknum upplýsingum, sem kveðið er á um í þessari tilskipun eða í framkvæmdarráðstöfunum, sem um getur í 1. mgr. 7. gr., sé sleppt úr útboðs- og skráningarlýsingunni ef það telur:
a)    að birting slíkra upplýsinga myndi stríða gegn almannahagsmunum, eða
b)    að birting slíkra upplýsinga væri verulega skaðleg fyrir útgefandann, að því tilskildu að ekki sé líklegt að upplýsingar, sem er sleppt, villi um fyrir almenningi að því er varðar nauðsynlegar staðreyndir og aðstæður til að hægt sé að meta, á grundvelli upplýsinga, útgefandann, tilboðsgjafann eða ábyrgðaraðilann, ef einhver er, og réttindin sem fylgja verðbréfunum sem útboðs- og skráningarlýsingin varðar, eða
c)    að slíkar upplýsingar séu léttvægar fyrir tiltekið útboð eða skráningu á skipulegan markað og ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á mat á fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur útgefanda, tilboðsgjafa eða ábyrgðaraðila, ef einhver er.
3.     Ef tilteknar upplýsingar, sem eiga að vera í útboðs- og skráningarlýsingu samkvæmt framkvæmdarráðstöfunum sem um getur í 1. mgr. 7. gr., eiga ekki við, í sérstökum tilvikum, um starfssvið eða rekstrarform útgefandans eða verðbréfin, sem útboðs- og skráningarlýsingin varðar, skal útboðs- og skráningarlýsingin innihalda upplýsingar sem eru jafngildar umbeðnum upplýsingum, sbr. þó viðunandi upplýsingar frá fjárfestunum. Ef ekki finnast neinar slíkar upplýsingar gildir þessi krafa ekki.
4.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi 2. mgr.

9. gr.
Gildistími útboðs- og skráningarlýsingar, grunnútboðs- og skráningarlýsingar og lýsingar á útgefanda

1.     Útboðs- og skráningarlýsing skal gilda í 12 mánuði frá útgáfu að því er varðar almennt útboð eða skráningu á skipulegan markað, að því tilskildu að við útboðs- og skráningarlýsinguna sé bætt öllum þeim viðbótum sem krafist er skv. 16. gr.
2.     Ef um er að ræða útboðsáætlun skal grunnútboðs- og skráningarlýsing, sem áður var lögð inn, gilda í allt að 12 mánuði.
3.     Ef um er að ræða verðbréf, sem ekki eru hlutabréf, sem um getur í b-lið 4. mgr. 5. gr., skal útboðs- og skráningarlýsingin gilda þar til hætt er að gefa út viðkomandi verðbréf samfellt eða með endurteknum hætti.
4.     Lýsing á útgefanda, sem um getur í 3. mgr. 5. gr., sem áður var lögð inn skal gilda í allt að 12 mánuði, að því tilskildu að hún hafi verið uppfærð í samræmi við 1. mgr. 10. gr. Lýsing á útgefanda, ásamt verðbréfalýsingu, uppfærðar í samræmi við 12. gr., ef við á, og samantekt teljast vera gild útboðs- og skráningarlýsing.

10. gr.
Upplýsingar

1.     Útgefendur verðbréfa, sem eru skráð á skipulegan markað, skulu a.m.k. árlega útbúa skjal sem inniheldur eða vísar til allra upplýsinga sem þeir hafa gefið út eða komið á framfæri við almenning á næstliðnum 12 mánuðum í einu eða fleiri aðildarríkjum og í þriðju löndum í samræmi við skuldbindingar þeirra samkvæmt lögum Bandalagsins og lögum og reglum aðildarríkjanna sem lúta að setningu reglna um verðbréf, útgefendur verðbréfa og verðbréfamarkaði. Útgefendur skulu a.m.k. vísa til upplýsinganna sem krafist er samkvæmt tilskipunum um félagarétt, tilskipun 2001/34/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 1 ).
2.     Leggja skal inn skjalið hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins í kjölfar birtingar ársreiknings. Ef vísað er til upplýsinga í skjalinu skal tilgreina hvar hægt sé nálgast þær.
3.     Sú skylda, sem sett er fram í 1. mgr., gildir ekki um útgefendur verðbréfa, sem ekki eru hlutabréf, þar sem upphæð hverrar einingar nemur a.m.k. 50 000 evrum.
4.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi 1. mgr. Þessar ráðstafanir varða einungis birtingaraðferð samkvæmt upplýsingaskyldunni, sem um getur í 1. mgr., og hafa ekki í för með sér frekari upplýsingaskyldu. Samþykkja skal fyrstu framkvæmdarráðstafanirnar eigi síðar en 1. júlí 2004.

11. gr.
Upplýsingar felldar inn með tilvísun

1.     Aðildarríkin skulu heimila að upplýsingar séu felldar inn í útboðs- og skráningarlýsingu með tilvísun til eins eða fleiri áður útgefinna skjala eða skjala sem gefin eru út samhliða, sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins hefur samþykkt eða lögð hafa verið inn hjá þeim í samræmi við þessa tilskipun, einkum skv. 10. gr. eða í samræmi við IV. og V. bálk tilskipunar 2001/34/EB. Þetta skulu vera nýjustu upplýsingar sem útgefandi hefur aðgang að. Ekki skal fella upplýsingar inn í samantektina með tilvísun.
2.     Þegar upplýsingar eru felldar inn með tilvísun verður að fylgja skrá yfir millivísanir til að auðvelda fjárfestum að finna tilteknar upplýsingar.
3.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi upplýsingar sem fella á inn með tilvísun. Samþykkja skal fyrstu framkvæmdarráðstafanirnar eigi síðar en 1. júlí 2004.

12. gr.
Útboðs- og skráningarlýsingar sem samanstanda af fleiri en einu skjali

1.     Útgefandi, sem hefur þegar undir höndum lýsingu á útgefanda sem lögbært yfirvald hefur samþykkt, þarf einungis að semja verðbréfalýsingu og samantekt þegar verðbréfin eru boðin í almennu útboði eða skráð á skipulegan markað.
2.     Í slíku tilviki skulu upplýsingar, sem að öllu jöfnu væru gefnar í lýsingu á útgefanda, koma fram í verðbréfalýsingunni ef verulegar breytingar eða nýleg þróun hefur átt sér stað sem kynni að hafa áhrif á mat fjárfesta síðan síðasta uppfærsla lýsingar á útgefanda eða viðbót við hana var samþykkt, eins og kveðið er á um í 16. gr. Verðbréfalýsingin og samantektin skulu samþykkt hvor í sínu lagi.
3.     Hafi útgefandi einungis lagt inn ósamþykkta lýsingu á útgefanda skulu öll gögnin, þ.m.t. uppfærðar upplýsingar, vera háð samþykki.

III. KAFLI
FYRIRKOMULAG SAMÞYKKIS OG BIRTING ÚTBOÐS- OG SKRÁNINGARLÝSINGAR
13. gr.
Samþykkt útboðs- og skráningarlýsingar

1.     Ekki skal birta útboðs- og skráningarlýsingu fyrr en lögbært yfirvald heimaaðildarríkis hefur samþykkt hana.
2.     Þetta lögbæra yfirvald skal tilkynna útgefanda, tilboðsgjafa eða þeim, sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan markað, eftir því sem við á, um ákvörðun sína varðandi samþykkt útboðs- og skráningarlýsingarinnar innan tíu virkra daga frá því að drög að útboðs- og skráningarlýsingunni voru lögð fram.
Ef lögbæra yfirvaldið lætur hjá líða að tilkynna um ákvörðun sína varðandi útboðs- og skráningarlýsinguna innan frestsins, sem mælt er fyrir um í þessari málsgrein og 3. mgr., gildir það ekki sem samþykki umsóknarinnar.
3.     Fresturinn, sem um getur í 2. mgr., skal lengdur í 20 virka daga ef verðbréfin, sem boðin eru í almenna útboðinu, eru gefin út af útgefanda sem ekki hefur nein verðbréf skráð á skipulegum markaði og hefur ekki áður boðið verðbréf í almennu útboði.
4.     Ef lögbæra yfirvaldið hefur rökstuddan grun um að framlögðu skjölin séu ófullnægjandi eða þörf sé á viðbótarupplýsingum gildir fresturinn, sem um getur í 2. og 3. mgr., einungis frá þeim degi sem útgefandi, tilboðsgjafi eða sá, sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan markað, lætur í té slíkar upplýsingar.
Í tilvikum sem þeim, sem um getur í 2. mgr., ber lögbæra yfirvaldinu að tilkynna útgefanda um það ef skjölin eru ófullnægjandi, innan tíu virkra daga frá því að umsóknin var lögð fram.
5.     Lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkis er heimilt að flytja samþykki á útboðs- og skráningarlýsingu til lögbærs yfirvalds annars aðildarríkis, með fyrirvara um að það yfirvald fallist á það. Enn fremur skal tilkynna slíkan flutning til útgefanda, tilboðsgjafa eða þess, sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan markað, innan þriggja virkra daga frá því að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins tóku ákvörðunina. Fresturinn, sem um getur í 2. mgr., skal gilda frá þeim degi.
6.     Tilskipun þessi hefur engin áhrif á ábyrgð lögbærs yfirvalds sem eftir sem áður ákvarðast eingöngu af landslögum.
Aðildarríkin skulu tryggja að ákvæði landslaga þeirra um bótaábyrgð lögbærra yfirvalda gildi einungis um samþykkt útboðs- skráningarlýsinga af hálfu þeirra eigin lögbæra yfirvalds eða yfirvalda.
7.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi skilyrðin fyrir breytingu frestsins.

14. gr.
Birting útboðs- og skráningarlýsingar

1.     Þegar útboðs- og skráningarlýsing hefur verið samþykkt skal hún lögð inn hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins og gerð aðgengileg almenningi af hálfu útgefanda, tilboðsgjafa eða þess, sem óskar eftir skráningu verðbréfa á skipulegan markað, eins fljótt og auðið er og a.m.k. með eðlilegum fyrirvara og í síðasta lagi við upphaf almenns útboðs eða skráningar verðbréfa á skipulegan markað. Þar að auki skal útboðs- og skráningarlýsing vera aðgengileg í a.m.k. sex virka daga áður en útboði lýkur ef um er að ræða frumútboð til almennings á flokki hlutabréfa sem ekki hefur verið skráður áður á skipulegan markað.
2.     Útboðs- og skráningarlýsing telst aðgengileg almenningi þegar hún hefur verið birt annaðhvort:
a)    í einu eða fleiri dagblöðum sem dreift er víða eða hafa mikla útbreiðslu í þeim aðildarríkjum þar sem almenna útboðið fer fram eða sótt er um skráningu, eða
b)    á prenti og látin liggja frammi, almenningi að kostnaðarlausu, á skrifstofum verðbréfafyrirtækja á þeim markaði þar sem skrá á verðbréfin eða á skráðri skrifstofu útgefandans og á skrifstofum fjármálamilliliða sem annast markaðssetningu eða sölu verðbréfanna, þ.m.t. þær stofnanir sem annast greiðslur, eða
c)    á rafrænu formi á vefsetri útgefanda og, ef við á, á vefsetri fjármálamilliliða sem annast markaðssetningu eða sölu verðbréfanna, þ.m.t. þær stofnanir sem annast greiðslur, eða
d)    á rafrænu formi á vefsetri skipulega markaðarins þar sem sótt er um skráningu, eða
e)    á rafrænu formi á vefsetri lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins ef viðkomandi yfirvald ákveður að bjóða upp á þá þjónustu.
Heimaaðildarríki getur farið fram á það við útgefendur, sem birta útboðs- og skráningarlýsingar sínar í samræmi við a- eða b-lið, að þeir birti þær einnig á rafrænu formi í samræmi við c-lið.
3.     Þar að auki getur heimaaðildarríki gert kröfu um að birt verði tilkynning þar sem greint er frá því á hvern hátt útboðs- og skráningarlýsingin hefur verið gerð aðgengileg og hvar almenningur getur nálgast hana.
4.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins skal birta á vefsetri sínu á 12 mánaða tímabili, að eigin vali, allar samþykktar útboðs- og skráningarlýsingar eða a.m.k. skrá yfir útboðs- og skráningarlýsingar sem hafa verið samþykktar í samræmi við 13. gr., þ.m.t., ef við á, stiklulegg (hyperlink) til birtrar útboðs- og skráningarlýsingar á vefsetri útgefanda eða á vefsetri skipulega markaðarins.
5.     Ef um er að ræða útboðs- eða skráningarlýsingu sem samanstendur af nokkrum skjölum og/eða þar sem felldar eru inn upplýsingar með tilvísun má birta skjölin og upplýsingarnar sem mynda útboðs- og skráningarlýsinguna og dreifa þeim hverju fyrir sig, að því tilskildu að fyrrnefnd skjöl séu gerð aðgengileg almenningi, honum að kostnaðarlausu, í samræmi við fyrirkomulagið í 2. mgr. Í hverju skjali skal tilgreint hvar hægt sé að nálgast hin skjölin sem eru hluti af útboðs- og skráningarlýsingunni í heild sinni.
6.     Texti og framsetning útboðs- og skráningarlýsingarinnar og/eða viðbóta við hana, sem birtar eru eða gerðar aðgengilegar almenningi, skulu í öllum tilvikum vera nákvæmlega eins og upprunalega útgáfan sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins samþykkti.
7.     Ef útboðs- og skráningarlýsing er gerð aðgengileg almenningi á rafrænu formi skal engu að síður afhenda fjárfesti, tilboðsgjafa, þeim, sem óskar eftir skráningu á skipulegan markað, eða fjármálamilliliðum, sem setja verðbréfin á markað eða selja þau, prentað eintak sér að kostnaðarlausu, óski þeir þess.
8.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi 1., 2., 3. og 4. mgr. Samþykkja skal fyrstu framkvæmdarráðstafanirnar eigi síðar en 1. júlí 2004.

15. gr.
Auglýsingar

1.     Allar auglýsingar, sem varða annaðhvort almennt útboð verðbréfa eða skráningu þeirra á skipulegan markað, skulu uppfylla meginreglurnar í 2.–5. mgr. Ákvæði 2.–4. mgr skulu aðeins gilda um tilvik þar sem útgefandi, tilboðsgjafi eða einstaklingur, sem sækir um skráningu, falla undir þá skyldu að semja útboðs- og skráningarlýsingu.
2.     Í auglýsingum skal koma fram að útboðs- og skráningarlýsing hafi verið eða muni vera birt og hvar fjárfestar geti eða muni geta nálgast hana.
3.     Það skal koma skýrt fram að um auglýsingu er að ræða. Upplýsingarnar í auglýsingunni skulu ekki vera ónákvæmar eða villandi. Þær skulu einnig vera í samræmi við upplýsingarnar í útboðs- og skráningarlýsingunni, ef búið er að birta hana, eða þær upplýsingar sem krafist er að séu í útboðs- og skráningarlýsingunni ef hún er birt síðar.
4.     Í öllum tilvikum, jafnvel þótt ekki sé um að ræða auglýsingar, skulu upplýsingar, sem varða almennt útboð eða skráningu á skipulegan markað og birtar eru munnlega eða skriflega, vera í samræmi við innihald útboðs- og skráningarlýsingarinnar.
5.     Ef ekki er krafist útboðs- og skráningarlýsingar, samkvæmt þessari tilskipun, skulu mikilvægar upplýsingar frá útgefanda eða tilboðsgjafa, sem beint er til fagfjárfesta eða sérstakra hópa fjárfesta, þ.m.t. upplýsingar í tengslum við fundi um útboð verðbréfa, birtar öllum fagfjárfestum eða sérstökum hópum fjárfesta sem útboðið beinist eingöngu að. Ef þess er krafist að útboðs- og skráningarlýsing sé birt skulu slíkar upplýsingar vera í útboðs- og skráningarlýsingunni eða viðbót við hana, í samræmi við 1. mgr. 16. gr.
6.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis skal hafa heimild til þess að hafa eftirlit með því að auglýsingar í tengslum við almennt útboð verðbréfa eða skráningu þeirra á skipulegan markað séu í samræmi við meginreglurnar sem um getur í 2.–5. mgr.
7.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi dreifingu auglýsinga, þar sem tilkynnt er um að fyrirhugað sé að bjóða almenningi verðbréf til kaups eða skrá þau á skipulegan markað, einkum áður en útboðs- og skráningarlýsing hefur verið gerð aðgengileg almenningi eða áður en áskriftartímabil hefst og að því er varðar 4. mgr. Samþykkja skal fyrstu framkvæmdarráðstafanirnar eigi síðar en 1. júlí 2004.

16. gr.
Viðbætur við útboðs- og skráningarlýsingu

1.     Sérhvert nýtt atriði sem máli skiptir, mikilvæg mistök eða ónákvæmni í upplýsingum útboðs- og skráningarlýsingar, sem getur haft áhrif á mat á verðbréfunum, sem upp kemur eða kemur í ljós frá samþykkt útboðs- og skráningarlýsingar þar til almennu útboði er lokið eða, eftir því sem við á, þar til viðskipti hefjast með verðbréf á skipulegum markaði, skal getið í viðbót við útboðs- og skráningarlýsingu. Slík viðbót skal samþykkt á sama hátt innan sjö virkra daga og birt í samræmi við a.m.k. sama fyrirkomulag og gilti þegar upprunalega útboðs- og skráningarlýsingin var birt. Einnig skal bæta við samantektina og þýðingar hennar, ef nauðsyn krefur, til að taka tillit til nýju upplýsinganna í viðbótinni.
2.     Fjárfestar, sem hafa þegar samþykkt að kaupa eða láta skrá sig fyrir verðbréfum áður en viðbótin er birt, skulu eiga rétt til að draga samþykki sitt til baka innan a.m.k. tveggja virkra daga frests frá því viðbótin var birt.

IV. KAFLI
ÚTBOÐ YFIR LANDAMÆRI OG SKRÁNING
17. gr.
Gildi samþykkis útboðs- og skráningarlýsinga innan Bandalagsins

1.     Þegar almennt útboð eða skráning á skipulegan markað er skipulagt í einu eða fleiri aðildarríkjum eða í öðru aðildarríki en heimaaðildarríkinu skal útboðs- og skráningarlýsing, sem heimaaðildarríkið hefur samþykkt og allar viðbætur við hana, með fyrirvara um 23. gr., gilda fyrir almennt útboð verðbréfa eða skráningu þeirra í hvaða gistiaðildarríkjum sem er, að því tilskildu að lögbæru yfirvaldi hvers gistiaðildarríkis sé tilkynnt um það í samræmi við 18. gr. Lögbær yfirvöld gistiaðildarríkja skulu ekki hefja neins konar samþykktarferli eða stjórnsýslumeðferð vegna útboðs- og skráningarlýsinga.
2.     Ef upp koma ný atriði sem máli skipta, mikilvæg mistök eða ónákvæmni, eins og um getur í 16. gr., frá því að útboðs- og skráningarlýsingin var samþykkt skal lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins krefjast þess að birt sé viðbót, sem samþykkja ber eins og kveðið er á um í 1. mgr. 13. gr. Lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins er heimilt að vekja athygli lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins á því ef þörf er á nýjum upplýsingum.

18. gr.
Tilkynning

1.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins skal, að beiðni útgefanda eða einstaklingsins, sem er ábyrgur fyrir samningu útboðs- og skráningarlýsingarinnar, og innan þriggja virkra daga frá því að slík beiðni er lögð fram eða, ef beiðnin er lögð fram ásamt drögum að útboðs- og skráningarlýsingu, þá innan eins virks dags frá því útboðs- og skráningarlýsingin var samþykkt, láta lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins í té vottorð um samþykki, sem staðfestir að útboðs- og skráningarlýsingin sé samin í samræmi við þessa tilskipun, ásamt afriti af viðkomandi útboðs- og skráningarlýsingu. Þessari tilkynningu skal fylgja, ef við á, þýðing á samantektinni, sem er á ábyrgð útgefanda eða einstaklingsins sem annast samningu útboðs- og skráningarlýsingarinnar. Sömu málsmeðferð skal fylgt við allar viðbætur við útboðs- og skráningarlýsinguna.
2.     Ef ákvæðum 2. og 3. mgr. 8. gr. er beitt skal það koma fram í vottorðinu ásamt rökstuðningi þar að lútandi.

V. KAFLI
ÁKVÆÐI UM TUNGUMÁL OG ÚTGEFENDUR SEM ERU SKRÁÐIR Í ÞRIÐJU LÖNDUM
19. gr.
Ákvæði um tungumál

1.     Þegar almennt útboð fer fram eða einungis er sótt um skráningu á skipulegan markað í heimaaðildarríkinu skal útboðs- og skráningarlýsing samin á því tungumáli sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins samþykkir.
2.     Þegar almennt útboð fer fram eða sótt er um skráningu á skipulegan markað í einu eða fleiri aðildarríkjum, öðrum en heimaaðildarríkinu, skal útboðs- og skráningarlýsing annaðhvort samin á tungumáli, sem lögbær yfirvöld þessara aðildarríkja samþykkja, eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess, sem sækir um skráningu, eftir því sem við á. Lögbært yfirvald í hverju gistiaðildarríki getur aðeins farið fram á að samantektin verði þýdd á eitt eða fleiri opinber tungumál sín.
Með hliðsjón af umfjöllun lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis skal útboðs- og skráningarlýsingin samin annaðhvort á tungumáli sem það yfirvald samþykkir eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem sækir um skráningu á skipulegan markað, eftir því sem við á.
3.     Þegar almennt útboð fer fram eða sótt er um skráningu á skipulegan markað í fleiri en einu aðildarríki, þar á meðal heimaaðildarríkinu, skal útboðs- og skráningarlýsingin samin á tungumáli sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins samþykkir og einnig gerð aðgengileg annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld í hverju gistiaðildarríkjanna hafa samþykkt eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem óskar eftir skráningu, eftir því sem við á. Lögbært yfirvald í hverju gistiaðildarríki getur aðeins farið fram á að samantektin, sem um getur í 2. mgr. 5. gr., verði þýdd á eitt eða fleiri opinber tungumál sín.
4.     Þegar sótt er um skráningu á skipulegan markað á verðbréfum, sem ekki eru hlutabréf, þar sem upphæð hverrar einingar nemur a.m.k. 50 000 evrum í einu eða fleiri aðildarríkjum skal útboðs- og skráningarlýsingin samin annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld heima- og gistiaðildarríkja samþykkja eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda, tilboðsgjafa eða þess sem sækir um skráningu, eftir því sem við á. Aðildarríkin geta kosið að setja í landslög að samantekt verði samin á einu eða fleiri opinberum tungumálum þeirra.

20. gr.
Útgefendur sem eru skráðir í þriðju löndum

1.     Lögbært yfirvald í heimaaðildarríki útgefenda, sem hafa skráða skrifstofu í þriðja landi, getur samþykkt útboðs- og skráningarlýsingu fyrir almennt útboð eða skráningu á skipulegan markað sem er samin í samræmi við löggjöf þriðja lands, að því tilskildu:
a)    að útboðs- og skráningarlýsing hafi verið samin í samræmi við alþjóðlega staðla setta af verðbréfaeftirlitsstofnunum, þ.m.t. staðlar Alþjóðasamtaka eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (IOSCO) um birtingu upplýsinga,
b)    að upplýsingakröfur hennar, þ.m.t. kröfur um upplýsingar fjármálalegs eðlis, jafngildi kröfum þessarar tilskipunar.
2.     Ef um er að ræða almennt útboð eða skráningu verðbréfa á skipulegan markað sem útgefandi, sem er skráður í þriðja landi, gefur út, í öðru aðildarríki en heimaaðildarríkinu, skulu kröfur 17., 18. og 19. gr. gilda.
3.     Til að tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar getur framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 24. gr., samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem fela í sér að þriðja land tryggi að útboðs- og skráningarlýsingar, sem samdar eru í því landi, séu í samræmi við þessa tilskipun á grundvelli landslaga þess eða venja eða málsmeðferða sem byggjast á alþjóðlegum stöðlum settum af alþjóðastofnunum, þ.m.t. staðlar Alþjóðasamtaka eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (IOSCO) um birtingu upplýsinga.

VI. KAFLI
LÖGBÆR YFIRVÖLD
21. gr.
Heimildir

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna miðlægt, lögbært stjórnsýsluyfirvald til að framfylgja þeim skyldum sem kveðið er á um í þessari tilskipun og til að tryggja að ákvæðum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, sé beitt.
Þó er aðildarríki heimilt, ef þess er krafist í landslögum, að tilnefna önnur stjórnsýsluyfirvöld til að beita ákvæðum III. kafla.
Þessi lögbæru yfirvöld skulu vera algjörlega óháð öllum markaðsaðilum.
Fari almennt útboð verðbréfa fram eða sé sótt um skráningu á skipulegan markað í öðru aðildarríki en heimaaðildarríkinu hefur einungis miðlægt, lögbært stjórnsýsluyfirvald, sem hvert aðildarríki tilnefnir, rétt til að samþykkja útboðs- og skráningarlýsingu.
2.     Aðildarríkin mega heimila lögbæru yfirvaldi eða yfirvöldum sínum að fela öðrum hluta verkefna sinna. Að undanskilinni birtingu samþykktra útboðs- og skráningarlýsinga á Netinu og viðtöku útboðs- og skráningarlýsinga, sem um getur í 14. gr., skal endurskoða, eigi síðar en 31. desember 2008, alla slíka úthlutun verkefna sem tengjast þeim skyldum, sem kveðið er á um í þessari tilskipun og framkvæmdarráðstöfunum hennar í samræmi við 31. gr. og skal slíkri úthlutun hætt 31. desember 2011. Allar úthlutanir verkefna til annarra aðila en yfirvaldanna, sem um getur í 1. mgr., skulu fara fram á tiltekinn hátt þar sem greint er frá verkefnum sem á að framkvæma og skilyrðum við framkvæmd þeirra.
Þessi skilyrði skulu fela í sér ákvæði sem skyldar umræddan aðila til að haga starfsemi sinni og skipulagningu þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra og að upplýsingar, sem fást þegar verið er að sinna verkefnunum, sem úthlutað var, séu ekki notaðar á óréttmætan hátt eða til að hindra samkeppni. Í öllum tilvikum hvílir endanleg ábyrgð á eftirliti með að samræmis sé gætt við þessa tilskipun, framkvæmdarráðstafanir hennar og á samþykkt útboðs- og skráningarlýsingarinnar á lögbæru yfirvaldi eða yfirvöldum sem eru tilnefnd í samræmi við 1. mgr.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja um hvers konar fyrirkomulag sem samið hefur verið um varðandi úthlutun verkefna, þ.m.t. nákvæm skilyrði sem gilda um slíka úthlutun.
3.     Hvert lögbært yfirvald skal hafa allar nauðsynlegar heimildir til að sinna hlutverki sínu. Lögbært yfirvald, sem móttekið hefur umsókn um samþykkt útboðs- og skráningarlýsingar, skal a.m.k. hafa heimild til:
a)    að fara fram á það við útgefendur, tilboðsgjafa eða aðila, sem sækja um skráningu á skipulegan markað, að þeir láti viðbótarupplýsingar fylgja útboðs- og skráningarlýsingunni, ef þörf er á, í því skyni að vernda fjárfestinn,
b)    að fara fram á það við útgefendur, tilboðsgjafa eða þá, sem sækja um skráningu á skipulegan markað, sem og þá, sem hafa eftirlit með þeim eða eru undir eftirliti þeirra, að þeir leggi fram upplýsingar og skjöl,
c)    að fara fram á það við endurskoðendur og stjórnendur hjá útgefanda, tilboðsgjafa eða þeim, sem óskar eftir skráningu á skipulegan markað, sem og við fjármálamilliliði sem taka að sér að sjá um almenn útboð eða að óska eftir skráningu á skipulega markað að þeir leggi fram upplýsingar,
d)    að fresta almennu útboði eða skráningu á skipulegan markað í samfellt 10 virka daga að hámarki, í einu og sama tilvikinu, ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar,
e)    að banna eða fresta auglýsingum um samfellt 10 virka daga að hámarki, í einu og sama tilvikinu, ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar,
f)    að banna almennt útboð ef það kemst að því að brotið hafi verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar eða ef rökstuddur grunur er um að það muni vera gert,
g)    að fresta eða fara fram á það við viðkomandi skipulega markaði að þeir fresti viðskiptum á skipulegum markaði um samfellt 10 virka daga að hámarki í einu og sama tilvikinu ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar,
h)    að banna viðskipti á skipulegum markaði ef það kemst að því að brotið hafi verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar,
i)    að tilkynna opinberlega að útgefandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar.
Ef gerð er krafa um það í landslögum er lögbæru yfirvaldi heimilt að óska eftir því við viðkomandi dómsmálayfirvald að það úrskurði um beitingu þeirra heimilda sem um getur í d- til h-lið hér að framan.
4.     Hvert lögbært yfirvald skal einnig, um leið og verðbréfin hafa verið skráð á skipulegan markað, hafa heimild til:
a)    að fara fram á það við útgefandann að hann birti allar mikilvægar upplýsingar sem kynnu að hafa áhrif á mat á verðbréfum sem eru skráð á skipulegum mörkuðum í því skyni að tryggja vernd fjárfesta eða eðlilega starfsemi markaðarins,
b)    að fresta eða óska eftir því við viðkomandi skipulegan markað að skráningu verði frestað ef það telur að aðstæður útgefandans séu þannig að skráning myndi skaða hagsmuni fjárfesta,
c)    að tryggja að útgefendur verðbréfa, sem eru skráð á skipulega markaði, uppfylli skuldbindingarnar, sem kveðið er á um í 102. og 103. gr. tilskipunar 2001/34/EB, og að fjárfestum séu látnar í té jafngildar upplýsingar og að útgefandi veiti öllum verðbréfaeigendum í sömu stöðu jafngilda meðferð í öllum aðildarríkjum þar sem almennt útboð fer fram eða þar sem verðbréfin eru skráð á skipulegan markað,
d)    að láta fara fram skoðun á vettvangi á yfirráðasvæði sínu í samræmi við landslög til að sannreyna hvort ákvæðum þessarar tilskipunar og framkvæmdarráðstafana hennar sé hlítt. Ef landslög krefjast þess er lögbæru yfirvaldi eða yfirvöldum heimilt að nota þessa heimild með því að vísa málinu til viðkomandi dómsmálayfirvalds og/eða í samstarfi við önnur yfirvöld.
5.     Ákvæði 1.–4. gr. skulu ekki hafa áhrif á möguleika aðildarríkis til að gera sérstakar laga- og stjórnvaldsráðstafanir fyrir evrópsk yfirráðasvæði handan hafsins þar sem viðkomandi aðildarríki ber ábyrgð á utanríkismálum.

22. gr.
Þagnarskylda og samstarf milli yfirvalda

1.     Þagnarskylda skal gilda um alla þá sem starfa hjá eða hafa starfað hjá lögbæra yfirvaldinu og aðila sem lögbær yfirvöld kunna að hafa úthlutað tilteknum verkefnum. Upplýsingar, sem falla undir þagnarskyldu má ekki afhenda neinum öðrum aðila eða yfirvaldi nema í samræmi við ákvæði laga.
2.     Lögbær yfirvöld aðildarríkis skulu starfa saman þegar nauðsyn ber svo að þau geti uppfyllt skyldur sínar og nýtt heimildir sínar. Lögbær yfirvöld skulu veita lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja aðstoð. Þau skulu einkum skiptast á upplýsingum og starfa saman þegar fleiri en eitt lögbært yfirvald eru í heimaaðildarríki útgefanda vegna mismunandi flokka verðbréfa eða þar sem samþykki útboðs- og skráningarlýsingar hefur verið flutt yfir til lögbærs yfirvalds í öðru aðildarríki skv. 5. mgr. 13. gr. Þau skulu einnig hafa náið samstarf þegar þau fara fram á frestun eða leggja bann við viðskiptum með verðbréf sem viðskipti eru með í ýmsum aðildarríkjum til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði milli viðskiptastaða og vernd fjárfesta. Lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkis er heimilt, ef við á, að fara fram á aðstoð lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis frá þeim tímapunkti að viðkomandi tilvik er athugað, einkum að því er varðar nýjar eða sjaldgæfar tegundir verðbréfa. Lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins er heimilt að óska eftir upplýsingum frá lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins um alla sérkennandi þætti viðkomandi markaðar.
Með fyrirvara um 21. gr. er lögbærum yfirvöldum aðildarríkisins heimilt, eftir þörfum, að ráðfæra sig við þátttakendur á skipulegum mörkuðum, einkum þegar taka þarf ákvörðun um frestun eða hvort óska eigi eftir því við skipulega markaðinn að hann fresti eða banni skráningu.
3.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki hindra lögbær yfirvöld í því að skiptast á trúnaðarupplýsingum. Upplýsingar, sem þannig eru fengnar, eru háðar þagnarskyldu þeirra sem starfa eða hafa starfað hjá þeim lögbæru yfirvöldum sem taka við upplýsingunum.

23. gr.
Varúðarráðstafanir

1.     Komist lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins að því að útgefandi eða fjármálastofnanirnar, sem annast almenna útboðið, hafa gerst sek um að virða ekki reglur eða brotið í bága við þær skyldur sem skráning verðbréfa á skipulegan markað leggur á herðar útgefanda, skal það vísa málinu til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins.
2.     Ef útgefandinn eða fjármálastofnanir, sem annast almenna útboðið halda áfram að brjóta viðkomandi lög og ákvæði reglna, þrátt fyrir ráðstafanir sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis hefur gert eða vegna þess að slíkar ráðstafanir reynast ófullnægjandi, skal lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins, eftir að hafa tilkynnt það lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta. Framkvæmdastjórninni skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir eins fljótt og auðið er.

VII. KAFLI
FRAMKVÆMDARRÁÐSTAFANIR
24. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar Evrópsku verðbréfanefndarinnar, sem komið var á fót með ákvörðun 2001/528/EB (hér á eftir nefnd „nefndin“).
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar, að því tilskildu að framkvæmdarráðstafanirnar, sem samþykktar eru samkvæmt þessari málsmeðferð, breyti ekki grundvallarákvæðum þessarar tilskipunar.
Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.
4.     Með fyrirvara um framkvæmdarráðstafanir, sem þegar hafa verið samþykktar, skulu ákvæði þessarar tilskipunar um samþykkt tæknireglna og ákvarðana, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr., falla úr gildi fjórum árum eftir gildistöku hennar. Evrópuþinginu og ráðinu er heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdastjórnarinnar, að endurnýja viðkomandi ákvæði í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans, og skulu þau, í því skyni, endurskoða þau áður en fjögurra ára tímabilinu lýkur.

25. gr.
Viðurlög

1.     Með fyrirvara um rétt aðildarríkja til að beita viðurlögum á sviði refsiréttar og með fyrirvara um fyrirkomulag einkaréttarábyrgðar innan þeirra skulu aðildarríkin tryggja, í samræmi við innlend lög, að gerðar verði viðeigandi stjórnsýsluráðstafanir eða stjórnsýsluviðurlögum verði beitt gagnvart aðilum sem eru ábyrgir þegar ekki hefur verið farið að ákvæðunum sem eru samþykkt við framkvæmd þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu tryggja að þessar ráðstafanir séu árangursríkar, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbæru yfirvaldi sé heimilt að birta opinberlega upplýsingar um allar ráðstafanir eða viðurlög sem beitt hefur verið við broti á ákvæðunum sem hafa verið samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, nema birtingin kunni að tefla fjármálamarkaðnum í tvísýnu eða valda viðkomandi aðilum óhóflegum skaða.

26. gr.
Áfrýjunarréttur

Aðildarríkin skulu tryggja að unnt sé að áfrýja til dómstóla öllum ákvörðunum sem eru teknar samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.

VIII. KAFLI
BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
27. gr.
Breytingar

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á tilskipun 2001/34/EB frá og með þeim degi sem er tilgreindur í 29. gr.:
1.    Ákvæði 3. gr, 20.–41. gr., 98.–101. gr., 104. gr. og ii-liðar c-liðar 2. mgr. 108. gr. falli brott.
2.    Í 3. mgr. 107. gr. falli fyrsta undirgrein brott.
3.    Í a-lið 2. mgr. 108. gr. falli brott orðin „skilyrði fyrir gerð, eftirliti með og dreifingu skráningarlýsingar, sem birta skal við skráningu“.
4.    Ákvæði I. viðauka falli brott.

28. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 89/298/EBE falli niður frá og með þeim degi sem tilgreindur er í 29. gr. Litið skal á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun.

29. gr.
Lögleiðing

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. júlí 2005. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað. Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

30. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Útgefendur verðbréfa, sem þegar hafa verið skráð á skipulegan markað, sem eru skráðir í þriðja landi skulu velja lögbært yfirvald sitt í samræmi við iii-lið m-liðar 1. mgr. 2. gr. og tilkynna ákvörðun sína til lögbærs yfirvalds aðildarríkisins, sem þeir hafa valið sem sitt heimaaðildarríki, eigi síðar en 31. desember 2005.
2.      Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. er aðildarríkjum, sem hafa nýtt sér undanþágu a-liðar 5. gr tilskipunar 89/298/EBE, heimilt að halda áfram að leyfa lánastofnunum eða öðrum jafngildum fjármálastofnunum, sem ekki heyra undir j-lið 2. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar, að bjóða út skuldabréf eða önnur jafngild, framseljanleg verðbréf, sem eru gefin út samfellt eða með endurteknum hætti innan yfirráðasvæða þeirra, í fimm ár frá gildistökudegi þessarar tilskipunar.
3.     Þrátt fyrir 29. gr. skal Sambandslýðveldið Þýskaland uppfylla 1. mgr. 21. gr. eigi síðar en 31. desember 2008.

31. gr.
Endurskoðun

Fimm árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin leggja mat á beitingu þessarar tilskipunar og leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið ásamt tillögum um endurskoðun ef við á.

32. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

33. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 4. nóvember 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX G. ALEMANNO
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
ÚTBOÐS- OG SKRÁNINGARLÝSING

I.     Samantekt
    Í samantektinni skulu mikilvægustu upplýsingar útboðs- og skráningarlýsingarinnar settar fram, á nokkrum blaðsíðum, og skulu a.m.k. eftirfarandi atriði koma fram:
    A.    Nöfn stjórnarmanna, æðstu stjórnenda, ráðgjafa og endurskoðenda.
    B.    Tölfræðilegar upplýsingar um útboð og væntanleg tímaáætlun.
    C.    Helstu upplýsingar varðandi valin fjármálagögn, fjármögnun og skuldastöðu, ástæður fyrir útboðinu og notkun ágóðans, áhættuþættir.
    D.    Upplýsingar um útgefandann:
         –    saga og þróun útgefandans,
         –    yfirlit yfir viðskiptastarfsemi.
    E.    Yfirlit yfir rekstur og fjármál og framtíðarhorfur:
         –    rannsóknir og þróun, einkaleyfi og leyfi, o.s.frv.,
         –    horfur.
    F.    Stjórnarmenn, æðstu stjórnendur og launamenn.
    G.    Stærstu hluthafar og viðskipti tengdra aðila.
    H.    Fjárhagslegar upplýsingar:
         –    samstæðureikningsskil og aðrar fjárhagslegar upplýsingar,
         –    mikilvægar breytingar.
    I.    Ítarlegar upplýsingar um útboð og skráningu:
         –    útboð og skráning,
         –    áætlun um dreifingu,
         –    markaðir,
         –    hluthafar sem vilja selja,
         –    þynning (einungis hlutabréf),
         –    útgáfukostnaður.
    J.    Viðbótarupplýsingar:
         –    hlutafé,
         –    stofnsamþykktir,
         –    skjöl til sýnis.
II.    Nöfn stjórnarmanna, æðstu stjórnenda, ráðgjafa og endurskoðenda
    Tilgangurinn er að tilgreina fulltrúa fyrirtækisins og aðra einstaklinga sem tengjast útboði eða skráningu fyrirtækisins. Þessir einstaklingar bera ábyrgð á samningu útboðs- og skráningarlýsingarinnar, eins og krafist er skv. 5. gr. tilskipunarinnar, og á endurskoðun ársreikninga.
III.    Tölfræðilegar upplýsingar um útboð og væntanleg tímaáætlun
    Tilgangurinn er að veita helstu upplýsingar um framkvæmd útboða og tilgreina mikilvægar dagsetningar sem tengjast þeim.
    A.    Tölfræðilegar upplýsingar um útboð.
    B.    Aðferð og væntanleg tímaáætlun.
IV.    Helstu upplýsingar
    Tilgangurinn er að gera í stuttu máli grein fyrir helstu upplýsingum um fjárhagsstöðu fyrirtækisins, fjármögnun og áhættuþætti. Ef ársreikningar í skjalinu eru verðleiðréttir til að endurspegla veigamiklar breytingar á uppbyggingu fyrirtækjahóps fyrirtækisins eða reikningsskilastefnu skal einnig verðleiðrétta valin fjármálagögn.
    A.    Valin fjármálagögn.
    B.    Fjármögnun og skuldastaða.
    C.    Ástæður fyrir útboðinu og notkun ágóðans.
    D.    Áhættuþættir.
V.    Upplýsingar um fyrirtækið
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um atvinnurekstur fyrirtækisins, afurðir sem það framleiðir eða þjónustu sem það veitir og þá þætti sem hafa áhrif á reksturinn. Einnig er ætlunin að veita upplýsingar um það hvort eignir fyrirtækisins, tækjakostur og búnaður séu viðunandi og hagkvæm og um framtíðaráætlanir varðandi aukningu eða minnkun afkasta.
    A.    Saga og þróun fyrirtækisins.
    B.    Yfirlit yfir atvinnurekstur.
    C.    Stjórnskipulag.
    D.    Eignir, tækjakostur og búnaður.
VI.    Yfirlit yfir rekstur og fjármál og framtíðarhorfur
    Tilgangurinn er að koma á framfæri skýringu yfirstjórnarinnar á þáttum sem hafa haft áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins samkvæmt fyrri ársreikningum og mati hennar á þáttum og horfum sem búist er við að hafi veigamikil áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins í framtíðinni.
    A.    Rekstur fyrirtækisins.
    B.    Lausafé og eignarhlutar í hlutafélagi.
    C.    Rannsóknir og þróun, einkaleyfi og leyfi o.s.frv.
    D.    Horfur.
VII.    Stjórnarmenn, æðstu stjórnendur og launamenn
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækisins sem gera fjárfestum kleift að meta reynslu þeirra, menntun og hæfi og launakjör ásamt tengslum þeirra við fyrirtækið.
    A.    Stjórnarmenn og æðstu stjórnendur.
    B.    Launakjör.
    C.    Starfsaðferðir.
    D.    Launamenn.
    E.    Hlutabréfaeign.
VIII.    Stærstu hluthafar og viðskipti tengdra aðila
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um stærstu hluthafa og aðra sem kunna að geta stjórnað eða haft áhrif á fyrirtækið. Einnig er ætlunin að veita upplýsingar um viðskipti fyrirtækisins við aðila í eignatengslum við fyrirtækið og hvort skilmálar slíkra viðskipta eru sanngjörn fyrir fyrirtækið.
    A.    Stærstu hluthafar.
    B.    Viðskipti tengdra aðila.
    C.    Hagsmunir sérfræðinga og ráðgjafa.
IX.    Fjárhagslegar upplýsingar
    Tilgangurinn er að tilgreina hvaða ársreikningar skulu vera hluti af skjalinu ásamt því til hvaða tímabila upplýsingarnar skuli taka, aldri ársreikninganna og öðrum upplýsingum fjármálalegs eðlis. Reikningsskila- og endurskoðunarreglur sem verða samþykktar til nota við undirbúning og endurskoðun á ársreikningum verða ákvarðaðar í samræmi við alþjóðlega reikningsskila- og endurskoðunarstaðla.
    A.    Samstæðureikningsskil og aðrar fjárhagslegar upplýsingar.
    B.    Mikilvægar breytingar.
X.    Ítarlegar upplýsingar um útboð og skráningu
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um útboð og skráningu verðbréfa, áætlun um dreifingu verðbréfa og tengd málefni.
    A.    Útboð og skráning.
    B.    Áætlun um dreifingu.
    C.    Markaðir.
    D.    Verðbréfaeigendur sem vilja selja.
    E.    Þynning (einungis hlutabréf).
    F.    Útgáfukostnaður.
XI.    Viðbótarupplýsingar
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar sem flestar eru lögboðnar og ekki finnast annars staðar í útboðs- og skráningarlýsingunni.
    A.    Hlutafé.
    B.    Stofnsamþykktir.
    C.    Mikilvægir samningar.
    D.    Gjaldeyriseftirlit.
    E.    Skattlagning.
    F.    Arður og stofnanir sem annast greiðslu.
    G.    Yfirlýsing frá sérfræðingum.
    H.    Skjöl til sýnis.
    I.    Aðrar upplýsingar.

II. VIÐAUKI
LÝSING Á ÚTGEFANDA

I.    Nöfn stjórnarmanna, æðstu stjórnenda, ráðgjafa og endurskoðenda
    Tilgangurinn er að tilgreina fulltrúa fyrirtækisins og aðra einstaklinga sem tengjast útboði eða skráningu fyrirtækisins. Þessir einstaklingar bera ábyrgð á samningu útboðs- og skráningarlýsingarinnar og á endurskoðun ársreikninga.
II.    Helstu upplýsingar um útgefandann
    Tilgangurinn er að gera í stuttu máli grein fyrir helstu upplýsingum um fjárhagsstöðu fyrirtækisins, fjármögnun og áhættuþætti. Ef ársreikningar í skjalinu eru verðleiðréttir til að endurspegla veigamiklar breytingar á uppbyggingu fyrirtækjahóps fyrirtækisins eða reikningsskilastefnu skal einnig verðleiðrétta valin fjármálagögn.
    A.    Valin fjármálagögn.
    B.    Fjármögnun og skuldastaða.
    C.    Áhættuþættir.
III.    Upplýsingar um fyrirtækið
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um atvinnurekstur fyrirtækisins, afurðir sem það framleiðir eða þjónustu sem það veitir og þá þætti sem hafa áhrif á reksturinn. Einnig er ætlunin að veita upplýsingar um það hvort eignir fyrirtækisins, tækjakostur og búnaður séu viðunandi og hagkvæm og um framtíðaráætlanir varðandi aukningu eða minnkun afkasta.
    A.    Saga og þróun fyrirtækisins.
    B.    Yfirlit yfir atvinnurekstur.
    C.    Stjórnskipulag.
    D.    Eignir, tækjakostur og búnaður.
IV.    Yfirlit yfir rekstur og fjármál og framtíðarhorfur
    Tilgangurinn er að koma á framfæri skýringu yfirstjórnarinnar á þáttum sem hafa haft áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins samkvæmt fyrri ársreikningum og mati hennar á þáttum og horfum sem búist er við að hafi veigamikil áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins í framtíðinni.
    A.    Afkoma fyrirtækisins.
    B.    Lausafé og eignarhlutar í hlutafélagi.
    C.    Rannsóknir og þróun, einkaleyfi og leyfi o.s.frv.
    D.    Horfur.
V.    Stjórnarmenn, æðstu stjórnendur og launamenn
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækisins sem gera fjárfestum kleift að meta reynslu þeirra, menntun og hæfi og launakjör ásamt tengslum þeirra við fyrirtækið.
    A.    Stjórnarmenn og æðstu stjórnendur.
    B.    Launakjör.
    C.    Starfsvenjur.
    D.    Launamenn.
    E.    Hlutabréfaeign.
VI.    Stærstu hluthafar og viðskipti tengdra aðila
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um stærstu hluthafa og aðra sem kunna að geta stjórnað eða haft áhrif á fyrirtækið. Einnig er ætlunin að veita upplýsingar um viðskipti fyrirtækisins við aðila í eignatengslum við fyrirtækið og hvort skilmálar slíkra viðskipta eru sanngjörn fyrir fyrirtækið.
    A.    Stærstu hluthafar.
    B.    Viðskipti tengdra aðila.
    C.    Hagsmunir sérfræðinga og ráðgjafa.
VII.    Fjárhagslegar upplýsingar
    Tilgangurinn er að tilgreina hvaða ársreikningar skuli vera hluti af skjalinu ásamt því til hvaða tímabila upplýsingarnar skuli taka, aldri ársreikninganna og öðrum upplýsingum fjármálalegs eðlis. Reikningsskila- og endurskoðunarreglur sem verða samþykktar til nota við undirbúning og endurskoðun á ársreikningum verða ákvarðaðar í samræmi við alþjóðlega reikningsskila- og endurskoðunarstaðla.
    A.    Samstæðureikningsskil og aðrar fjárhagslegar upplýsingar.
    B.    Mikilvægar breytingar.
VIII.    Viðbótarupplýsingar
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar sem flestar eru lögboðnar og ekki finnast annars staðar í útboðs- og skráningarlýsingunni.
    A.    Hlutafé.
    B.    Stofnsamþykktir.
    C.    Mikilvægir samningar.
    D.    Yfirlýsing frá sérfræðingum.
    E.    Skjöl til sýnis.
    F.    Aðrar upplýsingar.

III. VIÐAUKI
VERÐBRÉFALÝSING

I.    Nöfn stjórnarmanna, æðstu stjórnenda, ráðgjafa og endurskoðenda
    Tilgangurinn er að tilgreina fulltrúa fyrirtækisins og aðra einstaklinga sem tengjast útboði eða skráningu fyrirtækisins. Þessir einstaklingar bera ábyrgð á samningu útboðs- og skráningarlýsingarinnar og á endurskoðun ársreikninga.
II.    Tölfræðilegar upplýsingar um útboð og væntanleg tímaáætlun
    Tilgangurinn er að veita helstu upplýsingar um framkvæmd útboða og tilgreina mikilvægar dagsetningar sem tengjast þeim.
    A.    Tölfræðilegar upplýsingar um útboð.
    B.    Aðferð og væntanleg tímaáætlun.
III.    Helstu upplýsingar um útgefandann
    Tilgangurinn er að gera í stuttu máli grein fyrir helstu upplýsingum um fjárhagsstöðu fyrirtækisins, fjármögnun og áhættuþætti. Ef ársreikningar í skjalinu eru verðleiðréttir til að endurspegla veigamiklar breytingar á uppbyggingu fyrirtækjahóps fyrirtækisins eða reikningsskilastefnu skal einnig verðleiðrétta valin fjármálagögn.
    A.    Fjármögnun og skuldastaða.
    B.    Ástæður fyrir útboðinu og notkun ágóðans.
    C.    Áhættuþættir.
IV.    Hagsmunir sérfræðinga
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um viðskipti fyrirtækisins við sérfræðinga eða ráðgjafa sem eru ráðnir gegn þóknun.
V.    Ítarlegar upplýsingar um útboð og skráningu
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar um útboð og skráningu verðbréfa, áætlun um dreifingu verðbréfa og tengd málefni.
    A.    Útboð og skráning.
    B.    Áætlun um dreifingu.
    C.    Markaðir.
    D.    Verðbréfaeigendur sem vilja selja.
    E.    Þynning (einungis hlutabréf).
    F.    Útgáfukostnaður.
VI.    Viðbótarupplýsingar
    Tilgangurinn er að veita upplýsingar sem flestar eru lögboðnar og ekki finnast annars staðar í útboðs- og skráningarlýsingunni.
    A.    Gjaldeyriseftirlit.
    B.    Skattlagning.
    C.    Arður og stofnanir sem annast greiðslur.
    D.    Yfirlýsing frá sérfræðingum.
    E.    Skjöl til sýnis.

IV. VIÐAUKI
SAMANTEKT

Í samantektinni skulu mikilvægustu upplýsingar útboðs- og skráningarlýsingarinnar settar fram, á nokkrum blaðsíðum, og skulu a.m.k. eftirfarandi atriði koma fram:
–    nöfn stjórnarmanna, æðstu stjórnenda, ráðgjafa og endurskoðenda,
–    tölfræðilegar upplýsingar um útboð og væntanleg tímaáætlun,
–    helstu upplýsingar varðandi valin fjármálagögn, eigið fjármagn og skuldastöðu, ástæður fyrir útboðinu og notkun ágóðans, áhættuþættir,
–    upplýsingar um útgefandann,
    –    saga og þróun útgefandans,
    –    yfirlit yfir viðskiptastarfsemi,
–    yfirlit yfir rekstur og fjármál og framtíðarhorfur,
    –    rannsóknir og þróun, einkaleyfi og leyfi o.s.frv.,
    –    horfur,
–    stjórnarmenn, æðstu stjórnendur og launamenn,
–    stærstu hluthafar og viðskipti tengdra aðila,
–    fjárhagslegar upplýsingar,
    –    samstæðureikningsskil og aðrar fjárhagslegar upplýsingar,
    –    mikilvægar breytingar,
–    ítarlegar upplýsingar um útboð og skráningu,
    –    útboð og skráning,
    –    áætlun um dreifingu,
    –    markaðir,
    –    hluthafar sem vilja selja,
    –    þynning (einungis hlutabréf),
    –    útgáfukostnaður,
–    viðbótarupplýsingar,
    –    hlutafé,
    –    stofnsamþykktir,
    –    skjöl til skoðunar.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 130, 29.4.2004, bls. 3 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 23, 29.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 240 E, 28.8.2001, bls. 272 og Stjtíð. EB C 20 E, 28.1.2003, bls. 122.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 80, 3.4.2002, bls. 52.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 344, 6.12.2001, bls. 4.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 14. mars 2002 (Stjtíð. EB C 47 E, 27.2.2003, bls. 417), sameiginleg afstaða ráðsins frá 24. mars 2003 (Stjtíð. EB C 125 E, 27.5.2003, bls. 21) og afstaða Evrópuþingsins frá 2. júlí 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 15. júlí 2003.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 100, 17.4.1980, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/18/EB (Stjtíð. EB L 135, 31.5.1994, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 124, 5.5.1989, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 184, 6.7.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
Neðanmálsgrein: 12
(1)    International disclosure standards for cross-border offering and initial listings by foreign issuers, I. hluti, útgefið af Alþjóðasamtökum eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði í september 1998.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 191, 13.7.2001, bls. 45.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 135, 31.5.1994, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37).
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. EB L 125, 5.5.2001, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 18
(1)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.