Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 231. máls.

Þskj. 234  —  231. mál.



Frumvarp til laga

um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn á innlendum vinnumarkaði.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um útreikning á fjölda starfsmanna í fyrirtækjum skv. 1. mgr.
    Lögin gilda ekki um áhafnir hafskipa.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum og stuðla að því að fulltrúar starfsmanna og fyrirtæki vinni í anda samvinnu við tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs, að teknu tilliti til hagsmuna beggja aðila.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Fulltrúar starfsmanna: Trúnaðarmenn stéttarfélaga og/eða sameiginlegur fulltrúi þeirra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis sem ekki eiga trúnaðarmann nema annað sé ákveðið í kjarasamningum eða samkomulag sé um aðra framkvæmd í fyrirtæki.
     2.      Fyrirtæki: Félög, einstaklingar og opinber fyrirtæki sem stunda atvinnurekstur án tillits til þess hvort slíkt sé gert í hagnaðarskyni.
     3.      Samráð: Viðræður og skoðanaskipti fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda.
     4.      Upplýsingar: Gögn og skýringar sem miðlað er af hálfu atvinnurekanda til fulltrúa starfsmanna til að gera þeim kleift að kynna sér efni máls og leggja mat á það.

4. gr.
Upplýsingar.

    Atvinnurekendur skulu veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um eftirfarandi:
     a.      nýliðna þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins,
     b.      stöðu, skipulag og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu og um allar ráðstafanir sem fyrirsjáanlegar eru, einkum ef atvinnuöryggi er ógnað,
     c.      ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna, þar með taldar ákvarðanir sem eru byggðar á ákvæðum laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hópuppsagnir.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu veittar á þeim tíma, á þann hátt og þess efnis sem heppilegast er svo að fulltrúar starfsmanna geti hafið viðeigandi athugun og undirbúið samráð ef þess gerist þörf.

5. gr.
Samráð.

    Í framhaldi af upplýsingagjöf skv. b- og c-lið 1. mgr. 4. gr. skal fulltrúum starfsmanna gefast kostur á samráði með því að eiga fund með atvinnurekanda og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Jafnframt skal atvinnurekandi gera fulltrúum starfsmanna grein fyrir ástæðum viðbragða sinna.
    Samráð skv. 1. mgr. skal fara fram með þeim hætti að tryggt sé að tímasetning, fyrirkomulag og efni þess sé eins og við á hverju sinni. Skal samráðið eiga sér stað á grundvelli upplýsinga frá atvinnurekanda, sbr. 4. gr., og álits fulltrúa starfsmanna sem þeir kunna að setja fram.
    Samráð skv. 1. mgr. skal eiga sér stað á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins og með viðeigandi fyrirsvari eftir því hvaða efni er til umræðu.
    Samráð varðandi ákvarðanir skv. c-lið 1. mgr. 4. gr. skal fara fram með það að markmiði að ná samkomulagi um ákvarðanirnar.

6. gr.
Samningar um upplýsingar og samráð.

    Heimilt er með kjarasamningum eða samningum milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna að kveða á um tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs innan fyrirtækja og eftir atvikum að víkja frá ákvæðum 4. og 5. gr. að því tilskildu að markmiða laganna sé gætt, sbr. 2. gr.

7. gr.
Undanþága frá skyldu til upplýsingagjafar og samráðs.

    Atvinnurekanda er ekki skylt að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar eða að hafa við þá samráð ef upplýsingarnar eru samkvæmt hlutlægum viðmiðum þess eðlis að það geti valdið alvarlegu tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins.

8. gr.
Trúnaðarupplýsingar og þagnarskylda.

    Atvinnurekanda er heimilt að binda upplýsingar sem hann veitir fulltrúum starfsmanna trúnaði á grundvelli lögmætra hagsmuna fyrirtækisins.
    Fulltrúum starfsmanna og sérfræðingum sem kunna að aðstoða þá er óheimilt að láta starfsmönnum eða öðrum í té trúnaðarupplýsingar skv. 1. mgr. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

9. gr.
Vernd fulltrúa starfsmanna.

    Fulltrúar starfsmanna skulu njóta sömu réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, vegna þeirra starfa sem þeir takast á hendur á grundvelli laga þessara.

10. gr.
Viðurlög.

    Brot á þagnarskylduákvæði 8. gr. þegar trúnaðarupplýsingar eru látnar þriðja aðila í té varðar fésektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Brot á 4., 5. og 9. gr. laga þessara varða fésektum.
    Fara skal með mál vegna brota skv. 1. og 2. mgr. að hætti opinberra mála.

11. gr.
Innleiðing á tilskipun.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun 2002/14/EB frá 11. mars 2002, um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins, sem vísað er til í 32. lið f XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 172/2002.

12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. gr. skal gildissvið laganna fram til 1. mars 2008 takmarkast við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög til innleiðingar á efni tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB frá 11. mars 2002, um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins. Tilskipunin er hluti EES-samningsins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2002 frá 6. desember 2002. Skv. 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar rann frestur til að samþykkja nauðsynleg lög eða stjórnsýslufyrirmæli eða tryggja að aðilar vinnumarkaðarins samþykktu nauðsynleg ákvæði til að hrinda tilskipuninni í framkvæmd út 23. mars 2005.
    Efni tilskipunarinnar er á margan hátt þess eðlis að æskilegt hefði verið að innleiðing hennar hefði átt sér stað með kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. Félagsmálaráðuneytið fól á sínum tíma helstu samtökum aðila vinnumarkaðarins að fjalla um hugsanlega innleiðingu tilskipunarinnar með kjarasamningum sín á milli. Í lok árs 2005 þótti fullreynt að aðilar næðu saman um efni samninga til innleiðingar á efni tilskipunarinnar og ljóst að ekki gæfist svigrúm til að veita þeim frekari tímafresti. Fól félagsmálaráðuneytið þá Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst að semja drög að frumvarpi til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar hér á landi. Frumvarp þetta byggist á þeim drögum, en við gerð þess var haft samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins.
    Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af þeirri löggjöf sem þegar gildir hér á landi og varðar upplýsingagjöf, samráð og þátttöku starfsmanna og vísað er til í kafla IV hér á eftir. Þá var höfð hliðsjón af innleiðingu tilskipunar 2002/14/EB í norskan og danskan rétt, sbr. lög nr. 303/2005 í Danmörku (Lov om information og høring af lønmodtagere) og 8. kafla norsku vinnuumhverfislaganna nr. 62/2005 (Lov om arbeidsmiljø, arbeidstid og stillingsvern mv.). Fyrst og fremst var þó haft til hliðsjónar að reglur frumvarpsins innleiði með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt þær reglur sem tilskipun 2002/14/EB mælir fyrir um, auk þess sem þeim aðilum sem reglurnar ná til verði veittur sveigjanleiki til að hrinda upplýsingagjöf og samráði í fyrirtækjum í framkvæmd hér á landi.

II. Tilskipun 2002/14/EB.


    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB frá 11. mars 2002 fjallar um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins. Með tilskipuninni er settur almennur rammi um meginreglur, skilgreiningar og tilhögun við miðlun upplýsinga og samráð sem aðildarríkin þurfa að fara að og laga að aðstæðum heima fyrir. Þá er tilskipuninni ætlað að tryggja, eftir því sem við getur átt, leiðandi hlutverk atvinnurekenda og launafólks með því að heimila þeim að skilgreina í frjálsum samningum þá tilhögun við upplýsingar og samráð sem þeir telja að samrýmist best þörfum þeirra og óskum. Tilskipunin hefur heldur ekki áhrif á innlend kerfi sem fela í sér beina þátttöku launafólks svo fremi að það geti nýtt sér rétt sinn til upplýsinga og samráðs gegnum fulltrúa sína. Áréttað er í formálsorðum tilskipunarinnar að upplýsingar og samráð feli í sér bæði réttindi og skyldur atvinnurekenda og launafólks í fyrirtækjum og starfsstöðvum.
    Tilskipunin felur í sér lágmarksreglur varðandi upplýsingagjöf og samráð við launafólk sem hindra þó ekki að aðildarríkin mæli fyrir um ákvæði sem séu því hagstæðari. Tilskipuninni er ekki ætlað að hafa áhrif á nánari sérreglur um upplýsingagjöf samkvæmt tilskipun ráðsins 98/59/EB, um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir, né samkvæmt tilskipun ráðsins 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Þá er henni ekki ætlað að hafa áhrif á annan rétt til upplýsinga og samráðs, þar með talinn rétt sem leiðir af tilskipun ráðsins 94/45/EB, um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn.
    Í formálsorðum tilskipunarinnar er tekið fram að þeir lagarammar, innlendir og á vettvangi bandalagsins, sem er ætlað að tryggja að launafólk eigi hlut að málefnum fyrirtækisins sem það starfar hjá og ákvörðunum sem snerta það, hafi ekki alltaf komið í veg fyrir að mikilvægar ákvarðanir séu teknar og gerðar opinberar án þess að tilhlýðileg málsmeðferð hafi áður farið fram til að miðla upplýsingum til launafólks og hafa samráð við það. Þörf sé á að efla skoðanaskipti og gagnkvæmt traust innan fyrirtækja í því markmiði að bæta viðbúnað við áföllum og auka sveigjanleika í skipulagi vinnunnar. Einnig í því skyni að gera starfsmenn meðvitaðri um þörfina á aðlögun, auðvelda þeim að taka þátt í ráðstöfunum og aðgerðum sem auka ráðningarhæfi þeirra, stuðla að auknum áhrifum þeirra á rekstur og framtíð fyrirtækisins og auka um leið samkeppnishæfni þess. Einkum sé þörf á að styðja við og auka miðlun upplýsinga og samráð um stöðu og horfur í atvinnumálum í fyrirtækinu. Einnig sé þörf á slíku þegar vinnuveitandi metur það svo að atvinnuöryggi sé ógnað innan fyrirtækisins, um mögulegan, fyrirhugaðan viðbúnað, einkum með tilliti til starfsþjálfunar og aukinnar færni launafólks, með það fyrir augum að vega á móti neikvæðri þróun eða afleiðingum hennar og auka ráðningarhæfi og aðlögunarhæfni launafólks sem líklegt er að þetta hafi áhrif á. Er tekið fram að upplýsingamiðlun og samráð í tæka tíð sé forsendan fyrir því að árangur náist við endurskipulagningu og aðlögun fyrirtækja að nýjum aðstæðum sem skapast vegna hnattvæðingar efnahagslífsins, einkum með þróun nýrra aðferða við skipulagningu vinnunnar.
    Tekið er fram í formálsorðum tilskipunarinnar að forðast verði allar hömlur á sviði stjórnsýslu, fjármála og löggjafar sem staðið gætu í vegi fyrir stofnun og þróun lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Því sé gildissvið hennar takmarkað, að vali aðildarríkjanna, við fyrirtæki með a.m.k. 50 starfsmenn eða starfsstöðvar þar sem a.m.k. 20 manns vinna. Þá skuli aðildarríki, þar sem ekki hefur verið komið á lögboðnu upplýsinga- og samráðskerfi fyrir launafólk eða fulltrúa þeirra, hafa þann möguleika til bráðabirgða að takmarka enn frekar gildissvið tilskipunarinnar að því er varðar fjölda launafólks. Er ein af forsendum tilskipunarinnar að bandalagsrammi fyrir upplýsingar til launafólks og samráð við það ætti að halda fyrirhöfn fyrirtækja eða starfsstöðva í lágmarki og tryggja um leið að þau réttindi sem veitt eru séu nýtt á skilvirkan hátt. Sérstaklega er tiltekið í formálsorðunum að fyrirtæki og starfsstöðvar skuli vernduð gegn því að afhentar séu sérlega viðkvæmar upplýsingar auk þess sem að vinnuveitandanum skuli heimilt að veita ekki upplýsingar og hafa ekki samráð við tilteknar aðstæður sem nánar greinir í tilskipuninni.

III. Um efni frumvarpsins.


    Í frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði þær reglur sem kveðið er á um í tilskipun 2002/14/EB. Frumvarpið fylgir í öllum meginatriðum efni tilskipunarinnar. Jafnframt er fylgt því markmiði hennar að leggja nánari útfærslu upplýsingagjafar og samráðs í hendur aðila vinnumarkaðarins auk þess sem lagt er til að unnt verði að útfæra reglurnar með samkomulagi á vinnustöðum, innan þeirra marka sem tilskipunin heimilar.
    Markmið frumvarpsins er að setja meginreglur til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar og tryggja þannig rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum. Þar sem ekki er fyrir hendi sama hefð hér á landi fyrir slíku fyrirkomulagi og víða í nágrannaríkjum okkar fylgir frumvarpið lágmarksreglum tilskipunarinnar og gerir ráð fyrir tilteknum heimildum til aðlögunar að því er snertir stærð þeirra fyrirtækja sem falla undir gildissvið þess.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar fer það eftir vali aðildarríkjanna hvort þau afmarki gildissviðið með þeim hætti að miðað sé við fyrirtæki með a.m.k. 50 starfsmenn eða þannig að undir það falli starfsstöðvar sem hafi a.m.k. 20 starfsmenn í vinnu í einhverju aðildarríki. Hér er lagt til í samræmi við fyrri kostinn að undir gildissviðið falli fyrirtæki þar sem starfi að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn. Þá er samkvæmt heimild í tilskipuninni kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða að fram til 1. mars 2008 takmarkist gildissvið laganna við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 manns.
    Gert er ráð fyrir að trúnaðarmenn starfsmanna gegni meginhlutverki sem fulltrúar starfsmanna varðandi upplýsingar og samráð samkvæmt frumvarpinu. Einnig er gert ráð fyrir að þeir starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann velji sé sameiginlegan fulltrúa til þessara starfa. Heimilt er þó að ákveða annað fyrirkomulag með kjarasamningum auk þess sem samkomulag getur verið um aðra framkvæmd eða það helgast af venju innan fyrirtækis. Fulltrúar starfsmanna í framangreindum skilningi fara þannig með þau réttindi sem frumvarpið kveður á um í umboði starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis. Rétt þykir að veita með framangreindum hætti sveigjanleika varðandi það hvernig samráðinu verður hagað, auk þess sem svigrúm er fyrir hendi til að ákveða hvort samráðið fari fram í sérstökum samráðsnefndum og hvernig val á fulltrúum fari fram í stærri fyrirtækjum þar sem fjöldi trúnaðarmanna er til staðar.
    Meginreglur frumvarpsins fjalla um skyldu fyrirtækja til að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar og hafa við þá samráð varðandi tiltekin málefni. Atvinnurekendum ber þannig að veita starfsmönnum upplýsingar í þremur flokkum tilvika. Í fyrsta lagi varðandi þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Í öðru lagi lýtur upplýsingaskyldan að atvinnumálum í fyrirtækinu. Loks eiga fulltrúar starfsmanna rétt á upplýsingum um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna. Fer það nokkuð eftir efni þess máls sem er til umfjöllunar hverju sinni hvenær eðlilegt er að upplýsingarnar séu lagðar fram af hálfu atvinnurekandans. Í þeim tilvikum þar sem skylda til samráðs við fulltrúa starfsmanna er fyrir hendi er þó ávallt skilyrði að atvinnurekandinn hagi upplýsingagjöf sinni þannig að fulltrúar starfsmanna hafi raunverulega möguleika til að setja sig inn í málið og taka þátt í því samráði sem gert er ráð fyrir í framhaldinu. Skal fulltrúum starfsmanna þá gefast kostur á að hitta atvinnurekandann og fá viðbrögð frá honum við því áliti sem þeir kunna að setja fram. Jafnframt skal atvinnurekandi gera fulltrúum starfsmanna grein fyrir ástæðum viðbragða sinna.
    Nauðsynlegt er að samráðið fari fram af hálfu atvinnurekandans á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins, þannig að þeir fyrirsvarsmenn fyrirtækisins sem taka þátt í því komi að ákvarðanatöku varðandi það eða þau málefni sem samráðið lýtur að.
    Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar verði útfærð nánar í kjarasamningum eða eftir atvikum með samkomulagi milli fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda innan fyrirtækja. Er þá miðað við að kjarasamningar eða samningar milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna kveði á um tilhögun og framkvæmd upplýsinga og samráðs innan fyrirtækja og eftir atvikum vikið frá ákvæðum 4. og 5. gr. að því tilskildu að markmiða frumvarps þessa sé gætt. Þar með er veitt enn frekara svigrúm og sveigjanleiki til að koma slíku fyrirkomulagi á innan fyrirtækja eða eftir atvikum til að nýta það fyrirkomulag sem þegar kann að vera fyrir hendi.
    Meginreglan er sú að atvinnurekanda ber að veita þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins og hafa síðan í framhaldi af því samráð við fulltrúa starfsmanna að því er snertir upplýsingar sem falla undir b- og c-lið ákvæðisins. Þar sem nauðsynlegt getur verið að undanþiggja tilteknar upplýsingar frá þessari skyldu er mælt fyrir um að í undantekningartilvikum geti atvinnurekandi látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar, enda geti þær valdið alvarlegu tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins. Þá er einnig mælt fyrir um að atvinnurekandi geti við vissar aðstæður bundið upplýsingar sem hann veitir trúnaði.
Fjallað er um málsmeðferð í 1. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 2002/14/EB. Í síðarnefnda ákvæðinu er kveðið á um að með fyrirvara um gildandi, innlenda málsmeðferð skulu aðildarríkin kveða á um stjórnsýslu- eða réttarfarslega málsmeðferð að því er varðar þau tilvik þegar vinnuveitandi krefst þagnarskyldu, hefur bundið upplýsingar trúnaði eða veitir ekki upplýsingar. Ekki er kveðið sérstaklega á um málsmeðferð í frumvarpinu enda verður slíkum ágreiningsmálum samkvæmt almennum reglum skotið til úrlausnar almennra dómstóla líkt og öðrum ágreiningi varðandi framkvæmd laganna.

IV. Tengsl frumvarpsins við landsrétt.


    Hér á landi hefur fram til þessa ekki verið fyrir hendi löggjöf sem mælir fyrir um jafnalmennan rétt til þátttöku í undirbúningi að ákvarðanatöku fyrirtækja og frumvarp þetta kveður á um. Þá hefur sem fyrr getur ekki verið til að dreifa hefð á íslenskum vinnumarkaði varðandi upplýsingagjöf eða samráð milli atvinnurekenda og launamanna, enda þótt einstaka tilvik finnist um slíkt. Almennt munu því réttindi launamanna í þeim fyrirtækjum sem falla undir gildissvið laganna aukast allnokkuð við lögleiðingu þeirra reglna sem felast í frumvarpinu.
    Ákvæði frumvarpsins skerða ekki rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs samkvæmt gildandi reglum. Þau hafa þannig ekki áhrif á annan rétt til upplýsinga, samráðs og þátttöku starfsmanna sem mælt er fyrir um í lögum nr. 63/2000, um hópuppsagnir, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Sama á við um gildissvið frumvarpsins gagnvart lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, og lögum nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í samræmi við a-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/14/EB er lagt til að undir gildissvið frumvarpsins falli fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn á innlendum vinnumarkaði, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið. Er það einnig í samræmi við 19. lið formála tilskipunarinnar þar sem fram kemur að gildissviðið skuli takmarkað til að koma í veg fyrir hömlur á sviði stjórnsýslu, fjármála eða löggjafar sem gætu staðið í vegi fyrir stofnun og þróun lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hugtakið „fyrirtæki“ er nánar skilgreint í 2. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríkin ákvarða aðferðina við að reikna út mörk um mannafla í fyrirtækjum. Í 2. mgr. er lagt til að félagsmálaráðherra verði falið að setja nánari ákvæði um útreikning á fjölda starfsmanna í reglugerð. Er gert ráð fyrir að þar verði starfsmenn í hlutastarfi lagðir að jöfnu við starfsmenn sem gegna fullu starfi. Hér er þó ekki átt við starfsmenn hjá hinu opinbera sem eru á tímakaupi. Á hinn bóginn hafi afleysingastarfsmenn vegna sumarfría, veikinda eða annarra fjarvista ekki áhrif við útreikning á fjölda starfsmanna. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að þar verði tiltekið tímabil sem starfsmannafjöldi fyrirtækis er miðaður við.
    Ákvæði 3. mgr. byggist á 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar sem heimilar að vikið sé frá ákvæðum hennar með því að setja sérákvæði um áhafnir skipa sem sigla á úthöfum. Í samræmi við það er lagt til að lögin gildi ekki um áhafnir hafskipa. Með hugtakinu hafskip er átt við skip sem siglir á opnu hafi, þ.e. annað en það sem siglir eingöngu á innlendum vatnaleiðum, í landvari, á svæðum nærri landvari eða þar sem hafnarreglur gilda. Er hér byggt á skilgreiningu á hugtakinu sem er að finna í alþjóðasamþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá árinu 1978 sem fullgilt var af Íslands hálfu árið 1995. Sambærilega skilgreiningu og afmörkun á gildissviði er einnig að finna í b-lið 2. mgr. 1. gr. laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Um 2. gr.

    Í greininni er lýst því markmiði frumvarpsins að tryggja rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum sem falla undir gildissvið þess. Í samræmi við 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/14/EB er einnig tekið fram að markmiðið sé að stuðla að því að fulltrúar starfsmanna og fyrirtæki vinni í anda samvinnu við tilhögun og framkvæmd upplýsinga og samráðs, að teknu tilliti til hagsmuna beggja aðila. Er það því til áréttingar að frumvarpið felur í sér meginreglur sem gilda varðandi þetta efni en því er jafnframt ætlað að tryggja sveigjanleika í útfærslu og framkvæmd upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum hér á landi, með kjarasamningum eða samkomulagi milli beggja aðila innan fyrirtækja.

Um 3. gr.

    Greinin hefur að geyma skilgreiningar á nokkrum hugtökum sem fram koma í frumvarpinu.
    Í 1. tölul. er að finna skilgreiningu á fulltrúum starfsmanna. Gert er ráð fyrir að trúnaðarmenn stéttarfélaga, sbr. I. kafla laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, fari í flestum tilvikum með þetta hlutverk, sbr. einnig V. kafla laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og eftir atvikum ákvæði um trúnaðarmenn í kjarasamningum. Þeir starfsmenn sem ekki eigi trúnaðarmann velji sér hins vegar sameiginlegan fulltrúa úr sínum hópi sem komi fram fyrir þeirra hönd. Þó er gert ráð fyrir að annað fyrirkomulag geti verið á því hverjir gegna hlutverki fulltrúa starfsmanna, sé mælt fyrir um slíkt í kjarasamningum eða ef samkomulag er um aðra framkvæmd í fyrirtæki. Er það í samræmi við skilgreiningu í e-lið 2. gr. tilskipunar 2002/14/EB sem og 5. gr. tilskipunarinnar þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðu svigrúmi við að ákvarða fyrirkomulag upplýsinga og samráðs.
    Hugtakið fyrirtæki, sbr. 2. tölul., felur í sér mikilvæga afmörkun á gildissviði frumvarpsins. Í a-lið 2. gr. tilskipunar 2002/14/EB er tekið fram að fyrirtæki í skilningi tilskipunarinnar sé „opinbert fyrirtæki eða einkafyrirtæki sem stundar atvinnustarfsemi hvort sem er í hagnaðarskyni eða ekki, og er staðsett á yfirráðasvæði aðildarríkjanna“. Sú skilgreining sem lögð er til í frumvarpinu er í samræmi við þetta. Jafnt opinber fyrirtæki sem einkafyrirtæki geta því fallið þarna undir, en hugtaksskilyrði er að viðkomandi fyrirtæki stundi atvinnurekstur. Opinberar stofnanir sem hafa með höndum stjórnsýsluverkefni falla utan hugtaksins, enda geta slíkar stofnanir ekki talist stunda atvinnustarfsemi eða rekstur í framangreindum skilningi.
    Hugtakið samráð, sbr. 3. tölul., felur í sér að viðræður og skoðanaskipti eiga sér stað milli fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda, en í því felst virk þátttaka af hálfu beggja aðila.
    Hugtakið upplýsingar, sbr. 4. tölul., skýrir sig að mestu leyti sjálft. Gert er ráð fyrir að upplýsingagjöfin af hálfu atvinnurekandans geti eftir eðli máls ýmist verið í formi gagna sem afhent verði fulltrúum starfsmanna, farið fram munnlega eða hvorutveggja. Er gert ráð fyrir að fyrirkomulagið fari að þessu leyti eftir samkomulagi innan fyrirtækja eða venju.

Um 4. gr.

    Greinin byggist á 4. gr. tilskipunar 2002/14/EB sem er meginákvæði tilskipunarinnar.
    Í a-lið 1. mgr. er mælt fyrir um skyldu atvinnurekanda til að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um þróun og horfur varðandi starfsemi og fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Er hér átt við almennar upplýsingar, svo sem varðandi stöðu fyrirtækisins á markaði, framleiðslu og samkeppnisstöðu þess.
    Ákvæði b-liðar 1. mgr. fjallar um upplýsingaskyldu varðandi atvinnumál í fyrirtækinu. Hér er ekki átt við upplýsingar um einstaklingsbundnar ákvarðanir heldur almennar upplýsingar af hálfu atvinnurekanda um stöðu atvinnumála innan fyrirtækisins. Hér getur sem dæmi fallið undir ef fyrirtækið tekur í notkun nýja tækni sem leiðir til fækkunar á starfsmönnum, úthýsir hluta af starfsemi sinni eða hyggst segja upp hópi starfsmanna til hagræðingar.
    Í c-lið 1. mgr. er kveðið á um upplýsingaskyldu atvinnurekanda varðandi ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á samningum við starfsmenn. Með verulegum breytingum á skipulagi vinnunnar er til dæmis átt við verulegar breytingar á vinnutíma sem varða stóran hluta starfsmanna. Með verulegum breytingum á ráðningarsamningum við starfsmenn er átt við verulegar breytingar á ráðningarfyrirkomulagi, t.d. ef tekin er upp hlutavinna.
    Ákvæði 2. mgr. byggist á 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Þar sem upplýsingar af hálfu atvinnurekanda skv. a-lið 1. mgr. kalla ekki á samráð er eðlilegt að atvinnurekendur hafi meira svigrúm í þeim tilvikum varðandi tímasetningu upplýsingagjafarinnar. Upplýsingar sem veittar eru skv. b- og c-lið 1. mgr. þurfa á hinn bóginn að vera lagðar fram með þeim fyrirvara, miðað við eðli máls, að raunverulegt samráð geti átt sér stað. Í þessu felst jafnframt að upplýsingarnar þurfa að vera settar fram á nægilega skýran hátt þannig að fulltrúar starfsmanna geti athugað málið og undirbúið samráðið.
    Þar sem frumvarpið tekur til margvíslegra fyrirtækja bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði þykir ekki rétt að lögbinda nánar hvernig upplýsingagjöfin fer fram, en gert er ráð fyrir að nánari útfærsla hennar fari samkvæmt kjarasamningum eða samkomulagi milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna. Þá er í 6. gr. frumvarpsins mælt fyrir um heimild til að víkja frá tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar samkvæmt þessu ákvæði.

Um 5. gr.

    Greinin byggist eins og 4. gr. frumvarpsins á 4. gr. tilskipunar 2002/14/EB. Samráð milli fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda á sér stað, sbr. 1. mgr., í framhaldi af upplýsingagjöf skv. b- og c-lið 1. mgr. 4. gr. Það fer eftir því efni sem til umræðu er hvort fullnægjandi er að samráð eigi sér stað á einum fundi eða hvort fleiri samráðsfundi þarf til. Fulltrúar starfsmanna eiga rétt á viðbrögðum af hálfu atvinnurekenda og skýringum hans láti þeir álit sitt í ljós, hvort sem það er sett fram munnlega eða skriflega af þeirra hálfu. Í samræmi við a-lið 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er í 2. mgr. veitt talsvert svigrúm við mat á því hvenær og með hvaða hætti samráð fer fram, en það fer eftir því efni sem til meðferðar er hverju sinni hvaða kröfur verða gerðar í því sambandi. Atvinnurekanda ber þó ávallt skylda til að veita upplýsingar skv. 4. gr. og skal samráðið byggjast á þeim upplýsingum sem og áliti fulltrúa starfsmanna sem þeir kunna að setja fram. Jafnframt ber atvinnurekanda að hafa samráð áður en endanleg ákvörðun hefur verið tekin af hans hálfu um þá ráðstöfun sem upplýsingarnar og samráðið lýtur að, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins frá 27. janúar 2005 í máli C-188/03, Irmtraud Junk c. Wolfgang Kühnel als Insolvenzverwalter über das Vermögen der Firma AWO. Í samræmi við b-lið 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er í 3. mgr. mælt fyrir um að samráð skuli eiga sér stað á viðeigandi stjórnunarstigi fyrirtækisins og með viðeigandi fyrirsvari af hálfu atvinnurekandans. Það fer eftir því málefni sem er til umfjöllunar hverju sinni hvað getur talist viðeigandi í þessu tilliti. Felst í þessu að þeir fyrirsvarsmenn fyrirtækisins sem taka þátt í samráðinu komi að ákvörðun þess um það eða þau málefni sem til umfjöllunar eru.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að samráð um ákvarðanir sem líklegt er að leiði til verulegra breytinga á skipulagi vinnunnar eða á ráðningarsamningum starfsmanna skuli hafa það að markmiði að ná fram samkomulagi um ákvarðanirnar, sbr. e-lið 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Árétta ber þó hér að samráðið sem mælt er fyrir um í greininni og það að þess skuli freistað að ná fram samkomulagi um tiltekin efni breytir því ekki að endanlegt ákvörðunarvald hvílir ávallt á atvinnurekandanum á grundvelli almenns stjórnunarréttar hans innan fyrirtækisins.
    Líkt og fram kemur í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins er varðar upplýsingagjöfina er gert ráð fyrir að um nánari framkvæmd samráðs fari samkvæmt kjarasamningum eða samkomulagi á vinnustað, auk þess sem frekari heimild til frávika er að finna í 6. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í samræmi við heimild 5. gr. tilskipunar 2002/14/EB er í greininni mælt fyrir um heimild til að kveða í kjarasamningum eða samningi milli atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna nánar á um tilhögun og framkvæmd upplýsingagjafar og samráðs og eftir atvikum að víkja frá því fyrirkomulagi upplýsingagjafar og samráðs sem greinir í 4. og 5. gr. frumvarpsins. Sé heimild um frávik nýtt ber að koma á virku skipulagi upplýsingagjafar og samráðs í samræmi við þær meginreglur sem getið er í 1. gr. tilskipunarinnar, sbr. einkum 3. mgr. ákvæðisins sem og markmiðsákvæði 2. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um heimild atvinnurekenda til að láta ekki upplýsingar af hendi og hafa ekki samráð við fulltrúa starfsmanna í vissum undantekningartilvikum. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2002/14/EB er slíkt aðeins heimilt þegar slíkar upplýsingar og samráð eru þess eðlis, samkvæmt hlutlægum viðmiðum, að það geti valdið alvarlegu tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins. Undir ákvæðið fellur t.d. ef upplýsingagjöf mundi geta haft áhrif á stöðu fyrirtækis á markaði. Heimildina verður að skýra fremur þröngt, meðal annars með vísan til þess að skv. 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heimilt sé að binda upplýsingar trúnaði. Unnt er að bera ágreining um lögmæti ákvörðunar samkvæmt þessari grein undir almenna dómstóla, sbr. almennar athugasemdir hér að framan. Einnig getur varðað sektum að undanskilja upplýsingar sem skylt er að láta af hendi, sbr. 10. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Ákvæðið á sér samsvörun í 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 2002/14/EB. Mælt er fyrir um þagnarskyldu fulltrúa starfsmanna og eftir atvikum sérfræðinga sem koma þeim til aðstoðar varðandi þær upplýsingar sem fyrirtækið hefur bundið trúnaði á grundvelli lögmætra hagsmuna fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að fulltrúar starfsmanna geti leitað aðstoðar sérfræðinga þegar þörf krefur, en ekki er gert ráð fyrir að þeir taki þátt í hinu eiginlega samráði sem fer fram milli fulltrúa starfsmanna og atvinnurekanda. Með lögmætum hagsmunum fyrirtækisins er fyrst og fremst átt við sjónarmið viðskiptalegs eðlis og samkeppnissjónarmið. Sem dæmi má nefna upplýsingar um að fyrirtæki eigi í fjárhagslegum örðugleikum eða um væntanlega sölu þess. Slíkar upplýsingar geta eftir aðstæðum verið þess eðlis að eðlilegt sé að krefjast þess að farið sé með þær sem trúnaðarmál.
    Í samræmi við framangreint ákvæði 6. gr. tilskipunarinnar er í 2. mgr. mælt fyrir um að þagnarskyldan hvíli áfram á fulltrúum starfsmanna og sérfræðingum sem aðstoða þá eftir að látið er af störfum.

Um 9. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um á hvern hátt fulltrúar starfsmanna sem annast fyrirsvar samkvæmt lögunum skuli njóta verndar og trygginga við störf sín og þarfnast greinin ekki sérstakra skýringa.

Um 10. gr.

    Samkvæmt greininni liggja fésektir við þeirri háttsemi sem þar er tilgreind, en skv. 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 2002/14/EB ber aðildarríkjunum að kveða á um að unnt sé að beita hæfilegum viðurlögum ef atvinnurekandi eða fulltrúar starfsmanna brjóta gegn ákvæðum tilskipunarinnar. Skulu viðurlögin vera áhrifarík, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt til viðurlagaákvæða 22. gr. laga nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, og 34.–35. gr. laga nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.
Í 1. mgr. er að finna refsiákvæði sem einkum getur varðað fulltrúa starfsmanna. Er þar kveðið á um að það varði fésektum að láta af hendi trúnaðarupplýsingar. Rétt er að minna hér á að unnt er að skjóta ágreiningi um hvort heimilt sé að binda upplýsingar trúnaði til dómstóla, sbr. almennar athugasemdir við frumvarpið.
    Í 2. mgr. er kveðið á um refsiábyrgð og mælt fyrir um að brot gegn ákvæðum um upplýsingar og samráð varði fésektum. Dæmi um slíkt er ef atvinnurekandi leynir fulltrúa starfsmanna upplýsingum eða gefur þeim rangar upplýsingar sem hafa áhrif á samráð skv. 5. gr. Sama máli gegnir ef brotið er gegn reglum um vernd fulltrúa starfsmanna skv. 9. gr.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 11. gr. tilskipunar 2002/14/EB, þar sem segir að þegar aðildarríkin samþykki ráðstafanir til að hrinda henni í framkvæmd skuli vera í þeim tilvísun í tilskipunina eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Eins og vísað hefur verið til áður felur frumvarpið í sér nýtt fyrirkomulag hér á landi um skyldu atvinnurekenda til að veita starfsmönnum upplýsingar og hafa við þá samráð um tiltekin efni sem varða rekstur, starfsemi og ákvarðanatöku innan fyrirtækja. Þykir því rétt að nýta þær aðlögunarheimildir sem tilskipun 2002/14/EB heimilar varðandi fjölda starfsmanna í fyrirtækjum er falli undir gildissvið efnisreglna hennar, sbr. bráðabirgðaákvæði 10. gr. tilskipunarinnar. Er þar heimilað að miða gildissviðið fram til 23. mars 2007 við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 150 starfsmenn og næsta ár þar á eftir við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn. Í samræmi við þessar heimildir er lagt til að aðlögunin hér á landi verði þannig að miðað verði við að efni frumvarpsins takmarkist við fyrirtæki þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 100 starfsmenn fram til 1. mars 2008.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/14/EB, um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna innan Evrópubandalagsins og samráð við þá. Tilskipunin var felld inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172/2002. Frumvarpið fylgir í öllum meginatriðum efni tilskipunarinnar en markmið hennar er að tryggja rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 50 starfsmenn. Gert er þó ráð fyrir að fram til 1. mars 2008 takmarkist gildissvið laganna við fyrirtæki þar sem starfa a.m.k. 100 starfsmenn að jafnaði.
    Meginreglur frumvarpsins fjalla um skyldu fyrirtækja til að veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar og samráð sem skal við þá haft varðandi tiltekin málefni er lúta t.d. að fjárhagsstöðu fyrirtækisins, breytingu á vinnuskipulagi og starfsmannafjölda eða á ráðningarsamningum starfsmanna.
    Ekki er gert ráð fyrir að löggilding frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.