Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 430. máls.

Þskj. 518  —  430. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005 frá 30. september 2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2005 frá 30. september 2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB. Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samræmingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB.
    Tilskipunin mælir fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra og viðvarandi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað. Tilskipunin gerir ráð fyrir lágmarkssamræmingu ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu hvað varðar upplýsingagjöfina en einstökum ríkjum er þó heimilt að gera strangari kröfur.
    Þær reglulegu upplýsingar sem útgefanda ber að gera opinberar samkvæmt tilskipuninni eru ársskýrsla, hálfsársuppgjör og skýrsla framkvæmdastjórnar. Viðvarandi upplýsingaskylda hvílir á útgefanda um breytingar á yfirráðum yfir verulegum eignarhluta og atkvæðisrétti. Að auki setur tilskipunin reglur um hvaða upplýsingar skuli vera aðgengilegar hluthöfum útgefenda verðbréfa sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 120/2005

frá 30. september 2005

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2005 frá 8. júlí 2005 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Liechtenstein mun hrinda tilskipun 2004/109/EB í framkvæmd að fullu, þó með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 2001/34/EB enda er sem stendur engin starfsemi í Liechtenstein af því tagi sem fjallað er um í síðarnefndu gerðinni.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 29f (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2004/72/EB):

        „29g.          32004 L 0109: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB (Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38).“

2.         Eftirfarandi undirliður bætist við í 24. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB):

        „-          32004 L 0109: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 (Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2004/109/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 1. október 2005 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 30. september 2005.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Nikulás prins af Liechtenstein


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/109/EB
frá 15. desember 2004
um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 44. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Skilvirkir, gagnsæir og samþættir verðbréfamarkaðir stuðla að myndun raunverulegs innri markaðar í Bandalaginu og efla vöxt og atvinnusköpun með betri skiptingu hlutafjár og minni kostnaði. Tímanleg birting nákvæmra og tæmandi upplýsinga um útgefendur verðbréfa styrkir tiltrú fjárfesta og gerir þeim kleift að meta á grundvelli upplýsinga rekstrarárangur og eignir. Þetta stuðlar bæði að vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins.
2)          Útgefendur verðbréfa skulu í því skyni tryggja viðeigandi gagnsæi fyrir fjárfesta með því að viðhalda reglubundnu upplýsingastreymi. Hluthafar, einstaklingar eða lögaðilar sem hafa atkvæðisrétt eða eiga fjármálagerninga sem veitir þeim rétt til að kaupa fyrirliggjandi hlutabréf með atkvæðisrétti skulu að sama skapi einnig tilkynna útgefendum um kaup á eða aðrar breytingar á verulegum eignarhlutum í fyrirtækjum til að hinir síðarnefndu séu í aðstöðu til að veita almenningi upplýsingar.
3)          Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 11. maí 1999, sem ber heitið: „Að setja ramma um starfsemi fjármálamarkaða: aðgerðaáætlun“, er gerð grein fyrir röð aðgerða sem þörf er á til að fullgera einn innri markað fyrir fjármálaþjónustu að veruleika. Á fundi leiðtogaráðsins í Lissabon í mars 2000 var kallað eftir framkvæmd þeirrar aðgerðaáætlunar eigi síðar en árið 2005. Í aðgerðaáætluninni er lögð áhersla á nauðsyn þess að semja tilskipun þar sem kröfur um gagnsæi eru uppfærðar. Þessi nauðsyn var staðfest á fundi leiðtogaráðsins í Lissabon í mars 2002.
4)          Þessi tilskipun skal samrýmast þeim verkefnum og skyldustörfum sem falin eru Seðlabankakerfi Evrópu (ESCB) og seðlabönkum aðildarríkjanna eins og kveðið er á um í stofnsáttmála og stofnsamþykkt seðlabankakerfis Evrópu og Seðlabanka Evrópu, einkum skal beina athyglinni í þessu tilliti að seðlabönkum aðildarríkjanna sem eru með hlutabréf sín skráð á skipulegan markað til að tryggja að helstu markmiðum laga Bandalagsins verði náð.
5)          Aukin samræming ákvæða landslaga um kröfur um reglubundnar og samfelldar upplýsingar fyrir útgefendur verðbréfa ætti leiða til víðtækrar verndar fjárfesta í Bandalaginu. Þessi tilskipun hefur þó ekki áhrif á gildandi löggjöf Bandalagsins um hlutdeildarskírteini sem gefin eru út af fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, öðrum en lokuðum, eða um hlutdeildarskírteini sem eru keypt eða þeim ráðstafað í slíkum fyrirtækjum.
6)          Að því er þessa tilskipun varðar mundi það skila mestum árangri að aðildarríkið þar sem útgefandinn hefur skráða skrifstofu hefði með höndum eftirlit með hlutum eða skuldabréfum útgefanda, þar sem nafnverð hverrar einingar er lægra en 1 000 evrur. Í þessu tilliti er afar mikilvægt að tryggja að samræmis sé gætt við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/ EB frá 4. nóvember 2003 um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar( 4 )Af sömu ástæðum skal koma á nokkrum sveigjanleika til þess að útgefendur í þriðja landi og félög í Bandalaginu, sem gefa einungis út önnur verðbréf en þau sem nefnd eru hér að framan, hafi kost á að velja sér heimaaðildarríki.
7)          Víðtæk vernd fjárfesta í Bandalaginu mundi gera kleift að afnema hindranir sem koma í veg fyrir að verðbréf séu skráð á skipulegan markað sem er í aðildarríki eða er starfræktur þar. Öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríkinu skal ekki lengur leyft að takmarka skráningu verðbréfa á skipulega markaði sína með því að setja strangari kröfur um reglubundnar og viðvarandi upplýsingar um útgefendur sem eiga verðbréf sem eru skráð á skipulegan markað.
8)          Afnám hindrana á grundvelli meginreglu heimaaðildarríkisins samkvæmt þessari tilskipun skal ekki hafa áhrif á þau svið sem ekki er fjallað um í þessari tilskipun, eins og rétt hluthafa til afskipta af stjórn útgefanda. Það skal ekki heldur hafa áhrif á rétt heimaaðildarríkis til að óska eftir því við útgefandann að hann birti þar að auki hluta upplýsinganna eða upplýsingarnar, sem reglur kveða á um, í heild í dagblöðum.
9)          Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 5 ) hefur þegar verið lagður grunnur að samræmingu reikningsskilastaðla í Bandalaginu fyrir útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og sem þurfa að gera samstæðureikninga. Því hefur þegar verið komið á fót sérstöku kerfi fyrir útgefendur verðbréfa, sem er víðtækara en hið almenna kerfi fyrir öll félög, eins og mælt er fyrir um í tilskipunum um félagarétt. Þessi tilskipun byggist á þessari nálgun hvað varðar árleg og árshlutareikningsskil, þ.m.t. meginregla þess efnis að gefa sanna og glögga mynd af eignum og skuldum útgefanda, fjárhagsstöðu hans og hagnaði og tapi. Samandregin reikningsskil, sem hluti af hálfsárs fjárhagsskýrslu, skapa einnig fullnægjandi grunn til að gefa slíka sanna og glögga mynd af fyrstu sex mánuðum af fjárhagsári útgefanda.
10)          Þegar verðbréf útgefanda hafa verið skráð á skipulegan markað skal birta upplýsingar fyrir hvert ár í árlegri fjárhagsskýrslu. Fjárfestar á verðbréfamörkuðum geta einungis auðveldað sér samanburð á árlegum fjárhagsskýrslur ef þeir geta treyst því að þessar upplýsingar verði birtar innan tiltekins tíma við lok fjárhagsársins. Með sérstökum skilyrðum má heimaaðildarríki hvað varðar skuldabréf sem hafa verið skráð á skipulegan markað fyrir 1. janúar 2005 og gefin eru út af útgefendum sem eru með réttarstöðu lögaðila í þriðja landi, heimila útgefendum að semja árlegar fjárhagsskýrslur í samræmi við staðlana sem krafist er samkvæmt þessari tilskipun.
11)          Í þessari tilskipun eru settar fram umfangsmeiri hálfsársfjárhagsskýrslur fyrir útgefendur hluta sem skráðir eru á skipulegan markað. Þetta gerir fjárfestum kleift að meta betur stöðu fjárfesta á grundvelli upplýsinga.
12)          Heimaaðildarríki má veita útgefendum skuldabréfa undanþágur frá því að birta hálfsársskýrslu ef um er að ræða
    —    lánastofnanir sem starfa sem minni útgefendur skuldabréfa eða
    —    útgefendur sem eru þegar til staðar á gildistökudegi þessarar tilskipunar og gefa eingöngu út skuldabréf sem heimaaðildarríki eða eitt af svæðis- eða staðaryfirvöldum þess ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega eða
    —    einungis þau skuldabréf sem hafa verið skráð á skipulegan markað fyrir 1. janúar 2005 og sem aðeins fagfjárfestar mega kaupa, á tíu ára aðlögunartímabili. Ef heimaaðildarríki veitir slíka undanþágu má ekki láta hana ná til hvers konar skuldabréfa sem verða skráð á skipulegan markað eftir þann tíma.
13)          Evrópuþingið og ráðið fagna loforði framkvæmdastjórnarinnar um að bæta með hraði gagnsæi starfskjarastefnu, greiddra heildarlauna, þ.m.t. hvers kyns skilyrtar eða frestaðar greiðslur og bætur greiddar í fríðu sem hver aðili að stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fær samkvæmt aðgerðaáætlun sinni frá 21. maí 2003 „Að færa félagarétt til nútímahorfs og bæta stjórnarhætti í fyrirtækjum í Evrópusambandinu“ og áform framkvæmdastjórnarinnar um að leggja fram tilmæli um þetta málefni í nánustu framtíð.
14)          Heimaaðildarríki skal hvetja útgefendur, sem eiga hluti sem eru skráðir á skipulegan markað og eru með helstu starfsemi sína í námuiðnaði, til að birta greiðslur til stjórnvalda í árlegri fjárhagsskýrslu sinni. Heimaaðildarríki skal einnig hvetja til þess að slíkar greiðslur verði gagnsærri innan þess ramma sem ýmsar alþjóðlegar stofnanir hafa sett.
15)          Samkvæmt þessari tilskipun verður aðeins útgefendum skuldabréfa á skipulegum markaði skylt að birta hálfsársskýrslur. Aðeins ætti að veita undanþágur fyrir heildsölumarkaði á grundvelli nafnverðs hverrar einingar sem er að lágmarki 50 000 evrur samkvæmt tilskipun 2003/71/EB. Ef skuldabréf eru gefin út í öðrum gjaldmiðli skulu undanþágur einungis veittar þegar nafnverð hverrar einingar í þeim gjaldmiðli á útgáfudegi jafngildir a.m.k. 50 000 evrum.
16)          Til að fá tímanlegri og áreiðanlegri upplýsingar um árangur af hlut útgefanda á fjárhagsárinu er nauðsynlegt að árshlutaupplýsingar séu tíðari. Því skal setja fram kröfu um að birta skuli árshlutareikningsskil stjórnar á fyrstu sex mánuðum og önnur árshlutareikningsskil stjórnar á síðustu sex mánuðum fjárhagsársins. Ekki skal þess krafist að útgefendur hluta, sem hafa þegar birt ársfjórðungslegar fjárhagsupplýsingar, birti árshlutareikningsskil stjórnar.
17)          Viðeigandi reglur um ábyrgð skulu gilda um útgefanda, stjórn hans, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn eða einstaklinga sem bera ábyrgð hjá útgefandanum eins og mælt er fyrir um í hverju aðildarríki samkvæmt innlendum lögum eða reglum. Aðildarríkjunum skal vera frjálst að ákvarða umfang ábyrgðarinnar.
18)          Almenningi skal tilkynnt um breytingar á verulegum eignarhlutum útgefanda hluta sem eru skráðir á skipulegan markað sem er staðsettur eða starfræktur í Bandalaginu. Þessar upplýsingar skulu gera fjárfestum, sem hafa góða þekkingu á breytingum á fyrirkomulagi á atkvæðagreiðslu, kleift að kaupa eða ráðstafa hlutum. Þær skulu einnig auka raunverulegt eftirlit með útgefendum hluta og heildargagnsæi í mikilvægum fjármagnsflutningum á markaðnum. Við sérstakar aðstæður skal veita upplýsingar um hluti eða fjármálagerninga, sem eru lagðir fram sem trygging, eins og ákveðið er í 13. gr.
19)          Ákvæði 9. gr. og c-liðar 10. gr. skulu ekki gilda um hluti sem aðilum að seðlabankakerfi Evrópu eru látnir í té eða þeir láta í té til að sinna hlutverki sínu sem yfirvald á sviði peningamála að því tilskildu að atkvæðisréttur sem tengist slíkum hlutum sé ekki nýttur. Með tilvísun til „stutts tímabils“ í 11. gr. er átt við tilvísun til lánaaðgerða sem eru framkvæmdar í samræmi við sáttmálann og lagagerninga seðlabanka Evrópu (ECB), einkum viðmiðunarreglur seðlabanka Evrópu um gerninga í peningamálastefnu og -aðferðir og TARGET- kerfið, og um lánaaðgerðir í þeim tilgangi að inna af hendi sambærileg verkefni í samræmi við innlend ákvæði.
20)          Til að íþyngja ekki tilteknum markaðsaðilum að óþörfu og til að skýra hver hefur í raun áhrif á útgefanda er ekki þörf á að krefjast þess að tilkynnt sé um verulega eignarhlutdeild hluta eða annarra fjármálagerninga, eins og um getur í 13. gr., þegar sú eignarhlutdeild hefur í för með sér rétt til að kaupa hluti, þegar um er að ræða viðskiptavaka eða vörslumenn, eða um eignarhlutdeild hluta eða þeirra fjármálagerninga sem eingöngu eru keyptir vegna greiðslujöfnunar eða uppgjörs og innan marka og ábyrgða sem gilda skulu í öllu Bandalaginu. Heimaaðildarríkinu skal leyft að veita takmarkaðar undanþágur að því er varðar eignarhald á hlutum í veltubókum lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja.
21)          Til að gera nánari grein fyrir því hver sé í raun stór eigandi hluta eða annarra fjármálagerninga hjá sama útgefanda í Bandalaginu skulu móðurfyrirtækin ekki krafin um að sameina eigin eignarhluta eignarhlutum sem fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) eða fjárfestingarfyrirtæki stýra að því tilskildu að framangreind félög eða fyrirtæki nýti sér atkvæðisrétt sinn óháð móðurfyrirtækjunum og uppfylli tiltekin frekari skilyrði.
22)          Samfelldar upplýsingar sem veittar eru eigendum verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað skulu byggjast áfram á meginreglunni um jafna meðferð. Þessi jafna meðferð lýtur einungis að hluthöfum í sömu stöðu og hefur því ekki áhrif á það hversu margir atkvæðisbærir einstaklingar megi tengjast tilteknum hlut. Á sama hátt skulu eigendur skuldabréfa, sem metin eru jafngild, halda áfram að hagnast af jafnri meðferð jafnvel þegar um ríkisskuldir er að ræða. Greiða skal fyrir upplýsingagjöf til eigenda hluta og/eða skuldabréfa á aðalfundum. Einkum skulu eigendur hluta og/eða skuldabréfa sem eru í útlöndum vera virkari þátttakendur þannig að þeir geti veitt staðgenglum umboð til að koma fram fyrir þeirra hönd. Af sömu ástæðu skal ákveða á aðalfundi eigenda hluta og/eða skuldabréfa hvort nota skuli nútímalega upplýsinga- og samskiptatækni. Í því tilviki skulu útgefendur gera ráðstafanir til að tilkynna eigendum um hluti sína og/eða skuldabréf að svo miklu leyti sem það er mögulegt fyrir þá að bera kennsl á þessa eigendur.
23)          Einnig er með afnámi hindrana og skilvirkri framkvæmd nýrra upplýsingakrafna í Bandalaginu þörf á fullnægjandi eftirliti af hálfu lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins. Í þessari tilskipun skal a.m.k. mælt fyrir um lágmarkstryggingu fyrir því að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar í tæka tíð. Af þessari ástæðu skal vera a.m.k. eitt skráningar- og geymslukerfi í hverju aðildarríki.
24)          Sú skylda útgefanda að þýða allar upplýsingar, sem eru birtar að staðaldri og reglulega, á viðeigandi tungumál allra aðildarríkjanna þar sem verðbréf hans eru skráð á skipulegan markað stuðlar ekki að samþættingu verðbréfamarkaða heldur hamlar gegn skráningu verðbréfa á skipulega markaði yfir landamæri. Útgefandinn skal því í sérstökum tilvikum eiga rétt á að veita upplýsingar sem eru samdar á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum. Þar sem sérstaklega þarf að leitast við að laða fjárfesta frá öðrum aðildarríkjum og þriðju löndum skulu aðildarríkin ekki lengur hindra hluthafa, einstaklinga sem nýta sér atkvæðisrétt sinn eða eigendur fjármálagerninga í því að senda útgefanda nauðsynlegar tilkynningar á því tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum.
25)          Skipuleggja skal betur aðgang fjárfesta að upplýsingum um útgefendur á vettvangi Bandalagsins til að stuðla ötullega að samþættingu evrópskra fjármagnsmarkaða. Fjárfestar, sem eru ekki staðsettir í heimaaðildarríki útgefanda, skulu standa jafnt að vígi og fjárfestar sem eru staðsettir í heimaaðildarríki útgefanda þegar þeir sækja um aðgang að slíkum upplýsingum. Þessu markmiði er hægt að ná ef heimaaðildarríkið tryggir samræmi við lágmarksgæðastaðla að því er varðar dreifingu upplýsinga í Bandalaginu með hraði og án mismununar og með tilliti til þess hvers konar upplýsinga sem reglur kveða á um og um er að ræða. Þar að auki skulu upplýsingar, sem hefur verið dreift, vera tiltækar í heimaðildarríkinu á miðlægan hátt þannig að unnt að byggja upp Evrópunet og skulu þær vera aðgengilegar á viðráðanlegu verði fyrir smásölufjárfesta án þess þó að hafa í för með sér óþarfa tvítekningu skráningarkrafna útgefenda. Útgefendur skulu hagnast af frjálsri samkeppni þegar þeir velja miðil eða rekstraraðila til að dreifa upplýsingum samkvæmt þessari tilskipun.
26)          Í því skyni að einfalda aðgang fjárfesta enn frekar að fyrirtækjaupplýsingum milli aðildarríkja skal innlendum eftirlitsyfirvöldum falið að semja viðmiðunarreglur til að setja upp rafræn net í nánu samstarfi við aðra hlutaðeigandi aðila, einkum útgefendur verðbréfa, markaðsaðila, þá sem reka skipulega markaði og veitendur fjármálaupplýsinga.
27)          Til að tryggja vernd fjárfesta og tilhlýðilega starfsemi skipulegra markaða skulu reglurnar, sem varða upplýsingarnar sem útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað eiga að birta, einnig gilda um útgefendur sem hafa ekki skráða skrifstofu í aðildarríki og sem falla ekki innan gildissviðs 48. gr. sáttmálans. Einnig skal tryggja að hvers kyns viðbótarupplýsingar, sem máli skipta um útgefendur í Bandalaginu eða í þriðja landi og gerð er krafa um birtingu þeirra í þriðja landi en ekki í aðildarríki, verði aðgengilegar almenningi í Bandalaginu.
28)          Tilnefna skal eitt lögbært yfirvald í hverju aðildarríki sem ber lokaábyrgð á eftirliti með því að ákvæðunum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, sé fylgt og á alþjóðlegu samstarfi. Slíkt yfirvald skal vera á vegum stjórnsýslunnar og tryggja skal að það sé óháð rekstraraðilum þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra. Aðildarríki mega þó tilnefna annað lögbært yfirvald til að kanna hvort upplýsingarnar sem um getur í þessari tilskipun séu samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur og gera viðeigandi ráðstafanir ef upp kemst um brot. Slíkt yfirvald þarf ekki að vera innan stjórnsýslunnar.
29)          Með aukinni starfsemi yfir landamæri er þörf á að bæta samstarf milli innlendra lögbærra yfirvalda, þ.m.t. heildarákvæði um upplýsingaskipti og varúðarráðstafanir. Skipulagning á reglugerðar- og eftirlitsverkefnum í hverju aðildarríki skal ekki hindra skilvirkt samstarf milli lögbærra, innlendra yfirvalda.
30)          Á fundi sínum 17. júlí 2000 skipaði ráðið vísdómsmannanefnd sem er samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamörkuðum. Í lokaskýrslu sinni gerði vísdómsmannanefndin tillögu um nýja aðferð við lagasetningu sem byggir á fjögurra þrepa aðferð, þ.e. grundvallarreglum, tæknilegum framkvæmdarráðstöfunum, samstarfi milli innlendra verðbréfaeftirlitsstofnana og að lögum Bandalagsins sé framfylgt. Þessi tilskipun takmarkast við víðan „ramma“ meginreglna, en mælt skal fyrir um tæknileg atriði í framkvæmdarráðstöfunum sem framkvæmdastjórnin samþykkir með aðstoð evrópsku verðbréfanefndarinnar sem var stofnuð með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/528/EB ( 6 ).
31)          Með ályktun, sem samþykkt var á fundi leiðtogaráðsins í Stokkhólmi í mars 2001, viðurkenndi það lokaskýrslu vísdómsmannanefndarinnar og fyrirhugaða fjögurra þrepa aðferð sem á að gera lagasetningarferli Bandalagsins á sviði verðbréfa skilvirkara og gagnsærra.
32)          Samkvæmt ályktuninni skal beita framkvæmdarráðstöfunum oftar til að tryggja að tæknileg ákvæði verði uppfærð til samræmis við þróun markaðarins og eftirlitsmála ásamt því að setja fresti fyrir alla áfanga framkvæmdareglnanna.
33)          Með ályktun Evrópuþingsins frá 5. febrúar 2002 um framkvæmd löggjafar um fjármálaþjónustu var skýrsla vísdómsmannanefndarinnar sömuleiðis viðurkennd, á grundvelli drengskaparheits, sem forseti framkvæmdastjórnarinnar gaf þinginu sama dag, og bréfs frá 2. október 2001, sem framkvæmdastjóri ESB á sviði innri markaðar sendi formanni nefndar á vegum þingsins um efnahags- og peningamál, um að standa vörð um hlutverk Evrópuþingsins í þessu ferli.
34)          Frá því að fyrstu drög að framkvæmdarráðstöfunum eru send skal Evrópuþingið hafa þrjá mánuði til að kynna sér drögin og láta álit sitt í ljós. Þann tíma er þó heimilt að stytta í brýnum og tilhlýðilega rökstuddum tilvikum. Fari ályktun í gegnum Evrópuþingið á þessu tímabili skal framkvæmdastjórnin endurskoða drögin að ráðstöfununum.
35)          Nauðsynlegt kann að vera að gera tæknilegar framkvæmdarráðstafanir vegna þeirra reglna sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun með hliðsjón af breyttum starfsháttum á verðbréfamörkuðum. Til samræmis við það skal framkvæmdastjórnin hafa vald til að samþykkja framkvæmdarráðstafanir, að því tilskildu að þær breyti ekki tilskipun þessari í grundvallaratriðum og að framkvæmdastjórnin fari eftir þeim meginreglum sem settar eru fram í þessari tilskipun, að höfðu samráði við evrópsku verðbréfanefndina.
36)          Við beitingu framkvæmdarvalds í samræmi við þessa tilskipun skal framkvæmdastjórnin virða eftirfarandi meginreglur:
    —    nauðsyn þess að tryggja að fjárfestar hafi tiltrú á fjármálamörkuðunum með því að stuðla að miklu gagnsæi á þessum mörkuðum,
    —    nauðsyn þess að sjá fjárfestum fyrir miklu framboði á samkeppnishæfum fjárfestingamöguleikum og upplýsingum og vernd sem er sniðin að aðstæðum þeirra,
    —    nauðsyn þess að tryggja að óháð eftirlitsyfirvöld framfylgi reglum á samræmdan hátt, einkum í baráttunni gegn efnahagsbrotum,
    —    nauðsyn þess að hafa mikið gagnsæi og samráð við alla markaðsaðila og við Evrópuþingið og ráðið,
    —    nauðsyn þess að hvetja til nýsköpunar á fjármálamörkuðum til að þeir verði öflugir og skilvirkir,
    —    nauðsyn þess að tryggja heildarvirkni markaðar með því að hafa náið og öflugt eftirlit með nýsköpun á fjármálasviðinu,
    —    mikilvægi þess að draga úr fjármagnskostnaði og auka aðgengi að fjármagni,
    —    nauðsyn þess að halda jafnvægi, að því er varðar framkvæmdarráðstafanir, milli kostnaðar og ávinnings markaðsaðila til lengri tíma litið, þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki og minni fjárfestar,
    —    nauðsyn þess að stuðla að alþjóðlegri samkeppnishæfni fjármálamarkaða Evrópusambandsins án þess að það hafi áhrif á vel þegna eflingu alþjóðlegs samstarfs,
    —    nauðsyn þess að skapa jöfn samkeppnisskilyrði fyrir alla markaðsaðila með því að semja eftir þörfum reglur sem gilda í öllu Evrópusambandinu,
    —    nauðsyn þess að virða þann mismun sem er á innlendum mörkuðum, svo fremi mismunurinn hafi ekki ótilhlýðileg áhrif á samfellu innri markaðarins,
    —    nauðsyn þess að tryggja samhengi við aðra löggjöf Bandalagsins á þessu sviði, þar eð ósamræmi í upplýsingum og skortur á gagnsæi getur teflt starfsemi markaðanna í tvísýnu og umfram allt skaðað neytendur og minni fjárfesta.
37)          Til að tryggja að kröfurnar í þessari tilskipun eða ráðstafanirnar til framkvæmdar þessari tilskipun séu uppfylltar verður að afhjúpa tafarlaust og, ef þörf krefur, refsa fyrir öll brot sem ganga gegn þessum kröfum eða ráðstöfunum. Í þessu skyni skulu ráðstafanir og viðurlög vera nægilega letjandi, í réttu hlutfalli við brotið og þeim beitt á samræmdan hátt.     Aðildarríkin skulu tryggja að unnt sé að áfrýja til dómstóla öllum ákvörðunum sem innlend lögbær yfirvöld taka.
38)          Markmiðið með þessari tilskipun er að auka gagnsæi krafna fyrir útgefendur verðbréfa og fjárfesta sem kaupa og ráðstafa verulegum eignarhlutum útgefenda hluta sem eru skráð á skipulegan markað. Þessi tilskipun kemur í stað ýmissa krafna sem settar eru fram í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf ( 7 ). Til að safna kröfum um gagnsæi krafna í eina gerð er nauðsynlegt að breyta viðkomandi gerð til samræmis við það. Slík breyting skal þó ekki hafa áhrif á að aðildarríkin geti sett fram viðbótarkröfur skv. 42. til 63. gr. tilskipunar 2001/34/EB, sem gilda áfram.
39)          Þessi tilskipun er í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 8 ).
40)          Í þessari tilskipun er tekið tillit til þeirra grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem einkum eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
41)          Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að tryggja tiltrú fjárfesta með sambærilega gagnsæjum kröfum í gervöllu Bandalaginu og koma innri markaðnum á að fullu, á grundvelli gildandi löggjafar Bandalagsins, og þeim verður því betur náð á vettvangi Bandalagsins er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna í umræddri grein er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
42)          Samþykkja ber nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 9 ).
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Inntak og gildissvið

1.     Í þessari tilskipun eru settar fram kröfur í tengslum við reglubundnar og samfelldar upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem þegar hafa verið skráð á skipulegan markað sem er staðsettur eða starfræktur innan aðildarríkis.
2.     Þessi tilskipun skal ekki gilda um hlutdeildarskírteini sem gefin eru út af fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, öðrum en lokuðum, eða um hlutdeildarskírteini sem eru keypt eða ráðstafað í slíkum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu.
3.     Aðildarríki mega ákveða að ákvæðin, sem um getur í 3. mgr. 16. gr. og í 2., 3. og 4. mgr. 18. gr., gildi ekki um verðbréf sem eru skráð á skipulegan markað og sem þau sjálf eða svæðis- eða staðaryfirvöld gefa út.
4.     Aðildarríkin mega ákveða að 17. gr. gildi ekki um seðlabanka þeirra sem gegna því hlutverki að gefa út hluti sem eru skráðir á skipulegan markað ef skráningin átti sér stað fyrir 20. janúar 2005.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „verðbréf“: framseljanleg verðbréf, eins og skilgreint er í 18. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2000 um markaði fyrir fjármálagerninga ( 10 ) að undanskildum peningamarkaðsskjölum, eins og skilgreint er í 19. lið 1. mgr. 4. gr. þeirrar tilskipunar, með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir og sem innlend löggjöf kann að gilda um,
b)    „skuldabréf:“ skuldabréf eða aðrar gerðir tryggðra skuldaskjala að undanskildum verðbréfum sem eru jafngild hlutum í félögum eða, ef þeim hefur verið breytt eða réttur sem þau veita hefur verið nýttur, veita rétt til kaupa á hlutum eða verðbréfum sem jafngilda hlutum,
c)    „skipulegur markaður“: markaður eins og hann er skilgreindur í 14. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB,
d)    „útgefandi“: lögaðili sem heyrir undir opinberan rétt eða einkarétt, þ.m.t. ríkið, og verðbréf hans eru skráð á skipulegan markað og ef um er að ræða innlánsskírteini, sem standa fyrir verðbréf, er útgefandinn útgefandi þeirra verðbréfa sem sett eru fram,
e)    „hluthafi“: einstaklingur eða lögaðili, sem heyrir undir opinberan rétt eða einkarétt, og sem á beint eða óbeint:
    i)    hluti útgefanda í eigin nafni eða á eigin reikning,
    ii)    hluti útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila,
    iii)    innlánsskírteini og í því tilviki telst eigandi innlánsskírteina vera hluthafi undirliggjandi hluta sem innlánsskírteinin standa fyrir,
f)    „undirfyrirtæki“: hvers konar fyrirtæki
    i)    þar sem einstaklingur eða lögaðili hefur yfirráð yfir meiri hluta atkvæðisréttar eða
    ii)    þar sem einstaklingur eða lögaðili á rétt á að skipa eða leysa frá störfum meirihluta þeirra sem sæti eiga í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn og eru á sama tíma hluthafar eða félagar í viðkomandi fyrirtæki eða
    iii)    þar sem einstaklingur eða lögaðili er hluthafi eða félagi og ræður einn meirihluta atkvæða annaðhvort hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga viðkomandi fyrirtækis eða
    iv)    þar sem einstaklingur eða lögaðili hefur rétt til að hafa eða hefur í raun ráðandi áhrif eða stjórnar,
g)    „fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, önnur en lokuð“: verðbréfasjóðir og fjárfestingarfélög:
    i)    sem hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjármagns sem almenningur hefur lagt fram og sem starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu,
    ii)    og hlutdeildarskírteini í þeim eru beint eða óbeint endurkeypt eða innleyst að ósk eiganda þessara skírteina gegn greiðslu af eignum fyrirtækjanna,
h)    „hlutdeildarskírteini fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu“: verðbréf sem fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu gefa út sem vottorð um rétt þátttakenda til eigna fyrirtækisins,
i)    „heimaaðildarríki“:
    i)    að því er varðar útgefanda skuldabréfa þar sem nafnverð hverrar einingar er lægra en 1 000 evrur eða útgefanda hluta:
         —    þegar útgefandinn er með réttarstöðu lögaðila í Bandalaginu er það aðildarríki þar sem hann hefur skráða skrifstofu,
         —    það aðildarríki þegar útgefandinn er með réttarstöðu í þriðja landi er það aðildarríki þar sem krafist er að hann leggi fram árlegar upplýsingar til lögbærs yfirvalds í samræmi við 10. gr. tilskipunar 2003/71/EB.
        Skilgreiningin á heimaaðildarríki skal gilda um skuldabréf sem eru í öðrum gjaldmiðli en evrum að því tilskildu að nafnverð hverrar einingar við útgáfu sé lægra en 1 000 evrur nema nafnverð þeirra jafngildi næstum 1 000 evrum,
    ii)    að því er varðar hvern útgefanda sem fellur ekki undir i-lið, aðildarríkið sem útgefandinn velur meðal aðildarríkja þar sem útgefandinn hefur skráða skrifstofu og aðildarríkja sem hafa skráð verðbréf sín á skipulegan markað á yfirráðasvæði sínu. Útgefandinn má einungis velja eitt aðildarríki sem sitt heimaaðildarríki. Val hans skal gilda í a.m.k. þrjú ár nema verðbréf hans séu ekki lengur skráð á skipulegan markað í Bandalaginu,
j)    „gistiaðildarríki“: aðildarríki þar sem verðbréf eru skráð á skipulegan markað ef það er annað en heimaaðildarríkið,
k)    „upplýsingar sem reglur kveða á um“: allar upplýsingar sem krafist er að útgefandi eða einhver annar, sem hefur sótt um skráningu verðbréfa á skipulegan markað án samþykkis útgefanda, birti samkvæmt þessari tilskipun, skv. 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) ( 11 ), eða samkvæmt lögum og stjórnsýsluákvæðum aðildarríkis sem hafa verið samþykkt skv. 1. mgr. 3. gr. þessarar tilskipunar,
l)    „rafrænar aðferðir“: notkun rafræns búnaðar til að vinna með, (þ.m.t. stafræn samþjöppun) geyma og senda gögn með rafþræði, þráðlaust, með ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
m)    „rekstrarfélag“: félag eins og það er skilgreint í 2. mgr. 1. gr. a í tilskipun ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum ( 12 ),
n)    „viðskiptavaki“: aðili sem starfar á fjármálamörkuðum og gefur sig jafnan út fyrir að vera viljugur að versla fyrir eigin reikning með því að kaupa og selja fjármálagerninga með eiginfjármagni sínu á verði sem hann ákveður,
o)    „lánastofnun“: fyrirtæki, eins og skilgreint er í a- lið 1. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 13 ),
p)    „verðbréf sem eru gefin út samfellt eða með endurteknum hætti“: útgáfa á skuldabréfum sama útgefanda, sem eru til reiðu, eða a.m.k. tvær útgáfur verðbréfa af svipaðri tegund og/eða flokki,
2.     Að því er varðar skilgreininguna á „undirfyrirtæki“ í ii-lið f-liðar 1. mgr. skulu réttindi handhafa varðandi atkvæðagreiðslu, skipun og lausn taka til réttinda allra annarra undirfyrirtækja sem hluthafi hefur yfirráð yfir, svo og til réttinda einstaklings eða lögaðila sem starfar í eigin nafni en starfar einnig fyrir hönd móðurfyrirtækis eða annars undirfyrirtækis hluthafa.
3.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting ákvæða 1. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi skilgreininguna í 1. mgr..
Framkvæmdastjórnin skal einkum:
a)    koma á tilhögun, í samræmi við ii-lið i-liðar l. mgr., sem útgefandinn getur fylgt við val sitt á heimaaðildarríki,
b)    aðlaga, þar sem við á í tengslum við val á heimaaðildarríki, sem um getur í ii-lið i-liðar 1. mgr., þriggja ára tímabilið að því er varðar árangur útgefandans í ljósi nýrra krafna samkvæmt lögum Bandalagsins um skráningu á skipulegan markað,
c)    að því er varðar 1-lið 1. mgr., setja saman viðmiðunarskrá yfir aðferðir sem ekki skulu teljast rafrænar aðferðir þar sem tekið er tillit til V. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta á sviði tæknistaðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 14 ).

3. gr.
Samþætting verðbréfamarkaða

1.     Heimaaðildarríki getur sett strangari kröfur sem skulu gilda um útgefanda en þær sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
Heimaaðildarríki getur einnig sett strangari kröfur sem skulu gilda um eigendur hluta eða einstakling eða lögaðila, sem um getur í 10. eða 13. gr. en þær sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
2.     Gistiaðildarríki má ekki:
a)    setja kröfur um upplýsingar sem eru strangari en þær sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun eða í 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB að því er varðar skráningu verðbréfa á skipulegan markað á yfirráðasvæði sínu,
b)    að því er varðar tilkynningu upplýsinga, setja strangari kröfur sem skulu gilda um eigandur hluta eða einstakling eða lögaðila, sem um getur í 10. eða 13. gr., en þær sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.

II. KAFLI
REGLUBUNDNAR UPPLÝSINGAR
4. gr.
Árleg fjárhagsskýrsla

1.     Útgefandinn skal birta árleg reikningsskil í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir lok hvers reikningsárs og skal hann tryggja að þau séu aðgengileg opinberlega í a.m.k. fimm ár.
2.     Árlega fjárhagsskýrslan skal fela í sér:
a)    árituð reikningsskil,
b)    skýrslu framkvæmdastjórnar og
c)    yfirlýsingu frá ábyrgum einstaklingum hjá útgefandanum þar sem nöfn og verksvið þeirra eru tilgreind með skýrum hætti, þess efnis að samkvæmt þeirra bestu vitund gefi reikningsskilin, sem sett eru fram í samræmi við viðeigandi reikningsskilastaðla, glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og hagnaði eða tapi útgefandans og félaganna í samsteypunni í heild og að skýrsla stjórnar hafi að geyma glöggt yfirlit yfir þróun og árangur í rekstri félaganna og stöðu útgefandans og félaganna í samstæðunni í heild ásamt lýsingu á megináhættu- og óvissuþáttum sem þau standa frammi fyrir.
3.     Ef ekki er gerð krafa um að útgefandinn setji fram samstæðureikninga í samræmi við sjöundu tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 15 ) skulu árituðu reikningsskilin fela í sér slíka samstæðureikninga sem eru settir fram í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1606/2002 og árleg reikningsskil móðurfélagsins, sem eru sett fram í samræmi við landslög viðkomandi aðildarríkis þar sem móðurfélagið er með réttarstöðu lögaðila.
Ef ekki er gerð krafa um að útgefandinn setji fram samstæðureikninga skulu árituðu reikningsskilin fela í sér reikningsskil sem eru sett fram í samræmi við landslög viðkomandi aðildarríkis þar sem félagið er með réttarstöðu lögaðila.
4.     Reikningsskilin skulu árituð í samræmi við 51. og 51. gr. a í fjórðu tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 16 ) og, ef gerð er krafa um að útgefandinn setji fram samstæðureikninga, í samræmi við 37. gr. tilskipunar 83/349/EBE.
Áritaða skýrslan, sem er undirrituð af einum eða fleiri einstaklingum sem eru ábyrgir fyrir áritun reikningsskilanna, skal gerð aðgengileg almenningi í heild sinni ásamt árlegri fjárhagsskýrslu.
5.     Skýrsla stjórnar skal samin í samræmi við 46. gr. tilskipunar 78/660/EBE og í samræmi við 36. gr. tilskipunar 83/349/EBE, ef sú krafa er gerð að útgefandinn setji fram samstæðureikninga.
6.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 1. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir. Framkvæmdastjórnin skal einkum tilgreina við hvaða tæknileg skilyrði árleg fjárhagsskýrsla sem hefur verið birt, þ.m.t. árituð skýrsla, eigi að vera aðgengileg almenningi.
Framkvæmdastjórnin má, eftir því sem við á, aðlaga fimm ára tímabilið sem um getur í 1. mgr.

5. gr.
Hálfsárs fjárhagsskýrsla

1.     Útgefandi hluta eða skuldabréfa skal birta opinberlega, eins fljótt og auðið er eftir að viðkomandi tímabili lýkur, en eigi síðar en tveimur mánuðum þar á eftir, hálfsárs fjárhagskýrslu sem tekur til fyrstu sex mánaða fjárhagsársins. Útgefandinn skal tryggja að hálfsárs fjárhagsskýrslan verði aðgengileg opinberlega í a.m.k. fimm ár.
2.     Hálfsárs fjárhagsskýrsla skal fela í sér:
a)    samandregin reikningsskil,
b)    árshlutaskýrslu stjórnar og
c)    yfirlýsingu frá ábyrgum einstaklingum hjá útgefandanum og nöfn og verksvið þeirra skulu tilgreind með skýrum hætti þess efnis að samkvæmt þeirra bestu vitund gefi samandregin reikningsskil, sem sett eru fram í samræmi við viðeigandi reikningsskilastaðla, glögga mynd af eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og hagnaði eða tapi útgefandans eða félaganna í samsteypunni í heild, skv. 3. mgr., og að árshlutaskýrsla stjórnar hafi að geyma glöggt yfirlit yfir upplýsingarnar sem krafist er skv. 4. gr.
3.     Ef þess er krafist að útgefandinn geri samstæðureikningsskil skulu samandregin reikningsskil gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem gilda um árshlutareikningsskil sem er samþykkt samkvæmt málsmeðferðinni sem kveðið er á um í 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.
Ef þess er ekki krafist að útgefandi geri samstæðureikningsskil skulu samandregin reikningsskil a.m.k. fela í sér samandreginn efnahagsreikning, samandreginn rekstrarreikning og skýringar á þessum reikningum. Þegar útgefandinn gerir samdreginn efnahagsreikning og samandreginn rekstrarreikning skal hann fylgja sömu meginreglum um færslu og mat og þegar hann útbýr árlegar fjárhagsskýrslur.
4.     Árshlutaskýrsla stjórnar skal a.m.k. fela í sér upplýsingar um mikilvæga atburða sem hafa átt sér stað fyrstu sex mánuði fjárhagsársins og áhrif þeirra á samandregin reikningsskil ásamt lýsingu á megináhættum og óvissuþáttum síðustu sex mánuði fjárhagsársins. Að því er varðar útgefendur hluta skal árshlutaskýrsla stjórnar einnig fela í sér mikilvæg viðskipti tengdra aðila.
5.     Þegar hálfsárs fjárhagsskýrslan hefur verið árituð skal áritun endurskoðanda sett fram í heild sinni. Hið sama gildir ef um er að ræða skýrslu endurskoðenda. Ef endurskoðendur hafa ekki árritað eða endurskoðað hálfsárs fjárhagsskýrsluna skal útgefandinn gefa yfirlýsingu þess efnis í skýrslu sinni.
6.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 1. til 5. mgr. þessarar greinar tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir.
Framkvæmdastjórnin skal einkum:
a)    tilgreina við hvaða tæknileg skilyrði hálfsárs fjárhagsskýrsla, sem hefur verið birt, þ.m.t. skýrsla endurskoðenda, eigi að vera aðgengileg opinberlega.
b)    skýra hvers eðlis skýrsla endurskoðenda er,
c)    tilgreina lágmarksinnihald samandregins efnahagsreiknings og rekstrarreikninga ásamt skýringum á þessum reikningum ef þeir eru ekki gerðir í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem eru samþykktir samkvæmt málsmeðferðinni sem kveðið er á um í 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.
Framkvæmdastjórnin má, eftir því sem við á, aðlaga fimm ára tímabilið sem um getur í 1. mgr.

6. gr.
Árshlutareikningsskil stjórnar

1.     Þrátt fyrir 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB skal útgefandi hluta, sem hafa verið skráðir á skipulegan markað, birta opinberlega yfirlýsingu stjórnar á fyrstu sex mánuðum fjárhagsársins og aðra yfirlýsingu stjórnar á síðustu sex mánuðum fjárhagsársins. Þessi yfirlýsing skal gerð á tímabili sem nær frá tíundu viku eftir að viðkomandi sex mánaða tímabil hefst til sex vikum áður en því lýkur. Hún skal innihalda upplýsingar sem taka til tímabils frá upphafi viðkomandi sex mánaða tímabils og birtingardags yfirlýsingarinnar. Slík yfirlýsing skal fela í sér:
—    skýringu á mikilvægum atburðum og viðskiptum sem hafa átt sér stað á viðkomandi tímabili og áhrifum þeirra á fjárhagsstöðu útgefanda og undirfyrirtækja og
—    almenna lýsingu á fjárhagslegri stöðu og árangri útgefanda og undirfyrirtækja á viðkomandi tímabili.
2.     Ekki skal krafist af útgefendum, sem birta annaðhvort samkvæmt innlendri löggjöf eða reglum hins skipulega markaðar eða að eigin frumkvæði ársfjórðungslegar fjárhagsskýrslur í samræmi við slíka löggjöf eða reglur, að þeir birti opinberar yfirlýsingar frá stjórninni sem kveðið er á um í 1. mgr.
3.     Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 20. janúar 2010 senda Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um gagnsæi ársfjórðungslegra reikningsskila og yfirlýsingu stjórnar útgefenda til að kanna hvort upplýsingarnar, sem veittar voru, uppfylli skilyrði um að leyfa fjárfestum að meta fjárhagsstöðu útgefanda á grundvelli upplýsinga. Slík skýrsla skal fela í sér mat á áhrifum á sviðum sem framkvæmdastjórnin hyggst leggja fram tillögu um breytingar á þessari grein.

7. gr.
Ábyrgð og bótaábyrgð

Aðildarríki skulu tryggja að ábyrgð á upplýsingum, sem eru teknar saman og gerðar aðgengilegar opinberlega í samræmi við 4., 5., 6. og 16. gr., hvíli a.m.k. á útgefanda eða stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn hans og skulu þau tryggja að lög og stjórnsýslufyrirmæli um ábyrgð gildi um útgefendur og stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn hans, sem um getur í þessari grein, eða um ábyrga einstaklinga hjá útgefendum.

8. gr.
Undanþágur

1.     Ákvæði 4., 5. og 6. gr. gilda ekki um eftirfarandi útgefendur:
a)    ríki, svæðis- eða staðaryfirvald ríkis, opinbera alþjóðlega stofnun, sem a.m.k. eitt aðildarríki er aðili að, Seðlabanka Evrópu eða seðlabanka aðildarríkjanna hvort sem þeir gefa út hluti eða önnur verðbréf, eða ekki, og
b)    útgefanda sem gefur eingöngu út skuldabréf sem skráð eru á skipulegan markað og nafnverð hverrar einingar er a.m.k. 50 000 evrur eða ef um er að ræða skuldabréf í öðrum gjaldmiðli en evrum og nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi jafngildir a.m.k. 50 000 evrum.
2.     Heimaaðildarríki er frjálst að ákveða að 5. gr. gildi ekki um lánastofnanir sem eru ekki með hluti sína skráða á skipulegan markað og hafa, samfellt eða með endurteknum hætti, aðeins gefið út skuldabréf að því tilskildu að heildarnafnverð allra slíkra skuldabréfa sé undir 100 000 000 evrum og að þau hafi ekki birt útboðs- og skráningarlýsingu samkvæmt tilskipun 2003/71/EB.
3.     Heimaaðildarríki er frjálst að ákveða að 5. gr. gildi ekki um útgefendur sem eru þegar til staðar á gildistökudegi tilskipunar 2003/71/EB og gefa eingöngu út skuldabréf sem heimaaðildarríki eða eitt af svæðis- eða staðaryfirvöldum þess ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega.

III. KAFLI
SAMFELLDAR UPPLÝSINGAR
I. ÞÁTTUR
Upplýsingar um verulega eignarhluta
9. gr.
Tilkynning um kaup eða sölu á verulegum eignarhlutum

1.     Heimaaðildarríki skal tryggja að þegar hluthafi kaupir eða ráðstafar hlutum útgefanda verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og atkvæðisréttur fylgir þeim tilkynni þessi hluthafi útgefanda um hlutfall atkvæða útgefanda sem hluthafi fer með eftir kaup eða ráðstöfun þegar hlutfallið fer yfir eða niður fyrir 5% 10%, 15%, 20%, 25%, 30%, 50% og 75%, fer fram úr eða fellur niður fyrir mörkin eftir kaupin eða ráðstöfunina.
Reikna skal atkvæðisrétt á grundvelli allra hluta sem atkvæðisréttur fylgir jafnvel þótt nýting hans fellur niður. Þar að auki skulu þessar upplýsingar einnig veittar að því er varðar alla hluti í sama flokki sem atkvæðisrétturinn fylgir.
2.     Heimaaðildarríki skal tryggja að hluthafar tilkynni útgefanda um hlutfall atkvæða þegar hlutfallið nær, fer yfir eða niður fyrir þau mörk, sem kveðið er á um í 1. mgr., vegna atburða sem breyta sundurliðun atkvæðisréttar og á grundvelli upplýsinga sem birtar eru skv. 15. gr. Ef útgefandi hefur réttarstöðu lögaðila í þriðja landi skal tilkynna um sambærilega atburði.
3.     Heimaaðildarríkin þurfa ekki að beita:
a)    30% viðmiðunarmörkunum ef það beitir viðmiðunarmörkum að einum þriðja hluta,
b)    75% viðmiðunarmörkunum ef það beitir viðmiðunarmörkum að tveimur þriðju hlutum.
4.     Þessi grein gildir ekki um hluti sem eingöngu eru keyptir til greiðslujöfnunar eða uppgjörs innan venjulegs, stutts greiðslutímabils eða um vörsluaðila sem eiga hluti í krafti þess að þeir eru vörsluaðilar að því tilskildu að slíkir vörslumenn geti aðeins nýtt sér atkvæðisrétt sem fylgir slíkum hlutum samkvæmt skriflegum eða rafrænum leiðbeiningum.
5.     Þessi grein gildir ekki um kaup eða ráðstöfun verulegs eignarhluta viðskiptavaka sem kemur fram fyrir hönd viðskiptavaka, og eignarhlutinn nær eða fer yfir 5% viðmiðunarmörk, að því tilskildu:
a)    að heimaaðildarríki heimili það samkvæmt tilskipun 2004/39/EB og
b)    að það hvorki íhlutist um stjórn viðkomandi útgefanda né hafi þau áhrif á útgefandann að hann kaupi slíka hluti eða haldi verði þeirra uppi.
6.     Heimaaðildarríki má, samkvæmt i-lið 1. mgr. 2. gr. kveða á um að atkvæðisréttur í veltubók lánastofnunar eða fjárfestingarfyrirtækis, eins og skilgreint er í 6. mgr. 2. gr. tilskipunar ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana ( 17 ), reiknist ekki með að því er varðar þessa grein að því tilskildu að:
a)    atkvæðisrétturinn í veltubókinni fari ekki yfir 5% og
b)    lánastofnunin eða fjárfestingarfyrirtækið tryggi að atkvæðisréttur sem fylgir hlutum í veltubókinni sé hvorki nýttur né notaður á annan hátt til að íhlutast um stjórn útgefandans.
7.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 2., 4. og 5. mgr. þessarar greinar tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir.
Framkvæmdastjórnin skal einkum tilgreina hámarkslengd „stutta greiðslutímabilsins“ sem um getur í 4. mgr. ásamt viðeigandi eftirlitskerfum lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins. Þar að auki má framkvæmdastjórnin gera skrá yfir atburðina sem um getur í 2. mgr.

10. gr.
Öflun eða ráðstöfun verulegs hlutfalls atkvæðismagns

Tilkynningarskylda, eins og skilgreint er í 1. og 2. mgr. 9. gr., gildir einnig um einstakling eða lögpersónu að því marki að viðkomandi hafi rétt til að afla, ráðstafa eða nýta sér atkvæðisrétt í einhverjum af eftirfarandi tilvikum eða samsetningu af þeim:
a)    þriðji aðili fer með atkvæðisrétt og hefur gert samning við hlutaðeigandi einstakling eða lögaðila þar sem þeir skuldabinda sig til að taka upp varanlega, sameiginlega stefnu um stjórn hlutaðeigandi útgefanda með samræmdri beitingu atkvæðisréttar síns,
b)    þriðji aðili fer með atkvæðisrétt samkvæmt samningi við hlutaðeigandi einstakling eða lögaðila um tímabundinn flutning atkvæðisréttarins, sem um er að ræða, gegn endurgjaldi,
c)    atkvæðisréttur er fylgir hlutum sem þessi einstaklingur eða lögaðili leggur fram sem tryggingu, nema viðkomandi einstaklingur eða lögaðili ráði yfir atkvæðisréttinum og lýsi því yfir að hann hyggist nýta sér hann,
d)    atkvæðisréttur er tilheyrir hlutum sem hlutaðeigandi einstaklingur eða lögaðili nýtur arðs af,
e)    atkvæðisréttur sem fyrirtæki, sem hlutaðeigandi einstaklingur eða lögaðili hefur yfirráð yfir, ber eða nýtir í skilningi a- til d-liðar,
f)    atkvæðisréttur er tilheyrir hlutum, sem eru í vörslu hlutaðeigandi einstaklings eða lögaðila, sem þau geta nýtt sér að eigin ákvörðun og án sérstakra fyrirmæla hluthafa.
g)    atkvæðisréttur sem þriðji aðili hefur í eigin nafni en fyrir hönd hlutaðeigandi einstaklings eða lögaðila,
h)    atkvæðisréttur sem hlutaðeigandi einstaklingur eða lögaðili má nýta sér sem umboðsmaður þegar hvor um sig getur nýtt sér atkvæðisréttinn að eigin ákvörðun og án sérstakra fyrirmæla hluthafa.

11. gr.

1.     Ákvæði 9. gr. og c-liðar 10. gr. skulu ekki gilda um hluti sem aðilum að seðlabankakerfi Evrópu (ESCB) eru látnir í té eða þeir láta í té til að sinna hlutverki sínu sem yfirvald á sviði peningamála, þ.m.t. hlutir sem aðilum að seðlabankakerfi Evrópu eru látnir í té eða þeir láta í té samkvæmt samkomulagi um veðsetningu eða endurkaup eða samkvæmt svipuðu samkomulagi um lausafé sem er veitt með stefnu í peningamálum í huga eða innan greiðslukerfa.
2.     Undantekningin gildir um framangreind viðskipti sem vara í stuttan tíma og að því tilskildu að atkvæðisréttur sem fylgir slíkum hlutum sé ekki nýttur.

12. gr.
Málsmeðferð um tilkynningu og birtingu verulegra eignarhluta

1.     Tilkynningin, sem krafist er skv. 9. og 10. gr., skal fela í sér eftirfarandi upplýsingar:
a)    stöðuna sem skapast að því er varðar atkvæðisrétt,
b)    röð af undirfyrirtækjum en atkvæðisrétturinn er í raun fenginn í krafti þeirra, ef við á,
c)    daginn sem viðmiðunarmörkunum var náð eða farið var yfir þau og
d)    upplýsingar um hluthafa jafnvel þótt hann hafi ekki rétt til að nýta sér atkvæðisrétt samkvæmt skilyrðunum, sem mælt er fyrir um í 10. gr., og um einstaklinga eða lögaðila sem hafa rétt til að nýta sér atkvæðisrétt fyrir hönd þessa hluthafa.
2.     Tilkynning til útgefanda skal eiga sér stað eins fljótt og auðið er en eigi síðar en innan fjögurra viðskiptadaga þar sem fyrsti viðskiptadagurinn skal vera næsti dagur á eftir deginum sem hluthafinn, einstaklingurinn eða lögaðilinn, sem um getur í 10. gr.,
a)    kemst að raun um öflunina eða ráðstöfunina eða möguleika á að nýta sér atkvæðisrétt eða sem hann, með tilliti til aðstæðna, ætti að hafa komist að raun um án tillits til þess hvenær öflunin, ráðstöfunin eða möguleiki á nýtingu atkvæðisréttar á sér stað eða
b)    er tilkynnt um atburðinn sem um getur í 2. mgr. 9. gr.
3.     Fyrirtæki skal veitt undanþága frá tilkynningaskyldunni í samræmi við 1. mgr. ef tilkynning er send af hálfu móðurfyrirtækisins eða, ef móðurfyrirtækið er sjálft undirfyrirtæki, af hálfu móðurfyrirtækis þess.
4.     Þess skal ekki krafist af móðurfyrirtæki rekstrarfélags að það leggi saman eignarhlut sinn skv. 9. og 10. gr. og eignarhlut sem rekstrarfélagið stjórnar samkvæmt skilyrðunum sem mælt er fyrir um í tilskipun 85/611/EBE að því tilskildu að slíkt rekstrarfélag nýti sér atkvæðisrétt sinn óháð móðurfyrirtækinu.
Ákvæði 9. og 10. gr. skulu þó gilda ef móðurfyrirtækið eða annað undirfyrirtæki móðurfyrirtækisins hefur fjárfest í eignarhlutdeild sem slíkt rekstrarfélag stjórnar og rekstrarfélagið hefur ekkert val um nýtingu atkvæðisréttar sem fylgir slíkri eignarhlutdeild og má aðeins nýta sér slíkan atkvæðisrétt samkvæmt beinum eða óbeinum fyrirmælum frá móðurfyrirtækinu eða öðru undirfyrirtæki móðurfyrirtækisins.
5.     Ekki skal krefjast þess af móðurfyrirtæki fjárfestingarfyrirtækis, sem hefur fengið leyfi samkvæmt tilskipun 2004/39/EB, að það leggi eignarhlut sinn skv. 9 og 10. gr. saman við eignarhlut sem slíkt fjárfestingarfélag stýrir fyrir einstaka viðskiptamenn í skilningi 9. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB að því tilskildu:
—    að fjárfestingarfélagið fái leyfi til að stýra slíku samvali verðbréfa skv. 4. lið A-hluta í I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB,
—    að það megi aðeins nýta atkvæðisrétt sem tilheyrir slíkum hlutum samkvæmt leiðbeiningum sem berast skriflega eða rafrænt eða að tryggt sé að einstaklingsmiðuð stjórnun verðbréfasamvals fari fram óháð hvers kyns annarri þjónustu samkvæmt skilyrðum sem eru sambærileg þeim sem kveðið er á um í tilskipun 85/611/EBE með því koma á viðeigandi aðferðum og
—    að fjárfestingarfyrirtækið nýti atkvæðisrétt sinn óháð móðurfyrirtækinu.
Ákvæði 9. og 10. gr. skulu þó gilda ef móðurfyrirtækið eða annað undirfyrirtæki móðurfyrirtækisins hefur fjárfest í eignarhlutdeild sem slíkt fjárfestingarfyrirtæki stjórnar og fjárfestingarfélagið hefur ekkert val um nýtingu atkvæðisréttar sem fylgir slíkri eignarhlutdeild og má aðeins nýta sér slíkan atkvæðisrétt samkvæmt beinum eða óbeinum fyrirmælum frá móðurfyrirtækinu eða öðru undirfyrirtæki móðurfyrirtækisins.
6.     Við móttöku tilkynningarinnar skv. 1. mgr. en eigi síðar en þremur viðskiptadögum þar á eftir skal útgefandinn birta opinberlega allar upplýsingarnar sem er að finna í tilkynningunni.
7.     Heimaaðildarríki má veita útgefendum undanþágu frá kröfunum í 6. mgr. ef lögbært yfirvald birtir opinberlega upplýsingarnar, sem er að finna í tilkynningunni, samkvæmt skilyrðunum sem mælt er fyrir um í 21. gr. við móttöku tilkynningarinnar en eigi síðar en þremur viðskiptadögum þar á eftir.
8.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 1., 2., 4., 5. og 6. mgr. þessarar greinar tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir um:
a)    að tekið verði upp staðlað eyðublað sem nota skal í öllu Bandalaginu þegar upplýsingarnar, sem krafist er, eru tilkynntar útgefanda skv. 1. mgr. eða þegar upplýsingar eru skráðar skv. 3. mgr. 19. gr.,
b)    að ákvarða „viðskiptaalmanak“ fyrir öll aðildarríki,
c)    að ákvarða í hvaða tilvikum hluthafi eða einstaklingur eða lögaðili, sem um getur í 10. gr., eða hvorutveggja skuli senda útgefanda nauðsynlega tilkynningu,
d)    að skýra aðstæður þar sem hluthafi eða einstaklingur eða lögaðili, sem um getur í 10. gr., ætti að hafa komist að raun um kaupin eða ráðstöfunina,
e)    að skýra skilyrði um óhæði sem rekstrarfélög og móðurfyrirtæki þeirra eða fjárfestingarfyrirtæki og móðurfyrirtæki þeirra skulu uppfylla til að njóta góðs af undanþágunum í 4. og 5. mgr.

13. gr.

1.     Tilkynningaskyldan, sem mælt er fyrir um í 9. gr., skal einnig gilda um einstakling eða lögaðila sem á, beint eða óbeint, fjármálagerninga sem fylgir réttur til að kaupa hluti útgefanda, einungis að frumkvæði slíks eiganda samkvæmt formlegum samningi, sem atkvæðisréttur fylgir og hafa þegar verið gefnir út og eru skráðir á skipulegan markað.
2.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 1. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir. Hún skal einkum ákvarða:
a)    gerðir og samsöfnun fjármálagerninga sem um getur í 1. mgr.:
b)    hvers eðlis hinn formlegi samningur er sem um getur í 1. mgr.,
c)    efni tilkynningarinnar sem semja skal og um leið skal ákveða staðlaða eyðublaðið sem nota skal í Bandalaginu,
d)    frest til tilkynningar,
e)    til hverra eigi að senda tilkynninguna.

14. gr.

1.     Ef útgefandi hluta sem skráðir eru á skipulegan markað kaupir eða ráðstafar eigin hlutum, annaðhvort hann sjálfur eða í gegnum einstakling sem kemur fram í eigin nafni en fyrir hönd útgefandans skal heimaaðildarríkið, eins fljótt og auðið er, tryggja að útgefandinn birti opinberlega hver hlutdeild hans er í eigin hlutum en eigi síðar en fjórum viðskiptadögum frá slíkum kaupum eða sölu þar sem hlutfallið nær, fer yfir eða niður fyrir 5% eða 10% mörk atkvæðisréttar. Reikna skal hlutfallið út á grundvelli heildarfjölda þeirra hluta sem atkvæðisréttur fylgir.
2.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 1. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir.

15. gr.

Til að reikna út mörkin, sem kveðið er á um í 9. gr., skal heimaaðildarríkið a.m.k. krefjast þess að útgefandinn birti opinberlega heildarfjölda þeirra sem hafa atkvæðisrétt og heildarhlutafé við lok hvers almanaksmánaðar þar sem breyting á heildarfjölda eða -magni hefur átt sér stað til hækkunar eða lækkunar.

16. gr.
Viðbótarupplýsingar

1.     Útgefandi hluta sem skráð eru á skipulegan markað skulu án tafar tilkynna opinberlega allar breytingar á réttindum sem fylgja mismunandi flokkum hluta, þ.m.t. breytingar á réttindum sem fylgja afleiddum verðbréfum, sem útgefandinn gefur út sjálfur, og veita aðgang að hlutum þessa útgefanda.
2.     Útgefandi verðbréfa, annarra en hluta sem skráðir eru á skipulegan markað, skal án tafar tilkynna opinberlega allar breytingar á réttindum eigenda verðbréfa annarra en hluta, þ.m.t. breytingar á skilmálum og skilyrðum þessara verðbréfa sem gætu óbeint haft áhrif á þessi réttindi, einkum vegna breytinga á lánaskilmálum eða vöxtum.
3.     Útgefandi verðbréfa, sem eru skráð á skipulegan markað, skal án tafar tilkynna opinberlega um útgáfu nýrra lána og einkum um ábyrgðir eða tryggingar því tengdar. Með fyrirvara um tilskipun 2003/6/EB gildir þessi málsgrein ekki um opinbera, alþjóðlega stofnun sem a.m.k. eitt aðildarríki á aðild að.

II. ÞÁTTUR
Upplýsingar fyrir eigendur verðbréfa sem hafa verið skráð á skipulegan markað
17. gr.
Upplýsingakröfur fyrir útgefendur hluta sem hafa verið skráð á skipulegan markað

1.     Útgefandi hluta, sem eru skráðir á skipulegan markað, skal tryggja jafna meðferð fyrir alla eigendur hluta sem eru í sömu stöðu.
2.     Útgefandi skal tryggja að öll nauðsynleg aðstaða og upplýsingar, sem gera eigendum hluta kleift að neyta réttar síns, séu aðgengilegar í heimaaðildarríkinu og að heilleiki gagna sé varðveittur. Umboðsmaður skal ekki hindra hluthafa í að neyta réttar síns, sbr. þó lög þess lands þar sem útgefandinn hefur réttarstöðu lögaðila. Útgefandinn skal einkum:
a)    gefa upplýsingar um stað, tíma og dagskrá funda, um heildarfjölda hluta og fjölda atkvæða með atkvæðisrétt og um réttindi eigenda til að taka þátt í fundum,
b)    gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða, þar sem við á, rafrænt, fyrir hvern einstakling sem hefur rétt á að greiða atkvæði á hluthafafundi ásamt tilkynningu um fundinn eða, samkvæmt beiðni, eftir að fundurinn hefur verið auglýstur,
c)    að tilnefna sem umboðsmann sinn fjármálastofnun sem gerir hluthöfum kleift að neyta fjárhagsréttar síns og
d)    birta tilkynningar eða dreifa fréttabréfum um skiptingu og útborgun arðs og útgáfu nýrra hluta, þ.m.t. upplýsingar um fyrirkomulag er varðar skiptingu, áskrift, afpöntun eða breytingar.
3.     Að því er varðar miðlun upplýsinga til hluthafa skal heimaaðildarríki heimila útgefendum að nota rafrænar aðferðir að því tilskildu að slík ákvörðun sé tekin á aðalfundi og uppfylli a.m.k. eftirfarandi skilyrði:
a)    notkun rafrænna aðferða skal ekki með neinum hætti ákvarðast af aðsetri eða búsetu hluthafa eða, í tilvikum sem um getur í a- til h-liðar 10. gr., af aðsetri eða búsetu einstaklinga eða lögaðila,
b)    koma skal á auðkenningarfyrirkomulagi til að hluthafar eða einstaklingar eða lögaðilar, sem hafa rétt á að nýta sér eða stýra nýtingu atkvæðisréttar, fái fullnægjandi upplýsingar,
c)    hafa skal samband við hluthafa eða, í tilvikum sem um getur í a- til e-lið 10. gr., einstaklinga eða lögaðila sem hafa rétt til að afla, ráðstafa eða neyta atkvæðisréttar, með skriflegum hætti til að óska eftir samþykki þeirra til að nota rafrænar aðferðir við miðlun upplýsinga og ef þeir andmæla ekki innan hæfilegs frests skal litið svo á að þeir hafi gefið samþykki sitt. Þeir skulu geta farið fram á það hvenær sem er í framtíðinni að upplýsingum verði miðlað með skriflegum hætti og
d)    útgefandi skal ákvarða skiptingu kostnaðar sem miðlun slíkra upplýsinga með rafrænum hætti hefur í för með sér í samræmi við meginreglur um jafna meðferð sem mælt er fyrir um í 1. mgr.
4.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum, þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni og samræmd beiting 1., 2. og 3. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr. Hún skal einkum tilgreina hvers konar fjármálastofnanir sem gera hluthöfum kleift að nýta sér fjárhagslegan rétt sinn eins og kveðið er á um í c-lið 2. mgr.

18. gr.
Upplýsingakröfur fyrir útgefendur skuldabréfa sem hafa verið skráð á skipulegan markað

1.     Útgefendur skuldabréfa sem skráð eru á skipulegan markað skulu sjá til þess að allir eigendur skuldabréfa, sem metin eru jafngild, njóti sömu meðferðar að því er varðar öll réttindi sem fylgja þessum skuldabréfum.
2.     Útgefandi skal tryggja að öll nauðsynleg aðstaða og upplýsingar, sem gera eigendum skuldabréfa kleift að neyta réttar síns, séu aðgengilegar almenningi í heimaaðildarríkinu og að heilleiki gagna sé varðveittur. Umboðsmaður skal ekki hindra eigendur skuldabréfa í að neyta réttar síns, sbr. þó lög þess lands þar sem útgefandinn hefur réttarstöðu lögaðila. Útgefandinn skal einkum:
a)    birta tilkynningar eða dreifa fréttabréfum um stað, tíma og dagskrá funda með eigendum skuldabréfa, um greiðslu vaxta, hvernig umreikningi er háttað, skipti, áskrift, eða eftirgjöf og endurgreiðslu svo og um rétt þessara eigenda til þátttöku,
b)    gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða, þar sem við á, rafrænt, fyrir hvern einstakling sem hefur rétt á að greiða atkvæði á fundi eigenda skuldabréfa ásamt tilkynningu um fundinn eða, samkvæmt beiðni, eftir að fundurinn hefur verið auglýstur,
c)    tilnefna sem umboðsmann sinn fjármálastofnun sem gerir eigendum skuldabréfa kleift að neyta fjárhagslegs réttar síns.
3.     Ef aðeins skal boða á fundinn eigendur skuldabréfa að nafnverði a.m.k. 50 000 evrur á hverja einingu eða ef um er að ræða skuldabréf í öðrum gjaldmiðli en evrum þar sem nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi jafngildir a.m.k. 50 000 evrum má útgefandi velja að halda fundinn í hvaða aðildarríki sem er að því tilskildu að allur nauðsynlegur búnaður og upplýsingar, sem gerir slíkum eigendum kleift að neyta réttar síns, sé til staðar í þessu aðildarríki.
4.     Að því er varðar miðlun upplýsinga til eigenda skuldabréfa skal heimaaðildarríki eða aðildarríki sem útgefandi velur skv. 3. mgr. leyfa að hún fari fram með rafrænum hætti að því tilskildu að slík ákvörðun sé tekin á aðalfundi og uppfylli a.m.k. eftirfarandi skilyrði:
a)    notkun rafrænna aðferða skal ekki með neinum hætti ákvarðast af aðsetri eða búsetu eiganda skuldabréfs eða umboðsmanns sem kemur fram fyrir hans hönd,
b)    koma skal á auðkenningarfyrirkomulagi til að eigendur skuldabréfa fái upplýsingar með skilvirkum hætti,
c)    hafa skal samband við eigendur skuldabréfa með skriflegum hætti til að óska eftir samþykki þeirra til að nota rafrænar aðferðir við miðlun upplýsinga og ef þeir andmæla ekki innan hæfilegs frests skal litið svo á að þeir hafi veitt samþykki sitt. Þeir skulu geta farið fram á það hvenær sem er í framtíðinni að upplýsingum verði miðlað með skriflegum hætti og
d)    útgefandi skal ákvarða skiptingu kostnaðar sem miðlun slíkra upplýsinga með rafrænum hætti hefur í för með sér í samræmi við meginreglur um jafna meðferð sem mælt er fyrir um í 1. mgr.
5.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum, þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni og samræmd beiting 1. til 4. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir í samræmi við málsmeðferðina sem kveðið er á um í 2. mgr. 27. gr. Hún skal einkum tilgreina hvers konar fjármálastofnanir það eru sem gera eigendum skuldabréfa kleift að neyta fjárhagslegs réttar síns eins og kveðið er á um í c-lið 2. mgr.

IV. KAFLI
ALMENNAR SKULDBINDINGAR
19. gr.
Stjórnkerfi heimaaðildarríkis

1.     Þegar útgefandi eða einstaklingur, sem hefur óskað eftir skráningu verðbréfa sinna á skipulegan markað án samþykkis útgefanda, birtir upplýsingar, sem reglur kveða á um, skal hann á sama tíma leggja þessar upplýsingar inn hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkis síns. Lögbæra yfirvaldið getur ákveðið að birta slíkar skráðar upplýsingar á vefsetri sínu.
Ef útgefandi hyggst breyta stofnsamningi sínum eða samþykktum skal hann senda drög að breytingunum til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins og skipulega markaðsins þar sem útgefandinn hefur skráð verðbréf sín. Þessi drög skulu send án tafar en eigi síðar en þann dag sem boðað er til aðalfundar þar sem greiða skal atkvæði um breytingarnar eða tilkynna þær.
2.     Heimaaðildarríki getur veitt útgefanda undanþágu frá kröfunni skv. 1. mgr. að því er varðar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB eða 6. mgr. 12. gr. þessarar tilskipunar.
3.     Upplýsingar sem á að tilkynna útgefanda í samræmi við 9., 10., 12. og 13. gr. skulu á sama tíma lagðar inn hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins.
4.     Til að tryggja samræmda beitingu 1., 2. og 3. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir.
Framkvæmdastjórnin skal einkum tilgreina hvernig útgefandi, eigandi hluta eða annarra fjármálagerninga eða einstaklingur eða lögaðili, sem um getur í 10. gr., skuli leggja inn upplýsingar hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkis skv. 1. eða 3. mgr. í því skyni:
a)    að gera kleift að leggja inn upplýsingar hjá heimaaðildarríki á rafrænan hátt,
b)    að samræma innlagningu árlegrar fjárhagsskýrslu, sem um getur í 4. gr. þessarar tilskipunar, og innlagningu árlegra upplýsinga sem um getur í 10. gr. tilskipunar 2003/71/EB.

20. gr.
Tungumál

1.     Ef verðbréf eru einungis skráð á skipulegan markað í heimaaðildarríki skulu upplýsingarnar, sem reglur kveða á um, birtar á tungumáli sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis samþykkir.
2.     Ef verðbréf eru skráð á skipulegan markað í heimaaðildarríki og í einu eða fleiri aðildarríkjum skal birta upplýsingar, sem reglur kveða á um:
a)    á tungumáli sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis samþykkir og
b)    annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld þessara gistiaðildarríkja samþykkja eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda,
3.     Ef verðbréf eru skráð á skipulegan markað í einu eða fleiri gistiaðildarríkjum en ekki í heimaaðildarríkinu skulu upplýsingarnar, sem reglur kveða á um, birtar annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld þessara gistiaðildarríkja samþykkja eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda.
Þar að auki má heimaaðildarríkið mæla fyrir um í lögum og stjórnsýsluákvæðum að birta skuli upplýsingar, sem reglur kveða á um, annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld hafa samþykkt eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda.
4.     Ef verðbréf eru skráð á skipulegan markað án samþykkis útgefanda hvílir skyldan, sem um getur í 1., 2. og 3. gr., ekki á útgefanda heldur á einstaklingnum sem hefur óskað eftir slíkri skráningu án samþykkis útgefanda.
5.     Aðildarríkin skulu leyfa hluthöfum og einstaklingi eða lögaðila, sem um getur í 9., 10. og 13. gr. að tilkynna útgefanda um upplýsingar samkvæmt þessari tilskipun en einungis á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum. Ef útgefanda berst slík tilkynning mega aðildarríkin ekki krefjast þess af útgefanda að hann leggi fram þýðingu á tungumáli sem lögbær yfirvöld samþykkja.
6.      Ef nafnverð hverrar einingar verðbréfa, sem eru skráð á skipulegan markað í einu eða fleiri aðildarríkjum, er a.m.k. 50 000 evrur eða ef um er að ræða skuldabréf í öðrum gjaldmiðli en evrum sem jafngildir a.m.k. 50 000 evrum á útgáfudegi, skulu upplýsingar, sem reglur kveða á um, þrátt fyrir 1. til 4. gr., birtar opinberlega annaðhvort á tungumáli sem lögbær yfirvöld heima- og gistiaðildarríkja samþykkja eða á tungumáli sem hefð er fyrir að nota í alþjóðafjármálageiranum, að vali útgefanda eða einstaklings sem hefur krafist slíkrar skráningar án samþykkis útgefanda.
7.     Ef málshöfðun verður um innihald upplýsinga, sem reglur kveða á um, fyrir dómstólum í aðildarríki skal tekin ákvörðun um hver sé ábyrgur fyrir greiðslu kostnaðar við þýðingu á þessum upplýsingum, vegna málsmeðferðarinnar, í samræmi við lög viðkomandi aðildarríkis.

21. gr.
Aðgangur að upplýsingum sem reglur kveða á um

1.     Heimaaðildarríki skal tryggja að útgefandi eða einstaklingur, sem hefur sótt um skráningu á skipulegan markað án samþykkis útgefanda, birti upplýsingar, sem reglur kveða á um, með þeim hætti að það tryggi skjótan aðgang að slíkum upplýsingum án mismununar og að þær verði aðgengilegar opinbera kerfinu, sem ákveðið er og um getur í 2. mgr. Útgefandi eða einstaklingur, sem hefur sótt um skráningu á skipulegan markað án samþykkis útgefanda, má ekki krefja fjárfesta um greiðslu sérstaks kostnaðar fyrir að veita upplýsingar. Heimaaðildarríki skal krefjast þess að útgefandinn noti miðla sem unnt er að treysta með góðu móti að dreifi upplýsingum á skilvirkan hátt til almennings í Bandalaginu. Heimaaðildarríki má ekki gera það að skilyrði að einungis verði notaðir miðlar sem eru reknir af aðilum með staðfestu á yfirráðasvæði þess.
2.     Heimaaðildarríki skal tryggja að tilgreint sé a.m.k. eitt opinbert kerfi til miðlægrar geymslu upplýsinga sem reglur kveða á um. Þetta kerfi skal uppfylla lágmarksstaðla um öryggi einkum að því er varðar hvaðan upplýsingarnar eru fengnar, tímaskráningu og auðveldan aðgang fyrir notendur og skal það vera í samræmi við málsmeðferð við skráningu skv. 1. mgr. 19. gr.
3.     Ef verðbréf eru skráð á skipulegan markað í aðeins einu gistiaðildarríki og ekki í heimaaðildarríki skal gistiaðildarríkið tryggja að upplýsingar, sem reglur kveða á um, séu birtar í samræmi við kröfurnar sem um getur í 1. mgr.
4.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum, þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni og samræmd beiting 1., 2. og 3. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr.
Framkvæmdastjórnin skal einkum tilgreina:
a)    lágmarksstaðla um miðlun upplýsinga, sem reglur kveða á um, eins og um getur í 1. mgr.,
b)    lágmarksstaðla um miðlægt geymslukerfi sem um getur í 2. mgr.
Framkvæmdastjórnin má einnig tilgreina og uppfæra skrá yfir miðla sem dreifa upplýsingum til almennings.

22. gr.
Viðmiðunarreglur

1.     Lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu semja viðeigandi viðmiðunarreglur í því skyni að auðvelda frekar aðgang að upplýsingum sem birta skal samkvæmt tilskipunum 2003/6/EB og 2003/71/EB og þessari tilskipun.
Markmiðið með slíkum viðmiðunarreglum skal vera að búa til:
a)    rafræn net sem setja á upp í viðkomandi löndum á milli innlendra verðbréfaeftirlitsstofnana, þeirra sem reka skipulega markaði og innlendra félagaskráa sem fjallað er um í Fyrstu tilskipun ráðsins 68/151/EBE frá 9. mars 1968 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu ( 18 ) og aðildarríki krefjast af félögum í skilningi annarrar málsgreinar 48. gr. sáttmálans ( 19 ), til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra með það í huga að gera slíkar verndarráðstafanir sambærilegar í öllu Bandalaginu og
b)    eitt rafrænt net eða vettvang rafrænna neta á milli aðildarríkja.
2.     Framkvæmdastjórnin skal endurskoða niðurstöðurnar sem fást skv. 1. mgr. eigi síðar en 31. desember 2006 og má hún, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að auðvelda að 19. og 21. gr. sé fylgt.

23. gr.
Þriðju lönd

1.     Ef skráð skrifstofa útgefanda er í þriðja landi má lögbært yfirvald heimaaðildarríkis veita þeim útgefanda undanþágu frá kröfum skv. 4. til 7. gr. og 6. mgr. 12. gr., 14., 15. gr. og 16. til 18. gr. að því tilskildu að í lögum viðkomandi þriðja lands sé mælt fyrir um jafngildar kröfur eða að útgefandi uppfylli lagakröfur þriðja lands sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis telur jafngildar.
Upplýsingarnar sem fjallað er um í kröfunum sem mælt er fyrir um í þriðja landi skulu engu að síður lagðar fram í samræmi við 19. gr. og birtar í samræmi við 20. og 21. gr.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. skal veita útgefanda sem hefur skráða skrifstofu í þriðja landi undanþágu frá því að gera reikningsskil í samræmi við 4. eða 5. gr. áður en fjárhagsárið hefst eða eftir 1. janúar 2007 að því tilskildu að slíkur útgefandi geri reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla sem um getur í 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002.
3.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis skal tryggja að upplýsingar sem eru birtar í þriðja landi og gætu reynst mikilvægar fyrir almenning í Bandalaginu séu birtar í samræmi við 20. og 21. gr. jafnvel þótt slíkar upplýsingar séu ekki upplýsingar sem reglur kveða á um í skilningi k-liðar 1. mgr. 2. gr.
4.     Til að tryggja samræmda beitingu 1. mgr. skal framkvæmdastjórnin., samþykkja framkvæmdarráðstafanir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr.:
i)    um að koma á kerfi til að tryggja jafngildi upplýsinga sem krafist er samkvæmt þessari tilskipun, þ.m.t. reikningsskil sem krafist er samkvæmt lögum og stjórnsýsluákvæðum þriðja lands,
ii)    þar sem tilgreint er að þriðja land, þar sem útgefandi er skráður vegna laga og stjórnsýsluákvæða eða venja eða málsmeðferða, sem byggjast á alþjóðlegum stöðlum, sem alþjóðastofnanir setja, tryggi jafngildi krafna um upplýsingar sem kveðið er á um í þessari tilskipun.
Framkvæmdastjórnin skal í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27 gr. taka nauðsynlegar ákvarðanir um jafngildi reikningsskilastaðla sem útgefendur frá þriðja landi nota samkvæmt skilyrðum, sem sett eru fram í 3. mgr. 30. gr., eigi síðar en fimm árum eftir dagsetninguna sem um getur í 31. gr. Ef framkvæmdastjórnin ákveður að reikningsskilastaðlar þriðja lands séu ekki jafngildir má það heimila viðkomandi útgefendum að nota áfram slíka reikningsskilastaðla í hæfilega langan aðlögunartíma.
5.     Til að tryggja samræmda beitingu 2. mgr. má framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem skilgreindar eru þær tegundir upplýsinga sem eru birtar í þriðja landi og hafa þýðingu fyrir almenning í Bandalaginu.
6.     Fyrirtæki, sem hafa skráða skrifstofu í þriðja landi sem hefði þurft að fá leyfi í samræmi við 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 85/611/EBE eða, að því er varðar stjórnun verðbréfasamvals skv. 4. lið A-hluta I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB ef það var með skráða skrifstofu, eða, einungis ef um er að ræða fjárfestingarfyrirtæki, aðalskrifstofu sína í Bandalaginu, skulu einnig undanþegin frá því að leggja eignarhlutdeild sína saman við eignarhlutdeild móðurfyrirtækis síns samkvæmt kröfum, sem mælt er fyrir um í 4. og 5. mgr. 12. gr., að því tilskildu að þau uppfylli jafngild skilyrði um óhæði sem rekstrarfélög eða fjárfestingarfyrirtæki.
7.     Svo að tillit sé tekið til tækniframfara á fjármálamörkuðum og samræmd beiting 6. mgr. tryggð skal framkvæmdastjórnin samþykkja framkvæmdarráðstafanir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 27. gr. þar sem tilgreint er að þriðja land, í samræmi við landslög, laga- og stjórnsýsluákvæði þess, hafi tryggt að óhæðiskröfurnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun og framkvæmdarráðstöfunum hennar, séu jafngildar.

V. KAFLI
LÖGBÆR YFIRVÖLD
24. gr.
Lögbær yfirvöld og valdsvið þeirra

1.     Hvert aðildarríki skal tilnefna stjórnvaldið, sem um getur í 1. mgr. 21. gr. tilskipunar 2003/71/EB sem lögbært stjórnvald, sem ber ábyrgð á því að til að uppfylla þær skyldur sem kveðið er á um í þessari tilskipun og til að tryggja að ákvæðum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, sé beitt. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um það.
Aðildarríkin mega þó, að því er varðar h-lið 4. mgr., tilnefna annað lögbært yfirvald en lögbæra stjórnvaldið sem um getur í fyrstu undirgrein.
2.     Aðildarríkin mega heimila lögbæra stjórnvaldi sínu að úthluta verkefnum. Að undanskildum verkefnum sem um getur í h-lið 4. mgr. skal endurskoða úthlutun verkefna sem varða skuldbindingarnar sem kveðið er á um í þessari tilskipun og framkvæmdarráðstöfunum hennar fimm árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar og skal henni ljúka átta árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar. Allar úthlutanir verkefna skulu fara fram á tiltekinn skilyrðin við framkvæmd þeirra.
Þessi skilyrði skulu fela í sér ákvæði þar sem krafist er að umrædd eining hagi skipulagningu sinni þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra og að upplýsingar, sem fást þegar verið er að sinna verkefnunum, sem úthlutað var, séu ekki notaðar á óréttmætan hátt eða til að hindra samkeppni. Í öllum tilvikum hvílir endanleg ábyrgð á eftirliti með að samræmis sé gætt við ákvæði þessarar tilskipunar og framkvæmdarráðstafanir, sem samþykktar hafa verið til samræmis við það, á lögbæru yfirvaldi sem er tilnefnt í samræmi við 1. mgr.
3.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja um hvers konar fyrirkomulag sem samið hefur verið um varðandi úthlutun verkefna, þ.m.t. nákvæm skilyrði sem gilda um slíka úthlutun.
4.     Hvert lögbært yfirvald skal hafa allar nauðsynlegar heimildir til að sinna hlutverki sínu. Því skal a.m.k. heimilt:
a)    að fara fram á það við endurskoðendur, útgefendur, eigendur hluta og annarra fjármálagerninga eða einstaklinga eða lögaðila, sem um getur í 10 eða 13. gr. og einstaklinga, sem hafa eftirlit með þeim eða eru undir eftirliti þeirra, að þeir leggi fram upplýsingar og skjöl,
b)    að fara fram á það við útgefanda að hann birti almenningi upplýsingar, sem krafist er samkvæmt a-lið, með þeim aðferðum og innan þess frests sem yfirvald telur nauðsynlegan. Það má birta slíkar upplýsingar að eigin frumkvæði þegar útgefandi eða einstaklingur sem hefur eftirlit með því eða er undir eftirliti þess, sinnir því ekki og eftir að hafa veitt útgefandanum áheyrn,
c)    að fara fram á það við stjórnendur hjá útgefendum og eigendur hluta eða annarra fjármálagerninga eða einstaklinga eða lögaðila, sem um getur í 10. eða 13. gr., að þeir tilkynni upplýsingarnar sem krafist er samkvæmt þessari tilskipun eða samkvæmt landslögum, sem eru samþykkt í samræmi við þessa tilskipun, og, ef þörf krefur, að leggja fram frekari upplýsingar og skjöl,
d)    að fresta eða fara fram á það við viðkomandi skipulegan markað að hann fresti viðskiptum með verðbréf á skipulegum markaði um samfellt 10 virka daga að hámarki í einu og sama tilvikinu ef rökstuddur grunur er um að útgefandinn hafi brotið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar eða landslaga sem eru samþykkt í samræmi við þessa tilskipun,
e)    að banna viðskipti á skipulegum markaði ef það kemst að því að brotið hefur verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar eða landslaga sem hafa verið samþykkt í samræmi við þessa tilskipun eða ef rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið í bága við ákvæði þessarar tilskipunar,
f)    að fylgjast með því að útgefandi birti upplýsingar tímanlega með það að markmiði að sjá til þess að almenningur í öllum aðildarríkjum, þar sem verðbréf eru skráð, hafi virkan og jafnan aðgang að þeim og geri viðeigandi ráðstafanir ef svo er ekki.
g)    að tilkynna opinberlega að útgefandi eða eigandi hluta eða annarra fjármálagerninga eða einstaklingur eða lögaðili, sem um getur í 10. eða 13. gr. hafi ekki uppfyllt skyldur sínar,
h)    að kanna hvort upplýsingarnar, sem um getur í þessari tilskipun, séu samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur og gera viðeigandi ráðstafanir ef upp kemst um brot og
i)    að láta fara fram skoðun á vettvangi á yfirráðasvæði sínu í samræmi við landslög til að sannreyna hvort ákvæðum þessarar tilskipunar og framkvæmdarráðstafana hennar sé hlítt. Ef landslög krefjast þess er lögbæru yfirvaldi eða yfirvöldum heimilt að nota þessa heimild með því að vísa málinu til viðkomandi dómsmálayfirvalds og/eða í samstarfi við önnur yfirvöld.
5.     Ákvæði 1. til 4. gr. skulu ekki hafa áhrif á möguleika aðildarríkis til að gera sérstakar laga- og stjórnvaldsráðstafanir fyrir evrópsk yfirráðasvæði handan hafsins þar sem viðkomandi aðildarríki ber ábyrgð á samskiptum þeirra við önnur ríki
6.     Ekki skal litið svo á að það athæfi endurskoðenda að upplýsa lögbær yfirvöld um málsatvik eða ákvarðanir sem varða beiðni sem lögbært yfirvald setur fram samkvæmt a-lið 4. mgr. sé brot á takmörkun á birtingu upplýsinga sem komið hefur verið á með samningi eða lögum eða stjórnsýsluákvæðum og skal ekki kalla þá til ábyrgðar með neinum hætti.

25. gr.
Þagnarskylda og samstarf milli aðildarríkja

1.     Þagnarskylda skal gilda um alla þá sem starfa hjá eða hafa starfað hjá lögbæra yfirvaldinu og aðila sem lögbær yfirvöld kunna að hafa úthlutað tilteknum verkefnum. Ekki er heimilt að afhenda upplýsingar, sem falla undir þagnarskyldu, öðrum aðila eða yfirvaldi nema með skírskotun til laga, reglna eða stjórnsýsluákvæða sem aðildarríkin setja.
2.     Lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum skulu starfa saman þegar nauðsyn ber til svo að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun og nýtt valdheimildir sínar sem mælt er fyrir um annaðhvort í þessari tilskipun eða í landslögum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun. Lögbær yfirvöld skulu veita lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja aðstoð.
3.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki hindra lögbær yfirvöld í því að skiptast á trúnaðarupplýsingum. Slík upplýsingaskipti skulu háð þagnarskyldu þeirra sem starfa eða hafa starfað hjá þeim lögbæru yfirvöldum sem taka við upplýsingunum.
4.     Aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera samstarfssamninga um upplýsingaskipti við lögbær yfirvöld eða aðila í þriðju löndum þar sem löggjöf þeirra gerir þeim kleift að inna af hendi öll verkefni sem lögbær yfirvöld úthluta þeim samkvæmt þessari tilskipun í samræmi við 24. gr., Tryggt skal að um slík upplýsingaskipti ríki þagnarskylda a.m.k. í sama mæli og krafist er í þessari grein Slík upplýsingaskipti skulu eiga sér stað til að fullnægja eftirlitsskyldum áðurnefndra yfirvalda eða aðila. Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis frá lögbærum yfirvöldum sem hafa afhent þær og þá einungis, þar sem við á, til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir.

26. gr.
Varúðarráðstafanir

1.     Komist lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins að því að útgefandi eða eigendur hluta eða annarra fjármálagerninga eða einstaklingurinn eða einingin, sem um getur í 10. gr., hafi gerst sek um að virða ekki reglur eða brotið í bága við skyldur sínar skal það vísa málinu til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins.
2.     Ef útgefandinn eða eigandi verðbréfa heldur áfram að brjóta viðkomandi lög og ákvæði reglna, þrátt fyrir ráðstafanir sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis hefur gert eða vegna þess að slíkar ráðstafanir reynast ófullnægjandi, skal lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins, eftir að hafa tilkynnt það lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta í samræmi við 2. mgr. 3. gr. Framkvæmdastjórninni skal tilkynnt um slíkar ráðstafanir eins fljótt og auðið er.

VI. KAFLI
FRAMKVÆMDARRÁÐSTAFANIR
27. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar evrópsku verðbréfanefndarinnar sem komið var á fót með 1. gr. ákvörðunar 2001/528/EB.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar, að því tilskildu að framkvæmdarráðstafanirnar, sem samþykktar eru samkvæmt þessari málsmeðferð, breyti ekki grundvallarákvæðum þessarar tilskipunar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.
4.     Með fyrirvara um framkvæmdarráðstafanir sem hafa þegar verið samþykktar 20. janúar 2009 skal framkvæmd ákvæðanna í þessari tilskipun, sem varða samþykkt tæknilegra reglna og ákvarðana í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr., falla niður. Evrópuþinginu og ráðinu er heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdastjórnarinnar, að endurnýja viðkomandi ákvæði í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans, og skulu þau, í því skyni, endurskoða þau áður en fjögurra ára tímabilinu lýkur.

28. gr.
Viðurlög

1.     Með fyrirvara um rétt aðildarríkja til að beita viðurlögum á sviði refsiréttar skulu aðildarríkin tryggja, í samræmi við innlend lög, að gerðar verði a.m.k. viðeigandi stjórnsýsluráðstafanir eða beitt verði einkamálaréttar- og/eða stjórnsýsluviðurlögum gagnvart aðilum sem ábyrgir eru þegar ekki hefur verið farið að ákvæðum þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu tryggja að þessar ráðstafanir séu árangursríkar, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbæru yfirvaldi sé heimilt að birta opinberlega upplýsingar um allar ráðstafanir eða viðurlög sem beita skal við broti á ákvæðunum sem hafa verið samþykkt í samræmi við þessa tilskipun, nema slík birting kunni að tefla fjármálamarkaðnum í tvísýnu eða valda viðkomandi aðilum óhóflegum skaða.

29. gr.
Áfrýjunarréttur

Aðildarríkin skulu tryggja að unnt sé að áfrýja til dómstóla öllum ákvörðunum sem eru teknar samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.

VII. KAFLI
BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
30. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Þrátt fyrir 3. mgr. 5. gr. þessarar tilskipunar má heimaaðildarríki veita útgefendum, sem um getur í 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002, undanþágu frá því að birta reikningsskil í samræmi við þá reglugerð fyrir fjárhagsár sem hefst 1. janúar 2006 eða síðar.
2.     Þrátt fyrir 2. mgr. 12. gr. skal hluthafi tilkynna útgefanda í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir dagsetninguna í 1. mgr. 31. gr. um atkvæða- og eiginfjárhlutfall sitt á þeim degi í samræmi við 9., 10. og 13. gr. nema hann hafi þegar sent tilkynningu með sömu upplýsingum fyrir þessa sömu dagsetningu.
Þrátt fyrir 6. mgr. 12. gr. skal útgefandi síðan birta upplýsingarnar sem voru í þessum tilkynningum eigi síðar en þremur mánuðum eftir dagsetninguna í 1. mgr. 31. gr.
3.     Þegar útgefandi hefur réttarstöðu lögaðila í þriðja landi má heimaaðildarríki einungis veita slíkum útgefanda undanþágu frá því að semja reikningsskil í samræmi við 3. mgr. 4. gr. og skýrslu framkvæmdastjórnar í samræmi við 5. mgr. 4. gr. vegna skuldabréfa sem þegar hafa verið skráð á skipulegan markað fyrir 1. janúar 2005 svo fremi að
a)    lögbært yfirvald heimaaðildarríkis viðurkenni að árleg reikningsskil, sem útgefendur frá viðkomandi þriðja landi gera, gefi glögga mynd af eignum og skuldum útgefanda, fjárhagsstöðu hans og árangri,
b)    þriðja landið, þar sem útgefandi hefur réttarstöðu lögaðila, hafi ekki lögboðið að nota skuli alþjóðlega reikningsskilastaðla sem um getur í 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 og
c)    framkvæmdastjórnin hafi ekki tekið neina ákvörðun í samræmi við ii-lið 4. mgr. 23. gr. um hvort jafngildi sé á milli framangreindra reikningsskilastaðla og
—    reikningsskilastaðla sem mælt er fyrir um í lögum og stjórnsýsluákvæðum þriðja lands þar sem útgefandinn er með réttarstöðu lögaðila eða
—    reikningsskilastaðla þriðja lands sem útgefandi hefur valið að fara að.
4.     Heimaaðildarríkið má einungis veita útgefendum undanþágu frá því að birta fjárhagsskýrslu á hálfs árs fresti í samræmi við 5. gr. í 10 ár frá og með 1. janúar 2005 að því er varðar skuldabréf sem þegar hafa verið skráð á skipulegan markað í Bandalaginu fyrir 1. janúar 2005, að því tilskildu að heimaaðildarríki hafi ákveðið að leyfa slíkum útgefendum að færa sér í nyt ákvæði 27. gr. tilskipunar 2001/34/EB þegar þessi skuldabréf eru tekin til skráningar.

31. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að þessari tilskipun eigi síðar en 20. janúar 2007. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Þegar aðildarríkin samþykkja ráðstafanir skv. 1. mgr. 3. gr., 2. og 3. mgr. 8. gr., 6. mgr. 9. gr. eða 30. gr. skulu þau tafarlaust tilkynna framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum um það.

32. gr.
Breytingar

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á tilskipun 2001/34/EB frá og með þeim degi sem er tilgreindur í 1. mgr. 31. gr.:
1)    Ákvæði g- og h-liðar 1. gr. falli brott.
2)    Ákvæði 4. gr. falli brott.
3)    Ákvæði 2. mgr. 6. gr. falli brott.
4)    Eftirfarandi komi í stað 2. mgr. 8. gr.:
    „2.     Aðildarríkin geta gert útgefendum verðbréfa, sem skráð eru opinberlega, að sæta viðbótarskyldum að því tilskildu að þessar viðbótarskyldur gildi jafnt um alla útgefendur og einstaka hópa útgefenda.“
5)    Ákvæði 65. og 97. gr. falli brott,
6)    Ákvæði 102. og 103. gr. falli brott,
7)    Annar undirliður 3. mgr. 107. gr. falli brott.
8)    Í 108. gr. breytast ákvæði 2. mgr. sem hér segir:
    a)    í a-lið falli brott orðin „upplýsingar sem birtar skulu reglulega af félögum sem hafa fengið hlutabréf sín skráð,“
    b)    ákvæði b-liðar falli brott,
    c)    ákvæði iii-liðar c-liðar falli brott,
    d)    ákvæði d-liðar falli brott.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu ákvæðin sem tilvísanir í þessa tilskipun.

33. gr.
Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 30. júní 2009 gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um hvernig til hefur tekist með framkvæmd þessarar tilskipunar, þ.m.t. hvort rétt sé að aflétta undanþágu sem gildir um gildandi skuldabréf að loknu 10 ára tímabili eins og kveðið er á um í 4. mgr. 30. gr., og möguleg áhrif hennar á evrópska fjármálamarkaði.

34. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

35. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Strassburg 15. desember 2004.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES A. NICOLAÏ
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 306, 24.11.2005, bls. 45 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 60, 24.11.2005, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 80, 30.3.2004, bls. 128.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 242, 9.10.2003, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 30. mars 2004 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 2. desember 2004.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 191, 13.7.2001, bls. 45. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2004/8/EB (Stjtíð. ESB L 3, 7.1.2004, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 184, 6.7.2001, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/71/EB.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) Nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 12
(9)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 13
(10)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(11)    Stjtíð. ESB L 96, 12.4.2003, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 15
(12)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2004/39/EB.
Neðanmálsgrein: 16
(13)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2004/69/EB (Stjtíð. ESB L 125, 28.4.2004, bls. 44).
Neðanmálsgrein: 17
(14)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 18
(15)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/51/EB Evrópuþingsins og ráðsins (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 19
(16)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/51/EB.
Neðanmálsgrein: 20
(17)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2004/39/EB.
Neðanmálsgrein: 21
(18)    Stjtíð. EB L 65, 14.3.1968, bls. 8. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/58/EB (Stjtíð. ESB L 221, 4.9.2003, bls. 13).
Neðanmálsgrein: 22
(19)    Athugasemd ritstjórnar: Fyrirsögninni hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála Evrópubandalagsins í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 58. gr. sáttmálans.