Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 702. máls.

Þskj. 1176  —  702. mál.












95. Alþjóðavinnumálaþingið

í Genf 2006








Skýrsla félagsmálaráðherra
Magnúsar Stefánssonar
til Alþingis


















Félagsmálaráðuneytið
mars 2007






    

EFNISYFIRLIT



1.             Inngangur
     4

2.             95. Alþjóðavinnumálaþingið 2006
     6

             2.1.     Skipulag og þátttaka
      6

             2.2.     Kjörbréfanefnd
     7

             2.3.     Ræður
     8

             2.4.     Fjármál
     8

              2.5.     Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla
   8

              2.6.     Nefnd um vinnuvernd
   11

              2.7.     Ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns
   14

              2.8.     Tækniaðstoð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
   15



Fylgiskjöl:
     I.
     Samþykkt nr. 187, um vinnuvernd
   17

     II.
     Tilmæli nr. 197, um vinnuvernd
   21

     III.
     Tilmæli nr. 198, um ráðningarsamband
   25

     IV.      Skýrsla um starf nefndar um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
        og framkvæmd á félagsmálasáttmála Evrópu árið 2006
   30

     V.
     Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu 1945–2006
   37

     VI.
     Samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins 1919–2006
   44







Skýrsla

félagsmálaráðherra, Magnúsar Stefánssonar, til Alþingis
um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)
sem haldið var árið 2006 .

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. INNGANGUR

    Árið 2004 voru liðin 85 ár frá því að Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hóf starfsemi. Það ár markaði fleiri tímamót í sögu þessarar elstu sérstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Fyrir rúmum sextíu árum afgreiddi Alþjóðavinnumálaþingið yfirlýsingu sem kennd er við borgina Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Með yfirlýsingunni voru ný markmið sett í endurnýjaðri trú á framtíðina þrátt fyrir að eyðilegging og hörmungar blöstu við hvert sem litið var eftir seinni heimstyrjöldina. Fyrir rúmum 35 árum fékk Alþjóðavinnumálastofnunin friðarverðlaun Nóbels. Það var viðurkenning sem henni bar með rentu og jafnframt staðfesting á réttmæti þeirrar ákvörðunar frá árinu 1919 að koma á fót stofnun til að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki áttu við að stríða og aðeins yrði greitt úr þeim með sameiginlegu átaki þjóðanna. Þannig er þetta orðað í XIII. kafla Versalasáttmálans sem batt endi á fyrri heimsstyrjöldina. Þar segir enn fremur að varanlegur friður verði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti sé fyrst komið á innan þjóðfélaganna sjálfra vegna þess að vísirinn að árekstrum sem leiða til styrjalda þjóða í milli leynist í því félagslega ranglæti sem milljónir manna búi við í hinum ýmsum löndum. Árið 1919 þóttu markmið í þessa veru mjög óraunhæf. Franklin Delano Roosevelt komst þannig að orði árið 1941: „Mörgum virtist þetta draumsýn. Aldrei hafði nokkur heyrt um að fulltrúar ríkisstjórna kæmu saman í því skyni að bæta aðstæður og auka velferð launamanna. Sú tillaga þótti enn óraunhæfari að launafólk og atvinnurekendur frá öllum heimshornum ættu aðild að slíku umbótastarfi með fulltrúum ríkisstjórna.“ Draumsýnin varð að veruleika sem Alþjóðavinnumálastofnunin. Í samanburði við aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna felst sérstaða hennar í aðild fulltrúa ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks að öllum stjórnum, nefndum og ráðum stofnunarinnar. Þessi grundvallarregla gildir einnig um þing hennar, þ.e. Alþjóðavinnumálaþingið.
    Samkvæmt 19. gr. stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ber að leggja samþykktir gerðar á Alþjóðavinnumálaþinginu fyrir löggjafarsamkomu hlutaðeigandi aðildarríkis innan árs og eigi síðar en 18 mánuðum frá lokum þingsins. Frá því aðild Íslands að ILO var samþykkt árið 1945 hefur þetta verið gert með skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis. Í skýrslunni eru birtar alþjóðasamþykktir og tilmæli sem hafa verið afgreidd á þingunum. Á árinu 2006 kom þetta verklag til umfjöllunar í samráðsnefnd félagsmálaráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Af hálfu fulltrúa Alþýðusambands Íslands var því haldið fram að kynningin fyrir Alþingi eins og staðið hafi verið að henni frá árinu 1945 hafi verið ófullkomin þar sem ekki hafi fylgt tillaga um það hvort fullgilda skuli hlutaðeigandi alþjóðasamþykkt. Af hálfu fulltrúa félagsmálaráðherra í samráðsnefndinni var vakin á því athygli að hafi niðurstaða stjórnvalda verið sú að leggja til að hlutaðeigandi alþjóðasamþykkt verði fullgilt hafi því verið fylgt eftir með þingsályktunartillögu þess efnis. Að öðrum kosti hafi verið litið svo á að ákvörðun um fullgildingu hafi verið frestað. Niðurstaða þessa skoðanaágreinings varð sú að Alþýðusamband Íslands sendi alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf bréf 24. ágúst 2006 þar sem kvartað var yfir þessari framkvæmd. Félagsmálaráðherra skýrði afstöðu íslenskra stjórnvalda með bréfi dags. 25. september 2006. Niðurstaða sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmt alþjóðasamþykkta og tilmæla barst félagsmálaráðuneytinu í lok febrúar 2007. Með henni er það áréttað að afstaða hlutaðeigandi stjórnvalda til framkvæmdar á umræddum gerðum Alþjóðavinnumálaþingsins þurfi að koma fram við kynningu fyrir löggjafarsamkomu, þ.e. að því er varðar Ísland fyrir Alþingi. Það er hins vegar tekið fram í niðurstöðum sérfræðinganefndarinnar að þetta skuli gert að undangengnu samráði stjórnvalda við samtök atvinnurekenda og launafólks en að það sé á forræði ríkisstjórnarinnar að leggja til að alþjóðasamþykkt verði fullgilt, að hún verði ekki fullgilt eða að ákvörðun um fullgildingu verði frestað. Tekið er mið af þessari niðurstöðu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í þessari skýrslu til Alþingis sem fjallar að þessu sinni um 95. Alþjóðavinnumálaþingið er haldið var dagana 31. maí til 16. júní 2006.
    Helsta viðfangsefni 95. vinnumálaþingsins var afgreiðsla tillögu að alþjóðasamþykkt og tilmælum um vinnuvernd. Með tillögunni er gerð tilraun með nýja tegund alþjóðasamþykktar, eins konar rammasamþykkt, sem hvetur aðildarríkin til markvissra umbóta á viðkomandi sviði eða í hlutaðeigandi starfsgrein. Þetta fyrirkomulag býður upp á sveigjanleika sem gerir kleift að taka tillit til séraðstæðna í sumum ríkjum. Þannig eiga ríki að geta fullgilt samþykktina óháð því hvort þau eru þróuð iðnríki eða þróunarríki. Skuldbindingin með fullgildingu felst í mótun stefnu og markvissum umbótum. Þessi tilraun hlaut víðtækan stuðning þingfulltrúa á 95. Alþjóðavinnumálaþinginu. Nýja alþjóðasamþykktin og tilmælin um stefnu í vinnuverndarmálum hlaut stuðning alls þorra þingfulltrúa.
    Kjarni nýju alþjóðasamþykktarinnar felst í því að ríki sem fullgildir samþykktina skuldbindur sig til að setja fram stefnu á landsvísu í vinnuverndarmálum. Einnig þarf að vera fyrir hendi stjórnkerfi sem ber ábyrgð á framkvæmd reglna á svið aðbúnaðar, hollustu og öryggis á vinnustöðum. Stjórnvöld þurfa einnig að setja fram áætlanir um vinnuvernd á einstökum sviðum eða í tilteknum starfsgreinum.
    Sérfræðingar félagsmálaráðuneytisins og Vinnueftirlits ríkisins eru að bera saman íslenska löggjöf við ákvæði samþykktarinnar um vinnuvernd. Samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er enn að fjalla um fullgildingu samþykktarinnar. Er því mælt með því að ákvörðun um fullgildingu sé að svo stöddu frestað. Það sama á við þau tilmæli sem fylgja samþykktinni.
    Annað meginmál 95. Alþjóðavinnumálaþingsins en öllu umdeildara var ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns. Um er að ræða málefni sem hér á landi hefur verið nefnt gerviverktaka. Atvinnurekendur greiða ekki launatengd gjöld til dæmis framlag í lífeyrissjóð vegna vinnu slíkra einstaklinga, heldur ber þeim að standa sjálfir skil á slíkum greiðslum, a.m.k. hér á landi. Sá einstaklingur sem hafnar í þessari stöðu glatar margvíslegum félagslegum réttindum. Fulltrúar atvinnurekenda og launafólks tókust hart á um málið og var deilt um svo að segja hvert orð. Stafaði andstaða atvinnurekenda fyrst og fremst af efnistökum tillögunnar og mismunandi áherslum varðandi grundvallaratriði ráðningarréttarins, svo sem hugtakanotkun. Ekki tókst að brúa bilið milli hópanna og varð niðurstaðan sú að þótt tillagan að tilmælum næði fram að ganga með stuðningi fulltrúa ríkisstjórna og launafólks greiddu fulltrúar atvinnurekenda atkvæði gegn henni, þar á meðal fulltrúi Samtaka atvinnulífsins. Engu að síður hefur lengi verið samstaða um það hér á landi og víða annars staðar að vinna gegn gerviverktöku. Umfjöllun um tilmælin hefur ekki farið fram í samráðsnefnd félagsmálaráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þar af leiðandi er lagt til að því verði frestað að taka ákvörðun um aðgerðir til að fylgja eftir efni tilmælanna.
    Sagt er að kjarninn í starfi Alþjóðavinnumálaþingsins felist í umfjöllun um skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta um réttindi og skyldur í atvinnulífinu. Um skýrsluna er fjallað í fjölmennustu nefnd þingsins. Undanfarin ár hefur umfjöllun nefndarinnar um brot herforingjastjórnarinnar í Burma á samþykkt ILO um afnám nauðungarvinnu vakið mesta athygli. Málið snýst um lög sem veita sveitar- og borgarstjórnum og raunar öðrum stjórnvöldum víðtækar heimildir til að kveðja fólk til vinnu án endurgjalds. Ákvæði þessarar löggjafar hafa árum saman verið misnotuð af herforingjastjórninni og embættismönnum hennar. Nefndin fjallaði í fyrsta skipti um brot á alþjóðasamþykkt frá árinu 1999 um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd. Þar snerist málið um víðtækt mansal og kynlífsþrælkun barna og kvenna á Filippseyjum. Sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er harðorð í skýrslu sinni til Alþjóðavinnumálaþingsins um framkvæmd alþjóðasamþykktar um félagafrelsi í Hvíta-Rússlandi. Þingnefndin tók undir gagnrýni sérfræðinganna og samþykkti tilmæli til ríkisstjórnarinnar með afdráttarlausum kröfum um umbætur.
    Auk framangreindra málefna fjallaði 95. Alþjóðavinnumálaþingið um aðstoð stofnunarinnar við þróunarríki.
    Í samræmi við stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er í fylgiskjölum með þessari skýrslu til Alþingis birt alþjóðasamþykkt og tilmæli um vinnuvernd, auk tilmæla um ráðningarsamband.

2. 95. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 2006
2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    Dagana 31. maí til 16. júní 2006 var 95. Alþjóðavinnumálaþingið haldið í Genf í Sviss. Þingið var að venju haldið í Þjóðabandalagshöllinni en fundir nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta voru haldnir í byggingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þingfulltrúum hefur fjölgað mikið síðustu árin og voru nú 3.828. Það ber að hafa í huga að samkvæmt stofnskrá stofnunarinnar skal aðildarríki sem á annað borð tekur þátt í þinginu senda hið minnsta fjögurra manna sendinefnd. Í henni eiga að vera annars vegar fulltrúi samtaka atvinnurekenda og hins vegar launafólks auk tveggja fulltrúa hlutaðeigandi ríkisstjórnar. Af 178 aðildarríkjum sendu 166 sendinefndir til þingsins. Meðal þátttakenda voru 159 ráðherrar og aðstoðarráðherrar. Að þessu sinni var komið að Evrópubúa að gegna störfum forseta Alþjóðavinnumálaþingsins. Þingforseti var kosinn Cestmir Sajda, aðstoðarfélags- og vinnumálaráðherra Tékklands. Varaforsetar voru eftirtaldir: Jorge de Regil, úr röðum fulltrúa atvinnurekenda í Mexíkó, N.M. Adyanthaya, fulltrúi launafólks á Indlandi, og Aisha Abdel Hady, ráðherra vinnu- og útlendingamála í Egyptalandi.
    Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu voru: Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins. Frá utanríkisráðuneyti: Kristinn F. Árnason sendiherra, Einar Gunnarsson sendifulltrúi, Anna Jóhannsdóttir sendiráðunautur og Edda Magnus ráðgjafi. Fulltrúi atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúi launafólks: Magnús Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Varamaður hans var Sigurður Magnússon, formaður Félags matreiðslumanna.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
     I.      Skýrslur forstjóra og stjórnarnefndar.
     II.      Fjárhags- og framkvæmdaáætlun.
     III.      Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla.
     IV.      Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum.
     V.      Ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns.
     VI.      Hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í aðstoð við þróunarríki.
     VII.      Kjörbréf.
    Daginn fyrir setningu þingsins voru haldnir fundir hópanna þriggja sem eiga fulltrúa á þinginu, þ.e. ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í nefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: Fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla, nefndar um vinnuvernd, nefndar um ráðningarsamband, nefndar um þróunaraðstoð, kjörbréfanefndar og nefndar um framvindu þingsins.

2.2. KJÖRBRÉFANEFND


    Hlutverk kjörbréfanefndar er að ganga úr skugga um að aðildarríkin fylgi ákvæðum í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um skipan sendinefnda sem sendar eru til Alþjóðavinnumálaþingsins. Að lágmarki ber aðildarríki að senda til þingsins tvo fulltrúa ríkisstjórnar, einn fulltrúa atvinnurekenda og einn fulltrúa samtaka launafólks. Skylt er að hafa samráð við helstu samtök á vinnumarkaði við val á fulltrúum þeirra í sendinefndinni. Þrír fulltrúar eiga sæti í kjörbréfanefndinni. Fulltrúi ríkisstjórna gegnir formennsku. Í nefndina voru kjörnir: Jules Medeenou Oni, fulltrúi ríkisstjórnar Benín, Lidija Horvatié, fulltrúi atvinnurekenda í Króatíu, og Ulf Edström, fulltrúi launafólks í Svíþjóð.
    Kjörbréfanefndin fjallaði um samtals 11 kvartanir. Kvartað var yfir vali á fulltrúa atvinnurekenda í sendinefndir Svasílands og Venesúela. Einnig var gerð athugasemd við val á fulltrúa launafólks í sendinefndum Kamerúns, Pálmamottulands, Fídjieyja, Gabons, Gíneu, Paragvæs, Rúanda og Venesúela.
    Kvartað var yfir því að ríkisstjórnir Afganistan og Georgíu hafi ekki að hluta eða að öllu leyti greitt kostnað vegna farar og upphalds fulltrúa atvinnurekenda frá þessum löndum. Sams konar kvörtun var borin fram vegna ríkisstjórna Kongó, Svasílands og Venesúela vegna fulltrúa launafólks í sendinefndum þessara ríkja á þinginu.
    Fram kom athugasemd frá Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (ICFTU) um val á fulltrúum launafólks í sendinefnd Albaníu. Vegna vanreifunar gat nefndin ekki tekið afstöðu til athugasemdarinnar. Sama gilti um fulltrúa launafólks í sendinefnd Tyrklands.
    Framangreindar athugasemdir og kvartanir eru þess eðlis að nefndin sá ekki ástæðu til að meina fulltrúum þátttöku í þinginu. Hins vegar samþykkti hún að óska eftir nánari upplýsingum frá ríkisstjórn Pálmamottulands um reglur sem gilda um val á fulltrúum í sendinefnd ríkisins á þinginu og að þær berist fyrir næsta Alþjóðavinnumálaþing.

2.3. RÆÐUR


    Sérstakir gestir forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf, Juan Somavia, voru Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu, og Oscar Arias Sánchez, forseti Kosta Ríka.
    Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu, er fyrsta konan sem verður þjóðhöfðingi í Afríku. Hún gerði að umtalsefni í ræðu sinni til allsherjarþings vinnumálaþingsins þau gífurlegu viðfangsefni sem við blasa eftir áratugaborgarastyrjöld, örkuml og eymd þúsunda manna. Fram kom að atvinnuleysi í Líberíu er 85%. Hún kvaðst vænta stuðnings við Líberíu frá fundi leiðtoga helstu iðnríkja, af þúsaldamarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, frá fundi efnahags- og félagsmálanefndar Sameinuðu þjóðanna og áætlun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um mannsæmandi vinnuskilyrði. Það var dökk mynd sem forsetinn dró upp í ræðunni sem hafði mikil áhrif á þingheim.
    Forseti Kosta Ríka, Oscar Arias Sánchez, fjallaði í ræðu sinni um áratugalanga baráttu sína fyrir friði, bættum kjörum almennings og lýðræði. Hann hrósaði Alþjóðavinnumálastofnuninni fyrir að standa vörð um félagsleg réttindi á tímum alþjóðavæðingar efnahags- og atvinnulífsins. Forsetinn hvatti til þess að áætlun ILO um mannsæmandi vinnuskilyrði verði gerð að þungamiðju stjórnmálaumræðunnar. Hann sagði að hagvöxtur væri forsenda fjölgunar starfa sem væri jafn þýðingarmikið og jöfn tækifæri til náms. Forsetinn lauk máli sínu með því að leggja áherslu á opið markaðskerfi og frjálsa verslun sem fylgi vissum grundvallarreglum.

2.4. FJÁRMÁL


    Fjárhagsnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins fjallar um fjármál og starfsáætlun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hún er eina nefndin þar sem aðgangur er takmarkaður við fulltrúa ríkisstjórna. Formaður nefndarinnar var kosinn F. Yimer, sendiherra Eþíópíu gagnvart alþjóðastofnunum í Genf. Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, var kosinn varaformaður nefndarinnar.
    Fjárhags- og starfsáætlun ILO er til tveggja ára í senn. Þar sem 95. vinnumálaþingið var haldið á miðju fjárhagstímabili voru fá málefni á dagskrá nefndarinnar. Skýrsla óháðra endurskoðenda varð tilefni til skoðanaskipta. Talsmaður samstarfshóps fulltrúa vestrænna iðnríkja (IMEC) tók þátt í umræðunum og vakti á því athygli að stjórn fjármála Alþjóðavinnumálastofnunarinnar væri í öruggum höndum og gefi ekki tilefni til aðgerða. Talsmaðurinn tók undir tillögu sem sett er fram í skýrslu endurskoðendanna um að skipuð verði sérstök eftirlitsnefnd sem fylgist með og leggi mat á innra eftirlit með fjárreiðum stofnunarinnar.
    Þess skal getið að samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun greiðir Ísland 0,034 hundraðshluta af útgjöldum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem árið 2007 jafngildir 123.607 svissneskum frönkum.

2.5. FRAMKVÆMD ALÞJÓÐASAMÞYKKTA OG TILMÆLA


    Ein af fastanefndum Alþjóðavinnumálaþingsins og jafnframt sú mikilvægasta er nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Verkefni nefndarinnar er að fjalla um skuldbindingar aðildarríkjanna gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni og framkvæmd þeirra á alþjóðasamþykktum á sviði félags- og vinnumála. Yfirleitt sátu 249 fullgildir fulltrúar fundi nefndarinnar (119 fulltrúar ríkisstjórna, 39 fulltrúar atvinnurekenda og 91 fulltrúi launafólks). Að auki sátu fundina sjö varafulltrúar ríkisstjórna, 50 varafulltrúar atvinnurekenda og 154 varafulltrúar launafólks. Loks voru á fundunum 30 áheyrnarfulltrúar ýmissa alþjóðasamtaka. Fundir fóru fram í fundarsal stjórnarnefndarinnar í byggingu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og var hvert sæti skipað og þröngt um þingfulltrúa.
    Nefndin endurkaus Sérgio Paixao Pardo, fulltrúa ríkisstjórnar Brasilíu, sem formann. Varaformenn voru kosnir Edward E. Potter, fulltrúi atvinnurekenda í Bandaríkjunum, og Luc Cortebeeck, fulltrúi launafólks í Belgíu. Af Íslands hálfu tóku þátt í störfum nefndarinnar Gylfi Kristinsson, Hrafnhildur Stefánsdóttir og Magnús Norðdahl.
    Í samræmi við venju hófst starf nefndarinnar með almennum umræðum um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla. Undir þessum dagskrárlið er einnig fjallað um almennar skuldbindingar aðildarríkjanna sem leiða af stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Við þessar umræður er stuðst við 1. hluta skýrslu sérfræðinganefndar ILO um framkvæmd samþykkta og tilmæla. Einnig er skipst á skoðunum um starfshætti nefndarinnar. Talsmenn Norðurlandanna í almennu umræðunum hafa á undanförnum árum sett fram margvíslegar ábendingar um það hvernig hægt er að bæta verklag og gera starf nefndarinnar skilvirkara. Það hefur komið nokkuð oft fyrir að teygst hefur úr fundum nefndarinnar og þeir staðið fram á nætur. Í þessu sambandi hefur verið bent á takmörkun á fjölda ræðumanna og á ræðutíma, að fundir hefjist strax við þingsetningu og stundvíslega á degi hverjum. Nokkuð hefur borið á því að sérstakir samráðsfundir annars vegar atvinnurekenda og hins vegar launafólks raska auglýstum fundartíma þingnefndarinnar.
    Fyrsta starfsvika þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta fer í almennar umræður. Í annarri þingvikunni er fjallað um málefni einstakra ríkja. Við þennan hluta umræðnanna styðst nefndin við skýrslu sérfræðinganefndar ILO um framkvæmd einstakra aðildarríkja á fullgiltum alþjóðasamþykktum, við athugasemdir frá samtökum atvinnurekenda og launafólks og skýrslur annarra alþjóðastofnana. Þar sem vonlaust er að taka fyrir öll álitamál hefur sú venja skapast að fulltrúar atvinnurekenda og fulltrúar launafólks hafa komið sér saman um skrá yfir mál í skýrslu sérfræðinganefndarinnar sem tekin eru til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu. Fram til þessa hefur skráin ekki legið fyrir fyrr en á þriðja eða fjórða þingdegi. Þetta hefur sætt gagnrýni fulltrúa ríkisstjórna þeirra aðildarríkja sem hafa lent á skránni. Þeir hafa réttilega bent á skamman tíma til undirbúnings fyrir umræður í nefndinni. Að þessu sinni var komið til móts við gagnrýnina. Nokkru fyrir þingsetningu fengu þingfulltrúar senda skrá með nöfnum 42 aðildarríkja sem gætu þurft að standa fyrir máli sínu í nefndinni. Að öllu jöfnu tekur nefndin til umfjöllunar mál 25 ríkja. Að þessu sinni varð að samkomulagi að fjalla um 22 mál en verja hálfum fundardegi í umræður um framkvæmd herforingjastjórnarinnar í Burma (Myanmar) á alþjóðasamþykkt nr. 29, um afnám nauðungarvinnu.

Burma.

    Í sjötta skiptið í röð var sérstökum fundi nefndarinnar varið í að ræða málefni eins aðildarríkis. Þetta ríki var Burma sem hefur sætt ámæli og vaxandi gagnrýni fyrir viðvarandi brot á alþjóðasamþykkt ILO nr. 29, um afnám nauðungarvinnu. Í fyrri skýrslum félagsmálaráðherra til Alþingis hefur verið gerð grein fyrir málavöxtum. Málið snýst um lög sem veita sveitar- og borgarstjórnum og raunar öðrum stjórnvöldum víðtækar heimildir til að kveðja fólk til vinnu. Ákvæði þessarar löggjafar hafa um áratugaskeið verið misnotuð, einkum af herforingjastjórninni sem hefur setið á valdastólum í landinu.
    Sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur í árlegri skýrslu sinni til Alþjóðavinnumálaþingsins fjallað ítarlega um ástandið í Burma sem virðist fara sífellt versnandi. Nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins hefur tekið undir kröfur sérfræðinganefndarinnar um úrbætur. Í umræðum um þetta mál hafa fulltrúar ríkisstjórnar Burma annaðhvort vísað á bug ásökunum um brot á alþjóðasamþykktum eða hampað innantómum loforðum um bót og betrun.
    Við umræður í nefndinni hélt fulltrúi Austurríkis ræðu fyrir hönd aðildarríkja Evrópusambandsins og nokkurra annarra ríkja, þar á meðal Íslands. Í ræðunni voru reifuð margvísleg og ítrekuð brot ríkisstjórnar Burma og krafist tafarlausra úrbóta. Við umræður í nefndinni kom fram að þeir borgarar sem kæra nauðungarvinnuna sæta ofsóknum og eru dæmdir til tvöfalt lengri refsivistar en lög heimila. Þetta gengur þvert á ákvæði í 23. og 25. gr. samþykktar nr. 29, um afnám nauðungarvinnu.
    Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að þrátt fyrir stöðugar óskir og ítarlegar kröfur hafi ekkert miðað í umbótaátt síðastliðin átta ár. Vísað er til þess að ríkisstjórn Burma hafi lofað að kærendur brota um nauðungarvinnu njóti sérstakrar verndar í sex mánuði frá því kæra er sett fram. Loforðið hafi komið mjög seint fram og enn hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að staðið verði við það. Í niðurstöðunum kemur einnig fram að efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna verði upplýst um þróun mála. Þess var krafist að ríkisstjórn Burma sendi fyrir haustfund sérfræðinganefndar ILO ítarlega skýrslu um ástandið í landinu. Einnig var því beint til stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að taka málefni Burma á dagskrá og var það gert við lok Alþjóðavinnumálaþingsins. Í niðurlagsorðunum segir að ástandið í Burma sé algjörlega óásættanlegt fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina. Hins vegar sé nauðsynlegt að halda áfram skoðanaskiptum við ríkisstjórn landsins í þeirri von að þau leiði til umbóta. Nefndin samþykkti að málefna Burma yrði getið í sérstaka hluta skýrslu hennar til Alþjóðavinnumálaþingsins. Í þessum hluta er einungis getið þeirra brota á alþjóðasamþykktum sem teljast alvarleg og sérstaklega gróf.

     Filippseyjar.

    Nefndin tók fyrir brot ríkisstjórnar Filippseyja á alþjóðasamþykkt nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd. Fulltrúi ríkisstjórnar Svíþjóðar hélt ræðu um málið í nefndinni í nafni ríkisstjórna Norðurlandanna. Í henni voru látnar í ljós áhyggjur yfir áframhaldandi mansali barna og kvenna, bæði innanlands og til annarra landa. Það var viðurkennt að stjórnvöld hafi gert ráðstafanir með setningu laga til að stemma stigu við lögbrotum af þessu tagi og að þau hafi látið í ljós einbeittan vilja til að berjast gegn mansali. Í ræðunni tóku ríkisstjórnir Norðurlandanna undir álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að aðgerðirnar séu ófullnægjandi og að ríkisstjórn Filippseyja þurfi að herða baráttuna til að vinna bug á ósómanum. Í ræðunni er einnig vakin á því athygli að enn séu mörg börn send til herþjónustu í því skyni að taka þátt í vopnuðum átökum. Ríkisstjórn Filippseyja er eindregið hvött til að binda endi á þá iðju með viðeigandi ráðstöfunum.
    Nefndin samþykkti ítarlegar niðurstöður þar sem ríkisstjórnin er beðin um að gera Alþjóðavinnumálastofnuninni nánari grein fyrir þeim álitamálum sem tekin voru upp í umræðunum.

Gvatemala.

    Málefni Gvatemala hafa nokkrum sinnum komið til umfjöllunar í þingnefndinni um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla. Það er framkvæmd ríkisstjórnarinnar á samþykkt nr. 98, um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega sem er til umfjöllunar. Málið snýst um morð á verkalýðsleiðtogum og félagsmönnum í stéttarfélögum launafólks. Fulltrúi Noregs hélt ræðu um málið fyrir hönd ríkisstjórna Norðurlandanna. Í ræðunni er vísað til fjölda skýrslna innlendra og alþjóðlegra stofnana þar sem ítarlega er fjallað um margháttaðar aðgerðir til að koma í veg fyrir eðlilega starfsemi stéttarfélaga í landinu. Í niðurlagi ræðunnar var skorað á ríkisstjórn Gvatemala að grípa til nauðsynlegra aðgerða og færa réttarástandið í landinu í það horf sem krafist er samkvæmt alþjóðasamþykkt nr. 98.
    Í ályktunarorðum nefndarinnar er lögð áhersla á hið alvarlega ástand í landinu og að í því felst gróft brot á samþykkt nr. 98. Nefndin lýsir áhyggjum yfir vaxandi ofbeldi sem ríkir í Gvatemala og neikvæðum áhrifum sem það hefur á starfsemi stéttarfélaga. Nefndin fer þess á leit við ríkisstjórn Gvatemala að hún sjái til þess að löggjöf landsins sé í samræmi við ákvæði samþykktarinnar. Þess er einnig óskað að ríkisstjórnin sendi sérfræðinganefnd ILO ítarlega skýrslu um ástandið.

Hvíta-Rússland.


    Málefni Hvíta-Rússlands eru að verða fastur dagskráliður þingnefndarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla. Það er fyrst og fremst framkvæmd ríkisstjórnar landsins á ákvæðum alþjóðasamþykktar nr. 87, um félagafrelsi, sem er tilefni umfjöllunarinnar. Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar hefur í nokkur ár verið dregin upp dökk mynd af ástandi mála í landinu. Áður hefur komið fram í skýrslum um Alþjóðavinnumálaþingin að svo virðist sem erfiðlega gangi að segja skilið við fyrri tíma þegar félagasamtök, ekki síst stéttarfélög launafólks, voru hluti af kerfi ríkjandi afla í Ráðstjórnarríkjunum.
    Fulltrúi Austurríkis hafði orð fyrir ríkisstjórnum aðildarríkja Evrópusambandsins og nokkrum öðrum ríkjum, þar á meðal Íslands og Noregs. Í ræðunni er látnar í ljós þungar áhyggjur yfir brotum ríkisstjórnar Hvíta-Rússlands á ákvæðum samþykkta nr. 87 og 98.
    Nefndin samþykkti að þessa máls verði getið þeim hluta skýrslu hennar til allsherjarþing Alþjóðavinnumálaþingsins sem fjallar um sérstaklega gróf og alvarleg brot á samþykktum stofnunarinnar.

2.6. NEFND UM VINNUVERND


    Í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um 93. og 94. Alþjóðavinnumálaþingin 2005 og 2006 kemur fram að á 91. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2003 hafi verið ákveðið að gera tilraun með að setja nýja tegund af alþjóðasamþykkt sem myndi hvetja aðildarríkin til markvissra umbóta á hlutaðeigandi sviði eða í hlutaðeigandi starfsgrein. Það var ákveðið að taka fyrst fyrir vinnuvernd. Þetta var ákveðið með hliðsjón af neikvæðum áhrifum alþjóðavæðingar á virðingu fyrir heilsusamlegu vinnuumhverfi. Ákveðið var að setja málefnið á dagskrá 93. Alþjóðavinnumálaþingsins. Það var undirbúið af alþjóðavinnumálaskrifstofunni á venjulegan hátt með því að aðildarríkjunum var send árið 2004 spurningaskrá til útfyllingar. Jafnframt voru send drög að alþjóðasamþykkt og tillögu um þetta efni. Drögin þjónuðu því hlutverki að vera grundvöllur umræðu á komandi vinnumálaþingi. Málefnið var til fyrri umræðu á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu 2005. Þingið afgreiddi skýrslu sem hefur að geyma drög að samþykkt og tillögu um þetta efni.
    Aðbúnaður og hollusta á vinnustöðum var til annarrar og seinni umræðu á 95. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2006. A. Békés, fulltrúi ríkisstjórnar Ungverjalands, var endurkjörinn formaður nefndarinnar. Varaformenn voru einnig endurkjörnir, þ.e. C. Lötter, fulltrúi atvinnurekenda í Suður-Afríku, og P. Seminario, fulltrúi launafólks í Bandaríkjunum. Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, var fulltrúi Íslands í nefndinni. Nefndin hélt samtals 11 fundi. Í nefndinni áttu sæti 178 fulltrúar (78 fulltrúar ríkisstjórna, 38 fulltrúar atvinnurekenda og 62 fulltrúar launafólks).
    Starf nefndarinnar hófst 31. maí 2006 með almennum umræðum. Í þeim kom fram skýr vilji aðildarríkjanna að stefna skyldi að rammasamþykkt um vinnuvernd þar sem lögð er áhersla á markmið í stað ákvæða sem hefðu að geyma ítarlega útfærslu á réttindum og skyldum. Þeir sem tjáðu sig töldu mikilvægt að í samþykktinni komi fram skylda til að setja fram stefnu á landsvísu í vinnuverndarmálum, að fyrir hendi sé stjórnsýsla á þessu sviði og skipulagðar séu áætlanir um aðgerðir til að bæta heilbrigði og auka öryggi á vinnustöðum. Þetta sé gert í náinni samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Hjá fjölmörgum ræðumanna kom fram að sveigjanleiki verði forsenda þess að samþykktin verði fullgilt af þorra aðildarríkja ILO. Næsta skref aðildarríkja verði fullgilding annarra samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem taki til nánar tilgreindra atriða sem feli í sér ítarlegri skuldbindingar.
    Talsmenn launafólks lýstu áhyggjum með að ekki væru nægileg tengsl á milli væntanlegrar alþjóðasamþykktar og annarra samþykkta ILO á sviði aðbúnaðar, hollustu og öryggis á vinnustöðum. Sú hætta væri fyrir hendi að einungis rammasamþykktin verði fullgilt án þess að hún leiði til fullgildingar á öðrum vinnuverndarsamþykktum sem hafa að geyma raunverulegar réttarbætur.
    Að loknum almennum umræðum lögðu talsmenn atvinnurekenda fram tillögu um að nefndin samþykkti drögin að alþjóðasamþykktinni og tilmælunum eins og þau eru sett fram í skýrslu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar sem var grundvöllur umræðna í nefndinni. Röksemd þeirra var að ekki væri ástæða til að fjölyrða um drögin þar sem aðildarríkin hefðu lýst yfir ánægju þau. Drögin væru góður grunnur fyrir áframhaldandi umbótum á sviði vinnuverndarmála. Talsmenn launafólks lögðust gegn tillögu atvinnurekenda. Það sama gerðu fulltrúar Íslands, Noregs og Evrópusambandsins sem vísuðu til þess að Alþjóðavinnumálastofnunin byggist á þríhliða samstarfi ríkisvalds, atvinnurekenda og launafólks og skoðanaskipta þessara aðila. Afgreiðsla á drögum að alþjóðasamþykkt og tilmælum án umræðu væri ekki í hátt við grundvallarreglur um skoðanaskipti aðila um félags- og vinnumál. Af þessu leiddi að fulltrúar atvinnurekenda drógu tillöguna til baka.
    Nefndin hóf umræður um einstök ákvæði draganna að alþjóðasamþykkt og tillögu þegar þessi niðurstaða lá fyrir. Fyrst var farið yfir inngangsorð alþjóðasamþykktarinnar. Fulltrúar launafólks lögðu fram tillögu um að í inngangsorðum verði vísað til yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarréttindi í atvinnulífinu. Rökin voru þau að yfirlýsingin væri ein af grundvallarskjölum ILO og stefnumarkandi fyrir starfsemi stofnunarinnar. Auk þess væri í fjölda gerða vísað til yfirlýsingarinnar. Talsmenn atvinnurekenda og fulltrúar nokkurra ríkisstjórna lögðust gegn tillögunni og töldu að með henni væri vikið frá því markmiði sem hafi verið sett, þ.e. að afgreiðslu almennt orðaðrar rammasamþykktar um vinnuvernd. Þeir sem studdu tillöguna vísuðu til þess að í yfirlýsingunni er fjallað um grundvallarréttindi og þau taki einnig til aðbúnaðar, hollustu og öryggis á vinnustað. Leikar fóru þannig að tillagan var samþykkt.
    Fulltrúar ríkisstjórna Íslands, Noregs og aðildarríkja Evrópusambandsins lögðu fram tillögu um að taka upp í samþykktina orðalag um að stefnu á landsvísu skuli móta í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og í samræmi við hefð og aðstæður í hlutaðeigandi ríki. Með stefnunni skuli einnig stuðla að framkvæmd grundvallarþátta eins og áhættumati, fyrirbyggjandi aðgerðum sem lúti að miðlun upplýsinga, þjálfun og samstarfi. Í röksemdum með tillögunni var vísað til þess að það væri þýðingarmikið að stefnumótunin ætti sér stað með skoðanaskiptum við og með beinni þátttöku aðila vinnumarkaðarins. Nefndin samþykkti tillöguna.
    Tilmæli eru eins konar hliðstæða við reglugerð. Í þeim er að finna nánari útfærslu á ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar. Þar sem breytingar höfðu verið gerðar á drögunum að alþjóðasamþykkt þurfti að gera nokkrar breytingar á drögum að tilmælum. Þannig var tekin upp nýr kafli um stefnu á landsvísu og í honum er vísað til II. hluta samþykktar nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, og viðeigandi ákvæði í þeirri samþykkt sem fjalla um réttindi og skyldur atvinnurekenda og starfsmanna.
    Fulltrúar launafólks lögðu fram tillögu um að í II. hluta tilmælanna um stjórnsýslukerfi fyrir vinnuvernd yrði tekið upp ákvæði um yfirferð, þróun og endurskoðun í hátt við viðeigandi ákvæði í samþykktum sem taldar eru upp í viðauka, einkum í áðurnefndri samþykkt nr. 155, samþykkt nr. 81, um vinnueftirlit í iðnaði og verslun og nr. 129, um vinnueftirlit í landbúnaði. Tillagan var samþykkt sem og tillaga um að samráð verði ekki bundið við helstu samtök aðila vinnumarkaðarins heldur einnig aðra hlutaðeigandi aðila.
    Samkvæmt stofnskrá ILO er heimilt að leggja fram tillögur sem fjalla um efni sem er á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins. Fulltrúi ríkisstjórnar Svía notfærði sér þennan rétt og lagði fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til að hvetja aðildarríkin til að fullgilda alþjóðasamþykktir um vinnuvernd, einkum samþykktir nr. 81 og nr. 129 sem nefndar eru hér að framan. Enn fremur var í tillögunni dregið fram mikilvægi þess að starfrækja sérstakar stofnanir sem annast vinnueftirlit og fylgja eftir áætlunum um vinnuvernd.
    Við umræðuna komu fram áhyggjur hjá fulltrúum launafólks um að áhersla á samþykktir nr. 81 og 129 yrði á kostnað samþykktar nr. 155 sem talin er mikilvægust á vinnuverndarsviðinu. Það kom í ljós að tillagan hafði takmarkaðan stuðning í nefndinni og var dregin til baka.
    Fulltrúar talsmanna launafólks lögðu fram þingsályktunartillögu sem olli deilum. Með tillögunni skyldi stefnt að því að koma í veg fyrir sjúkdóma og dauðsföll vegna asbestmengunar á vinnustöðum. Bent er á að aðgerðir á þessu sviði hafi beina skírskotun til samþykkta sem miða að bættu vinnuumhverfi. Í tillögunni er vísað til samþykktar ILO nr. 162, um öryggi við notkun asbests, og samþykktar nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með krabbameinsvaldandi efnum. Aðildarríkin eru í tillögunni hvött til að fullgilda þessar samþykktir og vinna að allsherjarbanni gegn notkun asbests. Einnig að gætt verði ýtrustu aðgæslu við vinnu við það asbest sem er til staðar í vinnuumhverfinu.
    Talsmenn atvinnurekenda töldu að nefndin hefði ekki umboð til að fjalla um tillöguna. Asbest væri ekki á dagskrá þingsins. Lögfræðilegur ráðgjafi alþjóðavinnumálaskrifstofunnar benti á að á þinginu væri ekki að þessu sinni sérstök ályktunarnefnd. Af því leiddi að nefndir, sem samþykkt er að stofna á þinginu til að fjalla um afmörkuð efni, geta fjallað um þingsályktunartillögur um sama efni. Ráðgjafinn benti á að í tillögunni sé vísað til draganna að rammasamþykktinni sem hafi að markmiði að bæta hollustu á vinnustöðum. Hann lagði einnig áherslu á að umræddar samþykktir eru á skrá í viðauka með drögunum að tilmælunum. Efni þingsályktunartillögunar hafi þar með beina skírskotun til málefnis sem væri til umfjöllunar í nefndinni. Eftir atkvæðagreiðslu var niðurstaðan sú að nefndin tók þingsályktunartillöguna til afgreiðslu og var hún á endanum samþykkt af Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Við afgreiðslu á allsherjarþingi vinnumálaþingsins var rammasamþykktin um vinnuvernd samþykkt með 455 atkvæðum gegn tveimur. Fimm sátu hjá. Tilmælin voru samþykkt með 458 atkvæðum gegn þremur atkvæðum. Sex sátu hjá. Alþjóðasamþykktin er birt sem fylgiskjal I með þessari skýrslu og tilmælin sem fylgiskjal II.
    Líkt og við fyrri umræðu höfðu aðildarríki Evrópusambandsins náið samráð sín í milli og héldu fjölmarga samráðs- og undirbúningsfundi. EFTA- og EES-ríkin þáðu boð um að taka þátt í fundunum. Góð samstaða var á milli Evrópusambandsríkjanna og þeirra EFTA-ríkja sem eru skuldbundin af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ástæðan var meðal annars sú að öll ríkin fylgja rammatilskipun Evrópusambandsins um öryggi og hollustu á vinnustöðum og tillaga alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að gerð um málefnið var í stórum dráttum í hátt við tilskipunina.

2.7. RÁÐNINGARSAMBAND ATVINNUREKANDA OG LAUNAMANNS


    Ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns hefur áður verið til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu. Í skýrslum félagsmálaráðherra til Alþingis um 85. og 86. Alþjóðavinnumálaþingið er gerð grein fyrir umræðum um drög að alþjóðasamþykkt og tilmælum um það sem nefnt er verktaka einstaklinga eða gerviverktaka (e. contract labour). Í skýrslu um 86. vinnumálaþingið kemur fram að við seinni umræðu um alþjóðasamþykkt og tilmæli um þetta hafi komið í ljós óbrúanlegt bil á milli þeirra þriggja hópa sem eiga seturétt á þinginu. Af þessu leiddi að þingnefnd sem fjallaði um málið tókst ekki að afgreiða til allsherjarþingsins tillögur um þetta málefni. Við þetta tækifæri lýsti talsmaður fulltrúa launafólks yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna. Talsmaður atvinnurekenda var á öðru máli og taldi að hún væri til vitnis um það að málið væri ekki á því stigi að það væri umræðuhæft á Alþjóðavinnumálaþinginu. Hann benti á erfiðleika í sambandi við notkun hugtaka, merkingarmun eftir tungumálum og vandamál við skilgreiningu á gerviverktöku.
    Eini árangurinn af starfi þingnefndarinnar árið 1998 var sá að leggja til við allsherjarþingið að samþykkt yrði ályktunartillaga um hugsanlega afgreiðslu alþjóðasamþykktar um vernd einstaklinga sem eru í þeirri stöðu að geta talist gerviverktakar. Samkvæmt tillögunni var alþjóðavinnumálaskrifstofunni falið að vinna áfram að frekari athugun á gerviverktöku. Því var einnig beint til stjórnarnefndar ILO að setja málið að nýju á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2002. Árið 2003 varð að samkomulagi að orðið „launamaður“ yrði skýrt í tilmælum. Þannig var fallið frá því að setja alþjóðasamþykkt um þetta efni.
    Að venju undirbjó alþjóðavinnumálaskrifstofan umræður á þinginu með því að senda aðildarríkjunum skrár með spurningum um lög og venju á þessu sviði. Samtals bárust skrifstofunni svör frá 60 aðildarríkjum. Alþjóðavinnumálaskrifstofan vann úr þeim svörum og var samantekt birt í skýrslum sem lágu til grundvallar umræðum á þinginu.
    Sérstök þingnefnd fjallaði um þetta málefni. Formaður var kjörinn A. van Leur, fulltrúi ríkisstjórnar Hollands. Varaformenn voru A.J. Finley, fulltrúi atvinnurekenda í Bandaríkjunum, og E. Patel, fulltrúi launafólks í Suður-Afríku.
    Að framan er rakið að um þetta málefni hafi staðið djúpstæður ágreiningur um form og inntak hugsanlegrar gerðar Alþjóðavinnumálamálstofnunarinnar um skilgreiningu á orðinu „launamaður“. Það kom hins vegar í ljós að á 95. Alþjóðavinnumálaþinginu var breið samstaða fulltrúa ríkisstjórna um þörfina á tilmælum um inntak og afmörkun orðsins „launamaður“. Talsmaður fulltrúa ríkisstjórna í Afríku var þess mjög hvetjandi að þingið afgreiddi tilmæli um þetta efni sem gæti orðið leiðbeinandi fyrir aðildarríkin og auðveldað þeim að greina á milli atvinnurekenda og launamanna. Með þeim hætti yrði hægt að vinna gegn gerviverktöku sem sviptir raunverulega launamenn margvíslegum félagslegum réttindum.
    Talsmenn atvinnurekenda lögðust gegn fyrirætlunum um afgreiðslu tilmæla og ályktunartillögu um framkvæmd hennar. Við afgreiðslu á allsherjarfundi vinnumálaþingsins varð niðurstaðan sú tilmælin og ályktunartillagan voru samþykkt með 329 atkvæðum, 94 greiddu atkvæði á móti og 40 sátu hjá. Samkvæmt reglu ILO þurftu a.m.k. 286 að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, þ.e. að greiða atkvæði annaðhvort með eða á móti. Tilmælin fengu þannig rúman stuðning.
    Umræður í þingnefndinni, sem fjallaði um þetta málefni, snerust fyrst og fremst um atriði sem rétt væri að taka með í tilmælin. Fulltrúar voru sammála um það að tilmæli ættu að minnsta kosti hafa að markmiði að koma í veg fyrir að gengið yrði á snið við reglur um félagslega vernd launafólks með gerviverktöku. Hins vegar var ágreiningur um það í hversu miklum mæli tilmælin ættu að fjalla um önnur tilvik þar sem óvissa ríkir um það hvort hlutaðeigandi sé í stöðu launamanns. Talsmenn atvinnurekenda voru eindregið þeirrar skoðunar að takmarka ákvæði tilmælanna við gerviverktökuna. Talsmenn launafólks og fulltrúar ríkisstjórna töldu að sú nálgun myndi takmarka gildissviðið um of. Samstaða tókst um texta þar sem því er beint til ríkisstjórna að grípa til aðgerða í því skyni að auðvelda greiningu á því hvort á milli aðila sé ráðningarsamband. Á þann hátt verði hægt að leggja á það mat hvort hlutaðeigandi sé launamaður eða sjálfstætt starfandi. Að auki er því beint til aðildarríkjanna að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir réttindabrot og að virt séu ákvæði um að launafólk njóti félagslegs öryggis.
    Annað meginágreiningsefnið var um það hversu skýrt ætti að kveða að orði í tilmælunum. Í tillögu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að texta var mælt með því að í löggjöf aðildarríkjanna yrði lagt til grundvallar við ákvörðun á því hvort um ráðningarsamband væri ræða eða ekki hvert væri hið raunverulega samband aðila. Nefnd voru í dæmaskyni aðstæður sem eru leiðbeinandi um það hvort fyrir liggi ráðningarsamband sem aðildarríkin gætu tekið upp í löggjöf sína. Einnig var mælt með því að aðildarríkin gætu skýrt í löggjöf orðið „ráðningarsamband“ að teknu tilliti til gildandi réttar og venju í þeim efnum. Fulltrúar launafólks og ríkisstjórnarfulltrúar voru þeirrar skoðunar að í tilmælunum ættu að vera leiðbeinandi ákvæði og dæmi sem auðvelduðu að ákvarða hvort um ráðningarsamband væri að ræða eða ekki. Þessir fulltrúar greiddu því atkvæði að slíkt ákvæði væri tekið í tilmælin en fulltrúar atvinnurekenda voru þessu andvígir og greiddu atkvæði gegn tillögunni.
    Samkomulag tókst um tillögu fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins varðandi ráðningarsamband fólks sem sent er landa á milli í atvinnuskyni. Við slíkar aðstæður skiptir miklu að fyrir liggi hver sé atvinnurekandinn og hver launamaður. Samstaða tókst um það að mæla með því að aðildarríkin grípi til aðgerða sem hafa útsenda starfsmenn sem markhóp.
    Tilmælin um ráðningarsamband byggjast á því að aðildarríkin geti valið á milli mismunandi leiða til að bregðast við vanda sem leiðir af brotum og réttaróvissu á þessu sviði. Þar af leiðandi er orðið „launamaður“ ekki skýrt í tilmælunum. Tilmælin eru birt sem fylgiskjal III með þessari skýrslu. Rétt er að vekja á því athygli að tilmæli eru ekki skuldbindandi fyrir aðildarríkin með sama hætti og alþjóðasamþykkt.

2.8. TÆKNIAÐSTOÐ ALÞJÓÐAVINNUMÁLASTOFNUNARINNAR


    Tækniaðstoð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er mjög umfangsmikil. Yfirleitt er sá háttur á hafður að aðildarríkin velja sér stuðningsverkefni í þróunarríkjum. Umsjón með framkvæmdum er í höndum starfsmanna alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf en fjármunir og ráðgjafar frá hlutaðeigandi aðildarríki. Skipulag og hlutur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í tækniaðstoð við þróunarríki er tekinn reglulega til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu að jafnaði á sex ára fresti. Síðast var það gert á 85. þinginu árið 1999. Það var því orðið tímabært að taka málefnið að nýju á dagskrá þingsins og var um það fjallað í sérstakri þingnefnd. Alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman skýrslu undir heitinu Hlutverk ILO við tækniaðstoð. Aðgerðir á landsvísu í því skyni að skapa launafólki mannsæmandi vinnuaðstæður. Skýrslan lá til grundvallar umræðum í nefndinni.
    Formaður nefndarinnar var kosinn B. Bitonio, fulltrúi ríkisstjórnar Filippseyja. Varaformenn voru kosnir J. Jeetun, fulltrúi atvinnurekenda í Máritaníu, og H. Yacob, fulltrúi launafólks í Singapúr. Talsmaður nefndarinnar á fundi allsherjarfundar vinnumálaþingsins var U. Hiveluah, fulltrúi ríkisstjórnar Namibíu. Samtals tók 141 fulltrúi þátt í starfi nefndarinnar sem hélt átta fundi.
    Fulltrúi forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf hóf nefndarstarfið með ræðu þar sem hann dró fram þær breytingar í alþjóðamálum sem hafa átt sér stað frá því málefnið var síðast á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 1999. Hann lagði sérstaka áherslu á þá þýðingu sem stefnumarkandi yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa fengið, ekki síst varðandi mannsæmandi vinnuaðstæður. Heimsnefndin um félagslegar hliðar alþjóðavæðingar efnahagslífsins og leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna í september 2005 höfðu enn frekar beint kastljósinu að sérhæfðum samstarfsverkefnum stofnunarinnar og grundvallargildum hennar. Samstarfsverkefni, alþjóðasamþykktir um réttindi og skyldur í atvinnulífinu og þríhliðasamstarf ríkisvalds, atvinnurekenda og launafólks væri forsenda þess að hægt sé á alþjóðavísu að berjast fyrir mannsæmandi starfsskilyrðum.
    Að lokinni ræðu fulltrúa forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar tóku við almennar umræður í nefndinni. Fulltrúi Svíþjóðar flutti ræðu í nafni vestrænna iðnríkja. Í henni var fjallað um þær byltingarkenndu breytingar sem hafa átt sér stað á starfssviði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Tækniaðstoð stofnunarinnar væri forsenda þess að hún gæti gegnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti við núverandi aðstæður í heiminum. Mjög mikilvægt væri að tengja nánar saman tækniaðstoð og framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála og vinnuverndarmála.
    Eftir almennar umræður voru einstök atriði tekin til nánari umfjöllunar. Verulegur tími fór í að ræða með hvaða hætti Alþjóðavinnumálastofnunin gæti á sem virkastan hátt hrint í framkvæmd markmiðum alþjóðasamþykkta og áætluninni um mannsæmandi vinnuskilyrði.
    Nefndin lauk störfum með afgreiðslu ályktunar með fimm meginniðurstöðum sem eru:
          Í inngangi er dregið fram að full atvinna og mannsæmandi vinnuskilyrði gegna lykilhlutverki í því að árangur náist í þróunaraðstoð.
          Samþætting áætlunarinnar um mannsæmandi vinnuskilyrði við aðrar áætlanir stofnana Sameinuðu þjóðanna. Áætlunin hefur náð alþjóðlegri athygli.
          Þríhliða samstarfið, samningar og samstarf atvinnurekenda og launafólks eru forsenda umbóta í atvinnulífinu.
          Útfærsla á samstarfsverkefnum á sviði þróunaraðstoðar á afmörkuðum faglegum sviðum.
          Umbætur á sérhæfðri þróunaraðstoð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar kallar á aukna þekkingu og sérhæfingu til að veita þjónustu og ráðgjöf.



Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 187, um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 95. þingsetu sinnar í Genf hinn 31. maí 2006 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt er að grípa til frekari aðgerða til að stemma stigu við miklum fjölda alvarlegra vinnuslysa, sjúkdóma og dauðsfalla, og
    sem minnist þess að það er eitt af markmiðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að vernda starfsmenn gegn veikindum, sjúkdómum og vinnuslysum, eins og sett er fram í stofnskrá hennar, og
    sem gerir sér grein fyrir að vinnuslys, sjúkdómar og dauðsföll hafa neikvæð áhrif á framleiðni og á efnahagslega og félagslega þróun, og
    sem veitir athygli g-lið III. mgr. Fíladelfíuyfirlýsingarinnar sem kveður á um að það sé heilög skylda Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að ýta undir áætlanir meðal þjóða heims sem miða að því að líf og heilsa starfsmanna í öllum starfsstéttum njóti nægilegrar verndar, og
    sem minnist yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarréttindi í atvinnulífinu auk eftirfylgni við hana, 1998, og
    sem gefur gaum að samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 155), tilmæla um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 164) og öðrum gerningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem varða rammasamþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, og
    sem minnist þess að aukið öryggi og heilbrigði við vinnu er á verkefnaskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um mannsæmandi vinnu fyrir alla, og
    sem minnist ályktana um starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í tengslum við viðmiðanir á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu – hnattrænnar áætlunar sem samþykkt var á 91. vinnumálaþingi ILO (2003), sem einkum tengist því að tryggja forgangsröðun öryggis og heilbrigðis við vinnu í verkefnaskrám á landsvísu, og
    sem leggur áherslu á mikilvægi þess að efla meðvitund um gildi vinnuverndar á landsvísu, og
    sem hefur samþykkt ákveðnar tillögur varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    sem hefur ákveðið að þessar tillögur skuli birtast í formi alþjóðasamþykktar;
    sem samþykkir í dag, 15. júní 2006, eftirfarandi samþykkt sem nefna má samþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu, 2006.

I. ORÐSKÝRINGAR


1. gr.

    Í þessari samþykkt er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
     a.      „stefna á landsvísu“ vísar til stefnu á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu og vinnuumhverfi sem komið er á í samræmi við grundvallarreglur 4. gr. samþykktar um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 155);
     b.      „landskerfið um öryggi og heilbrigði við vinnu“ eða landskerfi vísar til þess grunnkerfis sem myndar aðalrammann um framkvæmd innlendu stefnunnar og innlendu áætlananna um öryggi og heilbrigði við vinnu;
     c.      „áætlun á landsvísu um öryggi og heilsu á vinnustað eða áætlun á landsvísu“ vísar til hvers kyns áætlunar á landvísu sem felur í sér markmið sem eiga að nást innan tiltekins tíma, forgang og aðgerðir sem fundnar eru til að bæta öryggi og heilbrigði við vinnu og aðferðir við að meta árangur;
     d.      „fyrirbyggjandi starf á landsvísu sem miðar að því að hlúa að öryggi og heilsu“ vísar til viðhorfs til þess að réttur til öruggs og heilsusamlegs vinnuumhverfis á öllum sviðum sé virtur, þar sem ríkisstjórnir, atvinnurekendur og launamenn taka virkan þátt í að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi í krafti kerfis með skilgreindum réttindum, ábyrgð og skyldum og þar sem forvarnir hafa algjöran forgang.

II. MARKMIÐ


2. gr.

    1. Hvert aðildarríki sem fullgildir þessa samþykkt skal standa fyrir stöðugum úrbótum á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu til að koma í veg fyrir vinnuslys, sjúkdóma og dauðsföll með því að þróa, í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks, stefnu, kerfi og áætlun á landsvísu.
    2. Hvert aðildarríki skal grípa til virkra ráðstafana sem miða að því að vinnuumhverfið verði öruggara og heilsusamlega í krafti kerfis áætlana um öryggi og heilbrigði við vinnu á landsvísu, að teknu tilliti til grundvallarreglnanna sem settar eru fram í gerningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem varða rammasamþykkt um að efla öryggi og heilbrigi við vinnu.
    3. Hvert aðildarríki, í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks, skal reglulega meta til hvaða ráðstafana væri unnt að grípa til til að fullgilda viðeigandi samþykktir ILO um öryggi og heilbrigði við vinnu.

III. STEFNA Á LANDSVÍSU
3. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með því að setja fram stefnu á landsvísu þar að lútandi.
    2. Hvert aðildarríki skal stuðla að og efla, á öllum viðkomandi stigum, rétt starfsmanna á öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi.
    3. Við mótun stefnu á landsvísu skal hvert aðildarríki, í ljósi aðstæðna innanlands og venju og í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks, efla meginreglur svo sem að meta áhættu við vinnu og margvíslega hættu í vinnuumhverfinu; berjast gegn áhættu við vinnu og starfstengda hættu við upptök; og efla viðhorf gagnvart öryggi og heilbrigði á landsvísu, þ.m.t. upplýsingar, samráð, menntun og þjálfun.

IV. KERFI Á LANDSVÍSU
4. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal koma á fót, viðhalda, þróa stig af stigi og endurskoða reglulega kerfi á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks.
    2. Kerfið á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu skal meðal annars fela í sér:
     a.      lög og reglugerðir, kjarasamninga eftir því sem við á, og aðrar viðeigandi gerðir um öryggi og heilbrigði við vinnu;
     b.      stjórnvald eða stofnun, eða stjórnvöld eða stofnanir, sem bera ábyrgð á öryggi og heilbrigði, tilnefnd í samræmi við landslög og venju;
     c.      úrræði til að tryggja að farið sé að lögum og reglugerðum, þ.m.t. eftirlitskerfi; og
     d.      fyrirkomulag til að efla, innan fyrirtækja, samvinnu milli stjórnar, starfsmanna og trúnaðarmanna þeirra þannig að hún verði meginþáttur forvarna á vinnustaðnum.
    3. Kerfið á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu skal, eftir því sem við á taka til:
     a.      þríhliða ráðgefandi aðila á landsvísu sem fjallar um mál tengd öryggi og heilbrigði við vinnu;
     b.      upplýsinga og ráðgjafarþjónustu um öryggi og heilbrigði við vinnu;
     c.      þjálfunar á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu;
     d.      þjónustu á sviði hollustuhátta á vinnustöðum í samræmi við landslög og venju;
     e.      rannsókna á öryggi og heilbrigði við vinnu;
     f.      skipulags til að safna og greina gögn um vinnuslys og atvinnusjúkdóma, að teknu tilliti til viðeigandi gerða Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO);
     g.      samstarfs við viðeigandi trygginga- og almannatryggingakerfi sem taka til vinnuslysa og atvinnusjúkdóma; og
     h.      stuðnings við markvissar endurbætur á aðstæðum tengdum öryggi og heilbrigði við vinnu í örfyrirtækjum, litlum og meðalstjórum fyrirtækjum og í hinu óformlega hagkerfi;

V. ÁÆTLUN Á LANDSVÍSU
5. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal setja á fót, hrinda í framkvæmd, fylgjast með, meta og endurskoða reglulega áætlun á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks.
    2. Áætluninni skal:
     a.      stuðla að þróun fyrirbyggjandi starfs á landsvísu sem miðar að því að efla öryggi og heilbrigði;
     b.      stuðla að vernd starfsmanna með því að útiloka eða draga úr, svo sem við verður komið, vinnutengdum hættum og áhættu á vinnustað, í samræmi við landslög og venju, í því skyni að koma í veg fyrir vinnuslys, sjúkdóma og dauðsföll og efla öryggi og heilbrigði á vinnustað;
     c.      samin og endurskoðuð á grundvelli greiningar á ástandi innanlands hvað varðar öryggi og heilbrigði við vinnu, þ.m.t. greiningu á kerfinu á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu;
     d.      fela í sér markmið, stefnumið og vísbendingar um árangur; og
     e.      vera studd, þar sem hægt er, öðrum áætlunum á landsvísu og áformum sem hjálpa til við að byggja smám saman upp öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi.
    3. Áætlunin á landsvísu skal vera vel kynnt og, eins og við verður komið, studd og sett á laggir af hátt settum innlendum stjórnvöldum.

VI. LOKAÁKVÆÐI
6. gr.

    Samþykkt þessi breytir engum alþjóðlegum vinnumálasamþykktum né tilmælum.

7. gr.

    Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

8. gr.

    1. Þessi samþykkt telst einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem hafa látið forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur þessi samþykkt í gildi, að því er snertir hvert aðildarríki, tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

9. gr.

    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en einu ári eftir skrásetningu hennar.
    2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp á fyrsta ári hvers nýs tíu ára tímabils í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

10. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

11. gr.

    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til skrásetningar skv. 102. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem skráðar eru samkvæmt þessari samþykkt.

12. gr.

    Þegar stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt, skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni.

13. gr.

    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt og sú samþykkt mælir ekki fyrir á annan veg, þá skal:
     a.      fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 9. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma, þegar það gerist;
     b.      aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt, eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni gagnvart þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

14. gr.

    Enskur og franskur texti samþykktar þessarar er jafngildur.



Fylgiskjal II.


Tilmæli nr. 197, um samþykkt til að efla öryggi og heilbrigði við vinnu, 2006.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 95. þingsetu sinnar í Genf hinn 31. maí 2006 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    hefur samþykkt tilteknar tillögur varðandi öryggi og heilbrigði við vinnu, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    sem hefur einsett sér að þessar tillögur skuli öðlast form tilmæla til viðbótar samþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu, 2006 (hér á eftir nefnd „samþykktin“);
    sem samþykkir í dag, 15. júní 2006, eftirfarandi tilmæli sem nefna má tilmæli um samþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu, 2006
    

I. STEFNA Á LANDSVÍSU


    1. Stefnan á landsvísu sem sett er fram í 3. gr. samþykktarinnar ætti að hafa til hliðsjónar II. hluta samþykktar um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 155), sem og viðeigandi réttindi, skyldur og ábyrgð launafólks, atvinnurekenda og ríkisstjórna í þeirri samþykkt.

II. KERFI Á LANDSVÍSU


    2. Við að stofna, viðhalda, þróa og endurskoða reglulega kerfið á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu sem skilgreint er í b-lið 1. gr. samþykktarinnar
     a.      ættu aðilar að taka mið af gerningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem tengjast rammasamþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu sem taldir eru upp í viðaukanum við þessi tilmæli, einkum samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 155), samþykkt um vinnueftirlit í iðnaði og verslun, 1947 (nr. 81) og samþykkt um vinnueftirlit í landbúnaði, 1969 (nr. 129); og
     b.      hafa aðilar heimild til að láta samráðið sem kveðið er á um í í 1-lið 4. gr. samþykktarinnar taka til annarra hagsmunaaðila.
    3. Með það að markmiði að fyrirbyggja vinnuslys, sjúkdóma og dauðsföll ætti landskerfið að fela í sér viðeigandi ráðstafanir um verndun alls launafólks, einkum launamanna í áhættustarfsgreinum, og launamenn sem eru berskjaldaðir svo sem þeir sem starfa við óformlegar aðstæður á vinnumarkaði, farandlaunafólk og ungt launafólk.
    4. Aðildarríki ættu að gera ráðstafanir til þess að vernda öryggi og heilbrigði launafólks af báðum kynjum, þ.m.t. verndun frjósemisheilsu.
    5. Þegar aðildarríki stuðla að því að vernda öryggi og heilsu með fyrirbyggjandi hætti innanlands eins og skilgreint er í d-lið 1. gr. samþykktarinnar ættu þeir að leitast við:
     a.      að vekja aðila á vinnumarkaði og almenning til vitundar um öryggi og heilbrigði við vinnu með átaki á landsvísu í tengslum við vinnustaði og samstarfsverkefni á alþjóðavísu, eftir því sem við á;
     b.      að stuðla að menntun og þjálfun á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu, einkum fyrir stjórnendur, leiðbeinendur, launamenn og trúnaðarmenn þeirra ásamt fulltrúum í stjórnsýslu ríkisins sem hafa með öryggi og heilbrigði að gera;
     c.      að innleiða hugmyndir á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu og, eftir því sem við á, viðmiðanir um hæfni í mennta- og starfsþjálfunaráætlunum;
     d.      að greiða fyrir því að hagskýrslum og gögnum sem varða öryggi og heilbrigði verði miðlað til hlutaðeigandi stjórnvalda, atvinnurekenda, launafólks og trúnaðarmanna þeirra;
     e.      að veita atvinnurekendum og launafólki og samtökum þeirra upplýsingar og ráðgjöf og efla og greiða fyrir samstarfi milli þessara aðila með það að markmiði að útiloka eða draga úr, hættum og áhættu á vinnustað;
     f.      að stuðla að því innan vinnustaðarins að mótuð verði stefna um öryggi og heilbrigði, skipaðar verði öryggisnefndir og tilnefndir verði öryggistrúnaðarmenn launamanna sem fjalla um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum í samræmi við landslög og venju; og
     g.      að taka á þeim hindrunum sem örfyrirtækjum, litlum og meðalstjórum fyrirtækjum og verktökum við að framkvæma stefnu og fylgja reglum um öryggi og heilbrigði við vinnu í samræmi við landslög og venju.
    6. Aðildarríki ættu að stuðla að því að setja á fót stjórnunarkerfi um öryggi og heilbrigði við vinnu, svo sem þá nálgun sem mælt er fyrir um í Leiðbeiningum um stjórnkerfi fyrir öryggi og heilbrigði við vinnu (ILO-OSH 2001).

III. ÁÆTLUN Á LANDSVÍSU


    7. Áætlun á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu samkvæmt skilgreiningu í c-lið 1. gr. samþykktarinnar ætti að byggjast á grundvallarreglum um mat og stjórnun hættu og áhættu sem beinist að sjálfum vinnustaðnum.
    8. Innanlandsáætlun ætti að kveða á um forgangsröðun aðgerða og hana ætti að endurskoða og uppfæra reglulega.
    9. Við gerð og endurskoðun áætlunarinnar á landsvísu mega aðildarríki færa út samráðið sem kveðið er á um í 1. mgr. 5. gr. samþykktarinnar til annarra hagsmunaaðila.
    10. Með það í huga að hrinda ákvæðum 5. gr. í framkvæmd ætti áætlunin á landsvísu að ýta undir að gripið verði til forvarnarráðstafana og -aðgerða sem fela í sér þátttöku atvinnurekenda, launafólks og trúnaðarmanna þeirra.
    11. Samhæfa ætti, eftir því sem við á, áætlunina á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu og aðrar áætlanir og áform, svo sem þau sem tengjast lýðheilsu og efnahagsþróun.
    12. Við gerð og endurskoðun áætlunarinnar á landsvísu ættu aðildarríki að hafa hliðsjón af gerningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem varða rammasamþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu og taldir eru upp í viðaukanum við þessi tilmæli, með fyrirvara um skyldur þeirra samkvæmt samþykktum sem þeir hafa fullgilt.

IV. GREINING Á LANDSVÍSU


    13. Aðildarríki ættu að taka reglulega saman lýsingu á stöðu mála innanlands á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu og framfara í átt til öruggs og heilbrigðs vinnuumhverfis. Við endurskoðun stefnu á landsvísu ætti að hafa hliðsjón af greiningunni.

    14. 1) Greiningin á landsvísu ætti að taka til eftirfarandi þátta, eftir því sem við á:
       a.      laga og reglugerða, kjarasamninga eftir því sem við á, og annarra viðeigandi gagna um öryggi og heilbrigði við vinnu;
       b.      stjórnvaldsins eða stofnunarinnar, eða stjórnvaldanna eða stofnananna, sem bera ábyrgð á öryggi og heilbrigði, tilnefnd í samræmi við landslög og venju;
       c.      úrræða til að tryggja að farið sé að lögum og reglugerðum, þ.m.t. eftirlitskerfi;
       d.      fyrirkomulags til að efla, innan hvers fyrirtækis, samvinnu milli stjórnar, launafólks og trúnaðarmanna þeirra þannig að hún verði meginþáttur forvarna á vinnustað
       e.      þríhliða ráðgefandi aðila á landsvísu sem tekur á málum tengdum öryggi og heilbrigði við vinnu;
       f.          upplýsinga- og ráðgjafarþjónustu um öryggi og heilbrigði við vinnu;
       g.      þjálfunar á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu;
       h.      þjónustuaðila á sviði vinnuverndar í samræmi við landslög og venju;
       i.          rannsókna á öryggi og heilbrigði við vinnu;
       j.          úrræða til að safna og greina gögn um vinnuslys og atvinnusjúkdóma og ástæður þeirra, að teknu tilliti til gerninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem málið varða;
       k.      ákvæða um að samhæfa viðeigandi trygginga- eða almannatryggingakerfi sem taka til vinnuslysa og atvinnusjúkdóma; og
       l.          úrræða til að bæta stöðugt öryggi og heilbrigði í vinnuumhverfinu í örfyrirtækjum, litlum og meðalstjórum fyrirtækjum og við óformlegar aðstæður á vinnumarkaði.
    2) Þar að auki ætti greiningin á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu að fela í sér upplýsingar um eftirfarandi þætti, eftir því sem við á:
       a.      úrræði til samhæfingar og samstarfs innanlands og milli fyrirtækja, þ.m.t. úrræði til að endurskoða innanlandsáætlanir;
       b.      tæknilegar kröfur, starfsvenjur og leiðbeiningar um öryggi og heilbrigði við vinnu;
       c.      ráðstafanir til menntunar og vitundarvakningar þ.m.t. átaksverkefni til kynningar;
       d.      sérhæfðar, tæknilegar, læknisfræðilegar og vísindalegar stofnanir með tengsl við hin ýmsu svið öryggis og heilbrigði við vinnu, þ.m.t. rannsóknarstofnanir og rannsóknarstofur sem fjalla um öryggi og heilbrigði við vinnu;
       e.      launamenn sem starfa á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu, svo sem eftirlitsmenn, öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir, læknar á sviði atvinnusjúkdóma og sérfræðingar á sviði hollustuhátta;
       f.          hagtölur um vinnuslys og atvinnusjúkdóma;
       g.      stefnumið og áætlanir heildarsamtaka atvinnurekenda og launafólks á sviði öryggis og heilbrigðis við vinnu;
       h.      reglubundna eða viðvarandi starfsemi sem tengist öryggi og heilbrigði við vinnu, þ.m.t. alþjóðasamstarf;
       i.          fjármagn og fjárveitingar með hliðsjón af öryggi og heilbrigði við vinnu; og
       j.          gögn um lýðfræði, læsi, hagkerfi og atvinnumál, sem fáanleg eru, og aðrar upplýsingar sem máli skipta.

V. ALÞJÓÐLEG SAMVINNA OG MIÐLUN UPPLÝSINGA


    15. Alþjóðavinnumálastofnunin ætti:
     a.      að greiða fyrir alþjóðlegri tæknisamvinnu um öryggi og heilbrigði við vinnu í því augnamiði að aðstoða lönd, einkum þróunarlönd, í eftirfarandi tilgangi:
                  i)      að styrkja þau í því að koma á og viðhalda forvarnaráætlunum um að hlúa að öryggi og heilsu;
                  ii)      að stuðla að því að nálgast öryggi og heilbrigði við vinnu með hjálp stjórnunarkerfa; og
                  iii)      að hvetja til þess að þeir gerningar, ef um er að ræða samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem tengjast rammasamþykkt um að efla öryggi og heilbrigði við vinnu og taldir eru upp í viðaukanum við þessi tilmæli, verði fullgiltir og þeim hrint í framkvæmd;
     b.      að greiða fyrir miðlun upplýsinga um stefnu á landsvísu í skilningi a-liðar 1. gr. samþykktarinnar um kerfi og áætlanir á landsvísu um öryggi og heilbrigði við vinnu, þ.m.t. um góðar venjur og frumlega nálgun, og um skilgreiningu á nýrri hættu og áhættu á vinnustöðum; og
     c.      að leggja fram upplýsingar um árangur sem náðst hefur við að öðlast öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi.

VI. UPPFÆRSLA Á VIÐAUKANUM


    16. Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar ætti að endurskoða og uppfæra viðaukann við þessi tilmæli. Sérhver viðauki sem þannig er endurskoðaður skal samþykktur af stjórnarnefndinni og skal koma í stað fyrri viðauka eftir að hafa verið kynntur aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

    VIÐAUKI


GERNINGAR ALÞJÓÐAVINNUMÁLASTOFNUNARINNAR SEM VARÐA RAMMASAMÞYKKT UM AÐ EFLA ÖRYGGI OG HEILBRIGÐI VIÐ VINNU

I. SAMÞYKKTIR

    Samþykkt um vinnueftirlit í iðnaði og verslun, 1947 (nr. 81)
    Samþykkt um vernd verkamanna fyrir geislun, 1960 (nr. 115)
    Samþykkt um heilbrigðisráðstafanir í verslunum og skrifstofum, 1964 (nr. 120)
    Samþykkt um bætur vegna slysa við vinnu, 1964 (nr. 121)
    Samþykkt um vinnueftirlit í landbúnaði, 1969 (nr. 129)
    Samþykkt um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini, 1974 (nr. 139)
    Samþykkt um verndun verkamanna gegn hættu frá loftmengun, hávaða og titringi á vinnustað, 1977 (nr. 148)
    Samþykkt um öryggi og heilbrigði í hafnarvinnu, 1979 (nr. 152)
    Samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 155)
    Samþykkt um heilsugæslu á vinnustöðum, 1985 (nr. 161)
    Samþykkt um öryggi við notkun asbests, 1986 (nr. 162)
    Samþykkt um öryggi og hollustuhætti í byggingariðnaði, 1988 (nr. 167)
    Samþykkt um öryggi við notkun efna við vinnu, 1990 (nr. 170)
    Samþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum, 1993 (nr. 174)
    Samþykkt um öryggi og heilbrigði þeirra sem stunda námugröft, 1995 (nr. 176)
    Bókun frá 1995 við samþykkt um vinnueftirlit, 1947 (nr. 81)
    Samþykkt um öryggi og heilbrigði þeirra sem stunda landbúnaðarstörf, 2001 (nr. 184)
    Bókun frá 2002 við samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu, 1981 (nr. 155)

II. TILMÆLI


    Tilmæli um vinnueftirlit, 1947 (nr. 81)
    Tilmæli um vinnueftirlit (námugröftur og samgöngur), 1947 (nr. 82)
    Tilmæli um heilbrigði starfsmanna, 1953 (nr. 97)
    Tilmæli um aðstöðu til velferðargæslu, 1956 (nr. 102)
    Tilmæli um vernd fyrir geislun, 1960 (nr. 114)
    Tilmæli um húsnæði launafólks, 1961 (nr. 115)
    Tilmæli um hollustuhætti (verslanir og skrifstofur), 1964 (nr. 120)
    Tilmæli um slysabætur, 1964 (nr. 121)
    Tilmæli um vinnueftirlit í landbúnaði, 1969 (nr. 133)
    Tilmæli um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna sem valda krabbameini, 1974 (nr. 147)
    Tilmæli um verndun verkamanna gegn hættu frá loftmengun, hávaða og titringi á vinnustað, 1977 (nr. 156)
    Tilmæli um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi hafnarstarfsmanna, 1979 (nr. 160)
    Tilmæli um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi, 1981 (nr. 164)
    Tilmæli um þjónustuaðila í vinnuvernd, 1985 (nr. 171)
    Tilmæli um öryggi við notkun asbests, 1986 (nr. 172)
    Tilmæli um öryggi og hollustuhætti í byggingariðnaði, 1988 (nr. 175)
    Tilmæli um öryggi við notkun efna við vinnu, 1990 (No. 177)
    Tilmæli um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum, 1993 (nr. 181)
    Tilmæli um öryggi og heilbrigði þeirra sem stunda námugröft, 1995 (nr. 183)
    Tilmæli um öryggi og heilbrigði þeirra sem stunda landbúnaðarstörf, 2001 (nr. 192)
    Tilmæli um skrá yfir atvinnusjúkdóma, 2002 (nr. 194)


Fylgiskjal III.

Tilmæli nr. 198, um ráðningarsamband.

    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, er kom saman til 95. þingsetu sinnar í Genf hinn 31. maí 2006 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, og
    sem telur að vernd sé fólgin í lögum og reglugerðum og kjarasamningum sem tengist því að fyrir hendi sé ráðningarsamband milli atvinnurekanda og launamanns, og
    sem telur að lög og reglugerðir og túlkun þeirra ætti vera samhæfð markmiðum um mannsæmandi vinnu, og
    sem telur að í ráðningar- og vinnulöggjöf sé m.a. leitast við að taka á því sem kann að lýsa sér í ójafnri samningsstöðu milli aðila að ráðningarsambandi, og
    sem telur að vernd launafólks sé kjarninn á verkefnasviði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og, í samræmi við grundvallarreglur sem settar eru fram í yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu, 1998, og verkefnasvið ILO um sæmandi vinnumál, og
    sem telur að erfitt sé að leiða í ljós hvort um sé að ræða ráðningarsamband eða ekki við aðstæður þar sem viðeigandi réttindi og skyldur hlutaðeigandi aðila eru ekki ljósar, þar sem reynt hefur verið að dulbúa ráðningarsambandið eða þar sem fyrir er ófullnægjandi eða takmarkaður lagarammi, eða túlkun hans eða beiting er ófullnægjandi eða takmörkuð, og
    sem gerir sér grein fyrir að til eru dæmi um að samningstilhögun geti haft þau áhrif að launafólk sé svipt þeirri vernd sem það á rétt á, og
    sem gerir sér grein fyrir hlutverki alþjóðlegra leiðbeininga fyrir aðildarríki við að ná fram þessari vernd með innlendum lögum og venju og að slíkar leiðbeiningar ættu að hafa skírskotun til langs tíma, og
    sem gerir sér enn frekar grein fyrir að allir ættu að njóta slíkrar verndar, einkum launafólk sem er berskjaldað, og ætti hún að byggjast á lögum sem eru skilvirk, áhrifarík, yfirgripsmikil, skjótvirk og að þau hvetji til þess að fólk fari sjálfviljugt eftir þeim, og
    sem gerir sér grein fyrir að stefna á landsvísu ætti að vera afrakstur samráðs við aðila vinnumarkaðarins og ætti að vera til leiðbeiningar fyrir þá aðila sem málið varðar á vinnustöðum, og
    sem gerir sér grein fyrir að stefna á landsvísu ætti að stuðla að hagvexti, að sköpuð verði störf og mannsæmandi vinna, og
    sem telur að hið hnattræna hagkerfi hafi orðið þess valdandi að hreyfanleiki launafólks sem þarf á vernd að halda hafi aukist, a.m.k. í ljósi þess að vernd á landsvísu er sniðgengin vegna ónógrar lagasetningar, og
    sem gerir sér grein fyrir að við veitingu þjónustu milli landa er mikilvægt að ákvarða með vissu hverjir teljist til launafólks í ráðningarsambandi, hvaða rétt launamaðurinn hafi og hver sé atvinnurekandinn, og
    sem telur að sá vandi sem felst í að greina hvort um ráðningarsamband sé að ræða eða ekki geti valdið alvarlegum erfiðleikum hjá þeim launamönnum sem málið varðar, samfélögum þeirra og þjóðfélögum í heild, og
    sem telur að skera verði úr um óvissuna hvort um ráðningarsamband sé að ræða eða ekki í því skyni að tryggja heiðarlega samkeppni og virka vernd launafólks í ráðningarsambandi á þann hátt sem viðeigandi er samkvæmt landslögum og venju, og
    sem gefa gaum að öllum viðkomandi alþjóðlegum kröfum um vinnuskilyrði, einkum þeim sem fjalla um stöðu kvenna auk þeirra sem fjalla um gildissvið ráðningarsambands, og
    hefur samþykkt tilteknar tillögur varðandi ráðningarsamband, sem er fimmta mál á dagskrá þessa þings, og
    hafa ákveðið að þessar tillögur skuli birtast í formi tilmæla;
    samþykkir í dag 15. júní 2006 eftirfarandi tilmæli um ráðningasamband, sem vísa má til með heitinu tilmæli um ráðningasamband, 2006.

I. STEFNA Á LANDSVÍSU UM VERND FYRIR LAUNAMENN


Í RÁÐNINGARSAMBANDI


    1. Aðildarríki ættu að koma á og beita stefnu á landsvísu til að endurskoða á hæfilegum fresti og, ef þörf krefur, skýra og aðlaga gildissvið viðeigandi laga og reglugerða í því skyni að tryggja launamönnum sem starfa í ráðningarsambandi virka vernd.
    2. Eðli og umfang verndar sem launafólk nýtur í ráðningarsambandi ætti að vera skilgreint í landslögum eða samkvæmt venju, eða hvorttveggja, að teknu tilliti til viðkomandi alþjóðlegra krafna um vinnuskilyrði. Slík lög eða venja, þ.m.t. þeir þættir sem varða gildissvið, umfang og ábyrgð á framkvæmd, ættu að vera skýr og fullnægjandi með það í huga að tryggja launafólki í ráðningarsambandi virka vernd.
    3. Koma ætti á og framkvæma stefnu á landsvísu í samræmi við landslög og venju í samráði við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks.
    4. Stefnan á landsvísu ætti a.m.k. að fela í sér ráðstafanir til að:
     a.      sjá fyrir leiðbeiningum fyrir þá aðila sem málið varðar, einkum atvinnurekendur og launamenn, um að greina með árangursíkum hætti hvort um ráðningarsamband sé að ræða eða ekki og um greinarmun á ráðnum og sjálfstætt starfandi launamönnum;
     b.      berjast gegn dulbúnu ráðningarsambandi t.d. sem varðar önnur tengsl sem kunna að fela í sér önnur form samningstilhögunar þar sem hin sanna réttarstaða er falin, með það í huga að dulbúna ráðningarsambandið eigi sér stað þegar atvinnurekandinn kemur fram við einstakling sem annan en launamann með þeim hætti að réttarstaða hans/hennar sem launamanns er hulin og þannig að sú staða kann að koma upp þegar samningstilhögun hefur þau áhrif að svipta launamenn þeirri vernd sem þeir eiga rétt á;
     c.      sjá fyrir viðmiðunum sem gilda um allar tegundir samningstilhögunar, þ.m.t. þá sem felur í sér marga aðila, þannig að launamenn sem eru ráðnir njóta þeirrar verndar sem þeim ber;
     d.      sjá til þess að í viðmiðunum sem gilda um allar tegundir samningstilhögunar sé skilgreint hver sé ábyrgur fyrir verndinni sem í þeim felst;
     e.      sjá fyrir virkum aðgangi þeirra sem málið varðar, einkum atvinnurekendum og launamönnum, að viðeigandi skjótri, ódýrri, sanngjarnri og skilvirkri málsmeðferð og úrræðum til að leysa ágreiningsefni um hvort ráðningarsamband sé fyrir hendi eða ekki og skilmála þess;
     f.      tryggja að farið sé eftir lögum og reglugerðum um ráðningarsamband og að þeim sé beitt með virkum hætti; og
     g.      sjá fyrir viðeigandi og fullnægjandi menntun og þjálfun í viðkomandi alþjóðlegum viðmiðunum um vinnuskilyrði, í samanburðar- og fordæmisrétti fyrir dómskerfið, gerðardómurum, sáttasemjurum, skoðunarmönnum og öðrum einstaklingum sem hafa með lausn ágreiningsmála að gera og að framfylgja vinnulöggjöf og viðmiðunum á landsvísu.
    5. Aðildarríki ættu að taka sérstakt tillit til þess í stefnu sinni á landsvísu að tryggja launamönnum, sem óvissan um hvort ráðningarsamband sé fyrir hendi eða ekki bitnar sérstaklega á, virka vernd, þ.m.t. kvenlaunamenn auk þeirra launamanna sem eru helst berskjaldaðir, ungir launamenn, eldri launamenn, launamenn sem starfa í óformlegu efnahagskerfi, farandlaunamenn og fatlaðir launamenn.
    6. Aðildarríki ættu:
     a.      við stefnumótun á landsvísu að taka sérstakt tillit til jafnréttissjónarmiða þar sem konur eru í meirihluta í tilteknum störfum og atvinnugreinum þar sem er stórt hlutfall dulbúins ráðningarsambands eða þar sem ráðningarsamband er ekki nægilega skýrt; og
     b.      að hafa skýra stefnu um jafnrétti kynjanna og betri framfylgd viðeigandi laga og samninga á landsvísu þannig að taka megi á jafnréttissjónarmiðum með árangursríkum hætti.
    7. Með tilliti til ferðar launamanna milli landa:
     a.      ættu aðildarríki við mótun stefnu á landsvísu, að höfðu samráði heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks, að íhuga að samþykkja viðeigandi ráðstafanir innan eigin lögsagnarumdæmis og, eftir því sem við á í samstarfi við önnur aðildarríki, í því skyni að sjá fyrir virkri vernd og koma í veg fyrir slæma meðferð farandlaunamanna á yfirráðasvæði þeirra sem kunna að vera í óvissu um hvort ráðningarsamband sé fyrir hendi eða ekki;
     b.      þar sem launamenn eru ráðnir í einu landi til starfa í öðru gætu aðildarríkin sem málið varðar íhugað að gera með sér gagnkvæma samninga til að koma í veg fyrir misnotkun og sviksamlega starfsemi í þeim tilgangi að sniðganga fyrirliggjandi fyrirkomulag um vernd launamanna með tilliti til ráðningarsambands.
    8. Stefna á landsvísu um vernd launafólks í ráðningarsambandi ætti ekki að hafa áhrif á borgaraleg eða viðskiptaleg tengsl og tryggt sé á sama tíma að einstaklingar í ráðningarsambandi njóti þeirrar verndar sem þeim ber.

II. GREINING Á ÞVÍ HVORT FYRIR HENDI SÉ
RÁÐNINGARSAMBAND EÐA EKKI

    9. Að því er varðar stefnu á landsvísu um vernd fyrir launafólk í ráðningarsambandi ætti greining á því hvort slíkt samband sé fyrir hendi eða ekki aðallega að fara eftir þeim staðreyndum sem tengjast útfærslu vinnunnar og launa launamannsins, án tillits til hvernig sambandinu er háttað samkvæmt einhverju öðru fyrirkomulagi, hvort sem það er samningsbundið eða ekki, og aðilarnir hafa komið sér saman um.
    10. Aðildarríki ættu að koma á framfæri skýrum aðferðum til að leiðbeina launafólki og atvinnurekendum við að greina hvort um ráðningarsamband sé að ræða eða ekki.
    11. Að því er varðar að greiða fyrir greiningu á hvort um ráðningarsamband sé að ræða eða ekki ættu aðildarríkin, innan ramma stefnu á landsvísu sem um getur í þessum tilmælum, að íhuga möguleika á eftirfarandi:
     a.      sjá fyrir ýmsum aðferðum til að greina hvort um ráðningarsamband sé að ræða eða ekki;
     b.      kveða á um lagalega forsendu þess efnis að ráðningarsamband sé fyrir hendi þar sem ein eða fleiri vísbendingar gefa það til kynna; og
     c.      ganga úr skugga um, eftir samráð við heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks, að launamenn með tiltekin einkenni, í almennum eða sértækum atvinnugeirum, skulu annaðhvort teljast vera ráðnir í starf eða sjálfstætt starfandi.
    12. Að því er varðar stefnu á landsvísu sem um getur í þessum tilmælum mega aðildarríki íhuga að skilgreina með skýrum hætti skilyrði sem gilda um greiningu á því hvort ráðningarsamband sé fyrir hendi eða ekki, til dæmis hvort launamenn séu undir boðvaldi atvinnurekanda.
    13. Aðildarríki ættu að íhuga að skilgreina í lögum og reglugerðum sínum, eða með öðrum aðferðum, sérstakar vísbendingar um það hvort ráðningarsamband sé fyrir hendi eða ekki. Þessar vísbendingar gætu verið:
     a.      sú staðreynd að starfið: er innt af hendi samkvæmt fyrirmælum og undir eftirliti annars aðila; felur í sér samþættingu launamannsins í skipulagningu fyrirtækisins; er unnið eingöngu eða aðallega í þágu annars einstaklings; þarf að inna af hendi persónulega af hálfu launamannsins; sé innt af hendi innan marka tiltekinna vinnustunda eða á tilgreindum vinnustað sem aðilinn sem óskar eftir vinnunni samþykkir; varir í tiltekinn tíma og hefur tiltekna samfellu; krefst þess að launamaðurinn sé tiltækur; eða að aðilinn sem óskar eftir vinnunni leggur til verkfæri, efni og vélbúnað;
     b.      regluleg launagreiðsla til launamannsins; sú staðreynd að slík laun séu eini eða helsti tekjustofn launamannsins; greiðsla í fríðu, svo sem matvælum, húsnæði eða flutningi; viðurkenning á rétti svo sem vikulegri hvíld og árlegu orlofi; greiðsla af hálfu aðilans sem óskar eftir vinnunni fyrir ferðalög sem launamaðurinn leggst í til að vinna starfið; eða ef ekki er til að dreifa fjárhagslegri áhættu launamanns.
    14. Lausn deilumála um hvort fyrir hendi sé ráðningarsamband eða ekki ætti að koma til kasta félagsdóma eða annarra úrskurðaraðila deilumála og launamenn og atvinnurekendur hafa virkan aðgang að í samræmi við landslög og venju.
    15. Lögbært stjórnvald ætti að samþykkja ráðstafanir með það í huga að tryggja virðingu fyrir framkvæmd laga og reglugerða um ráðningarsambandið með tilliti til ýmissa þátta sem eru til umfjöllunar í þessum tilmælum, til dæmis fyrir tilverknað eftirlits vinnueftirlits og samráðs við stjórnvöld á sviði almannatrygginga og skattayfirvöld.
    16. Hvað varðar ráðningarsambandið ættu stjórnvöld á sviði vinnumála og stofnanir á þeirra vegum að fylgjast reglulega með því hvernig áætlunum og vinnuferlum þeirra er framfylgt. Sérsök áhersla ætti að vera á störf og atvinnugreinar með hátt hlutfall kvenna á launum.
    17. Aðildarríki ættu að þróa, sem hluta af stefnu á landsvísu sem um getur í þessum tilmælum, virkar áætlanir sem miða að því að ryðja úr vegi hvatningu um að dulbúa ráðningarsamband.
    18. Sem hluti af stefnu á landsvísu ættu aðildarríki að ýta undir hlutverk kjarasamninga og skoðanaskipta um félagsmál sem aðferð, meðal annars, við að finna lausnir á vandamálum sem tengjast umfangi ráðningarsambands á landsvísu.

III. EFTIRLIT OG FRAMKVÆMD


    19. Aðildarríki ættu að koma á fót viðeigandi úrræðum eða nýta fyrirliggjandi úrræði til að fylgjast með þróun á vinnumarkaði og skipulagningu vinnu og veita ráðgjöf um upptöku og framkvæmd ráðstafana um ráðningarsamband innan ramma stefnu á landsvísu.
    20. Heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks ættu að eiga trúnaðarmenn, á jafnréttisgrunni, með þeim úrræðum sem fyrir hendi eru til að fylgjast með þróun á vinnumarkaði og skipulagningu vinnu. Til viðbótar ætti að hafa samráð við þessar stofnanir með þessum úrræðum eins oft og nauðsyn krefur og hvenær sem hægt er og gagnast, á grunni sérfræðiskýrslna og tæknilegra kannana.
    21. Aðildarríki ættu, eftir því sem við verður komið, að safna upplýsingum og hagskýrslum og gangast fyrir rannsóknum um breytingar á mynstri og uppbyggingu vinnu innanlands og eftir atvinnugreinum, að teknu tilliti til dreifingar karla og kvenna og annarra þátta sem máli skipta.
    22. Aðildarríki ættu að koma á fót sértækum úrræðum innanlands í því skyni að tryggja að unnt sé að greina ráðningarsamband á skilvirkan hátt á þeim vettvangi sem þjónusta er veitt milli landa. Taka ætti tillit til þróunar kerfisbundins sambands og upplýsingaskipta um viðfangsefnið við önnur ríki.

IV. LOKAMÁLSGREIN


    23. Þessi tilmæli breyta hvorki tilmælum um einkareknar vinnumiðlunarskrifstofur, 1997 (nr. 188) né samþykkt um einkareknar vinnumiðlunarskrifstofur, 1997 (nr. 181).


Fylgiskjal IV.


Skýrsla um starf nefndar um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
og framkvæmd á félagsmálasáttmála Evrópu árið 2006.

    Þríhliða samstarf á milli ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins skapar Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) sérstöðu þegar skipulag hennar er borið saman við skipulag annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur með ýmsum hætti reynt að hafa áhrif á ríkisstjórnir aðildarríkjanna í þá átt að þau taki upp hliðstæða samvinnu við samtök atvinnurekenda og launafólks um málefni vinnumarkaðaðarins. Dæmi um þetta er alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 144, um samstarf ríkisvalds og samtaka aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, sem Ísland fullgilti árið 1981. Á grundvelli tilmæla nr. 152 um framkvæmd samþykktarinnar var þann 16. apríl 1982 skipuð samstarfsnefnd ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins til að fjalla um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina, venjulega nefnd ILO-nefndin. Árið 2006 skipuðu eftirtaldir fulltrúar nefndina: Fulltrúi samtaka atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúi samtaka launafólks: Magnús Norðdahl lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Fulltrúi félagsmálaráðherra og jafnframt formaður nefndarinnar: Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu.
    Verkefni nefndarinnar beinast fyrst og fremst að málefnum sem tengjast samskiptum Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina og leiða af aðildinni að stofnuninni. Nefndinni var með sérstöku erindisbréfi félagsmálaráðherra, dagsettu 5. maí 1988, falið að fjalla um framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu. Ástæðan er meðal annars sú að ýmis ákvæði félagsmálasáttmálans eiga uppruna að rekja til alþjóðasamþykkta ILO. Það hefur því þótt hagkvæmt að nefndin fjalli einnig um framkvæmd á sáttmálanum og skýrslur Íslands um framkvæmd hans.
    Árið 2006 hélt nefndin samtals sjö fundi. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru eftirfarandi:

Málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.


a. Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á svið félags- og vinnumála.

    Í 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er kveðið á um þá skyldu aðildarríkja að gefa stofnuninni skýrslu um framkvæmd alþjóðasamþykkta sem þau hafa fullgilt. Skýrslur skulu teknar saman á tveggja ára fresti um framkvæmd á grundvallarsamþykktunum en yfirleitt eru skýrslutímabilin fjögur ár að því er varðar aðrar samþykktir ILO. Þessu til viðbótar er ákvæði í 19. gr. stofnskrárinnar sem heimilar stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að óska eftir því við aðildarríkin að þau gefi skýrslu um framkvæmd á samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Þessari heimild er beitt reglulega og er tilgangurinn að vekja athygli á umræddri samþykkt og hvetja aðildarríkin til að taka fullgildingu hennar til athugunar. Umfang skýrslnanna er mjög mismunandi. Í sumum tilvikum er nægilegt að vísa til fyrri skýrslna. Í öðrum tilvikum eru þær umfangsmeiri einkum ef sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur beint spurningum til stjórnvalda um tiltekin atriði.
    Árið 2006 undirbjó ILO-nefndin skýrslu ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
          nr. 11, um rétt landbúnaðarfólks til að bindast samtökum,
          nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu,
          nr. 105, um afnám nauðungarvinnu,
          nr. 138, um lágmarksaldur til vinnu,
          nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, og
          nr. 182, um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd.

b. Undirbúningur fyrir og þátttaka í Alþjóðavinnumálaþinginu.


94. Alþjóðavinnumálaþingið.


    Á því tímabili sem þessi skýrsla tekur til var boðað til tveggja Alþjóðavinnumálaþinga. Dagana 6. til 23. febrúar 2006 var 94. Alþjóðavinnumálaþingið haldið. Alls sendu 106 af 178 aðildarríkjum ILO fulltrúa til þingsins. Samtals tóku 1.135 fulltrúar þátt í þinginu. Af hálfu Íslands tóku þátt í þinginu Jón H. Magnússon sem fulltrúi útgerðarmanna og Ægir Steinn Sveinþórsson var fulltrúi skipverja. Sverrir Konráðsson, Siglingastofnun Íslands, og Gylfi Kristinsson, félagsmálaráðuneyti, tóku þátt í þinginu af hálfu stjórnvalda. Þinginu lauk með afgreiðslu nýrrar alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði skipverja. Samþykktin verður ein fjögurra grundvallarsamþykkta sem fjalla um málefni á sviði siglinga. Hinar þrjár eru samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um menntun, þjálfun, vaktstöður og skírteini sjómanna (STCW), um öryggi mannslífa á höfunum (SOLAS) og um varnir gegn mengun hafsins (MARPOL).
    Alþjóðasamþykktin um vinnuskilyrði skipverja hefur að geyma ákvæði um lágmarksréttindi að því er varðar aldur skipverja, vinnutíma, hvíldartíma, aðbúnað, fæði, vistarverur og hollustuhætti um borð í skipum öðrum en fiskiskipum. Ítarleg ákvæði eru um skyldur fánaríkja og hafnarríkja hvað varðar skoðun og eftirlit með starfsskilyrðum og lífskjörum skipverja um borð. Unnið hefur verið að smíði alþjóðasamþykktarinnar í tæp fimm ár. Drög að henni hafa verið til umfjöllunar á fjölmörgum undirbúningsfundum. Samþykktinni er ætlað að leysa af hólmi 68 alþjóðasamþykktir um málefni skipverja sem hafa verið afgreiddar á Alþjóðavinnumálaþingum. Sú elsta er frá árinu 1920. Þótt Alþjóðavinnumálaþingið hafi afgreitt samþykktina einróma gengur hún ekki í gildi fyrr en 30 aðildarríki, sem samanlagt hafa 33 af hundraði skipaflota heims miðað við brúttótonnatölu, hafa fullgilt hana.
    Með samþykktinni fer Alþjóðavinnumálastofnunin inn á nýjar brautir að því er varðar framsetningu alþjóðlegra reglna á sviði vinnuréttar og vinnuverndar. Í fyrsta skipti er að finna í sömu samþykktinni skuldbindandi ákvæði auk reglna sem eru leiðbeinandi fyrir aðildarríki. Samþykktin er birt í skýrslu félagsmálaráðherra um 93. og 94. Alþjóðavinnumálaþingið sem var lögð fyrir Alþingi í nóvember 2006. Samráð var haft við ILO-nefndina við samningu skýrslunnar.

95. Alþjóðavinnumálaþingið.


    Á fundum ILO-nefndarinnar fyrri hluta árs 2006 var farið yfir og fjallað um skjöl sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings 95. Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var dagana 31. maí til 16. júní 2006. Á fyrsta fundi eftir Alþjóðavinnumálaþingið fór nefndin yfir helstu niðurstöður þess. Eftirfarandi kom fram á fundi nefndarinnar:

Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta.


    Nokkrar umbætur voru gerðar á starfi þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Mikilvæg breyting fólst í því að aðildarríkjunum var send nokkru fyrir þingsetningu skrá yfir 41 mál sem líklegt væri að tekin yrðu til umfjöllunar í þingnefndinni. Þannig var hlutaðeigandi aðildarríkjunum gefið færi á að undirbúa umræður um mál sem þau vörðuðu áður en haldið var til þings. Af þessu leiddi að hægt var að hefja fyrr umræður í þingnefndinni mál sem snertu einstök aðildarríki. Rædd voru 25 mál. Þótt umræður um mál einstakra ríkja hafi byrjað fyrr varð niðurstaðan engu að síður sú að nefndin þurfti að halda kvöldfund föstudaginn 9. júní og á laugardeginum 10. júní. Það er einnig ljóst að fulltrúar launafólks hafa skipulagt betur þátttöku sína í umræðum í nefndinni. Ræðurnar eru færri og gagnorðari. Af þessu leiðir mikill tímasparnaður. Þrátt fyrir þetta er ljóst að hægt er að gera betur, til dæmis með því að byrja fundi stundvíslega á auglýstum fundartíma.
    Töluverða athygli vakti þríhliða samkomulag á milli ríkisstjórnar Kólumbíu og samtaka atvinnurekenda og launafólks sem gert var á þinginu um umbætur varðandi framkvæmd samþykkta nr. 87 og 98. Samkomulagið varð til þess að málið kom ekki til umfjöllunar í þingnefndinni. Málefni Burma, Hvíta-Rússlands, Venesúela og Bangladess voru alvarleg og kölluðu á umfangsmiklar og tímafrekar umræður.

Þingnefnd um rammasamþykkt um vinnuvernd.


    Þingið afgreiddi rammasamþykkt og tilmæli um vinnuvernd. Markmið samþykktarinnar er að hvetja aðildarríkin til að móta stefnu í vinnuvernd og til að setja áætlun á landsvísu um aðgerðir á sviði vinnuverndar sem miði að því að koma í veg fyrir vinnuslys og atvinnusjúkdóma. Í tilmælunum er mælt með því að aðildarríkin taki saman hagtölu um fjármuni sem varið er til vinnuverndarstarfsins auk talna um vinnuslys og atvinnutengda sjúkdóma. Í umræðum kom fram að á ári hverju deyja um 2,2 milljónir launamanna vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma. Talsmaður atvinnurekenda lét í ljós þá skoðun að aðildarríki ættu auðveldlega að geta fullgilt samþykktina og kvaðst vonast til þess að innan fimm ára hafi hún verið fullgilt af meira en 100 aðildarríkjum. Við lok starfs þingnefndarinnar urðu margir til þess að óska Jukka Takala, skrifstofustjóra vinnuverndarskrifstofu ILO, fyrir samstarfið á liðnum árum. Hann lét af störfum á alþjóðavinnumálaskrifstofunni í árslok 2006 og tók við starfi forstjóra Vinnuverndarstofnunar Evrópusambandsins í Bilbao.

Nefnd um ráðningarsamband.


    Skiptar skoðanir voru á tillögu að tilmælum um ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns. Nokkuð góð samstaða var um fyrstu greinar tilmælanna. Fulltrúar atvinnurekenda voru ánægðir með efni 8. gr. tilmælanna og töldu hana í raun fullnægjandi. Hins vegar voru þeir mjög gagnrýnir á ákvæði 11. og 13. gr. þeirra, einkum þau atriði sem gera ráð fyrir að ríkisstjórnir geti gengið út frá því að ráðningarsamband hafi skapast við tilteknar aðstæður. Í seinni greininni er gert ráð fyrir að lagðar séu til grundvallar ákveðnar breytur (e. indicators) þegar lagt er á það mat hvort stofnast hafi ráðningarsamband. Fulltrúar atvinnurekanda voru andvígir orðalagi sem felur í sér að hægt sé að „ganga út frá“ eða „meta“ að hlutir sé með tilteknum hætti. Ganga þurfi út frá staðreyndum. Fram kom hjá formanni að á fundi stjórnarnefndar ILO sem haldinn var 16. júní hafi komið fram gagnrýni af hálfu talsmanns atvinnurekenda á viðbrögð við niðurstöðunni úr atkvæðagreiðslunni um tilmælin. Fagnaðarlætin hafi farið verulega fram úr því sem eðlilegt mætti teljast. Þau hafi ekki verið þríhliðasamstarfinu til framdráttar.

Nefnd um tækniaðstoð.


    Íslenskur þingfulltrúi sat ekki í nefnd um tækniaðstoð ILO. Hins vegar kom fram á þinginu að nefndarstarfið hafi gengið vel. Ánægja hafi verið með þær breytingar sem hafa orðið á áherslum varðandi tækniaðstoðina og fram kom að árangur hafi verið sérstaklega góður í þeim ríkjum þar hægt hefur verið að byggja á þríhliða samstarfi.

Fjárhagsnefnd.


    Starf fjárhagsnefndar var rólegt að þessu sinni enda mitt fjárhagstímabil. Fyrir nefndinni lá tillaga um að heimila Aserbaídsjan að greiða atkvæði þrátt fyrir skuld. Nefndin afgreiddi tillögu um skiptingu rekstrarkostnaðar á milli aðildarríkjanna. Bandaríkin og Japan greiða sem fyrr stærsta hlutann. Hlutur Íslands er óbreyttur eða 0,034%.

96. Alþjóðavinnumálaþingið í júní 2007.


    Á seinni hluta árs 2006 voru dagskrármál 96. Alþjóðavinnumálaþingsins til umræðu hjá ILO-nefndinni. Á þinginu verður gerð önnur atrenna að því að ná samstöðu um alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði um borð í fiskiskipum. Tillaga að alþjóðasamþykkt um þetta efni náði ekki fram að ganga á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu 2005. Nefndin fjallaði um svör við spurningaskrá frá alþjóðavinnumálaskrifstofunni um endurskoðuð drög að samþykkt um vinnuskilyrði fiskimanna.

c. Kynningarfundir.
Kynningarfundur um alþjóðasamþykkt ILO nr. 185,
um persónuskírteini skipverja.

    Þann 10. apríl 2006 stóð ILO-nefndin fyrir kynningarfundi á efni samþykktar nr. 185, um persónuskírteini skipverja. Helstu hagsmunaaðilum var boðið að senda fulltrúa á fundinn. Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag skipstjórnarmanna, Sjómanna- og fiskimannasamband Íslands þáðu boðið og sendu fulltrúa til fundarins. Að auki sátu hann fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar.
    Á fundinum var farið yfir aðdragandann að því að Alþjóðavinnumálastofnunin afgreiddi samþykktina. Fram kom að eftir 11. september 2001 hafi fjölmörg ríki hert reglur um gerð vegabréfa og annarra persónuskírteina. Fremst í þessum hópi séu Bandaríkin. Af þessu hafi leitt að veruleg fjölgun hefur orðið á tilvikum þar sem gildi persónuskírteina skipverja sé dregið í efa með tilheyrandi vandamálum fyrir handhafa skírteinanna. Það sé mikið hagsmunamál fyrir skipverja að í gildi séu alþjóðlegar kröfur um gerð persónuskírteina sem njóta viðurkenningar og er tekið mark á.
    Á kynningarfundinum kom fram að Alþjóðavinnumálastofnunin hafi brugðist hart við þessum breyttu aðstæðum og ákveðið að endurskoða hið snarasta ILO-samþykkt nr. 108, um persónuskírteini sjómanna, sem Íslands meðal annars hefur fullgilt. Endurskoðunin hafi skilaði mjög ítarlegri alþjóðasamþykkt nr. 185 sem var afgreidd á 91. Alþjóðavinnumálaþinginu 2002. Fram kom að alþjóðavinnumálaskrifstofan í Genf hafi á margvíslegan hátt reynt að greiða fyrir og aðstoða aðildarríki við að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktarinnar, en ljóst er að það er kostnaðarsamt að uppfylla þær kröfur sem hún gerir til útgáfu og eftirlits með skírteinunum. Þar af leiðandi hafi verið lögð áhersla á að aðildarríki taki sig saman og hafi samflot í samningaviðræðum við fyrirtæki sem hafa getu til að framleiða skírteini sem uppfylla kröfur samþykktarinnar.
    Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins upplýsti á kynningarfundinum að í undirbúningi væri að hefja á Íslandi útgáfu persónugerðra skírteina. Ekki aðeins vegabréfa heldur einnig nafnskírteina, ökuskírteina og annarra skírteina þar sem handhafi þarf að sanna hver hann sé. Einnig er verið að koma upp upplýsingakerfi sem hefur að geyma upplýsingar um skírteinaútgáfuna. Loks er verið að gera sýsluskrifstofum og sendiráðum kleift að taka á móti umsóknum og nauðsynlegum fylgigögnum sem eru grundvöllur útgáfu skírteinanna. Tæknilega séð verði ekki vandamál að uppfylla kröfur sem gerðar eru í tilskipun ILO nr. 185, um persónuskírteini skipverja.
    Á fundinum var skipst var á skoðunum um þörfina á sérstökum persónuskírteinum fyrir skipverja. Í augnablikinu virðist hún ekki vera mjög knýjandi en ljóst er að mörg ríki eru að undirbúa útgáfu skírteina í samræmi við kröfur ILO-samþykktarinnar. Ef og þegar þau skírteini verða algeng getur það skapað íslenskum skipverjum vandamál að hafa ekki slík skírteini undir höndum. Það getur skapað útgerðum umtalsverð útgjöld ef skip verður fyrir töfum vegna þess að skipverjar geta ekki framvísað skírteinum sem hlutaðeigandi stjórnvöld taka gild. Slíkar aðstæður geta til dæmis komið upp við veikindi eða slys sem veldur því að skip verður að óvænt leita hafnar í erlendu ríki. Þess skal getið að samgönguráðuneytið og Siglingastofnun eru að fara yfir þetta málefni.

Kynningarfundur um alþjóðasamþykkt ILO nr. 186, vinnuskilyrði farmanna.


    Þann 30. nóvember 2006 stóð ILO-nefndin fyrir öðrum kynningarfundi með hagsmunaaðilum. Á fundinum var farið yfir efni samþykktar nr. 186, um vinnuskilyrði farmanna, sem var afgreidd af 94. Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í febrúar 2006. Við yfirferðina var stuðst við skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um 93. og 94. Alþjóðavinnumálaþingið sem kom út skömmu áður en fundurinn var haldinn. Farmannasamþykktin er birt í íslenskri þýðingu sem fylgiskjal með skýrslunni.
    Fram kom að markmið samþykktarinnar er að taka mið af breytingum sem hafa átt sér stað í útgerð og alþjóðavæðingu efnahags- og atvinnulífs. Samþykktin leysir af hólmi 68 eldri gerðir sem Alþjóðavinnumálaþingið hefur afgreitt frá árinu 1920. Vakin var athygli á sérstöðu samþykktarinnar sem felst í því hún skiptist í aðfararorð og í þrjá ólíka en þó innbyrðis tengda hluta: Efnisgreinar, reglur og kóða. Hann samanstendur af skuldbindandi (A) viðmiðunum og (B) leiðbeiningarreglum. Ríki sem fullgildir samþykktina er skuldbundið af ákvæðum í efnisgreinunum, reglum og A-hluta kóðanna, þ.e. af viðmiðunum. Einu skuldbindingarnar sem aðildarríki ber samkvæmt leiðbeiningarreglunum er að kanna að hvaða marki það vill eða treystir sér til að fara eftir þeim við framkvæmd á ákvæðum í efnisgreinum, reglum og viðmiðununum. Reglur og kóða er að finna í fimm köflum: 1. kafli. Lágmarkskröfur sem sjómenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum. 2. kafli: Skilyrði fyrir ráðningu. 3. kafli: Vistarverur, tómstundaaðstaða, matur og veitingarekstur. 4. kafli: Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og almannatryggingar. 5. kafli: Fullnæging formskilyrða og framfylgd.
    Á kynningarfundinum var skipst á skoðunum um það hvort einhver atriði í samþykktinni stangist á við ákvæði í lögum og reglugerðum á Íslandi. Fram kom að lágmarksaldur til ráðningar á kaupskip eru 15 ár en í samþykktinni er gert ráð fyrir 16 ára lágmarksaldri. Einnig var rætt um ákvæði um útgáfu læknisvottorða fyrir sjómenn. Aðstæður á Íslandi hafa ekki verið í samræmi við ákvæði samþykktarinnar. Á fundinum var upplýst að á þessu er að verða breyting í þá átt sem samþykktin gerir ráð fyrir.
    Rætt var um hafnarríkiseftirlit og hvort einhver atriði snerti verksvið dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Fundarmönnum virtist við almenna yfirferð efni samþykktarinnar heyra að öllu leyti undir samgönguráðuneytið.
    Farið var yfir ákvæði samþykktarinnar um gildistöku og fullgildingu. Í nýju samþykktinni er miðað við fullgildingar 30 aðildarríkja og að undir þeirra fána sigli skip sem svari fyrir 33% af brúttótonnatölu í heiminum. Fulltrúi Alþýðusambands Íslands hvatti til þess að samþykktin verði fullgilt sem fyrst. Fram kom að félagsmálaráðuneytið hefur sent hana nokkrum stofnunum og félagasamtökum með ósk um umsögn um það hvort íslensk stjórnvöld eigi að fullgilda samþykktina. Alþýðusamband Íslands hefur sent umsögn og mælt með umsögn. Félagsmálaráðuneytið mun senda samgönguráðuneytinu afrit af umsögn Alþýðusambands Íslands. Það sjónarmið kom fram að rétt væri að bíða eftir fullgildingum fleiri þjóða áður en Ísland hugsi sér til hreyfings.
    Á fundinum var tillögu dreift sem liggur fyrir Evrópuþinginu um að beina því til aðildarríkja Evrópusambandsins að fullgilda samþykktina fyrir 31. desember 2008. Á þinginu er komin fram breytingartillaga um að aðildarríki Evrópusambandsins fullgildi hana fyrir 31. desember 2010. Þess er vænst að tillagan verði afgreidd á Evrópuþinginu í kringum áramótin og verður í framhaldi af því send ráðherraráðinu til endanlegrar afgreiðslu.
    Í tengslum við umræður um umfjöllun um faramannasamþykktina á vettvangi Evrópusambandsins kom fram að þær á bæ er verið að ræða efni nýrrar grænbókar sem framkvæmdastjórnin hefur látið frá sér fara. Í þessari nýju grænbók eru settar fram hugmyndir um umbætur á regluverki sem lítur að öllum þáttum siglinga og sjómennsku.
    Fram komu áhyggjur hjá fundarmönnum yfir slæmri stöðu kaupskipaútgerðar á Íslandi. Um þessar mundir er ekkert kaupskip sem siglir undir íslenskum fána. Bent var á að sama staða var á Írlandi fyrir nokkrum árum. Þar tóku hagsmunaaðilar höndum saman um að breyta ástandinu og hafa náð góðum árangri við að reisa við írska kaupskipaflotann. Margir fundarmenn tóku undir þá skoðun að frumkvæði Íra á þessu sviði væri til eftirbreytni og leita þurfi leiða til að hefja íslenska kaupskipaútgerð á ný til vegs og virðingar. Einnig kom fram að hagsmunaaðilar hafi á undanförnum árum ályktað um þessi mál og sent stjórnvöldum áskoranir um aðgerðir til efla íslenska kaupskipaútgerð en árangur hefur orðið rýr til þessa.

d. Fullgilding alþjóðasamþykkta.
Alþjóðasamþykkt nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

    Að ósk Alþýðusambands Íslands hóf nefndin í nóvember 2004 umfjöllun um hugsanlega fullgildingu alþjóðasamþykktar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Nefndin hafði árið 1994 tekið til umræðu spurninguna um fullgildingu samþykktarinnar. Við það tækifæri tókst ekki samstaða um að mæla með því að samþykktin yrði fullgilt. Árið 2005 fjallaði nefndin ítarlega um þetta málefni. Niðurstaðan varð sú að ekki tókst frekar en árið 1994 að ná samstöðu um að mæla með fullgildingu samþykktarinnar. Félagsmálaráðherra var gerð grein fyrir afstöðu heildarsamtakanna í sérstöku minnisblaði, dagsettu 18. október 2005. Í niðurlagi minnisblaðsins er afstaða heildarsamtakanna dregin saman. Þar kemur fram að Alþýðusamband Íslands telur málið fyrst og fremst snúast um rétt starfsmanna til að fá upplýsingar um ástæður uppsagnar og hvort þær byggi á málefnalegum ástæðum. Það fjalli ekki um rétt atvinnurekanda til að segja upp starfsmanni. Fullgilding hafi því hverfandi áhrif á sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusamband Íslands leggur til að ILO-samþykkt nr. 158 verði fullgilt og kallar eftir afstöðu stjórnvalda til þess. Samtök atvinnulífsins eru öndverðrar skoðunar. Samtök atvinnulífsins telja að samþykkt ILO nr. 158 feli í sér bann við uppsögnum af hálfu atvinnurekenda nema að hann geti sýnt fram á að ástæða uppsagnarinnar sé samdráttur í rekstri eða að fyrir þeim séu gildar ástæður sem varða hæfni eða háttsemi starfsmannsins. Fullgilding drægi því verulega úr sveigjanleika í íslensku atvinnulífi og viðbragðsflýti og snerpu fyrirtækja. Vilji fyrirtækja til nýráðningar yrði einnig minni. Samtök atvinnulífsins væru þar af leiðandi andvíg fullgildingu samþykktarinnar.
    Félagsmálaráðuneytið brást við framangreindri niðurstöðu með því að fela Rannsóknarsetri í vinnurétti og jafnréttismálum við Háskólann á Bifröst með bréfi, dagsettu 5. maí 2006, að semja tillögu að leiðbeiningarreglum varðandi uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Óskað var eftir því að tillagan bærist félagsmálaráðuneytinu fyrir lok árs 2006. Þegar tillagan að leiðbeiningarreglum liggur fyrir verður hún lögð fyrir ILO-nefndina. Markmið er að sátt geti tekist með aðilum vinnumarkaðarins hér á landi um að leiðbeiningarreglurnar verði viðmið þegar þær aðstæður skapast að nauðsynlegt kann að vera segja starfsmönnum upp störfum. Samtök atvinnulífsins gerðu alvarlega athugasemd við þessa málsmeðferð.

Alþjóðasamþykktir nr. 81 og 129, um vinnuvernd.


    Í skýrslu um starf ILO-nefndarinnar árið 2005 kom fram að nefndin hafi rætt um fullgildingu á alþjóðasamþykktum nr. 81 og 129, um vinnuvernd, í tengslum við samantekt á skýrslu um framkvæmd samþykktanna sem alþjóðavinnumálaskrifstofan óskaði eftir á grundvelli 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Fram kom að leitað hafði verið umsagnar Vinnueftirlits ríkisins um fullgildingu samþykktanna. Í bréfi Vinnueftirlitsins frá 25. nóvember 2005 kemur fram að aðstæður á Íslandi séu að flestu leyti í samræmi við ákvæði samþykktarinnar að undanskildu einu atriði. Í 3. gr. samþykktar nr. 81 og 6. gr. samþykktar nr. 129 er tekið fram að meðal verkefna vinnueftirlits sé að hafa eftirlit með því að laun séu greidd í samræmi við samninga. Á Íslandi er þetta verkefni í höndum samtaka launafólks en ekki Vinnueftirlits ríkisins. Niðurstaða ILO-nefndarinnar varð sú að samþykkja að leita nánari skýringar starfsmanna alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf á umræddum ákvæðum. Það var gert á fundi sem nefndin átti 1. júní 2006 með starfsmönnum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf.
    Á fundinum var farið yfir ákvæði samþykktar nr. 81, einkum túlkun á ákvæðum í 1. mgr. 3. gr. varðandi eftirlit vinnueftirlits með greiðslu launa. Niðurstaða fundarins varð sú að ákveðið var að félagsmálaráðuneytið sendi alþjóðavinnumálaskrifstofunni bréf þar sem óskað er eftir túlkun skrifstofunnar á framangreindu ákvæði. Bréfið var sent alþjóðavinnumálaskrifstofunni 16. október 2006. Svar hafði ekki borist í febrúar 2007.

e. Skýrsla félagsmálaráðherra um Alþjóðavinnumálaþingið í Genf.


    Aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni fylgir sú skylda að kynna löggjafarsamkomu þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingin afgreiða. Á Íslandi er þetta ákvæði uppfyllt með þeim hætti að félagsmálaráðherra gefur Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin. Í skýrslunum eru birtar í íslenskri þýðingu þær samþykktir, tilmæli og ályktanir sem þingin afgreiða. Árið 2006 var haft samráð við ILO-nefndina um skýrslu félagsmálaráðherra um 93. og 94. Alþjóðavinnumálaþingið. Hið fyrra var haldið í júní 2005 og hið síðara í febrúar 2006. Í skýrslunni er birt samþykkt nr. 186, um vinnuskilyrði farmanna, sem getið er um hér að framan.


Fylgiskjal V.


Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu 1945–2006.


    Samkvæmt 3. gr. 1. tölul. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skal allsherjarþing fulltrúa aðildarríkjanna koma saman til fundar þegar þörf krefur, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Tekið er fram að þar eigi sæti fjórir fulltrúar frá hverju ríki. Tveir skulu vera fulltrúar hlutaðeigandi ríkisstjórnar og annar hinna tveggja fulltrúi atvinnurekenda en hinn fulltrúi launafólks. Hin síðari ár hefur Alþjóðavinnumálaþingið undantekningarlaust komið saman í Genf í Sviss. Þingið stóð í u.þ.b. þrjár vikur. Frá og með 81. þinginu árið 1994 var formlegur hluti þingsins styttur um fimm daga. Þess í stað hefur einum til tveimur dögum fyrir þingsetningu verið varið til óformlegra undirbúningsfunda. Á nokkurra ára fresti eru haldin aukaþing sem hafa verið helguð málefnum skipverja.
    Í 3. gr. 2. tölul. stofnskrárinnar kemur fram að hver fulltrúi getur haft með sér ráðgjafa en þeir mega ekki vera fleiri en tveir um hvert málefni sem er á dagskrá þingsins. Með fullgildingu stofnskrárinnar skuldbindur aðildarríki sig til þess að skipa fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í sendinefnd til þátttöku í Alþjóðavinnumálaþinginu í samráði við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks, sbr. 3. gr. 5. tölul. Við skipun fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í sendinefnd Íslands hefur frá upphafi verið haft samráð við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Vinnuveitendasamband Íslands en frá árinu 2001 Samtök atvinnulífsins (SA). Embættismenn úr félagsmálaráðuneyti (félmrn.), samgönguráðuneyti (samgrn.) og utanríkisráðuneyti (utanrrn.) hafa verið fulltrúar ríkisstjórnarinnar í nefndinni.
    Hér fer skrá yfir þátttöku af hálfu Íslands í Alþjóðavinnumálaþinginu. Skráin hefst árið 1945 þegar aðild Íslands að Alþjóðavinnumálastofnuninni var samþykkt á 27. þinginu í París og lýkur með upptalningu á þingfulltrúum sem sóttu 95. þingið 2006. Bent skal á að þótt hér sé um að ræða tæmandi skrá yfir íslenska þingfulltrúa gildir ekki það sama um félagsmálaráðherra. Einungis er getið þeirra ráðherra sem hafa sent fulltrúa til þingsins. Rétt er einnig að benda á að árið 1970 var stofnuð fastanefnd Íslands í Genf. Þeir fulltrúar utanríkisráðuneytisins sem hafa sótt þingið frá þeim tíma hafa í öllum tilvikum verið starfsmenn fastanefndarinnar. Loks er rétt að vekja athygli á því að nokkur undanfarin ár hafa fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skipt með sér þátttöku í þinginu þannig að varamaður hefur leyst aðalmann af hólmi þegar u.þ.b. helmingur þingtímans hefur verið liðinn.

Félagsmálaráðherra:     Alþjóðavinnumálaþing:     Fulltrúar:

Finnur Jónsson     27. þing, París 1945     Þórhallur Ásgeirsson (utanrrn.)
félagsmálaráðherra     29. þing, Montreal 1946     Thor Thors (utanrrn.)
17. sept. 1946–         Þórhallur Ásgeirsson (utanrrn.)
4. febrúar 1947         Kjartan Thors (VSÍ)
                        Pétur G. Guðmundsson (ASÍ)

Stefán Jóh. Stefánsson     30. þing, Genf 1947     Finnur Jónsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jónas Guðmundsson (félmrn.)
1947–1949          Benedikt Gröndal (VSÍ)
                        Björn Bjarnason (ASÍ)
                   31. þing, San Francisco     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
                   1948     Jón S. Ólafsson (félmrn.)

Ólafur Thors     32. þing, Genf 1949     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1949–1950          Sigurður Jónsson (VSÍ)
                        Magnús Ástmarsson (ASÍ)

Steingrímur Steinþórss.    33. þing, Genf 1950     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1950–1956     35. þing, Genf 1952     Jónas Guðmundsson (félmrn.)
                        Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                        Kjartan Thors (VSÍ)
                        Magnús Ástmarsson (ASÍ)
                   38. þing, Genf 1955     Hjálmar Vilhjálmsson (félmrn.)
                        Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                        Eyjólfur Jóhannsson (VSÍ)
                        Eðvarð Sigurðsson (ASÍ)

Hannibal Valdimarsson     40. þing, Genf 1957     Hannibal Valdimarsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1956–1958          Kjartan Thors (VSÍ)
                        Eðvarð Sigurðsson (ASÍ)

Eggert G. Þorsteinsson     50. þing, Genf 1966     Eggert G. Þorsteinsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1965–1970          Kjartan Thors (VSÍ)
                        Björgvin Sigurðsson (VSÍ)
                        Hannibal Valdimarsson (ASÍ)
                        Snorri Jónsson (ASÍ)

Hannibal Valdimarsson     57. þing, Genf 1972     Hannibal Valdimarsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1971–1973          Einar Benediktsson (utanrrn.)
                        Kristján Ragnarsson (VSÍ)
                        Snorri Jónsson (ASÍ)

Björn Jónsson     59. þing, Genf 1974     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Einar Benediktsson (utanrrn.)
1973–1974          Ólafur Jónsson (VSÍ)
                        Snorri Jónsson (ASÍ)

Gunnar Thoroddsen     63. þing, Genf 1977     Gunnar Thoroddsen (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1974––1978          Kornelíus Sigmundsson (utanrrn.)

Magnús H. Magnússon     64. þing, Genf 1978     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Haraldur Kröyer (utanrrn.)
1978–1980          Jón H. Bergs (VSÍ)
                        Snorri Jónsson (ASÍ)
                        Ásmundur Stefánsson (ASÍ)
                   65. þing, Genf 1979     Haraldur Kröyer (utanrrn.)
                        Tómas Karlsson (utanrrn.)
                   66. þing, Genf 1980     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                        Tómas Karlsson (utanrrn.)

Svavar Gestsson     67. þing, Genf 1981     Svavar Gestsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Jón S. Ólafsson (félmrn.)
1980–1983          Hannes Jónsson (utanrrn.)
                        Skúli Jónsson (VSÍ)
                        Kristín Mäntilä (ASÍ)
                   68. þing, Genf 1982     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                        Hannes Jónsson (utanrrn.)
                        Kristín Mäntilä (ASÍ)
                   69. þing, Genf 1983     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
                        Hannes Jónsson (utanrrn.)
                        Magnús Gunnarsson (VSÍ)
                        Björn Björnsson (ASÍ)

Alexander Stefánsson     70. þing, Genf 1984     Jón S. Ólafsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hannes Hafstein (utanrrn.)
1983–1987          Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                        Lára V. Júlíusdóttir (ASÍ)
                   71. þing, Genf 1985     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Hannes Hafstein (utanrrn.)
                        Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                        Lára V. Júlíusdóttir (ASÍ)
                   72. þing, Genf 1986     Alexander Stefánsson (félmrn.)
                        Hallgrímur Dalberg (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Hannes Hafstein (utanrrn.)
                        Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
                   73. þing, Genf 1987     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Kristinn Árnason (utanrrn.)
                        Kristján Þorbergsson (VSÍ)
                        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)

Jóhanna Sigurðardóttir     75. þing, Genf 1988     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hallgrímur Dalberg (félmrn.)
1987–1994          Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Sverrir Haukur Gunnlaugsson (utanrrn.)
                        Kristinn Árnason (utanrrn.)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
                   76. þing, Genf 1989     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                        Sverrir Haukur Gunnlaugsson (utanrrn.)
                        Kristinn Árnason (utanrrn.)
                        Bjarnveig Eiríksdóttir (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ásmundur Stefánsson (ASÍ)
                        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
                   77. þing, Genf 1990     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                        Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                        Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                        Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
                        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
                   78. þing, Genf 1991     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                        Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                        Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Guðmundur J. Guðmundsson (ASÍ)
                        Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
                   79. þing, Genf 1992     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                        Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                        Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                        Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                        Margrét Viðar (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Þráinn Hallgrímsson (ASÍ)
                        Þórunn Sveinbjörnsdóttir (ASÍ)
                   80. þing, Genf 1993     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                        Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                        Lilja Ólafsdóttir (utanrrn.)
                        Stefán Jóhannesson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Benedikt Davíðsson (ASÍ)
                        Bryndís Hlöðversdóttir (ASÍ)
                   81. þing, Genf 1994     Jóhanna Sigurðardóttir (félmrn.)
                        Berglind Ásgeirsdóttir (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Kjartan Jóhannsson (utanrrn.)
                        Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Bryndís Hlöðversdóttir (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)

Páll Pétursson     82. þing, Genf 1995     Páll Pétursson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Gylfi Kristinsson (félmrn.)
1995–2003          Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                        Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)
                   83. þing, Genf 1995     Jósef H. Þorgeirsson (samgrn.)
                        Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                        Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Borgþór S. Kjærnested (ASÍ)
                   84. þing, Genf 1996     Páll Pétursson (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                        Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)
                   85. þing, Genf 1997     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Gunnar Snorri Gunnarsson (utanrrn.)
                        Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)
                   86. þing, Genf 1998     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Benedikt Jónsson (utanrrn.)
                        Guðmundur B. Helgason (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)
                   87. þing, Genf 1999     Elín Blöndal (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Benedikt Jónsson (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Þórður Yngvi Guðmundsson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)
                   88. þing, Genf 2000     Elín Blöndal (félmrn.)
                        Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Benedikt Jónsson (utanrrn.)
                        Haukur Ólafsson (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (VSÍ)
                        Jón H. Magnússon (VSÍ)
                        Ástráður Haraldsson (ASÍ)
                        Hervar Gunnarsson (ASÍ)
                   89. þing, Genf 2001     Páll Pétursson (félmrn.)
                        Berglind Ásgeirsdóttir (félmrn.)
                        Hanna Sigríður Gunnsteinsd. (félmrn.)
                        Benedikt Jónsson (utanrrn.)
                        Ingibjörg Davíðsdóttir (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (SA)
                        Jón H. Magnússon (SA)
                        Magnús Norðdahl (ASÍ)
                   90. þing, Genf 2002     Berglind Ásgeirsdóttir (félmrn.)
                        Hanna Sigríður Gunnsteinsd. (félmrn.)
                        Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                        Stefán Haukur Jóhannesson (utanrrn.)
                        Ingibjörg Davíðsdóttir (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (SA)
                        Jón H. Magnússon (SA)
                        Magnús Norðdahl (ASÍ)
                        Kristján Bragason (ASÍ)

Árni Magnússon     91. þing, Genf 2003     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Hanna Sigríður Gunnsteinsd. (félmrn.)
2003 – 7. mars 2006          Stefán Haukur Jóhannesson (utanrrn.)
                        Ingibjörg Davíðsdóttir (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (SA)
                        Ari Edwald (SA)
                        Jón H. Magnússon (SA)
                        Magnús Norðdahl (ASÍ)
                        Ásdís Guðmundsdóttir (ASÍ)
                   92. þing, Genf 2004     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Hanna Sigríður Gunnsteinsd. (félmrn.)
                        Stefán Haukur Jóhannesson (utanrrn.)
                        Ingibjörg Davíðsdóttir (utanrrn.)
                        Hlynur Skúli Auðunsson (samgrn.)
                        Vilhjálmur Egilsson (sjútvrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (SA)
                        Jón H. Magnússon (SA)
                        Magnús Norðdahl (ASÍ)
                        Pálmi Finnbogason (ASÍ)
                        Sævar Gunnarsson (ASÍ)
                   93. þing, Genf 2005     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
                        Sverrir Konráðsson (samgrn.)
                        Stefán Haukur Jóhannesson (utanrrn.)
                        Ingibjörg Davíðsdóttir (utanrrn.)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (SA)
                        Jón H. Magnússon (SA)
                        Magnús Norðdahl (ASÍ)
                        Sævar Gunnarsson (ASÍ)
                        Ísleifur Tómasson (ASÍ)
                   94. þing, Genf 2006     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
                        Sverrir Konráðsson (samgrn.)
                        Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                        Einar Gunnarsson (utanrrn.)
                        Ægir Steinn Sveinþórsson (ASÍ)

Jón Kristjánsson     95. þing, Genf 2006     Gylfi Kristinsson (félmrn.)
félagsmálaráðherra          Eyjólfur Sæmundsson (félmrn.)
7. mars – 15. júní 2006          Kristinn F. Árnason (utanrrn.)
                        Einar Gunnarsson (utanrrn.)
                        Anna Jóhannsdóttir (utanrrn).
                        Edda Magnus (utanrrn)
                        Hrafnhildur Stefánsdóttir (SA)
                        Jón H. Magnússon (SA)
                        Magnús Norðdahl (ASÍ)
                        Sigurður Magnússon (ASÍ)



Fylgiskjal VI.


Samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins 1919–2006.


    Hér á eftir fer skrá yfir alþjóðasamþykktir sem hafa verið afgreiddar á Alþjóðavinnumálaþinginu 1919–2006. Athygli er vakin á athugasemdum aftanmáls við nokkrar af samþykktunum. Fjöldi fullgildinga kemur fram í seinni sviganum.
Nr.          Heiti samþykktar:
     1.          Samþykkt um takmörkun á vinnutíma í iðnaði við 8 stundir á dag og 48 stundir á viku (1919) (52).
     2.          Samþykkt um ráðstafanir gegn atvinnuleysi (1919) 2 (55).
     3.          Samþykkt um vinnu kvenna fyrir og eftir barnsburð (1919) 2 (33).
     4.          Samþykkt um næturvinnu kvenna (1919) 2 (58).
     5.          Samþykkt um ákvörðun lágmarksaldurs barna við iðnaðarstörf (1919) 2 (72).
     6.          Samþykkt um næturvinnu unglinga í iðnaði (1919) 2 (59).
     7.          Samþykkt um ákvörðun lágmarksaldurs barna við sjómennsku (1920) 2 (53).
     8.          Samþykkt um bætur fyrir vinnutjón af völdum skipbrots (1920) (59).
     9.          Samþykkt um ráðningu sjómanna í skiprúm (1920) (40).
     10.          Samþykkt um lágmarksaldur barna við landbúnaðarstörf (1921) 2 (55).
     11.          Samþykkt um rétt landbúnaðarfólks til að bindast samtökum og stofna félög (1921) (121).
     12.          Samþykkt um slysatryggingar landbúnaðarverkafólks (1921) 2 (76).
     13.          Samþykkt um notkun blýhvítu í málningu (1921) (62).
     14.          Samþykkt um vikulega hvíldardaga í iðnaði (1921) (117).
     15.          Samþykkt um ákvörðun lágmarksaldurs unglinga við kyndara- og kolamokarastörf (1921) 2 (69).
     16.          Samþykkt um skylduskoðun læknis á börnum og unglingum við sjómennsku (1921) (81).
     17.          Samþykkt um slysatryggingu verkamanna (1925) 2 (73).
     18.          Samþykkt um bætur til verkamanna vegna atvinnusjúkdóma (1925)2 (67).
     19.          Samþykkt um jafnan rétt innlendra og erlendra verkamanna til slysabóta (1925) (120).
     20.          Samþykkt um næturvinnu í brauðgerðarhúsum (1925) (17).
     21.          Samþykkt um að gera einfaldara eftirlitið með útflytjendum um borð í skipum (1926) (33).
     22.          Samþykkt um skiprúmssamninga sjómanna (1926) (59).
     23.          Samþykkt um heimsendingu sjómanna (1926) (46).
     24.          Samþykkt um sjúkratryggingu iðnaðarfólks, verzlunarfólks og heimilishjúa (1927) 2 (28).
     25.          Samþykkt um sjúkratryggingar landbúnaðarverkafólks (1927) 2 (20).
     26.          Samþykkt um aðferðir til að ákveða lágmarkslaun (1928) (103).
     27.          Samþykkt um að þyngd skuli letruð á þunga hluti, sem fluttir eru með skipum (1929) (65).
     28.          Samþykkt um slysavarnir hafnarverkamanna (1929) 2 (4).
     29.          Samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu (1930) (168).
     30.          Samþykkt um eftirlit með vinnutíma við verzlun og skrifstofustörf (1930) (30).
     31.          Samþykkt um takmörkun vinnutíma í kolanámum (1931) 2)4 (2).
     32.          Samþykkt um slysavarnir hafnarverkamanna (endurskoðuð 1932) 3 (45).
     33.          Samþykkt um lágmarksaldur barna við önnur störf en iðnað (1932) 3 (25).
     34.          Samþykkt um vinnumiðlunarskrifstofur sem taka greiðslur fyrir störf sín (1933) 3 (11).
     35.          Samþykkt um skyldutryggingar fólks, sem vinnur við iðnaðar- eða verzlunarstörf, heimavinnu, heimilisstörf o.fl. (1933) 3 (11).
     36.          Samþykkt um skylduellitryggingar landbúnaðarverkafólks (1933) 3 (10).
     37.          Samþykkt um skylduörorkutryggingar fólks, sem vinnur við iðnaðar- eða verslunarstörf, heimavinnu, heimilisstörf o.fl. (1933) 3 (11).
     38.          Samþykkt um skylduörorkutryggingar landbúnaðarverkafólks (1933) 3 (10).
     39.          Samþykkt um skyldutryggingar til handa ekkjum og munaðarleysingjum, mönnum sem unnið hafa iðnaðar- eða verzlunarstörf, heimavinnu, heimilisstörf o.fl. (1933) 3 (8).
     40.          Samþykkt um skyldutryggingar til handa ekkjum og munaðarleysingjum og landbúnaðarverkamönnum (1933) 3 (7).
     41.          Samþykkt um næturvinnu kvenna (endurskoðuð 1934) 3 (38).
     42.          Samþykkt um bætur til verkamanna fyrir atvinnusjúkdóma (endurskoðuð 1934) 3 (53).
     43.          Samþykkt um vinnutíma í sjálfvirkum rúðuglerverksmiðum (1934) (13).
     44.          Samþykkt um bætur eða styrki til þeirra sem eru atvinnulausir gegn vilja sínum (1934) (14).
     45.          Samþykkt um vinnu kvenna neðanjarðar í hvers konar námum (1935) (97).
     46.          Samþykkt um takmörkun vinnutíma í kolanámum (endurskoðuð 1935) 4 (3).
     47.          Samþykkt um fækkun vinnustunda niður í 40 á viku (1935) (14).
     48.          Samþykkt um alþjóðlega skipan til viðhalds réttindum til örorku- og ellitrygginga og trygginga til handa ekkjum og munaðarlausum (1935) 3 (11).
     49.          Samþykkt um styttingu vinnutíma í glerflöskuverksmiðjum (1935) (10).
     50.          Samþykkt um eftirlit með tilteknum aðferðum við ráðningu verkamanna (1936) (33).
     51.          Samþykkt um styttingu vinnutíma í fyrirtækjum hins opinbera (1936) 3 (0).
     52.          Samþykkt um árlegt orlof með launum (1936) 3 (54).
     53.          Samþykkt um lágmarkskröfur til hæfni skipstjóra og yfirmanna á kaupskipum (1936) (36).
     54.          Samþykkt um árlegt orlof með launum fyrir farmenn (1936) 3)4 (6).
     55.          Samþykkt um skyldur útgerðarmanns, er sjómenn veikjast, slasast eða deyja (1936) (18).
     56.          Samþykkt um sjúkratryggingar sjómanna (1936) (19).
     57.          Samþykkt um vinnutíma á skipum og stærð áhafnar (1936) 2)4.
     58.          Samþykkt um lágmarksaldur barna við sjómennsku (endurskoðuð 1936) 2 (51).
     59.          Samþykkt um lágmarksaldur barna í iðnaði (endurskoðuð 1937) 2 (36).
     60.          Samþykkt um lágmarksaldur barna við önnur störf en iðnað (endurskoðuð 1937) 2 (11).
     61.          Samþykkt um styttingu vinnutíma í baðmullariðnaðinum (1937) 4 (0).
     62.          Samþykkt um öryggisreglur í byggingariðnaðinum (1937) (30).
     63.          Samþykkt um hagskýrslur um laun og vinnutíma í veigamestu greinum námavinnslu og verksmiðjuiðnaðar, þar á meðal byggingavinnu svo og landbúnaði (1938) 2 (34).
     64.          Samþykkt um skriflega vinnusamninga innfæddra verkamanna (1939) (31).
     65.          Samþykkt um refsiákvæði við brotum innfæddra verkamanna á vinnusamningi (1939) (33).
     66.          Samþykkt um skráningu, ráðningu og vinnukjör verkafólks, sem flytur milli landa í atvinnuleit (1939) 2)3 (0).
     67.          Samþykkt um vinnutíma og hvíldartíma við flutninga á landi (1939) 3 (4).
     68.          Samþykkt um fæði og þjónustu áhafna á skipum (1946) (25).
     69.          Samþykkt um útgáfu hæfnisskírteina fyrir matsveina á skipum (1946) (37).
     70.          Samþykkt um félagslegt öryggi sjómanna (1946) 1 (7).
     71.          Samþykkt um eftirlaun sjómanna (1946) (37).
     72.          Samþykkt um orlof með launum fyrir farmann (1946) 3)4 (5).
     73.          Samþykkt um læknisskoðun farmanna (1946) (45).
     74.          Samþykkt um hæfnisvottorð fullgildra háseta (1946) (28).
     75.          Samþykkt um vistarverur skipverja um borð í skipum (1946) 3)4 (5).
     76.          Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (1946) 2)4 (1).
     77.          Samþykkt um læknisrannsóknir til ákvörðunar á hæfni barna og unglinga til iðnaðarstarfa (1946) (43).
     78.          Samþykkt um læknisrannsóknir á hæfni barna og unglinga til starfa, sem ekki teljast til iðnaðar (1946) (39).
     79.          Samþykkt um takmörkun á næturvinnu barna og unglinga við störf, sem ekki teljast til iðnaðar (1946) (79).
     80.          Samþykkt um breytingar á framtíðarskipan á þeim framkvæmdastörfum, sem í samþykktum gerðum á 28 fyrstu allsherjarþingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru falin aðalritara Þjóðabandalagsins svo og um frekari breytingar, er leiðir af upplausn Þjóðabandalagsins og breytingum á stjórnarskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (1946) 4 (56).
     81.          Samþykkt um vinnueftirlit í iðnaði og verzlun (1947) (135).
     82.          Samþykkt um félagsmálapólitík í ósjálfstæðum löndum (1947) (4).
     83.          Samþykkt um að beita lágmarksákvæðunum um vinnuskyldu í ósjálfstæðum löndum (1947) (2).
     84.          Samþykkt um félagafrelsi og sættir í vinnudeilum í ósjálfstæðum löndum (1947) (4).
     85.          Samþykkt um vinnueftirlit í ósjálfstæðum löndum (1947) (5).
     86.          Samþykkt um hámarkslengd ráðningartíma innfæddra verkamanna (1947) (23).
     87.          Samþykkt um félagafrelsi og verndun þess (1948) (144).
     88.          Samþykkt um skipulagningu vinnumiðlunar (1948) (87).
     89.          Samþykkt um næturvinnu kvenna í iðnaði (endurskoðuð 1948) (65).
     90.          Samþykkt um næturvinnu ungmenna í iðnaði (endurskoðuð 1948) (50).
     91.          Samþykkt um orlof með launum fyrir farmenn (endurskoðuð 1949) 3 (24).
     92.          Samþykkt um vistarverur skipverja um borð í skipum (endurskoðuð 1949) (46).
     93.          Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (endurskoðuð 1949) 2)4 (6).
     94.          Samþykkt um vinnuákvæði í opinberum samningum (1949) (60).
     95.          Samþykkt um verndun vinnulauna (1949) (96).
     96.          Samþykkt um vinnumiðlunarskrifstofur, sem taka laun fyrir störf sín (endurskoðuð 1949)     (42).
     97.          Samþykkt um inn- og útflutning fólks í atvinnuleit (endurskoðuð 1949) (44).
     98.          Samþykkt um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega (1949) (154).
     99.          Samþykkt um aðferðir til ákvörðunar á lágmarkslaunum við landbúnaðarstörf (1951) (53).
     100.          Samþykkt um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf (1951) (162).
     101.          Samþykkt um orlof með kaupi í landbúnaði (1952) 2 (46).
     102.          Samþykkt um lágmark félagslegs öryggis (1952) (41).
     103.          Samþykkt um mæðravernd (1952) (40).
     104.          Samþykkt um brot innfæddra verkamanna á vinnusamningi (1955) (26).
     105.          Samþykkt um afnám nauðungarvinnu (1957) (165).
     106.          Samþykkt um vikulega hvíldardaga í verzlunum og skrifstofum (1957) (62).
     107.          Samþykkt um frumbyggja og annað kynþáttafólk eða frumstætt innan sjálfstæðra ríkja (1957) (27).
     108.          Samþykkt um persónuskírteini sjómanna (1958) (64).
     109.          Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (1958) 2 (15).
     110.          Samþykkt um vinnuskilyrði verkamanna á plantekrum (1958) (12).
     111.          Samþykkt um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs (1958) (163).
     112.          Samþykkt um lágmarksaldur fiskimanna (1959) (29).
     113.          Samþykkt um læknisskoðun fiskimanna (1959) (29).
     114.          Samþykkt um skiprúmssamninga fiskimanna (1959) (22).
     115.          Samþykkt um vernd verkamanna fyrir geislun (1960) (47).
     116.          Samþykkt um breytingu á samþykktum gerðum á þrjátíu og tveim fyrstu allsherjarþingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, í því skyni og samræma ákvæðin um skýrslur stjórnar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd samþykkta (1961) 4 (76).
     117.          Samþykkt um grundvallarmarkmið og reglur í félagsmálum (1962) (32).
     118.          Samþykkt um jafnrétti innlendra og erlendra manna til almannatrygginga (1962) (38).
     119.          Samþykkt um öryggisbúnað véla (1963) (50).
     120.          Samþykkt um heilbrigðisráðstafanir í verzlunum og skrifstofum (1964) (49).
     121.          Samþykkt um bætur vegna slysa við vinnu (1964) (23).
     122.          Samþykkt um stefnu í atvinnumálum (1964) (95).
     123.          Samþykkt um lágmarksaldur við vinnu neðanjarðar í námum (1965) 2 (41).
     124.          Samþykkt um læknisskoðun ungmenna með tilliti til hæfni til vinnu neðanjarðar í námum (1965) (41).
     125.          Samþykkt um hæfnisskírteini fiskimanna (1966) (10).
     126.          Samþykkt um vistarverur í fiskiskipum (1966) (22).
     127.          Samþykkt um hámarksþyngd þess, sem verkamaður má bera (1967) (25).
     128.          Samþykkt um elli-, örorku- og eftirlifendabætur (1967) (16).
     129.          Samþykkt um vinnueftirlit í landbúnaði (1969) (43).
     130.          Samþykkt um læknishjálp og sjúkrabætur (1969) (14).
     131.          Samþykkt um ákvörðun lágmarkslauna með sérstöku tilliti til þróunarlanda (1970) (47).
     132.          Samþykkt um árlegt orlof með launum (endurskoðað 1970) (33).
     133.          Samþykkt um vistarverur skipverja (viðbótarákvæði 1970) (31).
     134.          Samþykkt um slysavarnir sjómanna (1970) (29).
     135.          Samþykkt um vernd og aðstöðu trúnaðarmanna verkamanna á vinnustöðum (1971) (77).
     136.          Samþykkt um varnir gegn eitrunarhættu frá benseni (1971) (36).
     137.          Samþykkt um félagsleg áhrif nýrra aðferða við meðhöndlun farms í höfnum (1973) (25).
     138.          Samþykkt um lágmarksaldur við vinnu (1973) (142).
     139.          Samþykkt um varnir gegn og eftirlit með áhættu í starfi vegna efna, sem valda krabbameini (1974) (35).
     140.          Samþykkt um námsleyfi með launum (1974) (33).
     141.          Samþykkt um félagssamtök verkafólks í sveitum og þátt þeirra í efnahagslegri og félagslegri þróun (1975) (40).
     142.          amþykkt um starfsfræðslu og starfsþjálfun sem þætti í þróun vinnuafls (1975) (62).
     143.          Samþykkt um óhæfilegar aðstæður farandverkamanna og jafnrétti þeirra til atvinnumöguleika og aðbúðar (1975) (18).
     144.          Samþykkt varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála (1976) (117).
     145.          Samþykkt um atvinnuöryggi farmanna (1976) (17).
     146.          Samþykkt um árlegt orlof farmanna (1976) (16).
     147.          Samþykkt um lágmarkskröfur á kaupskipum (1976) (52).
     148.          Samþykkt um verndun verkamanna gegn hættu frá loftmengun, hávaða og titringi á vinnustað (1977) (43).
     149.          Samþykkt um atvinnu, vinnuskilyrði og lífskjör hjúkrunarfólks (1977) (37).
     150.          Samþykkt um stjórn vinnumála: hlutverk, starfsemi og skipulag (1978) (64).
     151.          Samþykkt um verndun félagafrelsis og aðferðir við ákvörðun starfskjara í opinberri þjónustu (1978) (43).
     152.          Samþykkt um öryggi og heilbrigði í hafnarvinnu (1979) (25).
     153.          Samþykkt um vinnustundir og hvíldartíma við akstur (1979) (8).
     154.          Samþykkt um eflingu sameiginlegra samningsgerða (1981) (37).
     155.          Samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi (1981) (45).
     156.          Samþykkt um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð (1981) (36).
     157.          Samþykkt um stofnun alþjóðlegs kerfis til viðhalds tryggingaréttindum (1982) (3).
     158.          Samþykkt um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda (1982) (33).
     159.          Samþykkt um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra (1983) (78).
     160.          Samþykkt um hagskýrslugerð um atvinnumál (1985) (46).
     161.          Samþykkt um heilsugæslu á vinnustöðum (1985) (25).
     162.          Samþykkt um öryggi við notkun asbests (1986) (28).
     163.          Samþykkt um aðbúnað skipverja á hafi úti og í höfn (1987) (15).
     164.          Samþykkt um heilsuvernd og læknishjálp við skipverja (1987) (14).
     165.          Samþykkt um félagslegt öryggi skipverja (1987) (3).
     166.          Samþykkt um heimsendingu skipverja (1987) (12).
     167.          Samþykkt um öryggi og hollustuhætti í byggingariðnaði (1988) (18).
     168.          Samþykkt um atvinnuuppbyggingu og vernd gegn atvinnuleysi (1988) (6).
     169.          Samþykkt um frumbyggja og ættflokka í sjálfstæðum ríkjum (1989) (17).
     170.          Samþykkt um öryggi við notkun efna við vinnu (1990) (12).
     171.          Samþykkt um næturvinnu (1990) (9)
     172.          Samþykkt um vinnuaðstæður á hótelum, veitingastofum og svipuðum stofnunum (1991) (13).
     173.          Samþykkt um verndun launakrafna starfsmanna við gjaldþrot atvinnurekanda (1992) (18).
     174.          Samþykkt um varnir gegn meiri háttar iðnaðarslysum (1993) (11).
     175.          Samþykkt um réttindi þeirra sem vinna hlutastörf (1994) (10).
     176.          Samþykkt um öryggi og hollustuhætti í námum (1995) (20).
     177.          Samþykkt um heimastörf (1996) (4).
     178.          Samþykkt um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja (1996) (12).
     179.          Samþykkt um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm (1996) (10).
     180.          Samþykkt um vinnutíma skipverja og mönnun skipa (1996) (19).
     181.          Samþykkt um einkareknar vinnumiðlunarskrifstofur (1997) (18).
     182.          Samþykkt um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana (1999) (157).
     183.          Samþykkt um mæðravernd (2000) (11).
     184.          Samþykkt um öryggi og hollustu í landbúnaði (2001) (7).
     185.          Samþykkt um persónuskírteini sjómanna (2002) (4).
     186.          Samþykkt um vinnuskilyrði farmanna (2006) 1.

Af samþykktum þeim, sem taldar eru hér að framan, hefur Ísland fullgilt þessar. (Dagsetning á skráningu fullgildingar er innan sviga.)

     1.          Nr. 2, um ráðstafanir gegn atvinnuleysi (17. febrúar 1958).
     2.          Nr. 11, um rétt landbúnaðarfólks til að bindast samtökum og stofna félög (21. ágúst 1956).
     3.          Nr. 15, um ákvörðun lágmarksaldurs unglinga við kyndara- og kolamokarastörf (21. ágúst 1956).
     4.          Nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu (17. febrúar 1958).
     5.          Nr. 58, um lágmarksaldur barna við sjómennsku (21. ágúst 1956).
     6.          Nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess (19. ágúst 1950).
     7.          Nr. 91, um orlof með launum fyrir farmenn (1952).
     8.          Nr. 98, um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega (15. júlí 1952).
     9.          Nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf (17. febrúar 1958).
     10.          Nr. 102, um lágmark félagslegs öryggis (20. febrúar 1961).
     11.          Nr. 105, um afnám nauðungarvinnu (29. nóvember 1960).
     12.          Nr. 108, um persónuskírteini sjómanna (26. október 1970).
     13.          Nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs (29. júlí 1963).
     14.          Nr. 122, um stefnu í atvinnumálum (22. júní 1990).
     15.          Nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með krabbameinsvaldandi efnum (21. júní 1991).
     16.          Nr. 144, varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála (30. júní 1981).
     17.          Nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi (21. júní 1991).
     18.          Nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu: Starfsfólk með fjölskylduábyrgð (22. júní 2000).
     19.          Nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra (22. júní 1990).
     20.          Nr. 182, um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana (22. júní 2000).


Athugasemdir:

     1)      Samþykkt sem ekki hefur verið fullgilt af nægilega mörgum aðildarríkjum til að öðlast gildi.
     2)      Samþykkt sem hefur verið endurskoðuð með síðari samþykkt.
     3)      Samþykkt sem ekki er hægt að fullgilda vegna þess að hún hefur verið endurskoðuð með nýrri samþykkt sem hefur tekið gildi.
     4)      Samþykkt hefur ekki verið fullgilt af lágmarksfjölda aðildarríkja til að taka gildi. Ákvæði í nokkrum þeirra hafa verið tekin upp í aðrar síðari samþykktir.