Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 345  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Óvenju mikið umrót og óvissa í efnahagsmálum og aðsteðjandi vandamál í hagstjórn marka allt efnahagsumhverfið við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Ljóst er að orsakir þess vanda sem nú er við að glíma er annars vegar að leita í mistökum í fortíðinni, í tíð fyrri ríkisstjórnar, sem skellti skollaeyrum við varnaðarorðum og stuðlaði að gríðarlegum stóriðjuframkvæmdum sem öllum var ljóst að mundu reyna mjög á hagstjórnartæki og þanþol efnahagslífsins. Nægir í því sambandi að vitna í varnaðarorð Seðlabankans og erlendra ráðgjafarstofnana á sviði efnahagsmála. Áform voru samt keyrð áfram með pólitískum ákvörðunum og þrýstingi þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og öll andstaða og varnaðarorð höfð að engu. Gilti þá einu hvort menn lögðust gegn framkvæmdunum vegna umhverfisspjalla sem þeim fylgdu eða vöruðu við efnahagsáhrifunum eða því að ruðningsáhrifin yrðu æði dýrkeypt fyrir annað atvinnulíf og skuldsettan almenning og reyna mjög á hagstjórn.
    En fyrri ríkisstjórn lét ekki þar við sitja heldur lækkaði hún tekjuskatta mitt í þenslunni, einkum þó á hátekjufólk, sem hafði aukin áhrif til þenslu eins og áformin um stóriðjuna. Og ofan í kaupið var svo fyrri ríkisstjórn bundin af kosningaloforði Framsóknarflokksins um að hækka lánshlutfall íbúðalána sem, ásamt með innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn, blés upp þá bólu sem orðið hefur á íslenska fasteignamarkaðinum. Þessu til viðbótar var það, og er, staðreynd að fyrri ríkisstjórn og Seðlabankinn gengu aldrei í takt í hagstjórn, sbr. lækkun á bindiskyldu bankanna sem tók gildi í ársbyrjun 2004. Ríkisstjórnin lagði oftar en ekki steina í götu viðleitni Seðlabankans til að halda aftur af verðbólgu og kæla niður hagkerfið. Afleiðingarnar eru alkunnar: gríðarlegur viðskiptahalli og verðbólga, ítrekaðar vaxtahækkanir Seðlabankans til að reyna að halda aftur af þenslu og verðbólgu sem hafa nú undir árslok skilað því að stýrivextir eru einhverjir þeir hæstu sem fyrirfinnast á byggðu bóli eða 13,75%.
    Að hinu leytinu er ástandið í dag afleiðing þess að ný ríkisstjórn sem tók við völdum í maímánuði sl. hefur ekkert aðhafst í hagstjórn. Tækifærið sem ríkisstjórnin fékk til þess að senda efnahagslífinu og þjóðarbúskapnum öllum sterk skilaboð um að nú yrði stigið á bremsur, var ekki nýtt. Ríkisstjórnin hefur verið með afbrigðum daufleg, gert lítið úr vandanum og drepið umræðum um hagstjórn á dreif. Og ef eitthvað er, hefur sú gjá breikkað síðustu mánuði sem myndaðist í tíð fyrri ríkisstjórnar á milli Seðlabankans og fjármálalífsins annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar. Formaður Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa dregið í efa gagnsemi vaxtahækkana Seðlabankans og virkni peningamálastefnunnar. Tæpast flokkast það sem jákvætt framlag eða mikill stuðningur við viðleitni Seðlabankans, hvað sem um hana má segja að öðru leyti.
    Ástandið er með öllu óviðunandi. Vaxtakostnaður er óheyrilega hár og verðbólga of mikil. Greiðslubyrði af lánum heimilanna er gríðarleg og ljóst að fjölskyldur eru þúsundum saman í miklum erfiðleikum með að ná endum saman og standa skil á afborgunum lána. Hið háa vaxtastig og vaxtamunurinn milli Íslands og annarra landa hefur styrkt gengi krónunnar með innstreymi erlends fjármagns sem aftur þýðir að rekstrarskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina eru afar bágborin og mega þær þó síst við því nú, sérstaklega sjávarútvegurinn vegna ákvarðana um niðurskurð þorskafla. Hinn gríðarlegi uppsafnaði viðskiptahalli er ávísun á vaxandi skuldabyrði þjóðarbúsins og gæti haft alvarlegar afleiðingar til langs tíma litið.
    Jafnvægisleysið í hagkerfinu og hagstjórnarvandamálin sem við blasa verða hættulegri með hverjum mánuðinum sem líður. Og loks bætist nú við sá mikli óróleiki sem er á verðbréfamarkaði og óvissa með þróun alþjóðaefnahagsmála á komandi mánuðum. En ljóst er að einnig er við mikið jafnvægisleysi að glíma og misgengi hér innan lands. Einkum er staðan ólík á þenslusvæðinu við Faxaflóa, á suðvesturhorni landsins, og landsbyggðinni hins vegar. Þetta jafnvægisleysi er á sinn hátt hluti hagstjórnarvandans og tengist einnig afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina, atvinnugreina eins og sjávarútvegs og ferðaþjónustu sem enn vega þungt í efnahagslífi landsmanna en eru þó sýnu meira afgerandi fyrir afkomu fólks og stöðu á landsbyggðinni en í miðstöð þjónustu og fjármálaumsvifa á höfuðborgarsvæðinu.

Lykiltölur hagstærða 2001–2007.
Magnbreyting frá fyrra ári (%).

2001 2002 2003 2004 Áætlað 2005 Áætlað 2006 Spá
2007
Einkaneysla –2,9 –1,5 6,2 6,9 13,0 4,4 2,1
Samneysla 4,6 5,3 1,8 2,2 3,5 3,9 2,8
Fjármunamyndun –4,3 –14,0 11,1 28,5 33,9 19,8 –22,2
Þjóðarútgjöld –2,1 –2,3 5,8 9,9 15,4 9,2 –5,2
Útflutningur 7,4 3,8 1,6 8,4 7,2 –5,1 8,7
Innflutningur –9,1 –2,5 10,8 14,4 29,4 10,1 –9,8
Viðskiptajöfnuður –4,3 1,5 –4,8 –9,8 –16,2 –25,7 –15,2
Hagvöxtur 3,9 0,1 2,4 7,7 7,1 4,2 0,7
Verðbólga 6,7 4,8 2,1 3,2 4,0 6,8 4,5
Atvinnuleysi 2,3 3,3 3,4 3,1 2,6 2,9 1,1
Gengisvísitala 135,4 131,4 123,5 121,0 108,6 121,3 118,2


Hagspár og efnahagsforsendur frumvarpsins.
    Í frumvarpi til fjárlaga 2008 er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði um 461 ma.kr., þar af nemi skatttekjur um 422 ma.kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að tekjur verði 85 ma.kr. meiri en er í fjárlögum 2007. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að tekjur ríkisins árið 2007 verða líklega um 456 ma.kr., sbr. endurskoðaða tekjuáætlun við 2. umræðu fjáraukalaga, eða um 80 ma.kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögunum. Tekjur ársins 2008 eru því áætlaðar um 5 ma.kr. hærri ef miðað er við endurskoðaða tekjuáætlun 2007. Ný tekjuáætlun fjármálaráðuneytis gerir ráð fyrir því að tekjur ríkisins hækki um 8 ma.kr. og verði 469,4 ma.kr. Munar þar mest um hækkun á virðisaukaskatti um 5 ma.kr. en einnig er gert ráð fyrir að tekjuskattur hækki um 1,5 ma.kr. og stimpilgjöld um milljarð.
    Gjöldin eru áætluð um 430 ma.kr. og tekjujöfnuður verði tæplega 31 ma.kr. Gert er ráð fyrir að útgjöldin aukist um 63 ma.kr. milli ára, sé miðað við fjárlög 2007 en um 42 ma.kr. sé miðað við áætluð útgjöld árið 2007. Miðað við fyrri fjárlög þar sem útgjöldin hækkuðu um tæpan 21 ma.kr., eða um rúm 5% af upphaflegri áætlun, má gera ráð fyrir að útgjaldahækkunin á árinu 2008 verði um 24 ma.kr., eða um 17%. Nú þegar hefur ríkisstjórnin sett fram óskalista um hækkun útgjalda upp á 3,7 ma.kr. en þar af fara 2,7 ma.kr. í ýmis útgjöld sem tengjast Keflavíkurflugvelli. Sá milljarður sem þá er eftir dreifist víða en athygli vekur að um 200 m.kr. fara í breytingar á húsnæði. Þá er gert fyrir lækkun útgjalda frá fyrri tillögum og munar þar mest um 2,5 ma.kr. lækkun á framlögum til vegamála. Í heild er gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ríkisins aukist um tæpa 9 ma.kr.

Fjárlagafrumvörp, fjárlög, fjáraukalög og tillögur 2007–2008.

Tekjur samtals Gjöld samtals Tekjujöfnuður
Fjárlög 2007 376.413,7 367.260,0 9.153,7
Frumvarp til fjáraukalaga fyrir 2007 71.861,0 15.826,0 56.035,0
Frumvarp til fjáraukalaga eftir 2. umr.) 8.202,0 4.931 3.271,0
Samtals: 456.476,7 388.017 68.459,7
Frumvarp 2008 461.168,4 430.354,9 30.813,5
Áætlun fyrir 2. umræðu 469.400,0 434.157,4 39.242,0

    Helstu forsendur frumvarpsins eru að hagvöxtur ársins 2008 verði um 1,2%, samdráttur í þjóðarútgjöldum verði tæplega 5%, en viðsnúningur verði í utanríkisviðskiptum sem beri uppi hagvöxtinn. Gert er ráð fyrir að verulega dragi úr viðskiptahalla, hann verði tæplega 9% af landsframleiðslu, atvinnuleysi aukist og verði um 2,9% af vinnuafli. Loks er gert ráð fyrir að verðbólga minnki niður í um 3,3% á árinu 2008 og það dragi úr einkaneyslu. Helstu óvissuþættir frumvarpsins eru áform um frekari stóriðjuframkvæmdir, ástand á alþjóðamörkuðum, gengi íslensku krónunnar og komandi kjarasamningar. Hér er ekki um að ræða neina smávægilega óvissuþætti og þeir veikja verulega tiltrú á að tekjuáætlunin sé raunhæf og að hún sé trúverðug. Í raun á það við um fjárlagafrumvarpið í heild.

Hagspá fjármálaráðuneytis fyrir árið 2008.

Magnbreytingar, %, milli ára
Einkaneysla –0,9
Samneysla 2
Fjármunamyndun –19,8
Þjóðarútgjöld –4,8
Útflutningur 9,2
Innflutningur –7
Viðskiptajöfnuður –8,8
Hagvöxtur 1,2
Verðbólga 3,3
Atvinnuleysi 2,9
Gengisvísitala 119,3

    Fulltrúar fjármálaráðuneytisins sem kynntu þjóðhagsspá ráðuneytisins og gerðu grein fyrir forsendum tekjuáætlunarinnar lögðu áherslu á að mikið hafi verið lagt upp úr því að bæta áætlanagerð undanfarin ár. Mikilvægt er að sá þáttur fjárlagagerðarinnar sé eins markviss og frekast er kostur. Engu að síður er mjög athyglisvert að veruleg frávik eru í endurskoðaðri tekjuáætlun ársins 2007 frá fjárlögum ársins. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar um 80 ma.kr. meiri en fjárlögin gerðu ráð fyrir og er það rúmlega 21% frávik. Um er að ræða það mikla skekkju að efast má um að finna megi fordæmi um svipað í öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Helstu skýringar sem gefnar hafa verið á frávikunum eru að um hafi verið að ræða verulegt vanmat í hagspá og á hagrænum þáttum. Mikill og viðvarandi þróttur efnahagslífsins er meginskýring á meiri tekjum en fjárlög 2007 gerðu ráð fyrir, einkaneysla hafi verið mun meiri en gert var ráð fyrir og atvinnuleysi hafi minnkað á árinu.
    Ljóst er að gagnrýna má ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga 2008. Gera má ráð fyrir að áfram verði mikill þróttur í efnahagslífinu og miðað við nýjustu tíðindi er vart hægt að gera ráð fyrir því að úr þeim þrótti dragi eins fljótt og frumvarpið gerir ráð fyrir. Mikil þensla er á vinnumarkaði og engin merki um að úr henni dragi í bráð, þvert á móti er vinnumarkaðurinn í vexti og hálaunastörfum er að fjölga. Hvergi eru nein merki um samdrátt í framleiðni stóriðju og ýmissa þjónustufyrirtækja á Faxaflóasvæðinu og almennt eykst kaupmáttur mikið en lægstu launin sitja eftir. Telja má að dragi úr fjárfestingum en sá krepputónn sem er í spám fjármálaráðuneytis og Seðlabanka um 15–20% samdrátt er mjög ósannfærandi. Gera má ráð fyrir að samneyslan verði meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu enda er verið að leggja til aukin útgjöld í ýmsum málaflokkum. Hver einkaneyslan verður er erfitt að spá um en spár undanfarinna ára um minnkandi einkaneyslu hafa ekki gengið eftir. Minnkandi þenslan suðvestanlands er ekki í sjónmáli enda verið að efna til verkefna í 101 Reykjavík fyrir marga tugi milljarða á næsta ár. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir mun meiri samdrætti þjóðarútgjalda, þ.e. einkaneyslu, samneyslu og fjármunamyndunar, og sama má segja um aðrar helstu hagstærðir. Hér spila margir þættir inn í, t.d. vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands og gengi krónunnar. Þróunin á húsnæðismarkaði skiptir einnig miklu máli en hækkun fasteignaverðs hefur verið einn helsti verðbólguvaldurinn á undanförnum árum. Gert var ráð fyrir áframhaldandi miklum umsvifum í byggingariðnaði þar sem aukin fólksfjölgun og mikill kaupmáttur mundi áfram halda uppi eftirspurn eftir húsnæði. Eftir miklar vaxtahækkanir á húsnæðislánum í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands og yfirlýsingar forsætisráðherra um að fólk ætti að halda að sér höndum í fasteignakaupum er fasteignamarkaðurinn í uppnámi. Forsendur frumvarpsins um 1,2% hagvöxt eru ekki í takti við það sem greiningardeildir bankanna spá. Hagspár eru á bilinu 2,0–3,8% en í nýjustu spá Seðlabankans (Peningamál 2007:3) er gert ráð fyrir 0,4% hagvexti. Svartsýni Seðlabanka Íslands um framvindu íslenskra efnahagsmála er áfellisdómur yfir hagstjórninni.

Hagspár 2008.

ASÍ Fjármálaráðun. Glitnir Kaupþing Landsbankinn Seðlabankinn
Einkaneysla –0,6 –0,9 –1 –1,7 2,5 –1,7
Samneysla 2,7 2 2,8 3,6 3,1 3,4
Fjármunamyndun –4,4 –19,8 –13 –4,7 1,6 –15,3
Þjóðarútgjöld –0,8 –4,8 –3,2 –1,3 2,5 –3,7
Útflutningur 6,5 9,2 13,7 9,8 4,9 14,1
Innflutningur –2,9 –7 –2,3 –3,8 1,2 –0,1
Viðskiptajöfnuður –9,1 –8,8 –10,3 –10,7 –15,5 –14,4
Hagvöxtur 2,3 1,2 2 3,8 3,7 0,4
Verðbólga 4,7 3,3 4,5 3,9 2,2 4,1
Atvinnuleysi 1,5 2,9 1,8 3,3 1,3 2,7
Gengisvísitala* 119,3 121,6 122 121,1 118,8
* ASÍ gerir ráð fyrir að gengisvísitalan verði 118–123 á árunum 2007–2009.

    Tekjuskattur lögaðila hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og hann hefur verið verulega vanáætlaður í tekjuáætlun frumvarpsins. Á sama hátt eru áætlaðar tekjur af tryggingagjaldi vanáætlaðar í frumvarpinu. Ef gengið er út frá því að umsvif efnahagslífsins verði meiri en forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir þá liggur fyrir að tekjur af virðisaukaskatti eru vanáætlaðar í frumvarpinu. Fjármagnstekjuskattur hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur af honum aukist á næsta ári. Fjármagnstekjuskattur er mjög kvikur tekjustofn sem endurspeglar m.a. þróun hlutabréfamarkaðar og óvarlegt er að treysta um of á hann til tekjuöflunar.
    Atvinnuleysi hefur verið um eða undir 1% mestan hluta árs 2007. Rök fyrir því að atvinnuleysi muni aukast hratt á næsta ári og verða 2,9% á ársgrundvelli eru varla haldbær enda bendir margt til þess að suðvestanlands verði eftirspurn eftir vinnuafli áfram mikil. Allt útlit er fyrir að umsvif í atvinnulífinu verði áfram mikil á næsta ári. Sérstök merki um samdrátt á vinnumarkaði verða hins vegar á landsbyggðinni, einkum í sjávarbyggðum sem háðar eru þorskveiðum. Þar getur fólki enn fækkað enda flýr það atvinnuleysi og sækir á þenslusvæðið þar sem atvinna er næg. Við þessu misgengi í afkomu fólks þarf að vinna með markvissum aðgerðum sem jafna lífskjör í landinu. Það eru fólgin í því mikil verðmæti fyrir framtíð Íslands að landið verði sem víðast í byggð og afkoma landsmanna verði tryggð hvar sem þeir búa.
    Forsendur frumvarpsins um að verðbólga minnki í 3,3% árið 2008 eru ekki trúverðugar, m.a. miðað við álit ýmissa greiningaraðila og útlit varðandi ýmsa áhrifaþætti hagkerfisins. Miðað við síðustu ákvarðanir Seðlabanka um hækkun stýrivaxta verður að telja að forsendur frumvarpsins lýsi bjartsýni, 12 mánaða verðbólga mælist nú yfir 5%. Við ákvörðun um stýrivexti leitast Seðlabanki við að spá um ástand efnahagsmála meira en ár fram í tímann og við nýjustu ákvörðun um hækkun stýrivaxta hlýtur Seðlabanki að gera ráð fyrir að verðbólguþrýstingur sé meiri en áður var gert ráð fyrir. Það er að mörgu leyti rökrétt að gera ráð fyrir meiri verðbólgu árið 2008 en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það liggur fyrir að óvissuþættir eru það veigamiklir að gera má ráð fyrir miklum frávikum frá áætluninni og að heildartekjur ríkissjóðs verði mun meiri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í stjórn efnahagsmála gefur heldur ekki tilefni til að ætla að draga muni úr þenslu í hagkerfinu eins og þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir. Því eru öll teikn á lofti um að því miður sé um að ræða verulegt vanmat í hagspá og á hagrænum þáttum í forsendum tekjuáætlunar sem og útgjaldaáætlunar frumvarpsins. Á undanförnum árum hefur komið í ljós að hagspár fjármálaráðuneytis eru fjarri öllum raunveruleika og eru gagnslaust plagg við gerð fjárlaga.

Helstu þjóðhagsstærðir.
(Magnbreytingar, %.)

Fjárlög 2004 Raun- tölur Fjárlög 2005 Raun- tölur* Fjárlög 2006 Raun- tölur* Fjárlög 2007 Áætlun haust 2007**
Einkaneysla 3,5 6,9 5,0 13,0 4,3 4,4 –1,8 2,1
Samneysla 1,0 2,2 2,0 3,5 2,2 3,9 2,1 2,8
Fjárfesting 8,5 28,5 18,0 33,9 0,8 19,8 –21,6 –22,2
Þjóðarútgjöld 4,0 9,9 7,5 15,4 2,9 9,2 –6,4 –5,2
Útflutningur vöru og þjónustu 4,5 8,4 4,0 7,2 6,2 –5,1 1,0 8,7
Innflutningur vöru og þjónustu 5,75 14,4 10,5 29,4 2,0 10,1 –9,4 –9,8
Verg landsframleiðsla 3,5 7,7 5,0 7,1 4,6 4,2 1,0 0,7
Viðskiptajöfnuður,
    % af landsfram.
–3 ,25 –9,8 –11,0 –16,2 –12,2 –25,7 –15,2 –15,2
*    Bráðabirgðatölur
**    Þjóðhagsspá 2007

    Á undanförnum árum hafa tekjur ríkissjóðs ávallt verið mun hærri en fjárlög viðkomandi árs hafa gert ráð fyrir en það er m.a. vegna þess að þenslan í þjóðfélaginu hefur verið meiri en áætlanir hafa talið. Nokkur óvissa ríkir um þróun efnahagsmála á næsta ári og því erfitt að spá fyrir um hverjar tekjur ríkissjóðs verða. Af þeim sökum ríkir áfram sama óvissan um hvernig tekjuáætlun frumvarpsins muni standast. Verði um verulegan samdrátt að ræða stefnir í óefni því ekki verður séð af reynslu undanfarinna ára að ríkisstjórnin hafi þrek eða þor til að bregðast við breyttum aðstæðum. Helsta áhyggjuefnið er þó stefnuleysi og handahófskenndar ákvarðanir um útgjöld ríkissjóðs til einstakra stofnana og verkefna sem einkennt hefur um of fjárlagagerð ríkisstjórnarflokkanna. Tekjugrunnur ríkissjóðs hefur veikst og byggist nú æ meir á þensluáhrifum í hagkerfinu þar sem ríkisstjórnin hefur hellt olíu á eldinn. Þetta er þeim mun alvarlegra í ljósi þeirra staðreynda að uppsveiflan í hagkerfinu á undanförnum árum hefur ekki verið notuð til að undirbúa slíkar breytingar og treysta grunn velferðarkerfisins.

Hagstjórnin.
    Hagstjórn hefur verið gagnrýnd af greiningardeildum innlendra banka, fjölmörgum hagsmunasamtökum atvinnurekenda og launþega sem og erlendum matsfyrirtækjum. Nýlega (20. nóvember 2007) breytti matsfyrirtækið Standard & Poor's horfum á lánshæfismati ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar.
    Í fréttatilkynningu Seðlabanka Íslands sagði m.a.: „Endurskoðun á horfunum endurspeglar vaxandi og þrálátt ójafnvægi í íslenska hagkerfinu, auk skorts á aðhaldi í ríkisfjármálum. Þótt skammtímaraunvextir Seðlabankans hafi farið yfir 8% er virkni miðlunar peningastefnunnar takmörkuð af snarpri aukningu í erlendum lántökum heimila og lítilli svörun vaxta á íbúðalánum við auknu aðhaldi peningastefnunnar. Endurnýjaður vöxtur í neyslu og seinkun á aukningu útflutnings leiða til þess að viðskiptahallinn mun ekki lagast eins hratt og búist var við. Áframhald á mikilli lántöku til húsnæðiskaupa kyndir undir verðhækkunum á húsnæði sem aftur dregur úr hjöðnun verðbólgu. Þetta er undirrót þess að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í 13,75% í nóvember 2007. Hagvöxtur hefur verið mikill í síðustu uppsveiflum í fjárfestingu og útlánum og á húsnæðismarkaði. En hægja mun óhjákvæmilega á honum þegar hagkerfið kólnar. … Neikvæðar horfur endurspegla vaxandi hættu á harðri lendingu íslenska hagkerfisins.“
    Eins og fram kemur í áliti Standard & Poor's er ástæða lækkunar lánshæfismatsins vaxandi og þrálátt ójafnvægi í hagkerfinu og skortur á aðhaldi í ríkisfjármálum. Aukin hætta er á harðri lendingu hagkerfisins. Hröð aukning opinberra útgjalda viðheldur efnahagslegu ójafnvægi og við það ástand bætast háir og hækkandi innlendir og alþjóðlegir vextir. Lítið hefur dregið úr viðskiptahalla vegna aukinnar neyslu og seinkunar á útflutningsaukningu. Með þessu áliti Standard & Poor's hefur íslenskum stjórnvöldum verið gefið gula spjaldið með þeim skilaboðum að nauðsynlegt sé að ná betri tökum á ríkisfjármálum, vilji stjórnvöld forðast lækkun á lánshæfiseinkunnum ríkissjóðs.
    Þótt matsfyrirtækið Standard & Poor's hafi ekki breytt lánshæfismati íslenska ríkisins, heldur eingöngu breytt horfum úr stöðugum í neikvæðar, eru það slæm tíðindi fyrir ríkissjóð. Þegar mati á horfum hefur verið breytt eru miklar líkur á að innan nokkurra mánaða verði lánshæfismatinu breytt í takt við þær breytingar sem voru gerðar á horfunum. Fari svo að lánshæfismatið verði lækkað yrðu afleiðingarnar þær að íslenska ríkið fengi verri lánskjör á erlendum og innlendum lánamarkaði. Að vísu er ríkið ekki stór lántakandi vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs en lánshæfismatið hefur áhrif á lánshæfismat íslenskra ríkisfyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs, en hvort um sig er stór lántakandi, og líklega einnig á lánshæfismat fjármálafyrirtækja.
    Greining og álit Standard og Poor's er fyrst og fremst áfellisdómur yfir íslenskri hagstjórn. Í öllum meginatriðum er það samhljóða greiningu og áliti Seðlabanka Íslands eins og það birtist í Peningamálum 2007:3. Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa gagnrýnt Standard & Poor's fyrir álit þess. Forsætisráðherra sagði m.a. í viðtali við Morgunblaðið 21. nóvember: „Auðvitað er það óheppilegt að þeir skuli breyta horfunum en ég tel að rökstuðningnum fyrir því sé nokkuð ábótavant.“ Fjármálaráðherra tekur öllu dýpra í árinni enda virðist hann ekki átta sig ástandinu. Í viðtali við Morgunblaðið 21. nóvember sagði hann m.a.: „Stundum áttar maður sig hreint ekki á álitum sem koma frá þessum aðilum. Það er sífellt talað um sömu hlutina, alveg sama hverjar aðstæðurnar eru. Það er sama hvort við erum búin að skera framkvæmdir ríkissjóðs niður í 1% af landsframleiðslu eða hvort þær eru 2% af landsframleiðslu. Það eru sömu athugasemdirnar sem koma frá þeim við aðstæður sem eru allt aðrar. Það hlýtur að segja manni að þeir eru ekkert að skoða aðstæðurnar hérna hjá okkur.“
    Þessar yfirlýsingar eru sérkennilegar í ljósi þess að erlend matsfyrirtæki hafa mikil og náin samskipti við Seðlabanka Ísland sem útvegar allar nauðsynlegar upplýsingar. Þeim er haldið upplýstum um allt sem Seðlabankinn gerir og Seðlabankinn sér til þess að matsfyrirtækin fá ávallt nýjustu upplýsingar sem til eru um íslensk efnahagsmál. Ef ríkisstjórnin er ósátt við þær upplýsingar sem matsfyrirtækin fá hjá Seðlabankanum ættu þau að beina gagnrýninni að honum.
    Lánshæfismat er forsenda þess að ríkissjóður geti gefið út skuldabréf á alþjóðamarkaði og lánshæfismatið hefur einnig áhrif á lánshæfismat íslenskra fyrirtækja. Með því að gera lítið úr lánshæfismatinu er verið að gera lítið úr þeim vinnureglum sem viðhafðar eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og vissulega er það athyglisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands láti til sín taka á þeim markaði. Fjárhagsleg staða ríkissjóðs er afar sterk og hefur sjaldan verið sterkari og þess vegna túlka greiningardeildir á fjármálamarkaði breytingu á horfum að verulegu leyti sem áfellisdóm yfir stjórn efnahags- og ríkisfjármála. Einkum er bent á að þrátt fyrir metháa stýrivexti hafi einkaneyslan á ný farið á fullan skrið og erfiðlega gengur að hemja verðbólguna. Undirliggjandi vandi er að þegar þensla var sem mest jókst samneyslan og erfiðlega virðist ætla að vinda ofan af henni. Það er í raun ríkisvaldið sem er helsti þensluvaldur og verðbólguhvati í hagkerfinu en síðan er almenningi kennt um.
    Aðalatriðið er að greining og álit Standard & Poor's er í öllum aðalatriðum samhljóða áliti Seðlabanka Íslands, sbr. Peningamál 2007:3, og þegar forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru að gagnrýna Standard & Poor's eru þeir í raun að gagnrýna fyrrum leiðtoga sinn, Davíð Oddsson, sem nú stýrir Seðlabankanum. Það er algjör nauðsyn að Seðlabankinn og ríkisstjórnin gangi í takt og séu sammála um stefnuna ef einhver árangur á að nást í stjórn efnahagsmála.

Engin stefnubreyting.
    Það vekur sérstaka athygli, þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið og breytingartillögur meiri hlutans nú við 2. umræðu fjárlaga, að engrar stefnubreytingar verður vart í fjárlagaáherslum frá því sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þess sér hvergi stað að núverandi ríkisstjórn hyggist efna umfangsmikil kosningaloforð, sérstaklega Samfylkingarinnar, á sviði velferðarmála, aukna áherslu á umhverfismál eða annað í þeim dúr. Þvert á móti eru málefni aldraðra, öryrkja og barnafjölskyldna síst betur meðhöndluð í þessu frumvarpi en var í tíð fyrri ríkisstjórnar og það litla sem er gert er að framfylgja ákvörðunum og samningum sem þegar hafði verið gengið frá fyrir stjórnarskipti. Þess sér heldur hvergi stað að heitstrengingar Samfylkingarinnar um stóraukin fjárframlög til menntamála, til rannsókna- og þróunarmála og þar fram eftir götunum líti dagsins ljós. Ekki er um að ræða hækkun á skattleysismörkum eða hækkun á frítekjumarki áður en til skerðingar kemur á greiðslum úr almannatryggingakerfinu og þannig mætti áfram telja. Ekki er tekið á málefnum sveitarfélaganna og ekki lagt fé til að jafna flutningskostnað, jafna námskostnað, draga úr efniskostnaði framhaldsskólanema og þar fram eftir götunum.
    Að einu leyti verður þó að segjast að fjárlagafrumvarpið felur í sér hreina og klára stefnubreytingu og eru það hin stórauknu útgjöld til hernaðartengdra verkefna sem samtals hlaupa á milljörðum króna. Má ætla að kostnaður vegna nýtilkominna og stórfelldra útgjalda sem tengjast áherslum ríkisstjórnarinnar á að viðhalda hér hernaðarumsvifum, heræfingum og öðru hernaðarbrölti, þrátt fyrir brottför Bandaríkjahers, nemi samtals a.m.k. 2,5 ma.kr., ef lagðar eru saman tölur fjáraukalagafrumvarps fyrir yfirstandandi ár og tillögur að fjárveitingum til slíkra verkefna í fjárlagafrumvarpi til ársins 2008.

Einstakir málaflokkar og verkefni.
Velferðarmál.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sagði m.a. að flokkarnir hefðu einsett sér að „mynda frjálslynda umbótastjórn um kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og … málefni yngstu og elstu kynslóðanna eru forgangsmál ríkisstjórnarinnar og hún mun leggja áherslu á að auka jöfnuð með því að bæta kjör þeirra hópa sem standa höllum fæti.“ Jafnframt sagði: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna.“
    Fyrri ríkisstjórn fór þá leið að fella niður hátekjuskatt og að lækka skattprósentu á almenn laun og fyrirtæki. Ætla mætti, með hliðsjón af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að nú væri röðin komin að lágtekjufólki, öryrkjum og öldruðum að njóta skattalækkana. Þess sjást þó ekki merki í fjárlagafrumvarpinu og sem dæmi má nefna að barnabætur hækka einungis um 300 m.kr., eða 3,5%, og ná ekki að fylgja eftir þróun verðlags. Komugjöld hækka, viðmiðunarmörk fyrir afsláttarkort í heilbrigðisþjónustunni hækka, svo dæmi séu tekin, og þjónusta sem ætti að vera gjaldfrjáls gegnir nú sífellt viðameira hlutverki í tekjuöflun ríkisins. Sértekjur í heilbrigðisgeiranum eru hækkaðar með þessu frumvarpi úr 3,8 ma.kr. í 5,1. Þetta er 30% hækkun en nú nema sértekjur 2,6% af heildarútgjöldum ráðuneytisins en á næsta ári er gert ráð fyrir að sértekjur verði 3,3% af útgjöldum ráðuneytisins. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að hækka komugjöldin almennt um 160 m.kr. Komugjöld fyrir heimsóknir til sérgreinalækna á að hækka um 100 m.kr. og það á að hækka greiðslur frá vistmönnum á öldrunarheimilum um 90 m.kr. Þessar ráðstafanir koma mjög á óvart í ljósi þess að á síðasta þingi stóð þáverandi stjórnarandstaða saman og barðist gegn þessum hækkunum, sem þá voru kallaðir sjúklingaskattar. Núna er þessu einfaldlega rennt inn í frumvarpið og Samfylkingin kokgleypir tillögur Sjálfstæðisflokksins. Fyrir Alþingiskosningar var talað um að stórefla velferðarþjónustuna og það er kapítuli út af fyrir sig að þess skuli ekki sjá stað í þessu frumvarpi um fjárlög og útgjöld ríkisins á komandi ári. Þetta er ekki gert þó að hverju mannsbarni sé ljóst að víða í velferðarþjónustunni horfir til mikilla vandræða ef ekki beinlínis neyðarástands. Eitt stærsta málið frá síðasta vetri þar sem stjórnarandstaðan, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn, stóð saman var um nýskipan lífeyrismála. Þess sér ekki stað í þessu frumvarpi að það eigi að breyta til í þeim málum frekar en öðrum.
    Hækkun skattleysismarka er einfaldasta, besta og réttlátasta leiðin til að bæta kjör hinna lægst launuðu. Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, þskj. 15, 15. mál, sem gerir ráð fyrir að tekin verði upp hærri persónuafsláttur.
    Í greinargerð frumvarpsins segir: „Með frumvarpi þessu er lagt til að bæta verulega hag lágtekjufólks með því að taka upp sérstakan persónuafslátt sem kemur til viðbótar núverandi persónuafslætti. Tekjur manns að 150 þús. kr. á mánuði verða skattfrjálsar, en skattleysismörk eru nú rétt tæplega 90 þús. kr. á mánuði. Nái frumvarpið fram að ganga munu skattar lækka um 21.400 kr. á hverjum mánuði hjá þeim sem hefur 150 þús. kr. á mánuði. Á heilu ári nemur kjarabótin fyrir lágtekjufólk allt að 257 þús. kr. Skattar munu einnig lækka hjá þeim sem hafa tekjur frá 150 þús. kr. til 250 þús. kr. á mánuði, en við þau tekjumörk fellur sérstaki persónuafslátturinn niður. Gert er ráð fyrir að sérstaka persónuafslættinum verði eins og persónuafslættinum ráðstafað til greiðslu tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts og falli niður það sem þá er enn óráðstafað. Hins vegar verður sérstaki persónuafslátturinn ekki millifæranlegur til maka. Ráðherra er falið að setja í reglugerð ákvæði um ráðstöfun sérstaka persónuafsláttarins á móti staðgreiðslu á tekjuári samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda þannig að hann nýtist þá strax eins og kostur er, en eðli málsins samkvæmt verður sérstaki persónuafslátturinn ákvarðaður endanlega við álagningu skatta þegar skattframtal liggur fyrir. Verði frumvarpið að lögum mun það bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega sérstaklega en þeir eru fjölmennir í tekjulægstu hópunum í þjóðfélaginu. Þannig er t.d. talið að nærri þriðjungur aldraðra hafi tekjur lægri en 120 þús. kr. á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi eldri borgara hefur þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna 1988–2007 hjá ellilífeyrisþega sem ekki býr einn verið fjarri því að halda í við kaupmáttaraukninguna hjá almenningi á sama tíma. Hefur hækkunin hjá ellilífeyrisþeganum verið aðeins tæplega 20% en 60% hjá almenningi. Afdrifaríkast fyrir lágtekjufólk hefur verið lækkun skattleysismarka á þessum tíma. Skattleysismörkin eru aðeins rétt tæplega 90 þús. kr. á mánuði en væru um 120 þús. kr. ef þau hefðu fylgt verðlagi og nærri 150 þús. kr. nú ef þau hefðu fylgt launavísitölu. Vegna þessarar þróunar hefur skattlagning á tekjur lægri en 150 þús. kr. á mánuði farið vaxandi. Fyrir ellilífeyrisþega sem greiddi ekki skatt af tekjum sínum við upphaf staðgreiðsluskattskerfisins þýðir lækkun skattleysismarkanna síðan þá minnkandi ráðstöfunartekjur eftir skatta og nú er svo komið að af sambærilegum tekjum og voru 1988 fara ein mánaðarlaun í skatta til ríkisins og lífeyrisþeginn er verr staddur sem því nemur. Þessi þróun kemur skýrt fram þegar skoðuð er skattbyrði einstakra tekjuhópa og framteljendum skipt í tíu jafnstóra hópa. Í lægstu tíund eru 10% tekjulægstu framteljendurnir og þannig koll af kolli. Borin er saman skattbyrði árin 1994 og 2004 og þá kemur í ljós að skattbyrðin hefur vaxið í öllum tíundarhópunum nema þeim hæsta þar sem hún hefur lækkað. Skattbyrðin hefur hins vegar þyngst mest í lægstu tekjuhópunum, um 14% í lægstu tíundinni og 15,3% í næstlægstu. Meðaltalshækkun skattbyrðarinnar hjá öllum tekjuhópunum er um 4,5% samkvæmt gögnum sem Stefán Ólafsson prófessor hefur látið taka saman. Í heildina hafa heildarskatttekjur hins opinbera aukist um 10% af landsframleiðslu frá 1995 til 2004, meðal annars með því að skatttekjur af lágum tekjum hafa aukist á tímabilinu. Fer ekki á milli mála að lækkun skattleysismarka á verulega sök á þessari þróun þar sem saman hefur farið raunlækkun persónuafsláttarins og lækkun tekjuskattsprósentunnar sem léttir sköttum mun meira af háum tekjum en lágum. Afleiðingin verður vaxandi ójöfnuður milli þjóðfélagshópanna sem sést best á þróun svonefnds Gini-stuðuls. Tilgangur frumvarpsins er að rétta hlut þeirra sem lágar tekjur hafa og gera hann svipaðan og var við upphaf staðgreiðsluskattkerfisins með því að færa skattleysismörkin upp í 150 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem hafa þær tekjur og lægri. Á tekjubilinu frá 150 þús. kr. upp í 250 þús. kr. verða einnig hærri skattleysismörk vegna sérstaka persónuafsláttarins og verða þau frá 150 þús. kr. og að 90 þús. kr. á mánuði eins og þau eru nú og fara lækkandi með vaxandi tekjum. Sem dæmi mundi sá sem hefur 2.400.000 kr. í árstekjur eða 200 þús. kr. á mánuði vera með 120 þús. kr. í skattleysismörk í stað 90 þús. kr. nú. Frumvarpið mun bæta kjör tuga þúsunda framteljenda ef það nær fram að ganga.“
    Í umræðum á Alþingi sagði Atli Gíslason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, m.a.: „Við eigum ekki að skattleggja fólk sem er með tekjur undir framfærslumörkum, það er þjóðarskömm en það hefur verið raunin í mörg, mörg ár. Það hefur verið raunin að öryrkjar með lágmarkslífeyri eru skattlagðir og það er ótrúlegt að fólk með 100 þús. kr. framfærslueyri á mánuði þurfi að borga 37% af síðasta tíu þúsund kallinum. Þannig hefur ríkisstjórnarstefnan verið og þannig birtist hún enn í fjárlagafrumvarpinu. Þrátt fyrir fögur fyrirheit heldur persónuafsláttur sem ákveðinn er í fjárlagafrumvarpinu vart við verðlagsþróun, það eru veruleg áhöld um það hvort persónuafsláttur sem ákvarðaður hefur verið í fjárlögum standist verðlagsþróun. Ríkisstjórnin heggur enn í sama knérunn, enn á að hygla stóreigna- og hátekjumönnum og láta öryrkja, aldraða, láglaunafólk og millitekjufólk borga brúsann. Það gengur ekki.“
    Með breytingu á lögum um almannatryggingar sem tóku gildi um síðustu áramót bættist við 300.000 kr. frítekjumark sem veitir öryrkjum rétt til að vinna sér inn 25.000 kr. á mánuði án þess að lífeyrir þeirra skerðist. Í ljós hefur komið að margir öryrkjar hafa nýtt sér þetta frítekjumark þótt lágt sé. Með því að hækka frítekjumarkið verulega mundi skapast raunverulegur hvati til atvinnuþátttöku og samfélagslegrar virkni. Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra, (þskj. 10, 10. mál), til að afnema með öllu þau lagaákvæði sem skerða bætur elli- og örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna bótaþega eða maka hans.
    Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með sínum fögru fyrirheitum mun hún styðja þessi frumvörp og gera viðeigandi breytingar á fjárlagafrumvarpinu til samræmis.

Húsnæðismál.
    Íslendingar hafa lengi litið á það sem sjálfsagðan hluta samfélagsgerðar sinnar að fólk eigi möguleika á því að koma sér þaki yfir höfuðið. Hér hefur ríkt ákveðin þverpólitísk sátt um það markmið að allir eigi rétt á heimili og það skipti máli að fólk geti með reisn komið sér upp heimili hvort sem það er í eigin eigu eða öruggri leigu. Íbúðalánamarkaður hefur tekið stórstígum breytingum hérlendis á undanförnum árum og við búum nú við umhverfi sem stjórnast af innreið bankanna á íbúðalánamarkaðinn og hækkun lánshlutfalls hjá Íbúðalánasjóði sumarið 2004. Öfugt við það sem sumir reiknuðu með þegar viðskiptabankarnir héldu innreið sína á húsnæðislánamarkaðinn hefur orðið erfiðara fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Eftir þessar breytingar varð ákveðin uppstokkun á markaði, margir endurfjármögnuðu lán sín en aðrir, t.d. þeir sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð, tóku jafnvel 100% lán. Á undanförnum árum hefur kostnaður við eigið húsnæði vaxið gríðarlega og á síðustu fimm árum hefur húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs hækkað um tæp 90%.
    Nú eru hins vegar blikur á lofti. Fyrir þremur árum voru vextirnir um 4% en síðan hafa þeir hækkað og eru nú dæmi um meira en 7% vexti til íbúðalána. Þessir háu vextir gera fólki erfiðara um vik við íbúðarkaup, ekki síst því sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Við þetta bætist að núna í sumar var lánshlutfall Íbúðalánasjóðs lækkað úr 90% í 80% og má að hámarki vera 18 m.kr. Lánið þarf að vera innan við 100% af brunabótamati og lóðarmati sem oftast er langt undir markaðsvirði. Afleiðingarnar af hærri vöxtum og meiri greiðslubyrði eru þær að fólk á erfiðara með að standast greiðslumat. Fólk sem fékk greiðslumat fyrir 18 m.kr. fyrir tveimur árum fær kannski núna mat upp á 13–14 m.kr., þ.e. að á sama tíma sem fasteignaverð hækkar lækkar lánveiting Íbúðalánasjóðs. Það þýðir einfaldlega að fólk þarf að fá viðbótarlán með enn hærri vöxtum eða fá veð í eignum ættingja eða vina. Hvernig er staðan fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign og hvað verður um þá sem ekki eiga ættingja sem geta stutt þá? Fjölmennir hópar fólks hafa verið hraktir af almennum íbúðamarkaði. Meðaltekjur fólks duga ekki til að eignast meðalíbúð og til að bæta gráu ofan á svart er leigumarkaðurinn jafnvel enn óaðgengilegri en húsnæðismarkaðurinn. Leiga fyrir meðalíbúð er svo há að venjulegt fólk hefur ekkert aflögu til að leggja fyrir til væntanlegra húsnæðiskaupa. Þær byrðar sem íslenskir húsnæðiskaupendur bera eiga sér ekki hliðstæðu í Evrópu. Hér eru hærri vextir en þekkjast á byggðu bóli, lánin eru verðtryggð til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur og síðan þarf að borga stimpilgjöld af öllu saman.
    Vaxtagjöld vegna íbúðalána hafa farið hækkandi sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna og hafa farið úr 5,5% árið 1994 í 7,2% árið 2005. Á sama tíma hafa vaxtabætur sem hlutfall vaxtagreiðslna lækkað úr 26% í tæp 15% sem sýnir minnkandi stuðning vaxtabótakerfisins. Nettóvaxtagjöld vegna íbúðalána að frádregnum vaxtabótum til heimilanna hafa jafnframt hækkað töluvert eða úr 4% af ráðstöfunartekjum heimilanna árið 1994 upp í 6,1% árið 2005. Þegar tekin eru öll vaxtagjöld vegna allra lána hafa þau hækkað úr 6,7% upp í 9,8% af ráðstöfunartekjum heimilanna á sama tíma. Það er ljóst að hækkun vaxta og vaxtabóta hefur því ekki farið saman og þó að vaxtabótakerfið sé að stærstum hluta að þjóna því fólki sem á erfitt með húsnæðiskaup þá er stuðningurinn of lítill. Vaxtabætur hafa ekki fylgt þróuninni á markaði og þó gert sé ráð fyrir 6,3% hækkun vaxtabóta í fjárlagafrumvarpinu þá dugar það ekki til. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var um aðstæður fólks á húsnæðismarkaði fyrir félagsmálaráðuneytið. Í skýrslunni kemur einnig fram „að langir biðlistar eru eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélögum og Öryrkjabandalagi Íslands, eða um 1.650 manns. Um 70% þeirra eru með heildartekjur undir 150.000 krónum á mánuði og flestir eru einhleypir og barnlausir en einstæðir foreldrar eru um 30%. Yfir 700 börn eru á framfæri þeirra sem eru á biðlistunum. Útlendingar eru 5% þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði. Þar að auki eru 1.100 námsmenn á biðlistum hjá húsnæðisfélögum námsmanna. Í könnunni kemur fram að mikill húsnæðiskostnaður er nátengdur almennum greiðsluerfiðleikum fólks og sterkar vísbendingar eru um að erfitt sé fyrir ungar barnafjölskyldur að koma inn á fasteignamarkaðinn og fólk með tekjur undir meðaltekjum. Því lægri sem tekjurnar eru þeim mun erfiðara er það. Einstæðir foreldrar eru í sérstaklega erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði.“ Þrátt fyrir kannanir og yfirlýsingar hefur ekkert gerst og nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði í sumar um eflingu húsnæðislánakerfisins, sérstaklega um félagslega þáttinn og leigumarkaðinn og átti að skila áliti fyrir 1. nóvember, hefur ekki skilað af sér.
    Úrbóta er þörf. Það þarf að ríkja sátt um að hér starfi Íbúðalánasjóður fyrir alla landsmenn, endurskoða þarf lánshlutfall hans og skoða möguleika á félagslegum íbúðalánum sem engin hafa verið síðan Byggingasjóður verkamanna var lagður niður. Þegar málið var rætt á Alþingi í haust viðurkenndi félagsmálaráðherra að húsnæðisstefnan sé í kalda koli og hér ríkti neyðarástand. Ríkið þyrfti að viðurkenna að húsnæðismál væru velferðarmál, sagði félagsmálaráðherra, en hefur hins vegar enga lausn á takteinum.

Heilbrigðismál.
    Á undanförnum árum hefur gjaldtaka fyrir hvers konar heilbrigðisþjónustu aukist. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram sú stefna að á Íslandi verði veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða, stórauka eigi forvarnir, lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hins opinbera. Þessum markmiðum verður ekki náð nema að aðgengi allra að heilbrigðisþjónustunni sé tryggt, óháð efnahag. Það verður einungis gert með því að leggja af alla gjaldtöku fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu. Einnig er nauðsynlegt að í næstu kjarasamningum verði kjör starfsfólks innan almannaþjónustunnar stórbætt. Ef menn opna ekki augu sín fyrir þeim mikla vanda sem blasir við innan velferðarþjónustunnar þá stefnir þar í mikið óefni. Erfitt er orðið að manna margar stofnanir og horfir beinlínis til landauðnar. Kjaramunur fer vaxandi í samfélaginu og þegar litið er til almannaþjónustunnar sérstaklega þá er ljóst að hún er að dragast aftur úr því sem gerist á almennum vinnumarkaði og ef takast á að manna stofnanir velferðarsamfélagsins verður að bjóða þar upp á kjör og réttindi eins og best gerist á íslenskum vinnumarkaði og því fer afar fjarri að svo sé núna.
    Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í heilsufélagsfræði, hefur staðið að tveimur heilbrigðiskönnunum á landsvísu meðal 18–75 ára einstaklinga, árin 1998 og 2006. Niðurstöður þeirra segir hann benda til brotalama hvað varðar kostnaðarbyrðar fólks vegna heilbrigðisþjónustu. Rúnar sagði m.a. í viðtali við Morgunblaðið 18. nóvember: „Þótt við séum með félagslegt heilbrigðiskerfi og stjórntæki til að jafna út kostnaðinn við heilbrigðisþjónustuna, hefur okkur ekki tekist nægilega vel að jafna kostnaðarbyrðarnar milli þjóðfélagshópa. Það er meiri munur milli þjóðfélagshópa en ég átti von á. Þannig hallar á hópa sem síst skyldi, eins og til dæmis aldraða og öryrkja og þá sem lægstar tekjur hafa. Það samrýmist illa réttlætiskennd þjóðarinnar og vinnur gegn lögum um heilbrigðisþjónustu og um réttindi sjúklinga, sem boða að landsmenn skuli eiga rétt á góðri heilbrigðisþjónustu og að óheimilt sé að mismuna sjúklingum. Þá má minna á að eitt af markmiðum íslenskrar heilbrigðisáætlunar til 2010 er að aðgengi að heilbrigðisþjónustunni sé auðvelt og sem jafnast fyrir alla landsmenn. Þegar við lítum á niðurstöður um hlutfall heildarútgjalda vegna heilbrigðisþjónustu af heimilistekjum, þá sýna þær, að hlutfallið er í hærri kantinum meðal kvenna, yngra og eldra fólks, ekkjufólks, barnafjölskyldna, einbýlinga, námsmanna, þeirra sem ekki hafa vinnu og eru atvinnulausir, þeirra sem hafa lægsta menntun, lágtekjufólks, þeirra sem glíma við króníska sjúkdóma og öryrkja. Meðal þessara hópa er kostnaðarbyrðin mest hjá lágtekjufólki, fólki sem hefur misst maka sinn, atvinnulausum og öryrkjum. Þessi munur kemur fram þrátt fyrir að í okkar félagslega heilbrigðiskerfi sé beitt stjórntækjum sem eiga að verja þessa hópa; ég nefni breytileg komugjöld eftir aldri og örorku, afsláttarkort og tekjutengda endurgreiðslu heildarkostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu. Það er nauðsynlegt að við setjumst yfir þetta mál og reynum að ná fram meiri jöfnuði milli þjóðfélagshópa. Tekjutenging þjónustugjalda er vandmeðfarið og raunar vafasamt úrræði, m.a. vegna þess að ráðstöfunartekjur og greiðslustaða fólks ræður meiru um getu til að greiða fyrir þjónustu en framtaldar heildartekjur.“
    Rúnar nefndi að rúmlega 20% frestar eða hættir við að leita til heilbrigðisþjónustunnar þótt tilefni væri til að leita eftir þjónustu. Ástæður þess að fólk leitar ekki eftir þjónustu voru meðal annars tímaskortur, aðstæður á vinnumarkaði en einnig vekur athygli að um 30% nefna fjárhagslegar ástæður og um 20% nefna að ekki var vitað hvert átti að leita (hægt var að nefna fleiri en eina ástæðu). Rúnar bendir á að það þurfi að lágmarka þann hóp, sem frestar því að leita læknis eða hættir við það. Aðgengið er ekki nægilega gott af mörgum ástæðum. „Þjónustugjöldin hafa sitt að segja og það eru stjórnvöld sem ráða þeim. Upplýsingaskortur og tengslaleysi eru einnig ástæður og aðgengisvandinn, þá þekkingarvandi og tengslavandi. Það er áberandi að fólk sem hefur heimilislækni og getur nafngreint hann, eða á samskipti við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð, frestar því síður að leita sér frekari heilbrigðisþjónustu. Endurskoða þarf sjúkratrygginga- og þjónustugjöld, og heilbrigðiskerfið getur líka stuðlað að betri kynningu á þeirri heilbrigðisþjónustu sem fólki stendur til boða.“ Þá kom einnig fram í rannsókn Rúnars að landafræðin hefur líka sín áhrif á aðgengið. Fjarlægðir skipta máli og þá ekki síst tíminn sem það tekur að komast á þjónustustað. „Heilsugæslustöðvarnar sem nú eru víða komnar um landið veita fólkinu í nágrenni sínu fjölbreytta þjónustu. En dreifingin á sérfræðiþjónustu, sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfun utan sjúkrahúsa er afar skökk að því leytinu til að hún þjappast nær öll saman á suðvesturhorninu. Fólk utan af landi þarf því að gera sér borgarferð með tilheyrandi ferða- og jafnvel gistikostnaði meðan íbúar höfuðborgarsvæðisins geta skroppið í sérhæfðu þjónustuna. Þarna er mikill aðstöðumunur og fjarlægðin og fyrirhöfnin, að ekki sé talað um kostnaðinn, leiða til verra aðgengis landsbyggðarfólks að þessari heilbrigðisþjónustu.“
    Rúnar leggur áherslu á að undið sé ofan af þeirri raunaukningu sem orðin er í útgjöldum einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustunnar. Þessi útgjöld námu 1% af vergri landsframleiðslu árið 1987, en voru komin í 1,7% árið 2004. Meginástæða þess að þessi raunaukning hefur ekki dregið niður aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu almennt er að fólk hefur notið kaupmáttaraukningar á síðustu árum, sem hefur vegið upp á móti raunaukningu heilbrigðisútgjalda. En hækkunin hefur komið illa við þá sem ekki hafa notið kaupmáttaraukningarinnar til fulls, þ.e. aldrað fólk, atvinnulausa, öryrkja, langveika og láglaunafólk. Rúnar segir að niðurstöður rannsóknanna samrýmist illa réttlætiskennd þjóðarinnar og lögum um heilbrigðisþjónustu og réttindi sjúklinga, sem segja að óheimilt sé að mismuna sjúklingum.
    Nauðsynlegt er að tryggja nægilegt fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar en ef fram heldur sem horfir munu ónóg fjárframlög til opinberu heilbrigðisþjónustunnar óhjákvæmilega leiða til þess að fleiri þættir hennar flytjist út fyrir almannatrygginguna og einkarekin starfsemi eflist, sem og að einkasjúkratryggingar verði á boðstólum. Þessi þróun mun leiða til þess að allur almenningur verður skilinn út undan. Framlög til Landspítala, svo dæmi sé tekið, hafa ekki aukist að raungildi undanfarin sjö eða átta ár. Ríkisendurskoðun hefur af þessu tilefni fagnað mikilli framleiðniaukningu á sjúkrahúsinu. Það þýðir að hagrætt hafi verið en í sumum tilvikum hefur það verið á kostnað starfsfólksins. Krafa stjórnvalda um enn meiri „framleiðniaukningu“ er tilræði við velferðarkerfið. Heilbrigðiskerfið þarf meira fjármagn til þess að búa betur að starfsfólki, sjúklingum og síðast en ekki síst þarf að auka forvarnir til að auka heilbrigði þegar til langs tíma er litið.
    Ætla mætti, með hliðsjón af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að nú ætti að taka á vanda heilbrigðiskerfisins. Talað var um að stórefla velferðarþjónustuna og það er kapítuli út af fyrir sig að þess skuli ekki sjá stað í fjárlagafrumvarpinu og útgjöld ríkisins á komandi ári. Þetta er ekki gert þó að hverju mannsbarni sé ljóst að víða í heilbrigðisþjónustunni horfi til mikilla vandræða ef ekki beinlínis neyðarástands. Komugjöld hækka, viðmiðunarmörk fyrir afsláttarkort í heilbrigðisþjónustunni hækka, svo dæmi séu tekin, og þjónusta sem ætti að vera gjaldfrjáls gegnir nú sífellt viðameira hlutverki í tekjuöflun ríkisins. Sértekjur í heilbrigðisgeiranum eru hækkaðar með þessu frumvarpi úr 3,8 ma.kr. í 5,1 ma.kr. Þetta er 30% hækkun en nú nema sértekjur 2,6% af heildarútgjöldum ráðuneytisins en á næsta ári er gert ráð fyrir að sértekjur verði 3,3% af útgjöldum ráðuneytisins. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að hækka komugjöldin almennt um 160 m.kr. og það á að hækka greiðslur frá vistmönnum á öldrunarheimilum um 90 m.kr.
    Fjárveitingar til heilbrigðismála duga ekki til að standa undir þeirri þjónustu sem nauðsynlegt er. Ætlar ríkisstjórnin að axla ábyrgð? Eða er hún staðráðin í því að brjóta niður velferðarþjónustuna til að byggja hana upp að nýju, einkarekna og rándýra? Afgreiðsla komandi fjárlaga er prófsteinn á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Byggðamál.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a.: „Stefna skal að því að allir landsmenn eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu óháð búsetu og fái notið sambærilegra lífskjara. Skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Í rammafjárlögum fyrir næstu fjögur ár verði lögð mikil áhersla á eflingu innviða samfélagsins á sviði samgangna og fjarskipta. Úrbætur í samgöngum eru lykilatriði til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og lækka flutningskostnað. Styttri vegalengdir milli byggðakjarna og öruggari vegir skapa möguleika á stærri og lífvænlegri atvinnu- og búsetusvæðum. Ráðist verði í stórátak í samgöngumálum og aukin áhersla lögð á umferðaröryggi og almenningssamgöngur. Ríkisstjórnin mun beita sér sérstaklega fyrir úrbótum á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Tryggja ber að landsmenn hafi allir færi til að nýta sér þá byltingu sem orðin er í gagnaflutningum. Ríkisstjórnin vill tryggja öryggi í gagnaflutningum til og frá landinu með nýjum sæstreng og sömuleiðis að flutningshraði gagna aukist í takt við þá þróun sem á sér stað. Góð gagnasamskipti auka mjög aðgengi að menntun og þjónustu, óháð landfræðilegri staðsetningu, og fela auk þess í sér tækifæri til nýsköpunar.“ Undir þessa ágætu yfirlýsingu gætu líklega flestir skrifað en eins og við var að búast meinti ríkisstjórnin ekkert með þessu.
    Það er alltaf ánægjulegt að fá auknar tekjur ef þær eru vel fengnar en það er líka gott að vita af því tímanlega og best er ef hægt er að ráðstafa þeim að vild. Til dæmis væri æskilegt að setja aukið fjármagn til sveitarfélaganna, ekki aðeins vegna mótvægisaðgerða og þess að mörg sveitarfélög hafa verið svelt á undanförnum árum heldur líka til að setja þar nýtt og sérmerkt fjármagn inn til þess að styrkja sveitarstjórnarstigið. Sérstök ástæða er til að fjalla um fjármál og stöðu sveitarfélaganna enda eru þau mikilvægur og ört vaxandi hluti í þjóðarbúskapnum. Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin í landinu verið að taka við auknum verkefnum. Í sumu tilvikum hefur verið um samkomulag að ræða á milli ríkis og sveitarfélaga og samið um tilflutning tekjustofna í leiðinni. Í öðrum tilvikum hefur ríkið einhliða sett verkefni til sveitarfélaga sem hafa kostað þau umtalsverðar upphæðir án þess að fá aukna tekjustofna til að sinna þeim. Þá hafa breytingar í skattumhverfi sömuleiðis skert stöðu sveitarfélaganna. Má þar nefna að fjölmargir launþegar hafa kosið að stofna einkahlutafélög og fært þannig skattbyrði sína til og lækkað hana. Á því hafa þeir hagnast og ríkið hefur hagnast á því sömuleiðis en sveitarfélögunum hefur blætt. Þau hafa orðið af útsvarstekjum en ríkið fengið í staðinn aukinn fjármagnstekjuskatt og tekjuskatt frá lögaðilum. Þess vegna hafa sveitarfélögin reist kröfuna um hlutdeild í fjármagnstekjuskatti sem er réttlætismál því að þeir sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt eiga að leggja sitt af mörkum til þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin sinna. Af hverju skyldu þeir ekki greiða sína hlutdeild í leikskóla og grunnskóla fyrir börnin sín eins og allur almenningur gerir?
    Frá 1993 og til ársins 2009 er uppsafnaður halli á rekstri sveitarfélaganna samkvæmt þjóðhagsspá um 50 ma.kr. Aðeins fjögur ár af þessum sautján árum hafa sveitarfélögin skilað tekjuafgangi sem segir ekki alla sögu því að afkomu sveitarfélaganna er afar misskipt. Það er grafalvarleg staða sem blasir við sveitarfélögum sem er að sjálfsögðu hluti af vanda hins opinbera og ríkið verður að hætta að velta verkefnum og vanda yfir á sveitarfélögin og berja sér svo á brjóst yfir því hve vel gengur hjá ríkissjóði. Meðal þess sem sveitarfélögin hafa tekið við en ekki fengið bætt með tekjustofnum eru alls konar tilskipanir í gegnum EES- samninginn en talið er að sveitarfélögin beri meginhluta kostnaðar við innleiðingu EES- tilskipana, jafnvel allt að 75%. Má þar nefna að kostnaður sveitarfélaga við að innleiða svonefnda fráveitutilskipun Evrópusambandsins er talinn nema um 20 ma.kr. og engir nýir tekjustofnar hafa komið þar á móti og er hér aðeins nefnd ein tilskipun af mörg hundruð sem hafa komið frá Brussel.
    Þess sést hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu að fjárhagur sveitarfélaganna verði bættur til frambúðar með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið. Sveltistefna Sjálfstæðisflokksins gagnvart sveitarfélögunum heldur áfram og það kemur einnig fram í svokölluðum mótvægisaðgerðum vegna aflasamdráttar. Sveitarsjóðir og hafnarsjóðir eiga að fá 250 m.kr. á ári í þrjú ár vegna tekjusamdráttar. Svo vill til að hafnarsjóðirnir einir verða af u.þ.b. 150 m.kr. tekjum á ári og líkur benda til að sveitarsjóðir geti orðið af tekjum á bilinu 200–300 m.kr. á ári og er það líklega varlega áætlað. Þetta bætist ofan á hjá sveitarfélögum sem mörg hver eru afar illa stödd fyrir en þurfa að sjálfsögðu að halda uppi fullri þjónustu eftir sem áður. Því miður hefur ríkisvaldið hingað til ekki verið reiðubúið að tryggja tekjugrundvöll sveitarfélaganna til frambúðar og það eru engin teikn á lofti í þessu fjárlagafrumvarpi um að þar verði breyting á. Mikilvægt er að styrkja og breikka tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau geti veitt íbúunum viðunandi þjónustu.
    Það skiptir máli hvernig tekið er á hinum einstöku málum sem snúa að landsbyggðinni sérstaklega. Nánast allar sveitarstjórnir vítt og breitt um landið, sérstaklega í sjávarbyggðunum, hafa sent erindi um það sem þær telja að til þurfi að koma til að styðja við þróun byggðar og atvinnumöguleika þar á komandi árum með tilliti til þess sem ríkisstjórnin hefur ákveðið. Hagkerfið í landinu virðist vera þannig að mikil þensla er á suðvesturhorninu en niðursveifla sums staðar annars staðar, neikvæður hagvöxtur og fólksfækkun. Ef eitthvað er mun frekar herða að hinum dreifðu byggðum við þann niðurskurð sem boðaður hefur verið varðandi þorskaflann. Bankarnir hafa ekki verið mjög viljugir að lána út á land og reyndar bara alls ekki lánað á suma staði og einkafyrirtækin flýja landsbyggðina vegna aðstöðuleysis. Fjármálaráðherra hefur sagt að ríkisstjórnin og þingið ráði ekki markaðnum. Það er rétt. Alþingi ræður ekki yfir peningastefnu bankanna en Alþingi ræður stefnunni í fjármálum ríkisins. Stefna virðist vera sú að stefna í eina átt, að viðhalda þenslunni á suðvesturhorninu en takast ekki á við þann vanda sem er í tvöföldu hagkerfi okkar með niðursveiflu á landsbyggðinni. Þetta kemur m.a. fram í áætlunum um breytingar á skipan Stjórnarráðsins en þar er enn verið að auka útþensluna í Reykjavík í stað þess að nota tækifærið og flytja einstaka stofnanir út á land.
    Fyrsti minni hluti hefur stutt það sem kalla má varanlegar samgöngubætur, varanlega vegagerð, jarðgöng, jarðgangagerð og styttingu akstursleiða milli landsvæða. Um það hafa verið flutt mörg mál undanfarin ár og reyndar var þingsályktun um aukna áherslu á jarðgangagerð samþykkt og henni vísað til ríkisstjórnarinnar í vor. Nauðsynlegt er að áframhaldandi kraftur verði í því að koma okkur inn í nútímann að því er varðar vegakerfi landsins. Það eru mjög arðbærar framkvæmdir og á að setja þær fram yfir margt annað í verklegum framkvæmdum eða framkvæmdum sem ríkið vill ýta undir. Hvers vegna var fyrir tæpum tveimur árum nokkrum samgönguframkvæmdum að sumarlagi frestað um heilt ár fyrir smámuni? Það getur ekki gengið að koma fram með svona misvísandi skilaboð eftir því hvort framkvæmdin er á landsbyggðinni, því þar var vegaframkvæmdum frestað sumarið 2006, eða á hafnarbakkanum í Reykjavík þar sem framkvæmdunum er ekki frestað þrátt fyrir að fjárhæðirnar séu margfalt hærri.
    Mótvægisaðgerðirnar eru 10 ma.kr. og ef við drögum frá þær framkvæmdir sem átti að gera hvort sem er og búið var að ákveða þá eru þetta ekki nema um 4 ma.kr. á þremur árum. Það er rúmlega 1 ma.kr. á ári að meðaltali í framkvæmdaumhverfi hins opinbera og almenna markaðarins sem er upp á nærri 400 ma.kr. Mótvægisaðgerðirnar eru um fjórðungur úr prósenti. Halda menn að fjórðungur úr prósenti sé eitthvert mótvægi við allt hitt, alla hina uppbygginguna sem er fyrst og fremst samanþjöppuð hér á litlu svæði? Það er ekkert mótvægi. Það er svo ójafnt að jafnvel þó að mótvægisaðgerðirnar hafi einhver áhrif, séu af hinu góða og til hins betra, og vonandi að það verði sem mestur árangur af þeim, er hann samt sáralítill í hlutfalli við allt hitt sem verið er að gera með hinni hendinni. Í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, flýtiframkvæmdir og mótvægisaðgerðir er mikið talað um stórfellda aukningu á fjármagni til samgöngumála. Vonandi fæst það staðist skoðun. En er það samt ekki svo að hér er fyrst og fremst um að ræða að koma sér af stað í verkefni sem þegar var búið að fresta undanfarin fjögur ár eða svo vegna þenslunnar að sagt var?
    Þær miklu framkvæmdur sem ráðgerðar eru í samgöngumálum eru þó í algerri óvissu og bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar lýstu yfir miklum efasemdum um að þær kæmu til framkvæmda á næsta ári eins og gert er ráð fyrir. Hvers vegna er verið að lofa einhverju sem á ekki að standa við? Landsbyggðin lifir ekki á loforðum?
    Ný raforkulög hafa leitt til hækkunar á húshitunarkostnaði á köldum svæðum þrátt fyrir fyrirheit um annað. Þegar raforkulögunum var breytt fyrir tæpum tveimur árum var tekinn upp einn taxti í stað tveggja áður. Rafmagn til húshitunar var á mun lægra verði en rafmagn til almennra nota en í dag greiða allir sama verð. Niðurstaðan er lækkun til þeirra sem nota rafmagn aðeins til lýsingar og fyrir ýmiss konar rafmagnstæki en hækkun til þeirra sem þurfa að kynda með rafmagni. Rafmagn hefur hækkað um tæp 25% til þeirra sem nota rafmagn til húshitunnar og það er ekki eins og menn töluðu um og óeðlilegt að fólk þurfi að borga þetta hátt verð fyrir að nota rafmagn til húshitunnar. Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum vilja hækka niðurgreiðslur til að rétta hlut þeirra sem ekki eiga kost á hitaveitu. Kristinn Jónasson, formaður samtakanna, sagði m.a. í samtali við Ríkisútvarpið (16. nóvember): „Íslendingar [framleiða] það mikið af orku bæði raforku og jarðvarma og okkur finnst það ekki eiga að skipta máli hvaða orkugjafa þú notar til að kynda húsin þín þannig að menn hafa nú verið sammála fram að þessu að það eigi að reyna að jafna orkukostnað allra landsmanna og hafa þess vegna verið með svokallaða niðurgreiðslu á raforku og við viljum að stjórnvöld auki þessar niðurgreiðslur til þess að jafna orkukostnað þeirra sem nota rafmagn til húshitunnar.“ Þær upphæðir sem ætlaðar eru í frumvarpinu til þessa málaflokks duga engan veginn til að vega upp þann mikla mun sem það kostar að hita hús á köldum svæðum.
    Það er ekki einungis að húshitunarkostnaður sé hærri á landsbyggðinni þar sem engin er hitaveitan heldur er raforkuverð til fiskvinnslufyrirtækja, sem í mörgum tilfellum eru stóriðjur hinna smærri byggða, óeðlilega hátt. Það er kunnara en frá þurfi að segja að fyrir um þremur árum gengu í gildi lög byggð á Evrópusambandsreglum um framleiðslu, flutning og sölu á raforku. Í kjölfarið urðu talsverðar hækkanir á raforkuverði víðast hvar, einkum þó á landsbyggðinni. Ýmsum aðilum og þar á meðal fiskvinnslu í landinu finnst raforkuverðið tilfinnanlega hátt og bera sig eðlilega saman við stórnotendur, enda eru fiskvinnslufyrirtækin í mörgum tilvikum stórir kaupendur að orku, t.d. fiskimjölsverksmiðjur eða fyrirtæki sem reka aflmiklar frystingarstöðvar í landi. Á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva í haust voru leiddar að því líkur að raforkuverð til fiskvinnslunnar væri að meðaltali um 6,30 kr. á kílóvattstund. Talið var að raforkuverð til stóriðju gæti verið nálægt 2 kr. á kílóvattstund, sem er nú líklega ansi ríflega áætlað. Væri ekki heppilegt að ríkisstjórnin sem verið hefur í miklum vandræðum með handabakalegar mótvægisaðgerðir sínar að grípa til myndarlegra mótvægisráðstafana og aðgerða gagnvart fiskvinnslunni sem væru fólgnar í því að tryggja henni hagstæðara orkuverð?
    Það væri út af fyrir sig fróðlegt að fá frekari upplýsingar um uppbyggingu í fjarskiptamálum vítt og breitt um landið í samræmi við fyrirheit í fjarskiptaáætlun því að fjárlagafrumvarpið veitir engin sérstök svör í því efni. Þegar Síminn var seldur á sínum tíma var talað um að peningarnir yrðu meðal annars notaðir til að koma upp háhraðaneti í dreifðari byggðum landsins. Fram hefur komið í fréttum (Ríkisútvarpið 12. nóvember) að það kostar íbúa í Svarfaðardal 250 þús. kr. að tengjast nýjum ljósleiðara í dalnum og þegar upp er staðið þá borga þeir 60–70 þús. kr. meira á ári en almennir notendur í Reykjavík borga fyrir sambærilega tengingu. Samkvæmt þeim áætlunum sem Fjarskiptasjóður vinnur eftir átti að vera búið að leggja ljósleiðara í Svarfaðardal á árinu 2007. Kannski gengur það eftir, eða var framkvæmdum frestað til að draga úr þenslu? Vonandi gefst tækifæri til þess að afla nánari upplýsinga fyrir þriðju umræðu um frumvarpið.

Mennt er máttur.
    Menntun er forsenda framfara og nýsköpunar. Framtíð Íslendinga í sátt við umhverfið byggir á þekkingarauði þjóðarinnar. Þann auð ber að ávaxta með öflugu menntakerfi fyrir alla á öllum skólastigum. Mikilvægt er að tryggja jafnan aðgang að menntun, óháð efnahag, búsetu og öðrum þáttum. Nú liggja fyrir fjögur ný frumvörp frá menntamálaráðherra þar sem boðuð er ný menntastefna og aukin áhersla á menntamál en því miður sér þess ekki stað í fjárlagafrumvarpinu.
    Framhaldsskólar landsins þurfa að þola raunlækkun milli ára verði ekki breyting á fjárveitingum í meðförum fjárlaganefndar. Þetta gengur gegn öllum fyrirheitum stjórnvalda um úrbætur og um öflugan framhaldsskóla fyrir alla. Enn eru kostnaðarútreikningar miðaðir við gallað reiknilíkan sem hefur einna helst virkað sem tæki til að deila út of litlum fjármunum. Styrkja þarf framhaldsskólana til að þeir geti boðið upp á fjölbreytt nám, hvort sem er bóknám, iðnnám eða listnám, og tryggja þarf að fleiri haldi áfram námi að loknum grunnskóla.
    Þá fær Háskóli Íslands einungis 3% hækkun vegna fjölgunar ársnema og Kennaraháskóli Íslands 3,2% miðað við síðasta ár. Á móti er þeim gert að taka á sig 105,3 m.kr. hagræðingarkröfu og einnig er sértekjukrafan hækkuð um 318 m.kr. og þeim gert að greiða 70,6 m.kr. fasteignaskatt. Hliðstæðar kröfur eru gerðar til Kennarháskóla Íslands. Til samanburðar fá Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst nálægt 6% hækkun. Miklu skiptir að tryggja jafnan aðgang nemenda að háskólanámi og nemendafjölgun sé ekki fyrst og fremst beint til skóla sem innheimta veruleg skólagjöld. Fyrirsjáanlega þarf Háskóli Íslands að takmarka fjölda nemenda við skólann umtalsvert á næstu árum, ef nemendafjölgun verður ekki bætt með auknum framlögum en á næsta ári gerir skólinn ráð fyrir að framlög vanti fyrir 435 nemendaígildi. Þá er Háskólanum á Akureyri haldið í úlfakreppu vegna skuldastöðu sinnar en miklu skiptir að hún verði leiðrétt, líkt og gert hefur verið við sumar opinberar stofnanir í fjáraukalögum og fjárhagsgrunnur hans fylgi eftir vexti hans. Þrátt fyrir hástemmd loforð þingmanna stjórnarflokkanna bólar ekki enn á stofnun Háskóla Vestfjarða á Ísafirði.
    Áfram er staða tónlistarnáms og þátttaka ríkisins í þeim kostnaði í uppnámi. Hefur það bitnað hart t.d. á nemendum á landsbyggðinni sem sækja þurfa nám lengra að. Jafnrétti til náms og öflugir skólar um land allt eru lykilatriði fyrir þróun samfélagsins. Þetta þarf að tryggja, ekki aðeins með stefnumótun heldur líka í fjárlögum.

Utanríkismál.
    Útgjöld utanríkisráðuneytisins hækka um 2 ma.kr. frá fjárlögum 2007 og ríkisstjórnin stærir sig af auknu framlagi til eflingar þróunarmála. Það er vel að við veitum meira fé í þróunaraðstoð til þeirra sem vissulega þurfa þess. 1. minni hluti fagnar þeim breyttu áherslum sem utanríkisráðherra kynnti fyrr í sumar. Þegar að er gáð kemur í ljós að útgjaldaliðurinn Þróunarmál og alþjóðastofnanir hækkar um tæpar 500 m.kr. en útgjaldaliðurinn Varnarmál og Keflavíkurflugvöllur um tæpan 1,5 ma.kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir um milljarði til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og ef embætti ríkislögreglustjórans er tekið með þá er það um 1,5 ma.kr. til viðbótar. Á sama tíma standa fjárveitingar til sýslumanna úti á landi í stað og eru að minnka að raungildi. Út úr þessu má lesa að þjónustan við fólkið er að dragast saman á sama tíma sem dómsmálaráðherra er gjörsamlega búinn að tapa sér í hernaðarhyggju sem hann réttlætir með ímyndaðri hryðjuverkaógn. Nú er svo komið að um 44% af útgjöldum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er vegna löggæslu- og öryggismála en einungis 17,5% fara til sýslumanna. Ef útgjöld til kirkjumála eru undanskilin, en dómsmálaráðherra hefur viðrað þá skoðun sína að þau eigi ekki lengur erindi í sérstakt ráðuneyti, þá eru um 60% af útgjöldum ráðuneytisins til þessara svokölluðu öryggismála. Þetta er þróun sem verður að sporna gegn.

Breytingar á stjórnarráðinu.
    Á sumarþingi var samþykkt að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands, lögum nr. 109 / 2007. Þá skorti alla nánari útfærslu á þeim tilfæringum sem til stóðu en í sumar og haust hafa stjórnarflokkarnir togast á um verkefni. Hér verður ekki fjallað nánar um þessar breytingar en einungis vakin athygli á að í umsögn fjármálaráðuneytisins um þessar breytingar sagði m.a.: „Markmið þessara aðgerða er að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta betur að þörfum nútímans og að ráðuneyti verði öflugar og skilvirkar einingar þar sem skyldum málaflokkum er skipað saman undir eina stjórn. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. … Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega. Markmið ríkisstjórnarinnar í því sambandi er að þeim kostnaði verði haldið í lágmarki þannig að hann rúmist innan ramma viðkomandi ráðuneyta og stofnana.“
    Þetta kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins stenst engan veginn og nú þegar liggja á borðinu beiðnir á fjáraukalögum fyrir árið 2007 og fjárlögum næsta árs upp á hundruð milljóna króna vegna þessara áformuðu breytinga. 1. minni hluti telur að nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga um uppstokkun á ráðuneytum og verkefnum þeirra muni þær breytingar einar sér kalla á aukin ríkisútgjöld á næstu árum sem gætu numið milljörðum króna. Þessi aukning kemur öll í 101 Reykjavík.
    Þá eru gerðar alvarlegar athugasemdir við þau áform meiri hlutans að keyra inn breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið nú við 2. umræðu sem byggja á fjárlagaliðum og lögum sem ekki eru fyrir hendi. Það er að mati 1. minni hluta ólöglegt og óþingræðislegt. Fjárlagafrumvarpið og fjárlög eiga að byggja á gildandi lögum. Ef ný lög kalla á breytingar á fjárlögum eru flutt um þær fjáraukalög sem má bera fram eins oft og þarf innan ársins. Með þessum vinnubrögðum meiri hlutans er í raun verið að valta yfir Alþingi og virða að engu lög og þingræðislegar hefðir. Virðist ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ætla að halda áfram þeim yfirgangi og valdbeitingu sem lýsti sér best á sumarþinginu þegar keyrð voru í gegn breytingar á þingsköpum og Stjórnarráði í fullkomnu ósætti innan Alþingis. Þau ráð sem meiri hlutinn hefur sótt í þessu máli eru mjög sérstæð.

Lokaorð.
    Ástæða væri til að gera athugasemdir við ýmislegt fleira í þessu frumvarpi. Þær athugasemdir bíða þó 3. umræðu þegar allar breytingartillögur ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar liggja fyrir og heildarmynd er komin á frumvarpið. 1. minni hluti vill leggja sérstaka áherslu á vandaðan undirbúning fjárlaga. Viðvarandi hallarekstur ríkisstofnana vegna þess að þær fá of lítið fjármagn á fjárlögum gengur ekki til frambúðar. Tryggja verður eðlilegan rekstrargrunn stofnana og ábyrga áætlanagerð og fjármálastjórn. Nauðsynlegt er að nota nú tækifærið og greiða upp halla á stofnunum ríkisins og koma þeim á réttan fjárhagslegan grundvöll. 1. minni hluti hefur lýst sig reiðubúinn til að standa að tillögum þar um og tryggja eðlilegar fjárveitingar í fjárlögum fyrir árið 2008 svo ekki þurfi að hefja sama leikinn með fjáraukalögum næsta árs.
    1. minni hluti hefur lagt á það áherslu að tekin væru upp ný vinnubrögð og þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur meiri hluti fjárlaganefndar ekki náð að breyta vinnulagi, a.m.k. enn sem komið er. Nauðsynlegt er að taka upp nýjar verklagsreglur sem auki sjálfstæði fjárlaganefndar og gagnsæi við fjárlagagerð og mun 1. minni hluti að sjálfsögðu vinna með meiri hlutanum að slíkum breytingum. Fjárheimildir og uppsafnaður vandi er látinn flæða á milli ára þannig að alla yfirsýn vantar og þetta hefur leitt til að fjárlög ríkisins eru ekki sá skýri rammi um rekstur ríkisins eins og þau eiga að vera. Vegna þessa eru fjárlögin ekki það verkfæri við stjórn efnahagsmála eins og þau gætu verið. Ríkisstjórnin hefur með kæruleysislegri umgengni sinni um fjárlögin sýnt að ekki á að nota ríkisfjármálin sem eitt af stýritækjunum í efnahagslífinu.

Alþingi, 27. nóv. 2007.



Jón Bjarnason,


frsm.


Guðjón A. Kristjánsson.