Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 457  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2008.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



    Umrót og óvissa einkenna horfur í efnahagsmálum eins og rækilega var bent á í nefndaráliti 1. minni hluta fyrir 2. umræðu fjárlaga. Helsta verkefni stjórnvalda er að koma á jafnvægi og stöðugleika í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgunni niður fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans. Fram undan eru kjarasamningar og aðilar vinnumarkaðarins auk stjórnvalda hljóta að vinna að því að gera samninga sem stefna að þessu markmiði. Það er ávinningur allra í þjóðfélaginu, sérstaklega þeirra skuldsettu, að hemja verðbólguna.
    Fjármálaráðuneytið spáir því að verðbólgan á næsta ári verði 3,3% sem er liðlega fjórðungi yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Það yrði þá fimmta árið í röð sem verðbólgan er meiri en 2,5%. Greinilegt er að há verðbólga er að festast í sessi öllum almenningi til tjóns. Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð á þessari þróun og skortir greinilega nægilegan vilja til ábyrgrar efnahagsstjórnar. Verðbólgutölur undanfarinna ára bera það með sér og nýleg varnaðarorð frá ýmsum aðilum, svo sem alþjóðagjaldeyrissjóðnum, um hættuna á snöggu og skyndilegu falli íslenska gjaldmiðilsins um allt að 25% og verðbólguöldu í kjölfarið. Slík atburðarás, sem stundum er kölluð hörð lending efnahagslífsins, mundi leika skuldsett heimili landsmanna grátt, ekki hvað síst fyrir tilverknað verðtryggingar lánsfjár.
    Hlutverk stjórnvalda er að hafa þá stjórn á efnahagsmálum, meðal annars með fjárlögum ríkisins, að sæmilegt jafnvægi sé og að verðbólga sé innan settra marka. Horfurnar fyrir næsta ár eru ekki góðar þegar litið er til forsendna fjárlagafrumvarpsins. Umsvifin næstu tvö ár, 2008 og 2009, verða of mikil á sviði einkaneyslu og fjármunamyndunar til þess að nokkur von sé til þess, að óbreyttu, að ná verðbólgunni niður í 2,5%, sem er markmið Seðlabankans. Líta verður til þess að fjármálaráðuneytið gerir ekki ráð fyrir því að ráðist verði í nýjar stóriðjuframkvæmdir á þessum árum, en hins vegar er unnið að því hörðum höndum að jafnvel verði af þremur til fjórum nýjum framkvæmdum á næstu árum. Gangi það eftir verður þenslan mun meiri og enn líklegra en áður að verðbólgan verði viðvarandi og langtum hærri en stjórnvöld stefna að.
    Greinilegt er að miklar breytingar hafa orðið í íslensku efnahagslífi frá árinu 2003. Umfang þess hefur aukist gríðarlega. Verg landsframleiðsla jókst um 46% á aðeins fjórum árum, frá 2003 til 2007 og að magni til um nærri 400 milljarða kr. miðað við verðlag hvers árs. Þegar tekin er saman einkaneysla og fjármunamyndun á þessu tímabili kemur í ljós að útgjöldin hafa verið á fjórum árum sem svarar sex ára útgjöldum ársins 2003. Voru útgjöldin þó ekki í neinni lægð það ár heldur þau mestu frá 1996 að árinu 2000 undanskildu, þar sem einkaneysla og fjármunamyndun var örlítið hærri að magni til. Í fjárhæðum talið var aukningin þessi ár svo mikil að hún ein og sér jafngildir landsframleiðslu í heilt eitt ár og fjórum mánuðum betur. Það er gríðarleg aukning á aðeins fjórum árum, sem hefur kostað ójafnvægi í efnahagslífinu með tilheyrandi sveiflum í gengi og verðbólgu.
    Áform um margvíslegar stjóriðjuframkvæmdir liggja fyrir, fjárfesting í íbúðarhúsnæði verður áfram mikil, miklar opinberar framkvæmdir eru fram undan og stór verkefni á vegum einkaaðila. Efnahagskerfið hefur stækkað og segja má að alþjóðavæðingin og EES-samningurinn hafi stuðlað að því sérstaklega með frjálsu flæði vinnuafls. Á þessum fjórum árum hefur fjöldi fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði tvöfaldast, farið úr liðlega 10.000 manns í rúmlega 21.000 í júlí síðastliðnum og nam þá um 10% vinnuaflsins. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram og að stór hluti útlendinga sem hingað hafa flust muni taka hér upp fasta búsetu. Áhrifin verða varanleg stækkun hagkerfisins og aukin framleiðslugeta og ætla má að jafnvægi sem að er stefnt muni taka mið af því. Þessu mun fylgja aukin eftirspurn á fasteignamarkaði og aukin útgjöld við hina nýju landsmenn sem stjórnvöld verða að gera ráð fyrir meðal annars í skólakerfinu. Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar lýsir nokkrum áhyggjum yfir því að verulega skortir á að lagt sé nægilegt fjármagn í fjárlagafrumvarpið til þess að mæta þessum samfélagsbreytingum.

Almannatryggingar.
    Nú liggja fyrir tillögur stjórnarmeirihlutans um hækkun á framlögum til almannatrygginga. Stærstu atriðin eru að lagt er til að afnema að fullu skerðingu tryggingabóta vegna tekna maka frá og með 1. apríl 2008 og að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verður 100 þús. kr. á mánuði frá 1. júlí 2008. Að auki eru tillögur um að innlausn séreignarlífeyrissparnaðar muni ekki skerða lífeyrisgreiðslur eftir 1. janúar 2009, að vasapeningar vistmanna á stofnunum muni hækka um 30% um mitt ár og boðaðar eru aðgerðir til þess að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta. Kostnaður vegna tillagnanna verður á næsta ári um 2.700 millj. kr. og 4.300 millj. kr. árið 2009 þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda.
    Fyrsti minni hluti fagnar framkomnum tillögum stjórnarflokkanna og telur þær til bóta, en bendir þó á að þær virðast gagnast að nokkru marki tiltölulega litlum hluta ellilífeyrisþega. Nákvæmar upplýsingar um áhrif breytinganna hafa hins vegar ekki verið lagðar fram. Rétt þykir að minna á að aðeins er ár liðið frá því að Alþingi samþykkti viðamiklar breytingar til þess að rétta hlut elli- og örorkulífeyrisþega. Talið var þá að kostnaðarauki vegna þeirra breytinga yrði um 6 milljarðar kr. á þessu ári og um 7 milljarðar kr. frá og með árinu 2008. Samanlögð áhrif af þessum tveimur breytingum verða nærri 10 milljarðar kr. á næsta ári og ríflega 11 milljarðar kr. frá og með árinu 2009. Í ljósi þess að lífeyristryggingar eru áætlaðar um 43 milljarðar kr. á næsta ári má sjá hversu kjör elli- og örorkulífeyrisþega hafa verið orðin ófullnægjandi. Um fjórðungs hækkun lífeyrisgreiðslna á aðeins tveimur árum segir sína sögu. Vísað er til þingsályktunartillögu á þskj. 3 á 133. löggjafarþingi, um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, sem flutt var af öllum þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu og ítarlegrar umfjöllunar um velferðarmál í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar á þskj. 345 á yfirstandandi þingi til þess að lýsa almennt áhersluatriðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins í málefnum elli- og örorkulífeyrisþega.
    Sérstaklega er minnt á nauðsyn þess að bætur almannatrygginga fylgi almennri launavísitölu og nægi til framfærslu svo að ekki komi til þess á nýjan leik að kjör elli- og örorkulífeyrisþega rýrni í samanburði við aðra þjóðfélagshópa. Í tillögu þingmanna þáverandi stjórnarandstöðu, sem minnt er á að framan, er meðal annars lagt til að skilgreind verði neysluútgjöld lífeyrisþega sem myndi viðmiðun fyrir grunnlífeyri og tekjutryggingu. Viðmiðunin hækki síðan í samræmi við neysluvísitölu og hækki launavísitala umfram neysluvísitölu verði tekið mið af henni og þannig verði lífeyrisþegum tryggð hlutdeild í auknum kaupmætti í samfélaginu. Þá er einnig sérstaklega minnt á áherslur 1. minni hluta á hækkun persónuafsláttar þeirra sem hafa lágar tekjur og auka með þeim hætti kaupmátt þess hóps í þjóðfélaginu. Slík aðgerð mundi að sjálfsögðu gagnast vel elli- og örorkulífeyrisþegum.
    Vakin er athygli á því að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja kemur ekki fram hvernig öryrkjum verði skilað sambærilegum ávinningi og ellilífeyrisþegar fá en með frítekjumarki vegna atvinnutekna og að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóði. Greinilegt er að þetta mikilvæga atriði er í óvissu og ríkisstjórnin hefur ekki komið sér niður á lausn fyrir öryrkja. Þess er krafist að sem fyrst verði allri óvissu eytt um hvort og hvernig loforð ríkisstjórnarinnar verði efnt. Annað atriði í yfirlýsingunni er líka þess eðlis að frekari skýringa er þörf, en það varðar boðaðar sérstakar aðgerðir til þess að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta frá og með 1. apríl 2008. Ekkert er látið uppi um það hverjar þessar sérstöku aðgerðir kunna að vera. Af hálfu 1. minni hluta er sett fram sú skoðun að eina færa leiðin, sem sjáanleg er til þess að komast hjá hinum árlegu hvimleiðu kröfum Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslur frá tugum þúsunda lífeyrisþega, eða hið gagnstæða, sé að ákveða að greiddar bætur séu endanlegar og breytingar á bótafjárhæð lífeyrisþega vegna þess að aðstæður hafa breyst gildi aðeins fram í tímann en hafi ekki áhrif á þegar greiddar bætur.

Heilbrigðismál.
    Rík ástæða er til þess að gera sérstaka grein fyrir áformum í fjárlagafrumvarpinu um verulega hækkun sértekna í heilbrigðiskerfinu sem lýsir einfaldlega áformum um hækkun á hlut sjúklinga. Samtals verða þessar sértekjur um 5,1 milljarður kr. og hækka um 34% en þær voru 3,8 milljarðar kr. í fjárlögum yfirstandandi árs.Heilbrigðisráðuneytið mun afla með sértekjunum tekna sem standa undir um 3,3% af útgjöldum ráðuneytisins. Það er hækkun úr 2,6% eða um fjórðung. Þetta ber að skoða í því ljósi að sjúklingar eða notendur heilbrigðisþjónustunnar greiða um 17% af heildarkostnaðinum og ríkið 83% samkvæmt síðustu tölum. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að komugjöld hækki um 160 millj. kr. og gert er ráð fyrir hækkun á viðmiðunarmörkum afsláttarkorta í heilbrigðisþjónustunni. Hækka á greiðslur frá vistmönnum á öldrunarheimilum um 90 millj. kr. en í frumvarpinu segir að það sé vegna aukinna tekna vistmanna. Tæpur helmingur sérteknanna kemur Landspítalanum, rúm 25% frá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum og 11% frá öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimilum. Hækkun sérteknanna í fjárlögunum er greinilega til þess að auka hlut sjúklinganna. Ekki er gott að meta hve mikil hækkunin kann að verða en hún gæti orðið rúmlega 1% og yrði þá hlutur sjúklinga orðinn meiri en 18% af heildarkostnaði heilbrigðiskerfisins.

KADECO, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.
    Málefni félagsins komu til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að tekjur og gjöld félagsins séu færð í gegnum ríkissjóð og gerir 1. minni hluti ekki athugasemd við þá skipan mála og telur hana eðlilega. Gerð er athugasemd við að ekki hefur verið orðið við beiðni sem fram kom í nefndinni um að þar yrðu lögð fram og kynnt öll tilboð sem borist hafa í eignir og allir samningar, bæði um sölu eigna og kaup félagsins á þjónustu. Nefndarmenn fjárlaganefndar fengu að kynna sér kaupsamninga, sem reyndar voru óundirritaðir, með skilyrði um að virða trúnað hvað varðar söluskilmála þar til kaupendur hefðu samþykkt að skilmálarnir yrðu opinberir. Sjálfsagt er að virða þann trúnað en 1. minni hluti telur að þeir sem annast sölu á eignum ríkissjóðs og þeir sem bjóða í þær verði að undirgangast það að samningar og tilboðin verði gerð opinber. Ríkið getur ekki átt í viðskiptum sem ekki þola dagsins ljós. Þess er vænst að sem fyrst verði uppfylltar fram komnar óskir í fjárlaganefnd um umbeðnar upplýsingar.
    Ástæða er til þess að vekja athygli á þeirri gleðilegu þróun sem orðið hefur á Suðurnesjum í atvinnumálum svæðisins, þrátt fyrir brottför hersins, að íbúum heldur áfram að fjölga og atvinnulíf virðist styrkjast jafnt og þétt. Vel hefur gengið að skapa ný störf í stað þeirra sem hurfu með brottför hersins og mun betur gengur að koma húseignum á Keflavíkurflugvelli í ný not en búist hafði verið við. 1. minni hluti fagnar þessum góða árangri í atvinnuuppbyggingu til þessa.

Alþingi, 11. des. 2007.



Kristinn H. Gunnarsson,


frsm.


Jón Bjarnason.