Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 577. máls.

Þskj. 893  —  577. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg
einkamálaréttarákvæði um hjúskap,
ættleiðingu og lögráð.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samkomulag, sem undirritað var í Stokkhólmi 26. janúar 2006 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og prentað er sem fylgiskjal með lögum þessum, um breytingar á samningi sömu ríkja frá 6. febrúar 1931, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem staðfestur var með lögum nr. 29 8. september 1931.

2. gr.

    Þegar samkomulag það sem um ræðir í 1. gr. hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði þess hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Fylgiskjal.


Samkomulag milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar
um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og
Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og
lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931.


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:

I.


    Á samningnum milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931, eru gerðar eftirfarandi breytingar:

     3. gr. hljóði svo:
    Að því er snertir fjármál hjóna, sem eiga, og áttu við stofnun hjónabandsins, ríkisfesti í samningsríki, skal beita lögum þess samningsríkis þar sem þau tóku sér heimilisfesti þegar þau gengu í hjónaband.
    Hafi bæði hjónin síðar tekið sér heimilisfesti í öðru samningsríki og búið þar í að minnsta kosti tvö ár skal í staðinn beita lögum þess ríkis. Hafi bæði hjónin fyrr á hjónabandsárum sínum átt heimilisfesti þar, eða eigi þau ríkisfesti í því ríki, skal þó beita lögum þess ríkis um leið og þau taka sér þar heimilisfesti.

     Ný grein, 3. gr. a, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
    Hjón, sem 3. gr. á við um, geta gert með sér samkomulag um að um fjármál þeirra skuli beita lögum samningsríkis þar sem annað hvort þeirra á heimilisfesti eða ríkisfesti þegar samkomulagið er gert. Slíkt samkomulag um lagaval má einnig gera fyrir hjónaband.
    Hafi annað hvort eða bæði hjónin tekið sér heimilisfesti í öðru samningsríki á hjónabandstímanum geta þau einnig gert með sér samkomulag um að beita skuli lögum þess samningsríkis þar sem þau áttu síðast bæði heimilisfesti samtímis.

     Ný grein, 3. gr. b, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
    Um heimild annars hvors hjóna til að ráða yfir fasteign, samsvarandi eign eða bústað, sem er í einhverju samningsríkjanna, skal jafnan fara eftir lögum þess ríkis.

     Ný grein, 3. gr. c, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
    Ef skipt er um lög, sem beitt er um fjármál hjóna, hefur það engin áhrif á réttarverkan löggerninga sem áður voru gerðir.
    Um gildi ákvæða kaupmála fer eftir lögum þess samningsríkis, sem á að beita um fjármál hjónanna, þegar slíkt álitamál kemur upp.

     4. gr. hljóði svo:
    Samkomulag um lagaval eða kaupmála hjóna, sem 3. gr. og 3. gr. a eiga við um, skulu skoðuð gild í öllum samningsríkjunum hvað form þeirra snertir hafi þau, þegar þau voru gerð, uppfyllt formskilyrði:
     1.      þeirra laga sem skv. 3. gr. og 3. gr. a átti að beita um fjármál hjónanna, eða
     2.      laga samningsríkis þar sem bæði hjónin eða annað hvort þeirra átti ríkisfesti.
    Innihaldi lögin ekki formskilyrði hvað snertir samkomulag um lagaval fer um gildi þess samkvæmt formskilyrðum kaupmála.
    Sérhvert ríkjanna getur, gagnvart þriðja manni, gert það að skilyrði fyrir gildi samkomulags um lagaval eða kaupmála að samkomulagið eða kaupmálinn sé skráður samkvæmt lögum þess.

     Ný grein, 4. gr. a, sem bætt er inn í samninginn, hljóði svo:
    Hafi hjón, sem 3. gr. á við um, síðar tekið sér heimilisfesti í ríki, sem ekki er samningsríki, er ekki unnt að beita ákvæðum samningsins um fjármál þeirra.

II.


    Ákvæðum þessa samkomulags skal ekki beitt ef hjúskap hjónanna er lokið eða hjónin eru skilin að borði og sæng áður en það öðlast gildi.

III.


    Samkomulaginu verður ekki beitt í Færeyjum eða á Grænlandi, en unnt er að láta það öðlast gildi þar, að undangengnum samningaviðræðum danska fjölskyldu- og neytendaráðuneytisins og dómsmálaráðuneyta hinna samningsríkjanna, með þeim frávikum sem sérstakar færeyskar eða grænlenskar aðstæður geta gefið tilefni til.

IV.


    Samningsríkin geta gerst aðilar að samkomulagi þessu með
     a.      undirritun án fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu, eða
     b.      undirritun með fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu ásamt eftirfarandi fullgildingu eða staðfestingu.
    Fullgildingarskjöl skulu varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu.
    Samkomulagið öðlast gildi fyrsta dag þess mánaðar er hefst tveimur mánuðum eftir að öll samningsríkin hafa gerst aðilar að samkomulaginu. Sænska utanríkisráðuneytið tilkynnir samningsríkjunum um móttöku fullgildingarskjalanna til vörslu og hvenær samkomulagið öðlast gildi.

V.


    Frumrit þessa samkomulags skal varðveitt í sænska utanríkisráðuneytinu er lætur hverju samningsríki í té staðfest endurrit.
    Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar, sem hafa fullt umboð, undirritað samkomulag þetta.

    Gjört í Stokkhólmi hinn 26. janúar 2006 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og að því er sænskuna varðar í tveimur textum, öðrum fyrir Finnland og hinum fyrir Svíþjóð, og eru allir textarnir jafngildir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fullgilda samkomulag sem gert var 26. janúar 2006 um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931. Einnig er lagt til að samkomulagið öðlist lagagildi hér á landi á sama hátt og á við um samninginn sjálfan og fyrri breytingar á honum.
    Samkomulagið hefur að geyma reglur um lagaval í málum er varða fjármál hjóna. Ákvæðin um fjármál hjóna í norræna samningnum um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð hafa verið í gildi óbreytt frá undirritun samningsins í Stokkhólmi 6. febrúar 1931. Breytingar á ýmsum öðrum ákvæðum samningsins hafa á hinn bóginn verið gerðar, þ.e. með samkomulagi samningsríkjanna frá 26. mars 1953, 3. nóvember 1969, 20. nóvember 1973, 25. febrúar 2000 og 6. febrúar 2001.
    Frá því að norræni samningurinn frá 1931 var gerður hafa orðið breytingar á lögum norrænu ríkjanna um fjármál hjóna og eru þau nú mun ólíkari en þá var þótt byggt sé á svipuðum grundvallarsjónarmiðum. Ítarlega lýsingu á því sem skilur á milli í lögum hinna norrænu ríkja er að finna í riti Anders Agell prófessors: „Nordisk äktenskapsrätt; En jämförande studie av dansk, finsk, isländsk, norsk og svensk rätt med diskussion av reformbehov och harmoniseringsmöjligheter“ (Nord 2003:2).
    Meginatriði samkomulagsins eru sem hér greinir:
     a.      Lagt er til að ákveðinn aðlögunartími skuli líða að því er varðar beitingu laga nýs búseturíkis hjóna sem flytja frá einu norrænu ríki til annars um fjármál þeirra.
     b.      Lagt er til að hjón hafi heimild til að semja um það, hvaða lögum, þ.e. lögum hvaða norræns ríkis, skuli beita um fjármál þeirra. Hjón geta þó einungis samið um að beitt skuli lögum ríkis sem þau hafa tengsl við vegna búsetu sinnar eða vegna þess að þau eiga þar ríkisfang.
     Um a-lið.
    Samkvæmt norræna samningnum eins og hann er nú gilda þær reglur, að þegar hjón flytja frá einu norrænu ríki til annars, gilda lög hins síðarnefnda ríkis um fjármál þeirra þegar eftir flutninginn. Ákvæðum samkomulagsins um tiltekinn aðlögunartíma að því er varðar beitingu laga nýs búseturíkis er m.a. ætlað að koma í veg fyrir að hjón, við þessar aðstæður, komist að því eftir skilnað að ólíkar reglur gildi um fjármál þeirra í nýja búseturíkinu. Í Finnlandi og í Svíþjóð hefur þessi vandi verið leystur með því að setja reglur í almenn lög um fjármál hjóna um að lög nýs búseturíkis um þetta efni skuli fyrst eiga við eftir að hjónin hafa verið búsett í því ríki um nokkra hríð. Sams konar regla er einnig í Haag-samningnum um lagaval um fjármál hjóna frá 1978 sem hefur þó ekki verið fullgiltur af neinu af hinum norrænu ríkjum.
     Um b-lið.
    Í norræna samningnum eins og hann er nú er ekki að finna heimild fyrir hjón til að semja um það hvaða lögum skuli beitt um fjármál þeirra ef þau flytja frá einu norrænu ríki til annars. Þessu þykir brýn þörf á að breyta, einkum vegna þess hve lög norrænu þjóðanna um þetta efni hafa breyst á liðnum áratugum og hafa nú að geyma ólíkari reglur en áður var. Heimildir hjóna til að semja um lagaval um þetta efni eru almennt viðurkenndar í alþjóðlegum einkamálarétti nú til dags og eru m.a. heimilaðar samkvæmt framangreindum Haag-samningi um lagaval um fjármál hjóna og einnig í landslögum í Finnlandi og í Svíþjóð.
    Samkomulagið hefur að geyma tillögur að breytingum á 3. og 4. gr. samningsins ásamt tillögum að nýjum greinum, 3. gr. a – 3. gr. c og 4. gr. a.
     Um 1. mgr. 3. gr.
    Ákvæðið gildir, eins og nú er, einungis um hjón sem eiga og áttu við stofnun hjónabandsins ríkisfesti í norrænu ríki eða norrænum ríkjum og sem tóku sér heimilisfesti í einhverju norrænu ríkjanna.
     Um 2. mgr. 3. gr.
    Þegar hjón taka sér síðar heimilisfesti í öðru samningsríki gildir nú sú regla, að lög þess ríkis skuli gilda um fjármál þeirra strax eftir flutninginn. Sú breytingartillaga er gerð í samkomulaginu, að ekki skuli beitt lögum þess ríkis sem hjónin fluttu til fyrr en þau hafa búið þar í að minnsta kosti tvö ár. Frá þeirri reglu er þó lögð til sú undantekningarregla, að ef hjónin höfðu bæði átt þar heimilisfesti fyrr á hjónabandsárum sínum eða eigi þau ríkisfang í því ríki skuli beita lögum þess ríkis um leið og þau tóku sér þar heimilisfesti.
    Um 1. mgr. 3. gr. a.
    Þetta ákvæði, sem stendur í tengslum við 3. gr., veitir hjónum tiltekna heimild til að gera samkomulag um lögum hvaða norræns ríkis skuli beitt um fjármál þeirra. Hjón geta samið um að um fjármál þeirra skuli gilda lög þess samningsríkis þar sem annað hvort þeirra á heimilisfesti eða ríkisfang þegar samkomulagið er gert. Þau lög sem samið er um að skuli beitt skulu þó, samkvæmt norræna samningnum, ávallt vera lög í einhverju samningsríkjanna. Samkvæmt þessari málsgrein geta verðandi hjón einnig gert slíkt samkomulag fyrir stofnun hjónabandsins. Á sama hátt og gildir um hjón gildir slíkt samkomulag einungis ef hjónaefnin eru, og voru við stofnun hjónabandsins, ríkisborgarar í samningsríki og tóku sér heimilisfesti í samningsríki. Ef svo er ekki gilda ákvæði samningsins um fjármál hjóna ekki.
     Um 2. mgr. 3. gr. a.
    Ef annað hvort hjónanna eða þau bæði hafa tekið sér heimilisfesti í öðru samningsríki á meðan hjónabandið stendur geta þau einnig gert með sér samkomulag um að beita skuli lögum þess samningsríkis þar sem þau áttu síðast bæði heimilisfesti samtímis. Það er ekki nauðsynlegt að hjónin hafi átt sameiginlegt heimili eða verið búsett á sama stað í því ríki, en hjónin verða bæði að hafa átt heimili þar áður. Sem dæmi má nefna það tilvik, að íslensk hjón sem eiga heimilisfesti í Noregi flytji til Danmerkur, hvort sem þau gera það á sama tíma eða ekki. Eftir að hjónin hafa tekið sér heimilisfesti þar flytjast þau til Svíþjóðar. Af því leiðir að hjónin geta samið um að dönsk lög skuli gilda um fjármál þeirra eftir að þau tóku sér heimilisfesti í Svíþjóð. Á hinn bóginn geta þau ekki samið um að beita skuli norskum lögum þar sem þau áttu ekki síðast sameiginlega heimilisfesti í Noregi. Heimild hjóna til að semja um lagaval skv. 2. mgr. er í samræmi við finnsk lög um þetta efni.
    Um 3. gr. b.
    Ákvæðið er samsvarandi núgildandi 2. mgr. 3. gr. samningsins að því er varðar fasteign eða samsvarandi eign, en í samkomulagið hefur verið bætt orðinu „bústað“. Markmiðið með þessari breytingu er að auka vernd sameiginlegs heimilis hjónanna.
     Um 1. mgr. 3. gr. c.
    Samkvæmt 1. mgr. skulu réttaráhrif löggerninga sem gerðir voru áður en hjón tóku sér heimilisfesti í öðru samningsríki ákvarðast samkvæmt lögum þess ríkis sem giltu um fjármál hjónanna þegar löggerningarnir voru gerðir. Ákvæðið samsvarar 1. mgr. 3. gr. samningsins.
     Um 2. mgr. 3. gr. c.
    Ákvæðið skýrir sig sjálft.
     Um 1. mgr. 4. gr.
    Þetta ákvæði hefur að geyma reglu um það hvenær samkomulag um lagaval eða kaupmáli er gildur að því er form varðar. Úr hugsanlegum vafa um það hvort efnisatriði kaupmála hjóna séu gild er á hinn bóginn skorið samkvæmt lögum þess ríkis sem beita ber um fjármál hjóna skv. 3. gr. eða 3. gr. a. Ef vafi leikur á um hvort efni samkomulags um lagaval sé gilt ákvarðast það skv. 3. gr. a.
    Á sama hátt og fram kemur í 4. gr. samningsins geyma tillögurnar í 1. mgr. 4. gr. samkomulagsins fleiri en einn möguleika á því hvenær löggerningur telst gildur að því er form hans varðar. Löggerningur er fyrst og fremst gildur að formi til ef hann uppfyllir formkröfur í lögum samningsríkis sem skv. 3. gr. eða 3. gr. a skal beita um fjármál hjónanna. Að auki telst löggerningur gildur að því er formið varðar, samkvæmt samkomulaginu, ef hann uppfyllir formskilyrði laga þess samningsríkis þar sem bæði hjónin eða annað hvort þeirra átti ríkisfesti. Þegar um er að ræða kaupmála gildir ákvæði 4. gr. samningsins.
     Um 2. mgr. 4. gr.
    Í finnskum og sænskum lögum eru ákvæði um hvenær samningar hjóna um fjármál þeirra eru gildir að því er form þeirra varðar. Í öðrum norrænum ríkjum er á hinn bóginn ekki mælt fyrir um form samninga hjóna um hvaða lögum skuli beita um fjármál þeirra. Því ber nauðsyn til að mæla fyrir um í norræna samningnum hvaða reglur um form skuli gilda um samninga hjóna um lagaval um fjármál þeirra. Í samkomulaginu er lagt til að beita skuli reglum um formskilyrði kaupmála.
     Um 3. mgr. 4. gr.
    Í þessari málsgrein er lagt til að hvert ríkjanna geti, gagnvart þriðja manni, gert það að skilyrði fyrir gildi samkomulags um lagaval eða kaupmála að samkomulagið eða kaupmálinn sé skráður samkvæmt lögum þess. Að því er varðar kaupmála er ákvæðið í samræmi við 2. mgr. 4. gr. samningsins en um samkomulag um lagaval er það eðli máls samkvæmt nýmæli.
     Um 4. gr. a.
    Ákvæðið skýrir sig sjálft.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.

    Með frumvarpinu verður heimilt að fullgilda fyrir hönd Íslands samkomulag um breytingar á samningi á milli Norðurlandanna um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.