Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
Þskj. 222  —  179. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og lögum um útlendinga, nr. 96/2002.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan
Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 2009“ í ákvæði til bráðabirgða II í lögunum kemur: 1. janúar 2012.


II. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „14. gr.“ kemur: 22. gr.
     b.      Í stað orðanna „1. janúar 2009“ kemur: 1. janúar 2012.


III. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002,
með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „1. janúar 2009“ í 1. og 2. málsl. kemur: 1. janúar 2012.
     b.      Orðin „og ákvæði 4. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES- eða EFTA-útlendings til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins“ í 2. málsl. falla brott.


4. gr.     

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samningar um inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópska efnahagsvæðið tóku gildi 1. ágúst 2007 en í samningaviðræðum um aðild ríkjanna að Evrópusambandinu var gert ráð fyrir að sömu reglur giltu á öllu svæðinu. Engu síður þótti nauðsynlegt að semja um sérstaka aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins gagnvart hinum nýju aðildarríkjum á tilteknum sviðum. Meðal þess sem gerður var fyrirvari um var gildistaka ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópusambandsins, með síðari breytingum. Samningarnir um inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópusambandið gerðu því ekki ráð fyrir að þau ákvæði tækju gildi að því er varðar frjálsa för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2009. Enn fremur var aðildarríkjum Evrópusambandsins gert heimilt að fresta gildistöku ákvæðanna í allt að fimm ár til viðbótar eða til 1. janúar 2014.
    Reglugerð nr. 1612/68/EBE, með síðari breytingum, er hluti af V. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt viðauka B við aðildarsamning EES var framangreint bráðabirgðafyrirkomulag um gildistöku ákvæða reglugerðarinnar við stækkunina fellt undir V. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þar af leiðandi hafa Ísland, Noregur og Liechtenstein einnig heimildir til að beita tímabundnum takmörkunum varðandi frjálsa för launamanna frá nýju aðildarríkjunum á yfirráðasvæðum sínum.
    Samkvæmt ákvæðum aðildarsamnings EES um frjálsa för launafólks var gert ráð fyrir að hvert aðildarríki beitti eigin landslögum og/eða ákvæðum tvíhliða samninga um aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að vinnumarkaði sínum fyrstu tvö árin frá stækkun svæðisins. Á þessu tímabili giltu því ekki reglur 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE en einstök ríki gátu kosið að setja samhljóða ívilnandi reglur í landslög frá gildistöku samningsins eða hvenær sem er síðar á fyrsta tveggja ára aðlögunartímabilinu. Jafnframt var sérstaklega kveðið á um að ríkjunum væri ekki heimilt að setja strangari skilyrði fyrir dvalar- og atvinnuréttindi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu en giltu á undirritunardegi aðildarsamnings EES.
    Að fyrstu tveimur árunum liðnum er aðildarríkjunum heimilt að fresta gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE í allt að þrjú ár til viðbótar eða til 1. janúar 2012. EES/ESB-ríkjum er þá gert að tilkynna framkvæmdastjórninni fyrirfram um áætlanir sínar um frestun á gildistöku reglugerðarinnar. Sendi ríki ekki frá sér slíka tilkynningu verður litið svo á að ákvæði reglugerðarinnar taki að fullu gildi að því er varðar það ríki frá 1. janúar 2009. Ríkjunum er heimilt að tilkynna síðar á aðlögunartímanum að þau hyggist hverfa frá þeim takmörkunum sem þau hafa viðhaft og taka upp hinar sameiginlegu reglur bandalagsréttar um frjálsa för launafólks. Þegar það hefur verið gert verður ekki unnt að snúa til baka, þ.e. frá hinum sameiginlegu reglum til ákvæða í landslögum. Að því er varðar EES/EFTA- ríkin ber þeim að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA fyrir fram um áætlanir sínar um frestun á gildistöku reglugerðarinnar.
    Í tilvikum þar sem sýnt verður fram á alvarlega röskun á vinnumarkaði að fimm árum liðnum frá gildistöku aðildarsamnings EES er hlutaðeigandi aðildarríki heimilt að fresta gildistöku reglugerðar nr. 1612/68/EBE um tvö ár til viðbótar eða til 1. janúar 2014. Þegar svo stendur á getur aðlögunartími að því er varðar gildistöku ákvæða um frjálsa för launafólks varað í allt að sjö ár frá formlegri gildistöku aðildarsamnings EES. Eftir að aðildarríki hefur tekið upp hinar sameiginlegu Evrópureglur um frjálsa för launafólks er því ekki heimilt að taka síðar upp strangari takmarkanir um aðgengi að vinnumarkaði sínum. Að því er varðar EES/EFTA-ríkin gilda málsmeðferðarreglur 112. og 113. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ákvarðanir þeirra um frekari frestun á gildistöku reglugerðar nr. 1612/68/EBE, sbr. bókun 44 við aðildarsamning EES, eftir að reglugerðin hefur tekið að fullu gildi. Samkvæmt 112. gr. samningsins er EES/EFTA-ríkjum heimilt að grípa einhliða til viðeigandi ráðstafana komi upp alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegir eru að verði viðvarandi. Ríkin verða þó að fullnægja þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 113. gr. samningsins. Þar er gert ráð fyrir að samningsaðili er hyggst grípa til öryggisráðstafana tilkynni hinum samningsaðilunum um þá tilhögun fyrir milligöngu sameiginlegu EES- nefndarinnar. Samningsaðilar skulu þá bera saman ráð sín með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir alla aðila.
    Ljóst er að nokkur óvissa ríkir um stöðu og þróun á innlendum vinnumarkaði á næstu mánuðum vegna þrenginga í efnahagslífi þjóðarinnar. Atvinnuleysi hefur aukist hratt undanfarnar vikur og mældist 1,9% í október 2008. Miðað við skráningu fólks á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar á fyrstu dögum nóvember má gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,4% um mánaðamótin nóvember–desember 2008 og verði nálægt 8% um mánaðamótin janúar–febrúar 2009. Aðstæður hafa því breyst mjög hratt á innlendum vinnumarkaði og erfitt að meta hversu langt er að bíða þess að atvinnuhorfur batni á nýjan leik. Að teknu tilliti til þessara aðstæðna og þá sér í lagi þeirrar óvissu sem ríkir um framtíðina er talin ástæða til að leggja til með frumvarpi þessu að gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, verði enn frestað tímabundið samkvæmt efni sínu að því er varðar aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði.
    Ákvæði 1. gr. reglugerðarinnar um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum, fjallar um rétt ríkisborgara annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að ráða sig til vinnu hér á landi á sömu forsendum og íslenskir ríkisborgarar. Er íslenskum stjórnvöldum óheimilt að takmarka aðgang ríkisborgara annarra aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að vinnumarkaði sínum, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðarinnar. Í þessu felst meðal annars að skv. 6. gr. er óheimilt að setja sérstök skilyrði er varða heilsufar, sérþekkingu eða annað það sem mismunar ríkisborgurum annarra aðildarríkja í samanburði við íslenska ríkisborgara sem gegna sama starfi. Þá skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja njóta sömu aðstoðar vinnumiðlunar hér á landi og íslenskir ríkisborgarar njóta, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Er gert ráð fyrir að ákvæði þessi muni taka að fullu gildi í fyrsta lagi 1. janúar 2012 að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Önnur ákvæði reglugerðarinnar öðluðust hins vegar gildi gagnvart hinum nýju ríkjum við gildistöku aðildarsamnings EES eftir því sem við átti.
    Það leiðir af frestun gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE að ákvæði a-liðar 22. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga tekur ekki gildi fyrr en 1. janúar 2012 að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Munu því ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga um veitingu atvinnuleyfa gilda áfram eins og verið hefur um atvinnuréttindi ríkisborgara þessara aðildarríkja. Er því gert ráð fyrir að tímabundið atvinnuleyfi skuli liggja fyrir áður en umræddir ríkisborgarar koma í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt aðildarsamningi EES, sbr. viðauka B, er núverandi aðildarríkjum gert að veita launamönnum sem eru ríkisborgarar Búlgaríu og Rúmeníu forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar aðgengi að vinnumarkaði sínum á því tímabili sem innlendum ráðstöfunum er beitt. Enn fremur er einstökum ríkjum óheimilt að synja þeim um áframhaldandi aðgengi að vinnumarkaði sínum uppfylli hlutaðeigandi áfram þau skilyrði sem í gildi eru fyrir útgáfu atvinnuleyfa eftir að hafa starfað í viðkomandi ríki í tólf mánuði eða lengur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að framlengdur verði til 1. janúar 2012 gildistími ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, en þar er gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE frestað tímabundið að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Munu því ákvæði II. kafla laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, gilda áfram um ríkisborgara þessara ríkja.

Um 2. gr.


    Samkvæmt ákvæði þessu er gert ráð fyrir að framlengdur verði til 1. janúar 2012 gildistími ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, en þar er kveðið á um að undanþáguheimild a-liðar 22. gr. laganna gildi ekki að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Munu því ákvæði II. kafla laganna um útgáfu atvinnuleyfa gilda áfram um rétt ríkisborgara þessara ríkja til að starfa hér á landi sem launamenn.

Um 3. gr.


    Samkvæmt ákvæði þessu er gert ráð fyrir að framlengdur verði til 1. janúar 2012 gildistími ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 96/2002, um útlendinga, með síðari breytingum, en þar er kveðið á um að ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna gildi ekki að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Jafnframt er lagt til að ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES- eða EFTA-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit taki ekki gildi fyrir ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2012. Þá er lagt til að skírskotun til 4. mgr. 35. gr. útlendingalaga í 2. málsl. ákvæðisins verði felld brott þar sem tilvitnuð málsgrein var felld úr gildi með lögum nr. 86/2008 en EES- eða EFTA-útlendingur þarf samkvæmt lögunum ekki lengur að sækja um sérstakt dvalarleyfi hér á landi. Ákvæði III. kafla útlendingalaga um dvalarleyfi gilda því um rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til að dvelja hér á landi sem launamenn.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993,
um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga,
og lögum nr. 96/2002, um útlendinga.

    Með frumvarpinu er lagt til að tímamörkum í lögum nr. 47/1993, nr. 97/2002 og nr. 96/2002 verði breytt til bráðabirgða til þessa að framlengja aðlögunartíma vegna frjálsrar farar launafólks og aðstandenda þeirra frá Búlgaríu og Rúmeníu til Íslands. Vegna óvissu um stöðu og þróun á innlendum vinnumarkaði á næstu mánuðum, þrenginga í efnahagslífi og spá um aukið atvinnuleysi er talin ástæða til að fresta tímabundið, til 1. janúar 2012, gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE um frelsi launþega til flutninga milli Evrópska efnahagssvæðisins, sem varðar aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði. Með frumvarpinu er einnig lagt til að ákvæði um atvinnuréttindi útlendinga taki ekki gildi varðandi rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2012. Einnig eru sömu tímamörk sett við rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til að dvelja á Íslandi í sex mánuði við atvinnuleit eða til að sækja um dvalaleyfi eftir komu til landsins.
    Ekki verður séð að frumvarpið komi til með að auka útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.