Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 44. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 44  —  44. mál.
Flutningsmenn. Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár.

Flm.: Þuríður Backman, Þórunn Sveinbjarnardóttir,     Margrét Tryggvadóttir,


Davíð Stefánsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björn Valur Gíslason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Friðlýsingin taki til Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár í Bárðardal, að þverám meðtöldum, og verði hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum fljótsins þar óheimil, svo og mannvirkjagerð. Skal friðun svæðisins stuðla að varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu, landbúnaðar og hefðbundinna nytja. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Skjálfandafljóts geti tengst fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga um friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts var lögð fram á 136. löggjafarþingi en var ekki afgreidd. Tillagan er nú endurflutt og löguð að nokkrum athugasemdum sem fram komu í umsögnum og þá helst að heimila smávirkjanir og heimarafstöðvar í lækjum og þverám Skjálfandafljóts neðan Mjóadalsár. Með friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts væri verið að takmarka afkomumöguleika fólks á svæðinu verulega.
    Frá Vatnajökli norðvestanverðum rennur Skjálfandafljót. Fljótið á uppruna sinn í Vonarskarði, rennur norður Sprengisand og fellur til sjávar í Skjálfanda. Skjálfandafljót er 175 km langt og rennur um stórbrotið og fjölbreytt landslag á leið sinni til sjávar. Náttúrufegurð fljótsins, umhverfis og vatnasvæðis er einstök.
    Þó svo að fljótið sé jökulfljót er vatnið í því ekki eingöngu jökulvatn þar sem lindarvatn rennur í það í Ódáðahrauni, m.a. úr Suðurá og Svartá, og gengur því nokkuð af fiski upp í fljótið. Goðafoss, einn af þekktustu og jafnframt tilkomumestu og fegurstu fossum landsins, er í fljótinu. Í fornum ritum segir að Þorgeir Ljósvetningagoði að hafa kastað heiðnum skurðgoðum sínum í fossinn við kristnitöku Íslendinga árið 1000.
    Skjálfandafljót á þó einnig fleiri náin tengsl við sögu þjóðarinnar því nokkrum kílómetrum fyrir neðan Goðafoss kvíslast fljótið og umvefur Þingey sem er gegnt Fellsskógi. Talið er að Þingey sé forn þingstaður héraðsins frá árinu 963 og er þar að finna fornar minjar. Af eynni draga Þingeyjarsýslur og Þingeyjarsveit nafn sitt.
    Allt frá upptökum til sjávar eru fjölmörg svæði og náttúrufyrirbæri í fljótinu og vatnasviði þess á náttúruminjaskrá sem hafa mikið náttúruverndargildi, m.a. Tungnafellsjökull og Nýidalur, Laufrönd og Neðribotnar, Ingvararfoss, Aldeyjarfoss, Hrafnabjargarfoss, Goðafoss, Þingey og nyrst votlendi á Sandi og Sílalæk með stórkostlega fjölbreyttu fuglalífi.
    Ferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum er í örum vexti og er Goðafoss meðal vinsælla áfangastaða ferðamanna enda einungis steinsnar frá þjóðveginum. Einnig hafa verið farnar ferðir út í Þingey og uppi hafa verið hugmyndir um að gera eyna aðgengilegri fyrir ferðafólk. Þá eru vinsælar gönguleiðir meðfram fljótinu þar sem ferðamenn geta notið hinnar einstöku náttúrufegurðar.
    Skjálfandafljót rann til sjávar við Ógöngufjall vestast í Skjálfandaflóa en ósinn var færður til austurs til að auðvelda sauðfjárrekstur út í Náttfaravíkur. Á fáum árum hafði ósinn færst hratt austur eftir landinu og var óttast að hann gæti endað í eða við ósa Laxár. Ósinn var fluttur aftur til fyrra horfs á þessu ári og er það vilji allra sem að því stóðu að halda honum þar.
    Hér er gert að tillögu að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga þess efnis að fljótið og allt vatnasvið þess ofan Mjóadalsár verði friðlýst með lögum. Með hliðsjón af flokkunarkerfi hinna alþjóðlegu náttúruverndarsamtaka IUCN er lagt til að svæðið geti fallið að V. friðlýsingarflokki. Nánari skilgreining þessa verndarstigs er á þessa leið: „Landsvæði, ásamt strönd eða sjó eftir því sem við á, þar sem samskipti manns og náttúru í gegnum tíðina hafa gert svæðið sérstætt, fagurfræðilega, vistfræðilega og/eða menningarlega, og gjarnan með mjög fjölbreyttu lífríki. Varðveisla þessara hefðbundnu samskipta í heild sinni er nauðsynleg fyrir verndun, viðhald og þróun slíks svæðis.“
    Vinna við annan áfanga að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur staðið yfir um nokkurn tíma og er áætlað að nefndin skili skýrslu nú í vetur. Í nokkrum umsögnum kom fram að rétt væri að bíða eftir tillögum nefndarinnar. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að virkjanaáform hafa verið um svæðið og ráðagerðir hafðar uppi um virkjun á ýmsum stöðum í fljótinu og því þykir flutningsmönnum mikilvægt að styrkja heildarmynd í verndun hálendisins norðan Vatnajökuls, nær eina óraskaða svæðis landsins.
    Ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar í tengslum við frekari verndun Skjálfandafljóts sem og svæðisins sem fljótið rennur um. Vinna stendur yfir við gerð náttúruverndaráætlunar og hafa fjölmargir lýst yfir vilja til að friða fljótið.
    Fyrir skemmstu var stofnaður áhugahópur um friðlýsingu Skjálfandafljóts. Markmið hópsins er „að vinna að friðlýsingu alls vatnasviðs Skjálfandafljóts, stuðla að friðun og varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna nytja,“ eins og segir á kynningarvef samtakanna. Áhugahópur um verndun Skjálfandafljóts leggur áherslu á verndun sjálfs fljótsins í Bárðardal, verndun byggðar og menningar á svæðinu. Heimarafstöðvar í bæjarlækjum og þverám hafa fram til þessa hvorki skaðað ásjónu lands né vatnabúskap fljótsins en tryggt búsetu og landbúnað bæði í Bárðardal og Kaldakinn. Áhugi almennings á því að nýta náttúruauðlindir landsins til annars en virkjana hefur vaxið ár frá ári og bera ályktanir ferðaþjónustuaðila þess glöggt merki.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að tímabært sé og þarft að Alþingi sjálft taki af skarið í þessu máli. Eðlilegt er að láta nú reyna á yfirlýsingar sem fallið hafa á undanförnum mánuðum og missirum um vilja til að Skjálfandafljóti verði ekki raskað á nokkurn hátt.
    Friðun Skjálfandafljóts verður stórt skref í átt að fullnægjandi árangri á sviði náttúruverndar en þó einungis eitt af fjölmörgum nauðsynlegum skrefum. Því þarf að tryggja frekari framfarir í þessum málaflokki. Ber að geta þess að áður hafa verið fluttar hér á Alþingi tillögur svipaðs efnis um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum, um verndun Þjórsár og friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði. Fylgiskjal.


Fornleifastofnun Íslands,
af heimasíðu:

Þingey.
(http://www.instarch.is/rannsoknir/uppgroftur/thinghald_ad_fornu/thingey/)

    Einn merkasti en jafnframt minnst þekkti og óaðgengilegasti sögustaður á landinu er án efa minjar vorþingstaðarins í Þingey. Hún er eitt meginviðfangsefna verkefnisins um þinghald að fornu. Eyjan er í miðju Skjálfandafljóti, norðan Goðafoss, og skammt norður af bænum Fljótsbakka sem stendur austan ár. Norðan hennar er önnur eyja, Skuldaþingsey. Gengt er út í Skuldaþingsey yfir stíflu á kvísl úr ánni, en milli eyjanna er ófært og rennur fljótið í djúpum kvíslum austan og vestan Þingeyjar.
    Ekki eru til miklar heimildir um Þingey fremur en aðra þingstaði þjóðveldisaldar. Hún mun hafa verið einn hinna föstu vorþingstaða sem talið er að hafi verið ákveðnir er stjórnskipun á Íslandi komst í fast horf. Samkvæmt Grágás átti að halda vorþing í 5. og 6. viku sumars og þau áttu að standa í 4.7 daga. Þingey kemur fyrir í Reykdæla sögu og Víga-Skútu sem talin er rituð á 13. öld en þar er staðurinn nefndur Eyjarþing. Þar var m.a. kærð launmorðstilraun við Víga-Skútu þann er Skútustaðir voru kenndir við. Eyjarinnar er getið í Auðunarmáldaga 1318 en þá átti Grenjaðarstaðarkirkja helming í eynni ásamt Einarsstöðum og Fljótsbakka.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Þingey 1905, uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.


    
         Fornfræðingar á 19.og 20. öld sýndu þingstaðaminjum mikinn áhuga og a.m.k. tveir þeirra heimsóttu Þingey: Kristian Kålund og Brynjúlfur Jónsson. Búið var í Þingey um tíma á 19. öld og þar sjást því rústir bæjar auk þingstaðarrústanna.
    Segja má að sýnilegar tóftir í Þingey skiptist í tvo flokka. Annars vegar eru misstórar tóftir, misjafnar að lögun og gerð, sem liggja óreglulega hér og þar, og hins vegar eru aflangar tóftir sem liggja í beinum röðum, með lengdarstefnu N-S, og skiptast niður í regluleg, vel afmörkuð hólf. Tóftir í síðarnefnda flokknum hafa fyrri athugendur talið vera leifar þingbúða og er freistandi að taka undir þá skoðun.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Loftmynd af Þingey, ljósmyndari Garðar Guðmundsson.


    Rannsóknir í Þingey eru unnar í samstarfi við Hið þingeyska fornleifafélag. Sumarið 2005 er áætlað að gera nákvæmar uppmælingar á rústum í eynni og grafa nokkra könnunarskurði að auki til að komast nær um aldur rústanna og innri gerð þeirra.