Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 162  —  147. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um kosningu rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003 og birtingu skjala og annarra upplýsinga um málið.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Arndís Soffía Sigurðardóttir,


Álfheiður Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Valur Gíslason,
Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason,
Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Skúli Helgason, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari,
Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman.


    Alþingi samþykkir að kjósa nefnd fimm alþingismanna, sem hafi vald samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi. Nefndin fái í hendur öll gögn stjórnvalda, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem varpað geti ljósi á þetta ferli. Gögnin verði jafnframt gerð opinber. Nefndin hafi einnig heimild til þess að kalla hvern þann til fundar við sig sem kann að geta upplýst um tildrög ákvörðunarinnar.
    Þingmannanefndin njóti aðstoðar skrifstofu Alþingis, en henni verði einnig heimilt að leita eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð. Nefndarsetan verði ólaunuð, en útlagður kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Nefndarstarfinu ljúki með skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. júní 2011.

Greinargerð.


    Sama dag og herlið Bandaríkjanna, Stóra-Bretlands og fleiri ríkja hóf innrásina í Írak 20. mars 2003 bárust fréttir af því að blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta, Ari Fleischer, hefði lýst því yfir á blaðamannafundi í Washington að lýðveldið Ísland væri á lista yfir þau ríki sem hefðu lýst sérstökum stuðningi við þessa innrás. Tveimur dögum áður, 18. mars 2003, hafði talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Richard Boucher, lýst hinu sama yfir á blaðamannafundi í ráðuneytinu.
    Næstu daga kom í ljós að forsætisráðherra og utanríkisráðherra höfðu með einhverjum hætti „staðfastar“ þjóðir. Óljóst var í fyrstu hvort ríkin á listanum teldust þátttakendur í innrásinni. Aðspurðir sögðu íslensku ráðherrarnir svo ekki vera. Hins vegar var frá upphafi skýrt að ríkin tækju siðferðilega og pólitíska ábyrgð á stríðinu í Írak og afleiðingum þess.
    Ráðherrarnir báru ákvörðun sína um stuðning Íslendinga við innrásina í Írak ekki undir utanríkismálanefnd Alþingis. Sérstaklega er þó kveðið á um það í 24. gr. laga um þingsköp Alþingis að það skuli gert í slíkum tilvikum: „Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“
    Enn hefur ekki komið fram hvers vegna ráðherrarnir ákváðu að fara á svig við þetta skýra ákvæði í þingskapalögunum.
    Þá hefur ekki komið fram hvort lagt var sjálfstætt mat á rökstuðning innrásarríkjanna fyrir hernaðaraðgerðum sínum í aðdraganda stuðningsyfirlýsingar utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Í ljós hefur komið að aðalforsendur bandarískra og breskra yfirvalda fyrir innrásinni stóðust ekki, og hafa forustumenn þessara ríkja viðurkennt þetta. Í báðum ríkjunum hafa þessar forsendur verið rannsakaðar sérstaklega af opinberri hálfu. Nefnd Butlers lávarðar rannsakaði aðdraganda ákvörðunar bresku ríkisstjórnarinnar um innrásina í Írak og á Bandaríkjaþingi var skipuð sérstök rannsóknarnefnd öldungadeildarþingmanna. Báðar skiluðu skýrslum í sumar og komust um margt að svipuðum niðurstöðum. Svo virðist sem gögn leyniþjónusta ríkjanna tveggja beggja vegna Atlantshafsins hafi verið úrelt og ónákvæm, og auk þess ekki verið næg þekking fyrir hendi innan stofnananna til þess að lesa og greina upplýsingarnar rétt. Í stuttu máli sagt reyndust CIA og MI6 ekki vandanum vaxin, en stjórnvöld í ríkjunum sáust ekki fyrir og létu vilja sinn ráða umfram staðreyndir og rök.
    Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, hefur (viðtal við BBC 16. september 2004) lýst því yfir að innrásin í Írak hafi verið ólögmæt samkvæmt alþjóðalögum þar sem einhliða ákvörðun ríkisstjórna Bandaríkjanna og Bretlands standist ekki stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Þessi yfirlýsing beinir kastljósinu enn eindregnar að stuðningsákvörðun íslensku ráðherranna.
    Halldór Ásgrímsson, sem gegndi störfum utanríkisráðherra í mars 2003, hefur viðurkennt að mjög hafi skort á réttmæti upplýsinga sem hann fékk áður en afstaða ráðherranna var tilkynnt í Washington. Um þetta sagði Halldór í sjónvarpsviðtali 17. september 2004: „En það er ljóst að það er margt í þessu máli sem menn hefðu viljað sjá öðruvísi og ýmsar upplýsingar sem bæði ég og aðrir fengu á sínum tíma sem stóðust ekki.“ Ráðherrann bætti síðan við að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum vegna rangra upplýsinga í þessu efni.
    Þessi ummæli sýna að nauðsynlegt er að brjóta til mergjar ástæður þess að ríkisstjórn Íslands ákvað í marsmánuði 2003 að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak.
    Meginforsendur innrásarinnar voru þær að Íraksstjórn byggi yfir gereyðingarvopnum sem heimsbyggðinni stæði hætta af. Nú er viðurkennt, m.a. í Washington og Lundúnum, að Íraksher átti engin slík vopn. Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, undir forustu Hans Blix, sögðust í skýrslu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna stuttu fyrir innrásina ekki hafa neinar haldbærar sannanir fyrir tilvist gereyðingarvopna í Írak og óskuðu þess að fá meiri tíma til þess að rannsaka málið. Á þá var hins vegar ekki hlustað.
    Önnur rök, einkum haldið fram af hálfu Bandaríkjastjórnar, voru þau að stjórnin í Bagdad væri í nánum tengslum við þann hryðjuverkahóp íslamista sem m.a. stóð fyrir ódæðinu í New York og víðar 11. september 2001, Al-Kaída. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nein slík tengsl. Hins vegar er ljóst að þessi samtök, eða margvíslegir hópar sem þeim tengjast, líta eftir innrásina á Írak sem kjörlendi fyrir verk sín og sem einkar heppilega uppeldis- og liðssöfnunarstöð í Miðausturlöndum. Bandaríkjastjórn lýsti því einnig yfir að aðgerðum hennar í Írak væri ætlað að auka veg lýðræðis og frelsis í arabaríkjunum og öðrum ríkjum múslima. Árangurinn hefur enginn orðið. Þvert á móti hefur stríðið í Írak fært ríki araba og múslima heldur fjær vestrænum lýðræðisgildum en áður var, og mjög torveldað gagnkvæman skilning milli þeirra menningarheima sem um ræðir. Þar sem innrásin hefur leitt til þess að öfgaöflunum hefur vaxið fiskur um hrygg meðal múslima, áhrif lýðræðissinna dvínað og dregið úr stöðugleika í stjórnarfari í ríkjum þeirra hafa styrjöld og hernám í Írak í reynd afvegaleitt alþjóðlega baráttu gegn hryðjuverkum og um leið dregið úr öryggi og stöðugleika um allan heim.
    Í Bretlandi fer nú fram önnur rannsókn undur forustu Sir John Chilcot á hlut stjórnvalda og embættismanna við ákvarðanatöku um innrásina í Írak og hefur komið fram við vitnaleiðslur að margt var öðruvísi en fram kom á yfirborðinu, meiri efasemdir um réttmæti innrásarinnar hafi verið í stjórnkerfinu en upplýst hefur verið um til þessa og blekkingum hafi verið beitt. Þá fór fram rannsókn í Hollandi á aðdraganda stuðnings þarlendra stjórnvalda við innrásina og var niðurstaða hennar að innrásin hafi ekki verið lögmæt.
    Nýlega kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins (25. október 2010) að fundist hefðu gögn í utanríkisráðuneytinu um aðdraganda þess að Ísland var sett á lista hinna „viljugu þjóða“. Gögnin sýni m.a. að viðræður hafi farið fram við bandaríska embættismenn í aðdraganda stríðsins.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að Alþingi láti rannsaka hvernig staðið var að ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið innan ríkisstjórnarinnar. Sú nefnd sem hér er lagt til að taki að sér það verk verði skipuð fimm þingmönnum, einum frá hverjum stjórnmálaflokki. Hlutverk hennar verður meðal annars að athuga:
     a.      hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,
     b.      hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,
     c.      hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,
     d.      hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,
     e.      hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,
     f.      hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,
     g.      hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,
     h.      af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.
    Mikilvægt og eðlilegt er að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna að ákvörðuninni um stuðning Íslands við innrásina í Írak svo að hægt sé að gera upp þennan atburð og læra af honum.
    Brýnt er að þeirri leynd sem hvílt hefur á ákvarðanatöku um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak verði aflétt og er því í þessari þingsályktunartillögu óskað eftir aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðunina. Í því skyni er eðlilegast að skjölin verði gerð opinber á vef Stjórnarráðsins.
    Stefnt verði að því að fundir rannsóknarnefndarinnar verði opnir og haldnir í heyranda hljóði eftir því sem mögulegt er og aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðun um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak verði tryggt.
    Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir ákveði Alþingi næstu skref. Flutningsmenn telja það brýnt að efla eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdarvaldinu og vísa í fram komnar tillögur í skýrslu nefndar um eftirlitshlutverk Alþingis sem forsætisnefnd lét vinna sl. haust.


Fylgiskjal I.



Tillaga til þingsályktunar um birtingu skjala og annarra upplýsinga


um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

(Þskj. 334, 289. mál á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)


Flm.: Ögmundur Jónasson, Lilja Mósesdóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að sjá til þess að birt verði öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem fyrir liggja frá ársbyrjun 2002 til desember 2003 sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta og annarra þjóða í Írak árið 2003.

Greinargerð.


    Ein umdeildasta ákvörðun íslenskra stjórnvalda í seinni tíð er stuðningur Íslands við innrásina í Írak. Á Alþingi var m.a. deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að Ísland veitti stuðning við innrásina; yrði hluti af því sem Bandaríkjastjórn kallaði „hinar viljugu þjóðir“ eða „coalition of the willing“. Sem kunnugt er var Ísland sett á lista Bandaríkjastjórnar um „hinar viljugu þjóðir“ sem fyrst var greint frá á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem haldinn var 18. mars 2003. Þar taldi talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, upp þau ríki sem í hlut áttu, sagði að þau hefðu verið spurð hvert um sig og fengist hafi afgerandi svör. (Í opinberum gögnum er að finna orðrétta frásögn af fréttamannafundinum þar sem þetta kom fram:

         QUESTION: Can you, in any way you can, describe the functions of the 30 countries listed as part of the coalition? The first question, of course, would be, are more than a handful contributing troops? And – well, let's begin with that.
        MR. BOUCHER: There are 30 countries who have agreed to be part of the coalition for the immediate disarmament of Iraq. I'd have to say these are countries that we have gone to and said, „Do you want to be listed?“ and they have said, „Yes“.
        I'll read them to you alphabetically, so that we get the definitive list out on the record.
        They are: Afghanistan, Albania, Australia, Azerbaijan, Colombia, the Czech Republic, Denmark, El Salvador, Eritrea, Estonia, Ethiopia, Georgia, Hungary, Iceland, Italy, Japan, Korea, Latvia, Lithuania, Macedonia, the Netherlands, Nicaragua, the Philippines, Poland, Romania, Slovakia, Spain, Turkey, the United Kingdom, and Uzbekistan.
         Each country is contributing in the ways that it deems the most appropriate. Some of these countries, I suppose all these countries have talked in public about what they're doing. …)


Íslensk þýðing.


         SPURNING: Getur þú, á hvaða hátt sem þú getur, lýst hvernig háttað er þátttöku þeirra 30 ríkja sem birt eru á lista sem hluti bandalagsins? Fyrsta spurningin, að sjálfsögðu, yrði, er meira en handfylli sem leggja til hermenn? Og – jæja, við skulum byrja á því.
         MRHR. BOUCHER: Það eru 30 ríki sem hafa samþykkt að verða hluti bandalagsins um skjóta afvopnun Íraks. Ég þyrfti segja að þetta eru ríki sem við höfum farið til og sagt, „Viljið þið skráningu á listann“ og þau hafa sagt, „Já.“
        Ég skal lesa þau upp fyrir ykkur í stafrófsröð, svo að við fáum hinn endanlega lista skrásettan.
        Þau eru: Afganistan, Albanía, Ástralía, Aserbaídsjan, Kólumbía, Tékkland, Danmörk, El Salvador, Erítrea, Eistland, Eþíópía, Georgía, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Japan, Kórea, Lettland, Litháen, Makedónía, Holland, Níkaragúa, Filippseyjar, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Spánn, Tyrkland, Bretland og Úsbekistan.
        Hvert ríki leggur sitt af mörkum á þann hátt sem það telur helst viðeigandi. Sum af þessum ríkjum, ég geri ráð fyrir að öll þessi ríki hafi talað opinberlega um hvað þau eru að gera. …)
    
    Opinberlega hefur því verið haldið fram að á ríkisstjórnarfundi þennan sama dag hafi ákvörðun verið tekin um stuðning Íslands við innrásina. Það er augljóslega málum blandið og um það deilt að hvaða marki ríkisstjórnin yfirleitt kom að málinu eða einstakir ráðherrar eða embættismenn. Sama gegnir um aðkomu utanríkismálanefndar og Alþingis sem lögum samkvæmt hefði átt að upplýsa áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Um þessa þætti er margt á huldu þar sem engar opinberar almennar umræður fóru fram í aðdraganda ákvörðunar um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak.
    Í Bretlandi og víðar fer nú fram rannsókn á hlut stjórnvalda og embættismanna og hefur komið fram við vitnaleiðslur að margt var öðruvísi en fram kom á yfirborðinu, meiri efasemdir um réttmæti innrásarinnar hafi verið í stjórnkerfinu en upplýst hefur verið um til þessa og blekkingum hafi verið beitt.
    Eðlilegt er að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna, svo að deilur þurfi ekki að fylgja okkur inn í framtíðina hvað staðreyndir máls áhrærir og er því með þessari þingsályktunartillögu óskað eftir aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðun um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak árið 2003.



Fylgiskjal II.



Tillaga til þingsályktunar um skipan rannsóknarnefndar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak.


(Þskj. 664, 367. mál á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)


Flm.: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Atli Gíslason,


Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson, Eygló Harðardóttir,
Guðbjartur Hannesson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar,
Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram,
Margrét Tryggvadóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir,
Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Skúli Helgason,
Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman.

    Alþingi samþykkir að skipa nefnd sex þingmanna í því skyni að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi. Nefndin fái í hendur öll gögn stjórnvalda, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem varpað geti ljósi á þetta ferli. Hún hafi einnig heimild til þess að kalla hvern þann til fundar við sig sem kann að geta upplýst um tildrög ákvörðunarinnar.
    Þingmannanefndin njóti aðstoðar nefndasviðs Alþingis, en henni verði einnig heimilt að leita eftir óháðri sérfræðiaðstoð. Nefndarsetan verði ólaunuð, en útlagður kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Nefndarstarfinu ljúki með skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. október 2010.

Greinargerð.


    Sama dag og herlið Bandaríkjanna, Stóra-Bretlands og fleiri ríkja hóf innrásina í Írak 20. mars 2003 bárust fréttir af því að blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta, Ari Fleischer, hefði lýst því yfir á blaðamannafundi í Washington að lýðveldið Ísland væri á lista yfir þau ríki sem hefðu lýst sérstökum stuðningi við þessa innrás.
    Næstu daga kom í ljós að forsætisráðherra og utanríkisráðherra höfðu með einhverjum hætti gefið leyfi sitt til að Ísland yrði talið með á þessum lista sem kenndur var við „viljugar“ eða „staðfastar“ þjóðir. Óljóst var í fyrstu hvort ríkin á listanum teldust þátttakendur í innrásinni. Aðspurðir sögðu íslensku ráðherrarnir svo ekki vera. Hins vegar var frá upphafi skýrt að ríkin tækju siðferðilega og pólitíska ábyrgð á stríðinu í Írak og afleiðingum þess.
    Ráðherrarnir báru ákvörðun sína um stuðning Íslendinga við innrásina í Írak ekki undir utanríkismálanefnd Alþingis. Sérstaklega er þó kveðið á um það í 24. gr. laga um þingsköp Alþingis að það skuli gert í slíkum tilvikum: „Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“
    Enn hefur ekki komið fram hvers vegna ráðherrarnir ákváðu að fara á svig við þetta skýra ákvæði í þingskapalögunum.
    Þá hefur ekki komið fram hvort lagt var sjálfstætt mat á rökstuðning innrásarríkjanna fyrir hernaðaraðgerðum sínum í aðdraganda stuðningsyfirlýsingar utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Í ljós hefur komið að aðalforsendur bandarískra og breskra yfirvalda fyrir innrásinni stóðust ekki, og hafa forustumenn þessara ríkja viðurkennt þetta. Í báðum ríkjunum hafa þessar forsendur verið rannsakaðar sérstaklega af opinberri hálfu. Nefnd Butlers lávarðar rannsakaði aðdraganda ákvörðunar bresku ríkisstjórnarinnar um innrásina í Írak og á Bandaríkjaþingi var skipuð sérstök rannsóknarnefnd öldungadeildarþingmanna. Báðar skiluðu skýrslum í sumar og komust um margt að svipuðum niðurstöðum. Svo virðist sem gögn leyniþjónustu ríkjanna tveggja beggja vegna Atlantshafsins hafi verið úrelt og ónákvæm, og auk þess ekki verið næg þekking fyrir hendi innan stofnananna til þess að lesa og greina upplýsingarnar rétt. Í stuttu máli sagt reyndust CIA og MI6 ekki vandanum vaxin, en stjórnvöld í ríkjunum sáust ekki fyrir og létu vilja sinn ráða umfram staðreyndir og rök.
    Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, hefur (viðtal við BBC 16. september 2004) lýst því yfir að innrásin í Írak hafi verið ólögmæt samkvæmt alþjóðalögum þar sem einhliða ákvörðun ríkisstjórna Bandaríkjanna og Bretlands standist ekki stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Þessi yfirlýsing beinir kastljósinu enn eindregnar að stuðningsákvörðun íslensku ráðherranna.
    Halldór Ásgrímsson, sem gegndi störfum utanríkisráðherra í mars 2003, hefur viðurkennt að mjög hafi skort á réttmæti upplýsinga sem hann fékk áður en afstaða ráðherranna var tilkynnt í Washington. Um þetta sagði Halldór í sjónvarpsviðtali 17. september 2004: „En það er ljóst að það er margt í þessu máli sem menn hefðu viljað sjá öðruvísi og ýmsar upplýsingar sem bæði ég og aðrir fengu á sínum tíma sem stóðust ekki.“ Ráðherrann bætti síðan við að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum vegna rangra upplýsinga í þessu efni.
    Þessi ummæli sýna að nauðsynlegt er að brjóta til mergjar ástæður þess að ríkisstjórn Íslands ákvað í marsmánuði 2003 að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak.
    Meginforsendur innrásarinnar voru þær að Íraksstjórn byggi yfir gereyðingarvopnum sem heimsbyggðinni stæði hætta af. Nú er viðurkennt, m.a. í Washington og Lundúnum, að Íraksher átti engin slík vopn. Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna, undir forustu Hans Blix, sögðust í skýrslu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna stuttu fyrir innrásina ekki hafa neinar haldbærar sannanir fyrir tilvist gereyðingarvopna í Írak og óskuðu þess að fá meiri tíma til þess að rannsaka málið. Á þá var hins vegar ekki hlustað.
    Önnur rök, einkum haldið fram af hálfu Bandaríkjastjórnar, voru þau að stjórnin í Bagdad væri í nánum tengslum við þann hryðjuverkahóp íslamista sem m.a. stóð fyrir ódæðinu í New York og víðar 11. september 2001, Al-Kaída. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nein slík tengsl. Hins vegar er ljóst að þessi samtök, eða margvíslegir hópar sem þeim tengjast, líta eftir innrásina á Írak sem kjörlendi fyrir verk sín og sem einkar heppilega uppeldis- og liðssöfnunarstöð í Miðausturlöndum. Bandaríkjastjórn lýsti því einnig yfir að aðgerðum hennar í Írak væri ætlað að auka veg lýðræðis og frelsis í arabaríkjunum og öðrum ríkjum múslima. Árangurinn hefur enginn orðið. Þvert á móti hefur stíðið í Írak fært ríki araba og múslima heldur fjær vestrænum lýðræðisgildum en áður var, og mjög torveldað gagnkvæman skilning milli þeirra menningarheima sem um ræðir. Þar sem innrásin hefur leitt til þess að öfgaöflunum hefur vaxið fiskur um hrygg meðal múslima, áhrif lýðræðissinna dvínað og dregið úr stöðugleika í stjórnarfari í ríkjum þeirra hafa styrjöld og hernám í Írak í reynd afvegaleitt alþjóðlega baráttu gegn hryðjuverkum og um leið dregið úr öryggi og stöðugleika um allan heim.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að Alþingi láti rannsaka hvernig staðið var að ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið innan ríkisstjórnarinnar. Sú nefnd sem hér er lagt til að taki að sér það verk á meðal annars að athuga:
     a.      hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,
     b.      hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,
     c.      hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,
     d.      hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,
     e.      hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,
     f.      hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,
     g.      hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,
     h.      af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.
    Mikilvægt og eðlilegt er að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna að ákvörðuninni um stuðning Íslands við innrásina í Írak svo að hægt sé að gera upp þennan atburð og læra af honum.
    Stefnt verði að því að fundir rannsóknarnefndarinnar verði opnir og haldnir í heyranda hljóði eftir því sem mögulegt er og aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðun um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak verði tryggt.
    Þegar niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir ákveði Alþingi næstu skref. Flutningsmenn telja það brýnt að efla eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdarvaldinu og vísa í framkomnar tillögur í skýrslu nefndar um eftirlitshlutverk Alþingis sem forsætisnefnd lét vinna sl. haust.