Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 738  —  390. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um vísindarannsóknir og kynjahlutfall.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver hefur verið fjöldi og hlutfall karla og kvenna síðasta áratuginn:
                  a.      í rannsóknastöðum innan háskólanna,
                  b.      meðal styrkþega hjá sjóðum Rannís?
     2.      Hvernig hefur jafnréttis verið gætt við úthlutun rannsóknastyrkja á þessu tímabili?
    Svar óskast sundurliðað eftir raunvísindum annars vegar og félags- og hugvísindum hins vegar.


    Hagstofa Íslands safnar gögnum um starfsfólk í háskólum og eru eftirfarandi upplýsingar fengnar af vef Hagstofunnar. Hér eru taldir allir starfsmenn sem starfa við kennslu í skólum á háskólastigi. Gögn eru fengin frá skólunum og frá Fjársýslu ríkisins. Upplýsingarnar ná til allra háskóla landsins.
    Síðasta áratug störfuðu að meðaltali 1780 starfsmenn við kennslu við háskóla landsins. Þar af voru karlar 957 (54%) og konur 823 (46%).
    Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, hefur með höndum daglega umsýslu helstu samkeppnissjóða á sviði vísinda og tækni.
    Þeir sjóðir sem eru vistaðir hjá Rannís og heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti eru Rannsóknasjóður sem er þeirra langstærstur, en einnig Rannsóknanámssjóður og Tækjasjóður. Markáætlun á sviði vísinda og tækni er einnig vistuð hjá Rannís.
    Árið 2003 var gerð breyting á stuðningskerfi við vísindarannsóknir. Þá voru felld úr gildi lög um Rannsóknarráð Íslands frá árinu 1994 og samþykkt lög um Vísinda- og tækniráð (nr. 2/2003) og Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (nr. 3/2003). Gerðar voru breytingar á helstu sjóðum sem veita styrki til vísindarannsókna. Rannsóknasjóður tók þar við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem starfaði samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands, en Tækjasjóður tók við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum.
    Tölur fyrir og eftir kerfisbreytinguna 2003/2004 eru ekki sambærilegar og því eru tölur hér gefnar upp fyrir árin 2004–2010.
    Vert er að geta þess að einn verkefnisstjóri er skráður fyrir hverju verkefni en meðumsækjendur eru ekki taldir með í greiningu á kynjahlutfalli.

Rannsóknasjóður – kynjahlutfall (2004–2010).
    Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
    Af 1.804 skráðum verkefnisstjórum á nýjum umsóknum í Rannsóknasjóð (2004–2010) eru 1.224 karlar (67,8%) og 508 konur (32,2%).
    Karlar hafa fengið úthlutað 328 nýjum styrkjum (26,8% árangurshlutfall) en konur 151 nýjum styrk (26,0% árangurshlutfall). Það er því ekki munur á árangri karla og kvenna í Rannsóknasjóði en hins vegar sækja færri konur í sjóðinn en karlar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


























    Skipting eftir fagsviðum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Rannsóknarnámssjóður – kynjahlutfall 2004–2010.

    Hlutverk Rannsóknarnámssjóðs er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms. Af 266 skráðum verkefnisstjórum sem fengu úthlutað úr Rannsóknanámssjóði á árunum 2004–2010 eru 107 karlar (40,2%) og 159 konur (59,9 %). Úthlutanir eru ekki aðgreindar eftir fagsviðum.

Tækjasjóður – kynjahlutfall 2004–2010.
    Hlutverk Tækjasjóðs er að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun úr Tækjasjóði skal taka mið af úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs á hverjum tíma. Framlag Tækjasjóðs greiðir aðeins hluta kostnaðar við fjárfestinguna.
    Af 311 ábyrgðarmönnum fyrir úthlutuðum verkefnum á árunum 2004–2010 voru 244 karlar (78,4%) en 67 konur (21,6%). Öll verkefni falla undir verkfræði og raunvísindi.

Markáætlun á sviði vísinda og tækni – kynjahlutfall.
    Markáætlun er talin mikilvæg leið fyrir stjórnvöld til að samstilla og byggja upp árangursríkt starf á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar. Skilgreind eru markmið á tilteknum sviðum sem njóta tímabundins forgangs að fjármagni á grundvelli vandaðra rannsóknaáætlana. Tvær markáætlanir ná til þess tíma sem hér um ræðir.

    Markáætlun, erfðafræði í þágu heilbrigðis og örtækni, 2005/6 til 2009/10.
    Þessi markáætlun úthlutaði til alls 31 verkefnis, 16 verkefna í erfðafræði í þágu heilbrigðis, þar voru 8 (50%) verkefnisstjórar karlmenn og 8 (50%) konur. Í örtækni var hins vegar úthlutað til 15 verkefna þar sem allir verkefnisstjórar voru karlmenn.

    Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknaklasa 2009 til 2015.
    Þrjú verkefni voru valin, tveir verkefnisstjórar eru karlar (66,7%) og ein kona er verkefnisstjóri (33,3%)

Mat á umsóknum um rannsóknastyrki.
    Verkefni eru metin út frá hæfi verkefnisstjóra, vísindalegu gildi verkefnisins, aðstöðu og líkum á árangri. Það á jafnt við um konur og karla. Hvað varðar Rannsóknasjóð er stjórn sjóðsins lagalega séð bundin af hinu faglega mati en tekur að auki mið af gildandi stefnu Vísinda- og tækniráðs. Konur og karlar standa að öllu leyti jafnfætis sem umsækjendur sem sést í því að árangurshlutfall kvenna er sama og karla (þ.e. hversu stór hluti umsækjenda fær úthlutað styrk). Færri konur sækja hins vegar um styrki og hefur sú staðreynd verið rædd á vettvangi Vísinda- og tækniráðs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hyggst framkvæma tilraunaverkefni í kynjaðri hagstjórn á þessu sviði, m.a. til að greina ástæður þess að konur sækja síður í sjóðina en karlar.