Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 508. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 831  —  508. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um norræna hollustumerkið Skáargatið.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason.



    Alþingi ályktar að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir því að unnt verði að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur sem framleiddar eru hérlendis.

Greinargerð.


    Svíar tóku upp hollustumerkið Skráargatið árið 1989 og var markmiðið að auðvelda fólki að velja holl matvæli. Merkið reyndist svo vel að fyrir nokkrum árum ákváðu Danir og Norðmenn einnig að nota merkið. Til að fá Skráargatið þarf matvara að uppfylla ákveðnar kröfur um magn salts, sykurs, fitu, mettaðrar fitu og trefja og einungis hollasta varan (eða hollustu vörurnar) í hverjum flokki geta fengið merkið. Varan þarf með öðrum orðum að standast þau hollustuviðmið sem sett eru fyrir hvern vöruflokk (sjá fylgiskjal). Sælgæti, gos eða aðrar matvörur sem teljast óhollar geta ekki fengið Skráargatið. Markmiðið með merkinu er að gefa neytendum færi á að velja hollan mat án mikillar fyrirhafnar. Merkið er auðþekkjanlegt og reynsla frænda okkar á Norðurlöndum sýnir að neytendur þekkja merkið og treysta því en frá árinu 2008, þegar notkun hófst í Danmörku og Noregi, er Skráargatið nánast orðið samnorrænt hollustumerki. Finnar íhuga nú upptöku þess eða samræmingu við eigið hollustumerki, Hjartamerkið svonefnda. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki tekið þátt í þessu samstarfi. Neytendasamtökin hafa frá 2008 ítrekað skorað á stjórnvöld að taka merkið upp en auk þeirra hafa m.a. Lýðheilsustöð, Manneldisráð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hvatt til þess að merkið verði tekið upp. Í skýrslu faghóps forsætisráðherra um að efla lýðheilsu frá 2005 er mælt með upptöku slíks merkis og bent sérstaklega á jákvæða reynslu Svía af Skráargatinu.
    Norðurlandabúar standa allir frammi fyrir svipuðum áskorunum hvað varðar lífsstíl og mataræði og telja stjórnvöld flestra norrænna ríkja brýnt að vinna gegn offitu og lífsstíls- og velmegunarsjúkdómum sem tengjast henni. Þau hafa lagt áherslu á að bæta mataræði, m.a. með því að auðvelda fólki að velja holla matvöru. Offita er að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál Íslands, en samkvæmt upplýsingum frá OECD þjáist fimmtungur landsmanna af alvarlegustu tegund ofþyngdar og eru Íslendingar orðnir fjórða feitasta þjóð Evrópu, á eftir Bretum, Írum og Möltubúum.
    Nýlega sendu Neytendasamtökin fjórðu áskorun sína til yfirvalda og telja brýnt að íslenskir framleiðendur noti merkið á vörur sínar. Skráargatið er á vörum sem fluttar eru hingað til lands frá Skandinavíu en íslenskir neytendur þekkja merkið ekki og hafa þess vegna af því lítið gagn. Skýtur það skökku við á sama tíma og sífellt er verið að hvetja til aukinnar hollustu og heilbrigðara lífernis. Upptaka merkisins hér á landi ætti að vera einföld. Líklegast er að Matvælastofnun mundi veita leyfi til notkunar merkisins. Merkið er valkvætt, þ.e. framleiðendur geta sótt um að fá merkið á matvöru og uppfylli hún skilyrðin fær framleiðandinn leyfi til að nota merkið sér að kostnaðarlausu.
    Skráargatið er skráð vörumerki í Svíþjóð og eign matvælastofnunarinnar þar í landi, Livsmedelsverket. Livsmedelsverket hefur gefið Noregi og Danmörku heimild til að nota merkið. Í löndunum þremur eru notuð sömu einkunnarorðin, „Auðvelt/létt að velja hollustu/hollara“ (d. Nemt at vælge sundere). Skráargatið er fyrsta hollustumerkið sem stjórnvöld fleiri en eins ríkis standa að.


Fylgiskjal.


Um Skráargatið.


(Af heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, www.norden.org.)



    Í dag er auðveldara fyrir norræna neytendur að neyta hollrar fæðu. Stjórnvöld í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa tekið höndum saman um að nota Skráargatið sem sameiginlegt matvælamerki. Skráargatið auðveldar neytendum að velja holl matvæli. Þökk sé Skráargatinu geta neytendur á einfaldan hátt séð hvaða vörur eru hollar.

Skráargatið sem norrænt matvælamerki.
    Skráargatið hefur verið notað í Svíþjóð í 20 ár og er vel þekkt af sænskum neytendum. Með því að ákveða viðmið fyrir ákveðnar fæðutegundir hefur skráargatið orðið merki fyrir matvæli sem innihalda minni fitu, salt og sykur og meira af heilu korni og trefjum. Matvælaframleiðendum er frjálst að nota skráargatið, en vörur sem merktar eru með Skráargatinu verða að uppfylla ákveðin næringarviðmið, sem gilda fyrir hvern flokk matvæla
    Sameiginlegar merkingar matvara á Norðurlöndunum eru eðlilegar þar sem neysluvenjur og innkaupamynstur á Norðurlöndunum eru mjög lík. Stjórnvöld í löndunum þremur hafa samþykkt nýjar reglur sem byggjast á þeim sem gilda um notkun Skráargatsmerkisins í Svíþjóð. Í starfi sínu hafa stjórnvöld byggt á samstarfi sem þegar er í gangi innan Norrænu ráðherranefndarinnar, meðal annars með því að fylgja Norrænu næringarráðunum.
    Tekið er tillit til ólíkra neysluvenja hvers lands fyrir sig í reglunum og hefur því samstarfið leitt til úrbóta bæði hvað varðar framleiðsluvöruflokkana og skilgreind viðmið. Stungið hefur verið upp á tveimur nýjum framleiðsluvöruflokkum, kröfur til magns heilkorns í brauði og kornvöru auknar, sama á við um kröfur hvað varðar tilbúinn mat, viðmið fyrir matvæli unnin úr fiski þróuð og kröfur hvað varðar sykurtegundir og salt auknar. Sjá kvikmynd danska matvælaeftirlitsins um Skráargatið.
    Sameiginlegt norrænt matvælamerki á Norðurlöndum eykur vægi sameiginlegrar áætlunar, Norrænu framkvæmdaáætlunarinnar um næringu og hreyfingu, vegna þess að merkið auðveldar neytendum að velja hollt mataræði á einfaldan hátt. Jafnframt kemur þetta Norðurlöndunum til góða við afnám stjórnsýsluhindrana á sviði verslunar milli landanna. Þegar vara er merkt Skráargatinu tryggja sameiginleg viðmið að samkomulag er milli landanna um vöruna. Þetta auðveldar starf jafnt fyrirtækja og smásöluverslana.
    Enn sem komið er, eru það einungis Svíþjóð, Noregur og Danmörk sem taka þátt í verkefninu, en hugmyndafræðin að baki merkinu er viðurkennd í öllum norrænu ríkjunum. Finnsk stjórnvöld nota merkið ekki í dag, en velta því fyrir sér hvort hægt sé að nota viðmið Skráargatsins ásamt þeim viðmiðum sem þegar eru notuð í tengslum við finnska matvælamerkið Hjartamerkið. Ísland getur tekið þátt í samstarfinu á seinni stigum, sem mun auka breidd norræna samstarfsins.
          Skráargatið er jákvæð merking sem beinir sjónum neytenda að hollum matvælum innan hvers framleiðsluflokks fyrir sig.
          Skráargatið er öllum frjálst að nýta sér að kostnaðarlausu.
          Vörur sem merktar eru með Skráargatinu verða að uppfylla kröfur sem settar hafa verið.
          Kröfurnar felast í viðmiðum um trefjainnihald, salt, sykur, fitu og mettaða fitu í hverjum framleiðsluvöruflokki.

     Heimild: Matvælastofnunin ( www.slv.se/) .