Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1117  —  269. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannessonar um smitandi hóstapest í hestum.

     1.      Hve mikill kostnaður hefur hlotist af smitandi hóstapest í hestum fyrir atvinnugreinina í heild, þ.e. hrossabændur, tamningamenn, hestamenn, þjónustuaðila o.s.frv.?
    Hestamennskan á Íslandi er margþætt og flókin en þar tvinnast saman atvinnugrein sem er starfsemi hrossaræktenda/hrossabænda, atvinnutamningamanna, þjálfara, reiðkennara, hrossakaupmanna, útflutningsþjónusta o.fl., svo sem járningamenn og dýralæknar og síðan víðfeðm íþróttagrein oft á mjög háu plani sem felur í sér mikinn metnað og tilkostnað, en einnig almenningsíþrótt og dægradvöl. Þessi margþætta grein lamaðist að lokum vegna faraldurs smitandi hósta, sem upp kom í íslenska hrossastofninum snemma árs 2010, en nú liggur fyrir að staðfest smitdreifing varð á landinu í febrúar, mars og byrjun apríl sem síðan orsakaði nær algera stöðvun í greininni þegar kom fram í apríl, maí og júní.
    Nokkuð misjafnt er á milli aðila hversu langvinn rekstarstöðvunin var hjá hverjum og einum, en til jafnaðar var þar um að ræða stöðvun á bilinu 4 til 12 vikur. Mjög erfitt er að átta sig á tölulegu umfangi þess taps sem af þessum faraldri hlaust en augljóslega er um háar upphæðir að ræða. Ef litið er til mælanlegra eininga, svo sem fjölda útfluttra hrossa, þá fækkaði þeim um 431 á árinu 2010 miðað við árið 2009 og sé tekið mið af skráðu meðalverði útfluttra hrossa þá er beint tap sem hlýst af þeirri fækkun rétt um 260 millj. kr. Að mati Félags tamningamanna má reikna með að tekjutap á mánuði á tamningastöðvum þar sem starfa 2 til 3 hafi verið um 1,5 millj. kr. án virðisaukaskatts, en hér er verið að tala um stöðvar þar sem eru um 25 hross í tamningu auk járningaþjónustu og öðru því er fylgir. Í samantekt sem unnin var af sérgreinadýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, í samvinnu við Félag hrossabænda og búnaðarsamböndin í landinu, kemur fram að um 260 aðilar á landinu eru með umtalsverðan rekstur tengdan hestum, en yfirleitt er þar um að ræða smáar rekstrareiningar með 1 til 3 störf en sums staðar fleiri. Hjá reiðkennurum sem starfa sjálfstætt má reikna með tapi upp á um 1,2 millj. kr. án virðisaukaskatts hvern mánuð, en rétt er að taka fram að háannatími reiðkennara er einmitt á þeim tíma sem hestamennskan í landinu stöðvaðist. Vafalaust er því að tap innan tamninga-, þjálfunar- og reiðkennslugeirans vegna þessa faraldurs hafi hlaupið á hundruðum milljóna, auk þess sem járningamenn gætu hafa misst af tekjum upp á tugi milljóna.
    Reynslan leiddi fljótt í ljós að umræddur faraldur smitandi hósta var tiltölulega vægur sjúkdómur enda drápust mjög fá hross af völdum veikinnar en þó eru um það dæmi, einkum folöld. Ýmis kostnaður fylgdi þó veikindunum sem leggst við tekjutapið, svo sem dýralæknakostnaður, sótthreinsikostnaður, aukinn fóðurkostnaður vegna hrossa sem ekki fóru á afrétt á Norðurlandi og hrossa sem haldið var heima við á gjöf vegna meðhöndlunar og eftirlits, kostnaður vegna flutninga og flokkunar á hrossum og kostnaður vegna heimasóttkvíar þegar útflutningur hófst að nýju. Ekki er með nokkru öryggi hægt að henda reiður á tölulegum stærðum vegna þess sem hér er týnt til en um tugi milljóna tilkostnað getur verið að ræða samanlagt, en þarna var þó vel sloppið miðað við ef um drepsjúkdóm hefði verið að ræða því að verðmæti góðra hrossa — reiðhrossa í besta flokki, keppnishrossa og góðra undaneldisgripa — hleypur á milljónum og jafnvel tugum milljóna í stöku tilfelli.
    Þrátt fyrir það að kynbótasýningar færu fram á árinu 2010, fyrst snemma vors og síðan þegar faraldurinn rénaði um hásumarið og síðsumars og sýningarnar tækjust í raun ótrúlega vel, hvað útkomu og þátttöku varðar, liggur fyrir að faraldurinn dró úr þátttöku á sýningunum. Heildarfjöldi kynbótadóma á árinu 2010 var 1.300 dómar og 1.098 dæmd hross sem felur í sér 17% endursýningarhlutfall innan ársins, miðað við 19% árið 2009 og 30% árið 2008 sem var landsmótsár, en mest er um endursýningar þegar stórmót fara fram. Á árinu 2009 voru dæmd 1.460 hross og kveðnir upp 1.795 dómar og á árinu 2008 voru sambærilegar tölur 1.509 og 2.059. Það liggur því glögglega fyrir að fjöldi hrossaræktenda gat ekki sýnt hross sín vegna veikinnar en þau hross sem ekki hafa hlotið dóm eru allra jafna lakari söluvara en hin, auk þess sem leggja þarf í nýtt þjálfunartímabil með þau flest hver. Hins vegar kemur á móti að nokkur tilkostnaður sparast vegna minni endursýninga. Gróflega mætti áætla að tap eigenda kynbótahrossa vegna þess að ýmist náðist ekki að sýna hrossin eða þau komu fram á smásýningum í stað stórmóta, hafi numið allt að 200 millj. kr.
    Niðurfelling og frestun á mótshaldi orsakaði gríðarlegt tap. Frestun landsmóts um eitt ár ber þar hæst, en eins og alkunna er þá er landsmót hestamanna helsti markaðsgluggi hestamennskunnar hérlendis. Tekjur sem skapast af landsmótshaldinu eru afar miklar og hafa mikil margföldunaráhrif út í samfélagið. Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi hestamannafélaga varð Landsmót ehf., sem er rekstrafélag mótanna, af tekjum upp á um 30 millj. kr. vegna þessarar frestunar. Fyrir liggur að nær ómögulegt er að gera sér í hugarlund hvert er raunverulegt tap greinarinnar í heild og tengdra greina af frestun landsmótsins, að teknu tilliti til margföldunaráhrifa, en ljóst er að tapið hleypur á hundruðum milljóna. Þá eru ótalin þau áhrif sem niðurfelling ýmissa annarra móta hérlendis hafði, sum hestamannafélögin náðu reyndar að halda nokkur mót áður en hóstafaraldurinn lagðist yfir landið og svo aftur seinna um haustið, en háannatíminn, vorið og snemmsumarið, var ónýtur með tilheyrandi tekjutapi og glötuðum tækifærum. Mótshald og keppni í hestaíþróttinni hefur svo að sjálfsögðu margföld áhrif út í hestamennskuna almennt, t.d. vegna vinnulauna dómara, aukinna innkaupa á margs konar útbúnaði auk atriða sem þegar hafa verið talin upp, svo sem aðkoma þjálfara, reiðkennara og járningamanna. Í þessu sambandi ber því að halda til haga að reiðvöruverslanir urðu fyrir stórtjóni, trúlega á bilinu 80 til 110 millj. kr. og einnig þeir aðilar sem selja hey og spæni. Síðan skal hafa í huga að félagskerfi hestmennskunnar varð bæði fyrir útgjöldum samfara þessum faraldri, svo sem vegna ferðalaga, fundahalda og tapaðra tekna, einkum vegna mótahaldsins svo sem fyrr er skýrt. Ekki má heldur gleyma að skólastofnanir þær sem starfa í tengslum við greininna urðu fyrir miklu tjóni, ekki síst Hólaskóli – Háskólinn á Hólum þar sem fjöldi verðandi atvinnumanna í greininni er við nám hverju sinni.
    Síðast en ekki síst situr hinn almenni hestamaður uppi með mikinn kostnað í kjölfar þessarar veiki, hann gat heldur ekki stundað sitt áhugamál og hestaferðir almennings stórdrógust saman með tilheyrandi tapi þeirra sem selja þjónustu. Hleypur þetta allt á stórum upphæðum.

     2.      Hvert er tjón ferðaþjónustunnar vegna sömu veiki og afleiðinga hennar?
    Samtök ferðaþjónustunnar voru beðin um upplýsingar vegna þessa hluta fyrirspurnarinnar og svöruðu orðrétt með svofelldum hætti: „Vísa til bréfs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins dags. 17. desember sl. um fyrirspurn frá Alþingi um afleiðingar hóstapestar í hrossum. Samtök ferðaþjónustunnar vita til þess að mikið tekjutap hafi verið vegna hennar, sérstaklega þar sem fella þurfti niður Landsmót hestamanna, en hafa því miður ekki upplýsingar um umfang tapsins.“ Í svörum sínum drápu landssamtök hestamennsku og hrossaræktar hins vegar á þennan lið fyrirspurnarinnar, þó svo að Samtökum ferðaþjónustunnar hafi eðlilega fyrst og fremst verið ætlað að svara honum og komu fram með ágiskanir um að tap ferðaþjónustunnar hafi getað numið allt að 800 millj. kr.

     3.      Hvað hefur verið gert til að takmarka tjónið?
    Strax í upphafi svars við þessum lið fyrirspurnarinnar skal tekið fram að innan hrossaræktarinnar hefur alla tíð ríkt það andrúm „að sjálfs sé höndin hollust“ og undir því leiðarljósi brást greinin við, t.d. með því að koma hrossum til sýninga og keppna svo fljótt sem unnt var og eins að koma útflutningsmörkuðunum á hreyfingu á ný. Greinin sjálf, þ.m.t. félagskerfi hennar, gerði því mest til að takmarka tjónið. Hið opinbera, stjórnvöld og stofnanir, þ.m.t. leiðbeiningaþjónustan, kom hins vegar hvarvetna að málum, skyldum sínum og lögum samkvæmt, við eftirlit, rannsóknir og til að liðka fyrir og ýta undir jákvæða framvindu með almennum aðgerðum. Ríkissjóður varði nokkru fé aukalega til þessa. Þannig var við afgreiðslu fjáraukalaga ársins 2010 samþykkt að veita Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 15,7 millj. kr. fjárveitingu vegna rannsókna og annarra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að greina orsök og uppruna hóstapestar í hrossum, auk þess að styrkja dýrasjúkdómavarnir í landinu. Þá var og samþykkt að veita Matvælastofnun 3,4 millj. kr. fjárveitingu vegna þess sama. Þá var samþykkt að veita 12 millj. kr. óskipt til félagasamtaka greinarinnar til að bæta tjón og neikvæðar afleiðingar vegna hóstapestarinnar. Þessari upphæð hefur nú verið deilt niður á einstök verkefni í góðri einingu innan greinarinnar. Þá skal nefnd að síðustu aukafjárveiting til Hólaskóla – Háskólans á Hólum að upphæð kr. 5,5 millj. kr. til að mæta fjárhagslegu tjóni skólans vegna hestaveikinnar sem fólst í að í fyrsta lagi þurfti að aflýsa starfsemi sumarskóla hestafræðideildar skólans fyrir erlenda nemendur, í öðru lagi varð verulegt óhagræði í skólastarfinu við námslok og próf, m.a. vegna fleiri úttekta og prófdaga, og í þriðja lagi féll til mikill kostnaður vegna umönnunnar á veikum hrossum, við þrif og sótthreinsun á aðstöðu.
    Hér á eftir eru rakin helstu atriði hinna almennu aðgerða sem til var gripið en þar hvíldi meginþunginn á Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum:
I. Viðbrögð.
    Allt frá því tilkynnt var til Matvælastofnunar um grun um smitsjúkdóm í hrossastofninum þann 7. apríl 2010, lá fyrir að sjúkdómurinn hefði verið að magnast upp í stofninum í nokkrar vikur og hefði þá þegar breiðst út um mestallt landið. Í ljósi þess var ákveðið að virkja ekki viðbragðsáætlun. Reynslan frá hitasóttinni sem kom upp í hrossastofninum hér á landi árið 1998 og baráttunni gegn útbreiðslu hennar, sýndi að það er vonlaust verk að hindra útbreiðslu smitsjúkdóms sem á annað borð hefur náð sér svo á strik sem raunin var; smitefnið hefur a.m.k fjögurra vikna forskot og hefur þegar borist í mörg stærstu hesthúsahverfi og þjálfunarstöðvar landsins. Langur meðgöngutími og væg sjúkdómseinkenni í byrjun eru helstu orsakir þess að sjúkdómurinn náði að búa um sig með þessum hætti.
    Þegar þessi ákvörðun var tekin skipti einnig miklu máli að það sýndi sig strax að ekki var um að ræða hættulegan sjúkdóm sem líklegur væri til að höggva skarð í hrossastofninn eða stöðva útflutning hrossa til langframa. Til að tryggja velferð hrossa voru hestamenn hvattir til að fylgjast vel með heilbrigði hrossa sinna og hætta þjálfun á hrossum með greinileg einkenni veikinnar. Niðurstaðan er enda sú faraldur smitandi hósta virðast ekki hafa valdið varanlegum skaða á hrossum og hrossastofninn sem slíkur varð ekki fyrir tjóni. Aðeins örfá dauðsföll hafa verið rakin til faraldursins og þar hefur verið um að ræða ungviði (folöld) og hross sem af einhverjum ástæðum voru veik fyrir.

II. Rannsóknir.
    Samdægurs og tilkynnt var um grun um smitsjúkdóm í hrossum hófst sýnataka til rannsókna á orsökum hans auk söfnunar á faraldsfræðilegum gögnum. Innan fárra daga lá fyrir að ekki var um að ræða hestainflúensu og 16. apríl var ljóst að ekki var um að ræða neinn af þeim veirusjúkdómum sem þekktir eru og leggjast á öndunarfæri hrossa. Athyglin tók að beinast að bakteríusýkingum og í byrjun maí lá fyrir að bakterían Streptococcus equi subsp. zooepidemicus væri helsta orsök veikinnar. Þegar leið á sumarið var sýnt fram á að nýr og ágengari stofn bakteríunnar hefði borist til landsins og orsakað þennan faraldur. Sú niðurstaða var byggð á smittilraunum, krufningum og stofnagreiningum á bakteríunni. Verður þetta rakið nánar undir svari við fimmtu spurningu hér á eftir.
    Glögg mynd er nú komin af faraldsfræði og útbreiðslu veikinnar, sjá nánar bls. 77 til 81 í ráðstefnuriti fræðaþings landbúnaðarins 2011, en vegna hinnar lúmsku byrjunar á faraldrinum hefur ekki verið hægt að sýna fram á hvernig eða nákvæmlega hvenær smitefnið barst til landsins. Spjótin beinast þó að hugsanlegu smygli á notuðum reiðtygjum og óhreinum reiðfatnaði.

III. Áhrif á útflutning.
    Þær rannsóknaniðurstöður sem lágu fyrir 16. apríl sýndu að ekki var um að ræða sjúkdóm sem er tilkynningaskyldur til Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar. Sjúkdómurinn var á þeim tíma enn þá af óþekktum orsökum en ekki talinn svo alvarlegur heilsu hrossa að hann væri tilkynningaskyldur sem slíkur. Þá þegar var talið líklegast að um væri að ræða smitefni sem hefði borist frá einhverju nágrannalanda okkar og væri hrossum þar að mestu meinlaust en ylli faraldri hér á landi vegna skorts á sértækum mótefnum í okkar einangraða hrossastofni. Dýraheilbrigðisyfirvöld Evrópusambandsins voru upplýst um sjúkdóminn á fundi og þeirri kynningu fylgt eftir með skriflegum upplýsingum.
    Útflutningur hrossa var ekki stöðvaður formlega en þess í stað frestað tímabundið frá 10. maí enda var á þeim tíma orðið ógerlegt að uppfylla það grundvallarskilyrði að útflutningshross kæmu úr ósýktum hjörðum. Reynslan af hitasóttinni 1998 þegar útflutningur var stöðvaður sýndi að afar erfitt getur verið að koma útflutningi á að nýju eftir formlega stöðvun.
    Þessi tilhögun, ekki formleg stöðvun heldur frestun, varð hins vegar til þess að hægt var að hefja útflutning hrossa aftur um miðjan september með því að setja upp heimasóttkvíar þó svo faraldurinn væri ekki með öllu genginn yfir og var það mikilvægur þáttur í að takmarka tjónið af völdum sjúkdómsins.

IV. Áhrif á aðra starfsemi.
    Fljótlega varð ljóst að umhverfisaðstæður skiptu miklu máli um það hversu alvarlega sýkingu hrossin fengu. Smitmagnið virtist skipta sköpum bæði um það hversu alvarleg sjúkdómseinkenni hrossin fengu og einnig varðandi hraða útbreiðslunnar. Þéttleiki hrossa skipti þar höfuðmáli sem og smitleiðir. Til að draga úr áhrifum sjúkdómsins á heilsu hrossanna og tryggja velferð þeirra voru ítrekað gefnar út leiðbeiningar til hestamanna um að rýmka á hrossunum og draga úr smitálagi. Alls ekki var ráðlagt að loka hross inni. Því miður eru aðstæður víða þannig að hestamenn fengu lítið að gert til að draga úr smitálagi fyrr en komið var fram á vorið. Þetta gerði það að verkum að starfsemi tamningastöðva raskaðist í lengri tíma en nauðsynlegt hefði verið. Starfsemi hestaleiga raskaðist hins vegar ekki mjög alvarlega.
    Þá var hestamönnum ráðlagt að forðast að bera smit á milli hesthúsa og menn hvattir til að draga úr sýningum og keppni þó svo þær væru ekki formlega bannaðar svo lengi sem aðeins heilbrigð hross tækju þátt. Reiðhallarsýningar og reiðkennsla féllu því að miklu leyti niður. Hins vegar reyndist hægt að sýna meiri hluta þeirra kynbótahrossa sem reiknað hafði verið með að kæmu til dóms á árinu. Það dró úr tjóni þeirra sem höfðu þegar lagt mikinn kostnað í að undirbúa sýningarnar og leiddi til verðmætasköpunar. Sömuleiðis tókst að halda nokkur stærri mót þegar leið á sumarið, t.d. um hina áætluðu landsmótshelgi, sem áttu mikinn þátt í að koma viðskiptum með hesta í gang að nýju.

V. Upplýsingar.
    Upplýsingar um gang sjúkdómsins, stöðu rannsókna og ráðleggingar til hestamanna voru gefnar út reglulega og sendar á vefmiðla hestamanna og til annara fjölmiðla. Allar þær greinar (á þriðja tug) eru aðgengilegar á heimasíðu Matvælastofnunar þar sem komið var upp sérstökum upplýsingaborða á forsíðu. Á ensku síðu stofnunarinnar hafa einnig legið fyrir upplýsingar (fact sheet) um sjúkdóminn. Þá er ótalinn fjöldi viðtala í útvarpi og sjónvarpi auk viðtalsgreina í dagblöðum og hestamiðlum.
    Fjöldi funda var haldinn með hagsmunaaðilum hestamennskunnar og náðist breið samstaða um þær aðgerðir sem að framan eru raktar. Í haust var farin fundaferð um landið og staða mála kynnt fyrir hestamönnum.
    Því miður gætti nokkurs misræmis í málflutningi og áliti sérfræðinga um alvarleika sjúkdómsins og langtímaáhrif hans fyrir hrossastofninn. Vildu sumir meina að um alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm væri að ræða og að hrossastofninn yrði í raun aldrei samur. Umræða sem þessi barst út fyrir landsteinana og hefur verið áberandi fram undir þetta, einkum á þýskumælandi svæðum. Til að draga úr tjóni af þessum völdum hafa greinar á ensku og þýsku með réttum upplýsingum um sjúkdóminn verið sendar Alþjóðasamtökum íslenska hestsins, FEIF. Þá hefur verið gefin út yfirlýsing um stöðu smitsjúkdóma í hrossum í landinu og að óhætt sé að flytja inn hross frá Íslandi til annara landa. Nokkrar viðtalsgreinar hafa birst í erlendum tímaritum og vefsíðum og þeim fylgt eftir með fræðslufundum í nokkrum löndum. Unnið er að ritun vísindagreina um sjúkdóminn og orsakir hans.
    Það sem hér hefur verið rakið sýnir að fjölmargt hefur verið gert til að draga úr því tjóni sem af sjúkdómnum hlýst og er ljóst að þrátt fyrir allt það tap sem faraldur smitandi hósta hefur orsakað og rakið hefur verið hér að framan ávannst fjölmargt sem gerði að tjónið varð sínu minna en ella hefði orðið.

     4.      Hvað er fyrirhugað að gera til að fyrirbyggja að eitthvað sambærilegt gerist aftur?
    Minnt er á það sem fram kom í svarinu við þriðju spurningu fyrirspurnar þessara varðandi aukafjárveitingar til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og til Matvælastofnunar en þessar fjárveitingar nýttust mjög vel bæði til að rannsaka þann faraldur sem hér er til umræðu og eins til að koma í veg fyrir að sambærilegt hendi aftur en aukin áhersla er lögð á fræðslu um smitvarnir og að vara við hættunni á að hingað berist nýir smitsjúkdómar. Sömuleiðis að kynna fyrir hestamönnum skyldur þeirra til að tilkynna tafarlaust til dýralæknis grun um smitsjúkdóm og að sjálfstætt starfandi dýralæknar tilkynni jafnframt um grunsamleg tilvik til yfirvalda dýraheilbrigðismála.
    Helstu atriðin sem framkvæmd hafa verið eru:
     1.      Reglur sem lengi hafa verið í gildi um bann við innflutningi á notuðum reiðtygjum og óhreinum reiðfatnaði hafa fengið aukna umfjöllun nú eftir að þessi faraldur kom upp. Áfram verður unnið að því að fræða hestamenn um smitvarnir og kynna gildandi reglur til varnar því að nýir smitsjúkdómar berist til landsins. Stór auglýsingaborði um smitvarnir hefur í þessum tilgangi verið settur upp í Leifsstöð.
     2.      Í samvinnu við landssamtök innan hestamennsku og hrossaræktar hefur verið unnið að því að útfæra leið til að koma óhreinum reiðfatnaði í trygga hreinsun beint frá Leifsstöð.
     3.      Plaköt með reglum um smitvarnir á ensku og íslensku hafa verið gefin út og þeim dreift til hestamanna. Plakötin á að hengja upp sem víðast í hesthúsum landsins og reiðhúsum.
     4.      Bæklingar um smitvarnir á ensku og þýsku hafa verið sendir til aðila í hestatengdri ferðaþjónustu og er sá bæklingur ævinlega tiltækur hjá Matvælastofnun.
     5.      Fræðslufundir hafa verið haldnir víða um land og erlendis og verður þeirri fræðslu haldið áfram auk greinaskrifa um þetta mikilvæga málefni.
     6.      Rafrænar auglýsingar um smithættu og smitvarnir hafa verið útbúnar og allir sem halda úti hestatengdum heimasíðum hafa verið hvattir til að hafa þær á áberandi stað. Þessar auglýsingar er m.a. að finna á heimasíðum félagasamtaka hestamennskunnar.
     7.      Reglur um smitvarnir hafa einnig verið og verða auglýstar í prentmiðlum, einkum í tengslum við fjölmenn alþjóðleg hestamannamót.
     8.      Eftirlit tollvarða með innflutningi á notuðum reiðtygjum, óhreinum reiðfatnaði og öðru sem getur borið með sér smit er stöðugt í gangi. Hvers kyns tilraunir til smygls á slíkum varningi eru og munu verða kærð til lögreglu.
     9.      Unnið hefur verið að því að koma upp netfangalista hestatengdrar starfsemi í landinu, m.a. til að auðvelda öflun faraldsfræðilegra gagna og til að miðla upplýsingum. Sá póstlisti var notaður í sumar og fengust með þeim hætti góðar og gagnlegar upplýsingar.
    En betur má ef duga skal og skulu eftirfarandi atriði nefnd til sögunnar:
     1.      Vinna þarf yfirlit yfir hestatengda starfsemi í landinu, skilgreina einingar (holdings) og afla betri upplýsinga um ábyrgðarmenn þeirra. Nú þegar yfirumsjón búfjáreftirlitsins hefur verið flutt til Matvælastofnunar hafa skapast tækifæri til að bæta skráninguna. Rafrænt skráningarkerfi sem þegar hefur verið tekið í notkun er fyrsta skrefið á þeirri leið. Búfjárhald þyrfti þó að verða skráningar- og leyfisskylt til að unnt verði að ná vel utan um starfsemina. Landupplýsingakerfi sem Matvælastofnun tók í notkun sl. haust mun einnig koma að miklu gagni við öflun faraldsfræðilegra upplýsinga í framtíðinni.
     2.      Bæta þarf aðbúnað hrossa (auka rými) og tryggja aðgang að beitilandi eða öðrum hólfum til útivistar fyrir öll hross. Nauðsynlegt er að endurskoða reglugerð um aðbúnað hrossa með m.a. þetta í huga en í það mun ráðist jafnhliða sambærilegri endurskoðun á fleiri reglugerðum á sviði búfjárhalds eftir að lokið er vinnu í ráðuneytinu að frumvarpi til laga um velferð dýra sem eftir samþykkt Alþingis mun taka við af núgildandi lögum um dýravernd. Jafnhliða er unnið að lagafrumvarpi um endurskoðun búfjárhaldslaganna.
     3.      Efla þarf vitund hestamanna og annarra sem umgangast hross um mikilvægi smitvarna í tengslum við dagleg störf sín.
     4.      Auka þarf skyldur dýralækna til sjúkdómaskráninga. Í ár mun Matvælastofnun taka í notkun rafrænt skráningakerfi, www.heilsa.is, sem mun bæta verulega úr þessum þætti.
     5.      Auka þarf skyldur sjálfstætt starfandi dýralækna til að tilkynna dýralæknayfirvöldum um niðurstöður greininga sem unnar eru að þeirra beiðni í öðrum löndum en það virðist fara mjög vaxandi að dýralæknar sendi sýni úr landi til rannsókna.
     6.      Óeðlilegt er og óheimilt verður að vera að sjálfstætt starfandi dýralæknar gefi út almennar yfirlýsingar um sjúkdómastöðuna í landinu. Endanleg túlkun á rannsóknaniðurstöðum og birting slíkra almennra yfirlýsinga hverju sinni verður að vera á hendi dýraheilbrigðissviðs Matvælastofnunar sem lýtur forustu yfirdýralæknis.

     5.      Liggur fyrir hver orsök veikinnar er?
    Á vegum Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur farið fram umfangsmikil rannsókn á orsökum smitandi hósta í hrossum í samvinnu við dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun og erlendar rannsóknarstofnanir, m.a. Dýrasjúkdómastofnunina í Svíþjóð (SVA, Statens Veterinärmedicinska Anstalt), Veirurannsóknarstofnunina við Háskólann í Giessen í Þýskalandi (Institut für Virologie, Justus-Liebig Universität) og Animal Health Trust í Newmarket á Englandi.
    Rannsóknaniðurstöður benda til að nýr og ágengari stofn bakteríunnar Streptococcus equi subsp. zooepidemicus sé orsök smitandi hósta í hrossum. Bakterían veldur sýkingu í efri hluta öndunarfæra, barka og jafnvel berkjum með bólgu í slímhúð og mikilli slímmyndun. Allur hrossastofninn hefur reynst móttækilegur fyrir þessu smitefni. Má ætla að að flest hross landsins hafi smitast. Mikill þéttleiki og flutningur á hrosssum hefur eflaust átt þátt í að skapa grundvöll fyrir jafn víðtækri útbreiðslu og raun ber vitni.
    Í upphafi var sett fram sú rannsóknartilgáta að um nýjan veiruskjúkdóm væri að ræða. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir á sýnum, bæði úr náttúrulegum tilfellum og úr smittilraunum, hefur ekki tekist að færa fram sönnur á að svo sé. Prófað hefur verið fyrir öllum veirum sem vitað er til að geti valdið öndunarfærasýkingum í hrossum, bæði með mótefnamælingum, erfðamögnun og tilraunum til veirueinangrunar. Hins vegar kom fljótlega í ljós að ákveðin baktería, Streptococcus equi subsp. zooepidemicus, ræktaðist úr öllum hrossum með einkenni sjúkdómsins (graftarkenndan hor og hósta) en hins vegar ekki úr einkennalausum hrossum. Telja má því víst að þessi baktería sé orsök sjúkdómsins. Bakterían er þekktur sjúkdómsvaldur í hrossum en þá oftast sem kjölfarssýking. Erlendis hefur þó á seinni árum verið litið á hana sem hugsanlega frumorsök öndunarfærasýkinga í hrossum, svokallaðs „Inflammatory Airway Disease “. Sjúkdómurinn hefur talsverða þýðingu í hestahaldi víða um heim, einkum í hrossum undir 4 vetra aldri og er algengasta orsök röskunar í þjálfun unghrossa. Er nýgengi sjúkdómsins talið vera 10 tilfelli/100 hross/mánuð.
    Rannsóknir á erfðaefni þessarar bakteríu hafa leitt í ljós fjölmarga mismunandi stofna. Í hrossum hefur t.d. verið lýst yfir 40 mismunandi afbrigðum. Við rannsóknir á erfðaefni baktería úr íslenskum hrossum með smitandi hósta hefur komið í ljós að í miklum meiri hluta tilfella er um svokallaðan ST 209 stofn að ræða. Þessum stofni var fyrst lýst sem orsök öndunarfærasýkinga í hrossum í Svíþjóð árið 2008. Hann hefur ekki greinst í sýnum sem til eru í lífsýnabanka á Keldum úr hrossum á Íslandi frá því fyrir faraldurinn. Má því telja víst að um nýjan stofn bakteríunnar hér á landi sé að ræða. Þegar bakterían hitti fyrir næman stofn hrossa eins og íslenski hrossastofninn er magnaðist hún upp og olli faraldri.
    Líkur eru á að hross sem gengið hafa í gegnum sýkingu öðlist ónæmi. Eitthvað hefur verið um endursýkingar en þær eru þó yfirleitt vægar. Í framtíðinni mun þessi sjúkdómur líklega fyrst og fremst láta á sér kræla í unghrossum og sérstaklega verður þá folöldum eflaust hætt í fyrstu hrakviðrum haustsins. Við því þarf að bregðast og það munu árvökulir hrossabændur vissulega almennt gera. Rétt eins og það sýndi sig hversu almennt var vel við faraldrinum sjálfum brugðist í fyrra og hversu vel þrátt fyrir allt greininni tókst að komast í gegnum þetta erfiða úrlausnarefni.