Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 902. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1848  —  902. mál.
Formbreyting. Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson,


Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Lilja Mósesdóttir.


1. gr.

    I. kafli laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í neyðarlögunum svokölluðu, lögum nr. 125/2008, felast víðtækar heimildir fyrir fjármálaráðherra til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimildir ráðherra skv. I. kafla laganna falli brott. Samhliða frumvarpi þessu er flutt frumvarp til fjáraukalaga þar sem lagt er til að heimildir fjármálaráðherra til að selja og ráðstafa hlutum ríkisins í sparisjóðum verði felldar brott (901. mál).
    Á grundvelli heimilda neyðarlaganna tók fjármálaráðherra ákvörðun um stofnun nýju bankanna (Nýja Kaupþings (nú Arion banki), Nýja Landsbankans (nú Landsbankinn) og Nýja Glitnis (nú Íslandsbanki)) í október 2008. Þessar sömu valdheimildir voru nýttar til að ganga til samninga við skilanefndir gömlu bankanna um að breyta hlut uppgjörskrafna þeirra í hlutafé í nýju bönkunum. Þetta var gert með þríhliða samkomulagi á milli gömlu bankanna, nýju bankanna og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, eins og fram kemur í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á þessu þingi (þskj. 1376 í 626. máli). Ágreiningur varð á milli Alþingis og fjármálaráðherra um hvort ákvæði neyðarlaganna dygðu til að ráðstafa eignarhlutum ríkisins í nýju bönkunum. Niðurstaðan varð sú að meiri hluti fjárlaganefndar lagði fram frumvarp um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í umræddum bönkum í samræmi við stjórnarskrána og lög um fjárreiður ríkisins, sem varð að lögum nr. 138/2009. Eignarhlutur ríkisins í Arion banka er nú 13%, eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka er 5% og eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum er 81,33%.
    Augljóst er af þessu hversu gífurlegar valdheimildir fjármálaráðherra fer með á grundvelli ákvæða neyðarlaganna. Við setningu þeirra þótti ljóst að svo væri enda var lögfest ákvæði til bráðabirgða við lögin þess efnis að þau skyldi endurskoða fyrir 1. janúar 2010. Sú endurskoðun hefur ekki farið fram.
    Þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og verða teknar um ráðstöfun á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum munu hafa mikil og varanleg áhrif á íslenskt efnahagslíf. Því skiptir miklu máli að staldra við og huga að því hvert skal stefna. Með lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, sem samþykkt voru í júní 2010 var kveðið á um að skipuð yrði nefnd sem hefði það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins, m.a. með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og tillögum þingmannanefndar Alþingis. Þessi vinna hófst í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu vorið 2011. Fram hefur komið af hálfu ráðuneytisins að sú vinna muni taka til hlutverks og framtíðar fjármálamarkaða, hlutverks ríkisins á fjármálamarkaði, leikreglna markaðarins og lagaramma, mismunandi leiða sem farnar eru erlendis og alþjóðareglna. Þá verður sérstaklega fjallað um sérstöðu Íslands sem smáríkis sem býr við miklar hagsveiflur og er ekki hluti af stærri efnahagsheild. Leitast verður við að leiða fram hvernig fjármálamarkaður henti Íslandi best. Fjallað verður um fjármálastöðugleika og opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum, þjóðhagsvarúð og samspil og heildaryfirsýn. Þá verður fjallað um hvers konar stofnanakerfi komi til álita og hvaða ákvarðanir kortlagningin kalli á.
    Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir skýr stefnumörkun frá hendi stjórnvalda um skipulag og uppbyggingu fjármálakerfisins hafa fjármálaráðherra og Bankasýsla ríkisins þegar selt eða hafið söluferli á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nú síðast stofnfé í Sparisjóði Svarfdæla og Sparisjóði Norðfjarðar. Byggjast þær ákvarðanir fyrst og fremst á neyðarlögunum og lið 5.2 og 5.3 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2011.
    Í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um einkavæðingu ríkisbankanna var gagnrýnt sérstaklega hvað Alþingi gaf framkvæmdarvaldinu opna heimild til að selja ríkisbankana. Allt mat og öll stefnumörkun var í höndum framkvæmdarvaldsins þrátt fyrir að Alþingi hafi haft brýnar ástæður til að kveða á um helstu atriði sem máli skiptu við sölu ríkisbankanna í lögum. Bent var á að alltof skammur tími hafi verið ætlaður í ferlið og að pólitísk markmið hafi verið látin ráða frekar en fagleg. Nefndin lagði áherslu á að stjórnvöld yrðu að leggja sjálfstætt mat á kaupendur sem og sýna festu og eftirfylgni gagnvart fjármálamörkuðum. Þingmannanefndin sem sett var á stofn til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar lagði til að lögfest yrði rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja, m.a. til þess að tryggja eftirlitshlutverk Alþingis. Ríkisstjórnir hvers tíma ættu einnig að marka opinbera stefnu um hvort og þá hvernig selja eigi og/eða einkavæða ríkisfyrirtæki. Ekkert af þessu liggur fyrir.
    Þá fyrst þegar skýr stefnumörkun um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja, uppbyggingu fjármálamarkaðarins og rammalöggjöf um einkavæðingu ríkisfyrirtækja liggur fyrir getur Alþingi veitt heimild til sölu. Sú heimild verður þó að tryggja að Alþingi taki afstöðu til aðalatriða við söluna í lögum og tryggi eftirlitshlutverk sitt með söluferlinu. Núverandi heimildir uppfylla ekki þessi skilyrði, tryggja ekki fagleg og vönduð vinnubrögð og veita ráðherra óhófleg völd. Því er lagt til að þessar víðtæku valdheimildir fjármálaráðherra verði felldar brott.