Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 585. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 998  —  585. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2012.

1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2012 bar hæst, eins og undanfarin ár, umræðu um aðgerð NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Mikil umræða skapaðist út frá þeirri ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundi NATO í Lissabon í nóvember 2010 að árið 2014 verði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið. Unnið hefur verið út frá þeirri ákvörðun með það að markmiði að Afganir geti sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins bæði hvað varðar her og lögreglu en NATO muni veita áframhaldandi stuðning eftir þörfum. Verkefnið í Afganistan hefur gengið samkvæmt áætlun en nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af óstöðugleika og getu innan lands sem getur haft áhrif á þróun mála á næstunni.
    Þá ber að nefna samskipti NATO við Rússland sem voru að vanda áberandi á árinu, ekki síst í ljósi niðurstöðu leiðtogafundarins í Lissabon árið 2010 þar sem Rússum var boðin samvinna um eldflaugavarnir. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa ekki tekist samningar milli aðila um hvernig að þessari samvinnu skuli staðið. NATO hefur hafnað kröfum Rússa um sameiginlega stjórn á kerfinu og að tryggt verði á lagalega skuldbindandi hátt að því verði ekki beint gegn Rússlandi. Þó er horft til þess að í nýrri grunnstefnu NATO sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Lissabon til næstu 10 ára að Atlantshafsbandalagið sé ekki ógn við Rússland. Í kjölfarið var aukin umræða um mikilvægi þess að stuðla að skipulögðu samstarfi gegn sameiginlegum öryggisógnum eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, kjarnorkuvopnum og sjóránum. Þá voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess grundvallaratriðis að samband NATO við Rússland byggðist á gagnkvæmu trausti.
    Jafnframt var tíðrætt um ákvarðanir leiðtogafundar NATO sem haldinn var í Chicago í maí 2012 og útfærslur á þeim. Á fundinum var samþykkt stefna sem miðar að því að sameina krafta aðildarríkjanna meira en áður í þágu varnarviðbúnaðar í því skyni að nýta opinbera fjármuni betur á tímum mikils niðurskurðar. Stefnan gengur undir heitinu snjallvarnir (e. smart defense) eða samvinna um varnarbúnað og er ætlað að tryggja NATO nauðsynlegan búnað í samræmi við nýja grunnstefnu bandalagsins. Þá samþykktu leiðtogar aðildarríkja NATO á fundinum að virkja fyrsta hluta í sameiginlegu eldflaugavarnarkerfi. Uppsetning á kerfinu er hafin þrátt fyrir andstöðu Rússa en stefnt er að því að varnarkerfið verði að fullu komið í gagnið árið 2020. Innan NATO líta menn á eldflaugavarnarkerfið sem mikilvægt tákn um nýja tíma í samræmi við nýja varnarstefnu bandalagsins.
    Þá voru efnahagsleg tækifæri á norðurskautssvæðinu og skyldur varðandi umhverfis- og öryggismál rædd. Í skýrslu um málið var lögð áhersla á Norðurskautsráðið sem aðal samráðsvettvang norðurskautsríkjanna og mikilvægi þess að styðja við þann lagaramma og þá alþjóðasamninga sem eru til staðar á svæðunum. Þá var rætt um mikilvægi þess að NATO starfi nánar en áður með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu (ESB). Samskipti NATO og ESB hafa ekki batnað eins og vonir stóðu til en bent hefur verið á að stofnanirnar eiga 21 sameiginlegt aðildarríki og búa yfir getu og úrræðum sem stutt geta hvor aðra.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á árinu má nefna málefni Miðausturlanda og áhrif og afleiðingar arabíska vorsins, útgjöld til varnarmála og leiðir til að draga úr áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar á getu NATO, málefni Úkraínu og Georgíu og kjarnorkuáætlun Írans.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose- Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra og vinna um þær skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður- Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 14 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2012 Björgvin G. Sigurðsson, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður E. Árnadóttir, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Íslandsdeildin hélt tvo undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.

    Skipting Íslandsdeildar í nefndir 2012 var eftirfarandi:
Stjórnarnefnd:
    Til vara:
Stjórnmálanefnd:     Til vara:
Varnar- og öryggismálanefnd:
    Til vara:
Nefnd um borgaralegt öryggi:     Til vara:
Efnahagsnefnd:
    Til vara:
Vísinda- og tækninefnd:     Til vara:
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið:
Björgvin G. Sigurðsson
Ragnheiður E. Árnadóttir
Björgvin G. Sigurðsson
Skúli Helgason
Ragnheiður E. Árnadóttir
Birgir Ármannsson
Birgitta Jónsdóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir
Birgir Ármannsson
Björgvin G. Sigurðsson
Skúli Helgason

Birgitta Jónsdóttir

    Á ársfundi NATO-þingsins árið 2010 var Ragnheiður E. Árnadóttir kjörin varaformaður annarrar undirnefndar varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins, undirnefndar um öryggismál framtíðar og varnargetu (e. Future Security and Defence Capabilities). Hún var endurkjörin varaformaður nefndarinnar á ársfundi NATO-þingsins í Prag 2012.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2012 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Ljúbljana, vorfundi í Tallinn og ársfundi í Prag auk þess sem efnahagsnefnd NATO-þingsins hélt fund í Reykavík í september. Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Febrúarfundir.
    Dagana 12.–14. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags- og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru stjórnmálastefna NATO, innleiðing nýrrar grunnstefnu bandalagsins og verkefni NATO í Afganistan. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu Björgvin G. Sigurðsson, formaður, og Ragnheiður E. Árnadóttir fundina auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Á meðal fyrirlesara var Dirk Brengelmann, aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmála- og öryggissviðs NATO, sem flutti erindi um núverandi stjórnmálastefnu bandalagsins. Fjallaði hann um stefnuna í ljósi nýrrar grunnstefnu auk þess sem hann gerði grein fyrir framgangi helstu verkefna NATO og áhersluatriða þeirra. Brengelmann sagði lykilatriði vera getu sambandsins og samvinnu með það að markmiði að stuðla að stöðugleika og stýra átökum. Varðandi verkefni NATO í Afganistan sagði hann að unnið sé út frá þeirri ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundinum í Lissabon í nóvember 2010 að árið 2014 verði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið. Markmiðið sé að Afganir geti sjálfir tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins bæði hvað varðar her og lögreglu en NATO muni veita áframhaldandi stuðning eftir þörfum. Þá sé horft til Norður-Afríku og Miðausturlanda og þeirrar þróunar sem þar á sér stað.
    Þá ræddi James Appathurai, annar aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmála- og öryggissviðs NATO, um þróun samvinnu hjá NATO við ríki og alþjóðastofnanir utan bandalagsins. Í nýrri grunnstefnu bandalagsins er samvinna NATO í fyrsta skipti skilgreind sem eitt af megináhersluatriðum bandalagsins. Appathurai sagði áherslu vera lagða á að gera störf NATO markvissari og hagkvæmari og að auka samvinnu við alþjóðastofnanir og ríki utan bandalagsins til muna. Mikilvægt sé að NATO starfi nánar en áður með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu (ESB). Hann sagði samskipti NATO og ESB ekki hafa batnað eins og vonir stóðu til og þar sem vandamálin séu af pólitískum toga sé eingöngu hægt að leysa úr þeim á vettvangi þeirra. Þá sagði hann NATO einnig horfa til þess að þróa samstarf við nýja samstarfsaðila eins og Afríkusambandið. Samvinna við Rússland er þónokkur og hernaðarlega mikilvæg, t.d. varðandi Afganistan. Þá sagði Appathurai Mið-Asíu svæði sem veita þurfi athygli. Þar sé orðrómur uppi um að NATO muni skilja Afganistan eftir í mikilli óreiðu árið 2014. Því sé afar brýnt að skilaboð NATO til stjórnvalda í Mið-Asíu séu skýr og nákvæm lýsing á því hvernig NATO muni gegna mikilvægu stuðningshlutverki eftir að yfirfærsla öryggismála til Afgana hefur átt sér stað árið 2014. Varðandi Norður-Afríku sagði Appathurai svæðið vera að fara í gegnum meiri háttar breytingar og NATO hafi boðið fram aðstoð sína en hún hafi ekki verið þegin. Ragnheiður E. Árnadóttir spurði Appathurai um samvinnu NATO og ESB í ljósi hagsýni og tvíverknaðar. Appathurai sagði þróunina varðandi samskipti NATO og ESB hafa valdið vonbrigðum og engar stjórnmálalegar ákvarðanir hafi verið teknar milli þeirra varðandi verkaskiptingu og samstarf. Vandinn sé pólitískur og rökréttast væri að samvinna ætti sér stað en á meðan svo sé ekki sé fjármunum skattborgara sóað. Sem dæmi um núverandi stöðu nefndi hann að bæði NATO og ESB reki starfsemi í Kósóvó.
    Þá tóku fjórir sendiherrar hjá NATO, þeir Sorin Ducaru frá Rúmeníu, Martin Erdmann frá Þýskalandi, Philippe Errera frá Frakklandi og Ivo Daalder frá Bandaríkjunum, þátt í pallborðsumræðum við þingmenn og svöruðu spurningum þeirra. Umræðuefnið var kjarnorkuvopn og elflaugavarnarkerfi. Rætt var um uppbyggingu eldflaugavarnarkerfis í Evrópu og þátttöku Rússa í verkefninu. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess grundvallaratriðis að samband NATO við Rússland byggðist á gagnkvæmu trausti.
    Sir Richard Shirreff, aðstoðarframkvæmdastjóri sameiginlegs herafla NATO í Evrópu (e. Deputy Supreme Allied Commander Europe), hélt erindi um hernaðarlegt hlutverk NATO og getu bandalagsins. Hann sagði verkefnin í Afganistan samkvæmt áætlun en að óstöðugleiki og geta innanlands valdi áhyggjum og það geti hugsanlega haft áhrif á þróun mála næstu árin. Hann vakti athygli nefndarmanna á að kostnaður við öryggisgæslu væri að aukast og nú væri svo komið að fjármagn skorti til að sinna því sem teljast verði æskilegt þegar horft sé til öryggismála. Það sé því ekki réttur tími fyrir aðildarríkin að draga úr skuldbindingum sínum við NATO. Þær áskoranir og þau verkefni sem blasi við NATO séu á heimsvísu þótt bandalagið sé svæðisbundið. NATO hafi tileinkað sér nýjar aðferðir í tíma og rúmi og muni halda áfram að þróast, eins og verkefni bandalagsins í Líbíu beri vitni um.
    Því næst tók til máls Frank Boland, deildarstjóri varnarmála hjá NATO, og fræddi nefndarmenn um útgjöld til varnarmála hjá NATO. Boland sagði þróunina því miður vera þá að heimurinn sé sífellt að verða hættulegri. Staðan sé því sú að skynsemi þurfi að vera í fyrirrúmi þegar rætt sé um útgjöld til varnarmála og hvernig þeim fjármunum sé varið. Aðildarríki NATO hafi flest dregið úr útgjöldum til varnarmála frá árinu 2008 sökum alþjóðlegu fjármálakreppunnar og því sé enn mikilvægara að þeim peningum sem varið er til málaflokksins sé vel varið og sem mest fáist fyrir hann. Skynsamleg leið sé því sú stefna sem bandalagið hefur að leiðarljósi með áherslu á aukna samvinnu.
    Forseti NATO-þingsins, Karl A. Lamers, sagðist leggja áherslu á bætt og aukin samskipti við Evrópusambandið og Rússland og aukna meðvitund almennings bandalagsríkjanna um hlutverk NATO. Þá sagði hann netöryggi áfram verða áhersluatriði hjá NATO-þinginu. Jafnframt lagði hann til umræðuefni fyrir komandi NATO-þing sem bæri yfirskriftina: Rússland, NATO og arabíska vorið. Á meðal mála sem upp komu í umræðunni sem á eftir fylgdi voru þróun mála í Miðausturlöndum, samskipti NATO og Evrópusambandsins og samband NATO og Rússlands. Enn fremur lýsti Lamers yfir vandlætingu sinni á viðhorfi Rússa gagnvart Sýrlendingum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sagði mannslíf mikilvægari en vopnasölu.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og fastafulltrúa aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 13. febrúar 2012. Að venju sátu fastafulltrúar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Hann ræddi sérstaklega um undirbúning fyrir leiðtogafund NATO sem fyrirhugaður var í Chicago í maí 2012 og mögulegar leiðir til að draga úr áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar á getu NATO og það fjármagn sem veitt er til varnarmála. Þá var farið yfir stöðu verkefna í Afganistan og framvindu mála varðandi þær umbreytingar sem unnið er að, auk skuldbindinga bandalagins gagnvart afgönsku þjóðinni eftir yfirfærsluna árið 2014. Jafnframt var rætt um þróun eldflaugavarnarkerfis NATO og framrás samvinnuverkefna bandalagsins en rík áhersla hefur verið á bætt samskipti NATO við aðrar alþjóðlegar stofnanir.
    Á lokadegi febrúarfundanna var rætt um samskipti Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, netöryggi og mannauðsstjórnun hjá NATO.
    
Marsfundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Ljúbljana. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru starfsáætlun NATO-þingsins árið 2012, framlag NATO-þingsins til leiðtogafundar NATO í Chicago í maí 2012, samskipti NATO-þingsins við Rússland og Úkraínu og fjármál NATO-þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Björgvin G. Sigurðsson auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara.
         Karl A. Lamers, forseti NATO-þingsins, kynnti uppfærða starfsáætlun þingsins fyrir árið 2012. Breytingar á áætluninni felast fyrst og fremst í aukinni áherslu á málefni Norður- Afríku og Miðausturlanda sem svar við þeirri þróun sem orðið hefur í kjölfar arabíska vorsins. NATO-þingið er í formlegu samstarfi í þágu friðar við þjóðþing nokkurra þessara ríkja og var fulltrúum þeirra boðið að sækja vorfund NATO-þingsins í Tallinn í maí. Auk þess munu nefndir NATO-þingsins vinna þrjár skýrslur á þessu ári sem fjalla um áhrif og afleiðingar arabíska vorsins út frá ólíkum sjónarmiðum.
         Þá var farið yfir drög að yfirlýsingu NATO-þingsins til leiðtogafundar NATO sem ráðgerður var í Chicago 20.–21. maí 2012 þar sem þemað var einkum samvinna um varnarbúnað. Þingið styður stefnu framkvæmdastjóra NATO, Anders Fogh Rasmussen, um samvinnu um varnarbúnað. Stefnan gengur út á skýra verkaskiptingu aðildarríkja þannig að þau útvegi og hafi aðgang að búnaði sameiginlega sem þau hafa ekki efni á að koma upp hvert fyrir sig. Þessari stefnu er ætlað að tryggja NATO nauðsynlegan búnað í samræmi við nýja grunnstefnu bandalagsins frá árinu 2010 til að mæta verkefnum 21. aldar. Niðurskurður á fjárveitingum til varnarmála í mörgum aðildarríkjum samfara miklum niðurskurði í ríkisfjármálum vegna fjármálakreppunnar gerir mikilvægi slíkrar samvinnu enn meira en áður. Loftrýmiseftirlit á vegum NATO eins og fram fer á Íslandi, í Eystrasaltsríkjunum og Slóveníu var nefnt á meðal dæma í yfirlýsingu NATO-þingsins um samvinnu um varnarbúnað en ríkin fimm hafa ekki eigin flugher. Þá áréttaði NATO-þingið í yfirlýsingu sinni til leiðtogafundarins stuðning við stækkun NATO og sendi þannig skýr skilaboð til umsóknarríkjanna fjögurra, Georgíu, Svartfjallalands, Bosníu og Hersegóvínu og Makedóníu.
         Því næst var fjallað um samstarf NATO-þingsins við rússnesku dúmuna. Í kjölfar stríðsátaka Rússlands og Georgíu í ágúst 2008 var samstaða innan NATO-þingsins um að ekki væri verjandi að halda áfram óbreyttu samstarfi við Rússa en rússneska þingið hefur aukaaðild að NATO-þinginu. Ýmsar takmarkanir voru settar við þátttöku rússneskra þingmanna í fundum og ráðstefnum NATO-þingsins. Fyrirkomulagið hefur síðan verið endurskoðað árlega og nokkrar tilslakanir gerðar og ákvað stjórnarnefndin að gera engar breytingar á því að sinni.
    Þá var fjallað um samskipti NATO-þingsins og Úkraínu og lýstu margir þingmenn yfir áhyggjum sínum af stöðu lýðræðis og réttarríkisins í Úkraínu. Pólitísk réttarhöld yfir ýmsum stjórnarandstæðingum voru sérstaklega nefnd en þekktasta dæmið er málið gegn Júlíu Tímosjenko, fyrrverandi forsætisráðherra. Rætt var um að bjóða fulltrúum stjórnarandstöðunnar í Úkraínu á vorfundinn í Tallinn til að varpa ljósi á stöðu mála í landinu.
    Enn fremur var farið yfir fjármál NATO-þingsins og flutti gjaldkeri þess, kanadíski öldungadeildarþingmaðurinn Pierre Claude Nolan, stjórnarnefndinni skýrslu og ársreikning fyrir árið 2011 sem var samþykktur samhljóða.
    Að lokum var rætt um fyrirkomulag hinna tveggja árlegu allsherjarfunda NATO-þingsins, vorfundar og ársfundar að hausti. Á árinu 2011 var brugðist við niðurskurði á fjárframlögum til alþjóðastarfs aðildarþinganna með því að stytta fundina úr fimm dögum í fjóra með tilheyrandi hagræðingu jafnt fyrir þátttakendur og gestgjafaríki. Þótti breytingin hafa tekist vel. Þá var farið yfir drög að dagskrá vorfundar í Tallinn og ársfundar í Prag.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Tallinn dagana 25.–28. maí. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Björgvin G. Sigurðsson formaður og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Um 250 þingmenn sóttu fundinn frá 28 aðildarríkjum NATO.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust fór fram fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands. Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2012. Aukin áhersla verður lögð á málefni Miðausturlanda og Norður-Afríku, samvinnu um varnarbúnað NATO og málefni Úkraínu og Georgíu. Áframhaldandi áhersla verður lögð á verkefni NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands auk þess sem niðurstöður leiðtogafundarins í Chicago verða ræddar í öllum málefnanefndum NATO-þingsins.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var fjallað um þrjár skýrslur: Arabíska vorið: Skírskotun til öryggismála beggja vegna Atlantsála, Afganistan og öryggismál í Suðvestur- Asíu og Fjárhagslegar hömlur: ógn við samstöðu bandalagsins? Vísinda- og tækninefnd þingsins ræddi m.a. um kjarnorkuáætlun Írans, orku- og umhverfisöryggi og þau tækifæri sem blasa við NATO. Bandaríski þingmaðurinn David Scott, höfundur skýrslu um kjarnorkuáætlun Írans, sagði hernaðaríhlutun ekki vera það sem ráðamenn í Washington vilja en ekki sé hægt að útiloka slíkt, sérstaklega ef Ísrael yrði ógnað af kjarnorkuvopnum Írana. Hann sagði ljóst að Bandaríkin mundu standa með langtímabandamanni sínum Ísrael, jafnvel þó að það kostaði hernaðaríhlutun. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar um skýrsluna og sagðist vera þeirrar skoðunar að ekki væri lögð nægilega mikil áhersla á afgerandi diplómatíska viðleitni þegar kæmi að viðræðum við Írani um áætlunina. Ljóst væri að hernaðaríhlutun væri ekki sú framtíð sem almenningur óskaði eftir. Nefndarmenn tóku í sama streng og Birgitta og hvöttu til varfærnislegri nálgunar varðandi áætlunina í umræðum um skýrsluna.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um upptök og afleiðingar „evru- krísunnar“, efnahagslega vídd og afleiðingar arabíska vorsins og efnahagsleg tækifæri á norðurskautssvæðinu og skyldur varðandi umhverfis- og öryggismál. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar um „evru-krísuna“ og sagði mikilvægt að nýta þau tækifæri sem felast í krísu sem þessari og boða afgerandi breytingar. Fjölþjóðleg stórfyrirtæki, eins og t.d. bandaríska fyrirtækið Monsanto, hafi of mikil völd og brýnt sé að beina þróuninni frá aukinni neysluhyggju til sjálfbærrar þróunar. Það sé sú þróun sem mótmælendur í Evrópu séu m.a. að kalla eftir svo og auknu beinu lýðræði. Birgitta tók jafnframt þátt í umræðum nefndarinnar um efnahagsleg tækifæri á norðurskautssvæðinu en danski þingmaðurinn Jeppe Kofod er höfundur skýrslunnar. Birgitta vakti m.a. athygli nefndarmanna á vaxandi áhuga Kínverja á fjárfestingum á svæðinu. Þá lagði Birgitta til að nefndin fjallaði sérstaklega um fjárfestingar Kínverja í Evrópu og aðildarríkjum NATO á næstunni. Almennt voru nefndarmenn sammála um að forðast bæri hernaðarlega viðveru á norðurskautinu en leggja bæri aukna áherslu á vísindalegar rannsóknir. Fulltrúi Rússa á fundinum sagði að NATO hefði engu hlutverki að gegna á norðurskautinu, engin hernaðarleg ógn væri þar og norðurskautsríkin hefðu sammælst um að nota herskip og önnur hernaðargögn eingöngu til aðstoðar við öryggis- og björgunarmál.
    Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um þrjár skýrslur á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um Afganistan, til móts við árið 2014 og áfram, önnur um sjóræningja og viðbrögð NATO og alþjóðasamfélagsins við þeirri ógn og sú þriðja fjallaði um getu, metnað og framtíðarsýn NATO til 2020. Nefnd um borgaralegt öryggi fjallaði á fundi sínum m.a. um byltingarnar í Norður-Afríku, krafta breytinga og samfellu í Rússlandi og búferlaflutninga og innflytjendur á Miðjarðarhafssvæðinu og nýjar áskoranir sem þeim fylgja.
    Karl A. Lamers, forseti NATO-þingsins, sendi frá sér yfirlýsingu varðandi þróun mála í Úkraínu. Hann sagði Úkraínu hafa skuldbundið sig til að hafa í heiðri lýðræðisleg gildi og meginreglur en þessar skuldbindingar séu dregnar í efa með pólitískri fangelsun fyrrverandi forætisráðherra Úkraínu, Júlíu Tímosjenko sem byggð er á gölluðum réttarhöldum. Hann sagði tíma til kominn að Úkraína bindi enda á svívirðilega fangelsun á Tímosjenko og öðrum pólitískum föngum. Hann sagði jafnframt að fyrirhugaðar þingkosningar í Úkraínu, þann 28. október 2012, verði mikilvæg prófraun fyrir landið og mun NATO-þingið eiga samstarf við ÖSE-þingið um kosningaeftirlit í landinu. Íbúar Úkraínu verða að fá að kjósa fulltrúa sína í frjálsum og óháðum kosningum. Að lokum sagðist Lamers hlakka til að sjá merki þess að Úkraína tæki nauðsynleg skref til að endurvekja traust alþjóðasamfélagsins.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 28. maí. Forseti NATO-þingsins setti þingfundinn og ræddi m.a. niðurstöður leiðtogafundar NATO í Chicago þar sem áhersla var lögð á að láta ekki efnahagskreppuna grafa undan nauðsynlegum öryggiskröfum sambandsins. Lamers sagði efnahagskreppuna raunverulega ógn og að ekki væri æskilegt að bregðast við henni með því að skera niður fjárframlög og skerða þannig getu NATO sem gæti leitt til kreppu í öryggismálum. Hann hvatti ríkisstjórnir aðildarríkjanna til að koma í veg fyrir að efnahagskreppan þróaðist yfir í „öryggiskreppu“ vegna niðurskurðar á fjárframlögum sem mundi veikja hæfni sambandsins til að uppfylla varnarskuldbindingar sínar. Lamers ræddi einnig um verkefni NATO í Afganistan og mikilvægi þess að veita afgönsku þjóðinni áfram stuðning eftir að herlið NATO yfirgefur landið eins og fyrirhugað er árið 2014. Þá ræddi hann um áhrif og afleiðingar arabíska vorsins og mikilvægi þess að veita ríkjum Norður- Afríku og Miðausturlöndum stuðning í kjölfar uppreisnanna og mikilvægi batnandi samskipta NATO og Rússlands. Þá var sterk samstaða meðal nefndarmanna um að styðja þá stefnu sem var samþykkt á leiðtogafundinum í Chicago um samvinnu um varnarbúnað. Stefnan gengur út á verkaskiptingu aðildarríkja þannig að þau útvegi og hafi aðgang að búnaði sameiginlega sem þau hafa ekki efni á að koma upp hvert fyrir sig. Þessari stefnu er ætlað að tryggja NATO nauðsynlegan búnað í samræmi við nýja grunnstefnu bandalagsins frá árinu 2010 til að mæta verkefnum 21. aldar.
    Einnig ávörpuðu þingið Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, Ene Ergme, þingforseti eistneska þingsins, Riigikogu og Alexander Vershbow, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Forseti Eistlands lýsti m.a. yfir áhyggjum sínum af niðurskurði á fjárveitingum til varnarmála í mörgum aðildarríkjum og sagði slíkt ala á óvissu og óöryggi. Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi Vershbow, tók Björgvin G. Sigurðsson til máls og fordæmdi ofbeldisaðgerðir sýrlenskra stjórnvalda gagnvart mótmælendum og óbreyttum borgurum í landinu og spurði hvort fjöldamorðin í Houla, sem áttu sér stað síðustu sólarhringana, hefðu haft áhrif á afstöðu NATO til íhlutun í Sýrlandi. Vershbow sagði NATO ekki hafa neinar áætlanir um hernaðarlega íhlutun í Sýrlandi. Áframhaldandi grimmdarverk og fjöldamorð séu algjör lítilsvirðing við gildi lýðræðisríkja en þar sem ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi málefni landsins lægi ekki fyrir yrði ekkert aðhafst af hálfu NATO.

Fundur efnahagsnefndar í Reykjavík.
    Dagana 26.–28. september fundaði efnahagsnefnd NATO-þingsins í Reykjavík. Nefndin átti fundi með þingmönnum, embættismönnum, fulltrúum atvinnulífs og háskólasamfélags auk sjálfstætt starfandi fræðimanna. Þá tók forseti Íslands á móti nefndinni að Bessastöðum. Meðal umræðuefna á fundum nefndarinnar voru norðurslóðastefna Íslendinga og viðskiptatækifæri á norðurslóðum, endurreisn efnahagskerfis Íslendinga, orkumál, aðildarumsókn að ESB og sjávarútvegsstefna Íslands. Nefndarmenn voru fulltrúar þjóðþinga Bretlands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Króatíu, Tyrklands, Tékklands, Lettlands, Portúgals og Spánar. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu Ragnheiður E. Árnadóttir, fulltrúi Íslandsdeildar í efnahagsnefndinni og Björgvins G. Sigurðssonar fundina auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Fyrirkomulag fundanna var með þeim hætti að gestir nefndarinnar héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Fyrri fundardaginn kynntu Ragnheiður E. Árnadóttir og Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar, stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og helstu sjónarmið. Þá ræddu þau um samskipti Íslands og Bandaríkjanna og helstu áhersluatriði Íslands varðandi þróun NATO og grunnstefnu bandalagsins. Enn fremur áttu Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, og Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fund með nefndarmönnum þar sem rætt var um norðurslóðamál. Björn sagði frá lagalegu umhverfi á norðurskautssvæðinu auk þess sem hann ræddi opnun nýrra siglingaleiða og áskoranir varðandi mengunar- og björgunarmál. Þá hélt Orri erindi um viðskiptatækifæri á norðurslóðum og ræddi m.a. um þróun lýðfræði, náttúru og hagkerfa norðurslóða. Hann lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að hafa skýra efnahagsstefnu og skapa viðskiptatækifæri sem leiða til hagsældar fyrir íbúa norðurslóða. Líflegar umræður fóru fram á fundinum og ræddu nefndarmenn m.a. viðskiptasamband Íslendinga og Kínverja í ljósi aukins áhuga Kínverja á norðurslóðum.
    Eftir hádegi heimsóttu nefndarmenn Reykjanesvirkjun þar sem Þorgrímur Stefán Árnason, öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisstjóri HS Orku hf., tók á móti nefndarmönnum og kynnti starfsemi virkjunarinnar. Þá áttu nefndarmenn fund með Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Sigurður St. Arnalds, framkvæmdastjóra orku, hjá Mannviti. Þeir fræddu nefndarmenn um orkumál á Íslandi með áherslu á endurnýtanlega orku og nýsköpun í tæknimálum. Þá var rætt um mögulegt framlag Íslands til orkumála í heiminum og hvernig nýta mætti þá þekkingu og reynslu sem skapast hefði hér á landi.
    Seinni fundardaginn áttu nefndarmenn fund með Gylfa Zoëga, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og Guðna Th. Jóhannessyni, doktor í sagnfræði. Þeir héldu erindi um efnahagshrunið á Íslandi og viðbrögð íslenskra stjórnvalda við því. Þá ræddu þeir um stöðu íslensku bankanna og þróun í efnahagsmálum þjóðarinnar. Enn fremur áttu nefndarmenn fund með Helga Áss Grétarssyni, lektor við lagastofnun Háskóla Íslands, og Hauki Má Gestssyni, hagfræðingi hjá Sjávarklasanum. Helgi hélt erindi um fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga og svaraði spurningum nefndarmanna varðandi kvótakerfið og þróun fiskistofna. Haukur Már lagði í máli sínu áherslu á efnahagslegt mikilvægi fiskveiða og sagði m.a. frá verkefnum sem Sjávarklasinn ynni að. Hann sagði enn fremur að Sjávarklasinn hefði að leiðarljósi að stuðla að tækifærum og styrkingu tengslanets milli fyrirtækja í haftengdri starfsemi á Íslandi og um allan heim. Sem stendur vinnur Íslenski sjávarklasinn að nokkrum stórum verkefnum og meðal þeirra eru North Atlantic Marine Cluster Project sem gengur út á samstarf sjávarklasa kringum Norður-Atlantshafið, Codland, fullvinnsluverksmiðja og rannsókn á nýtingu þorskafla við Norður-Atlantshafið.
    Eftir hádegi heimsóttu nefndarmenn Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að Bessastöðum og áttu með honum fund. Ólafur Ragnar fræddi nefndarmenn m.a. um norðurslóðamál, þjóðaratkvæðagreiðslur Íslendinga og efnahagsbata þjóðarinnar eftir hrun bankakerfisins haustið 2008. Því næst áttu nefndarmenn fund með fulltrúum utanríkisráðuneytisins, þeim Jónasi Allanssyni, sérfræðingi alþjóðamála, og Jörundi Valtýrssyni, deildarstjóra varnarmála. Jónas kynnti stefnu íslenskra stjórnvalda í norðurslóðamálum fyrir nefndarmönnum og svaraði spurningum þeirra. Hann lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi Norðurskautsráðsins og að sókn í auðlindir norðurslóða og aukin umferð um svæðið ylli ekki spennu í samskiptum Norðurskautsríkjanna, heldur yrði náið samráð í milli þeirra um öryggi svæðisins. Jörundur ræddi um öryggismál á norðurslóðum og sagði m.a. að þróun á svæðinu fæli í sér margþætt og aðkallandi viðfangsefni á sviði öryggismála. Tryggja yrði að norðurslóðir verði áfram vettvangur friðsamlegrar samvinnu á grundvelli þjóðaréttar. Þá sagði Jörundur umhverfisöryggi svæðisins eitt brýnasta hagsmunamál Íslendinga enda bygði þjóðin afkomu sína að verulegu leyti á sjálfbærri nýtingu auðlinda lands og sjávar.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Prag dagana 9.–12. nóvember 2012. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Ragnheiður E. Árnadóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 257 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir tuttugu annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust var haldinn fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands þar sem rætt var um samskipti og samstarf NATO og Rússlands. Við setningu þingsins lagði Karl Lamers, forseti NATO-þingsins, áherslu á mikilvægi þess að aðildarríki NATO forðuðu að bregðast við efnahagskreppu með niðurskurði í fjármálum til varnarmála sem grafið gæti undan grundvallarskilyrðum varna. Þá ræddi hann um málefni Afganistans og að þau verði áfram forgangsverkefni ef þörf krefur, eftir að yfirfærsla á öryggismálum frá NATO til Afgana hefði átt sér stað árið 2014. Einnig ræddi Lamers um ástandið í Miðausturlöndum og Norður-Afríku og hvatti aðildarríkin til að nýta reynslu sína til að styðja við bakið á verðandi lýðræðisríkum á svæðinu.
    Stjórnmálanefnd NATO-þingsins fjallaði um þrjár skýrslur um Arabíska vorið: Skírskotun til öryggismála beggja vegna Atlantsála, Afganistan og öryggismál í Suðvestur-Asíu og Fjárhagslegar hömlur: ógn við samstöðu bandalagsins? Danski þingmaðurinn, John Dyrby Paulsen, var höfundur síðastnefndu skýrslunnar og lagði áherslu á nauðsyn þess að viðhalda trúverðugum varnarútgjöldum á tímum efnahagskreppunnar. Hann varaði við því að ef svo yrði ekki gert skapaðist hætta á því að grafið væri undan varnarhlutverk bandalagsins. Þá fjallaði vísinda- og tækninefnd á sínum fundi m.a. um kjarnorkuáætlun Írans, orku- og umhverfisöryggi og þau tækifæri sem blasa við NATO. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi m.a. um byltingarnar í Norður-Afríku, krafta breytinga og samfellu í Rússlandi og búferlaflutninga og innflytjendur á Miðjarðarhafssvæðinu og nýjar áskoranir sem þeim fylgja. Lokadrög að skýrslum um umræðuefnin voru kynnt nefndarmönnum af skýrsluhöfundum.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um Afganistan, til móts við árið 2014 og áfram, önnur um sjóræningja og viðbrögð NATO og alþjóðasamfélagsins við þeirri ógn og sú þriðja fjallaði um getu, metnað og framtíðarsýn NATO til ársins 2020. Ragnheiður tók þátt í umræðum nefndarinnar. Hún spurði m.a. Petr Pavel, liðsforingja og yfirmanns starfsmannamála herafla NATO í Tékklandi hver staðan væri í stækkunarmálum bandalagsins og hvort tímabært væri að bjóða nýjum ríkjum að sækja um aðild nú tíu árum eftir leiðtogafund NATO í Prag þar sem tekin var ákvörðun um stækkun bandalagsins. Pavel svaraði því til að rétt væri að standa við þau fyrirheit sem gefin hefðu verið varðandi stækkun bandalagsins en gæta þyrfti raunsæis og ekki væri skynsamlegt að hraða aðildarviðræðum þeirra ríkja sem áhuga hefðu á aðild að svo stöddu. Þá var Ragnheiður E. Árnadóttir endurkjörin varaformaður annarrar undirnefndar öryggis- og varnarmálanefndar NATO-þingsins.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um upptök og afleiðingar „evru- krísunnar“, efnahagslega vídd og afleiðingar arabíska vorsins og efnahagsleg tækifæri á norðurskautssvæðinu og skyldur varðandi umhverfis- og öryggismál. Ragnheiður tók þátt í umræðum nefndarinnar um málefni norðurskautssvæðisins en danski þingmaðurinn Jeppe Kofod er höfundur skýrslunnar. Ragnheiður lagði til minni háttar breytingar á texta ályktunar með skýrslunni og voru þær samþykktar. Í máli sínu lagði Ragnheiður áherslu á gott svæðasamstarf á norðurslóðum sem styrkst hefði á undarförnum árum. Hún sagði Norðurskautsráðið aðal samráðsvettvang norðurskautsríkjanna og stöðugt eflast og nefndi í því sambandi bindandi samning norðurskautsríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum sem samþykktur var á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk 2011. Hún sagði jafnframt mikilvægt að styðja við þann lagaramma og alþjóðasamninga sem eru til staðar á svæðinum og hafa gagnast vel. Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé viðurkenndur af öllum norðurskautsríkjunum átta en Bandaríkin hafa ein ríkjanna enn ekki fullgilt hann. Ragnheiður beindi því spurningu sinni að fulltrúum Bandaríkjanna á fundinum og spurði hver staðan væri varðandi málið í ljósi nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Fulltrúar Bandaríkjanna gátu ekki svarað spurningu Ragnheiðar að svo stöddu en mundu kanna málið.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrir árið 2013. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 og hún samþykkt með smávægilegum breytingum frá árinu 2012. Þingfundur NATO-þingsins fór fram á síðasta degi ársfundarins þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Karl A. Lamers, forseti NATO-þingsins, Milan Stech, forseti efri deildar tékkneska þingsins, Miroslava Nemcová, forseti neðri deildar tékkneska þingsins, Petr Necas, forsætisráðherra Tékklands, Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, Filip Vujanovic forseti Svartfjallalands, Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, og Nikola Gruevski, forsætisráðherra lýðveldisins Makedóníu.
    Í ávarpi sínu fór Rasmussen m.a. yfir aðgerðir NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands og fjárhagsáætlun bandalagsins. Hann lýsti yfir áhyggjum af niðurskurði aðildarríkjanna til varnarmála og hvatti þingmenn til að upplýsa ríkisstjórnir sínar og almenning um mikilvægi þess að fjárfesta í árangursríkum vörnum. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að niðurskurður á fjárframlögum til varnarmála yrði ekki svo mikill að hann veikti hæfni sambandsins til að uppfylla varnarskuldbindingar sínar. Jafnframt væri mikilvægt að auka aftur fjárframlög til varnarmála með batnandi efnahagsástandi. Þá sagði Rasmussen að NATO mundi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda Tyrkland gegn áhrifum ofbeldisástandsins í Sýrlandi. Enn fremur samþykkti þingið ályktun þar sem lýst er yfir samstöðu með Tyrklandi og ríkisstjórnir aðildarríkjanna eru hvattar til að aðstoða stjórnarandstöðu Sýrlands til að vinna bug á aðskilnaðarstefnu, hafa taumhald á öfgasinnum og binda endi á mannréttindabrot. Þá samþykkti þingið einnig ályktun þar sem hvatt er til frekari refsiaðgerða gegn Íran ef írönsk stjórnvöld halda áfram að neita viðræðum um kjarnorkuáætlun sína.
    Í fyrirspurnatíma að afloknu ávarpi framkvæmdastjórans tók Ragnheiður E. Árnadóttir til máls og spurði Rasmussen um afstöðu NATO til þess að Svíþjóð og Finnland, sem ekki eru aðildarríki NATO, tækju þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi að ósk íslenskra stjórnvalda. En NATO hefur frá árinu 2006 sinnt reglulegri loftrýmisgæslu umhverfis Ísland, enda stefna bandalagsins að öll aðildarríki þess njóti loftrýmiseftirlits. Rasmussen svaraði því til að hann væri persónulega hlynntur aðkomu Svíþjóðar og Finnlands að verkefninu, sérstaklega í ljósi aukinnar norrænnar samvinnu og samstarfs NATO við ríki utan bandalagsins. Afgreiða þyrfti beiðni íslenskra stjórnvalda frá Atlantshafsráðinu (NAC) og yrði sú ákvörðun tekin með hliðsjón af tillögum hernaðarnefndar NATO. Þá þyrfti málið að hljóta þingræðislega meðferð í sænska og finnska þinginu.
    Því næst fluttu skýrsluhöfundar framsögur um þær ályktanir sem málefnanefndirnar höfðu lagt fram og voru þær samþykktar. Karl A. Lamers lét af störfum sem forseti NATO-þingsins eftir tveggja ára kjörtímabil og óskaði nýkjörnum forseta þingsins, breska þingmanninum Hugh Bayley, til hamingju og velfarnaðar í starfi. Bayley sagði í ræðu sinni að NATO treysti undirstöður öryggismála beggja vegna Atlantsála en aðildarríkin yrðu að gera betur þegar kæmi að því að kynna mikilvægi þess fyrir almenningi aðildarríkjanna. Næsti vorfundur NATO-þingsins verður haldinn 17.–20. maí 2013 í Lúxemborg.
         
Nefndarfundir.
    Björgvin G. Sigurðsson sótti nefndarfundi efnahags- og stjórnmálanefndar á Svalbarða í maí, vísinda- og tækninefndar í Washington í júlí og fund formanna landsdeildar í Afganistan í nóvember 2012. Ragnheiður E. Árnadóttir sótti nefndarfundi varnar- og öryggismálanefndar sem varaformaður undirnefndar varnar- og öryggismálanefndar í Washington og Ohio í janúar sl. Jafnframt var Ragnheiður fulltrúi NATO-þingsins á þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var á Akureyri í september auk þess sem hún var gestgjafi nefndarfunda efnahagsnefndar NATO-þingsins sem haldnir voru í Reykjavík í september 2012. Þá sótti Ragnheiður ráðstefnu á vegum NATO-þingsins í Washington í desember. Birgitta Jónsdóttir sótti nefndarfund vinnuhóps um Miðjarðarhafssvæðið í Jórdaníu í júní.

Alþingi, 31. janúar 2013.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Ragnheiður E. Árnadóttir,


varaform.


Birgitta Jónsdóttir.







Fylgiskjal.

Ályktanir NATO-þingsins árið 2012.


Ársfundur í Prag, 10.–12. nóvember:
          Ályktun 393 um lýðræðislega þróun í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
          Ályktun 394 um framtíð lýðræðis í austri.
          Ályktun 395 um Afganistan: Að tryggja farsæla þróun.
          Ályktun 396 um viðskiptatækifæri á norðurslóðum, skyldur í umhverfismálum og öryggismál.
          Ályktun 397 um evrukrísuna: varnar- og öryggis skírskotanir.
          Ályktun 398 um NATO eftir leiðtogafundinn í Chicago.
          Ályktun 399 um þróunina í Sýrlandi með áherslu á öryggismál.
          Ályktun 400 um kjarnorkuáætlun Íran.