Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 318  —  162. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Karli Garðarssyni um greiðslur í tengslum við störf
rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.


     1.      Hvaða greiðslur fengu nefndarmenn í rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna fyrir störf sín við skýrslugerðina, sundurliðað eftir einstaklingum? Hvaða tímafjöldi lá að baki greiðslum til hvers og eins og hvert var tímakaupið?
    Laun nefndarmanna tóku mið af launum héraðsdómara eins og þau voru ákveðin af kjararáði. Laun héraðsdómara samanstanda af mánaðarlaunum auk eininga. Sú viðmiðun þótti eiga við þar sem í starfi rannsóknarnefndarmanna reynir m.a. á úrlausn lögfræðilegra viðfangsefna auk þess sem rannsóknarnefnd getur verið falið að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á það hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar skuli sæta ábyrgð. Þá er rannsóknarnefnd enn fremur ætlað að tilkynna ríkissaksóknara og þar til bærum aðilum vakni grunur um refsiverða háttsemi eða hvort opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar. Til viðbótar var nefndarmönnum ákveðið álag sem hlutfall af launum héraðsdómara til þess að mæta álagi og yfirvinnu, enda viðbúið að vinna rannsóknarnefndarmanna yrði mun umfangsmeiri en störf héraðsdómara. Hjá formanni var álag ákveðið 25% og hjá nefndarmönnum 12,5%. Laun nefndarmanna voru því föst fjárhæð á mánuði. Mánaðarlaun nefndarmanna með álagi, miðað við 1. febrúar 2013, voru hjá formanni 1.224.529 kr. og hjá öðrum nefndarmönnum 1.114.529 kr.
    Rannsóknarnefndarmenn hófu störf 1. september 2011 og þeim lauk þegar nefndin skilaði skýrslu sinni 10. apríl 2014. Sigríður Ingvarsdóttir starfaði sem formaður nefndarinnar til 20. september 2012 en Hrannar Már S. Hafberg tók við formennsku í nefndinni 1. október 2012 og gegndi henni þar til störfum nefndarinnar lauk. Þau Sigríður, Hrannar, Tinna Finnbogadóttir og Bjarni Frímann Karlsson voru í fullu starfi fyrir nefndina. Greiðslur til nefndarmanna á starfstíma þeirra voru annars vegar 16.151.220 kr. til Sigríðar Ingvarsdóttur í 13 mánuði til 20. september 2012 og 24.151.674 kr. til Hrannars í 19 mánuði frá 1. október 2012 og hins vegar 38.213.791 kr. til Tinnu í 32 mánuði, og 39.134.660 kr. til Bjarna Frímanns í 32 mánuði. Inni í þessum tölum er uppgjör á orlofi til nefndarmanna og fæðispeningar sem nefndarmenn áttu kost á frá 1. maí 2012. Mismunur á launum Tinnu og Bjarna Frímanns skýrist af launalausu orlofi Tinnu í október 2011 og mismunandi greiðslum vegna fæðispeninga.
    Í fyrirspurninni er spurt hvaða tímafjöldi hafi legið að baki greiðslum til hvers og eins og hvert hafi verið tímakaupið. Greiðslur til nefndarmanna voru ákveðnar sem föst fjárhæð á mánuði sem samanstóð af mánaðarlaunum, tilteknum fjölda eininga og álagi. Með þessu var greitt fyrir alla vinnu nefndarmanna en ljóst er að stærstan hluta starfstíma þeirra hjá nefndinni var vinnutíminn verulega umfram hefðbundna vinnuviku, bæði virka daga og um helgar. Ekki var um það að ræða að miðað væri við tímafjölda sem í raun lá að baki greiðslum til hvers og eins eða að gerðir væru sérstakir útreikningar á tímakaupi.

     2.      Hvert var fyrirkomulag greiðslna til nefndarmanna og annarra sem tengdust nefndinni? Voru þetta verktakagreiðslur eða var þeim greitt með öðrum hætti? Fengu nefndarmenn eða aðrir greitt orlof eða í lífeyrissjóð eða aðrar launatengdar greiðslur? Ef svo var, af hverju?
    Í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar var gerð grein fyrir fyrirkomulagi á greiðslum til nefndarmanna. Ekki var um að ræða greiðslur til „annarra sem tengdust nefndinni“, þ.e. ef með spurningunni er átt við tengsl við nefndarmenn. Af þessu leiðir að 2. liður fyrirspurnarinnar á ekki við. Um aðra sem störfuðu með eða í þágu nefndarinnar verður fjallað í svari við 4. lið.
    Rétt eins og í tilvikum annarra launþega bar samkvæmt lögum að greiða nefndarmönnum orlof og iðgjald af launum þeirra í lífeyrissjóð, sem og aðrar lögbundnar greiðslur eða greiðslur sem leiddi af ákvörðunum forseta Alþingis miðað við upphaflegar forsendur. Hér má að öðru leyti vísa til 11. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fyrirmæla kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum 4. kafla þeirra, laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir.

     3.      Var lögaðilum í eigu nefndarmanna, eða tengdum þeim, greitt fyrir störf fyrir nefndina? Ef svo var, hver voru tengsl lögaðilanna við nefndarmenn, fyrir hvaða vinnu var greitt, hvert var tímakaupið og hversu háar fjárhæðir var um að ræða?
    Nei.

     4.      Hverjir aðrir en nefndarmenn, og þeir sem nefndir eru að framan, fengu greitt fyrir störf í tengslum við störf rannsóknarnefndarinnar? Um hvers konar störf var að ræða, hvaða upphæð var um að ræða í hverju tilviki fyrir sig (átt er við bæði einstaklinga og lögaðila) og hvert var tímakaupið?
    Í 1. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar, bls. 31, kemur fram að fjöldi sérfræðinga með þekkingu á fjármálamarkaði, meðal annars löggiltir endurskoðendur, hafi komið að verkinu. Nefndarmenn hafi haft undir sinni stjórn 53 starfsmenn og verktaka. Í viðauka E í 7. bindi í skýrslu nefndarinnar er að finna lista með 53 starfsmönnum nefndarinnar og öðrum sem veittu henni aðstoð þegar allt er saman tekið. Listinn fylgir svari þessu sem fylgiskjal. Þar eru taldir starfsmenn nefndarinnar, verktakar sem unnu sjálfstætt og starfsmenn fyrirtækja (lögaðila) sem unnu á þeirra vegum fyrir nefndina. Enn fremur eru á listanum taldir einstaklingar sem veittu nefndinni ráðgjöf. Í viðaukanum kemur jafnframt fram að auk þeirra sem þar eru taldir hafi nokkur fjöldi starfsmanna unnið við endurritun, prófarkalestur og umbrot. Í yfirlitinu koma einnig fram upplýsingar um menntun og/eða starfsheiti viðkomandi einstaklinga og þar með á hvaða grundvelli þeir voru fengnir til starfa eða ráðgjafar fyrir nefndina og um hvers konar störf var að ræða.
    Til viðbótar þeim starfsmönnum sem nefndir eru í skýrslu nefndarinnar naut nefndin einnig aðstoðar starfsmanna Alþingis við uppsetningu og rekstur tölvukerfis og við eignaumsjón, sem og aðstoðar fjármálaskrifstofu Alþingis. Störf þessi voru unnin á vegum rannsóknarnefndarinnar og á ábyrgð hennar og birti nefndin því ekki nánari upplýsingar um störf hvers og eins en fram koma í skýrslu hennar.
    Alls voru 40 starfsmenn á launaskrá hjá nefndinni á starfstíma hennar. Eru þeir allir taldir í áðurnefndum viðauka E í 7. bindi í skýrslu nefndarinnar. Nánar verður fjallað um störf þeirra og laun hér á eftir. Alls fengu 33 aðilar (verktakar) greitt samkvæmt reikningi fyrir vinnu sína, þar af 20 einstaklingar.

Greiðslur til starfsmanna og sérfræðinga.
    Greiðslur fyrir störf þeirra einstaklinga sem unnu í þágu rannsóknarnefndarinnar tóku mið af því hvernig greitt væri fyrir sambærileg störf hjá ríkinu. Þeir einstaklingar sem fengu greidd mánaðarlaun eða að hluta fyrir störf í þágu nefndarinnar fengu laun sín greidd í gegnum launakerfi ríkisins samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess. Við ákvörðun launa var leitast við að starfsmenn sem komu tímabundið úr öðrum störfum héldu sömu launum í störfum sínum fyrir nefndina. Var þá litið til þess að starfsmenn voru fengnir til sérhæfðra starfa með stuttum fyrirvara í skamman tíma og því oft um takmarkaða ávinnslu réttinda að ræða samkvæmt gildandi kjarasamningi. Við aðra starfsmenn var samið sérstaklega á grundvelli fyrrnefnds kjarasamnings. Við röðun þeirra var byggt á menntun og starfsreynslu og leitast við að taka tillit til þess að um tímabundið starf var að ræða og að teknu tilliti til sambærilegra starfa hjá ríkinu. Í upphafi ráðningar var almennt gert ráð fyrir þriggja mánaða reynslutíma og eftir þann tíma voru laun starfsmanna endurskoðuð. Í þeim tölum sem raktar eru hér á eftir er miðað við laun starfsmanna að loknum reynslutíma.
    Starfstími þeirra sem komu að störfum hjá nefndinni var í heild mjög mismunandi og það eitt hvaða upphæð var um að ræða í hverju tilviki fyrir sig gefur takmarkaða mynd af því hvert tímakaupið var í raun. Greiðslum til hvers og eins var hagað í samræmi við vinnuframlag hans og fyrirmæli kjarasamninga starfsmanna Alþingis og stofnana þess.
    Alls fengu 40 einstaklingar greidd laun samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess fyrir störf sín. Fóru greiðslur til þeirra í gegnum launakerfi ríkisins. Af þeim fengu 37 greidd full mánaðarlaun eða að hluta og þrír fengu greitt samkvæmt tímakaupi í dagvinnu. Tímafjöldinn var afar mismunandi. Á átta mánaða tímabili fékk einn sem svarar 163.463 kr. á mánuði, annar sem svarar 479.004 kr. á mánuði á rétt rúmlega tveggja mánaða tímabili auk mánaðarlegra greiðslna fyrir mælda yfirvinnu 289.820 kr. og einn 202.436 kr. í nóvember 2012 auk 186.000 kr. fyrir yfirvinnu í sama mánuði. Enn fremur fengu þrír einstaklingar sem höfðu starfað fyrir nefndina greitt tímakaup í dagvinnu fyrir tilfallandi vinnu eftir að ráðningu þeirra lauk hjá nefndinni. Einn þeirra fékk 342.174 kr. á tíu mánaða tímabili, annar 135.085 kr. á fimm mánaða tímabili og sá þriðji 124.211 kr. fyrir vinnu í ágúst 2012. Tveir þeirra sem eingöngu fengu greitt tímakaup unnu störf á sviði lögfræði og einn á sviði hagfræði og sögu.
    Af framangreindum 40 einstaklingum voru átta starfsmenn Alþingis sem komu að lokafrágangi skýrslu nefndarinnar. Heildargreiðslur til hvers og eins ásamt orlofi voru á bilinu 12.000–151.000 kr. og fóru þær í gegnum launakerfi ríkisins, almennt sem yfirvinna enda um að ræða störf utan daglegrar vinnuskyldu. Þá vann einn starfsmaður Alþingis við ræstingar fyrir tvær rannsóknarnefndir á níu mánaða tímabili en laun hans voru að meginstefnu ákveðin samkvæmt uppmælingu. Laun vegna þessa starfsmanns voru bókfærð á rekstur rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð o.fl. Loks ber þess að geta að af áðurnefndum 40 starfsmönnum unnu fjórir einnig fyrir rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð o.fl. Unnu þessir starfsmenn ólík störf. Einn sinnti skrifstofustörfum, einn tölvuþjónustu og tveir yfirlestri. Mánaðarlaun hvers þeirra voru á bilinu 300.000–490.000 kr.
    Mánaðarlaun þeirra einstaklinga sem áður er ógetið voru samkvæmt launatöflu sem fylgdi kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess. Almennt höfðu starfsmenn þessir háskólamenntun, svo sem á sviði lögfræði, viðskiptafræði og hagfræði, og störfuðu á þeim sviðum. Mánaðarlaun til þeirra fyrir fullt starf voru í tilvikum tveggja starfsmanna á bilinu 280.000–360.000 kr. Hjá níu einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 420.000–500.000 kr. Hjá öðrum níu einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 500.000–580.000 kr. Hjá sjö einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 580.000–660.000 kr. og hjá þremur einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 660.000–740.000 kr.
    Til viðbótar mánaðarlaunum fengu þrír starfsmenn greiddar fastar einingar á mánuði, einn 25 einingar, einn 50 einingar og einn 61 einingu. Hver greidd eining var 4.576 kr. Alls fengu 12 starfsmenn greidda fasta yfirvinnu. Fastar einingar og föst yfirvinna voru í upphafi ákveðnar til þess að mæta yfirvinnu og álagi. Upphæð yfirvinnustunda er tiltekið hlutfall (1,0385%) af þeim launaflokki sem starf starfsmanns tekur til samkvæmt kjarasamningi. Mánaðarlegar greiðslur fyrir fasta yfirvinnu voru á bilinu 56.000–117.000 kr. Einn starfsmaður fékk greiddar 177.398 kr. til viðbótar mánaðarlaunum. Alls fengu níu starfsmenn greidda mælda yfirvinnu. Þegar á nefndarstarfið leið og undir lok þess kom í ljós að yfirvinna níu af tólf starfsmönnum með fasta yfirvinnu var orðin meiri en gert hafði verið ráð fyrir við ákvörðun yfirvinnu þeirra. Mæld yfirvinna starfsmanna var afar mismunandi. Starfsmenn skiluðu mánaðarlega tímaskýrslum fyrir yfirvinnu sína sem voru staðfestar af formanni áður en til greiðslu kom. Inni í heildartölum með launatengdum gjöldum eru t.d. tölur um yfirvinnu, einingar og orlof.
    Auk framangreindra einstaklinga unnu starfsmenn Alþingis á fjármálaskrifstofu, í tölvudeild og í eignaumsýslu ýmis störf fyrir nefndina. Þessir starfsmenn fengu ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín. Kostnaður skrifstofu Alþingis af þessum sökum og annar rekstrarkostnaður hennar var áætlaður í lokauppgjöri.

Greiðslur til verktaka.
    Greiðslur til verktaka eru hér á eftir tilgreindar án virðisaukaskatts þar sem hann fékkst endurgreiddur af vinnu sérfræðinga.
    Af þeim 33 aðilum sem fengu greidd verktakalaun fengu átta einstaklingar greitt fyrir endurritun á framburði þeirra sem komu fyrir nefndina. Greiddar voru 0,5 kr. fyrir hvert slag. Heildarfjárhæð fyrir þessi störf nam 5.229.120 kr. Tímagjald verktaka var ákveðið á grundvelli rammaútboðs Ríkiskaupa í tilvikum fjögurra lögaðila (BDO ehf., Deloitte ehf, Grant Thornton endurskoðun ehf. og PricewaterhouseCoopers ehf.) eða samnings hverju sinni. Samningar við einstaklinga í verktöku tóku mið af menntun, reynslu, þekkingu og hæfni þeirra og einnig umfangi verksins. Fjárhæð tímagjalds var því mismunandi. Verktakar við yfirlestur voru fimm og við þýðingar tveir. Þrír þessara aðila voru með tímagjald á bilinu 3.000–5.500 kr. og fjórir á bilinu 6.000–11.000 kr. Alls fengu fimm sérfræðingar á sviði lögfræði og fjármála greitt samkvæmt reikningi, þar sem tímagjaldið var 6.000–14.000 kr. Einn þeirra, Pétur Bjarni Magnússon lögfræðingur, fékk greiddar 28.195.000 kr. Tímagjald hans var 6.000 og 10.000 kr. Starfaði hann fyrir nefndina í rétt um 14 mánuði (mars 2013 – maí 2014).
    Þá var 13 lögaðilum, þar af ellefu einkahlutafélögum, einu samlagsfélagi og einum landshlutasamtökum, greitt fyrir ýmsa sérfræðiaðstoð. Þar af voru fimm á sviði endurskoðunar og hagfræði, þrír á sviði lögfræði, þrír á sviði hugbúnaðargerðar og kynningarmála og tveir fengu greitt fyrir endurritun. Tímagjald hjá einstökum lögaðilum var á bilinu 9.000–21.000 kr. Tveir lögaðilar fengu greiðslur umfram 40 millj. kr.: Skattar og ráðgjöf ehf. 62.069.979 og PricewaterhouseCoopers ehf. 42.133.200 kr. Vinna þessara lögaðila fólst m.a. í því að lána nefndinni starfsmenn með þekkingu á lögfræði, fjármálum og endurskoðun. Meginþungi vinnu starfsmanna Skatta og ráðgjafar ehf. var á tímabilinu júní 2012 til loka febrúar 2013. Þá veitti fyrirtækið einnig ráðgjöf á tímabilinu maí 2013 til nóvember sama ár. Meginvinna starfsmanna PricewaterhouseCoopers ehf. átti sér stað frá því í desember 2012 og til nóvemberloka 2013.
    Samtals námu greiðslur til verktaka 190.364.387 kr. Á eftirfarandi yfirliti eru upplýsingar um þá verktaka sem fengu hærri greiðslur en 1,5 millj. kr.

Nafn Fjárhæð Viðfangsefni
Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir 1.633.077 Endurritun
BDO ehf. 9.937.302 Rannsóknarvinna
Eyvindur G. Gunnarsson slf. 2.227.500 Lögfræði og textavinna
Grant Thornton endurskoðun ehf. 13.355.229 Endurskoðun
Lögmannsstofur ehf. 6.729.136 Lögfræði og rannsóknir
Már Wolfgang Mixa 1.662.000 Rannsóknarvinna
Pétur Bjarni Magnússon 28.195.670 Lögfræði og textavinna
PricewaterhouseCoopers ehf. 42.133.200 Rannsóknir og ráðgjöf
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi 5.792.088 Hagsaga og rannsóknir
Skattar og ráðgjöf ehf. 62.069.979 Lögfræði og rannsóknir



Fylgiskjal.


Starfsfólk nefndarinnar og aðrir sem veittu henni ráðgjöf og aðstoð.


          Aðalsteinn Eyþórsson, B.A. í íslensku.
          Agnes Björk Blöndal, M.L. í lögfræði, héraðsdómslögmaður.
          Anna Sif Gunnarsdóttir, M.Sc. í fjármálum, löggiltur verðbréfamiðlari.
          Arna Björk Jónsdóttir, B.A. í íslensku.
          Arnaldur Hjartarson, mag.jur., LL.M.
          Arnfríður Kristín Arnardóttir, B.Sc. í viðskiptafræði, löggiltur verðbréfamiðlari.
          Árni Möller, M.Sc. í verkfræði, MBA.
          Ásgeir Jónsson, Ph.D. í hagfræði.
          Benedikt Hallgrímsson, mag.jur., héraðsdómslögmaður.
          Benedikt Smári Skúlason, mag.jur.
          Berglind Sigurðardóttir, M.Sc. í fjármálum fyrirtækja.
          Bergur Hallgrímsson, verkfræðinemi við Háskólann í Reykjavík.
          Björgvin Rafn Sigurðarson, mag.jur.
          Björn Snær Atlason, M.Sc. í fjárfestingarstjórnun.
          Björn Þorsteinsson, dr. phil. í heimspeki.
          Bryndís Björk Guðjónsdóttir, löggiltur endurskoðandi.
          Davíð Arnar Einarsson, cand. oecon, löggiltur endurskoðandi.
          Einar Leif Nielsen, verkfræðingur, M.Sc. í stærðfræði.
          Erla Guðrún Ingimundardóttir, B.A. í lögfræði.
          Esther Finnbogadóttir, cand. oecon, MBA.
          Esther Anna Jóhannsdóttir, B.Sc. í viðskiptafræði.
          Eyvindur Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
          Guðbjörg Þorsteinsdóttir, M.L. í lögfræði, héraðsdómslögmaður.
          Guðlaug S. Sigurðardóttir, cand. oecon.
          Guðmundur Jónsson, M.L. í lögfræði, héraðsdómslögmaður.
          Guðrún Aradóttir, B.Sc. í viðskiptafræði.
          Hafdís Björk Stefánsdóttir, viðskiptafræðinemi við Háskólann á Bifröst.
          Haukur Guðmundsson, mag.jur.
          Hákon Zimsen, cand.jur.
          Helga Birna Brynjólfsdóttir, B.Sc. í viðskiptafræði.
          Helga Harðardóttir, löggiltur endurskoðandi.
          Héðinn Eyjólfsson, M.Sc. í viðskiptafræði.
          Hjördís Gunnarsdóttir, B.Sc. í viðskiptafræði.
          Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir, mag.jur.
          Hólmfríður Kristjánsdóttir, cand.jur., héraðsdómslögmaður.
          Katrín Pálsdóttir.
          Kristín Benediktsdóttir, cand.jur., lektor og doktorsnemi við lagadeild Háskóla Íslands.
          Laufey Guðjónsdóttir, cand. oecon.
          Lára Sverrisdóttir, cand.jur., héraðsdómslögmaður.
          Linda Björk Halldórsdóttir, M.Sc. í mannauðsstjórnun.
          Már Wolfgang Mixa, M.Sc. í fjármálum, doktorsnemi í fjármálum, löggiltur verðbréfamiðlari.
          Pétur Steinn Guðmundsson, M.L. í lögfræði, héraðsdómslögmaður.
          Pétur Bjarni Magnússon, cand.jur.
          Sara Sigríður Ragnarsdóttir, mag.jur.
          Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands.
          Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi.
          Stefán Andri Stefánsson, M.A. í hagfræði.
          Sveinn Agnarsson, ekon. dr. í hagfræði.
          Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
          Tryggvi Hjörvar, M.Sc. í verkfræði.
          Valgeir Steinn Runólfsson, nemi við Menntaskólann í Reykjavík.
          Vífill Karlsson, Ph.D. í hagfræði.
          Þórunn Ansnes Bjarnadóttir, M.Sc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.