Ferill 63. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 438  —  63. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/ eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Eftirlitsstjórnvöld á sviði fjármálamarkaðar og efnahagsmála eru Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands.

Fjármálaeftirlitið.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með fjármálastarfsemi samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst í því að veita eftirlitsskyldum aðilum markvisst aðhald og stuðla að skilvirkri og traustri fjármálastarfsemi. Einnig er fylgst með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem gilda um starfsemina og í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
    Eftirfarandi flokkar fjármálafyrirtækja og aðila í fjármála- og vátryggingastarfsemi lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins: Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki (fjárfestingarbankar), verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða, verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir, vátryggingafélög, félög og einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun, kauphallir og skipulegir tilboðsmarkaðir, verðbréfamiðstöðvar, lífeyrissjóðir, innlánsdeildir samvinnufélaga, innheimtuaðilar, greiðsluþjónusta, útgáfa og meðferð rafeyris, verðbréfaviðskipti og útgefendur sértryggðra skuldabréfa.
    Einnig hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með Íbúðalánasjóði, Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Tryggingasjóði sparisjóða, slitastjórnum, starfsemi kauphalla, skipulagðra verðbréfamarkaða, markaðstorga fjármálagerninga og verðbréfamiðstöðva. Að auki er Fjármálaeftirlitinu falið að hafa eftirlit með aðilum sem hafa starfsleyfi frá stofnuninni og lífeyrissjóðum ásamt því að hafa eftirlit með því að góðum viðskiptaháttum og -venjum sé fylgt hjá eftirlitsskyldum aðilum.

Seðlabanki Íslands.
    Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með framkvæmd laga um gjaldeyrismál, fjármálastöðugleika og lausafjárhlutfall.
    Vegna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum síðustu ár hefur eftirlit Seðlabankans með gjaldeyrismálum aðallega verið fólgið í því að fylgjast með því að takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum séu virtar. Eftirlit Seðlabankans með fjármálastöðugleika á Íslandi felst í að rannsaka og greina hættur sem gætu raskað stöðugleika fjármálakerfisins svo unnt sé að sjá veikleika sem gætu leitt til alvarlegra áfalla. Tvisvar á ári er framkvæmd ítarleg úttekt á þjóðhagslegu umhverfi, fjármálamörkuðum, fjármálastofnunum og greiðslukerfum. Seðlabankinn fylgist einnig með lausafjárhlutfalli lánastofnana. Reglur um lausafjárhlutfall eiga að stuðla að því að lánastofnanir eigi ávallt nægt laust fé til að mæta fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili og skulu þær senda Seðlabankanum skýrslur þar að lútandi. Markmið reglnanna er að draga úr skaðlegum áhrifum áfalla á fjármálamarkaði sem gætu komið fram í lausafjárþrengingum.

    Eftirlitsaðilar á sviði skatta- tolla og innheimtumála eru embætti ríkisskattstjóra, embætti tollstjóra og embætti skattrannsóknarstjóra.

Embætti ríkisskattstjóra.
    Embætti ríkisskattstjóra fer með skatteftirlit á landinu öllu. Með skatteftirliti er átt við hvers konar könnun á réttmæti skattskila, fyrir og eftir álagningu, eða ákvörðun opinberra gjalda eða skatta. Þá felst skatteftirlit einnig í samtímaeftirliti með rekstraraðilum.

Embætti tollstjóra.
    Embætti tollstjóra hefur eftirlitshlutverki að gegna vegna þeirra gjalda sem eru á hans verksviði. Þá annast hann rannsókn ætlaðra brota gegn refsiákvæðum tollalaga. Tollstjóri hefur einnig það hlutverk að fara með stefnumótun á sviði innheimtumála á landsvísu og gegnir m.a. eftirlitshlutverki gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs.

Embætti skattrannsóknarstjóra.
    Embætti skattrannsóknarstjóra hefur með höndum rannsóknir á skattsvikum og öðrum refsiverðum brotum á lögum um skatta og gjöld sem lögð eru á af ríkisskattstjóra.

     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Athugunar- og rannsóknarheimildir eftirlitsstofnana eru í stöðugri endurskoðun og stöðugt er unnið að því að samræma og bæta efni þeirra. Þar sem Ísland er aðili að EES-samningnum leiðir það af sér að löggjöf á fjármálamarkaði á Íslandi er samræmd þeirri löggjöf sem er á innri markaði EES. Endurskoðun og samræming laga og reglna á fjármálamarkaði er því hluti af þeirri vinnu auk þess sem sífellt er lögð aukin áhersla á það á alþjóðavettvangi að eftirlit með fjármálastarfsemi í einstökum löndum sé samræmt.
    Sérstaklega er bent á að með lögum nr. 75/2010 var lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, breytt. Með þeim lögum fékk Fjármálaeftirlitið auknar eftirlitsheimildir, m.a. var fjölgað ákvæðum um heimildir þess til að leggja mat á rekstur eða hegðun eftirlitsskylds aðila. Þá var með lögunum aukin ábyrgð innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar fjármálafyrirtækja.
    20. september 2013 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra nefnd um athugun á stjórnsýslu skattamála á Íslandi. Nefndinni var falið að skoða þær réttarheimildir sem í gildi eru um stofnanir skattkerfisins og leggja mat á hvort gildandi réttur skapaði hættu á tvíverknaði, óhagkvæmni, misjöfnum niðurstöðum í sams konar málum og óþarflega löngum málsmeðferðartíma. Nefndin skilaði skýrslu í desember 2013 og er hún birt á vefsíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í niðurstöðukafla skýrslunnar á bls. 46 eru settar fram nokkrar ábendingar og meðal þeirra eru þessar sem snerta fyrirspurnina:
          Skýra verður mörk milli starfssviða eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra og embættis skattrannsóknarstjóra. Sé þess ekki kostur þarf að byggja stjórnsýslukerfi upp með þeim hætti (t.d. með samráði eða tilflutningi verkefna) að hætta á bærnivandræðum minnki og útilokað verði að sambærileg mál hljóti mismunandi meðferð.
          Koma verður í veg fyrir endurtekna rannsókn meiri háttar skattamála sem nú eru fyrst rannsökuð hjá skattrannsóknarstjóra og síðan hjá lögreglu.
    Það er mat fjármála- og efnahagsráðherra að taka þurfi framangreindar ábendingar til skoðunar samhliða því að ákveða um framtíðarskipulag á rannsóknum efnahagsbrota. Einnig mætti skýra betur mörk á milli skattrannsókna og skatteftirlits í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?
    Vísað er til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 sem gefin var út árið 2010.
    Ráðuneytinu hafa ekki borist upplýsingar um mistök við framkvæmd eftirlits hjá þeim stofnunum sem fjallað er um í svari við 1. tölul.