Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 963  —  589. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (eigið fé, könnunar- og matsferli, vogunarhlutfall, valdheimildir o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    1. gr. a laganna orðast svo:
    Í lögum þessum merkir:
     1.      Fjármálafyrirtæki: Viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki eða rekstrarfélag verðbréfasjóða sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.
     2.      Lánastofnun: Fyrirtæki sem tekur á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi og veitir lán fyrir eigin reikning. Fjármálafyrirtæki sem hefur fengið starfsleyfi skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. telst vera lánastofnun.
     3.      Staðbundið fyrirtæki: Verðbréfafyrirtæki sem stundar viðskipti fyrir eigin reikning á mörkuðum fyrir staðlaða framvirka samninga, valrétti eða aðrar afleiður og á lausafjármörkuðum, eingöngu í þeim tilgangi að verja stöður á afleiðumörkuðum, eða það stundar viðskipti fyrir reikning annarra sem eiga aðild að sömu mörkuðum og þar sem gert er ráð fyrir að uppgjörsaðilar ábyrgist að staðið verði við samninga sem slíkt fyrirtæki gerir.
     4.      Vátryggingafélag: Vátryggingafélag eins og það er skilgreint í lögum um vátryggingastarfsemi.
     5.      Fjármálasamsteypa: Samstæða félaga eða félög sem hafa með sér náin tengsl, sbr. 23. tölul., þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á fjármálasviði og annar aðili starfar á vátryggingasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á fjármálasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á vátryggingasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 3. mgr. 109. gr. Fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur skv. 3. mgr. 109. gr., telst samstæðan vera fjármálasamsteypa. Sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði 1. málsl. þessa töluliðar skal líta á sem fjármálasamsteypu.
     6.      Framkvæmdastjóri: Einstaklingur sem stjórn fjármálafyrirtækis ræður til þess að standa fyrir rekstri þess í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga eða laga þessara, burtséð frá starfsheiti að öðru leyti.
     7.      Lykilstarfsmaður: Einstaklingur í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu fyrirtækisins.
     8.      Kaupauki: Starfskjör starfsmanns fjármálafyrirtækis sem að jafnaði eru skilgreind með tilliti til árangurs og eru ekki þáttur í föstum starfskjörum starfsmanns þar sem endanleg fjárhæð eða umfang þeirra liggur ekki fyrir með nákvæmum hætti fyrir fram.
     9.      Móðurfélag: Fyrirtæki telst vera móðurfélag þegar það:
                  a.      ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
                  b.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
                  c.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
                  d.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða
                  e.      á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.
                 Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem móðurfélag og dótturfélag ráða yfir.
                 Við mat á atkvæðisrétti í dótturfélagi skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfélagsins eða dótturfélögum þess.
     10.      Dótturfélag: Fyrirtæki sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 9. tölul. teljast vera dótturfélög. Fyrirtæki sem er dótturfélag dótturfélags telst einnig vera dótturfélag móðurfélags.
     11.      Samstæða: Móðurfélag og dótturfélög þess mynda samstæðu.
     12.      Útibú: Starfsstöð sem lögum samkvæmt er háð fjármálafyrirtæki, sem hún er hluti af, og annast með beinum hætti öll eða hluta þeirra viðskipta sem fjármálafyrirtæki stundar.
     13.      Félag í hliðarstarfsemi: Félag sem hefur að meginstarfsemi að sjá um þjónustu sem er til viðbótar við meginstarfsemi eins eða fleiri fjármálafyrirtækja, svo sem gagnavinnsluþjónustu, umsjón með fasteignum eða sambærilega þjónustu.
     14.      Eignarhaldsfélag á fjármálasviði: Fjármálastofnun sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem dótturfélögin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fjármálastofnanir og a.m.k. eitt dótturfélagið er fjármálafyrirtæki.
     15.      Blandað eignarhaldsfélag: Móðurfélag sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi þar sem a.m.k. eitt dótturfélag er fjármálafyrirtæki.
     16.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, þar sem a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.
     17.      Fjármálastofnun: Fyrirtæki, annað en fjármálafyrirtæki, sem hefur að meginstarfsemi að afla eignarhluta eða sinna einni eða fleiri tegundum starfsemi sem um getur í 2.–12. og 15. tölul. 1. mgr. 20. gr., þ.m.t. eignarhaldsfélög á fjármálasviði, blönduð eignarhaldsfélög og greiðslustofnanir í skilningi laga um greiðsluþjónustu, en að undanskildum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði eins og þau eru skilgreind í lögum um vátryggingastarfsemi.
     18.      Aðili á fjármálamarkaði: Eftirtaldir aðilar teljast aðilar á fjármálamarkaði:
                  a.      Fjármálafyrirtæki.
                  b.      Fjármálastofnun.
                  c.      Félag í hliðarstarfsemi sem er hluti af samstæðustöðu fjármálafyrirtækis.
                  d.      Vátryggingafélag.
                  e.      Vátryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins.
                  f.      Endurtryggingafélag.
                  g.      Endurtryggingafélag utan Evrópska efnahagssvæðisins.
                  h.      Eignarhaldsfélag á vátryggingasviði.
                  i.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.
                  j.      Blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði.
                  k.      Vátryggingafélag sem er undanskilið gildissviði tilskipunar 2009/138/EB skv. 4. gr. þeirrar tilskipunar.
                  l.      Fyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins með meginstarfsemi sambærilega við starfsemi skv. a–j-lið.
     19.      Hlutdeildarfélag: Félag sem fjármálafyrirtæki hefur veruleg áhrif á eða þar sem beinn eða óbeinn eignarhluti nemur 20% eða meira af atkvæðisrétti eða hlutafé.
     20.      Venslaðir aðilar: Til venslaðra aðila teljast tengdir aðilar samkvæmt settum reikningsskilareglum, sbr. lög um ársreikninga. Til venslaðra aðila geta einnig talist aðrir aðilar sem Fjármálaeftirlitið metur að eigi beinna og skyldra hagsmuna að gæta vegna starfsemi fjármálafyrirtækis.
     21.      Virkur eignarhlutur: Bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.
     22.      Yfirráð: Tengsl milli móðurfélags og dótturfélags, eins og þau eru skilgreind í lögum um ársreikninga, eða sambærilegt samband milli einstaklings eða lögaðila og félags.
     23.      Náin tengsl: Náin tengsl teljast vera til staðar þegar einstaklingar og/eða félög tengjast með einhverjum eftirfarandi hætti:
                  a.      með hlutdeild í formi beins eignarréttar eða yfirráðum sem nemur 20% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðavægi félags,
                  b.      með yfirráðum eða
                  c.      með varanlegum tengslum þeirra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.
     24.      Hópur tengdra viðskiptamanna: Það telst hópur tengdra viðskiptamanna ef öðru eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
                  a.      tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum eða
                  b.      tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a-lið, en þeir teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum, einkum í tengslum við fjármögnun eða endurgreiðslu skulda, eigi hinn aðilinn eða allir í erfiðleikum með fjármögnun eða endurgreiðslu skulda.
     25.      Samstarf: Samstarf skal m.a. vera talið á milli aðila ef þeir hafa gert með sér samkomulag um að einn eða fleiri saman nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf skal alltaf talið vera fyrir hendi þegar um eftirfarandi tengsl er að ræða, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða:
                  a.      Hjón, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi.
                  b.      Tengsl milli aðila sem fela í sér bein eða óbein yfirráð annars aðilans yfir hinum eða ef tvö eða fleiri félög eru beint eða óbeint undir yfirráðum sama aðila. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, c- og d-lið.
                  c.      Félög sem aðili á með beinum eða óbeinum hætti verulegan eignarhlut í, þ.e. aðili á með beinum eða óbeinum hætti a.m.k. 20% hluta atkvæðisréttar í viðkomandi félagi. Félag, móðurfélag þess, dótturfélög og systurfélög teljast í samstarfi. Taka skal tillit til tengsla aðila skv. a-, b- og d-lið.
                  d.      Tengsl á milli félags og stjórnarmanna þess og félags og framkvæmdastjóra þess.
     26.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
     27.      Fjármálagerningur: Fjármálagerningur eins og hann er skilgreindur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og aðrir gerningar sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 2. mgr.
     28.      Stofnframlag: Með stofnframlagi fjármálafyrirtækis er átt við fjárhæð og tegund þess eigin fjár sem fjármálafyrirtæki skal hafa til þess að hljóta starfsleyfi.
     29.      Stór áhættuskuldbinding: Áhættuskuldbinding, þ.e. lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhlutir og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis, svo og aðrar skuldbindingar gagnvart fjármálafyrirtækinu, sem nemur 10% eða meira af eiginfjárgrunni þess.
     30.      Verðbréfun: Viðskiptasamningur eða kerfisfyrirkomulag þar sem útlánaáhætta tengd ákveðinni áhættuskuldbindingu eða safni áhættuskuldbindinga er skipt í áhættulög eignasafns og hefur bæði eftirfarandi einkenna:
                  a.      greiðslur samkvæmt viðskiptasamningnum eða kerfisfyrirkomulaginu eru háðar afkomu og efndum af áhættuskuldbindingunni eða safni áhættuskuldbindinga og
                  b.      forgangsröðun áhættulaganna ákvarðar dreifingu taps á líftíma viðskiptasamningsins eða kerfisfyrirkomulagsins.
     31.      Verðbréfuð staða: Áhættuskuldbinding vegna verðbréfunar.
     32.      Endurverðbréfun: Verðbréfun þar sem áhætta tengd undirliggjandi safni áhættuskuldbindinga er lagskipt í hluta og að lágmarki ein undirliggjandi áhættuskuldbinding er verðbréfuð staða.
     33.      Endurverðbréfuð staða: Áhættuskuldbinding vegna endurverðbréfunar.
     34.      Hæft fjármagn: Samtala eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 1 skv. 84. gr. a og 84. gr. b og eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 2 skv. 84. gr. c sem að hámarki má nema þriðjungi af eiginfjárgrunnsgerningum þáttar 1.
     35.      Stöður sem er haldið vegna veltuviðskipta: Einhver af eftirfarandi stöðum:
                  a.      stöður fyrir eigin reikning og stöður sem tengjast tiltekinni þjónustu fyrir viðskiptavin og viðskiptavakt,
                  b.      stöður sem ætlunin er að selja aftur innan skamms tíma eða
                  c.      stöður sem teknar eru til að hagnast á skammtímamismun á milli kaup- og söluverðs eða öðrum verð- og vaxtabreytingum.
     36.      Veltubók: Allar stöður í fjármálagerningum og hrávörum sem fjármálafyrirtæki heldur, annaðhvort til veltuviðskipta eða til að verja stöður sem haldið er til veltuviðskipta.
     37.      Óbeinn eignarhlutur: Áhættuskuldbinding gagnvart millilið sem ber áhættu vegna fjármagnsgernings útgefnum af aðila á fjármálamarkaði þar sem tap fjármálafyrirtækisins, ef til þess kæmi að slíkur fjármagnsgerningur yrði endanlega afskrifaður, yrði ekki verulega frábrugðið því tapi sem fjármálafyrirtækið yrði fyrir vegna beins eignarhlutar í sömu fjármagnsgerningum.
     38.      Krosseignarhald: Eignarhlutur fjármálafyrirtækis í eiginfjárgrunnsgerningum eða öðrum fjármagnsgerningum útgefnum af aðila á fjármálamarkaði þar sem þessir aðilar eiga einnig eiginfjárgrunnsgerninga útgefna af fjármálafyrirtækinu.
     39.      Gervieignarhlutur: Fjárfesting fjármálafyrirtækis í fjármálagerningi þar sem virði hans tengist með beinum hætti virði fjármagnsgernings útgefnum af aðila á fjármálamarkaði.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari ákvæði um skilgreiningu hugtakanna hópur tengdra viðskiptamanna og fjármálagerningur.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      6. tölul. fellur brott.
     b.      7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. c- og d-lið 6. tölul. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr.

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „18. gr.“ í 9. tölul. 5. gr. laganna kemur: 23. tölul. 1. mgr. 1. gr. a og 3. mgr. 7. gr.

4. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl umsækjanda, sbr. 23. tölul. 1. mgr. 1. gr. a, við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með fyrirtækinu af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur sem gilda um slíka tengda aðila hindra eftirlit.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „18. gr.“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: 23. tölul. 1. mgr. 1. gr. a og 3. mgr. 7. gr.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „84. gr. b“ í 10. tölul. 1. mgr. kemur: 86. gr. b.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr. 84. gr. a“ í 10. tölul. 1. mgr. kemur: 6. mgr. 86. gr. a.

6. gr.

    Orðið „verðbréfamiðlun“ í 1. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    14. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Stofnframlag lánastofnunar.

    Við veitingu starfsleyfis skal lágmark innborgaðs stofnframlags lánastofnunar vera jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum. Til stofnframlags skv. 1. málsl. telst einn eða fleiri af eftirfarandi eiginfjárliðum:
     1.      Fjármagnsgerningar, þ.m.t. innborgað hlutafé og stofnfé, sem uppfylla skilyrði 84. gr. b.
     2.      Yfirverðsreikningur vegna eiginfjárgerninga skv. 1. tölul., þ.m.t. yfirverðsreikningur hlutafjár og stofnfjár.
     3.      Óráðstafað eigið fé.
     4.      Varasjóður.
    Þrátt fyrir 1. mgr. getur stofnframlag sparisjóðs sem starfar á afmörkuðu, staðbundnu starfssvæði og hefur starfsleyfi skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. og starfsheimildir skv. 1.–6., 10., 13. og 14. tölul. 1. mgr. 20. gr. að lágmarki numið jafnvirði 1 milljónar evra (EUR) í íslenskum krónum. Með afmörkuðu, staðbundnu starfssvæði er átt við að sparisjóður hafi ekki heimild til að stunda starfsemi skv. B-hluta V. kafla laga þessara.
    Sé hlutafé eða stofnfé skv. 1. eða 2. mgr. skráð í íslenskum krónum skal miða við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
    Óski lánastofnun eftir nýju starfsleyfi skal bókfært eigið fé í stað hlutafjár eða stofnfjár ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1. eða 2. mgr. eða 14. gr. a.
    Eiginfjárgrunnur lánastofnunar skv. 84. gr., 84. gr. a – 84. gr. f og 85. gr. má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1. eða 2. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

8. gr.

    Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stofnframlag verðbréfafyrirtækja, staðbundinna fyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

    Við veitingu starfsleyfis skal lágmark innborgaðs stofnframlags verðbréfafyrirtækis, staðbundins fyrirtækis og rekstrarfélags verðbréfasjóða vera eins og það er tilgreint í þessari grein. Til stofnframlags skv. 1. málsl. telst einn eða fleiri af eftirfarandi eiginfjárliðum:
     1.      Fjármagnsgerningar, þ.m.t. innborgað hlutafé og innborgað stofnfé sem uppfylla skilyrði 84. gr. b.
     2.      Yfirverðsreikningur vegna eiginfjárgerninga skv. 1. tölul., þ.m.t. yfirverðsreikningur hlutafjár og stofnfjár.
     3.      Óráðstafað eigið fé.
     4.      Varasjóður.
    Hlutafé verðbréfafyrirtækis skal að lágmarki nema jafnvirði 730 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum.
    Þrátt fyrir 2. mgr. getur hlutafé verðbréfafyrirtækis að lágmarki numið jafnvirði 125 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum ef verðbréfafyrirtækið uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
     1.      Það hefur ekki starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr.
     2.      Það hefur starfsheimild skv. a-lið 2. tölul. 1. mgr. 25. gr. og a.m.k. eina eða fleiri af þeim starfsheimildum sem getið eru um í a-, b- og d-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr.
    Þrátt fyrir 2. og 3. mgr. getur hlutafé verðbréfafyrirtækis að lágmarki numið jafnvirði 50 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum ef verðbréfafyrirtæki hefur ekki starfsheimild skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. og a-lið 2. tölul. 1. mgr. 25. gr.
    Hlutafé staðbundins fyrirtækis skal að lágmarki nema jafnvirði 50 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum ef það veitir þjónustu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skv. 36. og/eða 37. gr.
    Hlutafé rekstrarfélags verðbréfasjóða skal að lágmarki nema jafnvirði 125 þúsund evra (EUR) í íslenskum krónum. Hlutafé skal hækka um sem nemur 0,02% af eignum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eru í rekstri rekstrarfélagsins og eru umfram jafnvirði 250 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum. Hlutafé skv. 1. og 2. málsl. þarf þó ekki að fara yfir jafnvirði 10 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum. Með eignum rekstrarfélags samkvæmt þessari málsgrein skal telja eignir verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    Sé hlutafé skráð í íslenskum krónum skal miða við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
    Óski fyrirtæki samkvæmt þessari grein eftir nýju starfsleyfi skal bókfært eigið fé í stað hlutafjár ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í þessari grein eða 14. gr.
    Eiginfjárgrunnur fyrirtækis samkvæmt þessari grein má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 2.–5. mgr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

9. gr.

    18. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Upplýsingaskylda fjármálafyrirtækis.

    Fjármálafyrirtæki skal upplýsa opinberlega um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða tíðni slíkrar upplýsingagjafar, hvenær upplýsingarnar skuli birtar og að þær skuli birta í sérstökum miðli, öðrum en ársreikningum fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að móðurfélag fjármálafyrirtækis birti árlega lýsingu á uppbyggingu samstæðu fyrirtækisins og upplýsingar um stjórnarhætti og skipurit þess. Upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækis skal afmarka nánar með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 20. gr. laganna:
     a.      11. tölul. orðast svo: Eignastýringar og ráðgjafar.
     b.      Í stað orðsins „ávöxtunar“ í 12. tölul. kemur: umsýslu.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „stjórnunar“ í a-lið 2. tölul. 1. mgr. kemur: umsýslu.
     b.      Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Verðbréfafyrirtæki sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði ber takmarkaðar starfsskyldur samkvæmt lögum þessum:
              a.      Fyrirtækið hefur ekki heimild til að veita þjónustu skv. a-lið 2. tölul. 1. mgr.
              b.      Fyrirtækið veitir einungis þjónustu skv. a-, b-, d- og/eða e-lið 1. tölul. 1. mgr.
              c.      Fyrirtækið hefur ekki heimild til þess að varðveita reiðufé eða fjármálagerninga í eigu viðskiptavina og stofna til skuldbindinga við viðskiptavini sína.
                      Verðbréfafyrirtæki sem ber takmarkaðar starfsskyldur samkvæmt lögum þessum er undanþegið eftirfarandi skyldum og kröfum um:
              a.      upplýsingaskyldu um áhættu, áhættustýringu og eiginfjárstöðu skv. 18. gr.,
              b.      laust fé skv. 83. gr.,
              c.      takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum skv. 30. gr.,
              d.      að takmarka vogun og reikna út vogunarhlutfall skv. 30. gr. a,
              e.      takmörkun á kaupaukum og kaupaukakerfi skv. 57. gr. a og
              f.      samanlagða kröfu um eiginfjárauka skv. 86. gr. a.
                      Verðbréfafyrirtæki sem telst staðbundið fyrirtæki er undanþegið skyldum og kröfum skv. 4. mgr. og er ekki skylt að reikna út eiginfjárkröfur í samræmi við IX. og X. kafla laganna.
                      Heimilt er að kveða á um að verðbréfafyrirtæki sem bera takmarkaðar starfsskyldur setji tryggingu fyrir tjóni sem þau kunna að valda viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð trygginga og lágmarksskilmála að öðru leyti skal setja í reglugerð.

12. gr.

    26. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Rekstrarfélagi er einnig heimilt að stunda þá starfsemi sem kveðið er á um í 1.–3. tölul. en heimild til þess að stunda starfsemi skv. 2. og 3. tölul. er þó bundin því skilyrði að rekstrarfélagið stundi starfsemi skv. 1. tölul.
     b.      3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Vörslu og umsýslu í tengslum við hluti og hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                      Rekstrarfélagi verðbréfasjóða er óheimilt, í tengslum við rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem það stýrir, að nýta sér sameiginlegan atkvæðisrétt í sjóðunum þannig að það geti haft veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Fjármálafyrirtæki mega ekki eiga virka eignarhluti í einstökum fyrirtækjum, sem ekki eru fjármálafyrirtæki, aðilar á fjármálamarkaði eða fyrirtæki sem sinna annarri þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi, sbr. 21. gr., sem nema hærri fjárhæð en 15% af hæfu fjármagni hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis.
     b.      Í stað orðsins „eiginfjárgrunni“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: hæfu fjármagni.
     c.      Orðin „áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 5. mgr. 85. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     d.      2. og 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
     e.      Orðin „og 2.“ í 4. málsl. 2. mgr. falla brott.
     f.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal kveða nánar á um undanþágu tímabundinna eignarhluta í reglugerð sem sett er á grundvelli 117. gr. a.
     g.      3. mgr. orðast svo:
                      Við útreikning á eiginfjárkröfum skv. 84. gr. og 84. gr. e skal fjármálafyrirtæki beita 1250% áhættuvog á þá fjárhæð sem hærri er samkvæmt eftirfarandi tveimur stafliðum:
              a.      þá fjárhæð virkra eignarhluta sem fer fram yfir 15% af hæfu fjármagni, sbr. 1. mgr., eða
              b.      heildarfjárhæð samtölu virkra eignarhluta sem fer fram yfir 60% af hæfu fjármagni, sbr. 1. málsl. 2. mgr.
     h.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Í stað þess að beita 1250% áhættuvog á fjárhæð skv. 3. mgr. er fjármálafyrirtæki heimilt að draga fjárhæðina frá eiginfjárgrunni. Kveðið skal nánar á um þá heimild í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a.
     i.      Í stað orðsins „fjármálafyrirtækjum“ í 4. mgr. kemur: fyrirtækjum.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðsins „aðila“ í fyrra skiptið í 1. málsl. 2. mgr. kemur: nánum fjölskyldumeðlimum þeirra eða aðila.
     b.      Í stað orðsins „aðila“ í seinna skiptið í 2. málsl. 2. mgr. kemur: nánum fjölskyldumeðlimum þeirra eða aðila.
     c.      Í stað orðanna „og stjórnarmanna“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: stjórnarmanna og nána fjölskyldumeðlimi þeirra.
     d.      Orðin „þegar um hóp náinna aðila er að ræða“ í 3. mgr. falla brott.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Um lánveitingar til venslaðra aðila, annarra en þeirra sem fjallað er um í 2. og 3. mgr., fer skv. 5. mgr. 107. gr.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Lánveitingar, þar á meðal til venslaðra aðila.

16. gr.

    Í stað orðanna „reglur sem Fjármálaeftirlitið setur“ í 1. mgr. 29. gr. b laganna kemur: kröfur samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a.

17. gr.

    29. gr. d laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Reglugerð um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar.

    Ráðherra setur reglugerð um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar, sbr. 117. gr. a. Í reglugerðinni skal útfæra nánar ákvæði 29. gr. b og 29. gr. c og kveða m.a. á um hversu háu hlutfalli áhættu útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi skal halda eftir og um viðbrögð við viðvarandi lausafjárþurrð á fjármálamarkaði.
    Ef brotið er gegn ákvæðum reglugerðarinnar ber Fjármálaeftirlitinu að krefjast a.m.k. 250% hækkunar á áhættuvog við eiginfjárútreikning. Ef brot telst óverulegt að mati Fjármálaeftirlitsins er heimilt að falla frá auknum eiginfjárkröfum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. e laganna:
     a.      Í stað orðanna „reglna skv. 29. gr. b og 29. gr. d“ í 1. málsl. kemur: reglugerðar skv. 117. gr. a.
     b.      Í stað orðanna „reglum Fjármálaeftirlitsins skv. 29. gr. d“ í 2. málsl. kemur: reglugerð skv. 117. gr. a.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „eiginfjárgrunni“ hvarvetna í 1.–3. mgr. kemur: hæfu fjármagni.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „84. og 85. gr.“ í 1. mgr. kemur: 84. gr., 84. gr. a – 84. gr. f og 85. gr.
     c.      Orðið „verðbréfamiðlanir“ í 4. mgr. fellur brott.
     d.      1. málsl. 7. mgr. orðast svo: Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd greinarinnar.
     e.      Í stað orðsins „þeim“ í 2. málsl. 7. mgr. kemur: henni.
     f.      Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglugerðinni skal einnig kveðið á um takmarkanir á fjárfestingum fjármálafyrirtækja vegna skuggabankastarfsemi.

20. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vogunarhlutfall.

    Fjármálafyrirtæki skal uppfylla kröfur um hlutfall vogunar hverju sinni. Vogunarhlutfallið skal reiknað sem þáttur 1 skv. 84. gr. a og 84. gr. b, sbr. 85. gr., deilt með heildaráhættuskuldbindingum, þ.e. eignum og liðum utan efnahags að teknu tilliti til viðeigandi breytistuðla. Eignaliðir og liðir utan efnahags sem dregnir eru frá við ákvörðun þáttar 1 eru undanskildir við útreikning heildaráhættuskuldbindinga. Vogunarhlutfall skal reiknað sem einföld staða í lok hvers ársfjórðungs. Vogunarhlutfall fjármálafyrirtækis skal ekki fara undir 3%. Fjármálaeftirlitið setur reglur um gagnaskil og gagnsæi vegna vogunarhlutfalls, sbr. 117. gr. b, svo og reglur til nánari afmörkunar á útreikningum varðandi vogunarhlutfall fjármálafyrirtækja, sbr. 117. gr. c.

21. gr.

    2. mgr. 31. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    Í stað orðanna „fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði“ tvívegis í 2. málsl. 35. gr. laganna kemur orðið: fjármálastofnana.

23. gr.

    Í stað orðanna „þá sem eru í nánum tengslum við framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis“ í 1. mgr. 57. gr. laganna kemur: nána fjölskyldumeðlimi framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis.

24. gr.

    Í stað orðanna „breytilegum starfskjörum“ í 3. mgr. 78. gr. kemur: kaupaukum.

25. gr.

    Á eftir 79. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 80.–82. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (80. gr.)

Könnunar- og matsferli og álagspróf Fjármálaeftirlitsins.

    Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu reglulega leggja mat á tegund, dreifingu og fjárhæð eiginfjárþarfar fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess, þ.m.t. áhættu sem felst í, eða getur hlotist af, starfsemi þess.
    Fjármálaeftirlitið skal kanna og meta fyrirkomulag og aðferðir fjármálafyrirtækis við mat á áhættu til að uppfylla kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli þeirra. Við athugunina skal Fjármálaeftirlitið m.a. kanna stefnur og innri ferla, sbr. 3. mgr. 17. gr., og framkvæmd þeirra hjá fjármálafyrirtækinu. Við könnun og mat ber Fjármálaeftirlitinu að horfa til þeirra viðmiða sem fram koma í 81. gr., eftir því sem við á.
    Könnun og mat skv. 2. mgr. skal ná yfir allar skyldur og kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækis samkvæmt lögum þessum og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru með stoð í þeim. Fjármálaeftirlitið skal við matið leggja áherslu á eftirfarandi þætti:
     a.      áhættu sem fjármálafyrirtæki stendur frammi fyrir eða gæti staðið frammi fyrir,
     b.      áhættu í fjármálakerfinu sem rekja má til fjármálafyrirtækis, með hliðsjón af tilmælum fjármálastöðugleikaráðs varðandi kerfisáhættu, eftir því sem við á, og
     c.      áhættu sem álagspróf leiða í ljós, með hliðsjón af eðli, umfangi og þess hversu margþætt starfsemi fjármálafyrirtækisins er.
    Á grundvelli könnunar og mats skv. 2. og 3. mgr. ákvarðar Fjármálaeftirlitið hvort fyrirkomulag, ráðstafanir og aðferðir fjármálafyrirtækis, ásamt innri ferlum og framkvæmd þeirra, séu nægjanlegar, hvort stjórnarhættir séu traustir og hvort eiginfjárgrunnur og framkvæmd lausafjárstýringar sé fullnægjandi með hliðsjón af þeirri áhættu sem felst í starfseminni. Fjármálaeftirlitið leitar álits Seðlabanka Íslands varðandi viðmið við mat á framkvæmd lausafjárstýringar lánastofnana í upphafi og við lok könnunar- og matsferlis.
    Fjármálaeftirlitið ákveður tíðni og umfang könnunar og mats með tilliti til stærðar fjármálafyrirtækis, kerfislegs mikilvægis, eðlis, umfangs og þess hversu margþætt starfsemin er. Matið skal uppfært a.m.k. árlega hjá fjármálafyrirtækjum sem talin eru upp í 2. mgr. 82. gr.
    Fjármálaeftirlitið skal framkvæma álagspróf á fjármálafyrirtækjum í tengslum við könnunar- og matsferli. Slík álagspróf skulu framkvæmd árlega og oftar ef Fjármálaeftirlitið telur slíkt nauðsynlegt, en þó með hliðsjón af tíðni og umfangi könnunar og mats skv. 5. mgr.

    b. (81. gr.)

Tæknileg viðmið vegna könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins.

    Könnun og mat Fjármálaeftirlitsins skv. 80. gr. skal auk útlána-, markaðs- og rekstraráhættu m.a. ná til eftirfarandi þátta í starfsemi fjármálafyrirtækis:
     a.      álagsprófa fjármálafyrirtækja sem beita innramatsaðferð til að meta útlánaáhættu samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a,
     b.      samþjöppunaráhættu skv. 78. gr. c og hvort fjármálafyrirtækið fylgi ákvæðum 30. gr. um stórar áhættuskuldbindingar og stjórnvaldsheimildum settum á grundvelli þeirra,
     c.      hvort aðferðir og innri ferlar, sem notuð eru til að stýra þeirri eftirstæðu áhættu sem mildun útlánaáhættu fjármálafyrirtækis nær ekki til, séu áreiðanleg og viðeigandi,
     d.      athugunar á hvort eiginfjárframlag vegna eigna sem hafa verið verðbréfaðar sé nægjanlegt með tilliti til hagræns inntaks þeirra og þess áhættustigs sem hefur áunnist við yfirfærslu áhættu,
     e.      áhættustýringar og áhættumælinga vegna lausafjáráhættu, þ.m.t.:
                  1.      mismunandi sviðsmyndagreiningar,
                  2.      stýringar þátta til mildunar lausafjáráhættu, einkum með hliðsjón af magni, samsetningu og gæðum varaforða lauss fjár og
                  3.      að virk viðlagaáætlun sé til staðar,
     f.      áhrifa af áhættudreifingu og hvernig áhættudreifing er metin í áhættustýringarkerfum,
     g.      niðurstaðna álagsprófa fjármálafyrirtækis sem notar innri líkön til að reikna eiginfjárkröfu vegna markaðsáhættu,
     h.      landfræðilegrar staðsetningar áhættuskuldbindinga,
     i.      viðskiptalíkans og
     j.      mats á kerfisáhættu í samræmi við viðmið skv. 3. mgr. 80. gr.
    Fjármálaeftirlitið skal reglulega meta framkvæmd lausafjárstýringar fjármálafyrirtækis og áhættu tengda henni og stuðla að því að fyrirtækið þrói trausta aðferðafræði fyrir lausafjárstýringu í samræmi við e-lið 1. mgr. Við framkvæmd matsins skal Fjármálaeftirlitið horfa til mikilvægis fjármálafyrirtækisins á fjármálamarkaði og leita álits Seðlabanka Íslands varði framkvæmdin lánastofnanir.
    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því hvort fjármálafyrirtæki veitir óbeinan stuðning við verðbréfun. Hafi fjármálafyrirtæki oftar en einu sinni veitt óbeinan stuðning við verðbréfun skal Fjármálaeftirlitið grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við 86. gr. g.
    Í tengslum við 4. mgr. 80. gr. skal Fjármálaeftirlitið meta hvort breytingar á virðismati staðna eða eignasafna í veltubók geri fjármálafyrirtæki kleift að selja eða verja eignir á skömmum tíma án þess að verða fyrir umtalsverðu tapi miðað við eðlilegar markaðsaðstæður.
    Við könnun og mat skal Fjármálaeftirlitið athuga áhrif fastvaxtaáhættu vegna liða utan veltubókar. Fjármálafyrirtæki skal grípa til ráðstafana ef skyndileg breyting á vöxtum, sem nemur 200 punktum, eða önnur sambærileg breyting getur haft þau áhrif að hagrænt virði fyrirtækisins rýrnar um fjárhæð sem er hærri en 20% af eiginfjárgrunni þess.
    Við könnun og mat skal Fjármálaeftirlitið meta áhættu vegna óhóflegrar vogunar fjármálafyrirtækis, m.a. með hliðsjón af vogunarhlutfalli þess. Við mat Fjármálaeftirlitsins á kerfum og ferlum fjármálafyrirtækis til að stýra áhættu vegna vogunar skal einnig taka mið af viðskiptalíkani fjármálafyrirtækisins.
    Fjármálaeftirlitið skal kanna og meta stjórnarhætti fjármálafyrirtækis, fyrirtækjamenningu og gildi, getu og hæfni stjórnarmanna fjármálafyrirtækis til að sinna skyldum sínum. Fjármálaeftirlitið skal taka mið af nauðsynlegum gögnum til þess að framkvæma könnun og mat samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal fundargerðum, fundardagskrám og öðrum fundargögnum stjórnar og undirnefnda og niðurstöðum úr frammistöðumati stjórnar.

    c. (82. gr.)

Eftirlitsáætlun.

    Fjármálaeftirlitið skal a.m.k. árlega gera áætlun um eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Við gerð eftirlitsáætlunar skal horft til þess hvað könnunar- og matsferli skv. 80. og 81. gr. felur í sér. Í eftirlitsáætlun skal m.a. kveðið á um eftirtalin atriði:
     a.      með hvaða hætti Fjármálaeftirlitið hyggst framfylgja lögbundnum verkefnum og nýta tilföng, þ.m.t. mannafla og fjármuni,
     b.      hvaða fjármálafyrirtæki sæti auknu eftirliti, sbr. 3. mgr., og til hvaða ráðstafana hafi verið gripið til að sinna því eftirliti og
     c.      tíma- og verkáætlun um vettvangsathuganir á starfsstöðvum fjármálafyrirtækis, þ.m.t. í útibúum og dótturfélögum innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Eftirlitsáætlun skal ná til eftirfarandi fjármálafyrirtækja:
     a.      þeirra fjármálafyrirtækja sem könnun og mat skv. 80. gr. eða álagspróf skv. 6. mgr. 80. gr. og a- og g-lið 1. mgr. 81. gr. gefa til kynna að veruleg áhætta felist í starfseminni sem ógnað geti fjárhagsstöðu þeirra eða að fjármálafyrirtæki brjóti gegn eða uppfylli ekki skilyrði laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim,
     b.      fjármálafyrirtækja sem kerfisáhætta stafar af,
     c.      fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að undirgangist árlega skoðun.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til eftirtalinna aðgerða til að fylgja eftir niðurstöðum könnunar- og matsferlis skv. 80. gr.:
     a.      fjölga vettvangsathugunum á starfsstöðvum fjármálafyrirtækis,
     b.      koma á fastri viðveru stofnunarinnar á starfsstöðvum fjármálafyrirtækis,
     c.      krefjast aukinnar og/eða tíðari upplýsingagjafar,
     d.      taka viðskipta- og/eða rekstraráætlun fjármálafyrirtækis til nánari eða tíðari athugunar og
     e.      gangast fyrir ítarlegri skoðun á mikilvægum áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis.
    Eftirlitsáætlun skv. 1. mgr. kemur ekki í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geri vettvangsathugun í útibúi skv. 5. eða 6. mgr. 108. gr.

26. gr.

    Við 83. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Við mat Fjármálaeftirlitsins á því hvort fjármálafyrirtæki uppfylli skyldur skv. 1. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu að líta til stjórnvaldsfyrirmæla og viðmiða Seðlabanka Íslands og annarra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði.

27. gr.

    84. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Almennar kröfur vegna eiginfjárgrunns.

    Eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækja skal samsettur af þætti 1, sbr. 84. gr. a, þætti 2, sbr. 84. gr. b, og frádráttarliðum skv. 85. gr. Þáttur 1 skiptist í almennt eigið fé og viðbótar eigið fé. Eftirfarandi skilyrði gilda um einstaka þætti:
     a.      Almennt eigið fé þáttar 1 skal, eftir frádrátt skv. 85. gr., nema að lágmarki 4,5% af áhættugrunni.
     b.      Þáttur 1 skal, eftir frádrátt skv. 85. gr., nema að lágmarki 6% af áhættugrunni.
     c.      Eiginfjárgrunnur í heild skal á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni.
    Fjármagnsgerningar, sem fjármálafyrirtæki getur ákveðið einhliða að greiða vexti eða arð af með öðru en reiðufé eða eiginfjárgrunnsgerningum, geta ekki talist til eiginfjárgrunnsgerninga nema með fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálafyrirtæki þarf fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins til að gera annað eða hvort tveggja af eftirfarandi:
     a.      Lækka, innleysa eða endurkaupa gerninga í almennu eigin fé þáttar 1 sem fjármálafyrirtæki hefur gefið út í samræmi við lög um hlutafélög.
     b.      Innkalla, innleysa, endurgreiða eða endurkaupa gerninga viðbótar eigin fjár þáttar 1 eða þáttar 2, eftir því sem við á, fyrir samningsbundinn gjalddaga þeirra.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt fjármálafyrirtæki heimild til að telja hagnað samkvæmt ósamþykktu, en könnuðu, ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri til þáttar 1. Kveðið skal nánar á um þá heimild í reglugerð sem sett er á grundvelli 117. gr. a.
    Við útreikning á hlutföllum skv. 1. mgr. skal taka tillit til hlutdeildar minni hluta í almennu eigin fé þáttar 1, viðbótar eigin fé þáttar 1 eða í þætti 2 hjá dótturfélögum. Í reglugerð sem sett er á grundvelli 117. gr. a skal kveða nánar á um útreikning á hlutdeild minni hluta í eigin fé dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum.
    Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning á eiginfjárgrunni og áhættugrunni fyrir fjármálasamsteypur.

28. gr.

    Á eftir 84. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 84. gr. a – 84. gr. f, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (84. gr. a.)

Almennt eigið fé þáttar 1.

    Til almenns eigin fjár þáttar 1 teljast:
     a.      fjármagnsgerningar, þ.m.t. innborgað hlutafé og innborgað stofnfé, sem uppfylla skilyrði 2. mgr.,
     b.      yfirverðsreikningur vegna eiginfjárgrunnsgerninga skv. a-lið, þ.m.t. yfirverðsreikningur hlutafjár og stofnfjár,
     c.      óráðstafað eigið fé og
     d.      varasjóðir.
    Til fjármagnsgerninga almenns eigin fjár skv. a-lið 1. mgr. teljast fjármagnsgerningar sem uppfylla öll eftirtalin skilyrði:
     a.      þeir eru útgefnir beint af fjármálafyrirtækinu sjálfu með lögmætum hætti,
     b.      þeir eru innborgaðir að fullu og ekki fjármagnaðir beint eða óbeint af fjármálafyrirtækinu,
     c.      þeir teljast til eigin fjár samkvæmt þeim reikningsskilareglum sem eiga við,
     d.      þeir eru varanlegir,
     e.      þeir hafa jafnstæðan forgang til arðgreiðslna,
     f.      í þeim felast engar kvaðir um að fjármálafyrirtæki sé skylt að greiða út arð,
     g.      þeir mæta rekstrartapi fjármálafyrirtækis á undan öllum öðrum fjármagnsgerningum sem fjármálafyrirtækið gefur út,
     h.      við gjaldþrot eða slit skal gera þá upp á eftir öllum öðrum kröfum,
     i.      þeir eru ekki bundnir neins konar samningum sem færir kröfur sem þeim eru tengdar í hærri forgangsröð við slit eða gjaldþrot og
     j.      þeir uppfylla önnur skilyrði varðandi eiginfjárgrunnsgerninga almenns eigin fjár sem koma fram í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a.

    b. (84. gr. b.)

Viðbótar eigið fé þáttar 1.

    Viðbótar eigið fé þáttar 1 telst vera:
     a.      fjármagnsgerningar sem uppfylla skilyrði 2. mgr. og
     b.      yfirverðsreikningur vegna fjármagnsgerninga skv. a-lið.
    Til fjármagnsgerninga viðbótar eigin fjár skv. a-lið 1. mgr. teljast fjármagnsgerningar sem teljast ekki til almenns eigin fjár eða þáttar 2 og uppfylla öll eftirtalin skilyrði:
     a.      þeir eru útgefnir og innborgaðir að fullu,
     b.      þeir eru ekki keyptir af fjármálafyrirtækinu, dótturfélögum eða hlutdeildarfélögum þess,
     c.      þeir eru ekki fjármagnaðir beint eða óbeint af fjármálafyrirtækinu,
     d.      þeir eru flokkaðir í forgangsröð á eftir fjármagnsgerningum þáttar 2 við slit fjármálafyrirtækisins,
     e.      þeir eru ekki bundnir neins konar samningum sem færir kröfur þeim tengdum í hærri forgangsröð við slit eða gjaldþrot,
     f.      þeir eru varanlegir og skilmálar þeirra fela ekki í sér hvata fyrir fjármálafyrirtæki til að innleysa þá,
     g.      þegar skilmálar gerninganna fela í sér einn eða fleiri kauprétti og eingöngu er heimilt að nýta þá með samþykki útgefanda,
     h.      einungis er heimilt að innkalla, innleysa eða endurkaupa þá fimm árum eftir útgáfu þeirra, og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins,
     i.      skilmálar gerninganna fela í sér að ef til kveikjuviðburðar kemur verði höfuðstóll gerninganna færður niður, að hluta eða í heild, varanlega eða tímabundið, eða honum breytt í almennan eiginfjárgrunnsgerning þáttar 1,
     j.      þeir uppfylla önnur skilyrði varðandi eiginfjárgrunnsgerninga viðbótar eigin fjár sem koma fram í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a. Vegna h-liðar þurfa fjármagnsgerningar að uppfylla skilyrði 3. mgr. 84. gr. sem verða útfærð í sértækum ákvæðum reglugerðarinnar.

    c. (84. gr. c.)

Þáttur 2.

    Til þáttar 2 teljast eftirtaldir eiginfjárliðir:
     a.      fjármagnsgerningar og víkjandi lán sem uppfylla skilyrði 2. mgr.,
     b.      yfirverðsreikningur vegna fjármagnsgerninga skv. a-lið,
     c.      almennar leiðréttingar vegna útlánaáhættu, að hámarki 1,25% af áhættuvegnum eignum reiknuðum samkvæmt staðalaðferð,
     d.      jákvæð staða vegna útreikninga á væntu tapi, að hámarki 0,6% af áhættuvegnum eignum reiknuðum samkvæmt innramatsaðferð.
    Eiginfjárliðir skv. a-lið 1. mgr. teljast fjármagnsgerningar, og eftir atvikum víkjandi lán, sem teljast ekki til almenns eigin fjár eða viðbótar eigin fjár þáttar 1 og uppfylla öll eftirtalin skilyrði:
     a.      þeir eru útgefnir eða eftir atvikum þeirra aflað og þau innborguð að fullu,
     b.      þeir eru ekki keyptir af eða eftir atvikum þau fengin að láni frá fjármálafyrirtækinu, dótturfélögum eða hlutdeildarfélögum þess,
     c.      þeir eru ekki fjármagnaðir af eða eftir atvikum þau fengin að láni beint eða óbeint frá fjármálafyrirtækinu,
     d.      krafa bundin við höfuðstól fjármagnsgernings eða víkjandi láns er við slit eða gjaldþrot fjármálafyrirtækis aftar í kröfuröð en allar kröfur sem ekki eru víkjandi,
     e.      þeir eru ekki bundnir neins konar samningum sem færir kröfur þeim tengdum í hærri forgangsröð við slit eða gjaldþrot,
     f.      upphaflegur lokagjalddagi fjármagnsgerninganna, og eftir atvikum víkjandi lána, er að lágmarki fimm árum eftir útgáfu,
     g.      skilmálar þeirra fela ekki í sér hvata fyrir fjármálafyrirtæki til að innleysa þá, eða eftir atvikum endurgreiða þá, fyrir lokagjalddaga,
     h.      þegar skilmálar gerninga eða víkjandi lána fela í sér einn eða fleiri kauprétti er eingöngu heimilt að nýta þá með samþykki útgefanda eða eftir atvikum lántaka,
     i.      einungis er heimilt að innkalla, innleysa eða endurkaupa þá, eða eftir atvikum endurgreiða lánin, fimm árum eftir útgáfu þeirra að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins og
     j.      þeir uppfylla önnur skilyrði varðandi eiginfjárgrunnsgerninga og víkjandi lán þáttar 2 sem koma fram í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a. Vegna i-liðar þessarar málsgreinar þurfa fjármagnsgerningar að uppfylla skilyrði 3. mgr. 84. gr. sem verða útfærð í sértækum ákvæðum reglugerðarinnar.
    Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal sá hluti lánsins sem reiknast til eiginfjárgrunns færast niður um 20% af nafnvirði fyrir hvert ár eða hlutfallslega fyrir hluta úr ári sem líður af þessum fimm árum. Sé um að ræða lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skal reikna eftirstöðvar hvers árs niður á sambærilegan hátt. Eingöngu er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir.

    d. (84. gr. d.)

Lágmarkskröfur hæfs fjármagns verðbréfafyrirtækis sem ber takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélags verðbréfasjóða.

    Þrátt fyrir 1. mgr. 84. gr. skal hæft fjármagn verðbréfafyrirtækis sem ber takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélags verðbréfasjóða aldrei nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði síðasta reikningsárs. Fjármálaeftirlitið getur heimilað undanþágu frá þessari kröfu ef grundvallarbreyting hefur orðið á starfsemi fyrirtækisins á milli ára. Á fyrsta starfsári verðbréfafyrirtækis sem ber takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélags verðbréfasjóða skal hæft fjármagn þess ekki nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði samkvæmt rekstraráætlun starfsársins. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að gerð sé breyting á rekstraráætluninni ef það telur að hún gefi ekki rétta mynd af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er. Ráðherra getur, með setningu reglugerðar á grundvelli 117. gr. a, heimilað öðrum verðbréfafyrirtækjum en þeim sem bera takmarkaðar starfsskyldur, sbr. 25. gr., að reikna eiginfjárkröfur í samræmi við þetta ákvæði. Slík heimild skal veitt á grundvelli starfsheimilda verðbréfafyrirtækisins.

    e. (84. gr. e.)

Skilgreining áhættugrunns.

    Áhættugrunnur er samtala eftirfarandi áhættuþátta, sbr. einnig 3. mgr.:
     a.      vegin útlánaáhætta og þynningaráhætta,
     b.      eiginfjárkröfur vegna stöðuáhættu fjármálagerninga og umframáhættu vegna stórra áhættuskuldbindinga í veltubók,
     c.      eiginfjárkröfur vegna gjaldmiðlaáhættu, uppgjörsáhættu og hrávöruáhættu,
     d.      eiginfjárkröfur vegna áhættu sem tengist OTC-afleiðusamningum vegna aðlögunar á útlánavirði,
     e.      eiginfjárkröfur vegna rekstraráhættu og
     f.      vegin mótaðilaáhætta veltubókarviðskipta vegna afleiðusamninga og annarra flókinna fjármálagerninga sem starfsemi fjármálafyrirtækis felur í sér.
    Við útreikning á c–e-lið 1. mgr. í áhættugrunni skal taka tillit til allrar starfsemi fjármálafyrirtækis. Enn fremur skal við útreikning á áhættugrunni margfalda eiginfjárkröfur vegna b–e-liðar 1. mgr. með stuðlinum 12,5.
    Áhættugrunnur verðbréfafyrirtækis sem ekki hefur starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr., verðbréfafyrirtækis sem ber takmarkaðar starfsskyldur og hefur starfsheimildir skv. b- og d-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. og rekstrarfélags verðbréfasjóða skal reiknaður sem sú fjárhæð sem hærri er samkvæmt eftirfarandi tveimur stafliðum:
     a.      áhættugrunnur skv. 1. mgr. að undanskildum áhættugrunni vegna rekstraráhættu eða
     b.      fjárhæðin sem tilgreind er í 1. málsl. 84. gr. d margfölduð með stuðlinum 12,5.
    Ef hlutafé verðbréfafyrirtækis skal nema jafnvirði 730 þúsund evra í íslenskum krónum skv. 14. gr. a skal áhættugrunnur þess reiknast sem samtala a- og b-liðar 3. mgr.
    Fjármálafyrirtækjum er heimilt, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að beita innri aðferðum við mat á áhættuþáttum í útreikningi á áhættugrunni. Kveðið skal nánar á um skilyrði til að mega nota innri aðferðir við mat á áhættuþáttum vegna áhættugrunns í reglugerð sem sett er á grundvelli 117. gr. a, þar með talið varðandi viðvarandi kröfur til fjármálafyrirtækja til að mega beita innri aðferðum. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um þær kröfur sem fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá leyfi til að beita innri aðferðum.
    Áhættugrunnur skal afmarkaður nánar með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a og skal hún m.a. taka til áhættuvoga og útreiknings á áhættuþáttum. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um breytilegar áhættuvogir vegna einstakra áhættuþátta og áhættuskuldbindinga. Í reglugerð sem sett er á grundvelli 117. gr. a skal kveða á um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að mæla fyrir um breytilegar áhættuvogir vegna einstakra áhættuþátta og einstakra áhættuskuldbindinga.

    f. (84. gr. f.)

Kröfur vegna veltubókar.

    Stöður í veltubók fjármálafyrirtækis skulu annaðhvort vera lausar við kvaðir varðandi seljanleika eða unnt að verja þær gegn áhættu.
    Áform um veltubókarviðskipti skal byggjast á áætlunum, stefnu og verklagsreglum sem fyrirtækið setur til að halda utan um stöðuna eða eignasafnið.
    Fjármálafyrirtæki skal koma á fót og viðhalda kerfum og stjórntækjum til að halda utan um veltubókina.
    Telja má innri vörn til veltubókar við útreikning á eiginfjárkröfum vegna stöðuáhættu.
    Vegna veltubókar skal fjármálafyrirtæki uppfylla ákvæði reglugerðar sem sett er á grundvelli 117. gr. a, að því er varðar skilyrði og kröfur vegna útreikninga á stöðum í veltubók, áform um veltubókarviðskipti, kerfi og stjórntæki sem notuð eru til að halda utan um veltubókina og innri varnir við útreikning á eiginfjárkröfum.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. a laganna sem verður 86. gr. a:
     a.      Í stað tilvísananna „84. gr. b“, „84. gr. c“, „84. gr. d“ og „84. gr. e“ hvarvetna í greininni kemur: 86. gr. b; 86. gr. c; 86. gr. d; og: 86. gr. e.
     b.      Í stað orðanna „eiginfjárþáttar A skv. 5. mgr. 84. gr.“ í 1. mgr. kemur: almenns eiginfjárþáttar 1 skv. 84. gr. a.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „a-liðar 1. mgr. 84. gr.“ í 2. mgr. kemur: 4. mgr. 86. gr. g.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „1. málsl. 1. mgr. 84. gr.“ tvívegis í 3. mgr. kemur: 84. gr.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „a-lið 1. mgr. 84. gr.“ tvívegis í 3. mgr. kemur: 4. mgr. 86. gr. g.
     f.      Í stað tilvísunarinnar „1. mgr. 84. gr.“ í 6. mgr. kemur: 84. gr.
     g.      Í stað orðanna „breytileg starfskjör“ í 6. mgr. kemur: kaupauka.
     h.      Í stað orðanna „breytilegum starfskjörum“ í 7. mgr. kemur: kaupaukum.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. b laganna sem verður 86. gr. b:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 84. gr.“ í 3. mgr. kemur: 84. gr. e.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „6. mgr. 84. gr. a“ í 4. mgr. kemur: 6. mgr. 86. gr. a.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „a–e-lið 1. mgr. 84. gr.“ í 4. mgr. kemur: 4. mgr. 86. gr. g.

31. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 84. gr.“ í 84. gr. c laganna sem verður 86. gr. c kemur: 84. gr. e.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. d laganna sem verður 86. gr. d:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 84. gr.“ í 2. mgr. kemur: 84. gr. e.
     b.      Orðin „og reglna sem Fjármálaeftirlitið setur um útreikning hlutfalls sveiflujöfnunarauka“ í 3. mgr. falla brott.
     c.      5. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     d.      Orðið „verðbréfamiðlun“ í 4. mgr. fellur brott.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 84. gr. e laganna sem verður 86. gr. e:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 84. gr.“ í 1. mgr. kemur: 84. gr. e.
     b.      Orðið „verðbréfamiðlun“ í 2. mgr. fellur brott.

34. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „84. gr. a“ í 1.–5. mgr. 84. gr. f laganna sem verður 86. gr. f kemur: 86. gr. a.

35. gr.

    85. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Frádráttur frá eiginfjárgrunni.

    Frá almennu eigin fé þáttar 1 skal draga eftirtalda liði:
     a.      tap og samþykkta arðsúthlutun,
     b.      fyrirsjáanlega arðsúthlutun, hafi fjármálafyrirtæki fengið heimild til að telja hagnað samkvæmt ósamþykktu, en könnuðu, ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri til þáttar 1 á grundvelli 4. mgr. 84. gr.,
     c.      viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir,
     d.      reiknaða skattinneign samkvæmt efnahagsreikningi,
     e.      neikvæðan mismun á reikningsskilalegri niðurstöðu og niðurstöðu samkvæmt innramatsaðferð á væntu tapi á eignum og skuldbindingum, hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem beita innramatsaðferð,
     f.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga almenns eigin fjár, þ.m.t. hlutabréfa eða stofnfjárbréfa, sem fjármálafyrirtæki á beint, óbeint eða gegnum gervieignarhlut og eru gefnir út af fyrirtækinu sjálfu,
     g.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga almenns eigin fjár, sem fjármálafyrirtækið á beint, óbeint eða gegnum gervieignarhlut í öðrum aðilum á fjármálamarkaði, ef til staðar er krosseignarhald milli þeirra og fjármálafyrirtækisins sjálfs sem Fjármálaeftirlitið telur að hafi verið komið á til að magna upp eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækisins,
     h.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga almenns eigin fjár, sem fjármálafyrirtækið á beint, óbeint eða gegnum gervieignarhlut í öðrum aðilum á fjármálamarkaði, hvort sem fjármálafyrirtækið á verulegan eignarhlut í þeim eður ei,
     i.      þá umframfjárhæð sem fjármálafyrirtæki er skylt að draga frá viðbótar eigin fé þáttar 1, nemi frádráttarliðir skv. 2. mgr. hærri fjárhæð en viðbótar eigin fé fjármálafyrirtækisins,
     j.      eftirtaldar áhættuskuldbindingar sem skylt er að meta með 1250% áhættuvægi en fjármálafyrirtæki velur að draga frá eiginfjárgrunni:
                  1.      eignarhlutir í félögum sem eru umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 28. gr.,
                  2.      verðbréfaðar stöður,
                  3.      aðrar áhættuskuldbindingar sem taldar eru upp í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a,
     k.      fyrirsjáanlegar skattaálögur, nema fjármálafyrirtæki hafi leiðrétt fjárhæð almenns eigin fjár vegna þeirra.
    Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um undanþágu frá frádrætti skv. d-, f-, g- og h-lið 1. mgr. með setningu reglugerðar á grundvelli 117. gr. a.
    Leiði núvirðing skuldbindinga til myndunar eigin fjár skal draga það eigið fé frá almennu eigin fé þáttar 1.
    Frá viðbótar eigin fé þáttar 1 skal draga eftirtalda liði:
     a.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga viðbótar eigin fjár þáttar 1, þ.m.t. hlutabréfa eða stofnfjárbréfa, sem fjármálafyrirtæki á beint, óbeint eða gegnum gervieignarhlut og eru gefnir út af fyrirtækinu sjálfu,
     b.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga viðbótar eigin fjár þáttar 1, sem fjármálafyrirtækið á beint, óbeint eða gegnum gervieignarhlut í öðrum aðilum á fjármálamarkaði, ef til staðar er krosseignarhald milli þeirra og fjármálafyrirtækisins sjálfs sem Fjármálaeftirlitið telur að hafi verið komið á til að magna upp eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækisins,
     c.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga viðbótar eigin fjár þáttar 1, sem fjármálafyrirtækið á beint, óbeint eða gegnum gervieignarhlut í öðrum aðilum á fjármálamarkaði, hvort sem fjármálafyrirtækið á verulegan eignarhlut í þeim eður ei, að undanskildum stöðum vegna sölutrygginga sem haldið er í fimm virka daga eða skemur,
     d.      þá umframfjárhæð sem fjármálafyrirtæki er skylt að draga frá þætti 2, nemi frádráttarliðir skv. 5. mgr. hærri fjárhæð en þáttur 2 og
     e.      fyrirsjáanlegar skattaálögur, nema fjármálafyrirtæki hafi leiðrétt fjárhæð viðbótar eigin fjár vegna þeirra.
    Frá þætti 2 skal draga eftirtalda eiginfjárliði:
     a.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 2 sem fjármálafyrirtæki á beint, óbeint eða í gegnum gervieignarhlut og eru gefnir út af fyrirtækinu sjálfu,
     b.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 2, sem fjármálafyrirtækið á beint, óbeint eða í gegnum gervieignarhlut í öðrum aðilum á fjármálamarkaði, ef til staðar er krosseignarhald milli þeirra og fjármálafyrirtækisins sjálfs sem Fjármálaeftirlitið telur að hafi verið komið á til að magna upp eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækisins og
     c.      bókfært virði eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 2, sem fjármálafyrirtækið á beint, óbeint eða í gegnum gervieignarhlut í öðrum aðilum á fjármálamarkaði, hvort sem fjármálafyrirtækið á verulegan eignarhlut í þeim eður ei, að undanskildum stöðum vegna sölutrygginga sem haldið er í fimm virka daga eða skemur.
    Í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a skal kveðið nánar á um frádráttarliði skv. 1., 4. og 5. mgr.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt fjármálasamsteypum undanþágu frá kröfum 1. mgr. Kveðið skal nánar á um þá undanþáguheimild í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a.
    Þegar fjárfesting fjármálafyrirtækis í hlutum í aðila á fjármálamarkaði, eða eftir atvikum veitt víkjandi lán til sömu aðila, er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 4. og 5. mgr.

36. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 86. gr. g, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Valdheimildir vegna eftirlits.

    Fjármálaeftirlitið skal krefjast þess að fjármálafyrirtæki grípi tímanlega til nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta ef fyrirtækið uppfyllir ekki ákvæði laga þessara auk reglugerða og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
    Telji Fjármálaeftirlitið líklegt, byggt á gögnum eða upplýsingum sem það býr yfir, að fjármálafyrirtæki geti ekki innan næstu 12 mánaða uppfyllt ákvæði laga þessara auk reglugerða og reglna sem settar eru með stoð í þeim, skal stofnunin krefjast þess að fjármálafyrirtæki grípi tímanlega til nauðsynlegra ráðstafana til úrbóta.
    Telji Fjármálaeftirlitið að tveimur eða fleiri fjármálafyrirtækjum með sambærileg áhættusnið, t.d. sambærileg viðskiptalíkön, stafi hætta af sambærilegum áhættuþáttum eða feli í sér áhættu gagnvart fjármálakerfinu, getur það krafist þess að þau gangist undir sambærilegt eða sama könnunar- og matsferli og gildir skv. 1. og 2. mgr. 80. gr. Hætta af sambærilegum áhættuþáttum eða áhættu gagnvart fjármálakerfinu varðar kerfisáhættu sérstaklega. Nýti Fjármálaeftirlitið þessa heimild er því einnig heimilt að beita umrædda aðila sams konar valdheimildum á grundvelli 4. mgr.
    Til að framfylgja kröfum skv. 2.–4. mgr. 80. gr., 4. mgr. 81. gr. og 1.–3. mgr. þessarar greinar er Fjármálaeftirlitinu heimilt að mæla fyrir um:
     a.      hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni, sbr. einnig 86. gr. a – 86. gr. e,
     b.      endurbætur á innri ferlum, sbr. 17. gr. og IX. kafla,
     c.      að fjármálafyrirtæki setji fram sérstaka áætlun um það hvernig fyrirtækið mun uppfylla kröfur laga þessara auk reglugerða og reglna sem settar eru með stoð í þeim, auk þess að setja fjármálafyrirtækjum tímafresti varðandi framkvæmd áætlunarinnar, þ.m.t. vegna fresta eða endurbóta sem unnar eru á áætluninni,
     d.      niðurfærslu á eignum við útreikning á eiginfjárgrunni,
     e.      hömlur á eða takmörkun á starfsemi fjármálafyrirtækis eða, eftir því sem við á, með sölu eigna eða viðskiptaeininga sem skapa aukna áhættu,
     f.      að dregið sé úr áhættu sem starfsemi, viðskiptaafurðir eða kerfi fjármálafyrirtækis felur í sér,
     g.      að fjármálafyrirtæki takmarki kaupauka við hlutfall af hreinum hagnaði þar sem útgreiðsla þeirra leiðir til ófullnægjandi eiginfjárgrunns,
     h.      að fjármálafyrirtæki noti hreinan hagnað til að styrkja eiginfjárgrunninn,
     i.      að arð- og vaxtagreiðslur til hluthafa, stofnfjáreigenda og fjárfesta skuli takmarkaðar eða bannaðar,
     j.      aukin gagnaskil og
     k.      sértæka upplýsingagjöf til markaðar.
    Fjármálaeftirlitið skal mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn skv. a-lið 4. mgr. ef:
     a.      fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki skilyrði og kröfur skv. 17., 30. og 1. mgr. 80. gr. að því er varðar skipulag, mat á eiginfjárþörf og eftirlit með stórum áhættuskuldbindingum,
     b.      áhættuþáttum er ekki mætt með eiginfjárkröfum og eiginfjáraukum samkvæmt lögum þessum og reglugerð á grundvelli 117. gr. a,
     c.      ólíklegt er að önnur úrræði, ein og sér, leiði til tímanlegra úrbóta á innri ferlum og kerfum, sbr. 17. gr.,
     d.      í ljós kemur við könnunar- og matsferli að fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki 4. mgr. 81. gr. eða þær kröfur sem fjármálafyrirtæki þarf að uppfylla til að nota innri aðferðir við mat á áhættuþáttum,
     e.      líkur eru á að áhætta sé vanmetin, þrátt fyrir að skilyrði laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim séu uppfyllt eða
     f.      fjármálafyrirtæki sem beitir innri aðferð við mat á markaðsáhættu tilkynnir Fjármálaeftirlitinu að verulegur munur sé á niðurstöðum álagsprófs og eiginfjárkröfum samkvæmt líkani þess vegna fylgniviðskipta innan veltubókar.
    Til að ákvarða viðhlítandi eiginfjárgrunn á grundvelli könnunar- og matsferlis skv. 80. og 81. gr. skal Fjármálaeftirlitið meta hvort álagning viðbótarkröfu umfram lágmarksfjárhæð vegna eiginfjárgrunns sé nauðsynleg til að ná yfir áhættu sem fjármálafyrirtæki er eða kann að verða óvarið fyrir. Við slíkt mat skal höfð hliðsjón af eftirtöldum þáttum:
     a.      eigindlegum og megindlegum þáttum í mati fjármálafyrirtækis á eiginfjárþörf skv. 1. mgr. 80. gr.,
     b.      fyrirkomulagi innri ferla og aðferða fjármálafyrirtækis skv. 17. gr. og IX. kafla,
     c.      niðurstöðu úr könnunar- og matsferli skv. 2.–6. mgr. 80. gr. og
     d.      mati á kerfisáhættu.
    Eigið fé til að mæta kröfu um hærri eiginfjárgrunn skv. a-lið 4. mgr. skal samsett með eftirfarandi hætti:
     a.      almennt eigið fé þáttar 1 skal að lágmarki nema 56,25% af viðbótarkröfunni og
     b.      eigið fé þáttar 1 skal að lágmarki nema 75% af viðbótarkröfunni.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 107. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjármálastofnana.
     b.      Á eftir 2. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Viðskiptin skulu lúta sömu reglum og viðskipti við almenna viðskiptamenn í sambærilegum viðskiptum.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna.
     a.      Á eftir orðinu „fjármálafyrirtæki“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: blandað eignarhaldsfélag.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „84. og 85. gr.“ í 1. mgr. kemur: 84. gr., 84. gr. a – 84. gr. f og 85. gr.
     c.      Í stað orðanna „fyrirtæki á fjármálasviði“ í 2. mgr. kemur: fjármálastofnun.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „18. gr.“ í 3. mgr. kemur: 23. tölul. 1. mgr. 1. gr. a og 3. mgr. 7. gr.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 110. gr. laganna:
     a.      Á eftir 6. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 18. gr. um að upplýsa skuli um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu fyrirtækisins.
     b.      10. tölul. orðast svo: 3. mgr. 27. gr. um að óheimilt sé að nýta sér sameiginlegan atkvæðisrétt í sjóðum sem það stýrir til þess að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa.
     c.      Á eftir 15. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 30. gr. a um upplýsingar um vogunarhlutfall.
     d.      38. tölul. orðast svo: 2. mgr. 84. gr. um fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins.
     e.      39. tölul. orðast svo: 3. mgr. 84. gr. um fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlitsins.

40. gr.

    6. tölul. 1. mgr. 112. gr. b laganna fellur brott.

41. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 117. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innleiðing reglugerðar um vogunarhlutfall.

    Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um útreikning á vogunarhlutfalli sbr. 30. gr. a og skulu reglurnar byggjast á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2015/62 um útreikning á vogunarhlutfalli. Í reglunum skal kveðið á um val- og heimildarákvæði reglugerðarinnar skuli beitt hér á landi.

42. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þau fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi á grundvelli 6. tölul. 4. gr. laganna við gildistöku laga þessara skulu eftir gildistökuna teljast verðbréfafyrirtæki og hljóta starfsleyfi í samræmi við starfsheimildir sem þau höfðu fyrir á grundvelli 3. gr. laganna, sbr. 25. gr.

43. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið, Seðlabanka Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja. Frumvarp þetta er annað frumvarpið sem fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram á Alþingi í þeim tilgangi að innleiða í íslenskan rétt efni tilskipunar 2013/36/ESB og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og með þeim svonefndan Basel III staðal sem ætlað er að bregðast við veikleikum sem komu í ljós í kjölfar alþjóðlega fjármálahrunsins (e. Basel III: A global regulatory framework for more resilient banks and banking systems).
    Hinn 17. september 2012 skipaði ráðherra nefnd til þess að vinna að þessari innleiðingu. Í nefndinni sitja þau Leifur Arnkell Skarphéðinsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, formaður nefndarinnar, Elvar Guðmundsson, sérfræðingur í áhættugreiningu, Hjálmar Stefán Brynjólfsson lögfræðingur og Íris Björnsdóttir sérfræðingur, öll tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, Gísli Sigurbjörn Óttarsson, framkvæmdastjóri hjá Arion banka hf., Thomas Skov Jensen, forstöðumaður áhættustýringar hjá Kviku hf., og Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, öll tilnefnd af Samtökum fjármálafyrirtækja, og Jónas Þórðarson sérfræðingur, Ragnar Árni Sigurðarson lögfræðingur og Áslaug Jósepsdóttir lögfræðingur, öll tilnefnd af Seðlabanka Íslands.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar og innleiðing CRD IV/CRR í íslenskan rétt.
    Evrópusambandið samþykkti árið 2013 svonefnt CRD IV/CRR regluverk sem samanstendur af tilskipun 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja (e. Directive 2013/36/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on access to the activity of credit institutions and the prudential supervision of credit institutions and investment firms, amending Directive 2002/87/EC and repealing Directives 2006/48/EC and 2006/49/EC and Regulation (EU) No 575/2013 of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on prudential requirements for credit institutions and investment firms and amending Regulation (EU) No 648/2012).
    CRD IV/CRR regluverkið byggist á svonefndum Basel III staðli. Með lögum nr. 57/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á 144. löggjafarþingi var stigið fyrsta skrefið í því að aðlaga íslenska löggjöf að Basel III staðlinum og nýju regluverki Evrópusambandsins. Nýtt CRD IV/CRR regluverk Evrópusambandsins er umfangsmikið og því var ákveðið að skipta efninu upp í tvo til þrjá meginhluta. Frumvarp þetta er því annar áfangi í innleiðingu regluverksins í íslenskan rétt. Í þessu skrefi eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem varða orðskýringar, starfsleyfi og starfsheimildir, stofnframlag fjármálafyrirtækja, upplýsingaskyldu, vogunarhlutfall, könnunar- og matsferli, eigið fé o.fl.
    Verði þetta frumvarp að lögum stendur eftir að endurskoða reglur um útibú og þjónustustarfsemi á milli landamæra, samstæðueftirlit og uppljóstrun (e. Whistle Blowing) með hliðsjón af efni tilskipunar 2013/36/ESB. Tvær nefndir hafa verið skipaðar til þess að yfirfara þessi atriði og stefnt er að því að leggja fram frumvarp sem inniheldur breytingar á lögunum varðandi reglur um uppljóstrun fyrir lok 145. löggjafarþings.
    Tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn en það skýrist af því að reglugerðir Evrópusambandsins um stofnun nýrra evrópskra eftirlitsstofnana sem gefnar voru út árið 2010 hafa ekki enn verið teknar upp í EES-samninginn. Í tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 er að finna ákvæði sem veitir Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (e. European Banking Authority, EBA) valdheimildir en ákvæði gerðanna sem veita þessar valdheimildir eru ekki innleiddar í íslenskan rétt með þessu frumvarpi.
    Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/2015 er vísað til þess að þrátt fyrir að tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 hafi ekki verið teknar upp í EES-samninginn sé það aftur á móti vilji íslenskra stjórnvalda að íslensk lög og reglur á þessu málefnasviði endurspegli þær reglur sem gilda í nágrannalöndum Íslands hverju sinni. Sömu sjónarmið eiga við um þetta frumvarp en með því er stefnt að því að innleiða stærstan hluta CRD IV/CRR regluverksins og með því Basel III staðalinn í íslenskan rétt.
    Telja verður æskilegt að löggjöf á sviði fjármálamarkaða sé á öllum tímum í samræmi við þær lágmarkskröfur sem Evrópusambandið setur fjármálafyrirtækjum á innri markaði. Með því er stuðlað að auknu trausti á íslenskum fjármálamarkaði.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem nær allar byggjast á tilskipun um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja. Breytingar eru lagðar til á I. kafla laganna varðandi skilgreiningar, II. kafla laganna varðandi starfsleyfi, III. kafla laganna varðandi stofnframlag fjármálafyrirtækja og upplýsingaskyldu, IV. kafla laganna um starfsheimildir fjármálafyrirtækja, hámark virkra eignarhluta, lánveitingar, verðbréfun og takmarkanir á stórum áhættuskuldbindingum, VII. kafla laganna um viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja, X. kafla um laust fé og eigið fé, XII. kafla um almennar eftirlitsheimildir og eftirlit á samstæðugrundvelli, XIV. kafla um viðurlög og XVI. kafla varðandi innleiðingu reglugerðar um vogunarhlutföll í íslenskan rétt. Þá er lagt til að ákvæði um könnunar- og matsferli (e. SREP) bætist við IX. kafla laganna. Tvær tæknilegar breytingar eru lagðar til á V. kafla um starfsemi fjármálafyrirtækja á milli landa. Skilgreining á „vensluðum aðilum“ sem lögð er til með frumvarpi þessu byggist ekki á CRD IV/CRR regluverkinu heldur á hún rætur að rekja til skilgreiningar sem finna má í kjarnareglum Basel-nefndarinnar um skilvirkt bankaeftirlit (e. Basel Core Principles for Effective Banking Supervision) eða nánar til tekið í skýringum við 20. meginreglu kjarnareglnanna um viðskipti við tengda aðila. Til samræmis við nýja hugtakanotkun eru því einnig lagðar til breytingar á 29. gr. a laganna. Nánari skýringar á ýmsum breytingum frumvarpsins má finna hér á eftir. Ásamt þessum skýringum vísast í athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

1. Skilgreiningar.
    Í frumvarpinu er lagt til að 1. gr. a laganna sem inniheldur orðskýringar verði breytt á þann hátt að auðveldara verði að finna ýmis hugtök sem notuð eru í lögunum. Uppbygging laganna verður því ef frumvarp þetta er samþykkt óbreytt í meginatriðum í samræmi við uppbyggingu tilskipunar 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Greinin kom upphaflega inn í lögin með lögum nr. 75/2010. Síðan þá hefur greininni verið breytt þrisvar sinnum, þ.e. með lögum nr. 119/2011, nr. 47/2013 og nr. 57/2015 sem hafa breytt eldri orðskýringum og bætt nýjum við. Með breytingunum hefur uppsetning orðskýringa með tilliti til uppröðunar laganna riðlast. Þá hafa ýmsar skilgreiningar verið færðar úr einstökum greinum frumvarpsins í orðskýringargreinina. Með frumvarpinu er lagt til að orðskýringunum sé endurraðað þannig að auðveldara sé að rekja hugtakanotkun til tiltekinna kafla laganna og að skyld hugtök sé að finna á nokkurn veginn sama stað.
    Í nýrri orðskýringagrein er einnig lagt til að fimmtán nýjar orðskýringar bætist við lögin. Dæmi um nýjar orðskýringar eru hugtökin „aðili á fjármálamarkaði“, „venslaðir aðilar“, „veltubók“, „óbeinn eignarhlutur“, „krosseignarhald“ og „gervieignarhlutur“. Breytingar eru lagðar til á átta orðskýringum.

2. Vogunarhlutfall.
    Með 20. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist ný grein sem kveður á um að fjármálafyrirtæki skuli uppfylla kröfur um hlutfall vogunar, þ.e. vogunarhlutfall (e. Leverage ratio). Greinin er samhljóða 429. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Krafa um vogunarhlutfall felur í sér kröfur varðandi skuldsetningu fjármálafyrirtækja og er hluti af Basel III staðlinum. Óhófleg skuldsetning fjármálafyrirtækja var einn af þeim þáttum sem leiddi til alþjóðlegrar fjármálakreppu seinustu ára. Á grundvelli þeirra reglna sem giltu á þessum tíma var fjármálafyrirtækjum unnt að auka skuldsetningu en á sama tíma viðhalda lögbundnu lágmarki um eigið fé, m.a. með nýtingu innri líkana til útreikninga áhættuvoga. Þegar fjármálakreppan stóð sem hæst myndaðist þrýstingur á fjármálafyrirtæki um að draga úr skuldsetningu sem ýtti undir frekari lækkun á eignaverði. Þegar fjármálafyrirtæki drógu þannig úr skuldsetningu jókst kerfisáhætta sem leiddi til frekara taps á rekstri fjármálafyrirtækja, það dró úr eigin fé og gæðum þess og minnkaði framboð lánsfjár. Markmið nýrrar reglu um vogunarhlutfall er að taka á þessum þáttum. Með þessu er komið í veg fyrir of mikla skuldsetningu innan fjármálakerfisins og þannig dregið úr hættu á neikvæðum hliðarverkunum innan fjármála- og efnahagskerfisins þegar þörf myndast innan fjármálakerfisins til að draga úr skuldsetningu. Með þessum hætti felur ný regla um vogunarhlutfall í sér viðbótarvörn (e. back-stop) til að styrkja reglur um útreikning eigin fjár. Basel-nefndin um bankaeftirlit hefur gefið út sérstaka skýrslu um vogunarhlutfall (e. Basel Committee on Banking Supervision: Basel III leverage ratio framework and disclosure requirements, janúar 2014) sem aðgengileg er á vefsíðu Basel-nefndarinnar (www.bis.org).

3. Könnunar- og matsferli.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði tilskipunar 2013/36/ESB sem fjalla um könnunar- og matsferli eftirlitsaðila (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP) verði í heild tekin upp í lögin. Ákvæði um könnunar- og matsferli fjármálafyrirtækja og innramatsferli eru nú þegar að hluta til lögfest í 84. og 85. gr. gildandi laga ásamt reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Með því að kveða nú á um skyldur fjármálafyrirtækja og valdheimildir Fjármálaeftirlitsins samkvæmt innramatsferli og könnunar- og matsferli skapast meiri skýrleiki og gagnsæi í beitingu ákvæðanna og í störfum Fjármálaeftirlitsins og skýrara kemur fram hvaða skyldur fjármálafyrirtæki bera samkvæmt reglunum. Með þessum hætti er heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að beita valdheimildunum einnig veitt trygg lagastoð. Nánar til tekið kveða 97.–101. gr. tilskipunarinnar á um framkvæmd könnunar- og matsferlis eftirlitsaðila og 102.–107. gr. tilskipunarinnar fjalla um valdheimildir á grundvelli könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins. Lagt er til að ákvæði tilskipunarinnar verði innleidd í íslenskan rétt með 9., 25. og 36. gr. frumvarpsins. Í könnunar- og matsferli felst skoðun og mat Fjármálaeftirlitsins á innramatsferli fjármálafyrirtækja (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process, ICAAP). Könnunin og matið beinast að því að leggja mat á samræmi og gæði viðskiptalíkans og áhættustefnu fjármálafyrirtækis. Stór hluti þessa ferlis er álagspróf á eiginfjárþörf og ásamt innramatsferli eru þessar prófanir og niðurstöður þeirra metnar af Fjármálaeftirlitinu.
    Bæði könnunar- og matsferli eftirlitsaðila og innramatsferli fjármálafyrirtækis tilheyra svonefndri stoð 2 (e. Pillar 2) Basel II staðalsins. Svonefnd stoð 1 (e. Pillar 1) Basel II staðalsins tekur mið af lögum og reglum um lágmarkseiginfjárþörf þar sem áhættuþáttum er skipt í þrjá þætti, þ.e. útlánaáhættu, markaðsáhættu og rekstraráhættu. Eiginfjárkröfur á grundvelli stoðar 1 eru að mestu staðlaðar. Samkvæmt stoð 2 er tekið á þeim áhættuþáttum sem ekki falla undir stoð 1 í Basel II staðlinum eða eru vanmetnir undir stoð 1. Þessir þættir eru einkum vaxtaáhætta, samþjöppunaráhætta, lausafjáráhætta, viðskiptaáhætta og laga- og stjórnmálaáhætta. Þriðja stoðin (e. Pillar 3) hefur þann tilgang að stuðla að aðhaldi frá markaðinum (e. market discipline) og kveður á um kröfur um aukna upplýsingagjöf til markaðar um starfsemi fjármálafyrirtækja.
    Ferlar undir stoð 2 eiga að stuðla að sterkari tengslum á milli áhættustefnu fjármálafyrirtækis, áhættustýringar þess, mildunaraðgerða og eigin fjár fyrirtækisins. Aðaltilgangur könnunar- og matsferlis er að tryggja að nægilegt eigið fé sé til staðar hjá fjármálafyrirtækjum svo að þau geti mætt áhættu í starfsemi sinni. Eftirlitsferli undir stoð 2 er tvíþætt. Annars vegar er innra matsferli fjármálafyrirtækis þar sem fyrirtækið leggur mat á eiginfjárþörf í samræmi við áhættustefnu o.fl. Í kjölfar skila fjármálafyrirtækis á innra mati sínu (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process, ICAAP) fer af stað könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins (sem oft er kallað „SREP-ferli“). Í könnunar- og matsferli leggur Fjármálaeftirlitið mat á innra matsferli fjármálafyrirtækis. Í þessu felst að lagt er mat á það hvort fjármálafyrirtæki hafi nægjanlegt eigið fé til þess að styðja við og mæta öllum mikilvægum tegundum áhættu sem geta falist í starfsemi þess. Þá er einnig lagt mat á stjórnarhætti og innri ferla fjármálafyrirtækis. Niðurstaða úr könnunar- og matsferli getur orðið önnur en sú sem kemur fram í innra mati fjármálafyrirtækis og gildir þá mat Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárþörf á grundvelli stoðar 2. Niðurstaða úr könnunar- og matsferli getur t.d. leitt til þess að fjármálafyrirtæki getur þurft að hafa hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni (lágmarkskrafa sem kemur fram í lögum). Þannig getur Fjármálaeftirlitið kveðið á um að til viðbótar lágmarkseiginfjárgrunni komi viðbótareiginfjárkrafa sem nemi t.d. 5% af áhættugrunni sem samtals sé því 13% af áhættugrunni (fyrir utan kröfur um eiginfjárauka). Fjármálafyrirtæki þyrfti því að viðhalda eigin fé sem næmi 13% af áhættugrunni. Á grundvelli könnunar- og matsferlis hefur eftirlitsaðili einnig fleiri heimildir til þess að bregðast við niðurstöðum úr ferlinu. Þannig getur eftirlitsaðili krafist þess að gerðar verði endurbætur á innri ferlum, hömlur verði settar á ákveðna starfsemi eða að ákveðnar eignir verði seldar enda felst í þeim áhætta fyrir fyrirtækið og jafnvel fjármálakerfið. Þá getur eftirlitsaðili gert þá kröfu að dregið sé úr ákveðinni áhættu sem starfsemin felur í sér, eignir séu niðurfærðar við útreikning á eiginfjárgrunni, kaupaukar séu takmarkaðir, arðgreiðslur takmarkaðar o.fl.

4. Eigið fé.
    Í frumvarpinu eru lagðar til margar breytingar á X. kafla laganna sem fjallar um eigið fé fjármálafyrirtækja. Breytingarnar sem lagðar eru til byggjast að mestu á ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um eigið fé. Reglugerðin innleiðir í Evrópurétt Basel III staðalinn en hann inniheldur m.a. breytingar á alþjóðlegum reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja. Áður en gerð er grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu á núgildandi reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja þykir rétt að lýsa því í stuttu máli hvað eigið fé fjármálafyrirtækja er og af hverju sérstakar reglur gilda um það.
    Í grundvallaratriðum skiptist fjármögnun fyrirtækja í tvennt, þ.e. lánsfé og eigið fé. Eftir að félag hefur verið sett upp er eigið fé það sem hluthafar hafa lagt inn í félagið en eftir því sem líður á rekstur félagsins safnast upp hagnaður eða tap sem leggst við eigið féð en arðgreiðslur dragast frá. Eigið fé er virði eigna félagsins umfram virði skulda og skuldbindinga sem félagið hefur tekið á sig. Þannig lýsir eigið féð því hversu mikið eignir félags mega rýrna áður en eignirnar verða minna virði en skuldirnar. Eigin fé félags má því í rauninni lýsa sem ákveðnum stuðpúða og vörn fyrir lánveitendur félagsins gagnvart tapi í rekstri þess. Hversu sterk slík vörn er og þar með fyrir skilum skulda veltur hins vegar umfram allt á því hversu hátt eigið féð er sem hlutfall af skuldum.
    Fjármálafyrirtæki eru almennt skuldsettari en önnur félög enda er það eitt helsta hlutverk flestra þeirra að taka við fjármagni í formi innstæðna frá sparifjáreigendum og lána það áfram til arðbærra fjárfestinga. Reglur um lágmarks eigið fé fjármálafyrirtækja hafa því þann megintilgang að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtæki taki of mikla áhættu í rekstri sínum og treysta þannig fjármálastöðugleika.
    Eigið fé fjármálafyrirtækja hefur eðli máls samkvæmt mikil áhrif á möguleika fjármálafyrirtækja til þess að fjármagna rekstur sinn og þar með möguleika þeirra til að stækka. Samsetning eigin fjár og eiginfjárhlutfall spilar þannig stórt hlutverk í að auka trúverðugleika fjármálafyrirtækja gagnvart fjárfestum þegar þau markaðssetja eigin skuldaviðurkenningar gagnvart fjárfestum. Samsetning eigin fjár og eiginfjárhlutfall hefur einnig áhrif á mat greiningaraðila á verðmæti eignarhluta fjármálafyrirtækja. Það er því ljóst að samsetning eigin fjár og eiginfjárhlutfall er grundvallarstærð í rekstri fjármálafyrirtækja.
    Frá árinu 1988 hefur Basel-nefndin gefið út svonefnda Basel-staðla. Basel I staðalinn kom út árið 1988 og fól í sér samræmdar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja. Fyrir þann tíma voru ekki til neinar samræmdar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja og reglurnar því mismunandi á milli einstakra landa, m.a. um lágmarkseiginfjárhlutfall og aðferðafræði við útreikning á eiginfjárhlutfalli. Markmið Basel I staðalsins var því m.a. að jafna samkeppnisaðstöðu fjármálafyrirtækja með samræmdum og stöðluðum reglum og þar með að draga úr hættu á óheilbrigðri samkeppni. Nýr Basel II staðall kom út árið 2004 og fól í sér fjölda breytinga á reglum um eigið fé. Í umfjöllun um könnunar- og matsferli í athugasemdum við frumvarp þetta er m.a. að finna umfjöllun um það hvaða breytingar sá staðall hafði í för með sér. Nýr Basel III staðall kom síðan út árin 2010–2011. Með CRD IV/CRR regluverkinu sem m.a. er lagt til að verði innleitt hér á landi með frumvarpi þessu verður Basel III staðallinn innleiddur á íslenskum fjármálamarkaði.
    Eins og áður kemur fram varða helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um eigið fé fjármálafyrirtækja. Breytingarnar varða ólíkar gerðir fjármálafyrirtækja og eru kröfur til eigin fjár þeirra mismunandi eftir tegundum fjármálafyrirtækja. Þannig eru gerðar kröfur til lánastofnana og sumra verðbréfafyrirtækja um að eiginfjárgrunnur og ólíkir þættir hans uppfylli skilyrði laganna. Hins vegar eru gerðar þær kröfur til verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélaga verðbréfasjóða að svonefnt hæft fjármagn þeirra uppfylli skilyrði laganna. Útreikningur á áhættugrunni fjármálafyrirtækja er að sama skapi útfærður með ólíkum hætti eftir mismunandi tegundum fjármálafyrirtækja, þ.e. eftir því hvort um er að ræða lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki. Breytingar í frumvarpinu byggjast á þeim grunni sem er að finna í 84. gr. gildandi laga, en ákvæði frumvarpsins um eiginfjárgrunn, þ.e. 84. gr. a – 84. gr. c, eru mun ítarlegri en núgildandi lagaákvæði. Þessi ítarlegu ákvæði setja ákveðin skilyrði fyrir því að hægt sé að telja eiginfjárgerninga (e. equity instruments) og fjármagnsgerninga (e. capital instruments) til eiginfjárgrunnsgerninga (e. own funds instruments). Einnig eru gerðar ítarlegar kröfur til þessara eiginfjárgrunnsgerninga, til að mynda um frádráttarliði. Með þessum skilyrðum og kröfum sem gerðar eru til gerninga sem heimilt er að telja til eiginfjárgrunns eru gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja aukin. Vísað er til umfjöllunar um 84. gr., 84. gr. a – 84. gr. e og 85. gr. frumvarpsins um nánari skýringar.
    Í frumvarpinu er notast við hugtakið „eiginfjárgrunnsgerningar“ til afmörkunar á því hvaða gerninga er hægt að telja til eiginfjárgrunns. Sú hugtakanotkun samræmist íslenskri lagahefð enda hefur hugtakið eiginfjárgrunnur verið notað um lögbundið eigið fé fjármálafyrirtækja sem sérhugtak um árabil, til afmörkunar frá því sem almennt er nefnt eigið fé (e. equity) hjá öðrum fyrirtækjum. Er sá hugtakamismunur sprottinn af nauðsyn til að afmarka lagalega eigið fé fjármálafyrirtækja svo að ekki sé stuðst við almennar reikningsskilareglur til að reikna eigið fé þeirra. Með vísan til varfærniskrafna sem koma fyrir í CRD IV/CRR regluverkinu og Basel III staðlinum er eigið fé fjármálafyrirtækja reiknað með öðrum hætti en hjá öðrum fyrirtækjum.
    Í frumvarpinu er einnig vikið frá þeirri hugtakanotkun sem ríkt hefur varðandi þá eiginfjárþætti sem mynda eiginfjárgrunn. Þannig er ekki lengur talað um eiginfjárþátt A eða eiginfjárþátt B, heldur einungis þátt 1 og þátt 2. Er slíkt í samræmi við þróun á löggjöf Norðurlanda og samræmist betur texta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Nokkur nýmæli felast í e-lið 28. gr. frumvarpsins (nýrri 84. gr. e). Á meðal þeirra ber sérstaklega að nefna nýjar reglur um útreikning á áhættugrunni verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða, en einnig nær áhættugrunnur annarra fjármálafyrirtækja til fleiri þátta en áður hefur verið. Þá er með f-lið 28. gr. frumvarpsins (nýrri 84. gr. f) lagt til að við lögin bætist ákvæði er varðar veltubók fjármálafyrirtækja. Vísast til umfjöllunar um ákvæðin um nánari skýringar.

5. Lagastoð fyrir ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Með frumvarpinu er lagt til að nokkrum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 verði veitt lagastoð. Að mestu leyti er hér um að ræða breytingar sem lagðar eru til með X. kafla laganna um eigið fé fjármálafyrirtækja en einnig er að finna breytingar á öðrum ákvæðum laganna sem tengjast innleiðingu reglugerðarinnar, t.d. breytingu á 28. gr. laganna um hámark virkra eignarhluta í öðrum fyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum, breytingar sem lagðar eru til á 29. gr. b – 29. gr. e um verðbréfun o.fl., nýtt ákvæði um vogunarhlutfall, sbr. nýja 30. gr. a, og breytingu sem lögð er til á 109. gr. laganna varðandi eftirlit með eignarhaldsfélögum.
    Með lögum nr. 57/2015 var stigið fyrsta skrefið í innleiðingu tilskipunar 2013/36/ESB og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 í íslenskan rétt. Með lögunum bættist ný grein við lögin, 117. gr. a, sem veitti ráðherra heimild til þess að innleiða reglugerð (ESB) nr. 575/2013 með setningu reglugerðar á grundvelli laganna.
    Við vinnslu frumvarpsins var Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja veitt tækifæri til þess að gera athugasemdir við efni frumvarpsins. Í athugasemdum sem komu frá tveimur fjármálafyrirtækjum var m.a. gerð athugasemd við það að einstök ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 yrðu tekin upp í lög um fjármálafyrirtæki með frumvarpinu en reglugerðin ekki innleidd í heild sinni og orðrétt. Í athugasemd kom fram að með þessum hætti gæti skapast ákveðin ruglingshætta ef misræmi yrði á milli ákvæða lagatextans og ákvæða í reglugerð. Þá kom einnig fram að ákvæði reglugerða Evrópusambandsins hafa ekki verið innleiddar með þessum hætti áður, þ.e. að einstök efnisákvæði reglugerða Evrópusambandsins séu tekin upp í lög. Fjármála- og efnahagsráðuneytinu þykir því nauðsynlegt að bregðast við þessum athugasemdum í frumvarpinu til frekari skýringa.
    Bankaregluverk Evrópusambandsins hafði fram að því að tilskipun 2013/36/ESB (CRD IV) og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR) voru samþykktar sumarið 2013 að langstærstum hluta verið í formi tilskipana. Það regluverk sem CRD IV/CRR regluverkið leysir af hólmi er til að mynda tilskipun 2006/48/EB (CRD) og tilskipun 2006/49/EB (CAD) sem hafa verið innleiddar hér á landi, m.a. með lögum um fjármálafyrirtæki og afleiddum reglum og reglugerðum sem Fjármálaeftirlitið eða ráðuneytið hafa sett með stoð í lögunum. Sú breyting hefur verið gerð á vettvangi Evrópusambandsins að endurskoðað regluverk er nú að finna í tilskipun annars vegar og reglugerð hins vegar. Helsta ástæða þess að nú er hluti regluverksins í formi reglugerðar er sú að stefnt er að því að tryggja hámarkssamræmingu á Evrópureglum (e. Single rule book) enda var það mat framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að hluta fjármálakreppunnar í Evrópu mætti rekja til þess að Evrópureglur voru bæði túlkaðar og þeim framfylgt á mismunandi hátt í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Til að mynda er gildandi X. kafli laganna að hluta innleiðing eiginfjárreglna sem var að finna í tilskipunum 2006/48/EB og 2006/49/EB. Reglur Evrópusambandsins um eigið fé er nú að stærstum hluta að finna í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 en ákvæði um mat Fjármálaeftirlitsins á eigin fé fjármálafyrirtækja í tilskipun 2013/36/ESB.
    Ráðuneytið hefur valið þá leið við innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 að hún verði innleidd hér á landi með tvennum hætti. Annars vegar verður reglugerðin þýdd, hugað að val- og heimildarákvæðum reglugerðarinnar með tilliti til íslensks fjármálamarkaðar (e. national discretions) og reglugerðin innleidd með reglugerð á grundvelli heimildar í 117. gr. a laganna. Reglugerðin verður innleidd í heilu lagi með þessum hætti hér á landi. Hins vegar telur ráðuneytið að tiltekin ákvæði reglugerðarinnar verði að eiga sér stoð í lögum þannig að Fjármálaeftirlitið geti beitt þeim efnisreglum reglugerðarinnar gagnvart fjármálafyrirtækjum þegar á reynir án þess að stofnunin teljist hafa farið út fyrir þau mörk sem lögmætisreglan setur starfsemi stjórnvalda. Hér skal t.d. bent á það að brot gegn tilteknum ákvæðum sem koma fram í umræddri reglugerð geta haft í för með sér stjórnvaldssektir, starfsleyfissviptingu fjármálafyrirtækis, sektir og fangelsisrefsingu, sbr. t.d. 112. gr. b og 112. gr. e laganna.
    Þá skal þess einnig getið að norsk stjórnvöld hafa einnig valið þá leið að veita ýmsum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, m.a. um eigið fé, lagastoð í norskum lögum um fjármálastarfsemi (n. I lov 10. juni 1988 nr. 40 om finansieringsvirksomhet og finansinstitusjoner) með breytingalögum sem tóku gildi 1. júlí 2013 (n. Lov om endringer i finansieringsvirksomhetsloven og verdipapirhandelloven (nye kapitalkrav mv.) lov 14. juni 2013 nr. 34).
    Við útfærslu ákvæða frumvarpsins sem byggjast á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 hafa drög að þýðingu reglugerðarinnar verið notuð sem fyrirmynd nýrra ákvæða. Þannig verður efni laganna samhljóða reglugerðinni og ákvæði í lögum og evrópsku reglugerðinni orðuð á sama hátt. Evrópska reglugerðin verður innleidd með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a laganna. Þannig á að mati ráðuneytisins ekki að vera ruglingshætta vegna misræmis á milli laganna og evrópsku reglugerðarinnar. Þá má einnig benda á að við lögskýringu á efni laganna og reglugerðar sem sett verður á grundvelli 117. gr. a laganna ber alltaf að horfa til annarra útgáfna reglugerðanna eins og þær hafa verið birtar á öðrum tungumálum í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og dómafordæmis EFTA-dómstólsins. Ef í ljós kemur að misræmi verður á milli ákvæði laganna og reglugerðar sem sett verður á grundvelli 117. gr. a laganna verður brugðist við því með breytingu á lögunum eða reglugerðinni sem sett verður á grundvelli 117. gr. a eins og almennt er gert ef efni tilskipana og reglugerðar Evrópusambandsins hefur ekki verið innleitt á réttan hátt í íslenskan rétt.

6. Breytingar á starfsheimildum verðbréfamiðlana og verðbréfafyrirtækja.
    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á starfsumhverfi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana. M.a. er lagt til að hugtakanotkun laganna verði færð til samræmis við hugtakanotkun laga um verðbréfaviðskipti, sbr. 10. 12. gr. frumvarpsins sem breyta 20., 25. og 27. gr. laganna. Þá er lagt til með frumvarpinu að ekki verði lengur talað um verðbréfamiðlanir heldur verði slík fyrirtæki sérstök tegund verðbréfafyrirtækja, þ.e. verðbréfafyrirtæki sem bera takmarkaðar starfsskyldur, sbr. 2., 6., 11. og 12. gr. frumvarpsins. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum um stofnframlag verðbréfafyrirtækja með 8. gr. frumvarpsins. Einnig er lagt til að sérstök tegund verðbréfafyrirtækis sem kallast staðbundið fyrirtæki (e. local firm) geti starfað á grundvelli laganna.
    Með 12. gr. frumvarpsins er lagt til að tiltekin verðbréfafyrirtæki beri takmarkaðar starfsskyldur. Til þess að teljast slíkt verðbréfafyrirtæki þarf fyrirtækið að uppfylla þrjú skilyrði: 1) það sinnir ekki vörslu fjármálagerninga, 2) það sinnir einungis einum eða fleiri af eftirtöldum þjónustuþáttum: móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum, framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina, eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf, og 3) það hefur ekki heimild til að varðveita reiðufé eða fjármálagerninga í eigu viðskiptavina og stofna þannig til skuldbindinga við viðskiptavini sína. Þessi breyting er lögð til í tvenns konar tilgangi. Annars vegar byggist breytingin á breyttri skilgreiningu á hugtakinu „fjárfestingarfyrirtæki“ (e. investment firm) eins og það er skilgreint í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Hins vegar byggist breytingin á brottfalli 26. gr. laganna sem kveður á um starfsheimildir verðbréfamiðlana. Skilgreining á hugtakinu „fjárfestingarfyrirtæki“ (e. investment firm) er ólík á milli reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og MiFID-tilskipunarinnar, 2004/39/EB. Með breyttu hugtaki í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 eru tiltekin verðbréfafyrirtæki, sem teljast til slíkra fyrirtækja á grundvelli MiFID- tilskipunarinnar undanþegin sumum af þeim varúðarkröfum sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja í reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Slík fyrirtæki bera því ekki sömu skyldur og önnur verðbréfafyrirtæki. M.a. þurfa slík fyrirtæki ekki að uppfylla skyldur laganna um stórar áhættuskuldbindingar, lausafjárkröfur, vogunarhlutfall og takmarkanir á kaupaukum en þau þurfa þó að uppfylla eiginfjárkröfur á grundvelli laganna o.fl. Staðbundin fyrirtæki eru undanþegin sömu skyldum og kröfum og verðbréfafyrirtæki sem ber takmarkaðar starfsskyldur en að auki er staðbundnum fyrirtækjum ekki skylt að reikna út eiginfjárkröfur. Breytingar á starfsheimildum verðbréfafyrirtækja taka þannig ekki mið af því að til séu sérstakar tegundir fjármálafyrirtækja sem beri heitið „verðbréfamiðlun“ og hafi takmarkaðri starfsskyldur en verðbréfafyrirtæki. Þess í stað heyrir starfsemi þeirra sjálfkrafa til verðbréfafyrirtækja, og slík fyrirtæki þurfa því eftirleiðis að auðkenna sig sem slík.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Flestar breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu byggjast á efni tilskipunar 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Tilskipunin og reglugerðin hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn. Þrátt fyrir að gerðirnar hafi ekki verið teknar upp í EES- samninginn telja stjórnvöld mikilvægt að breyta löggjöf á sviði fjármálamarkaða með hliðsjón af efni þeirra enda er um að ræða heildarendurskoðun Evrópusambandsins á löggjöf sinni um starfsemi fjármálafyrirtækja og eftirlit með fjármálafyrirtækjum í kjölfar fjármálaerfiðleikanna í Evrópu síðustu ár. Flest ríki Evrópu hafa nú þegar innleitt regluverkið í landsrétt sinn. Önnur EFTA-ríki sem aðilar eru að EES-samningnum hafa einnig ákveðið að aðlaga landsrétt sinn regluverkinu þrátt fyrir að það sé ekki orðið hluti af EES- samningnum.
    Ekki er að sjá að í breytingunum geti falist neitt sem stangast á við ákvæði stjórnarskrár Íslands. Hér skal þess þó getið að tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn en það skýrist af því að reglugerðir Evrópusambandsins um stofnun nýrra evrópskra eftirlitsstofnana sem gefnar voru út árið 2010 hafa ekki enn verið teknar upp í EES-samninginn. Í tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 er að finna ákvæði sem veitir Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (e. European Banking Authority, EBA) valdheimildir en ákvæði gerðanna sem veita þessar valdheimildir eru ekki innleiddar í íslenskan rétt með þessu frumvarpi.

V. Samráð.
    Frumvarpið er að stærstum hluta samið af nefnd sem skipuð var til þess að fara yfir löggjöf á sviði fjármálamarkaðar með tilliti til nýrrar löggjafar Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar. Í nefndinni sitja fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands en fulltrúi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu veitir nefndinni formennsku. Við vinnslu frumvarpsins gafst þeim aðilum sem fulltrúa hafa í nefndinni kostur á að skila sérstökum umsögnum um ákvæði frumvarpsins og athugasemdirnar voru teknar til umræðu á fundum nefndarinnar, sbr. umfjöllun í III. kafla.

VI. Mat á áhrifum.
    Með lögum nr. 57/2015 voru stigin fyrstu skref í aðlögun íslenska fjármálakerfisins að Basel III staðlinum, eins og hann er innleiddur í reglur Evrópuréttar með tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013, en meginmarkmið staðalsins er að skapa traustari umgjörð um rekstur og starfsemi fjármálafyrirtækja í þeim tilgangi að draga úr kerfisáhættu. Með frumvarpi þessu er stigið annað skrefið í að aðlaga íslenska fjármálakerfið að CRD IV/CRR regluverkinu og alþjóðlega Basel III staðlinum. Með því er dregið enn frekar úr líkum á fjármálaáföllum á borð við fall íslenska fjármálakerfisins árið 2008 og alþjóðlegu skuldakreppuna. Hertu regluverki er bæði ætlað að draga úr tíðni fjármálaáfalla og stuðla að því að dregið verði úr neikvæðum áhrifum þeirra á efnahagslífið þegar þau skella á. Ljóst er að fjármálakreppur geta haft varanleg neikvæð áhrif á hagvöxt og vísbendingar eru um að óhóflegar hagsveiflur geti dregið úr hagvexti til lengri tíma. Traust og stöðugt fjármálakerfi er betur í stakk búið til að styðja við aðrar greinar atvinnulífsins sem undirbyggir stöðugan hagvöxt til frambúðar.
    Með frumvarpinu eru ýmis ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um eigið fé og eiginfjárkröfur innleiddar í íslensk lög. Með því eru gerðar auknar kröfur um gæði eigin fjár, m.a. þannig að hlutfall almenns eigin fjár undir eiginfjárþætti A sem verður að almennu eigin fé þáttar 1 hækkar úr 4% í 4,5%. Lögbundið lágmark eigin fjár verður þó áfram 8%. Nýlegar hagrannsóknir benda til þess að þjóðhagslega hagkvæmt sé að hlutfall eigin fjár í fjármögnun banka sé ekki aðeins hærra en það var fyrir hrun fjármálakerfisins heldur einnig hærra en þau lágmörk sem sett eru í alþjóðlegu regluverki. Ýmis ríki, þ.m.t. Noregur og Svíþjóð, hafa því gert þær kröfur til stærri fjármálastofnana að þær búi yfir eigin fé umfram lágmarkskröfur alþjóðlegu löggjafarinnar (sjá t.d. Kragh-Sörensen, K. (2012). Staff Memo No. 29: Optimal capital adequacy ratios for Norwegian banks. Oslo: Norges Bank).
    Varðandi áhrif ákvæða frumvarpsins á einstök fyrirtæki er í því m.a. lagt til að framvegis verði ekki veitt sérstök starfsleyfi til reksturs verðbréfamiðlunar. Á Íslandi er nú starfrækt ein verðbréfamiðlun. Verði frumvarpið að lögum mun það ekki hafa áhrif á starfsemi þess fyrirtækis enda mun það eftirleiðis, ásamt sambærilegum fyrirtækjum sem taka til starfa hér á landi eftir gildistöku laganna, teljast til verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur.
    Fjármálafyrirtæki hér á landi hafa að hluta til þegar byrjað að starfa í samræmi við nýjar kröfur CRD IV/CRR regluverksins og Basel III staðalinn enda hefur legið fyrir lengi eða frá árinu 2013 að regluverkið yrði hluti íslensks réttar. Almennt eru fjármálafyrirtæki hér á landi, bæði stór og smá, vel undir það búin að gangast undir nýjar reglur um eigið fé. Íslensk fjármálafyrirtæki hafa nú þegar aðlagað starfsemi sína að nýjum alþjóðlegum reglum þrátt fyrir að þær hafi ekki verið innleiddar í íslenskan rétt og eru því nýjar eiginfjárreglur ekki taldar vera íþyngjandi fyrir íslensk fjármálafyrirtæki.
    Varðandi mat á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins þá er líklegt að með kröfum um bæði aukið eigið fé og bætt gæði þess verði dregið úr áhættunni af fjármálaáföllum fyrir raunhagkerfið og ríkissjóð.
    Á heildina litið hafa þessar tillögur að lagabreytingum áhrif til sveiflujöfnunar fyrir hagkerfið þar sem skerpt er á heimildum eftirlitsaðila til að bregðast við þenslu- eða samdráttarmerkjum í hagkerfinu í gegnum fjármálamarkaðinn. Einnig eru ákvæði um upplýsingaskyldu sett fram til að auka gagnsæi og styrkja umgjörð um mat á markaðsaðstæðum hverju sinni. Hvorki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem í frumvarpinu felast muni hafa teljandi áhrif á skatttekjur ríkissjóðs af fjármálafyrirtækjum frá því sem nú er né á rekstrargjöld í þessum málaflokki. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa umtalsverð áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að 1. gr. a laganna sem inniheldur orðskýringar verði breytt til samræmis við uppröðun skilgreininga í 3. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á núgildandi orðskýringum eða átta talsins og þá er einnig lagt til að fimmtán nýjar orðskýringar bætist við greinina.
    Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á orðskýringum í 5.–11., 14.–16., 21., 22., 26., 29., 32. og 33. tölul. frá því sem er í gildandi lögum.
    Í 1. tölul. er að finna skýringu á því hvað teljist fjármálafyrirtæki samkvæmt lögunum. Sú breyting er lögð til á orðskýringunni frá því sem nú er í 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga að verðbréfamiðlun er felld brott en það tengist breytingu sem er lögð til í 12. gr. frumvarpsins og vísast í athugasemdir við þá grein til frekari skýringa.
    Í 2. tölul. er lagt til að hugtakið „lánastofnun“ (e. credit institution) bætist við orðskýringarnar. Í gildandi lögum er einungis kveðið á um að tiltekin fyrirtæki samkvæmt lögunum teljist vera lánastofnanir með vísan til starfsleyfa þeirra, sbr. 2. mgr. 4. gr. gildandi laga. Skilgreiningin byggist á 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Í 3. tölul. er lagt til að „staðbundið fyrirtæki“ verði skilgreint í lögunum. Með „staðbundnu fyrirtæki“ (e. local firm) er átt við verðbréfafyrirtæki sem verslar fyrir eigin reikning á mörkuðum fyrir staðlaða framvirka samninga, valrétti eða aðrar afleiður og á lausafjármörkuðum, eingöngu í þeim tilgangi að verja stöður á afleiðumörkuðum, eða það stundar viðskipti fyrir reikning annarra sem eiga aðild að sömu mörkuðum og sem uppgjörsaðilar á sömu mörkuðum tryggja, og þegar það á við, ábyrgjast að staðið verði við samninga sem slíkt fyrirtæki gerir. Staðbundin fyrirtæki teljast til verðbréfafyrirtækja, en þar sem starfsemi þeirra er takmörkuð og tryggð af uppgjörsaðilum eða, eftir atvikum, unnin á ábyrgð þeirra eru kröfur sem lögum samkvæmt eru gerðar til þeirra ekki jafnítarlegar og gerðar eru til annarra verðbréfafyrirtækja. Staðbundin fyrirtæki sæta takmörkuðu eftirliti og takmörkuðum eiginfjárkröfum á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Helsta ástæða þess er sú að viðskipti þeirra eru tryggð af uppgjörsaðilum. Orðskýringin byggist á 2. og 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur tekið saman skýrslu um eftirlit- og eiginfjárkröfur gagnvart verðbréfafyrirtækjum (European Banking Authority: Report on Investment Firms, Desember 2014 (EBA/op/2015/20)) og er skýrslan birt á vefsvæði Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (www.eba.europa.eu). Í viðauka við skýrsluna er að finna nánari upplýsingar um staðbundin fyrirtæki.
    Í gildandi lögum er á ýmsum stöðum vísað til vátryggingafélags en hugtakið er ekki skilgreint í lögunum. Er því lagt til að í 4. tölul. verði hugtakið „vátryggingafélag“ skilgreint. Með vátryggingafélagi er átt við vátryggingafélag eins og það er skilgreint samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
    Engar efnislegar breytingar eru lagðar til í 5.–11. tölul. frá gildandi lögum en orðskýringarnar má finna í 6., 8., 15., 16., 17., 22. og 24. tölul. 1. gr. a gildandi laga.
    Í 2. mgr. 31. gr. gildandi laga er að finna skilgreiningu á útibúi. Með 12. tölul. er skilgreiningin uppfærð í samræmi við skilgreiningu Evrópuréttar, þ.e. 17. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Til samræmis við að ný skilgreining er lögð til í 1. gr. a laganna er lagt til í 21. gr. frumvarpsins að 2. mgr. 31. gr. laganna falli brott. Með orðinu „viðskipti“ í skilgreiningunni er náð utan um enska hugtakið „transaction“, en efnislega felur skilgreiningin í sér að í útibúi er starfsemi stunduð, eða þjónusta veitt, í heild eða að hluta samkvæmt starfsleyfi þess fjármálafyrirtækis sem rekur útibúið.
    Í 13. tölul. er lagt til að skilgreining á „félagi í hliðarstarfsemi“ (e. ancillary services undertaking) bætist við greinina. Skilgreiningin byggist á 18. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með félagi í hliðarstarfsemi er átt við félag sem að meginstarfsemi á að sjá um þjónustu sem er til viðbótar við meginstarfsemi eins eða fleiri fjármálafyrirtækja. Verður starfsemin að vera í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. T.d. má hér nefna gagnavinnsluþjónustu, umsjón með fasteignum eða aðra sambærilega þjónustu og ákvæðið skal ekki skýrt þröngt.
    Engar breytingar eru lagðar til í 14.–16. tölul. frá því hvernig hugtökin eru skilgreind í 18.–20. tölul. 1. mgr. 1. gr. a í gildandi lögum.
    Í 17. tölul. er að finna skilgreiningu á hugtakinu „fjármálastofnun“ (e. financial institution) sem er notað í stað hugtaksins „fyrirtæki tengt fjármálasviði“ sem nú er skilgreint í 14. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna. Efnisbreytingar eru einnig gerðar á skilgreiningunni. Breytingarnar byggjast á 26. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Ákveðið var að breyta heiti skilgreiningarinnar enda verður notast við orðið „stofnun“ til að ná yfir enska heitið „institution“ í íslenskri þýðingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 sem sett verður á grundvelli 117. gr. a laganna. Með því að breyta heitinu á „fyrirtæki tengdu fjármálasviði“ yfir í „fjármálastofnun“ næst eðlilegt samræmi á milli hugtakanna.
    Í 18. tölul. er lagt til að við greinina bætist skilgreining á hugtakinu „aðili á fjármálamarkaði“ (e. financial sector entity). Skilgreiningin byggist á 27. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með upptalningunni í skilgreiningunni er með tæmandi hætti gerð grein fyrir því hvaða aðilar teljist til „aðila á fjármálamarkaði“ samkvæmt lögunum. Á grundvelli skilgreiningarinnar er m.a. hægt að gera tæmandi grein fyrir því hvaða eignarhluti í félögum fjármálafyrirtæki beri að draga frá eiginfjárgunni í útreikningi á honum. Í c-lið 18. tölul. er vísað í hluta af samstæðustöðu fjármálafyrirtækis. Með orðinu „samstæðustaða“ er átt við enska hugtakið „consolidated situation“.
    Breyting er lögð til á hugtakinu „hlutdeildarfélag“ (e. participation) í 19. tölul. frá því hvernig hugtakið er skilgreint í 23. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga. Hugtakið er samræmt skilgreiningu reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 eins og það kemur fram í ii. lið b-liðar 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar, sbr. skilgreiningu 35. tölul. 1. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar.
    Lagt er til að hugtakið „venslaðir aðilar“ bætist við sem 20. tölul. Samkvæmt skilgreiningunni teljast til „venslaðra aðila“ aðilar sem eru nefndir „tengdir aðilar“ (e. related parties) samkvæmt settum reikningsskilareglum, þ.e. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006. Til venslaðra aðila teljast þannig allir aðilar sem samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 24 teljast til „tengdra aðila“. Til venslaðra aðila teljast einnig aðilar sem Fjármálaeftirlitið metur að eigi sams konar beinna og skyldra hagsmuna að gæta og þeir aðilar sem í reikningsskilum eru skilgreindir sem „tengdir aðilar“. Sú leið er farin í frumvarpi þessu að nefna þá aðila sem falla undir ákvæðið ekki „tengda aðila“ heldur „venslaða aðila“, til að takmarka þá hættu að hugtakinu „tengdir aðilar“ sé ruglað saman við önnur hugtök laga um fjármálafyrirtæki sem varða eða fela í sér tengsl, svo sem hóp tengdra viðskiptamanna, náin tengsl, samstarf og yfirráð. Hvert þessara hugtaka verður að skoða og meta í samhengi við þær efnisreglur sem þau varða. Tengsl eru á milli skilgreiningarinnar á „vensluðum aðilum“ og breytingum á skilgreiningu á „nánum tengslum“ samkvæmt frumvarpinu. Þannig er hugtakið „samstarf“ fellt úr skilgreiningunni á „nánum tengslum“ með þessu frumvarpi og þar með eru tiltekin skilgreind tengsl ekki hluti af „nánum tengslum“. Til að bregðast við þeim breytingum er notast við hugtakið „venslaðir aðilar“, en einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum 29. gr. a laganna, og vísast til umfjöllunar um þær breytingar í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins. Hugtakið „samstarf“ heldur sér í lögunum þó að það sé fellt úr skilgreiningunni á „nánum tengslum“, fyrst og fremst vegna tilvísana til hugtaksins í ákvæðum um virka eignarhluti.
    Engar breytingar eru lagðar til á skilgreiningu á „virkum eignarhlut“ í 21. tölul. frá því hvernig hugtakið er skilgreint í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga.
    Skilgreining á „yfirráðum“ í 22. tölul. er óbreytt frá því hvernig hugtakið er skilgreint í 9. tölu. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga.
    Í 23. tölul. er lögð til breyting á orðalagi skilgreiningar á „nánum tengslum“ frá því sem nú er í 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga. Breyting á orðalagi greinarinnar er lögð fram í tvennum tilgangi. Annars vegar til áréttingar á því að náin tengsl geti bæði verið með einstaklingum svo og félögum, og hins vegar er breytingin lögð fram til þess að samræma skilgreiningu laganna betur að skilgreiningu Evrópuréttar eins og hún kemur fram í 38. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Breytingin felst m.a. í því að hugtakið „samstarf“ verður ekki hluti af hugtakinu „náin tengsl“.
    Breyting er lögð til á skilgreiningu hugtaksins „hópur tengdra viðskiptamanna“ í 24. tölul. til að árétta það að nægjanlegt er fyrir hóp viðskiptamanna að uppfylla annaðhvort skilyrðið í a- eða b-lið til þess að teljast hópur tengdra viðskiptamanna. Þá er einnig lögð til sú breyting á ákvæðinu að í stað orðsins „lögpersónur“ sem notað er í gildandi skilgreiningu 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a verði notað orðið „lögaðilar“. Er það gert til samræmingar á hugtakanotkun í lögunum.
    Skilgreining á hugtakinu „samstarf“ í 25. tölul. er óbreytt frá því sem nú er í 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. a laganna fyrir utan það að orðin „m.a.“ bætast við þar sem ekki er um tæmandi talningu að ræða á þeim atriðum sem fela í sér að samstarf teljist til staðar. Við mat á því hvort samstarf sé til staðar mun Fjármálaeftirlitið líta til viðmiðunarreglna Evrópska bankaeftirlitsins varðandi virka eignarhluti.
    Skilgreining á hugtakinu „aðildarríki“ í 26. tölul. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 27. tölul. er lögð til breyting á því hvað teljist fjármálagerningur samkvæmt lögunum. Fjármálagerningur geti þannig m.a. verið fjármálagerningur eins og hann er skilgreindur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Samkvæmt skilgreiningu á fjármálagerningi skv. 50. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 er fjármálagerningur eins og hann er skilgreindur í tilskipun 2004/39/EB einungis ein tegund fjármálagernings samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Þar sem skilgreining reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 er víðtækari en núgildandi skilgreining laganna er lagt til að ráðherra fái heimild til þess að setja reglugerð um nánari skýringu hugtaksins með nýrri 2. mgr. 1. gr. a og vísast í athugasemdir við þá málsgrein til nánari skýringa.
    Lagt er til að hugtakið „stofnframlag“ (e. initial capital) verði skilgreint í 28. tölul. Hugtakið „stofnfé“ er notað í tvenns konar tilgangi í gildandi lögum skv. 1. mgr. 14. gr. þeirra. Með breytingunni er lagt til að hugtakið „stofnframlag“ verði notað í þeim tilfellum þegar kveðið er á um lágmarksfjárhæð og samsetningu þeirrar tegundar eigin fjár sem fjármálafyrirtæki skal ávallt hafa til þess að hljóta starfsleyfi. Ný skilgreining er lögð til m.a. með hliðsjón af breytingum sem lagðar eru til á 14. gr. laganna með frumvarpi þessu og er vísað í athugasemdir við 7. og 8. gr. frumvarpsins til frekari skýringa.
    Skilgreining í 29. tölul. á stórri áhættuskuldbindingu er efnislega óbreytt frá því sem nú er í 25. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga.
    Með 30. tölul. er lögð til breyting á skilgreiningu á hugtakinu „verðbréfun“ (e. securitisation). Breytingin er til komin vegna breyttrar orðanotkunar sem lögleidd var með lögum nr. 57/2015. Íslenska orðið „áhættuskuldbinding“ er nú notað yfir það sem kallað er „exposure“ í enskri útgáfu tilskipunar 2013/36/ESB og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Í skilgreiningunni er notast við nýyrðið „áhættulag“ til að ná yfir enska hugtakið „tranche“. Vöntun var á íslensku samheiti yfir enska hugtakið en merkingu nýyrðisins má ráða með tiltölulega einföldum hætti út frá þeim orðum sem það er samsett úr. Í gildandi lögum er einungis talað um að verðbréfun feli í sér að safn áhættuskuldbindinga sé „lagskipt“, en nýyrðið er nafnorð og sértækt heiti á þeim lögum (e. tranche) sem búin eru til með því að verðbréfa lánasöfn eða söfn áhættuskuldbindinga. Skilgreiningu á hugtakinu „áhættulag“ verður að finna í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a til að innleiða reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Sú skilgreining mun verða samhljóða skilgreiningu á hugtakinu „tranche“ í evrópsku reglugerðinni.
    Í 31. tölul. er lagt til að skilgreining á „verðbréfaðri stöðu“ (e. securitisation position) bætist við greinina. Skilgreiningin byggist á 62. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Engin efnisbreyting er lögð til á skilgreiningu á „endurverðbréfun“ (e. re-securitisation) frá því sem nú gildir skv. 12. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga. Sama á við um skilgreiningu á „endurverðbréfaðri stöðu“ eins og hugtakið er skilgreint í 13. tölul. 1. mgr. 1. gr. a gildandi laga.
    Í 34. tölul. er lagt til að skilgreining á „hæfu fjármagni“ (e. eligible capital) bætist við lögin. Skilgreiningin byggist á 71. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og tengist m.a. breytingum sem lagðar eru til á IX. og X. kafla laganna í frumvarpinu, auk breytinga á 28. gr. laganna, um eignarhluti í óskyldum rekstri, og 30. gr. laganna, um stórar áhættuskuldbindingar. Með hæfu fjármagni er átt við samtölu eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 1, skv. 84. gr. a og 84. gr. b, og eiginfjárgrunnsgerninga þáttar 2, skv. 84. gr. c, sem að hámarki má nema þriðjungi af eiginfjárgrunnsgerningum þáttar 1. Með þessu hugtaki er ramminn þrengdur varðandi það hversu mikið af eigin fé samkvæmt þætti 2 er heimilt að telja fram við útreikning á stórum áhættuskuldbindingum og hlutföllum vegna eignarhluta í óskyldum rekstri. Með hugtakinu eru einnig gerðar breytingar á því hvernig eiginfjárútreikningar verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða eru unnir, samanborið við sambærilega útreikninga lánastofnana. Að því er varðar hugtakið „eiginfjárgrunnsgerningar“ er vísað til almennra athugasemda í III. kafla en þar er hugtakið skýrt nánar.
    Lagt er til að í 35. tölul. verði skilgreint hvað felist í hugtakinu „stöður sem er haldið vegna veltuviðskipta“ (e. positions held with trading intent). Í a-lið er kveðið á um að stöður sem tengjast tiltekinni þjónustu fyrir viðskiptavin og viðskiptavakt séu stöður sem haldið er vegna veltuviðskipta. Með tiltekinni þjónustu er ekki átt við þjónustu í formi venjulegrar eignastýringar fyrir viðskiptavini. Skilgreiningin byggist á 85. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Í 36. tölul. er lagt til að hugtakið veltubók (e. trading book) verði skilgreint í lögunum. Skilgreiningin byggist á 86. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Lagt er til að hugtakið „óbeinn eignarhlutur“ (e. indirect holding) verði skilgreint í 37. tölul. Skilgreiningin byggist á 114. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Í 38. tölul. er lagt til að hugtakið „krosseignarhald“ (e. reciprocal cross holding) verði skilgreint. Skilgreiningin byggist á skilgreiningu sem er að finna í 122. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Að því er varðar hugtakið „eiginfjárgrunnsgerningar“, sem er að finna í umræddum hugtökum, er vísað til almennra athugasemda í III. kafla.
    Lagt er til að í 39. tölul. verði hugtakið „gervieignarhlutur“ (e. synthetic holding) skilgreint. Með „gervieignarhlut“ er átt við að virði fjármálagernings sem fjármálafyrirtæki hefur fjárfest í tengist með beinum hætti virði annars fjármálagernings sem útgefinn er af aðila á fjármálamarkaði. Skilgreiningin byggist á 126. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til þess að setja nánari ákvæði um skilgreiningu hugtakanna hópur tengdra viðskiptamanna, sbr. 24. tölul. 1. mgr., og fjármálagerningur, sbr. 27. tölul. 1. mgr. Ástæðan er sú að umræddum skilgreiningum eru af tæknilegum ástæðum gerð ítarlegri skil í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 samanborið við gildandi bankatilskipanir. Í Evrópureglugerðinni eru þær orðnar svo ítarlegar að ekki er sérstök þörf á að tíunda skilgreiningarnar í heilu lagi í lögum um fjármálafyrirtæki heldur verða þær settar fram í heilu lagi í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a og innleiðir reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Sambærilega heimild og hér er lagt til að bætist við lögin er að finna í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Um 2. gr.

    Með breytingu sem lögð er til í a-lið verða verðbréfamiðlanir eftirleiðis ekki sérstök tegund fjármálafyrirtækja heldur verðbréfafyrirtæki sem bera takmarkaðar starfsskyldur. Vísað er til athugasemda við 12. gr. frumvarpsins um nánari skýringar. Breyting sem lögð er til í b-lið felur í sér útfærslu sem helst í hendur við skilgreiningar á hugtökunum „fjármálastofnun“ og „aðilar á fjármálamarkaði“ sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins og byggjast á reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Með breytingunni verður skýrar kveðið á um það í lögunum hvaða starfsheimildir rekstrarfélaga verðbréfasjóða eru starfsleyfisskyldar. Varðandi nánari rökstuðning vísast til 6. gr. tilskipunar 2009/65/EB og 8. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Breytingin er lögð til vegna breytinga sem lagðar eru til á 1. gr. a og 18. gr. laganna í 1. og 4. gr. frumvarpsins. Vísað er til athugasemda við umræddar greinar um frekari skýringar.

Um 4. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við 7. gr. laganna, sem fjallar um synjun starfsleyfis, bætist ný málsgrein, en efnislega er um að ræða ákvæði sem nú er að finna í 18. gr. gildandi laga. Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á ákvæðinu, en vegna efnis þess er lagt til að ákvæðið verði hluti af 7. gr. laganna. Ákvæðið byggist á 3. mgr. 14. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 5. gr.

    Breyting sem lögð er til í a-lið er lögð til vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á 1. gr. a og 18. gr. laganna í 1. og 4. gr. frumvarpsins. Breytingar í b- og c-lið eru lagðar til vegna breytinga sem lagðar eru til á 84. gr. a – 84. gr. f laganna í 29.–34. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Verði frumvarpið að lögum verður ekki hægt að sækja um sérstakt starfsleyfi til að verða verðbréfamiðlun. Orðið er því fellt á brott úr 12. gr. laganna. Vísað er til athugasemda við 12. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 14. gr. laganna sem fjallar um hlutafé og stofnfé fjármálafyrirtækja. Með frumvarpinu er lagt til að efni í 14. gr. laganna verði skipt upp eftir tegundum fjármálafyrirtækja og tekur því 14. gr. eins og henni er breytt með frumvarpinu til lánastofnana en ný 14. gr. a sem lögð er til í 8. gr. frumvarpsins tekur til annarra tegunda fjármálafyrirtækja. Breytingarnar byggjast á 12. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    1. málsl. 1. mgr. er óbreyttur frá gildandi lögum. Hins vegar er lögð til breyting á orðalagi 2. málsl. frá gildandi lögum. Nýtt orðalag er í samræmi við 2. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 28. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en í báðum ákvæðunum kemur fram að stofnfé (e. initial capital) lánastofnana og verðbréfafyrirtækja skuli einungis samanstanda af einum eða fleiri af þeim eiginfjárliðum sem kveðið er á um í a–e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Um er að ræða sömu eiginfjárliði og teljast til almenns eigin fjár þáttar 1.
    Sú breyting er lögð til í 1. mgr. að í stað þess að vísa til hlutafjár eða stofnfjár tiltekinna tegunda fjármálafyrirtækja er kveðið á um stofnframlag lánastofnana. Breytingin er lögð til í samræmi við breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að hugtakið „lánastofnun“ verði nú sérstaklega skilgreint í orðskýringagrein laganna. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á 1. málsl. 2. mgr. greinarinnar frá gildandi lögum. Í 2. málsl. 2. mgr. 14. gr. gildandi laga er kveðið á um það að Fjármálaeftirlitið ákvarði um það í hverju tilviki hvað teljist afmarkað, staðbundið starfssvæði samkvæmt málsgreininni. Með 2. málsl. er hins vegar lagt til að betur verði skýrt í lögunum hvað teljist afmarkað og staðbundið starfssvæði en með því er átt við að sparisjóður sem hefur starfsleyfi skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. hafi ekki heimild til að stunda starfsemi erlendis, sbr. B-hluta V. kafla laganna.
    Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á 3.–6. mgr. frá gildandi lögum. Reglur sem settar hafa verið á grundvelli 12. mgr. 14. gr. laganna halda gildi sínu á grundvelli 6. mgr. greinarinnar.

Um 8. gr.

    Í 7. og 8. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 14. gr. laganna sem fjallar um hlutafé og stofnfé fjármálafyrirtækja. Breytingarnar sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins byggjast á 28. og 29. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Breytingarnar tengjast einnig breytingum sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins.
    1. málsl. 1. mgr. er óbreyttur frá gildandi 14. gr. laganna. Hins vegar er lögð til breyting á orðalagi 2. málsl. og er það í samræmi við 2. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 28. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en í báðum greinum tilskipunarinnar kemur fram að stofnfé (e. initial capital) lánastofnana og verðbréfafyrirtækja skuli einungis samanstanda af einum eða fleiri af þeim eiginfjárliðum sem kveðið er á um í a–e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Um er að ræða sömu eiginfjárliði og teljast til almenns eigin fjár þáttar1.
    Litlar efnislegar breytingar eru lagðar til á 3. og 5.–9. mgr. greinarinnar frá gildandi lögum, en þó er ákvæði um stofnfé verðbréfamiðlana fellt brott. 4. mgr. greinarinnar er ný og varðar sérstaka tegund verðbréfafyrirtækis, þ.e. staðbundin fyrirtæki. Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til skilgreining á staðbundnu fyrirtæki samkvæmt lögunum og vísast því í þá grein og athugasemdir við hana um nánari skýringar.

Um 9. gr.

    Núgildandi 18. gr. laganna fjallar um synjun á starfsleyfi við tiltekin skilyrði. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að núgildandi 18. gr. verði að 3. mgr. 7. gr. laganna þar sem 7. gr. laganna fjallar um synjun starfsleyfis. Vísað er í athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins um nánari skýringar. Með nýrri 18. gr. er lagt til að fjallað verði um skyldu fjármálafyrirtækis til að birta opinberlega upplýsingar um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Slík skylda leiðir af svonefndri stoð 3 (Pillar III) Basel II staðalsins, en hún gerir ráð fyrir því að sú upplýsingagjöf stuðli að markaðsaga hjá fjármálafyrirtækjum. Þau ákvæði sem koma munu fyrir í 18. gr. laganna koma nú þegar fyrir í 84. gr. gildandi laga, en með frumvarpinu eru lagðar til viðamiklar breytingar á 84. gr. laganna. Í gildandi fjármálalöggjöf er þriðja stoð Basel II staðalsins afmörkuð nánar í XII. viðauka við tilskipun 2006/48/EB og með reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Rétt þykir að halda upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja í sérákvæði í lögunum, og tekur staðsetning greinarinnar mið af öðrum skyldum þeirra með tilliti til áhættustýringar sem kveðið er á um í 17. gr. laganna. Við ákvæðið bætast einnig sértækar valdheimildir Fjármálaeftirlitsins með tilliti til upplýsingagjafar sem koma fram í 106. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Í þeim felst m.a. að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða tíðni upplýsingagjafar vegna stoðar 3, hvenær upplýsingarnar skulu birtar og að upplýsingarnar skal birta á sérstökum miðli, öðrum en ársreikningum fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitið getur einnig krafið móðurfélag fjármálafyrirtækis um að birta árlega lýsingu á uppbyggingu samstæðu fyrirtækisins og upplýsingar um stjórnarhætti og skipurit þess. Slíkar valdheimildir eru sértækar, þ.e. þær beinast einungis að upplýsingagjöf í tengslum við stoð 3 og koma til viðbótar við almennar valdheimildir Fjármálaeftirlitsins í tengslum við könnunar- og matsferli. Til almennra valdheimilda teljast m.a. heimildir sem snúa að upplýsingum og gagnsæi. Með hugtakinu „sérstökum miðli“ skv. 2. málsl. ákvæðisins er átt við varanlega gerð miðlunar sem tryggt getur að fjárfestar geta með nægilega skjótum hætti sótt sér allar þær upplýsingar sem skylt er að veita samkvæmt ákvæðinu. Slíkur miðill getur verið stafrænn (e. digital), rafrænn (e. electronic) eða hliðrænn (e. analog). Upplýsingarnar sem veittar eru með „sérstökum miðli“ þurfa ávallt að vera varanlegar og aðgengilegar. Í því felst að fjárfestar geti nálgast þær upplýsingar sem um ræðir hvenær sem er og að þeir geti rakið þær breytingar sem orðið hafa á þeim séu þær til að mynda birtar á stafrænu formi. Sérstök áberandi auglýsing í dagblaði getur talist vera birting í „sérstökum miðli“ og auglýsing í Lögbirtingablaði á þeim stað þar sem fjármálafyrirtæki hefur staðfestu getur einnig talist fullnægjandi birting samkvæmt ákvæðinu.

Um 10. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 20. gr. laganna sem hefur að geyma upptalningu á starfsheimildum viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja. Breytingarnar miða að því að færa hugtök í ákvæðinu til samræmis við hugtakanotkun í 20., 25. og 27. gr. laganna, en öll ákvæðin varða starfsheimildir ólíkra fjármálafyrirtækja, og við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Breytingarnar sem lagðar eru til á ákvæðum um starfsheimildir með frumvarpinu verða þannig í samræmi við hugtakanotkun þá sem notuð er um starfsemi sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

Um 11. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 25. gr. laganna en hún varðar starfsheimildir verðbréfafyrirtækja. Breyting í a-lið greinarinnar miðar að því að færa hugtakanotkun ákvæðisins til samræmis við lög um verðbréfaviðskipti. Lagðar eru til sambærilegar breytingar í öðrum ákvæðum frumvarpsins.
    Í b-lið greinarinnar er lögð til sú breyting að tiltekin verðbréfafyrirtæki beri takmarkaðar starfsskyldur. Til þess að teljast slíkt verðbréfafyrirtæki þarf fyrirtækið að uppfylla þrjú skilyrði: 1) það sinnir ekki vörslu fjármálagerninga, 2) það sinnir einungis einum eða fleiri af eftirtöldum þjónustuþáttum: móttöku og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum, framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina, eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf, og 3) það hefur ekki heimild til að varðveita reiðufé eða fjármálagerninga í eigu viðskiptavina og stofna þannig til skuldbindinga við viðskiptavini sína. Breyting sem lögð er til í b-lið greinarinnar byggist annars vegar á breyttri skilgreiningu á hugtakinu „fjárfestingarfyrirtæki“ (e. investment firm) í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 og hins vegar brottfalli 26. gr. laganna. Með breyttu hugtaki eru tiltekin verðbréfafyrirtæki, sem teljast til slíkra fyrirtækja á grundvelli MiFID-tilskipunarinnar, 2004/39/EB, undanþegin sumum af þeim varúðarkröfum sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 enda teljast þau í raun ekki til þeirra fyrirtækja sem reglugerðin nær til. Fyrirtækin eru undanþegin gildissviði reglugerðarinnar og bera því ekki sömu skyldur og önnur verðbréfafyrirtæki. Í nýrri 4. mgr. greinarinnar eru tilgreindar þær skyldur sem slík verðbréfafyrirtæki eru undanþegin, en þar á meðal eru ákvæði um stórar áhættuskuldbindingar, lausafjárkröfur, vogunarhlutfall og takmarkanir á kaupaukum. Verðbréfafyrirtæki sem ber takmarkaðar starfsskyldur samkvæmt lögunum skal þó uppfylla eiginfjárkröfur í samræmi við X. kafla laganna, meta eiginfjárþörf í samræmi við 1. mgr. 80. laganna og stýra áhættu í starfseminni í samræmi við 17. gr. og IX. kafla laganna. Þá skyldu leiðir af 95. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Stjórnendur slíks fyrirtækis þurfa einnig að uppfylla hæfiskröfur laganna.
    Teljist verðbréfafyrirtæki vera staðbundið fyrirtæki er það undanþegið sömu skyldum og kröfum og verðbréfafyrirtæki sem ber takmarkaðar starfsskyldur en að auki er því ekki skylt að reikna út eiginfjárkröfur í samræmi við IX. og X. kafla laganna. Vísað er til umfjöllunar um staðbundin fyrirtæki í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins um nánari skýringar.
    Nýja 6. mgr. greinarinnar er að finna í 3. mgr. 26. gr. gildandi laga. Reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli greinarinnar gildir því áfram með lagastoð í nýrri málsgrein.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagt til að 26. gr. laganna, sem varðar starfsheimildir verðbréfamiðlunar, verði felld brott. Verði frumvarpið að lögum verður ekki hægt að sækja um sérstakt starfsleyfi sem verðbréfamiðlun. Vísað er til umfjöllunar í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins, en breytingin sem þar er lögð til byggist á breyttri skilgreiningu á hugtakinu „fjárfestingarfyrirtæki“ (e. investment firm) með reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Breytt skilgreining tekur ekki mið af því að til séu sérstakar tegundir fjármálafyrirtækja sem beri heitið „verðbréfamiðlun“ og hafi takmarkaðri starfsskyldur en verðbréfafyrirtæki. Þess í stað heyrir starfsemi þeirra sjálfkrafa til verðbréfafyrirtækja, og slík fyrirtæki þurfa því eftirleiðis að auðkenna sig sem slík. Reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli 26. gr., þ.e. reglugerð nr. 320/2013, um ábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana, gildir áfram að breyttu breytanda um verðbréfafyrirtæki sem bera takmarkaðar starfsskyldur og hefur reglugerðin lagastoð á grundvelli 6. mgr. 25. gr. laganna verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Í 42. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að þau fyrirtæki sem nú hafa starfsleyfi sem verðbréfamiðlanir á grundvelli laganna skuli hljóta starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki með sömu starfsheimildir og fyrirtækið hefur í dag.

Um 13. gr.

    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar á 27. gr. laganna varðandi starfsheimildir rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Markmið breytinganna er að skýra betur hvaða starfsheimildir rekstrarfélög hafa samkvæmt lögunum. Jafnframt er vísað í athugasemdir við 11. og 12. gr. frumvarpsins. Tilgangur breytingarinnar er einnig að skerpa á því að ekki er hægt að fá leyfi til að stunda fjárfestingarráðgjöf skv. 2. tölul. eða vörslu skv. 3. tölul. 1. mgr. án þess að hafa leyfi til eignastýringar skv. 1. tölul. 1. mgr. Breytingin sem lögð er til er í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2009/65/EB. Einnig er lögð til sú breyting að rekstrarfélögum verði óheimilt að stýra starfsemi útgefanda verðbréfa með því að nýta sér sameiginlegan atkvæðisrétt í nokkrum sjóðum samtímis. Með orðunum „veruleg áhrif“ í nýrri 3. mgr. greinarinnar er átt við að rekstrarfélagi verðbréfasjóða er óheimilt að nýta sameiginlegan atkvæðisrétt í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem það stýrir þannig að útgefandi verðbréfa, sem sjóðir í stýringu rekstrarfélags fjárfesta í, verði í reynd hlutdeildarfélag eða dótturfélag rekstrarfélagsins. Breytingin er í samræmi við 56. gr. tilskipunar 2009/65/EB. Með greininni er lagt til að núgildandi 3. mgr. greinarinnar verði felld á brott og felur sú breyting í sér að rekstrarfélög verðbréfasjóða mega nú eiga dótturfélög, þ.e. með beinum hætti, en ekki með samhæfðri stýringu þeirra sjóða sem þau reka. Lögð er til breyting á 110. gr. laganna með 39. gr. frumvarpsins til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í þessari grein.

Um 14. gr.

    Breytingarnar sem lagðar eru til í greininni leiðir flestar af þeirri breyttu hugtakanotkun sem lögð er til í frumvarpinu. Auk þess er lagt til að greinin verði færð til samræmis við ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um sama efni. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins og ákvæða 89.–91. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 um nánari skýringar.
    Breytingar sem lagðar eru til á 1.–3. mgr. varða í fyrsta lagi það að hugtakið „hæft fjármagn“ komi fyrir á þeim stöðum í greininni þar sem áður var vísað til eiginfjárgrunns, og er sú breyting lögð til í samræmi við þá breyttu hugtakanotkun sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins. Sambærilegar breytingar eru lagðar til vegna fleiri ákvæða í lögunum. Í öðru lagi er orðalag ákvæðisins fært til samræmis við 89. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Vegna þessarar samræmingar er lagt til að hugtakið „aðili á fjármálamarkaði“ komi fyrir í 1. mgr. greinarinnar, en slík breyting felur í sér víðtækari útlistun á því hvaða eignarhluta líta skal til við mat á því hvort eignarhlutir í óskyldum rekstri fari yfir tilskilin hámörk. Fáar aðrar efnislegar breytingar eru lagðar til á greininni að því undanskildu að orðalag þeirra ákvæða sem ekki eru í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 575/2013 er fellt brott til að koma í veg fyrir að misræmi myndist á milli laganna og reglugerðarinnar. Þar sem reglugerð (ESB) nr. 575/2013 tekur með ítarlegri hætti á því efni sem kemur fram í greininni er vísað til reglugerðarinnar um nánari útlistun en reglugerðin verður innleidd í íslenskan rétt á grundvelli 117. gr. a laganna.

Um 15. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í greininni leiðir allar af þeirri breyttu hugtakanotkun sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins, m.a. nýrri skilgreiningu á nánum tengslum. Með hugtakinu „nánum fjölskyldumeðlimum“ (e. close family members) í greininni er m.a. átt við maka aðila eða sambúðarmaka hans, börn aðila, börn maka eða sambúðarmaka og aðila sem eru fjárhagslega háðir aðila (e. dependant) eða telja má að þeir verði fyrir áhrifum (e. influenced) af ákvörðun hans. Hugtakið ber ekki að túlka þröngt en hafa skal hliðsjón af lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 24. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins um nánari skýringar.
    Í f-lið er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í henni.

Um 16. gr.

    29. gr. b laganna fjallar um færslu á útlánaáhættu vegna verðbréfunar. Breytingin sem lögð er til á greininni byggist á reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Ekki er um efnisbreytingu að ræða en lagt er til að kveðið verði á um þær nánari kröfur sem gera skal til verðbréfunar í reglugerð sem ráðherra setur í stað þess að Fjármálaeftirlitið setji reglur á grundvelli ákvæðisins. Til frekari skýringa er vísað til breytinga sem lagðar eru til í 17. og 18. gr. frumvarpsins og athugasemda við þær.

Um 17. gr.

    Samkvæmt gildandi 29. gr. d laganna skal Fjármálaeftirlitið setja reglur um verðbréfun og er kveðið á um innihald reglnanna í greininni. Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar sett umræddar reglur eða nánar til tekið reglur nr. 712/2014, um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar. Með breytingu sem lögð er til í greininni skal ráðherra setja reglugerð um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar og er í ákvæðinu gerð nánari grein fyrir því hvað reglugerðin skal innihalda. Breytingin byggist á reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Reglur nr. 712/2014, um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar, skulu halda gildi sínu á grundvelli 29. gr. d þangað til þær eru annaðhvort felldar úr gildi eða ráðherra setur reglugerð á grundvelli 29. gr. d.

Um 18. gr.

    Breytingarnar eru lagðar til vegna breytinga sem lagðar eru til á 29. gr. b og 29. gr. d laganna skv. 16.–17. gr. frumvarpsins. Vísað er til athugasemda við umræddar greinar.

Um 19. gr.

    Í greininni er lagt til að hugtakið „hæft fjármagn“ komi í stað orðsins „eiginfjárgrunnur“ vegna breyttrar hugtakanotkunar á lögunum sem lögð er til í frumvarpinu. Þá er lögð til sú breyting að í stað þess að Fjármálaeftirlitið setji reglur samkvæmt greininni skuli ráðherra setja reglugerð. Lagt er til að nýr málsliður bætist við 7. mgr. greinarinnar en tilgangur hans er að afmarka betur hvaða efni skuli kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli greinarinnar en reglugerðin skal taka mið af því sem kveðið er á um varðandi stórar áhættuskuldbindingar í reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Til að mynda er í ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 skilgreint nánar hvernig taka skuli áhættuskuldbindingar vegna skuggabankastarfsemi með í útreikningi vegna stórra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækis. Breytt 7. mgr. ákvæðisins veitir einnig ráðherra heimild til þess að kveða í reglugerð á um tæknileg atriði úr þeim viðmiðunarreglum (e. guidelines) sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur birt og varða stórar áhættuskuldbindingar. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringar.

Um 20. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 429. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og tekur einnig mið af reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/62 sem nær til útreiknings á vogunarhlutfalli. Ný regla um vogunarhlutfall felur í sér kröfur varðandi skuldsetningu fjármálafyrirtækja sem eru hluti af alþjóðlega Basel III staðlinum. Vogunarhlutfallið er hugsað sem viðbótarvörn (e. back-stop) við áhættumiðaðar eiginfjárkröfur samkvæmt Basel II staðlinum til að takmarka óhóflega vogun. Hlutfallið byggist á einföldum og gagnsæjum mælikvarða við mat á skuldsetningu fjármálafyrirtækja og er því ekki tekið tillit til áhættuvoga við útreikning á því. Í Basel III staðlinum er vogunarhlutfallið reiknað sem viðeigandi eigið fé (e. capital measure) deilt með viðeigandi áhættuskuldbindingum (e. exposure measure).
    Við útfærslu á vogunarhlutfallinu í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 er hlutfallið afmarkað sem eigið fé þáttar 1 (e. Tier 1 capital) deilt með heildaráhættuskuldbindingum (e. total exposure). Almennar kröfur um vogunarhlutfall koma fyrir í umræddri reglugerð. Við útreikning á heildaráhættuskuldbindingum, sbr. 1. málsl. ákvæðisins, eru eftirfarandi liðir lagðir saman, að teknu tilliti til breytistuðla: i) áhættuskuldbindingar á efnahagsreikningi, ii) afleiðusamningar, iii) viðskipti vegna fjármögnunar verðbréfa (e. Securities Financing Transactions (SFT)) og iv) liðir utan efnahags. Nánari ákvæði um útreikning einstakra liða heildaráhættuskuldbindinga koma fyrir í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/62 sem innleidd verður með reglum sem Fjármálaeftirlitið mun setja á grundvelli heimildar í nýrri 117. gr. c laganna. Verði frumvarpið að lögum ber fjármálafyrirtækjum vegna upplýsingaskyldu laganna að birta gildi vogunarhlutfalls opinberlega. Nánari kröfur um slíka birtingu koma fyrir í tæknilegum framkvæmdarstöðlum sem gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið taki upp í reglur sínar sem settar eru á grundvelli 117. gr. b laganna.

Um 21. gr.

    Breytingin er lögð til í samræmi við breytta skilgreiningu á hugtakinu „útibú“ sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins.

Um 22. gr.

    Breytingin er lögð til í samræmi við breytta hugtakanotkun sem lögð er til í frumvarpinu. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins um frekari skýringar.

Um 23. gr.

    Breytingin er lögð til vegna breyttrar hugtakanotkunar sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins og breytinga sem lagðar eru til í 15. gr. frumvarpsins varðandi lánveitingar og vísast þangað til frekari skýringa.

Um 24. gr.

    Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/2015 var lagt til að í stað hugtaksins „kaupaukar“ kæmi hugtakið „breytileg starfskjör“. Fallið var frá breytingunni við afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi. Með hliðsjón af gildandi lögum á því hugtakið „kaupaukar“ að koma fram í greininni og er breytingin því lögð til.

Um 25. gr.

     Um a-lið (80. gr.).
    1. mgr. byggist á 73. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Með málsgreininni er sú skylda lögð á stjórn og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis að meta eiginfjárþörf þess út frá áhættustigi í gegnum svonefnt innramatsferli (e. Internal capital adequacy assessment process – ICAAP). Við lok ferlisins skilar fjármálafyrirtæki skýrslu um mat á eiginfjárþörf til Fjármálaeftirlitsins. Orðalag málsgreinarinnar byggist á 1. mgr. 84. gr. gildandi laga, en í 27. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 84. gr. laganna. Þær breytingar felast í nánari skilgreiningum á þeim þáttum eiginfjárþarfar sem fjármálafyrirtæki metur í eigin starfsemi. Í 1. mgr. greinarinnar eru lagðar til breytingar á þann veg að fjármálafyrirtæki er ekki einungis ætlað að meta áhættuþætti sem það stendur frammi fyrir þegar ICAAP-ferlið stendur yfir, heldur ber því einnig að líta til þess hvaða áhætta getur hlotist af starfsemi þess.
    Í 2.–5. mgr. er að finna nýmæli er varða skyldur Fjármálaeftirlitsins vegna könnunar- og matsferlis (e. Supervisory review and evaluation process – SREP) og byggjast á 97. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Í 2. mgr. er sú skylda lögð á Fjármálaeftirlitið að kanna og meta fyrirkomulag og aðferðir fjármálafyrirtækja við að mæta áhættu í eigin starfsemi. Í ákvæðinu er kveðið á um þá þætti sem Fjármálaeftirlitinu ber að líta til við matið.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þær skyldur og kröfur sem Fjármálaeftirlitinu ber að hlíta við framkvæmd könnunar og mats, en stofnuninni ber að kanna hvort fjármálafyrirtæki uppfylli allar skyldur og kröfur samkvæmt lögunum og þeim stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru með stoð í þeim. Í framkvæmd styðst Fjármálaeftirlitið einnig við viðmiðunarreglur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (e. European Banking Authority – EBA), líkt og önnur eftirlitsstjórnvöld í Evrópu. 3. mgr. tekur einnig til þess hvers konar áhættu Fjármálaeftirlitinu ber sérstaklega að líta til þegar kemur að endurmati á fyrirkomulagi og aðferðum fjármálafyrirtækja við að mæta áhættu í starfsemi sinni. Fram kemur að Fjármálaeftirlitið skuli leggja áherslu á þá áhættu sem fjármálafyrirtæki stendur frammi fyrir eða gæti staðið frammi fyrir, áhættu í fjármálakerfinu sem rekja má til fjármálafyrirtækisins og áhættu sem leidd er í ljós með álagsprófum fjármálafyrirtækja eða álagsprófum Fjármálaeftirlitsins. Við mat á því hvaða áhætta er til staðar í fjármálakerfinu, sem rekja má til fjármálafyrirtækis, kann Fjármálaeftirlitið að þurfa að hafa hliðsjón af tilmælum fjármálastöðugleikaráðs varðandi kerfisáhættu, sé þeim til að dreifa. Jafnframt er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið líti til þess hvort Evrópska kerfisáhætturáðið (e. European Systemic Risk Board – ESRB) hafi gefið út tilmæli (e. recommendation) um áhættu eða áhættuþætti sem fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu beri í lok könnunar- og matsferlis að ákvarða hvort fyrirkomulag, aðferðir og ráðstafanir, með hliðsjón af innri ferlum fjármálafyrirtækja og því hvernig fjármálafyrirtækið hlítir eigin innri ferlum, séu nægjanlega haldbærar fyrir rekstur fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt ákvarða hvort stýring fjármálafyrirtækisins sé nægjanlega traust og hvort eiginfjárgrunnur og lausafjárstýring þess sé fullnægjandi og mæti þannig þeirri áhættu sem fjármálafyrirtækið stendur frammi fyrir eða getur, eftir atvikum, myndað fyrir raunhagkerfið. 4. mgr. tekur einnig til þess samstarfs sem ríkir á milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands við mat á lausafjáráhættu og lausafjárstýringu fjármálafyrirtækja.
    5. mgr. kveður á um að Fjármálaeftirlitið ákveði sjálft hvert umfang könnunar- og matsferlisins skuli vera og hversu oft slíkt mat fari fram. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal m.a. tekin með hliðsjón af því hversu stórt fjármálafyrirtækið er, svo sem með hliðsjón af efnahagsreikningi þess, en einnig skal líta til kerfislegs mikilvægis þess, eðlis og umfangs. Að lokum skal líta til þess hversu margþætt starfsemin er, þ.e. hversu flókin hún er. Við slíkt mat skyldi a.m.k. litið til þess hvort fjármálafyrirtækið er hluti samstæðu, hvort það starfar yfir landamæri og hversu flókið viðskiptalíkan þess er, svo sem með tilliti til þess hvernig það aflar sér tekna. Mat Fjármálaeftirlitsins á umfangi könnunar- og matsferlis skal uppfært a.m.k. árlega hjá mikilvægum fjármálafyrirtækjum, sbr. nýja 2. mgr. 82. gr., sbr. c-lið 25. gr. frumvarpsins.
    6. mgr. ákvæðisins byggist á 100. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Fram kemur í ákvæðinu að Fjármálaeftirlitið skuli framkvæma álagspróf á fjármálafyrirtækjum vegna könnunar- og matsferlis, a.m.k. einu sinni á ári. Skýrt er samkvæmt ákvæðinu að Fjármálaeftirlitið ber ábyrgð á því að slík álagspróf eru framkvæmd, en skýra ber ákvæðið rúmt. Þannig er stofnuninni heimilt að nýta álagspróf sem eru framkvæmd í samstarfi við önnur eftirlitsstjórnvöld, t.d. Seðlabanka Íslands, til að uppfylla skyldur ákvæðisins. Að sama skapi væri skylda samkvæmt ákvæðinu uppfyllt ef Fjármálaeftirlitið sæi til þess að fjármálafyrirtæki framkvæmdu álagspróf eftir forskrift eftirlitsins. Við túlkun ákvæðisins skal höfð hliðsjón af því að Fjármálaeftirlitinu ber skv. 5. mgr. greinarinnar að ákveða tíðni og umfang könnunar- og matsferlis fjármálafyrirtækja. Í tilvikum einhverra fjármálafyrirtækja má ætla að ekki reynist nauðsynlegt að fram fari könnunar- og matsferli árlega. Hugsanlega kann þó að vera eðlilegt að slík fjármálafyrirtæki skili niðurstöðum úr álagsprófum árlega, en slíkt mat byggist á stærð fjármálafyrirtækis, kerfislægu mikilvægi þess, eðli og umfangi. Við framkvæmd álagsprófa er eðlilegt að Fjármálaeftirlitið líti til álagsprófa Seðlabanka Íslands og þeirra viðmiða sem gilda um efnið á evrópskum fjármálamarkaði, svo sem viðmiðunarreglna Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.
     Um b-lið (81. gr.).
    Greinin byggist á 98. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og afmarkar til hvaða áhættuþátta Fjármálaeftirlitinu ber að líta vegna könnunar- og matsferlis, til hliðar við það mat sem fara þarf fram vegna útlánaáhættu, markaðsáhættu og rekstraráhættu. Í a-lið 1. mgr. er kveðið á um að líta beri til niðurstöðu álagsprófa þeirra fjármálafyrirtækja sem beita innramatsaðferð við mat á útlánaáhættu, nánar tiltekið ber að líta til 177. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 sem innleidd verður hér á landi með reglugerð sem sett verður á grundvelli 117. gr. a. Skv. b-lið 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið kanna samþjöppunaráhættu og fylgni fjármálafyrirtækja við ákvæði laganna og stjórnvaldsfyrirmæla sem varða stórar áhættuskuldbindingar. Jafnframt skal kanna hvernig eftirstæð áhætta er meðhöndluð, hvernig áhættu vegna verðbréfaðra gerninga er mætt, hvernig lausafjárstýring fer fram og hvernig lausafjáráhætta er mæld og meðhöndluð, hvernig áhættudreifing er metin, hvernig viðskiptalíkan fjármálafyrirtækis er uppbyggt og hvernig kerfisáhætta er metin. Auk þessara áhættuþátta skal Fjármálaeftirlitið kanna þau atriði sem koma fram í 2.–7. mgr. greinarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um mat á lausafjáráhættu fjármálafyrirtækis vegna könnunar- og matsferlis og að við matið skuli Fjármálaeftirlitið líta til mikilvægis fjármálafyrirtækisins á fjármálamarkaði. Með „mikilvægi“ er í þessu samhengi átt við þá stöðu eða hlutverk sem fjármálafyrirtæki skipar á fjármálamarkaðnum, þ.e. að við mat á áhættunni sé tekið mið af áhættunni sem felst í starfsemi viðkomandi fyrirtækis, svo og þeirri áhættu sem stafar af því.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið meti hvort fjármálafyrirtæki hafi veitt óbeinan stuðning við verðbréfanir og þar með vanrækt að meta yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar. Við mat á því hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt ber að líta til skilgreininga laga þessara og reglugerðar sem sett verður á grundvelli 117. gr. a laganna. Óbeinn stuðningur getur til að mynda falist í fjárfestingum í félögum tengdum þeim sem fjárfesta í verðbréfuðum gerningum eða með lánveitingum til félaga sem hafa náin tengsl við félög sem fjárfesta í verðbréfuðum gerningum.
    Í 4. mgr. er fjallað um mat á stöðum í veltubók fjármálafyrirtækja, þ.e. hvort breytingar á virðismati (e. valuation adjustments) á stöðum eða eignasöfnum í veltubókinni geri fjármálafyrirtæki kleift að selja eða verja eignir á skömmum tíma án þess að verða fyrir umtalsverðu tapi. Í þessu felst að Fjármálaeftirlitinu ber að meta hvort þær eignir sem eru í veltubók fjármálafyrirtækis séu seljanlegar (e. liquid) en einnig hvort varfærnisráðstafanir sem fjármálafyrirtækinu ber að grípa til á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 hafi áhrif á getu þess til að selja eða loka þessum stöðum, þ.e. verja þær, á skömmum tíma án þess að verða fyrir verulegu fjártjóni við eðlilegar markaðsaðstæður.
    Í 5. mgr. er fjallað um fastvaxtaáhættu og mat Fjármálaeftirlitsins á henni. Fram kemur að grípa skuli til ráðstafana ef skyndileg breyting á vöxtum, sem nemur 200 punktum, eða önnur sambærileg breyting getur haft þau áhrif að hagrænt virði (e. economic value) fyrirtækisins rýrnar um fjárhæð sem er hærri en 20% af eiginfjárgrunni þess. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur um það hvers konar öðrum sambærilegum breytingum geti verið til að dreifa þegar hagrænt virði fyrirtækisins rýrnar um fjárhæð sem er hærri en 20% af eiginfjárgrunni þess. Við mat Fjármálaeftirlitsins á því hvort reyni á skilyrði ákvæðisins er eðlilegt að stofnunin líti til umræddra viðmiðunarreglna.
    Skv. 6. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu að meta áhættu vegna óhóflegrar vogunar fjármálafyrirtækis. Óhófleg vogun fjármálafyrirtækja hefur þegar verið skilgreind í lögunum, sbr. 78. gr. i, en fram kemur í ákvæðinu að Fjármálaeftirlitið skuli einnig hafa hliðsjón af vogunarhlutfalli fjármálafyrirtækis, sbr. 30. gr. a laganna ef frumvarpið verður óbreytt að lögum. Í ákvæðinu felst jafnframt að mat á vogun og vogunarhlutfalli fjármálafyrirtækis sé unnið með hliðsjón af viðskiptalíkani fjármálafyrirtækisins. Í því felst m.a. að stofnunin taki tillit til þess að starfsemi þeirra fjármálafyrirtækja sem heyra undir lögin geti byggst á ólíkum forsendum og að það hvað telst til óhóflegrar vogunar beri að skoða í því ljósi.
    Skv. 7. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu að meta stjórnarhætti fjármálafyrirtækja í könnunar- og matsferli. Í ákvæðinu kemur m.a. fram að stofnuninni beri að kanna þá fyrirtækjamenningu sem er til staðar innan fyrirtækisins og þau gildi sem fyrirtækið aðhyllist, svo og hæfni stjórnarmanna til að sinna sínum skyldum. Slíkt mat Fjármálaeftirlitsins ætti ætíð að byggjast á viðeigandi gögnum og upplýsingum, til að mynda þeim sem talin eru upp í ákvæðinu, þ.e. fundargerðum, fundardagskrám og öðrum fundargögnum stjórnar og undirnefnda. Til slíkra gagna gætu einnig talist niðurstöður úr ytra mati á stjórn og stjórnendum fjármálafyrirtækis. Enn fremur ætti Fjármálaeftirlitið að líta til niðurstaðna úr frammistöðumati stjórnar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur um stjórnarhætti og gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið líti til þeirra við mat skv. 6. mgr.
     Um c-lið (82. gr.).
    Greinin byggist á 99. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Með greininni er lögð sú skylda á Fjármálaeftirlitið að það geri árlega áætlun um það hvernig það hyggst hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Í áætluninni skal að lágmarki kveðið á um það hvernig stofnunin hyggst nýta tilföng (e. resources), þ.e. mannafla, fjármuni, gögn og upplýsingatæknikerfi, til að framfylgja þeim verkefnum sem stofnuninni er lögum samkvæmt falið að sinna. Í eftirlitsáætlun skal sérstaklega kveðið á um eftirlit og ráðstafanir vegna þeirra fyrirtækja sem fjallað er um í 2. mgr. greinarinnar, þ.e. fyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið telur að hafa þurfi aukið eftirlit með, svo sem með fastri viðveru á starfsstöð þess eða með tíðum vettvangsathugunum, sbr. 3. mgr. Jafnframt skal eftirlitsáætlun ná til vettvangsathugana sem framkvæmdar skulu í starfsstöðvum fjármálafyrirtækis, hvort sem er í útibúum eða dótturfélögum innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Samkvæmt 2. mgr. skal eftirlitsáætlun ætíð ná til fjármálafyrirtækja ef könnunar- og matsferli eða álagspróf gefa til kynna að veruleg áhætta felist í starfsemi þeirra með þeim hætti að það ógni fjárhagsstöðu þeirra, fjármálafyrirtækja sem valda eða fela í sér kerfisáhættu eða fjármálafyrirtækja sem brjóta gegn eða uppfylla ekki skilyrði laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim. Enn fremur skal áætlunin ná til fyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að undirgangist árlega skoðun. Með hliðsjón af því mati skal stofnunin meta hvort starfsemi fjármálafyrirtækja uppfylli a- og b-lið 2. mgr. greinarinnar, en hafi engu síður í för með sér áhættu sem nauðsynlegt er að skoða árlega.
    3. mgr. tilgreinir, en þó ekki tæmandi, með hvaða hætti Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til ráðstafana til að fylgja eftir niðurstöðum könnunar- og matsferlis. Í því felst til að mynda að afla betri upplýsinga um þá áhættuþætti sem steðja að fjármálafyrirtækinu, eða sem stafa af því, fara oftar í vettvangsathuganir eða koma á fót fastri viðveru á starfsstöðvum þess.

Um 26. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að við 83. gr. laganna bætist ný málsgrein sem afmarkar til hvaða viðmiða Fjármálaeftirlitinu ber að líta, til að ákvarða hvort fjármálafyrirtæki uppfylli lausafjárskyldur sem kveðið er á um í lögunum vegna mögulegrar starfsleyfissviptingar á grundvelli þeirra. Eftirlit með lausafjáráhættu er tvískipt hér á landi, þ.e. Seðlabanki Íslands setur reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana og stöðuga fjármögnun þeirra og hefur eftirlit með þeim þáttum en eftirlit með lausu fé annarra fjármálafyrirtækja er í höndum Fjármálaeftirlitsins. Ekki er ætlunin að raska því fyrirkomulagi með breytingunni. Með ákvæðinu er lögð sú skylda á Fjármálaeftirlitið að líta til reglna Seðlabanka Íslands við mat á því hvort lánastofnanir uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Yrði niðurstaðan sú að lánastofnanir uppfylltu ekki reglur Seðlabankans eða ekki væri hægt að reiða sig á að lánastofnanir gætu uppfyllt skyldur sínar gagnvart lánardrottnum, sérstaklega ef öryggi innstæðna væri stefnt í hættu, gæti það orðið grundvöllur að starfsleyfissviptingu á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Í ljósi samvinnu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins við eftirlit með lausafjármálum, sbr. 2. mgr. 79. gr. laganna, ber Seðlabankanum að láta Fjármálaeftirlitið tafarlaust vita ef lánastofnanir uppfylla ekki reglur Seðlabankans. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um stjórnvaldsfyrirmæli og viðmið „annarra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði“. Ákvæðið er orðað með þessum hætti vegna væntanlegra breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki vegna innleiðingar á tilskipun um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja, tilskipun 2014/59/ESB (BRRD). Eftir að sú tilskipun hefur verið innleidd hér á landi mun sérstakt eftirlitsstjórnvald sjá um skilameðferð fjármálafyrirtækja.

Um 27. gr.

    Greinin byggist á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 og þeim almennu kröfum sem gerðar eru til eiginfjárgrunns fjármálafyrirtækja. Með greininni eru tilgreind þau hlutföll ólíkra eiginfjárþátta sem fjármálafyrirtæki skulu að lágmarki uppfylla til að mæta kröfum Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárgrunn. Einnig er í greininni að finna nánari útlistanir á kröfum með tilliti til samstæðu fjármálafyrirtækis og hlutdeildar þess í dótturfyrirtækjum.
    1. mgr. er samhljóða 92. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með ákvæðinu er kveðið á um að almennt eigið fé þáttar 1, eins og það er afmarkað í 84. gr. a, skuli að lágmarki nema 4,5% af áhættugrunni og að eiginfjárgrunnur skuli í heild nema 8% af áhættugrunni. Þessar kröfur taka þó ekki mið af þeirri viðbótarkröfu sem Fjármálaeftirlitið kann að gera, eða þeim eiginfjáraukum sem fjármálafyrirtækjum ber að viðhalda skv. 86. gr. a – 86. gr. e laganna verði frumvarpið samþykkt óbreytt.
    2. mgr. er samhljóða 73. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með ákvæðinu eru sérstaklega tilgreind skilyrði sem eiginfjárgrunnsgerningar verða að uppfylla og áréttað að Fjármálaeftirlitið verður að samþykkja aðra gerninga en þá sem uppfylla skilyrði 84. gr. a – 84. gr. c.
    3. mgr. er samhljóða 77. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Með ákvæðinu er sú regla lögfest að Fjármálaeftirlitið þarf fyrir fram að samþykkja að þær aðgerðir sem taldar eru upp í ákvæðinu séu framkvæmdar.
    4. mgr. er samhljóða 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Samkvæmt ákvæðinu getur Fjármálaeftirlitið veitt fjármálafyrirtæki heimild til að telja hagnað samkvæmt ósamþykktu, en könnuðu, ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri til þáttar 1. Með orðalaginu er átt við uppgjör sem ekki hefur verið samþykkt á hluthafafundi en endurskoðandi hefur áritað sem kannað. Sambærilegt orðalag er í gildandi lögum, en við túlkun á hugtakinu er eðlilegt að litið sé til viðeigandi lögskýringargagna sem varða 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, svo sem tæknilegra eftirlitsstaðla um eiginfjárkröfur og, eftir atvikum, ákvarðana eða tilmæla viðeigandi stofnana á evrópskum fjármálamarkaði.
    Með 5. mgr. er afmarkað að taka skuli tillit til hlutdeildar minni hluta í almennu eigin fé þáttar 1, viðbótar eigin fé þáttar 1 eða í þætti 2 hjá dótturfélögum. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 5. mgr. 84. gr. gildandi laga, en breytingar hafa verið gerðar á hugtakanotkun til að færa orðalag til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins sem varða eigið fé fjármálafyrirtækja. Hugtakanotkun ákvæðisins er einnig samhljóða meginreglum skv. 81.–89. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, en sérreglur ákvæðanna munu koma fram í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a laganna. Gerð verður nánari grein fyrir útreikningi á hlutdeild minni hluta í eigin fé dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum í sömu reglugerð. Í reglugerð ráðherra verður einnig hugað að sérreglum 479. og 480. gr. reglugerða (ESB) nr. 575/2013 með tilliti til ólíkra útreikninga vegna almenns eigin fjár þáttar 1 samanborið við viðbótar eigið fé þáttar 1 og þátt 2.
    6. mgr. byggist á 3. mgr. 84. gr. gildandi laga og leggur þá skyldu á Fjármálaeftirlitið að setja reglur um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Fjármálaeftirlitið hefur með reglum nr. 165/2014, sem settar hafa verið á grundvelli 84. gr. gildandi laga, innleitt ýmis efnisákvæði tilskipunar 2002/87/EB um sama efni. Frumvarpið breytir ekki regluheimild samkvæmt gildandi lögum og skulu gildandi reglur hafa lagastoð á grundvelli nýs ákvæðis.

Um 28. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sem varða lögbundið eigið fé og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Ákvæðin varða mismunandi fjármálafyrirtæki og eru kröfur til eigin fjár þeirra ólíkar eftir tegundum fjármálafyrirtækja. Þannig eru gerðar kröfur til lánastofnana og sumra verðbréfafyrirtækja um að eiginfjárgrunnur og ólíkir þættir hans uppfylli skilyrði laganna. Þá eru gerðar kröfur til verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélaga verðbréfasjóða um að hæft fjármagn þeirra uppfylli skilyrði laganna. Útreikningur á áhættugrunni fjármálafyrirtækja er að sama skapi útfærður með ólíkum hætti eftir mismunandi tegundum fjármálafyrirtækja. Ákvæðið byggist að hluta til á þeim grunni sem nú er í 84. gr. gildandi laga, en ákvæðin um eiginfjárgrunn, þ.e. nýjar 84. gr. a – 84. gr. c, eru ítarlegri en gildandi lagaákvæði. Í greinunum er einnig vikið frá þeirri hugtakanotkun sem ríkt hefur varðandi þá eiginfjárþætti sem mynda eiginfjárgrunn. Þannig er ekki lengur talað um eiginfjárþátt A eða eiginfjárþátt B, heldur einungis þátt 1 og þátt 2. Er slíkt í samræmi við þróun á löggjöf Norðurlanda og samræmist betur texta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Sú breyting er einnig í takt við alþjóðlega Basel III staðalinn sem lögfestur er hér á landi í gegnum CRD IV/CRR regluverkið. Þau skilyrði og kröfur sem eiginfjárgrunnsgerningar þurfa að uppfylla samkvæmt Basel III staðlinum eru þó færri og ekki jafnítarleg og í reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Með þeim skilyrðum og kröfum sem gerðar eru til gerninga sem heimilt er að telja til eiginfjárgrunns eru gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja aukin.
    Litlar breytingar felast í d-lið 28. gr. frumvarpsins (ný 84. gr. d), en nokkur nýmæli felast í e-lið 28. gr. frumvarpsins (ný 84. gr. e). Á meðal þeirra ber sérstaklega að nefna nýjar reglur um útreikning á áhættugrunni verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða, en einnig nær áhættugrunnur annarra fjármálafyrirtækja til fleiri þátta en áður. Loks er með f-lið 28. gr. frumvarpsins (ný 84. gr. f) lagt til að við lögin bætist ákvæði er varðar veltubók fjármálafyrirtækja.
     Um a-lið (84. gr. a).
    Með a-lið er lagt til að við lögin bætist ný grein, 84. gr. a, þar sem kveðið er á um hvers konar gerningar geti talist til almenns eigin fjár þáttar 1 (e. Common equity Tier 1/CET1). Um er að ræða þá gerninga sem lánastofnanir geta talið til eiginfjárgrunns og eru af hæstu gæðum eigin fjár. Til að eiginfjárgerningar geti talist til almenns eigin fjár þáttar 1 verða þeir að uppfylla öll skilyrði greinarinnar. Að sama skapi skulu þeir uppfylla þau ákvæði sem fram koma í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 sem vísað er til í j-lið 2. mgr. greinarinnar. Ákvæðið er samhljóða 26. og 28. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, en sumir af þeim liðum sem taldir eru upp í 28. gr. reglugerðarinnar koma ekki fram í greininni. J-liður 2. mgr. ákvæðisins felur engu síður í sér að fjármálafyrirtækjum ber einnig að uppfylla skilyrði umræddra ákvæða en þau munu verða lögfest með reglugerð sem kveðið er á um í j-lið. Á meðal þeirra liða 28. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 sem ekki er minnst sérstaklega á eru ábyrgðir og tryggingar tengdra aðila og aðila í nánum tengslum við fjármálafyrirtækið. Í því samhengi er vísað til þess að færa má rök fyrir að slíkir gerningar felist í i-lið ákvæðisins, en einnig er ljóst af j-lið ákvæðisins að fjármálafyrirtæki ber einnig að uppfylla umrætt skilyrði reglugerðarinnar.
    Með hugtakinu „varanlegir“ í d-lið 2. mgr. 84. gr. a er átt við að þeir eiginfjárgerningar sem teljast til almenns eigin fjár þáttar 1 skulu vera án gjalddaga. Með orðalaginu að eiginfjárgerningar hafi „jafnstæðan forgang til arðgreiðslna“, sbr. e-lið, er átt við að ekki sé hægt að telja til almenns eigin fjár þáttar 1 gerninga, hlutabréf þar sem forgangur til arðgreiðslna fjármálafyrirtækis er meiri en forgangur annarra hluthafa.
     Um b-lið (84. gr. b).
    Í b-lið er lagt til að við lögin bætist ný grein, 84. gr. b, þar sem kveðið er á um hvers konar gerningar geti talist til viðbótar eigin fjár þáttar 1 (e. Additional Tier 1/AT1). Um er að ræða gerninga sem lánastofnanir geta talið til þáttar 1 vegna eiginfjárgrunns, sem þó teljast ekki til almenns eigin fjár. Til að eiginfjárgerningar geti talist til viðbótar eigin fjár þáttar 1 verða þeir að uppfylla öll skilyrði greinarinnar. Að sama skapi skulu þeir uppfylla þau ákvæði sem fram koma í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 sem vísað er til í j-lið 2. mgr. ákvæðisins og sett verður á grundvelli heimildar í 117. gr. a. Ákvæðið er samhljóða 51. og 52. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, en sumir af þeim liðum sem taldir eru upp í 52. gr. reglugerðarinnar munu ekki koma fyrir í lögunum. J-liður 2. mgr. greinarinnar felur engu síður í sér að fjármálafyrirtækjum ber einnig að uppfylla skilyrði þeirra á grundvelli greinarinnar. Á meðal þeirra liða 52. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 sem ekki er minnst sérstaklega á í greininni eru ábyrgðir og tryggingar tengdra aðila og aðila í nánum tengslum við fjármálafyrirtækið. Vísað er til umfjöllunar í athugasemdum við a-lið (84. gr. a) vegna þessa.
    Varðandi skýringu á hugtakinu „varanlegir“ skv. f-lið 2. mgr. greinarinnar er einnig vísað til umfjöllunar um a-lið (84. gr. a). Með hugtakinu „kaupréttur“ skv. g-lið 2. mgr. er átt við enska orðið „call option“, en efnislega er átt við ákvæði sem veitir rétt eða heimild til að innkalla eða greiða upp ákveðna eiginfjárgrunnsgerninga. Í i-lið 2. mgr. kemur hugtakið kveikjuviðburður (e. trigger event) fyrir. Um er að ræða skilgreinda viðburði sem tilgreindir eru í skilmálum umræddra eiginfjárgerninga sem varpa ljósi á það hvernig gerningarnir kunna að breytast. Þannig kann í slíkum skilmálum að vera tilgreint að ef eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis fer niður fyrir 7% af áhættugrunni sé umræddum gerningum breytt úr skilyrtum skuldabréfum (e. contingent convertibles) í almennt hlutafé eða höfuðstóll bréfsins færður niður. Við gerð frumvarpsins hefur komið til umræðu hvernig umrætt hugtak, þ.e. kveikjuviðburður, skuli meðhöndlað. Ákveðið var að leggja til að tekið yrði upp nýyrðið „kveikjuviðburður“ enda nær það einna best yfir hið sérhæfða enska lagahugtak „trigger event“, sem talsvert er notast við í umfjöllunum um þá gerninga sem hægt er að telja til viðbótar eigin fjár þáttar 1, svo og í tengslum við tilskipun um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja, þ.e. tilskipun 2014/49/ESB (BRRD) sem brátt verður innleidd í lög hér á landi.
     Um c-lið (84. gr. c).
    Með c-lið er lagt til að við lögin bætist ný grein, 84. gr. c, þar sem tilgreint er hvers konar gerningar geti talist til þáttar 2 (e. Tier 2/T2). Um er að ræða gerninga sem lánastofnanir geta talið til eiginfjárgrunns sem þó teljast ekki til gerninga þáttar 1. Til að eiginfjárgerningar geti talist til þáttar 2 verða þeir að uppfylla öll skilyrði greinarinnar. Að sama skapi skulu þeir uppfylla þau ákvæði sem fram koma í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 sem innleidd verður hér á landi með reglugerð sem vísað er til í j-lið 2. mgr. greinarinnar. Ákvæðið er samhljóða 62. og 63. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, en sumir af þeim liðum sem taldir eru upp í 63. gr. reglugerðarinnar koma hins vegar ekki fram í greininni. J-liður 2. mgr. greinarinnar felur engu síður í sér að fjármálafyrirtækjum ber að uppfylla skilyrði þeirra á grundvelli reglugerðar sem sett verður á grundvelli 117. gr. a. Á meðal þeirra liða sem koma fram í 63. gr. reglugerðarinnar en ekki er minnst á í greininni eru ábyrgðir og tryggingar tengdra aðila og aðila í nánum tengslum við fjármálafyrirtækið. Vísað er til umfjöllunar í athugasemdum við a-lið 28. gr. frumvarpsins (84. gr. a) vegna þessa.
    Á meðal þess sem hægt verður að telja til þáttar 2 samkvæmt greininni eru almennar leiðréttingar vegna útlánaáhættu sem þó skulu að hámarki nema 1,25% af áhættuvegnum eignum reiknuðum samkvæmt staðalaðferð. Að sama skapi verður hægt að telja til þáttar 2 jákvæða stöðu vegna útreikninga á væntu tapi samkvæmt innramatsaðferð en að hámarki 0,6% af áhættuvegnum eignum. Þær fjárhæðir sem þar eru tilgreindar skal reikna án áhrifa frá skatti, þ.e. um er að ræða „brúttó“-tölur fyrir skatta.
    Í f- og g-lið 2. mgr. er notast við orðið „lokagjalddagi“ (e. maturity). Við samningu frumvarpsins kom einnig til greina að nota orðin „líftími“ eða „eftirstöðvatími“ til að ná utan um sama hugtak á ensku. Niðurstaðan varð sú að orðið „lokagjalddagi“ væri heppilegast. Orðið „eftirstöðvatími“ var talið of þröngt og ná frekar til eftirstöðva af greiðslum vegna skuldabréfs. Til þeirra gerninga sem teljast til þáttar 2 eru þó aðrir gerningar en teljast til skuldabréfa, og því þótti viðeigandi að notast við orðið „lokagjalddagi“. Ákveðið var að nota ekki orðið „líftíma“ þar sem það var frekar talið ná yfir enska hugtakið „duration“ en „maturity“. Með hugtakinu „kaupréttur“ skv. g-lið 2. mgr. er átt við enska orðið „call option“, en efnislega er átt við ákvæði sem veitir rétt eða heimild til að innkalla eða greiða upp ákveðna eiginfjárgrunnsgerninga.
     Um d-lið (84. gr. d).
    Með d-lið er lagt til að við lögin bætist ný grein, 84. gr. d, sem er samhljóða 97. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Umrætt ákvæði reglugerðarinnar afmarkar hvernig reikna skuli hæft fjármagn verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Í skýringum við 1. gr. frumvarpsins er fjallað um hvað felst í hæfu fjármagni samanborið við eiginfjárgrunn. Í stuttu máli er verðbréfafyrirtækjum sem bera takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélögum verðbréfasjóða sniðinn þrengri stakkur varðandi það hversu mikið af eigin fé samkvæmt þætti 2 telja má fram við afmörkun á hæfu fjármagni, samanborið við afmörkun á eiginfjárgrunni. Skal eigið fé samkvæmt þætti 2 nema að hámarki þriðjungi af þætti 1, sbr. skilgreiningu á hugtakinu „hæft fjármagn“. Að öðru leyti felast litlar efnislegar breytingar í greininni samanborið við 9. mgr. 84. gr. gildandi laga. Greinin heimilar einnig ráðherra að veita fleiri verðbréfafyrirtækjum svigrúm til að reikna eigið fé á grundvelli þess hvað telst til hæfs fjármagns, og skal slík heimild veitt með hliðsjón af starfsheimildum verðbréfafyrirtækisins. Slík heimild er afmörkuð í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 og verður hún útfærð í reglugerð sem ráðherra setur.
     Um e-lið (84. gr. e).
    Með e-lið er lagt til að við lögin bætist ný grein, 84. gr. e, sem er samhljóða ákvæðum 92., 95. og 96. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Í 1. og 2 mgr. greinarinnar er áhættugrunnur fjármálafyrirtækja afmarkaður. Í ákvæðinu felast litlar efnislegar breytingar samanborið við 2. mgr. 84. gr. gildandi laga. Þó er vert að geta þess að með hugtakinu „þynningaráhætta“ (e. dilution risk) er átt við þá áhættu að krafa fjármálafyrirtækja kunni að rýrna vegna annarra krafna á hendur lántakanda. Einnig eru í ákvæðinu kveðið á um eiginfjárkröfu vegna áhættu sem tengist OTC-afleiðusamningum (e. over the counter) vegna aðlögunar á útlánavirði, en um er að ræða nýmæli sem felast í reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Með OTC- afleiðusamningum er átt við afleiðusamninga sem ekki eru verðlagðir eða gerðir upp á skipulegum verðbréfamörkuðum. Slíkar eiginfjárkröfur hafa fjármálafyrirtæki ekki þurft að reikna á grundvelli fyrri bankatilskipana, þ.e. tilskipana 2006/48/EB og 2006/49/EB, sem innleiddar hafa verið með reglum Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að margfalda skuli eiginfjárkröfur vegna b–e-liðar 1. mgr. með stuðlinum 12,5. Ekki er kveðið á um slíkan stuðul í gildandi lögum, en þó hafa þessi nýmæli litlar efnislegar breytingar í för með sér. Með stuðlinum er tekið á því að umræddir liðir fela ekki í sér vegna áhættu (e. weighted risk), samanborið við a- og f-lið 1. mgr. greinarinnar.
    Helsta nýmæli greinarinnar er að finna í 3. mgr. Með ákvæðinu er lagt til að áhættugrunnur þeirra verðbréfafyrirtækja sem ekki hafa starfsheimildir skv. c- og f-lið 1. tölul. 1. mgr. 25. gr., svo og áhættugrunnur rekstrarfélaga verðbréfasjóða, skuli vera sú fjárhæð sem hærri er af þessum tveimur: 1) áhættugrunni skv. 1. málsl. að undanskildum áhættugrunni vegna rekstraráhættu eða 2) fjárhæð sem tilgreind er í 1. málsl. 84. gr. d margfölduð með stuðlinum 12,5. Einnig er gert ráð fyrir að ákveðnar tegundir verðbréfafyrirtækja, þ.e. þær sem hafa flestar starfsheimildir og bera lögum samkvæmt mesta ábyrgð, reikni áhættugrunn sinn sem samtölu áhættugrunns, að undanskilinni rekstraráhættu, og fjárhæðarinnar sem tilgreind er í 1. málsl. 84. gr. d margfaldaðrar með stuðlinum 12,5. Slík ákvæði koma ekki fyrir í gildandi lögum um fjármálafyrirtæki. Gera má ráð fyrir að þessar breytingar feli í sér að útreikningar á eiginfjárhlutföllum verðbréfafyrirtækja og rekstrarfélaga verðbréfasjóða breytist nokkuð við samþykkt frumvarpsins. Ákvæðin eru samhljóða 95. og 96. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimildir fjármálafyrirtækja til að beita innri aðferðum við mat á áhættuþáttum við útreikning á eiginfjárgrunni. Í ákvæðinu felast ekki efnislegar breytingar á gildandi lögum umfram það að ráðherra er veitt heimild til að kveða nánar á um skilyrði til að mega beita slíkum aðferðum í reglugerð sem sett er á grundvelli 117. gr. a laganna. Heimild ráðherra er efnislega sambærileg við þá sem kemur m.a. fram í VI. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007. Fjármálaeftirlitinu er með ákvæðinu veitt heimild til að kveða nánar á um leyfi til að mega nota innri aðferðir. Stofnunin veitir fjármálafyrirtækjum í dag leyfi til að nota slíkar innri aðferðir, séu ákvæði VI. kafla fyrrnefndra reglna uppfyllt, eða ákvæði þeirra kafla reglnanna sem ná til annarra þátta en útlánaáhættu.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að áhættugrunnur skuli afmarkaður enn frekar með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 117. gr. a laganna. Í reglugerðinni skal m.a. fjallað um áhættuvogir vegna einstakra eignaliða fjármálafyrirtækja og útreiknings á áhættuþáttum. Fram kemur í ákvæðinu að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að mæla fyrir um breytilegar áhættuvogir vegna einstakra áhættuþátta og einstakar áhættuskuldbindingar. Er slík heimild til að mynda í samræmi við 124. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, en kveðið skal nánar á um hana í fyrrnefndri reglugerð ráðherra.
     Um f-lið (84. gr. f).
    Í f-lið er lagt til að við lögin bætist ný grein, 84. gr. f, sem er samhljóða ákvæðum 102.–106. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Í greininni er fjallað um þær kröfur sem gerðar skulu til veltubókar og veltubókarviðskipta fjármálafyrirtækja. Kröfur sem koma fram í 1.–4. mgr. greinarinnar eru efnislega sambærilegar við þær kröfur sem nú koma fram í 5. gr. reglna nr. 215/2007, um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Með greininni er því lagt til að kveðið verði á um kröfurnar í lögunum en ekki stjórnvaldsfyrirmælum. Skv. 5. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki uppfylli einnig þau sértæku ákvæði sem fram munu koma í reglugerð ráðherra sem sett verður á grundvelli 117. gr. a og uppfylli þannig kröfur reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 varðandi skilyrði og kröfur vegna útreikninga á stöðum í veltubók, áform um veltubókarviðskipti, kerfi og stjórntæki sem notuð eru til að halda utan um veltubókina og innri varnir við útreikning á eiginfjárkröfum.

Um 29. gr.

    Með 29.–34. gr. frumvarpsins er lagt til að 84. gr. a – 84. gr. f gildandi laga verði 86. gr. a – 86. gr. f vegna breytinga sem lagðar eru til á 84. gr. laganna með 27. og 28. gr. frumvarpsins. Með hliðsjón af þessu eru lagðar til breytingar á tilvísunum til umræddra greina.

Um 30. og 31. gr.

    Vísað er til athugasemdar við 29. gr. frumvarpsins.

Um 32. gr.

    Um breytingu sem lögð er til í a-lið er vísað til athugasemdar við 29. gr. frumvarpsins. Breytingar skv. b- og c-lið eru lagðar til þar sem efni umræddra reglna verður annars vegar að finna í reglugerð ráðherra sem sett er á grundvelli 5. mgr. umrædds ákvæðis og hins vegar í tæknilegum framkvæmdar- og eftirlitsstöðlum sem Fjármálaeftirlitið innleiðir með setningu reglna á grundvelli a-liðar 3. mgr. 117. gr. b. Vísað er til athugasemdar við 12. gr. frumvarpsins um þá breytingu sem lögð er til í d-lið.

Um 33. gr.

    Vísað er til athugasemdar við 29. gr. frumvarpsins. Einnig er vísað til athugasemdar við 12. gr. frumvarpsins um breytingu sem lögð er til í b-lið.

Um 34. gr.

    Vísað er til athugasemdar við 29. gr. frumvarpsins.

Um 35. gr.

    Greinin byggist á ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 en einnig hefur verið höfð hliðsjón af núgildandi ákvæðum laganna um frádráttarliði frá eiginfjárgrunni.
    Frádráttarliðir frá almennu eigin fé þáttar 1, sbr. 1. mgr. greinarinnar, eru þeir frádráttarliðir sem taldir eru upp í 36. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Undanþáguákvæði 2. mgr. byggist þó á 470. gr. sömu reglugerðar. Með ákvæðinu eru taldir upp þeir frádráttarliðir sem eðlilegt þykir að fjármálafyrirtæki dragi frá þætti 1. 3. mgr. greinarinnar um núvirðingu skuldbindinga byggist á 33. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, en sams konar ákvæði er einnig að finna í gildandi lögum. Með þeim orðalagsbreytingum sem lagðar eru til verða lög um fjármálafyrirtæki þó í betra samræmi við þann ramma sem gildir um frádráttarliði frá eiginfjárgrunni samkvæmt CRD IV/CRR regluverkinu.
    Með „fyrirsjáanlegri arðsúthlutun“ skv. b-lið 1. mgr. er átt við þann arð sem stjórn fjármálafyrirtækis hefur lagt til að greiddur verði vegna starfsemi nýliðins árs, en ekki hefur verið samþykktur á hluthafafundi. Þar til hluthafafundur hefur farið fram ber því fjármálafyrirtækjum að draga væntanlega arðsúthlutun frá eigin fé sem það tekur til þáttar 1 á grundvelli hagnaðar samkvæmt ósamþykktu, en könnuðu, ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri. Liðurinn er samhljóða b-lið 2. mgr. 26. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Hugtakið „fyrirsjáanlegt“, sem kemur fyrir í umræddum málslið reglugerðarinnar, er einnig sérstaklega skilgreint í tæknilegum eftirlitsstaðli um eiginfjárkröfur, sbr. reglugerð (ESB) nr. 241/2014.
    Með „reiknaðri skattinneign samkvæmt efnahagsreikningi“ skv. d-lið 1. mgr. er átt við frádráttarlið sem byggist að mestu á samhljóða lið í 36. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Munur er á orðalagi laganna frá því hvernig ákvæðið kemur fram í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 og felst hann í því að ekki er sérstaklega tilgreint í lögunum að átt sé við reiknaða skattinneign vegna framtíðarhagnaðar. Orðalag laganna verður því opnara, samanborið við reglugerðina, enda þykir það við hæfi í ljósi þeirra takmarkana sem huga þarf að til reiknaðrar skattinneignar sem ekki byggist á framtíðarhagnaði skv. 39. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Með orðunum „magna upp“ í öllum frádráttarliðum ákvæðisins er átt við enska orðið „inflate“ sem kemur fyrir í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 og alþjóðlega Basel III staðlinum.
    Frádráttarliðir vegna viðbótar eigin fjár þáttar 1 byggjast á 56. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og frádráttarliðir vegna þáttar 2 byggjast á 66. gr. sömu reglugerðar. Umræddum frádráttarliðum er ætlað að efla gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja, og samræmast þeim alþjóðlegu kröfum sem gerðar eru til eigin fjár samkvæmt Basel III staðlinum.
    6. mgr. veitir lagastoð fyrir upptöku efnisatriða sem koma fyrir í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 með reglugerð sem ráðherra setur. Í ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 er fjallað með ítarlegum hætti um þá frádráttarliði sem kveðið er á um í 1.–4. mgr. greinarinnar. Ekki er þörf á að fjalla sérstaklega um þá efnisþætti í lögunum þar sem ákvæðin eru ívilnandi fyrir lögaðila sem undir lögin heyra. Um þá verður, eftir atvikum, fjallað í þeirri reglugerð sem ráðherra setur með heimild í 117. gr. a laganna.
    Með 7. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilað að veita sértæka undanþágu frá frádráttarliðum vegna útreiknings á eiginfjárkröfum fjármálasamsteypna. Ákvæðið byggist á 49. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 og er í samræmi við gildandi ramma um frádráttarliði vegna fjármálasamsteypa.
    8. mgr. byggist á 79. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Henni er ætlað að veita sértæka undanþágu, sem ber að túlka þröngt, vegna heimildar fjármálafyrirtækja til að fjárfesta í hlutum í aðilum á fjármálamarkaði. Slíkri ráðstöfun fylgja skilyrði um að henni sé eingöngu ætlað að bjarga viðkomandi fyrirtæki og þannig ætlað að takmarka tjón á fjármálamarkaði.

Um 36. gr.

    Greinin byggist á 104. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Greininni er ætlað að styrkja valdheimildir Fjármálaeftirlitsins, m.a. til að bregðast við ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki kröfur um nægt eigið fé samkvæmt könnunar- og matsferli stofnunarinnar. Greininni er einnig, sbr. 2., 5. og 6. mgr., ætlað að skýra hvenær beita skuli valdheimildum stofnunarinnar og í hvaða tilvikum er sérstaklega mikilvægt að til þeirra sé gripið.
    Samkvæmt 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til aðgerða til að knýja á um að fjármálafyrirtæki vinni tímanlega að úrbótum ef í ljós kemur að ákvæði laganna eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim eru ekki uppfyllt. Skýra þarf orðið „tímanlega“ skv. 1. mgr. í samræmi við 2. mgr. greinarinnar en samkvæmt því ber Fjármálaeftirlitinu að grípa til viðeigandi aðgerða ef það telur líklegt að fjármálafyrirtæki muni innan næstu 12 mánaða ekki uppfylla ákvæði laganna og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim. Fjármálaeftirlitið getur þannig gripið inn í yfirvofandi áhættu og farið fram á nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta hjá fjármálafyrirtæki. 2. mgr. greinarinnar byggist á 102. gr. tilskipunar 2013/36/ESB en í ákvæði tilskipunarinnar er eftirlitsaðila veitt heimild til þess að grípa til ráðstafana eða úrbóta gagnvart fyrirtæki í þeim tilvikum sem kveðið er á um í málsgreininni.
    Með 3. mgr. er 103. gr. tilskipunar 2013/36/ESB innleidd hér á landi. Samkvæmt ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákvarða að tvö eða fleiri fjármálafyrirtæki með sambærileg áhættusnið, t.d. sambærileg viðskiptalíkön, sem standa frammi fyrir sömu kerfisáhættunni skuli undirgangast sama könnunar- og matsferlið. Ákvæðið á einkum við fjármálafyrirtæki sem teljast lík að eðli, svo sem sparisjóði eða verðbréfafyrirtæki með sambærilegar starfsheimildir. Á grundvelli heimildarinnar verður Fjármálaeftirlitinu heimilt að yfirfæra sambærilegar niðurstöður um aukið eigið fé á sams konar fjármálafyrirtæki, að uppfylltum kröfum ákvæðisins um sams konar áhættusnið og/eða með vísan til kerfisáhættu.
    Með 4. mgr. er valdheimildum Fjármálaeftirlitsins fjölgað, samanborið við þær heimildir sem tilgreindar eru í a–e-liðum 1. mgr. 84. gr. gildandi laga. Við bætast nýir liðir, sbr. c-lið og g–k-lið 4. mgr. Einnig er orðalagi a-liðar og e-liðar lítillega breytt frá gildandi lögum. Ekki er ástæða til að fjalla í löngu máli um breytingar á a-liðnum sem leiðir af nýjum ákvæðum laganna um eiginfjárauka. Á hinn bóginn er breytingum á e-lið ætlað að skýra það betur að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að mæla fyrir um hömlur, takmörkun eða bann á starfsemi fjármálafyrirtækis eða, eftir því sem við á, með sölu eigna til að draga úr áhættu. Með sölu eigna er í þessu sambandi sérstaklega átt við sölu þeirra eigna sem skapa hættu á að fjármálafyrirtækið uppfylli ekki kröfur um nægt eigið fé og annarra eigna sem ógna lífvænleika fjármálafyrirtækisins. Skv. c-lið 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að mæla fyrir um að fjármálafyrirtæki setji fram sérstaka áætlun um það hvernig kröfur laganna eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim verði uppfyllt. Skv. g- og h-lið 4. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að i) takmarka kaupauka við hlutfall af hreinum hagnaði (e. net profits) ef ætla má að útgreiðsla þeirra muni leiða til ófullnægjandi eiginfjárgrunns og ii) að kveða á um að fjármálafyrirtæki beri að nota hreinan hagnað (e. net revenue) til að styrkja eiginfjárgrunn þess. Með hugtakinu „hreinn hagnaður“ er átt við að búið sé að taka tillit til alls kostnaðar eða frádráttar sem leiðir af þeim aðgerðum sem gripið var til í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárgrunn fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitinu verður skv. i-lið 4. mgr. enn fremur heimilt að takmarka eða banna arð- og vaxtagreiðslur til hluthafa, stofnfjáreigenda og fjárfesta eða afturkalla þær, hvort tveggja í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis. Á þetta við um þá gerninga sem ekki setja fjármálafyrirtækið í vanskil þótt vaxtagreiðslur falli niður eða takmarkist að öðru leyti. Skv. j- og k-lið 4. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kveða á um aukin gagnaskil og sértæka upplýsingagjöf til markaðar. Fjármálaeftirlitinu er þegar heimilt að kveða á um aukin gagnaskil á grundvelli valdheimilda laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, án þess að þau séu sérstaklega bundin við könnunar- og matsferli stofnunarinnar. Rétt þykir þó að tilgreina það sérstaklega í lögunum í samhengi við könnunar- og matsferlið líkt og gert er í tilskipun 2013/36/ESB. Með sértækri upplýsingagjöf til markaðar skv. k-lið er átt við aðrar upplýsingar en þær sem fjármálafyrirtæki þurfa að veita á grundvelli stoðar 3 (e. Pillar III), sbr. 9. gr. frumvarpsins. Markmiðið með valdheimildinni er að tryggja fjárfestum aðgang að upplýsingum sem talið er viðeigandi að fjármálafyrirtæki veiti. Við mat á því hvort eðlilegt sé að veita sértækar upplýsingar samkvæmt ákvæðinu skal litið til þess hvort upplýsingarnar teljast mikilvægar og hvort þær teljast til trúnaðarupplýsinga samkvæmt ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Með 5. og 6. mgr. eru ákvæði 2. og 3. mgr. 104. gr. tilskipunar 2013/36/ESB innleidd. Með ákvæðunum er skýrt kveðið á um það í hvaða tilvikum Fjármálaeftirlitinu ber sérstaklega að beita valdheimildum sínum, þ.e. í hvaða tilvikum talið er mikilvægt að þeim sé beitt. Skv. 5. mgr. er þannig tilgreint að ef kröfur laganna að því er varðar mat á áhættuþáttum, mat á eiginfjárþörf og takmörkun á stórum áhættuskuldbindingum eru ekki uppfylltar beri Fjármálaeftirlitinu að mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn. Slíkt á einnig við ef áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækisins er ekki mætt með eiginfjárkröfum sem reikna skal á grundvelli reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 eða eiginfjáraukum sem viðhalda skal á grundvelli 86. gr. a – 86. gr. e, sbr. b-lið 5. mgr. Telji Fjármálaeftirlitið að önnur úrræði en hærri eiginfjárgrunnur, svo sem tímanlegar úrbætur á innri ferlum og kerfum, leiði ekki til tímanlegra úrbóta ber því einnig að mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn. Enn fremur skal Fjármálaeftirlitið mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn ef niðurstaða könnunar- og matsferlis stofnunarinnar er sú að skyldur 4. mgr. nýrrar 80. gr. laganna, þ.e. um ákvörðun viðhlítandi eiginfjárgrunns, eru ekki uppfylltar. Að lokum skal Fjármálaeftirlitið mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn telji það líkur á að áhætta sé vanmetin þrátt fyrir að skilyrði laganna og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru með stoð í þeim séu ekki uppfyllt. Nærtækast er í því ljósi að líta til þeirra krafna sem fram koma í reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Með hugtakinu „fylgniviðskipti innan veltubókar“ (e. correlation trading portfolio) er átt við veltubókarviðskipti með tiltekna gerninga sem um gilda m.a. sérstakar kröfur um eiginfjárútreikninga. Til þeirra teljast verðbréfaðar stöður og lánaafleiður vegna vanskilaaðila, sem uppfylla nánar tiltekin skilyrði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
    Í 6. mgr. er fjallað um sambærilegt efni og er að finna í 5. mgr. Með ákvæðinu er hins vegar tilgreint með opnari hætti en í 5. mgr. til hvaða þátta Fjármálaeftirlitinu ber að líta við mat á því hvort mælt skuli fyrir um hærri eiginfjárgrunn, sbr. a-lið 4. mgr. Þannig er Fjármálaeftirlitinu skylt að kanna hvort reyna kunni á ákvæði 5. mgr. við mat á því hvort mæla skuli fyrir um hærri eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis. Skv. 6. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu hins vegar að hafa hliðsjón af nánar tilgreindum þáttum til að kanna hvort nauðsynlegt sé að ná yfir áhættu með því að leggja á viðbótarkröfu umfram lágmarksfjárhæð varðandi eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis. Orðalag 6. mgr. er þannig opnara en orðalag 5. mgr. og getur því náð til annarra valdheimilda sem varða eiginfjárgrunn en þeirrar sem kveðið er á um í a-lið 4. mgr., svo sem e-, g-, h- og i-liðar 4. mgr. Á grundvelli 6. mgr. skal Fjármálaeftirlitið bæði kanna eigindlega og megindlega þætti í starfsemi fjármálafyrirtækisins í könnunar- og matsferli stofnunarinnar. Með hugtökunum „eigindlegum“ og „megindlegum“ er átt við þau hugtök sem á ensku nefnast „qualitative“ og „quantitative“. Með hugtakinu „eigindlegar“ aðferðir er átt við mat sem ekki felur í sér tölulega greiningu, t.d. á innri og ytri áhrifaþáttum, gæðamálum og samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækis. „Megindlegir“ þættir snúa hins vegar að tölulegum fjárhagsupplýsingum, t.d. ársreikningum, gagnaskilum, áhættuskýrslum og áhættusækni fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitið skal enn fremur, sbr. b-lið 6. mgr., hafa hliðsjón af fyrirkomulagi innri ferla og aðferða fjármálafyrirtækis við áhættustýringu og mati á eiginfjárþörf, þ.e. kanna hvernig greiningum, mælingum og mati á áhættuþáttum í starfsemi þess er háttað og hvernig skipulagi er háttað við mat á eiginfjárþörf. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið hafa hliðsjón af niðurstöðum úr könnunar- og matsferli á grundvelli nýrrar 80. gr., svo og mati á kerfisáhættu, þegar ákvörðun er tekin um að leggja á viðbótarkröfu varðandi eiginfjárgrunn á grundvelli 6. mgr.
    Í 7. mgr. er að finna séríslenskt ákvæði sem tekur á álitaefni sem ekki er fjallað sérstaklega um í tilskipun 2013/36/ESB. Sambærilegt ákvæði er að finna í löggjöf margra Evrópuríkja, en slík ákvæði, þ.e. um samsetningu eiginfjárkröfu eftirlitsstofnana, hafa ekki verið samhæfð í gegnum löggjöf á evrópskum fjármálamarkaði. Í viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar er mælst til þess að samsetning eiginfjárkröfu eftirlitsstofnana sé útfærð með sama hætti og lagt er til að verði lögfestur hér á landi. Hins vegar er svigrúm til að útfæra samsetninguna með ólíkum hætti innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sömu útfærslu og lagt er til að verði lögbundin hér á landi er m.a. að finna í Bretlandi. Með því að kveða á um samsetninguna í lögunum eru tekin af tvímæli um samsetningu kröfu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt stoð 2 undir Basel II staðlinum, sbr. a-lið 1. mgr. 84. gr. gildandi laga. Með ákvæðinu er lögfest sú regla að viðbótarkrafa sem leitt getur af könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins skuli samsett af þætti 1 og þætti 2 í sömu hlutföllum og krafa stoðar I undir Basel II staðlinum. Eigið fé sem uppfylla skal vegna viðbótarkröfu Fjármálaeftirlitsins skal þannig teljast til þáttar 1 að þremur fjórðu hlutum en heimilt er að uppfylla viðbótarkröfuna með eigin fé samkvæmt þætti 2 að fjórðungi. Samkvæmt ákvæðinu skal almennt eigið fé þáttar 1 enn fremur nema að lágmarki 56,25% af viðbótarkröfunni.

Um 37. gr.

    Breytingin í a-lið er lögð til í samræmi við breytta hugtakanotkun í lögunum og er vísað í 1. gr. frumvarpsins og athugasemda við hana um nánari skýringa.
    Breyting sem lögð er til í b-lið byggist á þeim viðhorfum að armslengdarsjónarmið eigi að ráða för vegna viðskipta dóttur- og hlutdeildarfélaga við fjármálafyrirtæki þegar þau stunda viðskipti sín á milli.

Um 38. gr.

    Breytingu skv. a-lið er ætlað að tryggja samræmi á milli texta laganna og 123. gr. tilskipunar 2013/36/ESB annars vegar og 6.–24. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 hins vegar. Með breytingunni er áréttað að blönduð eignarhaldsfélög bera sömu skyldur og önnur eignarhaldsfélög sem skilgreind eru í lögunum.
    Með b-lið er lagt til að tilvísun breytist í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til með 27.–35. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við þær um nánari skýringar.
    Breyting skv. c-lið er lögð til í samræmi við breytta hugtakanotkun í 1. gr. frumvarpsins. Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins um nánari skýringar.
    Breyting skv. d-lið er lögð til vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í 1. og 4. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda við þær um nánari skýringar.

Um 39. gr.

    Breyting sem lögð er til í a-lið varðar nýtt ákvæði laganna um upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækis um áhættur, áhættustýringu og eiginfjárstöðu. Vísað er til 9. gr. frumvarpsins og athugasemda við hana um frekari skýringar. Breytingin byggist einnig á e- lið 1. mgr. 67. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Breyting sem lögð er til í b-lið tengist breytingu sem lögð er til í 13. gr. frumvarpsins, þ.e. að gildandi 3. mgr. 27. gr. laganna verði felld brott en í staðinn komi ný málsgrein sem kveður á um það að rekstrarfélagi verðbréfasjóða sé óheimilt, í tengslum við rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða sem það stýrir, að nýta sér sameiginlegan atkvæðisrétt í sjóðunum þannig að það geti haft veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa. Vísað er í athugasemdir við 13. gr. frumvarpsins.
    Breyting sem lögð er til í c-lið byggist á i-lið 1. mgr. 67. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.
    Breytingar sem lagðar eru til með d- og e-lið byggjast á n-lið 1. mgr. 67. gr. tilskipunar 2013/36/ESB.

Um 40. gr.

    Breytingin sem lögð er til tengist breytingu sem lögð er til í 13. gr. frumvarpsins, þ.e. að 3. mgr. 27. gr. laganna verði felld brott. Vísað er til athugasemdar við 13. gr. frumvarpsins.

Um 41. gr.

    Innleiðingu tilskipunar 2013/36/ESB mun fylgja fjöldi fylgigerða, bæði tæknilegra staðla sem þegar hafa verið innleiddir hér á landi að hluta og afleiddra reglugerða. Munurinn á þessum gerðum felst í því verklagi sem beitt er við gerð þeirra, en tæknilegir staðlar eru fyrst og fremst unnir af hálfu evrópsku eftirlitsstofnananna. Þannig vinnur Evrópska bankaeftirlitsstofnunin drög að tæknilegum stöðlum sem síðar eru samþykktir af hálfu framkvæmdastjórnar ESB. Afleiddar gerðir eru hins vegar unnar af hálfu framkvæmdastjórnar ESB, en Evrópska bankaeftirlitsstofnunin og eftirlitsstofnanir í Evrópu veita umsögn um gerðirnar á meðan þær eru í smíðum. Tvær slíkar afleiddar gerðir hafa þegar verið samþykktar í tengslum við tilskipun 2013/36/ESB. Önnur þeirra varðar útreikning á lausafjárhlutfalli en hin varðar útreikning á vogunarhlutfalli. Báðar gerðirnar eru tæknilegs eðlis og fjalla með ítarlegum hætti um hvernig reikna á út umrædd hlutföll. Með ákvæðinu er lagt til að afleidd reglugerð um útreikning á vogunarhlutfalli verði innleidd hér á landi með setningu stjórnvaldsfyrirmæla, þ.e. reglna Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur þegar heimildir til að setja reglur um gagnaskil og til að afmarka gagnsæiskröfur vegna vogunarhlutfalls og því er eðlilegt að nánari afmörkun á útreikningum hlutfallsins verði innleidd með reglum stofnunarinnar.

Um 42. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að ekki verði lengur hægt að fá sérstakt starfsleyfi fyrir fyrirtæki sem verðbréfamiðlun. Vísað er til 2., 11. og 12. gr. frumvarpsins og athugasemda við þær um frekari skýringar. Í dag starfar eitt fyrirtæki hér á landi sem verðbréfamiðlun og samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu skal fyrirtækið eftir gildistöku frumvarpsins teljast og hljóta starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki með þær starfsheimildir sem félagið hefur nú sem verðbréfamiðlun.

Um 42. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.