Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1108  —  680. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Afurðastöð er hver sá lögaðili eða einstaklingur sem tekur við afurðum úr höndum frumframleiðenda til vinnslu, flokkunar, pökkunar, geymslu, heildsölu eða dreifingar eða vinnur úr eða selur eigin frumframleiðslu umfram magn sem skilgreint er.
     2.      Álagsgreiðsla er tiltekin fjárhæð sem greiðist fyrir gæðastýrða framleiðslu, sbr. 41. gr.
     3.      Búvörur teljast í lögum þessum afurðir búfjár, þ.m.t. afurðir nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla og loðdýra, afurðir nytjajurta og afurðir hlunninda. Lög þessi taka ekki til afurða alifiska.
     4.      Framleiðandi er hver sá sem á eigin vegum hefur með búvöruframleiðslu að gera, hvort sem er einstaklingur, lögaðili, aðili að félagsbúi eða ríkisbú.
     5.      Garðyrkjubýli, gróðrarstöð og garðyrkjustöð merkir í lögum þessum lögaðila eða býli, með virðisaukaskattsskylda veltu, sem framleiðir grænmeti (útirækt/ylrækt), skrautjurtir, garðplöntur eða tré og runna.
     6.      Greiðslumark lögbýlis er tiltekinn fjöldi ærgilda eða magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.
     7.      Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla eru afurðir sem framleiddar eru samkvæmt kröfum í 41. gr.
     8.      Heildargreiðslumark er fjöldi ærgilda eða tiltekið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er í samræmi við samning skv. 30. gr. og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.
     9.      Lögbýli eða jörð er í lögum þessum skilgreint skv. 2. gr. jarðalaga.
     10.      Verðlagsár er almanaksárið.
     11.      Vetrarfóðraðar kindur eru ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin eru fram skv. 10. gr. laga um búfjárhald.

2. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar þrjá menn í verðlagningarnefnd mjólkurvara til þriggja ára í senn, þar af einn sem formann.
    Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum og setur sér starfsreglur. Þeir sem skipaðir eru í nefndina skulu vera óvilhallir og þannig valdir að nefndin búi yfir þekkingu og reynslu á sviði rekstrar, reikningsskila fyrirtækja, hagfræði og lögfræði. Formaður nefndarinnar skal hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi á sviði sem lýtur að hlutverki nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og uppfylla sömu hæfnisskilyrði og aðalmenn.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við vinnslu einstakra mála. Starfa þeir með nefndinni við undirbúning og meðferð mála.
    Hlutverk nefndarinnar er að setja afurðastöðvum mjólkur í markaðsráðandi stöðu tekjumörk skv. 9. gr. og staðfesta verðskrá skv. 10. gr.
    Ákvarðanir nefndarinnar skulu rökstuddar og eru kæranlegar til ráðherra. Ákvarðanir nefndarinnar skulu birtar með aðgengilegum og skipulögðum hætti opinberlega.
    Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Afurðastöð sem tekur á móti a.m.k. 80% af innveginni mjólk er skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt og greiða þeim sama verð fyrir mjólk óháð búsetu. Henni er einnig skylt að selja afurðir á sama heildsöluverði um land allt. Einnig er henni skylt að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk og mjólkurafurðir, sem nemur allt að 5% af þeirri mjólk sem afurðastöðin tekur við, til frekari vinnslu í samræmi við verðskrá skv. 10. gr.
    Afurðastöð skal haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt og semja ársreikninga í samræmi við lög, reglugerðir og settar reikningsskilareglur.

5. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Afurðastöð verðleggur mjólk til framleiðenda og ákveður heildsöluverð á mjólkurafurðum. Þó skal verðlagningarnefnd mjólkurvara ákveða verð til framleiðenda fyrir mjólk sem framleidd er innan greiðslumarks og er þá afurðastöð skylt að greiða það verð.
    Verðlagningarnefnd mjólkurvara skal setja afurðastöð í markaðsráðandi stöðu tekjumörk á innlendum markaði til fimm ára í senn. Við setningu tekjumarka skal taka tillit til kostnaðar vegna reksturs og fjárfestinga almennrar starfsemi afurðastöðvar. Starfsemi sem er ekki nauðsynleg vegna rekstursins er undanskilin við ákvörðun tekjumarka.
    Við ákvörðun tekjumarka skal nefndin taka mið af arðsemi afurðastöðvar, sem skal vera sem næst vegnu meðaltali fjármagnskostnaðar sem taki mið af hæfilegri arðsemiskröfu á eigið fé afurðastöðvar.
    Náist ekki markmið um skilvirkni í rekstri afurðastöðvar með afmörkun tekjumarkatímabila er nefndinni heimilt að setja afurðastöð hagræðingarkröfu fyrir nýtt tekjumarkatímabil eftir að afurðastöð hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um slíkar fyrirætlanir. Slík hagræðingarkrafa skal byggð á sjónarmiðum í sambærilegum rekstri um hvað telst skilvirkni í rekstri, studd af undangengnu hagrænu mati.
    Tekjumörk afurðastöðvar skulu liggja fyrir eigi síðar en 15. september árið áður en tekjumörk taka gildi.
    Afurðastöð skal skila nefndinni rekstrarupplýsingum 1. maí ár hvert vegna fyrra árs, ásamt uppgjöri tekjumarka við lok hvers árs þar sem bornar skulu saman rauntekjur og tekjumörk ársins.

6. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Afurðastöð mjólkur í markaðsráðandi stöðu skal setja sér verðskrá vegna sölu á mjólk og mjólkurafurðum til frekari vinnslu. Afurðastöð skal birta verðskrá opinberlega.
    Verðskrá skv. 1. mgr. tekur ekki gildi fyrr en verðlagningarnefnd mjólkurvara hefur staðfest verðskrána formlega.

7. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Hagstofa Íslands skal afla fullnægjandi gagna fyrir verðlagningarnefnd mjólkurvara um framleiðslukostnað búvara og aðra kostnaðarliði sem nefndin þarf á að halda vegna starfa sinna.

8. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagningarnefnd mjólkurvara til upplýsingar. Slíkir samningar mega ekki ná til vöru sem fellur undir gildissvið samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

9. gr.

    15., 16. og 17. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Verðlagning.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „mjólkursamlag“ og „mjólkursamlags“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: afurðastöð; og: afurðastöðvar.

12. gr.

    30. gr. laganna orðast svo:
    Til þess að vinna að markmiðum stjórnvalda á hverjum tíma um framleiðslu búvara er ráðherra:
     a.      heimilt að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Bændasamtök Íslands um framleiðsluskilyrði, stuðning og stjórn á magni búvara. Heimilt er að semja til lengri tíma í einu og að binda samninga við einstakar búvörur. Ráðherra er heimilt í stað fyrrgreindra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda nautgripa- og sauðfjárafurða á lögbýlum og framleiðenda garðyrkjuafurða á garðyrkjubýlum,
     b.      heimilt að ákveða mismunandi stuðningsgreiðslur eftir landsvæðum með tilliti til byggðasjónarmiða og mikilvægis einstakra búgreina á hverjum stað.
    Heimilt er að mæla fyrir um endurskoðun samnings skv. 1. mgr. á samningstímanum þar sem metin eru áhrif og þróun samkvæmt samningi og teknar upp samningaviðræður að nýju teljist þess þörf.
    Þeir framleiðendur einir fá greiðslur í samræmi við samning samkvæmt þessari grein sem stunda landbúnað á lögbýli eða garðyrkjubýli, eru með virðisaukaskattsnúmer og starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.
    Á hverju lögbýli eða garðyrkjubýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi greiðslna. Þó er einstaklingum í hjúskap eða óvígðri sambúð á hverju lögbýli heimilt að skrá tvo framleiðendur sem handhafa greiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.

13. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar sex menn í framkvæmdanefnd búvörusamninga. Ráðherra tilnefnir tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður. Ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins tilnefnir einn fulltrúa og Bændasamtök Íslands tilnefna þrjá fulltrúa. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt.
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga er sjálfstæð í störfum sínum og setur sér starfsreglur.
    Framkvæmdanefnd búvörusamninga er samráðsvettvangur samningsaðila um framkvæmd samninga skv. 30. gr. Nefndin er ráðherra til ráðgjafar við framkvæmd samninga skv. 30. gr. Hún tekur ákvarðanir um tilfærslur framlaga milli einstakra samningsliða og greiðslutilhögun framlaga.
    Ákvarðanir í nefndinni skulu teknar með einföldum meiri hluta atkvæða. Séu ákvæði jöfn sker atkvæði formanns úr um niðurstöðu. Ákvarðanir framkvæmdanefndar búvörusamninga eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Fundargerðir og ákvarðanir nefndarinnar skal birta opinberlega.

14. gr.

    32. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun er heimilt að ákveða að greiðslur í samræmi við samning skv. 30. gr. verði greiddar til framleiðanda óháð framleiðslu á lögbýli eða garðyrkjubýli ef framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, þannig að búskapur hafi dregist saman eða fallið niður um tíma, t.d. vegna stórfellds öskufalls eða jökulflóða, vegna óvenjulegs veðurfars, alvarlegra búfjár- eða plöntusjúkdóma eða vegna þess að afurðasala frá býlinu hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á.
    Nú hefur framleiðandi fengið greiddar bætur vegna tjóns sem hann á jafnframt rétt á að fá bætt með greiðslum samkvæmt þessu ákvæði og er þá heimilt að lækka greiðslurnar sem bótunum nemur. Jafnframt er ráðherra heimilt að áskilja að bætur sem framleiðandi kann að eiga rétt á síðar vegna tjónsins renni í ríkissjóð.
    Ráðherra er heimilt að víkja frá ásetningshlutfalli skv. 3. mgr. 39. gr. á býlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið skv. 1. mgr.
    Um þær greiðslur sem eru framleiðslutengdar skal taka mið af meðaltalsframleiðslu síðustu þriggja ára fyrir röskun framleiðsluskilyrða. Þó er Matvælastofnun heimilt að víkja frá þessu viðmiði ef málefnalegar ástæður eru fyrir því.
    Heimilt er að binda ákvörðun um fyrirgreiðslu því skilyrði að bætur sem framleiðandi kann að eiga rétt á frá þriðja aðila renni sem fyrirgreiðslunni nemur í ríkissjóð.

15. gr.

    34. gr. laganna fellur brott.

16. gr.

    VIII. kafli laganna, Um aðlögun búvöruframleiðslunnar, 35. gr., fellur brott.

17. gr.

    36. gr. laganna orðast svo:
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um starfsskilyrði sauðfjárræktar eru:
     a.      að stuðla að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu,
     b.      að treysta stoðir sauðfjárræktar í byggða- og atvinnulegu tilliti,
     c.      að auðvelda nýliðun og nauðsynleg kynslóðaskipti sem tryggi að stuðningur ríkisins nýtist starfandi bændum á hverjum tíma,
     d.      að stuðla að fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur,
     e.      að efla gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og aðra þætti sem henni tengjast eins og velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvitund og sjálfbæra landnýtingu, og
     f.      að efla markaðsstarf, nýsköpun og markaðsvitund í sauðfjárrækt.

18. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Á tímabilinu frá 1. janúar 2017–31. desember 2026 greiðir íslenska ríkið framlög til sauðfjárræktar í samræmi við samning skv. 30. gr.
    Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar en sem nemur 0,4% af heildarframlögum hvers árs.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: til 31. desember 2020.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Frá og með 1. janúar 2026 fellur greiðslumark úr gildi. Greiðslumark sem er óvirkt í þrjú ár samfellt á tímabilinu 1. janúar 2017 – 31. desember 2025 fellur niður.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Til að fá fullar beingreiðslur til 1. janúar 2021 þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks.
     b.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðsins „beingreiðslur“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: greiðslur.
     d.      6. mgr. orðast svo:
                      Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2020. Við innlausn greiðir ríkissjóður handhafa greiðslumarks núvirt andvirði beingreiðslna næsta almanaksár eftir að innlausnar er óskað. Matvælastofnun skal sjá um framkvæmd innlausnar greiðslumarks.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Framleiðandi sem á tímabilinu frá 1. janúar 2017 – 31. desember 2026 uppfyllir skilyrði um gæðastýrða framleiðslu á rétt á sérstakri álagsgreiðslu sem greiða skal fyrir allt framleitt kindakjöt frá framleiðanda sem uppfyllir kröfur um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skal m.a. ná til landnota, aðbúnaðar og umhverfis, skýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður skulu skjalfestar, svo sem með landbótaáætlun.
     c.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                      Tíðni eftirlits með framleiðendum í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skal byggjast á áhættuflokkun, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti og samkvæmt eftirlitsáætlun.
     e.      5. málsl. 6. mgr. fellur brott.
     f.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Framkvæmdanefnd búvörusamninga er heimilt að ákvarða mismunandi stuðla í þeim tilgangi að greiða misháar álagsgreiðslur á einstaka flokka lambakjöts og ærkjöts og vegna mismunandi sláturtíma.
            

22. gr.

    2. mgr. 50. gr. laganna fellur brott.

23. gr.

    Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Um starfsskilyrði sauðfjárræktar 2017–2026.

24. gr.

    51. gr. laganna orðast svo:
    Markmið ákvæða þessa kafla um starfsskilyrði nautgriparæktar eru:
     a.      að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu nautgripaafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði,
     b.      að auðvelda nýliðun og nauðsynleg kynslóðaskipti sem tryggi að stuðningur ríkisins nýtist starfandi bændum á hverjum tíma,
     c.      að stuðla að fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur,
     d.      að gætt sé sjónarmiða um velferð dýra og heilnæmi afurða,
     e.      að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni og skapa aðstæður til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum, og
     f.      að greinin geti endurnýjað framleiðsluaðstöðu í samræmi við auknar kröfur um aðbúnað og velferð dýra.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
     a.      Orðin „þremur mánuðum“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heildargreiðslumark fellur niður 1. janúar 2021. Greiðslumark lögbýla heldur gildi sínu sem viðmið fyrir beingreiðslur til 31. desember 2025.

26. gr.

    53. gr. laganna orðast svo:
    Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Matvælastofnun skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu samkvæmt því. Þó er heimilt þegar um fleiri sjálfstæða aðila er að ræða sem standa að búinu að skrá þá sérstaklega.
    Handhafi greiðslumarks getur óskað eftir innlausn á greiðslumarki frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2019. Við innlausn greiðir ríkissjóður handhafa greiðslumarks tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark næsta almanaksár eftir að innlausnar er óskað. Greiðslumark sem innleyst er skal boðið til sölu á sama verði. Nýliðar og framleiðendur sem hafa framleitt a.m.k. 10% umfram greiðslumark árin 2013–2015 skulu hafa forgang að kaupum upp að tilteknu marki samkvæmt reglugerð.
    Ef innleyst greiðslumark selst ekki þannig að jöfnuður verði á innlausn og sölu skal því mætt með skerðingu á öðrum framlögum samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga. Matvælastofnun skal sjá um framkvæmd innlausnar og sölu greiðslumarks.
    Greiðslumark þar sem engin framleiðsla fer fram í a.m.k. eitt verðlagsár skal falla niður.

27. gr.

    54. gr. laganna orðast svo:
    Aðilaskipti að greiðslumarki eru óheimil frá 1. janúar 2017. Þó er heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila.
    Tilfærsla greiðslumarks tekur ekki gildi fyrr en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.

28. gr.

    55. gr. laganna orðast svo:
    Á tímabilinu frá 1. janúar 2017 – 31. desember 2026 greiðir íslenska ríkið framlög til nautgriparæktar í samræmi við samning skv. 30. gr.
    Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar en sem nemur 0,7% af heildarframlögum hvers árs.
    Greiðsla út á greiðslumark er stuðningur við framleiðslu og markað fyrir mjólkurafurðir, greiddur úr ríkissjóði til greiðslumarkshafa. Greiðsla út á greiðslumark er greidd mánaðarlega og ákveður framkvæmdanefnd búvörusamninga nánar greiðslutilhögun og fráviksmörk beingreiðslu fyrir upphaf hvers verðlagsárs, að fengnum tillögum Landssambands kúabænda.
    Greiðslur út á innvegna mjólk eru greiddar mánaðarlega á alla innvegna mjólk óháð greiðslumarki og skal skipt í tólf jafna hluta þannig að jafnhá upphæð er greidd í hverjum mánuði óháð framleiðslumagni mánaðarins. Upphæð hvers mánaðar deilist jafnt á alla innvegna lítra í þeim mánuði.

29. gr.

    Á eftir 55. gr. laganna kemur ný grein, 55. gr. A, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að ráðstafa framlögum milli tiltekinna liða í samningi skv. 30. gr. til að bregðast við breytingum á framboði og eftirspurn á markaði, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Orðið „fullvirðisrétt“ í 2. mgr. fellur brott.
     b.      3. mgr. fellur brott.

31. gr.

    Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Um starfsskilyrði nautgriparæktar 2017–2026.

32. gr.

    57. gr. laganna orðast svo:
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða eru:
     a.      að auka framboð og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og auka vitund um hollustu og heilbrigða lífshætti,
     b.      að stuðla að fjölbreyttara framboði á garðyrkjuafurðum árið um kring á sanngjörnu verði fyrir neytendur,
     c.      að auka fagmennsku, hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar garðyrkjuframleiðslu,
     d.      að treysta tekju- og starfsgrundvöll framleiðenda garðyrkjuafurða, og
     e.      að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu.

33. gr.

    58. gr. laganna orðast svo:
    Á tímabilinu frá 1. janúar 2017 – 31. desember 2026 greiðir íslenska ríkið framlög til framleiðenda garðyrkjuafurða í samræmi við samning skv. 30. gr.
    Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða en sem nemur 10% af heildarframlögum til beingreiðslna og 15% af heildarframlögum til niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku.
    Heimilt er ráðherra að fela Matvælastofnun eða öðrum opinberum aðila að annast faglega umsjón með verkefnum sem samið er um skv. 1. mgr. og framkvæmd þeirra, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laga.

34. gr.

    2. og 3. málsl. 2. mgr. 59. gr. laganna falla brott.

35. gr.

    60. gr. laganna orðast svo:
    Framleiðandi sem er umsækjandi um beingreiðslur skal leggja fram upplýsingar um afurð, verð og viðskiptakjör.
    Ef framleiðandi verður ekki við kröfum skv. 1. mgr. skal réttur til beingreiðslna felldur niður þar til framleiðandi hefur gert fullnægjandi úrbætur innan ákveðinna tímamarka.

36. gr.

    2. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.

37. gr.

    Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða 2017–2026.

38. gr.

    63. gr. laganna fellur brott.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Úthlutun tollkvóta samkvæmt viðauka IIIB nær aðeins til vara sem flokkast í tollskrárnúmerin 0602.9091, 0602.9093, 0603.1100, 0603.1400 og 0603.1909 í 6. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög. Um toll á aðrar vörur viðauka IIIB fer skv. 2. mgr. 12. gr. tollalaga.
     b.      Lokamálsliður 3. mgr. fellur brott.

40. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 12. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 65. gr. B laganna kemur: 5. mgr. 12. gr.

41. gr.

    Við 71. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild þessari skal ekki beitt ef það hefur áhrif á mjólkurafurðir sem falla undir gildissvið samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

42. gr.

    75. gr. laganna fellur brott.

43. gr.

    2. mgr. 76. gr. laganna fellur brott.

44. gr.

    Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Innflutningur landbúnaðarvara og úthlutun tollkvóta.

45. gr.

    78. og 79. gr. laganna falla brott.

46. gr.

    81. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Stærðarmörk afurðastöðva vegna frumframleiðslu sinnar skv. 1. gr.
     2.      Tekjumörk afurðastöðva, m.a. um setningu þeirra og uppgjör, afskriftareglur, arðsemismarkmið, útreikning og mat á vegnum fjármagnskostnaði, mat fastafjármuna, skiptingu eignagrunns og rekstrarkostnaðar og kröfur um hagræðingu. Jafnframt skal í reglugerð kveða nánar á um með hvaða hætti skal taka tillit til almennra verðbreytinga og gengis gjaldmiðla, auk annarra atriða sem kveðið er á um skv. 9. gr.
     3.      Greiðslur til framleiðenda skv. 29. gr.
     4.      Réttindi framleiðenda og skilyrði fyrir greiðslum skv. 30. gr.
     5.      Framkvæmd vegna röskunar framleiðsluskilyrða og greiðslur og úttektir skv. 32. gr.
     6.      Skilyrði fyrir greiðslum skv. 37. gr., greiðslumark sauðfjár, beingreiðslur fyrir sauðfé, ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna, hvernig þeim skuli ráðstafað og af hvaða opinbera aðila, innlausn greiðslumarks og aðilaskipti á greiðslumarki skv. IX. kafla.
     7.      Gæðastýrða sauðfjárframleiðslu varðandi landnýtingarskilyrði, gæðakerfi, tilkynningar og fresti, kæruheimildir, eftirlit og úttektaraðila, landbótaáætlanir og tilhögun álagsgreiðslna skv. 41. gr.
     8.      Heildargreiðslumark mjólkur og skiptingu þess á lögbýli, greiðslur út á greiðslumark og innvegna mjólk, innlausnarskyldu á greiðslumarki, aðilaskiptingu og skráningu þeirra og greiðslur til framleiðenda nautakjöts skv. X. kafla.
     9.      Tilfærslur milli liða búvörusamninga skv. 30. gr., sbr. 55. gr. A.
     10.      Beingreiðslur til framleiðenda garðyrkjuafurða, heildarfjárhæð beingreiðslna og skiptingu milli tegunda, fjárhæð á kíló, gæðaflokkun eftir tímabilum og önnur framlög til garðyrkju, framkvæmd og tilhögun skv. XI. kafla.
     11.      Eftirlit með innflutningi afurða þar sem gefin hafa verið vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiði, sýnatökur og rannsóknir skv. 2. mgr. 64. gr.
     12.      Úthlutun tollkvóta skv. 5. mgr. 65. gr., 5. mgr. 65. gr. A og 2. mgr. 65. gr. B.
     13.      Eftirlit skv. 66. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um:
     1.      Verkefni, valdsvið og starfsskilyrði framkvæmdanefndar búvörusamninga skv. 31. gr.
     2.      Verkefni, valdsvið og starfsskilyrði verðlagningarnefndar mjólkurvara skv. 7. gr.

47. gr.

    83., 84. og 85. gr. laganna falla brott.

48. gr.

    B-liður 2. mgr. 87. gr. laganna fellur brott.

49. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða K, O, Q, U, Ú, V, W, X, Y og Z í lögunum falla brott.

50. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (Þ.)
    Þrátt fyrir 8. gr. er verðlagningarnefnd mjólkurvara einnig skylt að ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks til 1. janúar 2021. Lágmarksverð skal byggt á þróun framleiðslukostnaðar og afkomu bænda.

    b. (Æ.)
    Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007, með síðari breytingum, fellur niður 1. janúar 2017, þó heldur ákvæði til bráðabirgða T gildi sínu til 31. desember 2017.

II. KAFLI
Breyting á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.
51. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „sæðingarstöð“ í 9. tölul. kemur: einangrunarstöð.
     b.      Á eftir 10. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Landgreiðslur eru greiðslur sem greiddar eru út á ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar.

52. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Markmið laga þessara er að:
     a.      almenn starfsskilyrði við framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði,
     b.      tryggja að bændum standi til boða leiðbeiningarþjónusta og skýrsluhaldshugbúnaður til að styðja við framgang markmiða samnings skv. 3. gr.,
     c.      við búvöruframleiðsluna sé gætt sjónarmiða um velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu,
     d.      auka vægi lífrænnar framleiðslu,
     e.      stuðningur ríkisins stuðli að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu bænda,
     f.      auðvelda nýliðun, þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda,
     g.      tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.

53. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fimm“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tíu.
     b.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Samningurinn skal endurskoðaður á samningstímanum.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                      Ríkissjóður veitir árlega framlög til verkefna á sviði kynbóta, þróunar, jarðabóta, landgreiðslna, nýliðunar, lífrænnar framleiðslu, varðveislu búfjárstofna, átaksverkefna og leiðbeiningarstarfsemi samkvæmt lögum þessum.
     d.      Á eftir orðunum „Bændasamtök Íslands“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: félög í fullri eigu samtakanna.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þeir framleiðendur einir fá greiðslur í samræmi við samning skv. 1. mgr. sem stunda landbúnað á lögbýli eða garðyrkjubýli, eru með virðisaukaskattsnúmer og starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40. Skilyrði þetta á ekki við um framlög sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins ráðstafar skv. 1. mgr. Á hverju lögbýli eða garðyrkjubýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi greiðslna. Þó er einstaklingum í hjúskap eða óvígðri sambúð á hverju lögbýli heimilt að skrá tvo framleiðendur sem handhafa greiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna.

54. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „framlags“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða landgreiðslna.
     b.      Á eftir orðinu „jarðabóta“ í 2. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. kemur: og landgreiðslna.

55. gr.

    Í stað orðanna „Búnaðarsambönd eða leiðbeiningarmiðstöð“ í 8. gr. laganna kemur: Matvælastofnun.

56. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Jarðabætur og landgreiðslur.

57. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „búfjárræktar“ í 1. málsl. kemur: kynbóta.
     b.      Í stað 2. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einnig skal tryggja framfarir á sviði stofnræktunar og útvalsathugana plantna. Kynbótaverkefni skulu taka mið af skuldbindingum Íslendinga um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.

58. gr.

    Orðin „fyrir búfé“ í 1. málsl. 11. gr. laganna falla brott.

59. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Kynbótaverkefni.

60. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 20.–22. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

    a. (20. gr.)

Framkvæmdanefnd búvörusamninga.

    Framkvæmdanefnd búvörusamninga er samráðsvettvangur samningsaðila um framkvæmd samnings skv. 3. gr. Ráðherra skipar nefndina samkvæmt ákvæðum búvörulaga. Nefndin er ráðherra til ráðgjafar við framkvæmd samnings skv. 3. gr. Hún tekur ákvarðanir um tilfærslur framlaga milli einstakra samningsliða og greiðslutilhögun framlaga. Fundargerðir og ákvarðanir nefndarinnar skal birta opinberlega.
    Ákvarðanir framkvæmdanefndar búvörusamninga eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

    b. (21. gr.)

Þróunarframlög.

    Þróunarframlög eru veitt til að styðja við kennslu, rannsóknir, leiðbeiningar og þróun í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt sem og öðrum búgreinum.
    Framleiðnisjóður landbúnaðarins ráðstafar framlögum til verkefna skv. 1. mgr. að fenginni umsögn fagráðs í viðkomandi búgrein.

    c. (22. gr.)

Aðlögun að lífrænni framleiðslu.

    Framlög eru veitt til að greiða fyrir aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum og aðstoða framleiðendur við að uppfylla kröfur um lífræna búvöruframleiðslu.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
61. gr.

    Á eftir orðunum „SDR/kg“ í 3. málsl. 1. mgr. 12. laganna kemur: miðað við sölugengi SDR fyrsta virka dag marsmánaðar.

62. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. kafla tollskrár í viðauka I við lögin:

A A1 E
% kr./kg %
0402.1010 30 855
0402.1090 30 855
0402.2100 30 1.069
0402.2900 30 1.069
0402.9100 30 1.069
0402.9900 30 1.069
0406.2000 30 1.069
0406.3000 30 1.069
0406.4000 30 1.243
0406.9000 30 1.243

63. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í kjölfar viðræðna íslenska ríkisins við Bændasamtök Íslands 2015–2016 um gerð nýrra búvörusamninga og búnaðarlagasamnings. Gildandi samningar eru eftirfarandi:
     *      Samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 12. mars 2002 (framlengdur að mestu óbreyttur 22. júlí 2009, 28. september 2012 og 21. október 2015).
     *      Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004 (framlengdur að mestu óbreyttur 18. apríl 2009 og 28. september 2012).
     *      Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007 (framlengdur að mestu óbreyttur 18. apríl 2009 og 28. september 2012).
     *      Samningur um verkefni samkvæmt búnaða rlögum nr. 70/1998 og framlög ríkisins til þeirra á árunum 2013 til 2017 frá 28. september 2012 til 31. desember 2016.
     *      Samningar um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og um verkefni samkvæmt búnaðarlögum gilda til 31. desember 2016 en samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar gildir til 31. desember 2017.
    Þar sem núgildandi búvörusamningar og búnaðarlagasamningur eru að renna sitt skeið var hafinn undirbúningur fyrir viðræður ríkisins og Bændasamtaka Íslands skv. 30. gr. búvörulaga, nr. 99/1993, og 3. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, í upphafi árs 2015. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét af því tilefni taka saman eftirfarandi skýrslur, annars vegar skýrslu Hagfræðistofnunar, Mjólkurvöruframleiðsla á Íslandi – Staða og horfur, 1 frá júní 2015, og hins vegar skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri, Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings, 2 frá október 2015. Þá hafði ríkið til hliðsjónar við viðræðurnar úttekt Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010: Skýrsla um eftirfylgni: Framkvæmd búvörusamninga.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti helstu samningsmarkmið við gerð samninganna fyrir ríkisstjórn í apríl 2015. Eftirfarandi eru þau markmið sem kynnt voru:
     *      Gerður verði langtímasóknarsamningur til að minnsta kosti tíu ára um starfsskilyrði bænda sem byggist á fjárstuðningi og tollvernd og ætlað er að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og vera í sátt við umhverfið.
     *      Dregið verði úr vægi kvótakerfis í mjólk og það lagt af í áföngum.
     *      Dregið verði enn frekar úr vægi núverandi greiðslumarks sauðfjár.
     *      Þak verði sett á stuðning til einstakra framleiðenda til að tryggja fjölskylduvænan landbúnað og byggðasjónarmið.
     *      Hugað verði að fjölbreyttara fyrirkomulagi á stuðningi.
     *      Gerðir verði gagnkvæmir samningar um aukin tollfrjáls viðskipti með landbúnaðarafurðir.
     *      Aukinn verði stuðningur við lífræna framleiðslu, gæðastýringarkerfi þróað og umhverfisgreiðslur teknar til skoðunar.
     *      Átak verði gert til:
              *      að bæta ásýnd sveita og auka nýframkvæmdir,
              *      að efla menntun og rannsóknir í landbúnaði.
     *      Geitfjárbændur verði hluti af búvörusamningum.
     *      Skógarbændur verði hluti af samningi.
     *      Matvælalandið Ísland – átak verði gert til markaðssetningar á íslenskum matvælum.
    Samninganefnd ríkisins var skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 24. ágúst 2015 en í nefndinni áttu sæti þrír fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og einn fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Viðræður við samninganefnd Bændasamtaka Íslands hófust í byrjun september 2015. Með hliðsjón af framangreindum samningsmarkmiðum var í fyrsta skipti samið um alla fjóra samningana í einu og gildistaka þeirra og gildistími samræmdur. Viðræður stóðu því yfir frá september 2015 til febrúar 2016 en fundir nefndanna urðu samtals 42 talsins.
    Samkomulag náðist í febrúar 2016 og voru eftirfarandi samningar undirritaðir 19. febrúar 2016 fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra:
     *      Samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.
     *      Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar.
     *      Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar.
     *      Rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017 til 2026.
    Um efni einstakra samninga vísast til fylgiskjals með frumvarpi þessu. Í kjölfar undirritunar samninganna var frumvarp þetta samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna þeirra breytinga sem framangreindir samningar gera ráð fyrir á núgildandi kerfi landbúnaðarins.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samningarnir eru undirritaðir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis. Tilefni lagasetningar þessarar er að lögfesta þær breytingar sem samningarnir gera ráð fyrir og nauðsynlegt er að gera svo að samningarnir geti tekið gildi 1. janúar 2017.
    Samningarnir eru gerðir til tíu ára og taka gildi 1. janúar 2017 verði frumvarp þetta að lögum. Á samningstímabilinu er gert ráð fyrir endurskoðun samninganna tvisvar, þ.e. árin 2019 og 2023, þar sem lagt verður mat á það hvort breytingar og markmið samninganna hafi gengið eftir. Þá er í öllum samningunum að finna tiltekin skilyrði fyrir greiðslu til framleiðenda sem fá framlög samkvæmt samningunum. Einnig er sett þak á þann stuðning sem einstakur framleiðandi getur fengið. Samningarnir eru fjórir talsins og fjalla um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, starfsskilyrði nautgriparæktar, starfsskilyrði sauðfjárræktar og almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.

Samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.
    Í samningnum er ekki gert ráð fyrir viðamiklum breytingum. Áfram munu framleiðendur papriku, gúrku og tómata fá beingreiðslur vegna framleiðslu sinnar. Í samningnum er kveðið á um hlutdeild ríkisins í kostnaði við dreifingu og flutning raforku, en sérstakir samningar hafa gilt um það, sem ekki hafa verið hluti af búvörusamningi. Þá er mælt sérstaklega fyrir um hámarksstuðning við hvern framleiðanda vegna beingreiðslna og hámark niðurgreiðslna á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku.

Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar.
    Stefnt er að viðamiklum breytingum í samningnum. Vægi greiðslna út á innvegna mjólk auk gripagreiðslna eykst en á móti mun vægi greiðslna út á greiðslumark verða þrepað niður. Viðskipti með greiðslumark verða einnig takmörkuð en með löngum aðlögunartíma fyrir framleiðendur. Við endurskoðun árið 2019 skal taka afstöðu til þess hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu verði afnumið frá og með 1. janúar 2021. Mælt fyrir um nokkur ný verkefni í samningnum, þ.e. stuðning við framleiðslu nautakjöts og fjárfestingarstuðning. Gert er ráð fyrir breytingum á verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða og opinber verðlagning í núverandi mynd felld brott. Þá er mælt fyrir um það í samningnum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beiti sér fyrir breytingum á tollalögum og að magntollar verði færðir upp til verðlags á tilteknum mjólkurvörum.

Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar.
    Áherslur í samningnum er nokkuð breyttar frá fyrri samningi. Í samningnum er vægi gæðastýringar aukið og greiðslur út á greiðslumark þrepaðar niður á móti. Teknar verða upp gripagreiðslur í sauðfjárrækt á árinu 2020 og býlisstuðningur á árinu 2018. Býlisstuðningnum er einkum ætlað að styðja við fjölskyldubú. Áfram verða veitt framlög til ullarnýtingar og svæðisbundins stuðnings, en hann verður nánar útfærður í samvinnu við Byggðastofnun. Þá er mælt fyrir um fjárfestingarstuðning til nýframkvæmda og breytinga á byggingum og átaksverkefni um aukið virði sauðfjárafurða.

Rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins.
    Nokkrar áherslubreytingar eru í samningnum frá núgildandi búnaðarlagasamningi. Áfram verða veitt framlög til leiðbeiningarþjónustu og kynbótaverkefna. Þá er lögð aukin áhersla á jarðræktarstyrki og tekinn upp nýr stuðningur með svokölluðum landgreiðslum sem greiddar eru út á allt ræktað land sem uppskorið er til fóðuröflunar. Þá er rík áhersla lögð á nýliðun samkvæmt samningnum. Aukin framlög eru veitt til aðlögunar að lífrænni framleiðslu og tekinn verður upp stuðningur við mat á gróðurauðlindum, geitfjárrækt, fjárfestingarstuðningur í svínarækt og stuðningur við framleiðslu skógarafurða. Áfram verða veitt framlög til þróunar tiltekinna búgreina ásamt framlögum til Erfðanefndar landbúnaðarins og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.
    Þar sem ákvæði núgildandi búvörulaga gera ráð fyrir að búvörusamningar renni sitt skeið í árslok 2016 er nauðsynlegt að gera þær lagabreytingar sem frumvarp þetta mælir fyrir um. Þá er einnig nauðsynlegt að þær breytingar sem framangreindir samningar gera ráð fyrir verði lögfestar.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Eins og rakið er hér að framan er um að ræða fjóra samninga og er frumvarp þetta því viðamikið og hefur að geyma miklar breytingar á ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, ásamt breytingum á 12. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Frumvarpinu er skipt í þrjá kafla.
    Í I. kafla frumvarpsins eru breytingar á ákvæðum búvörulaga vegna samnings um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, nautgriparæktar og sauðfjárræktar. Sérstaklega er um að ræða breytingar á IV. kafla laganna um verðskráningu á búvörum vegna breytinga á verðlagningu mjólkur og mjólkurafurða. Þá eru einnig lagðar til breytingar á IX. og X. kafla laganna vegna kerfisbreytinga sem ákvæði samninga um starfsskilyrði sauðfjárræktar og nautgriparæktar gera ráð fyrir. Þá eru í kaflanum lagðar til breytingar sem miða að því að skýra nánar hlutverk framkvæmdanefndar búvörusamninga.
    Í II. kafla frumvarpsins eru breytingar á ákvæðum búnaðarlaga vegna rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins sem fjallar um stuðning þvert á allar búgreinar. Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á áherslum í markmiðum 2. gr. laganna. Þá er einnig mælt fyrir um þann stuðning sem samningurinn gerir ráð fyrir, m.a. kveðið á um landgreiðslur, þróunarframlög búgreina og átaksverkefni einstakra búgreina. Í III. kafla frumvarpsins er að finna breytingar á 12. gr. tollalaga sem fjalla um tollkvóta sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar og breytingar á magntollum tiltekinna mjólkurafurða.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið og samningarnir gáfu tilefni til að líta til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Frumvarpið mun ekki hækka reiknaða markaðsvernd gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO, World Trade Organization). Þvert á móti eru væntingar um að samningarnir leiði til hagræðingar í búvöruframleiðslu, sem frekar mundi draga úr reiknaðri markaðsvernd. Bein framlög sem telja þarf fram til WTO verða 600–700 m.kr. lægri í lok samnings heldur en árið 2016. Nú er reiknaður stuðningur við landbúnaðinn vel innan heimilda samnings við WTO eins og hann er túlkaður af hálfu Íslands, þ.e. heimildir eru reiknaðar í SDR. Hvernig þróunin verður ræðst mest af þróun gengis íslensku krónunnar. Reyni á heimildirnar gefst tækifæri til breytinga við endurskoðun samninganna á árunum 2019 og 2023. Frumvarpið samræmist ákvæðum stjórnarskrár.

V. Samráð.
    Frumvarp þetta snertir fyrst og fremst starfsumhverfi bænda enda eru framangreindir samningar gerðir á grundvelli 30. gr. búvörulaga og 3. gr. búnaðarlaga við Bændasamtök Íslands. Efni samninganna hafa þó einnig áhrif á neytendur og ýmsa aðra hagsmunaaðila, bæði einstaklinga og lögaðila. Samhliða viðræðum samninganefndar ríkisins og bænda áttu ýmsir hagsmunaaðilar fund með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fulltrúum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem farið var yfir helstu markmið og þær breytingar sem samningarnir hafa í för með sér. Meðal þeirra aðila sem sérstaklega voru kynntar áherslur samninganna voru: Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og Viðskiptaráð. Einnig áttu fulltrúar ráðuneytanna fund með Samkeppniseftirlitinu og Matvælastofnun.
    Frumvarp þetta er samið í samráði við Bændasamtök Íslands og Matvælastofnun sem fer með framkvæmd laganna. Þá voru fjármála- og efnahagsráðuneytinu sérstaklega kynnt drög frumvarpsins ásamt fyrirhuguðum útgjöldum úr ríkissjóði vegna samninganna í samræmi við ákvæði laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

VI. Mat á áhrifum.
Áhrif frumvarpsins á almannahagsmuni og hagsmunaaðila.
    Verði frumvarp þetta að lögum munu bændum verða sköpuð starfsskilyrði til lengri tíma en verið hefur sem tryggir ákveðinn fyrirsjáanleika fyrir greinina. Einnig mun við endurskoðun samninganna verða unnt að grípa til ráðstafana ef ljóst er að markmið samninganna nái ekki fram að ganga. Þá munu þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir leiða til fjölbreyttari landbúnaðar og aukins framboðs á íslenskum gæðaafurðum. Verði frumvarpið að lögum mun það hafa nokkur áhrif á starfsemi Matvælastofnunar sem heldur utan um greiðslur til bænda, þar sem mælt er fyrir um ný framlög í samningunum sem munu leiða til aukinna verkefna fyrir stofnunina í uppfærslu kerfa og aukins utanumhalds með greiðslum til framleiðenda.

Jafnréttismat frumvarpsins.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vann á árunum 2012–2014 greiningu á búvörusamningum. Verkefnið var hluti af kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð (KHF). Fyrsta áfangaskýrsla verkefnisins var birt 15. ágúst 2012 og voru þá greindar beingreiðslur til framleiðenda í mjólkurframleiðslu. Í niðurstöðum áfangaskýrslunnar kom m.a. fram: „Ef tekið er mið af síðasta ári (2011) má sjá að hlutfall karla sem handhafa beingreiðslna er 82,5%, hlutfall kvenna er 8,7% og blandað hlutfall 8,8%. Nokkur breyting hefur orðið á hlutfalli blandaðra greiðslna seinustu 15 árin, þar sem hlutfall kvenna hefur aukist lítillega, eða um 1,6 prósentustig. Það þýðir hlutfallsleg hækkun upp á 22,5%, eða rúman fimmtung. Hlutfall blandaðra greiðslna hefur á hinn bóginn aukist þrefalt á sama tíma, eða um 5,6 prósentustig.“ Áfangaskýrsla II var svo birt 15. júní 2013 þar sem greind voru gögn Matvælastofnunar úr beingreiðsluskrá vegna sauðfjárræktar og garðyrkju. Í niðurstöðum áfangaskýrslunnar kom m.a. fram: „Í þeim tilvikum sem félög þáðu beingreiðslur og bæði karl og kona voru eigendur var handhafi skilgreindur sem blandaður. Í einhverjum tilvikum var ekki hægt að greina handhafa í kyn. Ef horft er til síðasta greiðsluárs, 2012, sést að í sauðfjárrækt voru karlar í 82,2% tilvika handhafar beingreiðslna og þáðu 85% af heildarbeingreiðslum. Konur voru handhafar í 15,2% tilvika og þáðu 12% heildargreiðslna. Blandað hlutfall handhafa er 2,6% og heildargreiðslna 3%. Í garðyrkju voru karlar handhafar í 69% tilvika og þáðu 65%. Konur voru handhafar í 3,4% tilvika og þáðu 0,5% heildargreiðslna. Blandað hlutfall handhafa var 27,6% og heildargreiðslna 35%.“ Í kjölfar áfangaskýrslnanna setti ráðuneytið saman vinnuhóp til að greina hvort í lögum og reglugerðum væri að finna kerfislægar hindranir sem kæmu í veg fyrir að bæði karlar og konur gætu fengið beingreiðslur samkvæmt búvörusamningum. Niðurstöður hópsins voru að í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993 (búvörulögum), og reglugerðum um greiðslumark sauðfjár og mjólkur á lögbýlum og reglugerð um beingreiðslur í garðyrkju væri að finna kerfislægar hindranir þar sem framleiðandi sem skráður er handhafi beingreiðslna getur aðeins verið einn og er í meiri hluta tilvika karl þrátt fyrir að bæði karl og kona standi að baki framleiðslu.
    Þá vann Byggðastofnun á árinu 2015 skýrslu um stöðu kvenna í landbúnaði og tengdum greinum. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands höfðu 3.900 einstaklingar aðallífsviðurværi sitt af því að starfa í landbúnaði, þar af voru 2.500 karlar og 1.400 konur. Í lok árs 2014 hafði þessum einstaklingum fækkað í 3.500 manns, þar af voru 2.200 karlar og 1.300 konur. Frá árinu 2008 hefur konum sem stunda landbúnaðarstarf sem aðalstarf því fækkað um 100 eða 7% á sex árum en á sama tíma fækkaði körlum um 300 eða 12%.
    Horft var sérstaklega til framangreindrar greiningar á búvörusamningum og einnig skýrslu Byggðastofnunar við gerð samninganna. Í öllum samningunum segir: „Hjón og sambýlisfólk sem standa saman að búrekstri geta óskað eftir að greiðslum samkvæmt samningnum sé skipt jafnt á milli aðila.“
    Frumvarpinu er því ætlað að jafna stöðu kynjanna með því að fella brott þær kerfislægu hindranir sem er að finna í búvörulögum.

Spurningar Já/Nei Athugasemdir
Hefur farið fram mat á stöðu kynjanna í þeim málaflokkum sem lagasetningin beinist að? Já. Greint hefur verið hvernig greiðslur samkvæmt búvörusamningum hafa skipst á milli karla og kvenna.
Ef svo er ekki, er ástæða til að kanna stöðu kynjanna í málaflokknum? Á ekki við     
Er staða kynjanna ólík í þeim málaflokkum sem lagasetningin beinist að? Já. Núverandi staða kynjanna er ólík, þar sem meiri hluti karla fær greiðslur úr núgildandi búvörusamningum.
Ef áhrif frumvarpsins á kynin eru ólík, hefur verið framkvæmt mat á jafnréttisáhrifum frumvarpsins? Já. Greindar hafa verið kerfislægar hindranir í búvörulögum.
Ef mat á jafnréttisáhrifum hefur verið framkvæmt, hverjar voru niðurstöður matsins á frumvarpinu og hvernig var brugðist við því? Já. Niðurstaða greiningarinnar gaf til kynna að breyta þurfi ákvæðum laga og reglugerða vegna greiðslna samkvæmt búvörusamningum.

Fjárhagsleg áhrif.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra búvörusamninga og búnaðarlagasamnings. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir breytingum á einstökum köflum búvörulaga, nýjum kafla um markmið búnaðarlaga, breytingum á tollskrá og tollalögum til samræmis við ákvæði nýrra samninga. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á framkvæmd við verðlagningu mjólkur en verðlagsnefnd í núverandi mynd verður lögð niður og ný nefnd um verðlagningu mjólkur mun taka til starfa verði frumvarpið að lögum. Nefndin mun setja afurðastöð mjólkur í markaðsráðandi stöðu tekjumörk, staðfesta verðskrár og ákveða lágmarksverð til framleiðenda til 1. janúar 2021. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að hlutverk framkvæmdanefndar búvörusamninga verði skilgreint með nánari hætti en verið hefur og að nefndin hafi aðgang að starfsmanni sér til aðstoðar þar sem verkefni nefndarinnar og öflun upplýsinga verður umfangsmeiri en verið hefur.
    Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig gert er ráð fyrir að útgjöld vegna nýrra búvörusamninga og búnaðarlagasamnings muni þróast fyrstu þrjú árin:

2016 2017 2018 2019
Stuðningur við nautgriparækt 6.656,1 m.kr. 6.550 m.kr. 6.449 m.kr. 6.448 m.kr.
Stuðningur við sauðfjárrækt 4.932,8 m.kr. 4.932 m.kr. 4.916 m.kr. 4.896 m.kr.
Stuðningur við garðyrkju 592,6 m.kr. 551 m.kr. 550 m.kr. 549 m.kr.
Rammasamningur (búnaðarlagasamningur) 668,8 m.kr. 1.743 m.kr. 1.719 m.kr. 1.699 m.kr.
Samtals útgjöld á ári 12.850,3 m.kr. 13.776 m.kr. 13.634 m.kr. 13.592 m.kr.

    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að framlög hækki á fyrsta ári framangreindra samninga, þ.e. árið 2017. Í fjárlögum 2016 er framlag til búvörusamninga 12.850 m.kr. en með samþykkt frumvarpsins hækka útgjöld vegna þeirra samtals um 926 m.kr. og er því gert ráð fyrir að framlag ársins 2017 verði samtals 13.776 m.kr. Útgjöld fara svo lækkandi til ársins 2026 og eru heildarútgjöld áætluð samtals 12.657 m.kr. fyrir árið 2026. Þá er því til viðbótar gert ráð fyrir um 19 m.kr. kostnaði vegna starfsmanns framkvæmdanefndar búvörusamninga og vegna starfa nefndar um verðlagningu mjólkur. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessari hækkun útgjalda í útgjaldaramma gildandi fjárlaga. Mun því þurfa að finna þeim stað innan útgjaldaramma þessa málaflokks atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun sem og í fjárlögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með frumvarpinu eru gerðar nokkrar breytingar á hugtökum laganna. Lagt er til að felld verði brott hugtök sem eru úrelt, þ.e. beingreiðslumark, efri og neðri mörk greiðslumarks og útflutningsskylda. Þá er einnig lagt til að hugtök sem skilgreind eru í öðrum lögum og eru ekki notuð í ákvæðum laganna verði felld brott, þ.e. hugtökin fóður og sláturleyfishafi sem annars vegar eru skilgreind í lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og hins vegar í lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir. Hugtakið afurðastöð er skilgreint að nýju þar sem hugtakinu er ætlað að ná til lögaðila eða einstaklings sem vinnur úr eða selur eigin frumframleiðslu umfram tiltekið magn samkvæmt reglugerð. Orðalagsbreytingar eru gerðar á skilgreiningu hugtaksins álagsgreiðsla en engar breytingar eru gerðar á hugtökunum búvörur, framleiðandi og garðyrkjubýli. Þá eru lagðar til breytingar á skilgreiningu gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu þar sem hún nær til afurða sem framleiddar eru samkvæmt kröfum í 41. gr. laganna. Þá er því bætt við skilgreininguna heildargreiðslumark að það nái einnig til fjölda ærgilda. Tilvísun til jarðalaga er óbreytt vegna skilgreininga á hugtökunum lögbýli og jörð. Einnig er lagt til að verðlagsárið fylgi ávallt almanaksárinu, líkt og verið hefur í nokkur ár. Ekki eru gerðar breytingar á hugtakinu vetrarfóðraðar kindur.

Um 2. gr.

    Lagt er til að felld verði brott sú krafa að Bændasamtök Íslands skuli tilkynna ráðherra um nöfn formanns og varaformanns samninganefndar samtakanna eigi síðar en 1. júní vegna samnings fyrir næstkomandi verðlagsár. Þessi krafa á ekki við lengur þar sem verðlagsárið er almanaksár.

Um 3. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að verðlagsnefnd búvara verði lögð niður þar sem verðlagning mjólkur verður með breyttum hætti verði frumvarpið að lögum. Lagt er því til að núgildandi ákvæði 7. og 8. gr. laganna falli brott. Verðlagning í breyttri mynd verður samkvæmt frumvarpinu í höndum verðlagningarnefndar mjólkurvara en nefndin mun setja afurðastöðvum mjólkur í markaðsráðandi stöðu tekjumörk og staðfesta verðskrá
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að ráðherra skuli skipa verðlagningarnefnd mjólkurvara og er hér um nýmæli að ræða. Skv. 1. mgr. skal nefndin skipuð til þriggja ára í senn.
    Samkvæmt 2. mgr. skal nefndin vera sjálfstæð í störfum sínum og setja sér starfsreglur. Mikilvægt er að val á sérfræðingum í nefndina stuðli að trúverðugleika hennar og að þeir sem þar eru skipaðir séu óvilhallir og búi yfir þekkingu og reynslu á sviði rekstrar, reikningsskila fyrirtækja, hagfræði og lögfræði. Sérfræðingar í nefndinni geta þannig verið m.a. löggiltir endurskoðendur, hagfræðingar, viðskiptafræðingar eða lögfræðingar. Formaður skal auk þess hafa lokið framhaldsnámi á háskólastigi á sviði sem lýtur að hlutverki nefndarinnar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að nefndin geti kallað til sín ráðgjafa og sérfróða menn við vinnslu einstakra mála. Þeir einstaklingar starfa þá með nefndinni við undirbúning og meðferð mála samkvæmt ákvörðun formanns nefndarinnar.
    Tilgreint er hlutverk nefndarinnar í 4. mgr. þar sem nefndinni er ætlað að setja afurðastöðvum í markaðsráðandi stöðu tekjumörk skv. 9. gr. og staðfesta verðskrár slíkrar afurðastöðvar skv. 10. gr.
    Þá er gert ráð fyrir að nefndin rökstyðji ákvarðanir sínar þar sem koma fram þær forsendur og þau sjónarmið sem ákvörðun nefndarinnar er byggð á. Ákvörðun nefndarinnar skal svo birta opinberlega með aðgengilegum og skipulögðum hætti. Einnig er tekinn af allur vafi um það í ákvæðinu að ákvarðanir nefndarinnar eru kæranlegar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
    Þar sem gert er ráð fyrir að nefndin verði skipuð sérfræðingum er gert ráð fyrir að kostnaður nefndarinnar verði greiddur úr ríkissjóði.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um þær skyldur sem lagðar eru á afurðastöð mjólkur taki hún við meira en 80% af innveginni mjólk. Slíkri afurðastöð er skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt og greiða framleiðendum sama verð fyrir mjólkina óháð því hvar á landinu þeir eru. Þá er slíkri afurðastöð einnig skylt að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk og mjólkurafurðir til frekari vinnslu. Magnið getur numið allt að 5% af þeirri mjólk sem afurðastöðin tekur við. Lagt er til að verðlagningarnefnd mjólkurvara staðfesti verðskrá skv. 6. gr. frumvarpsins þar sem tilgreint er það verð sem afurðastöðin selur á til minni vinnsluaðila.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er gerð sú krafa að afurðastöð sem hefur markaðsráðandi stöðu skuli vera skylt að haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt.

Um 5. gr.

    Líkt og rakið er í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðlagsnefnd búvara verði lögð niður í núverandi mynd. Í 1. mgr. ákvæðisins er því lagt til að afurðastöð mjólkur verðleggi mjólk til framleiðenda og ákveði heildsöluverð á mjólkurafurðum. Í samræmi við ákvæði samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar er þó gert ráð fyrir að fram að þeim tíma að greiðslumark fellur niður skuli verðlagningarnefndin einnig ákveða verð til framleiðenda fyrir mjólk sem framleidd er innan greiðslumarks. Afurðastöð er skylt að greiða það verð til framleiðenda. Undanþága þessi fellur þó úr gildi 1. janúar 2021 verði greiðslumark mjólkur fellt niður.
    Samkvæmt 2. mgr. skal verðlagningarnefnd mjólkurvara setja afurðastöð í markaðsráðandi stöðu tekjumörk. Við mat á markaðsráðandi stöðu viðkomandi afurðastöðvar skal litið til skilyrða samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2004. Við samningu ákvæðisins var m.a. horft til skilyrða tekjumarka samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003. Tekjumörk samkvæmt þessari grein fela í sér hámark leyfilegra árlegra tekna afurðastöðvar mjólkur til að mæta kostnaði. Tekjumörk skulu sett þannig að í þeim felist réttir hvatar fyrir afurðastöð að hagræða en einnig að afurðastöð sé tryggður ákveðinn rekstrargrundvöllur til lengri tíma og hvatning til hagkvæmra fjárfestinga. Við setningu tekjumarka skal nefndin taka tillit til kostnaðar vegna reksturs og fjárfestinga almennrar starfsemi afurðastöðvar. Þá er heimilt að undanskilja starfsemi sem ekki er nauðsynleg vegna rekstursins þegar tekjumörk eru metin.
    Í 3. og 4. mgr. er að finna þau viðmið sem nota skal við setningu tekjumarka.
    Þá er nefndinni settur ákveðinn tímarammi til að taka ákvörðun um setningu tekjumarka og einnig hvenær afurðastöð er skylt að skila rekstrarupplýsingum til nefndarinnar skv. 5. og 6. mgr. ákvæðisins.
    Nánar er kveðið á um tekjumörk og hlutverk verðlagningarnefndar mjólkurvara í reglugerð skv. 81. gr. búvörulaga. Nánari skýringar vegna setningar reglugerðarinnar er að finna í athugasemdum við 46. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um að afurðastöð mjólkur í markaðsráðandi stöðu skuli setja sér verðskrá vegna sölu á mjólk og mjólkurafurðum til frekari vinnslu. Verðlagningarnefnd mjólkurvara skal staðfesta verðskrá og tekur hún ekki gildi fyrr en staðfesting nefndarinnar liggur fyrir.

Um 7. gr.

    Til þess að vinna verðlagningarnefndar mjólkurvara verði skilvirk er nauðsynlegt að nefndin hafi greiðan aðgang að gögnum hjá Hagstofu Íslands sem varða forsendur að baki ákvörðunum nefndarinnar. Með ákvæðinu er því lagt til að Hagstofa Íslands skuli afla fullnægjandi gagna fyrir nefndina um framleiðslukostnað búvara og aðra kostnaðarliði sem nefndin þarf á að halda vegna starfa sinna. Heimild þessi svarar til ákvæðis gildandi 11. gr. búvörulaga sem snýr að aðgangi verðlagsnefndar búvara. Með frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að 2.–4. mgr. gildandi ákvæðis verði felldar brott þar sem þær eru úreltar og snúa m.a. að hlutverki verðlagsnefndar búvara.

Um 8. gr.

    Líkt og rakið er í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðlagsnefnd búvara verði lögð niður í núverandi mynd og er því lagt til að ákvæði 1. og 2. mgr. 13. gr. búvörulaga falli brott þar sem fjallað er um verðlagningu verðlagsnefndar. Þá er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að heimild til verðtilfærslu eigi eingöngu við um vörur sem ekki falla undir bókun 3 við EES-samninginn. Nánari skýringar að baki breytingunni eru raktar í athugasemdum við 41. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að verðlagsnefnd búvara verði lögð niður þar sem verðlagning mjólkur verður með breyttum hætti verði frumvarpið að lögum. Lagt er því til að núgildandi ákvæði 15., 16. og 17. gr. laganna falli brott.

Um 10. gr.

    Með frumvarpinu eru gerðar breytingar á verðlagningu mjólkur og er því lagt til að fyrirsögn kaflans verði breytt úr „Um verðskráningu á búvörum“ í „Verðlagning“ sem er betur lýsandi fyrir efni kaflans.

Um 11. gr.

    Ákvæði 29. gr. laganna fjallar um greiðslumark lögbýla og kom upphaflega inn í búvörulög með 10. gr. laga nr. 124/1995. Með greininni er lagt til að 1. mgr. 29. gr. laganna verði felld brott með hliðsjón af nauðsynlegum breytingum í IV. kafla um verðlagningu mjólkur. Þá er í b-lið gert ráð fyrir að í stað orðsins mjólkursamlag komi orðið afurðastöð.

Um 12. gr.

    Núgildandi ákvæði 30. gr. búvörulaga var upphaflega sett með lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, en byggðist á 2. gr. a laga nr. 15/1979, um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Í greininni er lagður til nýr texti um heimildir ráðherra til að leita eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnar við Bændasamtök Íslands.
    Í 30. gr. laganna er aðeins fjallað um magn mjólkur- og sauðfjárafurða en ekki garðyrkjuafurðir, um þær er fjallað í 58. gr. búvörulaga. Æskilegt er að ákvæði 30. gr. nái til allra búvara en ekki til einstakra búgreina. Orðalag a-liðar 1. mgr. er því almennt orðað þannig að það nái þvert á allar búgreinar. Áfram er þó mælt fyrir um heimild til beinna greiðslna til framleiðenda nautgripa-, sauðfjár- og garðyrkjuafurða í stað samninga við Bændasamtök Íslands.
    Í b-lið 1. mgr. er fjallað um heimild til mismunandi stuðningsgreiðslna eftir landsvæðum með tilliti til byggðasjónarmiða og mikilvægis einstakra búgreina á mismunandi svæðum.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli vegna endurskoðunar sem mælt er fyrir um í samningunum árin 2019 og 2023.
    Í 3. mgr. er einnig að finna nýmæli en það eru þau skilyrði sem framleiðandi þarf að uppfylla til að geta fengið greiðslur samkvæmt samningunum. Afmörkunin byggist að hluta til á afmörkun fyrir þá sem greiða skulu búnaðargjald samkvæmt ákvæðum laga nr. 84/1997, um búnaðargjald. Sett er það skilyrði að landbúnaður þarf að vera stundaður á lögbýli eða garðyrkjubýli, framleiðandi sé með virðisaukaskattsnúmer og starfsemin falli undir atvinnugreinanúmerin 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Sú starfsemi sem undanþegin er samkvæmt greininni er hvers konar þjónusta við jarðyrkju og búfjárrækt. Undir þetta fellur t.d. starfsemi verktaka við jarðvinnslu, meðferð uppskeru, pökkun og hreinsun grænmetis, rúningur, klaufsnyrting og önnur slík þjónustustarfsemi sem tilgreind er í undirflokkum greinarinnar. Í ákvæðinu eru ekki gerðar kröfur til ákveðinnar veltu innan tiltekins atvinnugreinanúmers.
    Í 4. mgr. er að finna nýmæli sem byggist á 1. mgr. 38. gr. búvörulaga varðandi sauðfjárrækt, 1. mgr. 53. gr. varðandi mjólkurframleiðslu og 2. mgr. 59. gr. varðandi framleiðslu garðyrkjuafurða. Ákvæðið er þannig almennt orðað og nær til allrar búvöruframleiðslu sem búvörulög gera ráð fyrir. Þá er að finna nýmæli í ákvæðinu sem snýr að rétti hjóna og einstaklinga í óvígðri sambúð að vera báðir skráðir fyrir greiðslum samkvæmt búvörusamningum. Ákvæði þetta er liður í að eyða kerfislægum hindrunum í lögum þegar kemur að jöfnum rétti karla og kvenna en samkvæmt greiningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á greiðslum samkvæmt búvörusamningum, m.a. á árinu 2012, fengu 85% karla beingreiðslur í sauðfjárrækt. Ákvæðinu er því ætlað að jafna stöðu kynjanna í landbúnaði og eyða þeirri mismunun sem er til staðar með því að aðeins sé heimilt að skrá einn framleiðanda. Nánar er fjallað um jafnréttismat frumvarpsins í VI. kafla almennra athugasemda.

Um 13. gr.

    Um er að ræða nýmæli þar sem tilnefning, skipun og hlutverk framkvæmdanefndar búvörusamninga er skýrt með nánari hætti en verið hefur í ákvæðum búvörulaga. Með gerð nýrra búvörusamninga voru nefndinni falin aukin verkefni svo nauðsynlegt er að skerpa á hlutverki nefndarinnar og verkefnum í búvörulögum. Í 1. mgr. er fjallað um skipun nefndarinnar og lagt er til að skipun hennar verði þannig að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilnefni tvo fulltrúa í nefndina og annar þeirra verði formaður, fjármála- og efnahagsráðherra tilnefni einn og Bændasamtök Íslands tilnefni þrjá fulltrúa.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að nefndin setji sér starfsreglur, er það í samræmi við skýrslu Ríkisendurskoðunar um verðlagsnefnd búvara og ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara frá apríl 2015, þar sem því var beint til ráðuneytisins að framangreindar nefndir settu sér skráðar verklagsreglur, sem lýsi störfum þeirra, m.a. undirbúningi, meðferð og úrlausn mála sem tryggi samræmi og samfellu í störfum nefndanna og stuðli að faglegri og gagnsærri afgreiðslu og gefur ákvörðunum þeirra og tillögum aukið vægi. Lagt er því til að framkvæmdanefnd búvörusamninga setji sér einnig starfsreglur.
    Í 3. mgr. er fjallað með almennum hætti um hlutverk framkvæmdanefndar og þau verkefni sem nefndinni eru falin samkvæmt búvörulögum en meðal verkefna nefndarinnar er að taka ákvörðun um tilfærslu framlaga milli samningsliða, greiðslutilhögun og vera ráðherra til ráðgjafar um framkvæmd búvörusamninga.
    Í 4. mgr. er fjallað um ákvarðanir nefndarinnar og að þær skuli teknar með einföldum meiri hluta atkvæða en atkvæði formanns skeri úr um niðurstöðu komi upp jöfn staða atkvæða. Þá er einnig kveðið á um að ákvarðanir framkvæmdanefndar séu endanlegar á stjórnsýslustigi og því ekki kæranlegar til ráðherra. Þá er einnig lögð sú skylda á nefndina að birta fundargerðir og ákvarðanir opinberlega. Er það til samræmis við framangreinda skýrslu Ríkisendurskoðunar um verðlagsnefnd búvara og ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, þar sem því var beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að fundargerðir yrðu birtar opinberlega svo að stjórnsýsla nefndanna yrði gagnsærri og trúverðugri.

Um 14. gr.

    Ákvæði þessa efnis er að finna í núgildandi búvörulögum, sbr. ákvæði til bráðabirgða W, en nær aðeins til beingreiðslna og gæðastýringarálags. Í greininni er gert ráð fyrir að framleiðandi geti haldið þeim greiðslum sem hann á rétt á samkvæmt samningi skv. 30. gr. laganna, komi upp aðstæður sem raska framleiðsluskilyrðum tímabundið vegna náttúruhamfara, þannig að búskapur hafi dregist saman eða fallið niður um tíma, t.d. vegna búfjár- og plöntusjúkdóma, stórfellds öskufalls eða jökulflóða, vegna óvenjulegs veðurfars eða vegna þess að afurðasala frá býli hefur verið bönnuð af ástæðum sem framleiðandi gat ekki haft áhrif á. Helsta breytingin er sú að ákvæðið er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða W einskorðað við beingreiðslur og álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða framleiðslu en nær nú til allra greiðslna samkvæmt samningi skv. 30. gr. búvörulaga.
    Í 2. mgr. er fjallað um bætur sem framleiðandi hefur fengið greiddar vegna tjóns sem hann á jafnframt rétt á að fá bætt með greiðslum samkvæmt ákvæðinu. Hér getur verið um að ræða bætur til dæmis á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
    Þá er í 5. mgr. fjallað um fyrirgreiðslu en þar getur t.d. verið um að ræða álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Um 15. gr.

    Lagt er til að 34. gr. búvörulaga verði felld brott. Í greininni er fjallað um ákvarðanir um beitingu heimilda skv. VII. kafla um stjórn búvöruframleiðslu, en kveða skal á um ákvarðanirnar í reglugerð. Lagt er til að eitt ákvæði verði í 81. gr. búvörulaga um heimildir og skyldur ráðherra til að setja reglugerð.

Um 16. gr.

    Í greininni er lagt til að VIII. kafli um aðlögun búvöruframleiðslunnar verði felldur brott, en í gildandi búvörulögum er 35. gr. eina ákvæði kaflans. Lagt er til að greinin verði felld brott þar sem kveðið er á um að ríkissjóður skuli leggja fram fjármagn til að mæta áhrifum samdráttar í framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða. Um er að ræða ráðstöfun fjármuna sem hefur verið hætt.

Um 17. gr.

    Í greininni eru sett fram markmið um framleiðslu sauðfjárafurða 2017–2026 en þau eru með frumvarpinu samræmd áherslum í markmiðum samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar 2017–2026.

Um 18. gr.

    Í greininni er vísað til þess að greidd eru framlög til sauðfjárræktar í samræmi við samning skv. 30. gr. laganna. Samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar ná framlögin til verkefna eins og gæðastýringar, ullarnýtingar, svæðisbundins stuðnings, gripagreiðslna, býlisstuðnings, fjárfestingarstuðnings og til nýliðunar- og átaksverkefna og framlaga í formi beinna greiðslna til framleiðenda sauðfjárafurða. Þá er með greininni felld brott núgildandi 2. mgr. 37. gr. sem tilgreindi heildargreiðslumark sauðfjár og heildarbeingreiðslur en það er nánar útfært í reglugerð.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli þar sem gert er ráð fyrir þaki á heildarframlögum sem hver og einn framleiðandi getur fengið samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar.

Um 19. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að 2. og 4. málsl. 1. mgr. falli brott þar sem hluti af texta 1. mgr. er færður undir almennt ákvæði í 30. gr. búvörulaga. Aðrar efnislegar breytingar eru ekki gerðar á 1. mgr.
    Samkvæmt b-lið er lagt til, í samræmi við ákvæði samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar, að almennt framsal greiðslumarks verði bannað eftir 31. desember 2020.
    Þá er í c-lið greinarinnar lögð til ný málsgrein þar sem kveðið er á um að greiðslumark falli úr gildi frá og með 1. janúar 2026. Þá er einnig kveðið á um það að greiðslumark sem er óvirkt í þrjú ár samfellt frá gildistöku laganna og til 31. desember 2025 falli niður. Er ákvæðið liður í þeim kerfisbreytingum sem stefnt er að í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar.

Um 20. gr.

    Í a- og b-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að felld verði úr gildi skylda ráðherra til að ákveða árlega ásetningshlutfall að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga þar sem gert er ráð fyrir að ásetningshlutfall verði fest. Til að fá fullar beingreiðslur þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,7 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Heimild þessi gildir til 1. janúar 2021.
    Í c-lið er lagt til að í stað hugtaksins beingreiðslur komi greiðslur þannig að þær nái til fleiri framlaga en beingreiðslna eingöngu.
    Í d-lið er gert ráð fyrir að fellt verði brott gildandi ákvæði 6. mgr. 39. gr. um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um ráðstöfun skertra og ónýttra beingreiðslna. Kveðið er á um það með nánari hætti í 81. gr. laganna. Þess í stað er orðalagi málsgreinarinnar breytt þannig að við hana bætist nýtt ákvæði sem fjallar um innlausnarskyldu ríkisins á greiðslumarki. Þar er kveðið á um að við innlausn greiði ríkissjóður handhafa greiðslumarks núvirt andvirði beingreiðslna næsta almanaksár eftir að innlausnar er óskað. Framkvæmd innlausnarinnar verður í höndum Matvælastofnunar.

Um 21. gr.

    Í a-lið greinarinnar er gert ráð fyrir breytingum varðandi gæðastýrða sauðfjárframleiðslu en aukin áhersla er á hana samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Þá er afmörkun gæðastýringar breytt á þann veg að álagsgreiðsla skal greidd út á allt framleitt kindakjöt þeirra framleiðenda sem uppfylla kröfur um velferð búfjár, sjálfbæra landnýtingu og hollustu afurða.
    Í b-lið greinarinnar er lögð til ný 2. mgr. þar sem kveðið er á um með skýrari hætti til hvaða þátta gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skal ná. Þá er einnig tekinn af allur vafi um að framleiðendum í gæðastýrðri sauðfjárrækt ber að skjalfesta framleiðsluaðstæður sínar, svo sem með landbótáætlun.
    Í c-lið er lagt til að 2. málsl. 3. mgr. verði felldur brott en samkvæmt lögum nr. 80/2005 eru Matvælastofnun falin verkefni samkvæmt búvörulögum.
    Í d-lið er lagt til nýtt orðalag í 4. mgr. og í e-lið er lagt til brottfall 5. málsl. 6. mgr. þar sem kveðið verður á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um gæðastýringu í 81. gr. búvörulaga.
    Þá bætist við skv. f-lið ný málsgrein um heimildir framkvæmdanefndar til að ákveða misháar álagsgreiðslur á einstaka flokka lambakjöts og ærkjöts og vegna mismunandi sláturtíma. Framkvæmdanefnd er falið að ákveða hvort nýta beri stuðla og með hvaða hætti en ákvörðun þess efnis skal liggja fyrir eigi síðar en 1. nóvember árið á undan.

Um 22. gr.

    Lagt er til að felld verði niður skylda ráðherra til að setja reglugerð um greiðslumark lögbýla, beingreiðslur, framkvæmd og tilhögun, þar sem mælt verður sérstaklega fyrir um það í 81. gr. laganna.

Um 23. gr.

    Lagt er til að heiti kaflans verði til samræmis við búvörusamning um starfsskilyrði sauðfjárræktar.

Um 24. gr.

    Í greininni eru sett fram markmið um framleiðslu nautgriparæktar 2017–2026 en þau eru með frumvarpinu samræmd áherslum í markmiðum í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar 2017–2026.

Um 25. gr.

    Í a-lið greinarinnar er gert ráð fyrir breytingu á 2. málsl. 1. mgr. þar sem í gildandi búvörulögum er kveðið á um að heildargreiðslumark mjólkur skuli ákveðið þremur mánuðum fyrir upphaf hvers verðlagsárs. Framkvæmd þessa hefur verið með þeim hætti að heildargreiðslumark er birt með reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum fyrir hvert og eitt verðlagsár. Þar eru einnig tilgreind heildarframlög sem ákveðin eru í fjárlögum og reglugerðin því útgefin í desember ár hvert. Þar af leiðandi hefur ekki verið unnt að birta heildagreiðslumark þremur mánuðum fyrir upphaf hvers verðlagsárs.
    Í b-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að 2. mgr. falli brott en hún tekur til ákvörðunar heildargreiðslumarks sem framkvæmdanefnd búvörusamninga gerir tillögu um til ráðherra og kveðið er á um í 32. gr. og nánar er tilgreint í 81. gr. búvörulaga um skyldu ráðherra til að setja nánari ákvæði um skiptingu heildargreiðslumarks í greiðslumark lögbýla.
    Í c-lið greinarinnar er lögð til ný málsgrein um heildargreiðslumark, en það skal falla niður 1. janúar 2021, þegar stefnt er að því að kvótakerfi í mjólk verði afnumið við endurskoðun árið 2019. Þó mun greiðslumark lögbýla halda gildi sínu sem viðmið fyrir beingreiðslur til 31. desember 2025 eða út samningstíma samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar.

Um 26. gr.

    Lagt er til nýtt ákvæði í 53. gr. búvörulaga en veigamiklar breytingar eru lagðar til á efni greinarinnar til samræmis við áherslur í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Í 1. mgr. eru helstu breytingarnar að hluti texta greinarinnar varðandi skráningu handhafa greiðslna á hverju lögbýli er færður undir almennt ákvæði í 30. gr. búvörulaga.
     Í 2. mgr. er að finna nýmæli varðandi innlausnarskyldu ríkisins. Handhafi greiðslumarks getur með vísan til greinarinnar óskað eftir innlausn á greiðslumarki sínu frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2019. Við þá innlausn fær handhafi greiðslumarks tvöfalt núvirt andvirði greiðslna út á greiðslumark næsta almanaksár eftir að innlausnar er óskað. Þá skal innleyst greiðslumark borðið til sölu á sama verði. Þá verða skilgreindir tilteknir hópar sem hafa forgang að kaupum upp að tilteknu marki, þ.e. nýliðar og framleiðendur sem hafa framleitt a.m.k. 10% umfram greiðslumark viðmiðunarárin 2013–2015.
    Í 3. mgr. er fjallað um þá stöðu sem gæti komið upp að greiðslumark sem ríkissjóður hefur innleyst selst ekki, þannig að ekki verður jöfnuður á innlausn og sölu. Til að tryggja slíkan jöfnuð skal mæta því með skerðingu á öðrum framlögum í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndar búvörusamninga skv. 31. gr. Matvælastofnun er falin framkvæmd innlausnar og sölu greiðslumarks.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að greiðslumark þar sem engin framleiðsla fer fram í a.m.k. eitt verðlagsár skuli innleyst án þess að bætur komi fyrir. Er það m.a. liður í því að afnema greiðslumark mjólkur.

Um 27. gr.

    Í greininni er kveðið á um að aðilaskipti að greiðslumarki séu óheimil frá 1. janúar 2017 í samræmi við ákvæði samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Þá er kveðið á um það í greininni að tilfærsla greiðslumarks taki ekki gildi fyrr en Matvælastofnun hefur staðfest tilfærslu þess.

Um 28. gr.

    Í greininni er vísað til þess að greidd eru framlög til nautgriparæktar í samræmi við samning skv. 30. gr. laganna. Samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar ná framlögin til verkefna eins og greiðslna út á greiðslumark, greiðslna á innvegna mjólk, gripagreiðslna, fjárfestingastuðnings og fleira. Í 2. mgr. er að finna nýmæli þar sem gert er ráð fyrir þaki á heildarframlögum sem hver og einn framleiðandi getur fengið samkvæmt samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar.

Um 29. gr.

    Í greininni er fjallað um svokallað framleiðslujafnvægi sem ráðherra er heimilt að ráðstafa milli tiltekinna liða í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar til að bregðast við breytingum á framboði og eftirspurn á markaði, samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga. Mælt er fyrir um í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar að af liðnum framleiðslujafnvægi verði heimilt að ráðstafa fjármunum til eflingar á markaðsfærslu nautgripaafurða, sérstakra uppbóta fyrir slátrun kálfa og kúa, tilfærslu í aðra framleiðslu á kúabúum og tímabundnar býlisgreiðslur óháðar framleiðslu.

Um 30. gr.

    Í greininni er fellt brott orðið fullvirðisréttur. Aðeins er notað orðið greiðslumark. Þá er lagt til að 3. mgr. 56. gr. búvörulaga falli brott þar sem kveðið er á um reglugerðarheimild ráðherra í 81. gr. laganna.

Um 31. gr.

    Lagt er til að fyrirsögn kaflans verði til samræmis við búvörusamning um starfsskilyrði nautgriparæktar. Í núgildandi búvörulögum ná ákvæði kaflans aðeins til framleiðslu og greiðslumarks mjólkur. Gert er því ráð fyrir að ákvæði kaflans nái m.a. bæði til framleiðslu mjólkur og framleiðslu nautakjöts.

Um 32. gr.

    Í greininni eru sett fram markmið um framleiðslu framleiðenda garðyrkjuafurða 2017–2026 en þau eru með frumvarpinu samræmd áherslum í markmiðum í samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða 2017–2026.

Um 33. gr.

    Í greininni er lagt til breytt ákvæði í 58. gr. búvörulaga. Í núgildandi ákvæði 1. mgr. 58. gr. laganna er kveðið á um heimild ráðherra til að gera samning vegna starfsskilyrða framleiðenda garðyrkjuafurða. Með breytingum á 30. gr. laganna skv. 12. gr. frumvarpsins er fjallað um heimild ráðherra til samninga fyrir allar búgreinar. Í 1. mgr. 58. gr. laganna er því kveðið á um framlög sem íslenska ríkið greiðir til framleiðenda garðyrkjuafurða með samningi skv. 30. gr. laganna. Samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða ná framlögin til beinna greiðslna til framleiðenda til lækkunar á verði einstakra afurða og niðurgreiðslna á flutningi raforku.
    Í 2. mgr. 58. gr. laganna er svo kveðið á um þak á heildarframlögum sem hver framleiðandi getur fengið en um er að ræða tvískipt þak, annars vegar á heildarframlög til beingreiðslna og hins vegar á heildarframlög til niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku. Þá er í 3. mgr. kveðið á um heimildir ráðherra til að fela Matvælastofnun eða öðrum aðilum að annast faglega umsjón með verkefnum sem samið er um í 1. mgr. Getur það t.d. átt við varðandi hlutverk Orkustofnunar vegna niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku.

Um 34. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 59. gr. laganna er einfaldað en hluti af texta greinarinnar er færður undir almennt ákvæði í 30. gr. búvörulaga.

Um 35. gr.

    Í greininni er lagt til að felld verði niður skylda til að setja reglugerð um uppgjör beingreiðslna, almennt verður fjallað um heimildir ráðherra til að setja reglugerð í 81. gr. búvörulaga. Þá er áfram heimild til þess að fella niður beingreiðslur ef framleiðandi verður ekki við kröfum skv. 1. mgr. 60. gr. um að veita upplýsingar um afurð, verð og viðskiptakjör.

Um 36. gr.

    Lagt er til að felld verði niður skylda ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd kaflans, en kveðið er á um reglugerðarheimildir ráðherra í 81. gr. búvörulaga.

Um 37. gr.

    Lagt er til að fyrirsögn kaflans verði til samræmis við búvörusamning um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.

Um 38. gr.

    Lagt er til að 63. gr. búvörulaga verði felld brott, þar sem hún fjallar um byggingu og staðsetningu afurðastöðva og löggildingu sláturhúsa, en ákvæði laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir, gilda um löggildingu þeirra.

Um 39. gr.

    Lagt er til að ákvæði lokamálsliðar 3. mgr. 65. gr. búvörulaga verði fellt brott en í stað hans verði nýjum málslið bætt við 1. mgr. 65. gr. laganna þar sem kveðið verði með beinum hætti á um þær tilteknu vörur viðauka IIIB við tollalög sem skylt að úthluta tollkvóta fyrir. Er það gert með því að tilgreina sérstaklega þau tollskrárnúmer í 6. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög sem vörurnar falla undir. Í tillögunni felst einnig að heimilt verður að flytja aðrar vörur viðauka IIIB inn án magntakmarkana og þarflaust verður því að úthluta tollkvóta fyrir þær. Um tolla á slíkar vörur fer samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 12. gr. tollalaga.
    Í lokamálslið núgildandi 3. mgr. 65. gr. búvörulaga er að finna heimild ráðherra til að veita almenna heimild til innflutnings á þeim tollum sem gilda um tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðaukum IIIA og IIIB við tollalög. Á grundvelli hennar er veitt heimild til innflutnings á fjölmörgum vörum í 5.–35. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög. Vörurnar falla undir ríkjandi markaðsaðgang samkvæmt viðauka IIIB en hann tekur til vara sem fluttar voru inn fyrir gildistöku samningsins um aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) á grundvelli undanþágu frá innflutningsbanni. Í raun hefur innflutningur á grundvelli almennu heimildarinnar ekki verið háður magntakmörkunum en á hann hafa verið lagðir tollar samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög.
    Tillögunni er ætlað að skýra þá framkvæmd sem hefur tíðkast frá gildistöku laga nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.
    Eins og áður segir hefur almenn heimild 3. mgr. 65. gr. verið bundin við vörur sem falla undir „ríkjandi markaðsaðgang“ samkvæmt viðauka IIIB við tollalög. Verði tillagan samþykkt mun heimild til innflutnings slíkra vara byggjast á skýrari grundvelli. Tollkvótum fyrir vörur sem falla undir tollskrárnúmerin 0602.9091, 0602.9093, 0603.1100, 0603.1400 og 0603.1909 í 6. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög, þ.e. pottaplöntur og afskorin blóm, verður eftir sem áður úthlutað á grundvelli ákvæða 65. gr. búvörulaga. Innflutningur á öðrum vörum viðauka IIIB verður hins vegar heimill án takmarkana á þeim tollum sem tíundaðir eru í 2. mgr. 12. gr. tollalaga.

Um 40. gr.

    Í tillögunni felst samræming ákvæða 65. gr. B búvörulaga og 12. gr. tollalaga. Með lögum nr. 160/2012, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum, voru gerðar ýmsar breytingar á framangreindum lögum. Með c-lið 7. gr. þeirra var 3. mgr. 12. gr. tollalaga skipt út fyrir tvær nýjar málsgreinar en á sama tíma láðist hins vegar að gera breytingu á tilvísun 1. mgr. 65. gr. B búvörulaga til 5. mgr. 12. gr. tollalaga.

Um 41. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við nýjum málslið í 1. mgr. 71. gr. núgildandi búvörulaga sem kveður á um að heimild ákvæðisins nái ekki til vara sem falla undir gildissvið EES-samningsins. Skv. 2. gr. laganna eru búvörur afurðir búfjár, þ.e. nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla og loðdýra, afurðir nytjajurta og afurðir hlunninda. Afurðir alifiska teljast ekki til búvara. Búvörur samkvæmt búvörulögum falla undir gildissvið EES- samningsins og um þær gilda því samkeppnisreglur samningsins. Búvörur sem falla undir bókun 3 við EES-samninginn falla ekki undir gildissvið samningsins og því gilda samkeppnisreglur EES-samningsins ekki um þær vörur.

Um 42. gr.

    Sameiningu sjóða Grænmetisverslunar landbúnaðarins og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins er lokið og ákvæðið því óþarft.

Um 43. gr.

    Vegna breytinga á IV. kafla búvörulaga um verðlagningu er lagt til að felld verði brott 2. mgr. 76. gr. sem snertir hlutverk verðlagsnefndar búvöru.

Um 44. gr.

    Lagt er til að fyrirsögn kaflans verði Innflutningur landbúnaðarvara og úthlutun tollkvóta þar sem núverandi fyrirsögn um vinnslu og sölu búvara er ekki lengur í samræmi við efni kaflans.

Um 45. gr.

    Vegna breytinga á IV. kafla búvörulaga um verðlagningu er lagt til að 78. gr. laganna varðandi verðlagsnefnd falli brott. Þá er einnig lagt til að 79. gr. laganna verði felld brott þar sem kveðið er á um reglugerðarheimildir ráðherra í 81. gr.

Um 46. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu ráðherra til að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laganna. Með frumvarpi þessu hefur reglugerðarheimildum laganna verið safnað saman í eitt ákvæði til að gefa skýra mynd af þeim atriðum sem gert er ráð fyrir að kveðið verði nánar á um í reglugerð. Að öðru leyti er vikið að skyldu ráðherra til að setja reglur og reglugerðir í tengslum við einstök ákvæði eftir því sem ástæða þykir til. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um heimildir ráðherra til að setja nánari fyrirmæli um verkefni, valdsvið og starfsskilyrði verðlagningarnefndar mjólkurvara og framkvæmdanefndar búvörusamninga, en ráðherra er ekki skylt að setja slíka reglugerð.

Um 47. og 48. gr.

    Lagt er til að 83., 84. og 85. gr. búvörulaga verði felldar brott þar sem ákvæðin eiga ekki við í núverandi kerfi.

Um 49. gr.

    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða sem ekki eru lengur í gildi falli brott. Þá hefur efni ákvæða til bráðabirgða W og X verið fært inn í ákvæði búvörulaga sem almennt ákvæði í 32. gr. um röskun framleiðsluskilyrða.

Um 50. gr.

    Lagt er til að tvö ný ákvæði til bráðabirgða bætist við búvörulög. Í fyrsta lagi er um að ræða ákvæði er varðar skyldu verðlagningarnefndar mjólkurvara til að ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks. Í samræmi við ákvæði samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar mun heimild þessi falla úr gildi um leið og greiðslumark mjólkur verður lagt niður 1. janúar 2021. Í öðru lagi er um að ræða ákvæði er varðar samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007, með síðari breytingum, en samningurinn að óbreyttu gildir til 31. desember 2017. Gert er ráð fyrir að samningurinn falli úr gildi 1. janúar 2017 að undanskildu ákvæði 4.2. samningsins varðandi búskaparlokasamninga sem heldur gildi sínu til 31. desember 2017.

Um 51. gr.

    Í greininni er gerð breyting á hugtakinu ræktunarstöð þar sem bætt er við skilgreininguna hugtakinu einangrunarstöð. Þannig getur ræktunarstöð verið í senn sæðingastöð og einangrunarstöð. Þá er að finna nýmæli í 11. tölul. þar sem skilgreint er hugtakið landgreiðslur.

Um 52. gr.

    Í greininni eru sett fram markmið búnaðarlaga en þau eru með frumvarpinu samræmd áherslum í markmiðum rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjaafurða, nautgriparæktar og sauðfjárræktar árin 2017–2026.

Um 53. gr.

    Í greininni er lagt til að samningstími búnaðarlagasamnings verði lengdur úr fimm árum í tíu ár til samræmis við gildistíma búvörusamninga samkvæmt búvörulögum, nr. 99/1993. Þá er einnig lagt til að endurskoða skuli samninginn á samningstímabilinu eins og búvörusamninga.
    Helstu breytingar á 2. mgr. 3. gr. laganna snúa að því að bæta við þeim verkefnum sem búnaðarlagasamningurinn tekur til, þ.e. landgreiðslum, nýliðun og lífrænni framleiðslu.
    Þá er einnig skýrð heimild Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, sem er hlutafélag í eigu Bændasamtaka Íslands, til gjaldtöku fyrir leiðbeiningarþjónustu.
    Einnig er bætt við nýrri málsgrein þar sem er að finna þau skilyrði sem framleiðandi þarf að uppfylla til að geta fengið greiðslur samkvæmt búnaðarlagasamningi. Afmörkunin er sambærileg í búvörulögum og nánar um greinina vísast til athugasemda við 12. gr. frumvarpsins.

Um 54. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 7. gr. gildandi búnaðarlaga en lagt er til að landgreiðslum sé bætt við greinina þar sem sambærileg sjónarmið liggja að baki framlögunum.

Um 55. gr.

    Til samræmis við flutning stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar með lögum nr. 46/2015, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, lögum um Matvælastofnun og tollalögum, er lagt til að Matvælastofnun annist eftirlit með að jarðabætur séu unnar í samræmi við áætlun.

Um 56. gr.

    Lagt er til að fyrirsögn kaflans verði breytt þannig að efni hans nái einnig til landgreiðslna.

Um 57. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða núgildandi 9. gr. búnaðarlaga en lagt er til að einnig verði það haft að markmiði að tryggja framfarir á sviði stofnræktunar og útvalsathugana plantna.

Um 58. gr.

    Lagt er til að orðin „fyrir búfé“ verði felld brott í 1. málsl. 11. gr. laganna þar sem ákvæðið nær einnig til plantna en ekki eingöngu búfjár.

Um 59. gr.

    Lagt er til að fyrirsögn kaflans verði breytt til samræmis við hugtakanotkun í rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins, þar sem í stað hugtaksins búfjárrækt er notað hugtakið kynbótaverkefni, sem er betur lýsandi um þau framlög sem kaflinn fjallar um.

Um 60. gr.

    Lagt er til að þrjár nýjar greinar bætist við ákvæði búnaðarlaga. Í fyrsta lagi er um að ræða nánari lýsingu á hlutverki framkvæmdanefndar búvörusamninga hvað varðar framkvæmd búnaðarlagasamnings og hver helstu verkefni nefndarinnar eru á grundvelli laganna. Um skipan nefndarinnar er fjallað í 31. gr. búvörulaga. Nánari skýringar um skipan nefndarinnar er að finna í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi er sérstaklega fjallað um þróunarframlög sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins ráðstafar til að styðja við kennslu, rannsóknir og leiðbeiningar og þróun í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt og eftir atvikum öðrum búgreinum. Í þriðja lagi er sérstaklega fjallað um markmið með framlögum til aðlögunar að lífrænni framleiðslu.

Um 61. gr.

    Lagt er til að kveðið verði með beinum hætti á um umreikning SDR í íslenskar krónur vegna ákvörðunar tolls á vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIA við tollalög. Gengi SDR getur tekið breytingum frá degi til dags en til að auka fyrirsjáanleika er talið rétt að festa gengisumreikning SDR við ákveðna dagsetningu. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að í athugasemdum við 7. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 160/2012 var upptaka SDR/kg viðmiðunarinnar skýrð á þann hátt að tollur miðist við tollabindingu í SDR (sérstök dráttarréttindi, e. Special Drawing Rights) á hvert kílógramm þeirrar vöru sem flutt er inn. Hér er ekki lögð til önnur breyting á viðmiðuninni en sú að viðmiðunardagsetning umreiknings SDR í íslenskar krónur er fest í lög með beinum hætti.

Um 62. gr.

    Magntollar á landbúnaðarvörum hafa haldist óbreyttir síðan þeir voru innleiddir um mitt ár 1995, með lögum nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Ef krónutala magntolls hefði fylgt vísitölu neysluverðs sést að raunvirði krónutölu magntolla hefur rýrnað um 60% frá árinu 1995 til ársins 2016, ef tekið er mið af vísitölunni. Hér er leiðréttingin gerð miðað við breytingu sem hefur orðið á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí 1995 þar sem meiri hluti kostnaðar við búrekstur og vinnslu afurða er háður innlendu verðlagi. Þó er kostnaðurinn vissulega einnig háður gengi íslensku krónunnar, helst hvað varðar innkaupsverð áburðar, olíu og fóðurs. Þeir magntollar sem lagt er til að verði uppfærðir til samræmis við verðlagsbreytingar eru svokallaðar viðkvæmar vörur, þ.e. undanrennu- og mjólkurduft auk osta.

Um 63. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Samningar um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, um starfsskilyrði nautgriparæktar og um starfsskilyrði sauðfjárræktar og rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017 til 2026.


www.althingi.is/altext/pdf/145/fylgiskjol/s1108-f_I.pdf

Neðanmálsgrein: 1
    1 www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/Acrobat/Mjolkurskyrsla_mai_2015_lokaskjal.pdf
Neðanmálsgrein: 2
    2 www.atvinnuvegaraduneyti.is/sjavarutvegs-og-landbunadarmal/frettir/nr/8789