Ferill 199. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 522  —  199. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um plastagnir í neysluvatni og verndun neysluvatns.


     1.      Hvernig er eftirliti með plastögnum í neysluvatni háttað á Íslandi og hverjar hafa niðurstöður þess eftirlits verið?
    Frétt vefmiðilsins Orb Media af niðurstöðum mælinga sem hann lét gera á plastögnum í drykkjarvatni vakti töluverða athygli í september árið 2017. Samkvæmt niðurstöðum mælinganna fundust plastagnir í 94% sýna sem mæld voru í Bandaríkjunum og 72% sýna í Evrópu. Í hálfum lítra drykkjarvatns reyndust að jafnaði 4,8 agnir í Bandaríkjunum en 1,9 agnir í Evrópu. Ekki voru mæld sýni frá Íslandi í þessari rannsókn.
    Ekki hefur til þessa þótt tilefni til eftirlits með plastögnum í íslensku neysluvatni, en í ljósi niðurstaðna Orb Media ákváðu Veitur að ráðast í rannsókn á því hvort plastagnir fyndust í neysluvatni á Reykjavíkursvæðinu. Samkvæmt niðurstöðum Veitna reyndust vera 0,1–0,2 agnir í hverjum hálfum lítra vatns, sem er töluvert lægra en mældist í rannsókn Orb Media.

     2.      Hvernig er eftirliti með plastögnum úr drykkjarumbúðum og matvælaumbúðum háttað? Hverjar hafa niðurstöður þess eftirlits verið?
    Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Matvælastofnun hafa eftirlit með notkun matvælaumbúða í fyrirtækjum og gildir það einnig um yfirborð sem snertir matvæli, svo sem færibönd. Þessir aðilar hafa eftirlit með matvælasnertiefnum, þ.e. framkvæmd reglugerðar um efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, nr. 398/2008. Með reglugerðinni er innleidd reglugerð Evrópusambandsins og gilda því sömu reglur á Íslandi og innan sambandsins. Vörur sem koma frá svæðum utan EES eru eftirlitsskyldar og er eftirlitið í höndum Matvælastofnunar. Stofnunin heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Sérstök reglugerð, sem einnig á rætur í Evrópusambandinu, gildir um efnivið og hluti úr plasti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, nr. 374/2012. Reglurnar gilda um efni sem notuð eru til þess að framleiða plast og eru ákveðin efni bönnuð og fyrir önnur eru skilgreind viðmiðunargildi. Einnig eru sett takmörk fyrir því hvað varðar matvælaumbúðir í hve miklum mæli einstök efni fá að berast úr umbúðum í matvæli. Öllum matvælasnertiefnum úr plasti þarf að fylgja svokölluð samræmisyfirlýsing frá framleiðanda eða dreifingaraðila, sem skal hægt að rökstyðja með mælingum og útreikningum á flæði efna úr umbúðunum. Umbúðir eru einn af þeim þáttum sem skoðaðir eru þegar eftirlitsmenn Matvælastofnunar fara í framleiðslufyrirtæki, s.s. matvælavinnslur. Matvælaöryggisstofnun Evrópu ber ábyrgð á áhættugreiningu efna sem nota skal í hluti sem komast í snertingu við matvæli.
    Ekki er sérstakt eftirlit með plastögnum úr umbúðum, en samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun eru plastagnir ekki vandamál varðandi umbúðir meðan þær gegna hlutverki sínu. Þegar þær fara síðan að brotna niður myndast plastagnir.

     3.      Með hvaða hætti er fylgst með því að framleiðendur losi ekki plastagnir í andrúmsloftið? Hvernig er eftirliti með plastögnum í andrúmslofti háttað og hverjar hafa niðurstöður þess eftirlits verið?
    Á Íslandi eru framleiddar ýmsar vörur úr plasti, svo sem plastumbúðir og ílát, rotþrær, rör og frauðplast. Starfsleyfis frá heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags er krafist vegna slíkrar starfsemi. Í starfsleyfum skulu vera ákvæði sem tryggja að atvinnureksturinn sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar. Heilbrigðiseftirlit á viðkomandi svæði annast reglubundið mengunarvarnaeftirlit með starfseminni.
    Vöktun á loftgæðum hér á landi hefur eflst á undanförnum árum. Bæði hefur mælistöðum og þeim efnum sem mæld eru fjölgað. Svifryk er meðal þeirra þátta sem vaktaðir eru en í þann flokk falla plastagnir. Magn plastagna er ekki vaktað sérstaklega. Gerðar voru rannsóknir á samsetningu svifryks í Reykjavík árin 2003, 2013 og 2015. Helstu uppsprettur ryksins eru malbik, sót, jarðvegur, salt og bremsuborðar. Eftir eldgos í Eyjafjallajökli var aska áberandi þáttur í rykinu. Vægi sóts hefur vaxið, sem að líkindum má rekja til aukinnar umferðar og hærra hlutfalls dísilbifreiða. Þetta er áhyggjuefni því að sótagnir eru fíngerðar og heilsuspillandi. Undanfarin ár hefur ársmeðaltal svifryks á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, þar sem álagið er hvað mest, verið undir heilsuverndarmörkum.

     4.      Hvað má ætla að slit á hjólbörðum losi árlega mikið af plastögnum í umhverfið? Hafa áhrif þess á heilsufar fólks verið metin?
    Losun vegna slits á hjólbörðum hefur ekki verið metin á Íslandi, en norrænar rannsóknir sýna að plastagnir í umhverfinu koma að stærstum hluta frá sliti af dekkjum og vegum vegna umferðar. Þessar agnir geta borist í yfirborðsvatn og niðurföll, en einnig þyrlast upp sem svifryk eða endað í jarðvegi í nágrenni akbrautanna.
    Árið 2014 var gerð samantekt af sameiginlegri rannsóknamiðstöð framkvæmdastjórnar ESB á rannsóknum sem birtar hafa verið um þetta efni ( Non-exhaust traffic related emissions – Brake and tyre wear PM). Þar kemur m.a. fram að hjólbarðar eru samsettir úr mismunandi gúmmíefnum auk annarra efna, svo sem fylliefna. Dekk endast að jafnaði 40.000–50.000 km og við það slitna 10–30% af gúmmíhluta barðans og berast út í umhverfið. Af því sem slitnar losna 0,1–10% sem svifryk. Miðað við létt ökutæki nemur losun vegna slits á hjólbörðum 4–13 mg af gúmmíryki á hvern ekinn kílómetra. Losunin er um stærðargráðu hærri fyrir þung ökutæki og einnig er losun frá nagladekkjum meiri en frá ónegldum dekkjum. Í ryki frá hjólbörðum finnast einnig önnur efni, svo sem sink, kopar, brennisteinn, kísill, mangan og kolefni.
    Í fyrrnefndri samantekt kemur fram að í ryki frá dekkjum og bremsubúnaði séu efni sem geti verið hættuleg. Ekki hafi þó verið gerðar heildstæðar rannsóknir sem tengja neikvæð heilsufarsáhrif við ryk frá þessum uppsprettum.

     5.      Hvernig hefur ráðuneytið fylgst með verndun vatnsverndarsvæða um land allt? Telur ráðuneytið að þau mál séu í góðu lagi?
    Samkvæmt ákvæðum skipulagsreglugerðar skal í skipulagsáætlunum mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun. Þar skulu sett fram stefnumið um einstaka þætti, m.a. um vatnsvernd. Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórna um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar innan marka sveitarfélagsins. Í skipulagsgögnum skal gera grein fyrir og marka stefnu um málefni, m.a. vatnsvernd, og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun. Marka skal stefnu um vatnsból, verndarsvæði þeirra og aðrar varnir gegn mengun vatns, sbr. einnig vatnaáætlun. Gera skal grein fyrir ástæðu verndar og reglum um umgengni, mannvirkjagerð og landnotkun á einstökum verndarsvæðum, og einnig svæðum sem njóta verndar í samræmi við vatnaáætlun, sbr. lög nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, eða ákvæði reglugerða er varða vatnsvernd og mengun vatns. Í deiliskipulagi skal staðsetja vatnsból, afmarka vatnsverndarsvæði og setja skilmála til að tryggja að vatnsból mengist ekki. Við gerð skipulagsáætlana skal tekið tillit til gildandi laga og reglugerða, t.d. reglugerðar um neysluvatn og reglugerðar um varnir gegn mengun vatns. Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd skipulagslaga og skipulagsreglugerðar og fylgist með stöðu skipulagsmála í sveitarfélögum.
    Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga ákvarða vatnsverndarsvæði umhverfis vatnsból, sem skiptast í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði. Brunnsvæði skulu vera algjörlega friðuð fyrir óviðkomandi umferð og framkvæmdum, öðrum en þeim sem nauðsynlegar eru vegna vatnsveitunnar. Á grannsvæði skal m.a. banna notkun á hættulegum efnum og takmarka framkvæmdir, og þá skal starfsemi á borð við vegalagningu vera undir ströngu eftirliti. Verndaraðgerðir á fjarsvæðum fara eftir aðstæðum, svo sem ef um er að ræða sprungur eða misgengi. Vatnsveitur bera ábyrgð á að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vatnsból spillist, en heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með ástandi neysluvatns, þ.m.t. vatnsbólum og brunnsvæði þeirra.
    Samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, skal Umhverfisstofnun annast gerð stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði þar sem m.a. skal koma fram lýsing á helsta álagi og áhrifum af starfsemi manna á ástand vatns. Umhverfisstofnun gaf út stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands árið 2013.
    Ekki hefur verið talið tilefni til þess að breyta ofangreindu fyrirkomulagi.

     6.      Í gegnum hvaða vatnsverndarsvæði er leyfð bílaumferð og telur ráðherra að slík umferð standist þær kröfur sem gera ætti til verndunar neysluvatns?
    Eins og fram kemur í svari við 5. tölulið fyrirspurnar þessarar ákvarða heilbrigðisnefndir vatnsverndarsvæði umhverfis vatnsból. Sveitarfélög geta sett sér samþykktir um verndarsvæði vatnsbóla, um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum og gert ítarlegri kröfur, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Slíkar samþykktir hafa verið gerðar um verndarsvæði vatnsbóla í Ísafjarðarbæ og verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu. Í samþykkt sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins kemur fram að brunnsvæði skuli vera algjörlega friðuð fyrir óviðkomandi umferð, sbr. ákvæði reglugerðar um neysluvatn. Ákvæði eru um vegi og samgöngur á grann- og fjarsvæðum sem tryggja skulu öryggi vatnsbólanna. Dæmi um vegi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins eru Suðurlandsvegur (þjóðvegur nr. 1), Bláfjallavegur, Krýsuvíkurvegur, vegir í Heiðmörk og Þingvallavegur ofan við Gljúfrastein. Framkvæmd ákvæða laga, reglugerða og samþykkta sveitarfélaga á að tryggja að umgengni um vatnsverndarsvæðin sé í samræmi við mat á hættunni á að vatnsból spillist.

     7.      Telur ráðherra að reglur um sölu á rörum til flutnings á neysluvatni tryggi að rörin gefi ekki frá sér plastagnir sem geti borist í vatnið? Eru til reglur sem tryggja nægilegar kröfur til slíkra röra að mati ráðherra?
    Um byggingarvörur, þ.m.t. neysluvatnslagnir, gilda lög um byggingarvörur, nr. 114/2014. Með lögunum var innleidd reglugerð ESB nr. 305/2011, um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara. Í lögunum kemur fram að byggingarvörur sem markaðssettar eru til notkunar í mannvirki skuli auk skilyrða laganna uppfylla ákvæði ESB-reglugerðarinnar. Þetta þýðir að hér gilda sömu reglur um neysluvatnslagnir og annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu. Samhæfðir evrópskir staðlar liggja til grundvallar svokölluðum CE-merkingum (fr. Conformité Européenne), en vörur sem uppfylla kröfur til CE-merkinga hafa verið metnar með tilliti til öryggis, heilsu og umhverfisverndar. Varðandi byggingarvörur sem falla ekki undir kröfu um CE-merkingu skal framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, innflytjandi og dreifandi, tryggja að gerð sé fullnægjandi grein fyrir nothæfi vörunnar, m.a. að varan spilli ekki gæðum neysluvatns. Jafnframt er gerð krafa um framleiðslustýringu og gerðarprófun sem og um staðfestingu óháðs aðila.
    Innleiðing samevrópskra staðla og gæðakrafna er afar gagnleg leið til að tryggja gæði og öryggi byggingarvara á Íslandi. Að baki slíkum gæðastöðlum liggur gríðarlega umfangsmikið starf sem einungis er á færi fjölmennra þjóða.

     8.      Hvaða áhrif hefur vatnatilskipun Evrópusambandsins, svo og rammatilskipun um vatn, haft á stöðu þessara mála á Íslandi?
    Vatnatilskipun Evrópusambandsins var innleidd á Íslandi árið 2011 með lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Markmið laganna er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Lög þessi taka til yfirborðsvatns og grunnvatns ásamt árósavatni og strandsjó, til vistkerfa þeirra og til vistkerfa sem tengjast þeim að vatnabúskap.
    Kjarni laganna um stjórn vatnamála er gerð og framkvæmd vatnaáætlunar, sem gildir 6 ár í senn. Áður en lokið er við gerð vatnaáætlunar þarf að gera stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands, áætlun um vöktun á ástandi yfirborðsvatns og grunnvatns og um vöktun svæða sem njóta verndar, og aðgerðaáætlun sem skal taka til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til þess að ná fram umhverfismarkmiðum sem sett hafa verið.
    Lokið var við hagfræðilega greiningu á nýtingu vatns árið 2010 og stöðuskýrslu árið 2013. Vinna við vöktunaráætlun er hafin en ekki er hafin vinna við gerð aðgerðaáætlunar og vatnaáætlunar. Í ákvæðum til bráðabirgða við lögin kemur fram að ráðherra skuli staðfesta fyrstu vatnaáætlunina eigi síðar en 1. janúar 2018. Þetta markmið náðist ekki því að fjármögnun verkefnisins var ekki tryggð. Á árinu 2017 hófst á nýjan leik vinna við undirbúning fyrstu vatnaáætlunarinnar.
    Með vatnaáætlun munu lögin hafa áhrif á vatnsvernd og neysluvatn því að í vatnaáætlun skal m.a. tilgreina öll vatnshlot til neysluvatnstöku þar sem vatnstaka er meiri en 10 rúmmetrar á dag að meðaltali eða þar sem fleiri en 50 einstaklingum er séð fyrir neysluvatni.

     9.      Telur ráðherra að við aðalskipulag og deiliskipulag sé tekið nægilegt tillit til neysluvatns sem auðlindar?
    Gerð skipulagsáætlana, svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags er á forræði sveitarfélaga. Við gerð áætlananna ber þeim að taka mið af gildandi lögum og reglugerðum. Sveitarstjórnir fjalla einnig um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum.
    Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd skipulagslaga, fylgist með stöðu skipulagsmála í sveitarfélögum og aðstoðar og leiðbeinir sveitarfélögum við gerð skipulagsáætlana.
    Áður en tillaga að aðalskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, forsendur hennar og umhverfismat, þegar við á, kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Að lokinni kynningu skal aðalskipulagstillagan lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Hún skal síðan senda Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar. Telji Skipulagsstofnun að tillagan fullnægi ekki settum kröfum um aðalskipulag skal hún leita samkomulags við sveitarstjórn um breytingar. Sveitarstjórn skal síðan auglýsa tillögu að aðalskipulagi með áberandi hætti og gefst þá hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Ákveði sveitarstjórn að breyta tillögunni í ljósi athugasemda skal hún auglýst á nýjan leik. Eftir að sveitarstjórn hefur samþykkt tillögu að aðalskipulagi skal hún senda Skipulagsstofnun tillöguna til staðfestingar.
    Ákvæði skipulagslaga eiga að tryggja gæði skipulagsáætlana með aðkomu Skipulagsstofnunar og kynningarferli þar sem þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta gefst tækifæri á að gera athugasemdir. Ekki er ástæða til þess að ætla að þetta ferli sé ekki nægilegt til að fullnægjandi tillit sé tekið til neysluvatns sem auðlindar.

     10.      Hver er stefnumörkun ráðherra til að koma í veg fyrir mengun neysluvatns, svo og matvæla og andrúmslofts, af plastögnum?
    Á undanförnum árum hefur athyglin í ríkari mæli beinst að plasti og skaðsemi þess, einkum fyrir lífríki sjávar. Milljónir tonna af plasti berast árlega til sjávar og hafa þar margvísleg áhrif. Með aukinni þekkingu hefur örplast, þ.e. smágerðar plastagnir, og hugsanleg skaðsemi þess fengið aukna athygli umhverfisyfirvalda og almennings. Unnið er að rannsóknum á þessu sviði en þekkingin er takmörkuð enn sem komið er.
    Á Íslandi, sem í öðrum löndum, er aukin áhersla á að draga úr mengun vegna plasts. Lögð er sérstök áhersla á plastmengun í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að „ráðist [verði] í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda“.
    Árið 2016 var sett fram aðgerðaáætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem hefur það að markmiði að draga úr plastpokanotkun á Íslandi. Áætlunin, sem er í 14 liðum, gildir fyrir árin 2016–2018.
    Á fundi norrænna umhverfisráðherra í maí árið 2017 var sett fram áætlun um að draga úr umhverfisáhrifum plasts. Markmiðið er að draga úr mengun plasts á Norðurlöndunum, m.a. með því að miðla nýrri þekkingu milli landanna og niðurstöðum rannsókna. Ísland mun leggja áherslu á verkefni til að draga úr plastmengun í formennsku sinni árið 2019 í norrænu ráðherranefndinni.
    Umhverfisráðherrarnir ákváðu einnig á fundi sínum að styðja við #CleanSeas, átaksverkefni Umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna ( UNEP), sem hefur fræðslu um orsakir og afleiðingar úrgangs í hafinu að markmiði.
    Árið 2016 gaf umhverfis- og auðlindaráðherra út stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, sem hefur það að markmiði að draga úr myndun úrgangs og hráefnisnotkun og bæta nýtingu auðlinda. Árin 2016–2017 var áherslan á að draga úr sóun matvæla en næstu tvö ár verður áhersla lögð á að draga úr notkun plasts.
    Um þessar mundir vinnur umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samvinnu við undirstofnanir, að samantekt þekkingar er varðar plast og plastmengun. Á grunni þeirrar vinnu hyggst ráðherra móta sérstaka stefnu er snýr að rannsóknum og vöktun, fræðslu um plastmengun og áhrif hennar á lífríki og umhverfi, tillögum að stjórnvaldsaðgerðum, og að hreinsun plasts úr umhverfi okkar.