Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 596  —  436. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um ökutækjatryggingar.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að traustri vátryggingarvernd vegfarenda hér á landi og að ökutæki séu með lögmæltar ökutækjatryggingar.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækja hér á landi.
    Lögin gilda ekki í eftirfarandi tilvikum:
     a.      þegar ökutæki er notað í öðrum tilgangi en sem ökutæki.
     b.      þegar ökutæki tekur þátt í aksturskeppni á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir skv. 39. gr. umferðarlaga.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) eða Færeyjar.
     2.      Græna kortið: Alþjóðlegt vátryggingarskírteini útgefið af lögbærum aðila sem staðfestir að ábyrgðartrygging ökutækis sé í gildi.
     3.      Lögmæltar ökutækjatryggingar: Ábyrgðartrygging skv. 8. gr. og slysatrygging ökumanns og eiganda skv. 9. gr.
     4.      Tjónsuppgjörsmiðstöð: Lögaðili sem getur greitt bætur vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis við ákveðin skilyrði.
     5.      Umráðamaður: Aðili sem hefur umráð ökutækis með samþykki eiganda þess og er skráður þannig í ökutækjaskrá.
     6.      Upplýsingamiðstöð: Lögaðili sem aðstoðar við að afla nauðsynlegra upplýsingar vegna tjónamáls þegar tjónþoli er búsettur hér á landi, ökutækið vátryggt eða að öllu jöfnu staðsett hér á landi eða tjónið er hér á landi að ákveðnum skilyrðum fullnægðum.
     7.      Ökutæki: Skráningarskylt ökutæki samkvæmt umferðarlögum.

II. KAFLI

Skaðabótaábyrgð vegna tjóns.

4. gr.

Grundvöllur ábyrgðar.

    Eigandi (umráðamaður) ökutækis skal bæta tjón sem hlýst af notkun þess þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á ökutækinu eða ógætni ökumanns.
    Eigandi (umráðamaður) ökutækis sem notað er til dráttar er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar það dregur annað ökutæki. Undanskilin skaðabótaábyrgð eru ökutæki í eigu björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar þegar þau draga önnur ökutæki í björgunarstarfi með sannanlegu samþykki eiganda (umráðamanns).
    Þegar ökutæki dregur eftirvagn eða annað tæki sem fest er við það telst það vera ein heild og eigandi (umráðamaður) ökutækisins er ekki skaðabótaskyldur ef tjón verður á eftirvagninum eða tækinu.
    Bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda má lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
    Bætur fyrir tjón á munum má lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi.

5. gr.

Skipting tjóns.

    Ef tjón hlýst af árekstri ökutækja skiptist tjónið á þau í réttu hlutfalli við sök þeirra sem hlut eiga að máli og með hliðsjón af atvikum öllum.

6. gr.

Ábyrgð.

    Eigandi ökutækis ber ábyrgð á því og er fébótaskyldur skv. 4. og 5. gr. Ef umráðamaður er skráður í ökutækjaskrá ber hann ábyrgðina og er fébótaskyldur skv. 4. og 5. gr. Fébótaskyldan færist þó yfir á þann sem notar ökutækið í algeru heimildarleysi.
    Auk ábyrgðar skv. 1. mgr. fer um bótaábyrgð eftir almennum skaðabótareglum.

7. gr.

Undanþága.

    Ákvæði 4.–6. gr. gilda ekki um létt bifhjól í flokki I samkvæmt umferðarlögum.

III. KAFLI

Vátryggingarskylda.

8. gr.

Ábyrgðartrygging ökutækis.

    Greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækis skal vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá:
     a.      vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi útgefið hér á landi til að taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja eða
     b.      vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi í aðildarríki, enda hafi Fjármálaeftirlitinu verið tilkynnt á lögformlegan hátt að það taki að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi.
    Ábyrgðartrygging skal gilda í aðildarríkjum á grundvelli eins og sama iðgjalds. Vátryggingin skal veita þá vátryggingarvernd í hverju aðildarríki sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi ríkis eða þá vátryggingarvernd sem mælt er fyrir um í íslenskri löggjöf þegar sú vernd er víðtækari. Vátryggingin skal gilda allt samningstímabilið þótt vátryggt ökutæki sé staðsett í öðru aðildarríki á því tímabili.
    Vátryggingafélög sem taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi, sbr. 1. mgr., skulu vera aðilar að og taka þátt í starfsemi tjónsuppgjörsmiðstöðvar skv. 17. gr. og upplýsingamiðstöðvar skv. 18. gr.
    Vátryggingafélag sem hyggst taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi skal tilkynna það til Samgöngustofu.
    Ábyrgðartrygging ökutækja skal tryggja bætur vegna líkamstjóns eða vegna missis framfæranda allt að 3.740 millj. kr. og vegna tjóns á munum allt að 433 millj. kr. sem hlýst af hverjum einstökum tjónsatburði.
    Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, að breyta vátryggingarfjárhæðum skv. 5. mgr. Ákvörðun ráðherra um breytingu fjárhæða skal birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.

9. gr.

Slysatrygging ökumanns og eiganda.

    Auk ábyrgðartryggingar skv. 8. gr. skal hver ökumaður sem stjórnar ökutæki tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 1. mgr. 6. gr. Vátryggingin skal tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis, sbr. 4. gr.
    Slasist vátryggingartaki sem farþegi í eigin ökutæki eða af völdum þess skal hann eiga rétt til bóta úr vátryggingu þessari, enda verði líkamstjónið rakið til notkunar ökutækis, sbr. 4. gr.
    Vátryggingin skal tryggja hverjum tjónþola bætur allt að 280 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Vátryggt skal hjá sama vátryggingafélagi og ábyrgðartryggir ökutækið. Um ákvörðun bótafjárhæðar fer eftir I. kafla skaðabótalaga.
    Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, að breyta vátryggingarfjárhæðum skv. 3. mgr. Ákvörðun ráðherra um breytingu fjárhæða skal birt með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
    Ef tjónþoli á rétt á skaðabótum vegna slyssins eftir lögum þessum eða öðrum skaðabótareglum lækka bætur úr þessari vátryggingu sem því nemur.

10. gr.

Vátryggingarskylda.

    Vátryggingarskylda skv. 8. og 9. gr. hvílir á eiganda ökutækisins. Heimilt er að semja um að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni og skal hann þá hafa val um hjá hvaða vátryggingafélagi hann vátryggir.
    Eigi er skylt að vátryggja ökutæki í eigu ríkissjóðs.
    Ráðherra getur veitt undanþágu frá því að ökutæki sem eru í eigu erlendra ríkja eða alþjóðastofnana hafi ökutækjatryggingu.
    Ef ökutæki er ekki vátryggt skv. 2. og 3. mgr. ber ríkissjóður ábyrgð á sama hátt og vátryggingafélag sem tekið hefur að sér vátryggingu skv. 8. og 9. gr.
    Vátryggingafélagi, sem hefur starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi, er skylt að veita lögboðnar ökutækjatryggingar sérhverjum þeim vátryggingarskylda aðila sem undirgengst boðna vátryggingarskilmála.

11. gr.

Undanþága frá vátryggingarskyldu.

    Létt bifhjól í flokki I samkvæmt umferðarlögum eru undanþegin vátryggingarskyldu skv. 8.–10. gr.
    Ökutæki sem eru eingöngu ætluð til aksturs utan vega eða í brautum og skráð eru sem torfærutæki eru undanþegin vátryggingarskyldu.

12. gr.

Vátryggingariðgjald.

    Lögboðið vátryggingariðgjald ökutækis ásamt vöxtum og kostnaði hvílir sem lögveð á ökutækinu og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvíla í tvö ár frá gjalddaga nema gjöldum til ríkissjóðs. Á grundvelli slíks lögveðs má krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Lögveðið fellur ekki niður við eigendaskipti.

13. gr.

Lok vátryggingar.

    Hafi iðgjald, auk áfallins kostnaðar, eigi verið greitt innan 14 daga frá sendingu tilkynningar skv. 1. mgr. 33. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, eða að liðnum greiðslufresti skv. 2. mgr. 32. gr. sömu laga, fellur vátrygging ökutækis úr gildi. Vátryggingafélagið skal þá þegar senda tilkynningu um það til Samgöngustofu. Falli vátrygging úr gildi af annarri ástæðu en vanskilum skal félagið tilkynna það Samgöngustofu þegar eftir að vátryggingin er fallin úr gildi.
    Auk tilkynningar til Samgöngustofu skv. 1. mgr. skal félagið gera eiganda ökutækis og umráðamanni, sé hann skráður, viðvart og kynna honum réttaráhrif slíkrar tilkynningar.
    Vátryggingafélag skal hvorki senda tilkynningu skv. 1. mgr. né gera eiganda ökutækis eða umráðamanni viðvart skv. 2. mgr. ef það hefur vitneskju um að ökutæki hafi verið vátryggt hjá öðru félagi, það afskráð eða skráningarmerki þess lögð inn til vörslu Samgöngustofu eða þess sem hefur umboð til að taka við skráningarmerkjum. Framangreind tilvik teljast uppsögn vátryggingarsamnings og hafa sömu réttaráhrif og lok vátryggingar. Skráningarmerki skal ekki afhenda aftur nema ökutækið hafi verið vátryggt að nýju.

IV. KAFLI

Réttarstaða tjónþola. Óvátryggð og óþekkt ökutæki.

14. gr.

Réttarstaða tjónþola.

    Vátryggingafélag ber áfram ábyrgð á tjóni gagnvart þriðja manni sem verður þótt ábyrgðartrygging sé fallin úr gildi þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að vátryggingafélag sendi Samgöngustofu tilkynningu skv. 1. mgr. 13. gr.
    Vátryggingafélag ber ekki ábyrgð á grundvelli slysatryggingar ökumanns og eiganda, sbr. 9. gr., eftir að tilkynning skv. 1. mgr. 13. gr. hefur verið send.

15. gr.

Tjón af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja.

    Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða tjónþola bætur fyrir líkamsáverka eða missi framfæranda vegna slyss hér á landi ef ætla má að tjónið hafi hlotist af notkun óþekkts ökutækis. Séu greiddar bætur fyrir líkamstjón skal jafnframt greiða bætur fyrir munatjón vegna sama tjónsatviks.
    Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða tjónþola bætur vegna tjónsatviks sem hlotist hefur hér á landi af notkun ökutækis sem engin ábyrgðartrygging hefur verið keypt fyrir eða vátrygging þess hefur verið felld niður af vátryggingafélagi eða ekki haldið í gildi.
    Bætur skv. 1. og 2. mgr. greiðast allt að þeirri vátryggingarfjárhæð sem er ákveðin í lögum þessum.
    Bætur skv. 1. og 2. mgr. greiðast ekki ef tjónsuppgjörsmiðstöð sýnir fram á að tjónþoli hafi vitað að ökutæki sem tjón hlýst af, og sem hann af fúsum vilja hefur tekið sér far í, hafi verið óvátryggt er tjónsatvikið varð. Sama á við um tjón á munum sem fluttir eru með ökutæki hafi eigandi eða sendandi þeirra vitað að það hafi verið óvátryggt. Skaðabætur eftir ákvæðum þessum skal ekki heldur greiða til að fullnægja endurkröfu frá þriðja manni.
    Tjónsuppgjörsmiðstöð bætir ekki tjón er ætla má að sé af völdum ökutækis sem undanþegið er vátryggingarskyldu og er í eigu ríkissjóðs Íslands, erlends ríkis eða alþjóðastofnunar. Ábyrgð á slíkum kröfum fer skv. 4. mgr. 10. gr.
    Tjónsuppgjörsmiðstöð á endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum íslensks réttar á hendur þeim sem bera skaðabótaábyrgð á tjóni af völdum óvátryggðs ökutækis, þ.m.t. eiganda og ökumanni. Sama á við hafi félagið greitt bætur fyrir tjón af völdum óþekkts ökutækis, ef síðar upplýsist um það. Í því tilviki á félagið einnig endurkröfurétt á hendur vátryggjanda ökutækisins. Ákvæði þessarar málsgreinar hagga ekki reglum um kröfur samkvæmt öðrum endurkröfuheimildum.

16. gr.

Tímabundin notkun erlendra ökutækja.

    Tjónsuppgjörsmiðstöð skal greiða skaðabætur vegna tjóns af völdum óvátryggðs erlends ökutækis sem um stundarsakir er notað hér á landi án þess að vera skráð hér.

V. KAFLI

Tjónsuppgjörsmiðstöð og upplýsingamiðstöð.

17. gr.

Tjónsuppgjörsmiðstöð.

    Tjónsuppgjörsmiðstöð getur greitt bætur vegna tjóns af völdum ökutækis ef:
     a.      tjónþoli er búsettur hér á landi,
     b.      ökutækið er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru aðildarríki, eða ökutækið er óþekkt, eða ekki er unnt að hafa uppi á því vátryggingafélagi sem vátryggði ökutækið og
     c.      tjónið varð í öðru aðildarríki eða í ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.
    Tjónsuppgjörmiðstöð getur greitt bætur vegna tjóns af völdum ökutækja sem vátryggð eru hér á landi ef:
     a.      tjónþoli er búsettur í öðru aðildarríki,
     b.      ökutækið er að jafnaði staðsett í öðru aðildarríki en þar sem tjónþoli er búsettur og
     c.      tjónið varð í öðru aðildarríki en þar sem tjónþoli er búsettur eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.


18. gr.

Upplýsingamiðstöð.

    Upplýsingamiðstöð aðstoðar við að afla grundvallarupplýsinga sem eru nauðsynlegar við meðferð tjónamáls ef tjónþoli er búsettur hér á landi, ökutækið er vátryggt eða að öllu jöfnu staðsett hér á landi, eða tjónið varð hér á landi. Þetta gildir þó því aðeins að:
     a.      tjónþoli sé búsettur í aðildarríki,
     b.      ökutækið sé vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í aðildarríki,
     c.      tjónið hafi orðið í aðildarríki eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.


VI. KAFLI

Greiðsluskylda og endurkröfuréttur.

19. gr.

Greiðsluskylda og endurkröfuréttur.

    Vátryggingafélag er greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna skv. 1. mgr. 8. gr.
    Nú hefur vátryggingafélag greitt bætur skv. 8. gr. og á þá félagið endurkröfurétt á hendur hverjum þeim sem valdið hefur tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Lækka má endurkröfu með hliðsjón af sök tjónvalds, efnahag hans, fjárhæð tjónsins eða öðrum atvikum. Enn fremur á vátryggingafélag endurkröfu á tjónvald hafi tjón verið greitt eftir að vátrygging er fallin niður skv. 14. gr.
    Óheimilt er að kaupa vátryggingu gegn endurkröfu vátryggingafélags.


20. gr.

Endurkröfunefnd.

    Ráðherra skipar nefnd þriggja manna sem ákveður hvort beita skuli endurkröfurétti vegna stórkostlegs gáleysis eða ásetnings þess sem ábyrgð ber á tjóni sem vátryggingafélag hefur bætt samkvæmt lögum þessum. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga. Skal einn nefndarmaður skipaður eftir tilnefningu vátryggingafélaga þeirra sem viðurkenningu hafa skv. 8. gr., einn eftir sameiginlegri tilnefningu Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Samtaka verslunar og þjónustu og einn án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Ef tilnefningaraðilar koma sér ekki saman um tilnefningu skipar ráðherra án tilnefningar. Skipunartími nefndarinnar skal vera þrjú ár.
    Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði en vátryggingafélög skulu endurgreiða þann kostnað.

VII. KAFLI

Bótakröfur.

21. gr.

Meðferð skaðabótamála.

    Nú er bótakrafa skv. 4. og 5. gr. höfð uppi í sakamáli og skal þá tilkynna því vátryggingafélagi sem hefur ábyrgðartryggt ökutækið um kröfuna. Hefur félagið þá sama rétt og sökunautur sjálfur til að koma að vörnum í skaðabótamálinu enda er þá áfellisdómur bindandi fyrir vátryggingafélagið og aðfararhæfur gagnvart því.
    Um meðferð bótakröfu í einkamáli fer eftir 44. gr. laga um vátryggingarsamninga.

22. gr.

Bætur hærri en vátryggingarfjárhæð.

    Ef bætur vegna tjóns eru ákveðnar hærri en vátryggingarfjárhæðinni nemur skal skipta henni að tiltölu á milli þeirra sem kröfur eiga vegna tjónsins. Þetta ákvæði gildir einnig þótt vátryggingarfjárhæðin sé hærri en lögboðið er.
    Ef einhver þeirra sem bótarétt eiga skv. 1. mgr. hefur eigi tilkynnt félaginu um kröfu sína innan sex mánaða frá tjónsatburði má vátryggingafélagið vítalaust greiða vátryggingarfjárhæðina að fullu öðrum þeim er bótarétt eiga.

23. gr.

Fyrning bótakrafna.

    Bótakröfur samkvæmt lögum þessum, aðrar en kröfur um bætur fyrir líkamstjón, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnast á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.
    Kröfur um bætur fyrir líkamstjón fyrnast á tíu árum frá tjónsatburði.

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

24. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

25. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra skal setja reglugerð um:
     a.      starfshætti endurkröfunefndar skv. 20. gr., þar á meðal hvernig vátryggingafélög senda nefndinni gögn um bótakröfur,
     b.      framkvæmd vátryggingarskyldu skv. 10. gr., þar á meðal skyldu vátryggingafélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja og skyldu vátryggingafélaga til að gefa út vottorð með upplýsingum um skaðabótakröfur vegna tjóns sem varða vátryggt ökutæki eða að ekki sé um slíkar kröfur að ræða.
    Ráðherra getur sett reglugerðir um:
     a.      þátttöku vátryggingafélaga í tjónsuppgjörsmiðstöð skv. 17. gr. og upplýsingamiðstöð skv. 18. gr.,
     b.      undanþágur frá vátryggingarskyldu samkvæmt lögum þessum vegna tiltekinna ökutækja skv. 10. gr.,
     c.      greiðslu bóta vegna tjóna er ökutæki, sem undanþegin eru vátryggingarskyldu skv. 2. og 3. mgr. 10. gr., valda erlendis,
     d.      greiðslu bóta frá tjónsuppgjörsmiðstöð og um starfsemi hennar skv. 17. gr.; hann getur enn fremur kveðið á um nánari reglur um meðferð bótakrafna hjá vátryggingafélögum og tjónsuppgjörsfulltrúum vátryggingafélaga skv. 5. tölul. 1. mgr. 18. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
     e.      starfsemi upplýsingamiðstöðvar skv. 18. gr., þar á meðal hvaða upplýsingar falla undir 1. mgr. 18. gr., um skyldu vátryggingafélaga og tjónsuppgjörsfulltrúa skv. 5. tölul 1. mgr. 18. gr. laga um vátryggingastarfsemi, til að láta upplýsingamiðstöð og upplýsingaskrifstofum í öðrum aðildarríkjum í té upplýsingar og nánari framkvæmd laga þessara,
     f.      heimild til að víkja frá ákvæðum laganna um fébótaábyrgð og vátryggingu vegna akstursíþrótta og aksturskeppni.

26. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/103/EB frá 16. september 2009 um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um að fylgja því eftir að vátrygging vegna slíkrar ábyrgðar sé tekin, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 117/2011 frá 21. október 2011.

27. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
    Við gildistöku laga þessara fellur úr gildi XIII. kafli umferðarlaga, nr. 50/1987.

Greinargerð.

1. Inngangur.
1.1. Forsaga og undirbúningur frumvarpsins.
    Forsaga frumvarpsins eru sú að 1. júlí 2008 skipaði þáverandi viðskiptaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til laga um ökutækjatryggingar sem kæmi í stað XIII. kafla gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987. Ákveðið var að færa ákvæði um ökutækjatryggingar í sérlög meðal annars vegna þess að samgönguráðuneytið (nú samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið) fór þá með mál er varða umferð ökutækja en viðskiptaráðuneytið (nú fjármála- og efnahagsráðuneytið) með mál er varða ökutækjatryggingar.
    Meginverkefni nefndarinnar var að færa reglur XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, í sérstök lög og semja ný lagaákvæði sem af þeirri breytingu leiddi. Auk þess yfirfór nefndin ákvæði gildandi laga. Við þá yfirferð var meðal annars tekið tillit til nýrrar löggjafar um vátryggingarsamninga, réttarframkvæmdar áranna á undan og ábendinga sem nefndinni bárust. Vegna tengsla við ákvæði umferðarlaga, bæði hvað varðar skilgreiningar, skráningu og skoðun ökutækja, var haldinn sameiginlegur fundur með nefnd þeirri sem samtímis vann að heildarendurskoðun umferðarlaga. Þá var sérstaklega fjallað um það hvort í lögum um ökutækjatryggingar skyldu vera reglur um atriði sem til þessa hafa eingöngu verið í reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar.
    Nefndin skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra í frumvarpsformi 9. júlí 2009. Hinn 6. ágúst 2009 auglýsti ráðuneytið frumvarpsdrögin á heimasíðu sinni og gaf almenningi kost á því að koma á framfæri athugasemdum. Að teknu tilliti til ábendinga sem fram komu, svo og þess að Evrópusambandið gaf út nýja tilskipun um ökutækjatryggingar 2009/103/EB, voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpsdrögunum. Þeirra helstar voru breytingar á ákvæðum um vanskil og úrræði vátryggjanda og lagt var til að vátryggingafélag bæri ábyrgð gagnvart þriðja manni á tjóni, sem fellur undir ábyrgðartryggingu ökutækis, í tiltekinn tíma frá því að hún fellur úr gildi en slíkt ætti ekki við um slysatryggingu ökumanns.
    Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar sem byggt var á niðurstöðum nefndarinnar var fyrst lagt fram á 139. löggjafarþingi 2010–2011 (þskj. 1230, 711. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarp um til laga um ökutækjatryggingar var aftur lagt fram á 140. löggjafarþingi 2011–2012 (þskj. 1171, 733. mál) og 141. löggjafarþingi 2012–2013 (þskj. 548, 439. mál) en þau hlutu ekki afgreiðslu.
    Frumvarp þetta er byggt á eldri frumvörpum. Ekki eru þó lögð til ákvæði um vantryggingagjald í þessu frumvarpi eins og áður var gert. Þá var lagt til að sérstakt vantryggingagjald yrði lagt á eigendur ökutækja sem greiddu ekki iðgjöld lögmæltra ökutækjatrygginga. Til skoðunar er í ráðuneytinu að fela starfshópi að fara yfir og greina nánar hvort fýsilegt sé að taka upp sérstakt vantryggingagjald hér á landi.

1.2. Sögulegt ágrip.
    Fyrstu lagaákvæði um bætur fyrir tjón af notkun bifreiða voru í lögum um notkun bifreiða, nr. 21/1914. Lögfest var víðtæk bótaregla sem tók til tjóns á hagsmunum utan bifreiðar og einnig tjóns á fólki eða varningi sem bifreið flutti ef bifreið var til afnota fyrir almenning gegn borgun. Í reglunni fólst sú undantekning frá almennum reglum um sönnun að sönnunarbyrði var lögð á þann sem ábyrgð bar á bifreiðinni þannig að hann varð bótaskyldur ef honum tókst ekki að sanna „að slysi eða tjóni hefði ekki orðið afstýrt, þótt bifreiðin hefði verið í lagi og ökumaður sýnt fulla aðgæslu og varkárni“. Þrátt fyrir breytingar á bifreiðalögum héldust bótareglur laga nr. 21/1914 að stofni til óbreyttar allt til 1958 en sérstök regla um árekstur bifreiða var lögfest með bifreiðalögum, nr. 23/1941.
    Með umferðarlögum, nr. 26/1958, var skaðabótareglum vegna tjóns af völdum umferðarslysa og umferðaróhappa breytt. Ábyrgð án sakar (hlutlæg bótaábyrgð) kom í stað sakarlíkindareglu. Gildissvið bótareglnanna var einnig rýmkað og tóku þær til fleiri ökutækja en bifreiða og bifhjóla. Enn fremur var reglum um ábyrgðaraðila breytt þannig að bótaábyrgð hvíldi á skráðum eða skráningarskyldum eiganda ökutækis, án tillits til þess hver hafði umráð tækisins.
    Umferðarlög, nr. 50/1987, öðluðust gildi 1. mars 1988. Þau fólu í sér nokkrar breytingar á skaðabótareglum. Helstu nýmæli voru tvö: 1. Gáleysi sem ekki er stórfellt skerðir ekki bótarétt manns sem slasast eða missir framfæranda. 2. Sama bótaregla (ábyrgð án sakar) gildir um tjón á mönnum eða munum sem fluttir eru með ökutæki, hvort sem flutt er gegn gjaldi eða ekki. Með lögum nr. 44/1993 var gerð sú breyting á 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga að umráðamaður ökutækis getur, auk eiganda, borið ábyrgð á tjóni sem skylt er að greiða eftir bótareglum laganna. Að öðru leyti standa skaðabótareglur umferðarlaga óbreyttar frá 1987.
    Í tengslum við breytingar á skaðabótareglum 1987 var það nýmæli lögleitt með 92. gr. umferðarlaga að skylt er að kaupa hjá vátryggingafélagi því sem ábyrgðartryggir ökutæki sérstaka slysatryggingu ökumanns til viðbótar slysatryggingu hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ákvæði 92. gr. umferðarlaga var breytt með lögum nr. 32/1998. Var orðalag ákvæðisins gert skýrara og jafnframt lögfest það nýmæli að hin sérstaka slysatrygging, sem áður tók aðeins til ökumanns, var einnig látin ná til vátryggingartaka er slasast „sem farþegi í eigin ökutæki eða af völdum þess“. Þá var tilvísun til slysatryggingar ökumanns samkvæmt lögum um almannatryggingar felld brott en ökumannstrygging almannatryggingalaga hafði verið felld brott með lögum nr. 104/1992.
    Ábyrgðartrygging ökutækja var fyrst lögleidd árið 1926, sbr. lög nr. 34/1926 og lög nr. 56/1926, um notkun bifreiða. Lagaákvæði um ábyrgðartryggingu bifreiða eru nú í XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, sjá 91. gr. og 93.–98. gr., sbr. og 99. gr., sem fjallar um fyrningu. Þá er í gildi reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 424/2008.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á fundi ríkisstjórnar 10. mars 2017 voru samþykkt áform um setningu nýrra umferðarlaga sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur nú, á haustþingi 2018, lagt fyrir Alþingi. Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda og var opið fyrir umsagnir 26. febrúar 2018–16. mars 2018. Umferðarlög nr. 50/1987 verða felld úr gildi ef frumvarp til nýrra umferðarlaga verður samþykkt á Alþingi en ákvæði XIII. kafli laganna um fébætur og vátryggingu munu þó halda gildi sínu áfram. Það er því nauðsynlegt að leggja fram þetta frumvarp þar sem ætlunin er að aðskilja kaflann um fébætur og vátryggingu frá umferðarlögum. Hentugra þykir að hafa sérlög um ökutækjatryggingar þar sem málefnið á undir fjármála- og efnahagsráðherra í stað þess að hafa kafla um ökutækjatryggingar í nýju frumvarpi til umferðarlaga.
    Frumvarp þetta felur í sér að sérstök lög munu gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja sem koma í stað XIII. kafla gildandi umferðarlaga. Gildandi lög hafa ákvæði um mörg þeirra atriða sem eru í frumvarpinu en frumvarpið hefur einnig ákvæði sem eru til komin vegna breytinga sem hafa orðið á réttarframkvæmd, breytinga á öðrum lögum og nýrra tillagna. Markmið frumvarpsins er annars vegar að gera gildandi lagaákvæði um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja skýrari og hins vegar að bæta við nýjum ákvæðum til að tryggja enn frekar réttaröryggi vegna tjóna af völdum vélknúinna ökutækja.

Innleiðing EES-gerða.
    Vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, ber Íslandi að haga réttarreglum sínum eftir tilskipun Evrópusambandsins 2009/103/EB frá 16. september 2009, um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja, og að fylgja því eftir að vátrygging vegna slíkrar ábyrgðar sé tekin. Tilskipunin fellir úr gildi tilskipun 72/166/EBE frá 24. apríl 1972, tilskipun 84/5/EBE frá 30. desember 1983, tilskipun 90/232/EBE frá 14. maí 1990, tilskipun 2000/26/EB frá 16. maí 2000 og tilskipun 2005/14/EB frá 11. maí 2005 (tilskipun 2009/103/EB). Með tveimur síðastnefndu tilskipununum, fjórðu og fimmtu tilskipununum svokölluðu, voru gerðar breytingar á umferðarlögum, sbr. lög nr. 26/2003 og lög nr. 155/2007. Þær leiddu einnig til breytinga á reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar. Verði frumvarp þetta að lögum munu ákvæði frumvarpsins vera í samræmi við tilskipun 2009/103/EB og þar með mun Ísland áfram uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar varðandi ökutækjatryggingar vegna EES-samningsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Helstu breytingar.
    Helstu breytingar frá gildandi lögum munu verða eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi munu sérstök lög gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja í stað XIII. kafla gildandi umferðarlaga.
    Í öðru lagi er lagt til að reglur um lok vátryggingar og tjón af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja verði í lögum í stað þess að vera í reglugerð eins og nú er.
    Í þriðja lagi er lögð til rýmkun á fyrningarreglum. Nú fyrnast allar kröfur á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfurnar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Í frumvarpinu er lagt til að fjögurra ára fyrningarfrestur eigi ekki við um bætur vegna líkamstjóns heldur að þær kröfur fyrnist á tíu árum.
    Aðrar breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Gildissvið laganna verður afmarkað nánar og lögfest verður sú framkvæmd að lögin gildi ekki þegar ökutæki er notað í öðrum tilgangi en sem ökutæki. Einnig fellur það utan gildissviðs laganna þegar ökutæki tekur þátt í aksturskeppni á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir samkvæmt umferðarlögum.
     2.      Lagt er til að hugtakið ökutæki miðist við skráningarskyld ökutæki. Tilskipun 2009/103/ EB leggur þá skyldu á herðar aðildarríkjum að sjá til þess að þeir sem verða fyrir tjóni af völdum ökutækja fái bætur. Enginn greinarmunur er gerður á því hvort viðkomandi ökutæki er skráningarskylt eða ekki. Án skráningarskyldu er eftirlit útilokað og því nauðsynlegt að láta vátryggingarskyldu haldast í hendur við skráningarskyldu samkvæmt frumvarpi til umferðarlaga.
     3.      Bætt er við skilgreiningu á hugtakinu umráðamaður en hugtakið er ekki skilgreint í núgildandi umferðarlögum. Í frumvarpi til umferðarlaga er sambærileg skilgreining á hugtakinu og er æskilegt að samhljóða skilgreining á hugtakinu sé bæði í lögum um lögmæltar ökutækjatryggingar og í umferðarlögum.
     4.      Undanskilin skaðabótaábyrgð eru þau ökutæki sem eru í eigu björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þegar þau draga önnur ökutæki í björgunarstarfi enda liggi fyrir samþykki eiganda eða umráðamanns ökutækisins sem bjargað er.
     5.      Sérstaklega er tekið fram að ef eftirvagn eða annað tæki er fest við ökutæki í notkun teljist ökutækið og hinn tengdi hlutur sem eitt ökutæki. Þessi tillaga er byggð á skilgreiningu hugtaksins ökutæki í tilskipun 2009/103/EB en í henni segir að ökutæki merki „any motor vehicle intended for travel on land and propelled by mechanical power, but not running on rails, and any trailer, whether or not coupled“.
     6.      Lagt er til að skýrt sé tekið fram að heimilt sé að semja um að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni. Í slíkum tilfellum ber eigandi þó eftir sem áður ábyrgð á því að ökutæki sé með lögmæltar tryggingar skv. frumvarpinu. Jafnframt er tekið fram að vátryggingafélag sem hefur starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, sé skylt að veita lögboðnar ökutækjatryggingar sérhverjum þeim vátryggingarskylda aðila sem undirgengst boðna vátryggingarskilmála, en sambærilegt ákvæði er nú í 1. gr. reglugerðar nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar.
     7.      Kveðið er nánar á um frá hvaða tímamarki lögveð telst hvíla á ökutæki. Einnig er áréttað að lögveðið nái aðeins til lögboðinna trygginga.
     8.      Kveðið er á um sameiginlega tilnefningu Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Samtaka verslunar og þjónustu á nefndarmanni í endurkröfunefnd, í stað tilnefningar Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Þessi breyting er tilkomin vegna þess að í 96. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sem fjallar um endurkröfunefnd, kemur fram að einn nefndarmanna skuli tilnefndur af landssamtökum bifreiðaeigenda og hefur ákvæðið verið túlkað þannig að í því felist sameiginleg tilnefning Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Samtaka verslunar og þjónustu. Ætlunin er að staðfesta það fyrirkomulag í frumvarpinu.
     9.      Kveðið er á um að eftirlit Fjármálaeftirlitsins skv. frumvarpinu taki aðeins til eftirlitsskyldra aðila skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

3.2. Meginreglur frumvarpsins.
    Meginreglur frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Eigandi ökutækis ber ábyrgð á því og skal bæta það tjón sem hlýst af notkun þess. Hér er um að ræða hina svokölluðu hlutlægu ábyrgðarreglu (ábyrgð án sakar). Ábyrgðarmaður ökutækis sem notað er til dráttar er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar það dregur annað ökutæki. Undanskilin þeirri ábyrgð eru eftirvagnar í skilningi umferðarlaga og önnur tæki sem fest eru við ökutæki í notkun enda teljast þau þá vera hluti ökutækisins.
     2.      Eigandi ökutækis ber ábyrgð á að ökutæki sé með tilskildar tryggingar, þ.e. ábyrgðartryggingu skv. 8. gr. frumvarpsins og slysatryggingu ökumanns og eiganda skv. 9. gr. frumvarpsins. Heimilt er þó að semja um að umráðamaður ökutækis vátryggi í sínu nafni og greiði iðgjöld vegna trygginga. Ábyrgð þess að ökutæki sé með tilskildar tryggingar hvílir í slíkum tilfellum sem fyrr á eiganda. Vátryggingafélag sem hefur starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, er skylt að veita lögboðnar ökutækjatryggingar sérhverjum þeim vátryggingarskylda aðila sem undirgengst boðna vátryggingarskilmála.
     3.      Ábyrgðartrygging skal gilda í aðildarríkjum á grundvelli eins og sama iðgjalds og skal hún veita þá vátryggingarvernd í hverju aðildarríki sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi ríkis eða þá vátryggingarvernd sem íslensk löggjöf mælir fyrir um þegar sú vernd er víðtækari. Vátryggingin skal gilda allt samningstímabilið þótt vátryggt ökutæki sé staðsett í öðru aðildarríki á því tímabili.
     4.      Lögboðið vátryggingariðgjald ökutækis skv. 8. og 9. gr. hvílir ásamt vöxtum og kostnaði sem lögveð á ökutæki og gengur fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á því hvíla nema gjöldum til ríkissjóðs í tvö ár frá gjalddaga.
     5.      Ábyrgðartrygging ökutækja skal tryggja bætur vegna líkamstjóns eða vegna missis framfæranda í samræmi við það sem nánar greinir í 8. gr. Slysatrygging ökumanns og eiganda, sbr. 9. gr., skal tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins eða vátryggingartaki sem farþegi í eigin ökutæki enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 4. gr.
     6.      Lækka má eða fella niður bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Einnig má lækka eða fella niður bætur vegna tjóns á munum ef tjónþoli var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi.
     7.      Í þeim tilfellum sem óvátryggt eða óþekkt ökutæki veldur tjóni þá skal tjónsuppgjörsmiðstöð greiða tjónþola bætur samkvæmt því sem nánar greinir í 14. gr. frumvarpsins. Skaðabætur greiðast ekki ef tjónsuppgjörsmiðstöð sýnir fram á að tjónþoli, sem af fúsum vilja hefur tekið sér far í ökutæki sem tjón hlýst af, vissi að lögmælt ábyrgðartrygging var ekki fyrir hendi er tjónsatvikið varð. Sama á við um tjón á munum sem fluttir eru með ökutæki sem eigandi eða sendandi þeirra vissi að var óvátryggt. Tjónsuppgjörsmiðstöð á endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum íslensks réttar á hendur þeim sem bera skaðabótaábyrgð á tjóni af völdum óvátryggðs ökutækis, þ.m.t. eiganda og ökumanni.
     8.      Vátryggingafélag er greiðsluskylt gagnvart tjónþola vegna bótakrafna skv. 1. mgr. 9. gr. Vegna slíkra greiðslna á vátryggingafélag endurkröfurétt á hendur þeim sem valdið hefur umræddu tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
     9.      Almennur fyrningarfrestur bótakrafna samkvæmt frumvarpinu er fjögur ár frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Kröfur um bætur fyrir líkamstjón fyrnast á tíu árum frá tjónsatburði.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. 

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaðilar vegna frumvarpsins eru eigendur vélknúinna ökutækja, vátryggingafélög og vegfarendur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og er byggt á frumvarpsdrögum sem áður hafa þrívegis verið lögð fram á Alþingi, síðast haustið 2012. Frumvarpið fór þá í gegnum samráðsferli og hagsmunaaðilar sendu inn athugasemdir.
    Ráðuneytið kynnti drög að frumvarpinu á fundi með vátryggingafélögum og Samtökum fjármálafyrirtækja vorið 2018 og tók tillit til athugasemda sem þar komu fram. Sömu aðilar fengu drög að frumvarpi til kynningar í ágúst og fengu tækifæri til að koma að athugasemdum.
    Áform um lagasetningu voru send til kynningar í öllum ráðuneytum 21. ágúst 2018 og frumvarpið var birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins 6. september 2018 þar sem veittar voru tvær vikur til að skila umsögnum. Í gáttina bárust þrjár umsagnir, frá sýslumanninum á Vestfjörðum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Samtökum ferðaþjónustunnar. Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök atvinnulífsins fengu aukinn frest til að skila umsögnum og bárust þær með tölvupósti. Ráðuneytið átti í kjölfarið fund með fulltrúum frá Samtökum fjármálafyrirtækja og vátryggingafélögunum að þeirra beiðni.
    Í umsögn sýslumannsins á Vestfjörðum, dags. 18. september 2018, Samtaka fjármálafyrirtækja, dags. 25. september 2018, Samtaka atvinnulífsins, dags. 25. september 2018, og Samtaka ferðaþjónustunnar, dags. 20. september 2018, er fjallað um úrræði vegna vantryggðra ökutækja, vantryggingagjald, en ákvæði þar að lútandi eru ekki lögð til í þessu frumvarpi. Í umsögnunum er eindregið mælt með því að hafa í frumvarpinu ákvæði um vantryggingagjald eða önnur úrræði sem gætu haft svipuð áhrif. Ráðuneytið telur að skoða þurfi betur möguleg úrræði, þ.m.t. framkvæmd sérstaks vantryggingagjalds og var frumvarpinu því ekki breytt að þessu leyti.
    Í umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar, dags. 19. september 2018, er lagt til að bætt verði við frumvarpið að skaðabótaábyrgð nái ekki til ökutækja sem draga önnur ökutæki vegna björgunarstarfa. Í umsögninni kemur fram að alloft séu ökutæki skilin eftir þar sem þau sitja föst þegar ökumönnum og/eða farþegum sé bjargað, t.d. á heiðum landsins. Samkvæmt gildandi lögum bera björgunaraðilar skaðabótaábyrgð á því tjóni sem þeir valda á ökutækjum sem eru dregin og hefur það orðið til þess að föst ökutæki eru skilin eftir. Þetta hefur leitt til enn meiri tafa á því að leysa úr umferðarteppu vegna ófærðar og hefur jafnvel enn meiri kostnað í för með sér fyrir eiganda ökutækja sem þurfa að láta sækja ökutækið síðar. Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði sem undanskilur björgunarsveitirnar skaðabótaábyrgð vegna dráttar verði lögfest ef það er með sannanlegu samþykki eiganda (umráðamanns).
    Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar kemur fram að samtökin telji að það eigi að teljast stórfellt gáleysi skv. 4. gr. að nota ekki lögbundin öryggisbelti. Ráðuneytið tekur ekki undir þessi sjónarmið og telur ekki unnt að ganga svo langt að fella það undir stórfellt gáleysi að nota ekki bílbelti. Þá telja samtökin að fjárhæðir í 8. og 9. gr. frumvarpsins séu verulega íþyngjandi. Fjárhæðirnar hafa eingöngu hækkað í takt við verðlagsbreytingar og eru fjárhæðirnar í frumvarpinu í samræmi við fjárhæðir í síðustu reglugerð sem ráðherra birti vegna uppfærslu á fjárhæðunum, nr. 254/2018, um breytingar á vátryggingarfjárhæðum lögmæltra ökutækjatrygginga. Á meðan ekki hafa verið samþykkt ný lög um skaðabætur verður að miða tilvísun í frumvarpinu við gildandi lög og er því ekki tilefni til að breyta frumvarpinu að því leyti.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja eru auk athugasemda um vantryggingagjald gerðar athugasemdir og lagðar fram tillögur við gildissvið frumvarpsins, hugtakið ökutæki og skaðabótaábyrgð vegna tjóns skv. 2. mgr. 4. gr., hugtakanotkun í 6. gr., tilvísun í 3. mgr. 8. gr., undanþágu frá vátryggingaskyldu í 11. gr., tímabil lögveðs í 12. gr., lok vátryggingar í 13. gr., réttarstöðu tjónþola í 14. gr. og gildistöku frumvarpsins.
    Frumvarpið tók breytingum eftir framangreindar athugasemdir sem er nánar farið yfir í skýringum með hverri grein. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
          Lagt er til að 2. mgr. verði bætt við 2. gr. til að afmarka gildissvið frumvarpsins.
          Lagt er til að orðalag 4. gr. sé skýrara um að ökutæki sem draga eftirvagna eða önnur tæki beri ekki ábyrgð vegna dráttarins og lagt er til að björgunarsveitir verði undanskildar skaðabótaábyrgð vegna björgunarstarfa.
          Lagt er til að gerður verði skýr greinarmunur á eiganda ökutækis og umráðamanni þess í 1. mgr. 6. gr.
          Lagt er til að bætt verði við ákvæði í 2. mgr. 11. gr. sem undanþiggur ökutæki frá þeirri skyldu að hafa slysatryggingu ökumanns og eiganda ef þau er eingöngu ætluð til aksturs utan vega eða í brautum og eru skráð sem torfærutæki.
          Lagt er til að lögveðsréttur í 12. gr. verði tvö ár til hagsbóta fyrir vátryggingataka þar sem vátryggingafélög munu þá hafa rýmri frest til að semja um iðgjaldaskuld áður en gengið er að ökutæki vegna vangoldins vátryggingaiðgjalds.
          Lagt er til að málsgrein verði bætt við 13. gr. til að kveða skýrar á um það hvað teljist lok vátryggingar, hvenær vátryggingafélög þurfi ekki að senda tilkynningu þar að lútandi og að ökutæki þurfi að hafa vátryggingu þegar það er sett aftur á númer.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpi þessu eru ákvæði um lögmæltar ökutækjatryggingar í XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, færð í sérlög um lögmæltar ökutækjatryggingar. Jafnframt felur frumvarp þetta í sér innleiðingu á tilskipun 2009/103/EB um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um að fylgja því eftir að vátrygging vegna slíkrar ábyrgðar sé tekin. Tilskipunin dregur saman eldri tilskipanir á sama sviði og felur ekki í sér efnisbreytingu. Eldri tilskipanir á þessu sviði hafa þegar verið innleiddar í íslenskan rétt með breytingum á gildandi umferðarlögum. Áhrif þessa frumvarps, verði það að lögum, eru því almennt ekki mikil en þó er vert að nefna að breytingar á fyrningarreglum bæta réttarstöðu tjónþola og eyða réttaróvissu um upphaf fyrningarfrests. Ekki er gert ráð fyrir teljandi mælanlegum áhrifum á greiðsluskyldu vátryggingafélaga vegna þessarar tillögu.
    Í frumvarpinu er lagt til að ábyrgð vátryggingafélags á grundvelli slysatryggingar ökumanns falli niður þegar það sendir Samgöngustofu tilkynningu um að vátrygging sé fallin úr gildi. Gildandi lög kveða á um að ábyrgð vátryggingafélags gildi í mánuð frá þeim tíma er tilkynning berst Samgöngustofu. Ekki þykir eðlilegt að eigandi eða ökumaður óvátryggðs ökutækis njóti þeirrar sérstöku vátryggingar sem slysatrygging ökumanns og eiganda felur í sér þegar vátrygging ökutækis er fallin úr gildi. Tillagan mun þrengja bótasvið ábyrgðartryggingarinnar sem eftir sem áður mun gilda í mánuð og réttarstaða tjónþola verður því óbreytt.
    Áhrif frumvarpsins á stofnanir eru óveruleg og stofnanir eru í stakk búnar til að takast á við þær breytingar sem lagasetningin mælir fyrir um. Í frumvarpinu er lagt til að vátryggingafélag sendi Samgöngustofu strax tilkynningu ef lögmælt ökutækjatrygging fellur úr gildi í stað þess að senda tilkynninguna þremur mánuðum eftir gjalddaga iðgjalds eins og nú er kveðið á um í reglugerð. Af þessum sökum mun tilkynningum til Samgöngustofu vegna þessa fjölga.
    Frumvarpið hefur engin fyrirséð fjárhagsáhrif á ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu eru tilgreind markmið frumvarpsins, þ.e. að stuðla að traustri vátryggingavernd allra vegfarenda hér á landi og að ökutæki séu með lögmæltar ökutækjatryggingar.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er gildissvið frumvarpsins skilgreint en það lýtur bæði að lögmæltum ökutækjatryggingum sem og skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst af notkun ökutækja.
    Tilskipun 2009/103/EB, um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja og um að fylgja því eftir að vátrygging vegna slíkrar ábyrgðar sé tekin, tekur ekki á skaðabótaábyrgð og kemur fram í tilskipuninni að ákvörðun skaðabóta fari eftir löggjöf viðkomandi aðildarríkis.
    Í 2. mgr. er í fyrsta lagi er lagt til að ekki falli undir gildissvið laganna tilvik þegar ökutæki er notað í öðrum tilgangi en sem ökutæki. Ökutæki sem eru vinnuvélar myndu samkvæmt því ekki falla undir gildissvið frumvarpsins þegar þau eru notuð sem vinnuvélar. Um er að ræða staðfestingu á framkvæmd en hugtakið notkun á ökutæki hefur verið túlkað þannig af dómstólum að það nái ekki til vinnuvéla þegar þær eru notaðar sem slíkar, þ.e. hlutlæga ábyrgðin takmarkast við það þegar ökutækið er í umferð en nær ekki til þess ef tjón hlýst af notkun vinnuvélarinnar utan almennrar umferðar. Í öðru lagi er lagt til að það falli ekki undir lögin þegar ökutæki tekur þátt í aksturskeppni á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir skv. 39. gr. frumvarps til umferðarlaga sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Notkun ökutækis í aksturskeppni á lítið skylt við notkun þess í almennri umferð og felur í sér aukna áhættutöku fyrir ökumann. Slík áhætta er ekki sambærileg þeirri áhættu sem fylgir almennri umferð og eðlilegt að hún sé undanskilin þannig að eigendur ökutækja í almennri umferð beri ekki þá áhættu og það tjón sem fylgt getur slíkri íþróttaiðkun. Ákvæðið mun hafa í för með sér að eigandi ökutækis sem tekur þátt í aksturskeppni skv. 39. gr. frumvarps til umferðarlaga, sem lagt er fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi, mun vátryggja ökutækið í keppni eins og hann telur sér henta best. Í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 507/2007, um akstursíþróttir og aksturskeppni, kemur fram að ökutæki sem taki þátt í aksturskeppni skuli ábyrgðartryggð sérstaklega vegna þeirrar áhættu sem í keppni felst. Afmörkun gildissviðsins er í samræmi við norsku umferðarlögin.

Um 3. gr.

    Í greininni eru hugtökin aðildarríki, græna kortið, umráðamaður, ökutæki og lögmæltar ökutækjatryggingar, tjónsuppgjörsmiðstöð og upplýsingamiðstöð skilgreind.
    Undir hugtakið aðildarríki falla aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðilar að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu auk Færeyja, en Ísland og Færeyjar gerðu með sér samning um viðskiptafrelsi, svokallaðan Hoyvíkur-samning, hinn 30. ágúst 2005. Hann tryggir færeyskum ríkisborgurum og fyrirtækjum sömu réttindi á Íslandi og Íslendingar og íslensk fyrirtæki. Slíkt hið sama gildir í Færeyjum um Íslendinga og íslensk fyrirtæki.
    Lögð er til skilgreining á hugtakinu umráðamaður sem felur í sér bæði efnislýsingu og formkröfu. Nauðsynlegt er að ljóst sé hver njóti réttarstöðu umráðamanns hverju sinni og því æskilegt að gerð sé krafa um að umráðamaður ökutækis sé ætíð skráður sem slíkur í ökutækjaskrá.
    Undir skilgreiningu á hugtakinu ökutæki samkvæmt frumvarpi þessu falla þau ökutæki sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum hverju sinni. Skráningarskyld ökutæki eru skilgreind í 1. gr. reglugerðar 751/2003, um skráningu ökutækja. Þar kemur fram að skylt er að skrá bifreið, bifhjól, torfærutæki og dráttarvél áður en ökutækin eru tekin í notkun. Einnig er skylt að skrá eftirvagn bifreiðar eða dráttarvélar sem gerður er fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, svo og hjólhýsi og tjaldvagn.
    Hér á landi eru Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. tjónsuppgjörs- og upplýsingamiðstöð.

Um 4. gr.

    Greinin fjallar um þá hlutlægu ábyrgð sem hvílir á þeim sem ber ábyrgð á ökutæki. Eins og fram kemur í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins ber eigandi alla jafna ábyrgð á ökutæki og er fébótaskyldur. Ef umráðamaður er skráður fyrir ökutæki ber hann ábyrgðina á ökutækinu. Ábyrgð færist þó yfir á þann sem ökutækið notar í algeru heimildarleysi.
    Í 2. mgr. er fjallað um skaðabótaskyldu er eitt ökutæki dregur annað. Þar kemur fram að ábyrgðarmaður ökutækis, sbr. 6. gr. frumvarpsins, sem notað er til dráttar er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar það dregur annað ökutæki. Er hér um að ræða sömu meginreglu og kemur fram í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Mun sú regla því gilda enn sem áður. Í ákvæðinu er lagt til það nýmæli að ökutæki í eigu björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verði undanskilin skaðabótaábyrgð þegar þau draga önnur ökutæki í björgunarstarfi með sannanlegu samþykki eiganda (umráðamanns). Stór hluti útkalla björgunarsveitanna snýr að aðstoð vegna ökutækja sem eru föst vegna ófærðar á vegum. Sú aðstaða hefur skapast að ökutæki sem eru föst eru skilin eftir þegar ökumanni og/eða farþegum hefur verið bjargað. Í þessum tilvikum eru stundum tvö eða þrjú ökutæki föst og teppa alla umferð og umferðarleiðin lokast því alveg með tilheyrandi afleiðingum fyrir aðra sem á eftir koma. Björgunarsveitirnar hafa sökum ábyrgðar ekki dregið þessi föstu ökutæki laus og það getur valdið eiganda ökutækis verulegum kostnaði ef sækja þarf ökutækið síðar. Föst ökutæki tefja snjómokstur og geta skapað verulega hættu. Oft myndi duga að færa föst ökutæki til svo umferð geti orðið eðlileg að nýju. Verði ákvæðið lögfest verður björgunarsveitum heimilt að draga föst ökutæki án þess að bera skaðabótaábyrgð en gegn sannanlegu samþykki eiganda eða skráðs umráðamanns þar sem ábyrgðin á drættinum flyst yfir á þann aðila. Sannanlegt samþykki myndi til dæmis vera undirritun skriflegrar yfirlýsingar en það getur einnig verið gefið rafrænt, t.d. með tölvupósti eða á sambærilegan hátt.
    Í 3. mgr. er lagt til að skýrt sé að skaðabótaábyrgð ökutækis nái ekki til þess þegar ökutæki dregur eftirvagn samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga eða annað tæki sem fest er við ökutæki í notkun. Lagt er til að ökutækið og eftirvagninn eða tækið teljist vera ein heild og þar af leiðandi eigi skaðabótaábyrgðin ekki við ef tjón verður á eftirvagninum eða tækinu. Þessari afmörkun er bætt við í samræmi við skilgreiningu tilskipunar 2009/103/EB á hugtakinu ökutæki. Nánari umfjöllun um þessa breytingu er að finna í almennum athugasemdum.
    Í 4. mgr. er vísað til þess að lækka megi bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Sem dæmi um stórkostlegt gáleysi má nefna ölvunarakstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og ofsaakstur en ekki er um tæmandi upptalningu að ræða. Í 5. mgr. er kveðið á um að bætur fyrir tjón á munum megi lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að því af ásetningi eða gáleysi.
    Greinin geymir ákvæði 88. gr. gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987.

Um 5. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 89. gr. gildandi umferðarlaga, nr. 50/1978.

Um 6. gr.

    Í greininni kemur fram að eigandi ökutækis beri almennt ábyrgð á ökutæki og er fébótaskyldur nema í þeim tilfellum er ökutæki er notað í heimildarleysi. Ef umráðamaður er skráður fyrir ökutæki ber hann ábyrgðina og er fébótaskyldur. Greinin er efnislega samhljóða 90. gr. umferðarlaga og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 90. gr. a gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987. Létt bifhjól og flokkar þeirra eru skilgreind í 27. tölul. 3. gr. frumvarps til umferðarlaga sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Ákvæðið var lögfest með lögum nr. 13/2015 sem breyttu gildandi umferðarlögum. Ákvæðið kom inn með breytingatillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd sem þótti ekki þörf á að kveða á um vátryggingaskyldu fyrir létt bifhjól þar sem notkun þeirra væri svipuð notkun reiðhjóla, þau notuð á gangstéttum og göngustígum og nái mjög takmörkuðum hraða. Forsenda hlutlægrar ábyrgðar sem almennt gildi um skráningarskyld ökutæki ætti ekki því við um létt bifhjól. Eigendur hefðu hins vegar val um að kaupa vátryggingar fyrir hjólin og ökumenn þeirra.

Um 8. gr.

    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við 14. gr. tilskipunar 2009/103/EB sem kveður á um að aðildarríki skuli tryggja að lögmælt ábyrgðartrygging gildi í aðildarríkjum á grundvelli eins og sama iðgjalds allt samningstímabilið þótt vátryggt ökutæki sé staðsett í öðru aðildarríki á því tímabili.
    Jafnframt tiltekur tilskipunin að vátryggingin skuli veita þá vátryggingarvernd í hverju aðildarríki sem kveðið er á um í löggjöf viðkomandi ríkis eða þá vátryggingarvernd þess aðildarríkis þar sem ökutækið er að öllu jöfnu staðsett þegar sú vernd er víðtækari.
    Ef eigandi ábyrgðartryggðs ökutækis ákveður að fara með það úr landi getur hann fengið útgefið hjá vátryggingafélagi sínu svokallað grænt kort (alþjóðlegt vátryggingarkort) sem staðfestir að ábyrgðartrygging sé í gildi og bæti það tjón er ökutækið kann að valda í öðru aðildarríki.
    Í 3. mgr. er sérstaklega tekið fram að öll vátryggingafélög sem taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja hér á landi skuli vera aðilar að tjónsuppgjörsmiðstöð. Slíkt ákvæði er nú í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 424/2008.
    Tilgreindar vátryggingarfjárhæðir í 5. mgr. eru gildandi fjárhæðir samkvæmt auglýsingu nr. 254/2018 um breytingar á vátryggingarfjárhæðum lögmæltra ökutækjatrygginga og er ráðherra heimilt, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, sbr. 6. mgr., að breyta þeim með auglýsingu sem birt er í Stjórnartíðindum.
    Að öðru leyti er lagagreinin efnislega samhljóða 91. gr. gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987.

Um 9. gr.

    Ákvæði um slysatryggingu ökumanns og eiganda var fyrst lögfest með gildandi umferðarlögum og er 9. gr. frumvarpsins að mestu samhljóða 92. gr. þeirra. Tilgangur ákvæðisins er að veita ökumanni bætur vegna slyss sem hann verður fyrir jafnvel þótt hann sjálfur beri ábyrgð á slysinu. Með lögum nr. 32/1998, sem breyttu gildandi umferðarlögum, var 92. gr. skýrð frekar og kom þar fram að bótasvið ákvæðisins væri tengt notkunarhugtaki ábyrgðartryggingarinnar, að vátryggingin næði ekki til ökumanns sem notar ökutæki í algeru heimildarleysi og slysatryggingin var látin ná til vátryggingartaka sem slasast sem farþegi í eigin ökutæki eða á annan hátt af völdum eigin ökutækis.
    Tilgreind vátryggingarfjárhæð í 3. mgr. er gildandi fjárhæð samkvæmt auglýsingu nr. 254/2018 um breytingar á vátryggingarfjárhæðum lögmæltra ökutækjatrygginga og er ráðherra heimilt, að fengnum tillögum Fjármálaeftirlitsins, að breyta þeim. Tekið er fram í niðurlagi 3. mgr. að um ákvörðun bótafjárhæðar fari eftir I. kafla skaðabótalaga, nr. 50/1993. Frá upphafi hefur verið litið svo á að um bætur úr slysatryggingunni fari eftir reglum skaðabótaréttar og hefur það jafnan verið tekið fram í vátryggingarskilmálum. Ákvæðið leiðir því ekki til breytinga að þessu leyti en eðlilegt þykir að regla um ákvörðun bótafjárhæðar komi beinlínis fram í ákvæði um slysatryggingu ökumanns og eiganda.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um þá almennu skyldu eiganda að vátryggja ökutæki. Lagt er til að eiganda verði heimilt að semja um að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni og skal umráðamaður þá hafa val um hjá hvaða vátryggingafélagi hann vátryggir. Í slíkum tilfellum ber eigandi þó áfram ábyrgð á því að ökutæki sé með lögboðnar tryggingar skv. frumvarpinu.
    Í 2. og 3. mgr. kemur fram undanþáguheimild frá vátryggingarskyldu vegna ökutækja í eigu ríkissjóðs, erlendra ríkja eða alþjóðastofnana.
    Greinin er að mestu leyti efnislega samhljóða 93. gr. umferðarlaga. Þó er lagt til að sérstaklega verði tilgreint að eigandi beri einn ábyrgð á að ökutæki sé með lögmæltar ökutækjatryggingar. Þó sé heimilt að semja um það að umráðamaður ökutækis vátryggi það í sínu nafni og að hann skuli þá hafa val um hjá hvaða vátryggingafélagi hann vátryggi. Þá er lagt til að ákvæði sem nú er í 1. gr. reglugerðar nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar verði í 5. mgr. Ákvæðið felur í sér þá skyldu vátryggingafélags sem hefur starfsleyfi skv. 10. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um vátryggingastarfsemi að taka að sér slíkar tryggingar fyrir sérhvern vátryggingarskyldan aðila sem undirgengst boðna vátryggingarskilmála.

Um 11. gr.

    Ákvæði 1. mgr. ákvæðisins er samhljóða 94. gr. c. gildandi umferðarlaga og var lögfest árið 2015 þegar létt bifhjól urðu skráningarskyld. Þar sem skráningarskyld ökutæki eru vátryggingarskyld varð að undanþiggja létt bifhjól í flokki I sérstaklega frá þeirri skyldu. Notkun þessara léttu bifhjóla þótti að mestu leyti lík notkun reiðhjóla þar sem þau eru notuð á gangstéttum og göngustígum og ná mjög takmörkuðum hraða. Eftir sem áður hafa eigendur slíkra bifhjóla val um að kaupa vátryggingar fyrir hjólin og ökumenn þeirra.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að ökutæki sem eru skráð sem torfærutæki, og eingöngu ætluð til aksturs utan vega eða í brautum, eru undanþegin þeirri skyldu að hafa slysatryggingu ökumanns og eiganda. Samfélagsleg sjónarmið búa að baki slysatryggingu ökumanns og eðlilegt þykir að ökutæki sem notuð eru til tómstundaiðkunar séu þar ekki meðtalin. Slysatíðni í akstri torfærutækja sem ætluð eru til íþróttaiðkunar er há og þykir eðlilegra að eigendur slíkra ökutækja vátryggi sérstaklega með frjálsri slysatryggingu þá áhættu fyrir ökumann sem fylgir notkun ökutækjanna enda um tómstundaiðkun að ræða. Hver og einn getur þá tekið ákvörðun um hvaða vátrygging hentar þeim og þá áhættu sem þeir kjósa að taka.

Um 12. gr.

    Ákvæðið á sér fyrirmynd í 7. gr. laga um brunatryggingar, nr. 48/1994, en í greininni er kveðið á um það nýmæli að lögboðið vátryggingariðgjald skuli njóta lögveðsréttar í ökutækinu í tvö ár, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, og þar með standa framar almennum veðkröfum. Slíkur lögveðsréttur veitir heimild til að krefjast nauðungarsölu á ökutæki án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

Um 13. gr.

    Lagt er til að ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 424/2008, um lögmæltar ökutækjatryggingar, um lok vátryggingar verði tekin upp í lög um ökutækjatryggingar. Ef vátrygging vegna skráðs vélknúins ökutækis fellur úr gildi skal viðkomandi vátryggingafélag senda tilkynningu þess efnis til Samgöngustofu þá þegar. Í 1. mgr. lagt til að um lítillega breytta framkvæmd verði að ræða þar sem reglugerðin kveður á um að vátryggingafélag sendi Samgöngustofu tilkynningu þremur mánuðum eftir gjalddaga iðgjaldsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að eiganda og umráðamanni sé báðum gert viðvart og kynnt réttaráhrif slíkrar tilkynningar. Í reglugerð um lögmæltar ökutækjatryggingar er aðeins vísað til þess að eiganda eða varanlegum umráðamanni ökutækis skuli gert viðvart.
    Í framkvæmd hefur verið óvissa um réttaráhrif þess að skráningarmerki séu lögð inn til Samgöngustofu eða þess sem hefur umboð til að taka við þeim, þ.e. hvort vátrygging falli þar með niður eða ekki. Í 3. mgr. er þeirri óvissu eytt. Þar kemur fram að vátryggingafélag skuli hvorki senda tilkynningu né gera eiganda ökutækis eða umráðamanni viðvart skv. 2. mgr. ef það hefur vitneskju um að ökutæki hafi verið vátryggt hjá öðru félagi, það afskráð eða skráningarmerki þess lögð inn til vörslu Samgöngustofu eða þess sem hefur umboð til að taka við skráningarmerkjum. Framangreind tilvik, þ.e. að vátryggja ökutæki hjá öðru félagi, afskrá það eða leggja skráningarmerki inn, hefur þá þau réttaráhrif að vátrygging telst niður fallin. Vátryggingartaki myndi eiga rétt á því að fá iðgjöld endurgreidd hafi hann greitt vátrygginguna fyrirfram eða hann hættir að greiða iðgjöld ef greiðsla þeirra er dreifð yfir vátryggingartímann. Hafi skráningarmerki verið lögð inn verður samkvæmt ákvæðinu ekki heimilt að afhenda þau aftur nema ökutækið hafi aftur verið vátryggt. Ákvæðið mun ekki hafa áhrif á bætur til þriðja aðila sem verður fyrir tjóni af völdum ökutækis þar sem ABÍ sf. ber að bæta slík tjón.

Um 14. gr.

    Lagt er til að í lögunum verði kveðið á um reglur um réttarstöðu tjónþola en slíkt ákvæði er ekki í XIII. kafla gildandi umferðarlaga. Ákvæðið á sér fyrirmynd í 2. mgr. 13. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 424/2008, og felur í sér að vátryggingafélag ber ábyrgð á grundvelli ábyrgðartryggingar í fjórar vikur frá þeim tíma er vátryggingafélag sendir Samgöngustofu tilkynningu um að vátrygging sé fallin úr gildi. Lagt er til að ábyrgð vátryggingafélags á grundvelli slysatryggingar ökumanns og eiganda falli niður frá því tímamarki er tilkynning er send Samgöngustofu um að vátrygging sé fallin úr gildi, í stað þess að hún gildi í fjórar vikur frá þeim tíma er tilkynning berst líkt og með ábyrgðartryggingu ökutækis. Ástæða þessa er sú að ekki þykir eðlilegt að eigandi eða ökumaður óvátryggðs ökutækis njóti þeirrar sérstöku tryggingar sem slysatrygging ökumanns og eiganda felur í sér.

Um 15. og 16. gr.

    Í 15. og 16. gr. frumvarpsins eru reglur um tjón af völdum óþekktra eða óvátryggðra ökutækja. Slík ákvæði eru í 20. og 21. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar, nr. 424/2008, en talið er skýrara að hafa ákvæðið í lögum. Frumvarpsgreinarnar eru efnislega samhljóða ákvæðunum í reglugerðinni og þarfnast ekki frekari skýringa. Þó er vert að nefna að 15. gr. er í samræmi við 3. mgr. 10. gr. tilskipunar 2009/103/EB.

Um 17. gr.

    Greinin fjallar um tjónsuppgjörsmiðstöð sem greitt getur bætur vegna tjóns að vissum skilyrðum uppfylltum. Alþjóðlegar bifreiðatryggingar Íslands sf. er tjónsuppgjörsmiðstöð hér á landi. Greinin er nánast samhljóða 94. gr. a gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, og er í samræmi við 6. gr. tilskipunar 2009/103/EB.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um að upplýsingamiðstöð eigi að aðstoða við öflun grundvallarupplýsinga sem nauðsynlegar eru við meðferð tjónamáls. Alþjóðlegar bifreiðatryggingar Íslands sf. er upplýsingamiðstöð hér á landi. Greinin er efnislega samhljóða 1. mgr. 94. gr. b gildandi umferðarlaga, nr. 50/1987, og er í samræmi við 23. gr. tilskipunar 2009/103/EB.

Um 19. gr.

    Greinin kveður á um greiðsluskyldu og endurkröfurétt vátryggingafélaga. Hún er að mestu samhljóða 95. gr. gildandi umferðarlaga, þó er bætt við 2. mgr. ákvæði þess efnis að vátryggingafélag eigi endurkröfu á tjónvald hafi tjón verið greitt eftir að vátrygging er fallin niður skv. 14. gr.

Um 20. gr.

    Greinin fjallar um endurkröfunefnd sem ákveður endurkröfurétt vátryggingafélaga vegna tjóna sem valdið er af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Ákvæðið er nánast samhljóða 96. gr. gildandi umferðarlaga og þarfnast því ekki skýringa.

Um 21. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. gildandi umferðarlaga skal, þegar einkamál er höfðað gegn þeim sem bótaskyldur er, einnig höfða málið gegn vátryggingafélagi sem ábyrgðartryggt hefur ökutækið. Eftir gildistöku laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, er ekki lengur þörf á slíku ákvæði. Í 44. gr. þeirra laga er kveðið á um stöðu tjónþola við ábyrgðartryggingu, en samkvæmt ákvæðinu getur tjónþoli krafist bóta úr ábyrgðartryggingu beint frá vátryggingafélagi. Ef tjónþoli höfðar mál til heimtu kröfu sinnar getur félagið þó krafist þess að hann beini málshöfðun einnig gegn vátryggðum aðila sem ber skaðabótaábyrgð. Því er lagt til að í 2. mgr. verði tilvísun til 44. gr. laga um vátryggingarsamninga. Greinin er í samræmi við 18. gr. tilskipunar 2009/103/EB.

Um 22. gr.

    Í greininni er fjallað um skiptingu vátryggingarfjárhæðar í þeim tilvikum þegar bætur eru hærri en vátryggingarfjárhæðinni nemur. Ákvæðið er efnislega samhljóða 98. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á fyrningarreglum. Í 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er mælt fyrir um tvenns konar fyrningarfrest, annars vegar fjögurra ára frest og hins vegar tíu ára frest. Um upphaf fyrningarfrests gilda tvær reglur. Fjögurra ára fresturinn hefst við lok þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Tíu ára fresturinn er hins vegar óháður mati á vitneskju kröfuhafa. Hann hefst þegar tjónsatburður verður. Í frumvarpinu er lagt til að fjögurra ára fresturinn gildi ekki varðandi kröfur um bætur vegna líkamstjóns heldur að um þær kröfur gildi alfarið tíu ára fyrningarfrestur sem hefjist þegar tjónsatburður verður. Tíu ára fyrningarfrestur framlengist ekki.
    Rökin fyrir tillögu um breytingu á fyrningarreglum eru einkum eðli líkamstjónsmála og óvissa hvað varðar mat á upphafi fjögurra ára fyrningarfrests í þeim málum. Undanfarið hefur málum fjölgað fyrir dómstólum þar sem deilt er um upphaf þessa frests. Virðist ekki hafa verið fullt samræmi í niðurstöðum dóma hvað þetta álitaefni varðar í einstökum málum. Má því telja að nokkur réttaróvissa ríki á þessu sviði sem er mjög óheppilegt. Með því að miða upphaf fyrningarfrests við tjónsatburð er þessari óvissu eytt.
    Með lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, voru gerðar breytingar á almennum reglum um fyrningu skaðabótakrafna. Í þeim lögum er gerður greinarmunur á fyrningarfresti skaðabótakröfu vegna líkamstjóns annars vegar og annarra skaðabótakrafna hins vegar. Er fyrningarfrestur krafna vegna líkamstjóns lengri en annarra bótakrafna og jafnframt er sá frestur lengri en hann var samkvæmt eldri fyrningarlögum. Þykir eðlilegt að sami greinarmunur sé gerður á fyrningum á kröfum vegna líkamstjóns og annarra bótakrafna í þessu frumvarpi.

Um 24. gr.

    Verði frumvarp þetta samþykkt munu verða til sérlög um lögmæltar ökutækjatryggingar sem áður var fjallað um í XIII. kafla umferðarlaga. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með framkvæmd laganna að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Fjármálaeftirlitið mun ekki hafa eftirlit með starfsemi Samgöngustofu.

Um 25. gr.

    Í greininni er tæmandi talning á þeim reglugerðum sem ráðherra er skylt að setja eða getur sett um nánari framkvæmd laganna.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. skal ráðherra setja reglugerð um starfshætti endurkröfunefndar skv. 20. gr., þar á meðal um hvernig vátryggingafélög senda nefndinni gögn um bótakröfur. Fjallað er um starfshætti endurkröfunefndar í 26.–30. gr. reglugerðar nr. 424/2008, um lögmæltar ökutækjatryggingar.
    Í b-lið 1. mgr. er fjallað um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd vátryggingarskyldunnar, meðal annars um skyldu vátryggingafélags til að gefa út vottorð með upplýsingum um skaðabótakröfur vegna tjóns sem varða vátryggt ökutæki eða að ekki sé um slíkar kröfur að ræða. Í 5. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar eru reglur um útgáfu slíkra vottorða. Skyldu til að gefa út tjónsvottorð má rekja til fimmtu tilskipunar um ökutækjatryggingar ( 2005/14/EB), sbr. lög um breytingu á umferðarlögum, nr. 2007/.
    Samkvæmt 2. mgr. getur ráðherra sett reglugerðir um ákveðna þætti sem eru nú að mestu leyti í reglugerð nr. 424/2008.

Um 26. gr.

    Ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/103/EB hafa verið innleidd í íslenskan rétt með gildandi umferðarlögum. Verði frumvarp þetta að lögum verður íslenskur réttur áfram í samræmi við tilskipunina. Tilskipunin dregur saman í einn bálk eldri tilskipanir á þessu sviði sem hafa verið innleiddar í íslenskan rétt og frumvarpið felur ekki í sér efnislega breytingu á gildandi rétti hvað þetta varðar.

Um 27. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 í samræmi við gildistökuákvæði í frumvarpi til nýrra umferðarlaga sem hefur verið lagt fram á Alþingi, sbr. 219. mál, þskj. 231 á 149. löggjafarþingi.