Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1218  —  570. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Dagnýju Aradóttur Pind frá BSRB, Kolfinnu Tómasdóttur frá Ungum athafnakonum, Tatjönu Latinovic frá Kvenréttindafélagi Íslands og Rakel Adolphsdóttur frá Kvennasögusafni Íslands. Einnig átti nefndin símafund með Katrínu Björk Ríkharðsdóttur og Jóni Fannari Kolbeinssyni frá Jafnréttisstofu.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Jafnréttisstofu, Kvennasögusafni Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, umboðsmanni barna og Ungum athafnakonum, félagasamtökum.
    Með þingsályktunartillögunni er gerð tillaga um breytingar á Jafnréttissjóði Íslands sem hafa það markmið að efla stjórnsýslu og starfsemi hans. Tillögurnar fela í sér þær breytingar að fækkað verði í stjórn sjóðsins, að forsætisráðherra skipi stjórn sjóðsins til ársloka 2020, þrjá aðalmenn og þrjá til vara, og að stjórnsýsla sjóðsins, þar með talin varsla hans og dagleg umsýsla, verði hjá Rannís, Rannsóknamiðstöð Íslands. Þá er lagt til að við úthlutun á árinu 2019 og 2020 verði kallað eftir umsóknum til verkefna og rannsókna sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Einnig er lagt til að sjóðurinn styrki verkefni sem stuðli að fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis sem og verkefni sem stuðli að aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum.

Fræðsla og forvarnir.
    Með breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands er gert ráð fyrir að málefnasvið sjóðsins verði útvíkkað. Þannig verður sjóðnum sérstaklega falið að styrkja áðurnefnd verkefni þar sem áhersla er lögð á fræðslu og forvarnir.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að ekki ætti að takmarka styrkveitingar samkvæmt nýjum stafliðum, d–g-lið, við fræðslu og forvarnir. Þess í stað ætti að orða nýja stafliði með almennari hætti til að hlutverk Jafnréttissjóðs Íslands haldist óbreytt en að mögulegt verði eigi að síður að styrkja verkefni sem með einhverjum hætti tengist kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi.
    Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að efla fræðslu og forvarnir til ungmenna á þessum sviðum og leita þarf fjölbreyttra leiða til þess. Að auki bendir nefndin á að aukin áhersla á fræðslu og forvarnir er í samræmi við tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess (409. mál) sem felur í sér margvíslegar aðgerðir til fræðslu og forvarna gegn hvers konar ofbeldi.
    Nefndin bendir á að samkvæmt núgildandi c-lið 1. mgr. þingsályktunar nr. 13/144 styrkir Jafnréttissjóður Íslands verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Nefndin telur að samræma verði orðalag þess stafliðar við orðalag nýrra stafliða, d- og g-liðar, sem lagt er til að bæta við með þingsályktunartillögu þessari. Þannig er c-liður ályktunarinnar afmarkaður við kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi en d-liður þingsályktunartillögunnar kveður á um kynbundna og kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi, og g-liður kveður á um ofbeldi í nánum samböndum. Nefndin leggur þess vegna til að orðalagi c-liðar verði breytt þannig að Jafnréttissjóður geti styrkt verkefni sem ætlað er að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Þannig er jafnframt komið til móts við framangreind sjónarmið um að orða verkefni með almennari hætti og mögulegt verði að styrkja verkefni sem með einhverjum hætti tengist kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi en að auki verkefni sem varða ofbeldi í nánum samböndum.

Fjölgun málefnasviða.
    Við meðferð málsins var lagt til að bætt yrði við nýjum staflið sem kvæði á um að Jafnréttissjóður Íslands geti styrkt verkefni sem stuðla að fræðslu, forvörnum og eftirfylgni varðandi kynferðislegt ofbeldi og áreitni á vinnustöðum. Að mati nefndarinnar eru vinnustaðir hluti af samfélaginu. Nefndin telur þess vegna að framangreind tillaga geti fallið undir d-lið 1. tölul. þingsályktunartillögu þessarar en þar er lagt til að Jafnréttissjóður styrki verkefni sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Nefndin leggur þess vegna ekki til að bætt verði við sérstökum staflið vegna þessa.
    Þá var jafnframt gagnrýnt að verkefnum sé fjölgað án þess að fjármagn til Jafnréttissjóðs Íslands aukist til samræmis við fjölgun málefnasviða. Þá var annars vegar lagt til að sameina nýja stafliði, d- og g-lið, og breyta orðalagi núverandi d-liðar 1. mgr. þingsályktunarinnar þannig að verkefni samkvæmt e- og f-lið falli þar undir. Hins vegar var lagt til að settur yrði á fót sérstakur og varanlegur sjóður til að styrkja þau verkefni sem breytingin leggur til þar sem um sé að ræða ítarleg og nákvæm málefnasvið.
    Nefndin bendir á að með þingsályktunartillögunni er lögð áhersla á að styrkja verkefni sem stuðla að fræðslu og forvarnastarfi fyrir ungt fólk um ofbeldi, áreitni, einelti og orðræðu sem ýtir undir slíkt, fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms og kynbundins ofbeldis og aukinni þekkingu á vörnum og samræmdum viðbrögðum við ofbeldi í nánum samböndum. Þannig sé brugðist við þeirri vitundarvakningu um þessi málefni sem hefur orðið á undanförnum misserum sem og #églíka/#metoo-hreyfingunni. Í ljósi þess telur nefndin mikilvægt að leggja aukna áherslu á þessi verkefni þrátt fyrir að hægt sé að færa fyrir því rök að hægt sé að sameina ákveðna stafliði eða að verkefnin geti fallið almennt undir önnur verkefni samkvæmt núverandi stafliðum þingsályktunartillögunnar. Þá telur nefndin fara vel á því að fela Jafnréttissjóði að styrkja umrædd verkefni.
    Í ljósi þess að verið er að fjölga málefnasviðum sjóðsins telur nefndin rétt að beina því til forsætisráðuneytisins að taka til skoðunar hvort auka þurfi fjármagn í sjóðinn að teknu tilliti til þess hvort fjölgun verkefna geti leitt til þess að hafa áhrif á styrkveitingar annarra verkefna sem sjóðnum er ætlað að styrkja.

Til frambúðar.
    Mikill samhljómur var á meðal umsagnaraðila og gesta um mikilvægi þess að Jafnréttissjóður Íslands yrði starfræktur til frambúðar. Þannig mætti tryggja áframhaldandi rannsóknir og stuðning við málaflokkinn. Nefndin tekur undir þetta og er það mat nefndarinnar að sjóðurinn hafi reynst málaflokknum vel. Nefndin mælir þess vegna eindregið með því að sjóðurinn verði starfræktur til frambúðar og beinir því til forsætisráðuneytisins að tryggja að svo verði sem og framlög til sjóðsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist nýr töluliður, sem verði 1. tölul., svohljóðandi: C-liður 1. mgr. orðist svo: verkefni sem er ætlað að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum.

    Páll Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.


Alþingi, 28. mars 2019.

Páll Magnússon,
form.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson,
með fyrirvara.
Guðmundur Andri Thorsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þórarinn Ingi Pétursson.