Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 474  —  448. mál.




Skýrsla


forsætisráðherra um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2022.


    Skýrsla þessi er lögð fram í samræmi við fyrirmæli 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Markmið hennar er að veita Alþingi yfirsýn yfir eftirfylgni framkvæmdarvaldsins með ályktunum þingsins. Til umfjöllunar er framkvæmd þeirra ályktana Alþingis frá árinu 2022 sem kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar og meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra á því ári. Þá er hér einnig að finna yfirlit um sömu atriði frá árunum 2019–2021. Undanskilin eru þau málefni þar sem lög kveða á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt.
    Umræddar þingsályktanir á árunum 2019–2022 voru samtals 128, þar af 47 vegna staðfestinga ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar ályktanir eru reglubundinn þáttur í þinglegri meðferð EES-mála og fela í sér afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sem kallar á lagabreytingar á Íslandi. Þær hafa því nokkra sérstöðu miðað við aðrar ályktanir. Þá vísuðu þingnefndir 20 málum til ríkisstjórnarinnar. Í skýrslu þessari er þannig fjallað um samtals 148 þingmál, sem sum hver varða fleiri en eitt ráðuneyti.
    Fjöldi þingsályktana á hverju ári sem kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar, auk málefna sem þingið vísar þangað í nefndaráliti, sveiflast talsvert eftir árum. Á árinu 2022 eru þetta samtals 31 þingmál, bróðurparturinn þingsályktanir, 28 talsins, og 3 nefndarálit, sem með frávísunartillögu þingnefndar var vísað til ráðherra eða ríkisstjórnar eftir atvikum. Á árinu 2021 voru þingmálin 30 talsins, 22 þingsályktanir en 8 nefndarálit. Á árinu 2020 voru þingmálin 37 talsins, 35 þingsályktanir en 2 nefndarálit. Að lokum voru þingmálin 50 árið 2019, 43 þingsályktanir en 7 nefndarálit.

Staða framkvæmdar

Framkvæmd lokið

Framkvæmd hafin

Framkvæmd ekki hafin

Samtals

2022

19

12

0

31

2021

10

16

4

30

2020

27

8

2

37

2019

39

8

3

50

Samtals

95

44

9

148

Tafla 1. Yfirlit fjölda mála og stöðu framkvæmdar 2019–2022.

    Jafnframt er nokkur munur á fjölda þingmála eftir ráðuneytum. Utanríkisráðuneytið hefur á sinni könnu langflest málin, um eða yfir þriðjung þeirra. Það skýrist af því að stór hluti málanna eru staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem gerðar eru í formi þingsályktana. Öll ráðuneytin koma í einhverjum mæli að framkvæmd þingsályktana þótt ekki sé víst að þau séu með framkvæmd á hendi á hverju ári. Hér á eftir verður gerð grein fyrir tölfræði um þessi atriði, sem endurspeglar flokkun bæði eftir árum og eftir ráðuneytum, sbr. töflur 2–5.
    Þingmálin sem hér eru til umfjöllunar eru flokkuð eftir stöðu hvers verkefnis. Greint er á milli verkefna þar sem framkvæmd er lokið, verkefna þar sem framkvæmd er hafin og svo verkefna þar sem framkvæmd er ekki hafin. Þetta eru skýrar línur í tilfellum þeirra verkefna sem annað hvort er búið að ljúka framkvæmd við eða framkvæmd ekki hafin. Í öðrum tilfellum, þar sem framkvæmd er hafin en ekki lokið, geta verkefnin verið á öllum stigum vinnslu. Í greinargerð með hverju verkefni hér aftar í skýrslunni er gerð nánari grein fyrir þessu.

2022 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum

Framkvæmd lokið

Framkvæmd hafin

Framkvæmd ekki hafin

Samtals

FOR

1

3

0

4

DMR

0

0

0

0

FRN

0

1

0

1

FJR

3

0

0

3

HVIN

0

1

0

1

HRN

1

1

0

2

IRN

0

1

0

1

MAR

0

0

0

0

MVF

0

0

0

0

MRN

0

0

0

0

URN

0

1

0

1

UTN

14

4

0

18

Samtals

19

12

0

31

Tafla 2. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2022.


2021 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum

Framkvæmd lokið

Framkvæmd hafin

Framkvæmd ekki hafin

Samtals

FOR

1

0

0

1

DMR

0

0

0

0

FRN

0

1

0

1

FJR

2

0

3

5

HVIN

0

0

1

1

HRN

0

1

0

1

IRN

1

2

0

3

MAR

0

0

0

0

MVF

0

1

0

1

MRN

0

4

0

4

URN

1

3

0

4

UTN

5

4

0

9

Samtals

10

16

4

30

Tafla 3. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2021.


2020 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum

Framkvæmd lokið

Framkvæmd hafin

Framkvæmd ekki hafin

Samtals

FOR

2

0

0

2

DMR

0

1

0

1

FRN

0

1

0

1

FJR

4

0

0

4

HVIN

1

0

0

1

HRN

1

1

0

2

IRN

0

3

0

3

MAR

0

0

0

0

MVF

1

0

0

1

MRN

0

0

0

0

URN

0

2

1

3

UTN

18

0

1

19

Samtals

27

8

2

37

Tafla 4. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2020.


2019 – staða framkvæmdar eftir ráðuneytum

Framkvæmd lokið

Framkvæmd hafin

Framkvæmd ekki hafin

Samtals

FOR

4

1

0

5

DMR

1

1

0

2

FRN

3

0

1

4

FJR

2

0

1

3

HVIN

1

0

0

1

HRN

5

0

0

5

IRN

3

1

0

4

MAR

1

1

0

2

MVF

1

1

0

2

MRN

1

1

1

3

URN

1

1

0

2

UTN

16

1

0

17

Samtals

39

8

3

50

Tafla 5. Yfirlit yfir stöðu framkvæmdar eftir ráðuneytum fyrir árið 2019.

    Ef utanríkisráðuneytið er skoðað sérstaklega á árunum fjórum sem eru til skoðunar, 2019–2022, sést að að jafnaði er aðeins um fimmtungur ályktananna af öðrum toga en þingsályktanir til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, eða 14 ályktanir af alls 61.

Þingsályktanir til staðfestingar vegna EES

Aðrar þingsályktanir

Samtals

2022

13

4

17

2021

5

4

9

2020

17

1

18

2019

12

5

17

Samtals

47

14

61

Tafla 6. Hlutfall staðfestingarmála hjá utanríkisráðuneytinu 2019–2022.

    Hlutfall þessara 47 þingsályktana á árunum 2019–2022 til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, af samtals 128 þingsályktunum þessara ára, er rúmlega þriðjungur allra mála, eða um 37%.
    Að síðustu er rétt að gera grein fyrir stöðu, fjölda og framgangi málanna í öllum ráðuneytunum á umræddu árabili. Framgangur mála er almennt góður en af þeim 148 málum sem hér eru til umfjöllunar er framkvæmd þegar lokið í 95 málum, eða í um 65% mála. Í um 29% mála er framkvæmd hafin en aðeins í um 6% mála ekki hafin. Ef tekin eru saman þau mál þar sem framkvæmd er ýmist að lokið að fullu eða komin áleiðis þá eru það um 94% allra mála.
    Nánari grein er hér á eftir gerð fyrir framgangi einstakra mála eftir árum annars vegar og ráðuneytum hins vegar. Forsætisráðuneytið aflaði upplýsinga um framangreint frá viðkomandi ráðuneytum í október 2023 og svör þeirra fara hér á eftir.


Framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2022.


Forsætisráðuneyti.


Þingsályktun 21/152 um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025.
13. júní 2022 – þskj. 1228 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 var lögð fram af forsætisráðherra og samþykkt á Alþingi í júní 2022. Áætlunin er sú fyrsta sem snýr eingöngu að málefnum hinsegin fólks. Aðgerðaáætlunin var unnin í samstarfi við samtök hinsegin fólks og felur í sér 21 aðgerð en hver og ein þeirra miðar að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks, samfélaginu öllu til hagsbóta. Aðgerðirnar eru margvíslegar og snerta sumar mörg svið og þar af leiðandi fleira en eitt ráðuneyti, sem og stofnanir, sveitarstjórnir, félagasamtök og hagsmunaaðila. Lögð er áhersla á fræðslutengd verkefni og vitundarvakningu um málefni hinsegin fólks, enda mikilvægt að auka þekkingu og búa til farveg fyrir málefnalega umræðu um stöðu og réttindi hinsegin fólks. Jafnframt er vikið að lagabreytingum, rannsóknum, stefnumótun og fleiru. Vinna við flest verkefnin í aðgerðaáætluninni er þegar hafin og mörg þeirra eru komin vel á veg.
    Innleiðingu verkefna í aðgerðaáætluninni er fylgt eftir með mælaborði sem birt er á heimasíðu forsætisráðuneytisins og er staða verkefna uppfærð tvisvar á ári, í apríl og október.

Þingsályktun 6/152 um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
27. janúar 2022 – þskj. 386 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Með ályktuninni lýsti Alþingi, með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, yfir stuðningi við fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er fól í sér að í stað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis kæmu félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Ákvörðun um framangreint var tekin með útgáfu forsetaúrskurðar nr. 5/2022, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, sbr. einnig forsetaúrskurði nr. 6/2022 og 7/2022, og tóku breytingarnar gildi 1. febrúar 2022.

Þingsályktun 20/152 um minnisvarða um eldgosið í Heimaey.
13. júní 2022 – þskj. 1227 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillaga var lögð fram af forsætisráðherra og mælti hún fyrir um að forsætisráðherra yrði falið að skipa nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða í tilefni þess að á árinu 2023 yrðu 50 ár liðin frá Heimaeyjargosinu. Tillagan var samþykkt á Alþingi í júní 2022 og undirbúningsnefndin skipuð fáeinum vikum seinna. Þar eru samtals fimm fulltrúar; tveir skv. tillögu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, tveir tilnefndir af Alþingi og einn án tilnefningar, sem jafnframt gegnir formennsku í nefndinni. Nefndin hefur fundað reglulega og sumarið 2023 var tekin ákvörðun um að ráðast í gerð minnisvarða á grundvelli hugmyndar listamannsins Ólafs Elíassonar. Vinna nefndarinnar stendur enn yfir þar sem til að mynda á eftir að ganga frá uppsetningu minnisvarðans.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks.
14. júní 2022 – þskj. 1292 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan mælti fyrir um að forsætisráðherra væri falið að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin gerði tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks og að við vinnuna yrði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar.
    Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sagði að í tillögunni fælist að aðgerðaáætlun forsætisráðherra yrði kynnt á vorþingi 2022. Það myndi ekki nást. Meiri hlutinn tæki undir að einfalda þyrfti regluverk en teldi aftur á móti ekki æskilegt að slíkar aðgerðir og gerð áætlana byggðist á stöðuskýrslu sem gerð var fyrir tæplega átta árum. Margt hafi breyst innan íslensks stjórnkerfis og þurfi slíkar aðgerðir að grundvallast á nýjustu gögnum og upplýsingum sem völ er á.
    Meiri hlutinn lagði því til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að gera úttekt á nauðsyn þess að regluverk yrði einfaldað. Ekki hefur upp á síðkastið verið ráðist í skipulegt átak í þessu efni þvert á ráðuneyti. Við undirbúning lagasetningar er þetta markmið þó ætíð haft í huga. Rétt er að geta þess að forræði á vönduðum löggjafarháttum er nú hjá dómsmálaráðherra.
    Menningar- og viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga um opinberar eftirlitsreglur en einföldunarstarf í Stjórnarráðinu hefur löngum tengst þeirri löggjöf og ráðgjafarnefndinni sem þar er gert ráð fyrir. Menningar- og viðskiptaráðuneytið telur nauðsynlegt að endurskoða löggjöfina, sem og reglugerð um eftirlitsreglur hins opinbera, nr. 812/1999, með tilliti til þeirrar þróunar og þeirra breytinga sem hafa orðið frá setningu þeirra með það fyrir sjónum að skýra betur hlutverk ráðgjafarnefndarinnar og skilgreina verkefni hennar, tilgang, umboð o.s.frv. Ráðuneytið hefur átt fundi um málefnið, m.a. með fulltrúum frá atvinnulífinu, þar sem hefur verið farið yfir þær breytingar sem orðið hafa á frá gildistöku laganna, sem eru efnislega óbreytt frá setningu þeirra. Á fundi með fulltrúm Félags atvinnurekenda kom fram vilji félagsins til samstarfs við ráðuneytið um slíka endurskoðun og hefur ráðuneytið óskað eftir tillögum frá félaginu í því sambandi.
    Forsætisráðuneytið mun fylgjast með þessari stefnumótun og tryggja að á vegum ráðuneytanna verði lagt mat á hvort einföldun regluverks sé enn verðugt markmið og hvernig sé þá best að ná því fram.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Þingsályktun 29/152 um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025.
16. júní 2022 – þskj. 1364 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Núgildandi áætlun var samþykkt á Alþingi í júní árið 2022 og gildir fyrir árin 2022–2025. Í henni eru 34 aðgerðir og í töflunni hér að neðan má sjá stöðuna á þeim aðgerðum sem í áætluninni eru.  


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum (aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu).
13. júní 2022 – þskj. 1262 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Frumvarpið, sem sex alþingismenn fluttu, gerði ráð fyrir að vísitala sem reiknuð væri og birt í nóvember 2021 skyldi gilda um verðtryggingu neytendalána og fasteignalána frá 1. janúar til 31. desember 2022. Við útreikning verðbóta í janúar 2023 yrði miðað við breytingu á vísitölunni frá október til nóvember 2022, en síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá októbermánuði til nóvembermánaðar 2022 og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli mánaða. Þá voru lagðar til breytingar þess efnis að óheimilt yrði að hækka leigufjárhæð íbúðarhúsnæðis í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar til 31. desember 2022.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar tók undir sjónarmið um mikilvægi þess að áfram yrði unnið að því að draga úr vægi verðtryggingar, en ein forsenda þess væri stöðugt verðlag. Meiri hlutinn lagði því til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að gera úttekt á kostum og göllum aðgerðarinnar.
    Ráðstöfunin sem lögð er fram í frumvarpinu er ein fjölmargra tillagna sem komu til álita um stuðning við heimili vegna heimsfaraldursins og verðbólgunnar sem fylgdi í kjölfarið. Hún hefur þann annmarka að beinast ekki að þeim heimilum sem verðbólgan bitnaði hvað harðast á. Ein skýrasta birtingarmynd verðbólgunnar var snörp hækkun fasteignaverðs sem styrkti efnahagsreikninga fasteignaeigenda en skildi aðra hópa, s.s. leigjendur, eftir í hlutfallslega verri stöðu. Að lokum beindust aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu einkum að því að reyna að vinna bug á henni með aðhaldssamari ríkisfjármálastefnu samhliða því að verja kaupmátt leigjenda, öryrkja og ellilífeyrisþega, sem verðbólgan hefði annars leikið grátt.

Þingsályktun 23/152 um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027.
14. júní 2022 – þskj. 1271 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunin byggist á 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem kveður á um að ráðherra skuli ár hvert leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta.
    Í fjárlögum og fjármálaáætlun er að finna yfirlit yfir meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig athugasemdir sem umræddum skjölum fylgja.

Þingsályktun 10/152 um fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026.
23. febrúar 2022 – þskj. 564 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunin byggir á 10. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem kveður á um að leggja skuli fram tillögu til þingsályktunar um breytingar á fjármálastefnu ef grundvallarforsendur hennar bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum. Fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp byggja í meginatriðum á fjármálastefnu.
    Í fjárlögum og fjármálaáætlun er að finna yfirlit yfir meðferð og framkvæmd ályktunarinnar, sbr. einnig athugasemdir sem umræddum skjölum fylgja.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.


Þingsályktun 22/152 um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.
13. júní 2022 – þskj. 1229 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í þingsályktun Alþingis um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021 er skorað á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd tveggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 1. september 2021, um aukið vestnorrænt samstarf á vettvangi umhverfis- og loftslagsmála (nr. 1/2021) og um samstarf vestnorrænna háskóla um fjarkennslu (nr. 2/2021). Í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2021 hvetja menntamálaráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja til aukins samstarfs landanna þriggja um háskólamenntun með hjálp fjarkennslu. Tækniþróun, bætt fjarskipti og aukin reynsla af fjarkennslu hefur undanfarin ár gjörbreytt möguleikum íbúa strjálbýlla svæða til að sækja sér fjölbreytta háskólamenntun. Fjarnám getur haft jákvæð áhrif á þroska einstaklinga, búsetu í heimabyggð og þannig á heilbrigði samfélaga á norðurslóðum. Með það í huga er hvatt til þess að menntamálaráðherrar landanna þriggja skoði möguleika á að innleiða fjarnám í samstarfi háskóla í löndunum þremur.
    Í ljósi lögbundins sjálfstæðis háskóla samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 koma stjórnvöld ekki með beinum hætti að ákvörðunum íslenskra háskóla um framboð fjarnáms í Grænlandi og Færeyjum, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. Hlutverk stjórnvalda er að styðja við eflingu háskólanáms, sem getur m.a. falið í sér eflingu á alþjóðlegu starfi háskóla í samstarfi við aðra erlenda háskóla.
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti hefur kynnt nýtt fyrirkomulag fyrir árangursmiðaða fjármögnun háskóla sem lagt er til að taki gildi samhliða fjárlögum 2024. Árangursmiðuð fjármögnun háskóla getur stutt við þau markmið sem koma fram í ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2021. Í nýju fyrirkomulagi fjármögnunar ráðast fjárveitingar til kennslu og rannsókna í háskólum einnig af því hvernig háskólar sinna byggðahlutverki með framboði staðnáms á landsbyggðinni. Þá er sérstaklega gert ráð fyrir eflingu fjarnáms um allt land í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og markmiðum í gildandi fjármálaáætlun.

Heilbrigðisráðuneyti.


Þingsályktun 25/152 um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.
15. júní 2022 – þskj. 1381 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní 2022. Tillagan felur það í sér að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt. Aðgerðirnar eru grunnur að vinnu verkefnastjórnar um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk sem skipuð var í júní 2022.
    Til þess að framtíðarsýnin verði að veruleika er lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030: 1. Forysta til árangurs, 2. Rétt þjónusta á réttum stað, 3. Fólkið í forgrunni, 4. Virkir notendur, 5. Skilvirk þjónustukaup, 6. Gæði í fyrirrúmi, 7. Hugsað til framtíðar.
    Þingsályktunartillagan var ein meginundirstaðan að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023–2027, sem samþykkt var á Alþingi 10. maí 2023. Sú aðgerðaáætlun hefur hlotið heitið Gott að eldast.

Þingsályktun 26/152 um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.
15. júní 2022 – þskj. 1382 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní 2022. Tillögunni er ætlað að styrkja stefnumótun á sviðinu og tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Efni þingsályktunarinnar skiptist í fjóra áhersluþætti og er ítarlega fjallað um hvern og einn þeirra í greinargerð.
    Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 27/152 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.
15. júní 2022 – þskj. 1383 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015, lagði innviðaráðherra fram á Alþingi stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 sem samþykkt var einróma í júní 2022. Í henni er sett fram aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2026 þar sem skilgreindar eru 44 aðgerðir. Öll ráðuneyti hafa beina aðkomu að aðgerðaáætluninni þar sem þau bera ábyrgð á minnst einni aðgerð hvert. Framkvæmdin gengur vel og segja má að allar aðgerðir séu hafnar, þó þær séu mislangt á veg komnar. Á vef innviðaráðuneytis er að finna upplýsingar um stöðu allra aðgerðanna.
    Í janúar 2023 lagði innviðaráðherra skýrslu fyrir Alþingi um framkvæmd byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2022. Þar var leitast við að upplýsa um framvindu allra 54 aðgerða þeirrar áætlunar.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Þingsályktun 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
15. júní 2022 – þskj. 1299 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
     Þingsályktun nr. 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var lögð fram á Alþingi af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og samþykkt á Alþingi 15. júní 2022 á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr.  48/2011 . Þar ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd áætlunarinnar. Áætlun þessi komi í stað verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt þingsályktun nr. 13/141, með síðari breytingu.  
    Samkvæmt þingsályktun nr. 24/152 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða skal tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.   Í áætluninni skal í samræmi við markmið laga nr.  48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.
    Unnið er að friðlýsingu þeirra svæða sem er að finna í verndarflokki áætlunarinnar. Með flokkun virkjunarkosts í nýtingarflokk hafa virkjunaraðilar heimild til að halda áfram þróun viðkomandi virkjunarkosts. Svæði í biðflokki verða áfram í umfjöllun hjá verkefnisstjórn áætlunarinnar. 

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 17/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
30. maí 2022 – þskj. 1097 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 6. júní 2022 en ákvörðunin hefur ekki enn öðlast gildi þar sem Noregur er með stjórnskipulegan fyrirvara við hana.

Þingsályktun 9/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
8. febrúar 2022 – þskj. 472 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 8. júní 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. ágúst 2022.

Þingsályktun 15/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
30. maí 2022 – þskj. 1095 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 22. september 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. júní 2023.

Þingsályktun 14/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
30. maí 2022 – þskj. 1094 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 5. desember 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. febrúar 2023.

Þingsályktun 16/152 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn og nr. 275/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.
30. maí 2022 – þskj. 1096 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna beggja ákvarðananna hinn 5. desember 2022 en þær hafa ekki enn öðlast gildi þar sem Noregur er með stjórnskipulega fyrirvara við þær.

Þingsályktun 12/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
28. apríl 2022 – þskj. 953 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 13. maí 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. júlí 2022.

Þingsályktun 7/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
8. febrúar 2022 – þskj. 470 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 7. mars 2022 en ákvörðunin hefur ekki enn öðlast gildi þar sem Noregur er með stjórnskipulegan fyrirvara við hana.

Þingsályktun 18/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
30. maí 2022 – þskj. 1098 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 13. júní 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 12. júlí 2022.

Þingsályktun 8/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn (lífræn framleiðsla).
8. febrúar 2022 – þskj. 471 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 10. júní 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 11. júní 2022.

Þingsályktun 11/152 um fullgildingu fríverslunarsamnings Íslands, Konungsríkisins Noregs og Furstadæmisins Liechtenstein og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.
7. mars 2022 – þskj. 633 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið
    Viðræður um gerð fríverslunarsamnings hófust í september 2020 og var samningurinn undirritaður 8. júlí 2021. Fríverslunarsamningurinn við Bretland er að meginstofni til byggður upp með sama hætti og þeir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert í samstarfi við hin EFTA-ríkin. Hann er þó yfirgripsmeiri og ítarlegri en aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland á aðild að og nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og þeirra reglna sem um þau gilda. Samningurinn var samþykktur á Alþingi í mars 2022 og var beitt til bráðabirgða frá 1. september 2022 til 1. febrúar 2023 þegar hann tók endanlega gildi.

Þingsályktun 13/152 um staðfestingu samninga Íslands við Noreg annars vegar og Danmörku fyrir hönd Færeyja hins vegar um afmörkun landgrunnsins handan 200 sjómílna á svæðinu milli Færeyja, Íslands, meginlands Noregs og Jan Mayen (Síldarsmugan).
30. maí 2022 – þskj. 1093 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Um var að ræða tvo samninga um afmörkun landgrunnsins í Síldarsmugunni svonefndu. Samningurinn við Noreg öðlaðist gildi 13. desember 2022 og samningurinn við Danmörku fyrir hönd Færeyja öðlaðist gildi 14. desember 2022.

Þingsályktun 19/152 um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Finnlands og Konungsríkisins Svíþjóðar.
7. júní 2022 – þskj. 1177 á 152. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru undirritaðir hinn 5. júlí 2022. Alþingi hafði áður með ályktuninni heimilað ríkisstjórninni að staðfesta aðildarsamningana þegar þeir lægju fyrir. Samningarnir voru staðfestir af Íslands hálfu sama dag og þeir voru undirritaðir og var aðildarskjöl afhent bandaríska utanríkisráðuneytinu 6. júlí 2022. Ísland var meðal fyrstu bandalagsríkja til að ljúka staðfestingarferlinu.

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um vistmorð (sameiginleg með dómsmálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti).
15. júní 2022 – þskj. 1330 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Utanríkisráðuneyti hefur falið sendiskrifstofum að fylgjast með framvindu og umfjöllun um málefnið, m.a. mögulegum undirbúningi löggjafar eða stefnumörkunar í líkt þenkjandi samstarfsríkjum, auk umfjöllunar hjá alþjóðastofnunum og í fjölþjóðasamstarfi. Auk þess kemur málefnið til umfjöllunar eftir atvikum í samráði norrænna utanríkisráðuneyta. Ekki hefur verið tilefni til frekara samráðs innan stjórnkerfisins að svo stöddu. Áfram verður fylgst með málinu.

Þingsályktun 3/153 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 138/2022 og nr. 249/2022 um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og nr. 151/2022 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.
6. desember 2022 – þskj. 723 á 153. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvarðananna þriggja 14. desember 2022 og öðluðust þær allar gildi 15. desember 2022.

Þingsályktun 4/153 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 396/2021 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál), nr. 398/2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XX. viðauka (Umhverfismál), nr. 49/2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun), nr. 77/2022 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIII. viðauka (Flutningastarfsemi), og nr. 78/2022 og nr. 155/2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
6. desember 2022 – þskj. 724 á 153. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar nr. 77/2022 16. júní 2023 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. ágúst 2023. Stefnt er að tilkynningu um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða vegna hinna ákvarðananna fimm eins fljótt og auðið er.

Þingsályktun 1/153 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/2021, nr. 54/2021, nr. 385/2021 og nr. 146/2022 um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
9. nóvember 2022 – þskj. 470 á 153. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar nr. 53/2021 15. júní 2023 en ákvörðunin hefur ekki enn öðlast gildi þar sem hún bíður gildistöku annarrar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar nr. 54/2021 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. ágúst 2023.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar nr.385/2021 15. júní 2023 en ákvörðunin hefur ekki enn öðlast gildi þar sem Noregur er með stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar nr.146/2022 15. júní 2023 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. ágúst 2023.

Þingsályktun 2/153 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/2022 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
9. nóvember 2022 – þskj. 471 á 153. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Stefnt er að tilkynningu um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, í desember 2023.

Þingsályktun 5/153 um staðfestingu rammasamnings um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja og samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2023.
15. desember 2022 – þskj. 849 á 153. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á rammasamningi um fiskveiðar milli ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja sem gerður var í Reykjavík 14. október 2022. Með rammasamningnum voru lagðar til þær breytingar á núverandi samningsframkvæmd ríkjanna að hverfa frá gerð árlegs bréfskiptasamnings Íslands og Færeyja um fiskveiðar í lögsögu ríkjanna, sem lagður hefur verið fyrir Alþingi á hverju haustþingi. Í staðinn yrði framvegis heimilt að semja um þessi fiskveiðiréttindi, sem og önnur skyld atriði, á samráðsfundum ríkjanna sem haldnir verða á grundvelli heimildar í rammasamningnum. Eftir framlagningu tillögunnar á Alþingi kom í ljós að ekki yrði mögulegt að ljúka staðfestingu rammasamnings á stjórnskipulegan hátt í Færeyjum fyrir upphaf fiskveiðiársins 1. janúar 2023. Því var ráðist í gerð bréfaskiptasamnings til eins árs með hefðbundnu sniði fyrir árið 2023. Utanríkismálanefnd lagði því til breytingu á þá leið að Alþingi heimilaði staðfestingu bæði rammasamningsins og bréfaskiptasamningsins fyrir árið 2023. Rammasamningurinn öðlaðist gildi 24. maí 2023.


Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2021.


Forsætisráðuneyti.


Þingsályktun 21/151 um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

11. maí 2021 – þskj. 1402.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunin felur í sér nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hún er nú ávallt lögð til grundvallar í störfum stjórnvalda. Með þingsályktuninni samþykkti Alþingi hina nýju þýðingu og mun hún vera notuð þegar samningurinn er lögfestur. Þá hefur hin nýja þýðing verið birt í Stjórnartíðindum og á vef Stjórnarráðsins.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Þingsályktun 34/151 um hagsmunafulltrúa eldra fólks.
13. júní 2021 – þskj. 1826 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Mælt var fyrir þingsályktunartillögu um hagsmunafulltrúa aldraðra á 151. löggjafarþingi, 109. mál, þskj. 110, 26. nóvember 2020. Inga Sæland formaður og Guðmundur Ingi Kristinsson varaformaður Flokks fólksins fluttu tillöguna. Efni tillögunnar var að Alþingi fæli félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra fyrir árslok 2021. Tilefni þingsályktunartillögunnar var að aldraðir væru fjölmennur og fjölbreyttur hópur og misjafnlega færir um að gæta að eigin réttindum og hagsmunum. Því væri rík þörf á málsvara fyrir þennan hóp.
    Velferðarnefnd lagði fram nefndarálit með breytingartillögu sem var samþykkt 13. júní 2021. Heiti tillögunnar var breytt í „Tillaga til þingsályktunar um hagsmunafulltrúa eldra fólks“. Samkvæmt þingsályktuninni var félags- og barnamálaráðherra falið að stofna starfshóp með hagsmunaaðilum og starfsfólki ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Verkefni starfshópsins væri m.a. að meta hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess ætti að vera.
    Skipun starfshópsins tafðist en félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði hann í apríl 2022.
    Í starfshópi um gerð frumvarps um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks áttu sæti fulltrúar Alzheimersamtakanna, Landssambands eldri borgara, Sambands íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisráðuneytisins auk fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.
    Það liggja ekki fyrir formlegar greiningar á því hvar skórinn kreppir helst varðandi ráðgjöf og upplýsingar til eldra fólks. Því var lagt til, í samstarfi við verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að ráðist yrði í að setja á fót tilraunaverkefni til 2–3 ára um sérstaka ráðgjafaþjónustu fyrir eldra fólk. Samhliða ráðgjöfinni verði gögnum safnað um þau helstu atriði sem eldra fólk þarf ráðgjöf og stuðning með.
    Þá eru nú þegar til staðar formlegar eftirlitsstofnanir sem taka við erindum þeirra sem telja að þjónustu sé ábótavant s.s. Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Embætti landlæknis auk úrskurðarnefndar velferðarmála.
    Með hliðsjón af ofangreindu lagði starfshópurinn til við félags- og vinnumarkaðsráðherra að frekari vinnu við smíði frumvarps um hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk yrði frestað í 2-3 ár til að safna frekari upplýsingum um stöðu hópsins á grunni Gott að eldast, aðgerðaáætlunar um þjónustu við eldra fólk.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015 (mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa).
12. júní 2021 – þskj. 1755 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Frumvarpið fól í sér að við mat ráðherra á áhrifum stjórnarfrumvarpa yrði sérstaklega litið til tveggja meginþátta til viðbótar við mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpa, þ.e. til mats á loftslagsáhrifum auk þess sem jafnréttismat það sem framkvæmt hefur verið á hluta frumvarpa verði gert að almennri reglu. Í álitinu er lagt til að fjármála- og efnahagsráðuneytið taki tillögur frumvarpsins til athugunar þegar farið verður í heildarendurskoðun laga nr. 123/2015.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (sjóðir um sameiginlega fjárfestingu).
12. júní 2021 – þskj. 1748 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Með frumvarpinu sem sex alþingismenn lögðu fram var lagt til að ákvæði til bráðabirgða í lögunum um heimild lífeyrissjóða til að eiga allt að 35% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra yrði gerð varanleg, þó með breytingum.
    Í frávísunartillögunni kom fram að efnahags- og viðskiptanefnd styddi þau markmið sem frumvarp þingmanns fól í sér en taldi nauðsynlegt að vinna það nánar í samráði við hagaðila. Nefndin benti á að ákvæði sama efnis og frumvarp þingmannsins innihélt hefði verið lögfest með lögum nr. 37/2020. Við meðferð þeirra laga hefðu komið fram sjónarmið frá Landssamtökum lífeyrissjóða sem voru mjög í samræmi við frumvarp þingmannsins. Með vísan til þessa lagði nefndin til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnar.
    Hinn 22. mars sl. skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp um gerð grænbókar fyrir lífeyriskerfið. Eitt af verkefnum hópsins er m.a. að taka til skoðunar núgildandi fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Með vísan til þess var ákveðið að bíða með frekari breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða þar til niðurstöður starfshópsins liggja fyrir, sem á að vera eigi síðar en 1. desember nk.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 (takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda).
12. júní 2021 – þskj. 1750 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Frumvarpið, sem fjármála- og efnahagsráðherra flutti, fól í sér annars vegar að hámarkstími verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda yrði almennt 25 ár og hins vegar að lágmarkstími lánanna yrði tíu ár í stað fimm ára. Í frávísunartillögu efnahags- og viðskiptanefndar var lagt til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til skoðunar í ljósi athugasemda í umsögnum við þinglega meðferð þess.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.


Þingsályktun 20/151 um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

6. maí 2021 – þskj. 1384 á 151. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Tillaga til þingsályktunar um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu var lögð fram af hálfu alþingismanna á 151. löggjafarþingi. Í tillögunni var lagt til að Alþingi ályktaði að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að koma á fót nefnd sem ynni að opinberri iðnaðarstefnu. Tillagan var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Þá var sambærileg tillaga lögð fram á 151. löggjafarþingi. Flutningsmenn tillögunnar töldu nauðsynlegt að í iðnaðarstefnu yrði að líta til langs tíma og í henni yrði sett fram skýr framtíðarsýn með mælanlegum viðmiðum. Áhersla skyldi lögð á að benda á mikilvægi þess að iðnaðarstefnan tæki ekki eingöngu tillit til efnahags þjóðarinnar heldur tæki einnig mið af líffræðilegum fjölbreytileika Íslands og hamfarahlýnun jarðar.

Heilbrigðisráðuneyti.


Þingsályktun 29/151 um lýðheilsustefnu til ársins 2030.

12. júní 2021 – þskj. 1759 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um lýðheilsustefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 12. júní 2021. Tillögunni er ætlað að styrkja stefnumótun á sviðinu og felur það í sér að leiðarljós lýðheilsustefnu til ársins 2030 verði heilsuefling og forvarnir sem hluti af allri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Framtíðarsýn fyrir lýðheilsu á Íslandi feli þannig í sér að lýðheilsustarf verði markvisst, á heimsmælikvarða og einkennist m.a. af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu með áherslu á heilsueflingu og forvarnir. Þá verði lýðheilsustarf metið með því að mæla gæði, öryggi, aðgengi og kostnað sem og kostnaðarhagkvæmni. Til þess að framtíðarsýn þessi verði að veruleika er lögð áhersla á eftirfarandi meginviðfangsefni til þess að styrkja stoðir lýðheilsustarfs hér á landi: 1. Forysta til árangurs, 2. Rétt þjónusta á réttum stað, 3. Fólkið í forgrunni, 4. Virkir notendur, 5. Skilvirk þjónustukaup, 6. Gæði í fyrirrúmi og 7. Hugsað til framtíðar.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.
23. febrúar 2021 – þskj. 933 á 151. lögþ. (sameiginleg með heilbrigðisráðuneyti)

Framkvæmd hafin.
    Alþingi samþykkti 23. febrúar 2021 þingsályktun um að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda á fasteignum.
    Með þingsályktuninni fól Alþingi félags- og barnamálaráðherra að grípa til aðgerða sem stuðla að því að draga úr líkum á tjóni vegna rakaskemmda í fasteignum, greiða fyrir nauðsynlegum viðgerðum vegna rakaskemmda og efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim. Félags- og barnamálaráðherra greip til ýmissa aðgerða í þessa átt en málaflokkurinn mannvirkjamál var fluttur til innviðaráðuneytis, sbr. forsetaúrskurð 28. nóvember 2021, og hefur starfinu verið haldið áfram í innviðaráðuneyti.
    Upplýsinga hefur verið aflað um hvernig tryggingavernd varðandi raka- og mygluskemmdir er háttað í nágrannaríkjunum og unnið er að stöðuskýrslu um mögulegar breytingar á tryggingavernd hvað varðar byggingargalla í íbúðarhúsnæði hér á landi. Markmið ráðuneytisins er að tryggingavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda á íbúðarhúsnæði verði aukin og tryggingafélög hvött til að tryggja slíkt tjón.
    Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum tengdum þeim. Til að mynda hafa verið gefin út þrjú leiðbeiningablöð til fagaðila um málefnið, aðgengileg á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Askur – mannvirkjarannsóknarsjóður var settur á stofn árið 2021 og veitir sjóðurinn styrki til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar. Áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Árið 2021 hlutu fjögur rannsóknarverkefni tengd raka og myglu í byggingum styrki, samtals að upphæð 14,5 m.kr.. Eitt verkefnanna fjallar um rakaástand bygginga, úttektir og mat á óhollustu og myglu og annað verkefni hefur að markmiði að útbúa námsgögn og framkvæma kennslu í iðnnámi um rakaöryggi bygginga og myglu.
    Verkefni sem varða rafræna skráningu fasteigna hafa verið flutt frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem nú hefur sett upp rafræna Mannvirkjaskrá. Stefnt er að því að þar verði vistuð öll hönnunargögn bygginga sem fá byggingarleyfi, að lögbundnar úttektir fari fram samkvæmt skoðunarhandbókum HMS og að niðurstöður úttekta verði vistaðar rafrænt í skránni, með það fyrir augum að auðvelda sönnunarbyrði eiganda húsnæðis þegar byggingargalli kemur í ljós, oft mörgum árum eftir eigendaskipti. Ætlunin er að í hinni rafrænu skrá sé einnig hægt að vista gögn um fyrri byggingargalla og viðgerðir sem farið hafa fram. Innviðaráðherra skilaði skýrslu, um raka og myglu í byggingum til Alþingis, 13. janúar 2023 (sjá þingskjal 940 – 268. mál). Í skýrslunni var fjallað um rannsóknir á byggingargöllum, þar með talið íslenskar og norskar rannsóknir á raka og myglu í byggingum.

Þingsályktun 13/151 um orkuskipti í flugi á Íslandi (sameiginleg með heilbrigðisráðuneyti).
3. febrúar 2021 – þskj. 849 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis ályktaði að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að setja á fót starfshóp sérfræðinga til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi.
    Starfshópurinn átti að gera tillögur um hvernig Ísland gæti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi, hvernig styðja mætti við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi, hve fýsilegt landið væri með tilliti til veðurfars og innviða sem þyrftu að vera til staðar hér á landi vegna orkuskipta í flugi, m.a. í tengslum við nýsköpun, umhverfisvæna orkugjafa og þátttöku í prófunum og alþjóðlegri þróun orkuskipta í flugi og þess að sett yrðu markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030 og hvernig áætlun um það samrýmdist öðrum áætlunum ríkisins í orkuskiptum, nýsköpun og loftslagsmálum.
    Unnið er að tillögum um úrbætur. Árið 2022 var gerð skýrsla um efnið sem sett var í samráð. Reiknað er með að skýrslan verði lögð fram á Alþingi á árinu 2024.

Menningar- og viðskiptaráðuneyti.


Þingsályktun 23/151 um ástandsskýrslur fasteigna.
18. maí 2021 – þskj. 1461 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Starfshópur var skipaður 2022 sem falið er að fylgja eftir þingsályktuninni. Verkefni starfshópsins er á áætlun og eru starfslok hópsins áætluð fyrir lok árs 2023.

Mennta- og barnamálaráðuneyti.


Þingsályktun 28/151 um barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
10. júní 2021 – þskj. 1702 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í þingsályktun um barnvænt Ísland er að finna tímasetta og fjármagnaða stefnu og aðgerðaáætlun um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2021–2024. Helsta markmið stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar er að uppfylla kröfur Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og skyldur stjórnvalda samkvæmt Barnasáttmálanum. Með stefnunni er lögfestingu sáttmálans fylgt eftir með markvissum hætti og tryggt að sáttmálinn sé rauður þráður í stefnumótun og aðgerðum stjórnvalda. Markmið stefnunnar er enn fremur að tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, auka samstarf milli opinberra aðila með velferð og réttindi barna að leiðarljósi, tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna og auka þekkingu á réttindum barna innan samfélagsins. Unnið er að framkvæmd aðgerða í samræmi við aðgerðaáætlunina.

Þingsályktun 16/151 um menntastefnu fyrir árin 2021–2030
24. mars 2021 – þskj. 1111 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan var lögð fram af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra eftir víðtækt samráð við hagaðila og ráðleggingar sérfræðinga, bæði innlendra og frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD). Á grundvelli tillögunnar var fyrsta aðgerðaáætlun menntastefnu fyrir árin 2021–2024 gefin út sumarið 2021. Í áætluninni eru 9 aðgerðir sem skipt er upp í verkþætti.


Þingsályktun 33/151 um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.
13. júní 2021 – þskj. 1825 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan kom frá Alþingi. Málefni afreksfólks í íþróttum hafa meðal annars verið til skoðunar í starfshóp um stefnu í íþróttamálum sem skipaður var í júlí 2021. Í upphafi árs 2023 var skipaður starfshópur um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Hlutverk hópsins er að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Hópurinn vinnur að áformum um bætta aðstöðu, stuðning og réttindi fyrir afreksíþróttafólk og er enn að störfum.

Nefndarálit með frávísunartillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks (sameiginleg með fjármála- og efnahagsráðuneyti).
12. júní 2021 – þskj. 1752 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Tillagan sem kom frá Alþingi felur í sér að mennta- og menningarmálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra. Samhliða tillögu þessari fjallaði allsherjar- og menntamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Málin eru efnislega sambærileg og því telur nefndin fullt tilefni til að þau verði unnin í sameiningu innan ráðuneytisins.
    Eins og fjallað hefur verið um var í upphafi árs 2023 skipaður starfshópur um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Hlutverk hópsins er að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Hópurinn vinnur að áformum um bætta aðstöðu, stuðning og réttindi fyrir afreksíþróttafólk og er enn að störfum.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001 (bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis) (sameiginlegt með háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti).

12. júní 2021 – þskj. 1788 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í þingmannafrumvarpi var lagt til að felld yrðu brott lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, og að með því yrði leit og vinnsla jarðefnaeldsneytis bönnuð hér á landi. Í ákvæði til bráðabirgða var lagt til að ráðherra gerði tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar væru í kjölfar samþykktar frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar taldi betur fara á því, ef vilji væri til að setja bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis, að málið yrði skoðað heildstætt og frumvarp lagt fram sem fæli í sér allar nauðsynlegar breytingar á lögum. Meiri hluti atvinnuveganefndar vísaði frumvarpinu því til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og vinnslu.
    Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni (bann við olíuleit) var á þingmálaskrá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á 153. löggjafarþingi en var ekki lagt fram. Breytingar á frumvarpinu eru til skoðunar í ráðuneytinu en ekki er gert ráð fyrir framlagningu á 154. löggjafarþingi.

Þingsályktun 15/151 um mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.
16. mars 2021 – þskj. 1084 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði þann 4. maí 2021 starfshóp sem falið var að meta þörf á frekari rannsóknum, vöktun og viðbrögðum við náttúruvá er nýtist til að efla hættumat og vöktun vegna náttúruvár á Íslandi með vísan í ofangreinda tillögu til þingsályktunar og þau verkefni sem þar eru talin upp.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fór fyrir starfshópnum en auk fulltrúa frá því ráðuneyti voru fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Íslenskum orkurannsóknum, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, forsætisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og innviðaráðuneytinu.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni „Náttúruvá – Stöðumat og áskoranir varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár“ til ráðherra 13. apríl 2023. Í tillögum hópsins kemur fram að framkvæma þurfi hættumat vegna allrar náttúruvár og tryggja að mælar og upplýsingainnviðir standist tæknikröfur. Þá þurfi að styrkja sérþekkingu í málaflokknum þar sem skortur á sérhæfðu starfsfólki sé áskorun þeim stofnunum sem hafi lögbundið hlutverk varðandi náttúruvá. Eins þurfi að tryggja og viðhalda góðu samstarfi stofnana svo fjármunir og sérfræðiþekking nýtist sem best og byggja upp og viðhalda þekkingu á náttúruvá hjá almenningi og kjörnum fulltrúum. Þá sé æskilegt að yfirfara núverandi fjármögnunarleiðir fyrir hættu- og áhættumat með það að markmiði að stuðla að því að það nái yfir alla náttúruvá. Áætlað er að hefja vinnu fljótlega við nánari stefnumótun um hættumat og varnir gegn náttúruvá.

Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.

9. júní 2021 – þskj. 1682 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Áhersla verður lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað. Um atvinnustarfsemi í nýjum þjóðgarði fer samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem eru í samræmi við meginreglur nýrra laga um atvinnustarfsemi í landi ríkisins.“ Til undirbúnings þessa verkefnis og með hliðsjón af nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp 6. maí 2022 sem var falið það hlutverk að vinna skýrslu um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni, „Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði – Staðan og áskoranir“, til ráðherra 9. nóvember 2022.
    Í skýrslunni eru helstu niðurstöður dregnar saman í svokallaða lykilþætti auk gagnlegra upplýsinga um stöðu málaflokksins. Mikilvægur lykilþáttur sem oft kom upp í vinnu hópsins er traust á milli stjórnvalda og hagaðila þegar unnið er að undirbúningi friðlýsinga, innleiðingu regluverks og uppbyggingu innviða. 
    Í ráðuneytinu er unnið að nánari útfærslu þeirra tillagna sem fram koma í skýrslunni.
 

Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um græna atvinnubyltingu (sameiginleg með forsætisráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og matvælaráðuneyti)

12. júní 2021 – þskj. 1753 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar vísaði málinu til ríkisstjórnarinnar. Í áliti nefndarinnar kemur fram að í tillögunni eru lögð til mikilvæg atriði er varða atvinnustefnu til framtíðar og græna hagkerfið. Umfang málsins sé hins vegar mikið og lagðar til aðgerðir sem fela sér töluverð fjárútlát af hálfu hins opinbera sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í framhaldinu var þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra falið að taka tillöguna til skoðunar og meðferðar í samráði við viðkomandi ráðherra.
    Aukin áhersla hefur verið lögð á samstarf og stuðning umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við nýsköpunarverkefni í tengslum við sóknaráætlanir sveitarfélaga, þar sem áhersla er lögð á loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Þá leggur ráðuneytið einnig upp með að nýsköpun, rannsóknir og þróun leiki lykilhlutverk við umskiptin yfir í hringrásarhagkerfi.
    Á árinu 2022 var undirritaður samningur við Klak ehf. um stuðning við hringrásarhraðalinn Hringiðu en hann getur dregið fram, eflt og stutt nýja tækni og aðferðir sem leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum. Á sama ári var einnig undirritaður samstarfssamningur við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Eim um sameiginlega nýsköpun á Norðurlandi, með áherslu á loftslagsmál og hringrásarhagkerfið í gegnum verkefnið Norðanátt.
    Þá var jafnframt gert samkomulag um aðkomu ráðuneytisins að Bláma, sem er samstarfsverkefni ráðuneytisins, Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Eins gerðist ráðuneytið aðili að Orkídeu, sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Enn fremur hefur ráðuneytið gerst aðili að Eimi á Norðurlandi eystra, sem er samstarfsverkefni með Landsvirkjun, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur. Þá hefur ráðuneytið stofnað samstarfsverkefnið Eygló á Austurlandi með Landsvirkjun og Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi. Þá hefur ráðuneytið gerst aðili að Gleipni á Vesturlandi, sem er samstarfsverkefni m.a. með Landbúnaðarháskóla Íslands, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Landsvirkjun.
    Einnig var skipaður stýrihópur um Græna dregilinn, sem ætlað er að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni á Íslandi. Markmið Græna dregilsins er að framfylgja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs t.a.m. á sviði útflutnings, erlendrar fjárfestingar, nýsköpunar, orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni.

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 26/151 um aukið samstarf Grænlands og Íslands.

31. maí 2021 þskj. 1560 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um aukið samstarf Grænlands og Íslands sem samþykkt var í maí 2021. Nefnd um gerð tillagna um aukið samstarf Grænlands og Íslands á nýjum norðurslóðum var skipuð í apríl 2019 og skilaði ítarlegri skýrslu með tillögum um aukið samstarf landanna. Að baki tillögum nefndarinnar var umfangsmesta og ítarlegasta greining á stöðu tvíhliða samskipta landanna sem gerð hafði verið. Skýrslan ber heitið „Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum“. Í henni forgangsraðar nefndin tíu tillögum til stefnumörkunar. Samtals eru tillögur nefndarinnar 99 talsins og fjalla um möguleika á auknu samstarfi stjórnvalda, sveitarfélaga og stofnana, einkageirans, frjálsra félagasamtaka, íþrótta, lista og menningar. Þingsályktunartillagan var lögð fram í framhaldi af skýrslunni. Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands var undirrituð þann 14. október 2022. Í henni er gert ráð fyrir auknu samstarfi á sviði viðskipta, fiskveiða, efnahagssamstarfs þ.m.t. á sviði landbúnaðar, orku, ferðaþjónustu, flugsamgangna og byggingariðnaðar, loftslagsmála og líffræðilegs fjölbreytileika, jafnréttismála, menningar, menntunar og rannsókna. Þann 13. október 2022 undirrituðu forsætisráðherrar Grænlands og Íslands samstarfsyfirlýsingu um aukið samstarf landanna á sviði viðskipta, fiskveiða, efnahagssamstarfs, orku, ferðaþjónustu, flugsamgangna, byggingariðnaðar, loftslagsmála og líffræðilegs fjölbreytileika, jafnréttismála, menningar, menntunar og rannsókna. Utanríkisráðuneytið vann drög að framkvæmdaáætlun sem voru kynnt Grænlendingum síðla hausts 2022 og byggði á samstarfsyfirlýsingu forsætisráðherranna, jafnframt því sem litið var til fyrri yfirlýsinga, Grænlandsskýrslunnar og þess mikla samstarfs sem komið hefur til framkvæmda síðasta áratug. Ekki hefur náðst samkomulag við Grænlendinga um alla hluta áætlunarinnar en engu að síður er unnið eftir þeim þáttum sem löndin hafa sammælst um. Þar má nefna samstarfssamning á milli Rannís og Rannsóknarráðs Grænlands, samvinnu Háskólanna á Akureyri og í Nuuk, víðtækt samstarf um samgöngumál, heilbrigðismál, menningarmál og ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Sendiskrifstofur Íslands í Nuuk og Grænlands í Reykjavík hafa jafnframt náið samstarf sín á milli.

Þingsályktun 19/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónusta).

4. maí 2021 – þskj. 1348 á 151. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, vegna ákvörðunar nr. 19/2020 29. nóvember 2022 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. janúar 2023.

Þingsályktun 17/151 um framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020 (sameiginleg með félags- og vinnumarkaðsráðherra).

27. apríl 2021 þskj. 1297 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunartillagan var lögð fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og var hún samþykkt á Alþingi 27. apríl 2021. Með þingsályktuninni skorar Alþingi á ríkisstjórnina að vinna að framkvæmd þriggja ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins 6. nóvember 2020, um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlandanna (nr. 1/2020), um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða (nr. 2/2020) og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (nr. 3/2020).
    Utanríkisráðuneytið hefur umsýslu með framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins með því að safna upplýsingum um gang mála hjá fagráðuneytum sem að málinu koma og upplýsa Vestnorræna ráðið um hvort og hvað hefur verið gert vegna þeirra. Í þessu tilviki um aukið samstarf vestnorrænna samstarfsráðherra Norðurlanda, um aukið samstarf vestnorrænna ráðherra sem fara með málefni norðurslóða og um stuðning við aukaaðild Færeyinga og Grænlendinga að Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Áfram verður unnið að málunum.

Þingsályktun 24/151 um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.

19. maí 2021 þskj. 1478 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Ályktunin byggði á tillögum þingmannanefndar sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði til að endurskoða stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, en fyrri stefna var komin til ára sinna (samþykkt 2011). Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra flokka á þingi og skilaði nefndin tillögum sínum 19. mars 2021, en þær urðu grundvöllur þingsályktunartillögu utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sem var samþykkt einróma. Þingsályktunin felur ríkisstjórninni að fylgja nítján áhersluþáttum sem spanna allt frá alþjóðlegri samvinnu, sjálfbærri þróun, efnahagslegum tækifærum og vísindarannsóknum til öryggismála og norðurslóðamiðstöðva í Reykjavík og á Akureyri. Ráðherra utanríkismála er ennfremur falið að móta framkvæmdaáætlun með norðurslóðastefnunni í samráði við aðra hlutaðeigandi ráðherra. Vinna við gerð framkvæmdaáætlunarinnar hófst með opnum fundi í Háskólanum á Akureyri, 31. mars 2022, sem jafnframt var fjarfundur. Á fundinum var stefnan kynnt og verkáætlun við mótun framkvæmdaáætlunar fyrir hana. Hinum nítján áhersluþáttum stefnunnar var skipt niður á fimm þemahópa sem safna skyldu tillögum að framkvæmdaþáttum og um hundrað þátttakendur skráðu sig í hópana. Samráð þemahópanna fór að öllu leyti fram með fjarfundum. Hóparnir skiluðu tillögum sínum, alls 75 talsins, 15. september 2022 og var haldinn annar opinn fundur með sama sniði þar sem tillögurnar voru kynntar og ræddar 28. september 2022. Þá tók við starf við forgangsröðun, frágang og framsetningu í nánu samráði við þau ráðuneyti sem hlut eiga að máli. Áætlunin eru nú tilbúin í lokadrögum og inniheldur alls 39 tillögur. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði kynnt í ríkisstjórn og komi til framkvæmdar hjá þeim ráðuneytum, sem ábyrgð bera á hverjum verkþætti fyrir sig.

Þingsályktun 4/152 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2022.

28. desember 2021 – þskj. 277 á 152. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Samningurinn var staðfestur af forseta Íslands 29. desember 2021. Hann gilti samkvæmt efni sínu um fiskveiðar á árinu 2022.


Þingsályktanir frá 2021 þar sem framkvæmd telst lokið og

umfjöllun er óbreytt frá síðustu skýrslu.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    –     Þingsályktun 25/151 um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026, 31. maí 2021 – þskj. 1559 á 151. lögþ.
          Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign (lágmarkstryggingavernd o.fl.), 12. júní 2021 – þskj. 1751 á 151. lögþ.
Innviðaráðuneyti.
          Þingsályktun 27/151 um breytingu á þingsályktun nr. 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024, 31. maí 2021 – þskj. 1561 á 151. lögþ.
Utanríkisráðuneyti.
          Þingsályktun 18/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 235/2020 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES- samninginn, 4. maí 2021 – þskj. 1347 á 151. lögþ.
          Þingsályktun 3/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 388/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 28. desember 2021 – þskj. 276 á 152. lögþ.
          Þingsályktun 2/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 371/2021 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn (dýralyf), 28. desember 2021 – þskj. 275 á 152. lögþ.
          Þingsályktun 1/152 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 384/2021 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (endurbótalýsing verðbréfa), 28. desember 2021 – þskj. 274 á 152. lögþ.


Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2020.


Dómsmálaráðuneyti.


Þingsályktun 23/150 um meðferðar- og endurhæfingarstefnu í málefnum fanga.
29. janúar 2020 – þskj. 892 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin felur í sér að dómsmálaráðherra í samráði við félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra setji á fót starfshóp um mótun heildstæðrar meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu, þ.m.t. að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og greina fjárþörf í því skyni að allir fangar fái einstaklingsbundna meðferðaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. maí 2020. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.
    Dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra skipuðu 29. maí 2020 sameiginlega stýrihóp um málefni fanga en hlutverk hópsins var í samræmi við ályktun Alþingis þar um. Formaður hópsins var fulltrúi félags- og barnamálaráðherra og varaformaður hópsins var fulltrúi Fangelsismálastofnunar. Auk þess áttu sæti í hópnum fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Þá var forstöðumaður Batahúss ráðgjafi hópsins og starfsmenn hans voru tveir sérfræðingar á skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu. Stýrihópurinn fundaði reglubundið frá 29. maí 2020 til 28. apríl 2021 og á fundi hópsins voru kallaðir hagaðilar sem tengjast málefnum fanga til að veita upplýsingar og miðla af þekkingu sinni og reynslu.
    Skýrslan var afhent ráðherrum 15. september 2021 og í henni eru lagðar til breytingar á málaflokknum. Gerðar eru tillögur um húsnæðismál, t.d. um endurbætur og langtímastefnumótun og lagðar til umbætur á flestum fangelsum landsins. Þá eru gerðar tillögur um heildstæða meðferðarstefnu þannig að aukið verði aðgengi fanga að skimun fyrir geðrænum erfiðleikum þegar dómur fellur, stöðugildum sérfræðinga á meðferðarsviði Fangelsismálastofnunar verði fjölgað sem og stöðugildum í geðheilsuteymi fanga og að boðið verði upp á eftirfylgd geðheilsuteymisins í allt að 12 mánuði eftir að afplánun lýkur fyrir þá sem þurfa. Gerð var tillaga um menntun og virkni, atvinnu, hæfingu og félagslegan stuðning að lokinni afplánun, framfærslu og virknigreiðslur og tillögur um aukinn félagslegan stuðning að lokinni afplánun. Þá benti stýrihópurinn á að föngum á bataleið þurfi að standa til boða fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri úrræði en nú gefst kostur á við hefðbundna afplánun.
    Frá því að skýrslan kom út hafa tillögur hennar verið til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu og hefur ráðuneytið átt samtal og samstarf við önnur ráðuneyti sem að málefnum fanga koma. Unnið hefur verið að því að greina tillögurnar og hefur vinna að framkvæmd sumra tillagnanna þegar hafist. Þá hefur verið ákveðið að fara í stefnumótunarvinnu í málaflokknum heildstætt, meðal annars í ljósi þeirra tillagna sem fram komu í skýrslunni. Mun sú vinna hefjast fyrir árslok 2023.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Þingsályktun 43/150 um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.
30. júní 2020 – þskj. 1972 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með samþykkt þingsályktunar 29/152 um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025 samþykkti Alþingi að mótuð yrði stefna í málefnum innflytjenda, flóttafólks og fjölmenningar líkt og það er orðað í fyrstu aðgerð áætlunarinnar. Tillaga að stofnun stýrihóps um stefnumótun í málefnum innflytjenda- og flóttafólks var samþykkt af ríkisstjórn í ágúst 2022. Í kjölfarið óskaði félags- og vinnumarkaðsráðherra eftir tilnefningum í stýrihópinn.
    Við vinnu að stefnu í málefnum innflytjenda og flóttamanna hefur megináherslan verið lögð á að hafa víðtækt samráð við ólíka haghafa og tryggja að sem flestar og fjölbreyttastar raddir heyrist. Stýrihópur um gerð stefnunnar var endanlega skipaður um miðjan janúar 2023 og tók til starfa síðar í þeim sama mánuði. Vinnunni var stýrt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og var það félags og vinnumarkaðsráðherra sem skipaði stýrihópinn og skipaði jafnframt formann hans. Í vinnuhópnum sátu fulltrúar fimm ráðuneyta, auk fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytis komu þeir frá forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti. Að auki sátu þar fulltrúar Alþýðusambands Íslands (ASÍ), stéttarfélaganna BHM og BSRB, fulltrúar frá Félagi kvenna af erlendum uppruna, hugvísindasviði Háskóla Íslands, innflytjendaráði, Kennarasambands Íslands (KÍ), Rauða krossinum á Íslandi (RKÍ), Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Meðlimir stýrihóps og varamenn hópsins tóku jafnframt þátt í vinnuhópum um sértæk þematengd málefni. Skipaðir voru fimm verkefnahópar sem fjölluðu um málefni samfélagsins, fjölskyldu- og heilbrigðismál, menntun, vinnumarkaðinn og flóttafólk.
    Til að breikka þekkingargrunn vinnuhópa var óskað eftir setu fleiri sérfræðinga í einstaka hópum auk þess sem fjöldi gesta kom á fundi eftir efni þeirra. Við þessa vinnu bættust að auki við vinnudagur um samræmda móttöku, úttektarheimsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og rýnihópafundir til að fá fram sjónarmið innflytjenda um nauðsynlegan stuðning þegar fólk flytur til landsins og að öðlast betri sýn á hvar úrbótatækifæri í móttöku og þjónustu við innflytjendur liggja út frá sjónarhóli þeirra sjálfra. Grænbók byggist á því efni sem fram kom á öllum þeim fundum sem upp hafa verið taldir auk efnis í skýrslum og gögnum sem lögð voru fyrir í vinnunni.
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið tók þá ákvörðun við upphaf stefnumótunarvinnunnar að ganga til samstarf við OECD til að treysta hið faglega stefnumótunarferli í heild og fá utanaðkomandi sjónarmið að borðinu. Sérfræðingar á þeirra vegum hafa í gegnum ferlið ráðgefið og safnað upplýsingum sem nýtast inn í grænbókinni.
    Grænbókinni verður til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á Ísland.is í nóvember. Í kjölfar samráðs um efni grænbókar hefst vinna við gerð hvítbókar þar sem lögð verða drög að fyrstu stefnu stjórnvalda um málefni innflytjenda og flóttafólks. Við gerð stefnunnar verður tekið tillit til þeirra athugasemda sem berast í samráðsgátt stjórnvalda. Þegar drög að hvítbók liggja fyrir fer hún í opið samráð. Gert er ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar um stefnu um málefni innflytjenda og flóttafólks verði lögð fyrir Alþingi á vorþingi 2024.

Heilbrigðisráðuneyti.


Þingsályktun 38/150 um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

9. júní 2020 – þskj. 1659 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með samþykkt heilbrigðisstefnu til 2030 ákvað Alþingi eftirfarandi markmið: „Almenn sátt ríki um þær siðferðilegu meginreglur sem liggi til grundvallar forgangsröðun og ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu og stöðug umræða verði um siðferðileg leiðarljós.“ Í kjölfar samþykktar á heilbrigðisstefnu var ákveðið samkvæmt fimm ára aðgerðaáætlun að ná þessu markmiði innan þriggja ára. Heilbrigðisráðherra mælti fyrir þingsályktuninni og er hún liður í því að ná þessu markmiði. Hún er enn fremur liður í að skapa umræðu um siðferðileg gildi þegar kemur að forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni. Þau gildi sem höfð skuli að leiðarljósi eru í fyrsta lagi mannhelgi, í öðru lagi þörf og samstaða og í þriðja lagi hagkvæmni og skilvirkni.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 21/150 um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023.

29. janúar 2020 – þskj. 890 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Vel gengur að framkvæma stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2020. Stjórnartillagan var sett fram eftir víðtækt samráð um allt land og er áhersla einkum lögð á tvö meginmarkmið. Fyrra markmiðið snýr að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og seinna markmiðið lýtur að sjálfstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru áherslur við hvort meginmarkmið um sig sem geta leitt til skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.
    Alls felur tillagan í sér 11 aðgerðir. Flestar aðgerðirnar eru komnar vel á veg enda rennur aðgerðaráætlun þingsályktunarinnar sitt skeið á enda á yfirstandandi ári. Innviðaráðherra mælti lögum samkvæmt fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 á Alþingi þann 26. september síðastliðinn. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur þegar óskað eftir umsögnum hagsmunaaðila um tillöguna.

    Eftirfarandi aðgerðir eru komnar vel á veg:
         Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Alþingi hefur samþykkt breytingar á sveitarstjórnarlögum sem innleiða aðgerðina. Tíu sveitarstjórnir sveitarfélaga með undir 250 íbúum hafa sent álit eða svarað með öðrum hætti erindi ráðuneytisins um sjálfbærni viðkomandi sveitarfélags og tækifæri þess í tengslum við hugsanlega sameiningu/ar. Eftir að hvort tveggja hefur verið kynnt fyrir íbúum fara fram tvær umræður í sveitarstjórn um hvort hefja eigi sameiningarferli. Þróað hefur verið vefsvæði með leiðbeiningum og upplýsingum um sameiningar sveitarfélaga.
         Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar. Nýjar reglur hafa tekið gildi og eru þær til viðmiðunar fyrir þau sveitarfélög sem hyggjast vinna að sameiningu.
         Tekjustofnar sveitarfélaga. Nefnd um endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga hefur lokið kortlagningu á tekjustofnum sveitarfélaga.
         Fjármál og skuldaviðmið. Starfshópur um fjármálareglur fyrir sveitarfélög hefur skilað niðurstöðuskýrslu. Áfram verður unnið með niðurstöður nefndarinnar við endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga.
         Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hefur skilað tillögum og hefur þeim verið komið í viðeigandi farveg.
         Rafræn stjórnsýsla sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa byggt upp miðlægt samstarf og sett hefur verið á fót samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um stafræna umbreytingu undir Jónsmessunefnd. Áhersla er lögð á hagnýtingu upplýsingatækniinnviða sem byggðir hafa verið upp og þekkingu á rafrænum lausnum hins opinbera. Ríkið hefur veitt 100 millj. kr. í átak til að efla stafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga og hefur sambandið yfirumsjón með framkvæmdinni.

    Eftirfarandi aðgerðir eru skemmra á veg komnar:
         Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Samkomulag hefur orðið um að hefja ekki vinnu við aðgerðaáætlun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fyrr en búið er að leysa úr helstu ágreiningsmálum ríkis og sveitarfélaga á sviði fjármála.
         Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna sveitarfélaga. Fyrir liggur skýrsla nefndar um landshlutasamtök sveitarfélaga. Þá liggur fyrir úttekt á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á öllum samstarfssamningum sveitarfélaga. Unnið er að því að greina nánar þau atriði hvað þessar tvær úttektir varðar sem eiga erindi í boðaða endurskoðun sveitarstjórnarlaga.
         Lýðræðislegur vettvangur. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þróað og gefið út leiðbeiningar til sveitarfélaga um ólíkar leiðir til samráðs og íbúalýðræðis. Með sama hætti hefur Sambandið stutt sveitarfélög við framkvæmd tilraunaverkefna á sviði íbúalýðræðis. Vangaveltur hafa verið uppi um hvort sveitarfélögin muni nýta sameiginlegan stafrænan lýðræðisvettvang. Innviðaráðuneytið hefur stutt við íbúalýðræði með breytingum á sveitarstjórnarlögum í því skyni að auðvelda sveitarfélögum að efna til skoðanakannana og íbúakosninga.
         Samskipti ríkis og sveitarfélaga. Athugun hefur leitt í ljós að reynsla annarra norræna þjóða af gerðardómi af þessu tagi sé ekki endilega góð. Í framhaldi af því hefur verið tekin ákvörðun um að hefjast ekki handa við aðgerðina að sinni.
         Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Stjórnvöld hafa ákveðið að öll störf verði auglýst án staðsetningar nema eðli þeirra krefjist annars og markmið verði sett um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Verkefninu er fylgt eftir innan byggðaáætlunar.

Þingsályktun 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024.
29. júní 2020 – þskj. 1943 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í samgönguáætlun er mörkuð stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán árin. Þá er gerð aðgerðaáætlun fyrir fyrsta fimm ára tímabil hverrar samgönguáætlunar. Í aðgerðaáætlun skal vera áætlun fyrir hvert ár tímabilsins fyrir hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála sem eiga undir ráðuneytið.
    Samgönguáætlun til fimmtán ára 2020–2034 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2020–2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi 29. júní 2020. Um var að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi í febrúar 2019. Núgildandi samgönguáætlun er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið og felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform um nýframkvæmdir og viðhald á vegum, höfnum og flugvöllum um land allt. Bein framlög til samgöngumála nema um 640 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili áætlunarinnar.
    Vinnu við endurskoðun samgönguáætlunar lauk vorið 2023 og var þingsályktunartillaga um samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 lögð fyrir Alþingi í október 2023.

Þingsályktun 41/150 um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034.
29. júní 2020 – þskj. 1944 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Um framkvæmd samgönguáætlunar fyrir árin 2020–2034 er vísað í texta um framkvæmd
fimm ára samgönguáætlunar 2020–2024.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Þingsályktun 8/151 um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.
8. desember 2020 – þskj. 525 á 151. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Með tillögunni er lagt til að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Þá er lagt til að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður sínar og leggi fram frumvarp til laga um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok árs 2021.
    Í nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillöguna er bent á að innan ESB tekur á árinu 2021 gildi ný tilskipun um endurnýjanlegt eldsneyti 2018/2001/EB (RED II) sem tekur við af tilskipun 2009/28/EB (RED I). Í tilskipuninni eru m.a. hertar þær kröfur sem gerðar eru til endurnýjanlegs eldsneytis sem unnið er úr fóðurplöntum og stefnt að því að draga markvisst úr notkun slíks eldsneytis fram til ársins 2030. Jafnframt er þar gert ráð fyrir að dregið verði úr notkun pálmaolíu frá árinu 2023 uns notkun hennar verði hætt árið 2030. Tilskipunin er hluti af svokölluðum hreinorkupakka ESB og samkvæmt tilskipuninni skulu ríki ESB hafa lokið við að lögleiða hana á árinu 2021. Tilskipunin er enn til skoðunar hjá EES/EFTA-ríkjunum og ekki liggur fyrir hvenær hún verður tekin upp í EES-samninginn.

Þingsályktun 44/150 um náttúrustofur.

30. júní 2020 – þskj. 1973 á 150. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í ályktuninni var umhverfis- og auðlindaráðherra falið að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum. Starfshópnum verði falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best og til að auka skilvirkni í samstarfi um náttúruvernd. Starfshópurinn ljúki störfum og skili tillögum til ráðherra fyrir 1. desember 2020.
    Starfshópur hefur ekki verið stofnaður í samræmi við tillöguna. Hins vegar hafa náttúrustofur fengið aukið hlutverk við vöktun náttúruverndarsvæða sem hrint var af stað af ríkisstjórninni árið 2020 með sérstakri fjárveitingu. Þá hafa náttúrustofurnar fengið aukið hlutverk í vöktun fuglategunda. Verkefnin eru skilgreind í samningum Náttúrufræðistofnunar Íslands við hverja náttúrustofu og eru jafnframt unnin í samstarfi við Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarð. Einnig fela verkefnin í sér samræmingu gagna sem aflað er í vöktun en nokkuð hefur vantað upp á að svo sé. Þessi verkefni hafa styrkt náttúrustofurnar sem nú eru allar þátttakendur í þessu sameiginlega verkefni og jafnframt styrkt tengsl við ráðuneytið og stofnanir þess. Þessu til viðbótar hefur verið gerður tímabundinn samningur við Náttúrustofu Vesturlands þar sem stofunni var falið að vinna að verkefninu „Forsendugreining fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun.“ Því má líta svo á að framkvæmd þingsályktunarinnar sé hafin þó starfshópi hafi ekki verið komið á fót.

Þingsályktun 24/150 um vestnorræn umhverfisverðlaun hafsins.

25. febrúar 2020 – þskj. 1012 á 150. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Tillaga þessi var lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk.
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti hefur ekki hafið vinnu við að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd.

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 25/150 um niðurgreiðslu flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda.
25. febrúar 2020 – þskj. 1013 á 150. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2019 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 23. október 2019 í Nuuk.
    Menningar- og viðskiptaráðuneyti hefur ekki hafið vinnu við að hrinda þessum tilmælum í framkvæmd.

Þingsályktanir frá 2020 þar sem framkvæmd telst lokið og

umfjöllun er óbreytt frá síðustu skýrslu.


Forsætisráðuneyti.
          Þingsályktun 1/149 um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, 5. desember 2018 – þskj. 607.
          Þingsályktun 37/150 um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, 3. júní 2020 – þskj. 1609.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Þingsályktun 22/150 um tæknilega innviði Stjórnarráðsins og rafræna þjónustu hins opinbera, 29. janúar 2020 – þskj. 891.
          Þingsályktun 28/150 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, 30. mars 2020 – þskj. 1203.
          Þingsályktun 45/150 um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, 3. september 2020 – þskj. 2095.
          Þingsályktun 11/151 um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025, 17. desember 2020 – þskj. 675.
Heilbrigðisráðuneyti.
          Þingsályktun 42/150 um ráðstafanir til að lágmarka kostnað vegna krabbameinsmeðferðar og meðferðar við öðrum langvinnum og lífshættulegum sjúkdómum, 30. júní 2020 – þskj. 1971.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
    –        Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um félög til almannaheilla, 23. júní 2020 – þskj. 1799 á 150. lögþ.
Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
    –        Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um félög til almannaheilla, 23. júní 2020 – þskj. 1799 á 150. lögþ.
Utanríkisráðuneyti.
    –         Þingsályktun 26/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 (samvinna á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn (sameiginlegar efndir samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030), 5. mars. 2020 – þskj. 1080.
          Þingsályktun 29/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 27/2020 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1374.
          Þingsályktun 31/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 259/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1376.
          Þingsályktun 32/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1377.
          Þingsályktun 33/150 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 288/2019 og nr. 301/2019 um breytingar á I. viðauka (heilbrigði dýra og plantna) og II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1378.
          Þingsályktun 34/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 260/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 19. maí 2020 – þskj. 1461.
          Þingsályktun 35/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 um breytingu á V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og bókun 31 (um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn, 19. maí 2020 – þskj. 1462.
          Þingsályktun 36/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 19. maí 2020 – þskj. 1463.
          Þingsályktun 2/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 406.
          Þingsályktun 3/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 407.
          Þingsályktun 4/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 408.
          Þingsályktun 5/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2020 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 409.
          Þingsályktun 6/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2020 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 25. nóvember 2020 – þskj. 410.
          Þingsályktun 7/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 7. desember 2020 – þskj. 513.
          Þingsályktun 9/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 8. desember 2020 – þskj. 527.
          Þingsályktun 30/150 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 237/2019 og nr. 305/2019 um breytingar á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES- samninginn, 11. maí 2020 – þskj. 1375 á 150. lögþ.
              Þingsályktun 1/151 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn. 25. nóvember 2020 – þskj. 405 á 151. lögþ.
              Þingsályktun 10/151 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2021, 16. desember 2020 – þskj. 634 á 151. lögþ.


Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2019.


Forsætisráðuneyti.


Þingsályktun 33/149 um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

3. júní 2019 – þskj. 1690 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar þann 1. júlí 2022 hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra skipað verkefnastjórn um gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í verkefnastjórn sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalags Íslands, Geðhjálpar og Þroskahjálpar. Formaður verkefnastjórnar er fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðherra.
    Undirbúningur lagafrumvarps um lögfestingu samningsins verður jafnframt á ábyrgð verkefnastjórnar og unnið samhliða gerð landsáætlunar. Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður meginverkfæri stjórnvalda í heildstæðri stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks og mun ná til allra þeirra málefnasviða sem falla undir samninginn. Landsáætlun er ætlað að fela í sér skýra framtíðarsýn, val og skilgreiningu á meginmarkmiðum sem stefnt skuli að og framsetningu aðgerða til að innleiða samninginn. Byggt verður meðal annars á kortlagningu á fjárhagslegri og faglegri stöðu málaflokksins og skoðun kosta í framþróun þjónustunnar, en undanfarin misseri hefur átt sér stað vinna við fyrsta áfanga endurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk, þ.m.t. lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Markmiðin sem skilgreind verða í landsáætlun munu byggja á greinum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þeim fylgja síðan áætlun um aðgerðir. Stefnumótunin verður samþætt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og myndar þannig eina heild með markmiðum samningsins. Við setningu markmiðanna verða settir fram mælikvarðar og viðmið þannig að hægt verði að meta hvort markmiðum áætlunarinnar verði náð. Framvindan verður metin á árlegu samráðsþingi. Félags- og vinnumarkaðsráðherra mun leggja fram tillögu til þingsályktunar um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks í nóvember nk. sbr. þingmálaskrá 154. löggjafarþing 2023–2024.

Dómsmálaráðuneyti.


Þingsályktun 41/149 um endurskoðun lögræðislaga.
19. júní 2019 – þskj. 1925.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin felur í sér að sérstök nefnd þingmanna geri heildarendurskoðun á lögræðislögum, nr. 71/1997, í samráði við dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti). Dómsmálaráðuneytið hefur sent nefndinni upplýsingar um æskilegar breytingar á lögræðislögum og tilnefnt tengiliði til þess að veita nefndinni ráðgjöf. Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að frumvarpi til breytinga á lögræðislögum og stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram í janúar 2024. Frumvarpsvinnan hefur verið kynnt fyrir þingmannanefndinni.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum (stytting vinnutíma).
29. apríl 2019 – þskj. 1428 á 149. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Frumvarpið var lagt fram af þingmönnum Pírata. Með frumvarpinu er lagt til að vinnutími, sem vinna ber á dagvinnutímabili á virkum dögum vikunnar, verði styttur úr 40 dagvinnutímum í 35 dagvinnutíma. Er þannig gert ráð fyrir að í hverri viku skuli ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna beri á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar sjö klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.
    Í nefndaráliti kemur meðal annars fram að nefndin styðji meginmarkmið frumvarpsins þess efnis að auka framleiðni og lífsgæði launafólks á Íslandi og því sé tímabært að stjórnvöld í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins vinni að því að koma til móts við kröfur um breytt fyrirkomulag á vinnu. Þar sem svo víðtækt samráð hafi ekki verið haft geti nefndin þó ekki mælt með samþykkt frumvarpsins en beini því til félags- og barnamálaráðherra að vinna markvisst að endurskoðun vinnumarkaðslöggjafarinnar með það að markmiði að auka möguleika fólks á því að koma á jafnvægi milli atvinnu- og fjölskyldulífs.

Þingsályktun 35/149 um áætlun fyrir árin 2019–2022 um
aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.
7. júní 2019 – þskj. 1749 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Þingsályktunartillaga um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess var lögð fram af félags- og barnamálaráðherra en að henni stóðu, auk félagsmálaráðuneytisins (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), ráðuneyti dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála (nú mennta- og barnamálaráðuneyti). Aðgerðaáætlunin tekur til ofbeldis í margþættri mynd, þ.m.t. líkamlegt, kynferðislegt, andlegt og ekki síst kynbundið ofbeldi. Hún byggist á þremur meginþáttum: Vakningu, sem felur í sér forvarnir og fræðslu; viðbrögðum, sem eru verklag og málsmeðferð, og valdeflingu, sem er styrking í kjölfar ofbeldis. Áætlunin tekur einnig mið af þeirri vakningu sem orðið hefur í allri umræðu um ofbeldismál, einkum í kjölfar #metoo-byltingarinnar.
    Í upphafi heimsfaraldurs skipuðu félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra tímabundið aðgerðateymi gegn ofbeldi þar sem viðbúið var að ofbeldi gæti aukist á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Aðgerðateyminu var meðal annars falið að horfa til aðgerða í þingsályktuninni og var mörgum verkefnum sem styðja við þær aðgerðir hrint í framkvæmd. Þá eru í þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021–2025 ákveðnar aðgerðir, sem lúta einkum að forvörnum og fræðslu, sem vinna að sömu markmiðum.
    Við lok tímabils þingsályktunarinnar birti ráðuneytið skýrslu um eftirfylgni aðgerða sem félags- og vinnumarkaðsráðherra kynnti formlega fyrir ríkisstjórn en í árslok 2022 voru allar aðgerðir komnar til framkvæmda eða þeim lokið, að einni undanskilinni.
    Áformað var að vorið 2023 yrði skipaður starfshópur sem falið yrði að vinna nýja aðgerðaáætlun en í ljósi fjölda yfirstandandi verkefna og aðgerðaáætlana á vegum stjórnvalda sem lúta að aðgerðum gegn ofbeldi, var talið rétt að þeim verkefnum yrði fylgt úr hlaði og mat lagt á framvindu þeirra áður en hafist yrði handa við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar. Má þar t.d. nefna vinnu starfshóps á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis sem vinnur að því að skoða og meta hvaða laga- og reglugerðabreytinga er þörf þegar kemur að þjónustu vegna ofbeldis með tilliti til ákvæða í samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúlsamningur).

Fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (hækkun starfslokaaldurs).
13. desember 2019 – þskj. 723 á 150. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Efnahags- og viðskiptanefnd vísaði því til ríkisstjórnar að framkvæma heildstæða endurskoðun á lögum og reglum um starfslokaaldur í samráði við bandalög opinberra starfsmanna auk fleiri aðila sem kunna að hafa hagsmuna að gæta í tengslum við málið. Eins og fram kemur í nefndarálitinu eru flestir umsagnaraðilar hlynntir því að endurskoða ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem fjalla um hámarksaldur starfsmanna ríkisins. Sjónarmið sem búa þar að baki og tillögur um breytingar eru aftur á móti af ólíkum meiði. Ekki hefur auðnast að hefja þessa vinnu. Tilefni kann að vera til að leggja mat á hvort endurskoða þurfi fleiri greinar laganna og jafnvel lögin í heild sinni.

Innviðaráðuneyti.


Þingsályktun 12/150 um óháða úttekt á Landeyjahöfn.
2. desember 2019 – þskj. 608.

Framkvæmd hafin.
    Í mars 2020 var óháð úttekt á Landeyjahöfn boðin út hjá Ríkiskaupum fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (nú innviðaráðuneyti). Lægstbjóðandi í verkið var verkfræðistofan Mannvit í samvinnu við Vatnaskil og LeoVanRijn-Sediment Consultancy. Ráðgjafarnir skiluðu skýrslu í október 2020 þar sem fram kom m.a. að til að ná markmiðum um stóraukna nýtingu Landeyjahafnar væri þörf á endurbótum á höfninni. Mótvægisaðgerðir hafi ekki dugað hingað til og ætla megi að erfitt sjólag utan hafnar muni áfram takmarka siglingar nýrrar ferju. Í skýrslunni voru kynntar ráðleggingar fyrir mat á mögulegum endurbótum á höfninni og vegvísir að heildstæðri óháðri úttekt á Landeyjahöfn sem geri ráð fyrir tæknilegu mati og kostnaðarmati á mögulegum endurbótum.
    Vatnaskil vinnur nú að frekari greiningarvinnu og tillögur að leiðum til úrbóta til að auka enn frekar upptíma hafnarinnar. Reiknað er með að þeirri vinnu ljúki í október 2023.

Matvælaráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um
endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.
16. desember 2019 – þskj. 756 á 150. lögþ. (sameiginlegt með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti).

Framkvæmd hafin.
    Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar vísaði tillögunni til ríkisstjórnarinnar. Tillagan tengdist þeirri vinnu sem þegar var hafin á þessu sviði vegna laga um landgræðslu, nr. 155/2018, sem samþykkt voru á Alþingi 14. desember 2018. Meiri hluti nefndarinnar óskaði þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (nú matvælaráðherra) og umhverfis- og auðlindaráðherra (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra) myndu hlutast til um skýrslugjöf um framgang verkefnisins til umhverfis- og samgöngunefndar og var umræddri skýrslu skilað til nefndarinnar í byrjun nóvember 2020. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti) setti drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu í samræmi við 11. gr. landgræðslulaganna í samráðsgátt stjórnvalda í september 2021. Við breytingar á skipulagi ráðuneyta voru verkefni landgræðslu færð í matvælaráðuneyti sem einnig fer með framkvæmd búvörusamninga. Innan ráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu og setningu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti). Í þeirri vinnu verður einnig unnið að samræmingu við reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu með því markmiði að í regluverkinu verði að finna skýr viðmið um sjálfbæra landnýtingu, tryggð verði markviss meðferð fjármuna og skilvirk stjórnsýsla við framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.


Menningar- og viðskiptaráðuneyti.


Þingsályktun 38/149 um samstarf vestnorrænu landanna um tungumál í stafrænum heimi.

7. júní 2019 – þskj. 1762 á 149. lögþ.

Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin byggir á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 2/2018 um stofnun formlegs vettvangs um framtíð vestnorrænu tungumálanna og fól í sér að formlegur vinnuhópur/samstarfsvettvangur yrði stofnaður með það fyrir augum að semja skýrslu með yfirliti um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja ásamt yfirliti um þann máltæknibúnað (hugbúnað og gagnasöfn) sem til er fyrir hvert málanna og leggja fram tillögur að samstarfi um máltæknibúnað og önnur viðbrögð við stafrænu byltingunni. Liður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023 er að móta sameiginlega norræna stefnu um stafræna máltækni. Þegar hefur verið unnin töluvert vinna í málefnum norsku, dönsku og sænsku og því er áhersla lögð á stöðutöku hinna tungumálanna, þ.e. íslensku, grænlensku, færeysku, finnsku og samísku. Gerður hefur verið samningur um gerð stöðuskýrslunnar við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem leiða mun verkefnið og á skýrslan að vera tilbúin í árslok 2023. Stöðuskýrslan mun innihalda upplýsingar um hvað hefur verið gert á vettvangi máltækni fyrir viðkomandi tungumál, hvernig opinber stefnumótun landanna taki mið af máltækni og hvort til sé máltæknistefna eða aðgerðaáætlun fyrir viðkomandi tungumál.

Mennta- og barnamálaráðuneyti.


Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um
aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.
3. apríl 2019 – þskj. 1301 á 149. lögþ. (sameiginlegt með dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og innviðaráðuneyti)

Framkvæmd hafin.
    Með þingsályktunartillögunni var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til þess að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Tillögurnar voru settar fram í sjö köflum og 49 liðum og innihalda aðgerðir þess til að bæta afkomu barnafjölskyldna, styðja við uppeldi og efla forvarnir. Í þingsályktunartillögunni var lagt til að ríkisstjórnin ynni slíka aðgerðaáætlun í málefnum barna.
    Velferðarnefnd tók undir þau sjónarmið sem fram komu í þingsályktunartillögunni en taldi rétt að efni hennar yrði nýtt við vinnu ríkisstjórnarinnar við að bregðast við athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Undirstrikaði nefndin í því sambandi almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar, nr. 5/2003, um að unnin skyldi aðgerðaáætlun í málefnum barna. Nefndin taldi nauðsynlegt að ríkisstjórnin ynni þá aðgerðaáætlun svo tryggja mætti þverfaglegt samráð allra ráðuneyta og lagði til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Litið hefur verið til undirbúnings slíkrar aðgerðaáætlunar í stefnumótun í málefnum barna undanfarin ár. Í tillögu með nýrri þingsályktun um Barnvænt Ísland sem er fjallað um hér að ofan þar sem kveðið er á um heildstæða stefnumótun í þágu barna. Þá kemur fram í 3. mgr. 3. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 að mennta- og barnamálaráðherra skuli leggja fram stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna sem unnin skal í samráði milli ráðherra sem koma að málefnum barna. Stefnan hefur ekki enn verið lögð fram en samkvæmt 4. gr. laganna skal við undirbúning stefnunnar tekið mið af niðurstöðum farsældarþings sem var haldið í fyrsta skipti haustið 2023.


Þingsályktun 39/149 um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019–2022.
12. júní 2019 – þskj. 1795 á 149. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Tímabil framkvæmdaáætlunar á sviði barnaverndar 2019–2022 lauk árið 2022. Mennta- og barnamálaráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023–2027 (þskj. 244, 241. mál á 154. lögþ.)

Þingsályktun 37/149 um vestnorrænt samstarf á sviði íþrótta barna og unglinga.

7. júní 2019 – þskj. 1761. á 149. lögþ.

Framkvæmd ekki hafin.
    Þingsályktunin byggist á ályktun Vestnorræna ráðsins nr. 1/2018 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 5. september 2018 í Þórshöfn í Færeyjum, en tillaga til þingsályktunar var lögð fram af Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Samkvæmt þingsályktuninni ályktaði Alþingi að skora á ríkisstjórnina að efla samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði íþrótta barna og unglinga. Alþingi beindi þeim tilmælum því til ríkisstjórnarinnar að kanna til hlítar hvernig styrkja mætti samstarf landanna á þessum vettvangi til hagsbóta fyrir æsku Vestur-Norðurlanda og stuðla að því að treysta samstarf landanna til framtíðar.
    Samstarf á sviði íþrótta á milli Íslands, Færeyja og Grænlands er þegar mjög mikið. Fjöldi íþróttafólks fer á milli landanna sem leikmenn og þjálfarar á milli félagsliða. Íþróttasambönd Færeyja og Grænlands eru með umfangsmikla starfsemi innan alþjóðlega kerfisins og tilheyra dönsku Ólympíunefndinni. Þess má geta að eini fjárhagslegi stuðningurinn vegna vestnorræns samstarfs á sviði íþrótta kom frá norrænu ráðherranefndinni og var það framlag skorið niður fyrir allmörgum árum síðan. Það sem hefur hindrað að þessi þingsályktun komi til framkvæmda er skortur á fjármagn sem mætti nýta til ferðastyrkja til íþróttafélaga eða sem hvata að annarri samvinnu. Þörfin fyrir meira samstarf enn nú er virðist ekki vera til staðar hjá þessum íþróttahreyfingum. Nefna má að mennta- og menningarmálaráðuneytið (nú mennta- og barnamálaráðuneyti) studdi fjárhagslega starfsemi hérlendra samtaka svo sem Hróksins og Kalak sem stóðu fyrir verkefnum fyrir grænlensk börn á sviði skákar og sundkennslu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.


Þingsályktun 43/149 um skilgreiningu auðlinda.

20. júní 2019 – þskj. 1938.

Framkvæmd hafin.
    Með ályktuninni var umhverfis- og auðlindaráðherra falið að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Ráðuneytið hefur hafið vinnu við skilgreiningar á náttúruauðlindum landsins til að auka skilning á eðli og umfangi þeirra.

Utanríkisráðuneyti.


Þingsályktun 26/149 um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.
2. maí 2019 – þskj. 1424.

Framkvæmd hafin.
    Í þingsályktuninni er sett fram stefna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu til ársins 2023. Utanríkisráðuneytið hefur starfað á grundvelli stefnunnar við framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands. Stefnan byggist á tíu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og starfar Ísland með fjölþjóðastofnunum, tvíhliða samstarfsríkjum, frjálsum félagasamtökum og aðilum atvinnulífsins að framkvæmd í málaflokknum. Aðgerðaáætlun var uppfærð fyrir árin 2021–2022 og aðgerðaáætlun fyrir 2023 gerð. Í haust mun utanríkisráðherra leggja fram þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2024–2028 ásamt aðgerðaáætlun fyrir 2024-2025. Mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál eru sértæk og þverlæg áhersluatriði sem höfð eru að leiðarljósi í öllu starfi. Með alþjóðlegri þróunarsamvinnu leggja íslensk stjórnvöld sitt af mörkum í baráttunni gegn sárri fátækt og hungri og er hún mikilvægur þáttur í að Ísland uppfylli pólitískar, lagalegar og siðferðilegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna

Þingsályktun 13/150 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.
11. desember 2019 – þskj. 690 á 150. lögþ.

Framkvæmd lokið.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins vegna ákvörðunar nr. 128/2019 og öðlaðist ákvörðunin gildi 1. febrúar 2023.

Þingsályktanir frá 2019 þar sem framkvæmd telst lokið og

umfjöllun er óbreytt frá síðustu skýrslu.


Forsætisráðuneyti.
    –         Þingsályktun 19/149 um breytingu á þingsályktun 13/144 um Jafnréttissjóð Íslands, 2. apríl 2019 – þskj. 1286.
         Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um eflingu björgunarskipaflota Landsbjargar, 8. apríl 2019 – þskj. 1311.
          Þingsályktun 16/150 um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023, 16. desember 2019 – þskj. 762.
         Nefndarálit með frávísunartillögu um tillögu til þingsályktunar um ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.
Dómsmálaráðuneyti.
          Þingsályktun 20/150 um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu, 17. desember 2019 – þskj. 822.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
          Þingsályktun 44/149 um úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu, 20. júní 2019 – þskj. 1945.
          Þingsályktun 34/149 um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, 3. júní 2019 – þskj. 1695 á 149. lögþ.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
          Þingsályktun 46/149 um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, 20. júní 2019 – þskj. 1981.
          Þingsályktun 47/149 um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, 20. júní 2019 – þskj. 1982.
Heilbrigðisráðuneyti.
          Þingsályktun 29/149 um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, 3. júní 2019 – þskj. 1684.
         Nefndarálit með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með síðari breytingum (neyslurými), 4. júní 2019 – þskj. 1723 á 149. lögþ.
          Þingsályktun 27/149 um mótun stefnu um bráðaþjónustu utan spítala, 7. maí 2019 – þskj. 1479.
          Þingsályktun 17/150 um rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara, 16. desember 2019 – þskj. 765.
          Þingsályktun 18/150 um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu, 16. desember 2019 – þskj. 766.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
          Þingsályktun 32/149 um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033, 3. júní 2019 – þskj. 1688.
Innviðaráðuneyti.
          Þingsályktun 10/149 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023, 7. febrúar 2019 – þskj. 927.
          Þingsályktun 11/149 um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033, 7. febrúar 2019 – þskj. 928.
          Þingsályktun 42/149 um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, 19. júní 2019 – þskj. 1926 (sameiginleg með forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti).
Matvælaráðuneyti.
    –         Þingsályktun 40/149 um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna, 19. júní 2019 – þskj. 1924.
Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
          Þingsályktun 36/149 um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi.7. júní 2019 – þskj. 1750 á 149. lögþ.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
          Þingsályktun 50/149 um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 2. september 2019 – þskj. 2067.
Utanríkisráðuneyti
          Þingsályktun 12/149 um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands, 20. febrúar 2019 – þskj. 961.
          Þingsályktun 13/149 um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvadors, 20. febrúar 2019 – þskj. 962.
          Þingsályktun 14/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 6. mars 2019 – þskj. 1075.
          Þingsályktun 15/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 6. mars 2019 – þskj. 1076.
          Þingsályktun 16/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 2. apríl 2019 – þskj. 1283.
          Þingsályktun 17/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 2. apríl 2019 – þskj. 1284.
          Þingsályktun 18/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. apríl 2019 – þskj. 1285.
          Þingsályktun 20/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1418.
          Þingsályktun 21/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1419.
          Þingsályktun 22/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1420.
          Þingsályktun 23/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1421.
          Þingsályktun 24/149 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1422.
          Þingsályktun 25/149 um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2019 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 2. maí 2019 – þskj. 1423.
          Þingsályktun 28/149 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja, 13. maí 2019 – þskj. 1508.
          Þingsályktun 39/149 um fullgildingu samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins, 3. júní 2019 – þskj. 1685.