Ferill 602. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2023  —  602. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um ábyrgð á vernd barna gegn einelti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða aðilar sem heyra undir ráðherra bera ábyrgð á því að börn verði ekki fyrir einelti í ljósi þess að ráðherra fer með málefni leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, auk annarra skóla, sbr. 2. tölul. 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018? Óskað er eftir því að tilgreindir verði allir aðilar sem bera ábyrgð á því að koma í veg fyrir einelti og vernda þolendur þess, hvernig ábyrgð þeirra skiptist og samkvæmt hvaða lögum og reglum sú ábyrgð hvílir á þeim.

    Samkvæmt 2. tölul. 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, er mennta- og menningarmálaráðherra æðsti yfirmaður skólamála og fer með yfirstjórn og eftirlit með leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir fela í sér boðvald ráðherra til lægra settra stjórnvalda svo framarlega sem lög takmarki ekki þessa heimild, þar sem stjórnsýslan er stigskipt. Samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 90/2008, og lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, bera sveitarfélög ábyrgð á rekstri og starfi leik- og grunnskóla og eru sveitarfélög sjálfstæð stjórnvöld í skilningi 78. gr. stjórnarskrárinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, verða menn lögráða við 18 ára aldur. Í því felst sjálfræði og fjárræði. Börn eru samkvæmt lögum einstaklingar yngri en 18 ára og fellur þar með einungis hluti nemenda í framhaldsskóla undir skilgreininguna börn, en enginn nemandi í háskóla eða framhaldsfræðslu er barn í skilningi laganna.
    Samkvæmt framansögðu afmarkast svarið við þá skilgreiningu að börn eru samkvæmt lögunum einstaklingar að 18 ára aldri og að börn að 16 ára aldri heyra undir málefni sveitarfélaga.
    Í lögum og reglugerðum þeim tengdum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og handbókum fyrir leikskóla og grunnskóla er tilgreint hvaða aðilar bera ábyrgð á öryggi barna, þ.m.t. forvörnum gegn einelti, og hvernig ábyrgð þeirra skiptist.
    Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, segir í 2. gr.: „Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði.“
    Í Handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum, sem unnin var í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga með hliðsjón af lögum um leikskóla, segir: „Í lögum og reglugerðum er ekki kveðið á um skyldur leikskóla til að gera sér stefnu um aðgerðir gegn einelti. Andi laga um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla eru þó hvatning til að leikskólar setji sér stefnu til að koma í veg fyrir og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Leikskólar geta nýtt sér þær tillögur sem fram koma í kaflanum hér að neðan um grunnskólann.“
    Í grunnskólalögum, nr. 91/2008, er kveðið á um samráð skólastjóra og kennara við foreldra um hegðun, líðan og samskipti. Samkvæmt 30. gr. laganna er skólum gert að marka sér heildstæða stefnu um hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólakerfinu. Í reglugerð nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, er kveðið á um ábyrgð starfsfólks skóla á velferð nemenda. Í 4. gr. reglugerðarinnar er tilgreind ábyrgð nemenda á eigin hegðun, háttsemi og samskiptum og í 5. gr. er tilgreind samábyrgð foreldra á hegðun og framkomu barna sinna. Í 7. gr. er fjallað um starf grunnskóla gegn einelti þar sem m.a. er tilgreint að skólar skuli setja sér heildstæða stefnu og aðgerðaáætlun gegn einelti og að kanna beri reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.
    Í Handbók um velferð og öryggi barna í grunnskólum, sem unnin var í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga með hliðsjón af reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða, nr. 578/2009, segir m.a. um aðgerðir gegn einelti: „Eineltisáætlun á að vera virk í skólanum. Traust og vellíðan nemanda byggir á að honum sé ekki strítt eða hann niðurlægður á annan hátt. Nemandi á að geta treyst starfsfólki skólans til að grípa inn í aðstæður og skipta sér af sé þess þörf. Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta. Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega.“
    Í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er kveðið á um ábyrgð nemenda á framkomu og samskiptum í 33. gr. a. Í 33. gr. b segir að hver skóli skuli setja sér skólareglur þar sem m.a. sé kveðið á um hegðun og samskipti, að skólar skuli hafa heildstæða stefnu um hvernig megi fyrirbyggja ofbeldi og að skólar skuli hafa áætlun um viðbrögð við einelti.
    Í reglugerð nr. 326/2016, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum, er kveðið á um ábyrgð starfsfólks skóla á velferð nemenda. Í 4. gr. er tilgreind ábyrgð nemenda á eigin hegðun og samskiptum og í 5. gr. ábyrgð foreldra á ungmennum sínum að 18 ára aldri. Í 9. gr. er fjallað um starf framhaldsskóla gegn einelti með því að setja sér heildstæða stefnu til að vinna gegn einelti með virkum hætti.
    Auk þessa er fjallað um skólabrag í kafla 1.3 í sameiginlegum almennum hluta aðalnámskrár leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þar segir: „Kennarar leiðbeina börnum og ungmennum í námi og mati á því og vinna að því að þeir tileinki sér heilbrigða lífshætti. Þeir leitast við að skapa góðan skólabrag, réttlátar vinnureglur og hvetjandi námsumhverfi.“ Í kafla 2.1.5 um heilbrigði og velferð segir: „Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.“ Þar segir einnig: „Í skólum þarf að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta. Efla þarf færni þeirra í samskiptum, uppbyggingu sjálfsmyndar, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og streitustjórnun.“
    Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum er starfrækt í samræmi við ákvæði í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, nr. 1040/2011, og ákvæði í sambærilegri reglugerð fyrir framhaldsskóla, nr. 326/2016. Hlutverk ráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf. Hægt er að vísa eineltismálum til fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn á eineltismálum innan skóla eða sveitarfélags eða vegna meints aðgerðaleysis sömu aðila. Skal þá fagráðið veita ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem því berast. Starf fagráðsins tekur til allra nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Umsjón og umsýsla fagráðsins er hjá Menntamálastofnun.
    Þá er rétt að geta þess að í reglugerð 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, segir í 8. gr. um skyldur starfsmanna: „Starfsmönnum er óheimilt að leggja annan starfsmann eða aðra starfsmenn sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda í einelti á vinnustað. Starfsmönnum er jafnframt óheimilt að áreita annan starfsmann eða aðra starfsmenn sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda kynferðislega sem og á grundvelli kyns eða beita þá ofbeldi á vinnustað.“
    Af framangreindu leiðir að margir aðilar koma að eineltismálum, forvörnum, ábyrgð og eftirfylgni, enda eru eineltismál samfélagslegt verkefni þar sem allir verða að leggjast á árarnar. Þeir sem heyra undir ráðherra og bera ábyrgð á því að fylgja lögum og reglugerðum og þeim ráðleggingum sem settar eru fram í handbókum er varða öryggi barna, þ.m.t. forvarnir gegn einelti, eru aðallega starfsfólk skóla, en einnig börn og foreldrar þeirra og lögráða nemendur framhaldsskóla.