Ferill 868. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2102  —  868. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um niðurstöður starfshóps um lækkun lífeyristökualdurs tiltekinna starfshópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur starfshópur sem ráðherra var gert að skipa til að greina með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast, á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 127/2016, skilað niðurstöðum sínum? Ef svo er, hverjar voru niðurstöðurnar og hver eru áætluð næstu skref? Ef ekki, hver er staða vinnu starfshópsins?

    Starfshópurinn var skipaður í júní 2016. Hópnum er falið að greina með heildstæðum hætti þörf á því að lífeyristökualdur tiltekinna starfshópa verði lægri en almennt tíðkast. Hópurinn er skipaður fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, heildarsamtaka á almennum og opinberum vinnumarkaði og Samtaka atvinnulífsins. Frá því að hópurinn tók til starfa hefur verið unnin greiningarvinna og upplýsingar teknar saman um hvernig þessum málum er háttað í samanburðarlöndum. Í upphafi var gert ráð fyrir að hópurinn lyki störfum í lok árs 2017. Af óviðráðanlegum orsökum og vegna mikils umfangs greiningarvinnu hefur nefndarstarf tekið lengri tíma en áætlað var í upphafi. Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum í lok árs 2019.