Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Nr. 13/151.

Þingskjal 849  —  330. mál.


Þingsályktun

um orkuskipti í flugi á Íslandi.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra að setja á fót starfshóp sérfræðinga til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Starfshópurinn geri tillögur og ræði eftirfarandi:
     a.      Hvernig Ísland geti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi.
     b.      Hvernig styðja megi við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi.
     c.      Fýsileika landsins með tilliti til veðurfars og þess hvaða innviðir þurfi að vera til staðar hér á landi vegna orkuskipta í flugi, m.a. í tengslum við nýsköpun, umhverfisvæna orkugjafa og þátttöku í prófunum og alþjóðlegri þróun orkuskipta í flugi.
     d.      Að sett verði markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030 og hvernig áætlun um það samrýmist öðrum áætlunum ríkisins í orkuskiptum, nýsköpun og loftslagsmálum.
    Lögð er áhersla á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið verði í forsvari við að koma á samtali á milli framleiðenda og flugrekenda með það að markmiði að Ísland verði áfangastaður við prófanir á flugvélum sem nota umhverfisvæna orkugjafa til farþega- og vöruflutninga á heimsvísu.
    Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. nóvember 2021.
    Ráðherra kynni Alþingi niðurstöðu starfshópsins.

Samþykkt á Alþingi 3. febrúar 2021.