Ferill 627. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1517  —  627. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026.

Frá 4. minni hluta fjárlaganefndar.


    Á liðnu kjörtímabili hefur reynt mjög á lög um opinber fjármál. Alþingi hefur frá síðustu kosningum samþykkt fjármálastefnu, tvær tillögur um breytingar á fjármálastefnu, þrjár fjármálaáætlanir, fern fjárlög, ein lokafjárlög og loks átta sinnum fjáraukalög. Strax á vormánuðum 2019 þurfti að endurskoða fjármálastefnu og framlagða fjármálaáætlun. Sú endurskoðun reyndist nauðsynleg enda hafði ríkisfjármálum verið of þröngur stakkur sniðinn í upphaflegri fjármálastefnu. Í kjölfarið var ákveðið að setja inn í fjármálastefnu svokallað óvissusvigrúm. Vonir stóðu til að með auknu svigrúmi fjármálastefnu þyrfti ekki að grípa til frekari endurskoðunar jafnvel þó að svartsýnni sviðsmyndir yrðu að veruleika. COVID-19 gerði út um þær vonir og allt frá komu faraldursins hafa ríkisfjármálin verið í viðstöðulausri endurskoðun.
    Það má velta því fyrir sér hvers vegna lög kveði á um árlega framlagningu fjármálaætlunar í ljósi þess hversu oft hefur þurft að víkja frá gildandi áætlunum á liðnu kjörtímabili. Fjármálastefna leggur strax í upphafi kjörtímabils fram skilgreind viðmið í ríkisfjármálum og fjármálaáætlanir geta ekki hnikað þeim viðmiðum. Þá eru ráðherrar ekki bundnir af þeirri stefnumótun sem kemur fram í fjármálaáætlun um einstök málefnasvið. Enn fremur getur meiri hluti Alþingis vikið frá skilyrðum laga um opinber fjármál, t.d. um skuldahlutfall, eins og gert var í kjölfar COVID-19. Þrátt fyrir framangreint hefur regluleg framlagning fjármálaáætlana sannað gildi sitt að vissu leyti. Sú umfjöllun sem fjármálaáætlun fær á vormánuðum gerir það að verkum að ríkisfjármálin eru reglulega í umræðunni í stað þess að þau séu aðeins rædd í tengslum við fjárlög. Þá er gagnlegt að hafa yfirsýn yfir stefnumótun einstakra málefnasviða til lengri tíma. Gildandi fjármálaáætlun hverju sinni leggur auk þess þrýsting á sitjandi ríkisstjórn að uppfylla gefin loforð.
    Eins og segir í greinargerð við fjármálaáætlun eru engar efnislegar breytingar frá gildandi fjármálaáætlun og helstu breytingar tilkomnar vegna uppfærðrar þjóðhagsspár. Þessi fjármálaáætlun er því haldin sömu göllum og sú fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti rétt fyrir síðustu jól (2020). Ekki er búið að útfæra hvernig eigi að vinna niður biðlista í heilbrigðiskerfinu. Ekki er búið að fjármagna niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar. Enn þá er gerð aðhaldskrafa á opinberar stofnanir á tíma áætlunarinnar og ekki er áætlað að ráðast í úrbætur á almannatryggingakerfinu til að draga úr skerðingum og koma í veg fyrir frekari kjaragliðnun.
    Næsta ríkisstjórn mun fá í hendurnar það verkefni að útfæra nánar afkomubætandi ráðstafanir á árunum 2023–2025 að umfangi 102 ma.kr. Þá skiptir miklu að læra af mistökum fortíðarinnar og standa vörð um heilbrigðiskerfið og almannatryggingar. Við megum ekki skera niður í opinberri þjónustu til þeirra sem mest þurfa á aðstoð að halda. Fyrir nokkrum dögum fjallaði fréttastofa RÚV um 80% aukningu bráðainnlagna. Geðlæknir BUGL sagði af því tilefni að sérfræðingar væru sammála um að við séum nú að fá yfir okkur afleiðingar bankakreppunnar. 1 Við erum ekki enn þá búin að sjá fyrir endann á afleiðingum þess hve mikið var skorið niður í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Gerum ekki sömu mistök aftur.
    Fjórði minni hluti leggur til nokkrar breytingartillögur við tillögu til fjármáláaætlunar sem allar miða að því að draga úr biðlistum í heilbrigðiskerfinu og aðstoða þá sem mest þurfa á aðstoð að halda.
     *      Lagt er til að framlög verði aukin á málefnasviði 23 til að efla geðheilbrigðisúrræði og draga úr biðtíma eftir úrræðum.
        – 1 ma.kr. ár hvert
     *      Lagt er til að framlög verði aukin á málefnasviði 24 til að fjármagna niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar.
        – 1 ma.kr. ár hvert
     *      Lagt er til að framlög á málefnasviðið 25 verði aukin til að hægt sé að fjármagna hjúkrunarrými í réttu samræmi við kostnað. Rekstrarhalli er viðloðandi vandamál hjá hjúkrunarheimilum og ljóst er að hækka þarf framlög strax til að tryggja áframhaldandi rekstur hjúkrunarheimila. Þá verður að tryggja það að heimilin fái fjármagn til að tryggja mönnun til að mæta kröfum um styttingu vinnuvikunnar. Einnig er lagt til að framlög á málefnasviði 25 verði aukin svo að efla megi meðferðarúrræði og draga úr biðlistum
        – 3 ma.kr. ár hvert vegna hjúkrunarheimila
        – 400 m.kr. ár hvert vegna meðferðarúrræða
     *      Lagt er til að framlög verði aukin á málefnasviðum 27 og 28 svo að draga megi úr skerðingum almannatrygginga og tryggja árlega uppfærslu skv. 69. gr. laga um almannatryggingar. Ítrekað hefur verið gengið fram hjá skýru lagaákvæði sem kveður á um að fjárhæðir skuli hækka í samræmi við launaþróun og þá hafa frítekjumörk staðið óbreytt árum saman.
        – 6 ma.kr. ár hvert í hvorn flokk
     *      Lagt er til að framlög verði aukin á málefnasviði 32 svo að styrkja megi hjálparsamtök sem aðstoða fátækar fjölskyldur, enda hefur fjöldi þeirra sem leita aðstoðar aukist í kjölfar COVID-19. Ljóst er að hjálparsamtök munu þurfa aðstoð ríkisins til að sinna auknum verkefnum á næstu árum. Það er skynsamlegt að gera strax ráð fyrir þessu fjármagni næstu árin. Þá er lagt til að framlög verði aukin á málefnasviði 32 um 600 m.kr. svo efla megi forvarnir.
        – 160 m.kr. ár hvert vegna hjálparsamtaka
        – 600 m.kr. ár hvert til að efla forvarnir

Alþingi, 26. maí 2021.

Inga Sæland.


1     www.ruv.is/frett/2021/05/23/bradainnlognum-a-bugl-fjolgar-um-80-prosent-a-einu-ari?term=B UGL&rtype=news&slot=1