Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 668  —  463. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn og nr. 275/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn.


Frá utanríkisráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirfarandi ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 frá 24. september 2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009.
     2.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 frá 24. september 2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti (endurútgefin).

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 24. september 2021.
    Annars vegar er um að ræða ákvörðun nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn (sbr. fskj. I). Með henni er felld inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009 (sbr. fskj. III).
    Hins vegar er um að ræða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið) við EES-samninginn (sbr. fskj. II). Með henni er felld inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti (endurútgefin) (sbr. fskj. IV).
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni framangreindra gerða. Einnig er fjallað um ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og þær aðlaganir fyrir EFTA-ríkin innan EES sem þær kveða á um. Ekki er um að ræða breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Jafnframt er fjallað um þær lagabreytingar sem gera þarf hér á landi vegna innleiðingar fyrrnefndra gerða, hugsanleg áhrif og samráð við Alþingi.
    Þar sem innleiðing fyrrnefndra gerða krefst breytinga á lögum voru ákvarðanir nr. 274/2021 og nr. 275/2021 teknar af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins.
    Um er að ræða nátengdar gerðir á sama málefnasviði og þykir því eiga vel við að leggja fram eina þingsályktunartillögu með ósk um heimild til að staðfesta báðar ákvarðanirnar.

2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (BEREC) og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn (BEREC-skrifstofu), um breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1211/2009.
    Eins og að ofan greinir kemur reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta (e. Body of European Regulators for Electronic Communications, hér eftir: BEREC) og BEREC-skrifstofunni.
    BEREC samanstendur af stjórn og vinnuhópum. Verkefni BEREC eru m.a. að aðstoða og veita ráðgjöf um hvers konar tæknileg atriði tengd fjarskiptum á innri markaðnum, gagnvart fjarskiptaeftirlitsstofnunum í aðildarríkjum ESB, Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórn ESB. Einnig á BEREC að vera stofnunum ESB til aðstoðar við undirbúning löggjafar og leggja mat á þörf fyrir þróun löggjafar, gefa út nánari leiðbeiningar sem stuðla eiga að samræmdri framkvæmd fjarskiptaregluverks í Evrópu, að eigin frumkvæði eða að beiðni fjarskiptaeftirlitsstofnana eða stofnana ESB. Jafnframt á BEREC að fylgjast með, safna og eftir því sem við á, birta upplýsingar og gefa út tilmæli og sameiginlegt mat og miðla viðmiðum um bestu framkvæmd regluverksins og eftirlits. Síðast en ekki síst er það hlutverk BEREC að gefa út álit. Ef upp kemur álitaefni tengt fjarskiptamálum þvert á landamæri aðildarríkja ESB eru lögbær stjórnvöld (þ.e. fjarskiptaeftirlitsstofnanir ESB-ríkja) skuldbundin til að leita álits hjá BEREC og til að taka fyllsta tillit til þess álits við ákvörðunartöku. Álit BEREC geta einnig lotið að fyrirhuguðum aðgerðum lögbærra stjórnvalda, sem gefa þarf framkvæmdastjórn ESB kost á að gefa umsögn um. Þetta fyrirkomulag kallar á aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES, í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins, eins og nánar verður gerð grein fyrir í kaflanum hér á eftir um ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES.
    Eftirlit með framkvæmd fjarskiptalöggjafar er falið lögbæru stjórnvaldi í hverju ríki, en að því marki sem regluverkið gerir ráð fyrir að ákvörðunarvald verði í höndum framkvæmdastjórnar ESB gagnvart ESB-ríkjum, verður það í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA hvað EFTA-ríkin varðar.
    BEREC-reglugerðin kveður loks á um hámarkssmásöluverð á millilandasímtölum og smáskilaboðum (SMS) innan EES, sem koma til viðbótar við þegar gildandi ákvæði um hámarksverð fyrir reikiþjónustu á svæðinu, sbr. breytingu á reglugerð (ESB) 2015/2120 í 50. gr. BEREC-reglugerðarinnar.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti (endurútgefin).
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti (endurútgefin) (e. European Electronic Communications Code Directive eða EECC-tilskipunin), sem stundum er vísað til sem „Kóðans“, er ný grunngerð á sviði fjarskipta sem leysir af hólmi fjórar gildandi tilskipanir sem íslensk fjarskiptalöggjöf byggist að miklu leyti á.
    Meginmarkmið EECC-tilskipunarinnar eru tvíþætt. Í fyrsta lagi að hrinda í framkvæmd innri markaði fyrir fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu sem mun leiða til útbreiðslu og upptöku afkastamikilla háhraðaneta, sjálfbærrar samkeppni, rekstrarsamhæfi fjarskiptaþjónustu, aðgengileika, öryggis neta og þjónustu og ávinnings fyrir endanotendur. Undirliggjandi eru m.a. markmið um hagkvæma uppbyggingu á 5G-kerfum í Evrópu sem verða grunnstoð fyrir fjórðu iðnbyltinguna og hlutanetið (e. Internet of Things). Hvatt er til aukins samstarfs markaðsaðila og sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða og þeim sem byggja upp innviði heitið tilteknum ívilnunum. Í öðru lagi er tilgangur tilskipunarinnar að tryggja að í Evrópu sé framboð af hágæðaþjónustu sem er öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði fyrir tilstuðlan virkrar samkeppni og valkosta auk þess að bregðast við aðstæðum þar sem markaðurinn uppfyllir ekki þarfir endanotenda með fullnægjandi hætti, þ.m.t. fatlaðs fólks, svo að það hafi aðgang að þjónustu til jafns við aðra, og mæla fyrir um nauðsynleg réttindi endanotenda.
    Aðferðafræði við skilgreiningu markaða og greiningu á samkeppnisstöðu á þeim er í grundvallaratriðum óbreytt og byggist að verulegu leyti á aðferðafræði samkeppnisréttar og dómaframkvæmd á því sviði. Af nýjum áherslum tilskipunarinnar má nefna að aukin áhersla er á að skoða tengda smásölumarkaði; horfa ber til stöðu á smásölumörkuðum áður en ákvörðun er tekin um beitingu heildsölukvaða.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir að heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og smáskilaboð (SMS) verði ákveðið fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið . Því verður óþarft fyrir Fjarskiptastofu að framkvæma greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu og taka ákvörðun um verð. Þetta mun einfalda stjórnsýslu á þessu sviði verulega.
    Allnokkur ákvæði tilskipunarinnar fjalla um samræmingu á milli ríkja á Evrópska efna-hagssvæðinu við skipulag fjarskiptatíðnirófs og stjórnun tíðnimála. Áhersla er lögð á að öll aðildarríki vinni með samræmdum hætti og á sama tíma að úthlutun farnetstíðna. Tilskipunin gerir ráð fyrir fyrirsjáanleika til 20 ára að því er gildistíma tíðniréttinda varðar, þó má úthluta til skemmri tíma en að lágmarki til 15 ára.
    Tilskipunin geymir ný ákvæði um eftirlit og stofnanafyrirkomulag á fjarskiptamarkaði. Hér á landi verða einkum nýjungar í því samhengi ítarleg viðurlagaákvæði og heimildir til viðurlaga til Fjarskiptastofu en samkvæmt gildandi lögum getur stofnunin einungis lagt á dagsektir en hefur ekki almenna heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á fjarskiptalögum.
    Loks má nefna að neytendavernd er í brennidepli í tilskipuninni. Áhersla er t.d. lögð á aukið aðgengi að upplýsingum og samanburði á verði og gæðum fjarskiptaþjónustu, svo og stöðlun viðskiptaskilmála.

4. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES.
    Í ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar er mælt fyrir um aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES við umræddar gerðir. Þær aðlaganir sem náðust fram í samningaviðræðunum við Evrópusambandið voru í samræmi við markmið íslenskra stjórnvalda og tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
    Hvað varðar ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 og aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES við reglugerð (ESB) 2018/1971 kemur m.a. fram að eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna (Fjarskiptastofa í tilviki Íslands) taki fullan þátt í starfsemi stjórnar eftirlitsaðila BEREC, vinnuhópa BEREC og stjórnar BEREC-skrifstofunnar, þó án atkvæðisréttar.
    Ef upp kemur álitaefni á sviði fjarskipta þvert á landamæri einstakra aðildarríkja EES eru lögbær stjórnvöld (þ.e. fjarskiptaeftirlitsstofnanir viðkomandi ríkja) skuldbundin til að leita álits hjá BEREC og til að taka fyllsta tillit til þess við ákvörðunartöku. Þó að EFTA-ríkin hafi ekki formlegan atkvæðisrétt skal afstaða innlendra eftirlitsyfirvalda EFTA-ríkjanna skráð sérstaklega þegar BEREC gefur út álit. Eftirlitsstofnun EFTA mun við ákvarðanatöku taka ítrasta tillit til álita sem BEREC hefur samþykkt.
    Eftirlit með framkvæmd fjarskiptalöggjafar skal falin lögbæru stjórnvaldi í hverju ríki en að því marki sem regluverkið gerir ráð fyrir að ákvörðunarvald verði í höndum framkvæmdastjórnar ESB gagnvart ESB-ríkjum, verður það í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA hvað EFTA-ríkin varðar. Innlend eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna, sem falin er aðalábyrgð á daglegu eftirliti með mörkuðum fyrir fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu, skulu taka fullan þátt í starfi stjórnar eftirlitsaðila BEREC, vinnuhópa BEREC og stjórnar BEREC-skrifstofunnar. Að þessu leyti skulu eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna hafa sömu réttindi og skyldur og innlend eftirlitsyfirvöld aðildarríkja ESB, þó án atkvæðisréttar. Fulltrúar EFTA-ríkjanna eiga ekki rétt á að gegna formennsku í stjórn eftirlitsaðila og stjórn skrifstofunnar. BEREC og BEREC-skrifstofan skulu aðstoða Eftirlitsstofnun EFTA þegar og eftir því sem við á og innlend eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna, ef þannig ber undir, við framkvæmd verkefna hverra um sig.
    Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 og aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES við tilskipun (ESB) 2018/1972 um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti, kemur m.a. fram að Eftirlitsstofnun EFTA geti, að höfðu samráði við innlend eftirlitsyfirvöld samþykkt ákvarðanir sem beinast að viðkomandi EFTA-ríkjum, að teknu ítrasta tilliti til álitsgerðar stefnuhópsins um fjarskiptatíðniróf (RSPG). Ef annaðhvort Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn ESB ætla að taka ákvörðun sem varðar vandamál eða deilu sem bæði hefur áhrif á EFTA-ríki og aðildarríki ESB skulu þær eiga samstarf með það að leiðarljósi að komast að samkomulagi um ákvarðanir til þess að leysa skaðlegar truflanir yfir landamæri.

5. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Frumvarp til nýrra fjarskiptalaga var lagt fyrir Alþingi á 151. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Fyrirhugað er að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra endurflytji á 152. löggjafarþingi frumvarp þess efnis sem náði ekki fram að ganga á 151. löggjafarþingi. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði hér á landi efnisákvæði EECC-tilskipunarinnar eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 frá 24. september 2021. Sama dag var BEREC-reglugerðin tekin upp í samninginn, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021. Alþingi samþykkti með lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021, heimild til handa ráðherra um innleiðingu BEREC-reglugerðarinnar með setningu reglugerðar. Stefnt er að útgáfu reglugerðar, til innleiðingar á BEREC-reglugerðinni, við gildistöku nýrra fjarskiptalaga.
    Evrópsk fjarskiptalöggjöf hefur verið hluti af EES-samningnum frá upphafi en frá gildistöku samningsins hefur orðið hröð þróun á sviði fjarskiptamála vegna örra tækniframfara og alþjóðlegs eðlis starfseminnar. Að sama skapi hafa reglur innri markaðarins tekið breytingum til að bregðast við þróuninni og starfsemi þvert á landamæri. Aukið samstarf eftirlitsaðila á innri markaðnum og samræmdar reglur hafa skapað skýrari ramma og tækifæri fyrir fyrirtæki á fjarskiptamarkaði, leitt til bættra kjara fyrir neytendur, svo sem vegna reikigjalda og verið mikilvægur vettvangur til samráðs fyrir íslenska eftirlitsaðila.
    EECC-tilskipunin geymir ýmis nýmæli sem eru til þess fallin að auðvelda og bæta enn frekar aðstöðu stjórnvalda til að leggja mat á árangur umbóta í lagaumgjörð fjarskipta og framkvæmd hennar á hverjum tíma.
    Verði fyrrnefnt frumvarp til nýrra fjarskiptalaga að lögum er áætlað að kostnaður ríkisins geti aukist um allt að 185 millj. kr. á ári og felist að öllu leyti í auknum kostnaði við starfsemi Fjarskiptastofu.
    Gera má ráð fyrir auknum tekjum vegna úthlutana tíðniheimilda að fjárhæð 20 millj. kr. á ári sbr. 22. gr. laga um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021. Má því segja að hrein útgjaldaaukning fyrir ríkissjóð verði um 165 millj. kr. á ári. Draga kann úr þessari fjárþörf á seinni hluta áratugarins þegar kemur að úthlutun á háum tíðnum fyrir 5G en á móti kemur að ný verkefni tengd notkun 5G á háum tíðnum gætu bæst við.
    Gert er ráð fyrir því að gjaldtaka samkvæmt bráðabirgðaákvæði geti mögulega skilað 750 millj. kr. í einskiptis tekjur fyrir ríkið, þ.e. ef öllum tíðniheimildunum verður endurúthlutað við lok núgildandi gildistíma þeirra.
    Samkvæmt mati Neyðarlínunnar kann fjárþörf vegna eflingar búnaðar hennar að nema allt að 35 millj. kr. og rekstrarkostnaður að aukast um 20 millj. kr. á ári. þ.e. með vísan til ákvæða XIV. kafla frumvarpsins (109. og 110. gr. Kóðans).
    Gert er ráð fyrir að kostnaðaraukning vegna frumvarpsins falli til frá þeim tíma sem það verður að lögum. Kostnaðaraukning ársins 2022 er því háð gildistöku laganna.
    Áætluð kostnaðaraukning, verði frumvarpið að lögum, er ófjármögnuð í fjármálaáætlun 2022–2026. Það er því gert ráð fyrir að ófjármagnaður kostnaður verði tekinn til skoðunar við endurskoðun fjármálaáætlunar.
    Vegna ákvæðis 50. gr. BEREC-reglugerðarinnar um hámarksgjaldtöku gagnvart neytendum vegna símtala innan Evrópu (e. Intra EU calls) og fyrir smáskilaboð (SMS), kunna markaðsaðilar að verða fyrir tekjumissi en neytendur njóta á móti góðs af.

6. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Með vísan til þess voru reglugerð (ESB) 2018/1971 og tilskipun (ESB) 2018/1972 sendar til nefndarinnar. Í bréfi frá nefndinni (sbr. fskj. V), dags. 16. desember 2020, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðirnar og að hún geri ekki athugasemdir við upptöku þeirra í EES-samninginn. Jafnframt kemur fram að gerðirnar hafi einnig fengið efnislega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Bréfinu fylgdi álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, dags. 14. desember 2020, og álit umhverfis- og samgöngunefndar, dags. 15. desember 2020. Í álitunum kemur fram að hvorki meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar né umhverfis- og samgöngunefnd geri athugasemdir við upptöku gerðanna í EES-samninginn.

7. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í nýlegu svari utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra til Alþingis kemur þannig fram að frá árinu 1994 til og með árinu 2020 hafi Ísland tekið upp um 14,5% þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórn-völdum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umræddar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar fela í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem þær kalla á lagabreytingar hér á landi voru þær teknar með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðununum felast.


Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) og bókun 37 (sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr.) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0668-f_I.pdf



Fylgiskjal II.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 275/2021 um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0668-f_II.pdf



Fylgiskjal III.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1971 frá 11. desember 2018 er kemur á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og BEREC-skrifstofunni.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0668-f_III.pdf



Fylgiskjal IV.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1972 frá 11. desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0668-f_IV.pdf



Fylgiskjal V.


Bréf utanríkismálanefndar Alþingis til utanríkisráðherra, dags. 16. desember 2020, um lok 5. gr. ferlis og álit frá umhverfis- og samgöngunefnd og meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0668-f_V.pdf