Ferill 715. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1157  —  715. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Finnlands og Konungsríkisins Svíþjóðar.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Maríu Mjöll Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti. Þá átti nefndin fundi með utanríkismálanefnd finnska þingsins og Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, í Helsinki 18. maí, sama dag og aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu voru lagðar fram. Á fundunum í Helsinki var farið ítarlega yfir breytingar á öryggisumhverfi Evrópu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu, nýtt ógnarmat sem ríkisstjórn Finnlands vann og þá ákvörðun Finnlands að hverfa frá áratugalangri stefnu um að standa utan hernaðarbandalaga og sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur viðbótarsamningum við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild Lýðveldisins Finnlands annars vegar og Konungsríkisins Svíþjóðar hins vegar þegar þeir liggja fyrir.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni er gerður sérstakur viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn þegar nýjum ríkjum er boðin aðild að Atlantshafsbandalaginu. Finnland og Svíþjóð sóttu um að gerast bandalagsríki 18. maí 2022 með formlegu bréfi til framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins að undangengnu víðtæku samráðsferli og þinglegri meðferð í hvoru ríki um sig. Í kjölfarið má gera ráð fyrir að fastaráð bandalagsins hefji viðræður og frágang ýmissa þátta aðildar, og gangi sömuleiðis frá texta samninganna. Texti viðbótarsamninga vegna aðildar Finnlands og Svíþjóðar liggur því ekki enn fyrir en viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild nýrra ríkja hafa innihaldið þrjár greinar og verið samhljóða. Með tillögunni er birt sniðmát sem sýnir hvernig viðbótarsamningar vegna aðildar Finnlands og Svíþjóðar munu væntanlega líta út í samræmi við fyrri framkvæmd.
    Í greinargerð með tillögunni kemur fram að mikilvægt sé að mögulegt verði að fullgilda viðbótarsamninga um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu eins fljótt og kostur er að lokinni formlegri undirritun þeirra. Því er farið fram á að Alþingi álykti um heimild ríkisstjórnar til fullgildingar áður en undirritun viðbótarsamninganna fer fram. Er það frávik frá hefðbundinni málsmeðferð Alþingis vegna þjóðréttarsamninga og þar með ólíkt því verklagi sem viðhaft hefur verið við staðfestingu viðbótarsamninga við fyrri stækkanir Atlantshafsbandalagsins, síðast vegna aðildar Norður-Makedóníu árið 2020 og Svartfjallalands árið 2017. Þá var þingsályktunartillaga til staðfestingar samninga lögð fram eftir að þeir höfðu verið undirritaðir. Nefndinni er kunnugt um að sami háttur er hafður á í Noregi og Danmörku, þ.e. að tillögur um forheimild til staðfestingar væntanlegra viðbótarsamninga Finnlands og Svíþjóðar hafa verið lagðar fyrir norska og danska þingið.
    Nefndin leggur áherslu á að Norðurlöndin eru nánustu samstarfsríki Íslands og saman fylkja þau sér um norræn gildi lýðræðis og frelsis sem jafnframt eru grunngildi Atlantshafsbandalagsins. Nefndin fagnar umsóknum Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu og leggur áherslu á að aðild þeirra mun auka öryggi og stöðugleika í norðanverðri Evrópu á viðsjárverðum tímum. Þá mun aðild ríkjanna að bandalaginu efla norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum. Enn fremur telur nefndin að aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu muni styðja við áherslumál sem Ísland hefur talað fyrir innan bandalagsins, svo sem öryggi og varnir á Norður-Atlantshafi, loftslagsbreytingar og öryggi, friðsamlegar lausnir deilumála, afvopnunarmál og framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi. Nefndin leggur áherslu á að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að aðildarferli ríkjanna gangi eins hratt fyrir sig og mögulegt er. Það er metnaðarmál norrænu NATO-ríkjanna þriggja að vera í hópi fyrstu ríkja til að staðfesta væntanlega viðbótarsamninga Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Með því er nánum vinaþjóðum og frændum sýnd samstaða og um leið þrýst á önnur bandalagsríki að staðfesta samningana hratt og vel.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 3. júní 2022.

Bjarni Jónsson,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Birgir Þórarinsson.
Diljá Mist Einarsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson. Jakob Frímann Magnússon.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Logi Einarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.