Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Nr. 26/152.

Þingskjal 1382  —  575. mál.


Þingsályktun

um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að fylgja stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem byggist á eftirfarandi áhersluþáttum:
     1.      Geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Innleiðingu verði lokið á þeim grundvallarþáttum aðgerðaáætlunar um geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu.
                  b.      Innleiðingu þeirra grundvallarþátta í aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi frá 2018 sem lúta að heilbrigðisþjónustu verði lokið.
                  c.      Allir landsmenn hafi aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu.
     2.      Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Þverfagleg mönnun í geðheilbrigðisþjónustu verði í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar.
                  b.      Stöðum í sérnámi og framhaldsnámi í geðheilbrigðisþjónustu fjölgi í samræmi við þjónustuþörf. Námið mæti kröfum um samþættingu, samvinnu og hæfni.
                  c.      Samhæfing og samvinna einkenni samskipti heilbrigðis-, félags- og barnaþjónustu. Samhæfing og samvinna einkenni samskipti mismunandi þjónustustiga heilbrigðisþjónustu og á milli heilbrigðisstofnana.
                  d.      Þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja betra aðgengi, gæði, skilvirkni og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla án aðgreiningar.
     3.      Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Stöðugri þróun og umbótum í málaflokknum verði mætt með Geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál, sem hafi bæði ráðgefandi og stefnumótandi hlutverk.
                  b.      Batamiðuð nálgun og valdefling verði lykilþættir í allir nálgun í geðheilbrigðisþjónustu.
                  c.      Geðheilbrigðisþjónustan verði í auknum mæli veitt í nærumhverfi notanda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt verði í bataeflandi húsnæði sem standist nútímakröfur sem gerðar eru til geðheilbrigðisþjónustu.
     4.      Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Almenningur hafi greitt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu, geti valið um þjónustuleið og nýtt fjarheilbrigðisþjónustu eða aðrar tæknilausnir eftir þörfum.
                  b.      Rannsóknir og nýsköpun í þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu verði í ríkum mæli hluti af starfi heilbrigðisstofnana og í virku samstarfi við háskólasamfélagið.
                  c.      Efld verði skráning og söfnun upplýsinga um geðheilbrigðismál á Íslandi og stuðlað verði að tryggri meðferð gagna og bættu aðgengi að þeim.

Aðgerðir í framkvæmd.
    Til að hrinda stefnu um geðheilbrigðismál til ársins 2030 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega.
    Mat á fjárhagslegum áhrifum þingsályktunar þessarar fari fram þegar aðgerðaáætlanir fara í mótun og málsmeðferð.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2022.