Ferill 733. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1454  —  733. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar.

         Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur verið brugðist við tillögum sem gerðar voru í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um samkeppnismat og ef svo er, hvernig?
     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að frekar verði brugðist við tillögunum og ef svo er, hvernig?


    Í febrúar 2022 skipaði Katrín Jakobsdóttur forsætisráðherra starfshóp um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði og kynnti starfshópurinn skýrslu sína á fundi Þjóðhagsráðs hinn 19. maí sl. 1 Skýrslunni tilheyra sjö fylgiskjöl og í fylgiskjali 7, Samantekt undirhóps um skipulags- og byggingarmál, 2 er fjallað nokkuð ítarlega um einföldun regluverks í skipulags- og byggingarmálum á grundvelli samkeppnismats OECD. Skýrsla OECD er mjög ítarleg og umfangsmikil og umfjöllun um hana í fylgiskjali 7 er 24 síður. Svar þetta er stutt samantekt úr fylgiskjali 7 ásamt stuttri umfjöllun um ýmsar aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í. Ítarlegri umfjöllun má finna í sama fylgiskjali.
    Starfshópurinn skipaði undirhóp með tilnefningar frá tíu hagaðilum til að fjalla um tilmæli OECD varðandi byggingariðnaðinn á Íslandi og eru niðurstöður hópsins skjalfestar í fylgiskjali 7. Undirhópurinn skipti umræðunni í þrennt, að fordæmi OECD, og fjallaði um regluverk í kringum skipulagsmál, byggingarvörur og byggingarmál. Umfjöllun undirhópsins er ítarleg og fjallað er um margs konar ábendingar OECD.
    Ein helsta ábendingin er að auka beri nýtingu stafrænna lausna með það helst að markmiði að einfalda ferla og stytta afgreiðslutíma. Undanfarin misseri hefur mikil vinna farið fram við uppbyggingu á rafrænni skipulagsgátt hjá Skipulagsstofnun og rafrænni mannvirkjaskrá hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Með skipulagsgátt verður til einn vettvangur þar sem skipulagstillögur, umhverfismat og framkvæmdir eru birtar og almenningur og umsagnaraðilar leggja fram athugasemdir og umsagnir. Hægt verður að nálgast ákvarðanir í skipulagsmálum sem verða þannig aðgengilegri og sýnilegri. HMS hefur tekið vefinn mannvirkjaskra.is í notkun og veitir vefurinn almenningi og hagsmunaaðilum aðgang að nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum um mannvirki og húsnæðismarkað á Íslandi. Skráin sýnir framboð húsnæðis og það sem er í byggingu á hverjum tíma og gefur nauðsynlega yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn. Nýlegt innviðaráðuneyti hefur nú með höndum skipulags-, húsnæðis-, samgöngu-, byggða- og sveitarstjórnarmál til að tryggja ákveðna einföldun og samþættingu. Þá verður mannvirkjaskrá í frekari þróun og er unnið að því að hún verði enn fremur stjórntæki á sviði eftirlits með mannvirkjagerð og stefnt að því að stjórnsýslan verði gagnsærri og eftirlit auðveldara. Þróun þessara rafrænu lausna er í fullu samræmi við ábendingar OECD.
    Einnig leggur OECD mikla áhersla á aukna notkun markmiðsákvæða á kostnað forskriftarákvæða í regluverki byggingariðnaðarins. Þess má geta að með breytingum á byggingarreglugerð árið 2014 voru felldar niður kröfur um stærðir einstakra rýma í íbúðum, s.s. eldhúsa, íbúðarherbergja, baðherbergja og þvottaherbergja, en í stað þess sett inn markmiðsákvæði sem veita ákveðið svigrúm við útfærslu hönnunar. Til skýringar má nefna að til margra ára var sú forskriftarregla viðhöfð að eldhús í íbúðum skyldu vera a.m.k. 7 m2 að gólfflatarmáli til að tryggja að þar kæmust fyrir ísskápur, eldavél, vaskur og fleira. Dæmigerð nútímaleg markmiðskrafa um eldhús er að þar skuli vera hægt að elda og vista mat. Slíkar markmiðskröfur auka á sveigjanleika regluverksins og gefa möguleika á nýsköpun. Með breytingum á byggingarreglugerð árið 2014 var einnig dregið úr kröfum varðandi lágmarksstærð snúningssvæða fyrir hjólastóla, lágmarksbreidd gönguleiða að byggingum, lágmarksbreidd og -hæð dyra og lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhúsnæði. Eldri forskriftarkrafan er þá gjarna flutt í leiðbeiningar- eða viðmiðunarákvæði sem ekki er skylda að fara eftir. OECD mælist til þess að aukin áhersla verði lögð á markmiðskröfur og fækkun forskriftarkrafna. Innviðaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa fylgt tilmælum OECD varðandi þetta eins og frekast hefur verið unnt við þær breytingar sem gerðar hafa verið undanfarið á regluverki byggingariðnaðarins.
    Nefna má sem dæmi nýleg ákvæði laga og reglugerða sem tekið hafa gildi um flokkun mannvirkja. Með lögum nr. 134/2020, um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, var tekin upp flokkun mannvirkja í þeim tilgangi að einfalda umsagnarferli og gera eftirlit hnitmiðaðra. Í nóvember 2021 var með reglugerð nr. 1321/2021, um breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012, ákveðið að flokka mannvirkjagerð í þrjá umfangsflokka, ákvarðaða af flækjustigi hönnunar, samfélagslegu mikilvægi, hættu á manntjóni og fyrirhugaðri notkun mannvirkis. Markmið flokkunar var að skýra stjórnsýslu og gera umsóknarferli byggingarleyfa skilvirkara. Með flokkun mannvirkja skapast tækifæri til að aðlaga kröfur um efni og form stjórnsýslu að hverjum flokki fyrir sig og gera þannig umsóknarferlið skilvirkara. Á sama tíma gefst tækifæri til að ákvarða eftirlit með mannvirkjagerð í hverjum flokki fyrir sig. Ákvæði þessi fylgja tilmælum OECD um flokkun mannvirkja eftir flækjustigi og aðferðafræðinni um fjölgun almennt orðaðra markmiðsákvæða sem uppfylla verður með stoð í viðmiðunarreglum sem eru valfrjálsar.
    Sem dæmi má nefna nýlegar breytingar á steypukafla byggingarreglugerðar sem hafa nú tekið gildi. Einn helsti tilgangur breytinganna er að stuðla að minnkun loftslagsáhrifa steypu. Að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar má áætla að þessar breytingar á regluverki geti haft þau áhrif að um 20–30% samdráttur verði á losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar á steypu og um 6% samdráttur á losun vegna byggingariðnaðarins í heild. Við breytingarnar var aðferðafræði OECD fylgt til hins ítrasta þannig að sett eru fram almennt orðuð markmiðsákvæði en þar á eftir eru viðmiðunarákvæði með einföldum ráðleggingum um ákveðin tölusett gildi sem eru valfrjáls.
    Í þessu skriflega svari við fyrirspurn alþingismanns um skýrslu OECD um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar hefur einungis verið fjallað um byggingariðnaðinn en hann fellur undir málefnasvið innviðaráðherra. Vísað hefur verið í ítarlega umfjöllun um tillögur OECD sem gefin var út í maí sl. sem og fylgiskjal 7 við skýrslu starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Einnig hefur verið gerð grein fyrir nokkrum verkefnum ráðuneytisins og undirstofnana þess sem eru í fullu samræmi við tillögur OECD og eru ýmist langtímaverkefni í vinnslu eða varða breytingar á regluverki sem er nýlega lokið. Ljóst er að ráðuneytið og undirstofnanir þess munu taka sterkt mið af tillögum OECD við stefnumótun í málaflokkunum skipulagsmál og byggingarmál til nánustu framtíðar.
1    Niðurstöður starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, Stjórnarráðið, 19. maí 2022 www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/IRN/Frettatengd-skjol/Starfsh%c3%b3pur%20um%20umb%c 3%a6tur%20%c3%a1%20h%c 3%basn%c3%a6%c3%b0ismarka%c3%b0i%20-%20sk%c3%bdrsla%20-%20lokaeintak.pdf
2    Fylgiskjöl með skýrslu starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, Stjórnarráðið, 19. maí 2022 www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/Fylgiskj%c3%b6l%20me%c3%b0%20 sk%c3%bdrslu%20starfsh%c3%b3ps%20um%20a%c3%b0ger%c3%b0ir%20og%20umb%c3%a6tur%20%c3%a1%20h%c3%basn %c3%a6%c3%b0ismarka%c3%b0i.pdf