Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 868  —  480. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um líftryggingar einstaklinga sem greinst hafa með langvarandi sjúkdóm.


     1.      Eru einhver lagaákvæði eða tilmæli sem kveða á um skyldu tryggingafélaga til að veita einstaklingum sem greinst hafa með langvarandi sjúkdóm, til að mynda HIV eða sykursýki, en eru á lyfjum sem tryggja eðlilegt líf, líftryggingar á sambærilegu verði og gerist almennt?
    Fjallað er um persónutryggingar í III. hluta laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Með persónutryggingum í skilningi laganna er átt við líf- og heilsutryggingar.
    Hvorki er í lögum um vátryggingarsamninga né öðrum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra kveðið á um skyldu vátryggingafélaga til að veita persónutryggingar eða kveðið á um verðlagningu slíkra trygginga. Þá hafa ekki verið gefin út tilmæli sem kveða á um þetta. Um valfrjálsar tryggingar er að ræða og byggist verðlagning þeirra á tryggingafræðilegum útreikningum vátryggingafélags með hliðsjón af áhættumati félagsins á hinum vátryggða.
    Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 156/2006, um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, er fjallað um áhættumat við töku persónutrygginga. Þar kemur fram að áhættumatið fari m.a. fram með hliðsjón af upplýsingum um heilsufar þess sem á að vátryggja. Mat á áhættu hafi áhrif á iðgjaldaákvörðun vátryggingafélagsins, enda sé það grundvallaratriði að iðgjöld taki mið af þeirri áhættu sem fyrir hendi er svo að vátryggingafélag eigi jafnan fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.

     2.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að setja leiðbeinandi viðmið um verð líftrygginga til einstaklinga sem eru á lyfjum við langvarandi sjúkdómi, svo sem HIV eða sykursýki, til að forðast mismunun í verðlagi líftrygginga?
    Ekki hefur komið til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að setja leiðbeinandi viðmið um verð líftrygginga til einstaklinga með langvarandi sjúkdóma. Almennt er það ekki hlutverk stjórnvalda að hlutast til um verðlagningu á vörum og þjónustu nema mælt sé fyrir um slíkt í lögum. Slíkar ráðstafanir eru auk þess gjarnan til þess fallnar að hafa óæskileg áhrif á verðmyndun og samkeppni á markaði og geta þannig falið í sér samkeppnishömlur sem myndu kalla á aðgerðir samkvæmt samkeppnislögum.