Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1183  —  381. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi (búsetuskilyrði stjórnenda).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hjörleif Gíslason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Umsögn barst frá Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, þess efnis að ríkisborgarar EES- og EFTA-ríkja ásamt Færeyingum verði undanþegnir búsetuskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum.

Umfjöllun nefndarinnar.
Athugasemdir ESA um brot á 31. gr. EES-samningsins.
    Í greinargerð frumvarpsins eru tildrög þess nokkuð ítarlega rakin. Frumvarpið er lagt fram til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þess efnis að búsetuskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félaga í íslenskum lögum brjóti gegn 28. og 31. gr. EES-samningsins. Brugðist hefur verið við hluta þeirra athugasemda með lögum um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (einföldun, búsetuskilyrði), nr. 25/2017, og lögum um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (búsetuskilyrði), nr. 138/2019.
    Beðið hefur verið með að ráðast í þær breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi sem ESA hefur gert athugasemdir við vegna málareksturs stofnunarinnar fyrir EFTA-dómstólnum í máli nr. E-9/20 gegn norska ríkinu. Af niðurstöðu dóms EFTA-dómstólsins í málinu, sem nú liggur fyrir, er ljóst að gera þarf þær breytingar á búsetuskilyrðum laga um fjármálafyrirtæki og laga um vátryggingastarfsemi.
    Í rökstuddu áliti ESA frá 11. desember 2019 kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við EES-samningin með því að hafa í gildi búsetuskilyrði fyrir ríkisborgara þriðju ríkja sem fram koma í íslenskum lögum. Af greinargerðinni verður ráðið að ekki liggi fyrir endanleg niðurstaða ESA og eftir atvikum EFTA-dómstólsins um það hvort sú leið sem farin er í frumvarpinu, og farin var með lögum nr. 25/2017 og 138/2019, að takmarka rýmkun á búsetuskilyrðum við ríkisborgara EES- og EFTA-ríkja og Færeyinga, samrýmist 31. gr. EES-samningsins. Í greinargerð eru þó færð fyrir því rök hvers vegna líta beri á þær breytingar sem lagðar eru til sem fullnægjandi.
    Í dómi EFTA-dómstólsins í áðurgreindu máli ESA gegn norska ríkinu komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilyrði í norskum lögum sem gerði þá kröfu til framkvæmdastjóra og stjórnarmanna tiltekinna fyrirtækja að þeir væru búsettir í Noregi eða, væru þeir ríkisborgarar EES-ríkis, búsettir í aðildarríki. Niðurstaða dómstólsins var sú að samanlögð krafa um hvort tveggja búsetu og ríkisfang í EES-ríki teljist ólögmæt skerðing á staðfesturéttinum (þ.e. réttinum til þess að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin).
    Í 82. mgr. í niðurstöðukafla dómsins segir að það leiði af 31. gr. samningsins að eingöngu ríkisborgarar aðildarríkja og lögaðilar sem njóta sömu stöðu skv. 34. gr. njóti staðfesturéttar. Þannig geti skilyrði um ríkisborgararétt innan aðildarríkis EES-samningsins ekki falið í sér takmörkun á þeim rétti. Dómstóllinn telur hins vegar að regla sem feli í sér skilyrði um búsetu EES-ríkisborgara, í ríki sem er aðili að samningnum, geta falið í sér takmörkun á réttinum.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að ríkisborgarar ríkja sem eru aðilar að EES-samningnum eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja verði undanþegnir búsetuskilyrðum laganna, þeir muni því ekki þurfa að vera búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu eða í OECD-ríki til að geta setið í stjórn fjármálafyrirtækja eða vátryggingafyrirtækja, eða gegnt stöðu framkvæmdastjóra í slíkum félögum. Telur meiri hlutinn þau búsetuskilyrði sem lögð eru til í frumvarpinu því vera í samræmi við túlkun EFTA-dómstólsins á inntaki 31. gr. EES-samningsins.

Búsetuskilyrði stjórnarmanna lífeyrissjóða.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands koma fram sjónarmið þess efnis að sömu sjónarmið og að framan hafa verið rakin gildi um stjórnarmenn lífeyrissjóða og að eðlilegt sé að leggja til sams konar breytingu á 3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Í greinargerð frumvarpsins er þess getið að sama athugasemd hafi komið fram þegar frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt. Líkt og rakið er í greinargerð lúta athugasemdir ESA einungis að búsetuskilyrðum laga um vátryggingastarfsemi og laga um fjármálafyrirtæki, ekki er að sjá að ESA hafi gert athugasemdir við búsetuskilyrði eins og þau koma fram í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða með sama hætti. Vera má að það ráðist af því að lög um fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi hafa verið að miklu leyti samræmd innan EES, ólíkt lífeyrissjóðakerfinu sem er að stofni til íslenskt. Þótt meiri hlutinn telji að sömu sjónarmið og reifuð hafa verið að ofan geti um margt átt við um lífeyrissjóði telur hann breytingu á búsetuskilyrðum stjórnarmanna samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kalla á nánari athugun, m.a. með hliðsjón af því hvort sérstaða íslenska lífeyrissjóðakerfisins réttlæti þrengri búsetuskilyrði en hér eru lögð til. Með vísan til þess og ítarlegri umfjöllunar í greinargerð telur meiri hlutinn ekki tilefni til að leggja til slíka breytingu á frumvarpinu.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðbrandur Einarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Ásthildur Lóa Þórsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. febrúar 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Diljá Mist Einarsdóttir,
frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson.
Guðbrandur Einarsson. Þórarinn Ingi Pétursson. Logi Einarsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.