Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 623  —  536. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (stærðarmörk og endurskoðun ársreikninga).

Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „20.000.000 kr.“ í 1. tölul. a-liðar 11. tölul. kemur: 55.000.000 kr.
     b.      Í stað „40.000.000 kr.“ í 2. tölul. a-liðar 11 tölul. kemur: 110.000.000 kr.
     c.      Í stað tölunnar „3“ í 3. tölul. a-liðar 11 tölul. kemur: 10.
     d.      Í stað „600.000.000 kr.“ í 1. tölul. b-liðar 11. tölul. kemur: 650.000.000 kr.
     e.      Í stað „1.200.000.000 kr.“ í 2. tölul. b-liðar 11. tölul. kemur: 1.300.000.000 kr.
     f.      Í stað „3.000.000.000 kr.“ í 1. tölul. c-liðar 11. tölul. kemur: 3.200.000.000 kr.
     g.      Í stað „6.000.000.000 kr.“ í 2. tölul. c-liðar 11. tölul. kemur: 6.400.000.000 kr.
     h.      Í stað „3.000.000.000 kr.“ í 1. tölul. d-liðar 11. tölul. kemur: 3.200.000.000 kr.
     i.      Í stað „6.000.000.000 kr.“ í 2. tölul. d-liðar 11. tölul. kemur: 6.400.000.000 kr.
     j.      Í stað „600.000.000 kr.“ í 1. tölul. a-liðar 33. tölul. kemur: 650.000.000 kr.
     k.      Í stað „1.200.000.000 kr.“ í 2. tölul. a-liðar 33. tölul. kemur: 1.300.000.000 kr.
     l.      Í stað „3.000.000.000 kr.“ í 1. tölul. b-liðar 33. tölul. kemur: 3.200.000.000 kr.
     m.      Í stað „6.000.000.000 kr.“ í 2. tölul. b-liðar 33. tölul. kemur: 6.400.000.000 kr.
     n.      Í stað „3.000.000.000 kr.“ í 1. tölul. c-liðar 33. tölul. kemur: 3.200.000.000 kr.
     o.      Í stað „6.000.000.000 kr.“ í 2. tölul. c-liðar 33. tölul. kemur: 6.400.000.000 kr.
    

    2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 98. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sem eru undir tveimur af eftirfarandi stærðarmörkum“ kemur: sem ekki hafa verið meðalstór eða stór félög skv. 11. tölul. 2. gr.
     b.      1.–3. tölul. falla brott.
    

    3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2024 eða síðar.
         

    Greinargerð.

    Frumvarp þetta felur í sér uppfærslu á stærðarmörkum örfyrirtækja samkvæmt lögum nr. 3/2006, um ársreikninga. Lagt er til að viðmið um heildareign, hreina veltu og meðalfjölda ársverka örfélaga hækki í samræmi við ársreikningatilskipun Evrópusambandsins 2013/34/ ESB. Jafnframt er lagt til að námundað verði til hækkunar við útreikning viðmiða um heildareign og hreina veltu lítilla, meðalstórra og stórra félaga og samstæðna.
    Samkvæmt 1.–4. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar ber að flokka félög í fjóra flokka eftir stærð þeirra, þ.e. örfélög, lítil félög, meðalstór félög og stór félög. Skal sú flokkun byggjast á niðurstöðutölu efnahagsreiknings í lok reikningsskilatímabila, hreinni veltu og fjölda ársverka. Umrædd tilskipun var innleidd með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Þá voru stærðartakmörk sem tilskipunin kvað á um fyrir lítil félög, meðalstór félög og stór félög umreiknuð úr evrum yfir í íslenskar krónur á viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands 19. júlí 2013 sem var 159,13 kr. Heimilt var innan 5% frávika að námunda útreikning í íslenskar krónur við heila krónutölufjárhæð. Hins vegar þegar kom að örfélögum var ákveðið að stærðarmörk þeirra skyldu vera lægri en tilskipunin kvað á um. Það byggðist á því að skv. 9. kafla tilskipunarinnar er valkvætt að bjóða upp á undanþágur fyrir örfélög. Slíkar undanþágur eru hugsaðar til að einfalda og minnka stjórnsýslubyrði þessara félaga. Ákveðið var að færri félög á Íslandi myndu því falla undir hugtakið örfélög en í Evrópusambandinu. Með frumvarpi þessu er lagt til að stærðarmörk þessara félaga verði leiðrétt svo að íslensk lög gangi ekki lengra en umrædd tilskipun Evrópusambandsins. Stærðarmörk örfélaga verði því 55.000.000 kr. heildareign, 110.000.000 kr. hrein velta og meðalfjöldi ársverka 10 í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópusambandsins.
    Ýmsar kvaðir geta fylgt stærð félaga. Sem dæmi má nefna að ársreikningur lítilla, meðalstórra og stórra félaga skal hafa að geyma skýrslu stjórnar og ársreikningur meðalstórra og stórra félaga skal einnig hafa að geyma sjóðstreymisyfirlit. Breytingin sem hér er lögð til einfaldar reikningsskil margra fyrirtækja hérlendis sem verða með þessu skilgreind sem örfélög í stað lítilla félaga. Örfélögum er heimilt að láta semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit sem byggð eru á skattframtali þeirra í stað ársreiknings. Teljast þau gefa glögga mynd af afkomu félagsins. Það er mun einfaldari aðferð við reikningsskil og er kostnaður örfélaga við reikningsskil alla jafna minni en annarra stærri félaga.
    Það að íslenskt samfélag státi af hlutfallslega fleiri örfélögum en önnur lönd ætti að mati flutningsmanna ekki að leiða til þrengri skilgreiningar á hugtakinu hér á landi en viðgengst í Evrópusambandinu. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 73/2016 var áætlað að um 75% félaga í Evrópu féllu undir stærðarmörk tilskipunarinnar um örfélög en á Íslandi væru það um 90% félaga. Íslensk félög sem falla undir skilgreiningu Evrópusambandsins á örfélögum eiga að hafa jöfn tækifæri til þess að stofna til eigin atvinnurekstrar og markmiðið ætti að vera að gefa þeim jafnan grundvöll við önnur örfélög í Evrópusambandinu, en ekki draga úr samkeppnisstöðu þeirra með því að láta sum þeirra tilheyra flokki lítilla félaga með tilheyrandi hærri rekstrarkostnaði.
    Loks er lagt til með frumvarpi þessu að stærðartakmörk sem fram koma í 1. mgr. 98 gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, hækki til samræmis við 1. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar. Telja flutningsmenn það ótækt að íþyngjandi kvaðir séu lagðar á félög á Íslandi umfram það sem viðgengst á samanburðarmörkuðum Evrópusambandsins.
    Tilefni þessa frumvarps er íþyngjandi innleiðing EES-gerða en þær virðast allt of oft innleiddar með meira íþyngjandi hætti en EES-samstarfið kveður á um; ganga lengra en regluverk Evrópusambandsins. Slík vinnubrögð hafa verið nefnd gullhúðun eða blýhúðun og fara jafnvel í bága við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Þannig göngum við lengra en Evrópusambandið þegar kemur að ýmsum kröfum, en þegar regluverk okkar reynist meira íþyngjandi en nýjar reglur Evrópusambandsins er ekki talin ástæða til að endurskoða íslenskt regluverk. Það er mat flutningsmanna að innlend fyrirtæki eigi að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki á innri markaði Evrópusambandsins. Auk þess koma íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu óorði á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Því eru lagðar til framangreindar breytingar til að vinda ofan af gullhúðun og samræma íslenskt regluverk við regluverk annarra landa á innri markaði Evrópusambandsins.
    

    Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að upphæð heildareigna örfélaga verði hækkuð úr 20.000.000 kr. í 55.000.000 kr. og hrein velta örfélaga hækki úr 40.000.000 kr. í 110.000.000 kr. Þá er lagt til að meðalfjöldi ársverka á fjárhagsárinu hækki úr 3 í 10. Í 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar er miðað við að heildareign örfélaga sé 350.000 evrur og hrein velta örfélaga sé 700.000 evrur. Í frumvarpi þessu er miðað við sama gengi og þegar tilskipunin var innleidd á sínum tíma með lögum nr. 73/2016, þ.e. viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands 19. júlí 2013, eða 159,13 kr. með heimild til námundunar innan 5% frávika.
    Í ljósi framangreindrar heimildar til námundunar er jafnframt lagt til að viðmið lítilla, meðalstórra og stórra félaga og samstæðna verði námunduð til hækkunar. Þar af leiðandi hækka upphæðir heildareigna og hreinnar veltu lítillega.
    

    Um 2. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 34. gr. tilskipunarinnar sé fylgt, en þar er kveðið á um að EES-ríki skuli að lágmarki tryggja að ársreikningar meðalstórra félaga, stórra félaga og eininga tengdra almannahagsmunum séu endurskoðaðir. Með því er fallið frá þrengri skilyrðum sem fram koma í 1.–3. tölul. 1. mgr. 98. gr. laganna.
    

    Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.