Tilkynningar

Forseta Alþingis og forsætisráðherra afhent fyrstu eintökin af ritinu Íslensk tunga I-III

26.11.2005

Forseta Alþingis, Sólveigu Pétursdóttur, og forsætisráherra, Halldóri Ásgrímssyni, voru afhent fyrstu eintökin af ritinu Íslensk tunga I-III föstudaginn 25. nóvember. Bækurnar eru gefnar út af Eddu útgáfu í samvinnu við Lýðveldissjóð.
 

Í Íslenskri tungu I-III varpa virtir fræðimenn ljósi á innviði íslenskunnar og kynna aðferðir vísindanna við að greina málið og skilja. Lesa má um smæstu hljóðbylgjur, kerfi íslenskra málhljóða, beygingu orða og innri gerð, allt til íslenskrar setningagerðar. Aukinheldur er fjallað um sögulega þróun móðurmálsins og vikið að forvitnilegum greinum eins og hljóðskynjun, máli og tölvum, málstoli og máltöku barna.

Bækurnar þrjár spanna vítt svið málvísinda. Þær eru nauðsynlegar öllum þeim sem vinna með tungumálið, vilja kynna sér það til hlítar og fylgjast með fræðigreininni sem við það fæst.

Aðalhöfundar bókanna eru Guðrún Kvaran, Kristján Árnason og Höskuldur Þráinsson en meðhöfundar eru Sigríður Sigurjónsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Þórunn Blöndal, Jóhannes Gísli Jónsson og Jörgen Pind.

Lýðveldissjóður kostaði ritun Íslenskrar tungu I-III en sjóðurinn var stofnaður af Alþingi árið 1994 í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldis Íslands.