Tilkynningar

Viltu stuðla að vandaðri lagasetningu og virku þingeftirliti?

22.5.2023

Lögfræðingar nefndadeildar á skrifstofu Alþingis starfa fyrir fastanefndir þingsins – í hringiðu stjórnmálanna. Þau veita lögfræðilega ráðgjöf og sjá um faglega yfirferð mála sem koma til meðferðar hjá fastanefndum. Þá hafa þau umsjón með skipulagningu nefndastarfsins og sjá um samskipti við stjórnvöld og aðila utan þings fyrir fastanefndir. Meginmarkmið nefndadeildar er að stuðla að vandaðri lagasetningu og virku þingeftirliti. Um er að ræða fjölbreytt starf með krefjandi og skemmtilegum verkefnum.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Lögfræðileg ráðgjöf og fagleg aðstoð við fastanefndir og þingmenn
  • Yfirferð lagafrumvarpa og annarra þingmála
  • Gerð lögskýringargagna, svo sem nefndarálita og breytingartillagna
  • Skipulagning og umsjón með starfi fastanefnda, m.a. samskipti við stjórnvöld og aðila utan þings
  • Önnur lögfræðileg verkefni fyrir skrifstofu Alþingis

Hæfniskröfur

  • Embættis- eða meistarapróf í lögfræði
  • Mjög góð þekking á stjórnskipunarrétti, stjórnsýslurétti og Evrópurétti
  • Reynsla úr opinberri stjórnsýslu eða af sambærilegu starfi
  • Reynsla af gerð lagafrumvarpa eða aðkoma að lagasetningarferlinu er kostur
  • Frumkvæði, sjálfstæði og skipulagshæfni
  • Faglegur metnaður, jákvæðni og framúrskarandi samskiptahæfni
  • Mjög gott vald á íslensku og ensku og færni til að tjá sig í ræðu og riti

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem forseti Alþingis og Félag starfsmanna Alþingis hafa gert.
Umsækjendur eru beðnir að sækja um starfið í ráðningarkerfi Orra. Umsókn skulu fylgja ferilskrá, kynningarbréf þar sem umsækjandi rökstyður hæfni sína til að gegna starfinu, staðfesting á prófgráðum og upplýsingar um meðmælendur. Umsóknir gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út. Til stendur að ráða í þrjár ótímabundnar stöður en einnig kemur til greina að ráða samhliða í tímabundnar afleysingarstöður. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Tekið er mið af jafnréttisáætlun skrifstofu Alþingis við ráðningar. Starfið hentar öllum kynjum og áhugasöm eru hvött til að sækja um. Skrifstofa Alþingis hefur hlotið jafnlaunavottun og starfar í samræmi við betri vinnutíma. Gildi skrifstofu Alþingis eru fagmennska, virðing og framsækni.

Nánari upplýsingar um starfsemi Alþingis og skrifstofu þingsins er að finna á vef Alþingis.

Starfshlutfall er 100%.

Umsóknarfrestur er til og með 05.06.2023.

Nánari upplýsingar veitir

Elín Ósk Helgadóttir, deildarstjóri – elin.o.helgadottir@althingi.is – 563 0500

Sækja um starf