Ferill 732. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1290  —  732. mál.




Skýrsla



félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


Inngangur.
    Íslenskur réttur hvílir á þeirri meginreglu að allir skuli jafnir fyrir lögum, óháð kynferði. Jöfn staða kynjanna hefur verið stjórnarskrárbundin á Íslandi frá árinu 1995, auk þess sem sérstök jafnréttislög hafa verið í gildi frá árinu 1976. Jafnréttislög eru mikilvægt tæki til að styrkja jafnréttisstarf og standa vörð um jafnrétti í samfélaginu, en það er löngu viðurkennt að í jafnréttisstarfi er í raun verið að breyta viðhorfum fólks til hefðbundinna kynjahlutverka og kynbundinna staðalmynda. Slíkt starf kallar því á sífellda samfélagsrýni, rannsóknir og sértækar aðgerðir til að ryðja nýjum hugmyndum braut. Mikilvægt er að sem flestir komi að þessu verki en þar hljóta þó stjórnvöld að gegna einna mikilvægasta hlutverkinu. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum er einmitt framlag stjórnvalda til þessa verks.
    Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að félagsmálaráðherra skuli leggja fyrir þingið tillögu að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið frá upphafi ársins 1998 til ársloka 2001 er nú lokið, og í skýrslunni er gerð grein fyrir því hvernig staða verkefnanna var í mars 2002. Alþingi var gerð grein fyrir stöðu áætlunarinnar árið 2001.

Framkvæmdaáætlun 1998–2001.
    Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir tímabilið frá upphafi ársins 1998 til ársloka 2001 var lögð fyrir Alþingi sem tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Tillagan var samþykkt á Alþingi 28. maí 1998. Áætlunin var samin og samþykkt samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Til að undirbúa gerð þessarar framkvæmdaáætlunar og til að kynna áætlanir af þessu tagi um aðgerðir í jafnréttismálum boðaði félagsmálaráðherra til funda í öllum kjördæmum landsins. Á fundunum reifaði ráðherra hugmyndir sínar um verkefni í jafnréttismálum og hlustaði eftir hugmyndum landsmanna að nýjum verkefnum. Undirbúningur fundanna var í höndum félagsmálaráðuneytis og heimamanna á hverjum stað, en sá háttur var á hafður að heimamenn lögðu til fundarstjóra og tvo frummælendur. Lögð var áhersla á að sjónarmið beggja kynja kæmu fram í umræðunni og var því af hálfu ráðuneytisins lagt til að annar frummælenda yrði karl og hinn kona. Fundirnir voru vel sóttir. Formaður Jafnréttisráðs og framkvæmdastjóri Skrifstofu jafnréttismála tóku þátt í fundunum og nýttu þeir m.a. hugmyndir sem þar voru reifaðar í tillögu sem Jafnréttisráð gerði að nýrri framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Við gerð hennar var einnig leitað eftir hugmyndum frá einstaka ráðuneytum og litið til samþykkta sem íslensk stjórnvöld hafa gert á vettvangi Norðurlandanna, í evrópsku samstarfi og hjá Sameinuðu þjóðunum. Sérstaklega var litið til Peking-áætlunarinnar, sem er framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Peking haustið 1995. Félagsmálaráðuneytið kynnti öllum ráðuneytum tillögu Jafnréttisráðs og bauð þeim að gera breytingar á áætluninni, enda þótti mikilvægt að áætlunin væri í góðu samræmi við vilja ráðuneytanna um virkni og verkefni. Tillaga að þingsályktun um framkvæmdaáætlun var rædd á nokkrum ríkisstjórnarfundum og tóku ráðherrar ríkisstjórnarinnar virkan þátt í mótun hennar á lokastigi. Á þetta var lögð áhersla enda var um að ræða framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
    Félagsmálaráðherra lagði fram tillögu að þingsályktun að nýrri framkvæmdaáætlun fyrir Alþingi í byrjun árs 1998. Félagsmálanefnd lagði til nokkrar breytingar á áætluninni sem Alþingi samþykkti. Meðal annars var hert á ákvæðum um að hlutur kvenna í opinberum nefndum yrði aukinn, auk þess sem verkefni á vegum fjármálaráðuneytis voru skilgreind frekar.
    Á samráðsfundi fulltrúa félagsmálaráðuneytis og Jafnréttisráðs sumarið 1998 var framkvæmdaáætlunin yfirfarin og verkefnum forgangsraðað. Félagsmálaráðherra skipaði síðan sérstakan stýrihóp sem var falið að fylgja eftir framkvæmd áætlunarinnar. Í honum áttu sæti þingmennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir og Magnús Stefánsson, Elín R. Líndal, formaður Jafnréttisráðs, og Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, en hún var formaður stýrihópsins. Með breyttri skipan jafnréttismála með nýrri löggjöf hefur Jafnréttisstofu verið falið þetta eftirfylgnihlutverk.

    Framkvæmdaáætlunin skiptist í þrjá meginkafla:
     1.      Inngang þar sem markmið ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum eru kynnt.
     2.      Kafla þar sem sameiginleg verkefni ríkisstjórnarinnar eru skilgreind.
     3.      Kafla um verkefni einstakra ráðuneyta þar sem gerð er grein fyrir séraðgerðum og/eða verkefnum sem einstök ráðuneyti munu vinna að á gildistíma áætlunarinnar.
    Í upphafi markmiðskafla framkvæmdaáætlunarinnar segir:
    „Leiðarljós framkvæmdaáætlunarinnar er að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins.“ Þetta sjónarmið er ítrekað í lokaorðum kaflans en þar segir: „Ríkisstjórnin mun vinna að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt allri opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku. Samþætting krefst þess að jafnrétti kynjanna sé meðvitað haft í huga við alla áætlanagerð. Allir sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku þurfa því að hafa þekkingu á jafnréttismálum.“
    Með þessari samþykkt hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að starfa að jafnrétti kynjanna í anda samþættingar en það sjónarmið hefur á undanförnum árum verið að ryðja sér til rúms við stefnumótun og í starfi að jafnrétti kynjanna.
    Þegar litið er til þess hve vel hefur gengið að vinna þau verkefni sem skilgreind eru í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum verður ekki annað séð en stjórnvöld hafi fylgt ákvörðun sinni um samþættingu vel eftir því að öll ráðuneytin eru með verkefni af því tagi á sínu sviði. Eru þá ótalin þau verkefni sem einstök ráðuneyti eða ríkisstjórnin öll hefur staðið fyrir á tímabilinu en eru ekki tíunduð í framkvæmdaáætluninni. Er það vel því það hlýtur að vera hið endanlega markmið stjórnvalda að jafnrétti sé samþætt á öllum sviðum samfélagsins.
    Mikilvægt skref í þá átt var stigið með skipan jafnréttisfulltrúa í öllum ráðuneytum. Frá fyrri hluta ársins 2001 hafa fulltrúarnir unnið saman að skilgreiningu á hlutverkum sínum og þróun starfsaðferða. Fulltrúarnir eru tengiliðir við Jafnréttisstofu, sem sinnir einnig fræðslu og ráðgjöf til þeirra. Í febrúar 2002 hélt stofan námskeið um aðferða- og hugmyndafræði samþættingar fyrir stjórnendur í ráðuneytum og jafnréttisfulltrúa. Þar var lögð áhersla á að finna leiðir til að styrkja samstarf stjórnenda og jafnréttisfulltrúa, m.a. um mótun og framkvæmd áætlunar um leiðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Jafnréttisfulltrúar gegndu mikilvægu hlutverki við endurskoðun og skýrslugerð vegna þessarar áætlunar og í því ferli hefur ekki síst komið í ljós mikilvægi þess að festa þá í sessi, með því að skilgreina starfshlutfall þeirra í hverju ráðuneyti, en umfang starfsins er mjög ólíkt í ráðuneytunum.
    Í inngangsorðum framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum er samstarf karla og kvenna að jafnréttismálum nefnt. Í nýjum jafnréttislögum er sérstök áhersla lögð á aukna virkni karla í jafnréttisstarfi og með nýjum lögum um fæðingar- og foreldraorlof er einnig stigið mikilvægt skref í þá átt að gera körlum mögulegt að taka ábyrgan þátt í umönnun og uppeldi barna sinna. Bundnar eru vonir við að það efli þá enn frekar til starfa á vettvangi jafnréttismála. Í framkvæmdaáætluninni eru einnig skilgreind verkefni sem sérstaklega lúta að þátttöku karla í jafnréttisstarfi og hefur þeim miðað ágætlega.
    Hér á eftir er farið yfir stöðu allra verkefna sem ákveðið var að vinna samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 1998–2001. Auk þess starfs hafa Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð og fjölmargar aðrar stofnanir og nefndir á vegum ríkisins unnið viðamikið starf að jafnréttismálum, sem ekki er tíundað hér. Til að auðvelda lestur skýrslunnar og veita heildarsýn yfir það starf sem unnið hefur verið og þann árangur sem náðst hefur er viðeigandi texti úr framkvæmdaáætluninni, auðkenndur með skáletri, við upphaf hvers kafla.
    Samhliða skýrslunni er lögð fram endurskoðuð áætlun til næstu tveggja ára.

Verkefni ríkisstjórnarinnar.
1. Öll tölfræði kyngreind.
     Ráðuneytum og ríkisstofnunum verður sent umburðarbréf þar sem kynnt verður sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að í öllum tölfræðilegum samantektum og skýrslum verði upplýsingar greindar eftir kyni. Hagstofa Íslands mun vinna með stofnunum ríkisins að framkvæmd þessa verkefnis. Skrifstofa jafnréttismála mun kanna framgang þess þegar liðin eru tvö ár frá gildistöku áætlunarinnar.
    Með bréfi dags. 24. október 2000 fór forsætisráðuneytið þess á leit við Hagstofu Íslands að hún annaðist þetta verkefni í umboði ráðuneytisins. Um framvindu verkefnisins vísast því til þess er fram kemur í greinargerð Hagstofu Íslands í þessari skýrslu.

2. Kannað verður hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna.
     Ríkisstjórnin mun skipa nefnd sem verður falið að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Nefndin mun í upphafi verks leggja fyrir ríkisstjórn starfsramma og gera þar tillögur að þeim málaflokkum sem sérstaklega verða skoðaðir. Nefndin mun taka til starfa eigi síðar en 1. maí 1998 og verður starf hennar metið og endurskoðað ef þörf þykir að ári liðnu.
    Forsætisráðuneytið skipaði í byrjun nóvember 2000 nefnd til þess að annast þetta verkefni. Nefndin hefur unnið ötullega að verkefninu og hefur í því skyni haft samráð við fjölda einstaklinga, stofnana og samtaka. Unnið er að lokaskýrslu nefndarinnar um málið.

3. Jafnrétti hjá ríkisstofnunum.
     Í árangursstjórnunarsamningum milli ráðuneyta og stofnana verði sérstaklega vikið að 6. gr. laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna sem m.a. tekur til jafnréttismála. Þá verði í erindisbréfum forstöðumanna stofnana sérstaklega minnt á að stuðlað skuli að jafnrétti kynjanna í starfsemi stofnunarinnar.
    Gerð árangursstjórnunarsamninga og frágangur erindisbréfa er á ábyrgð einstakra ráðuneyta. Lausleg athugun fjármálaráðuneytis bendir til þess að afar misjafnt sé hvernig þetta markmið hefur verið nálgast. Almennar tilvísanir í lög eru fátíðar í árangursstjórnunarsamningum og er það með ráði gert þar sem leitast hefur verið við að hafa þessa samninga stutta og sértæka fyrir viðkomandi stofnun. Í erindisbréfum forstöðumanna stofnana er á hinn bóginn almennt vísað til starfsmannalaga og í erindisbréfum margra ráðuneyta er sérstaklega minnt á þá skyldu forstöðumanna að virða jafnrétti kynjanna.

4. Konur og efnahagsmál – konur og efnahagsleg völd.
     Skipuð verður nefnd sem mun leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi.
    Forsætisráðherra skipaði í október 2000 nefnd þriggja sérfræðinga sem skyldi leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi. Forsætisráðuneytið hefur fallist á að unnið verði samkvæmt tillögum nefndarinnar um að ráðast í fjögur aðskilin rannsóknarverkefni:
     1.      Tölfræðisamantekt. Teknar verða saman ýmsar tölur í fórum Hagstofu Íslands eða annarra er tekið hafa saman kynaðgreindar tölur sem draga upp mynd af stöðu og völdum kvenna í samanburði við karla í íslensku efnahagslífi. Hér má t.d. nefna tölur um menntun, atvinnuþátttöku, vinnutíma, fjölda fæðinga á hverja konu, fjölda kvenna í eigin atvinnurekstri, fjölda kvenna í opinberum ábyrgðarstöðum o.fl. Þessi samantekt er unnin innan Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
     2.      Könnun á vinnumarkaði. Í samstarfi við Jafnréttisráð verður unnin ný launakönnun til að varpa ljósi á launaþróun hjá konum og körlum og í hvaða mæli kynbundinn launamunur er enn til staðar í íslensku samfélagi. Undirbúningur er langt á veg kominn. Leyfi hafa m.a. fengist fyrir samkeyrslu upplýsinga úr þjóðskrá og úr ýmsum launagögnum. Tölvukeyrslur eru m.a. unnar af Hagstofu Íslands og kjararannsóknarnefnd.
     3.      Könnun á stöðu kvenna í stjórnunarstörfum. Safnað verður upplýsingum um fjölda kven- og karlstjórnenda í íslenskum fyrirtækjum og í opinbera geiranum. Þessi samantekt er unnin innan Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
     4.      Almenn viðhorfskönnun. Gerð verður viðhorfskönnun meðal Íslendinga sem náð hafa kosningaaldri þar sem spurt verður um viðhorf þeirra til ýmissa þátta sem áhrif geta haft á völd kvenna í íslensku efnahagslífi. Þessi viðhorfskönnun hefur ekki enn verið framkvæmd en gert er ráð fyrir að leitað verði tilboða í hana þegar niðurstöður úr öðrum rannsóknaþáttum liggja fyrir. Sérfræðinganefndinni hefur jafnframt verið falið að hafa yfirumsjón og eftirlit með framkvæmd framangreindra rannsóknarverkefna og er vinna við sum þeirra vel á veg komin. Að verkefnunum loknum mun nefndin skila af sér skýrslu um framkvæmd þeirra og niðurstöður, en áformað er að ráða starfsmann í verkefnið til þess að greiða fyrir lokum þess.

Skýrslur ráðuneytanna.
1. Forsætisráðuneytið.
1.1. Endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum.
     Nefnd forsætisráðherra um endurskoðun kjördæmaskipunar og kosningalaga mun í skýrslu sinni leggja fram sérstaka úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa, þar á meðal á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna. Í þessu skyni mun nefndin afla upplýsinga erlendis frá um rannsóknir og skýrslur á þessu sviði en gerist þess þörf verður unnin sérstök athugun fyrir ráðuneytið.
    Verkefninu er lokið, og vísast í því sambandi til þess er fram kemur í fyrri skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu verkefna í framkvæmdaáætluninni frá árinu 2001.

1.2. Þróun upplýsingasamfélagsins.
     Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt stefnumótun um málefni upplýsingasamfélagsins og skipað verkefnisstjórn með fulltrúum fimm ráðuneyta. Forsætisráðuneytið mun fela verkefnisstjórninni að kanna hvernig aðrar þjóðir og alþjóðasamtök fylgjast með og reyna að hafa áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu kvenna og karla. Jafnframt verði staða þessara mála hér á landi könnuð. Gagnasöfnun verði lokið fyrir árið 2000 og á grundvelli hennar verða teknar ákvarðanir um hugsanlegar aðgerðir.
    Nefnd um jafnrétti kynjanna við opinbera stefnumótun óskaði eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu um ýmis atriði er lúta að stefnumótun um upplýsingasamfélagið og jafnrétti kvenna og karla í því sambandi. Spurningar nefndarinnar og svör ráðuneytisins eru svohljóðandi:

     Hvort og með hvaða hætti tók stefnumótunin um upplýsingasamfélagið mið af jafnrétti kynjanna?
    Eitt af markmiðunum í stefnunni um upplýsingasamfélagið er að jafnrétti borgaranna verði eflt með fulltingi upplýsingatækninnar. Þetta markmið er hið fyrsta sem sett er fram í efnisköflum stefnunnar og gæti því gefið vísbendingu um mikilvægi þess fyrir stefnuna í heild.

     Hvaða kynbundnu upplýsingar lágu fyrir?
    Ekki var með skipulögðum hætti aflað kynbundinna upplýsinga um upplýsingasamfélagið við stefnumótunina. Þó má geta þess að horft var til ýmissa gagna og stefnumótunarrita annarra landa.

     Hvaða sjónarmiða var aflað við mótun stefnunnar sem snúa að jafnrétti kynjanna?
    Í stefnumótunarvinnunni (í nefndum og starfshópum) tók þátt á annað hundrað manns, konur og karlar, fulltrúar ráðuneyta, atvinnulífs og hagsmunaaðila (sjá skýrslu: malaskra1.stjr.is/interpro/FOR/for.nsf/pages/uppl0003).
    Þess má geta að formaður aðalnefndarinnar var karl en kona var formaður sérstakrar verkefnisstjórnar sem skipuð var til að stýra vinnu starfshópa, samræma tillögur þeirra og ritstýra greinargerð sem fylgir stefnunni og er undirstaða hennar.

     Hver bar ábyrgð á að stefnan komst í framkvæmd?
    Forsætisráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd stefnunnar. Skipuð var sérstök verkefnisstjórn til að stýra verkefninu.
    Þess má geta að forsætisráðuneytið hefur ráðið tvo starfsmenn sem eingöngu sinna framkvæmd stefnunnar og eru þeir báðir konur. Annar þessara starfsmanna er formaður verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið sem stýrir framkvæmd stefnunnar fyrir hönd ráðuneytisins.

     Hvernig var árangur metinn?
    Um þessar mundir er forsætisráðuneytið að semja við ráðgjafarfyrirtæki um úttekt á verkefninu um íslenska upplýsingasamfélagið, þ.m.t. mat á árangri.

     Liggja fyrir upplýsingar um hvernig stefnan hefur reynst í raun?
    Þessar upplýsingar munu væntanlega liggja fyrir sumarið 2002, að úttektinni lokinni.

    Þess má geta að við framkvæmd stefnunnar hefur með reglubundnum hætti verið aflað fjölbreyttra kynbundinna upplýsinga um tölvueign, tölvunotkun, netnotkun landsmanna o.fl. og hefur þeim upplýsingum verið miðlað á vef verkefnisstjórnar sem og í ýmsum erindum sem flutt hafa verið.
    Einnig má geta þess að í apríl 2000 var haldin fjölsótt ráðstefna um konur og upplýsingasamfélagið í samvinnu við fjölda félaga og samtaka. Í tengslum við ráðstefnuna var mikil gagnaöflun og fjölmiðlakynning og settur var upp sérstakur metnaðarfullur vefur um þetta málefni: www.simnet.is/konur/.
    Því er óhætt að fullyrða að jafnrétti kynjanna hafi verið gefinn sérstakur gaumur við framkvæmd stefnunnar.

1.3. Staða kvenna á landsbyggðinni.
     Ráðuneytið mun kanna sérstaklega hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni og þar með á möguleika þeirra til náms og atvinnu. Könnuninni ljúki fyrir árslok 1998. Á grundvelli niðurstaðna verði lagðar fram tillögur til úrbóta sem miði að því að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni.
    Að beiðni forsætisráðuneytisins vann Þjóðhagsstofnun skýrslu um könnun á áhrifum atvinnu- og þjóðfélagsbreytinga á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Skýrslan var gefin út af félagsmálaráðuneytinu, en hana er jafnframt að finna í heild sinni á vefsíðum Stjórnarráðsins (sjá félagsmálaráðuneyti, útgefið efni, jafnréttismál). Inngangur og helstu niðurstöður skýrslunnar eru svohljóðandi:
    „Með bréfi dagsettu 3. ágúst 1999 fór forsætisráðuneytið þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún tæki að sér að gera athugun á stöðu kvenna á landsbyggðinni í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Þessi skýrsla er greinargerð stofnunarinnar um þetta mál. Athugunin er byggð á gögnum stofnunarinnar, ásamt gögnum Vinnumálastofnunar og Hagstofu Íslands. Þess vegna er hún einskorðuð við þætti sem snúa að lýðfræði, atvinnu, atvinnuleysi, tekjum, atvinnuskiptingu og menntun. Í sumum tilvikum hafa gögn þessara aðila verið notuð eins og þau eru sett fram í Byggðabrunni Byggðastofnunar.
    Staða kvenna á landsbyggðinni er borin saman við stöðu kynsystra þeirra á höfuðborgarsvæðinu annars vegar. Hins vegar er staða karla og kvenna á landsbyggðinni borin saman. Fyrirliggjandi gögn takmarka slíka greiningu í sumum tilvikum.
    Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
          Búferlaflutningar á tíunda áratug aldarinnar eru álíka algengir hjá konum og körlum. Búferlaflutningar milli sveitarfélaga eru meiri hér á landi en í Noregi. Tíðni búferlaflutninga er mest hjá konum á þrítugsaldri. Sjöunda hver kona á þeim aldri flytur milli sveitarfélaga á ári. Í tímans rás hafa mismunandi flutningar kynjanna leitt af sér misvægi í fjölda milli þeirra.
          Mun algengara er að börn innan 15 ára aldurs búi með einum fullorðnum (sem oftast er kona) á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.
          Tíðni fæðinga er heldur meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Börnum sem fæðast á landsbyggðinni hefur fækkað.
          Atvinnuþátttaka kvenna hefur verið að aukast á yfirstandandi hagvaxtarskeiði. Hún er nú meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og árið 1999 dró úr henni þar. Atvinnuþátttaka kvenna á landsbyggðinni var minni en á höfuðborgarsvæðinu árið 1999 í öllum aldursflokkum nema þeim elsta (65–74 ára). Þetta er breyting frá því sem áður var.
          Atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni yfir vetrarmánuðina var meira en á höfuðborgarsvæðinu í upphafi tíunda áratugarins. Það jókst verulega eftir 1993 en hefur síðan farið hægt minnkandi. Á höfuðborgarsvæðinu jókst atvinnuleysi kvenna hægar, varð aldrei eins mikið en hefur minnkað hægar en á landsbyggðinni.
          Samkvæmt ársverkamælingum fjölgaði störfum á höfuðborgarsvæðinu um 6.000 á tímabilinu 1992–1997 á meðan fjöldi starfa á landsbyggðinni stóð því sem næst í stað. Störfum kvenna fjölgaði meira en störfum karla á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni fjölgaði störfum kvenna um 500 en störfum karla fækkaði nokkuð meira en sem nam fjölguninni hjá konum. Störfum kvenna fjölgaði annars staðar en á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Á landsbyggðinni hurfu 0,8 störf fyrir hvert eitt sem varð til en á höfuðborgarsvæðinu var þetta hlutfall 0,3.
          Árið 1997 voru 43% allra ársverka unnin af konum. Á landsbyggðinni var þetta hlutfall 40% en 44% á höfuðborgarsvæðinu. Hlutur kvenna í einstökum atvinnugreinum er mismikill, frá því að vera 4% ársverka í fiskveiðum í yfir 80% í velferðarstofnunum. Enginn áberandi munur er á hlut kvenna í einstökum atvinnugreinum eftir því hvort þær búa á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu.
          Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskannana Hagstofu Íslands hefur mikil fjölgun starfa átt sér stað hjá konum á höfuðborgarsvæðinu miðað við það sem gerst hefur á landsbyggðinni, einkum á árinu 1999. Á árunum 1991–1999 fjölgaði konum á höfuðborgarsvæðinu sem gegndu fullu starfi um 6.500 eða um réttan þriðjung. Á sama tíma fækkaði konum í fullu starfi á landsbyggðinni um 100.
          Umtalsverður munur er á því hlutfalli kvenna á vinnumarkaðinum sem er í fullu starfi eftir búsetu. Þannig voru um 49% starfandi kvenna á landsbyggðinni í fullu starfi árið 1999 en 57% á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hlutfall er mun hærra hjá körlum en konum.
          Mismunur á þátttöku kvenna á vinnumarkaðinum eftir atvinnugreinum er mikill milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Hlutur kvenna á landsbyggðinni er mun meiri í landbúnaði og sjávarútvegi en á höfuðborgarsvæðinu einkennist atvinnuskipting kvenna af þátttöku í fjölbreyttum þjónustugreinum. Munurinn á atvinnugreinunum er mestur í heilbrigðisþjónustu. Á höfuðborgarsvæðinu vinna 23% kvenna í fullu starfi í heilbrigðisþjónustu en á landsbyggðinni er þetta hlutfall 18%.
          Atvinnutekjur kvenna eru 53% af launatekjum karla að meðaltali. Einungis á höfuðborgarsvæðinu eru tekjur kvenna hærri en landsmeðaltal kvenna og munar rúmlega 6%. Alls staðar annars staðar eru þær lægri. Lægstar eru meðaltekjurnar á Norðurlandi, tæplega 14% fyrir neðan meðaltalið í austurkjördæminu og rúmlega 12% fyrir neðan meðaltalið í vesturkjördæminu. Suðurnes eru næst því að ná landsmeðaltali og síðan Vestfirðir. Allt annað landfræðilegt mynstur er á meðaltekjum karla eftir landshlutum þar sem þær eru einungis lægri en landsmeðaltal á Norðurlandi og Suðurlandi. Þær eru hæstar á Suðurnesjum.
          Skólasókn kvenna er meiri en karla í nær öllum aldursflokkum. Skólasókn er minni á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu í flestum aldursflokkum en ekki er hægt að greina umtalsverðan mun á milli kynja í þessum efnum. Skólaþátttakan er minnst á Vestfjörðum. Þrátt fyrir meiri skólasókn kvenna útskrifast fleiri karlar.
          Verulega hærra hlutfall kvenna á landsbyggðinni hefur einungis grunnskólamenntun en á höfuðborgarsvæðinu. Konur með framhaldsskólamenntun og þaðan af meiri menntun eru hlutfallslega fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Eftir því sem menntunin er meiri verður hlutfallslegi munurinn meiri.
          Konur með háskólapróf eru verulega færri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu en þeim hefur fjölgað örar þar en á höfuðborgarsvæðinu sé litið á allt tímabilið 1991– 1999. Á allra seinustu árum er fjölgunin meiri á höfuðborgarsvæðinu. Á báðum svæðum hefur fjöldi kvenna með háskólapróf þó nær tvöfaldast.“
    Í skýrslunni eru ekki gerðar beinar tillögur, sem hrinda mætti í framkvæmd sem slíkum.

1.4. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.
    Í svörum ráðherranna við fyrirspurnum Margrétar Frímannsdóttur á 127. löggjafarþingi (71.–80. mál og 142. mál) þar sem m.a. var óskað eftir upplýsingum um hlutfall kvenna í nefndum og ráðum á vegum ríkisins kemur fram að heildarhlutur kvenna er 30%.
    Til samanburðar má nefna að í svari forsætisráðherra við fyrirspurn á 121. löggjafarþingi um skipan nefnda og stöðuveitingar á vegum ráðuneyta (337. mál, þingskjal 850) kom fram að hlutfall kvenna í verkefnanefndum er þá störfuðu á vegum ráðuneyta væri 23%. Í svarinu var bent á að í mörgum tilvikum væri svo staðið að skipun í nefndir, ráð og stjórnir að flestir hljóti skipun samkvæmt tilnefningu þriðja aðila, eða séu kosnir til slíkrar setu.
    Hlutfall karla og kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum getur að líta í töflu hér að neðan, ásamt upplýsingum um fjölda nefnda, ráða og stjórna og þeirra sem í þeim eiga sæti:

Karlar Konur Fjöldi nefnda Fjöldi nefndarmanna
Forsætisráðuneyti 62% 38% 27 117
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti 65% 35% 43 223
Félagsmálaráðuneyti 60% 40% 74 670
Fjármálaráðuneyti 77% 23% 58 280
Hagstofa Íslands 67% 33% 1 3
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti 58% 42% 99 486
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 80% 20% 86 429
Landbúnaðarráðuneyti 86% 14% 71 413
Menntamálaráðuneyti 66% 34% 224 1666
Samgönguráðuneyti 90% 10% 31 241
Sjávarútvegsráðuneyti 84% 16% 20 93
Umhverfisráðuneyti 74% 26% 74 545
Utanríkisráðuneyti 86% 14% 9 37
samtals: 817 5203
Heimild: Jafnréttisstofa, mars 2002.

    Á 126. löggjafarþingi kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn um hlutfall kynja í nefndum, stjórnum og ráðum (142. mál, þskj. 541) að kynjaskiptingin sundurliðuð eftir kjördæmum væri eftirfarandi:

Reykv. Reykn. Vesturl. Vestf. Norðurl.v. Norðurl.e. Austurl. Suðurl.
Karlar 73,4% 79,8% 77,4% 75,0% 75,6% 80,5% 70,6% 79,7%
Konur 26,6% 20,2% 22,6% 25,0% 24,4% 19,5% 29,4% 20,3%

    Taka ber fram að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti sundurliðaði ekki upplýsingar eftir kyni og kjördæmum í sínu svari og eru upplýsingar frá því ráðuneyti ekki taldar með í svari við þessum hluta fyrirspurnarinnar.
    Ekki reyndist unnt að veita fullnægjandi svar við spurningu um skiptingu launakostnaðar ríkisins milli kynja vegna nefnda og ráða. Ærið verkefni er að taka saman launatölur fyrir hvern þeirra rúmlega 4.000 einstaklinga sem sæti eiga í nefndum, ráðum og stjórnum, m.a. vegna þess að laun og þóknanir eru greidd af mismunandi aðilum. Þá er þess að geta að þóknun til verkefnanefnda er oftast ákveðin í lok hvers árs. Sundurliðuð svör bárust þó frá fimm ráðuneytum. Þau benda til þess að hlutfall kvenna af greiddum launum og þóknunum sé nánast hið sama og hlutfall kvenna af heildarfjölda einstaklinga sem sæti eiga í nefndum, ráðum og stjórnum.
    Nefna ber að stærstur hluti þóknana til nefnda á vegum ráðuneyta er ákvarðaður af þóknananefnd og er þá að jafnaði ákvörðuð föst þóknun til nefndarmanna, en hærri þóknun til formanns. Eðli máls samkvæmt ná slíkar ákvarðanir til beggja kynja, enda sitja oftast einstaklingar af báðum kynjum í nefndum sem þóknananefnd ákvarðar þóknanir til.
    Í svari forsætisráðherra við fyrrnefndri fyrirspurn á 126. löggjafarþingi kemur enn fremur fram að konur hafi gegnt formennsku í 158 af 861 nefnd, ráði og stjórn sem störfuðu eða starfað hafi umrætt ár. Það jafngildir 18,4%. Það skekkir þennan samanburð að ekki er í öllum tilvikum tekið fram hvort formaður nefndar, ráðs eða stjórnar er karl eða kona, sem þýðir að hlutfall kvenna er örugglega hærra en 18,4%.
    Nefna má að í svari forsætisráðherra við fyrrnefndri fyrirspurn um skipan nefnda og stöðuveitingar á vegum ráðuneyta á 121. löggjafarþingi kom fram að hlutur kvenna í formennsku í verkefnanefndum á vegum ráðuneytanna væri 20%.

1.5. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Snemma á árinu 2002 var lögð lokahönd á starfsmannastefnu Stjórnarráðsins, en hún nær til þeirra sem ráðnir eru til starfa hjá forsætisráðuneytinu, sem og öðrum ráðuneytum. Um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og kjarasamningum, sbr. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Stefnan nær einnig til þeirra embættismanna sem taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar, sbr. lög um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, og þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga og fjármálaráðherra ákvarðar laun fyrir.
    Í starfsmannastefnunni eru skilgreind nokkur meginmarkmið og segir þar m.a. að stuðla beri að jafnrétti meðal starfsmanna ráðuneyta og að starfsmönnum skuli auðveldað að samræma fjölskylduábyrgð og starf.
    Í samræmi við framangreind meginmarkmið er í starfsmannastefnunni sérstakur kafli um jafnrétti kynjanna. Þar segir að gæta skuli fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að hver starfsmaður verði metinn á eigin forsendum. Þannig verði tryggt að mannauður ráðuneytanna nýtist sem best. Kynbundin mismunun sé óheimil, í hvaða formi sem hún birtist.
    Stuðlað skal að jafnri stöðu kvenna og karla hjá Stjórnarráðinu og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum, óháð kynferði. Þetta á m.a. við um rétt til starfa, aðstöðu, menntunar og kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, sbr. jafnréttisstefnu Stjórnarráðsins.
    Þá er í starfsmannastefnunni einnig fjallað sérstaklega um fjölskylduábyrgð og starf. Velferð einstaklinga í einkalífi og leik fer saman við líðan þeirra og árangur í starfi. Leitast skal við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar. Starfsmönnum skal einnig gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar, svo sem vegna umönnunar barna og sjúkra fjölskyldumeðlima. Starfsmenn skulu eiga möguleika á hlutastarfi og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa.
    Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins er hluti af starfsmannastefnunni og nær hún til allra ráðuneyta innan Stjórnarráðsins. Áætlunin hljóðar svo:

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins.

    Markmið jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins er að stuðla að jafnrétti kynjanna, jafnri stöðu og virðingu kvenna og karla innan ráðuneytanna, enn fremur að minna stjórnendur og starfsfólk ráðuneytanna á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis. Stjórnarráðið telur mikilvægt að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum kvenna og karla.
    Í öllu starfi ráðuneytanna verði unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kvenna og karla í þjóðfélaginu. Jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna verði virkur þáttur í starfsmannastefnu Stjórnarráðsins.
    Ekki hefur verið skipuð sérstök jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.

Stjórnarráðið leggur áherslu á eftirfarandi:
Launajafnrétti.
    Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og hvers konar frekari þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti. Einnig skulu þau njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár, sbr. 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Þátttaka í nefndum og ráðum.
    Unnið er markvisst að því að jafna fjölda kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna. Þegar óskað er eftir tilnefningum í opinberar nefndir og ráð skal minnt á ákvæði 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þar sem segir að þar sem því verði við komið sitji sem næst jafnmargar konur og karlar í nefndum, ráðum og stjórnum.

Auglýsingar og upplýsingagjöf.
    Í auglýsingum eru störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð auglýsinga.

Stöðuveitingar og störf.
    Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar.
    Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í hinum ýmsu störfum innan ráðuneytanna.
    Þess verði gætt við úthlutun verkefna, tilfærslu í störfum, tækifæri til að axla ábyrgð og framgang í störfum að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis.

Starfsþjálfun og endurmenntun.
    Tryggt verði að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða undirbúnings öðrum störfum.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Leitast er við að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið.

Starfsandi og líðan starfsmanna.
    Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki kynferðislegri áreitni. 1

Jafnréttisfulltrúi.
    Jafnréttisfulltrúar hvers ráðuneytis fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði þeirra og stofnana á stjórnsýslusviði viðkomandi ráðuneytis.
    Starfsmaður getur leitað til jafnréttisfulltrúa með mál er varða hvers kyns áreitni eða misrétti.

2. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
2.1. Hvatning til kvenna sem og karla að sækja um störf.
     Ráðuneytið hefur sett sér að fylgja þeirri stefnu að orða starfsauglýsingar þannig að fram komi hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um viðkomandi störf.
    Ráðuneytið hefur fylgt þeirri stefnu með fáum undantekningum að orða starfsauglýsingar þannig að fram komi hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um viðkomandi störf. Markvisst hefur verið unnið að því að hvetja konur til að sækja um störf sem auglýst eru laus til umsóknar.
    Í ráðherratíð Sólveigar Pétursdóttur hafa verið skipaðir tveir hæstaréttardómarar, einn karl og ein kona, tveir héraðsdómarar, einn karl og ein kona, sjö sýslumenn, þrír karlar og fjórar konur og einn forstjóri undirstofnunar, Persónuverndar, sem er kona.

2.2. Hlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
     Stefnt verður að því að auka enn hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins og óskað eftir að tilnefningum verði hagað svo að því markmiði verði náð.
    Ráðuneytið hefur unnið að því að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins og óskað eftir að tilnefningum verði hagað svo að því markmiði verði náð. Á tímabilinu hefur fjöldi kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins aukist úr 19,3% í 26,3%.

2.3. Fjölgun kvenna í lögreglu og meðal fangavarða.
     Markvisst verður stefnt að því að ráða fleiri konur í störf lögreglumanna og fangavarða. Í því skyni verða konur hvattar til að sækja um störf sem auglýst eru.
    Ráðuneytið hefur unnið að því að fjölga konum í störfum lögreglumanna og fangavarða. Á árinu 1996 var hlutfall kvenna í lögreglustörfum 4,3% en hefur síðan aukist jafnt og þétt og er nú 9,11%. Til þess að skoða þróunina betur má líta á tölur um útskriftarnema í Lögregluskóla ríkisins. Á árinu 1997 var hlutfall kvenna sem útskrifuðust úr Lögregluskólanum 7,14% en á sl. vori var þetta hlutfall 16,13%. Af þeim hópi sem útskrifaðist í desember árið 2000 var hlutfall kvenna 19,35%. Lögreglunemar í grunnnámi eru nú 48, 36 karlar og 12 konur, þ.e. konur eru 33,3% þeirra. Á árinu 1996 var hlutfall kvenna í störfum fangavarða 7,7% en er nú 15,6%. Starfa nú 15 konur við fangavörslu.

2.4. Staða kvenna innan lögreglunnar.
     Lögreglan er fjölmennust þeirra starfsstétta sem heyra undir ráðuneyti dómsmála. Með nýrri skipan á vali nemenda í lögregluskólanum hefur konum þegar fjölgað í hópi nemenda og mun það að öllum líkindum verða til þess að auka hlut kvenna í lögreglunni þegar fram í sækir. Jafnframt því að stuðla að fjölgun kvenna innan lögreglunnar mun dómsmálaráðuneytið huga sérstaklega að stöðu þeirra kvenna sem starfa í lögreglunni.
    Ráðuneytið hefur hugað sérstaklega að stöðu þeirra kvenna sem starfa innan lögreglunnar. Frá árinu 1999 hafa fjórar konur verið skipaðar lögreglustjórar og eru þær nú fimm alls. Á sama tíma hefur dómsmálaráðherra skipað þrjá karla í stöður lögreglustjóra. Árið 1996 voru konur 1,49% af þeim sem eru í helstu yfirmannastöðum innan lögreglunnar en voru á sl. sumri 2,36%. Þótt hér sé ekki um margar stöður að ræða skal þess getið að árið 1996 var engin kona í starfi yfirlögregluþjóns, aðstoðaryfirlögregluþjóns eða aðalvarðstjóra en ein kona var í stöðu lögreglufulltrúa. Nú er ein kona aðstoðaryfirlögregluþjónn, ein kona aðalvarðstjóri og þrjár konur lögreglufulltrúar. Rétt er að taka fram að þrátt fyrir hvatningu til kvenna um að sækja um lausar stöður yfirmanna er fátítt að þær sæki um. Þannig voru árið 2000 auglýstar lausar til umsóknar 77 yfirmannastöður í lögreglunni, þ.e. staða aðstoðarvarðstjóra og hærra settra. Um þær sóttu níu konur og 230 karlar. Af þeim sem hlutu stöðurnar voru fimm konur og 72 karlmenn. Þannig fengu 55,6% kvenna þær stöður sem þær sóttu um en 31,3% karla fengu þær stöður sem þeir sóttu um.

2.5. Meðferð heimilisofbeldismála.
     Nefnd, sem dómsmálaráðherra skipaði til að kanna orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis, svo og annars ofbeldis gegn konum og börnum, skilaði skýrslu um niðurstöður sínar. Í ljósi niðurstaðna nefndarinnar skipaði dómsmálaráðherra þrjár nefndir til að huga að meðferð þessara mála. Einni nefndinni er ætlað að huga að nauðsynlegum breytingum á löggjöf til að sporna við heimilisofbeldi, huga að því með hvaða hætti unnt sé að efla starf félagasamtaka sem sinna forvarnamálum og hjálparúrræðum á þessu sviði og gera tillögur um forvarnaaðgerðir og hjálparúrræði fyrir brotaþola og gerendur. Hinum nefndunum tveimur er falið að huga að meðferð þeirra mála sem hér um ræðir, annars vegar á rannsóknarstigi en hins vegar í dómskerfinu, og leggja fyrir dómsmálaráðherra tillögur um nauðsynlegar úrbætur í því efni, þar á meðal um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf, ef því er að skipta.
    Nefndirnar skiluðu allar skýrslum sem dómsmálaráðherra lagði fram á 121. og 122. löggjafarþingi Alþingis.

2.6. Staða þolenda afbrota.
     Nefnd, sem dómsmálaráðherra skipaði til að athuga hvort taka ætti upp það fyrirkomulag að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur dæmdra bóta vegna kynferðisbrota eða annarra grófra ofbeldisbrota, samdi frumvarp sem varð að lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Nefndinni var einnig falið að athuga hvort setja ætti í lög reglur um nálgunarbann og hvort þolendur gætu átt betri aðgang að rannsóknarferlinu. Meðal þeirra úrræða sem nefndin hefur fjallað um er réttur brotaþola til lögmannsaðstoðar þeim að kostnaðarlausu. Nefndin vinnur nú að tillögum um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf er miða að bættri stöðu brotaþola að þessu leyti.
    Lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, hefur verið breytt þannig að víkja má frá ákvæðum laganna um tímafresti til að koma fram kröfu um bætur þegar veigamikil rök mæla með því.
    Dómsmálaráðherra beitti sér fyrir breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, þar sem mælt er fyrir um nálgunarbann. Samkvæmt því er unnt að banna manni með dómsúrskurði að koma á tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðru móti í samband við annan mann, ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann mundi fremja afbrot eða raska friði þess manns sem á í hlut. Brot á nálgunarbanni varðar eins árs fangelsi og tveggja ára fangelsi ef brot er ítrekað eða stórfellt. Með lögum nr. 36/1999 voru ýmsar breytingar gerðar á ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, í því skyni að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota. Eftir breytingarnar eiga brotaþolar í kynferðisbrotamálum rétt á því að þeim verði á kostnað ríkissjóðs skipaður löglærður talsmaður, réttargæslumaður, er gæti hagsmuna þeirra í sambandi við rannsókn og málsmeðferð sakamálsins og veiti brotaþola aðra aðstoð sem eðlileg er í sambandi við málið.

2.7. Staða kvenna innan þjóðkirkjunnar.
     Dóms- og kirkjumálaráðherra mun beina þeim tilmælum til biskupsstofu að sérstaklega verði hugað að stöðu kvenna innan þjóðkirkjunnar. Stefnt verði að því að aukin verði þátttaka kvenna í ráðum og nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og að jafnað verði hlutfall karla og kvenna í trúnaðarstörfum innan hennar. Í því skyni verði tekið mið af niðurstöðum nefndar sem biskup hefur skipað til að skoða jafnréttismál í þjóðkirkjunni. Nefndinni er í fyrsta lagi ætlað að gera sér grein fyrir stöðu mála hvað varðar jafnrétti kynja í kirkjunni, í öðru lagi að kynna sér stöðu þessara eða svipaðra mála meðal nágrannakirkna á Norðurlöndum og í Alkirkjuráðinu og Lúterska heimssambandinu og kynna stefnu þessara fjölþjóðasamtaka sem íslenska kirkjan tilheyrir og í þriðja lagi að gera tillögur um úrbætur sjái nefndin möguleika á því að koma slíku fram.
    Á kirkjuþingi árið 1998 var samþykkt jafnréttisáætlun kirkjunnar sem tók gildi 1. janúar 1999. Í samræmi við ákvæði jafnréttisáætlunar var sett á stofn jafnréttisnefnd sem tók til starfa um leið og jafnréttisáætlun tók gildi.
    Jafnréttisáætlun kirkjunnar leggur megináherslu á eftirfarandi málefni:
          Að rétta hlut kvenna innan kirkjunnar.
          Að jafna aðild kynjanna að nefndum og ráðum og yfirstjórn kirkjunnar.
          Að stuðla að jöfnun launa og aðstöðu kvenna og karla innan kirkjunnar.
          Að vinna að fræðslu um jafnrétti.
          Að vinna að endurskoðun málfars í kirkjulegri boðun og starfi.
    Konum hefur fjölgað í prestastétt á undanförnum árum. Þær eru nú um 20% í hópi starfandi presta, en eru tiltölulega fæstar í hópi sóknarpresta. T.d. er aðeins ein kona starfandi sóknarprestur á öllu höfuðborgarsvæðinu og hefur svo verið síðan 1986. Konum hefur einnig fjölgað í hópi prófasta, en þær eru nú 3 af 16 eða um 20%. Kona var í fyrsta skipti skipaður prófastur árið 1998 en áður hafði ein kona leyst prófast af. Enn hefur kona ekki hlotið biskupsvígslu hér á landi.
    Á kirkjuþingi fækkaði konum úr þremur í eina þegar kosningar fóru fram sumarið 1998. Nú situr engin kona úr hópi leikmanna á kirkjuþingi, en ein úr hópi presta. Konur hafa því tæp 5% fulltrúa á kirkjuþingi. Kona er nú í fyrsta skipti í kirkjuráði, en meðlimir kirkjuráðs eru alls fimm. Er hér um að ræða æðstu stöðu sem kona hefur gegnt innan íslensku kirkjunnar fram að þessu.
    Í guðfræðideild eru nú um 70% nemenda konur. Kona gegnir nú í fyrsta skipti fastri kennarastöðu við guðfræðideildina, en hún var ráðin lektor við guðfræðideild 1. janúar 2000.
    Ekki liggja fyrir tölur um samsetningu sóknarnefnda. Tölur um kynjahlutfall sóknarnefndarformanna liggja hins vegar fyrir og kemur þar fram að konur eru um 35% af formönnum sóknarnefnda. Sú tala segir þó ekki alla sögu, þar sem um er að ræða mjög misjafna dreifingu þeirra um landið. Konur eru fæstar í hópi sóknarnefndarformanna á höfuðborgarsvæðinu. Í öllum nefndum og stjórnum sem starfa á vegum kirkjunnar gætir enn talsverðs kynjamismunar. Hreinum karla- og kvennanefndum hefur þó fækkað, en hreinar karlanefndir eru nú alls níu en aðeins ein kvennanefnd. Þá eru formenn nefnda í mun fleiri tilfellum karlar en konur.

2.8. Forsjár- og umgengnismál.
     Dómsmálaráðherra skipaði á árinu 1997 nefnd til að kanna stöðu forsjár- og umgengnismála. Nefndinni var m.a. falið að kanna reynslu þá er fengist hefur af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, hvaða úrræði eru líkleg til að draga úr fjölda brota vegna umgengnisréttar og -skyldu, hvaða upplýsingar og fræðsla standa foreldrum til boða í tengslum við skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál, hvernig auka megi þá fræðslu ef þess er talin þörf og hverjar eru raunverulega samvistir barna við það foreldri sem þau búa ekki hjá.
    Forsjárnefnd skilaði dómsmálaráðherra áfangaskýrslu í júní 1999 og lagði fram eftirfarandi tillögu til úrbóta:
     1.      Þegar á árinu 1999 var ráðist í tilraunaverkefni við a.m.k. eitt sýslumannsembætti um þverfaglega ráðgjöf fyrir foreldra við skilnað þeirra eða slit á óvígðri sambúð. Tilraunin stæði yfir í tólf mánuði og árangur yrði metinn að tilraunatíma loknum. Árið 2000 var síðan hleypt af stokkunum tilraunaverkefni hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík sem laut að sáttaumleitunum í umgengnis- og forsjármálum, bæði í skilnaðarmálum og málum sem ekki tengjast þeim. Árangurinn reyndist mjög góður og var barnalögum breytt með lögum nr. 18/2001 þar sem gert er ráð fyrir að slíka sáttaþjónustu sé unnt að fá hjá öllum sýslumannsembættum.
     2.      Sameiginleg forsjá foreldra verði meginregla.
     3.      Lagabreytingar til að bæta réttarstöðu forsjárlauss foreldris.

2.9. Jafnrétti – mannréttindi.
     Á vegum dómsmálaráðuneytis verði skipulögð námskeið fyrir opinbera embættismenn um mannréttindamál, m.a. um mannréttindi kvenna sérstaklega.
    Ráðuneytið hefur lagt áherslu á fræðslu um mannréttindi og hafa starfsmenn þess haldið fræðsluerindi og staðið fyrir námskeiðum fyrir ýmsa starfshópa, svo sem ákærendur, lögreglumenn o.fl. Í lögregluskólanum eru mannréttindi meðal námsgreina.

2.10. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Í nóvember 2001 var gefin út í ráðuneytinu jafnréttisyfirlýsing þess. Í henni er kveðið á um launajafnrétti, stöðuveitingar og skipanir í embætti, jafnræði á vinnustað, jafnan rétt til fjölskyldu og atvinnulífs, jafnan rétt karla og kvenna til starfsþjálfunar og endurmenntunar, þátttöku í nefndum og ráðum o.fl. Yfirlýsingin hefur verið send öllum undirstofnunum ráðuneytisins. Í bréfi sem fylgdi yfirlýsingunni var þess farið sérstaklega á leit að yfirmenn stofnana kynntu öllum starfsmönnum yfirlýsinguna, hver væri jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins og að starfsmenn gætu snúið sér með umkvartanir sínar til fulltrúans.

Önnur verkefni.
          Ráðuneytið hefur einnig unnið að verkefni tengdu vændi á Íslandi. Ríkisstjórnin samþykkti sérstaka fjárveitingu til að gerð yrði rannsókn á vændi á Íslandi. Sumarið 2000 fól dómsmálaráðuneytið sérfræðingum að gera úttekt á umfangi vændis hér á landi. Rannsóknin var einkum byggð á viðtölum við ungar stúlkur sem ánetjast hafa fíkniefnaneyslu, svo og við nektardansmeyjar og aðra sem tengjast starfsemi nektardansstaða. Áfangaskýrsla liggur nú fyrir og hafa niðurstöður hennar verið kynntar. Jafnframt hefur verið lögð fram af dómsmálaráðherra skýrsla um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl. en skýrsla þessi er svar við beiðni nokkurra þingmanna.
          Dómsmálaráðherra hefur styrkt svokallaðan V-dag, sem vænta má að verði árlegur viðburður.
          Dómsmálaráðherra hefur skipað nefnd um útihátíðir, sem m.a. er ætlað að fjalla um þann vanda sem birst hefur í ofbeldi, þ.m.t. kynferðislegu ofbeldi gagnvart ungum stúlkum á útihátíðum.
          Dómsmálaráðherra hefur á erlendum og innlendum vettvangi lagt áherslu á baráttuna gegn svokallaðri „hvítri þrælasölu“, en slík verslun með fólk er víðtæk um heim allan og viðfangsefni skipulagðra glæpahringja. Á fundum norrænna og baltneskra dómsmálaráðherra hefur þetta efni verið á dagskrá og er unnið að því að samstilla aðgerðir lögregluyfirvalda á þessu sviði.

3. Félagsmálaráðuneytið.
3.1. Jafnréttisumsögn.
     Félagsmálaráðherra mun á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar sjá til þess að komið verði á reglubundnu mati á stjórnarfrumvörpum með tilliti til jafnréttis kynjanna. Jafnréttisumsögn verði gerð og látin fylgja stjórnarfrumvörpum við framlagningu þeirra á Alþingi.
    Myndaður hefur verið samstarfshópur tengiliða þriggja ráðuneyta, félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Nefndin mun í upphafi kynna sér starf sambærilegra nefnda á Norðurlöndunum. Í framhaldi af því verður unnið að tilraunaverkefni þar sem gefnar verða jafnréttisumsagnir um nokkur stjórnarfrumvörp frá félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

3.2. Fræðsla um jafnréttismál.
     Skipulögð verða námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og aðra stjórnendur um markmið og leiðir í jafnréttisstarfinu, þeirra hlutverk ásamt kynningu á framkvæmdaáætluninni. Námskeiðin verði haldin á fyrri hluta ársins 1998. Námskeiðin verði haldin með svipuðum hætti og nýafstaðin námskeið um stjórnsýslu- og upplýsingalög.
    Jafnréttisráð og Skrifstofa jafnréttismála lögðu áherslu á að auka fræðslu um jafnréttismál og þá sérstaklega til yfirmanna bæði í opinberum stofnunum og á almenna vinnumarkaðnum. Markviss fræðsla um jafnrétti og hvernig ólík staða kynjanna getur haft ófyrirséð áhrif er mikilvæg forsenda samþættingar. Þegar hefur verið haldið námskeið fyrir stjórnendur í félagsmálaráðuneytinu og undirstofnunum þess. Þá hélt Skrifstofa jafnréttismála í samvinnu við jafnréttisnefnd Háskóla Íslands skipulagt námskeið fyrir embættismenn Háskólans, bæði á sviði kennslu- og fræðimennsku sem og á rekstrarsviði. Inntak námskeiðsins var hugtakið samþætting og nýjar leiðir í jafnréttismálum þar sem m.a. var lögð áhersla á fræðslu til þeirra sem hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku.

3.3. Aukin virkni kvenna í stjórnmálum.
     Skipuð verður nefnd sem falið verður að kanna hvernig megi auka virkni kvenna og þátttöku þeirra í almennu stjórnmálastarfi.
    Á grundvelli þessarar greinar framkvæmdaáætlunarinnar var 2. júní 1998 samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Tillagan var svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka, skrifstofu jafnréttismála og Kvenréttindafélags Íslands til að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að bæta hlut kvenna í stjórnmálum. Nefndin starfi a.m.k. í fimm ár, taki til starfa hið fyrsta og hafi heimild til að ráða sér verkefnisstjóra, sem starfi á skrifstofu jafnréttismála. Nefndin annist fræðslu, auglýsingaherferðir og útgáfu og hafi allt að 5 millj. kr. til ráðstöfunar í þessu skyni árið 1998 og síðan fjárveitingar samkvæmt fjárlögum.“ Flutningsmenn tillögunnar voru sex konur og sex karlar. Fyrsti flutningsmaður var Siv Friðleifsdóttir.
    Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum hefur staðið fyrir margvíslegum verkefnum, svo sem fræðslu, auglýsingaherferðum og útgáfu. Ráðist var í auglýsingaherferð og fræðslu um mikilvægi þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum, fyrir kosningar til Alþingis 1999 og fyrir sveitarstjórnarkosningar 2002. Hlutur kvenna á Alþingi var 25% fyrir kosningar 1999, en jókst í 35%. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum miðað við kosningar 1998 er 28,2%. Nefndin hefur staðið fyrir margs konar námskeiðum fyrir stjórnmálakonur og konur sem áhuga hafa á stjórnmálaþátttöku. Um 200 konur hafa sótt námskeiðin sem hafa verið haldin í Reykjavík, á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og í Borgarnesi. Þá hefur nefndin skipulagt fjölmarga opna fundi og ráðstefnur með stjórnmálakonum á höfuðborgarsvæðinu og um landið, auk þess tekið þátt í ýmsum ráðstefnum. Efnt var til málþings og pallborðsumræðna í tengslum við þing Norðurlandaráðs árið 2000 í samstarfi við Íslandsdeild Norðurlandaráðs með yfirskriftinni: Hverju hefur þátttaka kvenna í stjórnmálum breytt? Þá hefur nefndin fundað með ritstjórnum og forsvarsmönnum stærstu fjölmiðla landsins sem og fjölmiðlum á landsbyggðinni og hvatt til þess að fjallað sé um konur í stjórnmálum ekki síður en karla. Nefndin stóð að rannsókn á hlut kvenna í fjölmiðlum og lét m.a. gefa út bæklinginn Konur og fjölmiðlar sem hefur tvíþætt hlutverk: Að hvetja konur til þess að verða sýnilegri í fjölmiðlum og að hvetja fjölmiðlafólk til þess að gefa konum og körlum sem jöfnust tækifæri í fjölmiðlum. Nefndin lét búa til lyklakippur sem hefur verið dreift á fundum nefndarinnar og bera þær tvenns konar áletrun, fleiri konur á Alþingi og fleiri konur í sveitarstjórnir.

3.4. Tilraunaverkefni um starfsmat.
     Félagsmálaráðuneytið hefur í samvinnu við starfshóp um starfsmat unnið að tilraunaverkefni um starfsmat. Tilgangurinn er að nota kynhlutlaust starfsmatskerfi til að raða störfum innbyrðis á hverjum vinnustað með það að markmiði að skoða hvort mat á störfum mismuni eftir kynferði. Niðurstaðna úr tilraunaverkefninu er að vænta vorið 1998. Félagsmálaráðuneytið mun standa að kynningu á niðurstöðum verkefnisins og kynna sérstaklega þá starfsmatsaðferð sem þar hefur verið þróuð, m.a. með útgáfu kynningarbæklings.
    Verkefninu var hrint úr vör seinni hluta árs 1996. Ráðinn var starfsmaður í fullt starf til að vinna að matinu auk þess sem Skrifstofa jafnréttismála og Reykjavíkurborg lögðu til starfsmenn. Það var ákveðið að reyna starfsmat sænska HAC-kerfisins á nokkrum stofnunum ríkis og Reykjavíkurborgar. Sænskur sérfræðingur, Anita Harriman, veitti starfshópnum og verkefnisstjóra sérfræðiaðstoð. Af hálfu ríkisins urðu fyrir valinu Ríkisspítalar og af hálfu Reykjavíkurborgar voru það Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Hitaveita Reykjavíkur. Þessir vinnustaðir urðu fyrir valinu þar sem þar eru dæmigerð kvenna- og karlastörf áberandi. Hér er einungis um opinberar stofnanir að ræða þar sem verkefnið náði ekki til almenna vinnumarkaðarins og er ekki vitað til þess að sambærilegt verkefni hafi verið unnið þar. Framkvæmd tilraunaverkefnisins tók mun lengri tíma en gert var ráð fyrir enda afar viðamikið. Því lauk seinni hluta árs 1999 með útgáfu félagsmálaráðuneytisins á skýrslu verkefnisstjóra, Starfsmat gegn kynbundnum launamun.
    Í skýrslunni er gerð grein fyrir framkvæmd verkefnisins, lærdómum sem má draga af því, helstu niðurstöðum og ályktunum. Þá eru þar leiðbeiningar um framkvæmd starfsmats og helstu kröfur sem starfsmatskerfi þurfa að uppfylla.

3.5. Fræðsla fyrir trúnaðarmenn.
     Gefin verður út handbók fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum og henni fylgt eftir með fræðslu. Í handbókinni verða í aðgengilegu formi allar upplýsingar er varða þætti sem geta haft áhrif á mismunandi stöðu kvenna og karla á vinnustaðnum. Sérstök áhersla verður lögð á að upplýsa og fræða um þau atriði eða þær aðstæður sem geta haft áhrif á laun og launamyndun og hvaða leiðir starfsmönnum, trúnaðarmönnum og stéttarfélögum eru færar til að hafa áhrif þar á.
    Hjá Jafnréttisstofu er nú unnið að handbók fyrir trúnaðarmenn og er stefnt að því að hún verði aðgengileg á vefsíðu stofunnar árið 2002.

3.6. Konur í hlutastörfum.
     Á gildistíma áætlunarinnar verður unnin könnun á vægi hlutastarfa og starfa sem unnin eru án fastráðningar eða eru unnin utan hefðbundinna vinnustaða hjá konum annars vegar og hins vegar hjá körlum. Upplýsingarnar verða flokkaðar eftir atvinnugreinum og starfsgreinum. Athugað verður hvort framkvæmd könnunarinnar geti verið samvinnuverkefni Vinnumálastofnunar og Hagstofu Íslands.
    Verkefnið hefur ekki verið unnið en Vinnumálastofnun hefur verið falið að standa að gerð þessarar könnunar.

3.7. Skipting fjár úr sjóðum vegna atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.
     Félagsmálaráðuneytið, í samvinnu við forsætisráðuneyti (Byggðastofnun), fjármálaráðuneyti og viðskipta- og iðnaðarráðuneyti, mun kanna hvernig styrkir til einstaklinga úr opinberum sjóðum sem eru eyrnamerktir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni hafa skipst á milli kvenna og karla.
    Verkefnið hefur verið framsent iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sem hefur falið Byggðastofnun að annast það.

3.8. Lánatryggingasjóður kvenna.
     Sjóðurinn er verkefni sem unnið er að og er samvinnuverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Markmið sjóðsins og áherslur hans ásamt því hvernig hann hefur nýst konum verði könnuð reglulega.
    Sjóðurinn, og starfsemi vegna hans, hefur verið rekinn sem samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Sjóðstjórnin skilaði nýverið lokaskýrslu um framkvæmd verkefnisins og þar kemur fram að árangur af því hefur verið afar góður. Ákveðið hefur verið að halda rekstri sjóðsins áfram með sama hætti og verið hefur.

3.9. Konur og atvinnuleysi.
     Á árunum 1998 og 1999 verður unnin skýrsla, byggð á þeim upplýsingum sem til eru eða sem niðurstaða könnunar ef upplýsingar skortir, um aðstæður „atvinnulausra kvenna“. Í kjölfar þessa verða lagðar fram tillögur að aðgerðum eða átaki til að bæta aðstæður þeirra og möguleika til að fá vinnu. Verkefnislýsing verður unnin í samvinnu við Vinnumálastofnun.
    Á árinu 1998 ritaði félagsmálaráðherra forsvarsmönnum Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Starfsmannafélagsins Sóknar bréf þar sem farið var fram á að unnið yrði að úttekt á orsökum atvinnuleysis og lögð til úrræði vegna atvinnuleysis meðal kvenna í viðkomandi félögum. Vinnumálastofnun var ætlað að vera tengiliður í þeirri vinnu. Vinnuhópur frá þessum aðilum auk fulltrúa svæðisráðs Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins skilaði skýrslu í apríl 1999.
    Niðurstöður vinnuhópsins voru þær að í stórum dráttum mætti skipta hópi atvinnulausra kvenna í tvennt:
     a.      konur á barneignaaldri sem hafa fleiri en tvö börn á framfæri, hafa litla menntun og hafa verið frá vinnumarkaði lengur en sex mánuði,
     b.      konur komnar yfir miðjan aldur sem væru búnar að vera frá vinnumarkaði lengur en í sex mánuði.
    Vandamálið var greint út frá efnahagslegum, félagslegum og sálfræðilegum þáttum. Hópurinn gerði tillögur um úrræði og hefur nokkrum þeirra þegar verið hrint í framkvæmd. Skýrsluna er hægt að nálgast á heimasíðu Vinnumálastofnunar, www.vinnumalastofnun.is.

3.10. Konur og atvinnuleit.
     Samkvæmt nýsamþykktum lögum um vinnumiðlun er áhersla lögð á virka vinnumiðlun, m.a. með ákvæðum um vinnuleitaráætlanir. Vinnumálastofnun verður falið að þróa aðferðir sem sérstaklega henta atvinnulausum konum við að fá vinnu. Kanna skal hvort ástæða sé til að koma á fót sérstökum stuðningsúrræðum fyrir konur sem hafa fengið vinnu eftir langvarandi atvinnuleysi.
    Í mars 1999 var haldin í Reykjavík norræn jafnréttisráðstefna undir nafninu Ligestilling i de Nordiske Arbejdsformidlingers service. Norræna ráðherranefndin veitti styrk til verkefnisins en ráðstefnan var haldin á vegum Vinnumálastofnunar. Þátttakendur voru samtals um 70, alls staðar að af Norðurlöndum og voru þeir flestir starfsmenn vinnumálastofnana og vinnumiðlana landanna.
    Tilgangurinn með ráðstefnunni var að ræða hvernig fella mætti jafnrétti í ráðgjöf og vinnumiðlun inn í þjónustu vinnumiðlunarstofnananna. Ekkert Norðurlandanna hafði vitneskju eða reynslu af rannsóknum á þessu sviði og því var þetta algjörlega óplægður akur. Fagfólkið var meðvitað um að gjá virtist vera á milli vinnumiðlara annars vegar og ráðgjafa hins vegar hvað varðar viðhorf og atferli í þeirra starfi. Heimur atvinnumiðlaranna virtist frekar tengjast karllægum viðmiðunum en ráðgjafanna kvenlægum.
    Hlutverk þátttakenda á ráðstefnunni var m.a. að greina hvernig kynjaviðhorfið kemur inn í ráðgjöf, atvinnutilboð, úrræðalausnir o.fl. og hvernig gera mætti kynið sem hlutlausast bæði í ráðgjöf og atvinnumiðlun. Einnig hvernig koma mætti á samskiptum við atvinnulífið í þeim tilgangi að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað og hvernig vekja mætti athygli atvinnulífsins á kostum kynblandaðra vinnustaða. Þá fengust þátttakendur einnig við þá spurningu hvort ná mætti fram markmiðunum með samþættingu (mainstreaming) eða öðrum aðferðum. Niðurstöður ráðstefnunnar hafa verið nýttar í starfsemi Vinnumálastofnunar.
    Skýrslan Ligestilling i arbejdsformidlingen sem unnin var í framhaldi þessarar ráðstefnu af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar er í skýrsluröð TemaNord 1999:568.

3.11. Ný stétt vinnukvenna (aðfluttar konur).
     Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við Starfsmannafélagið Sókn kanna aðstöðu, réttindi og skyldur aðfluttra kvenna sem koma hingað til lands til að vinna inni á einkaheimilum. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að gera tillögur til úrbóta þar sem er talin þörf.
    Verkefnið eins og því er lýst í framkvæmdaáætlun hefur ekki verið unnið en nefnd sem kannar aðstæður erlends vinnuafls hér á landi er að störfum í félagsmálaráðuneytinu. Þar verða m.a. væntanlega skoðaðar aðstæður kvenna sem koma til landsins til að vinna inni á einkaheimilum. Þá liggur fyrir á Alþingi frumvarp til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Enn fremur er fyrirhuguð frekari samvinna við Eflingu vegna erlends vinnukrafts á Íslandi og þar verður m.a. fjallað um stöðu þessara kvenna.

3.12. Tengsl atvinnulífs og fjölskyldulífs.
     Unnin verður rannsókn á viðhorfum og væntingum karla og kvenna til atvinnulífsins og samspils þess við fjölskyldulífið. Sérstaklega verður hugað að möguleikum og takmörkunum hvors kyns til að sameina þessa þætti. Sérstakur hluti rannsóknarinnar mun beinast að atvinnurekendum og viðhorfum þeirra, þar með talið hvort mismikið tillit sé tekið til þarfa karla og kvenna til að sinna fjölskyldum sínum.
    Með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði hafa komið fram breytt viðhorf til hlutverka og verkaskiptingar kvenna og karla í samfélaginu. Forsenda þess að karlar og konur geti tekið jafnan þátt í launavinnu sem og öðrum störfum utan heimilis er að þau skipti með sér umönnun barna sinna. Reynslan hefur enn fremur verið sú að margir feður hafa farið á mis við samvistir við börn sín en í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1995 kom fram að velflestir karlkyns þátttakenda töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla á að samræma atvinnuþátttöku og uppeldi barna. Af þessum ástæðum hafa komið fram auknar kröfur um að móður og föður verði sköpuð sömu tækifæri til að sinna bæði fjölskyldu og starfi utan heimilis. Einn af þeim þáttum sem stuðla að samspili fjölskyldu- og atvinnulífs er sá að konur og karlar eigi jafnan rétt til fæðingarorlofs auk þess að eiga kost á sérstöku foreldraorlofi frá vinnu til að vera með börnum sínum.
    Lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, er meðal annars ætlað að auðvelda útivinnandi foreldrum, bæði mæðrum og feðrum, að samræma þær skyldur sem þeim eru lagðar á herðar í starfi og fjölskyldulífi.
    Lögð er á það áhersla að samningssambandi vinnuveitanda og starfsmanns verði viðhaldið á orlofstímanum hvort sem foreldri er í fæðingar- eða foreldraorlofi. Þá er tekið fram í lögunum að þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi fæðingar- eða foreldraorlofs skuli haldast óbreytt til loka orlofsins. Sömuleiðis er starfsmanni tryggður sá réttur að hverfa aftur til starfa að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Enn fremur er í lögunum sérstakt ákvæði sem verndar starfsmenn er vilja njóta réttar síns gegn uppsögnum af hálfu vinnuveitanda nema gildar ástæður séu fyrir uppsögninni. Skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.
    Í lögunum er kveðið á um réttindi foreldra utan vinnumarkaðar eða í námi til fæðingarstyrks. Tekið er fram að bæði móðir og faðir sem eru í þessari stöðu eigi rétt á fæðingarstyrk en ekki einungis móðir líkt og var í þágildandi kerfi.
    Helstu nýmæli laganna um fæðingar- og foreldraorlof eru eftirfarandi:
     1.      Konur og karlar eiga jafnan rétt til fæðingarorlofs, hvort heldur er á almennum eða opinberum vinnumarkaði. Þá er kveðið á um að foreldrar sem eru starfsmenn eða starfa sjálfstætt eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Markmiðið með þessari lögbundnu skiptingu milli foreldra er meðal annars að stuðla að jafnri foreldraábyrgð sem og jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Er um tímabundna aðgerð að ræða sem einkum er gerð til að bæta hag karla þar sem reynslan hefur sýnt að í eldra kerfi höfðu konur aðallega nýtt réttinn til fæðingarorlofs þrátt fyrir að foreldrar hafi átt þann rétt sameiginlegan. Er það því mat höfunda laganna að lögbinda hafi þurft fyrirkomulag í samskiptum foreldra með þessum hætti meðan réttur feðra til fæðingarorlofs festist í sessi. Þegar reynsla er komin á jafna foreldraábyrgð og lögin hafa að fullu öðlast gildi verður tekið til endurskoðunar hvort lögbinda þurfi áfram skiptingu orlofsins milli foreldra. Verði endurskoðun gerð í ljósi athugana á hvernig foreldrar hafi skipt hinum sameiginlega rétti milli sín og feður nýtt sjálfstæðan rétt sinn.
     2.      Breytt var greiðslufyrirkomulagi til foreldra á vinnumarkaði og stofnaður var sérstakur Fæðingarorlofssjóður sem annast greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi. Ákveðin skilyrði eru fyrir réttinum til greiðslu í fæðingarorlofi en mánaðarleg greiðsla í fæðingarorlofi nemur 80% af meðaltali heildarlauna eða reiknaðs endurgjalds. Miðað er við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Greiðsla í fæðingarorlofi foreldris sem er í 25–49% starfi er nú aldrei lægri en 60.195 kr. og greiðsla til foreldris í 50–100% starfi er nú aldrei lægri en sem nemur 83.426 kr. á mánuði.
     3.      Verulegur sveigjanleiki er í töku fæðingarorlofs. Þannig eiga foreldrar þess kost að taka fæðingarorlof í einu lagi á sama hátt og samkvæmt fyrri lögum. Kjósi foreldrar heldur að taka það á fleiri tímabilum eða í hlutastarfi er það heimilt að fengnu samþykki vinnuveitanda. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en viku í senn. Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns skulu þeir reyna að ná samkomulagi um aðra tilhögun. Takist það ekki á starfsmaður jafnan rétt á að taka fæðingarorlof sitt í einu lagi. Réttur til fæðingarorlofs fellur sjálfkrafa niður er barnið nær 18 mánaða aldri.
     4.      Sérstakt ákvæði er um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Ef sýnt þykir að öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar á þann hátt sem nauðsynlegt þykir. Enn fremur er þungaðri konu tryggður réttur til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í leyfi frá störfum ef breytingum á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum.
     5.      Foreldri á vinnumarkaði á rétt til 13 vikna foreldraorlofs til að annast barn sitt. Réttur til foreldraorlofs er nýmæli hér á landi. Um er að ræða sjálfstæðan rétt hvors foreldris og er hann ekki framseljanlegur. Orlofið skal tekið áður en barnið nær átta ára aldri. Þá er starfsmanni heimilt að taka foreldraorlofið í einu lagi eða haga því með öðrum hætti með samkomulagi við vinnuveitanda.
    Í kjölfar laganna um fæðingar- og foreldraorlof verður gerð úttekt á framkvæmd laganna, m.a. með tilliti til áhrifa þeirra á samspil atvinnu- og fjölskyldulífs. Félagsmálaráðuneytið mun á árinu leggja frekari drög að því hvernig standa megi að framangreindri rannsókn. Ísland hefur sótt um að leiða Evrópuverkefni á þessu sviði, og hefur Jafnréttisstofu verið falið að stýra því.

3.13. Starfsmenntun í atvinnulífinu.
     Félagsmálaráðuneyti mun beita sér fyrir því að þeim aðilum er fara með starfsmenntunarmál í hefðbundnum umönnunarstörfum kvenna verði gert kleift að kanna sérstaklega hvaða áhrif breyttar og strangari kröfur til menntunar og til framhaldsmenntunar geta haft á möguleika kvenna á starfstengdri menntun á þessum sviðum.
    Vegna mikilla breytinga á möguleikum til fjarnáms hafa opnast leiðir fyrir konur sem sinna hefðbundnum umönnunarstörfum til frekari starfsmenntunar. Þá hafa á undanförnum árum umtalsverðar fjárhæðir verið veittar til starfsmenntunar á vegum starfsmenntasjóðs og hafa þar konur notið góðs af til jafns við karla.

3.14. Konur sem flóttamenn.
     Kannað verður hvort við mat á skilgreiningum á rétti flóttamanna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi sé nægjanlega tryggt að ofsóknir og ofbeldi, sem konur sæta vegna kynferðis síns og beitt er markvisst til að neyða fólk af tilteknu þjóðerni, menningu eða trúarbrögðum til að flýja heimili sín, sé metið sem fullgild forsenda leyfisveitingar.
    Einungis einn einstaklingur, karlmaður, hefur fengið hæli sem flóttamaður á Íslandi ef undan er skilið fólk sem hingað kemur í hópi svokallaðra kvótaflóttamanna. Útlendingaeftirlitið metur skilyrði þess að veitt sé hæli á grundvelli flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1951. Upplýst hefur verið að ekki hafi reynt á hvort þær aðstæður sem lýst er í verkefninu yrðu gildar forsendur þess að flóttamannahæli yrði veitt samkvæmt gildandi löggjöf. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um útlendinga þar sem rýmkuð eru skilyrði dvalarleyfis með tilliti til mannúðarsjónarmiða og þar er einnig að finna rýmri ákvæði um vernd flóttamanna af mannúðarástæðum. Líklegt má þykja að ofsóknir og ofbeldi sem konur sæta vegna kynferðis síns eins og þeim er lýst í þessu verkefni yrðu nægjanleg skilyrði til veitingar hælis flóttamanns. Nánari skilyrði og leyfisveiting heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Útlendingaeftirlitið.

3.15. Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni.
     Félagsmálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að unnin verði áætlun eða lagt fram frumvarp til laga sem hafi það að markmiði að útrýma kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og í skólum.
    Í lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er ákvæði um kynferðislega áreitni þar sem áreitnin er skilgreind og ákveðnar skyldur lagðar á herðar atvinnurekendum og skólastjórnendum til að fyrirbyggja að kynferðisleg áreitni viðgangist á vinnustaðnum eða í skólanum og taka á henni ef grunur leikur á að hún hafi átt sér stað.

3.16. Jafnréttisráðgjafi.
     Þegar tilraunaverkefninu um starf jafnréttisráðgjafa lýkur verður unnið mat á árangri verkefnisins og í framhaldi af því lagðar fram tillögur um framhald.
    Ákvörðun var tekin um að standa að tilraunaverkefni til þriggja ára og vegna atvinnuástandsins á Norðurlandi vestra var að ráði Byggðastofnunar ákveðið að ráða þangað jafnréttisráðgjafa. Gerður var samstarfssamningur við Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra um að ráðgjafinn yrði starfsmaður félagsins. Þá var skipaður ráðgjafarhópur með fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti, Iðnþróunarfélaginu, Skrifstofu jafnréttismála og Jafnréttisráðs ráðgjafanum til ráðuneytis og til að tryggja góð tengsl þessara aðila.
    Jafnréttisráðgjafinn hefur á tilraunatímabilinu staðið fyrir ýmsum verkefnum í samræmi við markmið verkefnisins, ýmist einn eða í samvinnu við aðra. Að hans frumkvæði var í samvinnu við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri unnin könnun á stöðu kvenna í dreifbýli á Norðurlandi vestra. Niðurstöður hennar voru kynntar með ítarlegri skýrslu, sem og með ráðstefnunni: Hvað um konur í dreifbýli? – aðstæður og atvinna, sem haldin var í Varmahlíð í Skagafirði í nóvember 1999.
    Þar kemur m.a. fram að eignarhald kvenna á búrekstri er takmarkað, þær eru einungis skráðar fyrir 25% allra búanna og þar af eru bæði hjónin skráð fyrir rekstrinum í 60% tilvika.
    Einnig kom fram að konur taka sérlega lítinn þátt í stefnumótun innan landbúnaðarins, en einungis 3% þeirra sinna trúnaðarstörfum þar eða sitja í stjórnum eða nefndum. Er það sáralítil breyting frá árinu 1989, en þá var könnun gerð á þátttökunni á landsvísu. Af könnuninni mátti ráða að fjórar konur af hverjum fimm væru hvorki virkar í stefnumótunarstarfi innan landbúnaðarins né sæktu þær fundi þar sem slík mál væru til umræðu. Athygli Bændasamtakanna hefur verið vakin á þessum niðurstöðum og óskað eftir að þau finni leiðir til að hvetja konur til þátttöku svo þau megi nýta mannauð sinn sem best.
    Þá hefur jafnréttisráðgjafinn í samvinnu við Farskóla Norðurlands vestra og Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra, í samráði við Menntasmiðju kvenna á Akureyri, staðið fyrir tilraunaverkefni um rekstur menntasmiðju í Skagafirði, fyrst á Löngumýri vorið 1999, en vorið 2000 var hún á Sauðárkróki. Hér er um að ræða námskeið fyrir konur án atvinnu. Í samvinnu við m.a. Iðntæknistofnun var haldið námskeiðið Á traustum grunni – frá hugmynd til framkvæmda fyrir konur með viðskiptahugmyndir eða starfandi fyrirtæki á Norðurlandi vestra. Vorið 2000 stóð ráðgjafinn fyrir átaksverkefninu Gæðahandverk í Húnaþingi, handverk sem arðbær atvinnugrein. Verkefnið byggðist upp á fræðslu, vöruþróun og markaðssetningu handverks og miðaði að því að auka atvinnutækifæri kvenna í dreifbýli. Þá hefur jafnréttisráðgjafinn unnið með fulltrúum landbúnaðarráðuneytis, sveitarstjórnum, atvinnuráðgjöfum og ýmsum öðrum heimamönnum að framgangi markmiða verkefnisins. Nánari upplýsingar um tilraunaverkefnið má m.a. finna á heimasíðu Iðnþróunarfélags Norðurlands vestra, www.inv.is, og í áfangaskýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar: Mat á starfi jafnréttisráðgjafa Norðurlands vestra.
    Tilraunaverkefnið á Norðurlandi vestra hefur nú verið framlengt í samstarfi við Byggðastofnun sem tekur þátt í atvinnuverkefninu að hálfu á móti félagsmálaráðuneyti. Samstarfsverkefnið gildir til ársins 2005 og munu atvinnu- og jafnréttisráðgjafar verða á Blönduósi í Norðvesturkjördæmi, í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi.

3.17. Könnun á meðferðarúrræðum fyrir fíkniefnaneytendur.
     Skrifstofu jafnréttismála verður falið að kanna hvort meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur, sem eru kostuð af opinberu fé, henti jafnt konum sem körlum.
    Félagsmálaráðuneytið fól Skrifstofu jafnréttismála að gera ofangreinda könnun, sem er lokið og hefur ráðuneytið fengið skýrslu með niðurstöðum og tillögum. Meginniðurstöður könnunarinnar eru að margt bendi til þess að mál séu hérlendis í þokkalegri farvegi en víða erlendis. Íslenskar konur virðist t.d. sækja sér meðferð í svipuðu hlutfalli við áfengisneyslu sína og virðist hafa mun meiri stuðning fjölskyldna sinna en konur erlendis þegar þær fara í meðferð. Í flestum úrræðum var tekið tillit til kynferðis viðkomandi og þannig gætt kynjasjónarmiða. Félagsmálaráðuneytið hefur sent áfengis- og vímuvarnaráði úttektina og þær tillögur sem þar koma fram.

3.18. Könnun á skilyrðum fjölskyldna.
     Félagsmálaráðuneytið mun standa fyrir könnun á áhrifum aðgerða opinberra aðila til styrktar fjölskyldunni. Sérstaklega verði skoðað hvort og þá hvernig skilyrði fjölskyldunnar í samfélaginu hafi batnað vegna slíkra aðgerða.
    Félagsmálaráðuneyti mun á árinu leggja drög að því hvernig að könnuninni verði staðið.

3.19. Meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
     Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og karlanefnd jafnréttisráðs beita sér fyrir því að boðið verði upp á meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Eitt af meginverkefnum karlanefndar Jafnréttisráðs var að fjalla um ofbeldi karla. Nefndin stóð fyrir fræðslu um málið og gaf m.a. út kennslubækling fyrir framhaldsskóla. Vinna við verkefnið sem hér um ræðir hófst árið 1998. Um var að ræða tveggja ára tilraun þar sem körlum sem vilja losna úr viðjum ofbeldisbeitingar var boðin aðstoð sálfræðinga, fyrst í einkaviðtölum og síðan í hópmeðferð. Daglegur rekstur verkefnisins var í höndum Rauða kross Íslands sem lagði einnig til fé ásamt ráðuneytum félagsmála og heilbrigðis- og tryggingamála. Þriggja manna matsnefnd fylgdist með verkefninu og matsgerð hennar liggur nú fyrir. Í stuttu máli er það mat nefndarinnar að tilraunin hafi gengið vel og leggur hún til að tilraunin verði framlengd í þrjú ár með nokkrum breytingum. Tillagan er nú til skoðunar hjá þeim sem að verkinu komu.

Önnur verkefni.
          Á undanförnum árum hefur félagsmálaráðuneytið, eðli máls samkvæmt, staðið að ýmsum verkefnum í jafnréttismálum sem ekki eru tíunduð í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Málaflokkurinn er í örri þróun og sífellt gætir aukinnar virkni í jafnréttismálum víða í þjóðfélaginu og hefur ráðuneytið því einnig verið kallað til ýmissa verkefna á sviði jafnréttismála. Rétt er að geta hér sérstaklega nýrra jafnréttislaga sem tóku gildi í maí 2000 og laga um fæðingar- og foreldraorlof sem tóku gildi á sama tíma en sá hluti laganna er fjallar um fæðingarorlof tók gildi 1. janúar 2001.
          Skrifstofa jafnréttismála tók þátt í samstarfsverkefni jafnréttisnefndar Bandalags háskólamanna og jafnréttisráðgjafans í Reykjavík um útgáfu ritsins Launajafnrétti í framkvæmd í dreifstýrðu launakerfi. Tildrög samstarfsins voru áhyggjur margra félagsmanna um að dreifstýrt launakerfi háskólamanna mundi leiða til vaxandi launamisréttis.
          Félagsmálaráðuneyti hefur ásamt menntamálaráðuneyti komið á sértæku, starfstengdu íslenskunámskeiði fyrir erlenda starfsmenn í öldrunarþjónustu í samvinnu við öldrunarstofnanir. Haustið 2000 var veittur úr starfsmenntasjóði tæplega 2 millj. kr. styrkur til Námsflokka Reykjavíkur til að sjá um verkefnið sem fékk heitið Starfsnámskeið fyrir erlent starfsfólk í öldrunarþjónustu. Á móti gaf menntamálaráðuneytið vilyrði fyrir að reiða fram hliðstæða upphæð þannig að alls var styrkurinn tæpar 4 millj. kr. Fyrsta námskeiðið fór af stað sem tilraunaverkefni á Landspítala, Landakoti, í október 2000 og stóð það í sjö vikur. Alls tóku 28 starfsmenn í öldrunarþjónustu þátt í námskeiðinu. Ráðgert er af hálfu ráðuneytisins að nýta reynsluna af þessu verkefni til frekara námskeiðahalds fyrir starfsmenn í umönnunarstörfum.

4. Fjármálaráðuneytið.
4.1. Feðraorlof.
     Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi reglur fjármálaráðherra um sjálfstætt fæðingarorlof feðra í þjónustu ríkisins. Í reglunum er feðrum í þjónustu ríkisins tryggður réttur til launa í tvær vikur vegna fæðingar barns. Í byrjun árs 1999 verður reynslan af þessari nýbreytni skoðuð með viðtölum og spurningum til þeirra sem þessa orlofs nutu.
    Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, voru samþykkt 22. maí árið 2000 en hlutinn um fæðingarorlof kom til framkvæmda 1. janúar 2001. Með nýjum lögum var réttur feðra til töku fæðingarorlofs rýmkaður þannig að feður öðluðust í byrjun árs 2001 sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í einn mánuð en gátu skipt þremur mánuðum til viðbótar með móður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og nemur mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns 80% af meðatali heildarlauna.
    Samkvæmt upplýsingum úr launakerfi ríkisins tóku alls 479 ríkisstarfsmenn fæðingarorlof árið 2001. Skipting milli kynja var þannig að alls tók 331 kona fæðingarorlof og 148 karlar. Hlutfall karla hefur aukist um nærri helming milli áranna 2000 og 2001. Þess ber að geta að ekki liggja fyrir upplýsingar um ríkisstarfsmenn á sjúkrahúsum utan Reykjavíkur og frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Starfsmönnum fjármálaráðuneytisins sem nýttu sér réttindi um feðraorlof ber saman um að reynsla af því hafi verið góð og höfðu nokkrir feður á orði að með þessu væri stigið skref í þá átt að gera vinnustaðinn fjölskylduvænni.

4.2. Úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna.
     Með meiri hluta kjarasamninga, sem fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs gerði við stéttarfélög innan BSRB og BHM og gilda eiga til ársins 2000, fylgdi yfirlýsing þar sem áréttuð er stefna ríkisins að jafna þann launamun karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra nema á grundvelli kyns og bent á að með nýju launakerfi gefist tækifæri til þess. Til þess að meta áhrif nýs launakerfis á launamun karla og kvenna skuldbatt fjármálaráðuneytið sig til þess að gera sérstaka úttekt á þeim áhrifum á samningstímabilinu. Stefnt er að gerð slíkrar úttektar á árinu 1999.
    Samkvæmt samkomulagi fjármálaráðherra og samtaka opinberra starfsmanna er starfandi kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Eðlilegast er að sú nefnd leggi á ráðin um hvernig kynbundnum upplýsingum um laun og launaþróun verður best aflað og úr þeim unnið. Í fréttabréfi kjararannsóknarnefndar eru birtar launaupplýsingar eftir kyni. Fréttabréfið er gefið út tvisvar á ári. Til stóð að kjararannsóknarnefnd gerði ítarlegri úttekt á launum karla og kvenna en nú tíðkast, vegna nýs launakerfis, en ekki hefur orðið af því. Þó ber að nefna að fyrir liggja tillögur um breytt fyrirkomulag á greiningu og meðferð launaupplýsinga hjá kjararannsóknarnefnd þar sem auðveldara verður að greina launaupplýsingar og aðrar tölfræðilegar upplýsingar. Vonir standa til að hið nýja fyrirkomulag stuðli að því að þessi greining verði markvissari. Auk þess hafa Reykjavíkurborg og fulltrúar fjármálaráðuneytis unnið saman að úttekt á launabili kynjanna með hliðsjón af nýju launakerfi og hafa leitað til Félagsvísindastofnunar um framkvæmd hennar.

4.3. Reglur um starfslýsingar.
     Í bæklingi fjármálaráðherra um jafnréttismál frá febrúar 1996 er hvatning til vinnuveitenda um að „starfslýsingar séu skilmerkilegar og frammistöðumat sé lagt til grundvallar starfsframa“. Einnig segir í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að setja skuli starfsmanni erindisbréf ef hann óskar þess. Með tilliti til þess og nýrra kjarasamninga mun fjármálaráðuneytið minna á þetta ákvæði þar sem því verður við komið.
    Við gerð kjarasamninga ríkisstarfsmanna á árunum 2000 og 2001 var áhersla lögð á starfsþróunarmál í stað niðurnjörvaðra starfslýsinga. Með hverjum samningi er að finna bókun þess efnis. Með starfsþróun er áhersla lögð á ábyrgð, hæfni og tækifæri starfsmanns til þess að auka þekkingu sína og hæfni í starfi eða til annarra starfa. Fulltrúar stéttarfélaga, trúnaðarmenn og fulltrúar vinnuveitenda eru að undirbúa fundi og fræðslu fyrir starfsfólk og vinnuveitendur um nauðsyn starfsþróunar og kosti hennar. Í tilteknum stofnanasamningum sem stofnanir hafa gert við stéttarfélög er að finna ákvæði um frammistöðumat og starfslýsingar.

4.4. Fræðsla til yfirmanna stofnana ráðuneytisins.
     Fjármálaráðuneytið mun skipuleggja fræðslu um jafnréttismál fyrir yfirmenn stofnana þess í anda þeirra hugmynda sem komu fram í jafnréttisriti ráðuneytisins frá febrúar 1996 og í samræmi við niðurstöðu jafnréttiskönnunar sem gerð var í janúar 1998 á vegum starfshóps fjármálaráðuneytisins um jafnréttismál.
    Árlega heldur fjármálaráðuneytið fundi með forstöðumönnum stofnana fjármálaráðuneytisins. Þar er aðaláherslan lögð á fjárhagsáætlanir og fjárlagagerð. Auk þess eru þó ávallt önnur mál til umræðu. Sem dæmi má nefna að á árinu fór fram umfjöllun um nýtt fyrirkomulag fæðingar- og foreldraorlofs. Fjármálaráðuneytið hefur það að markmiði að á þessum fundum séu ætíð málefni til umfjöllunar sem varða jafnréttismál á einhvern hátt.
    Auk þess ber að nefna að fréttabréf forstöðumanna er gefið út u.þ.b. þrisvar sinnum á ári. Fréttabréfið er hugsað sem vettvangur upplýsinga til forstöðumanna um ýmis stjórnunarleg mál, þar á meðal jafnréttismál.
    Fjármálaráðuneytið er að skipuleggja fundaherferð fyrir forstöðumenn ríkisstofnana í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti þar sem fræðsla um jafnréttismál verður á meðal annarra mála.

4.5. Hlutur kvenna í starfi ráðuneytisins aukinn.
     Fjöldi kvenna í nefndum á vegum fjármálaráðuneytisins hefur aukist á undanförnum árum í samræmi við stefnu ráðherra þar að lútandi. Áfram verður unnið að fjölgun kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og hugað sérstaklega að kynjaskiptingu við val á yfirmönnum.
    Reynt hefur verið eftir bestu getu að gæta jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og á það einnig við um kynjaskiptingu við val á yfirmönnum. Ekki hefur verið skipað eða ráðið í stöðu yfirmanns hjá ráðuneytinu á síðasta ári. Hvað öðrum starfsmannaráðningum ráðuneytisins líður hafa fleiri konur verið ráðnar í stöður sérfræðinga undanfarin ár en áður.
    Þótt fjöldi kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins hafi aukist nokkuð á undanförnum árum má enn gera betur. Eins og eftirfarandi tölur sýna glögglega vantar talsvert upp á að kvenkyns starfsmenn ráðuneytisins gegni nefndarstörfum í sama mæli og þeir sem karlkyns eru. Hlutfall kynja í nefndum á vegum fjármálaráðuneytisins er þannig að um 77% eru karlmenn og 23% konur og hefur fjöldi kvenna þannig aukist örlítið frá árinu 2000, en þá hafði hlutfall karla í nefndum aukist frá árinu 1998. Hins vegar er ekki um að ræða launamun milli karla og kvenna í nefndum þar sem þóknananefnd metur fjölda þóknanaeininga óháð menntun, reynslu eða kyni.

4.6. Endurskoðun á eyðublöðum.
     Fjármálaráðuneytið mun sjá til þess að öll eyðublöð frá stofnunum sem heyra undir fjármálaráðuneytið og þar sem einstaklingar þurfa að gefa upplýsingar um tekjur og eignir verði endurskoðuð og metin út frá jafnréttissjónarmiðum.
    Samkvæmt svari fjármálaráðuneytisins sama efnis á árinu 2001 var breyting gerð á eyðublöðum framtala árið 1998. Fjármálaráðuneyti hefur ekki farið í frekari endurskoðun á eyðublöðum. Flest eyðublöð fjármálaráðuneytisins snúa að einstaklingum og reynir því síður á jafnréttisjónarmiðið. Ráðuneytið hefur ekki fengið ábendingar eða kvartanir vegna þessa en kemur til með að bregðast við ef svo fer.

4.7. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Í starfsmannahandbók Stjórnarráðsins sem kom út í mars 2002 er að finna jafnréttisáætlun fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneytanna. Ráðuneytið mun styðjast við þessa jafnréttisáætlun í starfi sínu. Til stendur að skipa þriggja manna jafnréttisnefnd innan fjármálaráðuneytisins þar sem jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins verður meðal fulltrúa.
    Árlega boðar ráðuneytið starfsfólk á fund til þess að ræða verkefni ársins og starfsmannamál. Ráðuneytið ráðgerir að upplýsa starfsfólk um jafnréttismál á slíkum fundum eftir því sem við verður komið.

Önnur verkefni.
    Auk þessa hefur ráðuneytið tilnefnt fulltrúa í tilraunaverkefni sem snýst um að gefin sé umsögn um lagafrumvörp með hliðsjón af því hvaða áhrif lög hafa á jafnrétti kynjanna. Þetta er samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta (sjá verkefnalið 3.1 hjá félagsmálaráðuneyti).

5. Hagstofa Íslands.
5.1. Öll tölfræði kyngreind.
     Samkvæmt verkefni II.1 verður ráðuneytum og ríkisstofnunum sent umburðarbréf þar sem kynnt verður sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að í öllum tölfræðilegum samantektum og skýrslum skuli upplýsingar greindar eftir kyni. Hagstofa Íslands mun vinna með stofnunum ríkisins að framkvæmd þessa verkefnis en skrifstofa jafnréttismála kanna framgang þess þegar liðin eru tvö ár frá gildistöku áætlunarinnar.
    Í október 2000 fól forsætisráðuneytið Hagstofu Íslands að vekja athygli ráðuneyta og ríkisstofnana á þessu ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar ásamt ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem kveðið er á um sama efni (sjá fyrsta liðinn undir verkefnum ríkisstjórnarinnar). Í 1. gr. laganna segir að markmið þeirra sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þessum markmiðum skal m.a. ná með því að greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni, eins og segir í f-lið 1. gr. Þá segir í 21. gr. sömu laga að í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum skuli greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því.
    Í nóvember 2000 sendi Hagstofa Íslands út um 300 bréf til ráðuneyta og ríkisstofnana þar sem framangreind ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar frá árinu 1998 og hinna nýsettu laga um jafna stöðu og rétt kynjanna voru kynnt og boðið liðsinni við verkefnið.
    Hagstofan hefur lengi haft það að leiðarljósi við gagnasöfnun, úrvinnslu og birtingu upplýsinga að unnt sé að greina niðurstöður fyrir bæði kynin hvort í sínu lagi. Staða þessara mála er allgóð þar sem heita má að í öllum þeim tilvikum þar sem unnt hefur verið að safna upplýsingum um hvort kynið um sig, séu þess háttar upplýsingar tiltækar. Þannig má t.d. nefna að allar mannfjöldaupplýsingar Hagstofunnar eru til fyrir bæði kynin. Sama máli gegnir um flestar vinnumarkaðsupplýsingar hennar, og upplýsingar um skólamál og kosningar. Mikill hluti upplýsinga sem varða einstaklinga og Hagstofan fær frá öðrum, svo sem af sviði almannatrygginga, heilbrigðismála og félagsmála, eru tiltækar fyrir bæði kynin. Á hinn bóginn er söfnun upplýsinga eftir kynjum enn ófullnægjandi á nokkrum sviðum en unnið er að úrbótum, m.a. vegna ábendinga Hagstofunnar. Við þetta má bæta að þar sem unnið er að nýrri eða endurbættri hagskýrslugerð, sem varðar einstaklinga, er ævinlega gert ráð fyrir söfnun og úrvinnslu gagna eftir kynjum þar sem það á við. Dæmi um þetta eru nýjar launakannanir kjararannsóknarnefnda og Hagstofunnar og ný skýrslugerð á grundvelli staðgreiðslugagna. Í grundvallaratriðum má segja að þegar um er að ræða gögn úr stjórnvaldsskrám, svo sem þjóðskrá, skattskrám og skrám almannatrygginga, sé skipting milli kynja bæði gerleg og tiltæk. Skiptingu verður oft ekki komið við, t.d. við talningar á notendum þjónustu, ýmist vegna þess að skipting milli kynja krefst meira álags en unnt er að leggja á þá sem upplýsingarnar veita, eða talningar byggjast á seldum aðgöngumiðum, notendaleyfum eða álíka gögnum. Dæmi um hið fyrrnefnda er gagnasöfnun Hagstofunnar frá seljendum gistiþjónustu um gistinætur og gestafjölda eftir þjóðerni gesta. Í þessu tilviki er ekki talið fært að óska eftir talningu eftir kyni, hvorki hér á landi né í öðrum löndum. Dæmi um hið síðarnefnda eru tölur um þátttöku í menningaratburðum eða aðsókn að kvikmyndahúsum sem byggjast á upplýsingum um fjölda seldra aðgöngumiða. Upplýsingar um þátttöku eftir kynjum verður í slíkum tilvikum að afla á annan hátt, t.d. með úrtaksathugunum.

5.2. Eignarréttur á fasteignum.
     Hagstofa Íslands mun vinna úttekt á hverjir eiga eða eru skráðir fyrir fasteignum hér á landi.
    Það hefur tíðkast um langt skeið að eignir hjóna væru skráðar á karlmanninn eingöngu. Talsverð breyting hefur orðið á þessu á allra síðustu árum hvað snertir íbúðarhúsnæði í þá átt að algengara hefur orðið að bæði hjónin séu skráðir eigendur. Hagstofan og Fasteignamat ríkisins stefna að því að gera tilraunaúttekt á eigandaskráningu íbúðarhúsnæðis sem næði til eigenda skráningar síðustu 5–10 ár. Þess er hins vegar ekki að vænta að raunverulegur grundvöllur verði fyrir athugun sem þessa fyrr en unnt hefur verið að koma verkefninu Landskrá fasteigna það langt áleiðis að þinglýstar fasteignir hafi verið tölvuskráðar og þinglýsingaskrár séu orðnar hluti af landskránni.
    Í ársbyrjun 2002 er enn ekki grundvöllur fyrir hendi til að gera þá úttekt sem stefnt er að í þessum lið þar sem ekki er lokið tölvuskráningu þinglýstra fasteigna í Landsskrá fasteigna.

5.3. Vinnutími – hluti af reglubundinni upplýsingasöfnun er varðar laun.
     Hagstofa Íslands og fjármálaráðuneytið munu endurskipuleggja alla gagnasöfnun á þeirra vegum sem varðar vinnuframlag og laun fólks þannig að raunverulegur vinnutími komi þar skýrt fram. Þessu verki verður lokið innan tveggja ára. Ríkisstjórnin mun jafnframt beita sér fyrir því við aðila vinnumarkaðarins að sambærileg endurskipulagning fari fram hjá þeim.
    Hagstofa Íslands hefur gert vinnumarkaðskannanir tvisvar á ári allt frá árinu 1991. Með þeim hefur verið safnað mjög viðamiklum gögnum um atvinnu, atvinnuþátttöku, atvinnuleysi, störf og vinnutíma eftir kyni, búsetu, menntun o.fl. Þessar kannanir eru mjög stórar í sniðum og raunar með allra stærstu úrtaksathugunum sem gerðar eru hér á landi. Úrtakið er 4.400 manns, svarhlutfall hefur verið mjög hátt, um 90%, og notagildið mjög mikið, ekki síst þar sem niðurstöður eru að fullu sambærilegar við hliðstæðar kannanir í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Unnið er að tveimur verkefnum til að auka og bæta upplýsingar um vinnumarkaðinn hér á landi, ekki síst um vinnutíma og launabreytingar. Annars vegar er um að ræða úrvinnslu á gögnum um staðgreiðsluskil en hins vegar breytingar á launakönnunum.
    Í ársbyrjun 1998 hófu skattyfirvöld að beiðni Hagstofu Íslands að krefja fyrirtæki um meiri upplýsingar við staðgreiðsluskil en áður. Meðal annars er nú óskað eftir upplýsingum um atvinnugrein hvers launamanns, starfsflokk og starfshlutfall auk upplýsinga um greidd laun á tímabilinu. Unnið er að skipulagningu og undirbúningi yfirferðar og úrvinnslu þessara gagna sem munu veita mun meiri vitneskju en hingað til um ársverk, laun og vinnumagn eftir atvinnugreinum.
    Undanfarin missiri hefur verið unnið að umfangsmiklu samstarfsverkefni kjararannsóknarnefndar, kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna og Hagstofunnar um gagngerar breytingar á launakönnunum og launaskýrslum. Á almenna vinnumarkaðinum byggist þetta verkefni á því að fyrirtæki, sem lenda í úrtaki launakönnunar, fallist á að beita samræmdum skilgreiningum og láta rafrænt í té upplýsingar úr launabókhaldi, aðallega um laun, vinnutíma og launatengd gjöld. Ríki og sveitarfélög munu láta í té sambærilegar upplýsingar og á svipaðan hátt úr launabókhaldi sínu. Kjararannsóknarnefnd birti árið 1999 fyrstu niðurstöður kannana sem byggðust á nýja gagnasafninu og Hagstofan mun á næstu missirum nýta þessi gögn í vaxandi mæli til hagskýrslugerðar.
    Áfram er unnið að því að auka og bæta upplýsingar um vinnumarkaðinn. Fyrstu niðurstöður úrvinnslu úr staðgreiðslugögnum voru birtar í desember 2001. Þær sýna fjölda starfandi eftir kyni og ársfjórðungum 1998–2001, sbr. fréttatilkynningu Hagstofu nr. 103/2001.

5.4. Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
     Hagstofa Íslands mun áfram gefa reglulega út tölfræðihandbók þar sem fram kemur yfirlit yfir stöðu kvenna og karla. Útgáfan sem er í handhægu og aðgengilegu formi hentar vel almenningi. Upplýsingarnar verða bæði á íslensku og ensku og stefnt að útgáfu þriðja hvert ár.
    Árin 1994 og 1997 gaf Hagstofa Íslands út ritið Konur og karlar sem er tölfræðihandbók í handhægu og aðgengilegu formi þar sem fram kemur yfirlit yfir stöðu kynjanna. Unnið er að útgáfu nýrrar tölfræðihandbókar um konur og karla sem ráðgert er að komi út á árinu 2002. Jafnframt verður unnið að því að koma víðtækari hagtölum af þessu tagi á vef Hagstofunnar.

5.5. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Lengi hafa konur verið í talsverðum meiri hluta starfsmanna á Hagstofunni. Tölur frá desember 2001 sýna að á heildina litið eru 79 stöðugildi við Hagstofuna og eru konur í 48 stöðugildum (61%) og karlar í 31 (39%). Í þeim störfum þar sem ekki er krafist háskólamenntunar eru karlar í miklum minnihluta, en það á einkum við almenn skrifstofustörf í þjóðskrá. Öðru máli gegnir um störf sem krefjast háskólamenntunar en í rúmlega helmingi stöðugilda Hagstofunnar eru háskólamenntaðir starfsmenn, karlar eru í 28 þeirra og konur í 13. Reynsla undanfarinna ára er sú að vel gangi að ráða bæði karla og konur í störf sérfræðinga en fáir karlar sæki um almenn skrifstofustörf á Hagstofu.
    Árið 2001 var starfsmaður tilnefndur sem jafnréttisfulltrúi Hagstofunnar í samræmi við lög nr. 96/2000. Mun hann fyrst og fremst hafa umsjón með málefnum kynja í hagskýrslugerð.
    Jafnréttisnefnd hefur ekki starfað á Hagstofu Íslands.
    Aðeins ein nefnd starfar á vegum Hagstofu Íslands og eru nefndarmenn alfarið tilnefndir af hálfu aðila utan Hagstofu. Nefndina skipa nú tveir karlar og ein kona.

6. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
6.1. Reglur um rannsóknir á lyfjum.
     Tryggt skuli að farið sé eftir þeim reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um rannsóknir á lyfjum (GCP) þannig að fullt tillit sé tekið til áhrifa þeirra á konur og karla.
    Sömu reglur gilda á Íslandi og á Evrópska efnahagssvæðinu um rannsóknir á lyfjum sem ganga m.a. út frá því að fullt tillit sé tekið til áhrifa þeirra á konur og karla.

6.2. Nefnd um framtíðarstefnu í heilbrigðismálum.
     Heilbrigðisráðherra beini því til nefndar um framtíðarstefnu í heilbrigðismálum að í skýrslu hennar komi fram tillögur um framtíðarstefnumótun í heilbrigðismálum sem taki mið af ólíkum þörfum og mismunandi aðstæðum kynjanna.
    Í ársbyrjun 1998 kom út á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis viðamikil skýrsla er nefnist Heilsufar kvenna. Skýrslan er afrakstur ráðstefnu með sama heiti sem nefnd skipuð af heilbrigðisráðherra boðaði til. Þar komu fram upplýsingar sem eru mikilvægar fyrir stefnumótun á því sviði. Nefndinni var ætlað að vinna að framtíðarstefnu í heilbrigðismálum kvenna og var skýrslan fyrsti áfangi þeirrar vinnu. Nefndin skilaði skýrslu og tillögum til ráðherra í apríl 2000. Ráðherra skipaði í ágúst 2001 verkefnisstjórn í samræmi við tillögur fyrrgreindar nefndar til að forgangsraða verkefnum, gera tillögur um aðgerðir og hrinda þeim í framkvæmd. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 um langtímamarkmið í heilbrigðismálum, sem samþykkt var á Alþingi 20. maí 2001, er áhersla lögð á að draga úr þeim mun sem er á heilbrigðisástandi einstakra þjóðfélagshópa. Í áætluninni er bent á að mikilvægt sé að vinna gegn félagslegum, fjárhagslegum og menningarlegum hindrunum til mennta, þar sem menntunarstig þjóða hefur mikil áhrif á heilsufar íbúa. Þetta atriði snertir sérstaklega aðstæður kvenna og ýmissa þjóðfélagshópa sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni. Jafn aðgangur að menntun og félagslegt öryggi eru taldar helstu forsendur þess að unnt sé að tryggja gott heilbrigðisástand.

6.3. Fæðingarorlof.
     Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um fæðingarorlof þar sem báðum foreldrum verður tryggður réttur til fæðingarorlofs. Unnið verði að því að jafna þann mun sem er á rétti vinnandi fólks eftir því hvar það starfar.
    Tveir fulltrúar heilbrigðismálaráðuneytisins sátu í vinnuhópi félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis sem samdi frumvarp er varð að lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Lögin gera foreldrum fært að semja við vinnuveitendur um tilhögun fæðingarorlofs, þannig að sveigjanleiki er aukinn. Einnig eru greiðslur í fæðingarorlofi hlutfall af launum foreldris. Réttur feðra til töku fæðingarorlofs er aukinn verulega. Í undirbúningi er kynningar- og ráðgjafarátak til að fylgja lögunum eftir, auk rannsóknar á því hvernig þau nýtast fyrir bæði feður og mæður.

6.4. Meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
     Heilbrigðisráðuneytið lítur á ofbeldi gegn konum sem heilbrigðisvandamál og mun í samvinnu við félagsmálaráðuneytið beita sér fyrir því að boðið verði upp á slíka meðferð hér á landi.
    Unnið var samvinnuverkefni með félagsmálaráðuneyti þar sem körlum sem beita konur ofbeldi á heimili var boðin sálfræðimeðferð. Verkefnið var rekið undir heitinu Karlar til ábyrgðar og var daglegur rekstur þess í höndum Rauða krossins. Heilbrigðisráðuneytið styrkti verkefnið fjárhagslega frá árinu 1997. Úttekt hefur verið gerð á verkefninu og innan tíðar verður tekin ákvörðun um næstu skref.

6.5. Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
     Unnið verður að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á. Jafnframt verður gert átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðisstofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við meðgöngu, fæðingu og umönnun barna sinna.
    Haustið 2000 var opnuð ný deild á kvennadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss sem ber nafnið Hreiðrið. Þar er sérstakt herbergi fyrir hverja fæðingu þar sem góð aðstaða er fyrir báða foreldra. Fræðsla og undirbúningur á meðgöngu hefur miðað að því að feður geti tekið þátt í fæðingunni sem fram fer í þessu herbergi svo fremi sem fæðingin gengur eðlilega. Um er að ræða nýjan valkost fyrir konur sem koma til að fæða.

6.6. Endurskoðun á staðaltölum almannatrygginga.
     Staðaltölur almannatrygginga eru sundurgreindar eftir kynjum þar sem það er tæknilega framkvæmanlegt. Unnið verði að því að sundurgreining nái til allra upplýsinga.
    Átak hefur verið gert í því að sundurgreina staðaltölur almannatrygginga eftir kyni í samræmi við ákvæði laga nr. 96/2000 um að greina skuli allar tölfræðiupplýsingar eftir kyni.

6.7. Úttekt á reglum sem varða mat á vistunarþörf.
     Þær reglur sem stuðst er við þegar verið er að meta vistunarþörf ellilífeyrisþega eða öryrkja verða kannaðar með tilliti til þess hvort þær koma mismunandi út hjá konum og körlum.
    Reglur um vistunarmat hafa ekki breyst frá árinu 1990. Um er að ræða mat á vistunarþörf ellilífeyrisþega, en það sem snýr að öryrkjum er á vegum félagsmálaráðuneytis. Ekki hefur verið talin þörf á að endurskoða þessar reglur þar sem þær miðast ekki við kynjaskiptingu heldur þörf fyrir þjónustu.

6.8. Útreikningar örorkumatsbóta með tilliti til jafnréttis kvenna og karla.
     Kannað verði hvort hefðbundið mat á störfum kvenna og karla sé lagt til grundvallar við útreikninga á bótum vegna örorku.
    Örorka er metin óháð kynferði en ákvarðast af sjúkdómi eða fötlun einstaklings. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort um karl eða konu er að ræða við útreikning örorkubóta vegna bótaskylds slyss.

6.9. Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
     Í herferðum sem varða tóbaksvarnir verður unnið eftir þeim sjónarmiðum að forsendur reykinga hjá konum og stúlkum annars vegar og körlum og piltum hins vegar eru mismunandi. Gerð verði tilraun í þá veru að beina áróðri og fræðslu sérstaklega til ungra stúlkna.
    Áfengis- og vímuvarnaráð tók til starfa í ársbyrjun 1999. Tölfræðiupplýsingar þeirra rannsókna sem unnar hafa verið á vegum ráðsins eru kyngreindar. Í niðurstöðum rannsóknanna hefur m.a. komið í ljós að í efstu bekkjum grunnskóla virðast stúlkur vera að draga á drengi í áfengisneyslu. Slíkar niðurstöður gefa tilefni til sérstakra kynbundinna aðgerða í framtíðinni.

6.10. Áhættuhegðun karla.
     Karlar og drengir eru miklum mun fleiri en konur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota vímuefni. Ljóst er að hér er um heilbrigðisvandamál að ræða og mikilvægt er að leita orsaka þess. Því mun ráðuneytið kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir.
    Ljóst er að fleiri karlar en konur fremja sjálfsvíg á Íslandi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur lagt áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða og fræðslu í þessu sambandi. Benda má á að í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 kemur fram sú stefna stjórnvalda að sjálfsvígum fækki um 25% á tímabilinu. Landlæknisembættið hefur einnig unnið töluvert starf á þessu sviði og má nefna nokkur verkefni á vegum embættisins í þessu sambandi:
     1.      Geðrækt, samvinnuverkefni Geðhjálpar, landlæknisembættisins og geðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss, er víðtækt verkefni sem snýr m.a. að uppbyggingu á geðheilsu og forvörnum.
     2.      Starfshópur á vegum Landlæknisembættisins hefur skilað tillögum um forvarnir gegn sjálfsvígum. Í tengslum við vinnu starfshópsins var haldið málþing um efnið og boðið til þess fulltrúum fjölmargra aðila sem tengjast viðfangsefninu. Í framhaldi af málþinginu tóku um 40 manns þátt í hópvinnu til að móta tillögur í málinu. Í samræmi við tillögur hópsins hefur verið ráðinn starfsmaður til að sinna forvörnum á þessu sviði.
     3.      Rannsókn sem Wilhelm Norðfjörð hefur gert á hárri tíðni sjálfsvíga á Austfjörðum 1984–1991 var gefin út á síðasta ári en hún var unnin að beiðni Landlæknisembættisins. Niðurstöðunum er ætlað að auka skilning á viðfangsefninu til að unnt sé að leggja fram tillögur að fyrirbyggjandi aðgerðum á landsvísu.
     4.      Samstarf er hafið við bandaríska vísindamenn um rannsókn þar sem tekin verða viðtöl við aðstandendur þeirra sem framið hafa sjálfsvíg og áhættuþættir sjálfsvíga verða kannaðir.
     5.      Á heimasíðu landlæknisembættisins hefur geðlæknir verið með ítarlega umfjöllun um þunglyndi.
     6.      Landlæknisembættið helgaði janúar 2000 umræðu um þunglyndi og ýtti það undir mikla umræðu um sjúkdóminn í samfélaginu sem m.a. leiddi til stofnunar sjálfshjálparhóps á vegum Geðhjálpar.
     7.      Landlæknir hefur skrifað bréf til allra héraðslækna á landinu þar sem óskað var eftir upplýsingum varðandi skráningu og viðbrögð við sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum.
    Innan heilbrigðisþjónustunnar hefur farið fram umræða um hvort gera eigi sérstakan gagnagrunn um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir. Sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir eru tvær ólíkar sjúkdómsgreiningar og sjúkdómurinn eða sjúkdómsmyndin sem birtist einnig. Við skoðun á þessu máli þarf að taka mið af fjölmörgum þáttum, m.a. ýmsum siðferðilegum sjónarmiðum. Landlæknisembættið hefur skoðað þetta mál en engin ákvörðun hefur verið tekin.
    Á Landspítala – háskólasjúkrahúsi er slysa- og atvikaskráning kyngreind.

6.11. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
     Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.
    Í stjórnum á vegum ráðuneytisins sem kosnar eru af Alþingi, nefndum, stjórnum eða ráðum sem skipuð eru af ráðherra samkvæmt lögum og reglugerðum og nefndum og vinnuhópum sem skipaðir eru til að sinna ákveðnum verkefnum eru 37% konur. Í framangreindum stjórnum, nefndum og ráðum er 61 formaður, þar af 18 konur. Í stjórnum sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva, stjórnum heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa og sjálfseignarstofnana eru 49% konur. Af 39 formönnum eru 13 konur.

6.12. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Í desember 2001 tók jafnréttisnefnd ráðuneytisins til starfa og starfar hún með jafnréttisfulltrúa ráðuneytisins. Nefndin vinnur nú að gerð jafnréttisáætlunar fyrir ráðuneytið og stefnt er að því að áætlunin verði samþykkt vorið 2002. Í ráðuneytinu eru sjö skrifstofustjórar, þar af fjórar konur. Ráðuneytisstjóri er karlmaður en staðgengill ráðuneytisstjóra er kona.
    Ný starfsmannastefna Tryggingastofnunar var samþykkt í október 1999. Þar er lögð áhersla á að stofnunin virði lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þannig að allir njóti hæfileika sinna og hafi jöfn tækifæri og sömu möguleika til áhrifa.
    Jafnréttisnefnd hóf störf hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur (SHR) í janúar 1997, stofnunin tilheyrir nú Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH). Nefndin lagði fram tillögu til að jafna stöðu kynja innan SHR í mars 1998. Jafnréttisáætlun var samþykkt í stjórn SHR í maí 1998, áætlunin hefur sætt endurskoðun og skilaði nefndin tillögum til framkvæmdastjórnar LSH í október 2000.

Önnur verkefni.
    Heilbrigðismálaráðuneytið styrkti rannsókn sem gerð var á ofbeldi á starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu árin 1997–1998 á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga o.fl.

7. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
7.1. Stuðningur við atvinnurekstur kvenna.
     Í janúar 1997 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd til að kanna hvort þörf væri á sérstökum stuðningi við atvinnurekstur kvenna. Nefndin hefur m.a. látið gera könnun á meðal kvenna í rekstri fyrirtækja hérlendis, svo og viðhorfum þeirra til sértækra stuðningsaðgerða við atvinnurekstur kvenna. Þá er í vinnslu yfirlit yfir helstu stuðningsaðgerðir sem í boði eru hérlendis og erlendis. Mun nefndin skila niðurstöðum og tillögum í byrjun næsta árs.
    Framangreind nefnd lauk störfum árið 1998 og birtust niðurstöður hennar og tillögur í skýrslunni Atvinnurekstur kvenna. Í skýrslunni er yfirgripsmikill fróðleikur og upplýsingar um stöðu kvenna í atvinnurekstri, fyrirtækjaumhverfi þeirra og sérstakar stuðningsaðgerðir þeim til handa sem gripið hefur verið til hér á landi.
    Megintillögur nefndarinnar voru annars vegar að komið yrði á fót miðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem hlut kvenna væri sérstakur gaumur gefinn og hins vegar að til kæmi stuðningur stjórnvalda við félag eða „tengslanet“ kvenatvinnurekenda, sem hefði það að meginmarkmiði að efla samvinnu og samstöðu þeirra.
    Í mars 1999 tók Impra, þjónustumiðstöð frumkvöðla og fyrirtækja til starfa innan Iðntæknistofnunar og er þar um að ræða þjónustu fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og frumkvöðla. Þar er lögð sérstök áhersla á að veita konum ráðgjöf sem eru að vinna að ákveðinni viðskiptahugmynd og hyggjast fara út í eigin rekstur. Undanfarin ár hafa verið haldin námskeið, Brautargengi, á vegum Iðntæknistofnunar og eru þau ætluð konum sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd. Þar eru kennd grundvallaratriði við stofnun og rekstur fyrirtækja. Í könnun sem gerð var um árangur Brautargengis kom í ljós að 94% kvennanna telja að þær hafi lært grundvallaratriðin í stofnun fyrirtækis og 90% að þær hafi kynnst grundvallaratriðum tengdum fyrirtækjarekstri. Þá telja 78% þeirra kvenna sem voru þegar í fyrirtækjarekstri þegar námskeiðið var sótt að það hafi nýst þeim mjög vel.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði starfshóp í byrjun janúar 1999 sem hafa skyldi forgöngu um stofnun félags fyrir konur í atvinnurekstri. Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) var stofnað í apríl 1999 og er meginmarkmið félagsins að gera konur í atvinnurekstri sýnilegri og um leið að mynda tengslanet fyrir þær. Félagið nýtur aðstoðar starfsmanns hjá Impru sem sér m.a. um útgáfu fréttabréfa, uppfærslu félagatals, innheimtu félagsgjalda og aðstoð við rekstur félagsins.

7.2. Könnun á stöðu kvenna í iðnaði.
     Samdráttur hefur orðið í einstökum atvinnugreinum iðnaðar undanfarin ár, en á sama tíma hafa aðrar eflst til muna. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun kanna hvort þessar breytingar hafi nýst konum sem skyldi eða hvort samdrátturinn hafi frekar átt sér stað í atvinnugreinum þar sem konur eru í meiri hluta. Ef niðurstaða könnunarinnar er veik staða kvenna mun ráðuneytið fara yfir þá þætti og gera grein fyrir þeim.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti vinnur að könnun á stöðu kvenna í iðnaði. Kyngreindar upplýsingar á sviði iðnaðar eru mikilvæg forsenda þess að unnt sé að byggja á staðreyndum við ákvarðanatöku um stuðningsaðgerðir og á það einnig við um mælingar á árangri þeirra.

7.3. Hlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun sérstaklega taka mið af jafnréttissjónarmiðum við tilnefningu í nefndir og ráð með það að markmiði að auka þar hlut kvenna.
    Ráðuneytið tekur sérstaklega mið af jafnréttissjónarmiðum við tilnefningu í nefndir og ráð með það að markmiði að auka þar hlut kvenna. Einnig er vísað í 20. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð og stjórnir.

7.4. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og upplýsingasamfélagið.
     Iðnaðar- og viðskiptaráðherra var falið af ríkisstjórninni 6. október 1995 að skipa nefnd til að vinna að stefnumótun fyrir ríkisstjórnina um íslenska upplýsingasamfélagið næsta áratug. Nefndin skilaði áliti sínu og níu starfshópar er með henni unnu ári síðar. Eitt af meginmarkmiðunum er að nýta möguleika upplýsingatækninnar til að vinna gegn óæskilegum félagslegum áhrifum, svo sem auknu misrétti, og sjá til þess að jafnrétti sé tryggt. Í þessu felst m.a. sá ásetningur að efla fjarmenntun og atvinnuþátttöku fólks með fjarvinnslu sem mun auka jafnrétti kynjanna óháð búsetu.
    Eins og fram kemur var eitt af meginmarkmiðum framangreindrar nefndar að nýta möguleika upplýsingatækninnar til að vinna gegn misrétti og tryggja jafnrétti, óháð kyni, aldri og búsetu. Í þessu felst m.a. að auka fjarmenntun og atvinnuþátttöku fólks með fjarvinnslu og hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því. Þá er mjög mikilvægt að bæði kynin komi að mótun og uppbyggingu upplýsingatækniiðnaðar. Ráðuneytið ásamt fleirum tekur þátt í átaksverkefni Háskóla Íslands og Jafnréttisstofu, Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna. Með þátttöku sinni vill ráðuneytið hvetja fleiri stúlkur til náms í greinum upplýsingatækninnar. Markmið átaksins er annars vegar að undirbúa kvennemendur sem ljúka námi frá Háskóla Íslands undir forustustörf á framtíðarstarfsvettvangi þeirra og hins vegar að jafna kynjaskiptingu nemenda í deildum Háskólans. Með þessu vill Háskóli Íslands, með stuðningi samstarfsaðila að verkefninu, leggja sitt af mörkum til að jafna hlutdeild kynjanna í þekkingar- og upplýsingasamfélagi nýrrar aldar. Víða við háskóla erlendis hefur verið ráðist í áþekk verkefni til að tryggja þátttöku kvenna á þeirri upplýsingatækniöld sem framundan er og auka fjölbreytileika vísindanna með jafnara námsvali kynjanna.

7.5. Fjölgun kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja.
    Með því að auka veg kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja stefnir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að því að auka sjálfstæði kvenna og um leið jafnrétti kynjanna. Einnig munu kraftar kvenna til eflingar atvinnulífinu nýtast betur.

    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur beitt sér fyrir rannsóknum á þætti kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja. Með tilkomu lektors í kynjafræðum og prófessors í frumkvöðla- og nýsköpunarfræðum við Háskóla Íslands opnast möguleikar á samstarfi um rannsóknir, svo sem um þátt kvenna í stjórnun fyrirtækja. Einnig verða meistaranámsnemendur hvattir til að velja verkefni á þessu sviði.

7.6. Stuðningur Nýsköpunarsjóðs við atvinnuuppbyggingu kvenna.
    Hinn 1. janúar 1998 tók Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins til starfa. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs. Mun sjóðurinn gegna hlutverki sínu með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar, einkum með hlutafjárþátttöku en einnig með því að veita lán og ábyrgðir í þessu skyni. Einnig mun sjóðurinn styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Þátttaka kvenna í sköpun nýrra atvinnutækifæra á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja er sívaxandi sem er einnig reyndin í Bandaríkjunum, en á vegum SBA (Small Business Administration) hafa verkefni sem auka atvinnuþátttöku kvenna gefist vel. Nýsköpunarsjóði er m.a. ætlað að vera smáum og meðalstórum fyrirtækjum öflugur bakhjarl. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti telur sérstaklega mikilvægt að auka veg kvenna í atvinnurekstri og telur að sjóðurinn muni með almennri starfsemi sinni styðja atvinnusköpun kvenna og öflun nýrra atvinnutækifæra.

    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, ásamt Íslandsbanka, Morgunblaðinu og Deloitte & Touche, ýttu úr vör sérstöku átaki til stuðnings atvinnurekstri kvenna árið 2000 með verkefninu Auður í krafti kvenna. Háskólinn í Reykjavík annast framkvæmd verkefnisins og er markmiðið að það skili mælanlegum árangri sem felist í fjölgun og vexti fyrirtækja í eigu kvenna. Hlutverk verkefnisins er að nýta enn betur þann auð sem í konum býr með því að auka þátttöku þeirra í atvinnusköpun og stuðla þannig að auknum hagvexti á Íslandi. Boðið er upp á ýmis námskeið fyrir konur um rekstur og stjórnun fyrirtækja. Má þar nefna svonefnda frumkvöðlaauði, fjármálaauði, leiðtogaauði og framtíðarauði. Um 800 konur hafa nú þegar sótt námskeiðin.

7.7. Átak til atvinnusköpunar.
     Í mars 1996 gerðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður með sér samstarfssamning um „Átak til atvinnusköpunar“. Markmið átaksins er m.a. stuðningur við lítil og meðalstór fyrirtæki, svo og einstaklinga á sviði atvinnu- og nýsköpunar. Þann tíma sem stjórn átaksins hefur starfað hafa margvísleg verkefni verið studd sem hafa ekki síður nýst konum en körlum. Má þar nefna átak til eflingar textíliðnaði, stuðning við framleiðslu sjávar- og jurtasmyrsla og markaðssetningu íslenskrar fatahönnunar erlendis en í þessum iðngreinum hafa konur verið í fararbroddi.
    Eftir að Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður hættu starfsemi tók iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti alfarið við rekstri Átaks til atvinnusköpunar. Er það stefna ráðuneytisins að sameina stuðningsaðgerðir sínar við atvinnulífið undir yfirstjórn átaksins sem styður verkefni jafnt frá konum sem körlum. Þær forsendur sem gengið er út frá við veitingu styrkja úr verkefninu eru einkum tvenns konar: Annars vegar eru veittir styrkir til verkefna sem eru á forstigi nýsköpunar og falla ekki undir aðra aðila sem veita sambærilega fyrirgreiðslu. Hins vegar er um að ræða sérstök skilgreind átaksverkefni ráðuneytisins sem ætlað er að hafa víðtæk áhrif en eru ekki bundin við afmarkað verk, einstakling eða fyrirtæki. Þá hefur Átak til atvinnusköpunar sérstaklega aðstoðað fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref í alþjóðlegu samstarfi með því að styrkja þau til að sækja svokölluð fyrirtækjastefnumót sem haldin eru reglulega víðs vegar um Evrópu.

7.8. Þátttaka iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í samvinnuverkefnum.
     a. Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun ásamt félagsmálaráðuneyti, forsætisráðuneyti (Byggðastofnun) og fjármálaráðuneyti kanna hvernig styrkir úr opinberum sjóðum sem nýtast eiga atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni hafa skipst á milli kvenna og karla.
    Félagsmálaráðuneyti framsendi verkefnið til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sem fól Byggðastofnun umsjón þess, sjá jafnframt lið 3.7.

     b. Lánatryggingasjóður kvenna. Lánatryggingasjóður kvenna er samvinnuverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Tilgangur með stofnun sjóðsins er að styðja konur til þátttöku og nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á lánum sem veitt eru umsækjendum um lánatryggingu úr Lánatryggingasjóði kvenna.
    Sjá skýrslu um verkefni félagsmálaráðuneytis, lið 3.8.

7.9. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
     Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.
    Ráðuneytið hefur samþykkt jafnréttisáætlun og árið 2001 tók jafnréttisnefnd til starfa. Nefndin heyrir undir ráðuneytisstjóra og er skipuð til tveggja ára í senn. Í henni eiga sæti tveir fulltrúar starfsmanna, kjörnir af starfsmönnum, og tveir fulltrúar ráðuneytanna, tilnefndir af ráðuneytisstjóra. Jafnréttisnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnrétti kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. Þá skal hún fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og kanna réttmæti ábendinga um að ekki sé farið að lögum eða reglum um jafnrétti í ráðuneytinu. Skal nefndin vera ráðgefandi fyrir yfirstjórn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í málefnum er varða jafnrétti.
    Ráðuneytið mun beita sér fyrir því eftir sem áður að stofnanir sem undir það heyra geri einnig slíkar jafnréttisáætlanir.

Önnur verkefni.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti kemur að samstarfsverkefni með félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti er varðar jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa. Nefnd sem var falið málið var skipuð af félagsmálaráðherra í lok ársins 2001.

8. Landbúnaðarráðuneyti.
8.1. Félagsleg og efnahagsleg réttindi kvenna í bændastétt.
     Könnuð verða ýmis ákvæði um eignaraðild í landbúnaði og búrekstri og réttindi og skyldur henni samfara. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf með það að markmiði að jafna hlut kvenna og karla. Þessu verkefni verði lokið fyrir árið 2000.
    Eitt af verkefnunum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar er könnun á eignarhaldi í landbúnaði og búrekstri og réttindum og skyldum því samfara. Undirbúningur er hafinn og unnið er í samráði við jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands, sem skipuð var í árslok 2001 og í eiga sæti þrír fulltrúar úr bændastétt, en forgangsverkefni þessarar nefndar verður að kynna konum og körlum félagsleg og efnahagsleg réttindi þeirra innan stéttarinnar. Það sama á við um lið 8.3 hér á eftir. Það skal þó tekið fram að jafnrétti er ávallt haft að leiðarljósi í þeirri vinnu sem fram fer á vegum ráðuneytisins.

8.2. Fræðsla fyrir konur og karla í bændastétt.
     Unnið verður upplýsinga- og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt. Þar verður gerð grein fyrir félagskerfi landbúnaðarins, starfi hagsmunasamtaka bænda og félagslegum réttindum sem varða konur og karla í bændastétt, ásamt upplýsingum um jafnrétti kvenna og karla almennt.
    Þetta málefni hefur jafnréttisnefnd Bændasamtakanna ákveðið að gera að forgangsverkefni eins og lið 8.1 hér að framan, í samráði við jafnréttisfulltrúa landbúnaðarráðuneytisins.

8.3. Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.
     Landbúnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir því að fullt tillit verði tekið til stöðu kvenna sem búa í dreifbýli og kvenna í bændastétt í öllum þeim sértæku verkefnum sem unnin verða samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og varða stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og möguleika þeirra til eigin atvinnurekstrar og endurmenntunar.
    Endurskoðuð hafa verið ýmis ákvæði laga, sem talin eru fela í sér mismunun kynjanna og leitast hefur verið við að bæta atvinnumál kvenna á landsbyggðinni. Jafnrétti kynjanna er ávallt haft til hliðsjónar við samningu lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla á vegum ráðuneytisins.

8.4. Fjölgun kvenna í stjórnum og ráðum sem varða landbúnaðarmál.
    Sérstakt átak verður gert til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð landbúnaðarins á sér stað og ákvarðanir eru teknar. Þetta átak tekur til bæði opinberra nefnda og ráða á vegum ríkisvaldsins og félags- og hagsmunasamtaka bændastéttarinnar.

    Hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins er 12,5%, og hefur ekki breyst frá árinu 2000. Í ráðuneytinu eru 18,5 stöðugildi, þar af 8 stöðugildi karla og 10,5 kvenna. Aukningin er hálft stöðugildi á milli ára og eingöngu konur verið ráðnar í þær stöður, sem losnað hafa.

8.5. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

    Fræðsla til starfsmanna er stöðug. Gert er ráð fyrir að sérstök kynning fari fram á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, haustið 2002, en þá mun jafnréttisfulltrúi kynna jafnréttisstefnuna fyrir forstöðumönnum stofnana landbúnaðarráðuneytisins. Í samtölum við forstöðumennina hafa undirtektir verið mjög góðar og málefninu sýndur mikill áhugi.
    Aðeins ein stofnun hefur mótað jafnréttisstefnu, en það er Garðyrkjuskóli ríkisins.

9. Menntamálaráðuneyti.
9.1. Námskrárgerð.
     Í nýjum aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla verður sérstaklega tekið mið af lögum um grunnskóla og stefnu menntamálaráðuneytis í jafnréttismálum en þar er kveðið á um að nemendum sé ekki mismunað eftir kyni, búsetu, stétt, uppruna, trú eða fötlun. Þetta þýðir að allir skuli fá sem jöfnust tækifæri til menntunar. Þetta þýðir ekki endilega sömu úrræði fyrir alla, heldur sambærileg og jafngild tækifæri.
    Ný aðalnámskrá grunnskóla tók gildi í júní 1999 og skal að fullu vera komin til framkvæmdar þremur árum eftir gildistöku. Ný aðalnámskrá framhaldsskóla tók einnig gildi 1. júní 1999 og skal að fullu vera komin til framkvæmda fimm árum eftir gildistöku.
    Í stefnuriti ráðuneytisins, Enn betri skóli, frá 1998 sem lagt er til grundvallar við endurskoðun aðalnámskráa endurspeglast meginjafnréttisstefna ráðuneytisins. Þar kemur meðal annars eftirfarandi fram: Jafnrétti til náms er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Við gerð námskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla voru tillögur nefndar sem ráðherra skipaði til þess að fjalla um jafnréttismál og gera tillögur um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar og stefnumörkum varðandi jafnréttisfræðslu í skólum í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa einnig hafðar til hliðsjónar.
    Fræðsla um jafnrétti kynjanna er samofin markmiðum í nýjum aðalnámskrám bæði grunn- og framhaldsskóla, almennum hlutum þeirra og í hverri námskrá fyrir sig. Í nýrri aðalnámskrá beggja skólastiga er sérstök námskrá í lífsleikni, sem er ný námsgrein. Í námskrá í lífsleikni er að finna jafnréttismiðuð markmið í áfangamarkmiðum og þrepamarkmiðum fyrir einstaka aldurshópa. Við úthlutun úr Endurmenntunarsjóði grunnskólakennara 1999 og 2000 var sérstök áhersla lögð á endurmenntunarnámskeið í tengslum við nýjar áherslur í aðalnámskrá, þar á meðal námskrá í lífsleikni. Einnig lagði Þróunarsjóður grunnskóla við úthlutun styrkja árin 2000 og 2001 sérstaka áherslu á að styrkja verkefni í lífsleikni og þróun lífsleikniáætlana í skólum.
    Í aðalnámskrá framhaldsskóla er vísað til þess að skólum beri að gæta jafnréttis nemenda til náms og að verkefni skuli höfða jafnt til pilta og stúlkna. Sérstök áhersla er lögð á jafnréttismarkmið í áfangalýsingum félagsfræði, uppeldisfræði og sálfræði, auk lífsleikninnar.

9.2. Vinna að jafnrétti og gegn hefðbundinni verkaskiptingu.
     Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að skólar vinni ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna. Mikilvægt er að menntakerfið ýti ekki undir launamun kynjanna, til dæmis með því að hvetja konur sérstaklega til að stunda ákveðið nám en karla til að stunda annars konar nám.
    Ráðuneytið hefur gefið út stefnuritið Menntun – menning – forsenda framtíðar. Í ritinu er m.a. yfirlýsing um að skólar skuli vinna ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, vinna gegn því að nemendur festist um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og styrkja sjálfsmat nemenda. Við gerð aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla var farið eftir þessari skýru stefnu varðandi stöðu kynja í skólum, svo og í nefndum á vegum ráðuneytisins og við styrkveitingar ráðuneytisins til ýmiss konar rannsókna á þessu sviði.
    Ráðuneytið gaf út bæklinginn Ábyrgð – frelsi – jafnrétti – val. Nemendur og foreldrar geta kynnt sér þá kosti sem blasa við nemendum að loknu grunnskólanámi. Í ritinu er aukið valfrelsi undirstrikað og sú ábyrgð sem því fylgir og í nýrri skólastefnu ættu allir að geta fundið nám við sitt hæfi.
    Menntamálaráðuneytið var meðal samráðsaðila vegna ráðstefnu um konur og upplýsingatækni sem haldin var 14. apríl 2000 á vegum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið sem heyrir undir forsætisráðuneytið.
    Verkefnið Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna er sameiginlegt jafnréttisverkefni jafnréttisnefndar Háskóla Íslands og Jafnréttisstofu, m.a. með stuðningi fjögurra ráðuneyta, þar á meðal menntamálaráðuneytis. Tveggja ára átak samningsaðila, á árunum 2000–2002, til að auka hlut kvenna í forustustörfum á íslenskum vinnumarkaði og til að jafna kynjaskiptingu í náms- og starfsvali karla og kvenna er í stórum dráttum tvíþætt:
     1.      Hvatningarátak meðal stúlkna í síðasta bekk grunnskóla og í framhaldsskólum til að velja raungreinabrautir sinna skóla.
     2.      Átak meðal kvenna í háskólum til að efla þær til aukinnar þátttöku í stjórnun, rekstri fyrirtækja og störfum í æðstu stöðum stjórnsýslunnar.

9.3. Jafnréttiskennsla í skólum verði efld.
    Jafnréttisfræðsla í skólum verði efld og lögð verði sérstök áhersla á styrkleika beggja kynja, skyldur beggja og réttindi. Sérstök áhersla verði lögð á fjölskyldufræðslu og náms- og starfsfræðslu bæði í grunn- og framhaldsskólum. Nauðsynleg forsenda jafnréttiskennslu er að jafnréttisfræðsla standi kennurum og skólastjórnendum til boða.

    Ráðuneytið átti aðild að norrænu samstarfsverkefni, Nord-lilia, um jafna stöðu kynja í starfsháttum og inntaki kennaramenntunar á árunum 1993–1997. Verkefnið var á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og byggðist á þróunarverkefnum í hverju landi. Í tengslum við verkefnið voru gefin út tvö rit, nokkur fréttabréf og fjöldi skýrsla um þróunarverkefnin.
    Í námskrá í lífsleikni fyrir grunnskóla er að finna jafnréttismiðuð markmið í áfangamarkmiðum og þrepamarkmiðum fyrir einstaka aldurshópa. Í námskrá framhaldsskóla í lífsleikni eru einnig sett fram jafnréttismiðuð markmið.

9.4. Rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar.
    Menntamálaráðuneytið mun láta fara fram rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu þar sem sérstaklega verður hugað að líðan hvors kyns fyrir sig í skólum. Á grundvelli slíkra athugana verði kannað hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi í ákveðnum greinum eða þáttum tryggi betri námsárangur og líðan bæði stúlkna og drengja.

    Menntamálaráðherra skipaði nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skyldi beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna.
    Niðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk '97 á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála hafa verið kynntar. Rannsóknin gefur vísbendingar um umtalsverðan kynjamun í grunnskólum bæði hvað varðar árangur og líðan.
    Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála annaðist rannsókn á umfangi og eðli eineltis í íslenskum grunnskólum. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilvægar vísbendingar um samskipti og líðan stúlkna og pilta í grunnskólum. Verið er að vinna að því að allir skólar komi á aðgerðaáætlun gegn einelti.
    Ráðuneytið á aðild að rannsókn sem gerð er til að kanna hagi og líðan ungs fólks í framhaldsskólum, þar sem meðal annars er kannaður munur á líðan og árangri pilta og stúlkna.
    Sett var á laggirnar nefnd um sértæka lesröskun og lesskimun í grunnskóla en þar er einnig hugað að kynjamun. Skýrsla þeirrar nefndar lá fyrir árið 1998. Haustið 2000 voru gefin út lesskimunarpróf fyrir grunnskóla.
    Menntamálaráðuneytið hefur styrkt rannsókn um nám og viðhorf ungs fólks í framhaldsskóla. Rannsóknin nær til eins árgangs og gefur miklar upplýsingar um menntun ungs fólks að grunnskóla loknum. Í rannsókninni eru m.a. könnuð tengsl sálfræðiþátta og námsárangurs við náms- og starfsval einstaklinga og hvort munur er á tengslum þessara þátta við náms- og starfsval karla og kvenna.

9.5. Íþróttauppeldi stúlkna verði eflt.
    Brottfall stúlkna úr íþróttum er mikið. Í ljósi þess mun menntamálaráðuneytið stuðla að því að íþróttauppeldi stúlkna verði sinnt í skólakerfinu ekki síður en drengja.

    Stefnt er að því að efla íþróttauppeldi stúlkna. Í námskrá í íþróttum eru markmið sett fram með það í huga að þau nái til allra nemenda og höfði jafnt til áhugasviðs og þroska allra nemenda og að verkefnin höfði til beggja kynja. Í samræmi við þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi árið 1996, var skipuð nefnd til að fjalla um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Nefndin hefur skilað ítarlegri greinargerð og tillögum um leiðir til þess að auka þátt kvenna í íþróttum.

9.6. Tölvur og upplýsingatækni.
    Menntamálaráðuneytið mun leggja aukna áhersla á að bæði kyn menntist um tölvur og upplýsingatækni. Sú fræðsla þarf að hefjast strax á yngri stigum grunnskólans til að draga úr þeim kynjamun sem þegar er orðinn umtalsverður í efri bekkjum grunnskóla.

    Upplýsinga- og tæknimennt er ný námsgrein í nýrri aðalnámskrá, en þar er á það bent að verkefnin skuli höfða jafnt til drengja og stúlkna. Á árlegum UT-ráðstefnum um upplýsingatækni í skólastarfi sem menntamálaráðuneytið stendur fyrir hefur m.a. verið fjallað um kynbundna tölvunotkun.

9.7. Stærðfræði og raungreinar.
    Menntamálaráðuneytið mun leita leiða til að auka áhuga stúlkna á þessum sviðum þegar í yngri bekkjum grunnskóla. Kannað verður hvort stúlkur þurfi sérkennslu á þessum sviðum.

    Í skilgreindum markmiðum námskrár í stærðfræði fyrir grunnskóla er ekki sérstaklega fjallað um þetta efni. Miðað er við að öll markmið námskrárinnar nái til allra nemenda og verkefni höfði til beggja kynja. Vísað er til jafnréttismarkmiða sem fram koma í almennum hluta aðalnámskrár.
    Í námskrá í náttúrufræði fyrir grunnskóla er sérstaklega á það bent að athugað skuli að nemendur festist ekki um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og að einstaklingar af báðum kynjum fái sambærileg og jafngild tækifæri.

9.8. Styrkir til jafnréttisfræðslu.
    Við úthlutun styrkja úr Þróunarsjóði grunnskóla á skólaárinu 1998–1999 mun menntamálaráðuneytið leggja sérstaka áherslu á þróunarverkefni sem tengjast jafnréttisfræðslu og aðgerðum til að bæta stöðu drengja og stúlkna í skólunum.

    Veittir hafa verið styrkir úr Þróunarsjóði grunnskóla til ýmiss konar þróunarverkefna er sérstaklega varða jafnréttisfræðslu. Þess má geta að við úthlutun árin 2000 og 2001 lagði Þróunarsjóður grunnskóla sérstaka áherslu á að styrkja verkefni í lífsleikni og þróun lífsleikniáætlana í skólum.

9.9. Nefndir og ráð.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins mun sérstaklega verða tekið mið af jafnréttissjónarmiðum og kallað til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

    Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytisins er leitast við að gæta jafnræðis milli kynja. Þegar aðilar utan ráðuneytisins eru beðnir um tilnefningar í nefndir á vegum þess er ávallt vísað í 20. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Í febrúar 2002 var skipting fulltrúa í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum menntamálaráðuneytis þannig að karlar voru 66% fulltrúa og konur 34%. Í nefndum sem skipaðar voru samkvæmt ákvörðun ráðherra voru karlar 65% fulltrúa og konur 35%. Í nefndum, stjórnum eða ráðum sem skipað er í samkvæmt lögum, reglugerðum eða þingsályktunartillögum voru karlar 67% fulltrúa og konur 33%. Í stjórnum eða ráðum sem Alþingi kýs og heyra undir menntamálaráðuneytið voru karlar 34% fulltrúa og konur 66%.

9.10. Kvennasögusafnið.
    Framlag til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verður hækkað um 2,1 millj. kr. árið 1998 vegna reksturs Kvennasögusafns.

    Framlag til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns var í fjárlögum árið 1998 hækkað vegna reksturs Kvennasögusafns í samræmi við áætlunina.

9.11. Konur og fjölmiðlar – ímyndir kvenna og karla.
    Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir athugun á aðgengi kvenna að fjölmiðlum og þá um leið þátttöku þeirra í ákvörðunum varðandi þróun þessara miðla. Einnig verði kannað hvaða kven- og karlímyndir íslenskir fjölmiðlar birta og hvernig megi vinna markvisst að því að umfjöllun fjölmiðla um líf og starf kvenna sýni þær í öllum sínum fjölbreytileika. Á grundvelli slíkra athugana verði unnið að stefnumótun á þessu sviði.

    Menntamálaráðuneytið og Skrifstofa jafnréttismála (nú Jafnréttisstofa) höfðu með sér samstarf um skipan nefndar um konur og fjölmiðla – ímyndir kvenna og karla. Nefndin hefur skilað skýrslu þar sem bent er á leiðir til að auka hlut kvenna í fjölmiðlum. Meðal þess sem nefndin bendir á er að auka þurfi fræðslu í skólum, t.d. með því að nota evrópskt fræðsluefni við kennslu í hagnýtri fjölmiðlun í Háskóla Íslands og í fjölmiðlafræði í framhaldsskólum. Einnig bendir nefndin á að koma þurfi upplýsingum um stöðu kvenna í fjölmiðlum inn í jafnréttisfræðslu í grunnskólum, t.d. í lífsleikni.

9.12. Fræðsla um greiningu á afleiðingum ofbeldis.
    Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að í grunnnámi og við endurmenntun kennara, starfsfólks heilbrigðis- og félagsþjónustu, presta, lögreglu og annarra sem líklegir eru til þess að umgangast þolendur ofbeldis verði tryggð fræðsla um hvernig bregðast skuli við og aðstoða þá sem fyrir ofbeldinu hafa orðið.

    Í desember 1999 stóð menntamálaráðuneytið ásamt samtökum kennara og skólastjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umboðsmanni barna og Landssamtökunum Heimili og skóli fyrir málþingi um skólareglur og aga. Í framhaldi af málþinginu var kennaramenntunarstofnunum sent bréf þar sem bent var á mikilvægi þess að fjalla um þessi málefni í menntun kennara. Gefin var út endurskoðuð reglugerð um skólareglur í grunnskólum í apríl 2000. Hverjum skóla ber að setja sér skólareglur þar sem kveðið skal á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar og hollar lífsvenjur. Í reglugerðinni er m.a. ákvæði um að leita skuli til sérfræðiþjónustu skóla ef ekki tekst að leysa mál er varða hegðun nemenda innan skóla.
    Einnig hefur verið stofnuð samstarfsnefnd sömu aðila til að móta stefnu hvað varðar verklag og viðbrögð skóla gagnvart einelti. Nefndin stóð fyrir málþingi um einelti haustið 2001 og í kjölfarið verður unnið að því að styðja skóla til að koma á aðgerðaáætlun gegn einelti.

9.13. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

    Í maí 1997 skipaði menntamálaráðherra jafnréttisnefnd. Nefndin skilaði tillögum sínum varðandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og tillögum um stefnumörkun í jafnréttisfræðslu í skólum í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla í nóvember 1998. Í framhaldi af störfum nefndarinnar var með útgáfu bæklingsins Jafnrétti til menntunar ætlunin að vekja kennara og annað skólafólk til umhugsunar um lögbundið jafnrétti kynjanna til menntunar og í bæklingnum er bent á leiðir til að stuðla að jafnrétti í skólastarfi.
    Innan ráðuneytisins hefur jafnan verið leitast við að gæta jafnrar stöðu kynjanna. Ráðuneytið leitast við að vinna í samræmi við þau jafnréttissjónarmið að störf innan ráðuneytisins séu ekki kynbundin og að starfsmenn af báðum kynjum komi jafnt til greina við verkefnaval. Í febrúar 2002 voru konur í meiri hluta starfsfólks menntamálaráðuneytisins eða 66%, ráðuneytisstjóri er kona. Jafnmargar konur og karlar gegndu stöðu skrifstofustjóra en konur voru meiri hluti deildarstjóra eða 57%. Sömu sögu er að segja af deildarsérfræðingum, þar voru konur í meiri hluta eða 63%. Meðal stjórnarráðsfulltrúa innan ráðuneytisins eru konur í miklum meiri hluta eða 94%. Óskað hefur verið upplýsinga hjá stofnunum ráðuneytisins varðandi jafnréttisáætlanir innan þeirra. Fyrir liggur jafnréttisáætlun menntamálaráðuneytis og skipaður hefur verið jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.

Önnur verkefni.
          Ráðuneytið hefur skipað fulltrúa í norrænan vinnuhóp sem heyrir undir norrænu ráðherranefndina vegna rannsóknarverkefnis sem nefnist Kön och väld.
          Konur og vísindi – þátttaka kvenna í vísindum; sem háskólakennarar, vísindamenn og nemendur. Vorið 2000 skipaði menntamálaráðherra vinnuhóp um konur og vísindi. Markmið hópsins er að finna leiðir til að auka þátt kvenna í vísindum og samræma aðgerðir í þeim efnum. Skipun nefndarinnar er í samræmi við áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem samþykkt var árið 1999 og tengist þátttöku Íslands í fimmtu rammaáætlun ESB. Hlutverk nefndarinnar hefur verið að hafa umsjón með söfnun og útgáfu upplýsinga um stöðu kvenna í vísindum á Íslandi og miðla þeim til Evrópusambandsins. Störf nefndarinnar hafa lagt grunn að skipulagðri söfnun tölfræðilegra upplýsinga um stöðu íslenskra kvenna í rannsóknum og vísindum sem mun nýtast til stefnumótunar á þessu sviði. Niðurstöður hópsins voru gefnar út í skýrslu í mars 2002. Í skýrslunni er dregin upp mynd af félagslegri og efnahagslegri umgjörð rannsókna á Íslandi og uppbyggingu háskólastigsins sem mynda umgjörð um störf kvenna í rannsóknum sem á öðrum sviðum. Skýrslan inniheldur upplýsingar um konur í vísindum, sem háskólakennara, vísindamenn og stúdenta. Þátttaka kvenna í rannsóknastofnunum á vegum hins opinbera er könnuð, en einnig árangur þeirra í að sækja um fé úr rannsóknasjóðum á sviði vísinda og tækni. Stjórnkerfi stefnumótunar á vísindasviðinu og við úthlutun styrkja er stuttlega lýst. Menntamálaráðuneytið hélt ráðstefnu um stöðu íslenskra kvenna í vísindum þann 22. mars 2002.
          Menntamálaráðuneytið gætir þess að birta tölfræðilegar upplýsingar greindar eftir kyni þar sem það á við.

10. Samgönguráðuneyti.
10.1. Konur sem atvinnurekendur í ferðaþjónustu.
     Framlag kvenna til ferðaþjónustu verður metið í ljósi þess að ferðaþjónustan skiptir sífellt meira máli fyrir bæði atvinnustig í landinu og tekjur almennt. Markmið þessarar úttektar verður að kanna hvernig konur og karlar koma að þessari vaxandi atvinnugrein og að þá verði hægt að meta hvort og þá hvernig breytingar eða sérstakar stuðningsaðgerðir gagnist konum sem körlum.
    Enn sem komið er hefur ekki verið unnið að verkefninu.

10.2. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

    Konur í nefndum um ferðaþjónustu eru gjarna í meiri hluta og formenn nefnda. Einnig eru nú konur í úthlutunarnefndum umsjónarnefnda leigubifreiða en það hefur ekki tíðkast hingað til. Í öðrum nefndum og ráðum ráðuneytisins er varla konu að finna, þó er kona formaður siglingaráðs.
    Eitt af stefnumiðum jafnréttisáætlunar ráðuneytisins, sem samþykkt var í ársbyrjun 2002, er að auka hlut kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins og stofnana þess, m.a. með því að óska eftir tilnefningu fólks af báðum kynjum.

10.3. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

    Fyrsta verk jafnréttisfulltrúa ráðuneytisins var að skrifa undirstofnunum og óska eftir tilnefningu fulltrúa þeirra. Ráðuneytið vonar að takast megi að koma á starfshópi sem skilað getur raunhæfum tillögum.
    Samþykkt hefur verið jafnréttisáætlun fyrir ráðuneytið. Meðal stefnumiða hennar er að fjölga konum í störfum stofnana þar sem karlar eru í meiri hluta og að starfsmenn njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf auk fleiri atriða sem miða að því að rétta hlut kynjanna.

11. Sjávarútvegsráðuneyti.
11.1. Konur í fiskvinnslu.
    Skipuð verður nefnd til að safna upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina og þá atvinnumöguleika. Nefndinni verður falið að afla upplýsinga um menntun þeirra kvenna sem þar starfa, félagslega stöðu þeirra o.fl. þannig að hægt sé að meta möguleika þeirra til starfsþjálfunar og endurmenntunar.

    Skipuð hefur verið nefnd til að safna upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina og á atvinnumöguleika. Nefndin mun skila af sér til ráðherra í aprílmánuði 2002.

11.2. Konur og atvinnurekstur í sjávarútvegi.
    Kannað verður hvort og þá á hvaða sviðum sjávarútvegs konur hafa haslað sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur. Aðgengi kvenna að fyrirgreiðslu í formi styrkja eða lána verði sérstaklega kannað. Leiði könnunin í ljós sérstök sóknarfæri fyrir konur í þessum atvinnurekstri verða þau styrkt sérstaklega. Á sama hátt verður gripið til sértækra aðgerða ef könnunin leiðir í ljós mismunun sem skýra má með kynferði.

    Enn sem komið er hefur ekki verið unnið að verkefninu.

11.3. Sérstaða sjómanna og fjölskylduaðstæður.
    Könnuð verða áhrif langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna.

    Ráðuneytið veitti fé til undirbúnings könnunar á áhrifum langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna, en hann fólst aðallega í gerð rannsóknaáætlunar og í því að kanna hvaða efni og rannsóknir sem komið gætu að gagni væru þegar til. Gestur Guðmundsson félagsfræðingur og Unnur Dís Skaptadóttir mannfræðingur unnu skýrsluna sem mun koma að miklu gagni við könnun á áhrifum langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna.

11.4. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

    Ráðuneytið hefur gert átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Þannig hefur verið óskað eftir tilnefningum fólks af báðum kynjum þegar skipa skal í nefndir og starfshópa á vegum ráðuneytisins. Fulltrúar ráðuneytisins í nefndum og starfshópum innan lands eru jöfnum höndum karlar og konur, eftir menntun og verkefnasviði hverju sinni, og þess er gætt að tilnefna bæði karla og konur í nefndir og ráð í alþjóðlegu samstarfi.

11.5. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

    Skipaður hefur verið jafnréttisfulltrúi úr hópi starfsmanna. Jafnréttisfulltrúi hefur sótt námskeið og ráðstefnur um jafnréttismál, bæði innan lands og utan og hefur farið yfir stöðu jafnréttismála innan ráðuneytisins og fundað með forstöðumönnum stofnana þess. Stofnanir ráðuneytanna hafa einnig skipað jafnréttisfulltrúa eða -nefndir úr hópi sinna starfsmanna. Unnið er að gerð jafnréttisáætlunar í ráðuneytinu.

Önnur verkefni.
          Sjávarútvegsráðuneytið hefur með ýmsum hætti kynnt sjávarútveginn fyrir yngri grunnskólanemendum, m.a. með því að útbúa ýmis náms- og kennslugögn um sjávarútveg og sýnishorn af veiðarfærum og verkfærum í svonefndri gullakistu sjávarútvegsráðuneytisins. Auk þess hefur ráðuneytið til margra ára staðið straum af rekstri skólaskips og undanfarin þrjú ár hefur hafrannsóknaskipið Dröfn verið rekið 60 daga á ári sem skólaskip. Börnum í 9. og 10. bekk grunnskóla hefur boðist að fara í kynnisferð með skipinu sem útbúið hefur verið sérstaklega fyrir slíkar ferðir. Fararstjóri frá Hafrannsóknastofnuninni hefur umsjón með fræðslunni um borð, þar sem unglingunum er sýnt skipið, notkun sjókorta og siglingatækja þess. Einnig er farið yfir björgunar- og öryggistæki um borð. Þá er rennt fyrir fisk, auk þess sem sett hafa verið út togveiðarfæri, gert að aflanum og veitt innsýn í starf fiskifræðinga og hafrannsóknir við Ísland. Eftirspurn eftir ferðum með skipinu hefur verið meiri en hægt hefur verið að anna og nær fjögur þúsund nemendur úr fimmtíu skólum og tvö hundruð kennarar hafa farið í ferðir með skipinu á þessum tveim árum. Hefur skipið tvisvar á tímabilinu farið í hringferð um landið til að sinna óskum skóla á landsbyggðinni. Hér er tvímælalaust um að ræða jafnréttismál þar sem tilgangurinn með gullakistunni og skólaskipinu er að gefa jákvæða mynd af öllum þáttum atvinnugreinarinnar og örva ungmenni, stúlkur jafnt sem drengi til að mennta sig til þátttöku í störfum tengdum sjávarútvegi.
          Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið, en auk ráðuneytisins eiga aðild að nefndinni Samtök atvinnulífsins og Starfsgreinasamband Íslands. Nefndin stendur fyrir víðtæku fræðslustarfi fyrir starfsfólk fiskvinnslunnar. Um er að ræða grunnnámskeið sem miðla almennri þekkingu um fiskvinnslustarfið. Konur eru stærsti hluti þeirra starfsmanna fiskvinnslunnar sem sækja námskeið starfsfræðslunnar og er ljóst að skipulögð starfsmenntun af þessu tagi gefur þeim aukna möguleika á að taka að sér ábyrgðarmeiri og betur launuð störf innan greinarinnar.

12. Umhverfisráðuneyti.
12.1 Jafnréttisnefnd umhverfisráðuneytis og stofnana þess.
     Umhverfisráðuneytið mun skipa nefnd um jafnréttismál með fulltrúum stofnana ráðuneytisins fyrir árslok 1997. Hlutverk nefndarinnar verður að, sjá til þess að gerðar verði starfsmannaáætlanir fyrir stofnanir ráðuneytisins sem miða að því að jafna stöðu kvenna og karla, að halda uppi umræðum og fræðslu um jafnréttismál, að safna upplýsingum um stöðu jafnréttismála í stofnunum, að koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti.
    
Jafnréttisnefnd ráðuneytisins hefur starfað frá árinu 1999. Nefndin vann jafnréttisáætlun fyrir umhverfisráðuneytið sem var staðfest af ráðherra í nóvember 1999. Jafnréttisstefnan var kynnt fyrir forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins á forstöðumannafundi í nóvember 1999 þar sem þeir voru hvattir til þess að setja stofnunum sínum stefnu í jafnréttismálum.
    Jafnréttisnefndin vinnur nú að endurskoðun áætlunarinnar og ákveðið hefur verið að halda námskeið um gerð jafnréttisáætlana fyrir forstöðumenn stofnana og námskeið um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í ákvarðanatöku um umhverfismál fyrir stjórnendur í ráðuneytinu og stofnunum þess.
    Umhverfisráðherra staðfesti á árinu 2001 fjölskyldustefnu sem jafnréttisnefndin vann í samráði við yfirstjórn ráðuneytisins. Markmið fjölskyldustefnunnar er að skapa mannúðlegt og hvetjandi starfsumhverfi þar sem tekið er tillit til þess að fólk þarf að sinna skyldum við fjölskyldu og rækta hana alla starfsævina.

12.2. Fjölgun kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum sem varða umhverfismál.
     Sérstakt átak verður gert til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð umhverfismála og ákvarðanir eru teknar.
    Hlutfall kenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytisins hefur hækkað úr 16% árið 1996 upp í 25% í árslok 2001. Ráðuneytið heldur áfram að leggja ríka áherslu á að fjölga konum í nefndum og stjórnum á vegum ráðuneytisins til þess að tryggja virka þátttöku kvenna í ákvörðunum um umhverfismál.

13. Utanríkisráðuneyti.
13.1. Aðgerðaáætlun.
     Á fyrstu tveimur árum framkvæmdaáætlunarinnar mun starfa samráðsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar utanríkisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Verkefni nefndarinnar verður að vinna tillögur til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu jafnréttis kvenna og karla í alþjóðastarfi. Í áætluninni mun koma fram hvernig utanríkisráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda geti, betur en nú er, unnið að framgangi réttindamála kvenna og barna samkvæmt alþjóðasamþykktum sem Ísland er aðili að.
    Samráðsnefndin hefur ekki verið skipuð.

13.2. Konur og karlar í störfum hjá alþjóðastofnunum.
    Settar verða vinnureglur sem kveði á um sem jafnastan hlut kvenna og karla í stöðum hjá alþjóðlegum stofnunum. Þetta ákvæði á ekki einungis við um ráðningu Íslendinga heldur einnig alla þá sem Íslendingar kjósa að styðja í stöður á vegum alþjóðasamtaka.

    Utanríkisráðuneytið hefur lagt aukna áherslu á framgang réttindamála kvenna og barna, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðsins. Í þessu sambandi má benda á framlag íslenskra stjórnvalda til uppbyggingar í Kosovo þar sem Ísland styrkir rekstur skrifstofu UNIFEM sem vinnur m.a. að því að tryggja konum völd og áhrif við stjórn landsins. Tveir íslenskir sérfræðingar hafa veitt skrifstofunni forstöðu frá árinu 2000. Við ákvörðun um stuðning Íslands við einstaka frambjóðendur í ráð og nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna eru jafnréttisjónarmið ávallt höfð í huga.
    Frá árinu 1998 hefur utanríkisráðuneytið sent 55 manns til friðargæslustarfa á vegum alþjóðastofnana í Bosníu, Makedóníu og Kosovo. Þar af eru 34 karlmenn og 21 kona. Stærsti einstaki hópur íslensku friðargæsluliðanna á þessu tímabili eru lögreglumenn en samtals hafa 19 lögreglumenn starfað í friðargæslu á þessum tíma. Stærstur hluti þeirra hafa verið karlmenn. Ástæðurnar eru m.a. lágt hlutfall kvenna í íslensku lögreglunni og kröfu Sameinuðu þjóðanna um átta ára starfsreynslu. Í þessu sambandi má geta þess að Sameinuðu þjóðirnar hafa farið þess sérstaklega á leit við aðildarríkin að þau ráði konur í alþjóðalögreglulið Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Kosovo. Vegna þessa hélt ráðuneytið fund haustið 1999 með Félagi íslenskra lögreglukvenna í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra. Í framhaldi af fundinum var Sameinuðu þjóðunum skrifað bréf og getið helstu niðurstaðna. Þegar auglýst var eftir lögreglumönnum til starfa á Balkanskaga var sérstaklega skorað á hæfar konur að sækja um, þar sem stjórnvöldum var í mun að verða við beiðni Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaða þess var sú að 2000–2001 fóru tvær konur til starfa í alþjóðalögregluliði Sameinuðu þjóðanna í Bosníu. Þess skal getið að íslenskar lögreglukonur verða ekki sendar til Kosovo í bráð vegna krafna um vopnaburð.
    Árið 2001 voru 23 íslenskir friðargæsluliðar að störfum erlendis, þar af sjö konur. Sex lögreglumenn, allir karlmenn, störfuðu hjá alþjóðalögregluliði Sameinuðu þjóðanna í Kosovo og sex lögreglumenn, þar af tvær konur, störfuðu hjá alþjóðalögregluliði Sameinuðu þjóðanna í Bosníu. Tvær konur störfuðu með breska hernum í SFOR í Bosníu og ein kona og tveir karlmenn hjá KFOR í Kosovo. Einnig starfaði einn karlmaður hjá alþjóðaliði NATO í Makedóníu. Ein kona starfaði hjá ÖSE í Bosníu og þrír karlmenn hjá ÖSE í Kosovo. Þá starfaði ein kona hjá UNIFEM í Kosovo.
    Þá ber að geta þess að Íslenska friðargæslan var sett á fót 10. desember 2001 til eflingar þátttöku Íslands í alþjóðlegu friðargæslustarfi. Verkefni hennar er að fjölga íslenskum starfsmönnum í fjölþjóðlegri friðargæslu í allt að 25 árið 2003. Til að markvisst megi standa að þeirri fjölgun var komið á fót viðbragðslista allt að 100 einstaklinga, sem valdir voru úr hópi umsækjenda. Í auglýsingu um Íslensku friðargæsluna voru konur sérstaklega hvattar til að gefa kost á sér til friðargæslustarfa. Alls sóttu 238 manns um að komast á viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar, 162 karlar og 76 konur. Að undangengnum viðtölum voru 95 einstaklingar valdir til að vera á viðbragðslistanum, 59 karlar og 36 konur. Enn fremur er gert ráð fyrir að lögreglumenn og -konur, sem gefið hafa kost á sér til friðargæslustarfa, verði á viðbragðslistanum.
    Í samræmi við langtímaáætlun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) í jafnréttismálum var árið 2000 ráðinn til starfa íslenskur ráðgjafi í jafnréttis- og fræðslumálum til kvenna- og félagsmálaráðuneytisins í Mósambík. Einnig hafa verið ráðnir til starfa ráðgjafar í þessum sama málaflokki á skrifstofu stofnunarinnar í Malaví og Úganda. Hlutverk íslensku ráðgjafanna er að starfa í samvinnu við heimamenn að framkvæmd verkefna á sviði jafnréttis- og fræðslumála samkvæmt samningi stofnunarinnar við stjórnvöld í hverju landi um að veita fjárhagslega og tæknilega aðstoð til þessa málaflokks. Í Namibíu hefur sérstakur verkefnisstjóri ÞSSÍ umsjón með fræðslu fullorðinna, sem einkum beinist að fræðslu kvenna og barna. Þróunarstofnanir hafa í vaxandi mæli sett inn jafnréttisþátt sem sérstakan lið í undirbúningi allra verkefna og hafa mótað stefnu á þessu sviði sem taka verður mið af í öllum verkefnum. Á vegum ÞSSÍ starfa nú 22 íslenskir sérfræðingar í fjórum samstarfslöndum og þrjú og hálft stöðugildi eru á aðalskrifstofu, alls 16 karlar og tíu konur. Í stjórnunarstörfum eru sex karlar og fimm konur.

13.3. Mannréttindabrot gegn konum og stúlkum.
    Utanríkisráðherra mun beita sér fyrir því að alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og Evrópuráðið taki sérstaklega til athugunar – þegar verið er að kanna hvort um brot á mannréttindum er að ræða – brot sem beinast sérstaklega gegn konum.

    Ísland hefur lagt áherslu á jafnrétti kynjanna og baráttuna gegn mannréttindabrotum gagnvart konum og stúlkum, sérstaklega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur fullgilt Rómarsamþykktina um Alþjóðlega sakamáladómstólinn þar sem kveðið er á um að litið verði á ýmsa kynferðislega glæpi gegn konum eins og nauðganir og kynlífsþrælkun sem glæpi gegn mannkyninu eða stríðsglæpi. Ísland hefur einnig fullgilt valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum. Loks undirritaði Ísland alþjóðasamninginn gegn skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi í desember 2000 í Palermo á Ítalíu ásamt tveimur viðbótarbókunum við hann. Önnur bókunin fjallar um baráttuna gegn mansali, einkum kvenna og barna. Verið er að vinna að fullgildingu þessa samnings og bókana við hann.
    Á vettvangi ÖSE hefur Ísland lagt áherslu á mannréttindi, sérstaklega mannréttindi kvenna og barna auk baráttunnar gegn mansali og kynlífsþrælkun.

13.4. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

    Á vegum utanríkisráðuneytisins eru starfandi níu nefndir. Í þessum nefndum eru samtals 37 nefndarmenn, 32 karlmenn og fimm konur. Fjöldi fulltrúa í hverri nefnd skipt eftir kynjum er eftirfarandi: Í varnarmálanefnd eru sjö nefndarmenn, allir karlmenn, og voru þeir skipaðir í febrúar 2001, janúar 1961, febrúar 1988, júní 1987, ágúst 1994, október 1995 og í október 1996. Í kaupskrárnefnd eru þrír nefndarmenn, tveir karlmenn og ein kona, og var nefndin skipuð 1. júlí 2001. Í kærunefnd kaupskrárnefndar eru þrír nefndarmenn, allir karlmenn, og var nefndin skipuð 1. júlí 2001. Í skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd varnarsvæða eru fimm nefndarmenn, fjórir karlmenn og ein kona, og var nefndin skipuð í ágúst 1999, en einn nefndarmanna var skipaður 1. september 2000. Í kostnaðarlækkunarnefnd eru þrír nefndarmenn, tveir karlmenn og ein kona, og var nefndin skipuð í ágúst 2000, en formaðurinn í febrúar 2001. Í forvalsnefnd eru þrír nefndarmenn, tveir karlmenn skipaðir 1995 og ein kona skipuð 2001. Í skaðabótanefnd eru þrír nefndarmenn, tveir karlmenn og ein kona, og var nefndin skipuð 5. janúar 2001. Í tengslanefnd eru þrír nefndarmenn, allir karlmenn, tveir skipaðir 7. ágúst 1996 og einn 24. nóvember 2000. Í Íslandsnefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru sex nefndarmenn, allir karlmenn, og var nefndin skipuð 7. mars 2001.
    Það er yfirlýst stefna utanríkisráðuneytisins að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum þess.

13.5. Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

    Utanríkisráðuneytið hefur unnið markvisst að því að fjölga konum í störfum hjá ráðuneytinu. Á síðustu þremur árum hafa 46 störf verið auglýst á vegum ráðuneytisins. Í þær 46 stöður voru ráðnir 16 karlar og 30 konur. Átta karlar voru ráðnir sem háskólamenntaðir fulltrúar, tveir tölvumenn, fjórir þýðendur, einn starfsmaður í móttöku og einn rekstrarstjóri. Níu konur voru ráðnar sem háskólamenntaðir fulltrúar, ellefu ritarar, einn vefstjóri, einn bókasafnsfræðingur, sjö þýðendur og einn verkefnastjóri viðskiptaþjónustu. Fyrir utan þessar ráðningar hefur verið auglýst þrisvar sinnum eftir starfsmanni í tímabundna starfsþjálfun hjá fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg. Voru konur ráðnar í öll skiptin.
    Hinn 11. febrúar 2002 stóð Jafnréttisstofa fyrir námskeiði um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og um hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Námskeiðið var ætlað stjórnendum ráðuneyta og jafnréttisfulltrúum. Í skoðun er að Jafnréttisstofa haldi sams konar námskeið fyrir starfsfólk utanríkisráðuneytisins.
    Þá er í farvatninu sérstök jafnréttisáætlun utanríkisráðuneytisins. Áætlunin tekur mið af jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, auk þess sem sérstök verkefni og áherslur utanríkisráðuneytisins eru tilgreind. Áætluninni er ætlað að stuðla að jafnri stöðu kynja í starfi og stefnumótun ráðuneytisins.

13.6. Jafnréttisnámskeið.
    Ráðuneytið mun standa fyrir jafnréttisnámskeiðum fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum eða vinna að slíkum verkefnum.

    Í skoðun er að Jafnréttisstofa haldi námskeið fyrir starfsfólk utanríkisþjónustunnar sem starfar víða um heim, m.a. í þróunarlöndum.

Önnur verkefni.
    Hjá utanríkisráðuneytinu var árið 1998 mótuð fjölskyldustefna og styðst hún í meginatriðum við þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 1997 og tekur mið af þörfum fjölskyldunnar við skipulag vinnu. Í fjölskyldustefnunni er sjónum einkum beint að úrbótum á ýmsum þáttum í starfsemi utanríkisþjónustunnar sem geta haft áhrif á fjölskyldur starfsmanna, svo sem flutning milli starfsstöðva. Utanríkisþjónustan hefur markað sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar og búsetu.




Fylgiskjal.


Framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna 2002–2004.
Endurskoðun framkvæmdaáætlunar áranna 1998–2001.


Inngangur.
    Sú áætlun sem hér er lögð fram er endurskoðun á fyrri framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem var í gildi á árunum 1998–2001. Alþingiskosningar eru fyrirhugaðar vorið 2003 og skv. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að félagsmálaráðherra leggi fram, eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar, tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Því þótti ekki ástæða til þess að ráðast í gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna að svo komnu máli.
    Sú endurskoðaða áætlun sem hér fer á eftir er að mestu byggð upp á sama hátt og upphaflega áætlunin. Hún tekur mið af þeim breytingum sem orðið hafa með nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og nýjum lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Sum þeirra verkefna sem voru í fyrri áætlun hafa nú verið bundin í lög og er þá lögð áhersla á að geta um hvernig staðið skuli að því að fylgja lagaákvæðum eftir. Sumum verkefnum er lokið og hafa þau þá verið tekin út, en önnur eru óunnin og standa hér nánast óbreytt. Í tímans rás hafa aðstæður breyst þannig að einstaka verkefni sem ekki var unnið er þó tekið út þar sem ekki þykir ástæða til eða raunhæft að hafa það með að sinni og hafa nokkur ný verkefni bæst við.
    Við endurskoðun þessa hefur verið farið yfir hvert verkefni af gagnrýni þannig að raunhæft sé að ljúka þeim verkefnum sem eftir standa fyrir mitt ár 2004. Á næstu tveimur árum verður lögð áhersla á að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið daglegu starfi allra ráðuneyta, þannig að sú áætlun sem hér birtist sýnir einungis lítinn hluta þeirra verkefna sem verða dagleg viðfangsefni stjórnenda og annarra starfsmanna ríkisins.
    Í vinnu við þau verkefni sem hér eru tíunduð, sem og í hinu daglega starfi að jafnréttismálum, gegna jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna, sem skipaðir voru samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, því mikilvægu hlutverki. Á gildistíma áætlunarinnar verður unnið að því að þróa störf þeirra og skapa þeim starfsmönnum sem hlutverkinu sinna ákveðnara rými, stuðning og möguleika til að sinna starfinu. Það tekur þó ekki á nokkurn hátt ábyrgðina frá stjórnendum og hinum almenna starfsmanni, þeim er einnig ætlað að vera fulltrúar jafnréttis kynjanna í öllu sínu starfi.
    Í inngangi áætlunarinnar sem samþykkt var árið 1998 er tekið fram að leiðarljós hennar sé að sjónarmið jafnréttis kynjanna verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Þar segir einnig að ríkisstjórnin muni vinna að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku og að allir sem koma að þeim málum þurfi því að hafa þekkingu á jafnréttismálum. Þessi markmið og leiðarljós eru enn í fullu gildi, og er að því stefnt að verulegt átak verði gert í að kynna þau viðhorf og kenna þá aðferðafræði sem duga til að svo megi verða og hefur Jafnréttisstofu verið falið að vera ráðgefandi í því sambandi.

Verkefni ríkisstjórnarinnar.
I. Öll tölfræði kyngreind (sjá einnig lið 5.1.).
    Í 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að í opinberri hagskýrslugerð og í viðtals- og skoðanakönnunum skuli öll tölfræði kyngreind, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ráðuneyti og ríkisstofnanir bera ábyrgð á að þessu ákvæði sé fylgt eftir. Hagstofa Íslands mun í samvinnu við Jafnréttisstofu kanna framgang þess að öll tölfræði sé kyngreind og minna reglulega á ákvæði þar að lútandi.

II. Nefnd sem kannar hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna.
    Forsætisráðherra skipaði í desember 2000 nefnd sem var falið að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Nefndin hefur safnað upplýsingum um það hvernig stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga taka mið af jafnrétti kynja við stefnumótun. Niðurstaða og tillögur að aðgerðum til úrbóta munu liggja fyrir á árinu 2002.

III. Konur og efnahagsmál – konur og efnahagsleg völd.
    Forsætisráðherra skipaði í október 2000 nefnd þriggja sérfræðinga sem skyldi leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verður ráðist í fjögur rannsóknarverkefni:
     1.      Tölfræðisamantekt. Teknar verða saman ýmsar tölur í fórum Hagstofu Íslands eða annarra er tekið hafa saman kyngreindar tölur sem draga upp mynd af stöðu og völdum kvenna í samanburði við karla í íslensku efnahagslífi. Þessi samantekt er unnin innan Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
     2.      Könnun á vinnumarkaði. Í samstarfi við Jafnréttisráð verður unnin ný launakönnun til að varpa ljósi á launaþróun kvenna og karla og í hvaða mæli kynbundinn launamunur er enn til staðar í íslensku samfélagi.
     3.      Könnun á stöðu kvenna í stjórnunarstörfum. Safnað verður upplýsingum um fjölda kven- og karlstjórnenda í íslenskum fyrirtækjum og hjá hinu opinbera. Þessi samantekt er unnin innan Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
     4.      Almenn viðhorfskönnun. Gerð verður viðhorfskönnun meðal Íslendinga sem náð hafa kosningaaldri þar sem spurt verður um viðhorf þeirra til ýmissa þátta sem áhrif geta haft á völd kvenna í íslensku efnahagslífi.

Verkefni ráðuneytanna.
1. Forsætisráðuneytið.
1.1. Þróun upplýsingasamfélagsins.
    Á grundvelli upplýsinga sem safnað hefur verið í tengslum við verkefnið um þróun upplýsingasamfélagsins mun verkefnisstjórnin leggja fram tillögur að því hvernig megi hafa áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu kvenna og karla. Á grundvelli tillagnanna verði mótuð þverfagleg langtímaáætlun um hvernig bregðast megi við.

1.2. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 38% fulltrúa í ráðum og nefndum á vegum forsætisráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal þó áfram taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.

1.3. Jafnréttisfulltrúi.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

2. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
2.1. Hvatning til kvenna sem og karla að sækja um störf.
    Ráðuneytið hefur sett sér að fylgja þeirri stefnu að orða starfsauglýsingar fyrir ráðuneytið og undirstofnanir þess þannig að fram komi hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um viðkomandi störf.

2.2. Fjölgun kvenna í starfsstéttum þar sem karlmenn eru í meiri hluta, svo sem starfsstéttum lögreglu, fangavarða o.fl.
    Áfram verður stefnt að því að ráða fleiri konur í störf lögreglumanna, fangavarða o.fl. Í því skyni verða konur hvattar til að sækja um störf sem auglýst eru.

2.3. Staða kvenna innan lögreglunnar.
    Konum hefur fjölgað verulega í hópi lögreglumanna síðustu ár, en sérstök áhersla verður áfram lögð á að fjölga konum í stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Í hópi nemenda Lögregluskólans fjölgar konum ört, enda hafa þær verið hvattar sérstaklega til að sækja þangað og mun það að öllum líkindum verða til þess að auka hlut kvenna í lögreglunni þegar fram í sækir. Jafnframt því að stuðla að fjölgun kvenna innan lögreglunnar mun dómsmálaráðuneytið huga sérstaklega að stöðu þeirra kvenna sem starfa í lögreglunni.

2.4. Staða kvenna á undirstofnunum og í ráðuneytinu.
    Það hefur verið stefna ráðuneytisins að fjölga konum í yfirmannastöðum í ráðuneytinu og undirstofnunum þess og verður því haldið áfram.

2.5. Staða kvenna innan þjóðkirkjunnar.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra beinir þeim tilmælum til Biskupsstofu að áfram verði unnið markvisst að því að styrkja stöðu kvenna innan þjóðkirkjunnar. Sérstaklega verði unnið að því að auka þátttöku kvenna í ráðum og nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og jafna hlutfall karla og kvenna í trúnaðarstörfum innan hennar. Í því skyni verði sett fram aðgerðaáætlun sem tekur mið af tillögum nefndar sem biskup skipaði til að skoða jafnréttismál í þjóðkirkjunni. Jafnréttisnefnd kirkjunnar beri ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar.

2.6. Jafnrétti – mannréttindi.
    Á vegum dómsmálaráðuneytis verði lögð áhersla á fræðslu um mannréttindi kvenna. Slík fræðsla verði fléttuð inn í almenna fræðslu um mannréttindamál og verði þar m.a. bent á mikilvægi Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna (CEDAW).

2.7. Vændi – mansal.
    Á vegum dómsmálaráðuneytis starfar nefnd til að sporna við vændi og kynferðislegri misnotkun sem vænst er að skili dómsmálaráðherra innan skamms lokaskýrslu með tillögum til úrbóta. Verða tillögur nefndarinnar teknar til skoðunar með tilliti til þess hvort breytinga sé þörf á löggjöf í því skyni m.a. að stemma stigu við vændi. Dómsmálaráðuneytið mun leggja áherslu á að auka alþjóðlegt samstarf og samvinnu sérstaklega að því er varðar aðgerðir til að koma í veg fyrir mansal. Mun ráðuneytið m.a. taka þátt í norrænni-baltneskri herferð gegn verslun með konur sem hleypt verður af stokkunum 29. maí 2002.

2.8. Vernd vitna og þolenda afbrota.
    Á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur á undanförnum árum verið unnið að vitnavernd og bættri réttarstöðu þolenda afbrota. Hluti af því starfi snýr að vernd kvenna sem verða fyrir ofbeldi eða hótunum frá maka eða fyrrverandi maka. Á næstunni verður unnið að nánari skoðun á íslenskri löggjöf hvað þetta atriði varðar, þ.e. með hvaða hætti er unnt að bæta íslenska löggjöf enn frekar á þessu sviði og treysta réttarstöðu þessa hóps. Jafnframt hefur verið efnt til samstarfs milli Norðurlanda um vitnavernd, þar sem meðal annars verður fjallað um framangreind atriði.

2.9. Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 40%.

2.10. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Í því sambandi skal skipuð sérstök jafnréttisnefnd, fulltrúanum til halds og traust. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Kallað verði árlega eftir upplýsingum frá undirstofnunum ráðuneytisins um stöðu jafnréttismála hjá þeim og aðgerðaráætlun fylgt eftir í samvinnu við fulltrúa undirstofnana. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

3. Félagsmálaráðuneytið.
3.1. Jafnréttisumsögn.
    Myndaður hefur verið samstarfshópur tengiliða þriggja ráðuneyta, félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Í upphafi mun nefndin kynna sér starf sambærilegra nefnda á Norðurlöndunum. Í framhaldi af því mun verða unnið að tilraunaverkefni þar sem gefnar verða jafnréttisumsagnir um nokkur stjórnarfrumvörp frá félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

3.2. Aukin virkni kvenna í stjórnmálum.
    Nefnd sú er starfað hefur í umboði ráðherra að auknum hlut kvenna að stjórnmálum mun ljúka starfi sínu í lok árs 2003. Þá mun starf og árangur nefndarinnar verða metið og tillögur um framhald þessa starfs liggja fyrir um mitt ár 2004, eða þegar ný framkvæmdaáætlun verður lögð fram.

3.3. Fræðsla fyrir trúnaðarmenn.
    Handbók fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum verður aðgengileg á vefsíðu Jafnréttisstofu árið 2002. Í handbókinni verða ýmsar mikilvægar upplýsingar er varða þætti sem geta haft áhrif á mismunandi stöðu kvenna og karla á vinnustöðum. Sérstök áhersla verður lögð á að upplýsa og fræða um þau atriði eða þær aðstæður sem geta haft áhrif á laun og launamyndun og hvaða leiðir starfsmönnum, trúnaðarmönnum og stéttarfélögum eru færar til að hafa áhrif þar á. Einnig verður þar lögð áhersla á að kynna leiðir til að taka á málum er varða kynferðislega áreitni skv. 17. gr. jafnréttislaganna.

3.4. Konur í hlutastörfum.
    Vinnumálastofnun mun í samráði við Hagstofuna gera úttekt á vægi hlutastarfa og starfa sem unnin eru án fastráðningar eða eru unnin utan hefðbundinna vinnustaða hjá konum annars vegar og hins vegar hjá körlum. Upplýsingarnar verða flokkaðar eftir atvinnugreinum og starfsgreinum.

3.5. Skipting fjár úr sjóðum vegna atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.
    Félagsmálaráðuneytið, ásamt iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, hefur samþykkt að gera úttekt á því hvernig styrkir til einstaklinga úr opinberum sjóðum, sem eru eyrnamerktir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, hafa skipst milli kvenna og karla. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur falið Byggðastofnun framkvæmd verkefnisins.

3.6. Staða kvenna á landsbyggðinni.
    Í júní 2000 kom út á vegum félagsmálaráðuneytis skýrsla Þjóðhagsstofnunar, Athugun á stöðu kvenna á landsbyggðinni. Í samráði við félagsmálaráðuneytið mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti láta gera áætlun um aðgerðir til að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni. Hún verði samþætt byggðaáætlun og öðrum þeim áætlunum er varða bæði málefni kynjanna og byggðamál. Í þessu sambandi skal m.a. nýta niðurstöður norrænnar rannsóknar um stöðu kynjanna í tengslum við byggðaröskun, sem Jafnréttisstofa er að vinna ásamt Byggðarannsóknastofnun Íslands.

3.7. Jafnréttisráðgjafi.
    Samkvæmt samningi félagsmálaráðuneytisins við Byggðastofnun hefur verkefni um jafnréttisráðgjafa verið framlengt til ársloka 2005. Á tímabilinu munu ráðgjafar starfa í norðurvesturkjördæmi, norðausturkjördæmi og suðurkjördæmi.

3.8. Konur og atvinnuleit.
    Vinnumálastofnun mun leggja mat á þau verkefni sem á síðastliðnum árum hafa miðað að því að styrkja stöðu atvinnulausra kvenna og sérstaklega skal litið til styrkja sem veittir hafa verið af fjárlagaliðnum atvinnumál kvenna. Á grundvelli þess skal Vinnumálastofnun í samvinnu við hagsmunasamtök gera átak til að þróa aðferðir sem sérstaklega henta atvinnulausum konum við að fá vinnu og/eða styrkja stöðu sína á annan hátt.

3.9. Tengsl atvinnulífs og fjölskyldulífs.
    Gerð verður úttekt á framkvæmd laganna um fæðingar- og foreldraorlof, m.a. með tilliti til áhrifa þeirra á samspil atvinnu- og fjölskyldulífs. Félagsmálaráðuneytið mun á árinu leggja frekari drög að því hvernig standa megi að ofangreindri rannsókn. Ísland hefur sótt um að leiða Evrópuverkefni á þessu sviði og hefur Jafnréttisstofu verið falið að stýra því.

3.10. Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Félagsmálaráðuneyti mun beita sér fyrir því að þeim aðilum er fara með starfsmenntunarmál í hefðbundnum umönnunarstörfum kvenna verði gert kleift að kanna sérstaklega hvaða áhrif breyttar og strangari kröfur til menntunar og til framhaldsmenntunar geta haft á möguleika kvenna á starfstengdri menntun á þessum sviðum.
    
3.11. Konur sem flóttamenn.
    Félagsmálaráðuneytið mun fela flóttamannaráði að kanna hvort við mat á skilgreiningu á rétti flóttamanna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi sé nægjanlega tryggt að ofsóknir og ofbeldi, sem konur sæta vegna kynferðis síns og beitt er markvisst til að neyða fólk af tilteknu þjóðerni, menningu eða trúarbrögðum til að flýja heimili sín, sé metið sem fullgild forsenda leyfisveitingar.

3.12. Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni.
    Á vegum félagsmálaráðuneytis verði gert átak til að kynna ákvæði í jafnréttislögunum um kynferðislega áreitni. Í samráði við Jafnréttisstofu og Vinnueftirlit ríkisins verða unnar leiðbeiningar, annars vegar til þeirra sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og hins vegar fyrir stjórnendur á vinnumarkaði, um það hvernig best er að bregðast við slíku.

3.13. Könnun á skilyrðum fjölskyldna.
    Fjölskylduráð mun hefja undirbúning að könnun á áhrifum aðgerða opinberra aðila til styrktar fjölskyldunni. Sérstaklega verði skoðað hvort og þá hvernig skilyrði fjölskyldunnar í samfélaginu hafi batnað vegna slíkra aðgerða.

3.14. Meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Verkefni um meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi sem hófst 1998 er lokið. Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og Rauða kross Íslands skipa verkefnisstjórn til að fylgja eftir fyrra verkefni og þróa það þannig að það nýtist fleirum.

3.15. Mansal.
    Félagsmálaráðuneyti mun skipa verkefnisstjórn ásamt dóms- og kirkjumálaráðuneyti sem mun skipuleggja aðgerðir hér á landi í norrænni-baltneskri herferð gegn verslun með konur sem hleypt verður af stokkunum árið 2002.

3.16. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 40% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum félagsmálaráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.

3.17. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir.

4. Fjármálaráðuneytið.
4.1. Úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna.
    Fjármálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa í sameiningu leitað til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og farið þess á leit að hún geri úttekt á launamun karla og kvenna sem ekki er unnt að útskýra nema á grundvelli kyns.

4.2. Fræðsla til yfirmanna stofnana ráðuneytisins.
    Á hverju ári heldur fjármálaráðuneytið fundi með forstöðumönnum stofnana fjármálaráðuneytisins. Stefnt er að því að vera að jafnaði með fræðslu eða erindi um jafnréttismál á þessum fundum. Ef gerðar hafa verið kynjakannanir á vegum fjármálaráðuneytisins þá verður umfjöllun um niðurstöður þeirra á þessum fundum.

4.3. Hlutur kvenna í starfi ráðuneytisins aukinn.
    Fjöldi kvenna í nefndum á vegum fjármálaráðuneytisins hefur aukist á undanförnum árum. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins verður leitast við að taka mið af jafnréttissjónarmiðum, sbr. 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Stefnt er að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins orðinn a.m.k. 30%. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins.

4.4. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og hefur umsjón með framkvæmdaáætlun þessari í samráði við ráðuneytisstjóra. Í því sambandi verður skipuð sérstök jafnréttisnefnd fulltrúanum til halds og trausts. Gert er ráð fyrir að fulltrúinn og nefndin muni standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og miðla niðurstöðum þeirra og öðru fræðsluefni um jafnréttismál til yfirmanna og annarra starfsmanna eftir því sem tilefni gefst til.

5. Hagstofan.
5.1. Öll tölfræði kyngreind.
    Hagstofa Íslands mun í samvinnu við Jafnréttisstofu kanna framgang þess að öll tölfræði sé kyngreind og minna reglulega á ákvæði þar að lútandi.

5.2. Vinnutími – hluti af reglubundinni upplýsingasöfnun er varðar laun.
    Undanfarin missiri hefur verið unnið að umfangsmiklu samstarfsverkefni kjararannsóknarnefndar, kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna og Hagstofunnar um gagngerar breytingar á launakönnunum og launaskýrslum. Kjararannsóknarnefnd birti árið 1999 fyrstu niðurstöður kannana sem byggðust á nýja gagnasafninu og Hagstofan mun á næstu missirum nýta þessi gögn í vaxandi mæli til hagskýrslugerðar. Fyrstu niðurstöður úrvinnslu úr staðgreiðslugögnum voru birtar í desember 2001. Þær sýna fjölda starfandi eftir kyni og ársfjórðungum 1998–2001, sbr. fréttatilkynningu Hagstofu nr. 103/2001. Áfram verður unnið að því að auka og bæta upplýsingar um vinnumarkaðinn.

5.3. Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
    Hagstofa Íslands mun árið 2002 gefa út tölfræðihandbók þar sem fram kemur yfirlit yfir stöðu kvenna og karla. Útgáfan sem er í handhægu og aðgengilegu formi hentar vel almenningi. Upplýsingarnar verða bæði á íslensku og ensku.

5.4. Jafn hlutur kynja í nefndum og ráðum.
    Aðeins ein nefnd starfar nú á vegum Hagstofu Íslands og er hlutur kvenna þar þriðjungur. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar ráðuneytið óskar eftir tilnefningum frá öðrum, skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli og þannig tryggja að hlutfall kynja í nefndum verði sem jafnast.

5.5. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum Hagstofunnar. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Í því skyni skal skipuð jafnréttisnefnd fulltrúanum til halds og trausts. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála á Hagstofunni og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

6. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
6.1. Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna.
    Heilbrigðisráðherra hefur skipað verkefnisstjórn um heilsufar kvenna sem mun forgangsraða verkefnum, gera tillögur um aðgerðir og hrinda þeim í framkvæmd. Tilgangur með starfi verkefnisstjórnarinnar er m.a. að þjónusta heilbrigðiskerfisins taki í auknum mæli mið af ólíkum þörfum og mismunandi aðstæðum kynjanna.

6.2. Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
    Unnið verður að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á. Jafnframt verður gert átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðisstofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við meðgöngu, fæðingu og umönnun barna sinna.

6.3. Endurskoðun á framsetningu heilbrigðisupplýsinga.
    Heilbrigðisupplýsingar skal sundurgreina eftir kynjum þar sem það er tæknilega framkvæmanlegt. Vinnuhópur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um heilbrigðisupplýsingar skal taka saman yfirlit um stöðu mála og setja fram áætlun um aðgerðir þar sem þörf er á.

6.4. Úttekt á reglum sem varða mat á vistunarþörf.
    Þær reglur sem stuðst er við þegar verið er að meta vistunarþörf ellilífeyrisþega eða öryrkja verða kannaðar út frá aðferðafræði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða. Með því er hægt að sjá hvort þær koma eins út hjá konum og körlum.

6.5. Útreikningar örorkumatsbóta með tilliti til jafnréttis kvenna og karla.
    Kannað verði með aðferðafræði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða hvort hefðbundið mat á störfum kvenna og karla sé lagt til grundvallar við útreikninga á bótum vegna örorku.

6.6. Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
    Í herferðum sem varða varnir gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu verður unnið eftir þeim sjónarmiðum að forsendur neyslu hjá konum og stúlkum annars vegar og körlum og piltum hins vegar kunni að vera mismunandi. Gerð verði tilraun í þá veru að beina áróðri og fræðslu sérstaklega til ungra stúlkna.

6.7. Áhættuhegðun karla.
    Karlar og drengir eru miklum mun fleiri en konur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota vímuefni. Ljóst er að hér er um heilbrigðisvandamál að ræða og mikilvægt er að leita orsaka þess. Því mun ráðuneytið kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir.

6.8. Jafnt hlutfall kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 42% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð eða stjórnir af hálfu ráðuneytisins skal þó áfram taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli og þannig tryggt að hlutfall kynja verði sem jafnast.

6.9. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Í desember 2001 tók jafnréttisnefnd ráðuneytisins til starfa við hlið fulltrúans. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

7. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
7.1. Sterkari staða kvenna í þekkingar- og upplýsingatækni og í stjórnun og rekstri fyrirtækja.
    Ráðuneytið tekur þátt í átaksverkefni Háskóla Íslands og Jafnréttisstofu, Konur til forystu og jafnara námsval kynjanna, með það að markmiði að fjölga konum í stjórnun og rekstri fyrirtækja og í upplýsingatækni.

7.2. Stuðningur Nýsköpunarsjóðs við atvinnuuppbyggingu kvenna.
    Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs. Sjóðnum er m.a. ætlað að vera smáum og meðalstórum fyrirtækjum öflugur bakhjarl. Þátttaka kvenna í sköpun nýrra atvinnutækifæra á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja er sívaxandi og telur iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sérstaklega mikilvægt að styðja við þá þróun. Ráðuneytið mun hvetja stjórn sjóðsins til að gæta þess að með almennri starfsemi sinni styðji sjóðurinn við atvinnusköpun kvenna og öflun nýrra atvinnutækifæra fyrir þær.

7.3. Staða kvenna á landsbyggðinni.
    Í samráði við félagsmálaráðuneytið mun iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti láta gera áætlun um aðgerðir til að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni. Hún verði samþætt Byggðaáætlun og öðrum þeim áætlunum er varða bæði málefni kynjanna og byggðamál. Í þessu sambandi skal m.a. nýta niðurstöður norrænnar rannsóknar um stöðu kynjanna í tengslum við byggðaröskun, sem Jafnréttisstofa er að vinna ásamt Byggðarannsóknastofnun Íslands.

7.4. Nefndir og ráð – hlutur kynja í starfi ráðuneytisins jafnaður.
    Konur eru 20% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð eða stjórnir af hálfu ráðuneytisins skal ávallt vísa í 20. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000, og skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 30%.

7.5. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Ráðuneytið hefur samþykkt jafnréttisáætlun og á árinu 2001 tók jafnréttisnefnd til starfa. Nefndin heyrir undir ráðuneytisstjóra og situr til tveggja ára í senn. Í henni eiga sæti tveir fulltrúar starfsmanna, kjörnir af starfsmönnum, og tveir fulltrúar ráðuneytanna, tilnefndir af ráðuneytisstjóra. Jafnréttisnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnréttismál kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. Þá skal hún fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og kanna réttmæti ábendinga um að ekki sé farið að lögum eða reglum um jafnrétti í ráðuneytinu. Skal nefndin vera ráðgefandi fyrir yfirstjórn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í málefnum er varða jafnrétti. Ráðuneytið mun beita sér fyrir því eftir sem áður að stofnanir sem undir það heyra geri einnig slíkar jafnréttisáætlanir. Sérstök áhersla verði þar lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

8. Landbúnaðarráðuneytið.
8.1. Félagsleg og efnahagsleg réttindi kvenna í bændastétt.
    Könnuð verða ýmis ákvæði um eignaraðild í landbúnaði og búrekstri og réttindi og skyldur henni samfara. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf með það að markmiði að jafna hlut kvenna og karla.

8.2. Fræðsla fyrir konur og karla í bændastétt.
    Í samvinnu við jafnréttisnefnd Bændasamtakanna verður unnið upplýsinga- og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt. Þar verður gerð grein fyrir félagskerfi landbúnaðarins, starfi hagsmunasamtaka bænda og félagslegum réttindum sem varða konur og karla í bændastétt, ásamt upplýsingum um jafnrétti kvenna og karla almennt.

8.3. Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.
    Landbúnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir því að fullt tillit verði tekið til stöðu kvenna sem búa í dreifbýli og kvenna í bændastétt í öllum þeim sértæku verkefnum sem unnin verða samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og varða stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og möguleika þeirra til eigin atvinnurekstrar og endurmenntunar.

8.4. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 14% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli, í stað aðal- og varamanns. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna orðinn a.m.k. 40% í nefndum og ráðum. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og hugað sérstaklega að jafnri kynjaskiptingu við val á yfirmönnum.

8.5. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

9. Menntamálaráðuneytið.
9.1. Vinna að jafnrétti og gegn hefðbundinni verkaskiptingu.
    Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að skólar vinni ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna. Mikilvægt er að menntakerfið ýti ekki undir launamun kynjanna, til dæmis með því að hvetja konur sérstaklega til að stunda ákveðið nám en karla til að stunda annars konar nám.

9.2. Jafnréttiskennsla í skólum.
    Gerð verður áætlun um eflingu jafnréttisfræðslu í skólum svo og um jafnréttisfræðslu fyrir kennara og skólastjórnendur. Sérstök áhersla verður lögð á styrkleika beggja kynja, skyldur þeirra og réttindi. Einnig fjölskyldufræðslu og náms- og starfsfræðslu bæði í grunn- og framhaldsskólum. Í því sambandi verður lögð áherslu á þjálfun og fræðslu til kennara og skólastjórnenda, og nýtingu Jafnréttishandbókarinnar sem út kom árið 2001.

9.3. Rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar.
    Áfram verði unnið að rannsóknum á stöðu kynja í skólum.

9.4. Tímabundin aðgreining kynjanna.
    Á grundvelli tilraunaverkefna og rannsókna á stöðu kynjanna í skólakerfinu, verður m.a. kannað frekar hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi í ákveðnum greinum eða þáttum tryggi betri námsárangur og líðan bæði stúlkna og drengja.

9.5. Íþróttauppeldi stúlkna verði eflt.
    Brottfall stúlkna úr íþróttum er mikið. Nefnd sem skipuð var til að fjalla um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna hefur skilað ítarlegri greinargerð og tillögum um leiðir til þess að auka þátt kvenna í íþróttum. Ráðuneytið mun vinna aðgerðaáætlun á grundvelli þeirra tillagna.

9.6. Tölvur og upplýsingatækni.
    Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að bæði kyn fræðist um tölvur og upplýsingatækni, og að í skipulagningu námsins á öllum skólastigum sé tryggt að verkefnin höfði jafnt til drengja og stúlkna.

9.7. Stærðfræði og raungreinar.
    Menntamálaráðuneytið mun leita leiða til að auka áhuga stúlkna á þessum sviðum þegar í yngri bekkjum grunnskóla. Sérstaklega skal athuga að nemendur festist ekki um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og að einstaklingar af báðum kynjum fái sambærileg og jafngild tækifæri.

9.8. Styrkir til jafnréttisfræðslu.
    Við úthlutun styrkja úr Þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla verði hugað sérstaklega að þróunarverkefnum sem tengjast jafnréttisfræðslu og aðgerðum til að bæta stöðu drengja og stúlkna í skólunum.

9.9. Konur og fjölmiðlar – ímyndir kvenna og karla.
    Nefnd um konur og fjölmiðla sem menntamálaráðherra skipaði hefur skilað niðurstöðum og tillögum. Á grundvelli tillagnanna mun ráðuneytið vinna að stefnumótun á þessu sviði.

9.10. Fræðsla um greiningu á afleiðingum ofbeldis.
    Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að í grunnnámi og við endurmenntun kennara og annars starfsfólks skóla sem líklegt er til þess að umgangast þolendur ofbeldis, verði tryggð fræðsla um hvernig greina megi afleiðingar ofbeldis og bregðast við og aðstoða þá sem fyrir ofbeldinu hafa orðið.

9.11. Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni.
    Á vegum menntamálaráðuneytis verði gert átak til að kynna ákvæði jafnréttislaga um kynferðislega áreitni. Í samvinnu við Jafnréttisstofu verða unnar leiðbeiningar, annars vegar til þeirra sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og hins vegar fyrir stjórnendur í skólum um það hvernig best er að bregðast við slíku.

9.12. Nefndir og ráð – hlutur kynja í starfi ráðuneytisins jafnaður.
    Konur eru 34% fulltrúa í nefndum og ráðum menntamálaráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, ráð eða stjórnir af hálfu menntamálaráðuneytisins skal ávallt vísa í 20. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000, og skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðinn a.m.k. 40%.

9.13. Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Með fulltrúanum starfar sérstök jafnréttisnefnd. Fulltrúinn og nefndin skulu standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

10. Samgönguráðuneytið.
10.1. Konur sem atvinnurekendur í ferðaþjónustu.
    Framlag kvenna til ferðaþjónustu verður metið í ljósi þess að ferðaþjónustan skiptir sífellt meira máli fyrir bæði atvinnustig í landinu og tekjur almennt. Markmið þessarar úttektar verður að kanna hvernig konur og karlar koma að þessari vaxandi atvinnugrein og að þá verði unnt að meta hvort og þá hvernig breytingar eða sérstakar stuðningsaðgerðir gagnist konum sem körlum.

10.2. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 10% fulltrúa sem sitja í nefndum og ráðum samgönguráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar þriðja aðila, skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutur kvenna orðinn a.m.k. 25%.

10.3. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa fræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

11. Sjávarútvegsráðuneytið.
11.1. Konur og atvinnurekstur í sjávarútvegi.
    Kannað verður hvort og þá á hvaða sviðum sjávarútvegs konur hafa haslað sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur. Aðgengi kvenna að fyrirgreiðslu í formi styrkja eða lána verði sérstaklega kannað. Leiði könnunin í ljós sérstök sóknarfæri fyrir konur í þessum atvinnurekstri verða þau styrkt sérstaklega. Á sama hátt verður gripið til sértækra aðgerða ef könnunin leiðir í ljós mismunun sem skýra má með kynferði.

11.2. Sérstaða sjómanna og fjölskylduaðstæður.
    Könnuð verða áhrif langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna á grundvelli forkönnunar sem gerð hefur verið.

11.3. Átak til að jafna hlut kynja í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 16% fulltrúa í nefndum og ráðum umhverfisráðuneytis. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar frá öðrum skal áfram eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 30%.

11.4. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

12.     Umhverfisráðuneytið.
12.1 Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og fylgjast með jafnréttisstarfi stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna í ráðuneytinu ef ástæða er talin til þess. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa jafnréttisfræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

12.2. Jafnréttisáætlun og námskeið.
    Jafnréttisnefnd ráðuneytisins endurskoðar jafnréttisáætlun þess á tveggja ára fresti. Það verður gert í fyrsta skipti árið 2002 og næst árið 2004. Einnig skal nefndin sjá til þess að haldin verði námskeið um gerð jafnréttisáætlana fyrir forstöðumenn stofnana og námskeið um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í ákvarðanatöku um umhverfismál fyrir stjórnendur í ráðuneytinu og stofnunum þess.

12.3. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 26% fulltrúa í nefndum og ráðum umhverfisráðuneytis. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ráðuneytisins skal óskað eftir tveimur tilnefningum, bæði karli og konu sem ráðuneytið velur svo á milli. Stefnt skal að því að í lok áætlunarinnar verði hlutfall kvenna í nefndum á vegum ráðuneytisins orðið a.m.k. 40%.

13. Utanríkisráðuneytið.
13.1. Samþætting kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
    Utanríkisráðuneytið mun leggja áherslu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumörkun og starfi alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að, einkum á vettvangi þeirra stofnanna þar sem Ísland gegnir formennsku á tímabilinu, svo sem í Norðurskautsráðinu.

13.2. Konur og karlar í störfum hjá alþjóðastofnunum.
    Settar verða vinnureglur sem kveði á um sem jafnastan hlut kvenna og karla í stöðum hjá alþjóðlegum stofnunum. Þetta ákvæði á ekki einungis við um ráðningu Íslendinga heldur einnig alla þá sem Íslendingar kjósa að styðja í stöður á vegum alþjóðasamtaka.

13.3. Mannréttindabrot gegn konum og stúlkum.
    Utanríkisráðherra mun beita sér fyrir því að samþykktir alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins, sem taka á brotum á mannréttindum sem beinast sérstaklega gegn konum og stúlkum, verði fylgt eftir af íslenskum stjórnvöldum innan lands og í samskiptum við aðrar þjóðir.

13.4. Jafn hlutur kynjanna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Konur eru 14% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum utanríkisráðuneytisins. Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum. Þegar um er að ræða tilnefningar frá öðrum, skal eftir því sem kostur er óska eftir tveimur tilnefningum, konu og karli.

13.5. Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins.
    Jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins er skipaður skv. 11. gr. jafnréttislaga, nr. 96/2000. Hlutverk hans er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Jafnréttisfulltrúi er tengiliður ráðuneytisins við Jafnréttisstofu og skal hann m.a. fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir. Fulltrúinn skal standa fyrir könnun á stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera aðgerðaáætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Sérstök áhersla verði einnig lögð á markvissa fræðslu stjórnenda og annarra starfsmanna.

13.6. Jafnréttisnámskeið.
    Ráðuneytið mun í samstarfi við Jafnréttisstofu standa fyrir jafnréttisnámskeiðum fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum eða vinna að slíkum verkefnum og skulu fyrstu námskeiðin haldin haustið 2002.

     1     Kynferðisleg áreitni er skilgreind svo í 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000: „Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.“