145. löggjafarþing — 51. fundur.
fjárlög 2016, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 585, 599, 600 og 601, brtt. 586, 587, 588, 589, 590, 591, 592, 604, 605, 606, 607, 611 og 612.

[20:01]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 í 2. umr. Mjög margar ræður hafa verið haldnar hér á undan og ýmis sjónarmið viðruð þar. Ég tel nauðsynlegt að skoðanaskipti eigi sér stað og þau eru af hinu góða þó að sannarlega megi líka segja að margoft hefur hið sama verið sagt og spurning um hvort það sé áheyrilegt. En góð vísa er sjaldan of oft kveðin.

Í þessum þriðju fjárlögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á núverandi kjörtímabili stefnir í þriðja sinn í hallalausan ríkisrekstur og er það mjög ánægjuleg staðreynd sem vert er að hampa. Enn er þó nokkuð í land með að hefja niðurgreiðslu skulda og vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru enn þriðji stærsti útgjaldaliðurinn í fjárlögum. Því er full ástæða til aðhalds í ríkisútgjöldum. Nú er það svo að tekjuaukning, sem hefur orðið hjá ríkissjóði, hefur fyrst og fremst verið notuð til að auka framlög til innviðauppbyggingar og grunnþjónustu.

Vert er að geta þess að 32 milljarðar, 32 þús. milljónir, fara á árinu 2016 til að fjármagna kjarabætur sem komu til á árinu 2015. Það eru miklir fjármunir. Því er líka mjög nauðsynlegt að nýta uppgang í atvinnulífinu og auknar ríkistekjur til að greiða niður skuldir á næstu árum. Við verðum að forgangsraða í ríkisrekstri. Það má víða hagræða, eins og margoft hefur verið bent á. Í lokafjárlögum fyrir árið 2014, sem fjárlaganefnd fékk í hendur í gær, kemur fram að ýmsar stofnanir eru að skila margra tuga og hundraða milljóna kr. afgangi. Því er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort fjárþörf þeirra sé rétt metin en þar með er ég ekki að segja að hegna eigi vel reknum ríkisstofnunum.

Fjárlaganefnd hefur lagt mikla áherslu á að stofnanir ríkisins stórauki útboð og beiti hagkvæmustu leiðum við öll innkaup. Það er afar mikilvægt að vel sé farið með fjármuni ríkisins og með útboði á verkum og innkaupum er verið að tryggja að hagkvæmasta tilboð komi fram og sé valið. Meiri hluti fjárlaganefndar vekur eindregna athygli á þróun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs sem hækka ár frá ári. Að öllu óbreyttu verða B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga uppurin árið 2027. Það mun kalla á 20 milljarða kr. árleg útgjöld í tíu ár þaðan í frá áður en þau fara lækkandi aftur. Innan B-deildar eiga þeir sem eru á svonefndri 95 ára reglu, hafi þeir náð samanlögðum lífaldri og starfsaldri upp á 95 ár, rétt á að hefja töku lífeyris. Það þýðir að hafi viðkomandi unnið samfellt hjá ríkinu frá 25 ára aldri getur hann hafið töku lífeyris 60 ára.

Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á uppsafnaða fjárfestingarþörf í innviðum, svo sem í samgöngumannvirkjum. Víða um land eru enn malarvegir sem eru mikið keyrðir og þá sérstaklega á sumrin með auknum fjölda ferðamanna sem fara um Ísland. Þessir vegir skapa oft hættu og því er nauðsynlegt að huga að því að leggja á þá bundið slitlag jafnt og þétt og sem allra fyrst. Því miður hefur vegakerfið í heild víða látið á sjá og er mikil þörf á umbótum.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur borið hita og þunga af vinnu við skipulagningu umbóta í fjarskiptamálum. Hringtenging ljósleiðara um landið er gríðarlega mikið byggðamál og skiptir miklu máli fyrir alla uppbyggingu, ekki síst fyrir dreifðar byggðir landsins. Á öllum fundum landsbyggðarþingmanna með sveitarstjórnarmönnum í kjördæmaviku, og á öðrum fundum í kjördæmi eða með fjárlaganefnd, hefur komið fram eindregin ábending um mikilvægi þess að góðir og stöðugir fjarskiptamöguleikar, tenging við internetið, séu lykilatriði til að halda í unga fólkið eða ná því heim aftur til uppbyggingar atvinnulífs, mennta og menningar og blómlegs mannlífs á landsbyggðinni.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögu við tekjuáætlun frumvarpsins sem nemur 4.236,3 millj. kr. til hækkunar tekna og einnig breytingartillögu við sundurliðun 2, þ.e. fjármál ríkisaðila í A-hluta, sem nemur 8.802,7 millj. kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða heildartekjur ársins því 700.555,3 millj. kr. og gjöldin 689.835,2 millj. kr. Heildarafkoma verður því þannig að afgangur verður 10.720,1 millj. kr. sem er rúmlega 4,5 milljörðum lægra en gert var ráð fyrir í frumvarpinu við framlagningu þess í september.

Meiri hluti fjárlaganefndar telur miklar líkur á því að arðgreiðslur frá Landsbankanum verði hærri en sá 7,1 milljarður sem áætlaður er í frumvarpinu. Í ljósi reynslu liðinna ára og athugunar á milliuppgjöri bankans það sem af er árinu er líklegt að arðgreiðslur verði allnokkrum milljörðum hærri en í áætlun. Engu að síður gætir meiri hlutinn að almennum varúðarsjónarmiðum og leggur ekki til hækkun á áætlun um arðgreiðslur.

Breytingartillögur á útgjaldaliðum frumvarpsins koma til vegna ýmissa ákvarðana sem ríkisstjórn hefur tekið. Þar má nefna að 1 milljarður er ætlaður til að aðstoða hælisleitendur og flóttafólk. Tillaga er um 840 milljónir í tímabundið átak til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu, svo sem kransæðavíkkunum, liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum. 280 milljónir eru veittar í rannsóknarverkefni vegna lifrarbólgu C. Einnig er lagt til 490 millj. kr. framlag til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, 400 milljónir eru til að efla almenna löggæslu, 250 milljónir fara til aðgerða í loftslagsmálum, svo að nokkuð sé nefnt af því sem finna má í breytingartillögum.

Auk þess leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að bætt verði við gjaldaheimildum í tilteknum málaflokkum. Þar má nefna 400 millj. kr. til hafnarframkvæmda víða um land, sem tilgreindar eru í nefndaráliti. Þá eru aðrar 400 millj. kr. ætlaðar til uppbyggingar á flugvöllum innan lands, meðal annars 150 milljónir til Húsavíkurflugvallar og 80 milljónir til Norðfjarðarflugvallar. Til Fjarskiptasjóðs eru veittar tímabundið 200 millj. kr. til að hraða uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða og 235 millj. kr. til Vegagerðarinnar. Þá verða 150 milljónir lagðar til rannsókna vegna fyrirhugaðra Fjarðarheiðarganga. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að framlög til Háskólans á Akureyri verði hækkuð um 40 milljónir, til Háskólans á Hólum um 25 milljónir, til Háskólans á Bifröst um 50 milljónir og til Landbúnaðarháskóla Íslands um 25 milljónir.

Hæstv. forseti. Þegar talið berst að uppbyggingu innviða koma skólar landsins eðli máls samkvæmt í minn hug. Framhaldsskólar og háskólar eru flestir ríkisreknir og hér birtist viðleitni meiri hluta fjárlaganefndar til að rétta hlut háskóla á landsbyggðinni að einhverju leyti á árinu 2016. Þetta dugar þó hvergi nærri til. Við þurfum að taka mið af því sem eðlilegt er talið í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Þegar við lítum til framhaldsskólans er staðan enn verri. Framlög til þeirra hafa um langan tíma, á annan áratug, verið mun lægri en þau þurfa og eiga að vera. Framhaldsskólinn hefur verið fjársveltur svo að framlög hans duga ekki til eðlilegrar endurnýjunar á starfsaðstöðu, tækjakosti, aðbúnaði og til ýmiss annars sem til þarf í einum framhaldsskóla í dag. Enda er það svo að þegar fjárveitingar til íslenskra framhaldsskóla eru bornar saman við fjárveitingar til framhaldsskóla í nágrannalöndum okkar kemur í ljós að Ísland vermir botninn á öllum sviðum. Aldrei var gert ráð fyrir því stóraukna fjárframlagi sem þurfti til þegar framhaldsskólinn var gerður að skóla fyrir alla sem út úr grunnskóla kæmu. Framhaldsskólinn átti að bregðast við mjög misjöfnum aðstæðum og námsgetu, félagslegum þörfum og námslegum stuðningi sem slík breyting hafði í för með sér. Enn bættist í það hlutverk þegar lögræðisaldur var hækkaður í átján ár.

Hæstv. forseti. Við erum ekki að gera miklu meira fyrir miklu minna fjármagn hér á landi í menntamálum. Það er blekking. Það þarf að veita mun meira fjármagn í menntamál ef við ætlum ekki að dragast frekar aftur úr á því sviði.



[20:12]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir að koma hér í ræðustól og ræða um fjárlög við 2. umr. Mér finnst það gott. Mér finnst að það eigi að vera svo að nefndarmenn í nefndum tjái sig og gefi okkur þá kost á að koma í andsvar og eiga samtal við viðkomandi þingmann. Það er hluti af því sem mér finnst að hafi alltaf verið í gildi hér en hefur aðeins farið dvínandi.

Nú fer hv. þingmaður yfir nokkrar breytingartillögur og ræðir það meðal annars að tekjurnar verði meiri en þær eru vegna þess að þau viti að þau fái meiri arð af Landsbankanum. Nú liggur fyrir, við fjárlög 2016, að ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar ekkert að gera í því að bæta öldruðum og öryrkjum það sem þau ættu að fá samkvæmt kjarasamningi og eins og við höfum verið að gera í átt að hækkunum lægstu launa o.s.frv. Af hverju er ekki gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu?



[20:13]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt að gert er ráð fyrir því að tekjur muni aukast umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. En eins og hv. þingmaður veit þá er ekkert öruggt í hendi en við skulum vona að svo verði.

Hv. þingmaður beinir að mér spurningu, varðandi það að gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir fái hækkun til jafns við hækkun lægstu launa, en ég ætla ekki að svara henni hér. Ég er búin með tímann en hann beinir spurningunni kannski til mín aftur.



[20:14]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, tíminn er skammur, bara ein mínúta. Þá skal ég hafa þetta stutt og hnitmiðað: Af hverju fá aldraðir og öryrkjar ekki afturvirka hækkun eins og allir aðrir í þjóðfélaginu á þessu ári 2015? Af hverju er ekki gert ráð fyrir að aldraðir og öryrkjar fái hækkun eins og allir aðrir í þjóðfélaginu 1. maí nk. sem er í kringum 5–10%?



[20:15]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa fyrirspurn hv. þingmanns. Nú er það svo að gert er ráð fyrir því með lögum að farið sé yfir kjör aldraðra um áramót. Það er viðtekin venja að um áramót sé tekið mið af því hver launaþróun hefur orðið í þjóðfélaginu og hvaða verðbólga hefur verið og kjör aldraðra og öryrkja taka mið af þeim þáttum. Hærri tala hverju sinni er það sem lagt er til grundvallar þegar hækkun á kjörum aldraðra og öryrkja er ákveðin. Með því er ég ekki að segja að aldraðir og öryrkjar séu vel settir. Við vitum vel að svo er ekki.



[20:16]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi framhaldsskólana og rekstrarumhverfi þeirra og hefur greinilega miklar áhyggjur af því sem þar er að gerast. Ég tek undir áhyggjur þingmannsins hvað það varðar. Engar sérstakar breytingartillögur eru frá meiri hluta fjárlaganefndar sem ganga til framhaldsskólanna almennt. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hún ekki áhyggjur af því? Hefur hún barist og reynt að hafa áhrif þar á en orðið undir í þeirri baráttu? Ég spyr hv. þingmann líka um framhaldsskóla úti á landi nú þegar atvinnuleysi er minna og færri eru í árgöngum, stytting námstíma til stúdentspróf fer að tikka inn og skólarnir hafa ekki leyfi til að sinna menntunarþörf á svæðinu þar sem 25 ára og eldri eru síðastir inn og skólunum er þröngur stakkur skorinn til að taka við slíkum nemendum. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því (Forseti hringir.) að stoðir samfélaganna úti um land veikist á næstu árum ef eitthvað stórkostlegt gerist ekki í þeim efnum?



[20:17]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir spurninguna. Eins og hv. þingmanni er kunnugt hef ég svo sannarlega áhyggjur af því og hef haft lengi að það fjármagn sem fer í framhaldsskólana sé allt of lítið. Eins og ég sagði í lokaorðum mínum þá menntum við ekki okkar unga fólk miklu betur fyrir miklu minna fjármagn, ef við berum okkur saman við nágrannalönd sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Það er hins vegar svo að ekki verður allt gert í einu. Við höfum lagt á það áherslu að setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið, en ég er algerlega tilbúin að berjast fyrir því ef ég hef aðstöðu til þess að meira fjármagn (Forseti hringir.) muni á næstu árum koma inn í framhaldsskóla landsins.



[20:18]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er tilbúin til að leggja hv. þingmanni lið hvað það varðar. En ég vil spyrja hv. þingmann út í Ríkisútvarpið. Boðað hefur verið að hæstv. menntamálaráðherra komi hér með frumvarp sem gengur út á að útvarpsgjaldið verði það sama á árinu 2016 og á árinu 2015. Við höfum hins vegar ekki fengið að sjá það frumvarp og tíminn líður. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við eigum von á því frumvarpi hér til umræðu og afgreiðslu fyrir jól. Ef það gerist ekki, hvað telur hún að muni gerast hjá Ríkisútvarpinu ef það vantar 500 millj. kr. í reksturinn á næsta ári? Hvers lags breytingar sér hún þá fyrir sér á rekstrarumhverfi og rekstri Ríkisútvarpsins?



[20:20]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín í fyrra andsvari varðandi áhyggjur af innviðum framhaldsskóla úti á landi. Ég ætla samt að byrja á að taka fram að sú sem hér stendur hefur ekki séð það frumvarp sem hv. þingmaður talar um af hálfu menntamálaráðherra þannig að ég get ekki svarað fyrir það og mun ekki gera það.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af innviðum framhaldsskólanna. Við erum að fara í styttingu á námi til stúdentsprófs. Það er alveg ákveðið. Varðandi áhyggjur hv. þingmanns af fólki 25 ára og eldri, þá hefur vissulega verið ákveðinn hópur af nemendum á undanförnum áratugum sem eru 25 ára og eldri. Staðan er hins vegar sú (Forseti hringir.) nú að þó svo að það sé almenn regla að 25 ára og eldri (Forseti hringir.) fari ekki inn í framhaldsskólana mun verða pláss fyrir þá í minni skólum úti á landi svo (Forseti hringir.) fremi sem nemendur vantar inn í þá skóla. (Gripið fram í.)



[20:21]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja út í þær breytingartillögur sem snúa að því að rétta við rekstrarhalla eða koma í veg fyrir rekstrarhalla. Það eru að minnsta kosti fjórar svona tillögur í breytingartillögunum. Við þekkjum það vel úr fjárlaganefndinni að við höfum verið að tala um vandamálin sem eru við halaklippingar eða þegar skuldahalar eru teknir af, þá er þar ekki jafnræði, jafnvel gagnvart öðrum stofnunum. Við vitum og höfum líka rætt það í nefndinni, eins og hv. þingmaður þekkir, að stofnunum sem standa sig afar vel, eins og Háskólinn á Akureyri, er ekki endilega umbunað fyrir það.

Ég skil ekki af hverju verið er að koma hér inn í breytingartillögur einhverjum tillögum um að rétta af rekstrarhalla í að minnsta kosti fjórum liðum. Finnst hv. þingmanni þetta vera gott verklag, að það sé ákveðið með þessum hætti? Það fari þá ekki bara í gegnum ráðuneytin og þar sem jafnræðis er gætt.



[20:22]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir, sem ég þakka andsvarið, sé að tala um þá fjóra landsbyggðarháskóla sem settar eru viðbótarfjárveitingar í milli umræðna. Ég tel að þegar hv. þingmenn fara um landið í kjördæmaviku, þegar hv. þingmenn fá heimsóknir fyrir fjárlaganefnd, þegar hv. þingmenn ræða í kjördæmum á sérstökum fundum við forstöðumenn þeirra stofnana og bornar eru fram rökstuddar óskir, þá get ég ekki séð og ég hef ekki tekið þátt í því að fara þessa leið nema ég telji að hún sé rétt og ég tel að full ástæða sé til að setja fjármagn í þær stofnanir. Ég tel jafnframt (Forseti hringir.) að þetta sé bein ábending til menntamálayfirvalda að rétta þurfi hlut þessara stofnana.



[20:24]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum að staða skólanna er ekki góð. Ég held að meira þurfi til en þær fjárveitingar sem hér eru settar. En ég er líka að tala til dæmis um 25 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar. Ég hugsa að við séum sammála um það að við séum hrifnar af því verklagi sem þar er í gangi. En þar hefur verið mikill halli. Og svo segir í nefndaráliti meiri hluta: „Brýnt er að stofnaðilar láti gera úttekt á starfseminni sem fyrst í ljósi fjárhagsstöðu stofnunarinnar.“

Þá spyr ég: Af hverju er þessi úttekt ekki gerð áður en hv. meiri hluti tekur ákvörðun um til dæmis að veita 25 millj. kr. í það verkefni? Eins eru 15 milljónir sem eru til að rétta af rekstrarhalla Snorrastofu. Það sem ég er að segja er að það eru svo margar stofnanir þarna úti sem glíma við rekstrarvanda. Og að ákveða með þessum hætti hver á að fá aukainnspýtingu og hver ekki er flókið mál. Það þarf að gæta jafnræðis. Það finnst mér eitt mikilvægasta hlutverkið sem við erum hérna í, að reyna að tryggja jafnræði þegar við erum að útdeila þeim (Forseti hringir.) takmörkuðu fjármunum sem við höfum.



[20:25]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir andsvarið. Ég vil taka fram og segja það sem mína meiningu að mér finnst það skjóta skökku við þegar verið er að fetta fingur, eins og er verið að gera hér, út í það að minni stofnanir úti á landi fái viðbótarfjárveitingu á sama tíma og gerðar eru kröfur um stórauknar viðbótarfjárveitingar í stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel sem landsbyggðarþingmaður að það sé ein af mínum frumskyldum að gæta hagsmuna þeirra stofnana sem eru úti á landi og í mínu kjördæmi.



[20:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hún sagði að sumar stofnanir nýttu ekki allar þær fjárheimildir sem þær hefðu í fjárlögum — sem er rétt og sem betur fer — og í sömu setningu að kannski ætti að velta því fyrir sér hvort þær þyrftu þá fjármuni. Hún sagði einnig að með því væri hún ekki að leggja til að stofnunum yrði refsað fyrir að standa sína plikt gagnvart fjárlögum.

Ég hváði svolítið við þetta, vegna þess að menn þekkja þess dæmi, reyndar frekar mörg, að það er notað sem réttlæting fyrir lægri fjárveitingu, eða í það minnsta réttlætingu fyrir að fjárveitingar séu ekki auknar þegar talin er þörf á því, að stofnunin standi sína plikt. Ég nefni sem dæmi Háskóla Íslands sem stendur við sínar skyldur. Sú staðreynd er notuð sem röksemd gegn því ýmist að auka fjármagn eða jafnvel fyrir því að draga úr fjármagni. Ég velti fyrir mér hvernig við leysum þennan hnút sem virðist koma fram í þessari umræðu.



[20:27]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Nú er það svo að stofnunum er ákvarðað ákveðið fjármagn árlega. Í sumum tilfellum fer það eftir svonefndu reiknilíkani, eins og til dæmis hjá framhaldsskólunum. Reiknilíkönin eru með þeim annmarka að þau reikna út frá meðalkúrfu. Sumar stofnanir fá kannski fjármagn umfram það sem þörf er á meðan aðrar fá alls ekki það fjármagn sem þær þurfa á að halda. Þegar við stöndum frammi fyrir því að sömu stofnanir eru kannski ár eftir ár með afgang af rekstrarfé þá safnast upp höfuðsjóður sem ég tel, og ég meina það, að sé af hinu góða. Ég vil fá að klára þetta svar í síðara andsvari.



[20:28]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er guðvelkomið að halda áfram með þetta svar. Þetta er eitthvað, eins og hv. þingmaður veit sjálfsagt, sem kemur upp þegar fjárlög eru til umræðu, sér í lagi í nefndum, þ.e. hver ber ábyrgð á því að farið sé eftir fjárlögum. Við lendum alltaf í sömu umræðunni um fjáraukalög og þar vilja menn fara að leiðrétta eitthvað sem var ákveðið fyrr á árinu, og ég hef nú alveg gengið í þá gildru sjálfur ef út í það er farið.

En mér finnst að formlegt kerfi þurfi að vera til staðar til að það sé hvati fyrir aðila innan stjórnsýslunnar til að standast fjárlög án þess að eiga hættu á því að vera refsað fyrir það eða mæta skilningsleysi við aukinni fjárþörf. Þetta er eitthvað sem ég held að mundi hjálpa okkur mikið til við að fá stofnanir til þess að standa við sitt gagnvart fjárlögum, ef þetta væri skýrt. Þess vegna óska ég eftir hugmyndum frá hv. þingmanni, eða hverjum sem er öðrum, um það hvernig við getum gert það að veruleika.



[20:29]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, svo að ég haldi áfram með mitt fyrra svar þá er það þannig að stofnanir geta safnað upp afgangi, allt að 10% af rekstrarframlagi. Þegar stofnun fer yfir það er farið að skera af. Það má til sanns vegar færa að stofnanir sem reka sig vel, eða stofnanir sem koma vel út úr reiknilíkani — það er ósanngjarnt að taka þennan rekstrarhagnað af. En þegar við erum í þeirri stöðu að vera alltaf að togast á um fjármuni og reyna að skipta þeim sem réttlátast þá er eðlilegt að við horfum á það að þarna eru fjármunir sem eru alla vega á þeim tíma ónýttir og gætu nýst betur annars staðar. Það er svo annar handleggur hvort við getum fundið upp eitthvert kerfi sem gerir að verkum að við getum nýtt þetta fjármagn betur.



[20:30]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar við 2. umr. um fjárlög ársins 2016 segja að ég tel það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir vera um ansi margt ekki gott. Í stuttu máli má segja að það sé vegna þess að ég tel frumvarpið vera til þess fallið að auka ójöfnuð í samfélaginu en ekki draga úr honum. Ekki er verið að styrkja innviði samfélagsins eins og þarf að gera og ekki er verið að styrkja velferðarsamfélagið heldur veikja það vegna þess að því er ekki ætlað nægilegt fjármagn. Ég mun fara nánar í gegnum þetta síðar í ræðu minni og mun vissulega koma ansi víða við en það er líka ansi margt undir.

Við ræðum hér að sjálfsögðu þau mál sem snúa að útgjöldum ríkisins en mér finnst ekki hægt að fara í þá umræðu án þess að koma aðeins inn á það hvernig teknanna er aflað. Líkt og svo ágætlega er dregið fram í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar hafa tekjustofnar ríkissjóðs markvisst verið veiktir í tíð núverandi ríkisstjórnar um fjárhæð sem nemur samanlagt að minnsta kosti 35–40 milljörðum króna. Fyrir þá peninga er hægt að gera ansi margt. Öll umræða um skattamál og útgjöld ríkisins er að sjálfsögðu hápólitísk og snýst um það hvernig samfélag við viljum byggja og hvernig við viljum reka það. Um þessi grundvallaratriði er tekist á í umræðu um fjárlög.

Sú sem hér stendur gerir sér grein fyrir því að það kostar að reka velferðarsamfélag þar sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar búa við mannsæmandi kjör og heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða. Það kostar að gera við vegi og byggja nýja, það kostar að byggja upp ferðamannastaði. En sú sem hér stendur fer heldur ekkert leynt með það að vilja nota skattkerfið til þess að afla tekna til samfélagslegra verkefna og telur jafnframt að það skipti máli hvernig það sé gert. Það er að þeir sem eru í bestum efnum, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki, leggi hlutfallslega meira til samfélagsins en þeir sem efnaminni eru. Þess vegna finnst mér það skipta miklu máli að um leið og minni hluti hv. fjárlaganefndar leggur fram breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga um aukin útgjöld ríkisins sé jafnframt lagt til hvernig eigi að afla fjárins til þess að fjármagna þær. Þannig vinnubrögð eru að mínu mati til fyrirmyndar og sýna ábyrgð þegar kemur að ríkisfjármálunum.

Dæmi um þá tekjuöflun sem minni hlutinn leggur til eru meðal annars veiðigjöld, arður af bönkum og orkuskattur á stóriðju. Mig langar aðeins að fjalla um veiðigjöldin sérstaklega, en í nefndaráliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að með breytingunum á veiðigjaldinu í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ríkissjóður nú þegar orðið af milljörðum króna og allt útlit fyrir að þær tekjur fari áfram lækkandi miðað við nýjustu tölur frá Fiskistofu.“

Eins og flestum er líklega kunnugt hafa veiðigjöld á síðustu árum í tíð þessarar ríkisstjórnar verið lækkuð og það á sama tíma og stórútgerðin er að skila gríðarlega miklum hagnaði og hefur greitt sér gríðarlega mikinn arð. (VigH: 2012.) Við það að lækka veiðigjöldin verður ríkissjóður af talsvert miklum tekjum sem ég tel að við ættum sem samfélag að nýta í það sem ég nefndi hér áðan, það sem kostar peninga, þ.e. velferðarsamfélagið og innviðina.

Það er annað sem mig langar að gera sérstaklega að umtalsefni en það er að einnig er verið að afnema umhverfis- og auðlindaskatta. Það segir í nefndaráliti 2. minni hluta hv. fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Það er umhugsunarvert á tímum þegar þjóðir heims eru saman komnar á einni mikilvægustu ráðstefnu um loftslagsmál og samhugur ríkir meðal þeirra um að draga úr losun jarðefnaeldsneytis, þá sé áhersla íslensku ríkisstjórnarinnar að leggja af umhverfis- og auðlindaskatta sem er eitt allra öflugasta tækið sem ríkisstjórnir hafa í baráttunni fyrir framtíðarkynslóðir þegar kemur að verndun umhverfis okkar.“

Hér verð ég að taka undir með 2. minni hluta. Ég skil þetta eiginlega ekki. Ég hefði haldið að einmitt þessa dagana meðan fulltrúar okkar á Alþingi sitja á loftslagsráðstefnu í París ætti okkur að vera ljóst hversu mikilvægt það er að leggja skatta á mengandi starfsemi. Það hlýtur að vera það sem við viljum gera inn í framtíðina, annars vegar að draga úr mengun og hins vegar að leggja aukna skatta á mengandi starfsemi. Það hlýtur að fara saman. Það vekur einnig sérstaka athygli mína að á sama tíma er verið að veikja tekjur í ríkissjóð sem hafa verið markaðar í loftslagsmál. Þær eru þess í stað látnar renna beint í hina stóru hít ríkissjóðs án þess að eyrnamerkja þær sérstaklega loftslagsmálunum. Á tímum þar sem við erum að kljást við umhverfisógnir sem stafa af hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum hljótum við að þurfa að leggja sérstaka áherslu á þetta. Þess vegna finnst mér mjög miður að sjá þess ekki stað í stefnu ríkisstjórnarinnar.

Viðkvæði hæstv. ríkisstjórnar og meiri hlutans á Alþingi hefur í þessari umræðu mjög oft verið að ekki sé hægt að fara í alls konar innviðastyrkingu eða uppbyggingu eða frekari kjarabætur til lífeyrisþega því það skorti fjármagn. En mér finnst duga ofboðslega lítið að halda því fram þegar ég sé hvergi merki um vilja til að afla fjárins. Þetta er því að mínu mati pólitískt val ríkisstjórnarinnar. Þessi forgangsröðun og þetta pólitíska val kom hvað best fram í atkvæðagreiðslu í gær þegar greidd voru atkvæði um tillögu um afturvirkar bætur til lífeyrisþega sem var felld af þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.

Ég byrjaði þessa ræðu kannski svolítið á neikvæðu nótunum en mig langar líka að tala um eitthvað sem mér finnst jákvætt. Það verður þó að viðurkennast að ég mun verða frekar á neikvæðu nótunum, ég verð frekar gagnrýnin í ræðu minni. Mig langar hins vegar að fagna þeirri ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn tók í haust um að setja aukið fjármagn fyrir árið 2016 til þess að bregðast við þeirri stöðu sem er komin upp í málefnum flóttamanna og á ýmsum stöðum er verið að auka aðeins við fé til þróunarmála og hjálparstarfsemi. Mér finnst það vera gott og jákvætt og mér finnst mikilvægt að nefna það í þessari umræðu. En ég er engu að síður dálítið hugsi yfir því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar þar sem fjallað er um þróunarmál eða þróunaraðstoð eins og stendur þar. Við tölum nú yfirleitt um þróunarsamvinnu, en það er kannski aukaatriði. Þar er því í fyrsta lagi haldið fram að framlög til þróunarsamvinnu hafi hækkað um 690 millj. kr. eða um 50% frá árinu 2011. Ég held að það sé svo sem rétt að framlagið hefur hækkað í krónum talið. Það hefur hins vegar ekki hækkað sem hlutfall af landsframleiðslu, sem hefur einmitt verið að aukast, og er ekki nema 0,21, 0,22 eða 0,23%, ég man það ekki nákvæmlega. Það stendur í þeirri tölu núna en ætti að vera mun hærra og ef við miðum við það hvar við röðumst á listann yfir ríkustu þjóðir heims ætti hlutfallið að vera 0,7% af landsframleiðslu sem við erum langt frá því að uppfylla. Þetta er eitt sem ég rak augun í sem mér finnst dálítið undarlegt, en svo er annað sem ég ekki síður hugsi yfir. Hér er bent á í sambandi við DAC/OECD-viðmiðin, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt þar sem stór hluti útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokkast sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin.“

Hæstv. forseti. Nú er það vissulega svo að samkvæmt viðmiðum DAC/OECD má telja útgjöld vegna hælisleitenda með í þróunaraðstoð. Það á alls ekki að gera og það er mjög misjafnt hvernig þjóðir heimsins gera þetta. Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að blanda þessu tvennu saman heldur eigi að halda því aðskildu. Ástandið í heiminum er einfaldlega þannig að um leið og það er afar mikilvægt að huga vel að móttöku flóttamanna, og eins og ég sagði áðan er ég mjög ánægð með að hæstv. ríkisstjórn sé að setja aukna fjármuni í það, er engu að síður mjög mikilvægt að hlúa sérstaklega að þróunarverkefnum sem eru til þess fallin að styrkja innviði fátækra landa. Að grafa brunna, byggja kamra, sinna mæðravernd svo dæmi séu tekin um verkefni sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur sinnt. Þó svo að nú um stundir sé gríðarlega stór hluti flóttamanna að flýja stríðsátök eru einnig margir sem flýja fátækt og skort á framtíð á sínum heimaslóðum, fólk sem ég hugsa að langi ekkert að yfirgefa heimahagana en sér bara enga leið til að eiga sér framtíð þar og leitar þess vegna til ríkari landa.

Við urðum rækilega vör við þetta í fréttum í dag af albönsku fjölskyldunni sem vísað var í burtu í nótt í skjóli nætur, fjölskyldu sem kom hingað örugglega meðal annars í þeim tilgangi að leita sér betri lífskjara, kom hingað með veikt barn. Það voru meira að segja tvær fjölskyldur sem komu hingað með veik börn. En þeim var synjað um dvalarleyfi. Það er alveg greinilegt á þeim fjölda tölvupósta sem þingmönnum hefur verið að berast í dag að fólki misbýður algerlega þessi framkoma íslenskra stjórnvalda. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las fréttir af þessari brottvísun eða synjun um dvalarleyfi sem og tölvupósta frá Íslendingum umræða frá því fyrir nokkrum missirum þegar Ásdís Halla Bragadóttir sem var þá stjórnarformaður fyrirtækisins Sinnum lét þau ummæli falla að Albanía væri ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri og talaði meðal annars um hefðbundinn pakka, gullpakka og silfurpakka. Það hefði verið áhugavert að vita hvað þessar albönsku fjölskyldur hefðu getað sagt okkur um þeirra sýn á heilbrigðiskerfi heimalandsins. Þetta vakti upp hjá mér óþægileg en að ég tel reyndar mjög svo þörf hugrenningatengsl við íslenska heilbrigðiskerfið, fjármögnun þess, valfrelsi og einkarekstur. Þetta er eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur í tengslum við umræðu um fjárlögin þar sem heilbrigðiskerfið er svo sannarlega undir.

Þetta var eiginlega útúrdúr frá því sem ég var að tala um, að ég telji að við eigum ekki að telja útgjöld vegna hælisleitenda með framlagi okkar til þróunarsamvinnu því ég held að við þurfum að sinna þessu hvoru tveggja. Það þarf fjármagn í hvort tveggja. Þó svo að við getum ekki bjargað öllum getum við svo sannarlega hjálpað einhverjum og það skiptir þá einstaklinga sem fá aðstoð öllu máli. Við megum ekki bara hugsa um þá sem tölur á blaði. Bak við hverja einustu tölu er lifandi manneskja sem á sér líf og drauma og von um betri framtíð.

Ég fagna því þess vegna að minni hlutinn leggi til í breytingartillögum sínum að enn meiri peningar verði settir í framlög til útlendingamála, þ.e. til móttöku flóttamanna og aukins stuðnings við innflytjendur. Það er ágætt eins og kemur fram í tillögum meiri hlutans að styrkja eigi Útlendingastofnun og ég held að það sé mikilvægt að styrkja þá stofnun til þess að hún geti unnið betur og unnið með manneskjulegri hætti. Talað er um að leggja pening í Útlendingastofnun til þess að stytta biðtíma en þá er jafnframt afar mikilvægt að það verði ekki gert til þess að hægt verði að ýta fólki hraðar úr landi. Það má alls ekki verða heldur eiga peningarnir að fara í að bæta málsmeðferðina og flýta henni þannig að fólk geti fengið góða og sanngjarna málsmeðferð á stuttum tíma, þetta verði ekki til þess að hægt verði að ýta fólki hraðar út eins og mér hefur því miður sýnst vera tilhneigingin allt of oft þegar kemur að þessari stofnun.

Það er ýmislegt fleira sem mig langar að nýta tíma minn til að ræða um í tengslum við fjárlögin fyrir komandi ár. Ég ætla að snúa mér að áherslum og breytingartillögum minni hlutans við fjárlögin. Þær breytingartillögur sýna glögglega að hægt er að hafa aðrar áherslur við stjórn landsins. Það er hægt að nýta bætta afkomu ríkissjóðs með öðrum og að mínu mati sanngjarnari hætti því tillögur minni hlutans eru til þess fallnar að vinna gegn ójöfnuði og tryggja að hagsældin skiptist með réttlátari hætti. Í stuttu máli má segja að lögð sé áhersla á bætt kjör þeirra sem búa við lægstu tekjurnar eða hafa lægstu upphæðirnar sér til framfærslu, á heilbrigðismál, á menntamál og innviði samfélagsins. Stærstur hluti þeirra fjármuna sem minni hlutinn vill koma með inn í fjárlagafrumvarpið fari til þess að bæta kjör lífeyrisþega. Bætur lífeyrisþega eru allt of lágar og duga ekki til framfærslu. Þessu áttar almenningur á Íslandi sig alveg á. Öryrkjabandalagið lét gera Gallup-könnun, alvörukönnun sem gerð var með vísindalega kórréttum hætti, og þar kom fram að 90% svarenda töldu sig ekki geta lifað á þeim upphæðum sem fjöldi öryrkja hefur til ráðstöfunar í hverjum mánuði. Þar kom einnig fram að 95% töldu að lífeyrisþegar ættu að fá sambærilegar hækkanir og hækkun lægstu launa var við síðustu kjarasamninga. Sú 3% hækkun sem lífeyrisþegar hafa fengið á árinu 2015 er langt undir meðallaunahækkunum, hvað þá hækkunum lægstu launa, hvort sem er í almennum kjarasamningum, gerðardómum eða kjaradómum.

Ég tel það ekkert nema sanngirni að lífeyrisþegar fái hækkun afturvirkt eins og aðrir hópar fyrir árið 2015 og greiddi atkvæði á þann hátt í gær. Það hefur heyrst í umræðunni og það er sjónarmið sem ég hef nokkrar áhyggjur af að örorkubætur eigi að vera lægri en lægstu laun, eins og það sé bara eitthvert prinsipp til að fylgja. Þessu er ég algerlega ósammála. Við verðum að líta til þess að fólk er oft mjög lengi á örorku, því miður. Við erum að tala um ævitekjur fólks, tekjur ævina út. Sem betur fer eru ekki mjög margir á lægstu töxtunum og sem betur fer eftir því sem fólk eldist og það fær framgang í starfi getur það unnið sig upp í launastiganum. Að því sögðu tel ég auðvitað að hækka eigi lægstu laun enn meira og enginn sé ofhaldinn af þeim launum. En það er þessi hugmynd, að telja að örorkubæturnar eigi að vera lægri en lægstu launin sem ég er svo hrædd við. Ég vil ekki búa í samfélagi sem ætlar að taka meðvitaða ákvörðun um að þeir sem búa við fötlun eða eru með langvinna sjúkdóma og geta þess vegna ekki stundað atvinnu eigi eðli málsins samkvæmt að vera þeir fátækustu í samfélaginu. Það er ekki velferðarsamfélag að mínu mati. Þess vegna þarf að bæta kjör öryrkja. Það gildir líka um ellilífeyrisþega. Því miður er allt of stór hópur sem hefur stritað alla ævina, hefur skilað sínu til samfélagsins í sköttum og öðrum gjöldum sem býr við allt of bág kjör. Þessu þarf að breyta og því er hægt að breyta ef við ákveðum að forgangsraða peningunum þannig.

Hin stóra upphæðin í breytingartillögum minni hlutans fer til Landspítalans þar sem eru settir inn auknir fjármunir vegna viðhalds, vegna kjarasamninga og vegna magnaukningar sem orðið hefur þar sem það eru einfaldlega fleiri sem þurfa að nýta sér spítalann, en ekki hefur verið tekið tillit til þess í þeim fjármunum sem ráðstafað hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég held að allir átti sig á því að ef við ætlum að hafa heilbrigðiskerfi sem nálgast það að vera á heimsvísu þarf að setja miklu meiri peninga í Landspítalann. Stjórnarmeirihlutinn segist forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins en svo mikill vandi blasir við að hann verður ekki leystur nema með breyttum áherslum. Ég fagna því þess vegna sérstaklega að minni hluti fjárlaganefndar hafi annars vegar fundið leið til að afla fjár og hins vegar til að dreifa því aftur til spítalans.

Í tillögum minni hlutans er líka gert ráð fyrir að barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki Fæðingarorlofssjóðs upp í 500 þús. kr. og að skerðingarviðmið barnabóta verði hækkuð og þar með barnabætur. Þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að koma til móts við barnafjölskyldur í landinu og bæta kjör þeirra. Þá vill minni hlutinn einnig setja aukna fjármuni í menntakerfið, í fyrsta lagi í framhaldsskólana en það segir í nefndaráliti 2. minni hluta að fjölbreytni hafi verið einn af helstu kostunum við íslenska framhaldsskólakerfið en núverandi ríkisstjórn sé smám saman að breyta menntakerfinu í gegnum fjárlög án þess að um það fari fram víðtæk umræða í samfélaginu og á Alþingi. Verið sé að beina þeim sem eru 25 ára og eldri inn á dýrari leiðir til að afla sér menntunar í gegnum einkaskóla, þ.e. með skorti á fjármagni sé í raun verið að setja aðgangstakmarkanir á þá sem eru 25 ára og eldri í framhaldsskólana. Ég fagna því þess vegna að stjórnarandstaðan leggi til aukna fjármuni. Það að fólk hafi getað snúið aftur í nám á framhaldsskólastigi á fullorðinsaldri hefur í mínum huga verið einn af stóru kostunum við íslenskt samfélag, að það fari ekki allir bara eina leið, þ.e. ljúki grunnskóla, fari í framhaldsskóla og síðan í háskóla. Hingað til hefur fólk sem einhverra hluta vegna hefur flosnað upp úr námi eða ákveðið að taka sér hlé frá námi, hefur eignast börn snemma eða af einhverjum ástæðum farið út á vinnumarkaðinn, getað farið aftur í skóla. Það er ekkert sjálfgefið að fólk geti það í öðrum löndum. Það er alls ekki sjálfgefið lengur á Íslandi, en ég tel að þetta hafi verið mikill kostur í samfélagi okkar. Í öðru lagi þarf aukna peninga í háskólana og það sést kannski hvað best á því að samkvæmt nýlegri skýrslu OECD eru framlög á hvern háskólanema á Íslandi mjög lág og langt frá því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Þegar kemur að innviðum samfélagsins er nærtækast að nefna það sem fleiri hafa að sjálfsögðu gert hér á undan mér en það er bara vegna þess að það eru slík risamál. Það eru annars vegar samgöngumálin. Það vantar algerlega peninga í viðhald á vegakerfinu og í nýjar vegaframkvæmdir. Ég tek undir með 2. minni hluta hv. fjárlaganefndar sem segir í nefndaráliti að ríkisstjórnina skorti algerlega framtíðarsýn í samgöngumálum. Það að engin samgönguáætlun liggi fyrir segir auðvitað ansi margt. Hins vegar er það Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Nú erum við nýbúin að setja peninga þar inn eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. um fjáraukalög. Það þarf að gera ráð fyrir alvöruupphæðum, vil ég leyfa mér að segja, í fjárlagafrumvarpinu þegar kemur að þessum tveimur risamálum.

Ég sé að tíminn líður frekar hratt. Það er eitt mál sem mig langar að koma inn á áður en tími minn er búinn. Það eru málefni fatlaðs fólks sem eru mér mjög hugleikin. Fjallað er um þau í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar sem og minni hlutans. Eins og allir líklega vita voru málefni fatlaðs fólks flutt frá ríki til sveitarfélaga í byrjun árs 2011. Á undanförnum árum hefur orðið ljóst að þeir fjármunir sem fylgdu flutningnum duga ekki. Það hefur orðið krafa um aukna þjónustu og það hefur hreinlega sýnt sig að meðan verkefnið var hjá ríkinu var ekki verið að veita næga þjónustu. Þegar það kom síðan inn í nærumhverfið kom aukin þörf fyrir þjónustu í ljós. Auk þess hafa kröfurnar verið að breytast. Bæði er fatlað fólk sjálft farið að gera meiri kröfur og skilningur samfélagsins á þörfum fatlaðs fólks hefur líka verið að aukast. Má þar nefna samning Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur skrifað undir, þótt við höfum ekki enn þá fullgilt hann. Við erum held ég smátt og smátt sem samfélag að tileinka okkur þá hugmyndafræði sem þar kemur fram. Þess vegna er alveg ljóst að meiri peninga vantar í þetta verkefni. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar að á fundum nefndarinnar hafi komið fram að nær öll sveitarfélögin reka þennan málaflokk með tapi. Það er jafnvel talað um það í nefndaráliti 2. minni hluta að staðan sýni að um 1,2 milljarða vanti í málaflokkinn. Það kom fram í máli hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar Vigdísar Hauksdóttur að viðræður séu í gangi milli ríkis og sveitarfélaga vegna yfirfærslu málaflokksins. Ég vona innilega að það takist að koma með einhverja breytingu og ná einhverri lendingu í þessu máli um að ríkið komi með (Forseti hringir.) myndarlegri hætti inn í þetta áður en við afgreiðum fjárlög því málaflokkurinn á það svo sannarlega skilið.



[21:11]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst mjög athyglisvert sem kemur fram í áliti meiri hlutans og hv. þingmaður vitnar í sem snýr að þróunaraðstoð sem hlutfall af þjóðartekjum. Hér er verið að segja að við séum að reikna þetta vitlaust af því að við séum með aðstoð við flóttamenn inni í þessum tölum. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé skýrt, en hv. þingmaður nefndi að þetta væri svolítið misjafnt eftir löndum. Ég þekki það ekki. En ég get alveg skilið, ef það er rétt sem hér er sagt þá er það auðvitað ekki gott ef við erum að tala um einhverja allt aðra tölu en fólk gerir síðan í öðrum löndum. Ætti að vera þá bara tvær, menn ættu að taka þróunarhjálpina með flóttamannaaðstoðinni og svo án, til að við höfum þá eitthvað til að bera okkur saman við. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður skilur mig.



[21:12]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er þannig sem Ísland er að gera þetta núna. Við erum með þetta aðskilið. Við erum annars vegar með peningana sem fara í þróunarsamvinnu og svo hins vegar útgjöld til hælisleitenda. Tæknilega séð má hins vegar setja þetta saman. Ef við mundum gera það mundi hlutfallið sem Ísland er að verja til þróunarsamvinnu fara upp í 0,25%. Ég held meira að segja að sum Norðurlanda geri þetta svona, reikni þetta saman. En eins og ég rakti í ræðu minni er ég því mótfallin að við förum þá leið. Mér finnst að við eigum bara að halda þessu aðskildu vegna þess að þetta eru tvö gríðarlega ólík en mikilvæg verkefni. Við eigum líka að hafa línurnar svolítið skýrar í þessu, hvað er fyrir hvað.



[21:13]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já. Hv. þingmaður hefur sannfært mig. Ég ætla ekki að ræða meira um þetta mál.

En það er eitt sem við getum rætt um í tengslum við þessa fjárlagagerð. Það er aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Þá erum við að tala um heilsugæsluna. Ég er persónulega kannski ekki endilega hrædd við það að einkarekstur sé í gangi svo framarlega sem það er eftirlit og við viðurkennum það líka að mikill einkarekstur er í gangi í heilbrigðisþjónustunni í dag, allir sérfræðilæknarnir, ég veit ekki hvort við eigum að tala um SÁÁ sem einkarekstur en þó, næstum því.

Telur hv. þingmaður að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessu? Ég get tekið undir þá gagnrýni sem hefur komið fram að þetta hafi í sjálfu sér ekki verið rætt. Þessari stefnumótun er einhvern veginn laumað inn í fjárlagafrumvarpið. Það er eðlilegt að umræða fari fram um þetta í þingsal og þá ekki bara í tengslum við fjárlagagerðina. Telur hv. þingmaður að þetta sé eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af, að einkarekstur aukist í heilsugæslunni?



[21:14]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það má eiginlega segja að það séu tvær ólíkar tegundir af einkarekstri í gangi í heilbrigðiskerfinu. Annars vegar eru ýmsar sjálfseignarstofnanir sem eru reknar í einkarekstri en tilgangur þeirra er ekki að skila neinum hagnaði. Ég hef í raun ekkert út á það rekstrarform að setja. Það sem ég hef áhyggjur af er einkarekstur þar sem einhvers konar ábatasjónarmið er leiðarstefið, vegna þess að mér finnst það pólitík sem ég vil ekki taka þátt í, þ.e. að á einhvern hátt sé verið að taka gróða af sjúklingum. Það er í rauninni meginástæða þess að ég tel að ríkið eigi að vera í rekstri (Forseti hringir.) þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Svo held ég reyndar líka að ríkið geti gert það vegna þess að allur ábatinn fer inn í samfélagið aftur, þá ráði önnur sjónarmið þar.



[21:16]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú hafa hagfræðingar OECD tjáð sig um mikilvægi jöfnuðar í ríkjum heims og áhrif jöfnuðar á auðlegð og hagsæld og hagvöxt. Piketty skrifaði um það metsölubók og Angus Deaton fékk hagfræðiverðlaun 2015 og skrifar líka mikið um það. En hægri stjórnin á Íslandi er að draga úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins, bæði tekjuskattskerfisins og annars. Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hún að hægri stjórnin sé bara ekki nægilega vel lesin í fræðunum til að átta sig á því að hún er á algerlega rangri leið og að þetta er gamaldags pólitík (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og ætti hið snarasta að snúa af þessari braut?



[21:17]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel svo sannarlega að hægri stjórnin ætti sem snarast að snúa af þessari braut. Ég er einn þeirra þingmanna sem hafa nokkuð oft talað um brauðmolakenninguna úr þessum ræðustól. Það er sú hagfræði sem mér hefur þótt þessi ríkisstjórn stunda. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að hv. þingmenn eru illa lesnir eða hvort það er einfaldlega vegna þess að hv. þingmenn trúa því að það sé hagfræði sem virkar. Ég sé ekkert við hana sem virkar. Á 19. öld og 20. öld gátu menn kannski leyft sér að hugsa alltaf að við ættum að stækka kökuna, að við ættum að framleiða meira. Það sem við þurfum að gera á 21. öldinni er að gera minna en samt að tryggja lífskjör fólks. Þá hljótum við að hugsa um það hvernig (Forseti hringir.) við skiptum því jafnar sem við höfum.



[21:18]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Tekjuskattsbreytingarnar sem boðaðar eru á árinu 2016 og 2017 kosta samtals 11 milljarða, þar af 5,5 milljarða á árinu 2016. Á sama tíma er Landspítalinn sveltur. Vegakerfið er svelt. Menntakerfið er svelt, eins og fram hefur komið í umræðum hér bæði frá stjórnarandstæðingum og stjórnarliðum, og svo mætti lengi telja. Þetta er gert til þess að ríkisstjórnin geti sagst hafa lækkað skatta og einfaldað skattkerfið, þá er það forgangsverkefni. Síðan reyna menn að hreyfa sig innan rammans sem skorinn er. Barnabæturnar byrja að skerðast við 200 þús. kr. Skerðingarmörkin detta mjög hratt inn. Ég vil spyrja hv. þingmann um þessa þróun: Hvað sér hún fyrir sér ef svo ólíklega vill til að þessi ríkisstjórn verði hér annað kjörtímabil? Hvernig telur hv. þingmaður að það muni það enda?



[21:20]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ef sú verður þróunin að ríkisstjórnin ákveði, að mér finnst nánast með einhverri nauðhyggju, að ekki megi afla fjár til þess að reka samfélagsleg verkefni, sé frekar augljóst að draga verður úr samfélagslegum verkefnum. Hér verður líklega samt einhvers konar samfélag, en það hlýtur þá að þýða að einstaklingar þurfa að greiða úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun, fyrir að fá að keyra á einhverjum tilteknum vegarbútum. Það þýðir auðvitað að þeir sem eru ríkari geta keypt sér þjónustuna. Hinir geta það ekki. Það er samfélagsþróun sem mér hugnast engan veginn, enda talaði ég í ræðu minni einmitt fyrir því að við þurfum að beita skattkerfinu til jöfnuðar.



[21:21]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og skilmerkilega ræðu. Mig langar til að beina sjónum mínum að smærri liðum fjárlagafrumvarpsins og þá sérstaklega til að byrja með breytingartillögu meiri hlutans varðandi það að selja húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg 162 í Reykjavík og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur kannski meiri innsýn í skjalasöfn Íslands en gengur og gerist (Gripið fram í: Ha?) — ég segi svona — og spyr hvort ráðlegt sé kannski að gera svo án þess að hafa nokkuð góða framtíðarsýn varðandi það hvað eigi að gera. Ég sé ekki að það komi fram í greinargerð meiri hlutans hvað eigi að gera við skjölin. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hefði einhverja vitneskju um það.



[21:22]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er skemmtilega „díteileruð“ spurning. Ég verð bara að svara því til, nei, ég veit það svo sannarlega ekki, hvorki hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera við skjölin né hreinlega hvað væri best að gera við skjölin annað en það sem brjóstvitið mundi segja mér. Með skjöl þá er oft best að hreyfa þau sem allra minnst. En að öllu gríni slepptu — klukkan er að verða hálftíu og maður er farinn að leyfa sér eitthvert glens — er þetta alvarlegt mál. Ég held að þetta snúist kannski meira um sölu á ríkiseignum. Að heppilegra sé að selja húsnæði til að fara að leigja eitthvað annað, er það ekki einmitt öfugt sem við ætlum að fara að gera hér á Alþingisreitnum, það sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara að gera, þ.e. að hætta að leigja en byggja yfir Alþingi?



[21:23]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Mér finnst þetta kannski lýsa svolítið vöntun á framtíðarsýn sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur í fjárlögum þar sem ekki er búið að finna eða ræða við þá aðila sem verða mest fyrir barðinu á því ef Þjóðskjalasafn Íslands yrði selt. Þar fyrir utan, til að sýna hversu óreiðukennd fjárlagagerðin hefur verið í ár, var breytingartillögu sem hafði nú bara gleymst upp á 1,2 milljarða, þ.e. breytingar fjárheimilda vegna kjarasamninga við Kennarasamband Íslands, útbýtt núna í dag. Eftir því sem við best vitum gleymdist að koma þessu að. Hvernig finnst hv. þingmanni svoleiðis vinnubrögð? Bæði það að hér er verið að leggja til að selja Þjóðskjalasafnið og að breytingartillögur hreinlega gleymist.



[21:24]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað hlýtur það alltaf að geta gerst, sérstaklega þegar stór mál eru undir, að eitthvað gleymist. En það er engu að síður alveg rosalega alvarlegt að það gerist. Auðvitað hljóta allir að róa að því öllum árum að slíkt gerist ekki. Það sem mér finnst umhugsunarverðast — nú hef ég aldrei setið í hv. fjárlaganefnd, hef einungis dottið þar inn á hluta af einum eða tveimur fundum — er einmitt hvað starfið hefur, miðað við aðrar nefndir sem ég hef meiri reynslu úr, verið óreiðukenndara og ekki jafn skipulagt og í öðrum nefndum. Ég veit ekki hvort það var tilviljun á þeim brotum úr fundum sem ég kom inn á. En þegar maður heyrir fleiri og fleiri sögur af ýmsu sem betur mætti fara úr starfinu þar og svo (Forseti hringir.) af tillögum sem gleymast þá er heildarmyndin sem teiknast upp ekki alveg nógu jákvæð.



[21:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hv. þingmaður kom inn á örorkukerfið allt saman og almannatryggingakerfið og nefndi að hún teldi ekki að örorkubætur ættu nauðsynlega að vera lægri en lágmarkslaun. Gott og vel. Ég er sammála því. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort það geti verið sniðugra að forgangsraða þannig að reyna að losna við tekjutengingar í þeim málaflokki. Sömuleiðis þegar kemur að ellilífeyri, eða reyndar sérstaklega þegar kemur að ellilífeyri. Jafnvel svokallaðir hægri menn, eins og hæstv. fjármálaráðherra reyndar, alla vega fyrir kosningar, eru sammála því að afnema eigi tekjutengingar ellilífeyris, eðlilega, þar sem það er hvetjandi, atvinnuskapandi og frumkvæðishvetjandi. Maður hefði haldið að það væri nærri lagi að fara í þannig aðgerðir (Forseti hringir.) fyrst og eins væri minni pólitískur ágreiningur um það. (Forseti hringir.) Hvernig telur hv. þingmaður best að forgangsraða í sambandi við þetta?



[21:27]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna því að þetta er alveg gríðarlega mikilvæg umræða. Ég held að það sé best fyrir einstaklinginn, ekki bara fjárhagslega heldur einnig félagslega, að taka þátt í samfélaginu. Fyrir fullorðið fólk er þátttaka á vinnumarkaði það helsta sem við gerum á daginn. Ég held að þess vegna sé mjög mikilvægt að hafa hvata til þess að öryrkjar fari út á vinnumarkaðinn. Það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að vinnumarkaðurinn er erfiður. Það er erfitt fyrir fatlað fólk og öryrkja að fá vinnu þó svo að viljinn til þess að vinna sé fyrir hendi. Svo er það líka bara því miður þannig að hluti öryrkja er í þeirri stöðu að eiga mjög erfitt með að vera í vinnu nema með miklum stuðningi. Það fólk þarf auðvitað líka (Forseti hringir.) að komast af fjárhagslega. Ég held því að þetta sé ekkert annaðhvort eða. Það er nokkuð sem hugsa þarf um á sama tíma.



[21:29]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að þetta er ekkert annaðhvort eða. 100% öryrkjar hafa til dæmis eðli málsins samkvæmt ekki um neitt að velja. Ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að það er ekki sjálfgefið að fólk sem er örkumla sé sjálfkrafa fátækasta fólkið á landinu og nái ekki lágmarkslaunum. Hins vegar eru ansi margir sem eru 75% öryrkjar eða jafnvel öryrkjar sem geta unnið eitthvað smávægilegt, en þeir gera það ekki vegna þess að þeim er hegnt fyrir það með tekjuskerðingum. Eins og hv. þingmaður ýjaði að og ég tek heils hugar undir og hef sagt hér áður, er það ekki bara skerðing á peningum, það er í reynd skerðing á frelsi.

Í ljósi kosningaloforða hæstv. fjármálaráðherra fyrir kosningar varðandi afnám tekjutengingar ellilífeyris hefði ég haldið að það væri pólitískt sniðugt að byrja á þeim endanum, að fá það á hreint, þá væri búið að laga vanda margra, ekki allra. En alla vega ættu allir að geta verið hlynntir því að þannig yrði féð nýtt best vegna þess að þá kemur á móti meira (Forseti hringir.) framtak, meiri vinna, meiri verðmætasköpun.



[21:30]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held nefnilega að samfélagið allt græði á því að sem flestir séu þátttakendur á vinnumarkaði, því að eins og ég sagði áðan græðir fólk svo mikið félagslega á því líka. Þess vegna held ég að það sé svo gríðarlega mikilvægt að við höfum kerfið þannig að þeir sem geta jafnvel unnið einungis 20% þess vegna, mér er sama, 10%, 20%, 30%, lendi ekki í einhvers konar skerðingum heldur fái þeir bara að njóta þess að hafa einhverjar aukatekjur. Fólk á að fá að njóta þeirra algerlega. Hins vegar er spurning um það þegar fólk er komið með háar tekjur — auðvitað er alltaf ákveðinn kostnaður sem hlýst af því að búa við einhvers konar fötlun — þar finnst mér (Forseti hringir.) að megi hugsa miklu frekar um skerðingar á lífeyri, en bara hjá þeim sem eru með góðar tekjur.



[21:31]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mér liggur mikið á hjarta. Mér liggur mikið á hjarta sem jafnaðarmanni og sem þingmanni sem situr í velferðarnefnd Alþingis. Í ræðu minni ætla ég að fjalla almennt um stefnuplagg ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016. Ég ætla að ræða um samstarf minni hlutans í þinginu og tillögur okkar. Ég ætla að ræða lífeyrismál, þ.e. greiðslur úr almannatryggingum til ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Ég ætla að ræða heilbrigðismál, þar ætla ég að ræða Landspítalann og heilsugæsluna. Ég ætla að ræða um málefni barnafjölskyldna og mun þar ræða fæðingarorlofið og barnabætur og síðast en ekki síst ætla ég að ræða um málefni hælisleitenda og flóttafólks.

Þegar hæstv. forsætisráðherra talaði um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar sinnar sagði hann að þetta væru velferðarfjárlög. Hann átti erfitt með að fara yfir og rökstyðja hvað nákvæmlega væri sérstaklega tengt velferð í þessum fjárlögum umfram önnur fjárlagaár og þegar litið er á fjárlagafrumvarpið 2014 og það borið saman við árið 2015 þá eru útgjöld velferðarráðuneytisins nákvæmlega sama hlutfall af ríkisútgjöldum þessi tvö ár. Velferðaráherslurnar sjást því ekki í auknum útgjöldum til velferðarmála umfram aðra málaflokka ríkisins. Það sem hefði mátt túlka sem forgangsröðun í þágu velferðar var rétt eina ferðina óskhyggja hæstv. forsætisráðherra. Við erum orðin vön því í þessum sal og orðin nokkuð glúrin við að lesa út úr yfirlýsingum og átta okkur á í hverju blekkingaleikurinn felst. Það er hin róttæka rökhyggja sem við búum við á Alþingi þetta kjörtímabilið.

Ég hef áður komið inn á að munurinn á hægri og vinstri í stjórnmálum er að vinstri flokkarnir vilja hafa sterkt ríkisvald, umfangsmikið ríkisvald, ekki til þess að skattpína fólk með óhóflegum hætti heldur til að tryggja fjármögnun á almannaþjónustunni sem nýtist okkur öllum óháð búsetu og efnahag og til að tryggja öflug tekjujöfnunarkerfi. Á ég þar við almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur, fæðingarorlof og fleira. Hægri flokkarnir hafa meiri áhuga á að lækka skatta á þá sem mest hafa. Það er forgangsverkefnið, ekki að tryggja almenna velferð og jöfnuð. Þess sjást glögglega merki hér. Það er búið að lækka veiðigjöldin þannig að þau eru að verða minni háttar tekjupóstur hjá ríkinu. Það var hætt við að framlengja auðlegðarskatt sem skilaði umtalsverðum fjármunum og hefði verið einboðið að halda áfram með á meðan við erum að ná okkur út úr hruninu og bæta upp þá málaflokka sem tóku á sig miklar skerðingar eftir hrun. Þá hefur verið unnið markvisst að því að lækka tekjuskatta á tekjuhærri hópana í þessu samfélagi.

Við í minni hlutanum erum algerlega ósammála þessari forgangsröðun. Við í Samfylkingunni hörmum mjög að verið sé að hverfa frá þriggja þrepa skattkerfi. Við hefðum heldur kosið að sjá aukaþrep fyrir hæstu tekjurnar. Hér er verið að fletja út skattkerfið í einhvers konar trúboði um að það sé svo mikil einföldun. Það kann vel að vera að það sé einhver einföldun en það felur í sér aukinn ójöfnuð. Það var einmitt sá ójöfnuður sem jókst svo hröðum skrefum í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir hrun. Það var sú óheillaþróun sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að vinda ofan af þannig að nú mælumst við eitt þeirra landa þar sem hvað mestur jöfnuður ríkir þótt sú þróun sé á undanhaldi. Við munum fljótlega fara að sjá tölur um annað.

Ég er mjög stolt af því að tilheyra þeim minni hluta sem hefur í annað skipti sameinast um breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Við erum með þrjú mismunandi nefndarálit frá minni hlutanum þar sem hv. þm. Oddný Harðardóttir í Samfylkingu, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir í Vinstri grænum og Brynhildur Pétursdóttir í Bjartri framtíð, fulltrúar minni hlutans í fjárlaganefnd, bera fram mismunandi áherslur flokkanna en áherslurnar eru ekki ólíkari en svo, þó að hver þessara flokka hafi sín sérkenni, að við getum sameinast um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Píratar eiga ekki fastan fulltrúa í fjárlaganefnd en áheyrnarfulltrúi þeirra, hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, er meðflytjandi að þessum breytingartillögum. Það er mikilvægt að sjá að það er til skýr valkostur við þá hægri stjórn sem við búum við nú. Er það von mín og trú að við munum halda áfram þessu samstarfi á næsta ári og síðan í ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Hér hafa verið mikil læti síðustu daga út af greiðslum almannatrygginga, ellilífeyris og örorkulífeyris eftir að meiri hlutinn í þinginu hafnaði breytingartillögum minni hlutans. Nú var það svo að fyrsta þingmálið okkar í Samfylkingunni í haust var að leggja til hækkun á almannatryggingum til samræmis við kjarasamninga með afturvirkum hætti til 1. maí síðastliðinn. Þetta hefur verið krafa bæði Landsambands eldri borgara og Öryrkjabandalagsins. Þetta er réttmæt krafa sem felur í sér þau sanngirnissjónarmið að þeir sem reiða sig á greiðslur frá almannatryggingum njóti sömu kjaraleiðréttinga og launafólk og við sem heyrum undir kjararáð. Þingmennirnir í meiri hlutanum höfnuðu þessu, hafa síðan verið í mikilli vörn og látið líta út fyrir að við séum í einhverjum pólitískum leik. Það vita allir sem einhverja yfirsýn hafa yfir almannatryggingamál að við gerðum þetta eftir kjarasamningana 2011 enda er þetta réttlætismál. Það að gera þetta ekki þýðir að tekin er pólitísk ákvörðun um að auka ójöfnuð og það er í andstöðu við samfélagssýn jafnaðarmanna. Ég vona að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér. Í dag var fundur í fjárlaganefnd með fulltrúum frá eldri borgurum og öryrkjum og ég held að stjórnarliðar séu farnir að gera sér ágætlega grein fyrir þeim þrýstingi sem er í þessu máli enda kom fram á bloggfærslu í dag að það virðast vera send út samræmd svör til þeirra sem kvarta undan þessu ranglæti. Það virðist því vera einhver titringur í stjórnarliðum sem hafa fyrir því að búa til slíkt samræmt svar. Þar er ekki verið að rifja upp kosningaloforðin sem gefin voru í síðustu kosningum og ég ætla aðeins að fara yfir á eftir heldur er meira verið að kasta rýrð á minni hlutann. Það virðist ekki virka sérstaklega vel. Það má kasta rýrð á okkur, það skiptir engu máli. En það er ranglætið sem brennur á þeim sem í hlut eiga og þeim sem horfa upp á þetta gert gagnvart sínum nánustu aðstandendum sem svíður. Við getum hrist af okkur brigsl um popúlisma, það er ekkert vandamál. En okkur er ekki sama um það fólk sem verið er að skilja eftir nú þegar hagur launafólks á Íslandi er að vænkast.

Fyrir kosningar þann 9. apríl 2013 skrifaði formaður Sjálfstæðisflokksins meðal annars grein í Morgunblaðið þar sem kom fram að afturkalla ætti þá kjaraskerðingu sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir 1. júlí 2009, en það var skerðing vegna greiðslna á ellilífeyri, krónu fyrir krónu. Það átti að hætta því og leiðrétta til samræmis við þær hækkanir sem höfðu orðið á lægstu launum síðan í ársbyrjun 2009. Ríkisstjórnin var nokkuð fljót að fylgja eftir kosningaloforðunum en úthaldið var ekki mikið. Þau ákváðu strax um sumarið að afnema skerðingu vegna lífeyrissjóðstekna á grunnlífeyri. Sú skerðing árið 2009 var aðgerð sem við fórum í, það var mjög þungbært, en sú skerðingarleið var valin því það spöruðust þó nokkrir peningar með henni. Sú skerðing kom ekki við þá lífeyrisþega sem voru með lökust kjörin heldur þá sem höfðu mest réttindi í lífeyrissjóðum. Markmiðið með skerðingunum sem við þurftum að fara í var að verja þá sem minnst höfðu. En hægri stjórnin var ekki lengi að og hóf aðgerðirnar gagnvart þeim sem mest höfðu. Síðan hafði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sett bráðabirgðaákvæði sem fól í sér að prósentuhlutfall tekjuskerðinganna lækkaði aftur frá og með 1. janúar 2014 og það þurfti enga hægri stjórn til þess því Jóhanna Sigurðardóttir var búin að búa svo um hnútana að sú skerðing félli úr gildi eins fljótt og verða mætti. Enn þá skerðist lífeyrir almannatrygginga krónu á móti krónu og nú þráast ríkisstjórnin við að tryggja lífeyrisþegum sömu kjarabætur og launafólki. Efndirnar hafa því ekki verið í samræmi við loforðaflauminn. Ég sé satt best að segja ekki hvernig stjórnarmeirihlutinn ætlar að koma standandi út úr því að fylgja þeirri stefnu sem hér hefur verið mörkuð af honum, að svara ákalli um félagslegt réttlæti með skætingi. Það mun koma honum illa og ég gæti glaðst yfir því ef ekki væri fyrir það ranglæti sem það felur í sér sem yrði afleiðingin. Það er óþolandi, ólíðandi og það er vond meðferð á valdi.

Svo komum við að heilbrigðismálunum. Þar er líka svolítill skætingur. Annars vegar er lífeyrisþegum sendur tónninn í gegnum ákúrur á stjórnarandstöðuna og svo hefur forusta Landspítalans fengið sinn skammt, fólkið sem rekur þjóðarsjúkrahúsið, héraðssjúkrahús höfuðborgarsvæðisins og sjúkrahúsið sem sinnir bráða- og lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu. Ég ætla þó að byrja á að lýsa yfir ánægju með að verið sé af hálfu meiri hlutans að auka fjárveitingar til Landspítalans um 840 millj. kr. til að vinna á biðlistum. Það er algerlega nauðsynlegt. Ég fagna því. Þau eru óteljandi símtölin, tölvupóstarnir og facebook-skilaboðin sem ég hef fengið og eflaust fleiri þingmenn frá fólki sem er búið að bíða mánuðum saman, jafnvel á annað ár, eftir mikilvægum aðgerðum og er jafnvel í þannig ástandi að það getur ekki unnið vegna veikinda sinna en ætti að vera full vinnufært þegar það er búið í aðgerð. Þetta verður mikill léttir fyrir marga og ég vona að þetta muni ganga hratt og vel eftir því biðlistarnir hafa skapað ófremdarástand. Síðan er líka viðbót til Landspítala vegna lifrarbólgu C, rannsóknarverkefni, 280 millj. kr. En að öðru leyti, ef frá eru taldar viðbætur vegna biðlista og rannsóknarverkefnis út af lifrarbólgu C, er í raun og veru raunniðurskurður á Landspítalanum.

Við í minni hlutanum bregðumst við þessum válegu tíðindum með breytingartillögum okkar. Við leggjum til að Landspítalinn fái samtals 2.840 millj. kr. til viðbótar. Þær skiptast þannig að rúmur milljarður er til að mæta aukinni þjónustuþörf vegna þess að okkur er að fjölga og þjóðin að eldast. Um 400 millj. kr. eru til að mæta kjarasamningshækkunum sem Landspítalinn fær ekki að fullu greitt fyrir. Svo eru 1.400 millj. kr. í viðhald, en þar erum við að tala um allra nauðsynlegasta viðhaldið á húsnæði sjúkrahússins, margt af því er í vægast sagt slæmu ástandi. Þessar kröfur Landspítalans voru kallaðar hálfgert væl (Gripið fram í: Hver gerði það?) og það þurfti að nota 30 millj. kr. í það að gera rekstrarúttekt á Landspítalanum, það voru kveðjurnar sem Landspítalinn fékk. Það er sjálfsagt að gera rekstrarúttektir á opinberum stofnunum en þegar slíkt er notað til að vefengja áætlanir ríkisstofnana um þörf fyrir fjárveitingar er það ákaflega ógeðfellt. Landspítalinn setti sig ekki upp á móti þessu enda vita stjórnendur að sjúkrahúsið er stórkostlega vanfjármagnað.

Það er vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi að hið opinbera kerfi fær ekki sjálfkrafa auknar fjárheimildir á milli ára í samræmi við aukið álag vegna þjónustuþarfar meðan við erum með einkarekið kerfi við hliðina sem fær sjálfkrafa slíka aukningu. Við búum við alvarlegan kerfislægan vanda sem verður að taka á. Við erum að grafa undan hinu opinbera kerfi. Landlæknir hefur til að mynda bent á, þetta eru ekki bara pólitískar skoðanir okkar í Samfylkingunni eða minni hlutanum, að mikilvægt sé í litlu landi eins og Íslandi að meginstoðir heilbrigðisþjónustunnar séu á hendi hins opinbera. Það megi ekki dreifa kerfinu of víða og leysa það upp í smærri einingar því mikilvægt sé fyrir háskólasjúkrahúsið að vera með mikið af sérfræðiþekkingu innan sinna dyra, það séu samlegðaráhrif af því og ekki síst er það spurningin um að halda utan um þá þekkingu sem til staðar er og gefa læknum færi á að viðhalda hæfni sinni og þjálfa og kenna unglæknum.

Í þessu fjárlagafrumvarpi sjáum við ekki áherslu á opinbera kerfið heldur þvert á móti á einkarekna hlutann. Það sem verra er er að þegar kemur að heilsugæslunni sem flestir eru sammála um að eigi að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu er verið að undirbúa einkavæðingu hennar. Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar hefur ráðherra heimild til að fara í slíkt án þess að ræða það við þingið, þessa miklu stefnubreytingu. Hér má lesa um það í tillögum meiri hlutans að setja eigi 70 millj. kr. í viðbótarfjárveitingu til heilsugæslustöðva til að standa undir húsaleigukostnaði nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Síðan hefur hv. þm. Oddný Harðardóttir fengið upplýsingar í fjárlaganefnd þegar hún hefur spurst fyrir um útboð að það eigi að fara í slíkt. Við í velferðarnefnd höfum óskað eftir að fá að sjá kröfulýsingar vegna slíkra útboða. Þær eru ekki til staðar enn sem komið er. Síðan lesum við greinar eftir yfirlækni heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann lýsir yfir mikilvægi þess að heimila einkarekstur. En heilbrigðisráðherra virðist hálfhræddur við að segja þetta, hann trommar ekki hér upp til þess að segja hvað hann ætli að lyfta heilsugæslunni. Hann virðist ekki mjög áfjáður að ræða þetta. Ég held að hann vilji ekki ræða þessa einkavæðingu af því að hann veit að það er ekki almennur stuðningur við hana í samfélaginu. Það er mjög alvarlegt, þó að hann þurfi ekki að koma hér fyrir þingið, að hann skuli ekki gera það því þetta er stórkostlegt hagsmunamál. Eitt af því fáa sem Íslendingar eru algerlega sammála um er að það eigi að forgangsraða skattfé í heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustan eigi fyrst og fremst að vera á hendi hins opinbera. Þess vegna teldi ég heillavænlegt að hæstv. ráðherra heilbrigðismála kæmi og ræddi þetta við okkur á vettvangi þingsins. Ég hef lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars til að reyna að fá einhvern botn í það hvert hann er að fara, til að fá hann til að senda eitthvað frá sér inn í þingið um þetta. Svo í framhaldinu verður kannski hægt að fá hann til að ræða þetta við okkur.

Ég hefði óskað eftir að sjá áætlun um uppbyggingu Landspítalans. Hér eru fjárveitingar frá ári til árs. Það kemur fé í fullnaðarhönnun meðferðarkjarna og því fagna ég. En ég hefði viljað sjá áætlun um uppbygginguna og hvenær henni á að vera lokið. Það er nú ekki bara ég sem vil sjá það heldur allt starfsfólk Landspítalans sem bindur miklar vonir við endurnýjun á húsnæðinu. Það er nauðsynlegur þáttur í að laða sérmenntað heilbrigðisstarfsfólk hingað til landsins og það er mikilvægt fyrir öryggi sjúklinga. Síðan hefði ég líka viljað sjá áform um rannsóknarhúsið, það er mikilvægt að það sé byggt samhliða meðferðarkjarnanum, en ekki er enn þá búið að setja fjármagn í fullnaðarhönnun þess.

Næst langar mig að tala um barnafjölskyldur og þá um fæðingarorlofið og barnabæturnar. Við í minni hlutanum leggjum til að þak fæðingarorlofs verði hækkað í 500 þús. kr. úr 370 þús. kr. Það jafngildir því að fólk á meðallaunum fái fullt fæðingarorlof, 80% af launum sínum sem er viðmiðið. Þetta gerum við af því að eins og allir vita skárum við niður fæðingarorlofið í hruninu. Við vorum byrjuð að bæta inn í það fjármunum aftur og þakið var komið upp í 350 þús. kr. Í tíð þessarar ríkisstjórnar var hætt við þá lengingu sem við höfðum ákveðið að fara út í og þakið hækkað um 20 þús. kr. á mánuði. Ef þessi breyting okkar verður ekki samþykkt mun fæðingarorlofið standa óbreytt í þrjú ár. Fjárhæðir fæðingarorlofs, þak fæðingarorlofs mun þá ekki hafa hækkað í þrjú almanaksár.

Þetta hefur leitt til þess að færri feður taka fæðingarorlof og mæður eru farnar að lenda í meiri vandræðum. Þær taka eðli málsins samkvæmt iðulega fæðingarorlof og vegna kynbundins launamunar eru þær ólíklegri til að fara upp í þakið en það er þó í æ ríkara mæli sem konur verða fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu í fæðingarorlofi. Það er erfitt fyrir fjölskyldur sem eru að koma undir sig fótunum, kaupa húsnæði eða eru á leigumarkaði, eru kannski að byrja að greiða af námslánum sínum og verða síðan þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast börn. Það er mikið álag fyrir heimilið ef það verður umtalsverð lækkun ráðstöfunartekna í allt að níu mánuði. Feður voru mjög fúsir til að taka fæðingarorlofið þegar þeir fengu sérstakan rétt upp úr aldamótunum, en það hefur dregið úr þátttöku þeirra í fæðingarorlofi. Nú eru það þrír af hverjum fjórum feðrum sem börn fá að njóta samvista við á fyrsta æviárinu. Þetta er mjög alvarleg staða.

Það hefur ríkt mikil sátt og ánægja um þetta góða kerfi sem var sett á laggirnar í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og þessir flokkar ættu að sjá sóma sinn í að standa vörð um það, en ef við látum reka á reiðanum að setja það fjármagn þar inn sem þarf og lengja orlofið í samræmi við breyttar áherslur í samfélaginu og aukinn vilja foreldra til samvista við börnin sín, þá gröfum við undan kerfinu. Það endar með því að það verður svo dýrt að lagfæra það að við munum veigra okkur við því. Þess vegna er mikilvægt að þakið fari upp í 500 þús. kr. sem er 80% af meðaltekjum. Það var einmitt það viðmið sem við notuðum þegar við hækkuðum þakið upp í 350 þús. kr., það var nákvæmlega sama viðmið. Hefði þakið fylgt verðlagi frá því sem var fyrir hrun væri þakið í dag um 825 þús. kr. Við treystum okkur ekki til að leggja það til að svo stöddu enda teljum við brýnast sé að mæta þörfum meðaltekjufólks fremur en þeirra sem eru yfir meðaltekjum sem njóta auðvitað líka góðs af þessari hækkun. Ég vona svo sannarlega að stjórnarmeirihlutinn komi með okkur í að verja fæðingarorlofið. Það kostar um 1.700 millj. kr.

Svo leggjum við líka til hækkun barnabóta. Það er mikil sorgarsaga. Í núverandi fjárlagafrumvarpi stendur að barnabæturnar hafi hækkað mjög mikið á síðasta ári. Það breyttist reyndar með fjáraukalögunum því útgjöld til barnabóta lækkuðu um 600 millj. kr. á yfirstandandi fjárlagaári. Þegar Framsóknarflokkurinn var keyptur til fylgilags við matarskattinn var honum fengin dúsa sem meðal annars fól í sér hækkun á barnabótum um milljarð. En Sjálfstæðisflokkurinn sá við þeim og lét eiga sig að lækka tekjuskerðingarmörkin þannig að bæturnar skiluðu sér ekki að fullu. Þannig sparaði hæstv. fjármálaráðherra ríkinu 600 millj. kr. á kostnað barnafjölskyldna og trúverðugleika Framsóknarflokksins. Nú er verið að lækka þær frá fyrri fjárlögum um einar 150 millj. kr. Þetta er náttúrulega bara bull. Þetta eru ekki tölur sem er mark takandi á því það er ekki heldur verið að breyta skerðingarmörkunum núna. Þó að útgjöld til barnabóta séu hér sögð eiga að verða tæpir 11 milljarðar vitum við að þau verða líklega nær 10 milljörðum.

Við viljum að skerðingarmörkum barnabóta verði breytt og útgjöld aukin um 2,4 milljarða. Hv. þm. Oddný Harðardóttir var áður fjármálaráðherra og það var einmitt hennar verk í fjárlögum fyrir árið 2013 að hækka barnabætur umtalsvert sem skref í þá átt að gera barnabætur ótekjutengdar eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Enda er hugmyndin að baki barnabótum ekki sú að þær eigi að vera fátæktaruppbót eins og þær hafa leiðst út í að verða hér á landi. Við eigum að tryggja jöfnuð í gegnum tekjuskattskerfið og þrepin þar, en barnabæturnar eiga að vera til þess að jafna ráðstöfunartekjur fólks á hverju tekjubili miðað við mismunandi framfærslu þannig að t.d. þeir sem eru barnlausir með 600 þús. kr. á mánuði og þeir sem eru með þrjú börn með 600 þús. kr. á mánuði séu nær hvor öðrum í ráðstöfunartekjum í samræmi við ráðstöfun á hvern einstakling með þeirri viðbót sem barnabæturnar eru. Þess vegna leggjum við í minni hlutanum til hækkun á barnabótum og teljum það gríðarlega mikilvægt fyrir barnafjölskyldur þessa lands.

Frú forseti. Ég hef nú rætt, þó yfirborðslega sé, ýmis velferðarmál úr breytingartillögum Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata. En ég get ekki farið héðan nema ræða stuttlega málefni hælisleitenda og flóttafólks. Við leggjum til viðbót til hælisleitenda. Það gerir meiri hlutinn líka. Meiri hlutinn leggur til 87 millj. kr. en við leggjum til viðbót upp á 112 millj. kr.

Ísland hefur ekki farið varhluta af þeim aukna straumi flóttamanna sem nú kemur til Evrópu vegna stríða og hörmunga. Við þingmenn í minni hlutanum brugðumst við því með þingsályktunartillögu sem fól í sér að Ísland tæki á móti 100 kvótaflóttamönnum á yfirstandandi ári og 200 á næstu tveimur. Svo kom ríkisstjórnin með útspil og sagðist ætla að leggja 2 milljarða í þetta verkefni á yfirstandandi ári og því næsta. Því var fagnað. Við höfum aldrei fengið almennilega greiningu á því hvernig á að ráðstafa þeim fjármunum, en það má lesa út úr fjáraukalögum og fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þá kemur í ljós að aðeins um 16% af þessum 2 milljörðum eiga að fara í móttöku kvótaflóttafólks, fólksins sem er í flóttamannabúðum allt í kringum Sýrland, en stærstu straumarnir eru nú frá Líbíu, Sýrlandi og Eþíópíu.

Alþjóðaflóttamannastofnunin hefur verið með hávært ákall um að ríki heimsins taki fleiri kvótaflóttamenn. Hæstv. forsætisráðherra var mjög ákveðinn í því að það ætti alls ekki að nefna einhverja tölu. Væntanlega hefur hann verið með svo lága tölu í huga að hann hefur ekki viljað segja hana upphátt. Krafan í samfélaginu er nokkuð hávær um allt að 500 flóttamenn. Þótt auðvitað sé hópur sem vill að við tökum á móti fleirum og hópur sem vill að við tökum á móti færri er nokkuð rík sátt um að gera þetta sæmilega myndarlega, 500 sé engin ofrausn. En það lítur allt út fyrir að þeir verði ekki 500 heldur vel innan við 100. Mér finnst skömm að því að við séum ekki tilbúin til að taka meiri ábyrgð sem þjóð meðal þjóða, sem rík þjóð, á því ástandi sem nú er uppi.

Síðan er verið að setja umtalsverða fjármuni í alþjóðastofnanir og það er mjög jákvætt og gott þar sem verið er að veita aðstoð á nærliggjandi svæðum þar sem flestir flóttamenn eru og létta undir með þeim ríkjum sem bera hvað mestar byrðar. Það eru Tyrkland, Líbanon og Pakistan, þetta eru ríkin sem taka langmest, og Eþíópía. Ég sagði Eþíópía áðan en ætlaði að segja Erítrea, þaðan er fólk að flýja, en Eþíópía er eitt af þeim ríkjum sem taka einna mest á sig ef maður lítur til efnahags. Það eru þessi ríki sem við erum að koma til móts við og auðvelda þeim móttöku flóttafólks og aðstoða við það og alþjóðastofnanir sem þar starfa. Það er mikilvægt.

Síðan á að setja meira en fjórðung af þessari fjárhæð, 2 milljörðum, í hælisleitendur. Það eru fjármunir sem að mínu mati ættu ekki að vera inni í þessum 2 milljörðum, þetta eru fjármunir sem við hefðum engu að síður þurft að leggja til. Hingað leita æ fleiri, ekki síst fólk úr fátækum ríkjum þar sem hafa verið pólitísk átök eða stríð innan Evrópu. Koma þeirra hingað hefur aukist mjög. Við vorum að reka fimm fjölskyldur burt í nótt og notuðum þar lagaákvæði sem Samfylkingin studdi ekki og kom inn í lögin 2014. Þar er búin til mælistika. Ef þú ert frá ákveðnum ríkjum er varla farið í einstaklingsmat á umsókn þinni. Að mínu mati þarf að endurskoða lög um útlendinga og sýna þar meiri mannúð og mildi. Það á ekki að nota fjármuni sem hvort eð er hefðu þurft að fara inn á fjárlög sem hluta af þeim 2 milljörðum sem áttu að fara í það verkefni sérstaklega að takast á við aukinn flóttamannastraum.

Frú forseti. Ég læt máli mínu lokið að svo stöddu þó að ég hafi nægilegt efni til að fara í fjölmargar ræður til viðbótar um þetta frumvarp.



[22:12]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum rætt kjör ellilífeyrisþega og öryrkja og ætla ég ekki að eyða tíma í það hér. Við vonum bara að það fari allt vel. En stundum finnst mér eins og við gleymum því að það eru hópar úti í samfélaginu sem hafa það bara alls ekki gott. Meðlagsgreiðendur hafa stundum verið nefndir til sögunnar. Ef maður skoðar skýrsluna sem Velferðarvaktin hefur gert eru einhleypir einstaklingar stærsti hópurinn sem er undir lágtekjumörkum og einstæðir foreldrar. Auðvitað geta þeir verið öryrkjar í einhverjum tilfellum, en mér finnst við ekki gefa þessu nægilega mikinn gaum. Þetta er hópur sem myndar ekki endilega einhvern þrýstihóp og fellur ef til vill svolítið á milli.

Ég velti fyrir mér: Hvernig við tryggjum að það falli enginn í fátæktargildruna? (Forseti hringir.) Við fókuserum á ellilífeyrisþega og öryrkja, en meðlagsgreiðendur er hópur sem ég hef samúð með og mér finnst hann ekki hafa fengið nægilega athygli.



[22:13]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Það er ekki einfalt svar hvernig við tryggjum að enginn falli á milli. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Þeir hópar sem eru til dæmis hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og leita að húsnæði og framfærslustyrkjum eru einhleypir karlar og einstæðar mæður. Leið til að mæta því fólki er til að mynda í gegnum aukinn húsnæðisstuðning, einstæðum foreldrum í gegnum barnabætur með lægra tekjuskattsþrepi fyrir þá lægst launuðu, en ekki síður með góðri almannaþjónustu í heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu sem er ódýr eða gjaldfrjáls. Sú þjónusta skiptir mjög miklu máli fyrir lífsgæði okkar og hvernig við stöndum gagnvart öðrum (Forseti hringir.) í samfélaginu.



[22:14]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur inn á barnabæturnar. Við horfum á að 11 milljarðar eru settir í barnabætur á næsta ári, sem verður kannski lægri upphæð þegar upp er staðið. Barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. Ég velti fyrir mér hvort við munum horfa upp á nýtt kerfi, jafnvel ótekjutengdar barnabætur eins og í Danmörku, og þá frekari stuðning fyrir þá sem þess þurfa. Ég tók eftir því í skýrslu Velferðarvaktarinnar að í rauninni er lagt til nýtt kerfi, hvort það er kallað barnatryggingar. Er það ekki eitthvað sem velferðarnefndin hefur skoðað? Ég upplifi ekki að barnabætur þjóni tilgangi sínum í dag fyrir alla. Samt er þetta töluverð upphæð. Það segir sig sjálft að hjón sem slefa aðeins yfir lágmarkslaun ná varla barnabótum. Það getur ekki verið eðlilegt.



[22:15]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Siv Friðleifsdóttir og Vilborg Oddsdóttir frá Velferðarvaktinni komu og kynntu þessar tillögur. Ég er hjartanlega sammála tillögum þeirra um almennar ótekjutengdar barnabætur og síðan kerfi sem tryggir að fólk falli ekki í fátæktargildru. En ég held líka að við eigum að vera óhræddari við að nota okkur framfærsluviðmið til þess að ákvarða bætur til fólks. Þegar Guðbjartur Hannesson var velferðarráðherra tók hann þá pólitísku ákvörðun að láta reikna slík viðmið og birta opinberlega. Þó að hann gæti ekki fylgt því eftir þá að bætur miðuðust við þetta sagði hann: Það er miklu betra að hafa þetta opinbert þannig að við gerum okkur grein fyrir hvernig kjör fólksins í landinu eru. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að loka augunum fyrir því að fólk lifir undir framfærsluviðmiðum (Forseti hringir.) heldur hafa það opinberar upplýsingar svo það verði aukin krafa og aukinn þrýstingur á að tryggja fólki lágmarksframfærslu.



[22:17]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta framsögu um þetta mál. Mig langar að drepa á það sem sagt er í nefndaráliti meiri hlutans um flóttamenn og hælisleitendur, að þau málefni ætti að flokka sem þróunarsamvinnu. Nú er ég ekki alveg klár á því hvort í þróunarsamvinnu felist að taka á móti flóttamönnum. Þróunarsamvinna virðist frekar vera eitthvað sem er gert annars staðar. Mér þykir þetta svolítið ankannalegt. Mig langar til að fá að vita hvort hv. þingmaður hafi eitthvað meira um þetta að segja.

Sömuleiðis langar mig að spyrja um fangelsismál. Nú er verið að setja 65 millj. kr. aukalega í þennan málaflokk en við í minni hlutanum leggjum til 80 milljónir. Það þarf alveg gríðarlega miklu meira í þennan málaflokk. Mig langar til að fá að vita álit hv. þingmanns á því.



[22:18]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta voru tvær laufléttar spurningar. Ég vil byrja á því að segja varðandi þróunaraðstoðina að samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, sem ég veit ekki hverjir búa til, ætli það séu ekki Sameinuðu þjóðirnar, flokkast móttaka flóttamanna sem þróunaraðstoð fyrstu tvö árin, að ég held, sem þeir eru í viðkomandi landi. Ég held að það sé ekki óeðlilegt. Það er því mikilvægt þegar við birtum upplýsingar um þróunaraðstoð að vel sé flokkað hvernig hún dreifist því að auðvitað eigum við að dreifa henni þannig að við séum ekki eingöngu að setja á einn lið þróunaraðstoðarinnar heldur bæði í móttöku flóttafólks og í fjárveitingar til þeirra landa sem við eigum þróunarsamvinnu við.

Varðandi fangelsismálin þá stórvantar fé þangað inn. Ég held að skynsamlegasta og mannúðlegasta leiðin væri að endurskoða refsiramma, (Forseti hringir.) t.d. í fíkniefnabrotum sem og öðrum brotum, (Forseti hringir.) draga úr þeim fjölda fólks þar af leiðandi sem við lokum inni í fangelsi og nota peningana til að breyta (Forseti hringir.) áherslum í fangelsismálum úr refsivist í betrunarvist.



[22:20]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta góða svar. Þetta var nokkuð sem ég vissi ekki.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt að það þurfi allt að 80–100 milljónir í viðbót í þann viðkvæma málaflokk sem fangelsismálin eru. Þannig er nú staðan að Litla-Hraun er að mörgu leyti varla fokhelt. Stefnan þarf að vera alveg skýr hjá bæði meiri hluta og minni hluta. Ef við erum að fara að setja meiri pening í þennan málaflokk þurfum við að setja 50 milljónir einungis í Litla-Hraun þó að staðan sé slæm annars staðar. Staðan er þannig að við þurfum að huga að fangelsisbyggingunum. Þær leka margar hverjar. Sömuleiðis þurfum við að huga að fangavörðunum sem eru oftar en ekki á bakvakt. Sú staða hefur komið upp að í helmingi tilvika þarf að fella niður betrunarvist, sem er óásættanlegt.

Mig langar að fá að vita viðhorf hv. þingmanns.



[22:21]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og hæstv. innanríkisráðherra. Það vantar meiri fjármuni í þennan málaflokk. Ég hef komið inn í tvö fangelsi á Íslandi, Litla-Hraun og fangelsið á Akureyri. Húsnæðið á Akureyri er allt annað og betra en á Litla-Hrauni, en þar er t.d. aðstaða fanga til vinnu nánast engin og útivistaraðstaða beinlínis skelfileg. Þegar maður kemur inn í þessi tvö fangelsi á Íslandi og mér skilst að Hegningarhúsið sé miklu verra, enda eru gerðar athugasemdir við það, við brjótum mannréttindi með því að nota það og erum á undanþágu, þá veltir maður fyrir sér hvers konar samfélag það sé sem búi til slíkar aðstæður fyrir fólk sem brýtur af sér og þarf að sæta refsingu og á að vera í betrunarvist. Umgjörð þessara stofnana ber íslensku samfélagi ekki fagurt vitni.



[22:22]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í nefndarálit, þ.e. það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og lýsir að mínu mati bæði vinnubrögðum og viðhorfi þeirra sem undir það skrifa til fjárlagavinnu. Á síðasta kjörtímabili var unnið mikið verk við það, ég tek það sem dæmi, að eyða svokölluðum safnliðum og setja í fastan og góðan farveg, gegnsæjan, faglegan, þar sem það fengi umfjöllun og þingmenn væru ekki að úthluta verkefnum eftir behag og einhverjum óskilgreindum reglum.

Dæmi um þetta er til dæmis Vegagerðin þar sem verið er að afhenda 235 milljónir til ýmissa framkvæmda um landsbyggðina og önnur verkefni til hafnargerðar upp á 400 milljónir sem verið er að sáldra út til 11 verkefna, að því er virðist algerlega óskilgreindra. Það liggja engin gögn að baki. Það er ekki einu sinni til samgönguáætlun. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að þetta sé afturför við fjárlagagerð, það sé verið að fara aftur til verri tíma. Jafnvel enn aftar en var þó gert hér fyrir síðasta kjörtímabil.

Ég spyr hvort hún geti verið mér sammála um það og velt því fyrir sér hvað valdi því að meiri hluti fjárlaganefndar ákveður að vinna með þessum hætti.



[22:24]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er hjartanlega sammála því. Þetta er afturför. Þegar verið er að úthluta fjármunum á að gera það út frá fyrir fram gefnum reglum og skýrum viðmiðum og út frá einhverjum áætlunum, ekki að geðþótta eða sem fyrirgreiðslu. Þetta er sannarlega afturför, en svo má kannski segja að þetta sé þó framför frá því sem var í upphafi kjörtímabils þegar hæstv. forsætisráðherra útdeildi fé með SMS-skeytum. Kannski er þetta skref til að komast út úr því. Ég skal ekki segja. En það er furðulegt að bæði til vega- og hafnamála sé verið að útdeila fé með þessum hætti en ekki í samræmi við samgönguáætlun. Það sætir furðu.



[22:25]
Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Á síðasta kjörtímabili var nokkuð víðtæk samstaða um þær breytingar sem gerðar voru á safnliðum; nánast alger að undanskildum fulltrúum Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd. Að öðru leyti voru allir ákafir í þessar breytingar, ekki síst fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem lögðu mikla áherslu á að þessi vinna kláraðist sem allra fyrst.

Hún tók dálítinn tíma. Skipaður var starfshópur fulltrúa allra flokka í fjárlaganefnd til að finna bestu leiðina. Hún var fundin að mínu mati. Nú er hins vegar lagt til, í þessu kostulega nefndaráliti, sem ég á eftir að fara betur yfir í næstu ræðu minni, að skipuð verði sérstök þingmannanefnd; að þetta verði tekið skrefinu lengra en menn hafa haft hugmyndaflug til hingað til. Það verði sérstök þingmannanefnd sem muni taka að sér að sjá um safnliði, skoða félagasamtök hingað og þangað um landið, góðgerðasamtök, og sáldra síðan peningum út eftir því hvað þingmönnum finnst.

Þetta er eiginlega verra en þegar bláu (Forseti hringir.) miðarnir voru í gangi hér á þinginu, símamiðarnir með minnismiðunum um að muna eftir ljósaperum og girðingastaurum hingað og þangað um landið. Þó að ég sé nú ekki æstasti aðdáandi Sjálfstæðisflokksins hef ég trú á því að hann vilji hafa góða stjórn á fjármunum. Hvað heldur þingmaðurinn um afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?



[22:26]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég sit ekki í fjárlaganefnd og veit svo sem ekki hvað sjálfstæðismenn þar eru að hugsa. En ég man að á síðasta kjörtímabili þá var það ekki síst hv. þm. Pétur Blöndal heitinn sem barðist mjög fyrir þessu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd þá voru mjög fylgjandi þessu verklagi.

Tilhugsunin um sérstaka þingmannanefnd sem fer að deila út fé, svona góssi, skapar hugrenningatengsl spillingar og fyrirgreiðslupólitíkur, það þarf ekki hugmyndaflug, það er bara augljóst að það kann ekki góðri lukku að stýra. Það virðist vera sem Sjálfstæðisflokkurinn sé að fara í gegnum mikið niðurlægingartímabil og sé tilbúinn að taka þátt í einhvers konar helmingaskiptum, og það er nú bara hluti af þeirra arfleifð, með Framsóknarflokknum. Þessi þingmannanefnd — þeim finnst þetta bara svona bráðsnjöll hugmynd að deila þarna saman út fé.



[22:28]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var nokkuð undarleg og ekki voru minna undarleg síðustu orðaskiptin og hvernig menn gátu lesið út úr því að þingmannanefnd sem á að endurskoða og fara yfir þetta ætti að deila út fé. Þau markmið sem lagt var upp með hafa augljóslega ekki náðst. Ég get rætt það seinna, ég geri það ekki í stuttu andsvari.

Mér þykir leitt að verið sé að dylgja um að verið sé að senda Landspítalanum einhverjar sendingar og út af einhverju vantrausti hafi verið ákveðið af forustu Landspítalans og forustu fjárlaganefndar að setja 30 milljónir í úttekt.

Ég vil spyrja hv. þingmann af því að hún talaði um heilsugæsluna: Er hún á móti einkarekstri í heilsugæslunni? Af hverju? Er hún á móti lögum um sjúkratryggingar og þar af leiðandi á móti norræna kerfinu sömuleiðis? Síðan að endingu: (Forseti hringir.) Af hverju eru tillögur minni hlutans til fjárlaga sem núna liggja fyrir ekki fjármagnaðar?



[22:29]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekkert að dylgja neitt varðandi Landspítalann. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði að forsvarsmenn Landspítalans væru að kvarta, það væri eilíft kvart í þeim. Það las ég í fjölmiðlum. (Gripið fram í: Hún sagði það ekki.) Ég sat ekki við hliðina á henni þegar hún sagði það.

Varðandi einkarekstur í heilsugæslunni þá er ég ekki fylgjandi honum. Ég tel að það sé verið að gefa í skyn að vandi heilsugæslunnar verði leystur með einkarekstri. Vandi heilsugæslunnar er fyrst og fremst langvarandi fjárskortur og skortur á pólitískri forustu um að skapa þau tæki sem þarf til að heilsugæslan geti verið fyrsti viðkomustaðurinn. Nú þegar ekki liggur fyrir greining á þörfum á heilsugæslu á mismunandi svæðum og ekki liggur fyrir kröfulýsing (Forseti hringir.) þá treysti ég því ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra muni gera þetta með sómasamlegum hætti.



[22:31]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á að hér eru stór tíðindi. Talsmaður Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segist ekki vera fylgjandi einkarekstri í heilsugæslu. Þetta er mjög mikil breyting frá þeirri stefnu sem Samfylkingin var með, a.m.k. síðast þegar ég vissi, og menn töluðu fyrir á þingi. Þetta eru líka kaldar kveðjur til þess einkarekstrar sem er í gangi og búinn að vera um áratugaskeið í heilsugæslunni á Íslandi með mjög góðum árangri. Ég nefni Salahverfi sem dæmi, Lágmúlastöðina og auðvitað sjálfstæðu læknana. Þetta er nokkuð sem menn eru að ræða núna. Til dæmis vísaði forstjóri lækninga hjá heilsugæslunni nákvæmlega í þessa reynslu og sömuleiðis reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Þetta er stefnubreyting og stór pólitísk tíðindi. Það er afskaplega skýrt og gott að geta talað út frá þessu (Forseti hringir.) því að þetta sýnir að Samfylkingin er Alþýðubandalagsflokkur eins og við kannski vissum (Forseti hringir.) en það er miklu skýrara núna en oft áður.



[22:32]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spyr nú bara: Hvað er Alþýðubandalagið? Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson virðist vita meira um það en ég enda hef ég aldrei verið þar (Gripið fram í.) eða haft á því sérstakan áhuga. (Gripið fram í.)

Varðandi einkarekstur í heilsugæslu, með mjög góðum árangri, segir þingmaðurinn. Hvað vorum við að gera í fjáraukanum? Við vorum að bæta inn fé í Heilsugæsluna Salahverfi og Læknavaktina af því að þær stöðvar eru með miklu hagfelldari samninga en fjármögnun á heilsugæslunni í landinu. Það hefur verið rætt um breyttar fjármögnunarleiðir og mér finnst mjög eðlilegt að við skoðum (Gripið fram í.) hvernig við tryggjum að heilsugæslan verði sterkari. Áður en við erum búin að styrkja stoðir heilsugæslunnar, greina og ákveða hvað við viljum kaupa og hvernig og hvar er tómt mál að tala um að fara út í einkarekstur (Forseti hringir.) því að það þýðir einkavinavæðing, það þýðir að við erum að grafa enn (Forseti hringir.) frekar undan hinni opinberu heilbrigðisþjónustu á Íslandi.



[22:33]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er manni eiginlega öllum lokið. Ekki bara eru vinnubrögðin í fjárlaganefnd eða hjá forustu hennar þannig að hér hefur heill mánuður aukalega ekki dugað henni til að ljúka verki á tilsettum tíma og hún fór tíu daga fram yfir heldur lesum við nú um það á vefmiðlum á þessu kvöldi að eftir að forusta fjárlaganefndar hefur afgreitt fjáraukalagafrumvarpið sjálft endanlega frá sér til 3. umr. flytur formaður nefndarinnar breytingartillögu upp á 1.192 milljónir vegna mistaka sem urðu við meðferð fjáraukalagafrumvarpsins í ráðuneytinu og hjá nefndinni. Það gleymdist að færa inn launahækkanir kennara í fjáraukalagafrumvarpið.

Virðulegur forseti. Er ekki ástæða til að fjárlaganefnd fái bara þessi mál til sín, (Forseti hringir.) opni þau aftur og fari vel yfir hvort gerð hafi verið fleiri slík mistök á öllum þessum langa tíma og í allri þessari miklu vinnu sem hefur farið langt fram yfir áætlanir og varða einhverjar svona stórkostlegar fjárhæðir?



[22:35]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér var gerð breyting á þingskapalögum til að Alþingi fengi lengri tíma til að fjalla um fjárlagafrumvarpið. Nú erum við komin vel inn í desember og erum í miðri 2. umr. fjárlaga þegar hér kemur breytingartillaga við breytingartillögu á þskj. 586 við fjárlög ársins 2016, ófyrirséð útgjöld, hækkun um 1.200 millj. kr. Ég legg til að hv. fjárlaganefnd fái nú að kalla málið aftur inn til nefndar, fái sólarhring til að fara yfir það hvort málið sé í raun og veru fullbúið til umræðu vegna þess að það dugar ekki að vera með breytingartillögu við breytingartillögu dag eftir dag og láta hlaupa á milljarði eins og það sé eitthvert grín. Það er ekki svo.

Ég legg til að fundinum verði slitið (Forseti hringir.) og fjárlaganefnd fái að fara yfir dálkana í rólegheitunum með nefndarriturum sínum.



[22:36]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn sem töluðu á undan eru reynslumiklir hv. þingmenn, þekkja málin mjög vel og hafa bæði verið í minni hluta og meiri hluta á þingi, í það minnsta sá sem fyrst talaði. Það er ekki alveg svo gott að fjárlaganefnd setjist niður og reikni út launabreytingar eins og hv. þingmenn vita. Við þurfum að reiða okkur á ráðuneytin þegar kemur að því og það vita hv. þingmenn mætavel.

Mér finnst að ég þurfi ekki að útskýra það sem menn vita, að við tökum þessi mál aftur inn til nefndar og förum þá yfir það en það hafa orðið mjög miklar breytingar á kjaraumhverfinu, meiri en oft áður. Þó að ég harmi það (Gripið fram í.) að allar upplýsingar séu ekki komnar fram held ég að það sé hæpið að tala með þessum hætti. Við skulum bara klára þessa umræðu. Menn hafa hér gott tækifæri til að gagnrýna bæði (Forseti hringir.) ríkisstjórnina og fjárlaganefnd í umræðunni og svo tökum við málið á milli umræðna til nefndar og förum yfir málin. (Gripið fram í.)



[22:38]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að taka undir með þeim sem hafa vakið athygli á því að það gleymdist liður upp á 1,2 milljarða, kjarabætur framhaldsskólakennara. Það er frekar neyðarlegt, ef svo má segja.

Hins vegar langar mig til að spyrja virðulegan forseta hvenær hún hyggst ljúka fundi í kvöld. Við þurfum mörg hver að vera mætt á fundi kl. 9 á morgun, ef ekki 8, og það er bara ekki við hæfi að keyra fólk út fram eftir öllum kvöldum.

Í næstu viku hafa engir nefndafundir verið skipulagðir samkvæmt dagskrá Alþingis og spyr ég sömuleiðis hvort ekki væri við hæfi að reyna að byrja þingfundi fyrr og fresta öllum nefndafundum fram yfir áramót. Þá væri kannski tími til að taka á móti gestum í ró og næði frekar en að blanda heimsóknunum inn í fjárlagaumræðuna.



[22:39]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að í það minnsta verði gert hlé á þessum fundi ef honum verður þá ekki bara frestað á meðan fjárlaganefnd fær tækifæri, a.m.k. meiri hluti fjárlaganefndar, til að fara bæði yfir fjárlagafrumvarpið og tillögur sínar og athuga hvort þar vanti meira en þennan ríflega milljarð sem gleymdist að setja inn, hækkun sem byggist á 14. gr. kjarasamnings við KSÍ sem gerður var í apríl 2014. Það er ekki eins og málið sé nýtt.

Þegar svo er komið held ég að það sé ljóst að fleiri gallar séu á tillögum og nefndaráliti eins og hér hefur komið fram. Ég bendi bara á tvær augljósar villur í nefndarálitinu, í fyrsta lagi fullyrðingar um hvernig lækkun á útvarpsgjaldi fyrir Ríkisútvarpið hafi verið ákveðin, sem er röng, og í öðru lagi hefur slæðst inn meinleg villa á bls. 9 sem ég vona að flestir hafi tekið eftir þar sem kemur fram að meiri hlutinn hafi haft gott samstarf við stjórnendur Landspítalans að undanförnu.



[22:40]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er auðvitað óheppilegt þegar svona mistök gerast en stjórnendur framhaldsskólanna voru búnir að átta sig á þessu og voru búnir að spyrjast fyrir um hvort þetta ætti ekki að koma. Það er komið og fjárlaganefnd þarf auðvitað tóm til að fara betur yfir stöðuna og hvernig heildarjöfnuðurinn stendur þegar búið er að taka inn leiðréttingar. Fleiri eru á leiðinni ef ég skildi hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson rétt.

Frú forseti. Það er fundur í fjárlaganefnd í fyrramálið, fjárlaganefndarmenn eru hér við umræðu klukkan að verða 11 og ég spyr forseta hvenær fundi lýkur í kvöld. Er ekki rétt að taka tillit til þess að það er fjárlaganefndarfundur í fyrramálið og fjárlaganefndarmenn verða að vera hér við umræðuna þangað til þingfundi lýkur?



[22:42]
Forseti (Þórunn Egilsdóttir):

Forseti hyggst halda áfram fundi enn um sinn þar sem á annan tug þingmanna er á mælendaskrá.



[22:42]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er komið í ljós að 1.200 milljónir vegna kjarabóta kennara gleymdust og eru að koma inn í nýrri breytingartillögu. Þetta er milljarðurinn sem gleymdist. Það kom í ljós í gær að hv. formaður fjárlaganefndar taldi að sig vantaði töluleg gögn til að geta rætt við aldraða og öryrkja og þurfti að fresta fundi þess vegna sem leiðir svo aftur hugann að því að fjárlaganefnd virðist alls ekki hafa haft þau talnagögn undir höndum sem hún þurfti til að vinna við fjárlagafrumvarpið. Það er algerlega ljóst að sú umræða sem nú fer fram í þingsal er marklaus. Það skortir allar forsendur fyrir henni og ég styð þá tillögu sem hefur komið fram um að nú verði fundi frestað og fjárlaganefnd verði gert (Forseti hringir.) að funda, ganga almennilega frá sínum málum og koma síðan til þings með vonandi réttar upplýsingar. Eiginlega þyrftum við þá að fá að hefja þessa fjárlagaumræðu upp á nýtt.



[22:43]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fjárlagaumræða er auðvitað alveg gríðarstórt mál og ég hef alveg skilning á því að það geti verið erfitt að halda utan um allar tillögur og breytingartillögur. Það verður samt að segjast eins og er að 1,2 milljarðar eru ansi stór breyting og að þá skuli vanta inn til að hægt sé að uppfylla kjarasamning við kennara.

Mér finnst mjög umhugsunarvert að síðustu daga höfum við fundað langt fram á kvöld. Ég er viss um að það eru fleiri þingmenn þreyttir en bara ég og mér finnst þetta hreinlega benda til þess að ekki sé full yfirsýn yfir það verkefni sem við erum að takast á við hérna sem er að koma fjárlögunum saman. Í ljósi þess að fjárlaganefnd ætlar að funda í fyrramálið finnst mér augljóst að nú þegar eigi að slíta þessum fundi til að þingmenn geti vaknað ferskir til (Forseti hringir.) að sinna vinnunni sinni sómasamlega í fyrramálið. Það er ekki hægt að hafa yfirsýn yfir svona stór mál illa sofinn og þreyttur og það er þegar komið í ljós.



[22:45]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér er flaggað heldur háum tölum sem ég hygg að skipti miklu máli, sér í lagi vegna þess að hér göngum við út frá því sem gefinni forsendu að við eigum við hallalaus fjárlög, sem ég geri ráð fyrir að sé enn þá tilfellið, en það skiptir máli hversu mikið svigrúmið er. Það hefur áhrif á þær ræður sem koma í kjölfarið.

Því skiptir það máli fyrir þá ræðumenn sem koma hér á eftir hver áhrifin af þessari breytingu eru. Það skiptir meira að segja máli upp á breytingartillögu minni hlutans ef út í það er farið og aðrar breytingartillögur sem verða lagðar fram.

Ég er næstur á mælendaskrá. Mér þykir það skipta mjög miklu máli hvernig ríkissjóður stendur og hver afgangurinn er. Mér finnst auðvitað mikilvægt að það sé afgangur og þess vegna tek ég taka undir ósk um að þetta verði rætt í nefnd áður en við höldum umræðunni áfram. Við vitum alveg hvernig þetta mál hefur tafist og maður hefur alveg skilning á því að fólki yfirsjáist hlutir. Ég skil það alveg en þá á líka að bregðast rétt við því.



[22:46]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér aftur hljóðs af því að mér var bent á að það hefði mátt misskilja orð mín þannig að ekki væri full ástæða til að fagna launahækkunum kennara. Auðvitað er full ástæða til að fagna launahækkunum kennara. Þeir eru vel að þeim komnir en þetta vekur líka athygli á því hversu sjálfvirkt og sjálfkrafa þetta er gagnvart öllum öðrum hópum í landinu en öldruðum og öryrkjum eins og hér hefur ítrekað komið fram í umræðunni. Fyrst og fremst undirstrikar þetta hversu slæm áhrif það hefur að vera með kvöldfundastand, skjóta á aukafundum í fjárlaganefnd, afboða þá, fara tíu daga fram yfir áætlun og geta samt ekki lagt fram skammlaust plagg. Svona klúður rétt við lok afgreiðslunnar upp á gríðarlegar fjárhæðir sem verða bara til að auka hallann á ríkissjóði gefur auðvitað fulla ástæðu (Forseti hringir.) til að menn reyni að læra af þessu og hætta þessum vondu vinnubrögðum í fjárlaganefnd.



[22:48]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það, þetta er óttalega bagalegt en vissulega getur alltaf eitthvað svona komið fyrir. Ekki ætla ég að rengja það en þetta eru kannski, eins og hér hefur komið fram, fyrirséðar breytingar. Þegar farið er í gegnum allan launapakkann eru þetta samningar sem mikið var rætt um á síðasta ári og ég hefði haldið að upphæðirnar hefðu átt að fara inn.

Það er fundur í fjárlaganefnd í fyrramálið og þar á, eftir því sem ég kemst næst, að ræða fyrst og fremst málefni eldri borgara og öryrkja sem við ræddum í dag. Af því að hv. varaformaður fjárlaganefndar er hér og ég sé að hann hefur kvatt sér hljóðs mælist ég til þess að þetta mál verði tekið fyrir þar. Hér kemur fram að skipting á einstök viðfangsefni verði sýnd í sérstöku yfirliti og að breytingar muni koma fram í viðkomandi fjárveitingum í stöðuskjali eftir 2. umr. Ég mundi gjarnan vilja sjá þetta og vita hvort ekki væri hægt að koma því við að við þyrftum ekki að ljúka umræðunni áður en þessar upplýsingar lægju hér allar fyrir. (Forseti hringir.) Ég hvet hann til að koma því áleiðis.



[22:49]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að tryggt verði með breytingartillögu að kennarar fái örugglega sínar kjarabætur en ég fer að hafa áhyggjur af því hvort allar stéttir fái kjarabætur í þessu fjárlagafrumvarpi. Erum við alveg viss um að engin mikilvæg stétt gleymist? Mér stendur ekki á sama. Mér finnst einkennilegt að þetta skuli koma inn í þingið núna í kvöld eftir allan þann tíma sem nefndin hefur haft til að vinna og, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir upplýsir hér, að það hafi verið komnar fram ábendingar frá skólastjórnendum um akkúrat þetta efni.

Hæstv. forseti. Ég legg til að hlé verði gert á þessum fundi og fjárlaganefnd fari yfir það með (Forseti hringir.) fjármálaráðuneytinu hvort verið sé að gleyma einhverjum stéttum og kjarabótum til þeirra.



[22:50]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég misskilji einhverja hv. þingmenn, ég vona að þeir hafi ekki látið að því liggja að okkar tveir góðu ritarar sem starfa fyrir fjárlaganefnd ættu að fara yfir allar forsendur kjarasamninga og reikna út launabætur. Ég vona að enginn trúi því eða haldi að mál séu þannig. Ég geri ráð fyrir að þar hafi verið um einhverja hótfyndni að ræða.

Eðli málsins samkvæmt er með þetta eins og mjög margt annað í forsendum fjárlaga, kannski flest, að við reiðum okkur á upplýsingar frá ráðuneytunum. Þetta er mjög bagalegt og það má skamma hv. fjárlaganefnd fyrir ýmislegt en það er mjög langsótt ef einhver trúir því að hv. fjárlaganefnd setjist yfir þá útreikninga. Það hefur verið reglan hjá forustu þessarar fjárlaganefndar að menn reyna að koma til móts við allt það sem minni hlutinn hefur farið fram á og þess vegna voru meðal annars haldnir tveir fundir sem (Forseti hringir.) tengjast ákveðnu málefni sem við erum að ræða. Við munum hittast í fyrramálið og við reynum auðvitað að verða við því sem hv. þingmenn í minni hlutanum vilja fara yfir og sækja gögn eins og við höfum gert í öllum öðrum málum.



[22:52]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er vissulega ekki traustvekjandi að eftir að 2. umr. er hafin hafi ekki verið gert ráð fyrir launahækkunum til framhaldsskólakennara. Maður fagnar því auðvitað að þeir fái hækkanir sínar þó að það sé mjög bagalegt að það hafi ekki komið fram fyrr og það misfarist. Það skiptir ekki öllu máli hvar mistökin áttu sér stað, hvort það var í ráðuneytinu eða að fjárlaganefnd hafi ekki verið nógu glögg og séð þetta fyrir, nógu er það samt slæmt. Þetta kemur núna á daginn og það þarf auðvitað að skoða það betur í fjárlaganefnd og líka fara yfir hvort einhverjir aðrir liðir eru ekki að fullu fjármagnaðir. Það er ekki mjög traustvekjandi að þetta skuli koma fram núna. Það held ég að allir verði að viðurkenna, líka í stjórnarmeirihlutanum.



[22:53]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki traustvekjandi vinnubrögð. En það gengur eiginlega fram af mér að hv. varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, skuli vísa á nefndarritarana, (GÞÞ: Nei, ég var að segja að væru ekki þeir. …) leiða talið að nefndarriturunum í þessu samhengi. (GÞÞ: Nei, ég var að segja að …) Ábyrgðin er nefndarinnar og auðvitað sérstaklega forustu hennar. Nú er komið í ljós að milljarður gleymdist. Því verður ekki vísað neitt nema til nefndarinnar, hvar svo sem mistökin áttu sér stað. Það skiptir ekki öllu máli hvort þau áttu sér stað við útreikninga í fjármálaráðuneytinu eða einhver handvömm varð í nefndinni. Ábyrgðin er nefndarinnar, en fyrst og síðast þingsins að afgreiða hér vel unnin og rétt fjárlög. Ég er þingmaður í þessum sal og meðábyrg (Forseti hringir.) í þeirri umfjöllun sem hér fer fram um fjárlögin og þess vegna krefst ég þess, virðulegi forseti, að þessum þingfundi verði slitið og fjárlaganefnd hittist þegar í stað, strax í dögun, með fjármálaráðuneytinu og það verði ekki fundað aftur um fjárlögin fyrr en við erum komin með réttar upplýsingar.



[22:55]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Leikrit er hafið í kringum þetta. Við getum auðvitað öll litið í eigin barm með það að einhver svona mistök skuli verða í fjármálaráðuneytinu. Það er verið að leiðrétta þau. Þetta er örugglega ekki í fyrsta skipti og örugglega ekki í síðasta skipti sem slíkt gerist. Það er fyrst og fremst fagnaðarefni sem kristallast í þessum upplýsingum, sú hagræðing sem á sér stað í skólakerfinu, stytting framhaldsskólans og hækkun launa til kennara á grunni hennar. Við getum gert betur við kennarana og skilað væntanlega enn betri nemendum og menntun fyrir börnin okkar inn í framtíðina.

Svo heyrist mér komin ákveðin þreyta í mannskapinn. Ég sé að meira að segja hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem talaði um að það væri ekkert mál að sitja hér lengi er ekki lengur í salnum. Hann er kannski farinn heim að hvíla sig. Ég tel fulla ástæðu til að halda áfram fundinum, virðulegi forseti. Ábyrgðin er auðvitað hjá minni hlutanum á því hvað fundur stendur hér lengi. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar (Forseti hringir.) á þeim bæ um það hversu lengi minni hlutinn vill tala um þetta mál. Meðan það liggur ekki fyrir, meðan þær upplýsingar eru ekki komnar fram og óskir hans um fundartíma og hversu lengi verður talað í þessu máli, verðum við bara að halda áfram.



[22:56]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því að það sé á ábyrgð stjórnarandstöðunnar hvað talað er lengi. Hér voru greidd atkvæði um kvöldfund fyrr í dag og það voru ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar sem greiddu atkvæði með því að fundað yrði fram á nótt. Svo vil ég reyndar telja þingmönnum stjórnarmeirihlutans til tekna að þeir hafa að minnsta kosti tekið þátt í umræðunni núna. Miðað við mörg mál hafa margir þingmenn frá meirihlutaflokkunum á þingi tekið þátt í umræðunni, hafa tekið þátt í andsvörum. Ég hef kallað eftir því við umræðu um mörg mál í haust. Ég vísa því hins vegar algerlega á bug að það sé okkur í stjórnarandstöðunni að kenna að hér sé talað lengi. Við berum saman ábyrgð á þessu og það er svona sem á að vinna málin, með samræðu, en það á að gera það í björtu (Forseti hringir.) en ekki inn í nóttina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[22:57]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek eiginlega bara undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Mælendaskráin er löng og ég beini því til forseta að kannski væri ráð að forseti setti sig í samband við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar og fengi hugsanlega upplýsingar um það hversu lengi stjórnarandstaðan hygðist tala í þessu máli. Ég get sagt fyrir hönd (BjG: … stjórnar… á mælendaskrá.) Framsóknarflokksins að hann er tilbúinn að setjast niður og klára að semja um umræðutíma um þetta mál sem hefur staðið gríðarlega lengi. Á meðan þingflokksformenn (BjG: … þingflokksformenn …) stjórnarandstöðunnar eru ekki tilbúnir að semja um umræðulok á þessu máli sem er orðin gríðarlega löng umræða (Gripið fram í: … lok?) held ég að ekkert annað sé í boði en að halda þessari umræðu áfram hér inn í kvöldið og nóttina. Ekki stendur á mér að vera í salnum og fylgjast með þessum umræðum eða hér í þinghúsinu. Þetta eru líflegar og skemmtilegar umræður og margt nýtt kemur fram í umræðunni. Á meðan stjórnarandstaðan vill tala í málinu og er ekki tilbúin að ljúka umræðum eða í það minnsta (Forseti hringir.) láta okkur vita hvenær umræðum lýkur er auðvitað ekkert annað að gera en að halda þessu áfram. Ég hvet forseta til að setja sig í samband við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar til að freista þess að fá upplýsingar um hversu lengi stjórnarandstaðan hyggst tala í málinu.



[22:59]
Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér þykir alltaf leitt að heyra þegar þingmenn vísa ábyrgðinni af eigin mistökum eitthvað annað eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gerði áðan með því að vísa upp í fjármálaráðuneyti, að starfsfólk fjármálaráðuneytisins hafi gleymt eða því láðst eða það ekki áttað sig á tillögum sem meiri hlutinn á Alþingi á að flytja. Þetta finnst mér ekki vel mælt og ekki góð orð í garð starfsfólks og embættismanna í fjármálaráðuneyti frekar en í öðrum ráðuneytum sem eru að vinna ágætisverk. Menn eiga að hafa pínu kjark sjálfir til að axla ábyrgð á mistökum sem þarna koma, hvernig sem þau eru til komin. Það getur vel verið að þetta sé bara, eins og gengur og gerist, eitthvað sem rennur fram hjá mönnum. Í guðanna bænum, axlið ykkar ábyrgð á því sjálf, ekki vísa á fólk úti í bæ, embættismenn eða starfsmenn ráðuneyta.

Ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Hér eru ágætisumræður. Það er enn verið að halda fyrstu ræður. Það er sjálfsagt að þær verði haldnar, nema hvað, inn í nóttina (Forseti hringir.) og fram á morgundaginn mín vegna. Þetta er í fyrsta skipti sem ég veit til þess að stjórnarliðar kvarti yfir umræðu um fjárlög í 1. umr. Þvílíkt þolleysi. (JónG: Þetta er 2. umr.)



[23:00]
Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekkert að kveðja mér hljóðs og vil bara gjarnan að við höldum áfram að ræða þetta mál, en sá mig eiginlega tilknúna vegna orða hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Við erum hér að ræða stærsta mál ríkisstjórnarinnar og höfum átt mjög góðar umræður í þingsal, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstaðan. Ég skildi ekki alveg hvað hv. þingmaður átti við þegar hann talaði um það hvenær við ætluðum að hætta að tala. Ég er búin að fara í eina ræðu og fer væntanlega ekkert í aðra en áskil mér rétt til að fara í einhver andsvör. Mér fannst ýjað að því að hér væri eitthvert málþóf í gangi. Ég upplifi það bara alls ekkert þannig. Ef við eigum ekki að ræða fjárlögin, hvað eigum við þá að ræða?



[23:01]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fagna því mjög að þessi fundur standi enn og óska þess að hann standi lengi enn því að hér hafa farið fram ítarlegar og gagnlegar umræður, afar skemmtilegar á köflum, og ég hvet forseta til að halda fundi áfram drykklanga stund enn því að nóg er nóttin, eins og draugurinn sagði, [Hlátur í þingsal.] og við högnumst öll á því að skiptast á skoðunum um fjárlög þjóðarinnar. Ég gleðst mjög yfir því að fundur standi enn drykklanga stund en viðurkenni að ég sakna þess mjög að hér skuli ekki vera sá lífsreyndi og gamalreyndi þingmaður Össur Skarphéðinsson [Hlátur í þingsal.] sem hafði það á orði í dag að enginn þingmaður væri maður með mönnum nema hann hefði séð sólargeislann berast inn í Alþingishúsið. Sólin kemur inn í Alþingishúsið klukkan hálfellefu í fyrramálið og ég hlakka mjög til [Hlátur í þingsal.] og hvet (HHj: Þegar fundurinn verður settur.) forseta til að halda fundi áfram.



[23:02]
Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sá mig eiginlega tilknúinn til að koma aftur upp, bæði vegna ummæla hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur. Sá sem hér stendur er ekki að kvarta yfir því að hér séu umræður inn í nóttina en mér fannst ég skynja á stjórnarandstöðunni í umræðu um fundarstjórn á undan mér að þar væri ákveðinn pirringur yfir því að við ætluðum að funda inn í nóttina. Ég var að fagna því að við funduðum inn í nóttina og sagði að ég sæi ekki annan möguleika í stöðunni á meðan þingflokksformenn geta ekki náð saman um það hvenær þessari umræðu ljúki. Ég er að bjóða fram allan vilja minn til að þingflokksformenn geti fundið út úr því hvenær þessari umræðu geti lokið. (Gripið fram í.) Á meðan svo er ekki og menn eru ekki tilbúnir til þess eigum við engan annan leik en að vera í þessum umræðum inn í nóttina og jafnvel inn í morguninn eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson lagði til. Ég hvet til þess að þessari umræðu verði haldið áfram en er á hvaða tímapunkti sem er tilbúinn að setjast niður með þingflokksformönnum og ræða möguleikann á því að við getum endað þessa umræðu og haldið atkvæðagreiðslu um þetta mál vegna þess að þetta er auðvitað stórt og mikið mál.



[23:04]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér líst ekki alveg á hvernig á þessu er haldið hérna þegar menn segjast tilbúnir að semja við stjórnarandstöðuna um að ljúka málinu. (Gripið fram í.) Ég tek undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, þetta er stærsta málið sem við ræðum á þingi, það verður ekki stærra. (Gripið fram í.) Hér eru meðal annarra hv. þm. Willum Þór Þórsson, hv. þm. Karl Garðarsson, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Ásmundur Friðriksson — þetta eru stjórnarþingmenn. Er sem sagt formaður þingflokks Framsóknarflokksins að tala um að hann vilji skerða tíma sinna þingmanna til að ræða stærsta málið og okkar tækifæri til að eiga við þá orðastað, eða hvað? Um hvað snýst þetta, virðulegi forseti? Hér eiga allir að hafa tækifæri til að ræða málin og 1. umr. á að fara fram án þess að fólk sé að láta svona um (Gripið fram í: Þetta er 2. umr.) að ljúka einhverju. Við klárum bara 1. umr. (Gripið fram í: Þetta er 2. umr.) og það hafa allir sinn tíma. (Forseti hringir.) Við getum farið að tala um að semja um eitt og annað þegar við erum komin inn í 2. eða 3. umr. Þetta er hins vegar dónaskapur, virðulegur forseti, við þingmenn. (Gripið fram í.) — Fyrsta umferð í 2. umr.



[23:05]
Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er greinilega svolítill pirringur kominn í fólk hérna. (BjG: … bara dónaskapur.) Það er auðvitað leitt að svo skuli vera þegar margir eru í sínum fyrstu ræðum. Sennilega hefur engin önnur ræða enn verið haldin.

Þetta er það fyrirkomulag sem er boðið upp á í þingsköpunum. Það er hálfömurlegt að formenn þingflokkanna, þar með talið minni hlutans, skuli ekki geta sest niður og klárað það hvað við ætlum að taka mikinn tíma í að ræða fjárlög við 2. umr. (BjG: Þingmaðurinn veit …) Á hátíðarstundum er talað um að við eigum að tala saman og leysa málin. Tölum saman. Hv. þm. Helgi Hrafn: Tölum saman og leysum málin þannig. Þannig leysast málin, er það ekki? Af hverju setjast ekki þingflokksformenn niður og leysa þetta mál, (Gripið fram í.) klára það og segja bara: Heyrðu, við ætlum að taka tvo daga í þetta, þrjá daga, við klárum þetta á þriðjudaginn í næstu viku? Og hvaða tíma viljum við ráða? Við ætlum bara að semja um það og verða (Forseti hringir.) sammála um að við ætlum að klára þetta á ákveðnum tíma. Þá verður þetta ekkert vandamál. Á meðan allt er upp í loft og enginn veit hvort á að tala hér í hálfan mánuð eða lengur eru bara jólin á næsta leiti og við ætlum að ljúka þessu fyrir þann tíma. Það liggur fyrir. Við verðum bara að hafa þennan háttinn á, það er ekki boðið upp á annað. Það er ekkert hægt að sakast við (Forseti hringir.) almenna þingmenn eða forseta þingsins um það. Það er forusta þingflokkanna sem verður að klára þetta.



[23:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að hér sé eitthvert gríðarlegt vandamál sem þurfi að leysa með einhverjum samningum um ræðutíma og ég veigra mér ekkert við að halda ræðu, enda er ég næstur á mælendaskrá, og vera eitthvað inn í nóttina. Mér finnst hins vegar alveg þess virði að halda því til haga að almennt þegar maður vinnur með mörg gögn, gögn sem oft eru flókin og umdeild og oft og tíðum skrýtin, er alveg þess virði að fá nætursvefn. Það er alveg þess virði að hafa smábil á milli vinnutarna en á Alþingi er orðið normið að svo sé ekki á köflum (Gripið fram í.) og svo stæra menn sig hérna af því að þeir ætli að vera þessar miklu hetjur og vera hérna langt inn í nóttina. Gott og vel, menn mega alveg vera hetjur ef þeir vilja en það þýðir ekki að það sé skynsamlegt. Þetta er heimilt samkvæmt þingsköpum, við vitum það. (Gripið fram í.) Það þýðir ekki að það sé skynsamlegt. Ég vil bara halda því til haga að það er ekki endilega skynsamlegt að ræða hlutina út í nóttina, jafnvel þótt það sé leiðinlegt, jafnvel þótt mönnum finnist það ægilega töff.



[23:08]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mikið eggjahljóð komið í stjórnarliða, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Ásmund Einar Daðason. Þeir eru eitthvað orðnir þreyttir og þurfa trúlega að komast heim í bakstur eða einhvern jólaundirbúning og (Gripið fram í.)eru bara að gefast upp á umræðu um fjárlög sem eru það stærsta sem við þurfum að fjalla um á hverju ári, fjárlög ríkisins. Þar undir er ekkert smá. Það er ekki hægt að bjóða okkur þingmönnum upp á tal um að það eigi að fara að drífa sig í að semja um að ljúka umræðu, umræðu sem er rétt að byrja í 2. umr. og ekki nærri því allir þingmenn búnir að flytja sína fyrstu ræðu. Ekkert bannar að menn ræði saman, hvort sem eru þingflokksformenn eða formenn flokka, það er ekkert sem heftir það að menn taki umræðuna, ræði málin og skoði hvort hægt sé að mæta hinum góðu breytingartillögum minni hlutans (Forseti hringir.) sem liggja fyrir. Það er hægt að gera hvenær sem er.



[23:09]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu er ég nokkuð hissa á því að hinir framsæknu hv. þingmenn Pírata skuli taka þátt í svona gamaldags málflutningi eins og hér kemur fram. Ég hélt að þeir væru aðeins á öðrum stað. (HHG: Hvar þá?) Að öðru leyti langar mig bara að segja að auðvitað erum við ekki að reyna að hamla því að nokkur maður tali hér. Það væri hins vegar gagn að því að vita hversu lengi hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hyggjast tala í málinu því að það er um að gera að skipuleggja tímann. Við eigum öll fjölskyldur eins og hér kom fram fyrr (Gripið fram í.) sem við viljum gjarnan vera hjá (Gripið fram í.)og það er ekkert að því að skipuleggja okkar tíma og nýta hann vel. (Gripið fram í.) Meðan við gerum það ekki stöndum við hér bara bísperrt, höldum áfram að ræða þetta mikilvæga mál, ræða það mjög vel og brjóta til mergjar.



[23:11]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þá erum við aftur komin í efnislega umræðu um fjárlögin, sem er ágætt. Mig langar að byrja á að fjalla aðeins um hallalaus fjárlög. Nú ættu það ekki að vera neinar fréttir en það er mikilvægt að vera með hallalaus fjárlög og áður en við náðum hallalausum fjárlögum hafði ég þann sið þegar einhver vakti athygli á því að það vantaði peninga einhvers staðar að spyrja á móti: Erum við til í að fá þá lánaða? Þegar halli er á ríkisfjármálunum erum við í reynd að fá lánað, hvað svo sem við eyðum í. Oft er svarið já, stundum eigum við að fá lánað. Til dæmis til að bjarga mannslífi, þá eigum við að fá lánað. Ef fjárfestingin er góð getur verið gott að fá peninga lánaða. En maður á að spyrja sig þessarar spurningar þegar fjárlög eru með halla.

Þegar fjárlög eru ekki lengur með halla þarf maður að spyrja sig að tvennu. Annars vegar: Hvernig ætlar maður að eiga við skuldirnar sem eru búnar að hlaðast upp, frá hruni í þessu tilfelli? Hins vegar: Hvernig hyggst maður nýta það svigrúm sem hefur myndast? Þá reynir á skynsemi og forgangsröðun. Það er auðvitað mjög mikilvægt að borga niður skuldir. Sjálfum finnst mér mjög óþægilegt að ríkið skuldi yfir höfuð. Ég átta mig á að það er að einhverju leyti nauðsynlegt, svo er mér í það minnsta sagt. En mér er samt mjög illa við það. Við stöndum enn þá frammi fyrir því að vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs eru þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga sem er mjög vont. Menn segja oft: Við erum að borga um það bil eitt stykki Landspítala í vexti á hverju ári sem er óhemjuupphæð.

Þegar svigrúm eins og þetta myndast er hægt að forgangsraða. Við höfum auðvitað alltaf svigrúm til að forgangsraða en spurningin stendur eftir hvernig við viljum gera það. Minni hlutinn hefur lagt fram sameiginlega tillögur að því hvernig megi forgangsraða öðruvísi en meiri hlutinn. Mig langar einnig að fjalla um það að þótt við píratar tökum vissulega þátt í að bera fram þessar minnihlutatillögur þá þætti mér ægilega vænt um að í framtíðinni, einn daginn, einkenndust þingstörf ekki svona mikið af meiri hluta á móti minni hluta. Það er staðan sem við búum við núna, því miður, að verulegu leyti að minnsta kosti. Ég efast um að þær 37 mínútur sem ég á eftir nægi til að fara út í alla sálma hvað það varðar en mér finnst rétt að taka fram að mér þykir það leitt og ég vona að í framtíðinni verði umfjöllun um fjárlög og meðferð þeirra ekki jafn háð þessum tilteknu pólitísku línum. Mér þykir mjög eðlilegt að flokkar hafi mjög misjafnar áherslur. En mér þykir ekki eðlilegt að áherslurnar myndist út frá einföldum minni hluta eða meiri hluta, þ.e. hvaða flokkar séu í ríkisstjórn og hvaða flokkar ekki. Það eru ákveðnir þættir í stefnu Framsóknarflokksins, a.m.k. ef maður hlustar á suma þingmenn hans, sem eiga í raun miklu meira sameiginlegt með einstaka þingmönnum Vinstri grænna en einstaka þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlilegt. En það undirstrikar hins vegar að það ætti ekki vera þannig, á þingi sem virkaði eins og maður mundi halda að þing ættu að virka, að línan lægi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hef ekki lausn á þessu sem ég get fært fram á 36 mínútum enda erum við að ræða fjárlög en mér þótti rétt að halda þessu til haga þegar fram líða stundir og við förum að takast á við þetta vandamál.

Það er eitt sem mig langar einnig að nefna áður en ég fer í einstaka þætti. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé hvati fyrir forstöðumenn ríkisstofnana til að skila afgangi, í það minnsta að halda sig innan fjárlaga. Það kemur alltaf upp karp um það hver beri ábyrgðina. Jú, það er ráðherra sem ber ábyrgð á því, síðan bera forstöðumenn stofnana ábyrgð gagnvart honum og svo framvegis en samt endum við alltaf á því að vera með fjáraukalög til að bæta upp fyrir eitthvað sem var ekki samkvæmt planinu en hefði alveg getað verið samkvæmt planinu. Væntanlega eru til einhver hvatakerfi, einföld og frumstæð, innan stjórnsýslunnar eins og það að skamma menn einfaldlega. En mér þætti mjög vænt um ef einn tiltekinn ósiður yrði aflagður. Hann er sá að gera ráð fyrir því að ef stofnun standi við sitt gagnvart fjárlögum sé ekki ástæða til þess að auka fjármagn til hennar þegar nýjar þarfir koma í ljós eða draga jafnvel úr fjárveitingum til stofnunar á þeim forsendum. Mér þykir það ekki sjálfsagt og mér þykir sú orðræða svolítið þvælast fyrir því að koma á einhverju almennilegu hvatakerfi. Stofnun sem stendur við sitt gagnvart fjárlögum á að njóta þess. Mér þykir það í grundvallaratriðum nauðsynlegt ef slíkt hvatakerfi á að vera virkt.

Að því sögðu ætla ég út í nokkur efnisatriði. Örorkubætur og ellilífeyrir er það sem mér þykir mikilvægast að nefna fyrst. Öryrkjar og aldraðir eru sá hópur samfélagsins sem ég sé hvað oftast verða fyrir óréttlæti af hálfu kerfisins. Það snýst ekki bara um upphæðirnar þótt þær skipti líka máli heldur einnig hvernig fyrirkomulagið er. Kerfið er afskaplega flókið og spurningar sem maður hefði haldið að væru einfaldar reynast flóknar, svörin jafnvel flóknari. Af þessu leiðir að réttarvarsla verður erfiðari, sérstaklega fyrir fólk sem er á mjög lágum bótum eða öllu heldur með mjög lágar tekjur frá ríkinu, örorkubætur eða ellilífeyri, og hefur því ekki mikið svigrúm eða tækifæri til að ráða sér lögfræðing sem getur farið í kerfið af fullum þunga og fundið út hvað sé hið rétta fyrir tiltekinn skjólstæðing. Réttarstaða ellilífeyrisþega og þeirra sem eru á örorkubótum er afskaplega slæm, hreinlega vegna þess að kerfið er svo flókið. Það er stundum sagt að kerfið sé svo flókið að enginn skilji það nema einn maður og sá maður segist ekki skilja það heldur til fulls eða er alla vega ekki viss um það. Sem kemur mér ekkert á óvart, þetta er mjög flókið.

Að því sögðu eru hlutir sem við vitum að við getum gert eða ættum að vita. Þar þykir mér persónulega mikilvægast fyrirbæri sem heitir tekjutenging. Almennt þykja mér tekjutengingar óráðlegar. Ég skil hvert markmiðið er með þeim. Ef einhver fær örorkubætur en er samt sem áður að vinna tekur fólk því sem vísbendingu eða jafnvel sönnun um að viðkomandi sé í raun vinnufær og hafi ekkert með þessar bætur að gera. Gott og vel, ég skil lógíkina. En þetta er afskaplega slæmt fyrir örorkubótaþega vegna þess að mjög margir öryrkjar geta gert eitthvað, geta unnið við eitthvað. Þeir búa alltaf við það að hafa úr litlu að velja í skamman tíma í einu og vera afskaplega viðkvæmir fyrir öllum skakkaföllum, hvort sem fyrirtækið sem þeir vinna hjá verður fyrir skakkaföllum eða eitthvað gerist í lífi þeirra, sem tengist jafnvel því að þeir eru á örorkubótum fyrir það fyrsta. Þessi hópur er alltaf veikur fyrir. Öryrkjar eru alltaf veikir fyrir, jafnvel þótt þeir finni eitt og eitt starf sem þeir geta sinnt að einhverju leyti yfir ákveðið tímabil dagsins eða einhvern tíma ársins eða því um líkt. Þess vegna finnst mér eðlilegt að örorkubótaþegar njóti þeirra tekna sem þeir þó geta aflað sér. Ég þekki persónulega fólk sem er á örorku og er almennt ekki vinnufært en getur ráðið við einstaka verkefni, er kannski með ákveðna andlega burði sem gerir því ókleift að funkera vel í ákveðnum kringumstæðum en er kannski ofboðslega gott á tilteknu sviði. Mér þykir mjög leiðinlegt að svona fólk geti ekki notað þá hæfileika sem það hefur til að vinna, jafnvel þó að það sé bara takmarkað. Það þarf oft að passa sig á því að vinna ekki, passa sig á að fá ekki tekjur vegna þess að þá er því refsað fyrir það. Ég skil lógíkina, ég er bara ekki sammála því að þetta sé ráðlegt.

Þegar kemur að tekjutengingu ellilífeyris vill svo skemmtilega til að jafnvel hæstv. fjármálaráðherra er sammála því að tekjutengingin ætti að fara, í það minnsta fyrir kosningar, nánar tiltekið í bréfi sem er dagsett 22. apríl 2013 og er undirritað „með vinsemd“ frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Ég er algerlega sammála. Tekjutenging ellilífeyris er eitthvað sem allir ættu að geta sammælst um að sé röng. Ellilífeyrisþegar hafa unnið fyrir sínum lífeyri, hann er ekki ölmusa. Mér finnst það illa gert að tekjutengja ellilífeyri. Ég er ósammála rökfræðinni þegar kemur að örorkubótum, en ég skil að það er ekki endilega illur hugur á bak við hana. Ég er bara efnislega ósammála því að það sé skynsamlegt.

Þá er alveg þess virði að rifja upp það sem við vorum nýlega að rífast um, að hækkun örorkubóta og ellilífeyris verði afturvirk til 1. maí. Mér finnst mjög sjálfsagt að styðja það, sér í lagi vegna þess að við þingmenn á hinu háa Alþingi nutum þeirrar ákvörðunar kjararáðs að fá afturvirkar launahækkanir sem er auðvitað mjög þægilegt, sérstaklega fyrir jól. En mér finnst leiðinlegt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar séu alltaf eftir á. Það er eitthvað við það hvernig við förum með þennan hóp sem gerir að verkum að hann er skilinn eftir. Mér finnst það afskaplega leiðinlegt. Síðast en ekki síst vil ég nefna að þegar menn koma hingað og tala um að svo og svo mikið gott hafi verið gert fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega upp á síðkastið og kenna síðan síðustu ríkisstjórn um að hafa gert svo og svo hræðilega hluti gagnvart þeim þykir mér þess virði að minna fólk á 120 milljarða kr. halla á fjárlögum sem þá var til staðar. Það skiptir máli. Stundum þegar hv. þingmenn koma hingað og byrja að skamma síðustu ríkisstjórn, vinstri stjórnina, fyrir að hafa þurft bölvandi að draga úr alls kyns greiðslum til öryrkja og ellilífeyrisþega, þykir mér það ekkert sérstaklega heiðarlegt, virðulegi forseti. Við búum ekki við sömu aðstæður í dag gagnvart fjárlögum og við gerðum árið 2009. Þetta er staðreynd, töluleg staðreynd. Fimm ára barn mundi skilja það. Ég get ekki tekið því sem neinu öðru en hugsunarleysi eða vísvitandi útúrsnúningi þegar fólk lætur eins og það sé hægt að bera saman aðstæðurnar núna og þær sem voru 2009. Það er fráleitt. Algerlega úti á túni. Fólk ætti ekki að niðurlægja sjálft sig og hið háa Alþingi með því að láta eins og það sé ekki algerlega úti á túni því það er það. Ekki nóg um það en ég ætla að láta samt staðar numið til að koma að fleiri atriðum.

Í tillögum minni hlutans er lagt til að Fangelsismálastofnun fái 80 millj. kr. í viðbót til að geta haldið áfram uppi fangelsiskerfi sem virkar, þannig séð. Vandi fangelsismálakerfisins og að mínu mati sérstaklega Litla-Hrauns er sá að viðvarandi krafa um svokallað aðhald, þ.e. niðurskurð, á síðustu árum hefur gert að verkum að starfsemin á Litla-Hrauni er í stuttu máli í molum. Það gengur ekki. Þetta er ekki málaflokkur sem fólki finnst endilega gaman að styðja. Það er ekki pólitískt heitt að styðja þetta. En þetta er eitthvað sem þarf einfaldlega að vera í lagi. Þetta er einn þeirra þátta í samfélaginu sem verða bara að vera í lagi. Ef það kostar eitthvað meira en okkur finnst þægilegt verður bara að hafa það. Þetta er ekki valkvæður málaflokkur frekar en margur annar.

Þá vil ég halda því til haga að ætlunin með þessari tillögu er að 50 millj. kr. séu eyrnamerktar Litla-Hrauni þar sem aðstæður eru sérstaklega slæmar, sama hvort um er að ræða húsnæðið eða mönnun eða hvaðeina. Á síðasta ári samkvæmt mínum heimildum þurfti 170 sinnum að fella niður úrræði eins og útivist og atvinnu og því um líkt til að uppfylla kröfur um mönnun. Það voru ekki peningar til að manna gæslustöður þegar það voru forföll. Þetta veldur auknu álagi sem veldur auknum forföllum sem aftur veldur auknu álagi. Það sem hefur sennilega haldið Litla-Hrauni gangandi er góður starfsandi. Auðvitað getum við ekki ætlast til þess að reka fangelsiskerfi á góðum vilja starfsmanna. Við þurfum að umbuna fólki fyrir erfiða vinnu. Þetta er erfið vinna. Starfsmenn komast í tæri við aðstæður sem þeir eru engan veginn þjálfaðir til þess að meðhöndla.

Mig langar til að leggja sérstaka áherslu á að þessi orðræða kemur frá fangavörðum, föngum, frá fyrrverandi fangelsisstjóra, frá fangelsismálastjóra. Það er sama hvern maður talar við í fangelsismálakerfinu, allir eru sammála um þetta, þetta eru staðreyndir og við þurfum að laga þetta. Við getum ekki litið svo á að þetta sé ekki nógu pólitískt skemmtilegt málefni til að hafa það í lagi. Kerfið þarf að vera í lagi, sérstaklega ef við ætlum að stuðla að einhverju sem heitir betrun. Það eru betrunarúrræði til staðar í kerfinu eins og menntun og atvinna. Þau eru ekki jafn sterk og maður vildi að þau væru en þau eru til. En þegar fjársveltið er eins og það er ná þessi úrræði ekki tilætluðum áhrifum. Fyrir utan það að maður mundi vilja að farið væri út í miklu meiri betrunarstefnu burt séð frá fjármagni en allt tal um betrun er fjarlægur draumur meðan aðstæður eru eins og þær eru. Það verður að laga þetta fyrst. Það verður að laga fjármagnsvandamálið. Og meðan ég man, Hólmsheiði, hin endanlega afsökun sem er oft notuð hvenær sem kvartað er undan einhverju í fangelsismálakerfinu, mun ekki leysa þetta vandamál. Hólmsheiði mun ekki gera það að verkum að Litla-Hraun lagist, að húsnæðið lagist eða mönnunin verði eitthvað auðveldari. Alls ekki.

Það má þó ekki gleyma því að það er stórgott starf sem oft hefur unnist í fangelsismálakerfinu. Fullt af fólki sem starfar þar á skilið mjög mikið hrós fyrir að standa vel að verki. En ef fjármagnið er ekki til staðar fer mikið af slíkum góðum hlutum til spillis, vel meintum og jákvæðum hlutum sem við ættum að nýta til fulls.

Annað sem ég vil fara inn á í tillögum minni hlutans er fjármagn til umboðsmanns Alþingis, en við leggjum til að fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis verði hækkaðar um 15 millj. kr. Meiri hlutinn lagði til að fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis yrðu lækkaðar um 13 millj. kr. Nú er það þannig að umboðsmaður Alþingis hefur flutt í húsnæði sem Alþingi á og er hættur að leigja. Leigan var um 13 millj. kr. á sínum tíma. Með því að lækka fjárveitingar um sömu upphæð er gert ráð fyrir að það sé bara ókeypis að vera í húsnæði yfir höfuð. En auðvitað er það ekki ókeypis. Það er ýmis rekstur sem fylgir húsnæðinu og ýmislegt sem umboðsmaður Alþingis hefur þurft að gera þar. Það er ekki enn þá komið aðgengi fyrir fatlaða sem að mínu mati er algerlega fráleitt. Þetta er ein helsta eftirlitsstofnun landsins að mínu mati, heyrir beint undir Alþingi og sinnir því verkefni að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og sinna kvörtunum borgaranna. Og það er ekki aðgengi fyrir fatlaða. Svo ætla menn að skera niður. Mér þykir það fráleitt, virðulegi forseti. Það eru fleiri framkvæmdir við húsnæðið sem eru eftir og síðan er það öryggisgæsla, matur, viðgerðir, fasteignagjöld — alls kyns kostnaður sem umboðsmaður þarf að standa undir. Það er ekki svo að einfalt að 13 milljónir hafi dottið af himnum ofan fyrir umboðsmann Alþingis sem hann geti nýtt í það sem hann vill nota féð í, sem eru frumkvæðisathuganir.

Umboðsmaður Alþingis hefur verið algerlega skýr í sínum málflutningi gagnvart Alþingi á fleiri en einum vettvangi. Alþingi þarf að ákveða hvert hlutverk umboðsmanns á að vera. Ef hlutverk hans er að sinna frumkvæðisathugunum, sem ég held fram að séu algerlega sjálfsagðar og hafi reynst mjög mikilvægar svo ekki sé meira sagt, þá verðum við að fjármagna þann lið eins og umboðsmaður Alþingis telur nauðsynlegt til að sinna frumkvæðisathugunum með sóma. Talan sem hann hefur nefnt eru 15 millj. kr. Þess vegna leggjum við til að fjárútlátin verði hækkuð til umboðsmanns Alþingis um þá upphæð til að hann geti sinnt störfum sínum með sem mestum sóma.

Það þarf ekki að rekja í löngu máli hvers lags trausts umboðsmaður Alþingis nýtur. Það er mjög mikið traust. Hann sinnir mörgum kvörtunum borgaranna, hann hefur einnig sinnt frumkvæðisathugunum og í hinu margumtalaða lekamáli reyndist vinna hans ómetanleg í þeirri umræðu. Það læðist að manni sá grunur að þegar Alþingi og ríkisstjórn eru svo ofboðslega samofin ríki ákveðið áhugaleysi gagnvart því að þetta embætti geti starfað af fullum krafti. Ég segi það eins og er. Ég er alveg viss um að þetta hlýtur að móðga einhvern en ég vísa því beinlínis til föðurhúsanna vegna þess að samband Alþingis og ríkisstjórnarinnar er ekki eðlilegt. Það er ekki eðlilegt hvernig ríkisstjórnin stjórnar meiri hluta Alþingis, hvernig ríkisstjórnin stjórnar raunverulega landinu umfram það sem Alþingi á að gera. Þetta samband er mjög óeðlilegt. Ég fer ekki og mun ekki fara ofan af því fyrr en í fyrsta lagi þegar ráðherrar eru hættir að vera líka þingmenn. Mér þykir það mjög óeðlilegt samband og þess vegna þykir mér algerlega eðlilegt að skjóta fram þessum grun mínum. Umboðsmaður Alþingis hefur notað það fé sem hann hefur fengið af ábyrgð. Það er ekki í lagi að mínu mati að þessi stofnun þurfi að þola fjársvelti þegar hún sjálf segir mjög skýrt að til þess að sinna frumkvæðisathugunum svo sómi sé að miðað við álag þurfi hún aukið fjármagn.

Tíminn líður hraðar en maður heldur eins og venjulega. Þá vil ég fjalla aðeins um heilbrigðiskerfið. Ég fagna því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ætli í andsvar við mig. Nú sjáum við í fréttum og vitum það að Íslendingar upp til hópa í dag trúa því ekki lengur að við njótum fyrsta flokks heilbrigðiskerfis. Það er mikið ákall um að laga það. Það hefur verið lengi fjárskortur í heilbrigðiskerfinu sem mun sjálfsagt taka einhvern tíma að laga en það þarf líka einfaldlega meira fjármagn. Ef þjóðin er spurð um forgangsröðun skattfjár skiptir ekki máli á hvaða aldri fólk er, af hvaða kyni eða í hvaða flokki það er, heilbrigðiskerfið er í fyrsta sæti hjá íslensku þjóðinni þegar kemur að nýtingu skattfjár. Það er eðlilegt. Ef tilgangur ríkis væri bara einn, og ég er ekki að segja að svo sé, en ef svo væri, væri það sennilega að reka heilbrigðiskerfi. Þegar maður spyr um forgangsröðun skattfjár kemur heilbrigðiskerfið upp fyrst og niðurstaðan er mjög afgerandi og yfirþyrmandi. Við eigum að taka mark á henni. Við eigum ekki að stjórna fjárlögum eftir skoðanakönnunum en niðurstaðan er algerlega afgerandi og gæti ekki verið skýrari. Og þegar við erum komin með hallalaus fjárlög þá höfum við ekki lengur afsakanir fyrir því að hafa þetta ekki í lagi. Margir mundu segja að við hefðum aldrei haft neinar afsakanir fyrir því. Reyndar þarf peninga til að reka þetta kerfi allt saman og ef fólki finnst peningarnir ekki skipta máli þá ætti ekki að skipta máli þótt skorið væri niður. Það meikar ekki sens. En núna eru fjárlög hallalaus. Það er svigrúm til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins og til Landspítalans sérstaklega og þá eigum við að gera það. Við eigum að gera það upp að því marki að þjóðin byrji aftur að treysta því að við séum raunverulega að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins.

Flóttafólk og hælisleitendur er annar málaflokkur sem hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og það með réttu. Í dag fengum við þingmenn ansi marga tölvupósta þar sem skorað var á okkur að breyta ákvörðun, sem Alþingi tekur reyndar ekki nema í þeim víða skilningi að við setjum landslög, um að vísa albanskri fjölskyldu frá Íslandi. Ég ætla ekki að fjalla mikið um það einstaka mál sökum tímaskorts, en það er algengur misskilningur að fólk sé byrði á samfélögum. Fólk er samfélag. Fólk er hagkerfi. Fleira fólk þýðir stærra hagkerfi. Ef okkur tekst að taka vel á móti fólki — og það er mikilvægt að við tökum vel á móti því og fjárfestum í því með ýmsum hætti, tíma, þolinmæði, umburðarlyndi og auðvitað beinhörðum peningum við allt það sem þarf að gera til að standa vel að móttöku fólks — þá græðir íslenskt samfélag, menningarlega og efnahagslega, í það minnsta til lengri tíma. Auðvitað kostar þetta eitthvað í byrjun, það er eðlilegt. Það kostar 16–20 ár að koma nýfæddu barni til þess að vera skattgreiðandi, vinnandi borgari. Stundum verður viðkomandi það ekki, en ekki erum við á móti því að setja börn í skóla. Ekki ráðum við fólki frá því að eignast börn vegna þess að það sé svo dýrt að koma þeim til manns. Varla. Þetta er málaflokkur sem ég tel að við eigum að líta á í auknum mæli sem fjárfestingu. Ekki sem einhverja ölmusu heldur sem fjárfestingu þar sem við stöndum vel að verki. Það er mjög mikilvægt að við gerum það. Oft er bent á að í öðrum löndum séu hin og þessi vandamál og það er hægt að læra af þeim. Ein mikilvægasta lexían að mínu mati er að standa vel að móttöku fólks.

Það verður að segjast eins og er um þennan málaflokk að fjármögnun hans hefur tilhneigingu til að vera frekar ófyrirsjáanleg. Maður sér ekki fyrir hvernig ástandið í heiminum þróast eða hverjar þarfirnar eru hverju sinni. Það er eitthvað sem við þurfum að vera viðbúin. Ég tel að við ættum miklu frekar að offjármagna þennan málaflokk en undirfjármagna því með offjármögnun erum við mun líklegri að mínu mati til að stuðla að fjárfestingu til lengri tíma í fólki en ef við skerum niður í þessum málaflokki. Enda leggur minni hlutinn til um 200 millj. kr. aukið framlag til útlendingamála.

Það eru ekki einungis þessi efnisatriði sem eru þess virði að fara yfir. Mér finnst líka mikilvægt að í umræðu um fjárlög tölum við um framsetningu fjárlaga, málsmeðferðina, vinnubrögðin og svo framvegis. Oftar en ekki þegar við tölum um vinnubrögðin er einn að skamma annan. Ég hef haldið nokkrar ræður um mikilvægi þess að fjárlög séu á tölvutæku sniði og fagna því mjög að í frumvarpi um opinber fjármál hafi tekist að koma inn málsgrein um að framsetning fjárlagafrumvarps skuli vera tölvutæk. Það er eitthvað sem ég fullyrði að muni skapa meira gegnsæi en hið háa Alþingi áttar sig á. Fjárlög eru gegnsæ í þeim skilningi að upplýsingar eru til staðar en það skiptir máli hvernig þær eru settar fram og hvernig hægt er að nýta þær. Núna þegar ég ætla að reikna út eitthvað í fjárlögum þarf ég að velja töluna og setja hana inn í töflureikni og finna einhverjar tölur hjá Hagstofunni og miða við t.d. neysluverðsvísitölu eða eitthvað því um líkt. Þetta er handavinna í tölvu sem í raun og veru er ekki svo frábrugðin því og ef maður væri með reiknivél og pappír fyrir framan sig, sem er fráleitt árið 2015. En sem betur fer kemur þetta til með að breytast eftir að við samþykkjum hið ágæta frumvarp um opinber fjármál sem ég hlakka til að greiða atkvæði með. Það munar mjög mikið um þetta, það munar meira um þetta í sambandi við gegnsæi og skilvirkni en til dæmis að fækka tekjuskattsþrepum úr þremur í tvö eða fækka virðisaukaskattsþrepum. Margir hér tala með réttu um að mikilvægt sé að hafa einfalt skattkerfi. Einföldun er í eðli sínu þáttur í gegnsæi og ber að virða það. En hins vegar verður maður líka að átta sig á því að tæknin breytist, aðstæður breytast og geta manna til að meðhöndla upplýsingar og vinna úr þeim breytist einnig, til hins betra í samtímanum að minnsta kosti.

Þess vegna finnst mér alltaf svolítið skakkt að tala um einföldun skattkerfisins í formi þess að fækka einhverjum skattþrepum. Ef ég sem forritari væri að skrifa forrit sem ætti að reikna út tekjuskatt væri ekki miklu flóknara að búa til forrit sem gerði ráð fyrir þremur skattþrepum en tveimur. Eða fimmtíu milljón skattþrepum ef út í það er farið. Forritið sjálft væri ekki mikið flóknara, þ.e. ef maður notar forrit til að gera þetta sem ég legg til að við gerum. Það stuðlar miklu frekar að gegnsæi í skattheimtu eða nýtingu fjármagns að sýna gögnin á nýtanlegu sniði, á sniði og í framsetningu sem hægt er að nota með tölvutækum hætti. Það sem gerist er að samfélagið sjálft bregst við. Einstaka nörd út í bæ eins og ég sem hefur áhuga á þessu, setur upp vef eða býr til forrit. Það gerist, það eru dæmi um það. Ég nefni enn og aftur hvertferskatturinn.is. Ég stend ekki að þeim vef, enginn pírati að mér vitandi, ég veit ekki hvað sá hv. herramaður kýs. En það var alla vega enginn úr okkar röðum, enginn af þingi, enginn frá ríkinu. Það var bara einhver aðili úti í bæ, einn einstaklingur með tölvuþekkingu. Hann hefur ekki einu sinni þurft það mikla tölvuþekkingu. Hann nýtti útgefin gögn, sem er ársreikningur ríkisins, á tölvutæku sniði og mjög fínu sniði ef út í það er farið. Þetta býr til gegnsæi, býr til betri framsetningu á ársreikningi.

Við eigum að gera hið sama með fjárlög. Við eigum að gera almenningi kleift að nýta fjárlög þannig að hann geti sjálfur tekið þátt í forgangsröðun á verkefnum. Ég held því fram að almenningur hafi ekki gott tækifæri til þess að gera það, ekki í það minnsta ef um er að ræða fólk í vinnu, sem á börn og er almennt upptekið í lífinu eins og við flest erum auðvitað. En fólk hefur gaman af því að skilja gögn betur og tengja saman gögn. Það er fullt af fólki úti í samfélaginu og ef ekki fólk þá fyrirtæki eins og Datamarket eða önnur fyrirtæki sem hafa gaman af að setja fram flókin og leiðinleg gögn í sætum og skemmtilegum marglita línuritum og kökuritum og guð má vita hverju. Þetta skiptir máli.

Ég vona að frumvarpið um opinber fjárlög verði sem fyrst samþykkt og ný framsetning á fjárlagafrumvarpi taki við. Þá fyrst held ég að hægt verði að halda áhugaverðar ræður um það hvað sé hægt að gera við fjárlögin. Þá fyrst held ég að myndist tækifæri til að skoða flóknari leiðir til að fjármagna eitthvað sem maður sér ekki annars hvaðan peningarnir ættu að koma í, eða hver mismunandi áhrif forsendna mundu hafa á fjárlög. Allt svona verður miklu auðveldara ef frumvarpið er einfaldlega gefið út á tölvutæku sniði. Það er mér satt best að segja hulin ráðgáta hvers vegna það hefur ekki verið gert fyrr. Hér koma þingmenn oft í röðum og kvarta undan framsetningu fjárlagafrumvarps burt séð frá tölvutækni, bara yfir því hvernig gögnin eru sett fram á pappírnum. Nú verð ég að viðurkenna að ég er miklu vanari því að eiga við tölvutæk gögn og er ekki einu sinni viss um hvernig ég færi að því að setja fram frumvarp eingöngu á blaði. Ef við ætlum að stuðla að einfaldara skattkerfi og meira gegnsæi í þeim málaflokki er það þetta sem við eigum að líta til; upplýsingamiðlun til skattgreiðandans, til aðila úti í bæ. Það er leiðin fram á við í skattkerfinu, ekki endilega að hræra í prósentunum sjálfum eða velta því fyrir sér hversu mörg skattþrepin eru.

Það eru fleiri atriði sem mig langar að koma inn á. Eitt af því er í nýstárlegri kantinum sem mér þykir vænt um að fá tækifæri til að nefna aðeins. Það er fjármögnun sveitarfélaga. Mig langar að nefna sérstaklega áhugaverða stefnu sem var nýlega samþykkt í mínum ágæta flokki Pírötum sem varðar útsvar fyrirtækja. Stefnan er í sjálfu sér einföld og þetta er allt til umræðu. Ég vil vekja athygli á þessu sérstaklega því hér er fólk sem þekkir þessi kerfi vel og ég hlakka til að heyra álit þess. Hugmyndin er sú að af tekjuskatti fyrirtækja skuli greiða útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjutengda starfsemi. Nú eru Píratar einungis með þingmenn á Stór-Reykjavíkursvæðinu, Reykjavík norður, Reykjavík suður og Suðvesturkjördæmi, en við lítum á okkur sem þingmenn alls landsins. Þegar ég fer út á land og hlusta á kvartanir fólks utan stórhöfuðborgarsvæðisins finn ég að oftar en ekki kemur upp mjög sterk gremja yfir því að við í Reykjavík þykjumst og teljum okkur stjórna öllu úti á landi, að við lítum svo á að fólk búi ekki raunverulega úti á landi, það geti alltaf komið til Reykjavíkur og peningarnir úti á landi geti alltaf komið til Reykjavíkur og þaðan sé þeim síðan dreift aftur út á land.

Þetta fær mig til að velta mjög fyrir mér raunverulegri valddreifingu bæði á Alþingi og sömuleiðis þegar kemur að ráðstöfun fjármagns yfir höfuð. Hér er oft bölsótast yfir svokölluðu kjördæmapoti sem mér hefur löngum þótt mjög ósanngjarnt. Það er ástæða fyrir því að við erum með kjördæmaskipt land og hún er einfaldlega sú að hagsmunir fólks utan stórhöfuðborgarsvæðisins mega ekki gleymast þrátt fyrir að hér búi meiri hluti þjóðarinnar. Það hefur sína galla svo sem ójafnt vægi atkvæða og fleira í þeim dúr. En eftir stendur spurningin: Hvers vegna fær fólk ekki bara að ráða sér svolítið meira sjálft? Hvort sem við tölum um einstaklinga eða bæjarfélög, sveitarfélög, lönd eða landshluta þá tel ég að við eigum að hafa það að leiðarljósi að fólk almennt stjórni sínu lífi sem mest og öðrum sem minnst. Það þýðir að við eigum að efla einstaklingsfrelsi, tengja valdið við þá sem þurfa að lúta því. Í grunninn snýst lýðræði og einstaklingsfrelsi um sama hlutinn sem er sjálfsákvörðunarrétturinn. Hann er á öðrum skala og í öðru formi en hann þjónar í grunninn sama hlutverki að mínu mati. Þess vegna þætti mér mjög áhugavert að sjá hvað hugmynd eins og þessi mundi hafa í för með sér varðandi möguleika sveitarfélaga á að fjármagna sjálf það sem þau vilja gera. Mikið af tekjum fer til ríkisins og síðan erum við hér að karpa um það hvert peningarnir eigi að fara aftur út á land. Auðvitað væri langskynsamlegast ef í ljós kemur að landsbyggðin getur raunverulega staðið undir mörgum af þessum verkefnum að hún geri það bara sjálf án þess að spyrja fólk í Reykjavík.

Þetta er auðvitað eitthvað sem þyrfti að kanna til hlítar. Ég heyri víða hjá fólki sem ég tel vita sínu viti, án þess að ég hafi endilega reynt að staðfesta það við hvert einasta tækifæri, að landsbyggðin spyrji stundum: Höfum við efni á Reykjavík? Þá er orðræðan sú að landsbyggðin framleiði nóg af verðmætum sem einfaldlega fari hingað til Reykjavíkur og við í Reykjavík ráðstöfum síðan í allri þessari pólitík og flandri sem viðgengst meðal annars á Alþingi í fjárlögum og slíku. Ef reyndin er sú að landsbyggðin gæti að einhverjum hluta fjármagnað þessi verkefni sjálf væri tilvalið að hún gerði það einfaldlega. Þarna held ég að sé tækifæri til að auka sjálfsákvörðunarrétt fólks úti á landi. Tengja það nær valdinu sem það þarf að lúta. Gera því kleift að stjórna örlögum sínum betur. Ég held að það væri afskaplega jákvæð þróun fyrir þetta land. Að því sögðu er ég viss um að það eru einhverjir gallar við þessa hugmynd sem ég sé ekki enda vek ég máls á þessu til þess að kanna áhuga annarra hv. þingmanna og hvort á hugmyndinni séu gallar sem felli hana, eða menn sjái eitthvað sem geti hjálpað til við að gera hana raunhæfa. En hugmyndin sem er útfærð í þessari nýsamþykktu stefnu okkar pírata er í sjálfu sér einföld. Hún er að af tekjuskatti fyrirtækja skuli greiða útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjutengda starfsemi. Þetta kemur einnig að virðisaukaskatti svo það sé sagt líka, af virðisaukaskatti skuli greiða útsvar til sveitarfélaga þar sem viðkomandi viðskipti eða sala eiga sér stað.

Síðast en ekki síst á þessum lokamínútum ætla ég að fjalla um skatteftirlit. Í tillögum minni hlutans gerum við ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs í formi skatttekna vegna aukins skatteftirlits. Það var fyrir einhverjum árum þegar ég notaði meira reiðufé en ég nota núna, áður en ég fór á þing, að ég tók eftir því að víða hefur fólk tilhneigingu til að stimpla inn í kassann eitthvað sem ég kannaðist ekki við að ætti að gera frá því ég var á táningsaldri og vann í sjoppu. Ég hef hugsað um þetta í dágóðan tíma og velt fyrir mér hversu mikið af skattsvikum raunverulega eigi sér stað á Íslandi. Ég óttast að í menningu okkar sé ákveðið viðhorf gagnvart skattundanskotum, að þau séu í raun og veru eðlileg og réttlætanleg. Ég óttast að þetta viðhorf hafi aðeins styrkst eftir hrun. Eftir hrun upplifði þjóðin mjög mikinn skort á trausti til stjórnmálamanna og þess að þetta kerfi, ríkið, væri raunverulega fyrir fólkið í landinu. Ég held að undir slíkum kringumstæðum þegar skattar eru háir og virðisaukaskattur er hár, alla vega efra þrepið, sé auðveldara en ella fyrir einhvern sem er í rekstri sem gengur kannski ekki mjög vel að réttlæta fyrir sjálfum sér skattundanskot. Þess vegna þykir mér algerlega á það reynandi að efla skatteftirlit í því augnamiði að auka skattheimtu. Ef þetta menningarlega atriði festir rætur, þetta viðhorf til skattundanskota, getur verið mjög erfitt að losna við það, ef það er þá mögulegt. Það er frægt í Grikklandi til dæmis hvernig skattundanskot þykja næstum því bara almenn skynsemi, hálfgerð vitleysa að borga skatta ef maður mögulega kemst hjá því. Það er afskaplega óhollt viðhorf. Við verðum að sporna við því áður en það verður að stærra vandamáli, þ.e. ef þessi grunur minn er réttur um að þetta sé að aukast, þetta er nú bara órökstuddur grunur verð ég að viðurkenna. En mér þótti rétt að minnast á þetta í ljósi þess að við gerum ráð fyrir þessu í tillögum minni hlutans.

Það er ýmislegt fleira sem væri hægt að fara út í en í ljósi þess að ég á einungis tæpar 30 sekúndur eftir af ræðutíma mínum, virðulegi forseti, ætla ég ekki að hætta á það að geta komið einhverju af viti frá mér á þeim tíma, jafnvel þótt lengri væri, og lýk því ræðu minni.



[23:51]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu. Mig langaði aðeins að ræða við hv. þingmann um fangelsismálin. Ég hjó eftir því að hann hafði áhyggjur af þeim þáttum og ég tek undir með honum þar. Ég er ánægður með að hann hafi veitt þessu máli athygli og sérstaklega að leggja þurfi meira í starfsemina á Litla-Hrauni, sem er undirmönnuð og illa fjármögnuð.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að leggja 160 millj. kr. aukalega í þennan málaflokk. Einnig gerði meiri hluti fjárlaganefndar að tillögu sinni að bæta að auki 45 millj. kr. í málaflokkinn, þannig að alls verður aukningin 205 millj. kr. á milli áranna 2015–2016. Það er 14% aukning. Er hv. þingmaður ekki nokkuð ánægður með það? Telur hann hugsanlega að gera þurfi meira eða er hann með aðrar tillögur í því efni?



[23:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar frumvarpið var lagt fram skildist mér samt sem áður að gert væri ráð fyrir 11 millj. kr. niðurskurði þótt fyrstu tölurnar sem ég hafi séð í frumvarpinu hafi litið út eins og hækkun. Ég fór meira að segja í viðtal um leið og ég las það og fagnaði því að þarna væri lagt til aukið fjármagn, en svo talaði ég við fólk innan fangelsismálakerfisins og þá var mér sagt að það væri samt sem áður gerð 11 millj. kr. aðhaldskrafa. Ég þyrfti að skoða það betur með hv. þingmanni ef sá skilningur minn er á einhvern hátt rangur. Ég hef það frá fleiri en einum stað innan kerfisins, en ég er alveg reiðubúinn til að skoða það eitthvað betur.

Hins vegar þegar kemur að breytingartillögu meiri hlutans þá fagna ég henni. Hún hljóðar að vísu upp á 45 millj. kr. í fjárlögum, restin kemur í fjáraukalögum, sem er svo sem skárra en ekkert. En tillaga okkar í minni hlutanum er að 80 millj. kr. fari til þessara mála í fjárlögum næsta árs, þannig að fjárveitingin sé fyrir hendi og að þetta sé hugsað til lengri tíma.



[23:53]
Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á hugmyndir sem miða að því að spara kostnað við afplánun. Eins og hv. þingmaður gerir sér grein fyrir kostar hver sólarhringur að meðaltali 30 þús. kr. í afplánun í fangelsisstofnunum landsins, það eru 11 millj. kr. á ári fyrir hvert fangaár sem leggjast á skattgreiðendur, eins og við höfum fjallað um hér. Það eru aðrar leiðir færar sem notast hefur verið við í auknum mæli í nágrannalöndunum fyrir fanga sem ekki eru hættulegir umhverfi sínu eða að vera í öryggisgæslu, þ.e. að bjóða frekar upp á samfélagsþjónustu, rafrænt eftirlit, ökklabönd, sem spara þá þennan kostnað, og eins að bjóða erlendum föngum að afplána í heimalandi sínu. Mér reiknast til að með því að setja ökklabönd á 130 fanga verði hægt að spara einn milljarð við afplánun. Hvernig hugnast hv. þingmanni slíkar hugmyndir?



[23:54]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli líst mér vel á slíkar hugmyndir. Ég tel betrun vera eina mikilvægustu leiðina til að spara til lengri tíma. Betrun er orð sem er notað meira en það er praktíserað raunverulega. Nú týni ég íslenskunni minni, virðulegi forseti. En úrræði eins og samfélagsþjónusta og rafrænt eftirlit eru tvímælalaust til bóta. Það er margt gott við frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um fullnustu refsinga sem komið hefur fram og við eigum eftir að ræða betur, það eru ágætar breytingar í þeim efnum. Það er að vísu mjög margt í því frumvarpi sem athuga þarf og breyta, að mínu mati. En vissulega er þessi leið ein af þeim sem fara mætti.

Eitt af því sem er afskaplega mikilvægt og mjög vanmetið er hvernig búið er að föngum þegar þeir fara úr fangelsi, vegna þess að það eru afskaplega margir fangar sem hafa áður verið í fangelsi. Við byrjum fyrst að spara ef okkur tekst að rjúfa þann vítahring. Við spörum mest í fangelsiskerfinu með því að þurfa minnst á því að halda.



[23:56]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það var margt mjög athyglisvert sem ég get tekið undir, en ég ætla ekki að vera í því í eina mínútu. Ég ætla að láta vita að varðandi umboðsmann Alþingis stendur ekkert annað til en að sú stofnun verði jafnsett. Hvað varðar forgangsröðun til heilbrigðismála finnst mér svolítið vanta hjá hv. þingmanni hvernig við eigum að gera það. Það er enginn vafi að það hefur verið forgangsmál að setja meiri peninga þar inn, en það er ekki nóg, það þarf að fara í ákveðnar kerfisbreytingar. Þetta snýst líka um að taka peninga annars staðar til að setja í heilbrigðismálin. Það er það sem vantar. Til dæmis eru tillögur minni hlutans ófjármagnaðar. Það að setja 4.000 milljónir á skatteftirlit og setja 8.000 milljónir í viðbót á auknar arðgreiðslur til bankanna er ekki fjármögnun.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur, af því að hann veit að það er gert ráð fyrir afturvirkninni fyrir öryrkja og eldri borgara í 9,7%, en hann talar um tekjutengingarnar sem honum finnst ósanngjarnar. (Forseti hringir.) Það er allt satt og rétt en hins vegar gerir maður ekki hvort tveggja, í því felst vandinn. Tekjutengingarnar eru komnar til þess að nýta peningana fyrir þá sem hafa sem allra minnst en ef við tökum tekjutengingarnar munum við ekki hafa fjármagn til þess. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa eitthvert jafnvægi í þessu.



[23:57]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála því að tillögur minni hlutans séu ekki fjármagnaðar en til þess að halda samtalinu áfram skal ég sættast á það, alla vega í þessari rökræðu, vegna þess að jafnvel þótt svo sé er eru tillögur minni hlutans það hóflegar að þar ættu að rúmast, þrátt fyrir að engar tekjur kæmu á móti. Við ættum samt sem áður að skila hallalausum fjárlögum og vera með afgang. Með hliðsjón af fréttum sem við heyrum af heilbrigðiskerfinu og frá mönnum sem vita mjög mikið um heilbrigðiskerfið og vinna mjög náið með því, þá er enn þá mjög mikill fjárskortur og það er ábyrgðarhluti okkar að koma til móts við það, jafnvel þótt við gleymum þessum tekjuöflunarleiðum frá minni hlutanum.

Hvað varðar tekjutengingarnar er það eitthvað sem getur ekki gerst á einu bretti, enda erum við að ræða kerfi sem er afskaplega flókið. Ég hlakka mjög til að heyra tillögur sem koma frá títtnefndri nefnd, sem á að veita heildarsýn á það hvernig þetta kerfi eigi að virka í framtíðinni. Það er held ég þá fyrst sem ég get svarað einhverjum nánari útfærsluatriðum um það hvernig ég sé fyrir mér að hægt væri að afnema tekjutenginguna.



[23:58]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er erfitt að ræða svona stórmál á svo ótrúlega skömmum tíma. En hins vegar er það þannig að það verða jafn miklar arðgreiðslur alveg sama hvaða tölu menn setja í það. Það er bara Bankasýslan sem kemur með þá tillögu. Menn hafa lagt áherslu á að hún eigi að vera til staðar og sinna hlutverki sínu og þetta er eitt af hlutverkum hennar. Það skiptir engu máli hvaða tala er sett í fjárlögin, það bara kemur út þannig að það er engin breyting hvað það varðar. 4.000 milljónir í skatteftirlit er náttúrlega út í bláinn. Það er alveg fullkomlega út í bláinn. Það vita allir. Þeir hefðu alveg eins getað sett 6 eða 8 eða 2 eða hvað sem er, þannig að ef menn taka saman útgjöldin sem eru komin og afganginn náum við ekki endum saman miðað við þessar forsendur.

Varðandi heilbrigðismálin almennt er ég algjörlega með í því að þetta er eitt af því sem við eigum að forgangsraða í, það er það sem við erum búin að vera að gera, en það vantar hins vegar algjörlega umræðu um það hvar á að spara. Ég sakna þess í ræðu hv. þingmanns.



[00:00]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur þá tel ég ekki einu sinni að þær tillögur sem við leggjum fram hérna krefjist þess að það séu auknar tekjur á móti, einfaldlega vegna þess að þetta er málaflokkur sem hefur setið á hakanum í einhvern tíma og við þurfum að bæta upp. Það er alla vega mín persónulega afstaða. Síðan er hitt að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur farið í skattalækkanir til dæmis sem hafa dregið úr tekjum, alla vega var gert ráð fyrir því á sínum tíma. Það mætti einfaldlega hætta við þær. Það er ein hugmynd. Það eru margar leiðir til þess að auka tekjur ríkissjóðs jafnvel ef hv. þingmanni þykja þessar tilteknu tillögur óraunhæfar. En burt séð frá því tel ég mjög mikilvægt að við stöndum vörð um heilbrigðiskerfið okkar og styrkjum það eftir það sem á undan er gengið.

Að því sögðu er ég afskaplega feginn því, sama hver ágreiningur okkar er um tölur og efnisatriði, að allir hér tala eins og þeir vilji setja heilbrigðiskerfið í forgang. Mér finnst það mjög jákvætt í það minnsta.



[00:01]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu.

Af því að þetta er bara mínúta ætla ég að tala hratt. Heilbrigðismálin. Þau hafa verið í forgangi eftir langt svelti, en meira þarf ef duga skal. Málið er: Búið er að tryggja launahækkanir þannig að atgervisflótti verði takmarkaður. Það er í gangi áætlun um tækjakaup til þriggja, fjögurra ára. Það er búið að setja saman hóp til að eiga samtal um virkilega fjárþörf, svo menn geti hætt að tala saman í blöðunum á þessum árstíma. Bætt hefur verið í heilsugæsluna til að aflétta þrýstingi af bráðamóttöku. Sett hefur verið aukafjárveiting til að eyða eða vinna á biðlistum.

Spurningin er: Mundi hv. þingmaður vilja gera hlutina einhvern veginn öðruvísi en það sem ég hef stiklað hérna á í örfáum orðum? Mundi hann hafa aðrar (Forseti hringir.) áherslur?



[00:02]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég mundi ekki hafa aðrar áherslur, ég mundi bara vilja hafa meira af þessu. Ég mundi vilja hafa meira af peningum í þessu. Þetta eru allt góðir hlutir. Ég fagna sér í lagi þeim 850 milljónum sem eru lagðar til til að vinna á biðlistum, mjög mikilvægt.

Enn og aftur. Ég fagna því að viðleitnin sem ég heyri hér sé sú að þetta kerfi sé í forgangi. Í ræðu minni áðan vakti ég máls á þessu til að benda á að þetta kerfi þurfi að vera í forgangi og það þurfi fjármagn og það gleður mig að andsvörin sem ég fæ eru ekki þessi: Nei, Helgi Hrafn Gunnarsson, hv. þingmaður, þetta á ekki að vera í forgangi. — Enginn er að segja það. Allir eru að segja að þetta eigi að vera í forgangi. Ég fagna því. Ég get þess vegna ekki mótmælt þeim hlutum sem hv. þingmaður nefndi. Ég fagna þeim öllum. En ég mundi vilja ganga lengra og legg til að við gerum það vegna þess að við getum það, við erum að skila hallalausum fjárlögum. Það er svigrúm til að gera enn betur. En í því felst engin fordæming á það sem þó er verið að gera.



[00:03]
Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Tvö atriði í viðbót, hv. þingmaður. Skildi ég hv. þingmann rétt að hann vildi að þjóðin kæmi að fjárlögum með því að opna þau, vegna þess að nú er verið að færa fjárlög frá þinginu enn meira með nýju lagafrumvarpi um ríkisfjármál sem hv. þingmaður fagnaði, ég skil þetta ekki alveg.

Annað líka. Það varðar tekjuöflun ríkissjóðs. Ég skildi ekki alveg það sem hv. þingmaður talaði um varðandi tekjuskattinn. Mér er ekki alveg ljóst hvort Píratar stefna þá að fjölþrepa tekjuskattskerfi eða flötum tekjuskatti, hversu mörg þrep, ef fjölþrepa tekjuskattskerfið er það sem Píratar vilja. Ég hefði gjarnan viljað að hv. þingmaður varpaði ljósi á það og einnig þá aðkomu, ef ég misskildi hann ekki þeim mun meira, þjóðarinnar að fjárlögum. Hvar endar hún? Er hún um skatthlutfall? Er hún um það ef allir íbúar Akureyrar sameinast um að (Forseti hringir.) það sé brýnast af öllu að Háskólinn á Akureyri fái verulegt fjármagn? Hvernig er (Forseti hringir.) þetta hugsað?



[00:05]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar og vildi óska þess að ég hefði meiri tíma til að svara.

Hvað varðar aðkomu þjóðarinnar að fjárlögum. Það sem ég átti við er ekki það að þjóðin fari að greiða atkvæði um fjárlög sem slík. Í öllum útfærslum sem ég þekki um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði þjóðarinnar eru fjárlög til dæmis undanskilin. Hins vegar er mjög mikilvægt við vinnslu fjárlaga að þjóðin hafi greiðan aðgang að upplýsingum, skýrar boðleiðir, sem mættu vera skýrari að mínu mati reyndar ef út í það er farið þótt þær séu vissulega til staðar í formi umsagnarferlisins. En því betur sem þjóðin hefur færi á að nýta slík gögn og sjá nýjar hugmyndir eða hvernig hægt sé að leysa ákveðið vandamál, því betra. Sú aðkoma væri aðallega í formi mun upplýstari og gagnlegri umræðu í kjölfar þess að hægt væri að nýta gögn á mun gagnlegri hátt.

Hvað varðar tekjuskattsþrepin, Píratar hafa ekki stefnu í því í sjálfu sér eins og flokkurinn. Ég verð að segja að mér finnst það sem áhersluatriði í einföldun skattkerfisins vera svolítið á röngum stað. Ég skil hvað menn eru að hugsa. Ég hef ekkert á móti því að hafa þrjú skattþrep. Ég sé ekkert að því. Ég sé ekki hversu miklu (Forseti hringir.) flóknara það er en að hafa tvö.



[00:06]
Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja að þeim kafla ræðu hv. þingmanns sem laut að bótakerfinu eða bótum. Nú er það þannig á vinnumarkaði að laun ákvarðast ekki af öðrum þáttum en vinnuframlagi. Guðrún gröfukona tekur ekki endilega laun miðað við fjölskyldustærð, hversu mörg börn hún á eða þess háttar eða skuldir, laun taka ekki mið af skuldum manna sem dæmi. Þá standa launamenn reglulega í kjarabaráttu. Í ljósi þessa blasir við að það er eðlismunur á launum og bótum og það er ástæðan fyrir því að bætur taka lögbundnum breytingum einu sinni á ári ólíkt launum. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ósammála því fyrirkomulagi hvernig bætur eru ákvarðaðar einu sinni á ári ólíkt launum?



[00:07]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki á móti því fyrirkomulagi. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á samhenginu verð ég að viðurkenna. Eðlismunur á launum og bótum, ég sé ekki alveg hvers vegna það skiptir máli hvort við köllum þetta laun eða bætur. Eftir stendur að fólk þarf þetta til þess að lifa. Það er ekkert valkvætt að nota peninga í nútímasamfélagi, alla vega ekki ef maður ætlar að lifa í samfélaginu sjálfu. Svo er hitt að ýmis laun taka breytingum árlega, laun okkar taka til dæmis breytingum um það bil árlega samkvæmt kjararáði og sömuleiðis tíðkast það mjög víða í vinnu að endurskoða laun árlega og því um líkt. Ég sé í sjálfu sér ekki eðlismun hvað það varðar, en hins vegar er eðlismunurinn auðvitað sá að öryrki getur ekki samið við neinn, hann getur ekki hætt að vera öryrki, hann getur ekki farið til annars fyrirtæki og verið öryrki þar. Hann stólar því á það að við tökum ákvarðanir meira út frá sanngirni en einföldum markaðssjónarmiðum.



[00:09]
Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var kannski ekki nógu skýr í fyrirspurn minni. Það er einmitt sérstök staða öryrkja og annarra bótaþega að þeir semja ekki um kjör sín. Það er þess vegna sem það er lögákveðið að bætur taka breytingum einu sinni á ári með framlagningu fjárlaga, í ársbyrjun ár hvert. Til dæmis fengu bótaþegar 3% hækkun 1. janúar síðastliðinn þegar enginn launamaður fékk slíka hækkun sérstaklega. Það er það sem ég er að reyna að draga fram. Það eru lögákvæði hvernig bætur hækka og þess vegna vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann gæti ekki verið sammála mér um að það væri fólgið í því að minnsta kosti örlítið lýðskrum þegar stjórnmálamenn tala um að bætur eigi að hækka allt í einu afturvirkt, af því að það er beinlínis lögákveðið hvenær bætur hækka. Bótaþegar geta gengið að því vísu að bætur séu endurskoðaðar einu sinni á ári. Enginn launamaður getur gengið að slíku vísu. (Forseti hringir.) Margir launamenn hafa þurft að bíða miklu lengur en ár eftir endurskoðun launa sinna.



[00:10]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að svara spurningunni um lýðskrumið. Það er svo ægilega mikið viðhorfs- og túlkunaratriði, sjálfsagt finnst mörgum það vera lýðskrum. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmanni finnist þetta vera lýðskrum.

Nú er ég langt frá því að vera einhver sérfræðingur í því hvernig þetta bótakerfi allt saman virkar og hef þó reynt að skilja hluta af því, sem reyndist mjög erfiður vegna þess að þetta er mjög flókið. Ég segi stundum, sér í lagi í sambandi við skuldaleiðréttinguna svokölluðu, að enginn hópur hafi upplifað annan eins forsendubrest eftir hrun og öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Enginn. Enginn hópur á Íslandi. Fólk með verðtryggð lán gat þó alla vega lesið samninginn og reynt að skilja hann en þegar átti að gera ráð fyrir þessu gátu þeir það ekki út af hruninu, vegna þess að lögunum var einfaldlega breytt. Þeir hafa því orðið eftir alla tíð síðan. Það er kominn tími til þess að við sýnum þá viðleitni að verða við óskum þeirra.

Það hvort þessi 3% hækkun (Forseti hringir.) sé í raun og veru staðgengill þess að það virki afturvirkt þyrfti ég að skoða betur, verð ég að viðurkenna, til að komast endanlega að niðurstöðu. Mér finnst sjálfsagt að verða við (Forseti hringir.) kröfum þessa hóps alla vega af og til.



[00:12]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða í 2. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016. Fyrst vil ég segja um fjárlögin að þetta eru góð og jákvæð fjárlög, ekki aðeins vegna þess að þau endurspegla góða stöðu og jákvæða í orðsins fyllstu merkingu, þar sem lagt er upp með afgang af ríkissjóði þriðja árið í röð, heldur enn fremur vegna þess að áherslur þessarar ríkisstjórnar koma vel fram, bæði á gjalda- og tekjuhlið, eins og þetta stærsta stefnumál hverrar ríkisstjórnar ber að gera hverju sinni. Tekjur ríkissjóðs eru að aukast þrátt fyrir að áherslan hafi verið á lækkun skatta til aukinnar ráðstöfunar og kjarabóta og þá kaupmáttar fyrir einstaklinga, almenning eða heimilin í landinu. Tekjuaukinn er skýr vísbending um að betur gengur í atvinnulífinu og bættum kjörum á sama tíma og reynt er eftir fremsta megni að sýna aðhald á gjaldahlið með skýrri forgangsröðun til grunnþjónustunnar. Auðvitað má merkja áhrif kjarasamninga á útgjaldahlið fjárlaga. Tekjuaukinn hefur þannig, má segja, farið í að bæta kjör og reisa við og bæta grunnþjónustu. Þar liggur forgangurinn en að sjálfsögðu er afgangurinn mikilvægur þannig að hægt verði í auknum mæli að ganga á ríkisskuldir og lækka vaxtabyrðina sem enn er allt of stór útgjaldaliður og hamlar uppbyggingu.

Virðulegi forseti. Með því að skila ríkissjóði með auknum afgangi þriðja árið í röð eykst svigrúmið til að ráðast af alvöru í niðurgreiðslu skulda og þá um leið þann útgjaldalið sem eru vaxtagjöldin, sem er enn um sinn þriðji stærsti útgjaldaliðurinn á eftir framlögum til heilbrigðis- og velferðarmála. Við ættum í því ljósi öll að geta verið sammála um að ráðast verði af fullum þunga í að greiða niður skuldir á komandi missirum, lækka vaxtaútgjöldin til þess að við getum og verðum enn betur í færum til að bæta grunnþjónustu, brýnustu þarfir í velferðarmálum. Ég nefni málefni eldri borgara og öryrkja en mikið hefur verið rætt um það, eðli máls samkvæmt. Nú síðast í dag var fundur fjárlaganefndar með Félagi eldri borgara og fulltrúum öryrkja. Svo er það í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum, löggæslunni og þeim skilgreindu grunnþjónustumálefnum sem við viljum standa mynduglega að. Þessi ríkisstjórn hefur, alveg sama hvað hver segir, útfært skýra stefnu og hún endurspeglast vel í fjárlagagerðinni, bæði á tekju- og útgjaldahlið. Í því sama samhengi kemur vel fram í nefndaráliti meiri hlutans sú fjárfestingarþörf sem hefur safnast upp í helstu innviðum, eins og samgöngumannvirkjum, og sú framtíð sem blasir við í þróun breyttrar aldurssamsetningar og öllu heldur í þeim áherslum sem við sjáum í breytingartillögum þess efnis. Þetta mun óhjákvæmilega kalla á aukin útgjöld á komandi missirum á því sviði.

Hagvöxtur til framtíðar litið og lífskjör munu óneitanlega þegar litið er til mikilvægis ferðaþjónustunnar og uppbyggingar hennar sem atvinnugreinar treysta verulega á fjárfestingu í innviðum og samgöngum. Menntun er þáttur sem við verðum að hlúa vel að og framlög til menntamála snúast alltaf um framtíðarlífskjör og þar munum við ávallt þurfa að horfa til samanburðar landa okkar, vegna þess að samkeppnin um ferðamenn, um vinnuafl framtíðarinnar liggur þar. Upphaflegur áætlaður rekstrarafgangur var 15,3 milljarðar en með breytingartillögum, sem m.a. má finna í nefndaráliti meiri hlutans og á sérþingskjölum, mun hann dragast saman um liðlega 1/3 þar sem breytingartillögurnar kalla á 4,6 milljarða aukin nettóútgjöld. Tekjur aukast um rúmlega 4.236 millj. kr. til merkis um betri tíð, en útgjöldin samkvæmt breytingartillögum aukast um 8.803 millj. kr. Þannig verður afgangurinn samkvæmt þessu, gangi frumvarpið eftir með fyrirliggjandi breytingartillögum, 10,7 milljarðar. Það er eftir sem áður myndarlegur afgangur en vissulega mun minni afgangur, sem út af fyrir sig er áhyggjuefni miðað við þær efnahagsaðstæður sem við búum við núna, þá uppsveiflu sem við erum í í efnahagslífinu og vilja margir meina að við séum á toppi þeirrar uppsveiflu og komin inn í góðæri. Það verður þó að líta til þeirra aðstæðna sem við komum frá. Þar var grunnþjónustan farin að finna verulega fyrir samfelldum niðurskurði í nokkurn tíma á meðan við vorum að vinna okkur í gegnum og út úr kreppu og því aðkallandi að vinna sig til baka þegar betur árar. Það kann sumum að finnast gerast hægar en gott þykir en á sama tíma er mikilvægt að sýna aðhald og því er þetta eilítið snúin staða. Staðan er snúin, segi ég, vegna þess að um leið og við þurfum að mæta útgjaldakröfum á hagstjórnarforsendum þar sem mikilvægt er að sýna aðhald þá vilja flestir sjá hlutina gerast hraðar, sjá viðsnúninginn skarpari, um leið og sannarlega er vilji til að leiðrétta kjör launþega og bæta í þegar kemur að grunnþjónustu, sem er eins og ég kom að áðan víða aðkallandi og við finnum vel fyrir því. Þetta er verkefnið, hafi ég ekki sagt það nægilega skýrt, að hæstv. ríkisstjórn taki skynsamlega á þeim málum, feti þá stigu eins skynsamlega og mildilega gagnvart hagstjórn, stöðugleika og kaupmætti og hægt er á sama tíma og launakjör eru leiðrétt og bætt er í grunnþjónustu.

Stór hluti útgjaldaaukningarinnar er vegna áhrifa kjarasamninga eða um 5 milljarðar, á móti vega þar breyttar verðlagsforsendur þar sem gengis- og verðlagsbætur lækka um 2,3 milljarða og nettóáhrifin því liðlega 3 milljarðar. Segja má að aðrar breytingar komi í framhaldi af aðkallandi fjármagni til verkefna sem óhjákvæmilegt er að fara í og er það vel að farið sé í þau verkefni á markvissan hátt og fjármagni beint þangað.

Ég held mig við nefndarálit meiri hluta og þau verkefni sem birtast þar í breytingartillögum og nefni heilbrigðiskerfið, menntamálin, velferðarkerfið, húsnæðiskerfið og innviðina. Einnig eru ýmis önnur verkefni sem þarf að takast á við og nefni ég þar flóttamenn og hælisleitendur, atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og ýmis heilbrigðar- og velferðartengd málefni. Eins og ég sagði er þetta rakið ágætlega í nefndaráliti meiri hlutans og tilgreint í breytingartillögum sem þar er að finna.

Ég ætla að ræða meginbreytingarnar eins og þær birtast þar. Fyrst ætla ég að telja að 1 milljarður fer til aðstoðar við hælisleitendur og flóttafólk. Ég vil segja að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið myndarlega á þeim vanda sem steðjar að og það er ekki mælt í fjármunum eða fjölda heldur fremur í viðleitni til þess að taka á því af ábyrgð og vanda til verka þannig að við getum tekið myndarlega á móti fólki og hjálpað því að samlagast þjóðfélagi okkar og því samfélagi sem tekur á móti í hverju tilviki. Þannig fara aukalega 531 millj. kr. til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi og þróunarsamvinnu, þar af 18 millj. kr. til Sameinuðu þjóðanna og til Háskóla Sameinuðu þjóðanna 13 millj. kr. og 500 millj. kr. í mannúðarmál og neyðaraðstoð. Einnig er framlag sem fer til stuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn og svo fara 95 millj. kr. aukalega til Útlendingastofnunar til að mæta auknum fjölda hælisleitenda og uppfylla kröfur um málshraða, en með því viðbótarframlagi verður heildarframlag til Útlendingastofnunar 349 millj. kr. á næsta ári. 50 millj. kr. eru vegna aukins kostnaðar samkvæmt 15. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og 375 millj. kr. fara til innflytjendaráðs og móttöku flóttamanna og hjálparstarfsemi, þannig að um 1 milljarður fer á ýmsa liði til að við getum sem faglegast og best tekið á móti og veitt sem besta aðstoð fyrir þá fjármuni sem við setjum í þetta verkefni, sem við eigum að sameinast um að gera sem best.

Í annan stað fara 840 millj. kr. samkvæmt þeim breytingartillögum sem ég er að fara yfir sérstaklega til að vinna niður biðlista eftir völdum skurðaðgerðum. Biðlistinn er gríðarlegur og gert er ráð fyrir að gerðar verði alls 4.963 aðgerðir á þriggja ára tímabili, til vitnis um þennan lista. Þar er um að ræða augnsteinaaðgerðir, kransæðaþræðingar og gerviliðaaðgerðir á hné og mjöðm, en nánar er um það fjallað á blaðsíðu 42 í því nefndaráliti sem ég vitna til. Til að halda utan um þetta átak, sem er svo brýnt, eru áætlaðar 15 millj. kr., til þess að halda utan um verkefnið, umsýslu og framkvæmd þess svo að umgjörðin verði sem best. Gert er ráð fyrir að biðin verði ekki lengri en þrír mánuðir frá því að beiðni er lögð fram. Ég vil nefna þetta vegna þess að ég tel það afar gott dæmi um framlag sem fer í afmarkað aðkallandi verkefni og byggt er á greiningu og mati og samvinnu við hlutaðeigandi aðila í heilbrigðiskerfinu.

Í þriðja lagi vil ég nefna að í breytingartillögum er lagt til 490 millj. kr. framlag í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það fer til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum en auk þess fara 65 millj. kr. til Stjórnstöðvar ferðamála og 150 millj. kr. til rannsókna á sviði ferðamála. Ég tel það afar skynsamlegt í ljósi þess mikla vaxtar sem atvinnugreinin er í en ekki síður þar sem atvinnugreinin er sérstök að því leyti að hún gengur þvert á margar aðrar atvinnugreinar og teygir anga sína víða og er samofin mörgu í samfélagi okkar, ég nefni uppbyggingu innviða sem við nýtum dags daglega og uppbyggingu annarrar starfsemi, auk þess að geta haft mikil áhrif á hvernig menning þróast og fleira í daglegu lífi okkar og samfélagi. Ferðaþjónustan er því margslunginn atvinnuvegur sem kallar síðan á aðra þjónustu sem beinist beint að ferðamanninum en kallar á fjárfestingar og er það í fræðilegu tali nefnt ytri gerð. Það eru ýmsar fjárfestingar sem þarf að ráðast í en þær hafa það einkenni á sér að vera oft og tíðum með fastan kostnað fólgin í sér, eins og hótelfjárfesting og ýmiss konar fjárfesting í afþreyingu. Þá er atvinnugreinin að öllu jöfnu sveiflukennd og sveiflast þá gjarnan eftir árstíðum. Hér er háönn til að mynda yfir fáa mánuði og hásumartímann sem hefur kallað á það viðvarandi verkefni, eins og þetta er oft nefnt, að teygja ferðamannatímann í báða enda eða það sem við getum kallað að lengja ferðamannatímabilið. Vissulega höfum við náð árangri á því sviði í seinni tíð ef marka má tölfræði um komu ferðamanna. Þar hafa norðurljósin og vetrartilboð og framboð í flugi haft sitt að segja. Við hljótum því að fagna framtíðarsýn og stefnumörkun í ferðaþjónustu. Slík stefnumótun þarf á talnagögnum og greiningu að halda og atvinnugreinina þarf að byggja upp á slíkum gögnum og ákvarðanir sem lúta að atvinnugreininni þegar kemur að uppbyggingu, þannig að við getum stýrt því af skynsemi hvernig við nýtum náttúruna og innviðina og fjárfestum skynsamlega til þess að við getum byggt áfram upp þessa mjög svo vaxandi atvinnugrein á sem arðbærastan hátt.

Þegar kemur að afþreyingu í ferðaþjónustu ætla ég að minna á frumvarp sem ég hef lagt fram í þrígang en ekki fengið að mæla fyrir, virðulegi forseti, enn sem komið er. Þar er um að ræða heimild til handa hæstv. innanríkisráðherra um að leyfa rekstur spilahallar sem er vinsæl afþreying erlendra ferðamanna víðast um heim, aðallega velborgandi ráðstefnugesta, og fer vel saman með þeim markmiðum að jafna ferðamannatímabilið og nýta þannig aðra fjárfestingu sem beinist að grunnþjónustuþáttum ferðamanna, ráðstefnuhaldi, flugferðum og gistingu. Neikvæð afstaða til slíkrar afþreyingar er að mínu viti á misskilningi byggð þegar um er að ræða þann vanda sem til að mynda spilafíkn er, sem við höfum vissulega skilning á að þurfi að vinna á en ég tel að við séum á villigötum þegar kemur að þeim þætti vegna þess að þar er aukin spilamennska á netinu stóra vandamálið. Við þurfum jafnframt að taka á í þeim efnum. Hér er einnig í gangi ólögleg svört atvinnustarfsemi eins og nýlegum dómur ber vitni um þar sem slík ólögleg starfsemi samkvæmt hegningarlögum var í gangi og einstaklingar voru sannarlega að spila en réttarverndin var engin, og svo gæti ég talið ég upp að auðvitað voru engar tekjur í ríkissjóð. Það væri til mikilla bóta og vel í takt við markmið og stefnu í ferðaþjónustu að heimila slíkan rekstur. Það eru ekki einvörðungu árstíðarsveiflurnar sem einkenna ferðaþjónustuna og það að ýmsum fjárfestingum á vissum sviðum fylgi hár fastur kostnaður, einkenni atvinnugreinarinnar er einnig að ferðaþjónustuaðilar eru um margt háðir hver öðrum ef árangur á að nást í markaðssetningu og stjórnun þeirra mannvirkja, þjónustuþátta og rekstrar sem þarf að vera til staðar, bæði þegar kemur að innri og ytri gerð ferðaþjónustunnar. Því hlýtur stefnumörkun á því sviði ekki síst að miða að því að ná fram samvinnu og samstöðu á því sviði þannig að kraftar einstakra aðila og fjármunir séu nýttir sameiginlega, þar sem Ísland sem áfangastaður er í brennidepli, og samvinna um það hvernig fjárfestingar nýtast sem best og skilvirkast. Aukinheldur getur og ætti skýr stefnumörkun að draga fram þau viðfangsefni í innviðauppbyggingunni sem getur samnýst þeim þáttum sem við nýtum sem borgarar jafnt sem ferðamenn. Almenningssamgöngur er hægt að nefna í því tilliti og samgöngukerfi, útivistarsvæði og afþreyingu ýmiss konar sem eru gott dæmi um slíkt. Við getum því unnið markvisst að því að ferðaþjónustan hafi jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélags okkar á ýmsum sviðum og þá er ég að vísa til þeirrar fræðilegu skiptingu sem ég nefndi, innri og ytri gerð. Auðvitað horfum við síðan til atvinnugreinarinnar og efnahagslegra áhrifa hennar í framlagi til landsframleiðslunnar, atvinnusköpunar, gjaldeyrisöflunar og veltu. En við eigum að horfa til fleiri þátta og þess vegna fagna ég því að hér sé verið að setja fé til stefnumótunar, rannsókna og þróunar. Það birtast mikilvægir þættir og viðleitni í þessum fjárlögum og áherslum á þann þátt til framtíðaruppbyggingar ferðaþjónustu.

Í fjórða lagi ætla ég að víkja að breytingartillögu meiri hlutans þar sem verið er að setja 400 millj. kr. aukalega til eflingar almennri löggæslu. Hér var sérstök umræða ekki fyrir alls fyrir löngu um málefni lögreglunnar og í umræðu um fjárlögin hefur þetta komið upp í nokkrum ræðum hv. þingmanna. Það er ekki annað að marka af þeirri umræðu en að full sátt sé um þetta framlag og skilningur á því mikilvæga hlutverki sem lögreglan hefur við að tryggja öryggi borgaranna og því aukna álagi samhliða sem felst í auknum fjölda ferðamanna. Sú þróun sem hefur átt sér stað undanfarin missiri með auknum og breyttum áskorunum kemur vel fram í nýlegri skýrslu ríkislögreglustjóra og það hefur komið fram í bæði þeirri skýrslu og umræðunum hversu aðkallandi það er að brugðist sé við þeirri þróun. Lögreglan þarf aukinn mannskap og hún þarf aukið fé til að styrkja almenna löggæslu og til þess, sem er svo mikilvægt í grunninn, að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu og styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum. Á blaðsíðu 30 í nefndaráliti meiri hluta segir orðrétt varðandi þetta framlag, með leyfi forseta:

„Lagt er til 400 millj. kr. framlag til að styrkja lögregluna í landinu. Árið 2014 var stigið jákvætt skref í þá átt með ákvörðun á Alþingi um 500 millj. kr. framlag. Við greiningu á lögregluembættum landsins hafa komið fram veikleikar í starfseminni sem brýnt er að mæta. Einn þeirra þátta er það mikilvæga hlutverk sem lögreglan hefur við að tryggja öryggi þess aukna fjölda ferðamanna sem um landið fer. Annar þáttur snýr að auknu gegnsæi í starfsemi lögreglunnar og miðar að því að tryggja viðunandi þjónustu- og öryggisstig. Lagt er til að skipting fjárveitingarinnar milli lögregluembætta verði skilyrt þannig að úthlutunin grundvallist á því að úttekt á þjónustu- og öryggisstigi hafi farið fram í viðkomandi lögreglumdæmi. Þeir lykilþættir sem þjónustustig lögreglunnar grundvallast á eru útkallsþjónusta, afbrotavarnir og rannsóknir mála. Þeir lykilþættir sem öryggisstigið grundvallast á taka til þess öryggis sem almenningur getur vænst að njóta auk þess sem líta verður til þess öryggis sem lögreglumenn geta gert kröfu um við framkvæmd hættulegra löggæsluverkefna.“

Hér er verið að bregðast við þessum þáttum og það er vel. Það ríkir sátt um að það verði gert og þá er auðvitað jákvætt að samningar náðust um kjarabætur til handa lögreglumönnum, sem eins og margir aðrir hópar höfðu setið eftir og dregist aftur úr í kjörum.

Ég ætla að nefna athyglisverð framlög til samgöngumála þar sem eru 235 millj. kr. til tengivega um landið. Þetta verða mér einhverjir dómbærari að vega og meta en ég geri langt í frá lítið úr því. Við vitum öll hversu brýnt og aðkallandi það er að byggja upp og hlúa að samgöngum, ekki aðeins til uppbyggingar fyrir ferðaþjónustu, eins og ég fór yfir áðan, úti um allt land heldur til að liðka til fyrir fólks- eða vöruflutningum. Einnig er aðkallandi í því tilliti að bregðast við aukinni umferð og samgöngubótum á helstu umferðaræðum. Það á ekki einungis við á landsbyggðinni heldur jafnframt á höfuðborgarsvæðinu og ég vil nefna í kjördæmi mínum, Suðvesturkjördæmi, Arnarnesveg í Kópavogi sem nú hefur loks verið byrjað á, Kjósaskarðsveg sem loks fékk einhverjar endurbætur eftir langa slitgöngu og lagt er til að haldið verði áfram við þá endurgerð samkvæmt áætlun. Svo vil ég nefna Reykjanesveg sunnan Hafnarfjarðar, sem er á áætlun 2018, þar sem stefnt er að því í fyrsta áfanga að gerð verði vegamót við Krísuvíkurveg. Umferð þar er hreinlega hættuleg á helsta umferðartíma og út frá öryggissjónarmiðum þarf að fara í þá framkvæmd, og þótt fyrr verði.

Samgöngur snúast um margt fleira en vegi og ég fagna því sérstaklega að viðbótarframlög sé að finna í breytingartillögum meiri hlutans til hafnarframkvæmda og endurbóta á höfnum. Lagt er til að 400 millj. kr. fari til þessara verkefna til endurnýjunar á bryggjum og dýpkunar í löndunarhöfnum. Á blaðsíðu 35 í nefndaráliti meiri hlutans er gerð nánari grein fyrir framlagi til endurbóta hafna og þar segir meðal annars að samkvæmt mati Vegagerðarinnar séu bryggjur í fullri notkun sem séu beinlínis orðnar hættulegar og geti við rask eins og jarðskjálfta gefið sig. Þá er þar til fyrirmyndar að framlagið er sundurliðað eftir höfnum. Ég vil fagna því að verið sé að bregðast við þessu þar sem þetta er hluti af samgöngum okkar og stuðningi við atvinnuvegi og sjávarútveginn í því tilliti.

Að lokum ætla ég að ræða forgangsröðun og skattstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Hér hefur nokkuð verið talað um í umræðunni svigrúm til skattalækkana og horft til tryggingagjaldsins í þeim efnum til að mynda. Svigrúmið til lækkana hlýtur í senn að ráðast af forgangsröðuninni sem birtist í skattstefnunni og fjárlögum hverju sinni, út frá þeirri stöðu sem er uppi, hvaðan í hagsveiflunni við erum að koma og hvert við erum að fara. Það er fræðilega skilgreiningarefni hvar við erum stödd í hagsveiflu og hún getur í skilgreiningu verið mislöng. Við höfum hins vegar sannarlega verið í hægri uppsveiflu, komandi úr djúpri kreppu þar sem aðhalds og niðurskurðar var þörf, réttara væri að orða það sem svo að það hefði verið nauðsynlegt og óhjákvæmilegt. Það myndaðist samstaða um slíkar aðgerðir en með tilheyrandi fórnum í grunnþjónustu, innviðum og fjárfestingum. Við erum væntanlega stödd á toppi uppsveiflu á leið inn í góðæri, sem yrði þá skilgreint góðæri sem getur enst ef rétt er á málum haldið, góðæri þar sem við getum vonandi, eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar, farið í auknum mæli og af meiri þunga í að greiða niður skuldir og ná niður vaxtagjöldum, þar sem hægt verður að ná fram kjarabótum til flestra og halda áfram á þeirri vegferð, skjóta stoðum undir atvinnulífið með auknum fjárfestingum og reisa við grunnþjónustuna. Það á að vera hægt og það er ekki síst fyrir þá stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur valið og að því leytinu til tel ég hæstv. ríkisstjórn á réttri leið.

Það er alveg rétt að það er ekki svigrúm til að gera allt í einu og ég get nefnt vegakerfið. Ég held að flestir sem hafa tekið til máls í umræðunni séu sammála um að þrátt fyrir að á hverju ári sé verulegu fé varið til framkvæmda þá verði að forgangsraða og horfa til þeirra eininga sem mynda hagkerfið, atvinnulífið og heimilin, sem eru þær grunneiningar sem mynda þá efnahagshringrás sem við stýrum.

Lækkun tryggingagjalds er varla hafin og margir vildu sjá það gerast í miklu stærri skrefum og í takt við minna atvinnuleysi. Að sinni hefur verið boðað að það muni ekki gerast hraðar og ekki á næsta ári þar sem ákveðið var að koma til móts við atvinnulífið og fyrirtækin í erfiðum kjarasamningum.

Ég ætla að víkja að sjávarútveginum. Ég ræddi þó nokkuð um ferðaþjónustuna en þessar tvær atvinnugreinar ásamt álframleiðslu eru okkar helstu gjaldeyrisskapandi greinar og eiga það sameiginlegt að nýta náttúruauðlindir okkar. Það er í sjálfu sér heillaþróun að sjá að fjölþættari nýting er að verða með vexti í ferðaþjónustu. Það er stefna hæstv. ríkisstjórnar að byggja upp af skynsemi rekstrar- og skattumhverfi sem gefur þessum atvinnugreinum færi á að vaxa og dafna og skila arði af auðlindum og skapa atvinnu. Varðandi það sem sjávarútvegurinn hefur skilað er skattsporið samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum sjávarútvegsins um 25 milljarðar. Margir vilja meina að sjávarútvegurinn geti skilað hærri auðlindagjöldum. Til að sýna sanngirni í þá veru og ef maður skoðar grannt tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækin þá mætti vafalítið með einhvers konar tilfæringum kreista fram hærri og meiri veiðigjöld frá þeim stöndugustu með mesta kvótann og fyrirtækin. En við verðum að huga að framtíðinni. Við verðum að skapa stöðugleika, við verðum að skapa atvinnugreininni svigrúm til að fjárfesta. Það er staðreynd að atvinnugreinin hefur þegar litið er á hagnaðartölur, arðsemistölur, uppbyggingu og framleiðni, sem víða er skortur á í atvinnulífinu, náð miklum árangri á undanförnum árum. Sem betur fer hefur náðst að greiða niður miklar skuldir sem hvíldu á atvinnugreininni. Þá verður jafnframt að líta til jafnræðis og meðalhófs þegar við horfum á hundruð annarra fyrirtækja vítt og breitt um landið. Það er vafalítið hægt að fínstilla og kreista eitthvað meira út en það er ekki sjálfgefið. Við eigum hins vegar að reyna að finna þann stað að ná sátt um þennan grundvallaratvinnuveg þjóðar okkar, grundvallarútflutningsatvinnuveg ásamt ferðaþjónustu og álframleiðslu.

Ég ætla að víkja að heilbrigðismálunum en þau hafa eðlilega verið töluvert í umræðunni. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að þróun fjárframlaga í þeim málaflokki í tíð þessarar ríkisstjórnar sé á einn veg, þau hafa stórhækkað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er sett fram í töflu í nefndaráliti, í ágætisnefndaráliti meiri hlutans, þar sem kemur jafnframt fram að hækkunin sé mun meiri en í öðrum málaflokkum, enda er það skýr forgangsröðun að endurreisa heilbrigðiskerfið þótt ég vilji meina að við förum oft og tíðum fram úr okkur þegar við tölum um heilbrigðiskerfið og hvar það sé statt. Við eigum afbragðsfagfólk sem hefur unnið undir gríðarlegu álagi og samkvæmt flestöllum tölum sem koma fram í umræðunni hefur Landspítalinn til að mynda staðið sig afar vel og heilbrigðiskerfið allt við erfiðar aðstæður undanfarin ár.

Í þeim breytingartillögum sem ég er að fara yfir er enn verið að bæta í, það er verið að bæta við 840 millj. kr. til að vinna niður biðlista. 280 millj. kr. framlag fer til að mæta kostnaði við rannsóknir á lifrarbólgu C og er að finna upplýsingar um það á blaðsíðu 43. Það er að sjálfsögðu einnig fjármagnað með fjárframlögum annars staðar frá, sem ber að þakka, og svo eru 50 millj. kr. aukalega til reksturs sjúkrahúsa.

Virðulegi forseti. Það fer aðeins að ganga á tímann og það er mjög margt sem kemur fram í breytingartillögunum við frumvarpið í 2. umr. sem vert er að skoða. Ég hef ekki farið sérstaklega yfir málefni eldri borgara og öryrkja en ég ætla heldur ekki að standa hér og fullyrða að laun þessara hópa megi ekki eða eigi ekki að vera hærri. Við erum ekki að tala um háar rauntölur og það er skiljanlegt að hóparnir berjist fyrir bættum kjörum. Við eigum, svo ég segi það hreint út, að vinna að því og það er fullur skilningur á því hjá hæstv. ríkisstjórna og meiri hlutanum. Ég veit að við stjórnarliðar höfum rætt og sett fram tölur og hlutfallslegar hækkanir og aðgerðir frá sumri 2013. Það er erfitt að bera saman prósentuhækkanir og rauntölur, það verður alltaf vondur samanburður. Það verður þó að virða þá viðleitni að farið sé yfir það sem þó hefur verið gert frá sumri 2013, eins og að hækka frítekjumark og lækka skerðingarhlutföll ásamt lögbundnum hækkunum, sem er ekkert sérstaklega vert að þakka fyrir af því að það er lögbundið en það er vel og var í raun mjög góður áfangi á þeim tíma, 2011 held ég að það hafi verið sett í lög, þar sem tryggt er að meðaltalslaunahækkanir eða verðlagsuppbót, það sem hærra er, komi hér við hver áramót. Það er hins vegar nauðsynlegt í stöðunni eins og hún er í dag og við þær skýru kröfur sem komu fram meðal annars á fundi með hv. fjárlaganefnd í dag, annars vegar um það að laun muni í það minnsta ná lægstu launum þegar þau verða 300 þús. kr. 2018/2019 og svo var krafa sem kom skýrt fram á fundinum um afturvirkni. En þetta verður að skoða í umræðunni og við verðum að tala um þetta eins og það er en jafnframt að draga fram allar upplýsingar til að við áttum okkur á því hvar við erum stödd í þeirri viðleitni að bæta kjörin, hvað sé búið að gera og hvað sé verið að gera og hvað þetta þýði á komandi missirum. Hér hafa ýmsar tölur verið í umræðunni og þær eru misjafnar nánast eftir einstaklingum og fjölskyldumunstri þeirra sem tilheyra þessum hópum. Ef við tökum laun sem geta náð launabótum, 246 þús. kr., og þær taka hækkun samkvæmt spám fyrir 2017, þeirri hækkun sem nú er, þá þarf ekki miklar hækkanir umfram það til þess að sú tala verði 300 þús. kr. Við erum að tala um 7,5–8% Þetta verðum við að skoða og ég legg áherslu á það. Lengra get ég ekki farið í þessari ræðu en þetta verður að skoðast í samhengi og ég biðla til hæstv. ríkisstjórnar að fara vel yfir alla möguleika í stöðunni.

Ég á eina mínútu eftir af ræðutíma mínum og það er margt sem ég hefði viljað ræða. Ég nefni sérstaklega styrkveitingar til uppbyggingar verkefna á landsbyggðinni, atvinnuuppbyggingar og félagasamtaka. Í því samhengi verður hinn svokallaði þriðji geiri okkur afar mikilvægur á komandi árum og vegna breyttrar aldurssamsetningar og þegar við horfum á það forvarnastarf og sjálboðaliðastarf sem þar er unnið, ég ætla ekki að nefna nein sérstök samtök í því, við eigum svo mörg frábær samtök á því sviði, þá sparar það ríkissjóði mikla fjármuni á komandi árum. Það er hins vegar mjög mikilvægt að yfirsýn sé yfir þá starfsemi og að það sé gagnsæi þegar kemur að því að veita fjármuni úr ríkissjóði. Ég hefði viljað ræða Íbúðalánasjóð, Ríkisútvarpið, fjarskiptamálin, nýsköpun og atvinnuþróun, sem hæstv. ríkisstjórn er sannarlega að bæta í og er það vel.



[00:52]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ágætisræðu, hann fór vel yfir fjárlögin og leit þau auðvitað sínum augum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í tryggingagjaldið. Nú hafa fyrirtæki ákallað ríkisstjórnina um að lækka tryggingagjaldið þar sem hluti af samningum á vinnumarkaði var að það yrði lækkað og mönnum þykir sú lækkun sem er boðuð vera allt of lítil. Hvað telur hv. þingmaður í þeim efnum? Að þetta geti valdið því að kjarasamningar verði ekki framlengdir við endurskoðun í febrúar á næsta ári?

Hv. þingmaður kom mikið inn á samgöngumál í landinu og uppsveiflu í ferðaþjónustu. Nú er ferðamannageirinn að skila miklum gjaldeyri til landsins, um 340 milljörðum, kannski er það óábyrg tala sem nefnd hefur verið. Finnst hv. þingmanni ekki að það eigi að skila sér miklu betur en sú snautlega fjárhæð sem er til samgangna í fjárlagafrumvarpinu, það eru auðvitað mjög lágar upphæðir til viðhalds og reksturs samgöngumannvirkja og nýframkvæmda? Þetta eru bara mjög lágar fjárhæðir og þessi litla viðbót sem kom í breytingartillögum á milli 1. og 2. umr. er auðvitað smápeningar í því samhengi. 235 milljónir í viðhald vega er eitthvað sem klárast upp á nokkrum dögum og þetta er það lítið að það er næstum því broslegt. (Forseti hringir.) Hvað segir hv. þingmaður um þetta?



[00:54]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir spurningarnar og andsvarið.

Fyrst að tryggingagjaldinu, ég get alveg sagt það hér að ég hafði vonir til þess í upphafi kjörtímabils að við færum hraðar í að lækka tryggingagjald. Ég segi það bara hreint út að auðvitað er nauðsynlegt að fara í það þegar atvinnuleysi er mikið, þ.e. þá verður atvinnulífið að taka á með ríkissjóði í þeim efnum og gerði það sannarlega, en þegar atvinnuleysi minnkar þá hefði maður viljað sjá tryggingagjaldið lækka í takti við það. Ég tala nú ekki um þar sem atvinnulífið okkar byggist á minni meðalstórum fyrirtækjum og hér erum við, með því að setja auknar fjárhæðir sem svo sannarlega er verið að gera í þessum fjárlögum í nýsköpun og þróun, að reyna að efla það sem heitir þekkingarstarfsemi sem er mannaflsfrek. Ferðaþjónustan er mannaflsfrek grein og því er mikilvægt að taka á með atvinnulífinu í þeim efnum. Það er hins vegar þannig að í kjarasamningum kom hæstv. ríkisstjórn mynduglega að þeim og þar var forgangsraðað í þá veru að breyta tekjuskatti og lækka tekjuskatt fremur en tryggingagjaldið og það hefur hæstv. fjármálaráðherra farið afar vel yfir og sagt ískalt að það verði að standa. Og það sjáum við í þessum fjárlögum þar sem verið er að lækka hlutföllin og fækka þrepum.



[00:56]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að inna hv. þingmann eftir einu. Komið hefur neyðarkall frá Landspítala – háskólasjúkrahúsinu okkar, þjóðarsjúkrahúsinu okkar, að það vanti inn í reksturinn og viðhald um 3 milljarða. Þær óskir eru rökstuddar frá öllum hliðum og hv. þingmaður kom aðeins inn á þriðja geirann, hann á þá eflaust við að Landspítalinn hafi fengið ýmsar góðar gjafir, en við getum varla treyst á það að hann sé fjármagnaður með frjálsum framlögum, hversu góð sem þau eru. Telur ekki hv. þingmaður að það verði að mæta þessum þunga sem kemur frá háskólasjúkrahúsinu, aðalsjúkrahúsi allra landsmanna, sem allir treysta á að sé til staðar? Og ekki sé boðlegt að fólk þurfi að liggja inni í tækjageymslum og úti um alla ganga og þar sé allt míglekt eins og sást á Grensási og á fleiri stöðum, það verði hreinlega að nýta þann tekjuafgang sem er til að mæta þeim óskum?

Í lokin varðandi aldraða og öryrkja fannst mér hv. þingmaður hafa skilning á því að það yrði að gera betur. Er hv. þingmaður tilbúinn til að endurskoða hug sinn? Nú ætla aldraðir og öryrkjar að koma hingað og vera með samstöðufund í fyrramálið úti á Austurvelli. Þeir hafa á fundi fjárlaganefndar rökstutt mjög vel sitt mál og hrakið þær fullyrðingar að búið sé að bæta þeim í kjörum sambærilega við aðra launþega í þjóðfélaginu. Þeirra réttláta krafa er að fá afturvirkt líka eins og aðrir launþegar hafa fengið á þessu ári frá 1. maí. Er (Forseti hringir.) hv. þingmaður tilbúinn að endurskoða sinn hug varðandi greiðslur og að bæta kjör aldraðra og öryrkja?



[00:59]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir spurningarnar. Þetta eru stórar spurningar í ljósi umræðunnar, en fyrst að heilbrigðiskerfinu. Ég þarf auðvitað að skoða þær tölur sem eru lagðar fram fyrir okkur í fjárlögum og það hefur sannarlega verið sett aukið fé í Landspítalann. Nú ætla ég ekki að halda því fram að við þurfum ekki nýtt sjúkrahús, ég ætla ekki að halda því fram að ekki þurfi milljarð eða tvo, ég treysti mér einfaldlega ekki til að leggja dóm á það. Ég fagna því viðbótarframlagi sem á að setja í þá greiningu og ég treysti mér næstum til að fullyrða að spítalinn er vel rekinn. Ég hef auðvitað ekki lagst yfir allar tölur, ég hef ekki allar tölur tiltækar, ég bara treysti því fólki sem er að vinna að þeim málum. Við eigum frábært fagfólk og rekstraraðila á þessu sviði sem hafa staðið sig frábærlega við mjög erfiðar aðstæður, en 1, 2, 3 milljarðar, ég ætlast bara til þess að við náum sátt og samkomulagi um það. En það er sannarlega, svo ég leggi áherslu að það, búið að bæta verulega í til heilbrigðismála og ég ætla ekki að þreyta hv. þingmann að lesa upp þær tölur, ég veit að henni er fyllilega kunnugt um þær.

Varðandi eldri borgara og öryrkja segi ég það sama. Við erum að ræða fjárlögin og þessar kröfur hafa legið fyrir og ég sagði það áðan í ræðu minni; ég biðla til hæstv. ríkisstjórnar að ná samkomulagi og sátt við þessa hópa og hún horfi til þeirra krafna sem lagðar eru fram. Í fyrsta lagi að hér munu laun ná lágmarkslaunum (Forseti hringir.) fram í tímann 2018–2019 og svo verður að skoða þessa kröfu um afturvirkni í ljósi laga um almannatryggingar.



[01:01]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er kannski alltaf óskemmtilegt að vera að ræða þessi mál hér þegar komið er svona langt fram á nótt, en það þýðir víst lítið að deila um það. Mig langar aðeins að velta upp nefndaráliti meiri hlutans sem ég ræddi mjög lítið í fyrri ræðu minni. Í ljósi nýjustu upplýsinga, þar sem fram hefur komið að það gleymdist að áætla fyrir tæpum 1.200 millj. kr. í launamál vegna kennarasamtakanna, horfir maður á þetta aðeins öðrum augum, enda er þá afgangurinn að verða enn minni en rætt var um síðast; hann var 10,7 milljarðar í gær og er kominn niður í 9,5 milljarða í dag og kannski neðar ef eitthvað fleira er undirliggjandi. Það er áhyggjuefni, í ljósi þeirrar forsíðu sem er á nefndarálitinu, þar sem fram kemur að nokkuð sé í land með að hefja niðurgreiðslu skulda. Það þýðir að vaxtakostnaðurinn er áfram hár eins og verið hefur og auðvitað er ástæða til að velta því upp að við skulum vera í þeirri stöðu að þremur árum liðnum og alltaf er samt ákveðinn hagvöxtur, að þetta sé enn ekki farið að síga neitt niður á við sem heitið geti og að undirliggjandi skuli vera dapur rekstur ríkissjóðs.

Á forsíðu meiri hlutans er líka talað um uppsafnaða fjárfestingarþörf í innviðum sem ég vék að í nefndaráliti mínu. Ég ætlaði að leiðrétta eitt atriði. Það var talað um að atvinnuvegafjárfesting mundi lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en það misritaðist; myndin sýnir prósentuhlutfall á milli ára.

Aðeins meira úr þessu áliti meiri hlutans. Ég gagnrýni líka, og við höfum gert það í fjárlaganefnd, þetta með arðgreiðslurnar. Mér finnst það ekki nægjanleg skýring þegar verið er að halda því fram að það sé algerlega á vegum Bankasýslunnar að ákveða það. Það er auðvitað eigandinn sem leggur eitthvað til og síðan er það kannski skynsamleg áætlunargerð að áætla þetta í samræmi við það sem verið hefur undanfarið miðað við afkomu bankans þó að ekki sé farið í hæstu hæðir með það.

Mig langar að ræða nokkur mál, taka út fyrir sviga, sem ég gerði minna af í fyrri ræðu minni. Mig langar að byrja á löggæslunni, fangelsismálum, ræða það aðeins. Ég hef miklar áhyggjur af þeim málum. Þó að hér sé verið að veita 400 millj. kr. í það þá hef ég áhyggjur af því að þeir fjármunir fari fyrst og fremst til endurgreiðslu hallareksturs embættanna. Mér þykir það ekki ásættanlegt. Það á við um það eins og annað sem við höfum verið að ræða hér að það er mjög dapurt þegar ríkisstjórnarfulltrúar bera saman aðstæður eins og þær voru þegar síðasta ríkisstjórn tók við og fram eftir þegar ríkissjóður var á hausnum, með 120 milljarða halla, og síðan hefur staðan hægt og sígandi verið upp á við; að þá skuli fólk leyfa sér að koma hér fram og láta eins og það hafi verið óskastaða að taka við slíku búi og óskastaða að þurfa að bregðast við á þann veg þurfti, þ.e. með því að skera niður nánast alls staðar. Það er ekki eitthvað sem nokkur maður vill gera í þeim mæli sem við neyddumst til að gera á síðasta kjörtímabili.

Varðandi löggæsluna þá hef ég áhyggjur af umferðaröryggi. Það er orðið lítið um að maður sjái bíla á ferð þegar maður er að keyra um landið, þ.e. löggæslubíla og eftirlit. Ekki er mikið um frumkvæðisrannsóknir lögreglu. Það er ekki fíkniefnahundur á Austurlandi þó að þar sé landamæragæsla og það er mjög mikill kostnaður. Það ætti að vera eitt af því sem fulltrúar í fjárlaganefnd horfa til, að það er sparnaður, það er líklegra til árangurs, að þetta sé á staðnum. Ég skil ekki af hverju sú leið hefur ekki verið farin að sjá til þess að embættið hafi þá fjármuni sem til þarf.

Varðandi fangelsismálin þá sit ég líka í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar erum við að ræða um frumvarp um fullnustu refsinga. Það gengur meðal annars út á aðstöðuna og fangelsismálin í heild. Páll Winkel fangelsismálastjóri kemur og segir að það vanti miklu meiri fjármuni, að hann sé að missa fagfólk sem hann getur ekki verið án; það sé mannauður sem hann tíni ekki upp af götunni því að það þurfi sérstaka karaktera til að vera í slíku starfi sem séu til þess bærir að halda uppi lögum og reglu ekki síður en að sýna manngæsku og hafa brjóstvit.

Það er ekki verið að setja fram óréttmætar tillögur þegar talað er um að það vanti 80 millj. kr. hækkun á næsta ári til að hægt sé að reka fangelsi hættulaust. Þetta snýr bæði að öryggi fangavarða og líka að öryggi fanganna sjálfra. Þetta kemur meðal annars fram í því að mikið er um að menn sé einir á vakt. Þetta kemur ekki bara fram hjá Páli Winkel heldur líka hjá fyrrverandi formanni Félags fangavarða. Það er ítarlegt viðtal við hann þar sem kemur fram að mikið sé um lágmarksvaktir vegna ýmissa aðstæðna, m.a. hafi komið upp veikindi eða orlof eða eitthvað slíkt og þá hafi ekki verið hægt að kalla út mannskap sem hafi orðið til þess að í sjálfu sér var nánast hættuástand.

Það er verið að skerða mjög þjónustu. Það er verið að fella niður útivistartíma, það er verið að takmarka heimsóknir, Barnakoti var lokað. Síðan er verið að veita einhverja fjármuni núna og í fjáraukalögum sem eiga að koma þar á móti, en það gerist ekki, þetta verður skorið jafnharðan niður aftur, ef svona mikla fjármuni vantar inn í þetta. Það sem við erum alltaf að reyna að gera í þessum málum er að koma á betrun svo að við þurfum ekki ítrekað að taka á móti sama fólki aftur. Það hefur komið fram hjá þeim gestum sem komið hafa á fund nefndarinnar að því miður komi allt of margir aftur og það sé meðal annars vegna þess að það sé engin virk betrunarstefna, eða að hún sé að minnsta kosti afar lítil. Það snýst um að styrkja fjölskylduna og samtalið við börnin og annað slíkt til að sjá til þess að þessi betrunaraðgerð beri árangur.

Kerfið er líka bjagað, það er fólk sem hefur misstigið sig á lífsleiðinni en fær ekki tækifæri. Það er svo margt sem kannski er ekki stórt sem hægt væri að laga til að gera lífið bærilegra, gera fólk hæfara til að koma út aftur. Ef við komum betrunarúrræðum á gæti orðið mikill sparnaður þannig að í framhaldinu þurfi ekki mikið meira fé í kerfið. Við þurfum bara að breyta því. Við náum vonandi einhverju fram með þessu frumvarpi, að þetta verði í áttina í því. Það er ekki eðlilegt að 500 manns séu að bíða eftir afplánun í fangelsi og við höfum 155 pláss. Það er óásættanlegt. Þó að það lagist eitthvað núna með Hólmsheiði þá höfum við ekki séð til þess að hægt sé að reka það. Okkur vantar fjármuni til að reka það á næstunni. Við stöndum frammi fyrir því að fangelsismálastjóri segir að hann þurfi að loka fangelsum á næsta ári. Ég hef til dæmis áhyggjur af því að fangelsinu á Akureyri verði lokað. Það er afar slæmt fyrir fjölskyldurnar ef við þurfum að fara að selflytja fanga hingað suður. Það er ekki heldur í áttina að betrun að slíkt sé gert.

Svo er hitt, af því að ég þekki persónulega slík dæmi, að þegar staðan er eins og hún er og við notum svona lítið betrun, að maður brýtur af sér, svo líður langur tími, hann er búinn að mennta sig, kominn með fjölskyldu, kominn á allt annan stað í lífinu og átti jafnvel bara þetta eina alvarlega brot að baki, þá þarf hann að fara að afplána. Þá er hann rifinn úr samhengi dagsins í dag til að afplána. Þetta er eitthvað sem við eigum að grípa inn í, þetta er sparnaður, þetta er líka hluti af því að laga kerfið.

Við lögðum til að aukið fé yrði sett til ríkissaksóknara og lögreglunnar til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Um daginn var málþing um ofbeldi úti á landi og verið að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það liggur fyrir að aðstöðumunurinn er gríðarlega mikill. Það er líka dýrt, það er dýrt fyrir þá sem standa að því og kemur í veg fyrir að ofbeldi sé kynnt. Lögreglan var ekki að nota þau úrræði sem hún hafði en nú er farið að gera það; það er verið að nýta bæði nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sveitarfélögin á svæðinu, eins og fyrir norðan, eru að nýta sér það að vinna svolítið saman.

Það sem snýr að okkur sem alþingismönnum er: Hvað þarf að laga í lögum og regluverki til að bæta úr? Heimilisofbeldi er til dæmis ekki sérstaklega skráð á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þó að þar sé nýráðinn sálfræðingur, sem er ætlað að sinna slíkri þjónustu, þá hefur það ekki verið gert. Þetta er eitthvað sem þarf að lagfæra og á ekki að vera flókið mál. En síðan eru það líka praktísk atriði. Það er ráðherranefnd, getum við sagt, sem hefur verið á landssamráðsfundum á grundvelli samstarfsyfirlýsingar varðandi heilbrigðis- og lýðheilsumál, eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir, eins og fólk veit til að vinna að aðgerðum gegn ofbeldi í íslensku samfélagi en heilbrigðisráðherra er til dæmis ekki aðili að því. Mér finnst það mjög sérstakt og ég kem til með að inna hann eftir því hvers vegna svo sé ekki.

Það er verið að reyna að kynna þessa Suðurnesjaleið sem á líka að taka á þessu í kerfinu, ég held að það hafi sýnt sig að það hafi gengið vel. En aðgengi að þjónustunni er ótrúlega misjafnt og ekki er hægt að segja að þeir sem búa úti á landi sitji við sama borð. Það eru mörg þannig dæmi. Við höfum mikið rætt Aflið hér á þingi sem eru samtök á Akureyri. Þjónustan er ekki hin sama og hjá opinberum aðilum en það er jafningjaþjónusta sem er nauðsynlegt að hafa líka. Svo eru Sólstafir á Ísafirði; það eru 4 þús. manns sem verið er að sinna á svæðinu. Þau standa vaktina á útihátíð, eru með fræðslu í skólum á svæðinu, halda námskeið fyrir starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, en hafa mætt andstöðu í starfi sínu af því að það þykir slæmt fyrir ímynd samfélagsins að hafa slíka umræðu. Þetta er allt sjálfboðavinna en þarf samt sem áður alltaf eitthvert fjármagn. Þegar ég horfi yfir fjárveitingar meiri hluta fjárlaganefndar núna þá spyr ég mig: Af hverju eru þessir aðilar, sem eru mjög einstakir og eru að sinna brýnu lýðheilsumáli sem við höfum sameinast um að takast á við, úti í kuldanum? Mér finnst það mjög vond skilaboð.

Við þurfum að bæta lög og reglur. Við þurfum að sjá til þess að skyldur sveitarfélaga, hvað varðar kynbundið ofbeldi, komist inn í sveitarstjórnarlögin með skilgreiningum o.fl. Við þurfum aukið fjármagn, sem við erum að leggja hér til í minni hlutanum, og að búa til heildstæða stefnu hvað varðar baráttu okkar. Það þarf að bæta menntun fagstétta sem standa að þessu og það er hluti af því sem við höfum séð fyrir okkur að þessir fjármunir færu í; og svo þarf að bæta þessa skráningu. Allt er þetta eitthvað sem við komum að hér og getum séð til þess að regluverkið í kringum það sé betra.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég aðeins að fara í það mál sem hefur kannski verið rætt mest núna varðandi eldri borgara og öryrkja. Það var fundur hjá okkur í fjárlaganefnd í morgun eins og kunnugt er. Mig langar að vitna í orð forsætisráðherra, sem sagði, með leyfi forseta:

„… fjölmargir sem hafa mátt þola óeðlilegar skerðingar, t.d. eldri borgarar og öryrkjar, þurfa að fá bót sinna mála […] Ísland býr yfir nægum auðlindum, framleiðslugetu og þekkingu til að allir geti notið velferðar. Til þess þarf bara skynsemi við stjórn landsins.“

Ég lít svo á að þetta séu skýr skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra. Ég treysti því að hann fylgi þessu eftir og sjái til þess að þetta gerist á þann hátt sem hér hefur verið rætt um. Okkur getur greint á um ýmislegt en ég tek ekki undir það sem kom fram í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins þar sem talað er um að með því að hluta af hækkun ársins 2015 sé flýtt til 1. janúar og allri hækkun vegna ársins 2016 flýtt til 1. janúar fái lífeyrisþegar meira í sinn vasa en meðallaunþegi sem fengi borgað samkvæmt sömu launavísitölu án launaskriðs. Þetta er eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Ég heyrði ekki betur en eldri borgarar og öryrkjar væru sammála mér um það. Það hefur sýnt sig að svo er.

Á fundinum í morgun, í gögnum sem voru skilin eftir, kom líka fram að tekjuskattsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt hafa ekki komið þessum hópi til góða eins og vera bæri. Þau benda á að skynsamlegra hefði verið að 1. skattþrep hefði verið sett í 1,4% í stað þess að gera það við 2. skattþrep. Það hefði skilað þeim sem allra lægstu tekjurnar hafa í kringum 3 þús. kr. á mánuði í staðinn fyrir 500 kr. Það gerir auðvitað 36 þús. kr. á ári í staðinn fyrir tæpar 6 þús. kr. Þetta skiptir allt máli, allar þessar tölur. En það var lækkað um 0,18%, minnir mig, lægra þrepið, en annað þrepið var lækkað um 1,4%. Það er því ýmislegt í þessu sem okkur greinir á um og allt það og við getum verið að munnhöggvast um þetta.

Ég velti líka fyrir mér, og spyr kannski, hvers vegna ákveðin verkefni eru valin umfram önnur. Hér er til dæmis einn liður — ekki stórkostlegur, alls ekki, en maður veltir stundum fyrir sér framsetningu og sundurliðun. Það er sundurliðaður 200 þús. kr. styrkur á Þórbergssetur. Næst á eftir er 59 millj. kr. tímabundið framlag til ýmissa styrkveitinga algerlega ósundurliðað. Ég mundi vilja vita hvort fjárlaganefndarfólk veit hvað er á bak við þessar 59 milljónir.

Ég mundi líka vilja vita hvers vegna Samgöngustofa fékk ekki fjármuni, eins og hún óskaði eftir, þegar kemur að öryggi sjómanna. Eða af hverju göngudeildin á Akureyri, SÁÁ-göngudeildin, þar sem mikið er búið að kalla eftir fjármunum — af hverju ekki er gerð gangskör í því að staðið sé við samninga og SÁÁ sé ekki rekið af Akureyrarbæ eingöngu heldur líka samkvæmt samningi við ríkið. Af hverju er ekki staðið við samninginn við Framleiðnisjóð eins og vera ber? Það er ýmislegt sem maður veltir fyrir sér, hvers vegna þessi forgangsröðun umfram aðra. Peninga sem á að setja í rannsóknir ferðamála — af hverju liggur það ekki bara fyrir að það fari á Rannsóknamiðstöð ferðamála?

Sveitarfélög hafa óskað eftir mjög mörgu eins og vera ber og þegar verið er að tala um tekjustofna sveitarfélaga þá hefur verið rætt um virðisaukaskatt af almenningssamgöngum. Ég veit ekki hvort allir eru meðvitaðir um að það verður þannig nú um áramótin að sveitarfélög þurfa að fara að borga virðisaukaskatt af almenningsamgöngum og öðrum akstri í almannaþágu. Það hefur verið undanþegið, annar akstur í almannaþágu, hvort sem við erum að tala um skólaakstur eða akstur með fatlaða og annað, og ég hefði viljað sjá breytingu á því. Svo hefði ég viljað vera búin að sjá frumvarp um almenningssamgöngurnar sem lagaði það ástand sem nú ríkir vegna þeirra, þegar verið er að keyra ofan í almenningssamgöngur sem sveitarfélögin standa fyrir.

Það eru mörg svona mál, það eru vegamálin sem hér hefur verið komið inn á. Innanríkisráðherra lofaði, það var viðtal við hana á RÚV um það, að milljarður færi í að malbika hringveg um Berufjarðarbotn. Ég hlustaði á hana segja þetta. Af því að náðst hefði sátt um legu vegarins stæði ekkert í vegi fyrir því að bjóða þetta út og eins og komið er er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum. Auðvitað spyr maður sig: Hvers vegna ekki? Það eru ótalmörg mál sem maður veltir fyrir sér og sérstaklega þegar verið er að velja tiltekin verkefni út fyrir samgönguáætlun, út fyrir fjarskiptaáætlun bara af því að tilteknum þingmönnum þykir það við hæfi. Það er verið að velja hafnarframkvæmdir. Óskað var eftir auknu fé í Hafnabótasjóð en ég hef ekki séð beiðni um að það fari í þessar tilteknu hafnir.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna Ríkisútvarpið í restina, það hressir nú alla, og fara aðeins yfir þetta með útvarpsgjaldið. Við höfum rætt þetta oft og mikið og erum sum hver ósammála um þetta, hvort sem um er að ræða fjármuni eða túlkun á hvenær og allt það þá hefur það nú samt sem áður verið þannig að það er komið að þeirri stundu að ég vona að hæstv. menntamálaráðherra fái afgreitt frumvarp um RÚV á morgun, í ríkisstjórn, vegna útvarpsgjaldsins. Eins og við munum var það lögfest í mars 2013 að útvarpsgjald yrði 18.800 kr.; það var ákveðið árið 2011. Síðan eru verðlagsbreytingar eins og gerist og gengur á hverju einasta ári sem færði gjaldið upp í 19.400 kr. árið 2013, það var í bandorminum minnir mig. Síðan kemur fram að á sama tíma er stefnan tekin niður í 16.400 kr. Þegar ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 voru afgreiddar frá þinginu í desember þá var ákveðið að fyrst yrði gjaldið 17.800 kr. og síðan á næsta ári 16.400 kr. Þetta var í því skyni að lækka álögur á heimili og fyrirtæki, 250 millj. kr. var sagt þannig að þessar tölur, sem eins við höfum rætt mikið — og hefur komið fram hjá bæði meiri hluta og minni hluta að RÚV átti á ákveðnum tímapunkti að fá allt gjaldið og þó að hér séu fleiri greiðendur að baki en gert var ráð fyrir þá segir stjórn RÚV og útvarpsstjóri að það dugi ekki til ef halda eigi þeim rekstri sem nú er. Það er svo sjálfstæð ákvörðun hvort við teljum að það eigi að breyta því. Ég hef til dæmis haft þá skoðun að RÚV eigi ekki að vera á auglýsingamarkaði en ég tel að það þurfi að bæta það upp á einhvern hátt; það er bara sérákvörðun.

Ég held að þetta sé ákvörðun sem við þurfum að fara að taka, hvernig við viljum hafa þennan fjölmiðil í almannaþágu. Viljum við það eða ekki? Við viljum það í Vinstri grænum, ég hef fært fyrir því ítarleg rök. Ég tel mikilvægt að geta treyst því að hér sé fjölmiðill sem ekki er háður öflum á tilteknum samkeppnismarkaði heldur séu það einungis fjárlögin hverju sinni sem honum stýra. En ég tel hins vegar afar mikilvægt að hægt sé að ákveða hluti fram í tímann. Þó að það hreyfist eitthvað, það er aldrei svo mikið, fjöldinn sem greiðir þá sé mikilvægt að það ríki ró í kringum slíkan rekstur, að til einhverra tiltekinna ára þurfi ekki á hverju einasta ári að hugleiða hvort féð nægi fyrir næsta ár.

En það stefnir margt í rétta átt. Ég ætla ekkert að neita því. Undanfarin ár hefur hægt og sígandi verið góður bati. Þetta er enn í járnum og nú lækkar afgangurinn enn frekar. Við tölum um forgangsröðun og það er eins og vera ber í pólitík, við höfum misjafnar áherslur. Okkar áherslur hafa verið raktar í ræðu og riti hér á þingi og ég þarf ekki að gera það neitt frekar. Samt hef ég ákveðnar áhyggjur. Ég hef áhyggjur af þensluhvetjandi aðgerðum. Ég hef áhyggjur af því að unga fólkið flytur úr landi o.s.frv. Ég held að það sé sameiginlegt áhugamál okkar allra að skapa þokkalega gott samfélag þó að við höfum á því misjafna sýn. Við viljum að sem flestir hafi það sem best og þess vegna held ég að við þurfum kannski að taka á þeim málum sem við stöndum frammi fyrir nú í dag og hafa verið mest rædd; það eru málefni eldra fólks og öryrkja. Það þarf líka að sjá til þess að þeir hafi sambærileg kjör og við hin og hætta að miða okkur við ástand sem er ekki ríkjandi í dag eins og var hér 2009.



[01:31]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur ræðuna, hygg að hún hafi verið í annarri ræðu sinni, en hún var með framsögu í fyrstu ræðu væntanlega og fjallaði um nefndarálit sem hv. þingmaður stendur fyrir, þ.e. nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar.

Ég vil segja í upphafi áður en ég legg fram spurningar að ég tel það til fyrirmyndar að minni hlutinn skilar þremur nefndarálitum sem eru til þess fallin að styrkja hér vinnuna og rökræðuna í þingsal og skapa góðan umræðugrundvöll. Hv. þingmaður kom inn á margt sem er að finna í nefndarálitinu. Ég ætla að hluta til að halda mig við nefndarálitið sem er prýðilegt og byrja á því sem hv. þingmaður ræðir í nefndarálitinu, kom eilítið inn á það í ræðu sinni, sem snýr að því að hér verði með betri nýtingu auðlinda og einnig skattstefnu unnið gegn ójöfnuði á Íslandi.

Nú er það svo að í lífskjarakönnun Hagstofunnar er að finna upplýsingar um Gini-stuðul svonefndan fyrir árið 2014. Þar er hann 22,7, á bilinu 0 og upp í 100. Því lægri sem hann er því jafnari eru tekjurnar. Þær fóru hæst árið 2009 í 29,6. Hvernig útskýrir hv. þingmaður þennan mun, þessa lækkun?



[01:33]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Það er væntanlega hægt að útskýra þennan mun á marga vegu. Ég dreg ekkert úr því að við erum að færast í betri átt, ég hef sagt það, í átt til jöfnuðar, en við þurfum að gera betur. Eins og komið hefur fram í ræðu og riti hjá okkur er ekki nóg að gert og ef við höldum áfram sem horfir þá er viðbúið, og það hefur líka komið fram, m.a. hjá OECD, að við förum í átt til ójöfnuðar aftur og það er ekki það sem við viljum gera.

Ég tel að við getum viðhaldið þessum jöfnuði. Ég tel ekki að við getum viðhaldið honum ef við hverfum af þeirri braut sem var, og það er ekki bara ég. Það hefur komið mjög víða fram og er rökstutt mjög víða, m.a. ræddum við rannsóknir hér í vetur frá Cambridge og víðar þar sem sýnt hefur verið fram á að þetta er ekki vænlegt til árangurs til lengri tíma. Við skulum ekki gleyma því að það getur líka verið þannig þegar uppsveifla er, hún kemur við alla eða ætti að geta gert það, en niðursveiflan kemur alltaf svolítið harðar á þeim sem minnst hafa. Í eðli málsins skýrist það þannig. Ég held að við séum sammála um það að við viljum í rauninni viðhalda jöfnuði, en ég held að við höfum bara ólíka nálgun á hvort við trúum því að sú stefna sem rekin er af þessari ríkisstjórn verði til þess að hann haldist eða ekki. Ég hef áhyggjur af því eins og margir aðrir að það gerist ekki.



[01:35]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Gini-stuðull er auðvitað ekki algildur mælikvarði og nær ekki utan um allt, til að mynda er mælikvarðinn háður því hvernig skattkerfið er uppbyggt. Það getur átt sér stað tilfærsla á milli ef óæskilegir hvatar eru í skattkerfinu.

Hins vegar verður ekki hjá því litið að þetta er sannarlega vísbending um aukinn jöfnuð. Ef maður horfir til þeirra skattaáherslna og skattbreytinga sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir þá er það samkvæmt Gini-stuðlinum að skila auknum jöfnuði.

Það er annað í þessari lífskjararannsókn Hagstofunnar sem er jákvætt. Sá hluti sem er undir lágtekjumörkum mælist 7,9% frá 11,1% samanburðarárið þar á undan og það er enn ein vísbendingin um að hér sé hæstv. ríkisstjórn á réttri leið í skattamálum. Ég nefndi það í andsvarinu að ég teldi það afar mikilvægt fyrir umræðuna þessi prýðilegu nefndarálit minni hluta. Þar kemur mjög skýrt fram, og það styrkir umræðuna og rökræðugrundvöllinn hér í þingsal, skýr stefnumunur ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu og það styrkir þar af leiðandi umræðugrundvöllinn.

Það kemur jafnframt fram að tekjudreifing hefur aldrei verið jafnari og menn finna ekki þjóð í Evrópu þar sem tekjudreifingin er jafnari. Þessi skattbreyting hæstv. ríkisstjórnar er því sannarlega að skila sér.



[01:37]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Við tölum auðvitað um það frá ári til árs hvernig skattstefnan kemur út og það eru ákveðnar aðgerðir, eins og hv. þingmaður þekkir, undirliggjandi sem geta líka haft áhrif á hvernig staða fólks er hverju sinni. Ég hef áhyggjur af því. Thomas Piketty og fleiri, og vitnað er í rannsóknir frá Cambridge-háskóla hafa sagt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að það er ýmislegt sem hefur áhrif á það ár hvert. Ég hef áhyggjur af því að þetta haldi ekki, þ.e. sú skattstefna sem rekin er ásamt öðrum þeim aðgerðum sem hafa orðið til einhverra tiltekinna hluta, eins og það að breyta stöðunni í þá sem hún var á síðasta ári, ég er ekki jafn sannfærð um að þetta ár eða næsta komi jafn vel út og það endurspeglast væntanlega meðal annars af þeim aðgerðum sem hér hafa verið gerðar.

Við vitum líka að jöfnunin skilar sér á einhverjum X-löngum tíma. Við þurfum að horfa yfir lengra tímabil en kannski bara eitt ár þegar við horfum á stefnubreytingar í skattamálum. Og þegar menn segja, hafa kallað brauðmolakenninguna eða eitthvað slíkt eða þá að eitt skattþrep sé ekki til þess fallið að jafna kjör, þá höfum við trú á því að það sé þannig og það er það sem öryrkjar og eldri borgarar benda á að sú aðgerð sem farið var í gagnist ekki þeim sem lægstar hafa tekjurnar, ef við erum að horfa til þess og við höfum viljað horfa svolítið til þess núna. Við teljum að við eigum að staldra við þar núna. Það þýðir þá það að þeir bera minna úr býtum í gegnum skattstefnuna en þeir mundu gera ef þrepaskiptingin hefði verið með öðrum hætti en hún er núna. Það eru ýmsar undirliggjandi breytur sem hafa áhrif á hverju ári þannig að við skulum skoða þetta yfir lengra tímabil og sjá.



[01:40]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Það er af ýmsu að taka þegar kemur að fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram. Ég ætla að nota tíma minn í að fara almennt yfir þessi mál og það nefndarálit sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram.

Því ber að fagna að tekjur ríkisins skuli aukast og að þriðja árið í röð stefni í hallalausan ríkisrekstur. Tekjuaukning hefur þannig verið nýtt til að auka framlög til grunnþjónustu. Nokkuð hefur áunnist í þessum efnum en nokkuð er í land með að hefja raunverulega niðurgreiðslu skulda og vaxtakostnaður er áfram þriðji útgjaldasamasti málaflokkurinn, á eftir heilbrigðismálum og almannatryggingum. Vissulega hefði ég viljað sjá miklu meiri afgang á fjárlögum, sérstaklega þegar litið er til þeirrar miklu tekjuaukningar sem orðið hefur á undanförnum árum. Um tvennt var að velja, að skila afgangi sem hægt hefði verið að nota til að greiða niður gífurlegar skuldir ríkissjóðs þar sem árlegar vaxtagreiðslur hafa numið um 80 milljörðum kr., þ.e. hátt í tvöföldum framlögum til Landspítala á ári hverju, eða setja fjármuni í grunnstoðir eins og heilbrigðiskerfi landsmanna. Segja má að síðarnefnda leiðin hafi orðið ofan á og má vissulega rökræða hvor leiðin er farsælli til lengri tíma litið.

Við viljum sterka innviði þjóðfélagsins en við viljum líka gjarnan nota þær háu greiðslur sem fara í vexti í aðra hluti, til uppbyggingar betra þjóðfélags. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum, svo sem samgöngumannvirkjum, og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á aukin útgjöld. Þá má líka benda á að lögð hefur verið minni áhersla hérlendis á framlög til háskóla en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Er það miður. Þetta kallar hins vegar á forgangsröðun. Forgangsröðun á nefnilega að vera lykilatriði við fjárlagagerð. Hvernig ætlum við að skipta þeirri köku sem við höfum fyrir framan okkur? Hvað á hver málaflokkur að fá?

Hvað erum við til dæmis tilbúin að setja stóran hluta í heilbrigðismál? Þetta er lykilspurning og miðað við umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum eru skoðanir afar skiptar. Af hverju leitum við ekki eftir skoðun þjóðarinnar á því í hvað peningarnir fara? Þetta eru fjármunir skattborgara. Er ekki rétt að hlusta eftir skoðun þessa fólks og útdeila fjármunum eftir því?

Tökum heilbrigðismálin sem dæmi. Í dag fer um 161 milljarður kr. í þennan málaflokk samkvæmt fjárlögum næsta árs. Hér er ég að tala um Landspítala, önnur sjúkrahús, heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og tryggingamál sem tengjast þessum málaflokki. Viljum við tvöfalda þessa upphæð? Ef við teljum að þörfin sé svo brýn að það kalli á stóraukið fjármagn er aðeins hægt að mæta því með tvennum hætti, að afla nýrra tekna og skera niður.

Við getum rætt endalaust um forgangsröðun. Við getum rifist endalaust um hvað eigi að gera og hversu mikið eigi að fara í hvern og einn hinna þúsunda fjárlagaliða. Slíkt rifrildi skilar ekki miklu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina og hafa skýra stefnu til framtíðar. Því miður hefur það oft vantað við fjárlagagerð á Íslandi.

Ég minntist aðeins á heilbrigðismálin áðan en sá málaflokkur hefur verið í forgangi núverandi ríkisstjórnar. Tölurnar tala sínu máli, framlög til Landspítala voru rúmir 38 milljarðar kr. í fjárlögum 2013. Í fjárlögum 2016 er þessi tala komin upp í 50 milljarða kr., 50 þús. millj. kr. Framlög til spítalans hafa því aukist um 30% á aðeins þremur árum. Samtals hafa framlög til sjúkrahúsa aukist um tæp 35% á sama tíma.

Í fjárlögum 2013 námu framlög til heilsugæslunnar tæpum 8 milljörðum kr. Í dag er þessi upphæð komin í 10 milljarða kr. Svona getum við haldið áfram. Þannig hafa framlög til heilbrigðisstofnana aukist um 26% á síðustu þremur árum og nemur þessi upphæð nú rúmum 19 milljörðum kr.

Loks vil ég minnast á öldrunarstofnanir en framlög til þeirra hafa aukist um fjórðung á aðeins þremur árum. Ég fullyrði að það fyrirfinnst varla það byggt ból þar sem framlög til heilbrigðismála hafa aukist jafn hratt á síðustu þremur árum og hérlendis. Það þýðir ekki að íslenska heilbrigðiskerfið sé það besta í heimi. Því fer fjarri og það verður ekki heldur það besta í heimi þó að við setjum 3 eða 10 milljarða til viðbótar í það. Það væri jafnvel þörf á enn meiri pening þó að við settum 20–30 milljarða til viðbótar í heilbrigðiskerfið. Af hverju? Vegna þess að sífellt koma fram ný, betri og margfalt dýrari lyf sem og sífellt nýrri og betri tæki. Við getum einfaldlega alltaf gert betur í heilbrigðismálum.

Ég er þeirrar skoðunar að íslenska heilbrigðiskerfið þurfi meiri fjármuni. Það er óviðunandi að fólk þurfi að liggja frammi á göngum sjúkrahúsa. Það er óviðunandi að bráðnauðsynleg tæki vanti og að fjármagn skuli ekki veitt í lífshættulegar aðgerðir. Hið síðastnefnda hefur þó líka að gera með forgangsröðun innan sjúkrahúsanna.

Á umræðunni er helst að skilja að ráðamenn séu vondir menn sem vilji sjúklingum, öldruðum og öryrkjum allt hið versta. Ég þekki ekki nokkurn mann sem styður ekki þessa málaflokka, hvorki innan þings né utan. Maður gæti haldið miðað við umræðuna á samfélagsmiðlum að hér séu ekkert nema illmenni. Svo er auðvitað ekki. Heilbrigðiskerfið er eitt af hinum stóru málum okkar samtíðar. Málefni sem tengjast öldruðum og öryrkjum koma þar skammt á eftir. Þetta tengist líka mikilli fjölgun aldraðra á næstu árum og áratugum. Ljóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum kr. Af þessum fjölda eru um 1.100 rými á höfuðborgarsvæðinu. Aldraðir eru ekki hávær þrýstihópur og því eru þeir sjaldnast ofarlega í forgangsröðinni. Miklar breytingar verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þannig er gert ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára eða eldri fjölgi um rúmlega 26 þúsund á næstu 15 árum, þ.e. um 71% frá því sem er í dag. Talið er að þeim sem eru 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, þ.e. um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum þar sem hugsa þarf fyrir þörfum þessa vaxandi hóps.

Því miður hefur vantað mikið upp á að skýr stefna sé varðandi aldraða. Flestar fjölskyldur þekkja þann vanda sem skapast þegar koma þarf öldruðum ættingjum í hjúkrunarrými. Oft eru 250–300 manns á biðlistum eftir slíku rými og þarf þetta fólk að bíða mánuðum saman. Að óbreyttu mun þessi biðtími lengjast til muna. Niðurskurður undanfarinna ára á framlögum til heilbrigðismála hefur komið illa niður á öldruðum. Þjónusta hefur verið skert og lyfjakostnaður aukist. Þessu verður að breyta. Nauðsynlegt er að styrkja heimaþjónustu og stoðþjónustu til muna. Í þennan málaflokk vantar líka skýrari stefnu, hugsun til framtíðar.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að arðgreiðslur frá Landsbankanum nemi um 7 milljörðum kr. á næsta ári. Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á að miklar líkur séu á því að arðgreiðslur frá Landsbankanum verði mun hærri. Það er óhætt að taka undir það. Í ljósi reynslu liðinna ára og athugunar á milliuppgjöri bankans sem af er árinu er líklegt að arðgreiðslur verði allnokkrum milljörðum króna hærri en áætlun gerir ráð fyrir. Engu að síður gætir meiri hlutinn að almennum varúðarsjónarmiðum og leggur því ekki til hækkun á áætlunum um arðgreiðslur. Það kæmi mér þó persónulega ekki á óvart þó að hér skeikaði allmörgum milljörðum þannig að afkoma ríkissjóðs verði í raun mun betri en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Á gjaldahlið er nú áætlað að hækkun verði um 8,8 milljarðar kr. af margvíslegum tilefnum. Það sem þyngst vegur er endurmat á launagrunni fjárlaga vegna áhrifa kjarasamninga sem samtals leiða til tæplega 5 milljarða kr. hækkunar. Reyndar vegur á móti á þeim lið að verðbólguspá er lækkuð bæði fyrir árið 2015 og í nýrri spá fyrir árið 2016 þar sem nú er gert ráð fyrir að hækkun milli ára verði 3,2% og lækki um 1,3% frá frumvarpinu. Samtals breytast verðlagsforsendur úr 3,8% í 2,2% og lækka því gengis- og verðlagsbætur um 2,3 milljarða kr. vegna þessa. Nettóáhrif launa, verðlags og gengisbreytinga eru því 3 milljarðar kr. til hækkunar.

Af öðrum breytingum vega þyngst margvíslegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar, samtals að fjárhæð 4,9 milljarðar kr. Þar af er 1 milljarður kr. til aðstoðar við hælisleitendur og flóttafólk, og tillaga er um 840 millj. kr. í tímabundið átak til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu, svo sem kransæðaþræðingum, liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum. Einnig er lagt til 490 millj. kr. framlag til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum og 400 millj. kr. til að efla almenna löggæslu, 250 millj. kr. til aðgerða í loftslagsmálum, 280 millj. kr. í rannsóknarverkefni um lifrarbólgu C, 150 millj. kr. til húsafriðunarsjóðs til að styrkja skipulag verndarsvæða í byggð og 150 millj. kr. til rannsókna á sviði ferðamála. Þá er gerð tillaga um 75 millj. kr. tímabundið framlag í þrjú ár til byggingar gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.

Sérstaklega ber að fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita umtalsverðar fjárhæðir til flóttamannahjálpar og til að taka á móti fólki frá stríðshrjáðum svæðum. Við getum ekki skorast undan þeim mikla vanda sem steðjar að í Evrópu þar sem milljónir manna streyma inn frá stríðshrjáðum löndum. Vandinn er þó mun stærri þar sem mikill fjöldi þeirra sem óska hælis kemur frá löndum þar sem stríðsástand er ekki fyrir hendi, ekki síst frá Balkanskaga. Þetta fólk er oft og tíðum að leita að betra lífi, tryggari atvinnu, hærri launum o.s.frv. Hvað á að gera við þetta fólk? Þessi atriði hafa sett álag á hið svokallaða Schengen-samstarf sem gerir ráð fyrir öflugu ytra eftirliti en litlu sem engu eftirliti þegar fólk er á annað borð komið inn fyrir Schengen-landamærin. Það segir sig sjálft að þetta samstarf getur vart haldið áfram öllu lengur nema óheft flæði fólks inn á Schengen-svæðið verði stöðvað sem fyrst. Nú loks á að grípa til aðgerða vegna þessa en við eigum eftir að sjá hvernig til tekst.

Málefni flóttamanna og hælisleitenda tengjast framlögum til þróunaraðstoðar. Þessi framlög hafa verið aukin á undanförnum árum þó að við séum enn langt undir alþjóðlegum viðmiðum. Miðað hefur verið við að aðstoð nemi 0,21% af vergum þjóðartekjum og á grunni þess viðmiðs hafa framlög til Þróunarsamvinnustofnunar verið hækkuð um 690 millj. kr., þ.e. um 50% frá árinu 2011. Meiri hluti fjárlaganefndar vekur réttilega athygli á því að samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum, svokölluðum DAC/OECD-viðmiðum, hefur tíðkast að miða útgjöld til þróunaraðstoðar við hlutfall af þjóðartekjum. Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt þar sem stóran hluta útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokka sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin. Útreikningar af þessu tagi virðast ekki fyllilega sambærilegir milli ríkja en nefna má að annars staðar á Norðurlöndum er verið að draga úr almennri þróunaraðstoð á móti stórauknum kostnaði vegna flóttamanna. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir athugasemd við að þetta skuli ekki vera gert hérlendis og get ég tekið undir þá athugasemd. Það er því ljóst að umræða um hlutfall Íslands er ekki byggð á réttum upplýsingum. Ef stjórnvöld ætla að halda sig við markmið um 0,21% eru framlögin mun hærri en því nemur og munar þar nokkrum hundruðum milljóna.

Að auki leggur meiri hlutinn til að bætt verði við gjaldaheimildum í tilteknum málaflokkum. Þar má nefna 400 millj. kr. til hafnarframkvæmda og er sérstaklega fjallað um framkvæmdir á því sviði í álitinu. Þá eru aðrar 400 millj. kr. ætlaðar til uppbyggingar á flugvöllum innan lands og 235 millj. kr. til Vegagerðarinnar. Til Fjarskiptasjóðs eru veittar tímabundið 200 millj. kr. til að hraða uppbyggingu fjarskiptainnviða og loks er gerð tillaga um 100 millj. kr. til heilbrigðisstofnana en önnur hækkunartilefni vega minna. Á móti vegur að ýmis hagræn og kerfislæg útgjöld lækka. Þar munar mest um 490 millj. kr. lækkun til Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem nýjum lánþegum fækkar og 350 millj. kr. lækkun til Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem atvinnuleysi er nú áætlað 2,9% í stað 3% áður.

Það er sérstakt fagnaðarefni hvað atvinnuleysi hefur minnkað mikið á síðustu árum. Það er brýn nauðsyn að koma sem flestu vinnufæru fólki út á vinnumarkaðinn enda víða þörf á vinnuafli þessa dagana, þökk sé þeim krafti sem er í efnahagslífinu.

Ríkisútvarpið hefur verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur og mánuði og hefur krafan um niðurskurð og jafnvel að félagið verði selt að hluta eða í heilu lagi verið fyrirferðarmikil. Sviðsljósinu hefur ekki síst verið beint að útvarpsgjaldinu og hvort lækka eigi það eða ekki. Ríkisútvarpið hefur gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku þjóðfélagi í bráðum heila öld. Þetta hlutverk hefur ekki verið bundið við miðlun upplýsinga heldur hefur það líka verið á sviði menningar og afþreyingar svo fátt eitt sé nefnt.

Vægi Ríkisútvarpsins í íslensku þjóðlífi var vissulega meira í árdaga útvarps hérlendis en við skulum varast að gera of lítið úr hlutverki þess í dag. Á hinn bóginn verðum við líka að vega og meta þær breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlanotkun okkar, ekki síst með tilkomu tölvunnar og internetsins. Mikilvægi Ríkisútvarpsins þegar kemur að miðlun upplýsinga er ekki eins mikið og áður var. Öryggishlutverk Ríkisútvarpsins hefur ítrekað vakið upp spurningar, ekki síst þegar einkamiðlar hafa verið á undan að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri við almenning.

Það má líka spyrja hvort ríkismiðill eigi að vera í samkeppni við einkamiðla á auglýsingamarkaði og hvort þeir eiga að keppa við þá í afþreyingarefni. Þetta eru allt mikilvægar spurningar sem við þurfum að svara.

Við megum hins vegar ekki gleyma menningarhlutverki Ríkisútvarpsins, því hlutverki að miðla því sem gerir okkur að þjóð, því sem skilur okkur frá öðrum, því sem gerir okkur að því sem við erum. Sumir segja að við getum nálgast þetta allt á netinu sem er út af fyrir sig rétt, það eru hins vegar miklar líkur á því að menning okkar, tunga og annað þess háttar muni einfaldlega týnast með tímanum ef hún á að felast í kimum internetsins. Ríkisútvarpið hefur ómetanlegt hlutverk þegar kemur að menningu og listum og því að koma þessum hlutum á framfæri. Ég er stuðningsmaður Ríkisútvarpsins en hins vegar er full ástæða til að endurskoða rekstur félagsins með sparnað í huga. Álitamálin hérlendis eru að miklu leyti þau sömu og í nágrannalöndum okkar þar sem ríkisútvarp er við lýði. Kostnaður hefur aukist og breytt neyslumynstur almennings hefur kallað á breytingar. Við megum ekki vera hrædd við breytingar, við höfum mótað okkar stefnu til framtíðar í málefnum Ríkisútvarpsins en að skera niður í framtíðarstefnu er ekki góð stefna.

Staða Ríkisútvarpsins endurspeglast best í útvarpsgjaldinu. Innheimt útvarpsgjald hækkaði á síðustu tveimur árum um 563 millj. kr., þ.e. tæp 18%, sem er mun meira en almennt gerðist með fjárheimildir ríkisstofnana. Um árabil hefur verið ákveðið í fjárlögum að hluti innheimts útvarpsgjalds renni beint í ríkissjóð og því sé ekki að fullu ráðstafað sem framlagi til Ríkisútvarpsins. Þetta er auðvitað ótækt. Gjaldið á og verður að renna til RÚV. Ef það gerist ekki verður að bæta það upp á annan hátt.

Í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 segir eftirfarandi orðrétt:

„Framlög til Íbúðalánasjóðs hafa numið 53,5 milljörðum kr. frá árinu 2009 og að öllu óbreyttu verða framlögin 5,7 milljarðar kr. á árinu 2015. Að þeim meðtöldum hafa framlögin frá árinu 2009 numið svipaðri fjárhæð og byggingarkostnaði nýs Landspítala. Ef ekkert verður að gert munu framlögin halda áfram að aukast um árabil. Vinnuhópur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skilað skýrslu þar sem bent var á að hagkvæmast væri að hætta starfsemi sjóðsins í núverandi mynd og mundi það að öllum líkindum koma í veg fyrir auknar útgreiðslur úr ríkissjóði vegna hans. Mikilvægt er að stjórnvöld taki ákvörðun sem allra fyrst um framtíð sjóðsins með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari útgjöld úr ríkissjóði vegna hans.“

Ljóst er að ekki hefur verið tekið tillit til þessara athugasemda með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Gert er ráð fyrir að enn og aftur komi til framlaga úr ríkissjóði, nánar tiltekið 1.300 millj. kr. á næsta ári. Uppgreiðslur lána halda áfram og verður ekki haldið svona áfram öllu lengur. Brýnt er að niðurstaða fáist varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs. Skattgreiðendur eiga einfaldlega heimtingu á svörum hvað það varðar. Ákvarðanataka hefur verið of hæg og nauðsynlegt er að framtíð sjóðsins skýrist í upphafi nýs árs.

Launahækkanir ársins vega þungt í afkomu ríkissjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur endurmetið þessar hækkanir og að meðtalinni 11% launahækkun á yfirstandandi ári er nú talið að uppsöfnuð launahækkun nemi 16,3% árið 2016 og 19% þegar hækkanir verða að fullu komnar til framkvæmda. Að meðtöldum launahækkunum sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í frumvarpinu og endurmetnum áhrifum launahækkana á árinu 2015, á ársgrundvelli, er áætlað að samanlögð útgjaldaaukning vegna launahækkana ríkisstarfsmanna nemi 20,9 milljörðum kr. á árinu 2016. Þá eru ótalin sambærileg hækkunaráhrif bótaflokka almannatrygginga sem eru talin nema 10,1 milljarði kr. og samtals aukast því útgjöld ríkissjóðs um 32 milljarða kr. á næsta ári vegna launa- og bótahækkana. Þar með er ekki öll sagan sögð þar sem ekki hefur enn verið lagt mat á áhrif þessa á hækkun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Stærðargráðu þeirrar fjárhæðar er hægt að nálgast, að vísu með miklum skekkjumörkum, með því að framreikna skuldbindingar eins og þær standa í árslok 2014. Þær námu þá brúttó 667,5 milljörðum kr. og 435,6 milljörðum kr. ef fyrirframgreiðslur ríkissjóðs eru dregnar frá heildarskuldbindingunni. Áðurnefnd 19% hækkun þegar öll áhrif samninganna verða komin fram hækkar þá brúttótöluna upp í 794 milljarða kr., þ.e. um 126,5 milljarða. Endanlegt mat liggur ekki fyrir fyrr en á næsta ári en þessar tölur eru væntanlega ekki fjarri lagi og yrði þá um að ræða langumfangsmestu gjaldfærslu í ríkisreikningi þegar þar að kemur.

Fjarskiptamál brenna á fjölmörgum sveitarfélögum og hefur það glögglega komið fram í heimsóknum sveitarstjórnarmanna til fjárlaganefndar, ekki bara á þessu ári heldur líka á undanförnum árum. Meiri hlutinn leggur til að til viðbótar tillögu í frumvarpinu fái Fjarskiptasjóður 200 millj. kr. til uppbyggingar ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða fjarskipta. Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2015 veitti Alþingi 300 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til sjóðsins og gerir tillaga þessi því ráð fyrir að hluti þess framlags verði framlengdur. Framlagið fór til hringtengiverkefna á Vestfjörðum og Snæfellsnesi og tengingar ótengdra byggðakjarna samkvæmt gildandi fjarskiptaáætlun. Tillagan í frumvarpinu núna byggist á vinnu starfshóps innanríkisráðherra um úrbætur í fjarskiptamálum, Ísland ljóstengt, og miðast við að mögulegt verði að ljúka þeim uppbyggingaráformum sem hófust árið 2015. Staða fjarskipta er á margan hátt góð hér á landi og virk samkeppni tryggir flestum markaðssvæðum valkosti um stöðugt afkastameiri og öruggari þráðbundnar nettengingar. Sú uppbygging nær þó ekki til um 3.300 lögheimila og atvinnuhúsnæðis í dreifðari byggðum landsins. Uppbygging ljósleiðarakerfa í dreifbýli mun að takmörkuðu leyti eiga sér stað á markaðslegum forsendum. Því þarf að leggja slíku verkefni til fjármuni. Fyrir liggur greining á umfangi og kostnaði markmiðs um aðgengi að nettengingum sem standi öllum til boða óháð búsetu. Takist það er miklum áfanga náð. Unnið er að nánari útfærslu á framkvæmd og fjármögnun tillagna starfshóps innanríkisráðherra sem innlegg í endurskoðun fjarskiptaáætlunar áranna 2016–2026. Samleið með öðrum veituframkvæmdum skilar verulegum ávinningi og dæmi eru um að slíkt hafi leitt til þess að kostnaðurinn við tiltekna framkvæmd í lagningu ljósleiðara hafi ekki orðið nema um 30% af upphaflegri áætlun. Leggja verður áherslu á að styðja við verkefni sem nýta þennan möguleika sem best.

Áætlaður heildarkostnaður við að tengja 3.300 lögheimili með ljósleiðara og ná þar með til 99,9% heimila á landsvísu er talinn nema um 5.200 millj. kr. Sá kostnaður félli þó ekki allur á ríkissjóð heldur yrði samstarfsverkefni markaðsaðila og fleiri. Með auknum fjármunum er því hægt að ráðast í fyrsta áfanga ljósleiðaravæðingar landsins ásamt því að ljúka við verkefni á grundvelli fjarskiptaáætlunar sem felst í tengingu byggðakjarna sem ótengdir eru ljósleiðara. Það verður að líta á það sem mannréttindamál á árinu 2015 að hafa aðgang að góðri nettengingu, að ekki sé talað um hvaða áhrif slíkt hefur á upplýsingaflæði, rekstur fyrirtækja o.s.frv. Því ber að fagna áherslu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.

Það er líka rétt að minnast aðeins á samgöngumálin sem víða eru í ólestri. Til að raunhæfar og árangursríkar áætlanir um uppbyggingaráform í samgöngumálum geti staðist þarf fyrst og fremst að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs og þar með greiða niður skuldir hans. Fáar aðrar leiðir eru áhrifameiri. Með batnandi stöðu ríkissjóðs aukast möguleikar til umbóta í samgöngukerfinu, en fleiri leiða en beinna framlaga úr ríkissjóði verður að leita til viðbótar. Brýn samgönguverkefni eins og tvöföldun Vesturlandsvegar, Sundabraut og breikkun Suðurlandsvegar eru dæmi um verkefni sem vel má leita annarra leiða til að fjármagna og framkvæma og komast sem hraðast áfram. Það er líka nauðsynlegt við endurskoðun samgönguáætlunar að kanna aðra kosti til viðbótar beinna fjárveitinga til þessara vega. Hér er um nokkrar umferðarmestu samgönguæðar landsins að ræða og það er ekki óeðlilegt að kostir fjármögnunar, t.d. með veggjöldum, verði hluti af slíkri fjármögnun. Þó verður að gæta samræmis í slíkri innheimtu þannig að aldrei verði sérstök gjaldheimta á einum anga þess kerfis umfram annan, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið. Við eigum að fara varlega í veggjöld en við megum alls ekki útiloka þau, enda tíðkast þau í fjölmörgum löndum í nágrenni okkar.

Annars staðar á landinu er brýnt vegna umferðaröryggis og byggðamála að reyna að hraða sem mest framkvæmdum á tengivegum. Þúsundir kílómetra af malarvegum eru enn án slitlags. Mikil umferð er á mörgum þessara vega og daglega þarf fólk að sækja vinnu og skóla eftir þeim. Með breyttu atvinnu- og búsetumynstri fjölgar enn þeim sem sækja vinnu um langan veg frá heimili. Með óbreyttum fjárframlögum tekur áratugi að endurbæta vegi og koma á viðunandi samgöngubótum, að sögn meiri hluta fjárlaganefndar. Með sameiningu sveitarfélaga og hagræðingu í rekstri grunnskóla hefur vegalengd og tíma í skólabílum líka aukist verulega víða um land og þarf líka að taka það með í reikninginn.

Ýmsar áhugaverðar breytingartillögur líta dagsins ljós hjá meiri hlutanum. Þannig er til dæmis lagt til 75 millj. kr. framlag til að hefja undirbúning og hönnun að 4.500 fermetra skrifstofubyggingu fyrir Alþingi í stað leiguhúsnæðis og 750 fermetra bílakjallara. Lóð fyrir nýbygginguna er á milli Kirkjustrætis, Vonarstrætis og Tjarnargötu. Nú hefur Alþingi 4.400 fermetra húsnæði á leigu við Austurstræti fyrir nefndir þingsins, þingmenn, þingflokka og starfsmenn skrifstofunnar. Samkvæmt frumkostnaðaráætlun er reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði um 2,3 milljarðar kr. og að hún verði reist á árunum 2017–2019. Leiga á 4.400 fermetrum undir skrifstofur er óhjákvæmilega mikil, ekki síst þar sem um er að ræða einn dýrasta leigustað landsins, sjálfa miðborgina. Það er því orðið brýnt að sameina þessa starfsemi á einn stað og ekki er að efa að slíkt muni leiða til mikils sparnaðar til lengri tíma litið. Menn geta síðan deilt um teikningar eins og þeir vilja en það getur aldrei orðið aðalatriði málsins.

Við sjáum líka 150 millj. kr. aukafjárveitingu í húsafriðunarsjóð, en Alþingi hefur samþykkt svokölluð verndarsvæði í byggð. Sveitarfélög víða um land hafa áhuga á að skipuleggja og þróa verndarsvæði í samræmi við þessi lög en kostnaður er allmikill og hafa umsóknir um styrki þegar borist til sjóðsins. Þessi viðbótarheimild mun því koma til móts við þessa þörf.

Ég fagna sérstaklega viðbótarfjárveitingum til menntakerfisins þó að þær hefðu vissulega mátt vera mun meiri, bæði til háskóla og framhaldsskóla. Þannig er gerð tillaga um 80 millj. kr. tímabundið viðbótarframlag til Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands sem stofnaður var í júní 2011 í tilefni af 100 ára afmæli skólans. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtist til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar.

Þá er gerð tillaga um 25 millj. kr. framlag til Háskólans á Akureyri til að fjármagna samstarfssamning við Háskólann í Reykjavík um tveggja ára diplómanám í tölvunarfræði. Fyrirhugað er að samstarfið gangi þannig fyrir sig að nemendur á Akureyri fái fyrirlestra, verkefni og annað efni frá kennara í Háskólanum í Reykjavík eins og fjarnemar en mæti svo samkvæmt stundatöflu í verkefnatíma í Háskólanum á Akureyri með leiðbeinanda eins og dagskólanemendur. Fjarnám er framtíðin og því verður að líta á þetta sem afar jákvætt skref inn í framtíðina og verður forvitnilegt að sjá hvernig til tekst. Til viðbótar fær Háskólinn á Akureyri 40 millj. kr. framlag til þróunar í fjarkennslu sem er angi af sama máli.

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst fá hvor um sig 50 millj. kr. viðbótarframlag samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og fjölmargir framhaldsskólar fá líka viðbótarframlag samkvæmt þessum sömu tillögum. Mikilvægt er að vanrækja ekki menntakerfið. Niðurskurður á þeim vettvangi mun koma sér illa fyrir okkur sé litið til framtíðar. Ég fagna auknum framlögum en hefði viljað sjá þessar upphæðir talsvert hærri.

Ég hef áður minnst á flóttamannamál. Lagt er til 500 millj. kr. tímabundið framlag til stuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök sem vinna með flóttafólki erlendis, svo sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínuflóttamenn og aðrar alþjóðastofnanir og borgarasamtök sem starfa á sviði neyðar- og mannúðaraðstoðar. Tillagan grundvallast á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 19. september sl. um að verja allt að 1 milljarði kr. árið 2016 til viðbótar við fyrri fjárframlög til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin vegna fjölgunar flóttamanna og hælisleitenda. Samkvæmt tillögum ráðherranefndar um málefni flóttafólks og innflytjenda er gert ráð fyrir að framlagið skiptist þannig að 500 millj. kr. verði varið til utanríkisráðuneytisins til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök á vettvangi, 250 millj. kr. til velferðarráðuneytisins vegna móttöku flóttamanna árið 2016 og afleidds kostnaðar og 250 millj. kr. til innanríkisráðuneytisins til að mæta auknum fjölda hælisleitenda og uppfylla kröfur um málshraða.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um kjör aldraðra og öryrkja undanfarna daga og hefur staðreyndum oftar en ekki verið snúið á hvolf í þeirri umræðu. Ein fyrsta ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna var að skerða kjör aldraðra og öryrkja og það var gert 1. júlí 2009 skömmu eftir að sú ríkisstjórn tók við völdum. Til að gæta sanngirni er rétt að geta þess að greiðslur til þeirra sem voru á strípuðum töxtum voru ekki skertar heldur hinna sem höfðu tekjur. Ákvörðun um skerðingu á greiðslum til aldraðra og öryrkja var tekin með þeim orðum að hér hefði orðið hrun og að allir yrðu að taka þátt í því.

Núverandi ríkisstjórn hefur sett það í forgang að draga úr skerðingum sem aldraðir og öryrkjar sættu í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar sumarið 2013 var að afnema þá reglu að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Jafnframt var frítekjumark vegna atvinnutekna, ellilífeyristekna aldraðra og öryrkja hækkað og svo má lengi telja. Þetta þýðir að bætur til aldraðra og öryrkja eru 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en ella væri.

Og hvað er fram undan? Bætur til aldraðra og öryrkja munu hækka um 9,7% um næstu áramót. Það kemur til viðbótar 3% hækkun um síðustu áramót sem kostar um 4,3 milljarða kr. Vel að merkja, þetta er hækkun sem aðrir fengu ekki á þeim tíma. Inni í þessari tæplega 10% hækkun um næstu áramót eru tæpir 4 milljarðar sem eru afturvirk hækkun vegna launaþróunar á árinu.

Við skulum fara yfir þetta í stuttu máli. Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót, þeir fá 9,7% hækkun um komandi áramót og væntanlega munu þeir fá allt að 8% hækkun eftir ár og er þá miðað við spá um launavísitölu. Greiðslur til þeirra hafa fylgt þeirri vísitölu.

Aldraðir og öryrkjar eru ekki ofaldir af sínum greiðslum, svo mikið er víst. Hagur þeirra hefur hins vegar batnað jafnt og þétt og hann mun halda áfram að batna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það má gjarnan gera enn betur og ég mun vissulega beita mér fyrir því hér á þingi. Ég hef sagt það áður og ég get endurtekið það nú.

Ég fagna þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram. Þær eru jákvætt skref í áttina að betra þjóðfélagi þar sem reynt er að gæta jafnvægis við útdeilingu fjármuna. Breytingartillögurnar eru fjölmargar en oft er það svo að tiltölulega litlar upphæðir geta skipt sköpum.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að fara nokkrum orðum um fjárlagagerð á Íslandi. Hún hefur valdið mér vonbrigðum í heildina litið. Sjálfstæði Alþingis er afar mikilvægt. Löggjafarþingið verður að hafa síðasta orðið þegar kemur að útdeilingu úr sameiginlegum sjóðum okkar. Núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hefur gengið lengra en áður hefur þekkst í að stuðla að þessu sjálfstæði. Við sjáum það bæði á breytingartillögum og eins þeirri umræðu sem orðið hefur í fjölmiðlum þar sem ítrekað hefur reynt á sjálfstæði þeirra sem sitja í fjárlaganefnd. Þrýstingurinn er mikill á viðbótarútgjöld eða niðurskurð frá ráðuneytum, stofnunum, ráðherrum, þingmönnum og óteljandi hagsmunaaðilum fyrir utan þinghúsið. Við slíkar aðstæður þarf sterk bein til að standast oft og tíðum ófyrirleitnar árásir og kröfur þar sem öllum ráðum er beitt. Því miður taka fjölmiðlar allt of oft gagnrýnislausan þátt í þeim dansi. Krafa er um sífellt meiri útgjöld en á sama tíma er jafn hávær krafa um að ríkissjóður skili meiri afgangi. Þetta fer ekki alltaf saman.

Í upphafi ræðu minnar minntist ég á mikilvægi þess að horfa til framtíðar, hafa langtímahugsun við fjárlagagerð. Vonandi náum við því markmiði með nýjum lögum um opinber fjármál. Vonandi tekst okkur að komast úr skotgröfum skammtímahugsunar í fjárlagagerð sem getur jafnvel skaðað okkur til lengri tíma.