149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra kærlega fyrir svarið og gleður mig að hún talaði mjög skýrt í þessum efnum.

Ég velti fyrir mér hvort ég eigi að minnast á trúmál og kirkjuna. Þetta bar nú aðeins á góma í fyrri samræðum við þessa umræðu. 6,5 milljörðum er varið til málaflokksins trúmál og það eru gríðarlega miklir fjármunir. Það liggur í augum uppi, sérstaklega ef maður setur það í samhengi við mörg mjög brýn verkefni sem sinna þarf. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sé sáttur við þessa skipan mála, þ.e. að svona miklir peningar fari til þessa málaflokks. Ég geri mér fulla grein fyrir því að að hluta til byggist þetta á samningum og þess háttar, en samningum er nú oft hægt að breyta og forsendur samninga breytast líka.

Þess vegna langar mig að vita hvort unnið er með einhverjum skipulögðum hætti innan ráðuneytisins að því að draga úr framlögum til trúmála. Og kannski fá viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort að hann hafi svigrúm til þess að gera eitthvað meira í þessum málum.

Af því að tíminn er ekki alveg útrunninn langar mig aðeins að minnast á áætlunina um kynferðisafbrotamál sem er í gangi. Ég sá að á borði ríkisstjórnarinnar í dag var verið að fjalla um þau mál með einhverjum hætti líka. Mjög mikið er talað um að þetta sé allt saman fullfjármagnað. Þess vegna langar mig að spyrja hvort allar tillögur og ábendingar sem komu fram í skýrslunni sem ráðherra fékk fyrir nokkrum mánuðum sé að finna í hinni endanlegu aðgerðaáætlun (Forseti hringir.) ráðuneytisins og hvernig var staðið að því mati hvað telst full fjármögnun. Voru þeir sem eiga að annast þau verkefni sem eru í áætluninni hafðir með í ráðum og hafa þeir fallist á (Forseti hringir.) að það sé fullfjármagnað það sem þeir eiga að sinna?